Gunnar Th.
Fjórða kerfið.....


Færslur: 2012 September

23.09.2012 10:45

Kjéllíngarfjöll!

Það tókst loksins að ljúka við Átta daga ferðina, Formúlukeppnin sem tafði framhaldið er löngu búin og enn er keppni að bresta á - að þessu sinni í Singapore. Það er því ekki seinna vænna en hefjast handa við skrásetningu næstu ferðar, áður en enn ein keppnin stöðvar skriftir!

Verslunarmannahelgi 2012! Önnur tveggja stærstu ferðahelga sumarsins og enn var ferð fyrir dyrum. Reyndar hefur skapast sú hefð að ég fer helst ekki í útilegu um verslunarmannahelgar, vegna mannfjölda á gistisvæðum og bílafjölda á vegum að og frá þeim. Nú var annað í bígerð og ætlunin var að eyða helginni norðanlands og að henni lokinni aka suður Kjöl með viðkomu á Hveravöllum og í Kerlingarfjöllum. Eins og aðrar áætlanir átti þessi eftir að slípast og aðlagast öðrum. og endirinn varð sá að á laugardeginum var ekið á einkabílnum austur að Flúðum,  horft á torfærukeppni traktora í einmunablíðu og haldið heim að kvöldi. Það var svo á sunnudagsmorgni sem ekið var af stað úr bænum á ferðadrekanum og haldið upp að Geysi, þar sem áð var og tekið bensín. Engin viðstaða var við Gullfoss heldur ekið beint inn á Kjalveg. Vegurinn  heilsar ákaflega vel, malbikaður og breiður. Ekki var Adam þó lengi í þeirri paradís og nákvæmlega á mótum malbiks og malar mætti okkur stór rúta full af fólki sem kom ofanað.  Ferðadrekinn var stöðvaður úti í kanti og á því augnabliki em rútan renndi yfir skilin var mikil klappað inni  í henni. Fögnuðurinn gaf okkur smá hugmynd um það sem koma skyldi!

Malarvegurinn var enda eitt þvottabretti. Þrátt fyrir að linað væri í dekkjum drekans víbraði hann og skalf svo allt lauslegt var á iði. Besta ráðið var að slá dálítið í og reyna að halda hraða yfir vegöldurnar. Það gat þó verið varasamt því mikil lausamöl var á veginum og beygjurnar erfiðar, auk þess sem það var einfaldlega töluverð umferð og stöðugt verið að slá af og mæta. Það gekk þó nokkurn veginn vandræðalaust að komast inn að Hvítárbrú og skammt frá henni var beygt út á vegslóða sem liggur að gamla sæluhúsinu við Hvítárvatn. Efnið í þessum vegslóða var tvenns konar, annars vegar grjót, mismunandi stórt, hins vegar hreint, massíft  og ómengað moldarryk!

Á myndunum er horft til vesturs, í átt til Langjökuls og það er horft til Skriðufells og jöklanna tveggja, syðri- og nyrðri Skriðjökuls sitthvorumegin við það. Á þeirri hér neðar er ferðadrekinn á fyrsta áningarstað við veginn og í hristingnum  hefur liðið yfir báða kastarana að framan!Við hið fornfræga sæluhús Ferðafélagsins í Hvítárnesi er lítið tjaldsvæði. Við það er hreinlætisaðstaða sem nýtur vatns úr nálægri borholu og dælt er upp á forðatank. Landvörður, sem venjulega sinnir staðnum hafði verið kallaður til starfa í Þórsmörk og þess mátti sjá merki í tómum vatnstanki og salernum yfirfullum af afurðum útlendinganna sem héldu til á blettinum. Ekki kom þetta þó að neinni sök fyrir okkur en vissulega var leitt að sjá þessa umgengni á svæðinu. Sæluhúsið var öllu meira augnayndi og það var myndað í bak og fyrir:


