Gunnar Th.
Fjórða kerfið.....


Færslur: 2015 Desember

31.12.2015 16:43

Um áramót.


Hún lifði ekki lengi, kínverska jólaserían sem ég keypti fyrir mæðgurnar Elínu Huld og Bergrós Höllu, og setti upp á svalahandrið íbúðarinnar í Hraunbænum. Kannski náði hún þremur vikum. Nú er hún dauð, svo steindauð að mér tókst ekki með nokkru móti að koma í hana lífi. Maðurinn í næstu íbúð var með samskonar seríu og þess vegna valdi ég eins - það er gaman að hafa samræmi í hlutunum.

Þarf ég nokkuð að taka það fram að sería mannsins í næstu íbúð er líka dauð? Steindauð!

Hvers vegna í ósköpunum geta Kínverjar ekki smíðað hluti sem endast? Þeir eru alltaf að smíða eitthvað og mér virðist fæst af því duga fyrir næsta horn......

Það eru að koma áramót og í Hraunbæ 30 lýsir ekki á tveimur svalahandriðum - bara af því Kínverjar stóðu sig ekki sem skyldi. Innan við stofugluggann logar hins vegar á 35 ljósa hring sem ég sjálfur - svo það komi skýrt fram - bjó til undir lok síðustu aldar vestur á Ísafirði. Ekkert kínverskt í þeim hring.

Klukkan er að verða fimm á gamlársdegi og úti kveður við stöku hvellur. Mér finnst þessir hvellir óvenju fáir fyrir þessi áramót, venjulega hefur verið sprengt stöðugt frá því sölur opna en mér finnst þetta mun minna núna. Kannski er almennu auraleysi um að kenna, kannski sparnaði. Veðrið hefur allavega verið ágætt fram að þessu en nú er heldur að bæta í vind og öðru hverju éljar.....

Þegar ég var að alast upp vestur á Ísafirði á síðari hluta síðustu aldar (mikið hrikalega finnst mér þetta skemmtilegt orðalag) þá gerðum við guttarnir talsvert af því um hver áramót að sprengja knallara. Mér skilst að hér fyrir sunnan hafi knallarar venjulega verið kallaðir kínverjar.

Þegar hæstu hvellirnir kveða við í kvöld ætla ég að hugsa til seríusmiðanna lánlausu......

Að vanda verðum við Edilon B. áður Eyjólfs- en nú Elínarson Breiðfjörð Thorsteinsson Budenhoff Sandhaug Sóðalöpp tveir heima í Höfðaborg. Við drögum fyrir glugga, leggjumst upp í sófa og horfum á eitthvað uppbyggilegt í sjónvarpinu meðan skothríðin gengur yfir. Bassa er afar illa við hvellina og blossana og þess vegna er heima best.....

Gleðilegt ár allir sem lesa og takk fyrir öll innlitin og álitin á líðandi ári. 


24.12.2015 14:23

Dagur aðfanga.


 Það er aðfangadagur jóla - dagur aðfanga jóla, ef maður snýr orðaröðinni. Það þýðir einfaldlega að í dag er dagurinn sem nýta skal til aðfanga til jólanna. Þá ætti það að vera komið á hreint. 

Ég held gjarnan í gamlar hefðir, t.d. borðaði ég ótæpilega af skötu í gær í bæði mál. Af því ég var á dagvakt í vinnunni lét ég vera að kýla mig út í hádeginu - maður verður jú að vera vinnufær út vaktina, ekki satt? Eftir vaktina fór ég heim í Höfðaborg og sinnti ýmsum verkum eins og vera ber en fór svo aftur í vinnuna og fylgdi kvöldvaktinni í mat - þ.e. þeim örfáu sem borða skötu á þeirri vakt. Þetta eru nefnilega eintómir hérar á "hinni vaktinni" eins og oft vill vera.......Þá var líka vel tekið á því....

