Gunnar Th.
Fjórða kerfið.....


15.09.2014 08:41

Dalir og heiðar.


Einu sinni skrifaði ég pistil með yfirskriftinni: "Hálsar og skörð". Sá pistill snerist aðallega um Hrútafjarðarháls, "Lomberveginn", Siglufjarðarskarð og Haukadalsskarð. Mér finnst "Dalir og heiðar"  geta átt ágætlega við þennan pistil, sem spannar nokkra dali og tvær - jafnvel þrjár - heiðar ef allt er talið.

Upp var runninn sunnudagur 20. júlí og þrjár vikur liðnar frá heimkomu úr Færeyjaferð. Þrjár vikur án ferðalags eru langur tími af stuttu sumri og auk annarra heimaverka hafði tíminn verið nýttur (í rysjóttu veðri þó)  til að standsetja bátavagninn undir Stakkanesinu fyrir langferðina í Hólminn. Það var því ekki til setunnar boðið þegar veðurspáin gaf færi á ferðalagi. Drekinn var hlaðinn ferðafötum og búnaði, förinni heitið norður á við og lagt af stað um hádegi á sunnudegi, sem fyrr segir. Fyrsti viðkomustaður var að venju Borgarnes þar sem "lögáning" er í Geirabakaríi við brúarsporðinn. Kaffi, snúður og ástarpungar í poka - svo var verslað í forðabúrið í Bónusbúðinni við hliðina og að síðustu fékk Bassi að liðka sig örlítið á planinu. 

Það var "krúsað" upp Borgarfjarðarsveitir, umferðin var á móti en lítil með og við ókum viðstöðulaust upp í Norðurárdal. Einn er sá staður sem oft hefur verið horft til og ákveðið að heimsækja en aldrei orðið úr. Nú var nægur tími, við beygðum af leið og ókum heim að kirkjustaðnum Hvammi í Norðurárdal.






Heima við bæ voru tvær konur, mæðgur og við gáfum okkur á tal við þær. Við fengum leyfi til að skoða kirkjuna og í ofanálag ágætar upplýsingar um hús og gripi, ásamt því helsta sem viðkom sókn og sveit.




Elín Huld sýnir venjulega útskornum kirkjugripum sérstakan áhuga og þessi skírnarfontur var ekki undanskilinn enda afar fallegur:




Meiri fróðleik og fleiri myndir af Hvammskirkju í Norðurárdal má nálgast HÉR.




Úti í kirkjugarði lágu þessir legsteinar. Ekki höfðum við upplýsingar um þá en þeir voru þéttletraðir.




Á steininum má lesa eftirfarandi: "Hjer er lagður dánumaðurinn Ari Jónsson fæddur 6 (?) Marti 1766, giftur 30 október 1789, 5 barna besti faðir, deiði (svo) 19. nóv 1818. Sálir rjettlátra eru í Guðs hendi og eingin pína nær til þeirra. Spek.3:1"     

(tilvitnunin er úr Speki Salómons, 3:1)




Við kvöddum svo þessar ágætu mæðgur. þökkuðum fyrir okkur og héldum áfram norður heiðar. Á Holtavörðuheiðinni mætti okkur alger andstæða þess heiða himins sem á myndunum sést, lágþoka sem fylgdi okkur alla leið niður undir sjávarmál við Staðarskála og lá síðan í loftnetinu að Víðigerði þar sem áð var góða stund. Einn angi fjölskyldunnar var á ferð norður í landi um sama leyti, og á hlaðinu við Víðigerði sköruðust leiðir svo úr varð fundur. Upplýsingarnar sem við fengum gáfu til kynna áframhaldandi þoku norðurúr svo við ákváðum að fresta fyrsta áfangastað ferðarinnar en aka þess í stað beint út á Skagaströnd og nátta þar. Það var reyndar ekki nema rétt síðdegi en við álitum að dagurinn myndi ekki nýtast frekar til skoðunar þar sem þokunni myndi varla létta fyrr en með næsta morgni.

