Gunnar Th.
Fjórða kerfið.....


Færslur: 2014 Október

31.10.2014 12:41

Loksins kom þessi helgi.....


..........og ég er á leiðinni í Hólminn - enn einu sinni og nú með fulla kerru af drasli. Eða þannig sko, kannski ekki drasli því allt á kerrunni hefur tilgang. Þar eru hálfsöguð Júróbretti sem ætluð eru undir bátavagninn í stað hjólabúnaðar, en hann á að koma suður á kerrunni og endurnýjast fyrir vorið. Einnig eru plankar í sama tilgangi. Svo er ég með plasttunnurnar tvær sem eiga að fyllast af vatni og vera farg á Stakkanesið í vetrarstormunum.

Í þetta sinn ætla ég ekki að hafa tölvuna með.........Bingó, farinn!

27.10.2014 08:27

Hún er nítján í dag....


Til hamingju með daginn, Rósin mín!

25.10.2014 08:04

Helgi og ekki helgi.


Dagatalið mitt segir að það sé komin helgi. Helgar eru raunar mjög afstæðar núorðið, hjá mér miðast þær fyrst og fremst við gott veður. Ef það gerir sérstaklega gott veður einhvern þann vikudag sem ég á heimangengt - þá er bara helgi þann dag. Ef illa viðrar um þessar hefðbundnu helgar finn ég mér bara eitthvað til að gera innandyra og það hefur yfirleitt ekki verið vandamál. Þær verða þá bara svipaðir verkdagar og aðrir.

Þannig er það einmitt þessa helgina. Það viðrar ekkert sérstaklega vel - held ég allavega,ég á ekki gott með að að sjá það því ég hef aðeins glugga á einu herbergi og hef að því takmarkaðan aðgang þegar sonurinn er sofandi. Bassi fór í morgungöngu um hálfátta með blátt blikkljós um hálsinn, gangan var stutt og það voru ekki nema tæpar tíu mínútur þar til hann gelti við útidyrnar og vildi inn. Hann fór svo beint í körfuna sína og lagðist þar. Þakglugga hef ég einnig en út um þá sé ég aðallega norðurljós. Það eru ekki norðurljós núna.......

Hefðbundnar helgar ráðast annars af dagatalinu. Það er hagstætt að leigja frístundahús um helgar og næstu helgi - mánaðamótahelgina - ætla ég að vera í Hólminum, enn einu sinni. Það er í fjórða sinn á þessu ári sem ég leigi þar sama húsið og jafnframt það síðasta (á árinu) Nú stendur til að fara uppeftir  með kerru í eftirdragi og á henni nokkuð af plönkum, tilsöguðum vörubrettum og tvær 200ltr. plasttunnur. Nú á nefnilega að taka allan hjólabúnað undan vagni Stakkanessins og setja tréverk undir í staðinn. Hjólabúnaðurinn á að koma hingað suður og fá smá vetrarklapp. Ekki mun af veita ef áætlað ferðalag með bátinn næsta sumar á að ganga áfallalaust. Tunnurnar ætla ég að fylla með vatni og nota sem festur sitthvoru megin við bátinn í vetur. Það getur víst hvesst hressilega í Hólminum og ekki vil ég að Stakkanesið fjúki um koll.

Svo hef ég loforð fyrir tveimur svona plasttunnum til viðbótar. Ég er búinn að sá fræjum uppfrá, í þeim tilgangi að fá "lóð" fyrir flothjall einhversstaðar inni á sundunum. Fyrir langalöngu vorum við nokkrir með flothjalla á Prestabugtinni utan við eyrina á Ísafirði. Við vorum fjórir með hjalla þar þegar mest var, ég, Óli á Árbæ, Guðmundur heitinn Eyjólfur og svo Gunnsteinn Sigurðsson í Bolungarvík. Sennilega var Guðmundur Eyjólfur frumkvöðull í þessu ásamt Gvendi með englahárið (ég vona að mér fyrirgefist) þegar hann átti Vonina sína. Þarna létum við síga og fengum tandurhreinan, flugulausan bútung fyrir vikið. Ég notaði fjórar venjulegar olíutunnur undir hjallinn en svo var efnið í þeim lélegt að þær dugðu varla sumarið, svo ryðsæknar voru þær. Nú langar mig að reyna þetta aftur með plasttunnum, ef leyfi fæst til að hafa hjall einhversstaðar þar sem lítið ber á. 

