Gunnar Th.
Fjórða kerfið.....


Færslur: 2013 Ágúst

29.08.2013 19:16

Tíu ára!

Í gær, 28. ágúst varð síðan mín tíu ára. Eða þannig......

Nefnilega ekki þessi síða, því eins og stendur efst til vinstri í síðuhausnum er þetta fjórða kerfið sem ég nota frá upphafi. Hins vegar eru tenglar á hin þrjú fyrri í tenglaröðinni hægra megin. Fyrsta kerfið er dálítið ruglingslegt, en þó má átta sig á því með hjálp dagatalsins sem birtist lengst til hægri á þeirri síðu. Þar eru mánuðir og ár flokkuð niður.

Svo má ég til að nefna eitt: Fyrir langa löngu skrifaði ég sögu eftir minni - eða út úr minninu - þar sem ég fór yfir sögu fyrstu trillukaupanna minna, sem raunar urðu líka þau önnur og þriðju, svo oft keypti ég sama bátinn. Nokkru síðar eyddi ég góðum helmingi sögunnar í einhverjum lagfæringafimleikum og ætlaði alltaf að skrifa þann hluta upp á nýtt. Þegar ég svo reyndi  kom á daginn að ég hafði einhverra hluta vegna eins og þurrkað út úr minninu veigamikla hluta sögunnar. Ég þurfti að hafa verulega fyrir því að rifja upp og var ekki almennilega búinn að raða brotunum saman í rétta tímaröð. Svo leið og beið og sagan hálfgleymdist. Mér þótti hálf súrt í broti að tapa henni, svona upp á seinni tímann en fékk ekki að gert. Núna fyrir nokkrum dögum, þegar ég sat við tölvuna og drap tímann með því að renna yfir gömul skrif, fann ég þessa trillusögu í heilu lagi í fyrsta kerfinu. Ég hafði þá skrifað hana í kerfi nr. tvö en flutt í heilu til öryggis og vistað á gamla (fyrsta) kerfinu, svona sem "bakköpp" - og þar lá hún og liggur enn, óskemmd með öllu.

Ég læt hana flakka einhvern tíma fljótlega............

27.08.2013 19:39

Skálmarnesmúli, annar hluti.

Staður, Staðarhöfn og dráttarvélar.

(Innskot: Ég setti hlekk í fyrsta hluta pistilsins, um Laugaland í Þorskafirði en gleymdi að tengja hann. Ég hef bætt úr því og hlekkurinn á nú að vera virkur)


Fimmtudagurinn rann upp, var bjartur og lofaði góðu. Við vorum mátulega snemma á fótum enda ferðaáætlun dagsins ekki fastmótuð enn. Okkur langaði að renna út að Stað og niður að Staðarhöfn, og gerðum það um leið og morgunverði var lokið. Ferðaveðrið var nokkurn veginn svona:Rétt við vegamótin Reykhólar / Staður er býlið Grund. Þar er merkilegt dráttarvélasafn sem mig langaði að líta á en ákvað að geyma þar til í bakaleiðinni. Ennfremur ókum við framhjá tveimur umkomulausum plastbátum uppi á landi og ákváðum sömuleiðis að skoða þá í bakaleiðinni. Það er fallegt þarna úti á Reykjanesi og enn fallegra var að líta heim að býlinu Stað, þar sem flest gleður augað, ekki síst gamla kirkjan. Við ákváðum að líta á hana í bakaleiðinni.......

Í Staðarhöfn lágu þrír bátar. Einn þeirra var sýnu stærstur og þar var auðþekkt gamla "Kiddý" hans Hafsteins Ingólfssonar á Ísafirði, ferðabátur sem marga fjöruna hefur sopið og siglir nú með ferðamenn út í Skáleyjar, Sviðnur og fleiri staða. Báturinn var ljómandi vel útlítandi og snyrtilegur, enda voru tvær kynslóðir eigenda á fullu við að pússa og bóna. Það var sumsé ekki ferðadagur þennan dag, siglingadagar voru miðvikudagar og laugardagar svo nú fékk báturinn hvíld og klapp.Við áttum ágætt spjall við eigendurnar og að því loknu var haldið heim að Stað og litið á kirkjuna. Á bæjarhlaðinu stóð þessi fyrirmyndar Ferguson og endurkastaði sólargeislum...

Kirkjan er mjög falleg en var nokkuð farin að láta á sjá, hafði þó verið endurbyggð einhvern tíma á síðustu áratugum. Ekkert er eilíft og það var greinilega kominn tími til að líta á eitt og annað aftur.

Það var kominn dálítill fúi í undirstöður turnsins og þær nokkuð farnar að skekkjast. Ég mátti til að kíkja aðeins upp í turninn og mynda:Mátti til að mynda þessi fallegu, gömlu hús á bæjarhlaðinu. Svo fannst mér dálítið merkilegt að sjá tvenna tíma kallast á fyrir húshornið. Annars vegar var fótknúinn hverfisteinn, hins vegar fjórhjól...Niðri á túnunum spölkorn frá bænum stóð kunnugleg tegund af bíl. Ég mátti til að finna slóð niðureftir og kanna gripinn:Jú, þetta var gamall Læner, custom - sætabíll með framdrifi og öllu og á gegnumfúnum 38 tommu dekkjum. Mér flaug eitt augnablik í hug að aka aftur heim að bæ og falast eftir felgunum, en áttaði mig svo á að þær myndu of breiðar fyrir sjúkrabílinn. Enda á hann örugglega eftir að liggja þarna eitthvað enn, þessi dreki ef sjúkrabílsáætlunin skyldi breytast í vetur.
Svo voru það bátarnir sem átti að skoða í bakaleiðinni. Þeir lágu þarna ekki langt neðan við Miðjanes, annars vegar hún Dagga frá Skarðsstöð, 700 Víkingbátur sem augljóslega hafði lent í tjóni og var hálfviðgerð. Viðgerðinni hafði greinilega verið hætt og Dagga reri nú landróðra eftir túnfiski. Svipað var ástatt um norska síldveiðiskipadráttarbátinn sem lá hjartalaus á hliðinni rétt hjá Döggu. Þetta var öflugur bátur sem hefði getað gert stóra hluti við réttar aðstæður  - og í réttum höndum. Þarna voru bara engar hendur.....

Kannski kveikja myndirnar áhuga hjá einhverjum, sem vill setja sig í samband við eigandann. Mér skilst hann búi á Miðjanesi.
..............................................................................................................................

Ég hef aldrei verið neinn sérstakur áhugamaður um Porsche. Jújú, þetta eru eflaust vandaðir vagnar og allt það, en ég set þá samt alltaf á sama bekk og Fólksvagen, og mér líkar ekki Fólksvagen. Það var samt ekkert Fólksvagenlegt við Porsche dráttarvélina frá 1955, sem fóstruð er að Grund á Reykjanesi. Hún var algerlega "Júnik" eins og maður má alveg segja. Við höfðum ætlað að líta aðeins á dráttarvélasafnið að Grund "í bakaleiðinni" en það lá við að ferðalagið yrði hreint ekki lengra, svo gaman var að skoða vélarnar og spjalla við karlana sem eiga þær og sinna.Við hlið Porsce er eldrauð Hanomag R12, líka árgerð 1955 og minnti mikið á þá gömlu sem ég átti eitt sinn og gerði þokkalega upp. Sú vél endaði norður í Furufirði á Ströndum, eins og ég hef áður skrifað um m.a. HÉR . Ég nefndi hana við karlana og úr varð spjall sem hefði þess vegna getað staðið allan daginn. Ég var hins vegar gerður kjaftstopp þegar þeir buðu mér að prófa Porsce-inn!!  Enginn heilvita maður slær hendinni móti þvílíku boði og Porsche var startað í gang. Það var upplifun útaf fyrir sig að heyra vélina taka við sér því það mátti telja slögin í þessarri eins strokks loftkældu dísilvél og þurfti ekki að vera neitt sérlega snöggur að telja.....donk.......donk.....donk, svo nokkur donk í viðbót og ég var ekki alveg viss um hvort hún hefði það í gang eða stoppaði aftur. Svo styttist tíminn milli donk-anna, styttist enn meira og loks var ljóst að hún myndi hafa það af og haldast í gangi. Þá fór sko fyrir alvöru að verða gaman!

Svo var bakkað aftur í stæðið og þá kom enn ein snilldin í ljós. Þessi vél er með fjóra gíra áfram en engan afturábak. Hún er nefnilega með vendigír aftan við gírkassann, svo það er sama í hvaða gír hún er, aðeins er fært eitt lítið handafang og þá bakkar vélin í "áframgírnum". Auðvitað vita flestir hvað vendigír er, en mér fannst það magnað að ´55 árgerð af dráttarvél skyldi hafa verið búin slíkum búnaði.Svo voru þarna tveir "gránar", annar nýuppgerður og afar fallegur, hinn óuppgerður og satt að segja var grái liturinn eiginlega horfinn með öllu. Vélin var samt gangfær og í prýðilegu lagi - vantaði aðeins útlitsklappið.

Allt gott tekur enda, og svo var einnig um þessa heimsókn. Við kvöddum þessa skemmtilegu karla og héldum okkar leið í átt að Bjarkalundi. Þar skyldi fyllt af fokdýrri hráolíu áður en haldið yrði á vit torfæranna út í Skálmarnes.Við Bjarkalund stóð "Læðan" landsfræga og hefur heldur sett ofan, hafi það á annað borð verið hægt:

Hér ætla ég að ljúka öðrum hluta. Þriðji hluti er handan við hornið......
llllllllllllllllllllllll

25.08.2013 18:17

Skálmarnesmúli.

...ásamt nokkrum óskyldum útúrdúrum....


Þegar blaðað er í fyrirliggjandi heimildum er dálítið sitt á hvað hvort þríhyrnda nesið vestan Skálmarfjarðar, sem svipar svo mjög til Reykjaness nokkru sunnar, er nefnt Múlanes eða Skálmarnes. Ef litið er á kortið sem stundum er nefnt "herforingjaráðskort" og er í kvarðanum 1:100 sést að ysti hluti nessins er merktur Skálmarnes, fjallið sem myndar í raun allan skagann er nefnt Skálmarnesmúlafjall og ysti bær á nesinu er kirkjustaðurinn Skálmarnesmúli. Svo má einnig sjá að ysti hluti fjallsins sjálfs er nefndur Múlatafla.

Þetta er ekkert einfalt mál!

