Gunnar Th.
Fjórða kerfið.....


Færslur: 2014 Apríl

29.04.2014 07:33

Yfir Grjótháls.


Svei mér þá, ég hélt ég væri löngu búinn að gera þessu efni skil. Við tiltekt á "desktoppnum" fann ég svo myndaalbúm sem átti að nota í verkið en hefur aldrei verið sett inn. Þá er bara að vinda sér í verkið.
............................................................................

 Þetta var nú samt ekkert merkileg ferð, svona þannig séð. Eiginlega bara sunnudagsbíltúr í góðu veðri. Satt að segja er fátt merkilegt við ferðina nema ef vera skyldi góða veðrið - það heyrði nefnilega til undantekninga sl. sumar og haust að fá almennilegt ferðaveður. Fararskjótinn var, eins og oft áður, svarti Hrossadráparinn af Skeiðunum og í föruneytinu voru mæðginin Elín Huld og Arnar Þór ásamt eðalhundinum Edilon B. Breiðfjörð o.s.frv.  Við ókum hefðbundna leið upp í Borgarnes og áðum að vanda í Geirabakaríi. Þaðan var haldið að söluskálanum við Baulu og beygt til hægri að Stafholtstungum. Við fyrra vegskiltið sem á stendur "Þverárhlíð" var beygt upp til vinstri í átt að litlu kirkjunni í Hjarðarholti. Ekki var þó ekið þangað heim heldur áfram upp sveitina hjá stórbýlinu Arnbjargarlæk, einhverju alfallegasta býli í sveit á Íslandi. Við vegamót rétt ofan Höfða ( þar sem damatíulömbin eru "ræktuð") beygðum við aftur til vinstri þar sem skilti segir "Sigmundarstaðir". Eiginlega er samt ekki beygt þarna, vegurinn liggur aðeins í hlykk en afleiddur vegur til hægri liggur áfram um sveitina, greinist til þriggja dalbotna og síðan í átt að kirkjustaðnum Norðtungu. Við semsagt héldum í átt að Sigmundarstöðum og nokkurn veginn um miðja leið stendur eyðibýlið Grjót. Við það liggur afleiddur vegur upp til vinstri (hánorðurs) á ská upp þennan áðurnefnda Grjótháls. Ég hafði nokkrum sinnum farið þennan veg en ferðafélagarnir aldrei. 

Grjótháls er ekki fjallvegur í almennum skilningi, til þess er hann alltof lágur. Hann nýtur þess samt að landið umhverfis er frekar flatt og þess vegna má hafa af hálsinum hreint stórkostlegt útsýni bæði til suðurs yfir Þverárhlíð, Skaftártungur og til Reykholtsdals, niður allar syðri Borgarfjarðarsveitir að Hafnarfjalli. Þegar komið er upp á hálsinn má taka stutta gönguferð til austurs að undirstöðum fallins raflínumasturs - það eru varla nema svona hundraðogfimmtíu skref - og þá blasir Norðurárdalurinn við, allt frá Hreðavatni og Bifröst upp að kirkjustaðnum Hvammi. Beint á móti er svo vegamótabýlið Dalsmynni og einkennisfjall Borgarfjarðar, Baula. 

(Ég ætla að endurnýta hér fyrir neðan mynd frá síðsumri 2011 þegar ég var einn á ferð á Econoline ferðavagninum. Svo koma þær nýrri)

 Líklega hefur raflínumastrið sem þarna stóð fallið vegna ísingar í illviðri. Það hafa allavega verið gífurlegir kraftar sem sveigðu þetta svera stál í vinkil og undu uppá það eins og tusku:


 Arnar Þór reyndi ítrekað að rétta stúfana upp aftur án árangurs og er hann þó vel að manni. Að endingu gafst hann upp, tók kortabókina og lyfti henni léttilega:


Gamli sýndi drengnum hins vegar muninn á að vera fullsterkur og hálfsterkur:
Elín Huld, sem venjulega heldur á myndavélinni fékk af sér eina mynd með Bassann í bandi. Venjulega fær Bassi að hlaupa laus við svona kringumstæður en við höfðum komið auga á nokkrar náfrænkur hans á beit í grenndinni og hann hafði óskað samneytis við þær á kröftugan hátt. Bitur reynsla hefur kennt okkur að hann á ekki skap við þessar frænkur sínar.
Á þessum árstíma eru dagarnir orðnir stuttir og  sólin fljót að lækka. Skuggarnir voru farnir að lengjast þegar við héldum loks áfram yfir hálsinn til norðurs. 


Þegar komið er fram á brúnir norðanvert opnast útsýn uppeftir Norðurárdalnum að Hvammi. Undir rótum Grjótháls stendur gamalt eyðibýli og þessi mynd er tekin af bæjarhlaðinu:Hér fyrir neðan er útsýni af sama stað til bæja handan Norðurárdals og Baulunnar:
 Íbúðarhúsið á þessu eyðibýli hefur fyrir margt löngu verið stækkað til muna svo nærri lætur að eldra húsið sé aðeins þriðji hluti af heildinni. Ekki hefur framkvæmdum þó verið lokið þegar hætt var við þær - eða svo virðist vera því þannig hefur þetta hús staðið í áraraðir. Húsið stendur opið og einhverjir virtust hafa haldið nokkurs konar hrekkjavökuhátið innandyra ef marka mátti verksummerki:


Á vegg í einu herbergjanna var mynd af þessum "huggulegu" brúðhjónum:
Það var eiginlega hálfóhugnanlegt þarna innadyra svo við gengum bara aftur út í sólskinið. Úti á túni stóð þessi gamli FORD vörubíll - líklega er þetta eftirstríðsbíll af F-1 gerð - og ryðgaði hægt niður í svörðinn. Ég hélt í einfeldni minni að fornbílasafnarar létu ekki svona heillega átta gata flathedd vél liggja á víðavangi en svo virðist nú samt vera:
Við ókum áfram niður Skarðshamarsveg og þar sem leiðin liggur um þveran dalinn  náðist þessi fallega sýn á Bauluna í lygnri hliðarlænu frá Norðurá:
Eitt tillit til baka í lokin:  Horft er heim að bænum Glitstöðum og í baksýn er sjálfur Grjótháls. Rétt neðan við Glitstaði beygir vegurinn um þveran dal og tengist þjóðvegi eitt rétt ofan Grábrókar. Að þessari mynd tekinni lá leiðin heim og var stórtíðindalaus.
Gott í bili.
....................................................................

