Gunnar Th.
Fjórða kerfið.....


Færslur: 2016 Apríl

24.04.2016 13:00

Willy´s


Ég man flesta hluti svona þokkalega. Ekki kannski allt og ekki kannski alltaf hárnákvæmt en svona þokkalega. Til dæmis man ég ekki nákvæmlega hvenær ég eignaðist jeppann hans Jóa frænda. Það gæti hafa verið árin 1975 eða ´6. Svo er ekki víst að það skipti nokkru einasta máli. 

Jói frændi bjó á Stakkanesi (er nokkuð kunnuglegt við það nafn?) með afa og ömmu og átti Willy´s árgerð ´46. Þetta var flottur jeppi, með fulningahúsi og fíneríi. Líklega var það svo um 1963 að Jói frændi ákvað að selja jeppann. Kaupandinn var Gunnar heitinn Kristjánsson, vélstjóri hjá Íshúsfélaginu. Gunnar átti jeppann lengi en seldi að lokum og muni ég rétt eignuðust Arnardalsbræður hann. Hvort einhverjir áttu þar á milli man ég ekki. Úti í Arnardal var sett hálftoppventlavél í jeppann og eins og títt var við þess háttar breytingar var sett upphækkun á húddið fyrir loftinntakið á vélinni. Einhvern tíma á lífsleið jeppans var húsinu líka breytt og það endurbætt. Við það hurfu fulningarnar og húsið varð slétt. Þegar ég eignaðist jeppann hafði hann ekki verið í notkun nokkurt skeið og þurfti talsverðra lagfæringa við. Ég naustaði bílinn í skúr niðri við Fjarðarstræti, sem Matthías heitinn Sveinsson verslunarmaður hafði átt og pabbi hafði aðgang að. Þar var unnið að lagfæringum og stöku sinnum skroppið út að aka á milli. Ég var þarna talsverðan tíma með bílinn en seldi hann að lokum Óla bróður Árna heitins Geirssonar símaverkstjóra. Árni bjó þá að Seljalandsvegi 30 á Ísafirði og ég man að Óli var með jeppann þar upp með húsinu meðan hann dundaði í honum. Svo hvarf Óli úr bænum, eignarhaldið á jeppanum fór á flakk og að lokum endaði hann í uppfyllingunni neðan við Vélsm. Þór hf.

Næst eignaðist ég Willy´s austur í Neskaupstað haustið 1985. Það er nýlega búið að rekja feril hans á Facebook og óþarfi að gera það aftur. Söguna má finna á FB-síðu um bíla á N-númerum. Hún var afar skrautleg, í raun miklu skrautlegri en þar kemur fram því af tillitssemi við hlutaðeigandi var nokkrum atriðum sleppt. Það ætti að vera nægilegt að líma þá frásögn inn. Hún ætti þá að birtast hér neðan við:Ég lofaði Grímsa myndum af Búra, Willy´s jeppanum sem ég keypti af Rúnari Gunnars veturinn ´85-6. Þessi Willys var með stálhúsi og original Hurricane vél, skráður eins og Ísraelsjeppi (´53) en með ´55 útlit. Hann fékk að snúast alveg svakalega þann tíma sem ég átti hann en endaði loks ævina hjá Halldóri Gunnlaugs, stuttu eftir að ég flutti vestur aftur. Muni ég rétt beygði Halldór í honum stangir í Norðfjarðaránni. Hann var með þessum fallega (!) brúna lit þegar ég fékk hann en í kaffitíma á sólbjörtum degi utan við verkstæðið í Nesi máluðum við Bóas Bóasson hann heiðgulan. Við vorum fljótir að, helltum úr fötunni yfir húddið og drógum úr með stórum verkfærum úr Bátastöðinni. Á einni myndinni sést Bronco í baksýn. Ég átti hann líka og gerði hann upp fyrir austan. Bóas sprautaði hann svo fallega brúnsanseraðan með silfruðum og gylltum röndum. Þessi Bronco var á 32" dekkjum sem ég sendi til Gúmmívinnslunnar á Akureyri í sólningu. Eins og sést á einni myndinni hef ég "lánað" sjálfum mér þau undir Willysinn.


