Gunnar Th.
Fjórða kerfið.....


08.04.2012 08:27

Páskadagsmorgunn.

Enn er  klukkan rúml átta - raunar farin að halla í hálfníu - og það er skítaveður! Ég kann ekki annað orð yfir það sem ég heyri og sé utan við dökk-filmuklæddar gluggarúðurnar hér á Höfðingjasetrinu. Ég horfði á hana Ásdísi spá sjö metrum í spá gærkvöldsins. Trúið mér, það eru engir sjö metrar! Hvinurinn í þakgluggum setursins var þvílíkur í morgun að hefði dugað til að vekja mann upp frá dauðum.

Ég veit um fólk sem hefur beðið alla páskana eftir að komast á skíði. Ég fullyrti við þetta sama fólk í gærkvöldi að það væri spáð fínu skíðaveðri! Ég er í verulega vondum málum í dag, trúið mér!

Bergrós Halla gerðist athafnakona í gær, leigði sér bás í Kolaportinu og seldi það sem hún og aðrir nákomnir voru hættir að nýta. Hún heimsótti mig hingað á setrið á föstudaginn en taldi sig þá vera komna með nægar söluvörur þó svo hér flæddi upp úr öllu kössum. Hún stóð svo vaktina í gærdag ásamt vinkonu sinni sem leigði samliggjandi bás. Þegar ég spurði frétta af gangi mála í gærkvöldi var mér sagt að hún hefði verið "tólfþúsundkall í plús". Nú er ég bara ein einföld sál, og varla nema hálf eða kvart þegar kemur að viðskiptum. Þess vegna láðist mér að spyrja hvort tólfþúsundkallinn hefði verið brúttó eða nettó - básinn kostaði 9500- krónur og þess vegna skipta brúttó og nettó verulegu máli, eins og hver maður sér.

Þessir páskadagamorgnar hafa verið tilvaldir til að þrífa bíla niðri á skoðunarstöð, þar sem ágæt aðstaða er til slíks. Árangurinn er sá að tveir fyrrum "heimilisbílar", þ.e. hrossadráparinn og litli, blái "frúarbíllinn" ljóma eins og sólin, lausir við vetrartjöruna og stífbónaðir. Sá blái fylgir "mömmu" sinni og hverfur því úr minni eigu eftir helgina. Það var ekki seinna vænna að hreinsa hann upp, er ekki venjan sú að það sem selt er er afhent hreint?

Eitt enn, sem kannski skiptir ekki máli: Það hefur orðið sú breyting á síðunni að ekki er lengur hægt að setja inn myndir í Explorer 9. Til að hægt sé að setja inn myndir þarf að nota Google Chrome eða Firefox. Ég á báða vafrana uppsetta en hef ekki notað þá að neinu marki, kannski vegna þrjósku og kannski vegna vanans. Þetta hefur engu máli skipt ennþá, því það hafa svo sem engar nýjar myndir verið teknar. Ég ætlaði að birta myndir af Höfðingjasetrinu en ákvað að gera það ekki - svona neðanjarðarbúskapur á ekki erindi út á netið! Það er samt ekki ólíklegt að síðar meir birtist einhverjar myndir af sjálfu vinnuplássinu, eða því sem unnið verður að þar hverju sinni.

Ég er á leiðinni suður í Hafnarfjörð í eignakönnun. Þar stendur Isuzu NPR og bíður eftir smá klóri á bakið. Ég ætla að klóra honum dálítið...............

Flettingar í dag: 7
Gestir í dag: 5
Flettingar í gær: 122
Gestir í gær: 55
Samtals flettingar: 64392
Samtals gestir: 16714
Tölur uppfærðar: 26.4.2024 00:50:15


Tenglar