27.04.2014 09:11

Síðasti sunnudagur aprílmánaðar.


Þeir verða ekki fleiri, sunnudagarnir í apríl þetta árið. Þarna um daginn var pálmasunnudagur, svo kom páskasunnudagur og þessi sunnudagur getur svo sem vel heitið eitthvað án þess að ég hafi hugmynd um það. Ég veit allavega að það er ekki Fomúlusunnudagur. Sá næsti með því heiti er ellefti maí og þann dag átti ég að vera á áhorfendabekk úti í Barcelóna að horfa og hlusta. Formúlan hefur hins vegar þróast þannig í ár að það er fátt að sjá og enn minna að heyra. Svo er maímánuður einn besti tími ársins og þegar allt er reiknað saman þá tímdi ég ekki að eyða tveimur vikum af uppáhaldsárstímanum til að horfa á keppni sem ekkert er varið í að horfa á - svo ég sleppti ferðinni og ákvað að fara frekar í fermingarveislu hjá General Bolt-on þessa helgi, enda veit ég að það verður miklu meira gaman. Ekki orð um það meir!

Þetta verður ekki langur pistill. Við Bassi erum á leið út í sólskinið til að líta á stórskipið Stakkanes og gera lauslega áætlun um sjósetningu. Svo þurfum við að líta aðeins á ferðabílinn því nú styttist í að hann verði settur á númer. Eftir hádegið er áætlað að fara til Keflavíkur í smá könnunarleiðangur sem ekki er ólíklegt að tengist bátum á einhvern hátt. Mér þykir heldur ekki ólíklegt að leiðin gæti legið á vélasafnið úti í  Garðskaga. Þar er nefnilega prýðilegt kaffihús og ef veðrið helst eins og það er núna er rjómapönnukaka vel við hæfi.

Hún Sigrún Sigurgeirsdóttir átti stórafmæli sl. miðvikudag. Hún vildi reyndar lítið gera úr því sjálf, segist eiga enn stærra afmæli næsta ár og vissulega er það rétt. Ég veit að þá verður mikið um dýrðir enda á hún Lalla allt það besta skilið:


Það bregst aldrei að hjá þeim hjónum er manni alltaf tekið eins og týnda syninum. Svo má ekki gleyma henni Emmu, sem alltaf geltir fyrst þegar maður mætir en er svo fljót að venjast að við aðra eða þriðju heimsókn er hún farin að þekkja mann og fagnar einungis á rólegan og virðulegan máta. Ég mátti til að mynda Emmu við einhvern samanburð, því hún er einn minnsti hundur sem ég hef séð, ef ekki sá alminnsti:


Svo má ekki gleyma því að hann Gulli á líka afmæli á næstunni. Hafi ég ekki reiknað rangt verður hann 87 ára þann 20. maí nk. Þó hann segist sjálfur vera orðinn óttalega lélegur fær maður á tilfinninguna að það sé mest í nösunum á honum! Af manni sem er að nálgast nírætt er hann ótrúlega brattur og þótt eljan sé kannski farin að minnka - sem eðlilegt er - þá er áhuginn alltaf jafn brennandi þegar um er að ræða báta, veiðar og eyjalíf við Breiðafjörð. Manni hlýnar alltaf dálítið við að heimsækja þessi heiðurshjón.


Ég ætla að enda þessa syrpu á þremur Skagstrendingum. Þeir voru allir myndaðir í Stykkishólmi um páskana.
Ég hef ekki gefið mér tíma til að grafa upp skipaskrárnúmer "Jómfrúarinnar" á efstu myndinni. Þessir bátagerð er rétt yfir sex metrunum - skráningarskyldunni - og allnokkrir þeirra hafa verið styttir eilítið til að komast undan peningaplokki ríkisins og tengdra aðila. Líklega er því þannig varið með Jómfrúna. Sá drappliti á miðmyndinni er Litli vin SH6. Litli vin hefur alltaf átt heima í Hólminum og borið sama nafn. Honum hefur verið breytt nokkuð frá upphafi, m.a. skipt út 30ha BMW vélinni sem sett var í hann nýjan. Ég hef séð hann á siglingu með sinni áttatíu hestafla Yanmarvél og þvílíkur gangur, maður lifandi.........
Sá guli er svo Lundi SH54, eins og vel sést. Lundi risti sitt fyrsta kjölfar á Skagafirði sem Hrönn SK, þá knúinn 23ha Volvo Pentu sem enn er í honum ef marka má nýlegar skrár.

Gott í bili.....
..............................................

25.04.2014 09:45

Undir lok.

 
 Tvo síðustu daga páskadvalar í Stykkishólmi var veðrið orðið skaplegt og að morgni annars í páskum renndum við á litla bláa bílnum út í Bjarnarhöfn. Þar var fátt um manninn og lítið um að vera enda ferðamannavertíðin ekki hafin. Okkur langaði að skoða kirkjuna (fyrsta tilraun mín til að skoða kirkjuna í Bjarnarhöfn var gerð fyrir fjórtán árum. Þá hafði fólkið ekki tíma til að sýna mér hana) og töluðum við unga dömu sem var á gangi á bæjarhlaðinu. Hún sagði okkur að kirkjan væri lokuð og aðeins til sýnis fyrir hópa. Okkur væri hins vegar frjálst að aka niður að henni. Því miður vorum við ekki með neinn hóp með okkur, við vorum aðeins tvö en auðvitað þótti okkur stórkostlegt að fá að aka bílnum niður vegspottann að kirkjunni og ganga kringum kirkjugarðinn - hliðið var nefnilega bundið aftur. Það besta var auðvitað að aksturinn og gangan var hvorttveggja endurgjaldslaust!