Vélin í Búra var léleg, rifin á einni sveif og það var orðin íþrótt þegar hann var farinn að banka leiðinlega mikið, að henda honum inn á lyftu í lok vinnudags, spæna pönnuna undan með loftlykli og olíunni í, smella nýrri legu í sætið og setja svo pönnuna undir aftur með loftlyklinum - og olíunni í! Lagerinn af legum var á brotajárnshaugunum úti undir kirkjugarði þar sem lágu nokkrar flathedda - Rússavélar. Einu sinni í leguhallæri var m.a.s. smellt gamalli legu úr Cressidu í sætið en þá þurfti að banka til festihakið.

Svo kom að því að legulagerinn kláraðist og af því ég var orðinn leiður á að vera stöðugt að skipta þá henti ég síðustu legunni sem festist, úr vélinni, ákvað að hafa stöngina legulausa og sjá hvað hún gæti enst þannig. Hljóðin voru ólýsanleg enda hvegi slegið af og endingin varð tíu dagar. Þá bókstaflega sprakk vélin þegar ég var á fullri ferð inn á BP-sjoppu til Benna að ná mér í hádegismat. Hún hrundi rétt við planið og ég var svo vitlaus að láta Búra renna yfir allt planið og inn fyrir húsið. Þegar ég kom út úr bílnum var breið olíurönd yfir endilangt planið og Benni ekki glaður. Ég mátti kaupa brúsa af olíuhreinsi í stað hádegismatar og hreinsa upp eftir mig. Við hreinsunina fann ég stimpilboltann strípaðan úti á götu. Þá svona datt mér í hug að nú væri frekar mikið bilað.......

Leifi í Skálateigi var að skipta um vél í Sjappa sem hann átti (frambyggðum FC-150) og setja í hann Benz dísil. Ég fékk gömlu vélina hjá honum og skipti næsta laugardag úti á verkstæði. Sú vél var aldrei jafn skemmtileg, einhverra hluta vegna en eðlilega mun hljóðlátari....

Þegar voraði ´86 var Búri oftar húslaus en hitt. Þeir voru reyndar farnir að tala um að borga mér fyrir að hafa húsið á því í hvert sinn sem það var tekið af virtist koma rigningardemba. Ég var hins vegar búinn að komast að því að Búri var frekar valtur með húsinu og ef það var ekki á gat ég tekið kröppu beygjuna innan við Kaupfélagið á Bökkunum og niður í Nesgötuna ( ofan við Gumma Skúla) á miklu meiri ferð. Það má kannski taka fram að veltigrind var aldrei sett í Búra - hún var lengi á teikniborðinu en fór aldrei lengra.

Eins og stundum er sagt: Búri er horfinn en minningin lifir.....


Fljótlega eftir að við fluttumst aftur frá Neskaupstað til Ísafjarðar vantaði okkur farartæki sem gæti dregið kerru. því við hugðum á miklar framkvæmdir við litla húsið okkar í Króknum. Inni í Essóporti stóð gamall ´46 Willy´s sem Biggi frændi (Biggi Þorsteins) átti. Einum tíu árum áður hafði ég hjálpað Bigga að koma þessum jeppa á götuna inni á Hafrafelli. Biggi hafði keypt hann þar, en jeppinn var samtíningur úr nokkrum þó uppistaðan ætti að heita gamli Tungujeppinn. Mig minnir að Dóri Ebba hafi átt gamla Tungujeppann og lent í óhappi á honum á Óshlíðinni. Þessi var semsagt hálfsmíðaður inni á Hafrafelli og við Biggi eyddum löngum stundum i að gera hann ökufæran. Það tókst og Biggi notaði jeppann sem vinnubíl árum saman. Þegar þarna var komið sögu var Biggi hins vegar búinn að uppfæra í Jeepster og sá gamli lá inni í olíuportinu. Einhverjir gemlingar höfðu sér til dundurs mölvað í honum flestar rúður og hleypt úr dekkjum svo útlitið var ekki bjart fyrir öldunginn. Ég fékk augastað á jeppanum, ekki síst sögunnar vegna. Biggi vildi hins vegar ekkert hafa með málið að gera og sagði mér að semja við Lóu. Það voru erfiðir samningar en allt gekk þó að lokum og ég kom jeppanum niður í Vélsm. Þór eftir að hafa eytt heilu kvöldi í að dæla í dekkin með pínulítilli rafmagnsloftpressu. 

