Gunnar Th.
Fjórða kerfið.....


Færslur: 2013 Júlí

31.07.2013 16:05

Vestmannaeyjar....

...verða víst enn að bíða. Er rétt að leggja af stað vestur um land til Reykhóla. Þar er ætlunin að vera í nótt en á morgun á að aka áfram og út í Skálmarnesmúla. Gangi það að óskum gæti leiðin legið til baka um Klettsháls í Kollafjarðarbotn og þaðan Kollafjarðarheiði yfir í Djúp. Veðurspáin fyrir Ísafjörð er ekki góð um helgina svo líkllega verður snúið suður á við og ekið suður fyrir Hólmavík, í Kollafjörð á Ströndum og þaðan um Steinadal í Gilsfjörð. Út hann um Ólafsdal og síðan fulla ferð suður á traktorstorfæruna á Flúðum n.k. laugardag.

Ég gleymdi að nefna sundsprett í einni flottustu sundlaug í heimi, í Djúpadal!

Svo er eins víst að ég nenni ekki Kollafjarðarheiði og Steinadal, enda ók ég þá leið fyrir tveimur árum (2011) á svarta ferðadrekanum. Þá verður ekið aftur að Reykhólum og út á Reykjanesið að Staðarhöfn, jafnvel fyrir það og inn að eyðibýlinu Laugalandi. 

Skálmarnesmúlinn og traktorstorfæran á Flúðum eru allavega naglfastir punktar í  ferðaáætluninni.....

.....nema eitthvað breytist.......

30.07.2013 08:16

Tvær stuttar......

Áður en ég legg í að skrifa Vestmannaeyjatúrinn sem lofað var síðast þarf ég eiginlega að koma frá mér tveimur öðrum, örstuttum. Þeir eru samt eiginlega þrír, þessir stuttu túrar ef með er talin skírnin hennar Elvu Sofiu. Elva Sofia var nefnilega skírð í Skálholtskirkju laugardaginn 20. júlí sl, í endalausri veðurblíðu. Það var blásið til veislu í Miklaholti í Tungum, en báðir foreldrarnir tengjast þangað sterkum böndum. Mér var boðið að vera viðstaddur, og vegna þess að enginn var til að hafa vit fyrir mér gleymdi ég myndavélinni. Ég var þó með símann og beitti honum eins og hægt var. Þessi stutta frásögn er kannski ekki frétt í sjálfu sér, nema vegna þess að ég veit að einhverjir Ísfirðingar lesa, og hann Jón Þór Birgisson (Jónssonar útibússtjóra L.Í.) var ekki nema 16 ára þegar hann fluttist vestur, frá Selfossi. Hann lærði rafvirkjun í Pólnum og síðar skógfræði í Danmörku. Jón Þór kom til Íslands í júlíbyrjun ásamt konunni sinni, henni Katarinu og þremur börnum, Ágústi Erni, Evu Lilju og svo skottinu  Elvu Sofiu. Nú er Íslandsdvölinni að ljúka og leiðin liggur til Danmerkur á ný. Ég má til að stinga hér inn mynd af þessarri flottu fjölskyldu:Daginn eftir, sunnudaginn 21. var síðra veður í Tungunum en blíðan hafði færst til vesturs og lá yfir höfuðborgarsvæðinu og uppmeð. Því var tilvalið að snúa sér í þá áttina. Það eru allmörg ár síðan ég reyndi fyrst að heimsækja Hreppslaug í Andakíl í Borgarfirði, líklega komið á annan tug. Mig hefur hins vegar aldrei borið að garði á réttum tíma, annaðhvort hef ég verið of snemma að vori eða of seint að hausti. Hreppslaug hefur því ekki fengið sinn kross í sundlaugakladdann minn, sem telur nú hátt í áttatíu laugar víðsvegar um land. Nú small hins vegar allt saman og ég lagði af stað eftir hádegi við þriðja mann (heitir það ekki það þegar þrír eru í för?). Þegar upp í Andakíl var komið var veðrið á þann veg að við lágum í lauginni og pottunum hálfan þriðja tíma! Sennilega hefðum við soðnað þarna ef okkur hefði ekki verið borinn ís út á pottbarminn. Því miður hafði ég ekki vit á að mynda Hreppslaug en hún mun eiga sína facebook-síðu, hafi ég skilið rétt:   

 https://www.facebook.com/hreppslaug

Það var semsé talsvert liðið á daginn þegar við loksins yfirgáfum laugina, sólbökuð og sæl.  Næsti viðkomustaður var Fossatún, þar var gengið um svæðið og skoðað. Sumir þurftu að storka örlögunum:Auðvitað á maður aldrei að storka örlögunum. Þessháttar athæfi getur aldrei leitt neitt gott af sér og gat ekki endað nema á einn veg - í potti skessunnar í Fossatúni.  Hún Elín var reyndar afar ósátt við þennan úrskurð og gerði ákafar athugasemdir við hann eins og sjá má:Það fór svo að sættir náðust, Elín lofaði að haga sér betur á leiksvæðinu og skessan lofaði að hafa vatnið aðeins kaldara næst. Á endanum urðu allir glaðir:Deginum lauk svo í plokkfiski hjá Olís í Borgarnesi.