Áfram var haldið og ekið til norðurs, samhliða Kjalvegi. Leiðin lá up með Svartá og síðan yfir hana við skálann að Árbúðum. Þaðan ókum við svo Kjalveg inn að vegamótum Kerlingarfjallavegar. Við vegamótin var Landróverjeppi, greinilega bílaleigubíll og við hann var kona sem veifaði okkur um leið og við beygðum inneftir í átt til fjallanna. Ég sneri við til hennar og eftir nokkur orðaskipti á ensku kom í ljós að hún vildi athuga hvort mögulegt væri að fá far inneftir. Hún hafði verið í símasambandi við skálaverði í Kerlingarfjöllum og hugðist ganga þangað frá vegamótunum. Það var hins vegar talsvert liðið á daginn og dökk rigningaský yfir, svo verðirnir höfðu bent henni á að reyna frekar að fá far alla leið. Í ferðadrekanum var nóg pláss fyrir smávaxna, franska ferðakonu og innan stundar vorum við aftur lögð af stað í átt til Kerlingafjalla. Vegurinn þangað reyndist enginn eftirbátur Kjalvegar hvað varðaði þvottabretti  og það var engin fljúgandi sigling á okkur inneftir. 

Í Kerlingarfjöllum var þokkalegt veður, dálítill vindsperringur og hálfkalsalegt en hékk þó þurrt meðan við vorum að koma okkur fyrir á tjaldsvæðinu. Mér þótti þar flest á verri veg frá því ég var þar á sama tíma 2010, grasið var uppspænt og svæðið allt að verða hálfgert moldarflag. Okkur þótti sýnt að ekki yrði farið í langar skoðunarferðir þetta kvöldið, grillið var tekið út og tengt og þeir félagar Orri og Tjörvi viðraðir. ( Heiðurs- og forréttindahundurinn Edilon B. Breiðfjörð Budenhoff var enn í sumardvöl hjá sínum fyrri eigendum og því ekki með í þessarri ferð frekar en Vestfjarðatúrnum)


Það stóðst á endum að eftir kvöldmat fór að rigna og grillinu var skotið í skjól innundir bílinn. Stutt kvöldgöngu /uppvasksferð upp að veitinga-og gistiskálanum dugði til að gegnbleyta okkur öll fjögur, og það var ákaflega notalegt að skríða undir feld og pakka sér saman í sængina undir dynjandi rigningarsöng á plastþaki drekans. 

Morguninn var bjartari og rigningin var farin eitthvert annað að hrella aðra ferðalanga. Það var því tilvalið að mynda aðeins yfir svæðið.Þessi stóri, þýski ferðabíll sem sést þarna á miðri mynd var eiginlega sér kapítuli. Þetta var Benz Unimog, geysilega öflugur bíll og þetta háa hús sem á honum er var dregið upp og niður eftir þörfum, hækkunin var vel rúmur metri, sýndist mér.

 Í þessum litlu leigukofum sem mér skilst að séu kallaðir nípur, var hægt að kaupa gistingu og miðað við hreyfinguna kringum þá voru þeir vinsælir. Það er a.m.k. klárt að þeir sem sváfu í tjöldum um nóttina hafa flestir óskað sér slíks skjóls:

Að morgunverkum loknum lá leiðin upp í fjöllin. Það ískraði í ferðafélaganum, sem var á fullu að endurupplifa unglingsárin, þegar skíðaskólinn var starfræktur og hann (þ.e. ferðafélaginn) hafði dvalið um skeið í búðunum og stundað skíðin undir handleiðslu landsfrægra manna. Ég segi það dagshreinasatt að henni Dagnýju þótti ekki leiðinlegt að koma aftur upp í fjöllin eftir  þrjátíu ár og komast í dálitla snertingu við tíma sem var en kemur aldrei aftur. Þar sem þau gemlingarnir renndu sér undir stjórn ekki ómerkari manna en Eyjólfs Kristjánssonar og Örnólfs Valdimarssonar var nú grjóturð, skálinn sem þau höfðu sem athvarf og borðuðu nestið sitt er yfirgefinn kumbaldi með neglt fyrir dyr og glugga:
Ég verð að gera hér hlé en lofa........