Á bílaverkstæðinu í Þór gekk Willy´s í endurnýjun lífdaga og meðfram lagfæringunum smíðaði ég kerru aftan í hann. Kerran var svo sirka eitt ár á dráttarkúlunni og kvikindislega þenkjandi félagar voru farnir að spyrja hvort bíll og kerra væru heilsmíðuð! 


Það var mikið flutt á þessum bíl og sem dæmi má nefna að þegar við fengum Einar á Kolfinnustöðum til að grafa húsið í Króknum upp að ofan- og innanverðu var allur uppmoksturinn settur á skurðbakkann. Efnið reyndist svo ónothæft aftur og við handmokuðum uppá þrjátíu og átta kerrur af mold, ókum niður á ruslahauga og losuðum þessar þrjátíu og átta kerrur með handafli til stækkunar bæjarlandsins. Til að fylla í skurðinn meðfram húsinu sóttum við tuttugu og fimm kerrur af fjörugrjóti í fjöruna beint niður af húsinu og ég fullyrði að lengi vel var ekki að finna stærri steina en hálfan hnefa frá ræsisrörinu út að Baldri Jóns! Þessi framkvæmd fór ekki í umhverfismat og það má meta það við nágrannana í Fjarðarstræti 57-9 að þeir hvöttu frekar en löttu þótt sumir hafi kannski lagt kollhúfur yfir landeyðingunni. Sjórinn sá svo um að skila nýju efni á land í stað þess sem tekið var.

Þegar við höfðum ekki lengur not fyrir jeppann var hann seldur og ég hef fyrir satt að hvíti, opni hálfjeppinn sem lengi var inni á flugvelli og Ernir notuðu sem dráttarklár hafi að uppistöðu verið þessi jeppi.

Síðan hef ég ekki átt Willy´s....

Þar til nú:...og líkt og maðurinn sagði: 

"Að eiga Willy´s er góð skemmtun"

18.04.2016 09:38

Sorg.


Bassi minn er allur. Hann varð fyrir bíl í gær, sunnudag. Við vorum rétt komnir í hlað eftir bíltúr upp á Akranes. Hann var á vappi hér framan við húsið og hafði sýnt tilburði til að stinga af. Í stað þess að binda hann lét ég duga að skipa honum að vera kyrr hjá mér. Hann gegndi - en aðeins meðan hann sá að ég var að fylgjast með honum. Um leið og ég beindi athyglinni annað var hann horfinn.

 

Hann mun hafa farið rakleitt upp eftir Ártúnshöfðanum, þar sem hann hefur vitað af tík í hundalátum. Skv. því sem mér var sagt eftirá elti hann tíkina eftir Bíldshöfðanum að Höfðabakka og hljóp rakleitt yfir þá miklu umferðargötu og í veg fyrir bíl.

 

Bílnum ók kona sem engu gat forðað. Bassi fékk mikið högg, hentist eftir götunni og lá grafkyrr þar sem hann kom niður. Ungt par sem varð vitni að óhappinu tók að sér að koma honum undir læknishendur og fór með hann á dýraspítalann í Víðidal. Þar var lokað á sunnudegi en ræstingakona opnaði fyrir þeim og aðstoðaði við að hringja á vakthafandi dýralækni. Sú sem óhappinu olli skildi eftir nafn og símanúmer en kom að öðru leyti ekki að framhaldinu.

 

Bassi var örmerktur með símanúmerinu mínu. Það gekk hins vegar illa að ná í mig í síma en gekk þó að lokum. Ég spurði um meiðsli en fékk loðin svör. Fór beint upp í Víðidal og þegar þangað kom var orðið ljóst að Bassi var illa meiddur. Hann var lærbrotinn vinstra megin, vinstri framfótur svaraði ekki eðlilega og hann hafði fengið höfuðhögg svo tönn losnaði. Þegar ég sagði dýralækninum frá aldri Bassa heyrði ég strax að það dró úr henni. Bassi var orðinn tíu og hálfs árs og hún taldi litlar líkur á að hann næði sér að fullu auk þess sem aðgerðin yrði honum mjög erfið. Ég bað um ráðleggingar og fékk. Á þeim var helst að skilja að best væri að leyfa Bassa að fara....