S.l. laugardagsmorgun var þessi líka einmuna veðurblíða í borginni og nágrenni. Það var því tilvalið að hreyfa Stakkanesið aðeins, enda hefur það legið við bryggju mestalla þoku- og úrkomutíðina í sumar. Ég sigldi á þennan stað við Gufunes á dögunum, tók þá engar myndir en lofaði þeim síðar. Nú var komið að þessu "síðar" og ég myndaði á símann. Myndin er tekin við klettana fram af gömlu áburðarverksmiðjunni og sést í hana til vinstri.Það var hálffallið út en dýpið við og á milli klakkanna var hvergi minna en tveir og hálfur metri - þ.e.a.s. þar sem ekki var sýnilegt haft á milli. Á nokkrum stöðum var vandalaust að leggja að klettunum, hefði maður viljað klifra upp á þá.

Hér að neðan sést út til Geldinganess og ofar til Akrafjalls:Bryggjan í Gufunesi framundan:..og auðvitað var heiðurshundurinn Edilon B. Breiðfjörð Thorsteinsson Budenhoff með í för, hægur og rólegur að vanda nema þegar hann mundi eftir súkkulaðikexinu í lúkarnum. Þá rauk öll rósemi út í veður og vind....Augnabliki eftir að síðasta mynd var tekin hringdi myndavélin (síminn). Félagar í Keflavík voru í vandræðum og þurftu hjálp. Það var því ekki til setunnar boðið, Stakkanesinu stefnt til hafnar og stuttu seinna var hrossadráparinn svarti á fullri ferð suðureftir. Þar lauk svo deginum.27.07.2013 08:27

Frá Hólmi að Fjaðrárgljúfri ...

......og heim um Hrífunes og Álftaver.

Kannski hefði titillinn bara átt að standa í heilu lagi í hausnum en mér fannst þetta svoddan langloka að betra væri að skipta því í tvennt. Samt var þetta nú röðin á viðkomustöðunum. Þegar við höfðum lokið við að mynda heim að Hólmi, eins og fram kemur í síðasta pistli lá leiðin vestur um og upp með Hunkubökkum. Þar sleppir malbiki en malarvegurinn sem við tekur er ágætur og vel fær öllum bílum - í það minnsta fyrstu kílómetrana. Rétt innan við Hunkubakka greinist leiðin í tvennt, til hægri (austurs) liggur hún inn í Laka og er kyrfilega merkt "Illfær vegur", en til vinstri liggur hún yfir lágan og stuttan háls niður að Fjaðrá, yfir hana á brú að kirkjustaðnum Holti sem eitt sinn var. Þetta bæjarnafn, Holt, kemur oft fyrir í frásögn Jóns Trausta af Skaftáreldum, eins og mörg önnur bæjanöfn á þessu svæði og vestar. Leið okkar Elínar lá hins vegar ekki yfir brúna heldur aðeins að henni og við lögðum sjúkrabílnum á litlu bílastæði við austurenda brúarinnar. Þar er stórt upplýsingaskilti um þetta magnaða náttúrufyrirbæri, Fjaðrárgljúfur. 

Það má kannski nefna, svona fyrir þá sem skoða kort af svæðinu, að á gamla herforingjaráðskortinu (1/100.000) er Fjaðrá nefnd Fjarðará en gljúfrið greinilega teiknað. Þarna mun aðeins um augljósa villu að ræða en ekki aðra nafnmynd.

Allt um það má fræðast um Fjaðrá og Fjaðrárgljúfur með einföldu gúggli, svo ég skelli strax inn myndunum sem hún Elín tók, enda hafði það verið hennar draumur til margra ára að heimsækja þennan stað:Svo kom ein þar sem fauskinum var stillt upp eins og ferðamanni, með bakpoka frá Hrunbanka Íslands ehf og öllu! Það er hægt að vera montinn þegar hallinn er bara tíu gráður og maður hefur lifað af fjallgöngu á Helgafellið stuttu áður....Ég hef alltaf verið lofthræddur með afbrigðum. Það eina sem hefur getað ýtt mér fram á brún hengiflugs er að nálægt sé einhver ennþá lofthræddari. Þannig var það þarna og ég mjakaði mér fram á þennan klettarana til að horfa niður og í kring. Það var alveg áhættunnar virði.......og vegna þess að ég komst lifandi til baka fannst mér að hún EH yrði að fá að njóta útsýnisins líka. Hún var lengi vel ófáanleg til að reyna en lét sig á endanum og sá ekki eftir því:Af klettanefinu rákum við augun í þetta eina og einstaka tré sem stóð þráðbeint upp úr dálitlum klettshaus. Sjáiði það, á miðri mynd?Með því að súmma aðeins sást það betur. Þá sást líka vel steinkarlinn sem gætir þess. Sjáiði nefið sem ber í stall trésins? Ókei, en sjáiði danska dátann með háu loðhúfuna, sem stendur vinstra megin við tréð og horfir niður gljúfrið? Sjáiði kannski líka broskallinn hægra megin við tréð? Þótt við höfum verið heppin og sloppið við skaða í prílinu var ekki hægt að segja það sama um alla. Hún gimba sem liggur þarna í ánni, hvítur depill beint undir ljósa, ferhyrnda blettinum bítur ekki þessa heims gras framar. Það var óþarfi að súmma á hana...Loka þessarri myndasyrpu frá Fjaðrárgljúfri með tveimur sérstaklega fallegum, sem Elín tók. Það má bæta við í lokin að þegar við vorum efst í gljúfrinu sáum við hóp fólks á gangi niðri í því. Þetta voru átta eða tíu manns, karlar og konur í yngri kantinum. Þau óðu ána þar sem þurfti og höfðu að öllum líkindum lagt af stað frá brúnni neðar, gengið eins hátt og gengt var og voru á bakaleið er við sáum þau. Ekki voru þau sérstaklega ferðabúin, m.a. var ein daman aðeins á ljósum sumarkjól sem hún vafði upp þegar vaða þurfti djúpt. Ekki var leiðin í gilinu ógreiðari en svo að þau voru talsvert á undan okkur niður að brú. Ef neðri myndin "prentast vel" má sjá mann í ljósbláum bol fjærst á odda malareyrar í miðri ánni.

