Gunnar Th.
Fjórða kerfið.....


Færslur: 2013 Febrúar

23.02.2013 09:24

Áfram um eitt skref.

Síðasti pistill lokaði með "Eikhaug" við bryggju Shell-olíustöðvarinnar á Stakkanesi. Áður en sú næsta birtist langar mig að koma einu að: Þegar ég birti myndina af henni Gunnhildi liggjandi á bb-síðu í fjörunni undir Óshlíðinni orðaði ég bæði Gugguna og Borgþór. Þetta með Borgþór var aðeins minningabrot sem skaut upp kollinum um leið og ég skrifaði. Ég var búinn að fara mörgum sinnum um Óshlíðina áður en yfir lauk og veginum var lokað, en ég held að næstum í hverri ferð hafi ég skimað eftir vélinni úr Borgþóri liggjandi þarna í fjöruborðinu. Marga hafði ég spurt gegnum árin um þennan bát og strand hans en fæstir virtust kannast við neitt, sumir höfðu einhverja óljósa hugmynd en enginn gat frætt mig svo neinu næmi.  Ég hef leitað í bókunum "Íslensk skip" e. Jón Björnsson heitinn en þar var engan Borgþór að finna utan þann sem er nú Aðalbjörg ll RE. Ekki bar hann beinin við Óshlíðina, svo mikið er víst. Mér var næst að halda að mig hefði dreymt þetta allt saman. En vélin var þó þarna, svo mikið var líka víst.......

Fyrir ekkisvohelvítilöngu tók ég upp á því að eyða síðasta klukkutímanum fyrir ból á kvöldin í að lesa "Þrautgóðir á raunastund" enda til enda. Ég er búinn að blaða í þessum bókum gegnum árin og hef svo sem lesið þær allar í slitrum en aldrei svona "grundigt", eða þannig. Svo kom að því, í bók númer XV - sem á mannamáli er sú fimmtánda - að ég rakst á eftirfarandi kafla á bls. 180:

M.b. Borgþór strandaði.

Að kvöldi 15. desember strandaði vélbáturinn Borgþór frá Ísafirði við svo kallaðan Kálfadal, en báturinn var þá að koma úr róðri. Veður var gott og bjart. Ástæða strandsins var sú að unglingspiltur sem var við stýri bátsins mun hafa sofnað og bar bátinn síðan af leið. Mennirnir á Borgþóri voru aldrei í hættu og komust þeir af sjálfsdáðum í land á gúmbátnum. Báturinn eyðilagðist hins vegar á strandstaðnum. M.b. Borgþór var 25 lesta bátur, smíðaður í Reykjavík árið 1929.

.....................................................................................................

Þannig var nú það. Þetta var árið 1963 og ég man eftir þessu óhappi! Það eina sem ber á milli er að mig minnti að báturinn hefði verið keyrður upp vegna óstöðvandi leka en hafa skal það sem sannara reynist. "Þrautgóðir á raunastund" er að vísu ekki hundrað prósent heimild, sbr. Gunnhildi ÍS sem í bókinni er sögð hafa eyðilagst á strandstað. Á öðrum stað er sagt frá Fagranessbrunanum í Djúpinu og Fagranesið þar sagt hafa verið nýtt skip. Ekki var það nú alveg rétt eins og flestir vita, það var gamli Fagginn sem brann til ónýtis en sá "nýi" hefur reynst nokkuð eldfastur til þessa. Það hefur svo óvíða komið fram að meðan gamli Fagginn lá í olíukróknum á Ísafirði ónýtur eftir brunann og beðið var eftir þeim "nýja" var það m.a. Svíþjóðarbáturinn Fjölnir ÍS frá Þingeyri sem þjónaði hlutverki hans í bílaflutningum ofl. Ég skal  m.a.s. bæta einu við: Á Fjölni var togspilið framanvert við brúna en ekki frammi undir hvalbak. Þetta þýddi að hífivír bómunnar lá fram eftir miðju þilfari því ekki dugði minna en togspilið til að hífa bíla að og frá borði. Ég man þetta jafnvel og nafnið mitt því við fjölskyldan fórum einhverju sinni með bátnum inn í Djúp og alla leiðina var mamma á nálum yfir áhuganum sem 6-7 ára guttinn sýndi feitisbornum stálvírnum. Nærri 50 árum síðar er stálvírinn enn brenndur í minnið...........