Það er því engin helgi þessa helgina, eða þannig - aðeins endalaust bras við eitthvað sem kannski skiptir engu máli en mér finnst samt að koma þurfi í verk. Ef allt annað bregst má alltaf setjast við tölvuna og skrifa - pistill á borð við þann sem síðast birtist tekur u.þ.b. sex tíma í vinnslu með öllum tenglum og það er nú bara hátt í vinnudag..........

Klukkan mín er farin að halla í níu og kominn tími fyrir gönguferð um hverfið og "eignakönnun" í leiðinni.

22.10.2014 11:00

Hótel Gimba.


Hér á suðvesturhorninu gerir stundum gott veður - ekki samt svona Ísafjarðarveður en jú, alveg þokkalega gott veður. Þannig var það einmitt síðasta sunnudag (sem hefur þá verið 12. október). Sólskin, sæmilega hlýtt og almennt prýðilegar aðstæður til að leggjst í vettvangsathugun. Ég lagði frá mér verkfærin kl. tólf á hádegi, skaust í sturtu og fataskipti - svo vorum við Bassi farnir af bæ. 

Einu sinni, fyrir langalangalöngu, var ég á ferð um Grafninginn að hausti. Það var heimleið úr lokaferð húsbílafélagsins það árið og hafði verið gist að Seljavöllum. Góð ferð að vanda og af því ég var einn á ferð og lá ekkert á dró ég heimferðina eins og hægt var, m.a með því að aka frá Selfossi upp undir Þrastalund og beygja þar til vinstri. Flestir hér sunnanlands átta sig á leiðinni en það búa bara ekki allir hér sunnanlands og ég er handviss um að þessa leið upp Grafninginn hafa miklu færri ekið en hinir. 






Á þessarri eftirminnilegu heimferð skörtuðu kjarrið og lyngið sínum fallegustu haustlitum og ég man vel hvað ég var dolfallinn yfir fegurðinni. Ég reyndi að mynda litadýrðina en átti aðeins litla filmumyndavél sem engan veginn náði að fanga allt sem ég hefði viljað. Litirnir og hughrifin hafa varðveist í minningunni......

.................................................................................

Ég ætlaði annars ekki að skrifa neitt um ferð sem farin var árið 2000 eða 2001 heldur halda mig við nútímann. Hugmyndin var að aka upp á Suðurlandsveg, beygja inn á Hafravatnsveg sem síðan verður Nesjavallaleið og aka svo Grafninginn niður að Sogsvirkjunum og reyna að sjá aftur þessa óborganlegu litadýrð. Síðan skyldi aka heim um Selfoss og Hveragerði, og sundfötin voru tekin með ef sundlaugin í Laugaskarði væri enn opin þegar við færum hjá. (EH hafði haft pata af væntanlegri ferð og falast eftir sæti)

Í upphafi síðasta pistils nefndi ég eitthvað gleymsku fyrir aldurs sakir. Kannski er þetta meira mál en ég hélt, því ég steingleymdi að beygja inn á Hafravatnsveg og hélt áfram fulla ferð upp undir Lögbergsbrekku. Það var ekki fyrr en EH spurði varlega hvort breyting væri á áætlun að ég áttaði mig. Umferðin var lítil og auðvelt að snúa en fyrt við vorum nú á annað borð komin framhjá þá var upplagt að renna fram að Elliðakoti og sýna EH allar hleðslurnar þar. Við beygðum því af Suðurlandsveginum eins og rauða línan sýnir og ókum gegnum lítið sumarhúsasvæði (sem í rauninni er hrein paradís) að rústum Elliðakots. (sjá líka HÉR)


