Gunnar Th.
Fjórða kerfið.....


Færslur: 2012 Ágúst

21.08.2012 22:46

Átta daga ferðin #4a (fimmtudagur til kvölds)

Fyrst stuttur inngangur: Í gær kom til mín fullorðinn maður sem ég hef aldrei séð og þekki ekki neitt. Hann þakkaði mér fyrir skrifin og sagðist lengi hafa fylgst með þeim. Fleiri orð hafði hann yfir sem ég tíunda ekki, en ég viðurkenni að ég fór hálfpartinn hjá mér. Að hluta vegna hróssins, að hluta vegna þess að ég skammaðist mín fyrir að sinna ekki síðunni betur. Nú er klukkan 22.50 að kvöldi, ég er búinn að laga einn bíl í kvöld og fara í heita pottinn í Laugardalslauginni. Nú skal skrifað þar til augun lokast!!

Sjötti dagurinn, fimmtudagurinn átjándi júlí, heilsaði með blautum kossi! Það rigndi líkt og hellt væri úr fötu á Flateyri og til að sýna veðurguðunum að okkur stæði nákvæmlega á sama skelltum við Dagný okkur í sundlaugina og blotnuðum ennþá meira.  Að sundferð lokinni kvöddum við bæinn og tókum stefnu inn Önundarfjörðinn, yfir Gemlufallsheiðina til Dýrafjarðar en beygðum þar til hægri út að Núpi. Ætlunin var að heimsækja Skrúð, gróðurreitinn sem séra Sigtryggur stofnaði til fyrir heilli öld. Það rigndi enn að Núpi og moldarvegurinn sem lá frá þjóðvegamótunum og út með firðinum var eitt svað. Þegar við stigum út úr ferðadrekanum var hann ekki lengur grár og svartur heldur móbrúnn uppúr og niðurúr. Við gengum um skrúðgarðinn sem var afar fallegur þrátt fyrir veðrið, enda verður allur gróður einhvern veginn enn grænni í vætu. 

Eftir heimsóknina í Skrúð var haldið áfram til Þingeyrar. Enn rigndi og þar sem ekki gaf til útivistar eða gönguferðar ákváðum við að heimsækja nýlega opnað karffihús í Simbahölinni.  Simbahöllin er áberandi timburhús sem skagar dálítið út í aðalgötu bæjarins, hátt og reisulegt. Í mínu barnsminni var þetta hús eitt af  kennileitum Þingeyrar. Það skartaði m.a. áberandi pílárarekkverki sem svalahandriði á efri hæð. Fleiri eftirminnileg útlitssérkenni hafði það einnig.  Í áranna rás hafði húsið látið á sjá og þau síðustu var það aðeins niðurnídd ruslageymsla með brotnar rúður og lafandi þakrennur niður ryðbrunna útveggina. Gamli sjarminn snerist eiginlega upp í andhverfu sína og þessi vanhirti kumbaldi skagaði nú frekjulega út í þegar of mjóa aðalgötuna og dró þannig til sín frekar neikvæða athygli.  Kannski var þessi fyrirferð ákall til vegfarenda, eins konar hjálparbeiðni hússins sem smám saman grotnaði niður fyrir blindum augum þeirra sem hjá gengu og voru löngu hættir að sjá það sem næst þeim stóð. Enda fór það svo að loks er einhver heyrði kallið var svarað á erlendri tungu - ungt par frá sitthvoru Evrópulandinu sameinaðist í áhuga á niðurníddu timburhúsi í smáþorpi þriðja landsins. Þau eignuðust Simbahöllina og með þrautseigju hafa þau snúið hjólinu til baka. Simbahöllin skagar enn fram í aðalgötuna, ekki lengur frekjulega heldur eins og myndarleg hefðarfrú sem gengur í veg fyrir gesti sína og býður þá velkomna. Innandyra var boðið uppá kaffi og vöfflur að hætti hússins, og við Dagný vorum bæði södd og sæl þegar við kvöddum og gengum yfir götuna, að handverkshúsi þeirra Dýrfirðinga sem einnig hýsti upplýsingamiðstöð ferðamanna.