Við höfðum ekki lengri viðdvöl í Bjarnarhöfn enda hóplaus og því varla velkomin. Áfram var haldið út í Grundarfjörð. Þar byrjuðum við á að heimsækja ísbúðina - það átti vel við að enda páskaeggjasukkið á ís með dýfu - og á sjoppunni var okkur ákaflega vel tekið, þrátt fyrir að við værum aðeins tveggja manna hópur. Við fengum fínan ís og með hann í hendi lögðum við í skoðunarferð um bæinn. Eðlið sagði til sín og það sem mér fannst helst skoðunarvert voru bátarnir. Það var greinilegt að strandveiðimenn voru að búa sig. Í forgrunni er (6112) Lilla SH, sem upphaflega hét Pollý SK og var frá Sauðárkróki, sá rauði er (6024) Brasi SH, sem upphaflega var Jón EA og hefur víða farið síðan. Uppi á bakkanum er svo (6283) grunndönsk Akureyrarsmíð sem eitt sinn hét Hafbjörg ÞH og var afturbyggð með þennan fína drottningarskut. Nú er öldin önnur og búið að "uppfæra" fleyið verulega.

Svo var þessi timbraða furðufleyta milli húsa og virtist albúin til hvers sem var af rauðu Atlanterrúllunni að dæma. Báturinn er raunar skrokkfallegur en stýrishúsið hefur eflaust meira notagildi en fegurðar-. 

Þessi bátur hét upphaflega Svanur GK 205, smíðaður í Hafnarfirði 1979 og var þá ólíkt fallegri en nú. Ég tók mér það bessaleyfi að skanna þessa mynd upp úr stórvirki Jóns Björnssonar, "Íslensk skip - bátar" 1sta bnd.bls 238.Út úr nálægu iðnaðarhúsi stóð þetta "geimfar".  Það er líklega eitthvað verið að glíma við þennan nýja Sómabát innandyra:Á öðrum stað stóð  snyrtilegur Færeyingur, nýmálaður og tilbúinn í strandveiðislaginn. Hann virðist lengst af hafa átt heima á Nesinu, upphaflega Minna SH í Ólafsvík:Svo var það hún Sigríður blessunin. Hún skartaði engu skipaskrárnúmeri en það er nú til engu að síður og mun vera 6250. Hún leynir ekki sínum dansk/norska uppruna enda ekta NOR/DAN fleyta. Sigríður hét áður Gunnar RE 108 og var um árabil gerð út frá Reykjavík af Jóni Trausta heitnum Jónssyni frá Deildará í Múlasveit vestra:Kannski ég láti fljóta með eina mynd af Deildará í Múlasveit, svona í minningu duglegs manns:Upp við gám í horni iðnaðarsvæðis stóð hún Auður. Mér fannst hún hálf hnípin og ekki líkleg til að hafa verið á sjó alveg í gær eða fyrradag.  Auður mun upphaflega hafa heitið Vega (ekki misritun) RE 500 og það var dálítið eftirtektarvert að hún er aðeins tveimur númerum frá fyrsta bátnum á myndunum hér ofar, Lillu SH, sem er 6112. Það hafa aðeins liðið dagar milli skráninga þessara tveggja báta - ef þá svo mikið - og sýnir kannski hversu hratt endurnýjun trilluflotans gekk fyrir sig þegar tréð var að víkja fyrir plastinu á árunum uppúr 1977:Svo mátti alveg snúa sér aðeins og horfa til Kirkjufellsins frá hvílustað Auðar. Sýnin er frekar kuldaleg:Hún Elín Huld var ótrúlega þolinmóð meðan bátarnir voru myndaðir. Þegar hún svo rak augun í þennan gamla Volvo Amazon vildi hún endilega mynda hann - enda flottur bíll:Svo var það ein klassísk kirkjumynd en þessari myndatöku fylgdu talsverðar vangaveltur um það hvernig kirkjan sneri. Miðað við hefðina "austur/vestur" þá hlýtur þetta að vera annar gafl kirkjuskipsins. Altarið myndi þá vera í austurendanum:Loka pistlinum með mynd af þessum höfðingja, sem var eini Grundfirðingurinn sem við sáum á fæti þennan annan páskadagsmorgun - fyrir utan jú konuna í ísbúðinni.Punktur.
....................................................

23.04.2014 16:20

Sagan öll!


Það fór svo á endanum að á síðasta augnabliki kom kaupandi hlaupandi og keypti fyrrverandi póstbát Mjólkárvirkjunar, Bjartmar ÍS fyrir verð sem ég held að allir getir verið sáttir við. Öll fyrri skrif (síðustu daga) óskast því virt að vettugi og ekki orð um það meir!

Mánudaginn annan í páskum var hið skaplegasta veður á nesinu og þá var tilvalið að skella sér í bíltúr út í Grundarfjörð. Bærinn er enn að koma undan snjó en það styttist óðum í sumarið og gleggsta merkið um það eru strandveiðikallarnir sem eru að sjóbúa báta sína og búnað. Myndavélin var með í för og með henni var skotið ótt og títt í allar áttir. 

Ég er hins vegar ekki með myndavélina í augnablikinu. Konan sem eldaði páskalambið mitt fékk hana með sér til að afrita páskamyndirnar. Ég ætla í staðinn að birta myndir sem teknar voru sl. sumar um borð í stórskipinu Stakkanesi. Það er ferðafélaginn Edilon B. E. Breiðfjörð Thorsteinsson Budenhof ( af virðingu við hann sleppi ég viljandi Sandhaug Sóðalöpp)  sem er fyrirsætan. Eins og sjá má væsir ekki um áhöfnina í yfirmannamessanum í Stakkanesinu:

Bassa finnst alveg ágætt að liggja á fótum manns, þegar tekin er kría í "messanum" Svo má velta því fyrir sér hvernig tveggja metra legubekkur rúmast í bát sem er fimm og sjötíu að lengd án þess að vélin lendi aftan við bátinn. Það er nefnilega allt hægt ef viljinn er fyrir hendi.

Það má líka alveg skjóta inn einni staðreynd, vegna þess að ég hef einu sinni reynt að fá að sigla Stakkanesinu í hópsiglingu með súðbyrðingunum sem tengjast Bátasafni Breiðafjarðar. NEI - ið sem ég fékk var svo stórt að svarandanum lá við hjartaáfalli!  Staðreyndin er sú að Bjartmar heitinn - sem var sannarlega súðbyrðingur - var smíðaður árið 1966 úr eik og furu í Hafnarfirði. Stórskipið Stakkanes er að öllum líkindum smíðað kringum 1960 - 62 í Noregi og er því mun eldra en Bjartmar.

Hér með legg ég til að yfirskrift næstu hópsiglingar verði einfaldlega "FORNBÁTASIGLING"  og aldurstakmarkið verði fimmtíu ár!
...............................