Ferðaáætlunin hljóðaði uppá Laxárdal þann sem liggur austar en samsíða Langadal. Laxárdalur var snemma á síðustu öld með þéttbýlli dölum og býli þar skiptu tugum þegar mest var. Þar fór svo eins og víðar, að breyttir búskaparhættir til sveita og bættir atvinnuhættir við ströndina drógu fólk úr dalnum sem smám saman lagðist í eyði, að frátöldum örfáum bæjum. 

Það má kalla Langadal rangnefndan ef dalirnir tveir eru bornir saman. Laxárdalur byrjar mun norðar en má vel kalla að nái allt suður undir Bólstaðarhlíð ef frá er talið smá haft við býlið Gautsdal. Þannig er Laxárdalur allmiklu lengri þegar allt er talið. Okkar ætlun var að aka inn dalinn norðanfrá og eins langt til suðurs og mögulegt væri með góðu móti, en snúa svo við og aka suður Langadal að Auðólfsstöðum og þar um Auðólfsstaðaskarð yfir að býlinu Gautsdal, sem - þrátt fyrir nafnið - hlýtur að teljast til Laxárdalsbæja. Væri mögulegt að aka frá Gautsdal og norðureftir ætluðum við að gera það.

Það var þoka á Blönduósi og það var þoka út Refasveit. Út að líta til Skagastrandar var einnig þoka og það var því beinlínis stórfurðulegt að aka inn í skafheiðan blett rétt við eyðibýlið Neðri-Lækjardal þar sem leið liggur af þjóðveginum og fram í Laxárdal. Við Elín Huld gátum ekki litið á þetta undur öðruvísi en sem beina ábendingu til okkar um að nýta tímann og skoða Laxárdalinn meða færi gæfist. Við beygðum því af vegi og lögðum af stað fram í þessa forðum miklu sveit. Sitthvoru megin vegar voru býlin Neðrimýrar, Efrimýrar og Sturluhóll. Þegar framhjá þeim var komið tók við brú á Laxá og býlið Skrapatunga undir Tunguhnjúki. Ekki var að sjá þar búskap en staðurinn virtist snyrtilegur sumardvalarstaður:



Við Skrapatungu kvíslaðist vegurinn, til vinstri lá hann niður að alkunnri Skrapatungurétt á Laxárbakka, til hægri lá leiðin inn dalinn. Næsti bær á leið okkar var Balaskarð. Ekki virtist það í ábúð frekar en Skrapatunga, þrátt fyrir reisulegan húsakost:




Það sama var uppi á teningnum að Mánaskál, snyrtilegur sumardvalarstaður en eiginlegur búskapur löngu úr sögunni. Nokkur tómstundahross voru í gerði:




Áfram héldum við inn dalinn og urðum meira en lítið hissa þegar við mættum jeppa með hestakerru í eftirdragi. Ekki áttum við von á fólki á ferli í þessu einskismannslandi, þótt við hefðum að vísu séð til mannaferða við Mánaskál og nærliggjandi sumarbústað. Á myndinni að neðan er horft til suðurs og eins og sjá má er vegurinn enn ágætur:




Það er víða fallegt í Laxárdal og þessi hvammur var ekki undantekning. Litlu nær og í hæðunum til hægri utan myndar mun hafa staðið býlið Úlfagil. Þar mátti marka greinilegar tóftir.




Litlu innar var býlið Núpur og mun vera það sem sjá má í hausmynd síðunnar sem áður var til vísað um Laxárdal, sjá aftur HÉR

Enn innar og á vegarenda samkvæmt okkar korti var býlið Illugastaðir. Ekki var sýnileg heimtröð að býlinu en þó virtist vera unnið þar að einhverjum endurbótum við sumarbústað. Svo áttuðum við okkur á að heimtröðin var svo gróin að hún var í raun aðeins grunn hjólför í háu grasi og einu sýnilegu ummerkin voru vegstubbur við Laxá og myndarleg brú yfir hana:




Vegurinn náði lengra en kortið sýndi enda voru skammt innan við Illugastaði bæir sem lengi var búið á þó ekki standi þar byggingar lengur. Við ókum stuttan spöl inneftir en vegurinn var þar orðinn svo slæmur yfirferðar að hraðar yrði farið á fæti en akandi. Þá var mál að snúa....