Eins og fram kemur í hlekknum er Elliðakot nú aðeins rústir en það sem vekur athygli er tilhöggna grjótið, sem notað hefur verið í veggi og húsaundirstöður. Þetta er mikið magn og grjótið hefur eflaust verið tekið úr klettunum ofan bæjarstæðisins. Það hefur svo verið gríðarleg vinna að höggva það allt til:




Á kreppuárunum var höggvið mikið af grjóti í atvinnubótavinnu, m.a. var þá á áætlun að leggja járnbraut frá Hafnarfirði til Reykjavíkur sem liggja skyldi um Kaplakrika, Garðahraun neðan Vífilsstaða, um Mjódd og niður með Elliðavogi. Áf framkvæmdinni varð aldrei, eins og menn vita en enn má sjá hluta af því grjóti sem tilhöggvið var í undirstöður teinanna, liggjandi utan í hólnum Einbúa við Skemmuveg og aðra hrúgu er að finna ofan við gróðrarstöðina í Blesugróf. Tilhöggna grjótið í Elliðakoti mun vera öllu eldra, eða frá því um aldamót 1900:















Ef lagst er í "gúggl" má finna ljósmyndir sem teknar voru við Elliðakot meðan allt var þar í drift. Ég bendi t.d. HINGAÐ, en efsta og næstneðsta mynd þessa ágæta pistils B.J. sýna hluta af bæjarhúsunum.

Við ætluðum ekki að eyða öllum deginum við Elliðakot þótt eflaust hefði það verið hægt, svo margar gönguleiðir eru á þessu svæði. Við vorum á leið austur í Grafning og héldum því áfram til baka að Hafravatnsvegamótum og áfram inn á Nesjavallaleið. Það var dálítil vindgjóla þegar ekið var um Hengilssvæðið og betra að úlpuvæðast þegar stigið var út úr bíl til að mynda:





".......þar er himinninn heiður og tær" var eitt sinn sungið og þó víst væri nóg um "Heiðanna ró" þarna uppfrá vantaði dálítið uppá að himinninn væri heiður og tær, þó svo virðist kannski af myndunum - mengunarmóðan frá hraunpuðrinu fyrir austan lá við sjóndeildarhringinn og brá einkennilegum blæ á hann.





Hér að neðan er horft til sirka norðvesturs - jú, það er líklega nálægt því - og undir þokubakkanum til vinstri á myndinni er líklega Skálafellið. Ég hafði augnabliki áður tekið eftir því að toppur þess var nærri heiður en loftnetin voru í skýjum. Svo neðarlega var teppið!





Það snjóaði þarna fyrir skömmu, svo tók upp en í lautum mátti enn sjá einn og einn skafl. Það mátti líka sjá krafs og fótspor eftir gönguskó í snjónum. Kannski höfðu einhverjir útlendingar verið þarna á ferð og jafnvel að sjá snjó í fyrsta sinn á ævinni. Einu sinni fyrir áratugum, á þeim tíma sem var blómaskeið Ástrala og Ný-Sjálendinga í fiskvinnslu vestra, var ég staddur í mötuneyti Fiskiðjunnar Freyju á Suðureyri við Súgandafjörð. Það var hádegi og talsvert af fólki í salnum. Líklega hefur það verið um þetta leyti árs því u.þ.b. sem hádegishléi var að ljúka og fólk að tygja sig til vinnu á ný féllu fyrstu snjókorn vetrarins - það gerði logndrífu, svona létt flygsukafald. Við vorum þarna tveir saman, við Árni Sörensen og ég man að okkar fyrsta hugsun var til Botnsheiðarinnar og hvort hálka yrði á heimleið. Andfætlingarnir þustu hins vegar út að stórum gluggunum og sendu frá sér hrifningarandvörp sem fólu hvað eftir annað í sér orðið "Beautiful!". Við borð stutt frá okkur Árna sat gamall maður og eftir  þónokkur "Beautiful!" andfætlinganna heyrðist frá honum, hálfhátt en þó svo að vel skildist: "Ætli þeim þyki jafnfallegt þegar kemur fram yfir áramót"

Þetta blessaða fólk var að sjá snjó í fyrsta sinn á ævinni en ekki er ólíklegt að sá gamli hafi hitt naglann á höfuðið því Súgandafjörður er fannakista hin mesta og eflaust hafa einhverjir verið búnir að fá nóg af allri fegurðinni undir vetrarlok.