Ég ók vesturleiðina sjálfur í fyrsta sinn þjóðhátíðarárið 1974. Þá hafði ég farið þessa leið nokkrum sinnum með foreldrunum á ferðalögum og límheilinn í höfðinu á mér var löngu búinn að festa inn þau nöfn sem stóðu á vegskiltunum á leiðinni. Á einu þessara skilta stóð "Skálmarnesmúli 14" sem þýddi jú að fjórtan kílómetrar væru til staðarins sem nefndur var á skiltinu. Svo þurfti sá staður ekkert endilega að vera á vegarenda. Ég man að ég spurði eitthvað um þennan stað, ásamt nokkrum öðrum álíka merktum. Svo liðu árin og smám saman varð til löngun til að fara þessa útúrdúra frá þjóðveginum og sjá það sem þar væri að finna. Það var svo ekki fyrr en ég flutti suður haustið ´99 að ég fór að ferðast eitthvað að ráði um landið. Eins og fyrr segir ók ég vesturleiðina sjálfur árið  1974 og síðast ók ég hana þremur árum síðar, um mánaðamót maí-júní. Þá voru vegirnir blautir og illir yfirferðar, bíllinn lítill og illa búinn til slarkferða enda varð pústkerfið eftir á Hrafnseyrarheiðinni og er þar eflaust enn. Við veginn stóðu þessi tvö skilti sem höfðu brennt sig í hugann og ég vissi nákvæmlega hvar voru og hvenær ég kæmi að þeim. Á því fyrra/syðra stóð "Kvígindisfjörður" og á því síðara/nyrðra "Skálmarnesmúli 14"

Svo liðu árin, Djúpvegurinn varð aðalleiðin suður og firðir og hálsar Austur-Barðastrandarsýslu urðu í minningunni eins og reynsla síðustu ferðarinnar: leðja, pollar holur og hvörf. Bæjum í byggð fækkaði, byggðin varð strjálli og loks voru stór svæði sýslunnar orðin mannlaus með öllu. Skálmarnesið var þar ekki undanskilið og búseta á þeim fimm bæjum sem stóðu á utanverðu nesinu smálagðist af. Það liðu 25 ár - aldarfjórðungur - þar til ég ók vesturleiðina næst sumarið 2002. Þá hafði ég á orði við þá sem heyra vildu að það hefði rifjast upp fyrir mér smám saman á leiðinni hvers vegna öll þessi ár liðu milli ferða - vegurinn var nefnilega jafn handónýtur og þá þó vissulega hefði kafli og kafli verið lagaður. Engin keðja er sterkari en veikasti hlekkurinn og hinir veiku hlekkir vesturleiðarinnar voru ótalmargir. Eitt af því sem ekki hafði breyst voru þessi skilti, Kvígindisfjörður og Skálmarnesmúli. Þau voru þarna enn og af því ég er jafn illa haldinn af ferðaþörfinni/þránni og raun ber vitni þá pirruðu þessi skilti mig. Ég áréttaði við sjálfan mig það sem hafði raunar löngu verið ákveðið, þ.e. að fara þessa spotta fyrr eða síðar. Enn liðu árin og ferðabílarnir sem ég átti voru að mínu mati ekki hentugir til að fara þessa vegi, sem ég áleit með nokkrum rétti að hlytur að líkjast þjóðvegi fyrri áratuga, hálfófærir moldarslóðar með háan gras- og grjóthrygg í miðju. Það var enda ekki að búast við miklu viðhaldi vega sem aðeins lágu að löngu yfirgefnum eyðijörðum úti við ystu nes. Einhvern tíma las ég þó að reynt væri að messa árlega í kirkjunni að Skálmarnesmúla, ysta bæ í þeirri sveit, svo það mátti kannski ætla að hann væri slarkfær a.m.k. rétt um messutímann.

Nokkur sumur var ég ferðabílslaus en átti þó ágætan jeppa sem var óspart beitt á hina ýmsu vegslóða og á honum fór ég m.a. inn að Laugalandi í Þorskafirði eins og lesa má um HÉR.

Svo eignaðist ég prýðilega háfættan ferðadreka sem hefði átt að geta étið alla grjót-og grashryggi hálfófærra aflagðra heimtraða og gerði það vissulega, en var samt aðallega beitt á "stórvirki" eins og Kaldadal, Kjöl og álíka. Í fyrrasumar, 2012, var búið að setja stefnuna á Skálmarnesið en varð ekki úr og áætluninni var ýtt áfram um eitt ár. Svo var ferðadrekinn seldur í vor og leystur af með öðrum heldur lágfættari en þó vel brúklegum á slæmum vegum. Nú í júlímánuði sl. fannst mér rétti tíminn kominn fyrir Skálmarnesmúla og sjúkrabílnum, sem varla var orðinn kaldur eftir Snæfellsnesstúrinn, var enn snúið í vesturátt og hleypt........

Kannski man einhver eftir mynd sem ég birti í fyrra í lok "Átta daga ferðarinnar". Ég tók hana í Búðardal  þegar ég rakst á fyrsta ferðabíl fjölskyldunnar, eða það sem eftir var af honum. Ég mátti þá til að stilla ferðadrekanum upp við hlið þess gamla og smella af:Nú var liðið u.þ.b. ár og þegar við Elín Huld renndum inn í Búðardal síðla dags 31. ágúst stóð Járntjaldið sáluga enn á sínum stað, jafn umkomulaust og árið áður. Ég stillti sjúkrabílnum upp á sama stað og drekanum áður, og skaut mynd:Hún Elín Huld mátti til að kíkja inn í flakið og skoða leifarnar af eigin handverki, gardínur, sessur og klæðningar. Það var ekki fallegur svipur á henni og hljóðið var, svo ég segi bara satt og rétt frá, hreint gráthljóð:Þessi VW Caravelle hafði rúma 300 þúsund kílómetra á mæli þegar við seldum hann. Á mælinum mátti sjá að ekki hafði bíllinn dugað kaupandanum lengi eftir að við slepptum af honum hendinni, enda hafði ég fregnað að dekrinu væri kannski dálítið áfátt:Mér hefur stundum verið legið á hálsi fyrir að vilja kaupa bílhræ út um allt, en í þetta sinn var það Elín Huld sem vildi leita leiða til að eignast bílinn aftur þrátt fyrir þetta ástand. Ég varð skyndilega heyrnarsljór.......

Við héldum áfram vestur því áfangastaður okkar og náttstaður var ákveðinn Reykhólar. Sjúkrabíllinn hafði ætt yfir Bröttubrekku líkt og með fjandann á hælunum enda líkar honum illa að fara hægt á brekkur. Við þeyttumst Svínadalinn á hraða við hættumörk og sem leið lá út að Reykhólum. Þar var nokkuð þétt setinn bekkurinn á tjaldsvæðinu og sundlaugin opin fram eftir kvöldi. Við veifuðum útilegukortinu, gengum frá okkar málum og hoppuðum ofan í heita pottinn til hjóna sem reyndust vera á leið vestur að Tannanesi í Önundarfirði. Hann átti þangað ættir að rekja, þau ætluðu að aka vestur undir nóttina og höfðu skroppið í sundlaugina til að þreyta ungviðið sem með var í för. Það er rólegra að aka þegar börnin eru sofnuð og þau sofa varla betur en eftir sundlaugargalsa. Svo var allt í einu komin nótt, svo rann annar dagur. Fimmtudagur - sólskin og vindur, ágætis ferðaveður og spáin hljóðaði einmitt þannig fyrir landshlutann. Ferðin hafði jú verið ákveðin með tilliti til veðurspárinnar og allt byggðist á að hún héldi gefin loforð. Ég birti sýnishorn af veðrinu þennan fimmtudagsmorgun og fyrir neðan er sýnishorn af henni Elínu Huld með kaffikönnurnar í hendinni. Henni leiðist ekkert......

...og af því yfirferðin er svo svakaleg þá ætla ég að slíta þráðinn hérna að sinni og hefja 2. hluta við fyrsta áfangastað dagsins - Staðarhöfn.

lllllllllllllllllllllllllllllllllllllllllllllll
 23.08.2013 20:36

Snæfellsnes - ferðasögulok

Hvar var ég nú aftur?

Jú, alveg rétt. Við vorum komin á Hellissand, á nýja tjaldsvæðið þar og búin til næturdvalar. Svo rann nýr dagur, fimmtudagur og það mun hafa verið klukkan 8:04 að síminn hringdi og vakti mig af værum blundi. Á línunni var Magnús fyrrum vinnufélagi minn. Hann spurði hvort ég hefði séð Mbl.is. Eðlilega hafði ég ekki séð það, en til útskýringar sagði Maggi mér að á forsíðu blaðsins væri mynd af hörðum árekstri sem orðið hefði í Reykjavík þá snemma um morguninn, og ekki væri annað að sjá en á myndinni væri bíll sem ég hafði haft náin kynni af skömmu áður. Við nánari skoðun stemmdi það allt en eðli málsins samkvæmt og með tilliti til þess að ekki urðu alvarleg slys á fólki þóttu mér þetta næstum góðar fréttir í upphafi dags. Ég varð nefnilega hálf-feginn að losna við þennan bíl út úr heiminum!

Vestan við Gufuskála eru leifar af liðinni tíð. Þar er t.d. Gufuskálavör, ævagamalt uppsátur enda útræði þaðan um langa hríð. Þá er þar einnig Írskrabrunnur, vatnsból sem var týnt og horfið í sand en fannst aftur fyrir tilsögn gamals heimamanns og hefur nú verið endurgert. Þessi mannvirki eru bæði merkt með skiltum við þjóðveginn. Áður fyrr voru þessi skilti frekar lítil og auðvelt að aka fram hjá þeim án þess að taka eftir. Með stofnun þjóðgarðs um Snæfellsjökul hefur verið lyft Grettistaki í merkingum örnefna og nú eru komin ágæt kynningarskilti fyrir Gufuskálavör og Írskrabrunn. Þegar við Elín Huld höfðum gleypt í okkur morgunmatinn ókum við til baka frá Hellissandi út að Gufuskálum og niður á bílastæði ætlað fróðleiksleitandi ferðamönnum. Þaðan gengum við niður að Gufuskálavör, en ekki tókst okkur að finna kjölför róðrarbátanna sem þar eru sögð mörkuð í klappirnar. Allt um það eru greinilegar varir í fjörunni, ruddar af mannahöndum. Við gengum eftir stikuðum stíg lengra til vesturs og komum fljótlega að Írskrabrunni. Skiltið segir söguna:....og kannski tala myndirnar bara betur en orðaflóð:

Myndirnar sýna hins vegar ekki fúkka- og moldarlyktina sem var hálfkæfandi þarna niðri. Mikið hljóta menn að hafa verið þurfandi fyrir vatn ef þetta hefur talist boðlegt hér í eina tíð! Eins gott að ekki var búið að finna upp heilbrigðiseftirlitið......

