Gunnar Th.
Fjórða kerfið.....


08.04.2012 08:27

Páskadagsmorgunn.

Enn er  klukkan rúml átta - raunar farin að halla í hálfníu - og það er skítaveður! Ég kann ekki annað orð yfir það sem ég heyri og sé utan við dökk-filmuklæddar gluggarúðurnar hér á Höfðingjasetrinu. Ég horfði á hana Ásdísi spá sjö metrum í spá gærkvöldsins. Trúið mér, það eru engir sjö metrar! Hvinurinn í þakgluggum setursins var þvílíkur í morgun að hefði dugað til að vekja mann upp frá dauðum.

Ég veit um fólk sem hefur beðið alla páskana eftir að komast á skíði. Ég fullyrti við þetta sama fólk í gærkvöldi að það væri spáð fínu skíðaveðri! Ég er í verulega vondum málum í dag, trúið mér!

Bergrós Halla gerðist athafnakona í gær, leigði sér bás í Kolaportinu og seldi það sem hún og aðrir nákomnir voru hættir að nýta. Hún heimsótti mig hingað á setrið á föstudaginn en taldi sig þá vera komna með nægar söluvörur þó svo hér flæddi upp úr öllu kössum. Hún stóð svo vaktina í gærdag ásamt vinkonu sinni sem leigði samliggjandi bás. Þegar ég spurði frétta af gangi mála í gærkvöldi var mér sagt að hún hefði verið "tólfþúsundkall í plús". Nú er ég bara ein einföld sál, og varla nema hálf eða kvart þegar kemur að viðskiptum. Þess vegna láðist mér að spyrja hvort tólfþúsundkallinn hefði verið brúttó eða nettó - básinn kostaði 9500- krónur og þess vegna skipta brúttó og nettó verulegu máli, eins og hver maður sér.

Þessir páskadagamorgnar hafa verið tilvaldir til að þrífa bíla niðri á skoðunarstöð, þar sem ágæt aðstaða er til slíks. Árangurinn er sá að tveir fyrrum "heimilisbílar", þ.e. hrossadráparinn og litli, blái "frúarbíllinn" ljóma eins og sólin, lausir við vetrartjöruna og stífbónaðir. Sá blái fylgir "mömmu" sinni og hverfur því úr minni eigu eftir helgina. Það var ekki seinna vænna að hreinsa hann upp, er ekki venjan sú að það sem selt er er afhent hreint?

Eitt enn, sem kannski skiptir ekki máli: Það hefur orðið sú breyting á síðunni að ekki er lengur hægt að setja inn myndir í Explorer 9. Til að hægt sé að setja inn myndir þarf að nota Google Chrome eða Firefox. Ég á báða vafrana uppsetta en hef ekki notað þá að neinu marki, kannski vegna þrjósku og kannski vegna vanans. Þetta hefur engu máli skipt ennþá, því það hafa svo sem engar nýjar myndir verið teknar. Ég ætlaði að birta myndir af Höfðingjasetrinu en ákvað að gera það ekki - svona neðanjarðarbúskapur á ekki erindi út á netið! Það er samt ekki ólíklegt að síðar meir birtist einhverjar myndir af sjálfu vinnuplássinu, eða því sem unnið verður að þar hverju sinni.

Ég er á leiðinni suður í Hafnarfjörð í eignakönnun. Þar stendur Isuzu NPR og bíður eftir smá klóri á bakið. Ég ætla að klóra honum dálítið...............

06.04.2012 07:32

Dagur vonar...

Það er föstudagsmorgunn og á minn mælikvarða er áliðið - klukkan er orðin hálfátta. Það er einkennileg tilfinning að koma niður í stofuna og heyra ekki Bassa dilla skottinu utan í miðstöðvarofninn sem hann sefur við.

Það er nefnilega enginn Bassi. Hann fór í páskaheimsókn til sinna "gömlu foreldra" í Hafnarfirði og verður þar næstu daga. Lífið hér er dálítið tilbreytingarlaust fyrir hann, sérstaklega þegar dagarnir fara í "heimavinnu" auk snúninga út í bæ þar sem hann verður jafnvel að bíða langtímunum saman í bílnum meðan ég hleyp inn í búðir eða sinni öðrum erindum. Helstu tilbreytinguna fær hann í vinnunni, þar sem hann hittir þó samstarfsfólkið,  þegar engin vinna er er hins vegar fátt um slíkt og lengst af hímir hann úti í horni eða ráfar um gólf í hálfgerðu sinnuleysi og horfir á mig bera kassa, raða dóti, mála, hengja upp myndir og fleira í þeim dúr. Það var því eins og himnasending fyrir hann að fá að fara í Hafnarfjörðinn í nokkra daga, þar sem dekrað er við hann á alla lund.

Veðurlýsingin er sú sama og átti við fyrsta apríl - þokusuddi, hráslagalegt inniveður sem best er nýtt til standsetningar á plássinu. Það verða ekki farnar margar ferðir út fyrir bæinn þessa páskana, sýnist mér. Ætlunin var að renna austur fyrir fjall, líta aðeins í ferðadrekann og reyna jafnvel að gera dálítla skoðunarferð úr túrnum ef viðraði til, jafnvel að kíkja í Sólheima í Grímsnesi. Það er hins vegar lítið gaman að fara austur í sveitir ef maður sér ekki einu sinni Selfoss fyrr en maður keyrir á brúna - eða þannig.

Fríða systir flaug vestur síðdegis í gær, skírdag. Fyrir sunnan var þoka, fyrir vestan var þoka, það vissu allir um þessa andskotans þoku nema Flugfélag Íslands sem vissi ekki rassgat og flaug enn eina útsýnisferðina án útsýnis vestur í Djúp og til baka. Alveg er þessi hringflugsáhugi þeirra F.Í. manna undraverður, það er varla til sú sál vestra sem hefur ekki upplifað þessa einstöku "skemmtun" oftar en einu sinni og oftar en tvisvar. Nú um miðjan morgun á að gera aðra tilraun. Það er enn þoka fyrir vestan ef marka má vefmyndavélar, það er þoka hér fyrir sunnan ef marka má útsýnið úr gluggunum mínum yfir höfuðborgina. Kannski nær systir vestur fyrir heppni, kannski fær hún annað hringflug, hver veit?  Ef hún kemst vestur verður svo annar kapítuli að komast suður aftur, ef marka má Ásdísi Auðunsdóttur. Ég renndi nú áðan yfir veðurspá RUV í gær-kvöldfréttunum og skv. þeirri spá horfir ekki gæfulega með flug í lok páskanna......

Ef mitt hugboð er rétt hverfur neðsti pistill síðunnar aftur fyrir og yfir á næstu síðu þegar þessi birtist. Þeim pistli lýkur með orðunum: "Vor Stakkanessins rennur upp þann fjórtánda apríl n.k." eða það minnir mig. Fjórtándi apríl er næsti laugardagur og það hefur margt breyst frá því þessi orð voru skrifuð seint í haust. Stakkanesið er, held ég, ekki á leið á flot næsta laugardag, það hefur einfaldlega ekkert að gera á flot þegar ekki er tími til að sinna því. Risaþorskarnir sem Sverrir  stýrimaður lýsti um daginn verða ekki veiddir alveg á næstunni - allavega ekki á Stakkanesið. Kannski verða nokkir eftir fyrir okkur, þegar allt er klárt og tími gefst til að sinna útgerðinni.