Ofan við virkjunarsvæðið að Nesjavöllum er útsýnispallur og af honum tókum við næstu tvær myndir. Þær eru teknar frá sama bletti og það er dálítið merkilegt að þykki skýjabakkinn á neðri myndinni er vart sjáanlegur á þeirri efri nema sem mjó rönd yfir fjöllunum lengst til vinstri:







Við ókum niður að Nesjavöllum og heim á hlað dýrasta hótels landsins (eftir því sem ég las einhversstaðar)  sem nú heitir ION hotel. Staðurinn bar ekki neinn sérstakan glæsileika utan á sér en stendur eflaust undir nafni hið innra. Svo héldum við áfram niður Grafninginn og komum fljótlega að öðru hóteli. Kannski má deila um glæsileikann á þeim bæ en kyrrðin og friðurinn yfir staðnum var alger. Þetta hótel var autt og tómt þó eflaust fyllist það af gestum þegar illa viðrar - það er enda öllum opið og ekkert gjald er tekið fyrir gistinguna.

Þetta var hótel Gimba:







Ég veit ekkert um þetta hús. Það stendur þarna eitt of sér, hafi það verið hluti af sveitabýli er það býli horfið. Þarna er steyptur kjallari (sem hlýtur eiginlega að hafa verið haughús), steyptir gaflar og svo bogaskemma - svona hefðbundinn stríðsárabraggi af stærri gerðinni. Þvert yfir kjallarann liggja stálbitar sem studdir eru sverum staurum. Þeir halda uppi ört hrörnandi tré-milligólfi. Ég er ekki viss um hvernig þetta hús hefur verið notað. Líklegast þykir mér að það hafi verið fjárhús en hvort kindurnar voru uppi og haughúsið undir veit ég ekki. Það er nefnilega að sjá sem gólfið sé heilt - allavega á þeim köflum sem ég skoðaði. Mér datt í hug hvort efri hlutinn hefði verið hlaða og fjárhús undir en hef svo sem ekkert fyrir mér í því. 

Öll er þessi mikla bygging hin hrörlegasta og járnboginn er orðinn opinn næst fjærgaflinum á myndunum. Milliloftið er sömuleiðis fúið og fallið niður að hluta milli bita. Húsið virðist undir það síðasta hafa verið notað sem ruslgeymsla ef marka má rúlluplastið sem er þarna í talsverðu magni og hangir niður um götótt milliloftið.





Nokkra menn þekki ég sem væru tilbúnir til að selja sálina fyrir þessa stálbita í milliloftinu. Þarna liggur stórfé ef miðað er við járnverð í dag og mætti smíða margt þarfra muna úr þessu efni, væri það tiltækt.





Þegar litast er um í kjallaranum sést að gestir þessa "hótels" hafa látið sitt eftir liggja svo um munar. Hafi einhver lesið pistilinn minn um Svartárdal, þar sem ég birti myndir úr gamla bænum að Bergstöðum, þá mátti sjá þar svipaðan afurðahaug innandyra, svo þykkan að lítið var eftir af lofthæð hússins. Þarna er það sama uppi á teningnum. Þessi hluti "hótelsins" er greinilega vinsælli en aðrir og má vera að þar ráði nokkru, að tvær gluggatóttir eru byrgðar og innan við þær skjól fyrir norð- og norðaustlægum áttum (eða svo giska ég á miðað við stöðu hússins) Það má vel vera að hross leiti líka þarna athvarfs en mest virðist þetta vera sauðfjáráburður sem hrúgast hefur svona upp. Svo má náttúrlega vel vera að hafi efri hæðin verið fjárhús hafi einfaldlega verið mokað undan kindunum niður í kjallarann á einum stað. Samt finnst mér það ólíklegt því það hefði þá kallað á að reglulega hefði þurft að fara niður og moka til........