22.04.2014 09:46

Að morgni þriðjudags - eftir páska.


Þetta er að verða búið!  Vikulöng  páskadvöl í Stykkishólmi er senn á enda og leiðin liggur suður. Ekki verður þó staldrað í Reykjavík mikið lengur en viku því fyrir liggur önnur ferð upp í Hólm innan skamms. Þá verður farið með öðrum formerkjum, í vinnugalla á jeppa með kerru og verkfæri. Það á nefnilega að taka vélina úr honum Bjartmari og flytja hana suður til yfirferðar og gangsetningar. Báturinn sjálfur verður settur upp á kamb og búinn þar til geymslu.

Það hýrnaði yfir veðrinu á páskadag, svo úr varð sæmilegasta gönguveður. Það var auðvitað gripið um leið, enda hefur ekki viðrað fyrir göngutúra lengst af. Fyrsti áfangastaður "gönguhópsins" var klettabríkin við kirkjuna og þaðan var myndað ótt og títt. Á þeirri fyrstu er horft inn Hvammsfjörðinn og Skógarströndin sést til hægri. Í forgrunni er Flatahverfið: Hvítabjarnarey með skarðið sitt og skessusteininn er fyrir miðju, t.h. Bauluhólmi og við hægri myndjaðar eru Skoreyjar. Horft til norðausturs:Svo var myndað í hina áttina, til vesturs. Efst á myndinni er gamla skólahúsið og hægra megin við það dvalarheimilið þar sem þau Gulli og Lalla búa. Í forgrunni er hluti Skúlagötu og  Maðkavíkin (sem á hátíðisdögum heitir Gullhólmavík). Þarna var um árabil eitt aðal uppsátur smábáta í Stykkishólmi og enn er víkin notuð sem slík. Það er sjálfur gullkálfurinn Bjartmar sem liggur þarna aftast og flýtur upp á hverju flóði:Gulli var búinn að segja mér að Bjartmar læki ekki dropa. Ekki rengi ég það en þar sem ekki kemur vatn inn fer heldur ekkert vatn út! Það reyndist vera allmikið vatn í bátnum og í stað þess að gera eins og Gulli, sem röltir niður í vík á fjörunni og tekur negluna úr, klifraði ég um borð og tók mér stöðu við lensidæluna. Ég var nefnilega í spariúlpunni og ekki búinn til að skríða undir bátinn til að "hleypa af". 

Svo þegar þurrausið var, fékk myndasmiðurinn eina mynd af sér með kirkjuskip og tréskip í baksýn. Þessi kirkja er annars ekki ólík geimskipi, svona frá þessu sjónarhorni:Þau eru allmörg, húsin í Hólminum sem standa á alveg einstaklega fallegum stöðum. Þessi hús, sem standa á klettanefi fram í Maðkavíkina, eru þar engin undantekning. Það hlýtur að vera stórkostlegt að búa á svona stað:Hér eru "sjávarlóðirnar við Skúlagötuna og fjárflutningabátur þeirra Öxneyinga við einkabryggju framan við aðsetur þeirra:Það er ætlunin að draga Bjartmar upp á kambinn í félagsskap þeirra Þyts, Farsæls og Hrímnis (næst á mynd).  Ál - fjárflutningabáturinn fjarst á myndinni hefur ekki nafn svo ég viti en telst auðvitað merkisbátur samt.Eftir gönguna um víkina lá leiðin upp á Súgandisey en þar hafa verið teknar fleiri myndir en góðu hófi gegnir og því var myndatökum þar sleppt. Við litum aðeins á hafnarbætur sem verið er að gera í tilefni komu nýs "Baldurs", en sá mun vera helmingi stærri en sá sem nú er og er væntanlegur á næstu vikum.  Hleðsludyrum á þeim nýja mun vera öðruvísi fyrir komið og því þarf að gera breytingar á bryggjumannvirkjum.

Eftir hafnargönguna skipti "hópurinn" liði og helmingur hans hélt heim á Borgarbrautina að steikja páskalambið. Hinn hlutinn arkaði í kaffi til Gulla og Löllu. Þar var svo setið fram eftir degi en þegar nálgast fór kvöldmat og veislan beið þeirra á dvalarheimilinu rölti "helmingurinn"  inn á Borgarbraut til að taka út eldamennskuna. Þar stóð kokkurinn glaðbeittur yfir steikinni sem sveik ekki frekar en venjulega á þeim bæ.
.....................................................................

20.04.2014 14:36

Páskadagur 2014!Jú, það var myndað. Að vísu var aðeins myndað innandyra og út um glugga því veðrið hefur ekki gefið tilefni til útiveru. Frá skírdagskvöldi var samfelld innivera fram yfir hádegi á laugardegi. Þá gaf í sundlaugina og þar var setið á annan tíma í félagsskap íslenskra og ítalskra ferðamanna. Það er alveg makalaust hvað þessir bannsettir Ítalir geta verið háværir og hraðmæltir auk þess sem þeir virðast deila þeirri skoðun þýskra ferðamanna að þegar þeir hafi greitt sundlaugargjaldið eigi þeir ekki bara aðganginn heldur svæðið eins og það leggur sig. 

Þegar lagt var upp í gönguferð á skírdag var maður frá læjónsklúbbnum hér í Stykkishólmi mættur á Borgarbrautina til að selja páskaliljur. Ég sló um mig með tvöþúsundkalli enda er tvöþúsundkall lágt gjald fyrir gott og upplýsandi spjall við heimamann. Það var engan blómavasa að finna á Borgarbrautinni svo kaffikannan sem fékk það hlutverk í febrúarbyrjun 2011 ( á stórafmæli Elínar Huldar) fékk aftur sama hlutverk. Hér að neðan birtast myndir frá báðum tilefnum:

Svo var páskaeggið myndað með páskaliljunum:....og svo éljaði og éljaði og það rauk upp með stormhraglanda svo ekki var hundi út sigandi:

