Gunnar Th.
Fjórða kerfið.....


12.02.2015 09:39

Huglægt eða landlægt?


 Ég er að velta mér fyrir því (eins og Geiri heitinn danski orðaði það) að skipta um skoðun. Eða kannski ekki skipta alveg um skoðun heldur aðlaga skoðunina ríkjandi aðstæðum. Ég sagði nefnilega hér fyrir helgi að veður væri huglægt ástand. Óveðrið í Stykkishólmi um síðustu helgi var síður en svo huglægt - það var ákaflega áþreifanlegt og þetta áþreifanlega gilti í báðar áttir því ef maður hætti sér út fyrir dyr var rifið í mann jafnharðan og manni kastað til og frá.........

Þess vegna held ég að veðurfarið á þessu vindbarða skeri okkar sé ekki lengur bara huglægt heldur landlægt - það linnir ekki lægðunum sem yfir okkur ganga og þegar þetta er skrifað er tæplega sjö stiga frost í Höfðaborg (eða utan við hana). Það snjóaði svo þétt í gærkvöldi þegar ég var á leið úr vinnu að ég fann ekki afreinina úr Ártúnsbrekkunni og áttaði mig ekki á umhverfinu fyrr en ég kom upp að Hvalfjarðargöngum.......

Nújæja, kannski ekki alveg dagsatt en það snjóaði allavega svo mikið að allar akreinar runnu saman í eitt og skyggnið var langt undir ásættanlegu marki. Ég komst þó heim að lokum og hefði gjarnan viljað taka bílinn á hús en möguleikinn var því miður ekki í boði þar sem annar var fyrir. Ég á eftir að athuga hvort þetta hvíta, ólögulega hrúgald utan við gluggann minn er bíllinn sem ég kom á heim í gærkvöldi - það er ekkert bílslegt við þetta klakastykki.

......og nú spá þeir roki og rigningu um helgina! Aftur og nýbúnir!

Ég komst ekki í Hólminn á föstudagskvöld eina og ætlað var því þarfir annarra gengu fyrir mínum, eins og svo oft áður. Auðvitað er sú uppröðun mér að kenna og engum öðrum en þannig er það bara. Ég ætlaði aðeins að rétta hendi í korter eftir vinnu og aka síðan rakleitt uppeftir en þetta korter varð að tveimur og hálfum tíma. Klukkan hálfsjö um kvöldið var komið svartamyrkur auk skítviðrins sem almættið telur svo sjálfsagt að leyfa okkur að njóta sem lengst. Ég verð náttblindari með árunum og á ákaflega erfitt með að aka um óupplýsta vegi í myrkri og illviðri svo brottför var frestað til laugardagsmorguns. Veðrið var þá að vísu hið sama en birtan gerði gæfumuninn. Þegar í Hólminn kom og búið var að "flytja inn" og fylla á ísskápinn var lagst í heitu potta sundlaugarinnar. Það er í fyrsta sinn sem ég hef fundið raunverulega þörf fyrir að hafa húfu í heitapottinum því við lá að hausinn frysi af manni!

Leiðin lá svo til baka eftir hádegi á mánudaginn sl. Aksturinn tók þessa venjulegu tvo tíma og það sýndi sig að leiðindaveðrið sem þá var norðan Ness náði ekki suður fyrir því Mýrarnar voru auðar og þurrar. Þannig var færið alla leið suður og eftir fataskipti og stutta "lagningu" í Höfðaborg var ég mættur í vinnu rétt fyrir kl. 16.

Næsta dvöl í Hólminum er ekki á dagskrá fyrr en um páska en í millitíðinni gæti þurft einn dagskrepp eða svo til að sækja tvo hluti í Stakkanesið, sem þarf að endurnýja fyrir vorið. Það var nefnilega ekki viðlit að athafna sig um borð nú vegna veðurs.....

......en þangað til verður maður að þreyja þorrann og góuna hér syðra.




.............................................

06.02.2015 07:06

Hó hó hó.......


Nei, það eru ekki að koma jól aftur. Nú liggur leiðin hins vegar upp í Hólm enn á ný þrátt fyrir slæma veðurspá. Veður er huglægt ástand og í Hólminum er alltaf sól í sinni. Ég tek myndavélina með ef eitthvað merkilegt skyldi bera fyrir augu. Edilon Bassi Breiðfjörð o.s.frv. er farinn í heimsókn til "hinna" foreldranna í Hafnarfirði enda eru ferfætlingar almennt illa séðir í frístundahúsum stéttarfélaganna. Nú er klukkan rúmlega sjö að morgni föstudags og tveimur "heima"verkum enn ólokið að viðbættu einu dagsverki hjá óskabarninu. Svo verður það Hólmurinn og heiti potturinn........

Setjum eina gamla og góða í lokin. Þetta er SÓLÓ minn á siglingu á Sundunum á Ísafirði haustið ´99:


25.01.2015 10:23

Kerfið er enn bilað....


.....eða svo sýnist mér því stórir hlutar þess virka illa eða alls ekki. Þessar bilanir hjá -123.is- eru farnar að verða hálf þreytandi og spurning hvernig á að bregðast við. Fyrsta bloggkerfið sem ég notaði og vísað er til í hlekk hér hægra megin ofarlega var erlent, er enn í rekstri og virðist ganga ágætlega. Það hefur einu sinni skipt um eigendur á þeim ellefu árum sem liðin eru frá því ég byrjaði að skrifa en engin teljandi breyting var því samfara - ef þá nokkur breyting. Líklega hefði ég átt að halda mig við það kerfi áfram í stað þess að skipta yfir í íslenska kerfið -blog.central.is- og síðar -blogg.visir.is-. Báðum þessum kerfum var haldið úti af 365.Miðlum sem nú hafa lokað þeim, trúlega í kjölfar stöðugra netárása erlendis frá. Þar með tapaðist stór hluti þess efnis sem, ég hef haft fyrir að skrifa niður um árabil, bæði ferðapistlar og annað.  