 

Ég hringdi í Elínu Huld og bað hana að koma til mín. Ég réði bókstaflega ekki við þessar aðstæður einn. Þetta var algert niðurbrot fyrir okkur bæði og erfiðari ákvörðun hef ég aldrei tekið á ævinni. Ég vil trúa því að ákvörðunin hafi verið rétt, og að það hafi verið Bassa fyrir bestu að fá að fara. Ég gat ekki séð hann fyrir mér fatlaðan að meira eða minna leyti, jafn gríðarlega orkumikinn hund með endalausa hreyfiþörf. Eftir nauðsynlegan undirbúning fékk hann viðeigandi sprautur, og síðan hélt ég höfði hans og strauk honum meðan hann sofnaði útaf.

 

 

 

Ég ákvað að láta brenna Bassa. Við óskuðum ekki eftir öskunni, því hvað er aska í krukku á móti jafn einstöku dýri og hann var? Þegar hann var dáinn og farinn var bókstaflega ekkert það eftir sem okkur þótti vænst um. Skrokkurinn var því látinn hverfa en minningarnar lifa með okkur til loka.

 

(Þessi færsla er skrifuð þann 17. september, en tímasett í rétta röð færslna. Í dag eru fimm mánuðir frá því Bassi dó. Hans er enn saknað á hverjum degi)


15.04.2016 09:25

Enn hjól.Það fjölgaði í Höfðaborgarfjölskyldunni í kvöld, þegar sonurinn keypti sér sitt fyrsta mótorhjól. Hjólið var keypt í Keflavík og eigandinn skilaði því hingað heim. Þetta er Kawasaki ER-6N árgerð 2006, ekið tæpa 15 þús. km.


10.04.2016 09:21

Rautt hjól.


Ásgeir Jónsson skilaði af sér snilldarverki um kvöldmatarleytið í gær - allir rauðir hlutir af rauðu skellinöðrunni nýmálaðir. Eg var til miðnættis að setja saman og byrjaði aftur um níu í morgun. Hjólið er komið í gang og aðeins sleikjur eftir. Við Edilon Bassi erum báðir með tungurnar úti.........og þess má geta að hjólið er ekki lengur með númerið " 2 OLD". Nú er horft til heimahaganna!

"Fyrir" myndirnar voru teknar í haust:


------------------------------------------------------

........................

05.04.2016 09:11

Bílalyftan í Neskaupstað.


Að fá eitthvað í hausinn getur haft margvíslega þýðingu - bæði orðatiltækið og svo atburðurinn sjálfur. Ég hef fengið eitt og annað í hausinn gegnum árin, t.d. flugur og fleira. Þetta atvik hér á myndunum var ég þó nærri því að fá í hausinn í beinni og eiginlegri merkingu. Hefði það gerst væri ég ekki hér að skrifa, heldur ætti látlausan kross í einhverjum garði.

Mig minnir að hann hafi heitið Jón, sá sem átti þennan vagn. Hann hafði treyst okkur á verkstæði SVN fyrir honum því hann hafði orðið var við skrölt í undirvagni og vildi láta athuga. Skildi þess vegna bílinn eftir hjá okkur og fór.

Þetta var snemma vors og enn var snjór á götum. Netagerð Friðriks Vilhjálmssonar í Neskaupstað átti ljósdrapplitan Peugeot 504 pickup sem hafði verið í viðgerð daginn áður á lyftunni - og af því að Peugeot var afturdrifinn var hann með þunga sandpoka á pallinum til að ná betra gripi í hálkunni. Eitthvað hafði misþungi bílsins farið illa í lyftuna sem, þegar átti að slaka niður, neitaði og sat föst uppi. Ég bauð mig fram til að klifra upp á bílpallinn og henda sandpokunum niður. Þetta var ekki erfitt nema hvað töluverð sveifla var á bílnum meðan pokarnir flugu. Aðgerðin heppnaðist, bílnum var slakað niður og er hann þar með úr sögunni. Þetta var undir dagslok og við fórum heim.