Lyngbrekkan á að afhendast um mánaðamót maí-júní. Íbúðin sjálf verður þá löngu laus en skúrinn er mitt vandamál og hann er eins og lýst var á dögunum, sléttfullur af verkfærum og verkefnum. Hér á Höfðingjasetrinu verður byrjað að hilluvæða vinnusalinn eftir páska, hreinlætisaðstaða og vinnuborð þurfa að rísa áður en hægt verður að huga að flutningi fyrir alvöru. Allt tekur tíma og vinnuhraðinn takmarkast af tveimur höndum.

.......svo getur Stakkanesið farið á flot.......

01.04.2012 08:13

Sunnudagsmorgunn, hinn fyrsti dagur aprílmánaðar.

Klukkan er rétt rúmlega átta á sunnudagsmorgni og ég er að fara að mála geymslugólfið mitt. Það liggur á að klára geymsluna til að geta tæmt bókasafnið út af háalofti Brekkunnar og komið því fyrir hér á Höfðingjasetrinu (nafnið kom til vegna staðsetningarinnar - vinnufélögunum fannst það tilvalið því á Höfðanum hljóta jú að búa höfðingjar....ég varð að vera sammála því.)  Safnið hefur reyndar rýrnað talsvert því ég grisjaði úr allar þær bækur sem mér fannst óliklegt að ég læsi á næstu árum. Það urðu alls sjö stórir bókakassar sem fóru í dreifingu hjá Góða hirðinum - mér datt ekki í hug að reyna að selja þetta sjálfur. Það er svo ekki víst nema aðrir sjö eigi eftir að enda á sama stað. Allir bókaskápar heimilisins eru komnir hingað til mín, þeir áttu að rúma nokkurn fjölda bókanna á háalofti Brekkunnar. Þegar búið var að tína bækur út úr skápum, undan rúmum og öðrum þeim afkimum sem hægt hafði verið að troða þeim, og EH hafði tekið "sínar" bækur til hliðar, þá kom á daginn að þessir bókaskápar rúma rétt það sem fyrirfannst í íbúðinni sjálfri - háaloftsbækurnar eru alveg eftir!

Það var annars komið fram að ég smíðaði á sínum tíma hillur á háaloftið svo bókastaflarnir þar væru aðgengilegir. Ég er að berjast við það sama hér heima, þ.e. að gera allar ferðabækur og þessháttar fróðleik aðgengilegan með lítilli fyrirhöfn. Hvers virði eru bækur sem enginn kemst í?

Úti er þokumóða, rigningarúði en frekar hlýtt. Ágætis inniveður, tilvalið til að mála gólf. 

Eigið góðan dag og látið ekki plata ykkur........

31.03.2012 08:26

Er sumarið kom yfir sæinn.........

Þetta fallega lag hans Sigfúsar hefur verið dálítið hugstætt undanfarið. Sumarkoman þarf nefnilega alls ekki að vera bundin ákveðnum degi eða veðrabreytingum. Sumarkoman getur verið huglæg, hún getur t.d. skapast af aðstæðum hvers og eins, jafnvel ákveðnu hugarástandi. .....

.......og mér sýnist vera stutt í að "sólskin ljómi um bæinn"

Nóg um það. Stórútgerðarmaðurinn Sverrir Guðmundsson leit inn í gærkvöldi og sagði sögur af stórþorskagengd út af Reykjavík. Við Sverrir eigum það sameiginlegt, ásamt mörgu öðru, að hafa hvorugur meira en meðalarmlengd. Þegar Sverrir breiddi út faðminn til að lýsa stærð þorskanna sem hobbyveiðimenn í Snarfara voru að bera á land þá hefði hann helst þurft að hafa ekki minna en svona venjulegt sautjándajúnífánaprik í hvorri hönd. Allavega bognuðu handleggirnir aftur á bak í viðleitninni við að sýna þessar risaskepnur sem mættar voru á Hraunið til þess eins að láta drepa sig.

Sverrir er kurteis og lét vera að ympra á því sem hann raunverulega vildi, þ.e. Stakkanesið á flot í einum hvínandi djöfulsins hvelli, upp með rúllurnar og fulla ferð út á mið!  Ég get ekkert neitað því að svona sögur kveikja í manni löngun til að sjósetja en það sem togar á móti er drjúgur listi aðkallandi verkefna við flutningana. Ég á enn eftir að lagfæra talsvert í kringum mig til að geta flutt það sem þarf að flytja af Brekkunni hingað uppeftir. Svo er bílskúrinn sér kapítuli og ekki auðflutt úr honum. Kannski man einhver gamall Ísfirðingur eftir skúrnum hans Jóns Valdimarssonar niðri á höfn. Bílskúrinn á Brekkunni er ekki ólíkur að innanverðu.

Það er laugardagsmorgunn, síðasti dagur marsmánaðar og kl. 10 liggur leiðin suður í Hafnarfjörð til að skoða trillu með manni sem langar mikið í trillu.

Ekki þó Sverri...........




25.03.2012 07:46

Eilífðin endasleppa!

Þannig fór nú það - og ég sem ætlaði að búa á Lyngbrekkunni til eilífðar, hafði margoft gefið það út og lýst yfir.

Ekki fer allt eins og ætlað er og þessi eilífð hefur nú runnið sitt skeið á enda. Við Elín Huld höfum (loks) slitið samvistir eftir þrjátíu ára sambúð. Sambúð sem hefur verið teygð alltof, alltof lengi og hefði í raun átt að ljúka fyrir tuttuguogsexoghálfu ári. Það er hins vegar önnur saga.

Lyngbrekkan hefur verið seld ákaflega fallegum, ungum litháiskum hjónum með góða nærveru. Vonandi tekst þeim að skapa sér þar gott heimili, staðurinn er einstaklega góður og nágrannarnir gulls ígildi.

Við Edilon Bassi Breiðfjörð höfum hreiðrað um okkur á afviknum stað á höfuðborgarsvæðinu. Almennt er búseta ekki viðurkennd á sambærilegum stöðum en við - allavega ég - eigum lögheimili annars staðar. Með því þurfti ég raunar að rjúfa loforð sem ég hafði gefið fyrir löngu, þ.e. að flytja aldrei til Reykjavíkur. Svona geta umskiptin orðið snögg, þegar loks er ákveðið að vinda sér í þau.....

Hér í hreiðrinu höfum við ágætt vinnupláss með nægri lofthæð til að rúma bæði ferðadrekann með himinháa toppnum og Stakkanesið með rá og reiða (að vísu niðurfelldum reiða!). Auk þess höfum við íverupláss þar sem mestum hluta frítímans er eytt. Það er hlýtt og notalegt hjá okkur, við höfum allt til alls og ef frá er talin dálítil eftirsjá eftir börnunum, sem sjást því miður allt of sjaldan, er lífið hreint stórkostlegt.


Því er samt ekki að leyna að þessar sveiflur hafa tekið sinn toll, bæði af naumum tíma og fjármunum. Það hefur verið óhemju dýrt að bæði selja og kaupa, að viðbættum öllum kostnaðinum við að koma plássinu í nothæft stand. Önnur verkefni, sem búið var að setja á forgangslista fyrir sumarið hafa þvi verið ísuð að sinni og ISUZU vörubíllinn sem keyptur var undir Stakkanesið er enn ósnertur. Það er þó bót í máli að hann svífur inn í vinnuplássið og það er ekki lítill kostur að eiga húsnæði sem rúmar bæði bát og vörubíl (þó varla í einu).