Í öllu falli virðist langt síðan notkun hússins - og þar með hirðu - lauk og síðan virðist það einungis hafa þjónað sem athvarf fyrir útigangandi sauðfé. Kjallarinn virðist vel steyptur og stálgrind hússins er óskemmd að sjá svo kannski er þarna tilvalið tækifæri fyrir hótelóða athafnamenn. Það ætti ekki að vefjast fyrir mönnum sem láta sig ekki muna um að setja saman margra stjörnu hótel úr gömlum álvers - vinnuskúrum frá Reyðarfirði, að rusla út úr þessum risabragga og rusla svo inn í hann gistiinnréttingum. Þar með væri komið fínasta hótel á enn fínni stað sunnan við Þingvallavatn "Enjoy your staying in a  five star WWll - style hotel in the heart of Iceland´s most beautiful national park"  Bingó! Múltimonní í kassann bara hviss-bang! Það er allt í lagi að fara frjálslega með staðreyndir um þjóðgarða þegar evrur og dollarar eru annarsvegar.......

Kannski veit einhver eitthvað meira um tilurð og tilveru þessa stóra sauðfjárhótels og getur uppfrætt mig.





Einhversstaðar þarna handan hóla og hæða er Hveragerði:





Eftir myndatökur og vangaveltur við "Five star hotel Gimba" héldum við áfram og komum næst að Úlfljótsvatni. Kirkjan er klassískt myndefni og ég vil að það komi skýrt og skilmerkilega fram að ég tók þessa mynd: EH hefur nefnilega tekið bestu myndinar og heldur yfirleitt á vélinni minni. Nú var þessu öfugt farið og ég skaut þessari mynd af hæðinni ofan kirkjunnar með Sony-vélinni hennar Elínar:





Virkjanirnar við Sogið eru líka klassískt myndefni en þegar við ókum yfir stífluna tók ég eftir að húsin, sem alltaf hafa verið tipptopp í útliti og hirðu, hafa látið talsvert á sjá. Hagnaður eigendanna hefur kannski runnið í götótta vasa undanfarin ár.......





Skammt ofan virkjana og austan vegar er vandræðabarnið Efri - Brú. Þarna var byggð upp ferðþjónusta með myndarbrag. Árið 2003 keypti ríkið staðinn fyrir meðferðarheimilið Byrgið,  sem þá hafði verið í húsnæðishraki um hríð. Flestir vita hvernig fór fyrir rekstri Byrgisins eftir að það fluttist að Efri - Brú. Síðan fluttist Götusmiðjan þangað en sá rekstur fór heldur ekki vel og var lagður af. Nú nýverið mun hópur fjárfesta hafa eignast staðinn og opnað þar hótel undir nafninu Hotel Borealis. Hótelið er auglýst sem heilsárshótel en þá stund sem við stöldruðum við á hlaðinu var enga sálu að sjá og ekkert sem benti til hótelreksturs utan skilti yfir aðaldyrunum.