Nújæja, það þýðir ekki að gráta Björn bónda.........

Fyrir helgina sat ég á fundi, eins konar kynningu og á þessum fundi var mikið talað. Fyrir talinu stóðu fjórar manneskjur en sú fimmta var fundarstjóri. Þessar fjórar manneskjur héldu hver sinn fyrirlestur um sitthvert efnið en þó voru skaranir á stöku stað - eðlilega, þar sem um var að ræða kynningu á stórfyrirtæki og dótturrekstri þess. Ég á líklega eftir að sitja fleiri slíka fundi í framtíðinni.

Samstarfsmenn mínir yngri höfðu varað mig við þessum fundarsetum og bent mér á að hafa með mér eldspýtur til að nota sem vökustaura. Ég átti engar eldspýtur enda kom á daginn að þeirra var engin þörf. Allir fjórir fyrirlestrarnir voru mjög fróðlegir og skemmtilegir (- að vísu sýndist mér þeim yngri í salnum ekki jafn skemmt og mér en það er önnur saga - ) en meðan ég hlustaði komst ég ekki hjá því að velta fyrir mér misjöfnum hæfileikum fólks til að tala yfir hópi. Þrjár þeirra manneskja sem töluðu (ég tilgreini ekki kyn) höfðu gott lag á að ná til fólks og ein fannst mér skara fram úr. Sá fyrirlesari hélt sína kynningu á afar hnitmiðaðan hátt, talaði í stuttum, meitluðum setningum og setti þær fram á þann hátt að hlustandinn beinlínis VARÐ að hlusta. Það var enda greinilegt að fyrirlesarinn þekkti hvert smáatriði síns efnishluta og þegar úr sal barst ein spurning með handaruppréttingu svaraði hann (eða hún) henni með örfáum orðum sem sem sögðu nákvæmlega það sem segja þurfti - hvorki meira né minna.

Annar fyrirlesari flutti erindi um yfirgripsmikið efni og gerði það á lifandi hátt, skaut inn í töluna örstuttum skemmtiatriðum og brosti þegar við átti. Hann (já, eða hún...) kom máli sínu mjög vel til skila til okkar sem á annað borð komum til að hlusta en ekki drepa tímann með fikti í símum og þessháttar....

Þriðji fyrirlesarinn kynnti afmarkað svið sem hann (eða kannski hún...) starfaði á. Fyrirlesarinn talaði á spjallnótum, krafðist ekki endilega athygli en flutti efnið líkt og um kunningjaspjall væri að ræða. Efnið átti erindi til allra í salnum en ég tók eftir því að ekki voru allir með á nótunum og í einu tilfelli þurfti fundarstjóri að stöðva truflandi tveggja manna tal undir flutningnum. Þessi fyrirlestur var annars mjög fróðlegur og vel fluttur.

Svo var það fjórði fyrirlesarinn. Ég man bara alls ekki um hvað hann (eða hún...) talaði og aðeins óljóst hvernig talarinn leit út. Eins og fram kemur að ofan fannst mér fyrirlesturinn fróðlegur meðan ég hlustaði en efnið man ég bara ekki lengur.....

Svona getur fólk verið misjafnt. Þrír fyrirlesarar fluttu mál sitt á skemmtilegan og lifandi máta. Sá fjórði þarf að æfa sig aðeins betur í að ná til áheyrenda. 

.........................................................................

Þegar þetta er skrifað er sunnudagsmorgunn og veðurspáin gerir ráð fyrir illviðri er líður fram um hádegi. Viðvaranir hafa verið fluttar og ég, sem ætlaði að heimsækja General Bolt-on í Sandgerði hef slegið þá ferð af. Í staðinn ætla ég að halda mig heima í Höfðaborg og horfa á nýju, fallegu bryggjumyndina sem ég fjárfesti í í gær og hengdi upp.

Það er mikil ró í þeirri mynd:


23.01.2015 00:07

Kerfið er bilað.....


....og því enginn tilgangur í að setja neitt inn að sinni.

11.01.2015 10:03

Bara svona dagur......


Dagatalið hér í Höfðaborg segir að það sé sunnudagur. Þetta er fínasta dagatal, skreytt skipamyndum enda ættað úr smiðju landsþekkts skipaljósmyndara á Húsavík. Ég sé því enga ástæðu til að rengja það sem á því stendur.

Sunnudagar eru í eðli sínu frídagar. Ég er ekki svo svakalega gamall en man þó þá tíð að venjulegri vinnuviku lauk ekki fyrr en á hádegi laugardags. Vinnudagurinn hófst klukkan átta að morgni, kaffi var hálftíu til tíu, matur tólf til eitt og seinna kaffi hálffjögur til fjögur. Klukkan fimm hófst eftirvinna og vinnudegi lauk kl. sjö. Þannig var það. Fjórir tímar fyrir hádegi, fjórir tímar eftir hádegi auk tveggja eftirvinnutíma gerði tíu tíma vinnudag. Vinnuvikan fimm heilir dagar og einn hálfur. Vinna utan þessa tíma hét nætur- og helgidagavinna og var greidd með 80 prósenta álagi á dagvinnutímakaup - eftirvinnutímarnir tveir voru greiddir með 40 prósenta álagi á tímalaunin en gátu, eðli málsins samkvæmt aldrei orðið fleiri en átta um vikuna. Svo, á einhverjum tímapunkti var eftirvinnutaxtinn lagður niður og öll vinna umfram átta tímana nefnd yfirvinna og greidd með 80% álagi. 

