Gunnar Th.
Fjórða kerfið.....


Færslur: 2014 Júní

30.06.2014 09:37

Muniði hvað hann John Denver söng?


Ekki? Ókei, rifjum það upp: "There´s a storm across the valley / Clouds are rolling in........

Svo setjum við hlekk  svo allir geti áttað sig  NÁKVÆMLEGA HÉRÞetta er náttúrlega ódauðlegt lag og ég má til með að setja inn annan hlekk á sama lag með flytjanda sem mér skilst að sé á leið til Íslands og muni halda tónleika með Páli Rósinkrans. Báðir eru flottir.........SJÁ HÉR.

Við erum semsagt komin heim úr Færeyjaferðalaginu heilu og höldnu, og hér á heimaslóð er spáð stormi! Það er spurning hvort ekki hefði verið betra að halda sig áfram úti því þokan og rigningin sem okkur var sagt að væru landlæg fyrirbæri í Færeyjum kynntu sig aðeins lítillega fyrir okkur en héldu sig að öðru leyti alveg til hlés. Ferðin var í einu orði sagt stórkostleg og það gildir líka um "transit" ferðina austur á Seyðisfjörð og heim aftur. Við tókum um þúsund myndir í túrnum og það segir sig sjálft að ég næ ekki að tvinna þær allar inn í texta. Örfá stikkorð úr þessari "transit" ferð gætu t.d. verið: Kirkjubæjarklaustur, Höfn, Djúpivogur, Stöðvarfjörður, Neskaupstaður, Eskifjörður, Seyðisfjörður og svo aftur Seyðisfjörður, Egilsstaðir, Borgarfjörður eystri, Lagarfljótsvirkjun, Kirkjubær í Hróarstungu, Hellisheiði eystri, Vopnafjörður og áfram um Bakkafjörð, Þórshöfn, Sauðanes á Langanesi, Raufarhöfn, Melrakkaslétta, þvottabretti, Kópasker, Ásbyrgi, Húsavík, Heiðarbær í Aðaldal, Laxárvirkjun, Grenjaðarstaður, Fosshóll við Goðafoss, sundlaugin að Stóru-Tjörnum í Ljósavatnsskarði, Laufás í Eyjafirði, Óli og Abú á Akureyri og svo suðurleiðin eins og allir þekkja hana. 

.......og þó Econoline sjúkrabíllinn sé svo sem enginn "truck" og akbrautin hafi sannarlega ekki verið "four lane" þá hvein svo sem í hjólbörðum á leiðinni því þeir sem fóru fram úr á flatlendinu sigu aftur úr í brekkunum - hann býr enn yfir töktunum, sá gamli þótt sjúkrabílshlutverkinu sé lokið.

Það segir líka í textanum: "You felt the baby move just yesterday". Tilvísunin er augljós en tengingin ekki. Því skal útskýrt: Elín Huld ættleiddi ungviði austur í Vopnafirði og þetta ungviði lá í lítilli körfu við mælaborðið lengst af suðurleiðinni en svaf á koddanum hennar Elínar þess á milli. Ég skal kvitta undir það að þetta "baby" var svo sannarlega "moving" milli dúranna:


 Það beið mín svo enginn heima því Edilon B. Breiðfjörð o.s.frv. fór til sinna fyrri foreldra þann 15. júní og verður þar eitthvað áfram. Ég kom að tómu húsi, enginn "supper on the stove" og lýkur þar með líkingum við lagið hans John Denver......

Heima bíður manns svo veðurspá sem segir "Storm across the valley" og "Clouds are rolling in..." Mín bíður líka að koma þessum þúsund myndum inn á tölvu og laga þær til. Þrátt fyrir slæma veðurspá er samt ákaflega gott að koma heim!

Verði stuð........

.....................................................

19.06.2014 08:08

Fimmtudagsmorgunn kl 8:08


 Það er fimmtudagsmorgunn á Seyðisfirði og klukkan er rétt rúmlega átta. Veðrið er fínt, skýjað, þurrt og um níu stiga hiti. Tjaldsvæðið kringum okkur er að tæmast og Norröna er út af Norðafjarðarflóanum á átján mílum skv. ais. Ég er ekki með lyklaborðið mitt heldur nota bara lappaborðið sem er rassgat. Við fengum okkur göngutúr í gærkvöldi til að reyna að átta okkur á hvernig við ættum að bera okkur að. Árangurinn varð enginn því hær ægir saman línumerkingum við eldri ferjubryggjuna og þeim nýju og maður skilur hvorki upp né niður. Þetta reddast nú samt allt einhvern veginn. Gærdagurinn var flottur, alger andstæða þriðjudagsins sem var frekar þokukenndur og blautur. Við náttuðum á Djúpavogi og skoðuðum bæinn í gærmorgun, skoðuðum næst steinasafn Petru á Stöðvarfirði sem var stórkostlegt  - algerlega gjörsamlega eins og vinur minn General Bolt-on orðar það. Svo drukkum við kaffi með góðu fólki á Stöðvarfirði. Síðan var franski spítalinn á Fáskrúðsfirði skoðaður. Það er dálítil breyting orðin á frá ví við skoðuðum hann hálfhruninn úti á Hafnarnesi árið 1985.

Frá Fáskrúðsfirði brunuðum við yfir í Neskaupstað og heimsóttum tvo gamla vinnufélaga frá ´85-6. Það er orðið langt síðan síðast......