Í bakaleiðinni var þessi mynd tekin af býlinu Núpi og má vel bera saman við þá í hlekknum. Sú mynd hlýtur að vera nokkru eldri því eins og sjá má stendur nú aðeins hluti steyptu húsanna. Íbúðarhúsið er fallið og fjárhúsin, eftir standa hlaðan og bakhús hennar. Litli kofinn neðar í túninu er sýnilegur á báðum myndum:




Það var fljótekið til baka og von bráðar vorum við að nýju við Skrapatungu. Nú fórum við "hinn" veginn og ókum hjá réttinni að Laxá og yfir hana á vaði sem var allmiklu dýpra en hægt er að sjá á myndinni. Ferðadrekinn skriplaði á sleipu grjóti og sem snöggvast hélt ég að ég þyrfti að bleyta föt við að klöngrast út og setja í driflokur. Ekki fór þó svo og við verðlaunuðum okkur með stuttri áningu ofan árbakkans.






Að áningu lokinni var ekið rakleitt út á Skagaströnd og sest að í ágætum bás á ágætu tjaldsvæði......Um leið og Laxárdalnum sleppti tók þokan völdin að nýju og kvöldið var hálf hráslagalegt - eiginlega of kuldalegt fyrir bæjarrölt, ekki síst þegar við bættist þéttur rigningarúði. Það er ekki orðum aukið að almættið hafi rétt okkur þessa Laxárdalsstund að gjöf - svo sérstakt var að fá þennan eina stað þokulausan á stóru svæði sem annars var umlukið þykku, gráu teppi svo hvorki sá til vega né fjalla.

--------------------------------------------------------------------



Svo rann upp nýr dagur og mun bjartara veður. Þessi dagur lofaði sannarlega góðu og við skelltum okkur í sundlaugina á Skagströnd - eina af þeim sem enn höfðu ekki fengið sitt merki á sundlaugalistann margumtalaða. Þar með var úr bætt og eftir sund fengum við okkur göngutúr um hafnarsvæðið. Það gerði Edilon Bassi  líka og nýtti tímann til að velta sér upp úr dragúldnum fiskúrgangi. Lyktin var algerlega ólýsanleg enda skammaðist hann sín niður í loppur! Ekki var um annað að ræða en að baða hann með bryggjuslöngu úr vellyktandi dömusjampói og miðað við allt hans fas var ekki annað að sjá en honum þætti sú lykt ekki skárri en ýldulyktin. Við deildum ekki þeirri skoðun og við hlutum að ráða........




Við lögðumst í könnunarleiðangur um staðinn og þessi laglega vík er norðan Spákonufellshöfða við býlin Ásholt og Sólvang:




Tíminn flaug áfram og við lögðum land undir hjól að nýju. Trú þeirri stefnu sem mörkuð var í upphafi ferðar, hófst með heimsókninni að Hvammi í Norðurárdal og hljóðaði nokkurnveginn uppá að skoða sem flest af því sem við höfðum venjulega ekið framhjá, heimsóttum við kirkjuna að Höskuldsstöðum. Það eru fjöldamörg ár - ég má segja áratugir - síðan ég tók fyrst eftir þessarri reisulegu steinkirkju innarlega á Skagaströnd og þótti hún óvenjulega stór af sveitakirkju að vera. Margoft hef ég ætlað að skoða hana en aldrei orðið af - fyrr en nú:






Á skírnarfontinum fann Elín Huld það sem hún helst leitaði að: Fangamarkið S.Ó., merki Sveins Ólafssonar myndskera frá Lambavatni á Rauðasandi. Sveinn var móðurbróðir Elínar.




Frá Höskuldsstöðum héldum við inn á Blöndós, fengum okkur sjoppu - hádegismat og brynntum ferðadrekanum á dælustöð ÓB. Einnig litum við á tjaldsvæðið og það vakti athygli hversu illa rigningarnar höfðu leikið grasblettina. Allt var sundurskorið eftir þunga ferðavagna og svæðið var aðeins hársbreidd frá því að teljast eitt moldarflag. Verulega ljótt að sjá....