Kannski var þetta í eina skiptið í samtímasögunni sem tókst að einfalda eitthvað kerfi í stað þess að flækja það!

Svo hafa auðvitað alla tíð verið til störf sem spyrja hvorki að því hvað klukkan er né hvaða dagur er. Ég nefni aðeins umönnunarstörf á spítölum og löggæslu af því þau störf eru samfélaginu líklega mikilvægust af öllum. 

Eftirspurn myndar venjulega framboð. Trúlega er sú regla algild. Hitt er líka vel þekkt að framboð getur myndað eftirspurn - ef einhver snjall sölumaður lætur sér detta í hug eitthvað sem almenningur "verður" að eignast og auglýsir það rækilega þá eru meiri líkur en minni á því að almenningur bíti á agnið og úr verði metsala út á einhverja tilbúna gerfiþörf. Má nokkuð nefna fótanuddtæki og röndótta blómavasa?

Svo er allt hitt sem hægt er að klóra sér í kollinum yfir: Er t.d. hægt að segja að það hafi verið eftirspurn eftir sjónvörpum áður en þau voru fundin upp? Við getum einfaldað dæmið og sett það upp þannig að einhver hafi smíðað sjónvarp, sett það á markað og allir hafi samstundis þurft að eignast eitt slíkt. Daginn áður vissi engin að það væri til. Auðvitað þurfti útsendingu sjónvarpsefnis til að tækið virkaði, svo heildarmyndin er auðvitað stærri en dæmið er samt rétt og hægt að sanna það með því að minna á manninn vestur á Ísafirði sem keypti sér sjónvarp og stillti því upp sem stofudjásni löngu áður en slík tækni náði til Ísafjarðar. Hann hlaut fyrir vikið nafnbót sem mörgum eldri Ísfirðingum er enn í fersku minni.

----------------------------------

Allt ofannefnt eru fabúleringar sem urðu til út úr því sem ég ætlaði raunverulega að segja. Það sem ég ætlaði að koma á framfæri er einfaldlega það að þótt það sé sunnudagur hér í Höfðaborg þá er ekki frídagur. Þegar maður lagar eitthvað fyrir frænda eða frænku (framboð) spretta fram frændur og frænkur úr öllum hornum og þurfa líka að fá lagað (eftirspurn). Þegar eftirspurnin er farin að keyra úr hófi og ekki er hægt að auka framleiðnina/framboðið þarf að grípa til einhverra ráða. Eitt þeirra gæti t.d. verið að skrúfa smám saman niður eftirspurnina með því að miðla þörfinni í aðrar áttir. Þar með minnkar framleiðnin smátt og smátt og bein afleiðing er að vinnutími "framleiðandans" styttist. Á einhverju þurfa menn þó að lifa og því var gott að skríða undir væng "Óskabarns þjóðarinnar" þar sem í boði voru bæði reglulegur vinnutími, úrvals aðstaða og öndvegis vinnufélagar - að ógleymdum þokkalegum launum. Það tekur hins vegar dálítinn tíma að skrúfa niður í öllum frændunum og frænkunum og þess vegna er sunnudagur hér í Höfðaborg aðeins til á fallega skipadagatalinu mínu.

......og það var nú allt og sumt sem ég ætlaði í upphafi að segja...........

08.01.2015 18:50

Neinei - ekki lokað!


.......heldur klaufagangur í smábreytingum á síðunni sem fóru úr böndunum svo ég ákvað að loka meðan allt var í rugli. Nú á allt að vera í lagi - eða það vona ég.

Það var stormur og snjókoma í Höfðaborg þennan fimmtudagsmorgun og Bassa langaði ekki út í morgungöngu. Hann lét sig þó hafa það.  Svo lygndi og tuttugu metrarnir sem veðurstofan hafði lofað létu ekki sjá sig - a.m.k. ekki innan míns sjónmáls.

Klukkan tifar......

05.01.2015 22:46

Skrýtilegt.....


Það er mánudagskvöld og fyrsti vinnudagur vikunnar að baki. Hann var eðlilega dálítið skrýtinn því manni bregður við að fara aftur í "venjulega" vinnu eftir tveggja ára velþegið hlé frá þesslags. Ég er nú samt ekki frá því að þetta gæti vanist - aftur. Maður sér til.....

Það voru allar aðalleiðir orðnar marauðar þegar við ókum suður síðdegis í gær eftir helgi í Hólminum. Undir Hafnarfjalli var hávaðarok, svo mikið að bíllinn sviptist til hliðar í verstu hviðunum - enda rúmir þrjátíu metrar á skiltunum. Það er slæm tilfinning að finnast maður ekki hafa stjórn á aðstæðum. Allt gekk þó vel og við vorum hér heima rétt fyrir kl. 18.

Ég er ekki með myndavélina og get því ekki sett inn síðustu myndirnar sem teknar voru uppfrá en þær koma fyrr en síðar. Nú þarf ég að þrauka mánuð hér syðra en þann 6. febrúar liggur leiðin enn í helgarfrí í Hólminum.

Maður hefur alltaf eitthvað til að hlakka til........ 

03.01.2015 12:13

Hólmurinn.