Það var farið að örla á skýjum á himni þegar við yfirgáfum Fjaðrárgljúfur og héldum í heimátt, til vesturs. Við ókum hring af þjóðvegi eitt upp með Ásabæjum, yfir Eldvatn og Kúðafljót, og síðan niður gegnum Hrífunes. Rétt við vestari vegamótin inn á númer eitt (þau vegamót eru aðeins merkt "Hrífunes" en eystri vegamótin eru merkt "Landmannalaugar / Fjallabak nyrðra) stendur kennileitið Laufskálavarða. Henni fylgir sú sögn að ferðamenn skuli hlaða vörðu sér til faraheilla, þá þeir fari um Mýrdalssand fyrsta sinni. Það var langt síðan við fórum þetta í fyrsta sinn en sagan er góð og útbreidd, eins og sjá má af fjölda smávarða:

Næsti viðkomustaður okkar skyldi vera Álftaver, Eins og sjá má af myndunum hér að ofan var orðið alskýjað og farið að kula talsvert. Okkur langaði samt að renna niðureftir, leiðin af þjóðveginum niður að bæjunum er örstutt og vegurinn þokkalegur malarvegur. Kirkjan í Álftaveri stendur skammt frá býlunum Norðurhjáleigu og Þykkvabæjarklaustri en er í tali nefnd Þykkvabæjarklausturskirkja. Þetta er dálítið ruglandi því sá Þykkvibær sem flestir þekkja úr daglegu tali er miklu vestar og þekktari af kartöflum en klaustri. Einhvern veginn er þó nafnið tilkomið og víst er að það er ævagamalt því Þykkvabæjarklaustur var, eins og önnur slík, lagt niður við siðaskiptin 1550.

Ég hef áður skoðað og myndað þessa kirkju en þá var ég einn á ferð sumarið 2005. Nú var bæði notuð betri myndavél og myndasmiður: 

Í kirkjunni er milliloft með bekkjum en mér er ekki alveg ljóst hverjum þeir hafa verið ætlaðir. Án þess að nokkur hafi orðað það beinlínis við mig hef ég alltaf talið að kirkjubekkir ættu hreinlega að vera óþægilegir. Kannski er einhver meinlætahugmynd þar fólgin í, en kannski eru bekkirnir vísvitandi hafðir jafn vondir og þeir venjulega eru til að menn sofni síður undir messu. Ég veit ekki alveg hverjum þessi bekkur hefur verið ætlaður en víst er að sá sem í honum situr verður þeirri stund fegnastur er kirkjuklukkurnar hringja út messuna.....Það gilti einu þótt smávaxnari manneskja væri mátuð í bekkinn andspænis - andlitið var alltaf í bitanum þótt setið væri á blábekkjarenda! Á hól við norðurvegg kirkjunnar stendur þessi minningarsteinn um klaustrið að Þykkvabæ. "TIL MINJA UM KLAUSTRIÐ Í ÞYKKVABÆ 1168 - 1550.Það er ljóst að hér í sveit hefur ekki verið til nein "InnDjúpsáætlun" eins og vestra þegar byggja skyldi upp á hverjum bæ í Ísafjarðardjúpi. Ég veit ekki hvort er fjárhús og hvort er fjós. Húsið vinstra megin líkist hins vegar ákaflega mikið bænhúsinu í Öxney á Breiðafirði - kannski sami arkitektinn? En kannski eru torfkofar einfaldlega hver öðrum líkirSvona grínlaust þá virtist almennt vera mjög þokkalega búið í Álftaveri. Svo mátti víða sjá svona aukabúskap eins og hér að neðan. Netakúlur og hringir skiptu hundruðum eða meira og mátti sjá á allnokkrum stöðum stórar hrúgur af þeim. Kannski er þetta "rekaviður" framtíðarinnar? Tæplega verða þó byggð hús úr þessu efni. Hvað veit maður þó? Var ekki flíspeysan sem ég klæddist akkúrat á þessu augnabliki einmitt úr endurunnu plasti?Við yfirgáfum Álftaver og áðum næst að Vík í Mýrdal. Þar var etinn þjóðvegahamborgari en síðan ekið áfram í vesturátt. Lágskýin urðu að þoku og henni fylgdi regnúði. Klukkan var rétt um tíu að kvöldi þegar við renndum í hlað við Langbrók í Fljótshlíð, veifuðum Útilegukortinu og lögðum sjúkrabílnum í náttstað. Nóttin var blaut, miðvikudagsmorguninn enn blautari og þegar við ókum heim uppúr hádegi sá varla handaskil á Hellisheiði.

....það var hins vegar þurrt í Reykjavík! Ótrúlegt!

Að síðustu má taka fram að allar ofanbirtar myndir, ásamt fjölda annarra eru finnanlegar undir "Myndaalbúm"  efst á forsíðu. Albúmið heitir "Dverghamrar"

..........................................................................................................................

Næst: Vestmannaeyjar!
mmmmmmmmmmmmmmmmm

18.07.2013 17:37

Í hina áttina...