.....og af því ég held gjarnan í gamlar hefðir þá notaði ég það sem af er aðfangadegi til að draga aðföng í bú. Þessi aðföng voru aðallega mikið af konfekti og mikið af klementínum í trékössum. Við feðgar í Höfðaborg erum nægjusamir menn (þ.e. þeir okkar sem erum menn, við teljum okkur jú þrjá en einn er gersamlega taumlaus þegar kemur að mataræði. Ég nefni engin nöfn en lesendur mega giska á fótafjölda...) og vegna þess að við erum nægjusamir látum við þessar tvær tegundir duga til jólahátíðar. Það þarf ekki mikið til að gleðja okkur.....

Áður en ég óska gleðilegra jóla ætla ég að setja inn eina mynd sem er reyndar ekki jólamynd heldur táknræn fyrir hugarfarið sem ríkir í Höfðaborg þessa dagana. Þar er verið að byggja skýjaborgir og því er horft upp til skýjanna. Það kemur svo fljótlega í ljós eftir áramótin hvort einhverjar undirstöður finnast undir þessar skýjaborgir:
Þangað til: Gleðileg jól allir sem lesa og gangið hægt um gleðinnar dyr! 

...................................................

21.12.2015 17:08

Jólahjól....


Jútakk, við komumst suður og vel það því klukkan var hálffjögur á miðvikudeginum 16. þegar rennt var í hlað í Höfðaborg og hún var á slaginu fjögur þegar yðar einlægur þeyttist inn um dyrnar hjá Óskabarninu og stimplaði sig inn á kvöldvakt. Vaktinni lauk kl. 24 og þá var satt að segja ákaflega gott að halda heim í borgina og halla sér. Hundur Íslands, sá eðalborni Edilon Bassi Eyjólfs/ og stundum Elínarson Breiðfjörð Thorsteinsson Budenhoff Sandhaug Sóðalöpp var í heimsókn hjá fyrri foreldrum í Hafnarfirði meðan við feðgar dvöldum á Akureyri, því hundar eru venjulega ekki velkomnir í orlofsíbúðir. Hann var sóttur daginn eftir og er dottinn í sína rútínu að nýju. 

Það er einungis sólarhringur í að daginn fari að lengja á ný. Munurinn sést á stuttum tíma og fyrir mörgum árum kom ég mér upp þumalputtareglu hvað birtutímann varðar. Hún er svona: Sé bjart í lofti á þrettándanum er strax farinn að sjást nokkur lenging. Þegar hún Elín Huld  ( kona sem ég þekki...) á afmæli þann sjöunda febrúar nær þokkalegur birtutími allt til kl. 18. Réttum mánuði síðar, þann sjöunda mars, má vel segja að bjart sé orðið kl. átta að morgni. Þá nær dagsbirtan sirka til kl. hálfátta að kvöldi. Tveimur vikum síðar eru svo jafndægur að vori og ekki þarf að útskýra nánar hvað þau þýða. 

Þetta eru semsagt hin einföldu fræði Gunnars Theodórs um dagsbirtu. Við þessi fræði má bæta örlitlu broti - en samt nokkuð mikilvægu. Þegar dagurinn er hvað stystur - semsagt nákvæmlega þessa dagana - er nýtanleg dagsbirta u.þ.b. fjórar klukkustundir. Það skal þó tekið fram að þessi jafna er miðuð við nafla alheimsins, Ísafjörð og má vera að hér syðra gildi einhver skekkjumörk. Mér er bara alveg sama. Þessi viska er þannig til komin að þegar ég var ungur maður vestra og ók um á skellinöðru (slík farartæki voru raunar á þeim tíma kölluð smellitíkur..) af Hondu SS50 gerð, þá varð ég fyrir barðinu á slæmri rafmagnsbilun. 
( Hér má sjá Hondu SS 50, nákvæmlega eins og ég átti en myndin er úr auaf netinu)