09.09.2012 09:58

Átta daga ferðin #5, frá Tálknafirði og heim.

 Það er kominn tími til að ljúka þessarri löngu ferðasögu og koma nýjum að. Það rigndi talsvert á Tálknafirði aðfararnótt 20. júlí og um morguninn var allt rennblautt. Sólin var komin hátt á loft þegar við skriðum á fætur og það blés talsvert. 


Við þær aðstæður var jörðin fljót að þorna og við settum upp skjóltjöld við ferðadrekann umhverfis morgunverðarborðið. Hundarnir fengu sína hreyfingu og þegar allt var tilbúið var lagt í´ann að nýju. Fyrstu kílómetrarnir voru þó eknir í öfuga átt, út að "gömlu" heitu pottunum þeirra Tálknfirðinga utan við þorpið. Þar voru fyrir nokkrir útlendingar sem sýnilega höfðu haft  næturdvöl á staðnum. Okkar viðstaða varð því ekki löng, aðeins rétt skoðunin og svo var haldið til baka. Önnur viðkoma var á bryggjunni - nema hvað?- og þar myndaði ég dálítið sérstakan bát. Þetta var BILLA BA 75, sem var alltaf dálítið sérstök fyrir þá sök að vera stór, gaflbyggður plastbátur með afturbyggingu. Það var frekar sjaldgæft að sjá svo stóra báta af plastbátakynslóðinni afturbyggða og BILLA var alltaf dálítið "öðruvísi".  Ég vissi að báturinn hafði staðið ónotaður á landi um árabil og átti ekki von á öðru en að sjá hann eins og áður. En í hverfulum heimi er fáu að treysta og BILLA  var ekki lengur afturbyggð, heldur eiginlega húslaus með öllu. Á hana hafði verið tyllt einhverju hrófi af öðrum bát, alveg fram á hnýfil og ekki fannst mér þetta nein virðing við hana Billu sem í mínum huga átti að vera afturbyggð, heldur fannst mér þetta eins og hálflélegur brandari.

Þorpið var kvatt og haldið inn með firði, fyrir hann og upp Mikladal áleiðis til Patreksfjarðar. Þar átti Dagný skyldfólk og þar skyldi áð um stund. Á Mikladal fór ferðadrekinn að hita sig, nokkuð sem ekki hafði gerst áður. Allt virtist þó eðlilegt þegar upp kom og ég hafði engar áhyggjur af þessu frekar. Fyrsti viðkomustaður þegar niður kom var þó þvottaplanið þar sem brynna skyldi drekanum. Þá kom í ljós talsverður kælivatnsleki af vélinni sem ekki varð komið auga á með góðu móti. Það er góður kostur þegar bílar taka upp á því að bila, að bila þá á virkum degi í þéttbýli auk þess sem ættingi ferðafélagans var verkstæðismaður á staðnum og ökumaðurinn bifvélavirki. Þessi vatnsleki raskaði ekki ró okkar, við skelltum okkur í nýju sundlaugina þeirra á Patró og flatmöguðum þar í sólskininu drjúga stund. Síðan var farið að leita að verkstæðisættingjanum. Hann reyndist þá hafa brugðið sér af bæ en samstarfsmaður lánaði þau verkfæri sem þurfti til að finna lekann og laga hann. Lítil vatnshosa hafði nuddast í sundur í skakstrinum norður Strandir og út í Selárdal. Þetta var fljótviðgert og á eftir skoðuðum við bæinn og litum í búðir. Eins og sjá má á myndunum hér fyrir neðan var vindurinn dottinn niður og veðrið svo sannarlega ekki að spilla neinu : Ég hafði aldrei farið í nýju sundlaugina á Patró (og raunar ekki í þá gömlu heldur) svo ég gat bætt við einum krossi á Vestfjarðalistann. Við athugun á honum kom í ljós að þar með vantaði aðeins þrjár laugar á listann svo öllum vestfirskum sundlaugum væri náð. Það var ánægjuleg tilviljun að auk laugarinnar í Reykjarfirði á Ströndum (sem verður sérverkefni næstu ára)  voru aðeins tvær eftir, og báÐar voru á leið okkar. Annars vegar var það sundlaugin á Krossholtum á Barðaströnd, hins vegar sumarhúsalaugin við Flókalund. Af símtali við Eyjólf rafvirkja frá Lambavatni á Rauðasandi fyrr um daginn vissi ég að sú laug var biluð enda var Eyfi að vinna í henni. Mér skildist þó að hún yrði orðin nothæf um það er við kæmum að Flókalundi og ekki ólíklegt að ég gæti farið í hana. 