Rétt hjá brunninum var hlaðinn garður - við vorum ekki viss um hvort þetta var húshluti eða fjárgirðing. Við stikuðum veggina og komumst að því að grunnflöturinn var nokkurn veginn sá sami og í litla húsinu okkar að Króki eitt á Ísafirði, eða fjörutíu og tveir fermetrar.Rétt við veggina fundum við stein. Hann var kannski ekkert merkilegur, en þó nægilega flottur til að verða myndefni. Ég veit ekki hvernig svona grjót verður til, hvort þetta er hraun sem harðnar í vatni eða hvað.....setti samt úrið mitt á steininn fyrir myndatökuna, svona til að hafa stærðarhlutföllin:

Morguninn, sem byrjaði klukkan 8:04 með símhringingu og sem hafði einnig lofað svo góðu og sólríku veðri var farinn að snúa aðeins uppá sig. Það þyngdi í lofti og Snæfellsjökull var að hyljast þoku sem fylgdi hálfgerður kuldagjóstur. Við héldum til bílsins og ókum aftur inn til Hellissands. Þar er fyrirtæki sem heitir Bátahöllin en fæst við sitthvað fleira, m.a. að steypa húsbílatoppa. Við áttum ákaflega góðar viðræður þar við mann sem kíkti um borð í sjúkrabílinn og athugaði möguleika á að setja á hann nýjan trefjaplasttopp í stað hækkaða stáltoppsins sem á honum er og er hálfgerður vandræðagripur. Síðan var haldið til Ólafsvíkur og verslaðar matarbirgðir til dagsins. Það stóðst svo á endum að þegar við höfðum gengið frá birgðunum í bílnum og borðað hádegismat á bátahöfninni náði þokan okkur svo vart sá milli húsa. Við urðum ásátt um að leita sólarinnar sunnan nessins og "stóðum flatt" inn að Fróðárheiði og yfir hana.

Þegar við komum suður yfir brúnir virtist útlitið litlu betra í þá áttina. Við sáum jú Búðir í grámanum en ekkert meira en svo....Á tímabili vorum við að velta fyrir okkur að snúa við og aka norður fyrir aftur en létum vera og héldum til Búða. Lögðum bílnum við kirkjuna og gengum niður í Búðahraunið og gullinn fjörusandinn:Sumir gátu jafnvel látið sig dreyma um suðrænar sólarstrendur, eða kannski var það tilhugsunin um væntanlega Danmerkurferð sem skapaði þennan sólarsvip á hana Elínu:Fjaran neðan við Búðir er sannkölluð náttúruparadís, og jafnvel í svona hálfgerðu fýluveðri var gaman að ganga um og njóta þess sem fyrir augu bar:


Litlu innar í hrauninu fundum við talsverðar mannvirkjarústir milli sandhóla, grastoppa og hraundranga. Einar rústirnar voru sýnu mestar, þar hafði greinilega staðið stórt og mikið skepnuhús. Rifjaðist nú upp fyrir mér stutt klausa úr Sögu ísafjarðar (manekkihvaðabindi) þar sem segir frá Jóakim snikkara frá Búðum á Snæfellsnesi, sem fluttist búferlum til Ísafjarðar á nítjándu öld. Jóakim þessi tók sér nafnið Budenhof, með skírskotun í æskustöðvarnar. Nafnið er þýskuskotið og eins og þeir vita sem þekkja þýðir orðið -hof- á þýsku, höll.  Jóakim snikkari Budenhof eignaðist börn eins og gengur, og eitt þeirra hét Þorsteinn. Þorsteinn eignaðist svo sinn Jóakim í fyllingu tímans og sá Jóakim eignaðist fimm börn með konu sinni. Hann byggði húsið Sólbrekku á Stakkanesi við Skutulsfjörð yfir fjölskylduna og flutti þangað um 1930 frá Hnífsdal. Næstyngsta barn Jóakims var Þorsteinn, fæddur 1920 og því um tíu ára aldur þegar flutt var að Sólbrekku. Sá Þorsteinn Jóakimsson eignaðist þann Gunnar Theodór sem þetta skrifar árið 1957 og Gunnar Theodór eignaðist svo hundinn Edilon B. Breiðfjörð Thorsteinsson Budenhof árið 2007 (þó ekki með konu sinni) en hann er sá fyrsti um langa hríð til að bera þetta mikla nafn, Budenhof. Innan fjölskyldunnar var raunar um hríð nokkur ágreiningur um tilurð nafnsins og sýndist sitt hverjum. Sú skoðun var viðruð í þröngum hópi að um væri að ræða þýska greifaætt sem blandast hefði - eða ratað - hingað til lands á ókunnum forsendum og um það hefði Jóakim snikkara frá Búðum væntalega verið kunnugt þegar hann tók upp nafnið. Sagan er góð og það sama á við um hana og aðrar góðar sögur, að þær mega aldrei líða fyrir sannleiksgildið.....

Þegar ég skoðaði leifar þessarra stóru útihúsa fannst mér samt augljóst að þarna hefði enginn meðalmaður búið, og því lægi beinast við að ætla að enginn annar en Budenhof greifi hinn þýski hefði byggt svo vel:

Innan rústanna mátti sjá gríðarmikið, steinsteypt baðker. Það má svo sem vel vera að þetta hafi verið fjárbað eitt sinn. Mér finnst hitt samt miklu líklegra, að þarna inna veggja útihúsanna hafi verið baðhús Budenhofs greifa. Í baðkerinu eru nefnilega steyptar tröppur eða þrep, og hvað hafa rollur að gera með þrep? Hafið þið kannski séð rollur ganga upp og niður stiga? Ég bara spyr...Nei, það er dagsljóst og kristalklárt að þetta var hið forna baðker í höll Budenhofs greifa, sem ég er lifandi kominn. Ég taldi mig hafa fullan rétt, sem beinan afkomanda, að leggjast í baðkerið og njóta þess eitt augnablik að vera kominn af þýskri greifaætt:

Þannig var nú það. Svo var ég rifinn uppúr dagdraumunum og teymdur áfram upp lendur ríkis míns allt að kirkjunni. Þar stóðu tvær erlendar persónur og mynduðu í bak og fyrir með allskonar serimóníum. Við giskuðum á að verið væri að mynda kirkjuna annaðhvort fyrir bók eða ferðabækling. Okkur gafst augnablik til að mynda:

Þokunni virtist ekkert vera að létta þarna úti á nesinu en tilsýndar var bjart inni á Mýrum. Við ákváðum því að aka inneftir og sjá til hvort mögulegt væri að fá gott veður inn Hítardal, þangað sem upphaflega hafði verið ráðgert að fara. Við vorum samt ekkert að flýta okkur, sjúkrabíllinn var settur á krúskontról á sjötíuogfimm enda umferð svo til engin. Eftir smástund vorum við komin inn að Vegamótum og ég fór fram á að ferðafélaginn legði mér sem bíl- og fararstjóra til ís í brauðformi. Ég hafði mitt fram og meðan ísinn var sleiktur tókum við eftir því að yfir Vatnaleiðinni (yfir til Stykkishólms) var heiðblár himinn. Hítardalur var þar með settur "á ís" og lagt af stað upp á hálsinn með Stykkishólm fyrir stafni. Þegar upp kom og sá niður í Breiðafjörðinn yfir Bjarnarhöfn  - ja, þá sást hvorki Breiðafjörðurinn né Bjarnarhöfn fyrir helvítis þokunni enn einu sinni! Hins vegar var sól og blíða á sjálfri Vatnaheiðinni.

Þar sem veginum hallar til norðurs liggur hann rétt ofan Selvallavatns. Meðfram veginum á vinstri hönd rennur árspræna sem hverfur sjónum niður halla. Á háum bökkum ofan vatnsins er dálítið bílastæði, eins konar áningarstaður með borði og bekkjum. Ég hafði oft séð bíla standa þarna mannlausa sem benti til að frá þessum stað tæki fólk sér gjarnan göngutúr niður á bakkana ofan vatnsins. Þegar ég hef svo ekið gegnum Berserkjahraun frá Hraunsfirði hef ég séð þennan áningarstað frá öðru sjónarhorni. Þá er landslagið allt öðruvísi, og í ársprænunni sem hverfur niður undir bakkana er foss sem ekki sést frá veginum og fellur um gil sem úr fjarlægð sýndist afar fallegt. Nú var staðan þannig að beggja megin Vatnaheiðarinnar var þoka en á þessum bletti var glaðasólskin og hlýtt. Það varð því úr að nota tækifærið til að skoða þennan foss sem úr fjarlægð sýndist svo fallegur. Við lögðum sjúkrabílnum á bílastæðinu þar sem enginn var fyrir, og gengum niður bakkana stutta leið að gilinu.Einhvern veginn hef ég á tilfinninguni að alltof fáir leggi leið sína niður að þessum fossi. Það var tiltölulega auðvelt að komast niður í sjálft árgilið og þegar þangað kom sást að greið gönguleið var bakvið fossinn og mátti með lagni komast alla leið yfir á hinn bakkann.Á myndinni hér að ofan er greinileg syllan sem gengt er eftir. Hún er útspörkuð, ekki eftir fætur ferðamanna heldur eftir kindur, sem virðast eiga þarna athvarf undir klettinum. Eftir á að hyggja hefði kannski veið betra að vera á stígvélum til að ganga bak við fossinn, því leðurmokkasínurnar voru ekki hentugasti fótabúnaðurinn til að vaða kindaskít - afsakið, húsdýraáburð - sem þarna var sannarlega nóg af!

Í stuttu máli: Þetta gil og þessi einstaki foss eru líklega einhver best varðveittu leyndarmál sem við höfum rekist á í langan tíma.En með tilliti til þess að um þrjátíu manns kíkja hingað inn hvern sólarhring er leyndarmálið varla neitt leyndarmál lengur?

Það leið á daginn, þokan hélst allt um kring og við hugðum til heimferðar. Mýrarnar voru teknar á krúsinu, Hítardalurinn fór í bið rétt einu sinni enn og um kvöldmatartíma vorum við í Borgarnesi, þar sem djúpsteikti plokkfiskurinn beið.........

Að þessum skrifum loknum opnast myndaalbúmið sem merkt er "Snæfellsnes 23-25.7.2013". Þar má sjá allar ofanbirtar myndir í stærri og skýrari útgáfu, ásamt mörgum, mörgum fleiri.

llllllllllllllllll

19.08.2013 19:56

Snæfellsnes - annar hluti.