Næst var stefnan tekin inn Langadal að Auðólfsstöðum og yfir samnefnt skarð að býlinu Gautsdal. Þar bjó Jón Ragnar Haraldsson sem m.a. er vel kunnur úr bókinni " Íslendingar" sem þau Unnur Jökulsdóttir og Sigurgeir Sigurjónsson ljósmyndari unnu saman fyrir tíu árum eða svo. Ekki veit ég annað er Jón sé enn á lífi, kominn á tíræðisaldur, fæddur 11.janúar 1924. Það var hreyfing við bæinn og tún ýmist nýslegin eða sláttur stóð yfir:






Á myndinni að neðan er horft um Auðólfsstaðaskarð til vesturs yfir að Langadal:




....og hér er horft í hina áttina, frá bænum að Gautsdal til suðausturs inn Laxárdal í átt að Bólstaðarhlíð. Í forgrunni er haftið sem skiptir eiginlega Laxárdal í tvennt við Gautsdal, næst handan -sunnan - haftsins er eyðibýlið Mjóidalur, þar sem síðast bjó Sverrir Haraldsson, bróðir Jóns í Gautsdal. Árbók Ferðafélagsins um svæðið telur dalinn allan einn og hinn sama og við þá visku styðst ég.




Tíminn leið hratt og klukkan var orðin sex þegar við héldum til baka af Gautsdal niður á þjóðveg eitt um Langadal og beygðum til suðurs. Er leið á daginn hafði smáþyngt yfir og meðan við ókum inn að Bólstaðarhlíð gáðum við til veðurs. Svartárdalurinn, langþráð takmark, var á dagskrá en þangað inn að sjá var hreinlega myrkur - svo dimmt var þar í lofti. Ekki þótti okkur vænlegt að leggja af stað í skoðunarferð á ókannaðar slóðir í slíku skyggni svo við slógum í klárinn og með þokuna á miðri framrúðu þeystum við yfir Vatnsskarð að Varmahlíð og þaðan rakleitt út að Glaumbæ. Þar var auðvitað búið að loka öllum húsum þann daginn en við röltum nú samt einn hring kringum bæinn - við höfðum áður skoðað Glaumbæ að innan þótt langt væri síðan. Klukkan var rúmlega sjö þegar við renndum inn á tjaldsvæðið á Sauðárkróki. Þar var svipað uppi á teningnum og á Blönduósi. Tjaldsvæðið var afar illa farið eftir bleytutíðina og víða voru opin flög og hálf-fljótandi mold og leir. Samt höfðu ótrúlega margir troðið sér inn á grasið, til þess eins að marka förin enn dýpra. Kannski fannst einhverjum það skemmtileg tilhugsun að skilja eftir sig spor á staðnum - í orðsins fyllstu merkingu!

Við lögðum ferðadrekanum undir vegg sundlaugarinnar, þar sem aðeins var þurr möl og tókum út grillið. Eftir að hafa eldað hátíðarkvöldverð var mætt í kaffi í hjólhýsi hjá vinafólki sem bar að á norðurleið. Þegar nálgaðist háttatíma fengum við okkur kvöldgöngu í bæinn og það var farið að nálgast miðnætti þegar við snerum aftur til bíls. Ég stakk hönd í vasa eftir lyklinum til að opna bílinn en fann hann ekki. Leitaði betur en allt fór á sama veg. Ljótur grunur læddist að og ég kíkti á glugga. Í svissinum hékk lykillinn!

Á öllum okkar ferðum hefur EH haft aukalykil í handtöskunni sinni - þ.e. öllum fram að þessarri! Einhverra hluta vegna hafði lykilinn ekki verið tekinn með nú. Á síðasta metra fyrir brottför hafði það verið nefnt en ekki orðið af. Nú kom það okkur í koll!

Staðan var ekki flókin: Ég reyndi að hugsa skýrt. Við höfðum þrjá möguleika. Einn var sá að leita til lögreglunnar á staðnum og fá lánuð tól til að opna bílinn. Á sínum tíma opnuðum við Dúddi Guðmunds í Þór fjöldan allan af bílum vestur á Ísafirði með heimasmíðuðum búnaði sem reyndist stundum betur en lögreglunnar. Ég treysti mér til að opna bílinn sjálfur ef réttur búnaður fengist. Annar möguleiki var að hringja suður í soninn Arnar Þór og fá hann til að koma akandi norður á Krók með aukalyklana. Þriðji möguleikinn - og hann var ekki líklegur - var að leita til náunga sem fyrr um kvöldið hafði birst á tjaldsvæðinu með kerru fulla af Husky-hundum í eftirdragi. Hann ók líka fyrrum Econoline sjúkrabíl, að vísu eitthvað eldri en samt..........