(Viðbætur settar neðan við kl. 18.40)


Það var assgoti sleipt á leiðinni uppeftir í gærkvöldi enda var sú litla umferð sem þó var, mun hægari en vanalega. Ofan við Borgarnes gekk yfir eitt stutt él en eftir það var stjörnubjart og brá fyrir norðurljósum. Veðrið í Hólminum við þangaðkomu  um kl. 21 var einstaklega fallegt. Við komum okkar dóti fyrir í leiguhúsinu, sópuðum snjó úr innkeyrslunni og héldum svo beint í sundlaugina - þ.e.a.s. í heita pottinn. Það stóðst á endum að þegar við komum út úr sundlauginni var farið að élja og þunnt, hvítt teppi lagðist að nýju yfir nýsópaða innkeyrsluna við húsið.

Eftir pottinn var litið á stórskipið Stakkanes sem  hvílir sig veturlangt í Skipavík. Allt var þar óhreyft og í besta standi. Kvöldinu var svo lokað með einhverri skandinaviskri bíómynd á RUV. 

Snemma í morgun fór að blása dálítið og snjórinn frá gærkvöldinu þyrlaðist upp í hvirfla milli húsanna. Fljótlega gekk þó niður og nú þegar þetta er skrifað, um hádegi á laugardegi, er fallegasta veður - hversu lengi sem það nú helst!

Það er þriðji janúar og aðeins rúmar tvær vikur frá því við komum heim frá því að skoða jólaskreytingar í Vestmannaeyjum. Kannski eru einhverjir  búnir að slökkva á skreytingunum hér í Hólminum, allavega er talsverður munur á fjölda útiskreytinga hér og þar.

Stykkishólmur og Vestmannaeyjabær eiga það hins vegar sameiginlegt að þurfa ekki jólaskreytingar til að vera fallegir að vetri.................





Myndir teknar á göngu í dag:

Er eldgos í Kerlingarskarði?




Stauraskreytingar:




P - 51:




Tunglið stígur upp fyrir Fellsströndina uppúr kl. hálffjögur:





Krossinn á kaþólsku kapellunni og tunglið í harðri keppni um athygli:





Svo vatt Máni sér milli trúarbragða og skein næst á útibú þjóðkirkjunnar:






Ég vil að það komi skýrt fram að ég tók þessa mynd hér að neðan. Þótt myndavélin ráði ekki við léleg birtuskilyrði - sjá Vestmannaeyjasyrpuna - og EH taki yfirleitt betri myndir þá náði ég þessari frá heimreiðinni að Hótel Stykkishólmi. Ég þurfti að halda myndavélinni langt uppyfir haus og sá aðeins á skjáinn með hornauganu en það dugði.





Það er komið kvöld og hangikjötinu hafa verið gerð skil. Ég leggst á meltuna.......


...................................







31.12.2014 16:07

Vatn og brauð.


 Nei, það er hvorki vatn né brauð á matseðlinum í kvöld - og heldur ekki á morgun. Í kvöld er steiktur sauðfjárafturfótur á borðum, ásamt tilheyrandi meðlæti. Ég veit ekkert hvað er í matinn á morgun en hitt veit ég að síðan hallar öllu í áttina að vatni og brauði. Margt hefur mér verið misgjört um ævina en fátt líkt því sem Krónan gerði nú - að auglýsa 50% afslátt af öllu konfekti! Auðvitað fór ég á stúfana og miðað við það magn sem ég keypti er líklegt að konfektbirgðir Krónunnar hafi verið þrotnar vel fyrir hádegi.

U.þ.b. tvær klukkustundir af morgninum fóru í allsherjarleit að Edilon B. Breiðfjörð sem gerði mér, eiganda sínum þann grikk að stinga af frá skoðunarstöð Aðalskoðunar í Skeifunni í morgun. Þangað fór ég til að færa fyrrum vinnufélögum einn af konfektkössunum úr Krónunni en Bassi, sem átti að sjálfsögðu að fá mola notaði tækifærið um leið og honum var hleypt út úr bílnum og hvarf "med det samme". Ég leitaði árangurslaust um allt hverfið og víðar en tveimur tímum síðar hringdi  10-11 ára gutti úr Ljósheimunum og sagðist vera með óskilahund heima hjá sér. Ég varð óskaplega feginn að Bassi skyldi vera heill á húfi enda er slíkt ekki sjálfgefið í þessu umferðarþunga hverfi. Um leið og ég sótti hann fékk guttinn andvirði lítils flugeldapakka í staðinn fyrir pössunina. Bassi var hins vegar ekkert á því að koma með mér því fjölskylda guttans átti Labradortík sem var lóða en hafði verið úti á göngu með honum þegar Bassa bar að. Guttinn kom því heim með tíkina sem bar Bassa eins og frímerki á bakinu. Ekki orð um það meira!

Ég ætla ekki að strengja nein áramótaheit - önnur en þau að haga mér vel gagnvart öllu mínu fólki og öðrum líka. Komandi ár er óskrifað blað og óræðnara en flest önnur að því leyti að nk. mánudag klæðist ég nýjum, sérmerktum vinnugalla. Þar með hefst nýr kafli - og satt að segja dálítið spennandi, held ég. Allt um það síðar.

Skotturnar mínar hafa báðar samskonar smábíla til umráða, aðeins liturinn greinir á milli og báðir eru í minni eigu. Annar þeirra styttist eilítið í gærmorgun en allt var þó slysalaust og dældir og skrámað lakk spillir ekki áramótagleði. Þessi klausa er heldur ekki sett hingað inn "landsmönnum" til upplýsingar heldur sem söguleg heimild fjölskyldunnar þegar fram líða stundir.