Eins og áður var fram komið héldum við til bíls eftir að hafa gengið kyrrlátlega fram hjá GPS - háskólaapparatinu sem ekki mátti trufla. Svo var ekið sömu leið til baka í átt að Arnarstapa. Við höfðum nefnilega fregnir af dansk/íslenskum leiðangri sem var á ferð út norðanvert nesið og fyrir það, Okkur langaði að hitta leiðangursfólkið og reiknaðist til að líklegur mætingarstaður yrði milli Hellna og Djúpalóns. Næsti ákvörðunarstaður okkar var því Hellnar og næsta áning var tekin við kaffihúsið litla í fjörunni:Þarna niðri í fjörunni við kaffihúsið og bryggjuna gömlu er hreint ævintýralega fallegt....og þar sem Elín var með myndavélina voru fjörusteinarnir myndaðir á listrænan máta, enda hver steinn náttúrulistaverk í öllum skilningi:Við gengum um sandfjöruna ofan við bryggjuna hreinlega heilluð af fegurðinni, veðrinu, útsýninu, kaffinu í Fjöruhúsinu og makrílveiðibátunum útifyrir ströndinni:Séð frá bryggjusporðinum upp til Stapafells og Snæfellsjökuls var veröldin hreinlega eins og málverk.Við bryggjuhausinn uxu svo þessir myndarlegu þarabrúskar og með aðfallinu vatnaði yfir þá. Svo bærðist þarinn til og frá fyrir hægri undiröldunni......Við klifruðum upp á klettana ofan við Baðstofuhelli og mynduðum niður. Í víkinni voru tvö stelpuskott að leika sér við ölduna, hlupu berfættar milli steina út í klettinn neðarlega hægra megin á myndinni. Þar sástu þær svo og tístu þegar kaldur sjórinn kitlaði iljarnar....Við höfðum fregnir af vinum okkar í  dansk/íslenska leiðangrinum. Einhvern veginn hafði þeim tekist að fara á mis við Djúpalónssand og innan stundar birtist hópurinn á bökkunum ofan við kaffihúsið. Þar urðu fagnaðarfundir og þar sem margir koma saman - þar er gaman. Hópurinn var orðinn svangur eftir langt ferðalag og því var blásið til stórveislu. Sérréttur hússins, fiskisúpan, brást ekki.Danski Íslendingurinn Elva Sofia Jónsdóttir hin nýskírða frá Skálholti lét lítið yfir fiskisúpunni en var annars hin brattasta þrátt fyrir dálitla ferðaþreytu.Vegna þess að hópurinn hafði ekið framhjá vegamótunum niður að Djúpalónssandi var ekki um annað að ræða en snúa til baka eftir veisluna  - enda ekki um langan veg að fara - og ganga niður á sandinn. Ungviðið reyndi sig við steinatökin en hafði vart árangur sem erfiði, og var þó drjúgt erfiðað því ekki voru allir á því að láta sinn hlut fyrir dauðum steinum.  Svo var farið að skoða brotin úr togaranum Epine, sem þarna liggja um allt:Hún Eva Lilja er ekki stór og þó er hún stóra systir hennar Elvu Sofiu. Henni fannst gaman að henda steinum, líka að hlaða steinum. Allt sem tengdist steinum var gaman og þarna var nóg af steinum.....Af skuggunum á efri myndunum má sjá að degi var verulega tekið að halla, klukkan líklega orðin tíu eða meira. Djúpalónssandur var síðasti viðkomustaður leiðangursins, að frátöldu stuttu stoppi að Arnarstapa. Að því loknu óku þau alla leið suður í Biskupstungur í striklotu.
Elín tók þessa fallegu kvöldmynd af öldunni við Djúpalónssand um leið og við gengum til bíls.Það var farið að nálgast háttatíma og við höfðum ákveðið að nátta á nýju tjaldsvæði á Hellissandi. Þangað lá því leiðin en - með einni viðkomu þó. Ég kom niður í Beruvík fyrir meira en tíu árum, gekk þar um og skoðaði rústir húsa sem þar höfðu eitt sinn myndað vísi að þorpi. Mig hafði lengi langað að endurtaka gönguna en ekki orðið úr. Nú var ákveðið að nota síðustu sólargeisla dagsins til að rölta niðureftir. Þetta er stutt ganga, varla meira en 5-10 mínútur að rústum Nýjubúðar, sem eru heillegastar. Á göngu um fjöruna fann ég brak úr skipi og minntist þess að fyrir áratugum hafði Akranessbáturinn Böðvar  ( sjá HÉR og HÉR ) strandað þarna og eyðilagst. Svo fann ég meira brak og enn meira, og loks var orðið ljóst að þarna var brak úr miklu stærra skipi en hinum áttatíu lesta eikarbáti, Böðvari AK. Þarna voru mörg brot úr járnskipi og þykkt efnisins benti til að um stórt skip hefði verið að ræða. Ég hafði pata af að talsvert löngu fyrir aldamótin 1900 hefði strandað þarna allstórt skip en taldi víst það hefði verið tréskip, svo tæplega gat þetta járn verið úr skrokki þess.

(Skipið sem um ræðir er sagt hafa heitið Brilliant Star og á að hafa strandað við Beruvík 1882. Ég hef enga heimild fundið um þetta skip aðra en þá upphaflegu, sem finna má á korti yfir þjóðgarðinn útgefnu af Umhverfisstofnun - sjá HÉR )


Heimkomin lagðist ég svo í grufl og komst að því að líklega væri þarna um að ræða brot úr skrokki danska seglskipsins Africa, sem stundum var kallað "korkskipið" og má lesa nokkur orð um HÉR. Skrokk skipsins mun nefnilega hafa rekið upp í skerin fram af Beruvík og hann brotnað þar. Meðan ekki koma fram betri upplýsingar verð ég að halda mig við þessa skýringu.
Þar sem við gengum milli járnbrotanna og virtum fyrir okkur gríðarmikla hlaðna túngarða sáum við allt í einu hreyfingu milli steinanna. Fyrst sýndist þar vera köttur á ferð en svo sáum við hvers kyns var. Þarna var yrðlingur, og rétt á eftir sáum við annan. Þarna hlaut að vera greni nærri, þó ekki sæjum við tófuna sjálfa. Annar yrðlingurinn lét sig hvefa milli steina þegar við nálguðumst með myndavélina en hinn lá sem fastast, jafnforvitinn um okkur og við um hann. Hann sést vel á myndinni hér að neðan, þar sem hann liggur á maganum og horfir í átt til okkar. Hann er móbrúnn að lit og liggur í hægri jaðri grasbrúsksins í miðri mynd.Eftir að hafa fylgst með yrðlingnum góða stund og reynt að ná "sambandi" við hann án árangurs snerum við frá og gengum að rústum Nýjubúðar. Þarna hefur staðið hið reisulegasta steinhús en særokið, frostið og stormurinn vinna sitt verk - þegar ég kom þarna fyrir meira en áratug stóð mun meira uppi af húsinu en nú, og það sem enn stendur, stendur tæpt......Þarna á veggjum Nýjubúðar má sjá síðustu sólargeisla kvöldsins, nokkrum mínútum síðar voru ljósin slökkt. Við gengum til bílsins í hratt kólnandi vindgjólu og ókum rakleitt á Hellissand.Á Hellissandi er eins og áður segir, nýtt tjaldsvæði, snyrtilegt og vel búið. Þar settum við okkur niður enda svæðið hluti af neti Útilegukortsins okkar. Enn einum frábærum ferðadegi var að ljúka og að morgni tæki annar við.

.......en hann bíður þriðja og síðasta hluta......

15.08.2013 20:57

Snæfellsnes - enn einu sinni!

Líklega fyrsti hluti af þremur!Í myndaalbúmi ferðarinnar stendur dagsetningin 23. júlí. Það var þriðjudagur og það var andskotans vindbelgingur þennan dag. Spáin var samt ágæt fyrir þá allra næstu og þess vegna var lagt af stað úr bænum með óljósa ferðaáætlun. Hugmyndin var þó að aka fyrir Snæfellsnes, nokkuð sem ég hef reynt að gera á hverju sumri síðan ég flutti suður haustið ´99 og stundum oftar en einu sinni sama sumarið. Ég fæ nefnilega aldrei leið á Nesinu, finn stöðugt eitthvað nýtt að skoða og ef ekki þá skoða ég bara það gamla aftur og aftur. Ég vissi að Elínu langaði líka upp á Nes þótt hún væri nýkomin úr Eyjum og bauð henni því bara að slást í förina - Bassi hafði aðspurður heldur ekkert á móti því. Við vorum því enn einu sinni svona næstum eins og alvöru fjölskylda.......

Það var talsvert liðið á þennan nefnda þriðjudag þegar lagt var af stað úr Höfðaborg. Ljósaskiltið á Esjumelum sem sýnir hita og vindstyrk á Kjalarnesi og undir Hafnarfjalli lýsti rauðu á hviðutölunum. Á Kjalarnesinu voru þær 23 mtr og undir Hafnarfjalli 25 mtr. Umferð var töluverð en fjöldi draghýsa aftur á móti hverfandi. Sjúkrabíllinn er þungur og fann ekkert fyrir hviðunum á Kjalarnesinu. Hann fann hins vegar fyrir einhverjum dratthölum sem þeyst höfðu framúr á flatlendinu en siluðust svo upp úr Hvalfjarðargöngunum norðanverðum og töfðu för heiðarlegs fólks á nærri þrjúhundruð dísilhestafla sjúkrabíl. Þessir sömu dratthalar voru því rassskelltir á uppleiðinni svo um munaði og eru þar með úr sögunni.