Ég ætlaði að birta myndir af skipum en eins og oft vill verða drukknar áhugaverða efnið í innantómum kjaftagangi. Nú kýlum við á´ða:Myndefnið er Guðbjartur Kristján ÍS, síðar Orri ofl. Þarna glænýr, talinn 330 tonn og sérstaklega talinn til ískastarinn í frammastrinu. Þetta var glæsiskip, stærsta skip Norðurtangans til þess tíma. Báturinn sem áður bar nafnið Guðbjartur Kristján fékk þá nafnið Víkingur lll. Skipið sem liggur aftan við Guðbjart hefur mér ekki tekist að þekkja en hallast að því að það sé erlendur togari. Svo má ég til að nefna Ísafjarðarlognið.....Það er engin skýring við þessa mynd önnur en að aftan á hana er rituð ágiskun um að þarna liggi "-fell" við Bæjarbryggjuna á Ísafirði. Mig minnir að þetta hafi einhvern tíma verið rætt og Magni Guðmunds í Netagerðinni hafi talið þetta vera einn af Fossum Eimskipafélagsins. Strípurnar á reykháfnum benda vissulega til þess. Myndin er ekki heilög svo ef einhvern langar að rýna í "orginalinn" er bara að hafa samband og þá sendi ég hana í tölvupósti. ( Ég er reyndar, eftir mikið myndagrúsk, nokkuð viss um að þetta sé Katla. Það eru t.d. tveir gluggar í loftskeytaklefanum aftast. Kíkið á þessa slóð. Takk fyrir, Ólafur:     http://fragtskip.123.is/blog/2011/04/23/518703/ )
Þessi er flott, þó aðeins sé á henni eitt skip. Þetta er nokkuð örugglega trillan sem hann Alf Överby átti. Hún var dálítið sérstök í útliti og eftirminnileg af þeim sökum. Ég held þetta sé rétt hjá mér en ef einvher veit betur er leiðrétting vel þegin. Það gildir sama um þessa mynd og þá efri - hún er skönnuð risastór og afar skýr, svo ef einhvern langar að rýna betur í hana er leyfið auðfengið.


Ég ætla að loka þessu að sinni með mynd sem er tekin að Gemlufalli í Dýrafirði. Fjöllin handan fjarðar eru auðþekkt, myndin er merkt þannig á bakinu og að auki stendur á henni: "Magnús Amlín á Tóka". Þarna er þá líklega verið að ferja fólk og farangur til eða frá Þingeyri, því áður en vegur kom fyrir Dýrafjörðinn var þetta eina samgönguleiðin og lengi lágu í fjörunni neðan við Gemlufall  leifar af stórum pramma sem notaður var í faratækjaflutninga yfir fjörðinn.

Næst langar mig að birta nokkrar af myndum Árna heitins Matthíassonar rakarameistara á Ísafirði. Árni var flinkur maður á margan hátt, m.a. var hann mikill áhugamaður um ljósmyndun og átti góðan búnað til þeirra hluta. Pabbi og Árni voru skólabræður og miklir vinir. Eftir að Árni lést um aldur fram eignaðist pabbi nokkrar af myndum hans. Mig langar að tína þær til, sérstaklega þær sem tengjast bæjarlífinu. Þar eru taldar til bæði þær myndir sem Árni tók sjálfur og eins þær sem hann safnaði frá öðrum.