Eftir Neskaupstað var haldið í sund á Eskifirði, í nýju sundlaugina þeirra sem krakkaskammir kalla stundum "efnalaugina". Ég rek ekkert hvers vegna... Svo var það Seyðisfjörður og hingað komum við rétt fyrir tíu í gærkvöldi, fylltum sjúkrabílinn af olíu og eftir klifur yfir Oddsskarð og Fjarðarheiði var eyðslan frá Höfn í Hornafirði 15.8 ltr. á hundraðið. Ekki slæmt með öll þessi tonn og öll þessi hestöfl! Við erum að fara að leita leiða til að tékka inn....... 17.06.2014 10:14

Það líður á morguninn...


......og senn verður sjúkrabíllinn gangsettur og tekinn af húsi. Öllum undirbúningi Færeyjaferðar er að ljúka og aðeins lokahnykkurinn eftir. Við ættum að vera lögð af stað um hádegisbil eða fyrr. Ég er að fara að aftengja tölvuna og setja ofan í tösku svo þetta er afskaplega stuttur pistill. Ég veit ekki hvernig gengur að ná netsambandi þarna úti gegnum punginn en allavega eigum við að vera aftur á Seyðisfirði að morgni þess 26. júní nk. Þangað til: Takk fyrir lesið!

15.06.2014 08:19

Eru Færeyjar í útlöndum?


Eitthvað á þessa leið spurði Huldar Breiðfjörð í bókinni "Færeyskur dansur". Ég er einmitt að lesa þá bók núna þegar aukastundir gefast. Þær stundir eru þó ekki margar því ég hyggst komast að því sjálfur hvort Færeyjar séu í útlöndum eða hvort þær séu meira svona partur af Íslandi. Ég er semsagt á leið til Færeyja með sjúkrabílinn nú næsta fimmtudag - eða svo er mér sagt. Mér var nefnilega boðið þangað og af því ég er líkur hlýðnum hundi sem geltir aðeins þegar honum er sigað, þá sagði ég já takk.

Ég vil annars hvetja fólk til að lesa bækur Huldars Breiðfjörð, "Góðir Íslendingar"  og "Færeyskur dansur". Sú fyrrnefnda er stórkostlega skemmtileg ferðalýsing um Ísland að vetri til og um leið frábær lýsing á þeim persónum sem verða á vegi skrifarans - ég nefni sem dæmi alþekkt fólk úr Ísafjarðardjúpi og víðar. Síðarnefndu bókina er ég enn að lesa og hún verður skemmtilegri með hverri blaðsíðu....

Það eru annars ekki Færeyjar sem eru viðfangsefni pistilsins heldur Ísafjarðarferðin um hvítasunnuna. Ástæða hennar var áður komin fram og á tilsettum tíma mætti ég suður í Toyotaumboð og fékk í hendur nýjan RAV4 dísiljeppling. Svo fór ég heim, tók mig til og beið eftir því að vinnu lyki hjá Elínu Huld. Ég hafði nefnilega nefnt þessa Ísafjarðarferð upphátt í hennar eyru og fékk samstundis beiðni um þátttöku. Ég get ekki hafnað svoleiðis beiðni frá fólki sem er nýbúið að bjóða mér til Færeyja og þess vegna beið ég semsagt eftir því að vinnu lyki á leikskólanum Efstahjalla. Svo var lagt af stað og áð í Geirabakaríi við Borgarfjarðarbrúna sem endalaust er verið að gera við. Ég held ég sé ekki að ljúga því að þeir þarna iðnaðarmennirnir sem eru að dunda við brúna séu búnir að vera að dunda síðan í fyrrasumar - allavega voru umferðartafir á henni í fyrrasumar af sömu ástæðum. Það virðist ekki krafist mikilla afkasta í því verki.

Svo var haldið áfram og norðan Bröttubrekku þeysti fram úr okkur Nissan Kasskæ (ég kann alveg að skrifa nafnið en það er bara svo asnalegt að ég sleppi því) og hélt að með því að fara fram úr Toyotu Rav4 hefði hann loksins sigrað heiminn. Það sem þessi auma Renault- hliðarframleiðsla vissi ekki var að hann fékk að fara fram úr okkur af hreinni vorkunnsemi. Ég var nefnilega búinn að finna það á Ravinum að hann átti aðeins einn samkeppnisaðila í afli og það er minn eigin sjúkrabíll. Mikið helvíti sem þessi Rav 4 gat verið skemmtilegur keyrslubíll á þessarri leið, sem er þekkt fyrir króka, bugður og beygjur - að ógleymdu séríslensku rússibanamalbiki. Ég er svo sem ekki þaulvanur því að vera með nýja bíla í höndunum en pabbi gamli átti nýjan Rav á sínum tíma (2001) og skyldleikinn var sannarlega til staðar. Sá bíll var þó hvorki með loftkælingu eins og þessi né hraðastilli en hvorttveggja var talsvert notað á leiðinni - krúsið þó meira því sólin var verulega köflótt!