Bilunin lýsti sér þannig að framljós hjólsins lýsti aðeins í beygju en slokknaði í beinum akstri. Á Ísafirði og nágrenni eru þónokkuð margir beinir vegarkaflar og þar sem ég gat ekki alltaf haldið stýrinu í beygju bagaði þessi bilun mig verulega. Fyrir ungan mann með brennandi bifhjólaáhuga er það líkast því að missa hönd eða fót að geta ekki (vél) hjólað og þessvegna gjörnýtti ég þann tíma sem slíkt var hægt birtunnar vegna. Síðan er lengd birtutíma í desember brennd í minnið. Á þessum tíma var ég ekki kominn svo langt í vélfræðum að geta lagað svona bilun sjálfur og það var ekki fyrr en um páska 1973, þegar mokað var yfir heiðina til Súgandafjarðar, að ég lagði land undir hjól og ók vestur til Barða frænda. Hann var rafvirki (og er enn) og var aðeins nokkrar mínútur að átta sig á meininu og laga það. Svo fór sumar í hönd og annar vetur en þá var ég með ljós í lagi og skertur dagsbirtutími snerti mig lítið.

Þannig var nú það. Eftir morgundaginn fer daginn semsagt að lengja og lengstur verður hann kringum 21. júní 2016. Vitiði hvar ég ætla að vera þann 21. júní 2016? Nei, það er eðlilegt því það hefur ekki verið upplýst um það fyrr en nú.

Ég ætla að vera í Færeyjum. Algjörlega gjörsamlega svei mér þá!

....og skyldi ég nú ætla gangandi til Færeyja?

Nei. Það er ekki ætlunin. Ég ætla á þessu hér:Þessi Geiri við hlið bláa hjólsins fer hins vegar hvergi. Ég ætla að teyma með mér annan Geira sem hingað til hefur ekið (eða hjólað) um á perluhvítu pimpbike (ég vona að mér fyrirgefist orðalagið).

Það fer hins vegar enginn óbrjálaður maður með perluhvítt pimpbike til Færeyja, þar sem allra veðra er von. Þess vegna fer ég líka á bláu hjóli en ekki perlurauðu. Og hvað skyldi þá eiga að koma í stað þess perluhvíta?

Þetta hér, sem sótt var í gær:Þeir hafa ekki margir fengið höfðinglegri gjöf í skóinn frá sjálfum sér og sínum. Þar með sér fyrir endann á fyrsta hluta undirbúnings - tvær bláar Yamaha- systur klárar í hvað sem er. 

Eins og segir í jólalaginu: " Hæ hæ, ég hlakka til........"

15.12.2015 17:42

Horft heim á leið.


Það styttist í dvölinni hér nyrðra, talsvert liðið á þriðjudaginn og við erum farnir að horfa til heimferðar. Mér er illa við að aka lengi í myrkri, sérstaklega ef aðrar skyggnistruflanir eru samfara. Þess vegna leggjum við af stað suður í fyrramálið með morgunroðanum og ættum, ef vel gengur, að ná suður áður en aldimmt er orðið aftur.

Í gær gerðum við góða ferð út með firði, um Ólafsfjörð og til Siglufjarðar. Þegar þangað var komið máttum við til að heimsækja hótelið sem ég birti mynd af um daginn ásamt eikarbátnum Steina Vigg SI.Það var komið eitthvað fram um hádegi en við vorum svangir og settumst því inn á veitingastað hótelsins, Sunnu restaurant. Pöntuðum okkur dýrindis hamborgara að hætti hússins og þótt verðið væri eðlilega í hærri kantinum var lífsreynslan hverrar krónu virði því húsið er enn smekklegra og látlausara innan en utan. Maður gengur ósjálfrátt um þessi salarkynni með virðingu líkri þeirri sem maður bæri til raunverulega gamals húss. Byggingin öll dregur einhvern veginn fram þessa tilfinningu og kallar sjálfkrafa á þannig hugarfar. Ég veit ekki hvort ég næ að gera mig skiljanlegan en vona það þó....Eftir málsverð á hótelinu röltum við um bæinn. Það var farið að ýra talsvert úr lofti svo gangan varð kannski ekki eins löng og við hefðum kosið. Náðum þó að mynda eitt það skemmtilegasta á eyrinni - skökku húsin sem eru sérkenni Siglufjarðar. ( Skökku húsin eru mun fleiri en ég á í vandræðum með myndirnar og þær bíða því betri tíma )