Gott í bili.....

mlllllllll17.02.2013 09:55

Samtíningur

Bergsveinn Skúlason bóndi og rithöfundur, sem skrifaði marga perluna um mannlíf og staðhætti við Breiðafjörð, nefndi eina af bókum sínum Útskæfur. Með nafninu vildi hann meina að innihaldið væri nánast upphreinsun á afgangsefni fyrri bóka, og kannski léttvægara fyrir vikið. Þeir sem lesið hafa Útskæfur Bergsveins eru hins vegar eflaust sammála mér um að sú bók standi þeim fyrri ekkert að baki, nema síður sé. Enda var Bergsveinn alls ekki að ljúka Breiðafjarðarskrifum með Útskæfunum. Eftir þá bók átti enn eftir að koma úr hátt í tugur annarra um svipað efni, breiðfirskt í öllum sínum myndum.

Ég er enginn Bergsveinn þó ég noti þennan titil. Bækurnar hans eru hins vegar biblíurnar mínar og eftir því sem áhugi manna eykst á Breiðafirðinum, umhverfi og sögu öðlast þær aðeins enn meira gildi en áður.

Mig langar hins vegar að skafa aðeins meira úr þessum potti sem gömlu myndirnar hans pabba eru geymdar í. Hér neðar hafa aðallega birst bílamyndir, kíkjum aðeins á skipin:Hmmm.....Kannski ekki mikið um skip á þessarri - og þó, þarna er Guðmundur heitinn Júní upp á endann í Suðurtanganum. Svona lá hann árum saman engum til gagns og sannarlega fáum til ánægju. Svo er þarna röð báta ofan við Naustið, sá sem næstur var hét Þráinn og lá á bb.síðu. Ofan við hann lá einn Samvinnubátanna, líklega Auðbjörn, og hallaði í stjór. Þessir tveir öldungar lágu með stýrishúsin saman og studdu hvor annan í ellinni. Við bb.hlið Auðbjarnar lá svo nokkru minni bátur án allrar yfirbyggingar og hallaði á bak. Þarna var líka Sigurfari Hrólfs Þórarinssonar, átta tonna norskur bátur sem upphaflega hét Einar Hálfdáns ÍS 11. Nokkrir fleiri lágu á kambinum en efstur var sirka fjögurra tonna súðbyrðingur, opinn með lúkar og afturbyggingu, hét Haförn og var mitt uppáhald. Í honum lék ég mér mest og þeir voru ófáir, dagarnir sem ég hjólaði niður í Suðurtanga til að leika mér í Haferninum. Haförn var með "rúnnaðan" hvalbak og það þótti mér sérstaklega flott. ( hefur einhver séð hvalbakinn á Stakkanesinu?) Í tímans rás hurfu þessir bátar á bálið einn og einn, en sagan lifir......