Við Bassi erum kátir. Við endum hvern vinnudag (og frídagana raunar líka) á því að heimsækja heita potta í einhverri sundlaug höfuðborgarsvæðisins enda eigum við ( allavega ég) kort í þær flestar. Milli vinnu á skoðunarstöðinni og pottferðanna er svo unnið í að koma öllu fyrir, bæði búslóð og verkfærum. Ég get bætt því við að Fríða systir hefur verið betri en enginn þegar kemur að IKEA ferðum og vali á bráðnauðsynlegum hlutum til búsins!

Ferðadrekinn var heimsóttur í gær austur í Grímsnes. Ekki var ég alveg nógu ánægður með stöðuna, mikill raki var í húsinu og það mátti sjá örla á myglublettum á hlutum í bílnum. Samt voru rifur á báðum hliðarrúðum og topplúgan opin til hálfs. Ég vona svo sannarlega að það fari að þorna upp úti við og hlýna í veðri, því það verður  handleggur að þrífa bílinn eftir þennan veturinn. Ég hef geymt bíla þarna frá hausti 2003 og aldrei séð ástandið svona eins og það var á Arnarnesinu í gær. Það voru annars búsáhöld sem sótt voru í bílinn, hluti þess sem gamli maðurinn pabbi lét eftir sig og gert var upp í fyrrahaust. Þá tók ég þessa hluti suður og ætlaði þá væntanlegum búskap sonarins og tengdadóttur. Ekki átti ég þá von á að hálfu ári seinna yrði mér sjálfum brýn þörf á þeim, þó kannski hafi ýmislegt í kringumstæðunum bent ákveðið í þessa átt.

Það virðist ekki vera hægt að setja inn myndir í kerfinu, annars hefði ég sýnt myndir af slotinu eins og það leit út við afhendingu. Ég keypti plássið með flestum þeim húsgögnum sem nauðsynleg eru, s.s. sófasetti og -borði, eldhúsborði og stólum, ísskáp, skrifborði, sjónvarpi, kommóðu og risastóru rúmi (sem raunar fór beint í Sorpu)

Það er komið fram yfir jafndægur, dagurinn hefur sigrað kapphlaupið við nóttina og páskarnir eru á næsta leiti. Stakkanesið er sjóklárt með kannski tveggja, þriggja tíma fyrirvara og það er aldrei að vita nema því verði fleytt fyrir páska...

.......ef spáin lofar góðu!


 

 


 

07.03.2012 18:40

Allt gott.....

Ég sé að undanfarinn sólarhring hafa fimmtán manns heimsótt síðuna mína. Mér þykir vænt um að einhverjir skuli halda tryggð við hana (og mig) þó lítið sé fært inn þessa dagana. Fyrir því er ástæða sem tilgreind verður fljótlega. Öll áhugamál liggja í salti meðan unnið er úr öðrum og meira aðkallandi hlutum. Finnist einhverjum skrifað í vefréttastíl verður svo að vera - ég er nefnilega ekki alveg viss um hvernig framhaldið verður. Öll áform komandi sumars eru í uppnámi og fátt vitað um framvinduna. Kannski er rétt að taka fram að ekki er um veikindi að ræða - amk. ekki svo vitað sé.

........það eina sem dagsljóst er, er að Stakkanesið siglir aftur innan skamms.........

18.02.2012 18:26

Ekki bara vinsæll......

Vinsældirnar sem nefndar voru í síðasta pistli hafa heldur betur undið upp á sig. Yfir mig hefur dunið holskefla tilboða af öllu mögulegu tagi, um bílskúrshurðaopnara, heima-loftræstikerfi (ég setti spurningarmerki við það, ætli einhverjum í útlöndum hafi fundist þungt loft heima hjá mér gegnum tölvuna?), einhvers konar netmæli til að mæla hraða nettengingarinnar minnar (mér finnst það raunar bráðnauðsynlegt en treysti engum útlendingum þó til þess) og endalausa fjármála- og fasteignaráðgjöf. Þetta tvennt síðastnefnda kann að verða nytsamlegt í framtíðinni, sýnist mér.

Svo fékk ég tilboð sem ég var eiginlega í vandræðum með að hafna. Það hefur örugglega eitthvað að gera með fjölþjóðlegan hróður minn sem skrifara, kannski vill sú sem tilboðið sendi baða sig í frægðarsólinni og njóta ylsins frá henni (og mér, líklega þá..). Þetta tilboð birtist hér í heild sinni og nú geta menn spáð í spilin:


Halló mín kærust vin.


Ánægja mín að hitta þig, og hvernig ert þú að gera í dag?
Mitt nafn er Zianab Omar Nkaje, einn ung stúlka á 23 ára. Ég er auðvelt að fara, heiðarlegur, umhyggju, kurteis, auðmjúkur, elskandi, rólegt og leita að þroska mann með góða kímnigáfu og kærleika fremur sjá það sem leið til gaman, ég uppsetningu á síðuna á meðan vafrað er og ákveðið að hafa samband við þig. Ég mun eins og okkur að vera vinir. Vinsamlegast hafðu samband við mig með ofangreindum netfang, mun ég upplýsingar meira um sjálfan mig til þín á næsta svari mínu til þín líka. vona að heyra frá þér fljótlega. Takk þér og hafa a ágætur dagur.

Kveðja.
Zianab.........



Þessi Zianab segist vera "auðvelt að fara" en ég er ekki alveg klár á hvað það þýðir. Ef það þýðir að það sé auðvelt að koma henni út þá ætti að vera vandalaust að bjóða henni í stutta heimsókn. Ég set reyndar spurningarmerki við orðin "upplýsingar meira um sjálfan mig" en þar sem hún fullyrðir að vera "einn ung stúlka á 23 ára" þá treysti ég því að kynið sé rétt og ekkert sé svikið í þeim efnum þegar á hólminn er komið - það væri nú verra!

------------------------------------------------------------------------------------------------------------------

Það er gott að vera dáður, en enn betra að vera elskaður. Ég nota það orð afar sjaldan en þó var það orðið sem mér kom fyrst í hug á degi heilags Valentínusar sl. þriðjudag. Mér finnst þessum degi ofaukið í íslenskri merkisdagaflóru enda er hann fyrst og fremst dagur kaupmanna, þröngvað upp á íslendinga gegnum útvarpskonu, fyrrum landsþekkta en nú sem betur fer flestum gleymda - nema þegar Valentínus bankar uppá! Það hefur aldrei hvarflað að mér að nýta þennan dag til að gleðja konuna, frekar hef ég notað þann rammíslenska konudag til þess (með litlum árangri reyndar en það er önnur saga, ég er klaufi í þeim efnum). Það mátti samt litlu muna að ég missti eitthvað úr öðrum augnkróknum þegar Áróran mín birtist inni á gólfi skoðunarstöðvarinnar í Skeifunni að áliðnum þriðjudegi með poka í hönd. Ég fékk mikið knús, marga kossa á kinnar og svo pokann afhentan með orðunum: "Gleðilegan Valentínus, pabbi minn". Í pokanum var heljar kleinuhringur með súkkulaðikjarna, og kókómjólkurferna. Áróra hafði verið á búðarápi í nágrenninu, brá sér í bakarí en fannst um leið tilvalið að gauka smá bita í nafni Valentínusar að pabba sínum sem aðeins fær eina skyrdós í hádeginu og svart kaffi utan þess. 

....svo var hún hlaupin út aftur, farin eitthvert annað, fugl og fiðrildi í einu..........   



Ég sæki enn mynd í smiðju nafna míns og frænda frá Suðureyri, Theodórs Barðasonar. Áróra er vinstra megin, söngfuglinn og litla systirin Bergrós Halla er hægra megin.