Það líður á þennan síðasta dag ársins og sturtan bíður. Svo kemur nýársdagur, svo föstudagur og síðla þann dag ætla ég að leggja land undir hjól og aka einu sinni sem oftar upp í Stykkishólm. Það verður þá fyrsta ferðalag ársins 2015 en vonandi ekki það síðasta. Ég ætla að klappa Stakkanesinu dálítið um helgina en leiðin liggur svo suður aftur á sunnudagseftirmiðdegi. Að morgni ný vinna.........

Að síðustu: Örlítið minningarbrot um það sem eitt sinn var. Hér eru þeir Moli og Kisi undir jólatrénu á Lyngbrekkunni fyrir átta árum. Húsið á Lyngbrekkunni stendur enn, í annarra eigu þó.  Jólatréð og dýrin eru undir mold en minningin lifir.



Gleðilegt ár og gangið hægt um gleðinnar dyr.........

26.12.2014 11:38

Annar jóladagur.






(ég veit að myndin er ekki hefðbundin jólamynd en þar sem hún er tekin aðeins nokkrum dögum fyrir jól má ég til að birta hana. Jólin eru nefnilega líka hátíð dýranna, a.m.k. fá þau Sulta og Bassi ekki hamborgarhrygg eða hangikjöt aðra daga. Hún Sulta hefur stækkað talsvert eins og sjá má ef litið er á niðurlag ÞESSA pistils)

------------------------------------------------------------------------------------------------

Það er annar í jólum og ekki komið hádegi. Úti heyrast vindhljóð og stöku sinnum vottar fyrir éli á þakgluggunum í Höfðaborg. Ég hef ekki aðgang að framgluggunum því sonurinn er enn sofandi en þegar ég hleypti Bassa út í morgun sá ég að það hafði snjóað dálítið. Við þáðum jólaboð í gærkvöldi og þegar heim kom var Grandinn tekinn á hús, svona til að hlífa nýjustu bónumferðinni. Hann er því þurr og hlýr hér niðri. Hrossadráparinn svarti, sem nú er eign sonarins, fékk einnig sína bónumferð í gær og glansaði eins og forsetabíll á leið í jólaboðið.

( Já, við fórum tveir á tveimur bílum! Slíkt er auðvitað ekki hagræðing en óumdeilanlega mikið hagræði - fyrir okkur)

........og nú er mér boðið í jólabröns á eftir úti í bæ. Boðinu fylgir það skilyrði að ég mæti með borvél og tilheyrandi dót til að leggja loftnetskapal.

Svo er boðið til stórveislu úti í bæ í kvöld. Ég hef ekki ákveðið hvort ég fer. Finnst eiginlega komið nóg af ofáti í bili.

Skiljiði nú hversvegna hér í Höfðaborg er að finna eina eldhúsið á landinu sem enga hefur eldavélina?

Ég þakka þeim þremur sem sendu mér jólakveðu undir Þorláksmessupistlinum - og auðvitað öllum hinum sem í hógværð létu það vera en lesa samt - innlitatölurnar ljúga ekki.

Tíminn líður og ég þarf að taka til borvél og hæfilegan bor. Eigið öllsömul góða jóladaga!

23.12.2014 07:49

Þoddlákur.


 Það er Þorláksmessumorgunn, í Höfðaborg er stilla og hlýtt miðað við veðurspár undanfarinna daga. Þegar við feðgar gengum til náða í gærkvöldi hvein óvenjulega mikið í vatnskerfinu og ég gekk um allt til að leita að leka. Ekki fannst hann hjá mér. Í morgun var ég vakinn eldsnemma af veghefli sem fór hér um götuna og fræsti upp þykkan klaka. Þá tók ég eftir því að enn hvein í vatninu. Bassi bað um sína venjubundnu morgungöngu og fékk hana. Þá tók ég eftir vatnstaum eftir götunni. Þar með var skýringin komin. Nágranni minn hefur sumsé vakað í alla nótt við að bræða klaka úr stæðinu sínu og er enn að. Við götubrúnina er nú um 20 cm skör framan við stæði okkar hinna þar sem þykkast er og hefillinn fór um.......

Það hefur lítill tími gefist til jólaundirbúnings er þó er flestu lokið og það sem eftir er telst smálegt. Nú er einblínt á veðurspá "millidaganna" því stefnan hefur verið sett á Stykkishólm þar sem stórskipið Stakkanes á að fá dálítið jólaklapp.

Klukkan er að verða átta og leiðin liggur niður í Suzuki umboðið í Skeifunni. Ég er með smáverkefni í höndunum sem þarfnast úrlausnar fyrir jól. Það á að hafast ef vel gengur....

.....og nú er komið fram um hádegi og ég má til að bæta örlitlu við pistilinn: Á miðjum morgni, þegar ég stóð hér utan við Höfðaborgina með hendur í vösum, nefið upp í loftið og andaði að mér veðurblíðunni, rak ég augun í tvo starfsmenn Orkuveitunnar sem voru að hita upp hlemm í götunni - líklega til að geta opnað hann. Þeir voru svona tuttugu metra frá mér á aðra hönd en á hina höndina í sömu fjarlægð var nágranninn enn með heitavatnsslönguna að bræða klakann úr innkeyrslunni sinni (sem er nokkuð stór). Ég fylgdist með þeim hvorum í sínu lagi stutta stund en brá mér svo af bæ álíka stutta stund. Þegar ég kom aftur var granni á tali við Orkuveitumennina. Ég gerðist fluga á vegg og komst að því að einhver neðar í hverfinu hafði í morgun látið vita um heitavatnsleka, þar sem ylvolgt vatn rann í taum undan klakaskör. Ekki hafði sá reynt að finna upptök lekans heldur hringdi beint í Orkuveituna og tilkynnti bilun. Orkuveitan sendi tvo algallaða sérsveitarmenn á bíl (einum bíl þó) á staðinn og þeir hófust handa við að losa áðurnefndan hlemm í götunni - taumurinn rennandi tvo metra frá þeim og granni með slönguna í 35-40 mtr. fjarlægð að bræða klakann!