Næst á dagskrá var að fá sér ís. Hann var hægt að fá í Þrastalundi en þangað höfðum við eitt sinn farið í ísleit og hröktumst út aftur handlegg fátækari. Næsti staður var þá Selfoss en reynslan hefur líka kennt okkur að einn besta ís landsins er að fá í ísbúðinni við hlið bakarísins í Hveragerði. Við ákváðum að aka óhefðbundna leið frá Efri-Brú til Hveragerðis og ókum því til baka yfir stífluna og beygðum niður til vinstri við Úlfljótsvatn. Þar með ókum við sömu leið og teiknuð er á efsta kortið en nú til suðurs. Rétt áður en við komum að vegamótum við Þrastalund og Sogsbrú ókum við fram hjá lítilli trébrú fjallmegin vegar. Um leið nefndi EH eitthvað um kross - og svo krossa, fleiri en einn. Ég stoppaði og bakkaði að brúnni. Jú, þarna var nokkur fjöldi misstórra krossa í litlum, afmörkuðum reit ofan vegar. Við lögðum bílnum og gengum upp í reitinn. Á sumum krossunum voru dýranöfn og dýramyndir, á öðrum aðeins einfaldar áletranir en það var dagsljóst að þarna var gæludýragrafreitur. Hann var óhirtur að sjá og sum leiðin nær hulin háu grasi. Hvorugt okkar hafði heyrt um þennan reit og í eftiráleit er sáralitlar upplýsingar að finna. Það eina sem hönd varð á fest er HÉR

Við gengum milli reitanna og lásum. Þarna lágu kisur og hundar á öllum aldri (oftast var hann tilgreindur) og greinilegt á sumum áletrunum  að þeir sem jarðsett höfðu gæludýr á þessum stað höfðu gert það með miklum trega og söknuði. Við þekkjum bæði þessa tilfinningu og ég er ekki frá því að okkur báðum hafi farið á svipaðan veg og þegar við gengum um gæludýragrafreitinn í Vestmannaeyjum í fyrra. Því var lýst í niðurlagi ÞESSA pistils og ekki fleiri orð um það......

Við vorum á leið til Hveragerðis í ís og svo auðvitað sund í Laugaskarði eins og ég nefndi í upphafi. Ísinn fyrst, og hann sveik ekki frekar en venjulega. Af því ísbúðin er sambyggð bakaríinu  - sem einnig er kaffihús - og opið á milli þá var tilvalið að fá sér kaffibolla eftir ísinn. Klukkan var á slaginu fimm þegar við stoppuðum bílinn á planinu við sundlaugina og ég stökk út til að aðgæta opnunartímann. Jú, lokað kl.17:15!

Við hefðum betur farið fyrst í laugina og tekið ís og kaffi á eftir! Svona er nú hægt að vera vitur eftirá. Nú vitum við hins vegar allt um opnunartímann í Laugaskarði og látum ekki taka okkur aftur í bakaríið...

....eða þannig.











------------------------------

12.10.2014 09:00

Týndur sólarhringur - fyrir aldurs sakir?


 Ég veit ekki......ég á nú ekki að vera svo gamall, held ég. Hvað á annars að kalla það þegar menn týna sólarhring úr lífi sínu? Minnisglöp?

Nei, sem betur fer er ekkert slíkt á ferðinni. Ég hef hins vegar aðgang að ágætum gagnrýnanda og saman vorum við að fara yfir "loðnu" myndirnar sem ég hef verið í vandræðum með. Við tókum sérstaklega fyrir tvær sem birst hafa nýlega, önnur var myndin af Hörgshóli í Vesturhópi og hin var "seríumyndin" af Stakkanesinu í Stykkishólmshöfn, sem birtist síðast í pistlinum "Sunnudagur í Hólminum - seinni hluti". Við vorum að skoða seríumyndina þegar ég rak augun í klausuna undir henni - klausu sem ég hafði sjálfur skrifað. Þar stendur eftirfarandi:



Mánudagsmorguninn 29. sept sl. rann upp og þá sveik stormspáin ekki. Svo furðulega vildi hins vegar til að meðan ég var að sýsla við að taka Stakkanesið upp og ganga frá því fyrir veturinn, dúraði og datt í þetta fína veður. Svo hvasst var úti í höfn þegar ég lagði frá að báturinn lagðist undan vindinum og Landeyjarsundið var vandfarið vegna stöðugs hliðarreks. Svo, eins og ýtt væri á rofa, datt niður vindur og um leið hætti rigningin að mestu. Það örlaði á sólarglampa meðan ég tók tækin og rafgeymana úr stýrishúsinu, björgunarbátinn úr hólfinu sínu, björgunarhringinn af þakinu og stóra akkerið af hvalbaknum. Annað smálegt var tínt úr og að lokum var landbáturinn Fagranes strappaður fastur þversum ofan á borðstokkana. Þar með var allt klárt fyrir einn loka - kaffibolla hjá Gulla og Löllu. Svo var kvatt og lagt af stað suður. Ég var kominn sirka fjóra kílómetra þegar stormurinn kom úr hádegismat, tvíefldur.