Það var ekki sérlega gott veður í Dölunum og heldur lakara er norðar dró. Á Hólmavík var hálfgerð þokufýla og kuldagjóstur svo það var ekki áð aftur fyrr en við Reykjanes í Djúpi. Þar var veðrið orðið ágætt (eins og oftast í Djúpinu) og við stungum okkur út fyrir veg og átum heimagert nesti að hætti Generals Bolt-on í Sandgerði (sem ég var á ferðinni með á sömu slóðum nokkrum vikum fyrr). Edilon Bassi varð hvíldinni feginn og þáði vatnssopa með þökkum. Við áðum ekki aftur og vorum við Bílatanga á Ísafirði rúmlega hálfátta um kvöldið. Þar skiluðum við Ravinum - með hálfgerðum söknuði - og fengum í staðinn gamlan og góðan Touring að láni. Við höfðum kríað gistingu út úr fjarstöddu vinafólki og fórum þangað með farangurinn. Síðan tók við Hamraborgarhamborgari og stuttur bæjarrúntur. Stóru olíutankarnir við gömlu höfnina voru farnir og mér fannst sjónarsviptir að þeim. Steinveggurinn sem skildi olíuportið frá akbrautinni og var svo fallega myndskreyttur lá flatur og brotinn inni á lóðinni þar sem unnið var að jarðvegsskiptum. Ég hef fullan skilning á því að þessir tankar eigi ekki heima þarna lengur en mér finnst samt að þeim sjónarsviptir og legg hér með til að í hönnun þeirra húsa sem á reitnum munu rísa í framtíðinni verði hringlaga formið ráðandi og þannig komið til móts við þann Ísafjörð sem við, sem smám saman förum að teljast til "hinna eldri" ólumst upp í og munum best.

Svo var allt í einu kominn laugardagur og á laugardögum laugar maður sig. Í Sundhöllinni á Ísafirði fengum við upplýsingar um opnunartíma "hinna" lauganna og völdum Flateyri þar sem opnaði kl. ellefu. Þeystum vestur á Túring og vorum allt of snemma á staðnum fyrir laugina en mátulega snemma fyrir góða skoðunarferð um þorpið sem er á góðri leið að breytast í nokkurs konar Flatey á Breiðafirði - allavega hvað varðar búsetu. Þegar við höfðum skoðað öll húsin ókum við út í Klofning, utan við þorpið og ég rifjaði upp áratuga gamlar svaðilfarir upp í endurvarpsstöð sjónvarps og síma þarna útfrá, þegar verið var að reyna að koma á almennilegu sambandi yfir á Ingjaldssand. Síðan eru liðin mörg ár og mér skildist á heimamönnum að Sandarar hefðu aldrei fengið almennilegt sjónvarp. Við höfðum þó allavega reynt.......( Á myndinni hér ofar er horft yfir Önundarfjörðinn til Valþjófdals. Ingjaldssandur er miklu utar - til hægri -  og sést reyndar ekki frá þessum stað, nema bláhornið. Á myndinni má hins vegar sjá leiðina sem kýrin Sæunn synti árið 1987 þegar hún strauk frá slátrunarliði á Flateyri, stökk í sjóinn og synti um þveran fjörðinn. Afrekið fékk hún metið til lífgjafar, Guðmundur á Kirkjubóli í Valþjófsdal eignaðist hana og ól allt til loka - sjá HÉR )Laugin var fín en vatnið í heita pottinum var mengað af ryði enda potturinn nýsettur í gang eftir nokkra hvíld. Ungur maður í sundskýlu var að veiða stærstu flyksurnar upp úr vatninu með háf en meðfram kantinum lá rönd líkust kaffikorgi. Ég gekk í að hjálpa til við hreinsunina en Elín Huld hafði skellt sér beint í laugina og sá ekkert af þessum tilraunum okkar. Þegar við höfðum náð því mesta sammæltumst við um að þegja yfir ryðinu meðan enginn annar segði neitt. Þegar Elín Huld kom svo í pottinn sá hún ekki neitt og var því ekki sagt neitt. Ég vona bara að hún hafi sturtað sig sæmilega þegar upp kom!

Við vorum þyrst þegar við komum aftur út í bíl en höfðum því miður ekki haft hugsun á því að taka með okkur nesti. Dyrnar á sjoppu staðarins voru opnar en mér fannst einhvern veginn að það væri ekki opið heldur hefði einhver með lyklavöld skroppið inn til að ná í gleymskuvörur. Við ákváðum að renna vestur að Núpi og fá okkur ís eða eitthvað ámóta á hótelinu þar. Á Hvilftarströndinni fæddist önnur hugmynd og af því það voru áratugir síðan ég hafði ekið fyrir Önundarfjörðinn ákváðum við að gera það nú. Það eru samtals þrjár leiðir yfir/fyrir fjörðinn: Sú nýjasta, um brúna yfir Vöðin sem farin er í dag, sú næstnýjasta (eða næstelsta) um brúna við Kirkjuból í Korpudal og sú elsta sem liggur um litla brú milli eyðibýlanna Hests og Tungu - eða eiginlega beint frá Hesti yfir að Hóli. Við ákváðum að fara miðleiðina og ókum inn með Ytri og Innri - Veðraá að Tannanesi. Þar var stoppað augnablik og rifjað upp. Það fyrsta sem rifjað var upp var þegar ég keypti og sótti litla trillu að Ytri- Veðraá. Árið hefur kannski verið 1993 eða-4 og þetta var lítil trétrilla, afskaplega rýr að öllu leyti nema í verði, sem ekki var skorið við nögl. Ég sótti bátinn á kranabíl Steiniðjunnar á Ísafirði og hafði soninn Arnar Þór (í grænni úlpu) með mér.

Það var þá! Svo rifjaði ég upp allar ferðirnar okkar pabba að Tannanesi til að kaupa reyktan rauðmaga af Ingimundi bónda. Einhvern tíma fórum við líka með litla plastbátinn minn, hann Spossa (sem fengið hefur sína minningargrein hér á síðunni) og fengum leyfi til að stinga rauðmaga í Vöðunum. Við fengum engan rauðmaga svo við keyptum nokkra  reykta af Ingimundi og þar með var ferðinni bjargað. Ingimundur er horfinn en Tannanes er enn á sínum stað, vel hirt af afkomendum og þeim til sóma:Ofan við veginn lá plaströr í læk og úr rann ágætisvatn - allavega að sjá. Elín Huld var orðin verulega þyrst og lagðist á lækjarbakkann, líkt og Lati- Geir forðum. Öfugt við hann drakk hún vatnið og dó því ekki en Bassi lét sér fátt um finnast og sleikti upp einhverja forina...