Sérfræðingarnir virtust því hafa eytt drjúgum tíma í vangaveltur um upptök lekans þegar þeim hugkvæmdist að snúa höfðinu örlítið og "uppsprettan" blasti við.

Líklega hefði sá sem tilkynnti lekann getað sparað OR útkallið ef hann hefði lagt á sig svo sem tuttugu metra labb upp á móti brekkunni til að leita upptakanna.

........en til þess þarf bæði líkamsorku og það sem sjaldgæfara er: Hugmyndaflug!



16.12.2014 22:42

Það habbðist fyrir rest...


 Er kominn heim í Höfðaborg eftir rokk og ról í Herjólfi. Hefði samt getað verið verra og mig grunar að þeir sem komu út til Eyja með fyrri ferð í dag móti suðaustanstormi hafi verið búnir að fá nóg eftir langa siglingu á hálfri ferð. Okkar brottför seinkaði um tvo tíma en svo var siglt á lensi með venjulegum hraða upp í Þorlákshöfn. Það var rétt búið að opna Þrengslin og Hellisheiðina og það merkilega var að þar uppi var ákaflega lítinn snjó að sjá - vandræðin í dag hafa líkast til aðallega verið vegna blindu en ekki beinnar ófærðar.

Í augnablikinu er bloti en veðrið á að snúast til harðar suðvestanáttar í nótt. Það er semsagt nóg eftir af illviðrum og ófærð.

Það eru ekki alltaf jólin, sko.......

15.12.2014 10:30

Enn fjör í Eyjum!


Það er kominn mánudagsmorgunn og það er kalt úti. Ég hef raunar engan hitamæli en ég sé kuldann út um gluggann - og svo hef ég netið. Veður.is segir fjögurra stiga frost hér í Eyjum en það er vindbelgingur og virkar því mun kaldara. Það var andskoti kalt að hlaupa út í heitu potta sundlaugarinnar í gær en hlaupið var þess virði og það tók sirka klukkutíma að hita sig svo í gegn að maður væri farinn að hlakka til kælingarinnar á leið inn í klefana aftur!

Eftir laugina var litið inn í Eldheima. Þar var fámennt, afar fámennt. Við vorum einu gestirnir það síðdegið og enduðum heimsóknina á fróðlegu og góðu spjalli við safnstýruna. Skoðunarferðin um safnið er hreint mögnuð og allir sem heimsækja Eyjar ættu að setja ferð í Eldheima á oddinn. 

Það var bjartviðri í gær en sem fyrr segir bæði kalt og vindasamt. Við ætluðum okkur að ganga bæinn þveran og endilangan eftir Eldheimaferðina en gáfumst fljótlega upp og héldum okkur við bílinn. Þessi mynd hér að neðan er raunar tekin á föstudaginn rétt eftir komu og þarna er nær snjólaus bær. Það átti eftir að breytast.









Myndirnar hér að neðan eru teknar eftir sundlaugarferðina í gær, sunnudag. Það hefur hressilega bætt í snjóinn þótt ekki hafi verið um neina ófærð að ræða - ekki nema þá á stöku stað fyrir vanbúna bíla.





Kirkjugarðurinn er einstaklega fallega skreyttur - eins og raunar bærinn allur. Myndavélin mín er hins vegar hvergi nærri nógu góð þegar þarf að mynda við takmörkuð birtuskilyrði og þessar myndir hér að neðan eru þær skárstu úr fjölda mynda sem teknar voru yfir garðinn og nágrennið.








Það er semsagt kominn mánudagur og ágætt veður þrátt fyrir vind og frost. Við eigum heimferð með Herjólfi síðdegis á morgun, þriðjudag. Veðurspá fyrir þann dagshluta er afleit, spáð er suðaustan stormi. Ef Herjólfur fer ferðina á annað borð verðum við líklega snögg til Þorlákshafnar, með hávaðarok og sjógang í rassinn!

Ég er samt að hugsa um að hafa vaðið fyrir neðan okkur og kaupa aukadag í orlofshöllinni við Heiðarveginn............


.................

13.12.2014 21:26

Fjör í Eyjum!


Það er laugardagskvöld í Eyjum - eins og víða annarsstaðar - og þrátt fyrir slæmt útlit er enn hægviðri. Siglingin út með Herjólfi í gær var líkust því sem siglt væri á lygnum polli. Hér er snjólaust að kalla og aðeins þunnur klaki á gangstéttum. Orlofsíbúðin sem ég tók á leigu var óhrein eftir síðustu leigjendur og fyrsti klukkutími frísins fór í að þrífa hana og henda rusli sem skilið hafði verið eftir fyrir næstu leigjendur. Þetta var ekki á planinu en varð þó að vera þannig.