Eins og kom fram hér neðar (og fyrir stuttu) var sjúkrabíllinn græjaður í snarhasti fyrir Reykhólatúr. Bátadögunum sem stefnt var á, var hins vegar aflýst vegna afleitrar veðurspár sem gekk að mestu leyti eftir. Sömu helgi héldu Vestmannaeyingar Goslokahátíð og hvikuðu hvergi frá auglýstri dagskrá enda dálítið annað að hafa fast land undir fótum þegar hraustlega blæs, en örlitla bátsskel sem ekki má við miklu. Kannski var það, að aflýsa smábátasiglingunni vestra, einmitt það sem núlifandi kynslóð hefur lært af forfeðrunum - þau voru frekar regla en undantekningar, slysin á smábátunum áður fyrr við Breiðafjörð þegar ekki var um önnur samgöngutæki að ræða.

Ég fékk aðstoð við að gardínuvæða sjúkrabílinn, ásamt einu og öðru sem hentar betur dömuhöndum en mínum. Aðstoðina átti svo að endurgjalda með gistingu í svítunni að Reykhólum. Þegar Bátadagarnir voru blásnir af stóð skuldin ógreidd og við svo búið mátti ekki standa. Þegar ríkisveðurstofan og sú norska yr.no tóku höndum saman í loforði um blíðviðri á suður- og suðausturlandi þriðjudaginn 9. júlí gafst færi á skuldajöfnun. Það skyldi því haldið af stað - bara í hina áttina!

Mánudagskvöldið áttunda var blásið til brottfarar og ekið í ausandi rigningu yfir Hellisheiði austur um til Víkur í Mýrdal. Þegar þangað var komið var að mestu hætt að rigna en þokuskýin héngu yfir og manni fannst blíðuspáin hanga á bláþræði. Á tjaldsvæðinu við Vík var allmargt ferðaapparata af ýmsum þjóðernum. Samt er ekki hægt að neita því að flóran varð öllu litríkari við komu nýja ferðadrekans:Það var fullt tilefni til að mynda "innréttingarnar" eftir alla vinnuna sem á undan var gengin:

Hann er kannski ekki sá fínasti að innan, sjúkrabíllinn og vissulega er eftirsjá að mörgu því sem prýddi gamla, svarta ferðadrekann. Hins vegar hefur þessi bíll marga umtalsverða kosti framyfir þann gamla og frá því þessi mynd var tekin og til dagsins í dag hefur margt breyst - aðeins á tíu dögum!

Þriðjudagsmorguninn heilsaði með þoku, en margt benti þó til að veðurspáin góða gæti ræst þegar sól hækkaði. Klukkan rúmlega níu um morguninn vorum við mætt við útidyr sundlaugarinnar í Vík enda stóð skýrum stöfum í okkar bæklingi að laugin opnaði kl. átta. Það stóð líka skýrum stöfum á bæklingnum "2012" þó hann væri fenginn í sjoppunni kvöldið áður. Nú var árið 2013 og á laugardyrunum stóð: "Opið frá kl. 10........"  Ææ!

Í biblíunni "Á ferð um Ísland 2013"  voru upplýsingar um sundlaugina á Kirkjubæjarklaustri en engar þó um opnunartíma. Ég hringdi í laugina en enginn svaraði. Hringdi aftur í einhvern gistiþjónustusíma, þar svaraði kona og sagði laugina opna frá kl. 10. Það passaði fínt til að hleypa fatlafáknum austur Mýrdalssand að Klaustri, en í leiðinni var stutt áning við "gerfibrúna" á Múlakvísl. Á þessarri mynd af Hafursey má svo sjá að skýjahulan var óðum að hverfa og maður fékk svona snert af hálfgleymdri sumartilfinningu:Svo var brunað austur Mýrdalssand og von bráðar vorum við komin að Klaustri. Klukkan var að nálgast hálfellefu þegar við lögðumst í bleyti í heita pottinum sem því miður stendur undir útvegg íþróttahússins og naut þess vegna ekki sólar fyrr en nokkru seinna. Þegar hún svo náði yfir vegginn var eins og hitabylgja skylli yfir. Það var eiginlega synd að yfirgefa sundlaugina í svona veðri en fleira beið skoðunar og um að gera að nýta blíðuna. Um leið og við stigum upp í bílinn að nýju var skotið einni mynd yfir hávaxin tré í áttina að Systrafossi.
Rétt innan og austan við Klaustur er ágætt tjaldsvæði sem á Útilegukortinu kallast Kleifar-Mörk. Ég gisti þar í ágúst í fyrra í Meðallandstúrnum sem greint var frá í janúar sl. Staðurinn hafði dálítið annað yfirbragð í sólinni nú en suddanum þá. Það var talsvert af ferðafólki á svæðinu sem og utan þess. Við lögðum drekanum okkar, drógum út stóla og höfðum "drekkutíma"Meðfram tjaldsvæðinu rennur áin Stjórn og í henni er þessi fallegi foss, Stjórnarfoss. Í einhverri ferðabók las ég að á heitum sumardögum næði vatnið í Stjórn að volgna svo að vel mætti baða sig í hyljunum neðan fossins. Það þarf vart að taka fram að þessi ferðabókarklausa á ekki við sumarið 2013

Þetta mun vera eyðibýlið Kleifar, hafi ég skilið rétt. Allt umhverfi þessa ágæta tjaldsvæðis ber þetta magnaða svipmót: Hver bergrisinn af öðrum, samstæðir eða sérstæðir allt eftir því hvernig horft er:

Eftir "drekkutímann" við Kleifa og eftir að hafa svarað spurningum nokkurra forvitinna um sjúkrabílinn var haldið af stað til austurs frá Klaustri. Ekið um Hörgsland á Síðu þar sem rekin er mikil ferðaþjónusta, en inn milli trjáa glitti í dálítið merkilegt - að mér fannst. Austasti áfangastaðurinn að þessu sinni var Dverghamar - eða Dverghamrar. Á þennan stað komum við sumarið 2005, í sama veðri og hann var ekki síðri nú en þá. Stuðlabergssúlur beint upp úr grasinu, eins og hannaðar af arkitekt.