Að Kirkjubóli í Korpudal er vel búið, þótt ég viti ekki hvers konar búskapur er stundaður þar. Allavega er vel hýst og í mínu minni er Kirkjuból í Korpudal eitt fyrsta ferðaþjónustubýlið á þessu svæði sem eitthvað kvað að.Beint á móti Kirkjubóli - hinu megin í dalnum - var eitt sinn reist nýbýli. Millileiðin sem áður var nefnd lá (og liggur enn) á milli þessarra tveggja býla. Fari ég með rétt mál var aldrei búið á þessu nýbýli. Íbúðarhúsið var hefbundið, ferstrent, tvílyft steinhús með valmaþaki og útihúsin meðalstór, einnig steinsteypt. Byggingar voru ópússaðar og ómálaðar í mínu minni. Innan við þetta nýbýli lá jörðin Vífilsmýrar og öll hús þar gömul og frekar léleg. Enn innar var Hóll, reisulegt býli og snyrtilegt og þar innaf eyðibýlið Tunga, sem hefur trúlega farið í eyði fyrir mitt minni. Þar stendur enn steinsteypt íbúðarhús, ómálað. 

Ég fylgdist ekki með búskap þarna innfrá því þegar brúin kom á Vöðin útfrá og þessi leið féll  þar með úr þjóðbraut hætti maður að fara þarna um nema í stöku bíltúrum sem lögðust svo smám saman af með nýjum áhugamálum. Nýbýlið stóð ósnert um árabil en seinna hófust þar einhverjar framkvæmdir sem ég þekki ekki til. Nú blasti hins vegar við að þær framkvæmdir höfðu ekki náð alla leið fremur en í fyrra skiptið. Við "gamla" íbúðarhúsið hafði verið reist a.m.k. jafnstór viðbygging og geysihátt, nýtt þak verið smíðað yfir allt saman. Engu hafði þó verið lokið og tíminn var byrjaður að naga verkið niður:Útihúsin voru ekki gömul að sjá enda virðist þar allt hafa verið byggt upp. Enga marktæka notkun var þó að sjá þar utan nokkrar heyrúllur. Það má vel vera að húsin séu notuð sem hesthús:Litlu innar stóð eitt sinn býlið Vífilsmýrar og var frekar óhrjálegt, muni ég rétt. Nú var þar fátt að sjá utan eitt lélegt útihús og hauga af alls kyns brunnu drasli. Líklega hafa húsin verið rifin og/eða brennd en það vantaði lokahnykkinn á tiltektina. Ég eyddi ekki mynd á staðinn.

Innsta býli í byggð er Hóll, og þar var jafnreisulegt heim að líta og áður fyrr. Bærinn stendur hátt og útsýni er fallegt yfir sveitina. Ég er hæfilegur aðdáandi sveitasagna Ingibjargar Sigurðardóttur heitinnar og mér hefur alltaf fundist Hóll vel geta verið sögusvið marga sagna hennar - höfðingjasetur í sjón og reynd.Við Hól snerum við og héldum út sveitina sunnanmegin, andspænis Kirkjubóli, Tannanesi og Veðraánum tveimur. Utan við margnefnt nýbýli stóð eitt sinn stórbýli sem gegnt hefur tveimur nöfnum. Annað er hróplegt rangnefni við umsetninguna á staðnum, bæði stærð íbúðarhússins og útihúsanna eins og ég man þau - nú eru þau rústir einar. Skiltið neðan við býlið tiltekur bæði nöfnin en ég kannaðist aðeins við það í sviganum. 

Ég man ekki eftir þessu býli í ábúð og man ég þó nokkuð langt aftur. Eitthvað hlýtur þó að hafa verið gert þarna því í flestum gluggum var eitthvað gler - ekkert þó alveg heilt. Ekkert eyðibýli fær að standa hálfa öld án þess að einhverjir brjóti þar rúður en ég man klárlega svo langt aftur. Glerinu virðist því hafa verið haldið við að einhverju marki þó því sé hætt núna. Húsið er hins vegar jafn reisulegt og fyrr og hálfgrátlegt að enginn skuli geta haft af því gagn eða gaman......

Við héldum sem leið lá yfir Mosvallahálsinn og framhjá Kirkjubóli í Bjarnadal. Þau eru þónokkur, Kirkjubólin í Önundarfirði og sé farið hringinn man ég fyrst eftir Selabóli á innanverðri Hvilftarströnd. Selaból heitir nefnilega Sela-Kirkjuból þótt í daglegu tali hafi ég vanist því að býlið væri aðeins kallað Selaból. Svo er það Kirkjuból í Korpudal, Kirkjuból í Bjarnadal og loks Kirkjuból í Valþjófsdal en á því Kirkjubóli er eina kirkjan - allavega síðustu áratugina, þótt gera megi ráð fyrir að nöfn hinna Kirkjubólanna þriggja séu ekki komin til af engu. Aðalkirkja sveitarinnar stendur hins vegar ekki á neinu Kirkjubóli heldur í Holti og er þar jafnan í sögum talinn merkisstaður hinn mesti.