Olíssjoppan í Borgarnesi selur djúpsteiktan plokkfisk eins og oft hefur komið fram áður. Hún er eiginlega orðin fastur áningarstaður þegar leiðin liggur um Borgarnes nærri matmálstíma og svo var einmitt nú. Olíssjoppan er með lítinn sal á efri hæð, nokkurs konar vel varðveitt leyndarmál, ef marka má þá staðreynd að við veljum jafnan að sitja þar uppi og eigum salinn yfirleitt ein. Þar sátum við líka nú með okkar plokkfisk og spáðum í spilin. Hítardalur var nefnilega á ferðaáætluninni en það var hins vegar orðið of áliðið kvölds til að fara þangað frameftir nú, auk þess sem ekki var lengur auglýst tjaldsvæði þar. Þetta tjaldsvæði hafði áður verið inni á Útilegukortinu og Hítarvatnið á Veiðikortinu, en hvorugt var að finna þetta árið. Mig grunaði að vatnið hefði verið leigt veiðifélagi syðra og tjaldsvæðið hefði líklega verið látið fylgja í pakkanum. Hafandi enga vissu fyrir næturaðstöðu auk þess sem vindbelgingurinn gerði Mýrarnar ekki aðlaðandi var Hítardalurinn flautaður af í bili og förin ákveðin beint að Laugagerðisskóla, sem í sumar heitir Hótel Eldborg. Rétt ofan við Borgarnes ókum við inn í blindþoku sem stöðugt þéttist eftir því sem ofar dró. Við Barnaborgir var hún svo þétt að ég var sannfærður um að útlendingarnir á bílaleigujarisunum sem stöðugt skutust fram úr okkur vel á öðru hundraðinu hlytu að hafa komið til Íslands í sjálfsmorðstilgangi - eða í drápshug! Ofan við Kaldármela ókum við svo út úr þokunni eins og hendi væri veifað og það var sólarglampi á Laugagerðisskóla þegar við ókum þar í hlað um hálfellefuleytið. Fundum okkur náttstað, veifuðum útilegukortinu og nokkrum augnablikum síðar var þriðjudagurinn tuttugastiogþriðji genginn inn í eilífðina og við tvö gengin inn í land draumanna meðan rokið vaggaði sjúkrabílnum mjúklega en hristi og skók pappaílátin sem sumir kalla húsbíla og hjólhýsi annarsstaðar á svæðinu.

Upp rann miðvikudagur, sólbjartur og lofaði góðu. Klukkan rúmlega átta vorum við mætt í morgunkaffi inn á hótel og tveimur bollum síðar vorum við komin ofan í heita pott sundlaugarinnar, í félagsskap útlendrar konu sem var ótalandi á öll guðiþóknanleg tungumál og innlendra hjóna sem höfðu marga fjöruna sopið á Patróljeppa með Alæner.

Svo lögðum við af stað út Nes, og útsýnið til jökulsins var nokkurn veginn svona:Á vegskilti nærri Staðastað stendur "Ölkelda". Eftir kortum og bæklingum að dæma var þarna um merkilegan stað að ræða. Við beygðum af leið og reyndum að finna ölkelduna án árangurs. Við fundum borholu sem steypt hafði verið utanum og settur í krani, ekki gat það verið þessi merkilega ölkelda. Frá nálægu bílastæði lá troðinn stígur í grasi að þessarri uppsteyptu borholu og á bílastæðinu sjálfu var ógreinilegt upplýsingaskilti um kelduna. Ekki varð þó komist nærru um hvar hana væri að finna svo við snerum frá og ókum langleiðina heim að Slitvindastöðum. Við heimtröðina eru skilti þar sem frábeðinn er allur átroðningur og nær var því ekki farið. Kannski hafa landráðendur á eyðibýlinu og vegarendanum Slitvindastöðum verið þjakaðir af endalausum ferðamannastraumi og séð sig tilneydda til að banna óviðkomandi umferð um einkaland - veit það ekki. Kannski vilja þeir bara fá frið með fé sitt, bæði laust og lifandi.......

Oft hef ég ekið þessa leið og í hvert sinn lofað sjálfum mér að renna "næst" heim að Staðastað og skoða kirkjuna þar. Ég viðraði þennan áhuga við hana Elínu sem ákvað um leið að nú væri upp runnið þetta "næst".Kirkjan er veglegasta hús og vel við haldið, þó mátti sjá talsvert á nýlegri utanhússklæðningu sem virtist annars vera Steni-krossviðarplötur.Áfram héldum við og næsti viðkomustaður var Arnarstapi. Þar áðum við hjá ferðaþjónustunni Snjófelli, keyptum okkur kaffi og slökuðum á litla stund. Svo dró ég Elínu niður að einum af þessum sérstöku stöðum sem fáum virðast þykja merkilegir nema mér. Þarna er safnþró Vikurfélagsins sáluga, og í henni er enn talsvert af vikrinum sem fleytt var með vatni ofan úr brúnum Snæfellsjökuls fyrir áratugum. Vikurinn er ljósleitur og fisléttur, og hún Elín Huld fílaði það í botn að láta ljósa molana renna um greipar sér líkt og gull.Frá safnþrónni var vikrinum fleytt í vatnsleiðslum um borð í flutningaskip sem sigldu með hann til Reykjavíkur. Þau flutningaskip voru, þó ekki væru kannski öll stór, eitthvað stærri en þessi trefjaplastbolli sem lá upp við nálægan húsvegg og er einungis fléttaður hér inn í frásögnina af því ég er hrifinn af litlum plasttrillum:
Svo þurfti ég auðvitað að gægjast niður í fjöruna til að athuga hvort ekki sæjust einhver ummerki um flutningsleiðina frá safnþrónni út í skipin - einhverjar leifar af búnaði eða eitthvað - bara eitthvað.......

Það var annars hægt að láta heillast af umhverfinu í svona veðri. Þarna innan við höfnina og með klettaströndinni er hreint ótrúlega fallegt - hrein paradís.Svo klöngruðumst við niður fyrir safnþróna og fram á klappirnar ofan fjörunnar. Þarna voru alls konar myndanir í stuðlabergið, hellar, göt og skápar. Elín stillti sér upp fyrir myndatöku því ég hafði komið auga á stálhring í stuðlabergsklöpp niðri í fjörunni og sveif þangað niður með myndavélina.

Þarna má sjá steypt stykki sem vikurleiðslurnar hafa legið í gegnum, kannski hefur þetta verið endastöð röranna og tenging við gúmmíslöngurnar sem lágu út í skipin hefur verið þarna. Mér finnst það líklegt því tengingin hlýtur að hafa verið ofan fjöruborðs og varla hafa járnrörin legið út í ruggandi bátana. Þarna í stuðlabergsklöppinni á miðri mynd er járnhringurinn sem ég var búinn að koma auga á, ryðgaður og sést greinilega. Ég rétti Elínu myndavélina og bað hana að mynda mig við hringinn. Klifraði svo niður að honum og Elín færði sig einnig neðar. Ég beygði mig niður, tók í hringinn báðum höndum og rétti mig upp nákvæmlega á því augnabliki sem steinn valt undan Elínu og ég horfði á hana hrynja niður í stórgrýtið við hægra horn steypustykkisins. Ég sá myndavélina fljúga og ég heyrði höggið þegar Elín sló höfðinu utan í einn af stærstu steinunum. Það var hroðalegt hljóð....Neðan frá klöppinni sá ég hana hreyfa annan handlegginn. Dynkurinn sat í eyrunum á mér og mér fannst eins og þetta hlytu að vera síðustu hreyfingarnar - síðan myndi hún bara liggja kyrr og ekki standa upp aftur! Ég stökk upp að henni og þá fór hún að reyna að standa upp. Ég bjóst hreinlega ekki við öðru en hún væri stórslösuð eftir svona höfuðhögg en hún gat sest upp og virtist óbrotin. Ég skoðaði höfuðið og fyrir einhverja mildi virtist allt hafa hjálpast að: Steinninn var sæbarinn og eggsléttur á þeirri hlið sem höfuðið lenti á, höggið hafði komið ofan og aftan við hægra eyrað og mesti áverkinn á þeim stað var sár eftir gleraugnaspöngina ásamt risakúlu sem fór stækkandi. Ég studdi Elínu upp klappirnar, hún var talsvert vönkuð og reikul en stóð þó sæmilega. Uppi í bíl var ágætis sjúkrakassi, hann var dreginn fram og búið um hrufl á fæti, hendi, olnboga og öxl. Sárið á höfðinu var hreinsað og sem betur fer blæddi lítið úr því en kúlan var svakaleg og eymslin fóru vaxandi. Það var alveg dagsljóst að þarna hafði einhver haldið verndarhendi yfir henni Elínu svo um munaði því af minna tilefni hafa orðið stórslys og þarna hafði aðeins skeikað hársbreidd ....

Það var ekki alveg sama fjörið í andlitinu þegar búið var að "doktora" og sjúklingurinn var staðinn upp úr stólnum:(Ég má eiginlega til að nefna, svona í ljósi núverandi aðstæðna að þessi ágæti sjúkrakassi sem nefndur var og kom þarna í góðar þarfir, er stór og mikill og kyrfilega merktur Mercedes Benz. Hann er kominn vel til ára sinna, ættaður úr gömlum bláum sendibíl sem Póllinn hf. á Ísafirði átti og varð síðar húsbíll í eigu Bjössa í Bílatanga. Þegar ævi húsbílsins lauk eiganðist ég leifar hans og eitt af því sem ég tók til handargagns var þessi forláta original Benz-sjúkrakassi. Ég lít svo á kaupverð húsbílsflaksins hafi skilað sér til baka í einni greiðslu þegar ég sótti kassann undir sæti sjúkrabílsins í þetta sinn og doktoraði Elínu með innihaldinu)

Svo var það myndavélin. Hún hafði flogið út í grjótið þegar Elín datt og þar fann ég hana milli steina. Hún virtist hafa fengið mýkri lendingu og var að sjá  óbrotin en linsan var skökk og vildi ekki virka. Með smámöndli virtist linsan smella í skorður og eftir að rafhlöðurnar höfðu verið teknar úr og settar í aftur, semsagt "rísettað" eins og það heitir víst, fór vélin í gang og það var hægt að ímynda sér að sá -eða sú - sem hafði haldið verndarhendi yfir Elínu hefði einnig gætt myndavélarinnar. Það gat varla bent til annars en að ætlast væri til að við héldum áfram að taka myndir eins og ekkert væri.Eftir stutta hvíld á Arnarstapa var Elín búin að jafna sig nægilega til að vilja halda förinni áfram. Við ókum því áleiðis upp á Jökulháls með viðkomu í gömlu vikurvinnslunni í hvömmunum neðan við Sönghelli. Eftir stutta gönguferð um Efri - og Neðrihvamm var haldið upp að Sönghelli og farið inn í hann. Við vorum með gott ljós og gátum áttað okkur þokkalega á umfangi hellisins. Hann er ekki stór að flatarmáli en töluvert hár til lofts og hljómburðurinn er ótrúlegur.Ekki mynduðum við í Sönghelli sjálfum en ofan hans eru aðrir smærri og opnari. Þessi afar listræna mynd er tekin af Elínu Huld út um hellisopið:Við fetuðum okkur upp hálsinn og er upp kom var talsvert af fólki að njóta útsýnis og veðurblíðu. Hvíti bíllinn sem stendur vinstra megin við sjúkrabílinn (á myndinni) er nýr Peugeot, trúlega bílaleigubíll. Hann kom norðan frá og þegar ökumaðurinn beygði inn á bílastæðið barði hann bílnum niður á grjót svo söng í. Bíllinn var þunglestaður og hefði varla farið klakklaust yfir venjulega hraðahindrun. Samt var hann kominn upp á Jökulháls! Mikið óskaplega held ég sá verði heppinn sem næst eignast þennan bíl......Við bjuggum okkur til göngu, með kex og drykkjarföng í bakpoka. lögðum svo á vikurkúlurnar, því mig langaði að sýna Elínu leifarnar af skála Ferðafélagsins þarna uppi undir jökulrótum. Ég skoðaði þessar skálaleifar sumarið 2011 og það má sjá afraksturinn HÉR

Þetta er ekki tiltakanlega löng ganga né brött, en í svona veðri getur hún tekið sinn tíma því stöðugt er verið að stöðva til að virða fyrir sér stórkostlegt útsýnið. Hér að neðan er horft til austurs, í átt inn nesið yfir nær endalausar vikurbreiður:....og hér til suðurs og það er Stapafell ofan Arnarstapa sem beinir fingri til himins á miðri mynd. Til hægri við Stapafell sést niður að Hellnum:Þarna uppi í vikurbingjunum voru talsverðar fannir, því sumarið hefur kannski ekki verið það allra heitasta og svo er þarna hver gígurinn af öðrum og skuggamegin í þeim bráðnar seinna en ella. Þessi skafl var svo harður að vart markaði för og konan sem svo stuttu áður hafði snúið á dauðann niðri við Arnarstapa varð eins og barn við að komast í snertingu við snjóinn - svo gaman fannst henni að ég fór að hafa af því áhyggjur að höfuðhöggið hefði kannski haft afleiðingar eftir allt saman.....