Ég fékk eina mynd af mér í grasinu, undir yfirskriftinni: "Lofið þreyttum að hvílast" Vissulega var gott að hvíla sig í grasinu en flóarbitið á handleggnum var lengi að jafna sig!Rétt við þjóðveginn ofan við Dverghamra eru gömul, ryðguð útihús. Ég var að horfa á þetta lýti í landslaginu þegar ég kom auga á hellinn - og af því ég er ekki sérlega góður myndasmiður rétti ég myndavélina yfir: Sjáiði hjartalagaða hellisopið hægra megin við lóðrétta bergganginn? Hreint stórkostlegt, og ekki síðra fyrir það að utan um hjartalaga hellisopið virtist vera hjartalaga rammi, svona til að leggja enn frekari áherslu á lögunina.Svo ákváðum við að aka nær og reyna að mynda hjartahellinn úr minni fjarlægð. Þá brá hins vegar svo við að því nær sem farið var tapaðist lögunin og séð frá veginum neðan við var bara ólöguleg hola í fjallið. Næst reyndum við að mynda "fossinn" við bæinn Foss á Síðu. Samkvæmt korti eru þarna nokkur fossnöfn, enda sprænir úr berginu á fleiri stöðum. Finna má Hamrafoss, Stuðlafoss og Fagrafoss. Þið megið bara ráða.....Eins og fram kom ofar voru Dverghamrar austasti áfangastaðurinn og þegar þarna var komið sögu vorum við að leggja af stað til baka. Á leiðinni austur höfðum við tekið eftir þessum klettadrangi sem virðist rísa beint upp af öðrum eins og prjónn. Við máttum til að mynda hann í bakaleiðinni:

Þetta er vissulega merkilegt fyrirbæri, þessi staki drangur sem stendur þarna eins og vörður yfir hjörð. Ég var samt að velta fyrir mér af hverju kvenfólk kæmi alltaf auga á svona fyrirbæri á undan karlmönnum - eða það er allavega mín reynsla. Er eitthvað Freudískt við svona klettapinna?

Svo komum við aftur að Hörgslandi, og þá skyldi litið á það sem mér fannst ég hafa séð milli trjáa heima við hús. Jú, viti menn! Þar var kominn tvífari, eða því sem næst. Þegar ég keypti sjúkrabílinn í fyrrahaust hafði sá sem seldi mér verið með tvo til sölu. Sá fyrri var seldur "eitthvert austur", hann mundi ekki nákvæmlega hvert, en sá sem keypti hafði ætlað að nota bílinn "eitthvað við ferðaþjónustu"Þarna var hann semsagt kominn og virtist ekki vera í neinni notkun. Í fljótu bragði sá ég talsverðan mun á þessum tveimur, þessi virtist m.a. ekki hafa sama vélbúnað því ekki var að sjá neinn millikæli í honum. Grillið hafði verið skorið til að koma fyrir aukaljósum, sömuleiðis stuðarinn. Þetta voru skaðar sem minn bíll hafði sloppið við og leit skár út að framan fyrir vikið (auk þess sem ég var búinn að hreinsa rauða litinn af stuðurunum aftan og framan og færa númerið). Líklega hafði ég, í fyrsta skiptið á ævinni þegar völ var um tvennt, hreppt skárra eintakið! Ég var  allavega sáttari við minn vagn eftir lauslega skoðun á þessum. Síðar kom svo á daginn að þessi bíll er þremur árum eldri, þ.e. árgerð ´98.Áfram var haldið í heimátt, þó varð að stoppa aðeins til að mynda þennan "broskall" sem Elín sá útúr klettamyndunum:Það er löngu orðið klassískt að mynda heim að Hólmi. Þessar gömlu stórbyggingar virtust hrörlegar þegar ég myndaði þær í þokumistrinu sl. haust, í Meðallandstúrnum. Þær skánuðu lítið þótt sólin skini á þær. Líklega er þetta fornfræga býli komið "beyond point of no return" eins og kaninn kallar það. Þó skilst mér að enn sé búið þarna þó driftin sé ekki mikil.....Ég ætla að láta hér staðar numið að sinni. Frá Hólmi lá leiðin að Fjaðrárgljúfri en það er sér kapítuli.......
13.07.2013 09:06

Skrapdagur

Í "sumar"  (gæsalappirnar eru mjög eðlilegar)  hafa veður skipast þannig að blíðan hefur frekar fallið á virka daga en helgar. Þetta er allavega mín skoðun eftir lauslega, óvísindalega könnun. Ég get hins vegar stutt þessa lauslegu, óvísindalegu könnun með þeim bjargföstu rökum að líkurnar á því að gott veður falli á virka daga frekar en helgar eru tölfræðilega fimm á móti tveimur. Þetta rammskakka hlutfall er auðvitað helvedes skítt fyrir þá sem stunda hefðbundna vinnu og hafa lítil frí önnur en helgar, heldur skárra fyrir þá sem eiga sín mánaðarlöngu skikkuð sumarfrí á launum en auðvitað sallafínt fyrir þá sem eru atvinnulausir og hafa fátt fyrir stafni annað en að horfa upp í loftið og bíða eftir sólinni sem aldrei kemur. (þegar þetta er ritað á laugardagsmorgni 13.7. er hellirigning). Ef sú gula sést hins vegar augnablik er hægt að grípa það ótruflaður og leggjast í einhverja sundlaugina eða renna spölkorn út í náttúruna og ímynda sér að maður sé í sólarferð til útlanda. 