Okkar leið lá um Gemlufallsheiði yfir í Dýrafjörð og út með honum norðanverðum að sumarhótelinu að Núpi. Við ókum leiðina í rólegheitum og ég rifjaði upp brot úr Gísla sögu Súrssonar þegar Vésteinn fóstbróðir var á göngu yfir heiðina og mætti sendimönnunum tveimur, sem sendir voru til að vara hann við fyrirsát handan fjarðar. Þá mælti Vésteinn hin fleygu orð (sem eru auðvitað í eðli sínu ekkert annað en foráttuheimska miðað við aðstæður) "Héðan hallar öllum vötnum til Dýrafjarðar og mun ég hvergi aftur snúa" Svo hélt hann áfram og var auðvitað drepinn. Íslendingasögurnar eru fullar af ámóta heimskupörum sem hafa verið kölluð hetjuskapur og dirfska en eru ekkert annað en klára rugl. Hver var það nú aftur sem sagði í bardaga við ofurefli, þegar honum voru boðin grið? "Ek hefi vánd klæði og hryggir mig ei þó ek slíti þeim ei gerr"  Barðist svo áfram og var auðvitað drepinn!  Gunnar á Hlíðarenda var líka einn sá vitlausasti þegar hann var lagður af stað að heiman til að forðast fjandmenn. Hann leit til baka, sagði þessi fleygu orð (ef marka má leikrit Hafliða heitins Magnússonar á Bíldudal): "Fögur er Hlíðin, ég fer ekki rassgat"  og sneri heim aftur -  bara til að láta stúta sér!  Íslandsmetið í vitleysisgangi - svo maður noti ekki sterkari orð -  á samt skáldið og stórsnillingurinn Eggert Ólafsson sem, í krafti þess að vera sá sem réði og menn beygðu sig fyrir og hlýddu eða hlutu verra af, atti heilli skipshöfn ásamt nýbakaðri eiginkonu sinni (eða verðandi, man ekki hvort...) og sjálfum sér út í bráðan dauða á ofhlöðnu skipi í vitlausu veðri á Breiðafirði. Það var eitt að geta rifið kjaft við hvern sem var og ráðskast með líf og limi manna en að rífa kjaft við höfuðskepnurnar var einum of mikið. Þessi trúður hefur svo verið lofaður í bundnu og óbundnu máli fyrir hetjuskap sem ekkert var annað en hreint og klárt manndráp - og ekki einu sinni af gáleysi heldur af hreinni frekju og yfirgangi!

Sagan er full af dæmum um svona vitleysinga og við skulum enda á sögunni um Staðarhóls - Pál, höfðingja og stórbokka sem bjó á Staðarhóli í Saurbæ. Hann var ásamt föruneyti á siglingu um Breiðafjörð en í siglingaleiðinni lágu Gassaskerin norðan Elliðaeyjar. Hásetar vildu beygja undan en Páll réði eins og sönnum höfðingja sæmir og svarði með vísu (eða svo segir sagan): "Ýtar sigla austur um sjó/ öldujónum káta/ skipið er nýtt en skerið hró/ skal því undan láta". Eigum við að ræða það eitthvað frekar hvað gerðist þegar Pál sigldi tréskipi fullri ferð á Gassaskerin? Nei, ég held ekki. Enn eitt fíflið þar....

Það ætlar að ganga hálf erfiðlega hjá mér að komast yfir Gemlufallsheiðina! Í reyndinni tókst það samt sæmilega þegar ég loksins lokaði kjaftinum og hætti að þylja yfir Elínu Huld sem auðvitað hafði fyrir langalöngu lokað eyrunum, hokin af margra ára reynslu í að hlusta á ámóta fyrirlestra. Á endanum náðum við að Núpi og hálf skrælnuð af ísleysi stauluðumst við yfir þröskuldinn á hótelinu. Inni  á gangi var stelputrippi að moppa og við bárum okkur upp við hana. Hún benti áhugalaus á eldhúsið og lagði til að við leituðum fyrir okkur þar því engin sjoppa væri á hótelinu. Í eldhúsinu fundum við konu sem átti engan ís og sagði slíka vöru ekki vera fáanlega fyrir ferðamenn nema þá kannski á Þingeyri. Við vorum bara ekki á leið til Þingeyrar heldur í skrúðgarðinn Skrúð (já, einmitt..) og þaðan til baka norður um. Við kvöddum, þökkuðum fyrir ekkert og ég hugleiddi hvernig eftirréttaseðillinn liti út á þessu hóteli. Skrúður var í blóma og þangað var jafn gaman að koma og alltaf. Það var verið að vinna í garðinum og verkfæri voru sjáanleg en enginn maður nálægur - svona dálítið eins og í sögunni um Palla sem var einn í heiminum. Það var líka þarna skilti sem bannaði hunda svo Elín Huld skoðaði Skrúð einsömul en við Bassi biðum utangarðs, og fíluðum okkur dálítið þannig líka.... Svo sást til ferða vinnuklædds fólks á gamalli Mözdu og ég þekkti að þar fóru hjónin á Höfða, þau Sighvatur og Alla. Þau komu, við fórum. 