Ég talaði við manninn, lýsti vandræðum okkar og þótt við báðir teldum ólíklegt að hægt væri að opna minn bíl með hans lyklum ákváðum við að prófa. Ég reyndi bílstjórahurðina en það var vonlaust eins og búast mátti við. Svo reyndi ég farþegahurðina og rétt þegar ég var að gefast upp datt lykillinn allt í einu yfir - í læsta stöðu. Ég þorði ekki að draga andann þegar ég sneri honum til baka án þess að hreyfa að öðru leyti og viti menn: hann datt í hina áttina og læsingin opnaðist!!

Við áttum bara orð til að þakka manninum fyrir lykillánið. Hann mun eflaust fá það betur launað síðar ef bænir eru heyrðar.......

Um nóttina rigndi enn meira og ekki skánaði tjaldsvæðið við það. Að morgni var hins vegar komið ágætisveður. Þokan var þó á sínum stað en ekki alveg jafn ágeng og kvöldið áður. Eftir heimsókn í Sauðárkróksbakarí (sem er klárlega eitt af bestu bakaríum í heimi) áttum við gott spjall við Ísfirðinginn Jón Bæringsson sem býr örstutt frá bakaríinu og stendur vakt ef hann sér kunnuglegt fólk eða bíl. Ég hef a.m.k. tvisvar fiskað Jón út á hlað með einkanúmerinu Í-140. 

Þeir eru búnir að byggja nýja smábátaaðstöðu þarna á Króknum, prýðisgóða sýnist mér og að sjálfsögðu fékk Bassi að spretta úr spori í nálægri sandfjöru meðan litið var á trillurnar. Síðan var lagt upp að nýju. Við ókum til austurs yfir Héraðsvötn og þegar kom að greiningu vegar inn Blönduhlíð og út Viðvíkursveit völdum við sveitina og ókum úteftir. Ekki var þó ætlunin að fara langt heldur aðeins út undir Enni undir Viðvíkurfjalli. Á þeim slóðum var fyrrum vinnufélagi minn nýbúinn að kaupa myndarlegt hús og undirbjó nú flutning úr borg í sveit. Ég er nokkuð viss um að það munar talsverðu á útsýninu þarna og í Kleppsholtinu syðra......

Þokuröndin sem liggur þarna út með Reykjaströndinni náði annars hringinn og var því þykkri sem hún lá innar. Okkur láðist að snúa okkur hálfhring með myndavélina, hefðum við gert það hefði vel sést - ja, hversu lítið sást!  Býlið Enni er þarna bak við okkur, uppi í ásnum og dálítið sunnar en til þess sást ekkert!




Kannski er það dálítið merkilegt að á öllum mínum (og okkar) þvælingi norður um land hef ég aldrei ekið Blönduhlíðina. Margoft ekið milli Varmahlíðar og Eyjafjarðar, sömuleiðis frá Króknum út Viðvíkursveit en aldrei stubbinn milli Narfastaða og Flugumýrar. Nú voru hins vegar "dagar hinna gleymdu staða" eins og fyrr var nefnt, nú skyldi flest skoðað sem áður hafði setið á hakanum. Stefnan var sett inn Blönduhlíð og vegna þess að umferðin var róleg var ekið á innanbæjarhraða allt inn að Flugumýri. Þar var áð og litast um. Engin sáum við merki um sýrukerið sem Gissur bjargaði sér í forðum í Flugumýrarbrennu en á skiltum voru ágætar upplýsingar um atburði sögualdar.

Flugumýrarkirkja er dálítið sérstök í útliti, mest þó fyrir turninn. Kirkjan er steinsteypt og veggirnir grófsléttaðir og hrjúfir. Fallegt guðshús utan og innan.