Eftir þrifin fundum við okkur prýðilegan veitingastað, Vöruhúsið, og borðuðum kvöldmat þar. Ákaflega notalegur staður, hlýr, hreinlegur og maturinn góður. Svo tókum við okkur bíltúr í gærkvöldi, renndum flestar götur bæjarins og skoðuðum jólaskreytingar. 

Íbúðin er á efri hæð í tvílyftu steinhúsi nærri höfninni og við höfðum veitt því athygli að á neðri hæðinni er pöbb. Við vorum eiginlega rétt að jafna okkur á aðkomunni í íbúðina og búa okkur undir rólegt kvöld þegar á neðri hæðinni upphófst hreint hrikalegur djöfulgangur. Ég veit ekki hvort það sem þar fór fram átti að heita "lifandi tónlist" en hitt veit ég að ekki var spilað heilt lag allan þann tíma sem húsið nötraði af bassatónum. Það voru aðeins einstaka hljómar sem slegnir voru og þeir voru vandlega skrúfaðir upp á hæsta styrk. Innanum mátti kannski með góðum vilja greina brot úr þekktum lögum en ég giska á að höfundarnir vilji lítið af þeim flutningi vita. Kannski var einhver innandyra sem hafði gaman af spilverkinu en mér er nær að halda að þarna hafi frekar verið stillt upp rafmagnshljóðfærum fyrir húsgesti að glamra á - tón"listin" bar ekki með sér að þar slægju vanir menn strengi.

Þessi djöfulgangur hélst linnulaust til kl. 01 og eftir það tók við sundurlaus tónlist "af nálinni". Húsgestir, sem virtust flestir eða allir hafa smurt sig rækilega með söngolíu, færðust út fyrir dyr ( en höfðu raunar verið þar meira og minna reykjandi í skotinu þar sem gengið er upp í "orlofs"íbúðina) og ef marka mátti ópin og öskrin voru menn ekki á eitt sáttir um eitthvað. Við í íbúðinni fengum að njóta nærveru þessarra öskrandi húsgesta fram yfir hálftvö en þá fór að draga úr og um tvöleytið var loks hægt að skríða til bóls.

Ég skil ekki alveg í mínu annars ágæta stéttarfélagi, að bjóða félagsmönnum sínum upp á aðra eins "orlofs"íbúð. Við hefðum getað verið með börn, við hefðum getað verið með gamalmenni og við hefðum jafnvel getað verið gamalmenni sjálf. Hvernig dettur einhverjum í hug að leigja orlofsíbúð - stað þar sem gera má ráð fyrir að fólk komi á til að hvílast - uppi yfir pöbb þar sem framleiddur er annar eins hávaði og boðið var uppá í gærkvöldi?

Á tímabili í gærkvöldi vorum við alvarlega að hugsa um að taka ekki okkar dót upp úr töskum heldur þrauka nóttina -jafnvel í bílnum -,mæta fyrst allra á Herjólf í morgunsárið og yfirgefa þessa hörmung fyrir fullt og allt. Það varð semsagt ekki úr og hér erum við enn. Klukkan er nú rétt að verða tíu að kvöldi og mun rólegra á neðri hæðinni en í gærkvöldi. Við borðuðum kvöldmat öðru sinni í Vöruhúsinu og umsögnin er samhljóða gærkvöldinu - ein fata af stjörnum.

Dagurinn var annars fínn. Dálítil slydda í morgunsárið sem breyttist í rigningu þegar á leið. Kuldagallinn varð eftir heima í Höfðaborg svo ég fann ágæta fatabúð hér og keypti mér flottar, vatns-og vindheldar hlífðarbuxur. Nú má gera hvaða skítvirði sem er. Ég er klár í allt!

Svo rakst ég inn á lítinn stað þar sem nokkrir áhugamenn ræða áhugamál sín í víðasta skilningi. Sú heimsókn tók drjúga stund og mikið kaffi var innbyrt.

Spáin er semsagt í verra lagi en það má búast við framhaldi á þessum Eyjafréttum annað kvöld ef við verðum þá ekki fokin á haf út.......

Í nýju hlífðarbuxunum ætti ég raunar að geta fokið skammlaust til Færeyja og heim aftur án þess að blotna eða kólna.


..........þrátt fyrir allt er gaman og fínt fólk hérna í Eyjum.......


12.12.2014 08:15

Rauða serían.


Í niðurlagi síðasta pistils nefndi ég seríubarning. Haukur Sigtryggur á Dalvík skrifaði stutta athugasemd undir pistilinn og sagðist ekki hafa staðið í neinum barningi við sína seríu - hann hefði einfaldlega hent henni og keypt nýja.

Það var þá sem ég áttaði mig á að seríusagan er eiginlega hálfgerð jólasaga, svona eins og þær voru sagðar í gamla daga.

Þannig var að rétt fyrir síðustu mánaðamót var ég að henda rusli í Sorpu. Það hefur alltaf verið minn veikleiki að sjái ég eitthvað eigulegt í annarra rusli á ég til að reyna að nappa því og smygla því út svo lítið ber á. Þannig hefur margur hluturinn farið heilan hring, þ.e frá eigandanum í Sorpu, þaðan heim með mér og síðan aftur í Sorpu þegar ég er þess fullviss hann sé sannarlega ónýtur......

Um leið og ég fleygði mínu rusli í gám sá ég hvar ofan á öðru lá tuttugu ljósa sería í plastgrind. Þetta var sería með rauðum perum sem voru heldur stærri en aðventuljósaperur, eða s.k. E12 perur. Allar perurnar voru í skorðum í plastgrindinni og frágangur seríunnar eins og hún væri ný og ósnert. Um leið og ég henti rusli með hægri hendi kippti ég seríunni til mín með vinstri og lagði hana inn í bíl. Þetta var nefnilega mjög áhugavert - hver hafði fyrir því að ganga frá ónýtri seríu í plastgrind áður en henni skyldi hent?