----------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------

Svo er það lopapeysan! Það kom fram hér rétt neðar að ég hefði á dögunum eignast mína fyrstu lopapeysu frá barnæsku. Ég lofaði myndum og Elín Huld tók að sér hlutverk ljósmyndara í dag. Til að fullkomna myndina klæddi ég mig í nýju ullarsokkana sem fylgdu í kjölfar peysunnar, en við tiltekt í þvottahúsinu í morgun fundum við aðra ullarsokka sem Fríða systir prjónaði á mig fyrir einhverju síðan. Mér fannst tilvalið að hafa þá með á myndunum en þar sem ég er ekki ferfætlingur smeygði ég þeim á hendurnar. Það verður seint frá henni Fríðu systur tekið að hún er ekki bara víkingur til vinnu heldur virkilega flink í höndunum ( mig langar líka að benda á fegurð fyrirsætunnar en af því ég kann mig læt ég það alveg vera )





Gott í bili.

11.02.2012 21:08

Á alþjóðamarkað!

Á dauða mínum átti ég von en því ekki að alheimurinn veitti skrifunum mínum jafn mikla athygli og raun ber vitni. Undanfarið hef ég fengið erindi í tuga- eða hundraðavís frá fólki og fyrirtækjum út um allan heim sem eiga það sameiginlegt að vilja koma einhverju á framfæri við mig.

Ég get ekki neitað því að ég er dálítið -nei, ekkert dálítið, heldur alveg rosalega - upp með mér af þessum mikla áhuga á annars frekar einfeldningslegum skrifum sem ég hef bögglað frá mér á undanförnum árum. Mér sjálfum finnst ekkert sérstaklega merkilegt við þau, þetta hafa verið svona almennar vangaveltur innan um aulafyndni og stöku endurminningar. Nokkrir ferðapistlar hafa slæðst með en varla eru þeir svo merkilegir miðað við allt það landkynningarefni sem unnið hefur verið af hæfu fólki og deilt út til víðlesinna fjölmiðla eða sjónvarpsstöðva erlendis.

Það hefur annars vakið eftirtekt mína að allt þetta áhugasama útlenda fólk hefur talið tvo af pistlunum mínum sérstaklega áhugaverða. Svo áhugaverða raunar, að langflestar eða allar heimsóknir þeirra hafa verið bundnar þessum tveimur pistlum. Þeir eru nokkurra ára gamlir og heita "
Þjófurinn á hlaupahjólinu" frá 16. nóvember 2008  og "Toppur" frá 5. júní 2009.

Það sem þessir nýbökuðu lesendur mínir hafa viljað koma á framfæri við mig er ákaflega margvíslegt. Það geta verið tilboð um kynni af huggulegum stúlkum, tilboð um fasteignalán, tilboð um skuldaráðgjöf (væntalega ætlaða þeim sem hafa farið flatt á fasteignalánum) og svo vangaveltur um stöðu hins óheppna blaðakóngs Ruperts Murdock sem hefur átt í vanda vegna símhlerana eins blaða sinna, "News of the world". Sýnishorn af þessum vangaveltum lítur svona út:

  1. Given the forthcoming legal action against Rupert Murdock's News Corporation in America, the trail gets ever closer to Murdock himself. Is he bothered, I ask myself, is he still capable of remorse or fear after all this time?.

Ég hef raunar enga skoðun á Rupert Murdock eða blaðaútgáfunni hans og skil ekki almennilega hvers vegna einhver úti í heimi finnur samherja í mér!  Þessir sömu lesendur mínir hafa ekki lýst skoðun sinni á því sem fram kemur í pistlunum sem þeir hafa "kommentað" á, enginn hefur til dæmis sýnt áhuga á húsbíls "toppnum" sem pistillinn snýst um, enginn hefur neina sérstaka skoðun á ferðalaginu sem lýst er í pistlinum um Þjófinn á hlaupahjólinu og enginn hefur hrósað myndunum sem fylgja þeim pistli og ég var svo stoltur af - sérstaklega þeirri af gömlu trillunni. Ég hélt að útlendingar kynnu að hafa áhuga á þeirri mynd því ljótustu trillur heims eru í útlöndum og það er því tilbreyting fyrir útlendinga að sjá jafnfallegan bát og þennan þó hann sé löngu kominn úr notkun þegar myndin er tekin.

Í fyrstu fór þessi áhugi útlendinga á pistlunum mínum í taugarnar á mér og vikulega eyddi ég út sirka 50-60 þessháttar heimsóknum. Nú geri ég minna af því, leiði þetta hálfpartinnn hjá mér enda safnar póstforritið þessu sjálfkrafa í ruslasarpinn. Bloggpistlarnir njóta hins vegar nærverunnar eins og sjá má ef hlekkirnir hér ofar eru skoðaðir.  Fleiri pistlar en þeir nefndu hafa hlotið þessa upphefð, s.s. "
Að Folafæti", "Út um eyjar" (ég hef eytt þeim öllum og aðeins eru eftir tilkynningar á póstinum)  og "Absolutely fabulous"

Í seinni tíð hefur mig raunar grunað að þessi óvænta og óverðskuldaða upphefð sé alls ekki öll þar sem hún er séð heldur aðeins ávöxtur einhverrar óværu sem tekið hefur sér bólfestu í bloggkerfum -visir.is- og lifi þar góðu lífi vegna dug- áhuga- eða getuleysis umsjónarmanna vefjarins. Hver veit?

Ég ætlaði að fá einhvern til að taka mynd af mér í fallegu, nýju lopapeysunni sem hún Fríða systir prjónaði handa mér. Það hefur ekki gengið eftir og nú hafa ullarsokkar fylgt peysunni eftir. Ég mun sjá til þess að fljótlega birtist mynd af skrifaranum íklæddum lopapeysu og lopasokkum - og einhverju þar á milli. Ég fann hins vega ágæta mynd af systrunum Rósu (tv) og Fríðu sem frændi minn og nafni, Theodór Barðason tók sl. sumar. Það má vel ylja sér við þessa mynd þangað til. Sá stendur ekki einn sem á þessar að.......

05.02.2012 22:20

Já, ég veit.....

Það er allt frekar slakt þessa dagana. Ekki þó alveg, það er barist á nokkrum vígstöðvum og má kannski helst nefna að í bígerð er sérstakur pallbíll undir stórskipið Stakkanes. Undir útgerð af þeirri stærðargráðu dugar ekki annað en almennilegur bíll, og þar stendur hnífurinn í kúnni - það er fullt til af bílum en fáir eru almennilegir.

..........svo hef ég eignast nýja lopapeysu - þá fyrstu í fjörutíu ár eða meira!

21.01.2012 10:01

Hvers vegna var afi Eyma sjómanns hættulegur?

Ný skoðunarstöð Aðalskoðunar var vígð föstudaginn þrettánda janúar. Þessi stöð er í nýju húsi Bón-og þvottastöðvarinnar  við Grjótháls í Rvk, rétt vestan við Shellstöðina  (sem eitt sinn hét Select við Vesturlandsveg). Opnunarhátíðin skyldi hefjast kl. 17 og allt fram til síðustu mínútu- og jafnvel örlítið fram yfir hana - var unnið á fullu í húsinu. Myndirnar hér að neðan eru teknar kl. hálfellefu á föstudagsmorgninum úr hárri tröppu, sem skrifarinn hékk í við vinnu sína:





Svo leið á daginn og smám saman rofaði til á gólfinu. Maðurinn með derhúfuna kom með stórar ljósmyndir af þekktum stöðum á landinu, en slíkar myndir prýða allar skoðunarstöðvar fyrirtækisins. Hann fórnaði hins vegar höndum þegar hann sá atganginn, mældi fyrir myndunum og hélt síðan á braut með sínar myndir, ákveðinn í að hengja þær ekki upp meðan allt væri á kafi í ryki innandyra. Hann kom svo aftur síðar um daginn og vann sitt verk með prýði. 

