Gunnar Th.
Fjórða kerfið.....


11.02.2012 21:08

Á alþjóðamarkað!

Á dauða mínum átti ég von en því ekki að alheimurinn veitti skrifunum mínum jafn mikla athygli og raun ber vitni. Undanfarið hef ég fengið erindi í tuga- eða hundraðavís frá fólki og fyrirtækjum út um allan heim sem eiga það sameiginlegt að vilja koma einhverju á framfæri við mig.

Ég get ekki neitað því að ég er dálítið -nei, ekkert dálítið, heldur alveg rosalega - upp með mér af þessum mikla áhuga á annars frekar einfeldningslegum skrifum sem ég hef bögglað frá mér á undanförnum árum. Mér sjálfum finnst ekkert sérstaklega merkilegt við þau, þetta hafa verið svona almennar vangaveltur innan um aulafyndni og stöku endurminningar. Nokkrir ferðapistlar hafa slæðst með en varla eru þeir svo merkilegir miðað við allt það landkynningarefni sem unnið hefur verið af hæfu fólki og deilt út til víðlesinna fjölmiðla eða sjónvarpsstöðva erlendis.

Það hefur annars vakið eftirtekt mína að allt þetta áhugasama útlenda fólk hefur talið tvo af pistlunum mínum sérstaklega áhugaverða. Svo áhugaverða raunar, að langflestar eða allar heimsóknir þeirra hafa verið bundnar þessum tveimur pistlum. Þeir eru nokkurra ára gamlir og heita "
Þjófurinn á hlaupahjólinu" frá 16. nóvember 2008  og "Toppur" frá 5. júní 2009.

Það sem þessir nýbökuðu lesendur mínir hafa viljað koma á framfæri við mig er ákaflega margvíslegt. Það geta verið tilboð um kynni af huggulegum stúlkum, tilboð um fasteignalán, tilboð um skuldaráðgjöf (væntalega ætlaða þeim sem hafa farið flatt á fasteignalánum) og svo vangaveltur um stöðu hins óheppna blaðakóngs Ruperts Murdock sem hefur átt í vanda vegna símhlerana eins blaða sinna, "News of the world". Sýnishorn af þessum vangaveltum lítur svona út:

  1. Given the forthcoming legal action against Rupert Murdock's News Corporation in America, the trail gets ever closer to Murdock himself. Is he bothered, I ask myself, is he still capable of remorse or fear after all this time?.

Ég hef raunar enga skoðun á Rupert Murdock eða blaðaútgáfunni hans og skil ekki almennilega hvers vegna einhver úti í heimi finnur samherja í mér!  Þessir sömu lesendur mínir hafa ekki lýst skoðun sinni á því sem fram kemur í pistlunum sem þeir hafa "kommentað" á, enginn hefur til dæmis sýnt áhuga á húsbíls "toppnum" sem pistillinn snýst um, enginn hefur neina sérstaka skoðun á ferðalaginu sem lýst er í pistlinum um Þjófinn á hlaupahjólinu og enginn hefur hrósað myndunum sem fylgja þeim pistli og ég var svo stoltur af - sérstaklega þeirri af gömlu trillunni. Ég hélt að útlendingar kynnu að hafa áhuga á þeirri mynd því ljótustu trillur heims eru í útlöndum og það er því tilbreyting fyrir útlendinga að sjá jafnfallegan bát og þennan þó hann sé löngu kominn úr notkun þegar myndin er tekin.

Í fyrstu fór þessi áhugi útlendinga á pistlunum mínum í taugarnar á mér og vikulega eyddi ég út sirka 50-60 þessháttar heimsóknum. Nú geri ég minna af því, leiði þetta hálfpartinnn hjá mér enda safnar póstforritið þessu sjálfkrafa í ruslasarpinn. Bloggpistlarnir njóta hins vegar nærverunnar eins og sjá má ef hlekkirnir hér ofar eru skoðaðir.  Fleiri pistlar en þeir nefndu hafa hlotið þessa upphefð, s.s. "
Að Folafæti", "Út um eyjar" (ég hef eytt þeim öllum og aðeins eru eftir tilkynningar á póstinum)  og "Absolutely fabulous"

Í seinni tíð hefur mig raunar grunað að þessi óvænta og óverðskuldaða upphefð sé alls ekki öll þar sem hún er séð heldur aðeins ávöxtur einhverrar óværu sem tekið hefur sér bólfestu í bloggkerfum -visir.is- og lifi þar góðu lífi vegna dug- áhuga- eða getuleysis umsjónarmanna vefjarins. Hver veit?

Ég ætlaði að fá einhvern til að taka mynd af mér í fallegu, nýju lopapeysunni sem hún Fríða systir prjónaði handa mér. Það hefur ekki gengið eftir og nú hafa ullarsokkar fylgt peysunni eftir. Ég mun sjá til þess að fljótlega birtist mynd af skrifaranum íklæddum lopapeysu og lopasokkum - og einhverju þar á milli. Ég fann hins vega ágæta mynd af systrunum Rósu (tv) og Fríðu sem frændi minn og nafni, Theodór Barðason tók sl. sumar. Það má vel ylja sér við þessa mynd þangað til. Sá stendur ekki einn sem á þessar að.......

Flettingar í dag: 181
Gestir í dag: 54
Flettingar í gær: 122
Gestir í gær: 55
Samtals flettingar: 64566
Samtals gestir: 16763
Tölur uppfærðar: 26.4.2024 23:50:07


Tenglar