Við tókum eftir að miklar breytingar standa yfir á húsnæði gagnfræðaskólans gamla uppi í brekkunni (ég held allavega að það sé gagnfræðaskólinn) og miðað við breytingarnar ytra erum við nærri vissir um að verið sé að breyta húsinu í hótel. Kannski er það tímanna tákn - börnunum fækkar en ferðamönnum fjölgar.

Ég hafði ætlað mér að heimsækja frænku í Ólafsfirði í bakaleiðinni en það fór á sama veg og í sumar, frænka ekki heima og ég greip í tómt. Nújæja, ég kem aftur næsta sumar...

Við feðgar eyddum síðdeginu hér heima í Furulundi og átum kvöldmat af eigin birgðum. Í gærkvöldi tókum við svo eina jólaseríuskoðunarferð um bæinn og lukum henni með kaffibolla í Eymundsson.

Við áttum tvennt inni fyrir daginn í dag, annarsvegar sund á Grenivík og hins vegar heimsókn í Tæknisafnið. Það kom á daginn að sundlaugin á Grenivík leggst í vetrarhíði og Tæknisafnið er aðeins opið á sama tíma og Mótorhjólasafnið, þ.e. tvo tíma hvern laugardag. Dagurinn hefur því liðið í rólegheitum, hér heima að mestu en eitthvað var þó litið út, m.a. niður á eyrina þar sem helst er von um að rekast á kunnuglega báta. Í allri flórunni rákumst við á tvo kunnuglega. Annar þeirra var þessi: ( Myndin er tekin á Ísafirði fyrir löngu )Þetta er semsagt hann Jói, sem upphaflega hét Valgerður ÍS og var í eigu Veturliða á Úlfsá. Svo eignaðist Ingi Magnfreðs hann og nefndi Valgerði, þá eigendahópur þeirra Jóns Björnssonar, Rögnvaldar Óskarssonar ofl. og hjá þeim hét báturinn Fúsi. Það nafn bar hann þegar pabbi eignaðist hann, líklega ´92. Pabbi átti bátinn fram til aldamóta en seldi hann þá inn í Súðavík. Nú er hann semsagt kominn norður til Akureyrar og liggur í Sandgerðisbótinni.

Hinn báturinn sem ég fann, Máni, hefur bæði átt góða og slæma daga. Hann var um árabil vestra, fyrst í eigu Jóakims Pálssonar en síðar okkar pabba. Þetta er Shetland 570 með innan/utanborðs Volvo bensínvél. Var upphaflega blæjubátur en vorið 1990 smíðuðum við Kjartan Hauks kafari á hann hús úr áli sem enn er á honum. Ég birti fyrst mynd af Mána með blæjunni og svo með húsinu:
Máni var seldur þegar rauði færeyingurinn Jói var keyptur. Hann var um hríð á Ísafirði en fór þaðan inn í Súðavík. Frá Súðavík til Ólafsfjarðar og þaðan inn á Akureyri. Þegar við feðgar fundum Mána í dag var staðan svona:Að því ég best veit hefur Máni ekki verið sjósettur í nokkur ár. Ég myndaði hann fyrir nokkrum árum á hafnarsvæðinu og þá var nokkurn veginn sama holning á honum utan hvað önnur framrúðan var þá brotin. Ég er ekki viss um að gamli yrði kátur með Mána sinn núna......