Eitt var það sem huga þurfti sérstaklega að fyrir vígsluna. Það var ræðupallurinn. Engin er opnun án ræðu og því var raðað upp vörubrettum í einu horninu, þau vafin bláu áklæði svo úr varð laglegasta leiksvið. Enginn vígsla fer heldur svo fram að ekki komi einhver og spili á hljóðfæri eða syngi. Í þetta sinn skyldi gera hlutina Grand, ræðupallurinn varð að rúma þá félaga Ragga Bjarna og Þorgeir Ástvaldsson sem skyldu sjá um tónlistaratriðið. Um fjögurleytið mættu félagarnir, röðuðu sínum tækjum og tólum á pallinn, gerðu klárt og fóru svo aftur, enda enn klukkutími í athöfn (og klukkutími er ótrúlega drjúgur þegar allir eru á fullu að klára sitt verk). Við Raggi erum málkunnugir gegnum bílabrasið hans og heilsuðumst stuttlega enda báðir önnum kafnir þau augnablikin. Sem raunar var frekar slæmt, því á mér brann spurning sem mig langaði að spyrja Ragga. 

Spurningin (sem einnig er titill pistilsins) varð þannig til: Eitt þeirra laga sem ég hef haldið uppá allt frá barnæsku er Föðurbæn sjómannsins. Lagið er eftir Þórunni Franz en textinn eftir séra Árelíus Níelsson. Þegar Þursaflokkurinn lék sér með talaðan hluta texta lagsins í alþekktri pönkútgáfu af "Jón var kræfur karl og hraustur"  þá fannst mér grínið aðeins hnykkja á því hversu góður upprunalegi textinn var í meðförum Ragga. Svo liðu árin, urðu að tugum og alltaf var "Föðurbæn sjómannsins" í jafnmiklu uppáhaldi hjá mér.

Fyrir ekkisvolöngu eignaðist ég disk sem Raggi gaf út og heitir "Vel sjóaður". Þar er lagið "Föðurbæn sjómannsins" í nýjum flutningi hans. Ragnar Bjarnason er ótrúlega lífsseigur söngvari og líklega ræður þetta einstaklega létta og skemmtilega lundarfar þar miklu um. Maðurinn eldist með eindæmum vel og er lifandi sönnun þess að enginn er eldri en honum sjálfum finnst. Eins og gefur að skilja er samt talsverður munur á söng Ragga um þrítugt og svo yfir sjötugu. Þegar maður hlustar á "Vel sjóaður" fær maður á tilfinninguna að skörpustu hornin hafi rúnnast dálítið, skýrustu línurnar sljóvgast smávegis, harkan mýkst og mýktin linast - þið skiljið vonandi.

Það vildi þannig til að þegar Ragnar Bjarnason kom til að setja græjurnar sínar og Togga upp á ræðupall Aðalskoðunar að Grjóthálsi föstudaginn þrettánda janúar hafði diskurinn hans rúllað í spilara svarta hrossadráparans undanfarna daga. Ég var búinn að hlusta á "Föðurbæn sjómannsins" í nýju útgáfunni örugglega tuttugu sinnum og taldi mig hafa  uppgötvað falinn sannleik í textanum, nokkuð sem ég hafði ekki gert mér grein fyrir áður. Þannig fannst mér Raggi segja í þeim hluta textans sem mæltur er af munni fram: "Já, kæri sonur / afi býr yfir hundrað hættum....."

Þessi greinilega viðvörun hefur alla tíð verið mér hulin - þ.e. þar til ég eignaðist diskinn "Vel sjóaður" og fór að hlusta á hann með vaxandi athygli. Annað var það í sama texta sem vakti athygli mína. Ég hef alltaf haldið að textinn væri svona almenns eðlis, að hver og einn sem tengdist sjó eða sjómennsku gæti heimfært hann upp á sig og sína. Nú hef ég skipt um skoðun, því það er dagsljóst að textinn er klárlega saminn með einn ákveðinn sjómann í huga. Allir kannast við textabrotið: " En ef þú sérð þá stjörnu / sem brosir blítt og bjart / þá brestur kyngi seiðsins / og myrkrið hverfur svart...."  Svo kemur þetta sem veldur mér heilabrotum: 
Þá er pabbi Eyma / að hugsa um drenginn sinn.....")

....
allavega heyri ég það þannig....

Í æsku minni vestur á Ísafirði þekkti ég tvo menn sem báðir hétu Eymundur. Annar þeirra, sá eldri var alltaf kallaður fullu nafni. Hinn var kallaður Eymi en ég hef enga vitnesku um hvort séra Árelíus hafi þekkt þann Eyma og finnst það frekar ólíklegt. Sæmundur, sonur séra Árelíusar var um árabil á Ísafirði, útgerðarstjóri og altmuligtmand í rækjunni. Trúlega hafa þeir verið á líku reki, hann og Eymi. Ég held samt að föðurbæn sjómannsins hafi verið samin löngu fyrir þann tíma og satt að segja held ég að sá Eymi sem ég man eftir vestra hafi ekkert tengst textagerð séra Árelíusar.

Ég á útgáfu lagsins "Föðurbæn sjómannsins" með Ragga Bjarna frá árinu 1967 og þar er þetta allt öðruvísi, ekkert minnst á hættulegan afa og Eymi sjómaður hvergi nærri. Kannski er skýringuna bara að finna í þeirri einföldu staðreynd að fjörutíu ár eða svo liðu milli útgáfanna tveggja og enginn syngur eins í fjörutíu ár. Mér dettur í hug, þó ég sé alls ókunnugur söngtækni, að þessi tilkoma afa og Eyma kunni að felast í útöndun - þ.e. að það fylgi því töluverður útblástur að syngja -H- og þegar menn eldast, öndunin grynnist og betur þarf að fara með það loft sem enn næst í með innöndun, sé eðlilegasta leiðin að skera niður loftnotkun í útöndun. Þannig hafi þessi sterku -h- hljóð í upphafi setninganna, sem vel hljómuðu í frumútgáfunni verið lögð undir hnífinn í áranna rás og útkoman sé sú útgáfa af "Föðurbæn sjómannsins" sem ég heyri í hvert skipti sem ég bregð diskinum "Vel sjóaður" í spilarann.

Það var nokkurn veginn þetta sem ég ætlaði að spyrja Ragga Bjarna um þarna rétt fyrir vígsluathöfnina á Grjóthálsinum föstudaginn þrettánda janúar en gaf mér ekki tíma til því ég vissi að Raggi hefði heldur ekki tíma til að svara - ef hann hefði á annað borð getað það fyrir hlátri......

.........og kannski eru allar þessar fabúleringar mínar tóm vitleysa og aðeins til þess fallnar að fólk hringi í mig með skammir.....

Þegar klukkan var rétt að detta í fimm, leit vinnusvæðið á efri myndunum svona út, þökk sé Aðalskoðunarkonunum sem stóðu hreingerningavaktina allan daginn og stjórnuðu aðgerðum:






..................................................................................................................

Suðurnesjamaðurinn
Emil Páll Jónsson heldur úti skipamyndasíðu og birtir þar stundum einstaka gullmola. Einn þeirra má finna nákvæmlega -HÉR-, en þetta er mynd af breska togaranum St. Chad, sem strandaði undir fjallinu Teistu, utan við Sléttu í Jökulfjörðum ( eða innanvert á Grænuhlíð, hvort sem menn vilja frekar hafa). Það má "gúggla" allar upplýsingar um þetta strand og kannski bæti ég einhverju við síðar.