Eftir heimsókn að Flugumýri brunuðum við þvert yfir sveitina að Varmahlíð og skelltum okkur í sundlaugina. Þar lá enn ein af listanum góða, ég hef áður gert margar tilraunir til að fara í þessa laug en aldrei hitt á opnunartíma. Nú gekk allt upp og við lágum í bleyti tæpan klukkutíma. Að því loknu ókum við upp á tjaldsvæðið, sem stendur í skógi talsvert ofan við byggðina og lituðumst um. Þar var sama uppi á teningnum og á Blönduósi og Sauðárkróki - sundurskornar flatir, svöðusár og opin moldarflög. Svæðinu er skipt í misstóra bása og mörgum þeirra var hreinlega búið að loka með gulum borða. Þegar nær stöðugt rignir, líkt og raunin var í sumar, þola flatirnar ekki þung farartæki. Flest hjólhýsi og fellihýsi eru á níðsterkum en tiltölulega litlum og mjóum hjólum miðað við stærð og þessi hjól skerast auðveldlega niður í gljúpan og gegnblautan svörðinn. Sár sem þannig myndast þarf langan tíma til að jafna sig og endurtekinn ágangur getur gert svæðið ónothæft þar til næsta ár. Á Sauðárkróki stóð til að halda íþróttalandsmót að tveim vikum liðnum og ég sá ekki í hendi mér hvernig menn ætluðu að koma tjaldsvæðinu þar í stand fyrir þann tíma - enda tókst það ekki.

Tjaldsvæðið í Varmahlíð býður hins vegar upp á ágætar gönguleiðir á góðum stígum og þeir voru í þokkalegu standi:




Risatrampólínið til hægri gerði stormandi lukku eins og alltaf...




Næst lá leiðin inn frá Varmahlíð fram Skagafjarðarsveit. Við ókum hjá Álftagerði og hlustuðum en heyrðum engan söng. Mér skilst að kýr mjólki betur undir músík en þeir bræður þurfa eflaust einhvern tíma að hvíla raddböndin - og kannski eru þeir bara með fjárbú.

Spölkorn innan við Álftagerði eru vegamót og er vísað upp á Efribæjaleið. Hana völdum við og komum fljótlega að þessu litríka eyðibýli. Krithólsgerði mun það heita og þarna leyndist margur molinn.......Tvær kynslóðir af Moskvitsj og Skódi Oktavia frá þeim tíma sem Skódi var Skódi en ekki bara eitthvert helvítis Fólksvagenafbrigði eins og núna!




Sjáiði bara! Önnur ekta Oktavia og Moskvitsjinn aftur. Úr svona Oktavíu var vélin í fyrstu trillunni minni, hana setti ég í með eigin höndum ásamt gírkassa og öllu heila galleríinu. Nú vorum við sko ekki að skoða kirkjur heldur aðra helgidóma og allt öðruvísi.....




Hvað höfum við svo hér? Hvítan Randlover og svo gegnheilan Blöðrusel - Skódann sem illa upplýstar sálir hafa gegnum tíðina afbakað í "Blöðruskóda"! Ég segi ykkur satt: Það er ekkert til sem heitir Blöðruskódi. Bíllinn var kallaður Blöðruselur þegar hann kom nýr og ekki að ófyrirsynju því sköpulagið er engu líkt. Bæði Óskar Friðbjarnar í Hnífsdal og Pétur Bjarnason áttu svona Blöðruseli, og Óskar fleiri en einn. Höfum þetta á hreinu: Blöðruselur!




Sko! K - 689. Ekki dónalegur Landróver, með toppgrind og "uppfærðan" dráttarkrók að nútímasið, kúlutengi og rafmagnsdós. Ég mátti til að leggja myndavélina þétt á afturgluggann því þetta reyndist vera svona heimagerð ofur - íþróttatýpa (super sport), klæddur uppúr og niðurúr með gerfileðri og fínheitum!





Þetta býli var svo litlu innar á Efribæjarleið og ábúendur virtust í harðri samkeppni við safnið í Krithólsgerði. Hér kenndi ýmissa grasa en næstur þjóðveginum var þessi krambúleraði Rússajeppi. Allavega hefur andlitslyftingin ekki bætt hann....