Í forgrunninum er lengst t.v. húsið þeirra Hallgríms Jónssonar frá Dynjanda (sem átti báta á búskaparárunum norðurfrá) og Sigurjóns Hallgrímssonar (sem átti m.a. bát sem hét Dynjandi). Næst er nýbyggt húsið hans Helga Geirmunds (sem átti marga báta) og neðan við það er hús Braga Þorsteins. Innan við hús Braga er svo Jóhann T. Bjarnason kaupfélagsstjóri að byggja Sætún 5, ef ég man rétt. Kannski er þetta líka missýning, þetta gæti allt eins verið húsið hans Sverris Hestnes, næsta innan við Helga Geirmunds. "Hífukraninn" hans Helga er þarna líka, svo og garðshliðið að Seljalandsvegi 68.....
Þessi hefur nú birst áður og þarf ekki mörg orð um hana. Þetta er hún Gunnhildur, sem þarna tók ótímabært land undir Óshlíðinni. Þeir hafa nokkrir fengið slæm legusár af því að hvíla sig þarna og er skemmst að minnast stórskipsins Guðbjargar ÍS, sem tók óvart sjálfstæða stefnu rétt undan Óshlíðinni á útleið. Svo stutt var í land og svo mikil var ferðin á Guggunni að þótt togað væri í allar bremsur þegar sú gula skellti stýri í borð þá dugði ekkert til og Guggan og Óshlíðin kysstust samt - það var sem betur fór hálfgerður vinarkoss því Guggan slapp lítt sködduð, en eitthvað þó. Svo mátti lengi sjá útundir Sporhamri vél liggjandi í fjörunni. Ég hafði fyrir satt að hún væri úr Borgþóri, bát sem mun hafa verið siglt þar upp vegna leka, muni ég rétt. Það er útúrdúr og vonandi leiðréttir mig einhver ef ekki er farið rétt með. Gunnhildur endaði ekki ævina þarna undir hlíðinni, þrátt fyrir að virðingarverðar heimildir greini svo frá. (Þrautgóðir á raunastund). Hún átti langa ævi fyrir höndum (eða stafni) þótt endirinn yrði sorglegur, en það er önnur saga.Sjáiði bara!Ég veit, ég veit! það er ekkert skip á þessarri mynd! Það sem er samt skemmtilegt er að ef myndin væri tekin aðeins meira til hægri þá sæist á henni flakið af honum Kristjáni gamla, sem Björgvin Bjarnason átti í félagi við fleiri. Kristján ÍS 125 var upphaflega EA 390, þetta var eikarbátur, byggður í Noregi 1919, keyptur vestur ´61 og rak upp í Langeyrina í ársbyrjun ´64 eftir að hafa slitið legufæri. Báturinn lá á stb. síðu og sneri stefni upp í bakkana ofan eyrinnar, það var ótrúlega auðvelt að komast um borð í hann og leika sér. Hann Kristján er þarna, hann bara sést ekki á myndinni - því miður.Þetta eru nú eiginlega ekki skip, heldur meira svona bátar, eða þannig. Myndin er tekin á Ingjaldssandi og auk bátanna og braggans eru á myndinni pabbi og Saabinn hans, en um Saabinn veit ég meira en bátana. Hann var árg. ´67, sem var víst fyrsta ár fjórgengis-Taunusvélar í Saab, hann var blár og fyrrum forstjórabíll hjá tryggingafélaginu Ábyrgð (en þetta atriði var alla tíð ákaflega mikilvægt). Sá sem eignaðist Saabinn eftir okkur hét Hergeir, bjó á neðri hæðinni á Engjavegi 33, vann hjá bænum og fluttist síðar til Akraness (með Saabinn)

Ég kjafta svo mikið að ég kemst ekkert áfram með myndirnar!Þessa hef ég líka birt einhverntíma áður. Hún er tekin inni við gamla Shellportið á Stakkanesi. Bletturinn sem tankarnir stóðu á er líklega neðan við raðhúsin Stakkanes 16 og 18. Suðurtanginn er óbyggður en sjá má húsin handan fjarðar, á Naustum, bera við reykháf skipsins. 

Skipið hét "Eikhaug", var norskt og sem niðurlag ætla ég að setja hér undir smápistil sem ég gróf upp af netinu fyrir margt löngu. Í honum má lesa allt um endalok þessa skips, ef einhver hefur áhuga. Miklu meira síðar........


 Final Fate - 1941: 


Eikhaug met her fate when she was torpedoed by the fast attack boat S-52 (Karl Müller) of the 4th Flotilla in the early morning hours of Sept. 7-1941 while on a voyage in Convoy EC 70 from Southend, bound for Grangemouth with a cargo of 1745 tons cement (loaded at Cliffe), having departed Southend the day before. This convoy is available via the external link provided at the end of this page; the Norwegian
Skum is also listed.

According to "Nortraships flåte" the escorting Versatile saw a fast vessel approaching the convoy, but hesitated to take action for fear of attacking friendly forces, since the boat was seen passing only 400 meters from a patrol boat, which showed no signs of alarm. By the time Versatile had determined it was an enemy vessel it was already too late; 4 torpedoes were observed, and immediately afterwards, Eikhaug and the British Duncarron were hit (S-50, Karcher, also of the 4th Flotilla).

4 men, who were asleep in their cabins, awoke from the explosion and ran to the deck to find the afterpart under water. They all jumped overboard and when they came to the surface their ship was gone. They were able to cling to the remains of the hatches floating up, until they were picked up 15 minutes later by the escort (Versatile? 3 were picked up by the same destroyer, the 4th survivor, O. Skagen was rescued by a different destroyer). They thought they had heard cries from others in the water, but no others could be found.