Svo birtist hún uppi á einni vikuröxlinni með staf í hendi, líkt og förukerlingar fyrri tíma.Hún virtist samt ágætlega gangfær og almennt séð ekki meira rugl á henni en vanalega, svo ég lét þessar áhyggjur lönd og leið. Augnablikum síðar vorum við komin upp að skálarústunum og allar aðrar vangaveltur látnar lönd og leið. Toppur Snæfellsjökuls var skafheiður:Bakpokinn var opnaðaur og nestið tekið upp. Í baksýn er inn - nesið, Breiðavík og Búðahraun.Ég veit það sést illa á myndinni, en rétt hægra megin og neðan við hábungur jökulsins er slóð. Í henni er lítill, svartur depill. Þar er á ferðinni snjóbíll sem ók með farþega frá endastöð rétt norðan há - hálsins og upp á jökultoppinn. Hraðinn var lítill en vissulega hafa þeir -væntanlega útlendingar - sem keyptu slíka ferð upplifað ævintýri lífs síns...Við gengum aðra leið niður af hólunum í átt til bílsins og rákumst á þetta mælitæki eitt í auðninni:Fram kom á miðanum að um væri að ræða einhvers konar landmælingaapparat á vegum Háskóla Íslands. Við gerðum eins og beðið var um, tókum á okkur góðan sveig og töluðum saman í lágum hljóðum til að trufla ekki. Það styttist til bílsins og von bráðar vorum við komin niður.Læt þetta duga að sinni. Líklega verður pistillinn í þremur hlutum eins og fram kemur í fyrstu línu.

10.08.2013 08:36

Til Eyja - síðari hluti.

Síðasta pistli lauk í hálfgerðum "blús" við gæludýragrafreitinn á Heimaey. Mér fannst, svona eftir á að ég hefði kannski átt að nefna hann Mola minn, sem var jú sárt saknað og er stundum enn. Ég ákvað því að birta aðra mynd úr safni af þeim félögum báðum. Myndin er tekin á góðri stund, þar sem hvorugur stríðir hinum, en þess háttar var nær daglegt brauð. Þetta voru falleg dýr og vel gerð. Nóg um það:.....og þá aftur til Eyja. 

Af öxlinni austanundir Helgafellinu er ákaflega víðsýnt, ekki síst í blíðviðrinu þennan þriðjudag. Við mynduðum í suðaustur, yfir Stakkabót og Stakkana sem þar standa upp úr sjónum. Líklega brýtur einhvern tíma meira á þeim en í þetta sinn. Þarna, ofan við Stakkabótina hægra megin er austurendi annarrar flugbrautarinnar, aðeins örskammt frá brúninni:Lítil flugvél flaug lágflug yfir höfðum okkar, svona eins og flugmaðurinn væri í einhvers konar ferðamannaeftirliti. Ekki var það þó, líklega hefur hann aðeins verið að njóta útsýnis og veðurblíðu....Við héldum til baka niður í bæ og komum við hjá vatnstanknum gamla, sem hraunið braut. Ofan við (bakvið) tankinn stóð sundlaug Eyjamanna um árabil en af henni sést ekkert.Það var dálítið merkilegt hversu fáir ferðamenn voru á rölti um Skansinn, því það virtist vera talsvert af þeim í bænum. Þarna var bókstaflega ekki hræða, og hreinlætisaðstaða á bílaplani rétt við vatnstankinn var lokuð og læst. Við stafkirkjuna norsku var engan að sjá....Við ókum niður í bæ og lögðum bílnum. Gengum þaðan upp á hraunjaðarinn þar sem hann gnæfir yfir þeim húsum sem næst standa. Uppi á hrauninu eru stígar, merktir nöfnum þeirra gatna er undir liggja. Þarna undir er Heimatorg:Það var dálítið skrýtin tilhugsun að skoða skiltin þarna uppi og átta sig á að það voru heilir sextán metrar niður á húsin sem stóðu þarna. Sextan metrar, og aðeins örstuttu neðar var hraunjaðarinn og heil hús sem enn var búið í. Ótrúlegt hvað þykkfljótandi hraunið gat hrúgast upp í skarpan jaðar. Þarna uppi hafði svo ýmisskonar gróður tekið sér bólfestu og græni liturinn sást allsstaðar milli hrauntoppanna....Í þessum hvammi framan í hraunjaðrinum stóð lengi framhlið með glugga úr stofu húss sem hraunið kurlaði. Þegar við vorum í Eyjum vorið 2000 stóð  framhliðin að mestu eins og hún var þegar gosi lauk. Nú, þrettán árum síðar var hún hrunin og aðeins brak eftir. Hins vegar var komið mjög gott upplýsingaskilti um rústina og húsið, eins og það leit út fyrir gos. Neðri myndin er ein af þeim þekktari frá gosinu og hefur birst í ótal bókum og ferðabæklingum. Þá efri hafði ég aldrei séð áður og hafði  á tilfinningunni þegar ég skoðaði rústina árið 2000 og allar götur síðan, að rústin væri af einhvers konar þakkvisti með svölum. Nú var hægt hægt að átta sig mun betur:Það leið að kvöldi og þegar hungrið tók að sverfa að eftir langan og viðburðaríkan dag fengum við símaleiðsögn frá vini á fastalandinu til ágætis veitingastaðar í bænum. Sumum kemur spánskt fyrir sjónir að Akureyringar skuli fá sér kók og pylsu með rauðkáli. Þeir sömu ættu þá að bregða sér til Eyja og prófa pizzu með muldu "böggles" yfir! Við gerðum það og getum bæði borið um að stundum er einu sinni alveg nóg........

Eftir matinn og stuttan göngutúr í bæinn var komið að nokkurskonar "ríjúníon" hjá Elínu við nokkrar skólasystur frá Varmalandi "nokkrum" árum fyrr. Við Edilon B. Breiðfjörð Thorsteinsson Budenhoff héldum áfram rannsóknarleiðangri um bæinn og skoðuðum m.a. gömul og ný mannvirki á Eiðinu. Þar stendur uppi vélbáturinn og safngripurinn Blátindur, sem áhugahópur snyrti og lagfærði fyrir nokkrum árum. Í slíkum verkum dugar þó áhuginn einn skammt því ekkert er ókeypis. Mér skilst að opinberir aðilar í Eyjum hafi átt að taka við merkinu en lítið eða ekkert orðið úr. Fyrir stuttu las ég þó frétt þar sem talað var um að bærinn myndi sjá um varðveislu Blátinds ásamt gamla hafnsögubátnum Létti, sem er annar gullmoli þeirra Eyjamanna. Ég myndaði ekki Blátind vegna þess að það hefði aðeins orðið hryggðarmynd, en læt nægja að tengja yfir á fróðleiksstubb um hann HÉR og HÉR

Það kvöldaði, við Bassi vorum orðnir syfjaðir og fluttum okkur upp á tjaldsvæðið við Þórsheimilið, á sama stað og nóttina áður. Elín Huld mætti svo einhvern tíma seinna - allavega var hún á sínum stað morguninn eftir.......

....sem var miðvikudagurinn 17.júlí og það var þokuslæðingur allan hringinn!


Nú lá leiðin inn í Herjólfsdal og skyldi gengið um svæðið. Þar var þjóðhátíðarundirbúningur í fullum gangi og upp um allar hlíðar voru unglingar með bensínorf að snyrta og laga. Af þessu hlaust talsverður hávaði en ekki þó til ama. Um sama leyti og við reimuðum á okkur skóna komu  a.m.k. þrjár misstórar rútur fullar af ferðamönnum sem dreifðu sér um dalinn. Líklega var þar komin skýringin á fólksfæðinni við Skansinn, þann merkilega sögustað: Ferðamennirnir sem við höfðum séð í bænum voru líklega í einum, stórum hópi sem handstýrt var milli sögustaða með leiðsögn. Það rétt náðist að kíkja á bæ Herjólfs að utan. Augnabliki eftir myndatökuna fylltist hann af útlendum túristum. Eftir það var ekki öðrum fært inn. Bærinn virðist hins vegar vera hinn merkilegasti, vel byggður og vandaður. Skemmtilegt framtak og ekki síðra að hafa upplýsingaspjaldið við hann. Þessi upplýsingaskilti, séu þau vel hirt, eru sannkallað gulls ígildi fyrir fróðleiksfúsa og sem betur fer fer þeim fjölgandi. 