Efribæjaleið tengist þjóðveginum fram Skagafjarðarsveitir rétt innan við bæinn Mælifellsá og á svipuðum slóðum liggur leið inn á Eyvindarstaðaheiði. Skammt frá vegamótunum stóð þessi reisulegi og þjóðlegi sumarbústaður:




Fyrst við vorum komin þarna inneftir langaði okkur að líta aðeins á Steinsstaðabyggð og Bakkaflöt. Að neðan er horft frá þjóðveginum til norðausturs að Steinsstaðaskóla og lengra til vinstri sést kirkjustaðurinn Reykir.




Býlið Fitjar, austan þjóðvegar og hluti tjaldsvæðisins í Steinsstaðabyggð í baksýn:




Ágæt aðstaða við tjaldsvæðið í Steinsstaðabyggð. Í þessu húsi eru m.a. herbergi til útleigu:





Svo er þarna sundlaug sem ekki hefur enn verið merkt við á listanum góða. Hún verður að bíða enn um sinn, við vorum nýkomin úr laug að Varmahlíð og það var látið duga að sinni. Það hefði nú samt verið ágætt að leggjast aðeins í bleyti því lofthitinn var farinn að nálgast 22 gráður!




Örstutt frá Steinsstaðaskóla er ferðaþjónustan að Bakkaflöt. Þar var að finna stóra setlaug ásamt tveimur heitum pottum. Aðstaðan er fyrst og fremst ætluð gistigestum en þó mun vera hægt að kaupa sér aðgang að henni einni og sér. Þeir seldu ís að Bakkaflöt og það var "lifesaver" eins og sagt er í útlandinu, að fá ís í steikjandi hitanum.




Þar sem kirkja er nálægt, þar erum við. Kirkjustaðurinn að Reykjum stendur eins og höfuðból sveitarinnar, hátt og er víðsýnt til allra átta. Við hlið kirkjunnar er myndarlegur torfbær sem ekki var ljóst hvað var nýttur - vera má að hann sé safnaðarheimili með meiru.




Allar kirkjur hafa sitt sérkenni en ég er aldrei almennilega sáttur við  spírur eins og þær sem umlykja efsta turninn. Mér finnst alltaf eitthvað trúðslegt við þennan búnað. Þó eru kirkjur um allan heim skreyttar á viðlíka hátt. Húsið sjálft er snyrtilegt og vel við haldið en samræmið í byggingunni er eftirtektarvert. Kirkjan sjálf er frekar lítil og turninn virkar allt að því  afkáralega stór. Það er samræmi milli kirkjunnar og efsta hluta turnsins en að öðru leyti er hann eins og fíll í postulínsbúð....finnst mér.








Skrautið við hurðarhúninn var kunnuglegt. Ég er ekki frá því að það sé nákvæmlega eins og forðum var heima að Urðarvegi 4 á Ísafirði. Það sneri þó líklega "omvent" eins og Danir segja:




Við höfðum ekki langa viðdvöl við Reykjakirkju. Útidyr íbúðarhússins stóðu opnar þegar okkur bar að garði en var snarlega lokað um leið og við gengum inn á bæjarhlaðið. Sá eða þeir sem þar voru inni vildu greinilega engin afskipti hafa af gestum og gekk það nokkuð á skjön við marga aðra, sem yfirleitt voru boðnir og búnir til að sýna okkur kirkjur og muni. Skemmst var að minnast mæðgnanna að Hvammi í Norðurárdal og hafi þær enn þökk fyrir.

Leiðin lá til baka niður að Varmahlíð og nú var ekki tafið heldur lagt umsvifalaust á Vatnsskarð til vesturs. Það var talsvert liðið á daginn en nú var bjart yfir Svartárdalnum og fallegt að horfa frá brúnunum ofan Bólstaðarhlíðar. Við beygðum til vinstri og tókum strikið inn dalinn......




Ath: Aðeins hluti tekinna mynda er birtur. Heildina má finna í merktri myndamöppu í síðuhausnum.

Endir fyrsta hluta.


................................................



Flettingar í dag: 166
Gestir í dag: 50
Flettingar í gær: 209
Gestir í gær: 40
Samtals flettingar: 64942
Samtals gestir: 16854
Tölur uppfærðar: 28.4.2024 14:45:42


Tenglar