Það er farið að saxast á þriðjudagskvöldið. Við drengurinn toppuðum Akureyrardvölina í kvöld með gala- hamborgara á Greifanum. Þar með hef ég náð að borða á þremur "nýjum" stöðum, þ.e. stöðum sem ég hafði ekki áður komið inn á, Bautanum, Greifanum og Sigló hóteli. Tvær sundlaugar bættust á listann eina og áður kom fram, Glerárlaug og Hríseyjarlaug. Í fyrramálið verður svo íbúðin tekin í gegn, skilað og við leggjum af stað suður á leið.

Nú mega jólin koma........ 

.........................................

13.12.2015 23:23

Eyfirsk blíða!


 Jú, við komumst klakklaust norður, enda hefði annað verið rakinn klaufaskapur í því leiði sem við fengum - einmunablíðu og bjartviðri. Hann hafði raunar orð á því sonurinn að það virtist hált á köflum en eftir að dimma tók sást engin hálka svo það þurfti ekki að slá af hennar vegna. Fljúgandi hálka sést, eðli málsins samkvæmt, ekki í myrkri.

Klukkan var rétt um sex þegar við renndum í hlað hjá Securitas á Akureyri til að fá afhenta lykla að orlofsíbúðinni okkar, sem við raunar höfðum skipti á á síðustu stundu því eins og við var að búast tókst mér að panta einu íbúðina sem ekki hafði þvottavél. Það mátti illa ganga því ég ók beint norður í vinnufötunum með "spari"gallann í farangri og þurfti því á þvotti að halda.

Hér á Akureyri hefur í einu orði sagt verið dýrðlegt veður. Frostið hefur farið niður í væna tveggja stafa tölu en það hefur verið bjart og lygnt. Yfir sjónum hefur legið frostmóða sem gefur umhverfinu sérkennilegan blæ, einkum þegar dimma tekur.

Ég dæli ekki inn meira bulli heldur læt myndir tala.....Eftir lyklamóttökuna á föstudagskvöld skelltum við okkur í sundlaugina - þessa einu sönnu - en á laugardagsmorguninn ( í gær) heimsóttum við Glerárlaug. Hún var, eins og áður kom fram, ómerkt á listanum en úr því hefur nú verið bætt. Þetta er innilaug með útipottum og þar lágum við lengst af með skrokkinn í plús þrjátíuogátta en hausinn í mínus þrettán!  Síðdeginu var svo eytt í bíltúr um Eyjafjarðarsveitir, heimsókn á mótorhjólasafnið og fleira skemmtilegt. 

Í dag var það svo Hrísey. Við tókum ferjuna út í eyju klukkan hálftvö en sundlaugin var opin frá eitt til fjögur. Við gengum byggðina fyrst enda til enda eða svo gott sem, áður en við lögðumst í pottinn. Á göngunni tókum við nokkrar myndir:

 Þeir eiga fína sundlaug, Hríseyingar, eins og vonandi má sjá á myndunum:

Á glerinu umhverfis heita pottinn voru þessar ótrúlega fallegu frostrósir:
Það passaði að hlaupa uppúr pottinum rúmlega hálffjögur, græja sig af stað og hlaupa niður að höfn því ferjan lagði frá stundvíslega klukkan fjögur. Frá Árskógssandi ókum við út á Dalvík þar sem Haukur S. Valdimarsson skipafræðimaður var heimsóttur. Klukkan var svo um hálfsex þegar við renndum af stað inn til Akureyrar harðákveðnir í að toppa frábæran dag með heimsókn á Bautann. Þangað hafði ég aldrei komið en nú var semsagt úr bætt með hamborgara að hætti hússins. 

Deginum fer að ljúka. Það nálgast miðnætti og sonurinn er farinn út á bílnum að skoða loftsteinadrífur sem mér skilst að gangi yfir landið í nótt og þá næstu. Senn rennur nýr dagur og hann ætlum við að nýta til ferðalags út í Ólafsfjörð, þar sem hluti rótanna liggur. 

Gott í bili.
..................................................

11.12.2015 07:13

Halló Akureyri!

