Gunnar Th.
Fjórða kerfið.....


Færslur: 2016 Janúar

28.01.2016 07:54

Pakkatilboð.


Þeir voru að hringja til mín frá Símanum. Þeir hringdu raunar ekki sjálfir heldur fengu til þess unga dömu sem líklega hefur verið í svona kvöld - úthringivinnu. Ég giska á það vegna þess að þó hún væri öll af vilja gerð gat hún ekki svarað einföldum spurningum heldur aðeins þulið upp það sem greinilega stóð á blaði fyrir framan hana. 

Megininntakið í því sem hún hafði að segja var að nú ætlar Síminn að breyta sjónvarpsáskriftarpökkum sínum - eina ferðina enn. Hún var, blessunin að láta mig vita af þessu og í leiðinni að bjóða mér áskrift að glænýjum - takið eftir, glænýjum.... - áskriftarpakka sem innfæli nær allar stöðvar sem Síminn hefði uppá að bjóða. Ég spurði hvað þessi nýi pakki kostaði á mánuði. 

Jú, aðeins tæpar sjö þúsund krónur! 

Ég spurði hvað ég væri að borga fyrir þann pakka sem ég er nú með og líkar prýðilega við (ég veit svo sem alveg hvað ég er að borga en vildi gjarnan að það kæmi fram þarna svo samanburðurinn væri skýr)

Jú, tæpar þrjú þúsund krónur á mánuði!

Ég spurði hvort Síminn hefði nokkurn tíma breytt áskriftarpökkum á þann veg að viðskiptavinurinn nyti lægra verðs en betri þjónustu. Því gat hún ekki svarað enda líklega ekki ráðin til annars en að lesa texta af blaði. Þessvegna sagðist ég heldur engu geta svarað fyrr en ég hefði skoðað áskriftarpakkana á heimasíðu Símans. Með það kvöddumst við í vinsemd.

Svo fór ég að skoða pakkasamsetningarnar. Ég sá þrjá pakka. Einn kostaði 490 krónur og var fátt nema umbúðirnar. Annar kostaði 4900 krónur ( verðið er reyndar á reiki eftir því hvar á síðu Símans er skoðað, því þar sem stöðvarnar eru taldar upp er verð pakkans sagt 4.390 kr.) og fól í sér Norðurlandastöðvar og þónokkrar fleiri, alls 27 stöðvar hafi ég talið rétt. Þar eru td. tvær franskar fréttastöðvar (sem er útilokað að ég geti haft nokkurt gagn af) og VH1, sem sjónvarpar myndrænni músík allan sólarhringinn. Sú stöð er í núverandi pakkanum mínum og er hötuð til dauðans því í hvert sinn sem ég hleyp yfir hana á stöðvarápi þarf ég að lækka í hljóðinu - hún er nefnilega miklu hærri en aðrar rásir. Svo er þarna í boði aðgangur að BBCBrit. sem sjónvarpar breskum skemmtiþáttum.

Ókei. Hafið þið horft á BBC skemmtiþætti? Ég hef reynt það og Jesús Kristur á krossinum hvað þeir eru leiðinlegir!! Ég myndin næstum borga fyrir að losna við þessa grátlegu stöð úr pakkanum!

Svo er þarna Boomerang,  sem sjónvarpar eingöngu barnaefni. Hvað skyldu nú vera mörg börn í heimili hér í Höfðaborg?

Því er fljótsvarað. Hér búa tvö stór börn sem horfa stundum á Tomma og Jenna þegar þau eru að bugast á breskum og sænskum skemmtiþáttum....gefum Boomerang smá séns.

Svo er raunar í þessum pakka aðgangur að National Geographic, svona sem gulrót fyrir þá sem ekki horfa á neina af hinum í pakkanum. Vissulega frábær stöð en maður borgar bara ekki 4.900 kr. á mánuði fyrir áhorf á hana eina. Ekki frekar en hálfan handlegg fyrir aðgang að Stöð tvö sem ég hef ekki keypt í áraraðir. 

Um ítalskar og spænskar sjónvarpsstöðvar ætla ég ekkert að segja, annað en að ég hef jafnlítið gagn af þeim og pólska ríkissjónvarpinu sem einnig er í pakkanum sem kostar 4.390 eða 4.900 eftir því hvar maður er staddur á síðu Símans.

Eitt má ég samt til með að nefna: Danska sjónvarpsstöðin DR1 hefur verið að senda út frábæra 50 mín. þætti um Poirot, eftir sögum Agöthu Christie. Ég reyni eins og ég get að fylgjast með þeim. Svo bregður fyrir á DR1 þáttum um Taggart og fleira í þeim dúr ásamt ágætis bíómyndum. DR1 er þessvegna trúlega sú stöð sem ég horfi mest á fyrir utan íþróttastöðvar eins og Eurosport og Extreme. Vilji ég hins vegar halda þeim tveimur síðasttöldu verð ég að kaupa stöðvapakkann uppá tæpar sjö þúsund eftir breytinguna hjá Símanum!