HÓPKAUP er fyrirbæri sem ég hef ekki alveg fullan skilning á. Þó skilst mér að til séu nokkur ámóta apparöt sem stunda það að bjóða fólki vöru eða þjónustu í tiltekinn tíma á mikið niðursettu verði í auglýsingaskyni. Ég hef ekki kunnáttu til að nýta mér þessi tilboð en ég þekki fólk sem grípur álitlegar gæsir þegar þær gefast og hef stundum fengið að njóta þeirra líka...(þ.e. gæsanna..)

Um miðjan maí dúkkaði einmitt upp svona álitlegt tilboð á einu Hópkaupsapparatinu, þar sem í boði var hálfsannarstíma sigling með Sæferðum í Stykkishólmi. Í pakkanum var leiðsögn, eyjaskoðun og skeldýraskrap með smökkun. Þetta leit allt mjög vel út svo það var keyptur pakki fyrir tvo og okkur Bassa var boðið í "farþegasætið".

Svo leið tíminn, helgarnar buðu uppá óspennandi veður og tíminn leið. Tilboðið gilti í mánuð og það var farið að styttast í endann. Loks var ákveðið að afskrifa helgarnar, plata veðurguðina dálítið og stökkva í miðri viku. Fyrir valinu varð miðvikudagurinn 12. júní og til að reyna nú aðeins að gera ferðalag úr túrnum var lagt upp daginn áður á hrossadráparanum með nýja tjaldvagninn hennar Dagnýjar í eftirdragi. Ég hef margoft lýst minni skoðun á þess lags draghýsum og strigahótelum af hvers kyns tagi og hvika hvergi frá, en viðurkenni að stundum verður maður að gefa hlutum séns af því það eru víst ekki allir á sömu skoðun og ég. Þess vegna eru líka til tjaldvagnar........

Það var svo sem ekkert sérstakt veður þriðjudaginn ellefta og spáin fyrir miðvikudaginn lofaði engu spánarveðri. Það átti samt að hanga nokkurn veginn þurrt, jafnvel gæti sést til sólar og vindur átti ekki að ná fellibylsstyrk. Það var því kominn tími til að tengja og með strigahótelið í eftirdragi og þrjá hunda í skottinu var ekið upp í Stykkishólm. Þar reyndust frekar fáir á tjaldsvæðinu, við völdum okkur pláss og reistum hótelið. Síðan tók við hefðbundin dagskrá, kvöldmatur og hundaganga. Úti við Skipavík var mjór, grasi vaxinn tangi sem hentaði sérlega vel fyrir hlauparana þrjá og meðan tvífætlingar sátu í grasi lögðu ferfætlingarnir ótalda kílómetra að baki í spretthlaupi og eltingaleik með tilheyrandi urri og gelti. 

Miðvikudagurinn heilsaði með rigningarúða sem hætti þó fljótlega og í hægri golu þornaði grasið von bráðar. Hundarnir fengu sína hreyfingu á sama stað og kvöldið áður og hamagangurinn var engu minni.  Ég leit í heimsókn til Gulla og Löllu að vanda og tók Gulla með mér í skoðunarferð um þorpið. Það er rétt að taka fram að við Gulli förum stundum svona skoðunarferðir en það sem við skoðum er frekar óhefðbundið og myndi fæstum þykja merkilegt - gamlir bátar, jafnvel bátsflök, véladrasl, húsarústir og annað sem almennt er jafnvel talið lýti á umhverfinu. Okkar skoðanir fara hins vegar saman í mörgu og m.a. því að yfirleitt megi sjá eitthvað merkilegt við hvern einasta hlut sem einhvern tíma hefur verið notaður við eitthvað...........

Siglingunni var ætlaður tími rétt eftir miðjan dag, við pökkuðum strigahótelinu saman, hengdum aftaní og  mættum tímanlega til skips. Eins og sést á myndinni var skýjað og fánar blöktu dálítið en vindáttin var suðvestlæg og Hvammsfjörðurinn sjólaus með öllu.

Svo mátti alveg sjá að sumum leiddist ekkert..........Svo kom að brottför. Þegar komið var rétt útfyrir höfnina gerðust æðri máttarvöld svo elskuleg að hífa skýjateppið aðeins ofar svo birti verulega í lofti og með mátulegu frjálslyndi mátti greina sólarglampa á stöku stað gegnum rof. Farþegahópurinn var frekar lítill, taldi aðeins tólf, fjórtán hræður og mátti heyra fleiri en eitt og fleiri en tvö tungumál. Siglt var hefðbundna leið út að Þórishólma (mér er nær að halda að hver einasta túristasigling úr Hólminum hefjist við Þórishólma, enda stórskemmtilegur staður bæði sem náttúrufyrirbæri og fyrir fuglalíf).

Dýpið fast við stuðlabergsvegginn er um 20 metrar og tvíbytnan Særún gat því nánast nartað í stálið!Lundinn á myndinni var hálf einmana (eða kannski einlunda) þarna uppi á eynni. Sjálfsagt hefur þetta verið hans konungsríki áður fyrr en eins og svo víða annarsstaðar hefur honum fækkað í hólmanum og ritan er tekin við ríkinu. 