Það er bjartur föstudagsmorgunn í Höfðaborg, klukkan er rétt rúmlega sjö og leiðin liggur til vinnu. Að þessu sinni er vinnudagurinn stuttur því þegar vinnufélagarnir fara í hádegismat fer ég heim, tek mínar töskur ( sonurinn tekur sínar ) og þar með erum við feðgar lagðir af stað til Akureyrar. Þar hyggjumst við eyða nokkrum dögum við að skoða jólaskreytingar og aðra alhliða slökun. Við ætlum t.d. í sund í Hrísey en í þá laug hef ég aldrei farið og hún er því ómerkt á sundlaugalistanum góða. Við ætlum sömuleiðis að heimsækja Glerárlaug, hún hefur alltaf setið á hakanum en fær nú sitt merki í kladdann. Hver veit nema við náum líka mótorhjólasafninu og kannski fleiru?

 

Spáin er góð - og jafnvel betri en góð, miðað við árstíma - og við komum væntanlega endurnærðir suður síðla dags þann 16.

 

Gott í bili, vinnan kallar...

04.12.2015 11:16

Lægðir og hægðir.


Það er sunnudagsmorgunn, sjötti desember og hún Fríða systir á afmæli.  Það er svo sem ekkert stórafmæli, bara svona venjulegt enda er Fríða systir hálfu öðru ári yngri en ég og þar með yngst í hópnum. 

Þau á veðurstofunni eru að spá enn einni lægðinni yfir landið á morgun, mánudag og sú er sögð sýnu mest af öllum þeim sem gengið hafa yfir að undanförnu. Vetrarlægðagangurinn er eitthvað sem ekki kemur á óvart, ég man ekki eftir vetri sem ekki hefur meira og minna einkennst af lægðagangi. Ég man raunar ekki eftir sumri sem ekki hefur einkennst af því sama en það er annað mál. Munurinn er aðallega fólginn í því hvað þessar lægðir bera með sér enda ráðum við litlu um veðrið - við fáum það sent sunnan úr heimi og svo ræður hending því (ásamt nokkrum öðrum samverkandi þáttum) hvaða leið þessar lægðir fara upp með landinu og hvað þær flytja með sér. Mér skilst að þessi lægð allra lægða flytji með sér snjó en þar sem hitastigið á að vera nokkuð yfir núlli gæti sá snjór orðið nokkuð þungur. Umfang hennar mun vera svo mikið að nær til allra landshluta og mér varð sem snöggvast litið vestur á heimaslóðir svona tuttugu ár aftur í tímann.

Í morgun átti ég tal við mann sem átti brýnt erindi austur á firði í síðustu viku. Hann fór vel búinn bæði til vagns og verja enda veitti ekki af. Hans ætlan var að komast aftur suður um helgina en í talinu í morgun kom fram að þar sem hann situr í húsi í litlu þorpi austur á landi er ekki einu sinni fært útúr þorpinu hvað þá milli landshluta. Þannig er sú staða þegar enn ein lægðin er væntanleg og sú af stærri gerðinni.....

Fréttalestur hér í Höfðaborg er annars með dálítið sérstöku sniði. Blöð sé ég nær aldrei og meðfæddur athyglisbrestur leyfir mér ekki að fylgjast með sjónvarpsfréttum nema stutta stund í einu. Veðurspár á ríkissjónvarpinu læt ég þó helst ekki fram hjá mér fara. Að öðru leyti eru mínar fréttir fengnar af miðlum sem enda á .is og þeir miðlar hafa í liðinni viku helst sagt frá veðri og færð. Annað mál hefur þó farið hátt, þ.e. fregnir af ungum manni sem hefur lokað sig inni í glerkassa á almannafæri og hyggst vera þar í viku. Hafi ég skilið rétt er þeirri viku um það bil að ljúka en eitt mest spennandi fréttaefnið við veru þessa unga manns í glerkassanum hefur að mér sýnist verið afurðalosun hans. Netmiðlar - og athugasemdakerfi þeirra - hafa logað af áhuga á málefninu og sýnist þar sitt hverjum. Einhverjar aðrar athafnir mannsins hafa ennfremur vakið athygli, á köflum svo mikla að stjórnendur beinnar útsendingar frá gjörningnum sáu sig knúna til að slökkva um stund á tækjunum, velsæmis vegna að mér skilst. Allur mun þessi gjörningur eiga að vera af listrænum toga og sá er í kassanum situr/liggur margtitlaður myndlistarnemi. Mig langar að efast um listrænt gildi þess sem fram fer en auðvitað er ég aðeins bifvélavirki.....