Innheimtufyrirtæki á höfuðborgarsvæðinu auglýsir mikið undir slagorðinu: "Ekki gera ekki neitt" og allir skilja meininguna. Nú er ég að hugsa um að gera þveröfugt við þetta slagorð og gera hreint ekki neitt í þessum pakkamálum Símans. Það hallar nefnilega til sumars og á sumrin er lítið horft á sjónvarp í Höfðaborg. Þess vegna er ég að hugsa um að gera nákvæmlega ekki neitt. Ég held aðeins áfram að borga þennan pakka sem ég borga í dag svo lengi sem ég verð rukkaður um hann en þegar breytingar Símans taka gildi og núverandi pakkanum mínum verður lokað er það Síminn sem tapar peningum en ekki ég. 

Mjög einfalt.
16.01.2016 11:33

Stakkanes og ekki Stakkanes.


 Það er margt skrýtið. Eitt af því sem er skrýtið er internetið og umgengni manna um annarra efni. Ég hef verið að velta þessu dálítið fyrir mér undanfarnar vikur eða svo. Tilefnið er að fyrir langa löngu stofnaði ég síðu á Facebook. Ég hef ekki verið sérstaklega spenntur fyrir Facebook, aðallega vegna þess að mér hefur fundist nægur tími fara í að halda úti þessarri síðu og óþarfi að bæta þar neinu við. 

Nokkrum sinnum hefur það gerst að menn hafa haft samband við mig og beðið um leyfi til að birta einstakar myndir  - eða fleiri saman - á einhverjum Facebook hópsíðum eða af öðrum tilefnum. Undantekningalaust hef ég gefið slík leyfi, þó með því skilyrði að tekið væri fram hvaðan myndirnar væru fengnar.

Fyrir stuttu ákvað ég að laga til þessa Facebook síðu mína, lagfæra notandanafnið og setja inn myndir á hana. Ástæðan fyrir ákvörðuninni var margþætt en helst þó að skipa- og bátaáhugamenn hafa í auknum mæli verið að flytja sig á þær slóðir með sína visku. Einnig var sá auglýsingamarkaður sem ég helst fylgdist með að færast meira og meira inn á Facebook. Ég rak mig á þetta þegar ég keypti fyrra mótorhjólið og fór að leita að búnaði tengdum því á þeim auglýsingamarkaði sem mér var tamastur, þ.e. bland.is. Mér var bent á að mun vænlegra væri að finna slíkan búnað í auglýsingum á Facebook, þar sem flæðið væri mun meira og tengingarnar betri. Þegar ég svo fór að skoða miðilinn betur og læra dálítið á hann ákvað ég að bæta þar aðganginn minn og nýta hann meira. Ég tengdi mig fljótlega inn í nokkra báta- og bílahópa og hóf að lauma þar inn einni og einni mynd úr safninu. Fyrirliggjandi upplýsingar um viðk. myndir hef ég jafnan látið fylgja með enda hafa skýringalausar myndir alltaf minna gildi - amk. finnst mér það.

Ég hef verið að renna gegnum þessa hópa og eins aðra sem eru opnir öllum en eru á mínu áhugasviði og komist að dálitlu sem ég ekki átti von á. Í minnst tveimur hópanna hef ég fundið myndir úr mínum söfnum í nokkru magni. Á öðrum staðnum birtir þær maður sem ég vissulega gaf leyfi á sínum tíma - með sama fororði og fyrr. Því er mætt með því að setja einungis " stakkanes.123.is " fyrir ofan myndirnar en ekki stafkrók til frekari skýringar. Þetta finnst mér ekki góðar tvíbökur, eins og maðurinn sagði.

Á hinum staðnum birtast einnig myndir sem ég gaf samskonar leyfi fyrir á sínum tíma en þar er ekki haft fyrir neinum upprunaupplýsingum - ekki er að finna eitt einasta orð um það hvaðan myndirnar eru fengnar. 

Í gærkvöldi fann ég þriðja staðinn þar sem mynd frá mér hefur verið notuð. Í það sinn hefur höfuðið verið bitið af skömminni því sú mynd var með vatnsmerkinu STAKKANES  í einu horninu, eins og flestar mínar myndir. Myndin hefur verið klippt til svo vatnsmerkið er horfið en miðja hennar síðan stækkuð og endurnýtt.

Ég veit að sú mynd ásamt öðrum tengdum var í höndum þriðja aðila með fullu leyfi en nafn hans kemur hvergi fram heldur.