Veðrið var hreinlega of gott til að eyða því í akstur, en við kvöddum samt Patró og héldum inn Raknadalshlíð að fjarðarbotni. Við okkur blasti Skápadalur inn úr botninum, þar sem Garðar BA liggur á kambi og ryðgar. Þetta elsta stálskip Íslendinga (sm. 1912)  sem enn heldur nokkurn veginn lögun sinni væri trúlega betur komið annarsstaðar sem safngripur. Þarna í Skápadalsfjörunni verður ekkert fyrir það gert og á meðan Garðar sígur saman hrynja þau niður hvort á sínum stað, Suðurlandið á Djúpavík (sm. 1891) og  Ingólfur í Stykkishólmi (sm.1912)

Kleifaheiðin, milli Patreksfjarðar og Barðastrandar er varla nein heiði lengur, svona á vestfirskan heiðamælikvarða, heldur malbikuð hraðbraut. Eftir skamman akstur blasti Breiðafjörðurinn við okkur í allri sinni dýrð og von bráðar vorum við komin að Krossholtum. Ég hafði samið við Dagnýju um að fá að skreppa í laugina þar, en hafði vit á að þegja um þá staðreynd að korteri innar væri önnur sem ég þyrfti líka nauðsynlega að heimsækja. Við laugina á Krossholtum var komin glæný búningsaðstaða og við hana var vörður sem rukkaði fimmhundruðkall ofaní. Þeim aurum var vel varið því á Krossholtum er ekki aðeins þassi ágæta sundlaug heldur líka steinhlaðinn náttúrupottur neðan við laugina, sem toppar allar steinsteyptar laugar landsins! 

Eftir baðið átti ég eftir það erfiða verkefni að upplýsa Dagnýju um laugina í Flókalundi, augnabliki innar.  Hennar þolinmæði og þrautseigja á sér lítil takmörk eins og ég reyndar vissi fyrir, og í því skjóli skákaði ég. Hún lét sér duga að hrista hausinn lítillega og lýsa því yfir að mikið væri gott að hún þyrfti ekki að skilja alla hluti!  

Eyjólfur Tryggvason frá Lambavatni var að störfum við sundlaugina í Flókalundi þegar okkur bar þar að. Þar hafði vatn komist í dælurými og hlotist af nokkrar rafmagnsskemmdir. Allt var þó á réttri leið og í lauginni var talsvert af sumarhúsagestum með börn. Ég skellti mér ofaní og prófaði einnig báða heitu pottana. Á sirka korteri var tilgangnum náð og mér var þarmeð heimilt að merkja við þessa litlu en prýðilegu laug á listanum mínum. Þar með gat ég lýst því yfir að allar sundlaugar Vestfjarða hefðu verið sigraðar, að Reykjafirði á Ströndum undanskildum. Sú laug er dálítið sér á parti vegna samgönguleysis og ætti því eiginlega að vera undanskilin. Hún er samt á listanum og verður því að sigrast, þótt síðar verði.

