Gunnar Th.
Fjórða kerfið.....


18.07.2014 21:06

Í Færeyjum - 6.hl. ferðasögu.


Fimmta hluta lauk þegar okkur opnaðist sýn til þorpsins að Viðareiði. Þorpið er það nyrsta í Færeyjum og sérstakt fyrir fleira en það. Þorpið liggur í dalverpi sem myndar nokkurs konar eiði þvert yfir eyna og er hún mjóst um það. Dalverpið liggur nokkurn veginn norðvestur/suðaustur og má segja að þorpið  sé tvískipt. Norðvesturhlutinn stendur hærra og dreifðara og teygir sig upp í hlíð norður af kirkjunni. Kirkjan sjálf stendur framarlega á klettasnösum og er þar hafnlaust með öllu. 







Suðausturhlutinn er að sama skapi lægri og hallar nokkuð niður í átt að Eiðsvík. Í Eiðsvík eru gömul bryggjumannvirki, orðin lúin, barin og brotin af stormum og brimi. 









Bátarnir á myndinni að ofan voru, eins og algengast var, settir með spili og blökkum. Þeir báru það reyndar með sér að notkun þeirra væri stopul enda er langt síðan aðalatvinnuvegur íbúa að Viðareiði var sjávarútvegur. Nokkuð var um fjárhúskofa og talsvert sást af kindum en ekki var að sjá neina fiskvinnslu og líklega hefur útvegur frá þessum stað fyrst og fremst verið sjálfsþurftarbúskapur. Eyjan sem einokar baksýnina er Fugley. Við lauslega athugun virðist Fugley kannski helst líkjast Elliðaey og Bjarnarey við Vestmannaeyjar, há, hömrum girt og óaðgengileg á flestan máta. Samt eru þar tvö smáþorp, Hattarvík og Kirkja. Sé smellt á hlekkinn bak við Fugley má lesa íbúafjölda hvors um sig. Hægra megin við Fugley sést í bláhornið á Svíney, þar sem heitir Selnes.

Á myndinni að neðan sést meira til Svíneyjar og lengst til hægri á myndinni gægist Gáshöfði á Viðey inn á flötinn:



Við röltum þarna um Eiðsvík og bryggjuna en færðum okkur svo yfir og litum á kirkjuna. Hún var raunar læst eins og margar aðrar svo við létum ytri skoðun nægja. Við kirkjuna hittum við íslensk hjón sem voru á ferðalagi líkt og við. Þau ætluðu þó að hafa lengri viðdvöl í eyjunum því bóndinn var með óunnin verkefni í Suðurey og þar ætluðu þau að dvelja nokkra hríð. 



Þarna skaut upp kollinum sama spurningin og víða annarsstaðar: Á hverju lifir fólkið hér? Einhverjir voru með smábúskap en ekki gat það skapað mörgum lifibrauð. Hér var hótel, ekki stórt en nóg til að veita einhverjum vinnu - a.m.k. þann tíma sem túrhestar væru á ferð. Skóli var hér svo einhver voru börnin. Augljóslega hlutu einhverjir að vinna inni í Klakksvík og jafnvel við fiskeldi í Hvannasundi eða Norðdepli. Nýlega byggð hús kirkjumegin í þorpinu bentu hins vegar til þess að þeir sem þau höfðu byggt hefðu meira en meðallaun:





Hluta skýringarinnar fengum við seinna hjá kunnugum: Margir Færeyingar starfa beint eða óbeint í olíuiðnaðinum í Norðursjó. Þar eru menn á rífandi launum og vinna í törnum. Heima í Færeyjum hafa þeir svo reist sér hús á ættarslóðum, spölkorn frá þéttbýlli stöðunum þar sem ódýrari lóðir er að fá. Vegalengdir í Færeyjum eru hverfandi hvort sem er og snjóþyngsli lítil. Mér lék forvitni á að vita hvað konur þessarra manna gerðu á svona útnára eins og Viðareiði - þ.e. þeirra sem á annað borð væru fjölskyldumenn. Svarið var einfalt: "Þær prjóna"

Meiningin var útskýrð með því að þær sem ekki ynnu beinlínis við annað, s.s. skóla og önnur þjónustustörf, framleiddu handverk eins og t.d. lopapeysur sem síðan væru ýmist til sölu á þéttbýlli stöðunum eða hreinlega fluttar út. Semsagt - atvinna og afþreying í einu. Svo hefur barnauppeldi jafnan verið talsverð vinna.......