Um þenna hrygg liggur gönguleið yfir í Stafnsnesvík, hafi ég tekið rétt eftir. Stafnsnesvík er, eins og nafnið bendir til, dálítil vík sem skerst inn í Dalsfjallið suðvestanvert og er mörkuð af því og Stafnsnesi, mjóum klettarana sem um leið er útvörður Dalsfjalls til suðvesturs. Fyrir botni víkurinnar er malarfjara og ef marka má sögumanninn sem ég hlustaði á í fyrrasumar var Stafnsnesvík áður fyrr - og er kannski enn - vinsæll griðastaður þjóðhátíðargesta sem leituðu friðar til einkaathafna. Kannski hafa þjóðhátíðargestir fyrri ára verið betur gangfærir en nú gerist, því leiðin er sannarlega ekki auðfarin. Við höfðum reimað á okkur gönguskóna til að ganga þarna yfir en þoka og mistur sem smám saman lagðist yfir er leið á daginn drógu úr áhuganum og við létum ófarið að sinni.Þessi kona var að gefa öndunum á "þjóðhátíðartjörninni" brauð. Ég gat ekki betur heyrt en hún rabbaði við þær á íslensku. Það voru engir mávar sjáanlegir þarna, ég fann skýringuna síðar.Séð svona aftaná er nýja þjóðhátíðarsviðið bara myndarlegasta mannvirki. Ég hleraði á tjaldsvæðinu að íþróttafélagið (væntanlega þá ÍBV) hefði byggt húsið og ætti það en kostnaðurinn í milljónum myndi líklega enda í þriggja stafa tölu. Hitt skildist mér líka, að þörfin fyrir nýtt svið hefði sannarlega verið til staðar. Það er þá vonandi að komandi þjóðhátíðir skili einhverju í kassann. Um að gera að gera hlutina myndarlega ef ráðist er í þá á annað borð. Það vantar enn talsvert á að byggingin teljist fullgerð og kannski er það stefna þeirra sem ráða að sníða sér stakk eftir vexti og vinna eftir efnum. Þetta verður eflaust hin glæsilegasta bygging er lýkur:Er þetta ekki Fjósaklettur þarna vinstra megin á myndinni? Allavega var búið að hlaða myndarlegan bálköst úr vörubrettum upp á klettinn. Um allan dal var fólk að vinna við undirbúning.Við gengum með jaðri golfvallarins út að Kaplagjótu. Í grámóskunni mátti sjá eyjar í fjarska, trúlega eru þetta Álsey t.h. og síðan Brandur, Hellisey og Suðurey:Það ar gaman að virða fyrir sér bergið í Kaplagjótu. Þrátt fyrir að vera sorfið og nagað af sjó og vindi var það alsett grænum toppum enda liggur það vel við sól og fuglinn skilur eftir sig fínan áburð...Þó var ekki mikið af fugli þarna núna og við sáum aðeins þetta eina lundapar. Í þessum gróðurtoppum voru líka auðséðar lundaholur. Trúlega hafa þær samt ekki verið mjög djúpar!Þegar við komum aftur í bæinn tókst mér að suða út ís. Ef grannt er skoðað má sjá á andlitinu á mér hversu langþráður hann var:Næsti viðkomustaður var náttúrugripasafnið að Sæheimum. Þar tók hann Tóti á móti okkur:Tóti heitir reyndar fullu nafni Þórarinn Ingi, og hafi ég tekið rétt eftir fékk hann nafnið að gjöf í tilefni þess að sama dag og safninu barst hann að gjöf sem ungi háðu Eyjamenn knattspyrnuleik. Í honum skoraði Þórarinn Ingi Valdimarsson Eyjamaður sigurmark og því þótti liggja beinast við að skíra ungann í höfuðið á hetjunni. Tóti lundi er klárlega ekki síðri hetja þó á öðru sviði sé, því ef marka má viðbrögð erlendra safngesta  er vandfundin öflugri PR-fulltrúi:Kíkið á ÞETTASvo lauk safnskoðun og Tóti var kvaddur. Við gengum um götur í "gamla" bænum upp af höfninni og kíktum m.a. á þessi litríku hús. Þær gerast varla flottari, verbúðirnar:Úti fyrir íbúðarhúsi sátu þessi heiðurshjón í sólstólum og biðu - líklega sólarinnar. Eða kannski komandi þjóðhátíðar?Við lötruðum áfram ofan hafnarinnar í áttina að Spröngunni. Þarna er bláa höndin allsráðandi, þetta eru byggingar Ísfélags Vestmannaeyja:Það hefði ekki verið leiðinlegt að ganga upp á Klifið í betra skyggni. Mér fannst það varla fyrirhafnarinnar virði í ekki betra skyggni. Ég á samt klárlega eftir að ganga þarna upp einhvern tíma því útsýnið er eflaust magnað. Þegar við komum út að Spröngunni sáum við skýringuna á því hvers vegna endurnar á tjörninni í Herjólfsdal sátu einar að brauðinu. Þarna voru nefnilega nær allir mávar Vestmannaeyja samankomnir á þingi, og þeir sem ekki voru þarna í berginu voru kafuppteknir yfir frárennsli frá einhverri vinnslustöðinni sem litaði sjóinn við vesturhorn Eiðisins milli Heimakletts og Klifsins. Hávaðinn á þessum tveimur stöðum var hreint yfirþyrmandi!Í Spröngunni voru nokkrir krakkar að spreyta sig. Þessi dama var áberandi fimust og fór margar sveiflur án þess að fipast hið minnsta. Það dró heldur ekkert úr henni þegar full rúta af túristum stoppaði rétt neðan við:

Það var farið að líða á daginn og farið að nálgast brottför Herjólfs. Við höfðum ekki verið svo forsjál að panta ferðina til lands með fyrirvara og lentum því á biðlista tvær síðustu ferðir dagsins. Veðurspá morgundagsins, fimmtudagsins var slæm og jafnvel gat svo farið að sigling félli niður. Að auki var upppantað í allar ferðir þann dag líka svo okkur var ekki til setunnar boðið að mæta á biðbekkinn í afgreiðslu Herjólfs. Við vorum númer fimm á biðlista í þessar tvær síðustu ferðir miðvikudagsins og eftir talsverðar vangaveltur höfðum við ákveðið sem síðasta úrræði að skilja bílinn eftir hjá fólki í Eyjum og fara sjálf á fæti yfir sundið. Við vorum búin að gera ráðstafanir til að verða sótt í Landeyjahöfn og í raun búin að sætta okkur svo við orðinn hlut (og hálfpartinn farin að vonast til að bíllinn kæmist ekki með svo við gætum átt hann lengur úti í Eyjum sem tilefni til annarrar heimsóknar) að þegar allir voru komnir um borð í Herjólf, bæði fólk og farartæki, urðum við hálffúl yfir að því ágæta starfsfólki skyldi að endingu takast að finna smugu fyrir sjúkrabílinn - við vorum hreinlega ekki tilbúin til að fara heim strax!

Þessvegna var ákveðið að áður en sumarið væri úti skyldu Vestmannaeyjar heimsóttar á ný!
08.08.2013 08:21

Til Eyja - loksins!Fyrst af öllu: Hún Áróra mín á afmæli í dag, áttunda ágúst og er orðin tuttuguogþriggja ára! Hún er alltaf sama fiðrildið, sífellt að koma og fara, stoppar stutt en ef ég verð heppinn næ ég að óska henni til hamingju augliti til auglitis. 

(ég veit ekkert hver tók myndina, fann hana á netinu. Hún er bara svo flott að ég ákvað að nota hana hér og vona að mér fyrirgefist...)

Þá til Eyja:

Þeir voru ekki margir góðviðrisdagarnir framan af sumri, eins og flestir vita. Þegar komið var fram í júlí án þess að viðraði til ferðalaga var risið orðið lágt á mínum manni. Það eina sem kannski hjálpaði upp á sálarlífið var vinnan við að útbúa sjúkrabílinn sem ferðabíl, það var þó alltaf hægt að láta sig dreyma. Svo gáfust tveir dagar til ferðarinnar austur að Dverghömrum og Fjaðrárgljúfri, ferðar sem lukkaðist svo vel að ein og sér hefði hún "borgað" sumarið".

Næst skyldu Vestmannaeyjar heimsóttar. Ég kom ásamt fjölskyldunni  fyrst til Eyja í maí árið 2000, þá nýbúinn að kaupa Járntjaldið, fyrsta ferðabílinn. Við tókum langa helgi, sigldum frá Þorlákshöfn á föstudegi og til baka á mánudegi. Þetta var Júróvisjónhelgin, þegar Einar og Telma sungu og Olsenbræður unnu. Meðan atkvæði voru talin í Júró gengum við Bergrós Halla, þá á fimmta ári, út í bæ og Rósin söng hástöfum nýlærð Júrólög með þvílíkum krafti að fólk í nærliggjandi húsum kom út á svalir og gladdist með.

Síðan liðu mörg ár og það var ekki fyrr en haustið 2010 sem ég átti næst leið út til Eyja. Sú dvöl var stutt og ég skrifaði um hana HÉR

Svo rakst ég til Eyja í fyrrasumar á svarta ferðadrekanum. Sú ferð var útúrdúr úr öðru ferðalagi, dvölin var aðeins sólarhringur  og áður en ég áttaði mig var ég kominn í land aftur.

Þann tíunda júli sl. var norska veðursíðan yr.no farin að lofa blíðskaparveðri í Vestmannaeyjum næstu viku á eftir. Sú spá virtist sæmilega traust svo drifið var í að panta far með Herjólfi fyrir sjúkrabílinn og tvo fullorðna síðla mánudags þann 15.  Þegar nær dró svo mánudegi voru farnar að renna tvær grímur á Norðmennina. Þeir breyttu spánni í sífellu, úr glaða sólskini í ausandi rigningu og allt þar á milli. Það eina sem þeir voru nokkuð vissir um var vindurinn - hann yrði ekki til trafala. Ég hafði boðið Elínu Huld með mér í þessa ferð og það var á hennar könnu að ákveða hvort farið yrði afpantað eða ekki. Þegar sólarhringur var til brottfarar hljóðaði spáin uppá þoku og rigningu svo ferðapöntunin var afturkölluð og endurgreidd. Áfram var þó vakað yfir hverri breytingu og þegar mánudagurinn rann upp bara nokkuð þokkalegur breyttist norska spáin líka til batnaðar. Um kl. 18 hringdum við í Herjólf og fengum loforð um far til Eyja með brottför kl. 22. Sjúkrabíllinn var ferðbúinn, kl. 19 vorum við lögð af stað austur í Landeyjahöfn og komum þangað rétt uppúr 21 eftir samlokustopp á Hvolsvelli. 