12 Norwegians, including captain Nygård, 2 British and 1 Spanish seaman died. 10 of the crew members had just been signed on in London a little over a week previously.

The survivors were landed in Lowestoft where Stoker Skagen was admitted to a hospital having received minor injuries. The other 3 continued to London where the maritime hearings were held on Sept. 16.


lllllllll

04.02.2013 09:22

Kaupfélagsbíllinn.

Mér skilst að árin uppúr 1960 hafi verið þröngt um atvinnu á Ísafirði. Þegar hafnarbótum var lokið Pollmegin og flugvöllurinn á Skipeyri fullgerður hefur trúlega dregið talsvert úr verkefnum vörubílstjóra og fátt annað að hafa en vegavinnukropp og snatt kringum vöruskipin. Í þessu sem svo mörgu öðru var það síldin sem réði, brygðist hún dró úr tekjum þjóðarbúsins og þar með opinberum framkvæmdum svo sem nýbyggingum og viðhaldi vega. Gæfi síldin sig hins vegar var aukið í á öllum sviðum og þá fylgdu oft stórframkvæmdir í kjölfarið, mann- og tækjafrekar. Það voru byggðar hafnir, lagðir vegir og það var virkjað.

Við fjölskyldan bjuggum í nýbyggðu stórhýsi - á þess tíma mælikvarða - innarlega við Seljalandsveg. Húsið hafði kostað skildinginn og trúlega hefur mest af þeim góðu tekjum sem pabbi vann sér inn við byggingu radarstöðarinnar á Straumnesfjalli farið í bygginguna, auk einhvers hluta andvirðis gamla hússins að Hrannargötu 3.Samdráttur í vinnu á sama tíma og flutt var í nýja húsið var engin óskastaða og stopul innkoma á Ford F-600 vörubílinn sem keyptur var nýr fyrir verkið á Straumnesfjalli, dugði ekki til að standa straum af skuldum og rekstri heimilisins. Það varð úr að pabbi seldi Fordinn út í Hnífsdal og fékk vinnu á nýbyggðu bílaverkstæði þeirra Halldórs Halldórssonar - Dúdda Hall -  og Jóhanns Péturs Ragnarssonar. Þeir félagar voru stórhuga og reistu veglegt verkstæðishús í hlíðinni inn við Stakkanes eftir að hafa um árabil rekið verkstæðið í lágreistum skúr við Fjarðarstræti. Verkstæðið við Seljalandsveg var raunar tekið í notkun hálfklárað, húsið skyldi verða tvílyft en fyrst um sinn var neðri hæðin látin duga, sú efri var ekki reist fyrr en alllöngu síðar. Ég man eftir þessari vinnuaðstöðu þó ég hafi aðeins verið fimm eða sex ára þegar hún var tekin í notkun - ópússaðir og ómálaðir útveggir, hurðir úr tréflekum, stöku ljósaperur hangandi úr loftum og upphitunin léleg loftmiðstöð. Húsið var nánast eins og fokhelt innan og þessar vinnuaðstæður - að kúldrast í kulda og myrkri undir bílum liggjandi á krossviðarplötu - voru mikil viðbrigði fyrir mann sem lengst af hafði verið sjálfs síns herra. 

Mamma lagði sitt af mörkum og fór að vinna hjá Pósti og Síma. Þar var hún flestum hnútum kunnug, hafði unnið á símanum sem unglingur og líkað ágætlega.