Á myndinni hér að neðan er horft frá nýjum og glæsilegum íbúðarhúsum á Viðareiði út yfir Hvannasund og til Borðeyjar. Handan sundsins er býlið Múli við enda langrar heimtraðar - sem auðvitað er malbikuð eins og allir aðrir vegir. Lengra til hægri sér á enda Kunoy og enn lengra Kalsoy.  (Konuey(Karlsey)



Viðstaða okkar á Viðareiði varð nokkuð löng en að henni lokinni var haldið til baka. Okkur leið dálítið eins og við hefðum náð á tindinn og værum nú á niðurleið. Það var að því leyti rétt að norðar varð ekki komist í Færeyjum en við áttum eftir að fara miklu, miklu sunnar......

Við komum aðeins við í Hvannasundi og þar er myndin hér að neðan, tekin. Hún er dálítið skemmtileg - a.m.k. fannst okkur Elínu Huld það. Hún er tekin frá kirkjunni og sýnir  þorpið Hvannasund á Viðey hægra megin, þorpið Norðdepil á Borðey vinstra megin og á milli er sjálft Hvannasundið þverað með garði og brú sem vel er sýnileg á myndinni. Ég eigna mér ekki réttinn - það er útilokað að ég hafi tekið svona flotta mynd!



Í fjörunni rétt hjá okkur var stelputrippi - sirka á fermingaraldri - að busla í sjónum, íklædd sundbúningi. Okkur sýndist henni vera hálfkalt en samt óð hún aftur og aftur útí við mikinn fögnuð félaga af báðum kynjum. Einhverra hluta vegna skaut aftur upp kollinum sama hugsunin og þegar við sáum stelpurnar leika sér í fimleikum á götunni í SyðraGötu og gimbu horfa á: Hvar voru nú leikjatölvurnar? Hvar var feisbúkk og allt hitt? Þarna voru krakkar úti að leika sér! Var ekki allt í lagi heima hjá þeim?? 



Auðvitað er kirkja í Hvannasundi og við mynduðum hana, enda afar falleg: ( ég meina kirkjan, sko)



Nokkrum mínútum og tvennum jarðgöngum síðar renndum við inn í Klakksvík. Nú ákváðum við að skoða staðinn betur og lögðum því bílnum. Ég hafði loforð um ís og á honum var byrjað. Meðan hann var sleiktur myndaði EH þvert yfir víkina og hitti fyrir hús sem við höldum að sé ráðstefnu- og tónlistarhús í Klakksvík. Ábendingar eru vel þegnar:







Þær voru margar fallegar, gömlu trillurnar, en þessi bar þó af. 



Svo voru þarna gamlir kunningjar eins og hún Árý. Árý ÍS 414 (6290) var reyndar búin að heita mörgum nöfnum heima á Íslandi áður en yfir lauk og Þróunarsjóðurinn gleypti hana og seldi til Færeyja. Ég þekkti bátinn bæði sem Óla Hall ÍS 414 og seinna Árý ÍS, eftir að Þórir Hinriks eignaðist hann (hana)  og Daði bróðir hans hafði farið höndum um hana (þ.e.a.s. bátinn):





Svo var þarna annar Ísfirðingur, sem eitt sinn var gulur og átti að vera það áfram eftir sölu, að sögn manns sem síðar kom í ljós að var í engu treystandi. Guðbjörg ÍS, sem seinna hét einhverju Akureyrsku nafni, enn síðar Hannover, svo eitthvað fleira, svo Odra heitir nú Akraberg og á heima í Færeyjum. Það er liðin tíð að Færeyingar kaupi ónýta millistríðstogara frá Íslandi - en kannski eiga Færeyingar bara minnst í Akrabergi........



Kirkjan í Klakksvík er engin smásmíði:




Við rákumst á þennan hnjaskvagn (svo notað sé orðfæri Bjarna Fel) og hér sést hvers vegna Færeyingar sneru sér ekki við á götu þegar þeir sáu sjúkrabíl sem ferðabíl. Þeirra sjúkrabílar líta nefnilega svona út:



Allmargar fleiri myndir tókum við í Klakksvík en þessar verða að duga hér. Eftir góða og fróðlega  dvöl í bænum var stefnan tekin á neðansjávagöngin að nýju.  Það er Kunoy sem kveður í miðmynd:



Von bráðar vorum við stödd við Leirvík á Austurey. Við ókum viðstöðulaust í gegn því Leirvík verður þarna áfram um ókomna tíð og við verðum þarna aftur eftir óákveðinn tíma. Dagurinn leið hratt og okkar leið lá til baka um Götuvík og Göturnar þrjár, yfir hálsinn til Skálafjarðar og upp úr botni hans til Funningsfjarðar. Í botni þess fjarðar er samnefnt þorp sem við settum í skoðunarflokk með Leirvík og héldum því rakleitt áfram út með firði að smáþorpinu Funningi. 