...gott í bili.

31.12.2011 19:31

Á áramótum.

Um leið og ég þakka öllum lesendum liðið ár og öll innlitin og álitin vil ég óska þeim gleðilegs komandi árs og góðs gengis í framtíðinni. Myndin sem fylgir er að þessu sinni ekki af togara heldur flutningaskipi. Það er Tröllafoss sem liggur við Bæjarbryggjuna á Ísafirði. Utan á Tröllafossi liggur Fagranesið gamla og nær landi liggur lóðsbáturinn. Kunnugir mega gjarnan ráða í aldur myndarinnar - hún er ekki ársett. 

Enn og aftur: Gleðilegt nýtt (hlaup)ár og bestu þakkir fyrir lestur, leiðréttingar og ábendingar á því sem er að líða!

28.12.2011 20:00

Í pottinn búið.

Það kom fram hér neðar, í pistlinum um Magnús Heinason hinn færeyska, að ég hef verið að grufla í breskum togara- netsíðum undanfarið. Þetta getur verið afar skemmtilegt og fróðlegt föndur, þrátt fyrir að vera á stundum dálítið raunalegt. Þannig hef ég verið að rekast á myndir af skipum sem hafa komið verulega við sögu hér heima án þess að myndir af þeim hafi birst með fréttum, stundum hafa birst illa prentaðar myndir og þá aðeins einu sinni. Bækur sem greina frá skipatengdum atburðum, s.s. "Þrautgóðir á raunastund", innihalda aðeins lítinn fjölda mynda sem tengjast efninu. Ef ég á að taka eitt dæmi er tilvalið að nefna breska togarann Kingston Peridot, sem talinn er hafa farist við Mánáreyjar í janúarlok 1968. Einhverra hluta vegna sá ég þennan togara alltaf fyrir mér með ljósgráan skrokk og háa, tvílita brú, ekki ólíkan Cesari sem strandaði á Arnarnesinu 1971 og flestir Ísfirðingar á miðjum aldri og yfir muna eftir. Ég man ekki til að hafa nokkurn tíma séð mynd af Kingston Peridot og þessi hugmynd var trúlega tengd öðrum Kingston-togurum sem voru tíðir gestir á Ísafirði á árum áður. Síðasti viðkomustaður Kingston Peridot fyrir slysið var Ísafjörður en það er ólíklegt að ég hafi séð skipið þá, hefði svo verið hefði ég strax við fréttir af slysinu munað útlit skipsins. Á netsíðunni -http://hulltrawler.net- má finna ágæta mynd af Kingston Peridot og eins og sjá má líkist skipið ekkert þeirri mynd sem geymst hafði í mínum huga yfir fjörutíu ár:



Bein leið á síðuna sem geymir allar upplýsingar um skipið er: http://hulltrawler.net/Sidewinder/Vessel%20-%20Kingston/KINGSTON%20PERIDOT%20H591.htm


Annað álíka mál: Árið 1955 fórust tveir breskir togarar í fárviðri norður af Vestfjörðum. Báðir höfðu sent út hjálparbeiðni vegna ísingar, skip í landvari reyndu að snúa til hjálpar en slíkur var veðurhamurinn að ekki varð við neitt ráðið og báðir togararnir fórust með allri áhöfn. Þessi skip hétu Lorella og Roderigo, og voru bæði frá Hull. Ég hafði aldrei séð myndir af þessum skipum en gekk með þá hugmynd að bæði hefðu verið togarar af eldri gerð. Ekki var það nú aldeilis, eins og grams á -hulltrawler.net- leiddi í ljós.

Í því sambandi er kannski rétt að nefna, svona ef einhver annar en ég skyldi hafa áhuga, að frásögn af slysinu í bókinni "Þrautgóðir á raunastund", 5. bnd. bls.75 er mjög á skjön við þá sem birtist á -hulltrawler.net- og ég freistast til að taka sem réttari. Ég ætla ekki að tyggja beint upp úr bókinni, hún er aðgengileg á hverju bókasafni þeim sem ekki eiga ef menn vilja skoða og bera saman. Enska frásögnin er í stuttu máli á þann veg að togarinn Kingston Garnet hafi verið í vandræðum þann 23. janúar 1955 og munu vandræðin hafa tengst veiðarfærum flæktum í skrúfubúnaði. Lorella og Roderigo voru í samfloti á leið í landvar undan síversnandi veðri og Lorella naut aðstoðar Roderigo vegna bilunar í radar. Kingston Garnet sendi út hjálparbeiðni og sneru bæði Lorella og Roderigo við til að aðstoða skipið ef þurfa þætti. Þann 24. tókst skipverjum á K.G. að losa skrúfuna og stefndu skipinu til landvars. Boð um breytinguna virðast ekki hafa náð til Lorella og Roderigo - hafi slík boð verið sent út á annað borð - og bæði skipin sigldu því áfram út í síversnandi veður að uppgefnum ákvörðunarstað. Þegar þangað kom var K.G. löngu farinn í skjól en veðrið hins vegar orðið svo slæmt að skipstjórar Lorella og Roderigo þorðu ekki að snúa skipunum undan storminum í átt til lands. Þeir tóku þann kost að halda skipunum upp í vind og sjó í þeirri von að veðrið lægði. Vonin brást, báðum skipunum hvolfdi vegna yfirísingar og áhafnirnar fórust. Ef marka má bresku netsíðuna hafa aðeins liðið u.þ.b. tvær og hálf klst. milli slysanna sem kostuðu fjörutíu breska sjómenn lífið.

Eins og áður segir er frásögn í bókinni "Þrautgóðir á raunastund" mjög á annan veg, bæði hvað varðar aðdraganda og eins slysið sjálft. Ég reikna með að frásögnin í bókinni sé unnin upp úr skýrslum SVFÍ og eflaust hefur verið vandað til þeirra eins og frekast var unnt, á sínum tíma. Breska frásögnin er hins vegar líklegast unnin eftir viðtölum við sjómennina á þeim togurum sem voru á svæðinu og fylgdust með fjarskiptum þeirra á milli.

Ég set hér tengingu á umfjöllun -hulltrawler.net- um Roderigo, sem eins og sjá má var yfir 800 tonna skip og aðeins fimm ára gamalt:

http://hulltrawler.net/Sidewinder/Vessel%20-%20R/RODERIGO%20H135.htm

Tilsvarandi frásögn og lýsing á togaranum Lorella, sem var öllu minni og sláandi líkur "nýsköpunartogurum"  okkar Íslendinga:

http://hulltrawler.net/Sidewinder/Vessel%20-%20L/LORELLA%20H455.htm

Að síðustu set ég tengingu á lýsingu togarans Kingston Garnet sem, ef marka má frásögn bresku netsíðunnar, átti nokkra sök á því hversu slysalega tókst til - þ.e. ef menn vilja leita sakar. Eins og sjá má í tækniupplýsingum var togarinn rifinn árið 1968:

http://hulltrawler.net/Sidewinder/Vessel%20-%20Kingston/KINGSTON%20GARNET%20H106.htm

Að síðustu væri gaman að vita hvort einhver leggur á sig að lesa gegnum allar þessar einskisnýtu upplýsingar...................Gott í bili!

24.12.2011 17:30

Gleðileg jól!

Við Elín Huld óskum öllum sem lesa, gleðilegrar jólahátíðar!



20.12.2011 23:00

Gramsað í glatkistunni.

