Gunnar Th.
Fjórða kerfið.....


11.12.2011 15:02

Í tilefni dagsins..

Mér fannst, svona í ljósi strembinnar vinnuviku, ég eiga skilið að fá smá upplyftingu....

Á þennan hátt hófst síðasta færsla og það er tilvalið að endurnýta þetta ágæta upphaf. (...er það ekki annars ágætt?)

Upplyfting helgarinnar var fólgin í jólahlaðborði á Fjörukránni. Fyrir ári fórum við í sömu erindagerðum út í Viðey og áttum þar ágæta stund. Hópurinn nú var öllu fámennari en þá, eða aðeins við Elín Huld og Fríða systir. Milli Fjörukráarinnar og tengds hótels er aðeins mjótt sund og málsverðurinn hófst á jarðhæð hótelsins þar sem í boði var Grýlumjöður að hætti hússins. Um skenkingu (segir maður ekki svoleiðis?) sá gulleintak af færeyskum kvenkosti - þeir útlendingar sem hingað hafa komið og dásamað íslenskt kvenfólk hafa greinilega ekki komið við í Færeyjum!

Matur var svo fram borinn handan húsasundsins, í kránni sjálfri. Ég hef aldrei komið þar inn fyrir dyr áður og sannast sagna er um að litast eins og á safni - svona eins og maður gangi um skála sögualdar. Matnum var raðað á stórt borð í miðjum skála, á borðinu miðju var eftirlíking lítils árabáts og nokkrum réttanna sem í boði voru var raðað meðfram borðstokk beggja megin. Úrvalið var fjölbreytt, eldamennskan fín og þjónustan sömuleiðis. Undir borðum var tónlistarflutningur, sem engin ástæða er svo sem til að kvarta yfir þó ég hefði svo sem verið alveg til í að borga "tónlistarmanninn" niður af sviðinu. Drjúgur hluti gestanna virtist nefnilega skemmta sér hið besta, en kannski var tóneyra þeirra slævt af Grýlumiði. Framanaf gengu tveir gítarspilarar um salinn og spiluðu brot úr lögum sem fólk vildi heyra. Er á leið tók annar sér hvíld - ég vil meina að það hafi verið sá skárri, miðað við það sem á eftir fór - og við tók pínleg stund þegar hinn spilarinn kom sér fyrir á sviði og rafmagnaði upp hörmulega metnaðarlausan flutning á enn verra lagavali. Irish Rover er náttúrlega ekki jólalag en í góðum flutningi getur verið hrein unun að hlusta á það. Sá flutningur sem þarna var boðið uppá var klár nauðgun og ekkert annað.

Þegar við vorum alvarlega farin að hugsa okkur til hreyfings úr húsinu kvaddi spilarinn skyndilega og kynnti á svið færeyskan trúbador. Þar kvað við allt annan tón, og það var gaman að heyra Synetu hans Bubba snúið á færeysku ásamt fleiri lögum fluttum af metnaði og vandvirkni.

Ég fyrirgaf Fjörukránni með það sama enda var allt annað en ofannefnt gaul og gítarglamur með miklum ágætum - líka verðið, 6900- á mann. Það var ekki stórt fyrir allan þann mat sem var á boðstólum.

...........................................................................................................

Það er eitt sem ég verð eiginlega að deila með öðrum: Fyrr í haust átti ég einu sinni sem oftar leið niður að Snarfarahöfn. Þetta var nokkuð árla morguns um helgi og fáir á ferli. Í einu horni bílastæðisins stóra var fyrirbæri sem ég mátti til að mynda. Ég hef nú um hríð gengið með þá hugmynd í kollinum að fá mér sérstakan bíl undir Stakkanesið til að geta á auðveldan hátt ferðast með það milli landshluta. Sá ferðamáti er allur mun auðveldari en að draga bátinn á kerru sem einnig er notuð til að sjósetja hann - það er erfitt að samræma langferðakerru sem notuð er í þjóðvegakerfinu og kerru sem reglulega fer á kaf í sjó! Þess vegna fæddist þess hugmynd að sérstökum bátaflutningabíl, hugmynd sem hefur verið í þróun í nokkra mánuði.

Ekkert kemur í veg fyrir að sama hugmyndin skjóti upp kollinum á fleiri en einum stað í einu. Það er sjálfsagt að sem flestir reyni að nýta sér góðar hugmyndir (og mér finnst þetta sannarlega vera góð hugmynd)  sjálfum sér til hagræðis. Svo geta menn þurft á mismunandi útfærslum að halda eftir eðli málsins og því, hversu mikla peninga þeir vilja leggja í hugmyndina.

Þarna á Snarfarasvæðinu stóð semsé ein útfærsla þessarrar ágætu hugmyndar. Í þá útfærslu höfðu ekki verið lagðir miklir peningar - raunar allmiklu minni en þurft hefði. Þarna stóð vörubíll, svo lítill að það nafn var eiginlega frekar óverðskuldað, og á honum stóð strandveiðibátur af gerðinni Skel26. Ég veit ekki nákvæmlega hversu þungur svona bátur er en þori að leggja hausinn að veði fyrir því að ekki hafi leift mikið af burðargetu bílsins. Mér er nær að halda að henni hafi verið fyllilega misboðið.....



Það þarf öllu öflugri bíl undir þessa stærð af bát. Af útliti bílsins og skoðunarmiða mátti ráða að hann hefði ekki verið í notkun um allnokkra hríð og allt sem eftir var af pallinum voru nokkrir ryðgaðir þverbitar. Í stað afturbretta voru lagðir stubbar af Dokaflekum yfir hjólin. Sjálft ekilshúsið hafði líklega upphaflega verið hvítt að lit en mátt þola eina hálfþekjandi umferð af einhverju sem helst líktist grænni botnmálningu. Mér fannst flest benda til að bíllinn/báturinn hefðu komið um nóttina utan af landi og bátinn ætti að geyma á Snarfarasvæðinu eftir strandveiðivertíðina, sem var þá nýlokið. Væri þessi tilgáta rétt var líklegt (og eðlilegt) að nóttin hefði verið valin til farar því myrkrið hylur allt......

Samt sem áður: Þarna var einhver búinn að útfæra þessa hugmynd mína á ágætan, en frekar öfgakenndan máta. Þessi gamli bíll var, þrátt fyrir að vera lélegur og lúinn, og þrátt fyrir að vera alltof lítill til að burðast með Skel26 á bakinu, nákvæmlega rétta stærðin undir Stakkanesið!

Haldið´að það væri munur að geta skotist á þennan hátt með Stakkanesið norður í Skagafjörð? Eyjafjörð? Skjálfanda, Náttfaravíkur og Fjörður?

....að maður tali nú ekki um Ísafjarðardjúpið!
Flettingar í dag: 56
Gestir í dag: 17
Flettingar í gær: 360
Gestir í gær: 62
Samtals flettingar: 64227
Samtals gestir: 16636
Tölur uppfærðar: 24.4.2024 13:11:16


Tenglar