Svo rigndi og þá fór snjórinn:Þannig gekk þetta afturábak og áfram. Það var því fátt betra að gera en að sitja við tölvuna og láta sig dreyma:.....alveg eins og fyrir rúmum þremur árum, á nákvæmlega sama stað:Sem betur fer hafði Gulli, Gunnlaugur Valdimarsson frá Rúfeyjum, gefið mér heilan bunka af Sjómannablaðinu Víkingi frá árunum 1965-69 við komuna í Hólminn á miðvikudaginn og það var því hægt að taka pásur frá tölvugruflinu og sökkva sér í blöðin. Þar var að finna þónokkur gullkorn og ekki er að vita nema nokkur þeirra eigi eftir að birtast hér á síðunni. Svo voru auðvitað nokkrar góðar bækur með í för:Inniverunni á föstudaginn fylgdi samt örlítill leiði og þessum leiða fylgdi löngun í súkkulaði. Ég er súkkulaðifíkill eins og oft hefur komið fram, höndla ágætlega páskaegg í plastumbúðum en þegar þær hafa verið fjarlægðar er eggið fljótt að hverfa. Það var akkúrat það sem gerðist - eggið með græna páskaunganum hvarf eiginlega á örskotsstundu og til að ekki liði páskadagur án eggs fór ég í Bónus á laugadaginn (í gær) og keypti endingargott egg uppá eitt kíló!Ég barðist lengi morguns við freistinguna. Fékk mér morgunmat og kaffi á eftir, gerði semsagt allt til að teygja líftíma þessa risaeggs:.......en um síðir falla flest vígi og svo fór einnig um þetta:Klukkan er að ganga fjögur á þessum páskadegi og enn gengur á með dimmum éljum. Súkkulaðifíknin hefur heldur rénað og ég er eiginlega kominn með nóg í bili af þesslags dóti. Svo er líka lambalæri í kvöldmatinn og ég ætla að eiga magarými fyrir það, enda er lambakjöt eitt það albesta sem ég borða - og svo líka allt hitt......

Þetta verður samt að vera alveg extragott læri ef það á að toppa folaldið sem var í matinn á föstudagskvöldið langa....
...og nú út að ganga áður en næsta hryðja gengur yfir!..................................................................

18.04.2014 09:50

Stykkishólmur um páska 2014.


.Það er morgunn lengsta föstudags ársins. Frá því á miðvikudagssíðdegi hefur ýmislegt gengið á - aðallega þó í veðrinu. Hér hafa skipst á dimm él, rigningardembur, rokhviður og fleiri tilbrigði íslensks veðurfars hafa einnig látið á sér kræla. Ég fór í Bónus í gær til aðfanga og sá þar stærsta páskaegg sem ég hef látið mig dreyma um, heilt kíló af súkkulaði er enginn smáfengur fyrir súkkulaðifíkil sem hefur enga löngun til bata og ég er að hugsa um að sækja mér svona egg rétt fyrir lokun búðar á morgun - laugardag. Það ætti þá að endast eitthvað fram á páskadaginn sjálfan.

Það er hálfeinmanalegt hér án Bassa, sem ekki má dvelja í svona félagsbústað eins og ég er í. Hann er í góðu yfirlæti (og þá meina ég góðu.....)  hjá fyrri eigendum í Hafnarfirði og ég veit að þar er dekrað við hann fram úr öllu hófi. Hann er reyndar ekki óvanur slíkum trakteringum, hundurinn er löngu orðinn alger dekurrófa enda eftirlæti flestra sem honum kynnast.

Það er annars helst að frétta að súðbyrðingurinn Bjartmar, sameign okkar Gulla, hefur verið afskrifaður sem skip. Það þýðir ekki að hann sé talinn ónýtur heldur er einfaldlega ekki talin eign í honum lengur. Báturinn hefur verið til sölu nokkuð lengi en enginn viljað kaupa - a.m.k. ekki fyrir ásættanlegt verð - og nú er svo komið að vélin verður tekin úr honum, hreinsuð upp og seld sérstaklega, enda er hún prívateign Gulla og miðað við aðstæður í raun það eina sem einhver eign er í. Skrokkurinn fellur til mín og mun verða fluttur til Reykjavíkur í fyllingu tímans. Um framhaldið er óvíst en það má búast við að einhver not verði fyrir hann að undangengnum frekari lagfæringum og breytingum. Bjartmar sem slíkur hefur semsagt siglt sinn síðasta sjó og hverfur úr sögunni á fjörukambinum í Gullhólmavík.

Það er heldur að birta í lofti þó enn blási hressilega. Ég gæti trúað því að myndavélinni yrði beitt eitthvað í dag...........

16.04.2014 08:26

Heima á ný - en stutt þó!Það er miðvikudagsmorgunn og ég er aftur staddur í Höfðaborg eftir skottúr á fjörðinn fríða. Nú er endurnýjað í töskunum, einhverju bætt við til lengri dvalar því eftir hádegið liggur leiðin upp í Stykkishólm þar sem dvalið verður um páskana. Heimsins flottasti hundur, Edilon Bassi Elínarson Breiðfjörð Thorsteinsson Budenhof Sandhaug Sóðalöpp (þessi tvö síðasttöldu nöfn eru til komin vegna endalauss sandburðar inn á parkettið í Höfðaborg og upp í "snjó"hvíta leðursófasettið!) er kominn til sinna fyrri eigenda til páskadvalar og gegnir nú tímabundið nafninu Edilon B. Eyjólfsson Hafnfjörð.

 

Ég á örfáar myndir úr vesturferðinni og bæti þeim hér neðan við þegar ég kem upp í Hólm.....

---------------------------------------------------------------------------

......og nú er miðvikudagskvöld, ég kominn upp í Stykkishólm og skelli inn myndum af veðri og færð á leið til og frá Ísafirði. Það var annars ekkert að færðinni sunnudaginn 13 apríl þegar við ókum vestur, reyndar hef ég líklega aldrei séð Hvammsfjörðinn jafnsléttan og þennan dag:Ég smellti einni af á Hólmavík, ekki sem sögulegri heimild heldur til að þeir sem heima sátu gætu glöggvað sig betur á ferðaveðrinu:


Það var talað um krap á Steingrímsfjarðarheiðinni. Þar var litlu logið, víst var á henni krap en það var hins vegar aðeins á nokkur hundruð metra kafla. Að öðru leyti var júlífæri...


Þegar komið var niður í Djúpið mætti manni þessi endalausa vestfirska veðurblíða. Myndirnar eru teknar í Ögurnesi og skilin milli snjóbreiðunnar á Snæfjallaströndinni og sinunnar í vestanverðu Djúpinu eru sláandi.....