Eftir stutt, vörubílslaust tímabil ( þar sem sá gamli vann á nýja verkstæðinu hjá Dúdda og Jóhanni Pétri - það voru eins og segir ofar verkefnaleysisár fyrir vörubíla eftir 1960)  keypti pabbi annan af Chevrolet-vörubílum Kaupfélagsins, þann yngri sem þá hafði verið lagt í kolaportinu með úrbrædda vél. Sá var svo lagfærður í húsi Vegagerðarinnar við Hjallaveg og fékk nýjan, vínrauðan lit í stað þess ljósbláa sem hann bar áður. Vélin var tekin úr og send til Þ.Jónssonar hf. í viðgerð. Þeir voru reyndar eitthvað kunnugir, pabbi og Þórir Jónsson af fyrri viðskiptum og pabbi vissi Chevroletvélina í góðum höndum syðra.Það þurfti fleira að gera fyrir Chevroletbílinn, s.s. að smíða ný skjólborð oþh. Eftir mikið klapp og margar strokur var svo bíllinn tekinn í notkun og verkstæðiskúldrinu lauk þar með. Pabbi kunni hvergi betur við sig en undir stýri og hann vildi frekar gera út lítinn, úreltan pakkhússbíl og vera sjálfs síns herra en liggja á bakinu undir druslum með ljósahund í annari og skiptilykil í hinni. Á þessum tíma voru vörubílstjórar vestra óðum að "uppfæra"  atvinnutækin sín. Jafnframt létu bensínbílar undan síga og viku fyrir dísilbílum.  Baldur Sigurlaugs seldi Doddsinn sinn og keypti rauðan Bedford, Halldór Geirmunds einnig. Óli Halldórs, sem sést hér á myndinni, seldi gamla bensínfordinn og keypti grænan Bedfort með Perkinsvél.Halldór Ólafsson, Halli Óla (hér ofar) skipti úr bláhvítum Chevrolet yfir í bláhvítan Benz sem áfram bar númerið Í-210 og Hörður Ingólfs dubbaði gamlan Scanía-flutningabíl upp sem pallbíl. Einhverra hluta vegna gekk sá bíll alltaf undir nafninu Gullkálfurinn.........

Gamli Kaupfélagsbíllinn (já, hann var gamall þrátt fyrir að vera árgerð ´57 og því ekki nema sjö, átta ára) stóð fyrir sínu með nýuppteknu vélina. Hann gat flest sem hinir gátu og skilaði hverju verki prýðilega og án teljandi bilana. Það kom þó að því að Vegagerð Ríkisins, sem var helsti vinnuveitandi  vörubílstjóra yfir sumartímann, tregðaðist við að taka svo litla bíla í vinnu þegar stærri buðust.
Með þetta nýja vandamál í augsýn var tekin kúvending í framtíðaráætlunum fjölskyldunnar í nýbyggða húsinu við Seljalandsveg. Nú skyldi allt selt, bæði bíll og hús. Fyrirheitna landið lá sunnan heiða - Reykjavík.

Húsið seldist fljótlega og varð læknisbústaður um árabil. Chevrolettinn seldist líka, kaupandinn var Eggert Lárusson skipasmiður og verkstjóri í Torfnesslippnum. Eggert átti bílinn mörg ár og líklega var hann síðasti eigandinn. Í öllu falli man ég ekki eftir bílnum í annarra höndum.

Í september 1966 var lagt upp í suðurferðina og Ísafjörður kvaddur. Þar með lauk heilum kafla í vörubílsútgerðarsögu pabba. Sögunni sjálfri var hins vegar hreint ekki lokið. Framhaldið er önnur saga.......

01.02.2013 21:37

Líkbíllinn.

Lengi vel mun ekki hafa verið til neinn líkbíll á Ísafirði. Þegar flytja þurfti kistur milli staða var notast við pallbíla, og þá jafnan reynt að velja bíla sem litu áberandi vel út - voru nýlegir eða betur hirtir en gekk og gerðist. 

Það var að vísu ekki löng leið milli líkhússins (í kjallara gamla sjúkrahússins), kirkjunnar og garðsins og kannski ekki þörf á  sérstökum bíl í þann akstur. Hins vegar voru húskveðjur algengar hér áður fyrr og þá var kista þess látna flutt heim til kveðjunnar og að henni lokinni á næsta áfangastað - væntanlega þá til kirkju. Þetta gat allt eins verið talsverð leið og á engan leggjandi að bera kistu á höndum um þann veg. 