Okkur langaði ennþá meira í ís en áður. Við sigruðum Gemlufallsheiðina í annað sinn þennan dag og í þetta skiptið þagði ég að mestu, bætti þó aðeins við söguna af Vésteini þegar við ókum framhjá ólögulegri grjóthrúgu á háheiðinni rétt við gamla veginn. Þarna stóð nefnilega eitt sinn gamall gangnamannakofi sem mér var sagt af ekki ófróðari manni en pabba mínum að héti Vésteinsvarði. Þessi kofi hékk uppi þegar ég var barn fyrir hálfri öld eða svo. Síðan hrundi hann að mestu og var þannig um árabil, allt þar til ungt og röskt fólk úr sveitunum í kring tók sig til og hlóð hann upp að nýju. Tréverkið var endurnýjað, bæð þak, gluggar og hurð og þannig stóð kofinn fjölda ára. Svo fór tíminn að naga hann að nýju og af því unga og röska fólkið var orðið fullorðið og afkomendur þess höfðu eignast leikjatölvur fékk tíminn að naga kofann í friði. Hann féll svo aftur og er nú sem fyrr segir aðeins ólöguleg grjóthrúga - en minningin lifir......

Mig hafði langað út í Valþjófsdal í Önundarfirði en íslöngunin rak okkur áfram gegnum göng og til Suðureyrar, þar sem eitt sinn fékkst besti ís á landinu. Nú var Snorrabúð stekkur og á þessum fallega degi þegar við þjáðumst hvað mest af ísleysi var ísvél sjoppunnar biluð! Konan sem afgreiddi - ég veit ekki hvað hún heitir en hún er konan hans Skjaldar á lyftaranum - var hálf þunglynd á svipinn þegar hún flutti okkur sorgarfregnina. Hún átti samt ágæta pinnaísa í kistu og þeir urðu að duga að sinni. Eftir sinnhvorn karamelluDjæf héldum við af stað að nýju og nú alla leið út í Staðardal. Við býlið Stað tóku á móti okkur tveir ákaflega glaðlegir rolluhundar, en ef Bassa er illa við einhverja hunda eru það rolluhundar og Husky. Það upphófst ofboðsleg geltkeppni sem enginn gat unnið og henni lauk ekki fyrr en við skildum Bassa eftir einan inni í bíl og fórum út að skoða kirkjuna að Stað. Þegar við vorum ekki til að vernda hann þorði hann ekki að láta á sér kræla. Kirkjan að Stað er ákaflega falleg sveitakirkja og er öll nýgegnumtekin utan. Að innan er hún í þokkalegu standi þó vissulega megi margt smálegt laga. Garðurinn var sömuleiðis í ágætri hirðu og í honum má m.a. finna legstein með nöfnum þeirra sem fórust með eyfirska þilskipinu Talisman yst í sunnanverðum Súgandafirði árið 1922 og lesa má um HÉR

Svo var allt í einu komið laugardagskvöld og við á leið í Tjöruhúsið, besta fiskrétta - veitingastað norðan Alpafjalla. Aðsóknin var slík að við komumst ekki að fyrr en klukkan níu um kvöldið en biðin borgaði sig og maturinn var hverrar krónu virði og vel það. Það var orðið talsvert áliðið þegar haldið var til hvílu enda kvöldið fallegt og á fallegum kvöldum hefur alltaf verið erfitt að skríða í ból á Ísafirði.

Hvítasunnudagur og Toyotasýningin í Bílatanga opnaði kl. ellefu. Við litum inn eftir morgunheimsókn í annað bakaríiskaffihús bæjarins og þeir voru brattir Bílatangabræður þó aðsóknin væri kannski ekki eins og á stórættarmóti. Í Bolungarvík var opin sundlaug og þangað héldum við næst. Það hvarf sirka hálfur annar klukkutími í lauginni og síðan hálftími í gönguferð um tjaldsvæði Bolvíkinga og nágrenni þess. Þetta er flott svæði hjá þeim Víkurum og þeir eiga heiður skilinn fyrir framtakið. Svo fór örugglega hálftími eða meira í bíltúr um bæinn þveran og endilangan. Næsti áfangastaður var Hamraborg á Ísafirði og þá fékk ég fyrsta og síðasta ísinn í brauðformi með lúxusdýfu í allri Ísafjarðarferðinni - og hefði einhvern tíma þótt lítið!

Þegar nálgaðist kvöldmat pöntuðum við okkur borð á Húsinu, öðrum frábærum veitingastað bæjarins og vorum ekki svikin af þeirri heimsókn frekar en Tjöruhúsinu kvöldið áður. Síðan tók við bæjarrölt og -rúnt. Það var farið að líða á kvöldið þegar við hittum Bílatangamenn til að skipta um bíl og taka þann sem átti að fara á suður að morgni. Eftir skiptin var farið snemma í háttinn en á leið í náttstað litum við hjá þar sem ungt par var nýbúið að festa sér einbýlishús og var að koma sér fyrir. Fyrir á staðnum voru nokkrir vinir á þeirra aldri og það var tímanna tákn að þegar ég talaði um "húsið hans Hermanns Björns" virkaði ég eiginlega eins og geimvera - líklega hefur enginn á staðnum munað eftir Hermanni heitnum Björnssyni ökukennara, sem lengi bjó í þessu húsi. Síðan hafa að vísu nokkrir búið þar en hver kynslóð velur sitt nafn og í munni eldri Ísfirðinga eru t.d. húsin fjögur í Urðarvegsbrekkunni - þar sem ég ólst upp og bjó frá tíu ára aldri til fullorðinsára - venjulega kölluð kennarabústaðirnir, enda byggð sem slík kringum 1935.