Haustið 1973 var ég fátækur námsmaður á Ísafirði. Námsmaður segi ég því mér finnst eiginlega að fólk verði ekki námsfólk fyrr en að lokinni skólaskyldu og framhaldsnám hefst. Mitt framhaldsnám var fólgið í setu við borð í húsi Menntaskólans á Ísafirði. Ég lærði lítið, það litla sem ég þó lærði hefur staðið með mér ótrúlega lengi eins og kannski á síðar eftir að koma fram, en kemur ekki þessarri sögu við. Ég segi líka fátækur því sumarið ´73 hafði ekki skilað mér miklum tekjum. Frá því ég útskrifaðist með letieinkunn Landsprófs frá Gagnfræðaskólanum um vorið hafði ég aflað mér tekna í bæjarvinnunni og starfið, sem fólst aðallega í vélgæslu við gömlu mulningsvélarnar inni á Skeiði var sannarlega ekki hálaunastarf. Ég nennti ekki að vinna þarna (en eftir á að hyggja var þetta mjög gott starf), þoldi ekki Gústa Valda (seinna áttum við eftir að verða prýðilegir mátar og vinnufélagar) og hlakkaði helst til haustsins vegna skólans sem ég hafði innritað mig í af því þess var vænst af mér. Landsprófsveturinn á undan hafði ég náð undraverðum árangri í skrópum, líklega hefði ég verið látinn fara ef skólinn hefði ekki verið skyldubundinn. Ég var búinn að kynna mér skrópkvótann sem gilti við Menntaskólann og leist ágætlega á þann línudans sem ég ætlaði sannarlega að stunda komandi vetur. Lágt kaup og léleg ástundun sumarvinnunnar höfðu semsagt ekki þyngt budduna þegar blásið var til skóla í byrjun september. Það var því næstum eins og himnasending þegar mér var boðið morgunstarf hjá fyrirtæki í bænum, starf sem hefjst skyldi kl. 6 að morgni og ég mátti stunda þar til skóli hæfist, hvenær morguns sem það yrði. Flesta virka morgna hófst skólinn klukkan átta en einhverja nokkru síðar. Mér tókst sæmilega að vakna og standa mína plikt, raunar fór starfið fljótlega að tvinnast saman við skrópkvótalínudansinn og ég fór að reikna út hversu mikið ég gæti þénað með því að teygja mig út á ystu nöf í mætingum.

Fátt af ofanskrifuðu kemur reyndar því við sem ég ætlaði að skrifa um, heldur er það sett fram til að teygja rýrt efni. Snertiflöturinn er aðallega sá að morgunstarfið var hjá Gamlabakaríinu, eigandi þess var Ruth Tryggvason en hún var einnig danskur -og þar með færeyskur- konsúll á Ísafirði . 

Komur færeyskra skipa til Ísafjarðar voru nokkuð tíðar á þessum tíma. Aðallega voru þar fiskibátar á ferð, flestir kringum 80-100 tonn og nokkuð gamallegir, enda virtist líkt farið með Færeyingum og Norðmönnum hvað það snerti að halda gömlum eikarbátum vel við. Svo gerðist það öðru hverju að til hafnar komu stærri "Færeyingar", þá helst togarar og meðal þeirra þekkti ég tvo sérstaklega - Sjúrðarberg og
Magnus Heinason.

Snemma í október 1973 lagðist Magnús Heinason að bryggju á Ísafirði vegna smávægilegrar vélarbilunar og var ekki áætluð löng viðstaða. Skipið hafði verið að veiðum við landið í nokkra daga og var aflinn unninn í salt. Að venju lagði ég leið mína á höfnina til að sjá þetta mikla skip, Magnús Heinason var yfir þúsund br.tonn að stærð og því talsvert veglegra skip en stærstu bresku togararnir sem fram að 50 mílna stríðinu höfðu verið algengir gestir vestra. Auk þess var mikill munur á útliti og hirðu Magnúsar Heinasonar og bresku kláfanna sem sumir hverjir virtust varla hanga saman nema á ryðinu. Þetta var hreinlega fantaflott skip og gaman að horfa á það við kantinn.

Þegar ég var á leið til vinnu á venjulegum tíma einn morguninn sá ég að eitthvað mikið gekk á á höfninni þar sem Magnús Heinason lá. Í konsúltengda bakaríinu frétti ég að um nóttina hefði
komið upp eldur í Magnúsi Heinasyni og slökkvilið væri enn að störfum um borð. Ég vann minn venjulega vinnutíma og að honum loknum lét ég skólann lönd og leið en hljóp þegar niður á höfn til að fylgjast með. Þar höfðu mikil umskipti orðið. Þetta stóra og fallega skip hafði mikla slagsíðu, stór hluti yfirbyggingarinnar (sem mig minnir að hafi verið málaður í ljósum, eiginlega svona ljósdröppuðum lit) var svartur af sóti og stæk brunalyktin lá eins og ský yfir hafnarsvæðinu. Skipið var augljóslega stórskemmt ef ekki ónýtt. Mér fannst þetta sannarlega sorgleg sjón. 

Magnús Heinason lá um tíma á Ísafirði meðan verið var að dæla vatni úr skipinu og búa það til dráttar heim á leið. Dælingin sóttist seint því olíutankar skipsins höfðu hitnað svo í eldinum að innihaldið hafði þanist út og flætt út um yfirfalls-og loftrásir þeirra. Þykkt svartolíulag lá yfir vatninu í skipinu og við það þurfti að losna áður en hægt væri að þurrka skipið.

Svo kom að því að Magnús Heinason var dreginn burtu, tengslin við konsúlatið skiluðu mér vissu um að skipið færi til Færeyja þar sem meta ætti ástand þess. Meira frétti ég ekki fyrr en löngu síðar, þegar ég eignaðist ritröðina "Þrautgóðir á raunastund". Þar má lesa, á bls. 136 í bók nr. 19 (XlX) eftirfarandi klausu:

"Ákveðið var að draga Magnús Heinason til Færeyja til viðgerðar og var björgunarskipið Goðinn fenginn til þess verks. Í Færeyjum var gert við togarann og var það mikið og kostnaðarsamt verk.
Magnús Heinason var um 600 lesta síðutogari, smíðaður í Portúgal árið 1962 og var skipið gert út frá Salttangará á Austurey og sem fyrr segir var Dávur Pálsen skipstjóri annar aðaleigandi þess"

Mér, sem áhugamanni þótti gott til þess að vita að þetta mikla skip hefði þó komist í drift að nýju eftir viðgerð. Enga ástæðu hafði ég til að rengja þessa frásögn, jafnvel þótt ég hefði á nokkrum stöðum rekist á misræmi og/eða staðreyndavillur í bókunum. Svo gerðist það fyrir einhverju síðan, eftir að ég hafði eytt nokkrum kvöldstundum á netinu við að fletta upp ferli og örlögum þeirra bresku togara sem til Ísafjarðar vöndu komur sínar á  áratugum áður, að mér datt í hug að fletta upp Magnúsi Heinasyni og kanna hver ævi hans hefði orðið eftir uppgerðina miklu í Færeyjum, sem greint var frá í nítjánda bindi "Þrautgóðir á raunastund". Það þarf enga sérstaka enskukunnáttu til að stauta sig í gegnum neðanritað:
...............................................................................................................

MAGNUS HEINASON 550 ore.

Built as side fishing trawler under yard No 189 by Navalis Uniao Fabril, Lisbon for P/F Torshavner Trolarafelag, Torshavn, Faroer Isl.
03 November 1960 launched under the name MAGNUS HEINASON.
Tonnage 1.038 grt, 370 net, 907 dwt., dim. 70.04 x 10.57 x 5.60m, length bpp. 63.2m., draught 4.91m.
One steam turbine 1.375 ihp, one propeller, speed 13 knots.
April 1961 completed.