Svo var það engilblíðan í Skötufirðinum:Það var svo sem ekkert nýtt að mynda á Ísafirði. Fólk hittist, erindum var sinnt, dagur leið og svo vorum við aftur á suðurleið. Einhvern veginn er það svo að maður fær sjaldan sama veður í báðum ferðum og þetta skiptið var engin undantekning. Veðurblíðan á myndunum einskorðaðist við sunnudaginn þrettánda, mánudagurinn var öllu hryssingslegri en steininn tók þó úr á þriðjudeginum - s.s. í gær. Dagurinn heilsaði með snjóéljum í vindrokum, flugleiðin var ófær og landleiðin líka skv. fréttum Vegagerðarinnar. Farartálminn var Steingrímur - ekki í fyrsta sinn. Á textavarpinu mátti þó lesa að vegurinn myndi opnast um hádegi og við lögðum af stað suður aftur um kl. hálfeitt. Í Djúpinu skiptust á dimm snjóél án þess þó að snjó festi, og glaðasólskin með sumarfæri. Þegar upp á Steingrímsfjarðarheiði kom mátti þó vel sjá hvar vegurinn hafði lokast nóttina áður enda var þykk snjóröst beggja vegna vegar á a.m.k. tveimur stöðum. Snjó dreif enn yfir veginn á köflum en þó var þokkalega stikubjart. Moksturstæki voru enn að hreinsa veginn og umferð var allnokkur.


Þegar niður af Norðdalnum kom var sumarfæri sem fyrr og þegar lagt var á Arnkötludalinn ókum við fram á fyrsta marktæka vorboðann - Vegagerðarapparat með sóp að framan sem ók kantana og sópaði af þeim möl og sand. 


Vegurinn um Þröskulda var nær auður, aðeins minniháttar krap um hæsta kaflann. Afgangurinn af leiðinni suður var marauður utan annan minniháttar krapkafla á Bröttubrekku. Við komum til Reykjavíkur um kvöldmatarleytið í gærkvöldi. Þegar þessar línur eru skrifaðar á miðvikudagskvöldi 16. apríl í Hólminum er kuldaþræsingur og kvöldgangan hafði nær gengið af mér eyrnalausum.

Húfur eru nefnilega bara fyrir kjéllíngar...........

........................


 

13.04.2014 08:26

Enginn ræður sínum næturstað.


 Máltækið sem notað er sem fyrirsögn á pistilinn er að vísu notað um alvarlegri tilfelli en hér á við og ætti kannski ekki að hafa í flimtingum. Hvað eru annars flimtingar?

Ég sef allavega ekki í Höfðaborg næstu tvær nætur.

.....og hvers vegna ekki?

Jú, vegna þess að ég er á leiðinni út á land. Ekki með sjálfum mér. Eða þannig, sko...

Nújá, og hvert þá ef má spyrja?

Það er nú það. Kannski til Ísafjarðar. Hver veit?

11.04.2014 10:31

Föstudagsmorgunn 11.4. - Uppnám!


Já, ég sagði það! Uppnám! .....og hverjum er það að kenna? Jú, helvískum Norðmönnunum - einu sinni enn! Hafiði séð norsku veðurspána fyrir páskana?

Ekki?

Núnú - kíkið þá á yr.no og sjáið sjálf! Það er spáð hörkugaddi í Hólminum um páskana. Einmitt þegar stórskipið Stakkanes átti loksins að fara uppeftir. Aukinheldur er spáð slyddu eða éljagangi á laugardaginn og ekki langar mig að draga bát á tveimur kerrum yfir Vatnaleiðina í hálku.

Niðurstaðan er einföld: Stakkanesið verður eftir hér syðra en ég fer í Hólminn með kuldagalla, kuldaskó og flestar bækur Bergsveins Skúlasonar, og eyði páskunum við lestur og göngutúra. Jú, og kaffidrykkju hjá Löllu og Gulla!

Þá er hægt að koma sér að efninu.

Ofan við efri myndina í síðasta pistli er lítill svigi. Í honum er vikið nokkrum orðum að lítilli trillu sem ég keypti síðsumars ´94 af Herði heitnum Bjarnasyni skipstjóra á Ísafirði. Hörður hafði verið að dunda við þessa trillu úti í Krók og víðar, og hafði m.a. smíðað á hana laglegt stýrishús og hvalbak. Raunar var hornið svo lítið að vafasamt var hvort Hörður - sem var ekki með lægstu mönnum - kæmist fyrir í stýrishúsinu. Það reyndi hins vegar aldrei á það því eins og fyrr segir eignaðist ég  bátinn síðsumars ´94 og flutti hann inn að steypustöð. Með bátnum fylgdi ágætis tveggja strokka ALBIN bensínvél, á að giska 10-12 hestöfl. Það var ekki mín ætlun að nota bátinn heldur ætlaði ég fyrst og fremst að eiga vélina og stýrishúsið því þá þegar voru hafnar vangaveltur um bátinn hans Gumma Maríasar og hugmyndin var að nota stýrishúsið hans Harðar Bjarna og ALBIN vélina í þann bát. Vélin var sett á bretti inn í hús og stýrishúsið var sömuleiðis sett inn í geymslu. Trilluskrokkurinn frá Herði Bjarna stóð því einn og sér á planinu innan við steypustöðina. Hinu megin við húsið stóð svo trillan hans Gumma Maríasar og beið endurbyggingar.

Einhverntíma um haustið komu menn úr Súðavík í steypustöðina. Með þeim var Hafsteinn Björnsson frá Seljalandi í Álftafirði. Við Hafsteinn vorum kunnugir frá gamalli tíð og upphófst nú spjall, m.a. um litlu trilluna á planinu. Hafstein langaði í bátinn og spjallið spannst útí samningaviðræður. Þegar upp var staðið taldist hann eigandi bátsins en ég fékk í staðinn forláta PERKINS utanborðsmótor með tilheyrandi bensíntanki og einhverju fleiru. Nokkrum dögum síðar fóru skiptin fram og báðir undu glaðir við sitt. Hafsteinn flutti bátinn inn í Súðavík og setti hann inn í bílskúr við húsið sitt í Túngötunni.