Simbahöllin á VIMEO: http://vimeo.com/22998392

Inni á gólfi stóð lítil skekta og þjónaði sem uppstilling fyrir hannyrðir, m.a. heimaprjónaðar lopapeysur. Annað okkar skoðaði lopapeysurnar með fagmannlegu auga, hitt virti fyrir sér skektuna, sem var sérstök að því leyti að þótt hún væri ekki sérlega borðlág voru aðeins fjögur borð í síðunni. Svo breið borð hafa komið af afar sveru tré og ekki man ég eftir að hafa oft séð svo mikla borðbreidd seinni árin. Líklega er búið að höggva öll þessi gömlu tré úti í heimi og svona viður ófáanlegur í dag. Kannski má líka af ofanrituðu ráða í hvort okkar skoðaði peysurnar og hvort skektuna.......

Afgreiðslukonan var innfædd og ég mátti til að spyrja hana um viðhald á veginum hans Elísar Kjarans um Svalvoga og Lokinhamradal til Arnarfjarðar. Úr því varð skemmtilegt samtal þar sem m.a. kom fram að Þingeyringar hafa reynt að sveigja umferðarstrauminn um þennan þrönga veg í þá átt að hann sé ekinn úr Arnarfirði til Dýrafjarðar. Með því vinnst tvennt: Annars vegar er augljós kostur að umferð liggi sem mest í aðra áttina á vegi þar sem afar erfitt er - og á köflum nær ómögulegt - að mætast á farartækjum sem eru plássfrekari en reiðhjól. Hins vegar er það líka augljós kostur að taka á móti vegfarendum sem telja sjálfa sig rétt nýsloppna frá bráðum lífsháska, svo sem algengt er um farþega þeirra hraustmenna sem leggja í veginn og ljúka honum, með áfallahjálp í formi andlegs og líkamlegs fóðurs. Af slíku er nóg á Þingeyri en minna um Arnarfjarðarmegin og ef frá er talin kaffisala að Hrafnseyri mega hríðskjálfandi úttaugaðir ferðalangar aka alla leið í Flókalund til að finna rúmgóðan áningarstað með sundlaug og öðru því sem þarf til að hreinsa sig eftir svitabaðið.

Ég fór þennan veg fyrir löngu og var ekki á því að bjóða mínum ferðafélaga uppá hann að svo stöddu. Við vorum á suðurleið, fylgdum ákveðinni ferðaáætlun og kvöddum því Þingeyri og héldum yfir til Arnarfjarðar um Hrafnseyrarheiði. Þegar malbikinu sleppti rétt sunnan bæjarins  tók við gamalkunnur moldarvegurinn. Hann hafði greinilega verið rykbundinn stuttu áður en fór að rigna því yfirborðið var seigfljótandi drullupyttur. Í speglunum sá ég hvernig leirinn hlóðst á hliðar ferðadrekans, svo fór líka að hlaðast á speglana og ég hætti að sjá nokkuð..... Það var fyrst er við renndum í hlað að Hrafnseyri og opnuðum bíldyrnar að við sáum tveggjasentimetra þykkt leirlagið á stigbrettunum. Það var dagsljóst að við höfðum tekið með okkur drjúgan hluta slitlagsins á heiðinni niður á bílaplanið við Hrafnseyri. Okkur tókst að komast niður úr bílnum án þess að maka okkur út í leðju og alla leið inn í burstabæinn sem hýsir að hluta safn um Jón forseta Sigurðsson og að hluta veitingasölu. Myndavélinni var lyft og ég tók tvær sem ég má til að birta þó ég viti fyrirfram að ég fái bágt fyrir. Fyrirsætan var nefnilega eins og flottasta Álafoss-lopapeysuauglýsingafyrirsæta. Sjáiði bara:

Svo voru líka teknar myndir af mér, en í samanburðinum líkjast þær kannski mest myndum af sveitarómaganum og niðursetningnum sem svo margar gömlu sveitasagnanna greina frá:Líklega fer best á því að ég láti frekari myndbirtingar af okkur tveimur eiga sig en haldi mig frekar við ferðamyndirnar.......

Eftir áninguna var haldið inn með firði og næst staðnæmst við Fjallfoss, sem oftast er nefndur Dynjandi eftir býlinu sem þar stóð. Við Dynjanda var samankominn hópur þýskra ferðalanga á húsvögnum af öllu tagi. Það var lítið svigrúm fyrir tvo dvergschnauserhunda með gríðarlega hreyfiþörf og við færðum okkur út fyrir hópinn þangað sem þeir Tjörvi og Orri gátu hreyft sig að vild. 