Hann þótti jafnan vel hirtur Volvo vörubíllinn sem bar númerið Í-140, og ósjaldan var gripið til hans af ofangreindu tilefni. Þá þótti hæfa að festa fánastöng eða-stangir fremst á pallinn, en sjálfur pallurinn var svo klæddur sérstökum dúk. Myndin hér að neðan er tekin fyrir eða eftir slíkan akstur. Myndin er tekin ofan við Sólbrekku á Stakkanesi og húsið í baksýn er Seljalandsvegur 84a. Takið eftir skjólborðinu sem liggur í forgrunni og ofan á því festiboltarnir við framgaflinn:


Það má vel birta aðra mynd af þessum fallega Volvo, fyrsta vörubílnum sem pabbi eignaðist. Myndin er flott uppstilling, bíll og bílstjóri báðir í sínu fínasta. Sem fyrrverandi skoðunarmaður farartækja geri ég þó alvarlegar athugasemdir við skermun hjóla að aftan en telst varla marktækur þar sem ég er aðeins fyrrverandi.....Opinn vörubílspallur er kannski ekki hentugasti flutningsmáti á líkkistu í misjöfnum veðrum og með árunum var farið að nota yfirbyggðan Ford pickup sem Bjössi Guðmunds (pabbi Jónasar á dekkjaverkstæðinu) átti. Sá bíll var ekki svartur að lit heldur tvílitur, vínrauður og drapplitur. Seinna eignaðist sóknarnefndin bílinn og þá var hann dubbaður upp sem almennilegur líkbíll, málaður svartur og merktur með krossum. Muni ég rétt var hann geymdur milli athafna, í skúr við Fjarðarstræti neðanvert. 

Ekkert er eilíft, ekki einu sinni líkbílar. Þegar nýi grafreiturinn inni við Engidal var tekinn í notkun hefur gamli átta gata Fordinn (sem var þá raunverulega orðinn fornbíll) líklega þótt bæði frekur á fóður og eins fúinn til ferðalaga. Hann var því leystur af hólmi með stórum, svörtum International dreka, einhvers konar viðameiri útgáfu af Scoutjeppa og síðar -ef ég man rétt- japönskum hrísgrjónabrennara sem satt að segja var ákaflega lítið sjarmatröll og stóðst í þeim skilningi engan samanburð við ameríska bensínhákinn. Fordinn var seldur og kaupandinn var fyrrum vinnufélagi minn, Jón Elíasson frá Reykjavík. Nonni Ella skrattaðist á líkbílnum um götur Ísafjarðar í einhvern tíma en hvarf svo til fyrri heimkynna syðra og Fordinn með. Er hann þar með úr sögunni.

Eða hvað............????

Nei ekki alveg!  Árið 2011 var ég á ferðinni inn með Akrafjalli norðanverðu á öðrum svörtum Ford, líka amerísku sjarmatrölli þó annars eðlis væri. Ég stöðvaði úti í vegkanti til að taka myndir yfir Melasveitina og Leirárvoginn en tók um leið eftir ólögulegri ryðhrúgu innan girðingar fjallmegin við veginn. Forvitnin var vakin og ég klifraði yfir girðinguna til að skoða betur það sem þarna lá og hafði auðsjáanlega eitt sinn verið bíll. Ekki þurfti ég lengi að líta til að þekkja gamlan kunningja - ísfirska líkbílinn Ford F-1. Nonni Ella var hvergi nálægur enda hafði lík bílsins greinilega legið þarna svo árum skipti.

Hvað ætli eilífðin sé annars löng??


Ég var búinn að birta færsluna þegar Ásgeir Jónsson í Sandgerði minnti mig á Nallann sem var líkbíll næst eftir Fordinn. Ég tróð honum því inn í textann eftirá.
 Eitt að lokum um síðustu færslu: Vitarajeppinn framan við ameríska "hjólhýsið" er ekki hrossadráparinn minn heldur einhver alókunnugur jeppi. Ég rak augun í þetta myndefni af tilviljun fyrir nokkrum árum, fannst það hreint stórkostlegt dæmi um endalausa bjartsýni - og tók mynd!
  • 1
Flettingar í dag: 50
Gestir í dag: 34
Flettingar í gær: 111
Gestir í gær: 45
Samtals flettingar: 642782
Samtals gestir: 91884
Tölur uppfærðar: 23.1.2019 04:07:41


Tenglar