Svo kom vetur, sem - eins og segir í síðasta pistli - komandi kynslóðir munu minnast sem mannskaðavetrarins í Súðavík. Það er ekki nákvæmlega vitað hvenær flóðið kom á steypustöðina og svipti burt trillunni hans Gumma Maríasar. Það er hins vegar nákvæmlega vitað hvenær flóðið kom á Súðavík og svipti burt húsinu og bílskúrnum hans Hafsteins Björnssonar með litlu trillunni. Öll sú saga hefur verið sögð..........

Þar með átti ég laglegt stýrishús í geymslu og ágæta ALBIN bensínvél á bretti en engan bát. Þannig stóðu málin lengi vel en loks kom að því að hvorttveggja nýttist. Gunnlaugur Valdimarsson frá Rúfeyjum á Breiðafirði, þá búsettur á Ísafirði var að endurbyggja lítinn súðbyrðing og vantaði í hann vél. Við Gulli vorum ágætlega kunnugir gegnum bátabras og fleira, og það lá beinast við að hann fengi ALBIN vélina frá Herði Bjarnasyni, frænda sínum - enda skildist mér að Hörður væri "ábyrgur" fyrir búferlaflutningi Gulla til Ísafjarðar. Á þann veg var hlutum ráðið, vélin fór í bátinn og báturinn á flot. 

Einn daginn leit Sigurður Ólafsson -Bíi - inn hjá okkur í steypustöðinni. Hann spurði um stýrishúsið og hafði hug á að fá það sem barnaleikfang við sumarbústað í Arnardal. Það fannst mér ágæt nýtingarhugmynd fyrir húsið og lét Bía hafa það. Ekki veit ég hvort stýrishúsið er enn við þennan sumarbústað en áhugasamir gætu athugað það.........

Þá er að segja frá endalokum ALBIN  vélarinnar og þar verð ég að treysta á frásögn annarra því á þeim hluta hafði ég enga hönd. Frá Gulla mun litli súðbyrðingurinn hafa gengið til eins þeirra Kálfavíkurbræðra og borist með honum vestur til Suðureyrar. Þar komst báturinn undir forsjón umboðsmanns almættisins á staðnum. Varla hefur það þó verið guðleg forsjón því báturinn mun hafa sokkið við bryggju vegna skorts á umhirðu. Hann mun hafa verið tekinn upp og settur inn í óupphitaðan bílskúr til lengri hvíldar. Þar skilst mér að vélin hafi hafi mætt sínu skapadægri full af sjó í vetrarfrosti.

PERKINS utanborðsmótorinn frá Hafsteini heitnum Björnssyni er enn í minni eigu og geymslu, og hefur sannarlega ekki sungið sitt síðasta stef. Að öðru leyti lýkur hér með sögu tveggja báta, tveggja véla og eins stýrishúss.

07.04.2014 23:10

Mánudagskvöld 7. apríl.


Það er logn í Reykjavík - ekki á hverjum degi sem það gerist núorðið!  Stakkanesið hefur fengið á sig forljótt skriðbretti sem á þó að gegna ákveðnu hlutverki. Vonandi tekst að ákvarða hvort nýr afturendi gerir eitthvað fyrir ganghraða bátsins. Ég hef nefnilega (og það hefur áður komið fram) engan áhuga á að fara í fokdýrar og tímafrekar breytingar á annars ágætum, norskum skrokki nema þær breytingar skili einhverju í ganghraða. Það skýrist á næstu dögum uppi í Stykkishólmi hvort skriðbrettið virkar ......

Næst ætla ég að birta myndir af trillu. Þetta er gömul trilla sem um árabil var vel þekkt á Ísafirði í eigu Guðmundar heitins Maríassonar fyrrum skipaafgreiðslumanns hjá Eimskipum. Þegar myndin var tekin var Guðmundur búinn að vera heilsulaus um árabil og báturinn hafi grotnað í reiðileysi á Sundauppfyllingunni við hlið kafbátsins hans Indriða í Þernuvík. Mér datt í hug að reyna að laga bátinn og talaði því við Guðmund. Við vorum vel kunnugir frá fyrri tíð þegar ég var tittur að vinna mér inn aura með kassaburði í freðfisksútskipunum. Við Guðmundur áttum ágætt spjall og að því loknu taldist ég eigandi bátsins. Ég flutti hann svo inn að steypustöð, þar sem ég var að vinna á þessum tíma og setti á skorður norðan hússins. Þar var húsrými með stórum dyrum sem ég átti að fá til afnota fyrir viðgerðina. Rýmið var reyndar fullt af drasli og rúmlega það en með sæmilegri tiltekt átti að vera hægt að mynda viðunandi vinnupláss.

Stuttu eftir að báturinn var kominn á skorðurnar settist ég inn í kaffi í Vélsmiðju Ísafjarðar hjá Braga Magg. Einhver kunningsskapur var milli Braga og Guðmundar, og Bragi spurði strax um bátinn og tilkomu hans við steypustöðina. Eftir stutt spjall var komið á hreint að Guðmundur mundi ekkert eftir okkar samskiptum og samningum um bátinn. Þótt hann hefði verið málhress og skrafhreifinn þegar við sátum að spjalli var heilsunni svona komið þrátt fyrir allt. Það var því dagsljóst að þarna þurfti einhvern milligöngumann og Bragi taldi sig sjálfkjörinn í það hlutverk. Það var búið að semja um verðið á bátnum og Bragi tók sömuleiðis að sér að taka við greiðslunni og gera þeim hluta skil. Í bátnum hafði verið fjörgömul ALBIN bensínvél, tveggja strokka og átti hún að fylgja - ef hún fyndist. Vandamálið var nefnilega það að að sögn Braga vissi enginn hvar vélin væri niðurkomin. Það gerði svo sem ekkert útslag - ég var nokkuð viss um að þessi vél yrði aldrei notuð, nema þá kannski í varahluti því ég átti aðra samskonar í ágætu lagi. Sú vél hafði komið frá Herði Bjarnasyni skipstjóra á Ísafirði og fylgdi lítilli trillu sem ég keypti af honum á sínum tíma (af bæði bát og vél er  svo allt önnur saga). 