Það vakti athygli okkar að í vegkantinum var allmörgum fólksbílum lagt og voru allir mannlausir. Hvergi var fólk að sjá nálægt svo við giskuðum einna helst á að niðri í Funningi stæði yfir einhver athöfn, þá helst í kirkjunni. Bílastæði í þorpinu voru sýnilega fá og því gat verið að fólk legði við kantinn og gengi svo niðureftir. Okkur fannst skýringin ekki góð en aðra betri var ekki að hafa í augnablikinu. 



Hér fyrir neðan rís Slættaratindur, hæsti tindur Færeyja (882m)  upp fyrir öxlina ofan Funnings og teygir sig upp í þokuna:



Staðurinn sem við ætluðum að heimsækja áður en dagurinn yrði allur, var Gjógv, eins og stendur á vegskiltinu á myndinni hér ofar. EH fannst vegurinn dálítið hrikalegur og víst hefði hann verið það ef bílstjórinn hefði ekki verið alinn upp á vestfirskum vegum. Malbikið var hins vegar á sínum stað - öfugt við Óshlíðina í gamla daga...

Gjógv  (Gjá) er afar fallegt smáþorp þar sem tíminn virðist að mörgu leyti hafa staðið í stað. Þorpið er einn af uppáhaldsstöðum Færeyinga sjálfra, líkt og Saksun sem áður var lýst.  Ekið er undir Slættaratindi og aðkoman er um þröngan dal niður brattar brekkur. Þorpið sjálft stendur þétt, ofan við gjána sem það dregur nafn af. Gjáin er klettaskora inn í ströndina, mjó og brimhörð en yfir gnæfa lóðréttir hamraveggir. Innst í gjánni voru á sínum tíma gerð bryggjumannvirki enda voru samgöngur við Gjógv aðallega á sjó áður fyrr. Staðurinn er afskekktur og gönguleiðir til næstu þorpa, Eiðis og Funnings, erfiðar og oft ófærar vegna þoku og vetrarveðra.

Þegar við komum niður í Gjógv var þorpið bókstaflega fullt af fólki. Við hótel staðarins, Gjáargarð voru allmargir bílar og öðrum var lagt á bílastæði ofarlega í þorpinu - fólki virtist ekki hafa verið í mun að þrælast á bílum þröngar vagngötur alla leið heima að eldhúsglugga!  Efst í þorpinu var svo hverfi húsa sem virtust eðlilegur hluti gamla andans sem hvarvetna sveif yfir, en reyndust við nánari skoðun öll vera ný eða nýleg. Þarna var semsagt sumarhúsahverfi margra Færeyinga og svo snilldarlega fellt að umhverfinu að varla sá mun á. Nýja hverfið er til hægri:



Dálítið til hliðar og utan byggðar var svo stórt og vel búið hjólhýsastæði sem rekið var af hótelinu. Ekki sáum við betur en þar væru allmörg hjólhýsi frágengin til lengri stöðu og því nýtt sem hálfgildings sumarbústaðir. Við þetta hjólhýsastæði var einnig stærsta bílaplan þorpsins og þangað komu nokkrar rútur meðan við dvöldum á staðnum - með enn fleira fólk!

Áður en ég fer að dæla inn okkar myndum má ég til að setja þennan youtube - hlekkHÉR. Skoðið lifandi myndir frá Gjógv!




Eins og áður sagði var þorpið krökkt af fólki og virtist vera hátíð í gangi. Við höfðum raunar orðið vör við hátíðahöld víðar en tengdum þau engu sem við þekktum. Þarna í Gjógv fengum við að vita að yfir stæði sk. Jóansöka (-vaka), sem er nokkurs konar Jónsmessa þeirra Færeyinga. 



Hér er svo horft ofan eftir gjánni sjálfri. Það hefur ekki verið fyrir neina aukvisa að sigla litlum báti þarna inn í slæmu veðri og þungum sjó! 



Eitt var að lenda bátum en annað að bera afla eða vörur upp úr gjánni. Brautin í miðjunni er fyrir vagn sem dreginn var á spili upp á slétt plan ofan við en beggja vegna eru tröppur. Bátarnir voru svo dregnir undan sjó með sama spili eða öðru sem er í hvíta skúrnum:





Niðri í gjánni, á bryggjunni:



Þar sem sjórinn gutlaði við steinana mátti finna alls konar skeljar og kuðunga. EH fannst þessar áhugaverðar. Þær voru nefnilega fastar á klöppunum dálítið ofan sjávarborðs:









Svo var rölt um þorpið. Það er áberandi hversu falleg og snyrtileg húsin eru og skyldi engan undra. Flest eru sumarhús og eigendurnir eru þá væntanlega í fríi þegar þeir dvelja í þeim. Undir þeim kringumstæðum gildir sú regla að menn sofa þegar þeir eru syfjaðir, borða þegar þeir eru svangir og - mála þegar ekki rignir!