Frá Hauki á Dalvík bárust þessar myndir:

Þessi fallega fleyta heitir, eins og sjá má, Steini Vigg og ber einkennisstafina SI-110. Steini Vigg er Akureyrarsmíði með gafli eins og nokkrir fleiri, frá árinu 1976 og hét upphaflega Hrönn ÞH-275. Heimahöfnin var Raufarhöfn enda var staðan á Raufarhöfn þá kannski ekki eins og hún er núna. Líklega hefur þó ekki gengið nógu vel á nýjan bát því fimm árum síðar eignast Fiskveiðasjóður hann og selur ári síðar norður til Grímseyjar. Þar verður Hrönn að Þorleifi EA-88. Frá Grímsey fer báturinn aftur " upp á land" og verður Guðrún Jónsdóttir SI-155. Svo færir Guðrún Jónsdóttir sig um tvo firði og verður ÓF-27 en síðan aftur SI-155. 200 ha. VolvóPentan sem upphaflega ýtti bátnum áfram var leyst af eftir nítján ára streð við snurvoðardrátt ofl. Í stað hennar kom önnur VolvóPenta, bólgin og blásin upp í 380 hestöfl. Ekki er þó annað að sjá en sú hafi átt náðugri daga því skv. skipaskrá var síðasta löndun á Guðrúnu Jónsdóttur skráð í júlí 2007. Þá hafði báturinn aðeins þriggja tonna þorskkvóta, eftir því sem best verður séð. Um svipað leyti eignast Selvík ehf. á Sigló bátinn og hann fær nafnið Steini Vigg. Eftir það virðist hann fyrst og fremst ferðaþjónustubátur þótt hann sé áfram skráður með veiðileyfi. Selvík ehf. er skv. heimildum undir sama hatti og Rauðka ehf., þ.e. í eigu Róberts Guðfinnssonar á Sigló og það er því eðlilegt að báturinn liggi við hótelið hans. Það lýtir síst þetta laglega hús að hafa jafn fallega fleytu og Steina Vigg við festar á þröskuldinum. 

(Ég hef raunar átt í skoðanaskiptum við heimamann varðandi þetta hótel en það er annað mál. Mér finnst þetta hús laglegt, látlaust og beinlínis bæjarprýði og er ábyggilega ekki einn um þá skoðun)

Það má vel koma fram undir lokin að annar bátur öllu stærri bar bæði nöfnin Þorleifur EA-88 og Guðrún Jónsdóttir SI-155. Það var Skipavíkursmíðin (1105 ) Jón Helgason ÁR-12 sem gegnum tíðina fór víða og hét mörgum nöfnum en endaði sem Reynir GK og var rifinn á Húsavík 2007.

Það er enn sunnudagur en sigið nokkuð á hann og sólin er að ganga undir. Fyrir augnabliki heyrði ég frá ferðalangnum sem minnst er á hér ofar. Heldur hafði vænkast hans hagur því verið var að ryðja vegi norðan- og austanlands og hann var kominn að Mývatni á suðurleið

Gott í bili.....
  • 1
Flettingar í dag: 50
Gestir í dag: 34
Flettingar í gær: 111
Gestir í gær: 45
Samtals flettingar: 642782
Samtals gestir: 91884
Tölur uppfærðar: 23.1.2019 04:07:41


Tenglar