Bíllinn sem við áttum að ferja suður að morgni var þessi glerfíni Toyota Hilux pallbíll - fisksalabíll eins og sumir húmoristar hafa kallað þessa pallbíla. Það var hreint ekkert fiskilegt við þennan snjóhvíta, 35"breytta pikkup:
..og af því við vorum stödd þarna fyrir framan húsið hans Annasar sem er við hliðina á húsinu hans Hermanns Björns sem aftur er við hliðina á húsinu hans Gríms Jónssonar sem aftur er við hliðina á húsinu hans Hálfdáns Bjarnasonar heitins og það var sumarkvöld og  stafalogn, þá voru teknar nokkrar montmyndir yfir Pollinn, svona til að sýna öðrum landsmönnum Ísafjarðarlognið:

Svo var komið að kveðjum og um leið og við óskuðum þessu unga fólki til hamingju með eignina, gat maður ekki varist þeirri hugsun að kannski yrði uppsprengt húsnæðisverð á höfuðborgarsvæðinu landsbyggðinni til hjálpar við að halda í sitt fólk. Þegar fólk er ungt, hraust, hefur þokklega vinnu og getur nælt í ágætt einbýlishús á einum af betri stöðum bæjarins fyrir andvirði einstaklingsíbúðar í Árbænum - hvað ætti þá að draga suður?

Mánudagsmorgunn rann upp. Annar í hvítasunnu og það var fastsett daginn áður að heimsækja Begga Ara í Tangagötuna áður en lagt yrði af stað. Beggi er einn þeirra sem er löngu hættur að vinna en getur ekki hætt að starfa. Hann er að smíða litla trillu í bílskúrnum og mér telst til að það sé fjórða nýsmíðin  á nokkrum árum auk tveggja eða þriggja endurbygginga smábáta. Ég var því miður ekki með myndavélina með mér og ætla því að notast við  mynd sem ég tók vorið 2009. Hún er tekin í Bolungavík og sýnir eitt af handarverkum Begga Ara. Þetta er bátur sem hann endurbyggði fyrir eiganda fyrir mörgum áratugum, eignaðist svo sjálfur fyrir einum fimmtán árum og endurbyggði þá aftur. Trillan er nú í eigu manns í Bolungavík en þær tvær sem Beggi hefur nýbyggt á sl. árum - bæði "Von" sem hann á með tengdasyni sínum og svo nýsmíðin sem nú er í skúrnum, eru keimlíkar Óskinni sem hér sést.Eftir kaffi og köku hjá Begga var ekkert að vanbúnaði og við brunuðum úr hlaði á hvítum hesti - eh, Hilux!  Á Súðavíkurhlíðinni lá þessi letingi á steini og naut frídagsins:Við rennum upp að Melrakkasetrinu í Súðavík. Þar var lokað en þó stutt í opnun dagsins. Við höfðum ekki tíma til að bíða en tókum myndir af gamla Eyrardalsbænum sem sómir sér vel í nýju hlutverki safnahúss og fræðaseturs:Við fórum líka niður á Langeyri en þar gat að líta aðra sjón, ekki jafn fallega. Þar hefur einn elsti eikarfiskibátur Íslendinga verið dreginn á land eftir að hafa legið lengi ónotaður við bryggju í Súðavík. Fengsæll ÍS var smíðaður árið 1931 og var í ágætu standi þegar Hraðfrystihúsið-Gunnvör ákvað að leggja honum. HG átti -og á - ágæta báta sem hafa verið notaðir við fiskeldiskvíar fyrirtækisins í Álftafirði og kannski hefur legið fyrir eitthvað það viðhald á Fengsæli sem þeir hafa ekki talið borga sig. Það er samt sárt að sjá fallegan gamlan bát verða vanhirðu að bráð:Næsti viðkomustaður okkar var selaskoðunarplanið neðan við Hvítanes í mynni Skötufjarðar. Að þessu sinni var fátt um sel en við vorum með nesti og það passaði fínt að nærast þarna enda komið hádegi. Eftir snæðing héldum við áfram fyrir Skötufjörðinn og heimsóttum Dúdda og Þórdísi að Sílakoti á Skarðseyri:

Dúddi breytist lítið. Mér er nær að halda að hann hafi ekkert breyst frá því ég hóf nám í bifvélavirkjun hjá honum þann 2. janúar 1980! Jú, kannski hefur hárið gránað og skeggið líka en annað hefur ekki breyst. Kannski fer það vel með fólk að hafa vetursetu á Spáni, allavega litu þau ótrúlega vel út bæði. (Þetta er nú samt ekki Þórdís þarna á myndinni, eins og glöggir sjá - þetta erum við Dúddi!)
Svo fjölgaði í kaffi og gamall samstarfsmaður úr Vélsmiðjunni Þór mætti á staðinn - Örn Jónsson, venjulega kenndur við hljómsveitina Grafík:Tíminn leið og okkar áætlun gerði ráð fyrir sundi að Laugum í Sælingsdal. Við kvöddum gott fólk í Sílakoti og héldum áfram suður. Teljari hraðamælisins fór að sýna tölur sem ekki varð komist hjá að mynda:....þetta var nefnilega nýr bíll, eins og áður kom fram og datt þarna í 888 kílómetra! Brátt vorum við komin til Hólmavíkur og þar hugkvæmdist okkur að hringja að Laugum og kanna opnunartíma sundlaugarinnar þar. Henni hafði þá verið lokað kl. þrjú og okkur var sagt að það væri hefðbundinn mánudagsopnunartími. Þá var að athuga með sundlaugina á Hólmavík. Þar reyndist allt galopið og við skelltum okkur í pottinn í klukkutíma eða svo. Það er rétt að fram komi að Elín Huld syndir yfirleitt alltaf eitthvað - ég geri það miklu sjaldnar enda eru pottarnir svo helvíti þægilegir....