Frá Flókalundi ókum við hefðbundna leið suður nes, firði og hálsa alla leið í Bjarkalund. Vegurinn var á löngum köflum malbikaður og malarhlutar hans með skársta móti svo ekki var undan neinu að kvarta, ferðadrekinn át þjóðveginn með bestu lyst enda kominn á þrjátíuogfimmþumlungadekk sem fyrr segir, og kappaviðgerðin hans Domma frá Ísafirði virtist standa sig með prýði. Það var komið fram yfir venjulegan kvöldverðartíma þegar við renndum í hlað í Bjarkalundi og við orðin svöng. Þar var hins vegar boðið upp á tvíréttað kvöldverðarhlaðborð á verði fyrir venjulegt fólk og því var engin leið að hafna. Þegar við bættist að staðarhaldarar reyndust skyldfólk Dagnýjar frá Patró var kvöldið neglt!  Þessutan hittum við í salnum talsvert af vinafólki mínu frá Ísafirði sem hélt vísi að ættarmóti á staðnum og urðu fagnaðarfundir. 

Eftir kvöldmat var ferðadrekanum brynnt á dælu Enneins, hann hafði síðast fengið sopann sinn á Patró og samkvæmt hávísindalegum útreikningum hafði bensíneyðslan nákvæmlega ekkert breyst viðþrjátíuogfimm tommu dekkin sem sett voru undir hann fyrr í sumar í stað þeirra þrjátíuogþriggja. Drekinn vildi hafa sína átján, nítján lítra á hundraðið og ekkert múður. Við því var ekkert að segja, svona var þetta bara og það sem hann hafði skilað til okkar í ferðagleði og -hamingju frá vori 2010 var miklu meira en svo að teldist halla á hann!

Náttstaður var ákveðinn að Reykhólum. Tjaldsvæðið þar var inni á útilegukortinu og því sjálfsagt að nýta sé það. Veðurspá morgundagsins, laugardags, var afar slæm og stöðugt var verið að vara ferðafólk með létt draghýsi og annan ámóta búnað við vindhviðum og byljum um allt vestanvert landið. Við Bjarkalund var enn einmunablíða og gætti vart vinds á föstudagskvöldinu þegar lagt var af stað til Reykhóla. Þar útfrá var annan uppi á teningnum, hávaðarok og hálfgerður skítakuldi með! Frændurnir Orri og Tjörvi fengu sitt kvöldrölt meðan búist var til svefns og voru, að mér sýndist, blátt áfram fegnir að komast aftur inn í bíl. Orri valdi sér stað í fangi og virtist kunna vel við sig:

Það fór svo sem ágætlega um okkur þarna á Reykhólum og bíllinn ruggaði notalega í hviðunum. Það gnauðaði dálítið í topplúgunni í verstu hviðunum en að öðru leyti urðum við lítt vör við versnandi veður. Að morgni, þegar sundlaugin opnaði og ég gat afhent útilegukortið mitt og greitt þannig fyrir næturdvölina tók ég nokkrar myndir yfir þann hluta blettsins sem ætlaður var "æðri" ferðamáta!  Ég sá ekki betur en sveitungi minn, Sighvatur Björgvinsson væri með hjólhýsi og Pajerójeppa rétt aftan við ferðadrekann. Við erum víða, Ísfirðingarnir:

Okkur var ekkert að vanbúnaði og eftir skoðunarferð út að þörungaverksmiðjunni (les: bátahöfninni)  skutum við einni mynd uppeftir þorpinu. Augnabliki síðar voru Reykhólar að baki:

 

Þegar kom á þjóðveginn rétt sunnan við Bjarkalund var ljóst að þar ríkti ekki lengur blíða gærkvöldsins, heldur hafði vindsperringurinn frá Reykhólum tekið yfir. Í útvarpinu var stöðugt verið að vara við illviðri og við hrósuðum happi yfir veðrinu í Reykhólaveit sem, þrátt fyrir belginginn var ekkert í líkingu við það sem spáð hafði verið. Ég hafði sambandi við Sverri Guðmundsson, útgerðarmann, skipstjóra, stýrimann og Ísfirðing, Sverrir var fyrir sunnan og kannaðist ekki við neitt veður þar, en taldi því aðeins hafa seinkað. Skipstjórnarmenn eru vanir að reiða sig á veðurfræðinga og Sverrir svaraði litlu þegar ég gerði mig líklegar til að lítilsvirða þá ágætu stétt í orði. Mig langaði samt til að hringja aftur í Sverri þegar við komum í Búðardal, því samkvæmt spánni átti á því augnabliki að vera hið versta veður á því svæði. Ekki var það alveg, og það má dæma veðrið af myndum sem ég tók á staðnum. Myndefnið er efni í heilan pistil en ég læt duga nokkur orð:Eflaust sjá hér flestir aðeins gamalt bílflak - og vissulega er þetta gamalt bílflak. Einu sinni var þessi bíll hinsvegar ekkert flak, heldur fínasti ferðabíll. Hann hét þá "Járntjaldið" og nafnið er enn sýnilegt á húddinu. Ég ætti að þekkja það. Ég límdi það sjálfur á......