Særún var látin berast með straumi austur og inn fyrir hólmann og allsstaðar var fugl, ýmist á sundi eða á syllum. Okkur Íslendingum þykir kannski ekkert merkilegt að sjá og heyra einhverja bölvaða máva en það mátti glöggt greina af hljómi annarra tungumála að upplifunin var afar sérstök.

 

Særúnu var snúið inneftir og siglt að Hvítabjarnarey þar sem sögð var sagan af skessunni í Kerlingarskarði og steininum sem hún grýtti í áttina að kirkjunni á Helgafelli en missti marks, lenti í miðri Hvítabjarnarey og klauf hana í tvennt. Sagan, sem alltaf er jafn góð var sögð á tveimur tungumálum og enn mátti greina að útlendingarnir höfðu ákaflega gaman af og þótti merkilegt að sjá steininn sem enn situr í skarðinu...Svo var siglt innfyrir Hvítabjarnarey og litið á Byrgisklett. Það stóð passlega vel á föllum til þess að byrgið í klettinum kom glögglega í ljós en eins og sést á röndinni fer opið alveg í kaf á flóði. Mér skilst að hellirinn sé allnokkru stærri en opið og oft komi fyrir að kajakræðarar rói þarna inn.Norðaustan við Byrgisklett var skelplógnum slakað og togað í nokkrar mínútur. Ég tók ekki tímann en gæti giskað á tvær til fimm. Svo var híft og ekki brást veiðin: 

Pokinn var losaður á borðið og dreift úr innihaldinu. Allt voru þetta sjávardýr sem okkur Íslendingum eru vel kunn (amk. þeim sem hafa alist upp við sjávarsíðuna) en enn var greinilegt að útlendingunum fannst þetta stórkostleg upplifun - þetta var ekki eins og á sædýrasafni, þarna mátti pota, handleika, velta um og jafnvel borða! Þau þrjú sem sáu um hlaðborðið báru nefnilega fram hvítvín í litlum flöskum og sósur til að bragðbæta skelfiskinn. Svo var hafist handa við að skera úr. Það var aðeins hörpuskelfiskurinn sem var borðaður. Eins og þeir vita sem þekkja til er yfirleitt aðeins borðaður vöðvinn sem opnar og lokar skelinni. Skorið var úr fyrir hvern og einn og neðri skelin rétt fram með vöðvanum lausum. Fiskurinn var svo tekinn með prjónum og dýft í sósu eftir smekk. Drengurinn á myndinni (sem við stutt spjall reyndist nákominn ættingi Dána kálfs og því auðvitað ekta Vestfirðingur) hafði ekki skorið úr mörgum skeljum þegar ég sá að hann notaði nákvæmlega sama handbragð og við krakkarnir sem unnum í skel í Rækjustöðinni á Ísafirði sumarið 1971. Ég mátti til að fá að prófa og þurfti ekki nema tvær til þrjár skeljar til að ná handtökunum (sem eru svo sem engin geimvísindi). Eftir það stóð ég með hnífinn, skar og át og eftir á að hyggja er ég hræddur um að ég hafi verið nærri því að aféta útlendingana, en hugga mig þó við að flestir þeirra voru frekar feimnir við þetta heimafengna sushi. Ég veit ekki nákvæmlega hvernig hörpudiskur fjölgar sér en af því appelsínuguli, skeifulaga pokinn í innvolsinu líktist afar mikið hrognasekkjum í þorski, mátti ég til að smakka hann. Bragðið var ágætt og ég sit hér við tölvuna svo ekki var maturinn banvænn!Svo dalaði áhuginn og fólk hvarf frá borðinu. Restinni af skeldýrunum var rutt í hafið. eflaust voru þau frelsinu fegin enda hef ég fyrir satt að þau geti lifað talsvert lengri tíma á borðinu. Svo er aftur spurning hvort einhver þeirra eru orðin pirruð á að vera með reglulegu millibili plægð upp og velt á alla kanta af forvitnum túristum áður en þeim er kastað í hafið aftur. Þeim til huggunar má benda á að hlutskipti hörpudiskins er þó öllu verra - hann er einfaldlega étinn af túristunum.

Allt gott tekur enda og svo var einnig með þennan afar skemmtilega veiðitúr. Særún tók stefnu milli Skoreyja og lands í átt til Stykkishólms og fljótlega var lagst að bryggju. Okkur var ekkert að vanbúnaði, stefnan var tekin suður og lent í Kópavogi á miðju kvöldi. 

Muni ég rétt rigndi eldi og brennisteini á leiðinni......

10.07.2013 21:26

Enn eitt ammallið.....

Ég virðist ekki geta komist hjá því - sem reyndar er óhjákvæmilegt - að eldast um eitt ár í hvert skipti sem nýr júnímánuður heilsar. Ég finn svo sem engan stóran mun á mér núna og fyrir svona tíu árum eða svo, jú kannski er ég slakari öllum framkvæmdum en áhuginn er enn sá sami. 

Það bar svo til um þessar mundir að enn hófst júnímánuður. Annar dagur hans var minn dagur eins og áður, annar dagurinn var líka sjómannadagur og eðli málsins (og vanans)  samkvæmt  lagði ég af stað upp í Stykkishólm strax að morgni. Veðrið var, gagnstætt venju þetta sumarið, alveg ágætt, þokkalega bjart og sæmilega hlýtt. Hrossadráparann bar hratt yfir og um hádegisbil eða þar fyrr var ég kominn norður fyrir nes. Af því tíminn var nægur fannst mér tilvalið að kíkja á nýjustu síldarvöðuna í Kolgrafafirðinum. Þar gekk mikið á, ég sá að vísu enga síld en fuglar himinsins sem vissulega eru skarpeygari en ég, virtust sjá eitthvað afd henni ef marka mátti allar dýfurnar. Þarna var mikið af súlu, svo mikið að lá við sólmyrkva á stundum. Það var alveg ótrúleg sjón að sjá þessa stóru fugla leggja aftur vængina og stinga sér úr mikilli hæð lóðbeint niður. Sumar stungu sér svo nálægt brúnni yfir fjörðinn að sjá mátti þær á fullri ferð undir vatnsborðinu. 