1972 Sold to P/f M. Heinason, Saltangara, Faroer Isl.
09 October 1973 while lying at Isafjordur, north-western Iceland, she was extensively damaged by fire that started in her engine room.
After being towed back to the Faroers, she was declared a "constructive total loss". The gutted wreck was then towed to Troon, Scotland where she arrived on 02 July 1974; she was broken up by the West of Scotland shipbreaking yard at Troon.

Upplýsingar fengnar af síðunni   

Magnus Heinason


11.12.2011 15:02

Í tilefni dagsins..

Mér fannst, svona í ljósi strembinnar vinnuviku, ég eiga skilið að fá smá upplyftingu....

Á þennan hátt hófst síðasta færsla og það er tilvalið að endurnýta þetta ágæta upphaf. (...er það ekki annars ágætt?)

Upplyfting helgarinnar var fólgin í jólahlaðborði á Fjörukránni. Fyrir ári fórum við í sömu erindagerðum út í Viðey og áttum þar ágæta stund. Hópurinn nú var öllu fámennari en þá, eða aðeins við Elín Huld og Fríða systir. Milli Fjörukráarinnar og tengds hótels er aðeins mjótt sund og málsverðurinn hófst á jarðhæð hótelsins þar sem í boði var Grýlumjöður að hætti hússins. Um skenkingu (segir maður ekki svoleiðis?) sá gulleintak af færeyskum kvenkosti - þeir útlendingar sem hingað hafa komið og dásamað íslenskt kvenfólk hafa greinilega ekki komið við í Færeyjum!

Matur var svo fram borinn handan húsasundsins, í kránni sjálfri. Ég hef aldrei komið þar inn fyrir dyr áður og sannast sagna er um að litast eins og á safni - svona eins og maður gangi um skála sögualdar. Matnum var raðað á stórt borð í miðjum skála, á borðinu miðju var eftirlíking lítils árabáts og nokkrum réttanna sem í boði voru var raðað meðfram borðstokk beggja megin. Úrvalið var fjölbreytt, eldamennskan fín og þjónustan sömuleiðis. Undir borðum var tónlistarflutningur, sem engin ástæða er svo sem til að kvarta yfir þó ég hefði svo sem verið alveg til í að borga "tónlistarmanninn" niður af sviðinu. Drjúgur hluti gestanna virtist nefnilega skemmta sér hið besta, en kannski var tóneyra þeirra slævt af Grýlumiði. Framanaf gengu tveir gítarspilarar um salinn og spiluðu brot úr lögum sem fólk vildi heyra. Er á leið tók annar sér hvíld - ég vil meina að það hafi verið sá skárri, miðað við það sem á eftir fór - og við tók pínleg stund þegar hinn spilarinn kom sér fyrir á sviði og rafmagnaði upp hörmulega metnaðarlausan flutning á enn verra lagavali. Irish Rover er náttúrlega ekki jólalag en í góðum flutningi getur verið hrein unun að hlusta á það. Sá flutningur sem þarna var boðið uppá var klár nauðgun og ekkert annað.

Þegar við vorum alvarlega farin að hugsa okkur til hreyfings úr húsinu kvaddi spilarinn skyndilega og kynnti á svið færeyskan trúbador. Þar kvað við allt annan tón, og það var gaman að heyra Synetu hans Bubba snúið á færeysku ásamt fleiri lögum fluttum af metnaði og vandvirkni.

Ég fyrirgaf Fjörukránni með það sama enda var allt annað en ofannefnt gaul og gítarglamur með miklum ágætum - líka verðið, 6900- á mann. Það var ekki stórt fyrir allan þann mat sem var á boðstólum.

...........................................................................................................

Það er eitt sem ég verð eiginlega að deila með öðrum: Fyrr í haust átti ég einu sinni sem oftar leið niður að Snarfarahöfn. Þetta var nokkuð árla morguns um helgi og fáir á ferli. Í einu horni bílastæðisins stóra var fyrirbæri sem ég mátti til að mynda. Ég hef nú um hríð gengið með þá hugmynd í kollinum að fá mér sérstakan bíl undir Stakkanesið til að geta á auðveldan hátt ferðast með það milli landshluta. Sá ferðamáti er allur mun auðveldari en að draga bátinn á kerru sem einnig er notuð til að sjósetja hann - það er erfitt að samræma langferðakerru sem notuð er í þjóðvegakerfinu og kerru sem reglulega fer á kaf í sjó! Þess vegna fæddist þess hugmynd að sérstökum bátaflutningabíl, hugmynd sem hefur verið í þróun í nokkra mánuði.

Ekkert kemur í veg fyrir að sama hugmyndin skjóti upp kollinum á fleiri en einum stað í einu. Það er sjálfsagt að sem flestir reyni að nýta sér góðar hugmyndir (og mér finnst þetta sannarlega vera góð hugmynd)  sjálfum sér til hagræðis. Svo geta menn þurft á mismunandi útfærslum að halda eftir eðli málsins og því, hversu mikla peninga þeir vilja leggja í hugmyndina.

Þarna á Snarfarasvæðinu stóð semsé ein útfærsla þessarrar ágætu hugmyndar. Í þá útfærslu höfðu ekki verið lagðir miklir peningar - raunar allmiklu minni en þurft hefði. Þarna stóð vörubíll, svo lítill að það nafn var eiginlega frekar óverðskuldað, og á honum stóð strandveiðibátur af gerðinni Skel26. Ég veit ekki nákvæmlega hversu þungur svona bátur er en þori að leggja hausinn að veði fyrir því að ekki hafi leift mikið af burðargetu bílsins. Mér er nær að halda að henni hafi verið fyllilega misboðið.....



Það þarf öllu öflugri bíl undir þessa stærð af bát. Af útliti bílsins og skoðunarmiða mátti ráða að hann hefði ekki verið í notkun um allnokkra hríð og allt sem eftir var af pallinum voru nokkrir ryðgaðir þverbitar. Í stað afturbretta voru lagðir stubbar af Dokaflekum yfir hjólin. Sjálft ekilshúsið hafði líklega upphaflega verið hvítt að lit en mátt þola eina hálfþekjandi umferð af einhverju sem helst líktist grænni botnmálningu. Mér fannst flest benda til að bíllinn/báturinn hefðu komið um nóttina utan af landi og bátinn ætti að geyma á Snarfarasvæðinu eftir strandveiðivertíðina, sem var þá nýlokið. Væri þessi tilgáta rétt var líklegt (og eðlilegt) að nóttin hefði verið valin til farar því myrkrið hylur allt......

Samt sem áður: Þarna var einhver búinn að útfæra þessa hugmynd mína á ágætan, en frekar öfgakenndan máta. Þessi gamli bíll var, þrátt fyrir að vera lélegur og lúinn, og þrátt fyrir að vera alltof lítill til að burðast með Skel26 á bakinu, nákvæmlega rétta stærðin undir Stakkanesið!

Haldið´að það væri munur að geta skotist á þennan hátt með Stakkanesið norður í Skagafjörð? Eyjafjörð? Skjálfanda, Náttfaravíkur og Fjörður?

....að maður tali nú ekki um Ísafjarðardjúpið!
Flettingar í dag: 396
Gestir í dag: 16
Flettingar í gær: 306
Gestir í gær: 25
Samtals flettingar: 66074
Samtals gestir: 16986
Tölur uppfærðar: 1.5.2024 11:06:13


Tenglar