Þegar ég ek um Dynjandisheiði er fastur liður að stöðva á vegbrún ofan við botn Geirþjófsfjarðar og líta yfir sögusvið Gísla sögu Súrssonar. Þarna niðri, við bæinn Langabotn, dvaldi Gísli undir lok ævinnar og þar var hann veginn. Í þessarri ferð var engin undantekning gerð.Okkar áætlun gerði ráð fyrir því að aka af Dynjandisheiði niður í Trostansfjörð og þaðan um Reykjarfjörð og Fossfjörð til Bíldudals. Það saxaðist óðum á daginn og við ókum viðstöðulaust utan hvað áð var stutta stund við fossinn í Fossfirði - við bæinn Foss, hvað annað?

Ekki var höfð viðstaða á Bíldudal heldur ekið gegnum þorpið úr Ketildali allt til Selárdals. Mig langaði að ljúka gömlu ætlunarverki, alltof seint að vísu en betra er seint en aldrei. Ég hafði semsé aldrei komið heim að Uppsölum Gísla Gíslasonar. Þrátt fyrir góðan vilja og allnokkrar ferðir á liðnum árum hafði ég aldrei komið heim að bæ. Ég hafði heyrt að eftir að Gísli hvarf af sjónarsviðinu hefðu óprúttnir ferðamenn lagst á bæinn, skemmt og rænt munum og að síðustu hefði fátt verið eftir markvert annað en húsið sjálft. Þessutan hafði ég heyrt að einhvers konar hollvinahópur hefði lagt í endurbætur á húsinu og til stæði að gera það að safni um þennan sérstæða einbúa. Eftir stuttar vangaveltur fann ég leiðina sem mest virtist vera ekin fram að Uppsölum, lagði á hana í fjórhjóladrifi á ferðadrekanum og veitti ekki af.Síðasti spotti vegslóðans heim að bænum var sýnu bestur, en mér fannst einhvern veginn svona hálfgert virðingarleysi að þenja bílinn alla leið heim á hlað. Honum var því lagt við túnfótinn og ég gekk síðasta spölinn. Húsið að Uppsölum var í miklu betra ástandi en ég hafði búist við. Á því var nýlegt þak, gluggar og gler sömuleiðis, útihurðin var líka nýleg að sjá og í henni var venjuleg lykillæsing en ef ummerkjum á karminum mátti merkja að einhver eða einhverjir höfðu ekki verið á því að láta læstar dyr stöðva sig. Kannski var það þess vegna sem dyrnar voru nú ólæstar en þar á móti ekkert innandyra sem vert var að stela eða skemma. Ég opnaði og get alveg viðurkennt að mér fannst ég hálfpartinn vera að fremja helgispjöll þegar ég gekk inn í þetta fyrrum ríki einbúans.Eftir að hafa skoðað húsið myndaði ég utandyra út yfir ríkið hans Gísla, fjárhúsin hans neðst í túninu og trjágarðinn sem hann ræktaði á svipuðum slóðum.

Á leiðinni til baka höfðum við stutta viðdvöl í kirkjugarðinum í Selárdal. Á leiði að kirkjubaki, neðarlega í garðinum var þessi einfalda plata: Næsti viðkomustaður okkar var Brautarholt, þar sem hópur þýskra áhugamanna hefur unnið að endurbótum á verkum Samúels bónda Jónssonar. Þessi verk, sem grotnað höfðu niður að Samúel látnum, urðu landskunn eftir heimsóknir Ómars Ragnarssonar til Gísla á Uppsölum en fátt ef þá nokkuð var gert til að varðveita þau. Nokkuð mun þó Jón Kr. Ólafsson  söngvari og safnari á Bíldudal hafa lagt af mörkum en skriður komst fyrst á málin eftir að þessi þýski áhugamannahópur kom til sögunnar. Ég kann ekki nánari skil á þessum mannskap en verkin þeirra tala sínu máli. Ég kom þarna 1987, þegar hnignunin var alger og sé því muninn á því sem nú er orðið:

