Gunnar Th.
Fjórða kerfið.....


28.12.2011 20:00

Í pottinn búið.

Það kom fram hér neðar, í pistlinum um Magnús Heinason hinn færeyska, að ég hef verið að grufla í breskum togara- netsíðum undanfarið. Þetta getur verið afar skemmtilegt og fróðlegt föndur, þrátt fyrir að vera á stundum dálítið raunalegt. Þannig hef ég verið að rekast á myndir af skipum sem hafa komið verulega við sögu hér heima án þess að myndir af þeim hafi birst með fréttum, stundum hafa birst illa prentaðar myndir og þá aðeins einu sinni. Bækur sem greina frá skipatengdum atburðum, s.s. "Þrautgóðir á raunastund", innihalda aðeins lítinn fjölda mynda sem tengjast efninu. Ef ég á að taka eitt dæmi er tilvalið að nefna breska togarann Kingston Peridot, sem talinn er hafa farist við Mánáreyjar í janúarlok 1968. Einhverra hluta vegna sá ég þennan togara alltaf fyrir mér með ljósgráan skrokk og háa, tvílita brú, ekki ólíkan Cesari sem strandaði á Arnarnesinu 1971 og flestir Ísfirðingar á miðjum aldri og yfir muna eftir. Ég man ekki til að hafa nokkurn tíma séð mynd af Kingston Peridot og þessi hugmynd var trúlega tengd öðrum Kingston-togurum sem voru tíðir gestir á Ísafirði á árum áður. Síðasti viðkomustaður Kingston Peridot fyrir slysið var Ísafjörður en það er ólíklegt að ég hafi séð skipið þá, hefði svo verið hefði ég strax við fréttir af slysinu munað útlit skipsins. Á netsíðunni -http://hulltrawler.net- má finna ágæta mynd af Kingston Peridot og eins og sjá má líkist skipið ekkert þeirri mynd sem geymst hafði í mínum huga yfir fjörutíu ár:



Bein leið á síðuna sem geymir allar upplýsingar um skipið er: http://hulltrawler.net/Sidewinder/Vessel%20-%20Kingston/KINGSTON%20PERIDOT%20H591.htm


Annað álíka mál: Árið 1955 fórust tveir breskir togarar í fárviðri norður af Vestfjörðum. Báðir höfðu sent út hjálparbeiðni vegna ísingar, skip í landvari reyndu að snúa til hjálpar en slíkur var veðurhamurinn að ekki varð við neitt ráðið og báðir togararnir fórust með allri áhöfn. Þessi skip hétu Lorella og Roderigo, og voru bæði frá Hull. Ég hafði aldrei séð myndir af þessum skipum en gekk með þá hugmynd að bæði hefðu verið togarar af eldri gerð. Ekki var það nú aldeilis, eins og grams á -hulltrawler.net- leiddi í ljós.

Í því sambandi er kannski rétt að nefna, svona ef einhver annar en ég skyldi hafa áhuga, að frásögn af slysinu í bókinni "Þrautgóðir á raunastund", 5. bnd. bls.75 er mjög á skjön við þá sem birtist á -hulltrawler.net- og ég freistast til að taka sem réttari. Ég ætla ekki að tyggja beint upp úr bókinni, hún er aðgengileg á hverju bókasafni þeim sem ekki eiga ef menn vilja skoða og bera saman. Enska frásögnin er í stuttu máli á þann veg að togarinn Kingston Garnet hafi verið í vandræðum þann 23. janúar 1955 og munu vandræðin hafa tengst veiðarfærum flæktum í skrúfubúnaði. Lorella og Roderigo voru í samfloti á leið í landvar undan síversnandi veðri og Lorella naut aðstoðar Roderigo vegna bilunar í radar. Kingston Garnet sendi út hjálparbeiðni og sneru bæði Lorella og Roderigo við til að aðstoða skipið ef þurfa þætti. Þann 24. tókst skipverjum á K.G. að losa skrúfuna og stefndu skipinu til landvars. Boð um breytinguna virðast ekki hafa náð til Lorella og Roderigo - hafi slík boð verið sent út á annað borð - og bæði skipin sigldu því áfram út í síversnandi veður að uppgefnum ákvörðunarstað. Þegar þangað kom var K.G. löngu farinn í skjól en veðrið hins vegar orðið svo slæmt að skipstjórar Lorella og Roderigo þorðu ekki að snúa skipunum undan storminum í átt til lands. Þeir tóku þann kost að halda skipunum upp í vind og sjó í þeirri von að veðrið lægði. Vonin brást, báðum skipunum hvolfdi vegna yfirísingar og áhafnirnar fórust. Ef marka má bresku netsíðuna hafa aðeins liðið u.þ.b. tvær og hálf klst. milli slysanna sem kostuðu fjörutíu breska sjómenn lífið.

Eins og áður segir er frásögn í bókinni "Þrautgóðir á raunastund" mjög á annan veg, bæði hvað varðar aðdraganda og eins slysið sjálft. Ég reikna með að frásögnin í bókinni sé unnin upp úr skýrslum SVFÍ og eflaust hefur verið vandað til þeirra eins og frekast var unnt, á sínum tíma. Breska frásögnin er hins vegar líklegast unnin eftir viðtölum við sjómennina á þeim togurum sem voru á svæðinu og fylgdust með fjarskiptum þeirra á milli.

Ég set hér tengingu á umfjöllun -hulltrawler.net- um Roderigo, sem eins og sjá má var yfir 800 tonna skip og aðeins fimm ára gamalt:

http://hulltrawler.net/Sidewinder/Vessel%20-%20R/RODERIGO%20H135.htm

Tilsvarandi frásögn og lýsing á togaranum Lorella, sem var öllu minni og sláandi líkur "nýsköpunartogurum"  okkar Íslendinga:

http://hulltrawler.net/Sidewinder/Vessel%20-%20L/LORELLA%20H455.htm

Að síðustu set ég tengingu á lýsingu togarans Kingston Garnet sem, ef marka má frásögn bresku netsíðunnar, átti nokkra sök á því hversu slysalega tókst til - þ.e. ef menn vilja leita sakar. Eins og sjá má í tækniupplýsingum var togarinn rifinn árið 1968:

http://hulltrawler.net/Sidewinder/Vessel%20-%20Kingston/KINGSTON%20GARNET%20H106.htm

Að síðustu væri gaman að vita hvort einhver leggur á sig að lesa gegnum allar þessar einskisnýtu upplýsingar...................Gott í bili!
Flettingar í dag: 90
Gestir í dag: 8
Flettingar í gær: 274
Gestir í gær: 13
Samtals flettingar: 62733
Samtals gestir: 16427
Tölur uppfærðar: 16.4.2024 14:03:25


Tenglar