Það hófst allt með þessum bíl. Þetta er bíllinn sem við keyptum vorið 2000, fyrsta vorið okkar syðra. Mig hafði árum saman langað í ferðabíl, en búandi vestra voru möguleikarnir færri og efnahagurinn mun verri. Það var ekki fyrr en við fluttum suður sem tækifærið gafst og þegar ég sá þennan gamla leigubíl úr Vestmannaeyjum á bílasölu Matthíasar fór heilabúið á flug. Vinafólk okkar átti innréttaðan Ford Econoline, helvíti fínan bíl og úr honum fékk ég hugmyndir að innréttingu sem sameinað gæti fjölsætabíl og svefnvagn. Bíllinn var keyptur og í lánshúsnæði suður í Hafnarfirði, þar sem Kjartan Hauksson kafari og Ísfirðingur réði ríkjum, var innréttingin smíðuð. Sumarið 2000 var svo ferðast út í eitt, 2001 og 2002 einnig og það sumar var Járntjaldinu ekið tíuþúsund kílómetra - aðeins! Bíllinn var geymdur inni á vetrum og var því alltaf í sama ástandi að vori og honum var lagt að hausti. Það kom reyndar fljótlega í ljós að Járntjaldið var allt of lítið fyrir fjölskylduna og haustið 2001 keypti ég gamla Toyotarútu af ALP- bílaleigunni og hófst handa við smíði stærri og betur búins bíls. Sá var tilbúinn vorið 2003 og þá var Járntjaldið selt til Búðardals. Ég vissi það eitt síðan að bílnum hafði hnignað jafnt og þétt enda hirðan greinilega ekki sú sama og verið hafði. Svo hvarf Járntjaldið og það er alveg víst að þegar við héldum í áttadagaferðalagið okkar með viðkomu í Búðardal hafði bíllinn ekki staðið þarna bak við verslunina. Í millitíðinni hafði hann líklega verið dreginn út úr nálægri skemmu og skilinn eftir þarna á planinu, trúlega til förgunar. Í öllu falli var dagsljóst að ævi Járntjaldsins var öll.

Þetta ryðgaða og rykfallna bílflak geymdi þvílíkan fjársjóð minninga að ekki verður upp talið. Á þessum bíl fór ég haustferðina 2000 sem náði hápunkti með Hríseyjarferð. Sambærilega haustferð fór ég 2001 sem hafði vendipunkt í Grímsey. Hann hafði hýst mig einan í sex stiga frosti á lokuðu tjaldsvæði á Ólafsfirði, hann hafði hýst sex manns á tjaldsvæðinu í Álfaskeiði við Flúðir og allt þar á milli á flestum stöðum landsins. Úr þessum ferðum eru til ótal ljósmyndir, því miður allar á pappír og að þeim hef ég ekki aðgang eins og er. Eina eða tvær ætti ég þó að geta fundið ef ég leita vel - bíðið aðeins!:

Þessar tvær fann ég í gamalli möppu af skönnuðum myndum, sem færst hefur milli tölva um árabil. Á þeirri efri er Járntjaldið í ferð með Húsbílafélaginu, staðurinn er Lindartunga í Kolbeinsstaðahreppi á Mýrum og prinsessan er Bergrós Halla, nú Verslódama, tónlistakona og verðandi ökunemi m.m. Hún verður sautján þann 27.10. nk.! Takið eftir áklæðinu á bekkjunum......