Þetta finnst mér heldur ekki góðar tvíbökur. Kannski er illt að varast þetta og mér sýnist menn nota myndir hver frá öðrum og eins af opinberum síðum hægri vinstri án þess að geta heimilda. Ég brá á það eina ráð sem mér er fært: Að loka öllum myndaalbúmum á 123.is síðunni minni með lykilorði. Kannski verður það til einhvers, kannski ekki.

Nóg um það. Það er laugardagur, frostlaust og fallegt veður. Hentar vel að fara út og viðra hundinn eða þvo götusaltið af bílnum. Svo á að opna sýningu í dag kl. 16 í Sjóminjasafninu á Granda, um pólska flutningaskipið Wigry og endalok þess við Mýrar. Hver veit nema maður kíki þangað?

Eigið góðan dag......

07.01.2016 17:21

Tvö þúsund og átján.


 Nei, ekki alveg - enn eru tvö ár í 2018. Samt situr þessi tala í mér, ekki sem ártal heldur brot úr gömlum dægurlagatexta þar sem sagði frá óvenjulegu barnaláni fjölskyldu einnar sem hélt áfram að fjölga sér  "uns þau urðu tvö þúsund og átján".  Ég er svo undarlegur til höfuðsins að ég er handviss um að þetta brot ásamt fleirum úr sama texta á eftir að óma í hausnum á mér allt það ár.

Nú er aðeins tvöþúsund og sextán og ætti að vera nægur tími til að losa sig við kvillann - ef það er þá kvilli. Áramótin fóru fram eins og áður var fram komið, þ.e. við Bassi sátum tveir saman í Höfðaborg og horfðum á sjónvarp. Hann horfði samt eiginlega meira á nammiboxið á borðinu. Í Höfðaborg er venjulega til nóg nammi. Við álítum nefnilega að allt sem smakkast vel sé á sinn hátt nammi og af því hér er enginn sem stjórnar eða sér um matarinnkaup fyrir okkur feðga  þá kaupum við bara það sem er gott - semsagt nammi. Ég get upplýst það hér með af því aðeins örfáir lesa þetta og fer fækkandi, að til hátíðanna voru keypt inn fimm kíló af konfekti, fyrir utan 750gr öskjuna sem Óskabarnið gaf. Ég ánafnaði reyndar veislustjóranum okkar þeirri öskju, við Höfðaborgarþrenning höfðum nefnilega veislustjóra sem sá um allar meiriháttar máltíðir um jól og áramót. Það er einmitt sá sami veislustjóri sem er eigandi kínversku jólaseríunnar steindauðu. Hin fimm kílóin höfum við Bassi alveg séð um.

Þegar ég kom heim úr vinnu í gær, á þrettándanum, mátti glöggt sjá gilda sönnun á reglunni sem ég útlistaði þann 21. des. sl. Þótt ekki væri sérlega bjart í lofti var greinileg lengingin á deginum. Þess vegna bendi ég enn á þessa einföldu reglu um dagsbirtu með orðum fengum beint úr þykku bókinni: "...og hafið þetta til marks....".

Þannig er nú það. Fyrir stuttu fullyrti ég að ég ætlaði á mótorhjóli til Færeyja á komandi sumri. Mér eru alveg ljósir annmarkarnir á fullyrðingunni og þess vegna ætla ég að nota Norrönu sem stökkpall því þótt mótorhjól séu orðin þokkalega fullkomin er enn ófært á þeim til Færeyja án þess að annarra farartækja njóti við. Ég fékk óbeinar athugasemdir við framsetningu fréttarinnar varðandi þetta atriði en tek fram að þær voru allar frá lítt þenkjandi fólki og því illa marktæku. Til að taka af allan vafa hef ég nú þegar pantað, greitt og gengið frá farinu með færeysku trillunni Norrönu þann 16. júní n.k. og næst þegar fæti verður stigið á fósturjörðina verður kominn sá 23. Ennfremur er búið að hnýta alla lausa enda varðandi gistingar og ég get upplýst að þær eru ekki af verri endanum. Ég fer ekki einn, eins og líka kom fram og þegar maður gistir með General Bolt-on dugar helst ekkert minna en hótel Hilt-on.

Þetta verður ekki lengri pistill því í mörg horn er að líta þessa dagana. Það er aðeins eitt atriði sem ég vil koma að, til að fyrirbyggja misskilning. Margir halda að áhugi á vélum og tækjum erfist einungis í karllegg. Það þarf ekki að vera rétt eins og meðfylgjandi mynd sýnir. Hún mamma gat eitt og annað.......  • 1
Flettingar í dag: 130
Gestir í dag: 30
Flettingar í gær: 314
Gestir í gær: 40
Samtals flettingar: 635395
Samtals gestir: 90510
Tölur uppfærðar: 13.12.2018 07:36:26


Tenglar