Eftir að eignarhaldið á bátnum var komið á hreint gegnum Braga Magnússon var hafist handa við að taka til í rýminu sem hýsa átti bátinn. Það gekk frekar seint enda lá svo sem ekkert á - báturinn var búinn að grotna niður í mörg ár og einhverjir mánuðir til viðbótar áttu ekki að breyta neinu. Þeir gerðu það hins vegar svo sannarlega!!
Þannig var nú það. Þessar myndir eru teknar þann 22. september, eins og sjá má og það er ekki snjónum fyrir að fara á Ísafirði enda varla komið haust. Það kom hins vegar haust og á eftir því kom vetur. Komandi kynslóðir munu minnast þess vetrar sem mannskaðavetrarins í Súðavík. Það féllu  snjóflóð víðar á Vestfjörðum og a.m.k. tvö þeirra féllu á og við steypustöð Steiniðjunnar á Ísafirði. Annað flóðanna rauf efstu hæð hússins sem trillan stendur við og eyðilagði flest innan dyra. Verulegur hluti þess flóðs féll niður með norðurveggnum og fyllti kvosina á myndunum. Það leið nokkur tími þar til við sem störfuðum hjá fyrirtækinu fengum að fara inn á svæðið enda talin veruleg hætta á frekari flóðum. Það var þá fyrst sem við gátum athugað skemmdir á húsum og byrgt fyrir op. Trillan var ekki sjáanleg en ég vonaði í lengstu lög að hún væri þarna einhversstaðar undir farginu og hefði ekki færst úr stað. Þegar færi gafst mokaði ég svo holu niður í flóðið þar sem trillan átti að vera undir en án árangurs - hún var ekki þar. Þá mokaði ég slóð niður fyrir húshornið á efri myndinni að stóru malarfæribandi sem lá frá mulningsvél út yfir planið. Snjóflóðið var á að giska þrír til fjórir metrar á þykkt efst því aðeins sást rétt í efri brún dyraopsins á neðri myndinni. Við höfum líklega verið þrír að moka niður að færibandinu og búnir með drjúga holu þegar við komum niður á stjórnborðssíðu trillunnar. Ég mokaði alla síðuna upp enda til enda og sá að framstefnið var rifið úr niður að sjólínu. Vonaðist samt til að ekki væri meira skemmt en það og stefnið hefði hreinlega rifnað úr við að rekast á húshornið. Gróf því næst með hálfum huga niður með borðstokknum. Ekki hafði ég mokað nema svona 20 sentimetra þegar fyrir varð borðstokkur bakborðssíðunnar. Þá lá það fyrir að báturinn var lagður saman enda til enda og yrði ekki bjargað úr því. Brakið kom svo allt í ljós þegar við beittum hjólaskóflu á skaflinn - báturinn var svo gersamlega kurlaður bakborðsmegin að varla var óbrotin spýta. 

Hún endaði því á haugunum, trillan sem Guðmundur Maríasson hafði síðast dregið á óðan smokkfisk í Sundunum á Ísafirði haustið 1982.

 Það var svo alllöngu seinna að ég var að kaupa járn í smiðjunni hjá Braga Magg. Upp við vegg var slönguþrykkivél ásamt fleiri vélum og talsvert af drasli í kring. Drasl er oftast áhugavert og eitthvað hef ég verið að rýna í það þegar ég rak augun í litla, rauð-og grámálaða ALBIN trilluvél sem ég kannaðist við undir eins. Þar var komin "týnda" vélin úr trillunni hans Gumma Maríasar og ef marka mátti rykið á henni var hún ekki nýkomin á þennan stað! Ég lét kyrrt liggja enda engin þörf fyrir hana lengur.

Kannski er hún þarna enn........

 

..........................

05.04.2014 10:40

Laugardagur...


Það er laugardagur og hún Rósa systir í Gamlabakaríinu á afmæli í dag. Maður nefnir ekki aldur kvenna - og allra síst þegar þær bera hann jafnvel og hún - en Rósa fæddist þann fimmta apríl árið 1954 og nú má hver reikna sem vill!

Höfðaborg hefur annars breyst í Flens(u)borg. Við erum helvíti lélegir, við Bassi - ég af flensu, hann af svona sýndar-samúðar- leti!

Ekki hefur þó verið setið auðum höndum í morgun heldur var skanninn tekinn fram og vænum skammti af pappírsljósmyndum breytt í tölvutækar myndir. Næsta skref er svo að hrúga þessum myndum inn í albúm hér á síðunni, en meðan verið er að vinna í myndunum verður albúmið lokað að venju. 

Svo þarf ég helst að ná sæmilegri heilsu fyrir hádegið, því nú nálgast óðum hið rauða strik stórskipsins Stakkaness. Rauða strikið er þau tímamörk sem mér eru sett varðandi vinnu við bátinn því páskarnir nálgast og fyrir páska á Stakkanesið að vera komið upp í Stykkishólm. Gangi það eftir - sem ég ætla rétt að vona - rætist loks margra ára gamall draumur. Hugmyndin á bakvið smíðina á Stakkanesinu, svo og smíðin sjálf hefur frá upphafi miðast við flutning uppeftir og siglingar um Breiðafjörðinn.

Það verður stórt augnablik þegar Stakkanesið leggur af stað upp í Hólm!

Til að skreyta þenna örstutta pistil ætla ég að setja inn eina þeirra mynda sem ég skannaði í morgun. Hún er tekin í Naustahvilft gegnt Ísafjarðarkaupstað, eins og kunnugir sjá (og hinir eflaust líka). Á myndinni er  Áróran mín, sem nú dvelur í Mexíkó og innir af hendi vanþakklátt sjálfboðastarf meðal innfæddra hrokagikkja og rusta. Hin stúlkan á myndinni - í rauðri peysu -  er Bára Bjarnadóttir (Guðmundssonar Ingibjartssonar). Myndin er líklega tekin sumarið 2000, þ.e. stuttu eftir að við fluttum frá Ísafirði til Kópavogs. Miðað við aðrar myndir í þessu umslagi höfum við verið stödd á Ísafirði til að mála íbúðarhúsið okkar að Engjavegi 17. Það var svo selt ári síðar.....og nú einn kaffibolla og svo út að klappa Stakkanesinu!

  • 1
Flettingar í dag: 130
Gestir í dag: 30
Flettingar í gær: 314
Gestir í gær: 40
Samtals flettingar: 635395
Samtals gestir: 90510
Tölur uppfærðar: 13.12.2018 07:36:26


Tenglar