Þeir voru assgoti dökkir, kólgubakkarnir allan hringinn þarna fyrir austan. Samt var þokkalegt í sjó, vindlítið eins og spáð hafði verið og það var þurrt - sem skipti jú ekki minnstu máli. Herjólfur kom, losaði, lestaði og lagði af stað út aftur á tilsettum tíma. Önnur samloka var étin um borð, siglingin er aðeins hálftími og ég kyngdi síðasta bitanum rétt í tíma til að hlaupa út á dekk og benda Elínu á Elliðaey, Bjarnarey, Urðavitann og Faxasker, ásamt því að buna úr mér úrdrætti úr frásögn af Helgaslysinu við Faxasker. Við stóðum við borðstokkinn og nær strukum klettana þegar skipið sigldi inn Leiðina. Það var rigningarúði í Eyjum og hálfgert þokumistur, svo eftir landtöku lá leiðin beint upp á tjaldsvæðið við Þórsheimilið. Það lá fyrir að koma sér beint í háttinn og taka morguninn snemma því þrátt fyrir dumbunginn héldum við dauðahaldi í veðurspá morgundagins - sólarspána.Jújú, hún stóðst alveg, þessi spá og enginn gat kvartað yfir þriðjudagsmorgninum 16. júlí. Eftir morgunkaffi hjá Bergi bakara, sem dvaldi m.a. á Ísafirði um hríð eftir gos, var haldið út á nýja hraun og í Gaujulund. Gaujulundur var eitt af því sem við skoðuðum vorið 2000 og var þá ljómandi fallegur. Síðan er langt um liðið, gömlu hjónin sem byggðu lundinn og héldu honum við eru horfin  og aðrir hafa tekið við. Heldur fannst okkur Gaujulundur hafa sett niður .......EH fann þess furðuskepnu í hrauninu og vildi láta mynda sig með henni. Ferfætta furðuskepnan Edilon Bassi átti að vera með á myndinni en var upptekinn við annað...Ofan við Skansinn er útskot sem tilvalið er til að breyta í útikaffihús. Þarna var ferfætlingurinn í essinu sínu, þar er gott að vera sem von er um bita:Svo þreyttist hann á að sitja til borðs og vildi heldur standa:Meðan við Bassi átum okkur sadda myndaði Elín yfir Skansinn og Leiðina, myndirnar sýna öðrum betur veðrið um morguninn:

Eftir veisluna þarna á útsýnispallinum héldum við aftur austur á nýja hraun. Á brúninni austast er dálítið bílastæði og þessi bekkur fyrir göngulúna. Við vorum að hefja okkar vegferð og því ekki til setunnar boðið. Frá þessum stað lá vegur til suðurs niður í fjöruna að og framhjá efnisnámu sem verið var að vinna í. Þarna af brúninni er stórkostlegt útsýni frá norðri austur um til suðurs. Það er Bjarnarey sem þarna blasir við. Ég veit ekki hvort steinkarlinn á myndinni táknar eitthvað, kannski er þetta ekki einu sinni karl - en flottur er hann!Þegar "súmmað" var aðeins á Bjarnarey sást vel veiðihúsið í eynni. Það er viðbúið að þar hafi verið glatt á hjalla þá fimm daga sem veiða mátti lunda í ár:Við héldum aftur til bíls og ókum suður með hraunjaðrinum, framhjá efnisnámunni og suður að Urðavita. Þarna endar sá vegur sem akfær er en gönguleið er áfram suður með. Mér skilst að skammt sunnan við vitann hafi belgíski togarinn Pelagus strandað í janúar 1982. Miðað við hversu mikið sjórinn hefur brotið af hrauninu er líklegt að strandstaðurinn sé gerbreyttur frá þeim tíma. Hafi ég tekið rétt eftir er þessi Urðaviti sá þriðji frá goslokum, sjórinn hefur nagað svo hratt framan af hrauninu að fyrri vitastæði hafa horfið með öllu. Mér fannst reyndar þessi viti standa nokkuð nálægt brúninni, en líklega var hann öllu lengra frá þegar hann var byggður. Kannski á fyrir honum að liggja að hverfa líka?Við Edilon B. Breiðfjörð Thorsteinsson Budenhoff háðum kapphlaup upp steintröppur vitans. Mig minnir að hann hafi unnið, enda tekur hann tröppur yfirleitt á flugi. Eyjarnar eru Bjarnarey t.h. og Elliðaey t.v.Það var dálítið sérkennilegt að sjá gróður skjóta rótum þar sem nákvæmlega enginn jarðvegur sýndist vera. Þetta er það sem vísindamenn hafa veið að rannsaka í Surtsey um árabil og fengið væna styrki til. Þarna var gróðurinn við fætur okkar styrkjalaust og ekkert mál að rannsaka að vild. Fræ sem fjúka um fyrir veðri og vindum ferðast trúlega jafnt einn kílómetra sem tíu, og þar sem þau lenda skjóta þau rótum. Þarna er að sjá bara vikur og bruna. Samt vinnur græni liturinn á:

Ég þekki ekki til hlítar hvort þetta er melgresi. Ef svo er hefur því líklega verið sáð í grenndinni. Á mörgum stöðum mátti sjá að jarðvegi hafði verið ekið ofan á hraunið, líklega til að binda það. Á nokkrum stöðum hafði trúlega verið urðaður einhvers konar úrgangur og sáð í á eftir. Mér fannst hann harður af sér, þessi grastoppur og hann var alls ekki sá eini á svæðinu....Á þessum stað, þar sem ekkert var að sjá í fyrstu nema kolbrunnið hraun, var við nánari skoðun einn lítill grænn blettur efst til vinstri. Kannski nær hann að stækka, kannski fýkur hann burt og verður horfinn næst þegar mig rekur til Eyja. Ég lagði staðinn á minnið og er vís með að gá í næstu ferð:Við héldum til baka inn á hraun og ókum slóða í átt að Eldfelli. Við fundum þennan kross í Júróferðinni vorið 2000 og þótti merkilegt. Þá stóð hann í gufumekki og rauk allsstaðar úr jörðinni í kring. Nú hafði svæðið kólnað og skóbotnar soðnuðu ekki lengur á göngu upp Eldfell. Við hleyptum ferfætlingnum út og hann tók þegar strikið á brekkuna þar sem hún var bröttust. Þar með var tónninn gefinn og ég, sem hafði nýsigrað Helgafell í Eyrarsveit lagði á brattann í kjölfarið. Það andaði dálítið af norðaustri í hlíðunum, sem kom sér ákaflega vel því þrátt fyrir nýjustu sigra í fjallgöngum fór fljótlega að sjóða á katlinum. Loftkælingin var því vel þegin!Ég veit það sést ekki á myndinni - allavega ekki vel, en Bassi er þarna spölkorn á undan mér. Hann er, þrátt fyrir að vera orðinn tæplega átta ára, algerlega þindarlaus hlaupari. Með öllum útúrdúrum á uppleiðinni giska ég á að hann hafi hlaupið svona ferfalda leiðina, eða þar um bil. Það var slæðingur af fólki þarna uppi, og við sáum að það var frekar auðveld ganga frá flestum stöðum öðrum en þeim sem við höfðum valið - eða Bassi, öllu heldur. Við uppkomuna var hann settur í ól, enda ekki annað verjandi því hann leit þegar á fjallið sem sína eign og vildi merkja hvern stað nákvæmlega auk þess að gelta hástöfum á nærstadda.Elín bað um eina "pósumynd" með Heimaklett, Miðklett og Ystaklett í baksýn og fékk hana:....og svona var útsýnið yfir bæinn allt frá Hænu að Eiðinu. Alveg magnað, og einstök heppni að fá svona veður eftir þokusuddan kvöldið áður. Sjúkrabíllinn er svo eins og depill t.h. niðri við krossinn:Svo fékk ég líka hálfgerða pósumynd í miðri litadýrðinni með Elliðaey sem stuðning við öxlina:Svo lá leiðin niður. Sumir fóru auðvitað hraðar niður en aðrir (og þá á ég ekki við Bassa eða sjálfan mig) en uppskáru það eitt að stingast á hausinn í vikurinn. Allt slapp þó slysalaust og eftir stutt vökvunar- og vínarbrauðsstopp var haldið af stað að nýju og nú eftir vegi sem liggur ofan byggðar í vesturöxl Eldfells. Þar er þessi fallegi áningarstaður með upplýsingaskilti og einni af dælunum sem notaðar voru við hraunkælinguna frægu í gosinu árið 1973.Þessi vegur greindist í tvennt við norðurhlið Helgafells. Við völdum eystri leiðina, austur og suður með Helgafelli. Austan vegar er  minnismerki um Helliseyjarslysið og Guðlaugssundið: (ath. að undir "Myndaalbúm" hér í síðuhausnum má finna möppu með öllum birtum myndum og miklu fleiri. Þar má sjá neðanbirta mynd í fullri stærð og textinn á að vera þar vel læsilegur)Frá minnismerkinu liggur vegslóði niður á grasi gróna bakka ofan við suðurjaðar nýja hraunsins. Þar neðanundir, skammt frá hraunjaðrinum tók Guðlaugur land eftir sundið og átti þá ófarna langa landleið til byggða. Ofan við landtökustaðinn er þessi stuðlabergsdrangur sem einnig er minnismerki um sama atburð en það vakti athygli okkar að dálítið ósamræmi var milli upplýsinga á minnismerkjunum tveimur.Skammt frá stuðlabergssúlunni rákumst við á þennan litla grafreit. Þarna á þessum friðsæla stað var greinilegt að mörg gæludýr eyjamanna höfðu verið lögð til hinstu hvíldar. Á sumum krossunum var áletrun, öðrum engin.Hún Elín Huld staldraði lengur við þennan en aðra og þegar hún sneri frá sýndist mér hún strjúka úr öðru auganu. Þarna undir lá eyjakisa, ólin með merki hafði verið fest á krossinn:Ég er nokkuð viss um að hún EH hefur verið að hugsa um þennan höfðingja, sem stjórnaði heimasetrinu að Lyngbrekku um árabil. Hann var nefnilega aðal, hann var flottastur! Árin og yfirþyngdin fóru hins vegar illa með hann og hann var sendur inn á hinar eilífu músa- og fuglaveiðilendur vorið 2012, þá farinn að heilsu og sjónin að hverfa. Hann munaði ekkert um að leggja undir sig húsbóndastólinn þegar honum sýndist svo, enda var hann aðal, eins og ég sagði. Ég skoðaði líka krossinn með kisuólinni og skal alveg viðurkenna að ég held ég viti hvað hún Elín var að hugsa af því ég hugsaði það sjálfur. Ég stoppaði hins vegar styttra við hann og horfði svo lengi á eftir í allt aðra átt - upp í vindinn, til að geta kennt honum um........ Hér slít ég sundur Eyjapistilinn að sinni. Síðari hlutinn mun birtast sem sjálfstætt framhald. Myndirnar eru aðgengilegar, eins og hér ofar segir, undir "Myndaalbúm" í síðuhausnum.


mmmmmmmmmmmm


  • 1
Flettingar í dag: 50
Gestir í dag: 34
Flettingar í gær: 111
Gestir í gær: 45
Samtals flettingar: 642782
Samtals gestir: 91884
Tölur uppfærðar: 23.1.2019 04:07:41


Tenglar