Eftir sund sýndi ég Elínu húsið þar sem "Konan situr á tröppunum og spilar á harmoniku"  Ef enginn skilur hvað þetta þýðir, smellið þá HÉR:

Hvílík nánd við almættið að geta setið í tröppum húss síns og spilað svona fyrir gesti og gangandi!

Við héldum okkar suðurferð áfram og höfðum ekki langt ekið þegar þessi tala birtist á mælinum:Þar með hafði Hælúxinn hvíti lagt að baki sitt fyrsta þúsund og ef hann lendir í réttum höndum á hann eftir að skila mörgum slíkum. Þetta var öndvegisbíll þótt hann hefði ekki fínheitin úr Rav-inum, loftkælingu og krúskontról. Eyðslan var heldur ekki til að kvarta yfir og eftir tilbreytingarlítinn akstur frá Hólamvík og suður í Höfðaborg, sumpart á þurru en sumpart í ausandi rigningu áttum við eftir þriðja hluta tanksins. Við komum til Reykjavíkur upp úr miðju kvöldi og höfðum þá verið eina tíu tíma samtals að vestan.

Til hvers að flýta sér þegar tíminn er nægur?.................................................


04.06.2014 08:47

TOY?....


Til mín hringdi maður. Slíkt gerist öðru hverju og er yfirleitt bara skemmtilegt. Sum símtöl eru þó skemmtilegri en önnur og þetta var sannarlega eitt þeirra. Ég var spurður hvort mig langaði ekki til Ísafjarðar. Að sjálfsögðu sagði ég jú, enda langar mig oft til Ísafjarðar - ekki þó til að búa, svo það komi skýrt fram og enn síður til að vinna enda var allt slíkt fullreynt á sínum tíma. Það er hins vegar alltaf gaman að litast um, kíkja á kunningja (þá fáu sem ekki eru fluttir suður) og anda að sér hreinu lofti (sem vissulega er hreinna en hér í Höfðaborg)

Erindi þess sem hringdi var þó ekki að segja brandara þótt mikið hafi verið hlegið í símtalinu. Ég var spurður hvort - af því ég sagði jú - ég væri ekki til í að ferja nýjan sýningarbíl vestur fyrir hvítasunnuhelgina og suður aftur að henni lokinni. Það leist mér vel á. Þess vegna erum við Edilon B. Elínarson Breiðfjörð Thorsteinsson Budenhof Sandhaug Sóðalöpp á leiðinni til Ísafjarðar nk. föstudag. Norsararnir spá fínu veðri, og það er sko miklu meira að marka þá en íslensku spárnar. (sem raunar virðast alltaf breytast í takt við þær norsku)

Ég hef einu sinni áður ferjað bíl á milli Ísafjarðar og Reykjavíkur í þessum tilgangi. Í þeirri ferð varð dálítið óhapp sem kostaði nýtt TOY 7 - framnúmer og olli því að sláturtíðin hófst óvenju snemma það árið. Ég hef ekki fleiri orð um þann atburð en annaðhvort hafa stjórnendur fyrirtækisins sem sér um sýninguna fyrirgefið mér eða eru farnir að tapa minni........

Að öðru: Það kom fram í síðasta þætti að mikið stæði fyrir dyrum í Höfðaborg. Þar er engu logið. Það stendur sjúkrabíll fyrir dyrum og hann eigi alllítill!  Í tilefni ferðar sem framundan er, er verið að hægindisvæða sjúkrabílinn. Ég er að umbylta þeim litlu ferðainnréttingum  sem í hann voru komnar og byggja inn í hann náðhús af bestu gerð. Tækjabúnaðurinn er keyptur hjá Húsasmiðjunni, af gerðinni Shitmaster 2000 Pisswell og ætti botninn  ekki að vera suður í Borgarfirði með slíkum búnaði. Ennfremur er bætt í bílinn sérstakri geymslu fyrir regnföt, en mér hefur skilist að á þeim stað sem stefnt er til sé helst þörf á slíkum fatnaði. Öll leiða þessi umbrot til þess að stórskipið Stakkanes hefur verið sett í bið um hríð. Kannski muna einhverjir eftir línum sem ég skrifaði í maíbyrjun, um manninn sem sér um leigu á viðlegubásum í Bryggjuhverfinu. Ég hringdi í hann til að fá bryggjupláss fyrir Stakkanesið, það mun hafa verið um mánaðamót apríl-maí. Hann svaraði, sagðist vera upptekinn á fundi og myndi hringja eftir smástund. Þegar ég svo skrifaði áðurnefndar línur var liðin u.þ.b. vika frá símtalinu og maðurinn enn á fundi (væntanlega). Nú er semsagt liðið á annan mánuð frá því maðurinn lofaði að hringja, en Stakkanesið enn uppi á landi. Þetta hlýtur að vera einhver lengsti fundur sem sögur fara af!  

Nú stendur hins vegar ekki til lengur að sjósetja því Stakkanesinu verður hvort sem er ekkert sinnt fyrr en í júlíbyrjun. Á heilum mánuði getur svo margt breyst og hver veit nema í júlíbyrjun verði eitthvað allt annað uppi á teningnum?

Bassi er kominn úr morgungöngunni og við erum á leið suður að Kópavogshæli. Hvort við hefðum átt að fara þangað fyrir löngu læt ég öðrum eftir að dæma um.....

  • 1
Flettingar í dag: 50
Gestir í dag: 34
Flettingar í gær: 111
Gestir í gær: 45
Samtals flettingar: 642782
Samtals gestir: 91884
Tölur uppfærðar: 23.1.2019 04:07:41


Tenglar