Ég hef áður minnst á bókina hans Huldars Breiðfjörð, "Færeyskur dansur" og það hvílík biblía hún var mér fyrir og í ferðinni. Huldar kom líka til Gjógv og hafði orð á þessu með fallegu húsin. Við vorum algerlega sammála...



Allir verða að hafa eitthvað að starfa og þó vissulega hafi á löngum tíma föstum íbúum fækkað verulega í Gjógv eru þeir þó nokkrir.....og þeir sem ekki eru eftirlaunaþegar þurfa að starfa eitthvað. Í þorpinu er starfrækt lítið brot af stóru fiskeldisfyrirtæki og á þess vegum var í tilefni Jóansvöku sett upp kar með fiskum. Þessi litla dama var hugfanginn af lífinu í karinu en vildi ekkert ræða við óskiljanlega fólkið sem reyndi að tala við hana:  



Svo var það kirkjan. Hún var opin og ekki bara það heldur stóð yfir einhver athöfn. Ekki vildum við raska friði kirkjugesta og skoðum hana því bara næst.....



Skammt frá kirkjunni er þetta minnismerki um burtkallaða þorpsbúa. Á mörgum skjöldunum var áþekk áletrun og gaf til kynna að viðkomandi hefði látið lífið "í gjánni". Nokkrir höfðu orðið úti milli byggða en flestir voru sjómenn sem höfðu farist af eða með bátum. Við a.m.k. eitt nafn stóð: "Látinn í Reykjavík"  Mig minnir að ártalið hafi verið 1969...





Að neðan má sjá yfir hluta byggðarinnar og nýja hverfið er í forgrunni:



Við geymdum sjúkrabílnum ofarlega í þorpinu, við veginn að hjólhýsastæðinu og settum út fánann. Ekki aflaði hann okkur viðmælenda frekar en fyrr.



Svo kvöddum við Gjógv og allt glaða fólkið, og héldum okkar leið. Sú lá til baka undir Slættaratindi (enda ekki önnur í boði) en í þetta sinn fórum við ekki niður að Funningi heldur greindist leiðin þar í hlíðunum og sú greinin sem við völdum lá til vesturs í átt að Eiði. Eiði er talsvert stórt þorp við "Sundini" milli Austureyjar og Straumeyjar og leiðin að því lá í hálfgert U í hlíðum Slættaratinds og meðfram honum. Þegar við ókum sem næst fjallinu veittum við enn athygli fjölda bíla sem lagt var í vegkanti og utan vegar. Allir voru mannlausir og aðeins sáum við örfáar manneskjur á gangi áleiðis upp í þokuna sem huldi fjallið. Enga skýringu kunnum við á þessu háttarlagi þá en fengum hana síðar.

Þegar halla tók undan fæti birtist fjallið Eiðiskollur og framan við það drangarnir tveir, "Risin og kellingin". Það er eiginlega nauðsynlegt að nýta hlekkinn til fróðleiks.....





Þorpið Eiði stendur, líkt og Viðareiði á Viðey, á eða í dalverpi sem sker fjallgarð í tvennt. Undirlendi er þó mun minna að Eiði og stærstur hluti þorpsins er byggður í halla sem sums staðar gæti virst allt að 45 gráður. Utan við eiðið sem þorpið dregur nafn af er sem fyrr segir, fjallið Eiðiskollur og er svipmikið þrátt fyrir að vera aðeins tæpir 340 metrar á hæð. Risinn og kellingin skreyta það svo enn frekar.

Á myndinni hér að neðan sjást m.a. grænir grasblettir og vegræma. Við fjærenda vegspottans er grjóthlaðin fjárrétt og mótar fyrir henni á myndinni. Ofan frá brúnunum leist okkur þessi blettur ákjósanlegur náttstaður og settum hann efst á óskalista:





...........og það var rétt!



Næst: 7. hluti, sunnudagur og fleiri eyjar!

................................................

Flettingar í dag: 24
Gestir í dag: 6
Flettingar í gær: 209
Gestir í gær: 40
Samtals flettingar: 64800
Samtals gestir: 16810
Tölur uppfærðar: 28.4.2024 02:07:25


Tenglar