Fyrsti bíl á lyftu daginn eftir var N-550. Hann kom í minn hlut og var hífður upp undir topp á lyftunni. Ég stóð svo undir og skók allt sem skekja mátti, til að finna skröltið hans Jóns (hafi hann heitið það). Það var tekið vel á því og bíllinn og lyftan hristust saman í dansinum. Skröltið fannst ekki almennilega og því skyldi farið út að aka og prófa. Rofinn fyrir lyftuna var á vinstri stólpanum - bílstjóramegin - og ég gekk út að stólpanum, tók mér stöðu hinu megin við hann, teygði handlegginn yfir fyrir og ýtti á niður-rofann.

Það kom eitthvert óskilgreint hljóð þegar vinstri lyftubúkkinn hrapaði niður með andlitinu á mér. Svo fylgdi stór, rauð flygsa sem skall í gólfið, kom svo fljúgandi í átt að andlitinu, skall á stólpanum, hætti við atlöguna og staðnæmdist á miðju gólfi. Það tók mig sekúndubrot að átta mig á því hvað hafði gerst og að rauða flygsan var toppurinn og húddið á N-550.


Á annarri lyftu mér til vinstri var LandRover jeppi og foringinn sjálfur, Þórarinn Oddsson, var að vinna inni í honum bílstjóramegin. Ég man að ég opnaði farþegahurðina á LandRovernum og tilkynnti Tóta um óhappið - svona eins og það hefði mögulega farið fram hjá honum! Tóti var hálflamaður því hans fyrsta hugsun hafði verið sú að ég hefði verið undir bílnum. Við vorum því áreiðanlega álíka glaðir að sjá hvorn annan.....

Vinnueftirlitið var kallað til. Þeir komu tveir ofan af Héraði með möppur í hendi og skoðuðu lyftuna, sem auðvitað var með fulla skoðun eins og annað hjá SVN - þeir þekktu sitt heimafólk. Það kom á daginn að heimasmíðað stykki í lyftunni hafði gefið sig, trúlega fyrir einhverju síðan. Öryggisstykki átti að taka við ef burðarstykkið gæfi sig en því var þannig fyrirkomið að ómögulegt var að sjá bilunina utanfrá.

Bíllinn var talinn ónýtur og ég veit ekki hvað varð um hann. Líklega hefur hann verið rifinn. Lyftan fékk hins vegar viðgerð og fór aftur í gang. Nokkrum árum síðar var hún seld úr bænum. Hvert skyldi hún hafa farið? Jú, helvítið elti mig vestur á Ísafjörð, þar sem Bílaverkstæðið Ernir (afsprengi flugfélagsins) keypti hana og setti upp. Ég var þá að vinna hjá Steiniðjunni, steypustöðinni á Ísafirði en greip í hjá Örnum í hjáverkum vetrartíma þegar rólegt var í steypunni. Eðlilega hafði ég þó lítinn áhuga á að rifja upp gömul kynni við gulu Stenhöj-lyftuna.

Á einni myndinni sést Benz kálfur. Eða ekki, þetta var ekki Benz heldur Hanomag sem Tóti Odds hugðist gera að húsbíl. Það fór óhemju vinna í þennan bíl, m.a. fjórhjóladrif, muni ég rétt, en mig minnir að hann hafi ekki orðið húsbíll hjá Tóta. Aðrir þekkja þá sögu eflaust betur.......

Á fyrstu myndinni stendur eigandi bílsins til hliðar og lyfturofinn er beint framan við Tóta. Á annarri myndinni sést eigandinn ásamt Kidda á Hofi - Karli Kristjáni Hermannssyni, einum þeirra öndvegisdrengja sem ég var svo heppinn að fá sem vinnufélaga þennan tíma hjá SVN.

  • 1
Flettingar í dag: 130
Gestir í dag: 30
Flettingar í gær: 314
Gestir í gær: 40
Samtals flettingar: 635395
Samtals gestir: 90510
Tölur uppfærðar: 13.12.2018 07:36:26


Tenglar