M.a.s. líkanið af Péturskirkjunni í Róm, sem Samúel vann úr eldspýtum og -stokkum, en var löngu eyðilagt, hefur verið endurgert:Sama gildir um altaristöfluna sem sgan segir að hafi verið kveikjan að kirkjusmíðinni. Þessa töflu á Samúel að hafa smíðað og viljað gefa Selárdalskirkju. Gjöfinni á að hafa verið hafnað svo Samúel var sagður hafa byggt eigin kirkju yfir töfluna. Hér er hún komin, endurgerð:Húsið sem Samúel byggði sem vinnustofu hefur verið endurgert og er hið reisulegasta:Ljónagosbrunnurinn hefur verið endurbyggður eins og sjá má:Að baki vinnustofunnar er hafin endurgerð íbúðarhússins. Það hús var í raun ónýtt enda af vanefnum gert, líkt og vinnustofan og kirkjan og að mestu byggt úr timbri. Af því stendur aðeins annar gaflinn, þunn og morkin steinsteypan er studd stífum og stoðum:Húsgrunnurinn sjálfur var ónýtur og hér er kominn sökkull að vandaðri eftirgerð íbúðarhússins, sem í framtíðinni verður væntanlega athvarf listamanna sem kjósa að dvelja um stund í Selárdal:Meðan hún Dagný töfraði fram hátíðarkvöldverð um borð í ferðadrekanum tölti ég frá Brautarholti niður á bakkana ofan fjörunnar. Þar standa nokkrar húsarústir í misjöfnu ásigkomulagi. Þeirra á meðal eru leifar býlisins að Kolbeinsskeiði, eða bara Skeiði. Þarna var sá góði maður Sveinn Árnason, Svenni rakari, upprunninn. Mér skilst að fyrir dyrum standi endurgerð íbúðarhússins að Skeiði. Þeir sem þar eiga hlut að máli munu þurfa að taka báðar hendur úr vösum:Það er dálítið athyglisvert að skoða hvernig húsið hefur verið steypt, því bárujárnið er innan á steypunni. Þarna er tréverkið í veggnum farið, væntanlega hefur bárujárnið verið útklæðning hússins en síðan verið steypt utan á það. Þetta minnti dálítið á annað, afar sérstætt hús sem ég skoðaði í fyrrahaust, nefnilega stórhýsið í Öxney á Breiðafirði. Það hús er innflutt, tilhöggvið í Noregi og sett saman í Öxney. Í tímans rás fúnaði tréverkið neðantil og til að þétta húsið var steypt utan á neðri hæð þess - ekki forskalað, heldur steypt miklu þykkra lag, í raun sjálfstæður veggur utan á þann gamla.Hér að ofan er sjávarhlið hússins að Skeiði og kannski er húsið bara furðu heillegt, þrátt fyrir allt?  Að neðan er horft frá sama stað út eftir bökkunum til vesturs:Þessar útihúsarústir stóðu rétt utan við Skeið, en ekki veit ég hvort þær tilheyrðu því býli:Að neðan er horft frá Skeiði upp til Brautarholts, fyrir miðri mynd:Þessi tafla stendur á bökkunum og  var reist til minningar um sjóslysin sem urðu haustið 1900, eins og lesa má. Um þessi slys má lesa víða, m.a. í einu af ársritum Sögufélags Ísfirðinga, muni ég rétt.Þegar ég kom aftur til bíls beið veislumáltíð, eins og fyrr segir. Að henni lokinni var enn lagt land undir hjól og ekið til baka inn á Bíldudal, þaðan yfir Hálfdán og út í Sveinseyrarþorp í Tálknafirði. Þar er mjög fínt tjaldsvæði sem við áttum aðgang að með útilegukortinu okkar. Klukkan var líklega langt gengin í ellefu þegar okkur bar að og svæðið nokkuð þéttsetið. Við fundum okkur þó þokkalegan blett til að nátta á og þar með lauk fimmtudeginum nítjánda júlí. Framundan var föstudagur og við vorum ekki alveg á heimleið strax.......
14.08.2012 08:42

Átta daga ferðin #4

Ég er ekki alveg að standa mig! Síðan átta daga ferðinni lauk hafa verið farnar tvær, eins og myndaalbúmin gefa til kynna. Sú fyrri um og eftir verslunarmannahelgi, í Kerlingarfjöll, á Hveravelli og afram norður um til Sigló, um göng til Dalvíkur og af Þelamörk suður - Akureyri sleppt. Sú síðari um nýliðna helgi austur í Meðalland, að Fjaðrárgljúfri, að flugvélarflakinu á Sólheimasandi og um safnið að Skógum. Það er ekki seinna vænna að hysja upp um sig og skrá efnið áður en það fyrnist! Vinnuvikan er dálítið þéttskipuð en um komandi helgi verður farið - ja, allavega eitthvert. Hvert, það er óvíst enn......

  • 1
Flettingar í dag: 50
Gestir í dag: 34
Flettingar í gær: 111
Gestir í gær: 45
Samtals flettingar: 642782
Samtals gestir: 91884
Tölur uppfærðar: 23.1.2019 04:07:41


Tenglar