Sjálfur hafði ég svo sem engin not fyrir seríuna enda Höfðaborg ekki jólaskreytt að utan. Mig langaði bara að sjá hvað væri að og hvort ekki væri hægt að laga það. Eftir að hafa fjarlægt allar perurnar og mælt þær fann ég sex ónýtar af tuttugu. Þessutan voru nokkrar fatningar illa farnar af spanskgrænu. Þær fjórtán perur sem heilar voru setti ég í box og svo allt saman niður í skúffu. Í byrjun vikunnar átti ég leið í Húsasmiðjuna og rak þá augun í samskonar seríur á útsölu. Á hillunni stóð: Vara hættir - 25% afsláttur.  Ofan við seríurnar voru pakkar með varaperum. Í hverjum pakka voru þrjár perur og útsöluverðið var 599 krónur. Ég leitaði að réttu perunum en fann aðeins einn pakka með rauðum - þeir fáu pakkar sem til voru af E12 innihéldu allir litabland eða glærar. Ég keypti þessar þrjár útsöluperur og hugsaði með mér að hinar þrjár hlyti ég að fá hjá svörnum samkeppnisaðila -  BYKO.

Síðar sama dag átti ég leið í Kópavoginn og kíkti þá eftir perum í BYKO. Jú, þeir áttu fullt af E12 en allar pakkningarnar voru með þremur mislitum perum, glærum eða eingöngu bláum og grænum. Ekki ein pakkning fannst með einungis rauðum perum. Mér þótti illt að kaupa þrjá mislita pakka þar sem ein peran væri rauð, og þurfa þannig að kaupa alls níu perur. Í vangaveltunum fæddist sú hugmynd að kaupa tvær pakkningar með samtals sex grænum perum og blanda saman rauðu og grænu í seríunni. Því meira sem ég leitaði að rauðu perunum fannst mér "græna" hugmyndin betri og endaði því á að kaupa tvo pakka af E12 grænum perum á 599 krónur hvorn - það var engin útsala í BYKO en þó voru perurnar á sama verði og 25% afsláttarperurnar í Húsasmiðjunni. Var ekki líka Húsasmiðjan einhverntíma heimsfræg um allt Ísland fyrir útsölurnar sínar?

Sonurinn er meiri stærðfræðihaus en ég og við komumst að þeirri sameiginlegu niðurstöðu að ef þriðja hver pera væri græn en endaperurnar undanskildar reglunni fengjum við út blöndu sem gæti t.d. verið rauð endapera, svo tvær rauðar/ein græn, tvær rauðar/ein græn o.s.frv. Við gætum líka haft, auk rauðu endaperunnar, rauða/græna/rauða og þannig koll af kolli. Röðin yrði raunar nánst sú sama því eðlilega myndi hvert þriggja peru kombó byrja og enda með rauðri og því alltaf tvær rauðar saman og ein græn á milli en endarnir yrðu eðlilegri því þeir yrðu þá líka rauð/rauð græn.

Þetta kostaði þónokkrar vangaveltur og enn var óvíst hvort nokkuð ljós kæmi á seríuna yfir höfuð, þrátt fyrir nýjar perur. Eftir að hafa hreinsað nokkur perustæði sem spanskgræna hafði sest í var hafist handa um hina stærðfræðilegu uppröðun, svo var stungið í samband og viti menn: Plastgrindin ljómaði öll af rauðu og grænu!

Degi seinna var farið í að setja seríuna á svalahandrið mæðgnanna í Kópavogi. Ég hafði gert verðkönnun á plast-spennuböndum og komist að því að spennubönd sem kostuðu tvöþúsundkall í Húsó kostuðu 1550 í BYKO. Ég keypti tvær stærðir og mætti svo með allt dótið inn á stofugólf. Ekki var þó björninn unninn því nú tóku við aðrar stærðfræðilegar pælingar - þ.e. lengdarmunur á seríunni og svalahandriðinu. Með því að leggja hálfa seríuna á stofugólfið og mæla lengd hennar fann ég út heildarlengdina. (Það var ekki fyrr en síðar sem ég áttaði mig á að það hefði verið nóg að mæla eitt perubil og margfalda svo. Ég var aldrei stærðfræðiséní...)

Þegar svalahandriðið hafði verið mælt og perufjöldanum jafnað niður á þá lengd var hafist handa um að festa seríuna. Það gekk ljómandi vel og innan skamms ljómuðu rauð/grænu perurnar móti vestri. 

Svo nú eru svalirnar í Ástúni 2 í Kópavogi upplýstar af seríu sem öðlaðist framhaldslíf eftir að hafa verið hent í ruslagám og hirt úr honum aftur. Hún gleður sannarlega íbúana og kannski einhverja þeirra sem leið eiga hjá..................



Herjólfur siglir frá Þorlákshöfn kl. 11:45 og ekki seinna vænna að hafa sig af stað. Ég á eftir að pakka enda morgninum eytt í tilgangslítil skrif um hluti sem flestir þekkja vel - og sumir alltof vel. 

Yfir og út!

Flettingar í dag: 298
Gestir í dag: 6
Flettingar í gær: 306
Gestir í gær: 25
Samtals flettingar: 65976
Samtals gestir: 16976
Tölur uppfærðar: 1.5.2024 04:40:57


Tenglar