Svo, líkt og hendi væri veifað datt botninn úr "fiskiríinu" hjá súlunum, líkt og síldin hefði látið sig hverfa allt í einu. Stungurnar hættu og við tók ráðleysislegt háloftahringsól. Það var því helst í stöðunni að halda áfram för og finna eitthvað nýtt að skoða. Út með Grundarfirði austanverðum er kirkjustaðurinn Setberg, gamall og gróinn. Kirkjugarðurinn er spölkorn norðan kirkjunnar og það hæfði deginum að ganga um þennan lokastað gamalla sjómanna - þ.e. þeirra sem á annað borð hlutu að endingu leg í mold. Hinir eru jú ófáir.......

Kirkjan að Setbergi er lítil, turnlaus timburkirkja, byggð árið 1892.  Hún virðist hafa fengið gott viðhald og er að sjá í ágætu standi.

Staðurinn er fallegur, eins og umhverfið allt. Í Suður-Bár, skammt frá er rekin ferðaþjónusta og þar er m.a. myndarlegasti golfvöllur. Ef einhverjir sem lesa muna eftir Eddu-slysinu á Grundarfirði, þá mun það hafa verið við Suður-Bár sem nótabát Eddunnar rak að landi með hluta áhafnarinnar. 

Frá Setbergi lá leiðin inn að bænum Eiði við Kolgrafafjörð og nú var stefnan tekin af malbikinu og inn fjörðinn. Þá leið hef ég ekki farið síðan brúin yfir Kolgrafafjörð var opnuð haustið 2004. Satt að segja var hreinlega eins og ég væri að aka fjörðinn í fyrsta sinn - ég mundi fátt eða ekkert frá honum frá því hann var alfaraleið um Nes. Skrýtið hvað hugurinn á til að þurrka út upplýsingar sem ekki eru framkallaðar í langan tíma......Úr Kolgrafafirði var ekið í Hraunsfjörð, inn hann og yfir á gömlu laxaræktarstíflunni. Síðan gegnum Berserkjahraun og gamla þjóðveginn austur um allt þar til hann mætir þjóðveginum við vegamótin upp á Vatnaleiðina. Stykkishólmur var næsti áfangastaður. Það hefur áður -og oft - komið fram að ég reyni að heim,sækja Hólminn hvern sjómannadag til að komast í boðssiglinguna sem er fastur viðburður í boði Sæferða. Siglingin er venjulega farin að áliðnum degi og það var enn nokkur stund til brottfarar. Ég notaði tímann til að heimsækja gömlu hjónin Gulla og Löllu, en sú heimsókn er jafn fastur liður og siglingin sjálf. Eins og venjulega var mér tekið eins og týnda syninum. Eftir drjúgt kaffispjall var farið að hilla undir siglinguna, kominn tími til að kveðja og drífa sig um borð. Ferðin var farin á flóabátnum Baldri, eins og svo oft áður og leiðin lá um hefðbundnar slóðir, Þórishólma, Hvítabjarnarey og inn fyrir Skoreyjar.Siglingin tók u.þ.b. klukkutíma og er í land var komið var farið að huga að næsta ætlunarverki ferðarinnar - að ganga á Helgafell. Ég er ekki mikill fjallgöngugarpur og Helgafell er ekki hátt - muni ég rétt nær það ekki hundrað metrum. Mér fannst ég yrði samt að reyna, enda vil ég alls ekki meta fjöll eftir hæð þeirra í metrum heldur miklu frekar víðsýninu af toppi þeirra. Það er hægt að klifra uppá einhverja fjallstinda úti í heimi, mörg þúsund metra og sjá svo ekki rassgat en Helgafellið með sína tæpu hundrað slær mörgu mont-fjallinu við á því sviði. Þvílíkt útsýni, maður lifandi!Ég má til að setja hér eina mynd af sjálfum mér, til sönnunar afrekinu. Ég vil taka sérstaklega fram að ég er ekki svona feitur - sýnist það bara af því vindurinn blés í úlpuna.....Í þessum litla reit við hlið kirkjugarðsins er minningarsteinn um Guðrúnu Ósvífursdóttur. Kannski er leiði hennar þarna undir, kannski ekki. Kannski er þetta bara gert fyrir túrista með söguáhuga. Degi var farið að halla, næsti áfangastaður var Olís í Borgarnesi þar sem fæst djúpsteiktur fiskur. Hvað var meira við hæfi á sjómannadegi en að ljúka honum með fínni fiskmáltíð?

Það rigndi í Reykjavík um kvöldið..........ótrúlegt en satt!

Í lokin er rétt að taka fram, svo allrar sanngirni sé gætt, að ég tók fæstar myndanna, ef nokkrar. Elín Huld var með í för enda mun betri myndasmiður......


  • 1
Flettingar í dag: 50
Gestir í dag: 34
Flettingar í gær: 111
Gestir í gær: 45
Samtals flettingar: 642782
Samtals gestir: 91884
Tölur uppfærðar: 23.1.2019 04:07:41


Tenglar