Neðri myndin er einnig tekin í ferð með Húsbílafélaginu. Sú var farin að Seljavöllum undir Eyjafjöllum en þarna er Járntjaldið á einkaþvælingi upp á Reynisfjall ofan við Vík í Mýrdal. Líklega var þessi ferð sú síðasta sem farin var á Járntjaldinu í okkar eigu, ef marka má dagsetninguna. Það hefur verið tekið á hús eftir hana og var svo selt að vori til Búðardals, sem fyrr segir.

Nú er öldin önnur og Járntjaldið má muna sinn fífil fegurri. Það munu ekki fleiri njóta sömu ánægju og við af þessum bíl. Hann er ónýtur af vanhirðu og langri stöðu.  Þrátt fyrir það má enn sjá handarverkin. Áklæðið sem Elín Huld heftaði yfir svamp á krossvið er blettótt og rifið, sömuleiðis grænu gardínurnar hennar,  borðið á "skærafótunum" er rispað og undið og mýsnar hafa fundið sér æti í gömlum ferðahandbókum og -pésum:

Þetta var eiginlega hálf hryggileg sjón, og leitt til þess að vita að nú beið allra þessarra hluta það eitt að lenda á haugunum. Þar á móti kom ákaflega skemmtileg tilviljun. Ég sagði hér ofar að þegar ég smíðaði innréttinguna í Járntjaldið hafi ég stuðst við lausnir í Ford Econoline vinafólks okkar. Það var ekki leiðinlegt að geta loks myndað þessa tvo bíla saman:Já, þannig var nú það. Úr þessum Econoline komu hugmyndirnar að innréttingunum í Járntjaldinu, innréttingum sem nýttust okkur framúrskarandi vel þrjú ferðasumur. Nú hef ég átt "fyrirmyndina" síðan haustið 2009, ferðast á "henni" þrjú sumur, 2010, ´11 og ´12 en tíuþúsundkílómetra sumri hef ég ekki náð síðan Járntjaldið var og hét og næ trúlega aldrei aftur!

Við lögðum á síðasta hluta heimferðarinnar í þessu veðri sem á myndunum sést. Eftir því sem sunnar dró versnaði í því þó hvergi væri neitt skaðaveður í líkingu við það sem spáð var. Það var hálfgerður ruddi þegar við ókum undir Hafnarfjalli og Kjalarnesið, verra varð það ekki sem betur fór. 

Það var farið að kvölda þegar ferðadrekanum var lagt í stæðið sitt á Ártúnshöfðanum og lengstu ferð sumarsins 2012 var lokið.

07.09.2012 18:20

Yngt upp svo um munar!

Ég ætla að skjóta hingað inn stuttri montyfirlýsingu: Það er allt útlit fyrir að grásvarti ferðadrekinn, sem stundum hefur verið kallaður Arnarnes, hafi farið sína síðustu ferð í minni eigu. Það má þó vera að ein sé eftir, það ræðst af veðri og færð, því í sumar var ætlunin að aka fyrir Klofning og yfir Haukadalsskarð til austurs. Tímaskortur hefur hamlað þeirri för og það verður svo sem áfram tímaskortur en ferðin er enn á borðinu. Það sem hangir á spýtunni er annar Econoline, lengri, breiðari, þyngri, 10 árum yngri, með stærri vél og öflugri búnaði. Eftir u.þ.b. 10 mínútur legg ég af stað austur fyrir fjall til að ganga frá þeim kaupum. Hann verður svo sóttur seinna í kvöld þegar ég fæ aðstoðarekil með mér. Meira af þessu fljótlega.........


  • 1
Flettingar í dag: 50
Gestir í dag: 34
Flettingar í gær: 111
Gestir í gær: 45
Samtals flettingar: 642782
Samtals gestir: 91884
Tölur uppfærðar: 23.1.2019 04:07:41


Tenglar