Eitthvað hef ég verið að flýta mér því í þessa skáletruðu klausu vantar heilan sólarhring! Líklega er það vegna þess að pistlarnir eru margir skrifaðir í íhlaupum og þá kemur fyrir að ég þarfa að lesa yfir það sem á undan er komið svo samhengið verði rétt - en svo kemur fyrir að það gleymist.  Pistlarnir þurfa nefnilega að vera sæmilega réttir,  rétt á að vera rétt - svona upp á seinni tímann - því kannski vilja börnin  halda því til haga hvað foreldrar þeirra voru að brasa á sínum tíma. Ég ætla hins vegar ekkert að bæta þessum týnda sólarhring inn í viðkomandi pistil nema sem nokkrum orðum, því honum fylgir myndasyrpa sem þarf sitt pláss.

Satt er það að mánudagsmorguninn 29. september rann upp og stormspáin sveik ekki. Það var satt að segja vitlaust veður og hásetanum á Stakkanesinu - þið munið, þessum sem flúði af stýrisvaktinni og hélt sig við myndavélina eftir það -  leist hreint ekki á blikuna. Hún (þ.e. hásetinn Elín Huld) átti frí úr vinnu þennan dag en þurfti að komast suður í vinnu fyrir næsta dag, þriðjudag. Eftir fréttum að dæma var hreint ekkert ferðaveður undir Hafnarfjalli og á Kjalarnesi og það átti þá eflaust við Vatnaleiðina og Mýrarnar líka. Veðrið átti að ganga eitthvað niður undir kvöld en okkur leist báðum illa á að hún þyrfti að aka suður í myrkri til viðbótar við leiðindaveður. Ég hafði húsið á leigu til hádegis á þriðjudegi og í ljósi þess og veðurspánna var búið að ákveða landtöku Stakkanessins þann morgun. Háflóð á þriðjudagsmorgni var kl. 10.20

Það kom til tals að flýta öllu og taka bátinn upp á mánudagsmorgninum, ganga frá honum og aka svo suður í samfloti. Þegar við ókum hring út í Skipavík og niður á bryggju varð þó dagsljóst að ekki viðlit að taka upp vegna roks og vonlaust að ganga frá vegna rigningar. Til að nýta daginn ákváðum við að skella okkur í sundlaugina og taka klukkutíma eða svo í heita pottinum. Eftir það fórum við í hádegiskaffi til hjónanna Gulla og Löllu. Eitt áttum við enn ógert af dagskrá okkar í Hólminum þessa viku - að skoða gömlu kirkjuna við aðalgötu bæjarins. Hún er allajafna læst en EH hafði haft af því spurnir að lykilinn mætti fá að láni í Norska húsinu. Norska húsið er byggðasafn þeirra Snæfellinga og gamla kirkjan heyrir undir safnið. Sá galli var hins vegar á gjöf Njarðar að Norska húsinu var lokað til vetrarins þann 31. ágúst. Upplýsingamiðstöð ferðamanna í Stykkishólmi, sem rekin er í íþróttahúsinu benti okkur á að athuga í Eldfjallasafninu og það gerðum við. Þar var ungur maður fyrir svörum, allur af vilja gerður okkur til hjálpar og svo samdist að hann myndi í lok opnunardags - kl.17 - skjótast yfir í Norska húsið, sækja lykilinn og sýna okkur kirkjuna.

Allt gekk þetta eftir og rétt um fimmleytið gengum við inn kirkjugólfið - eða þannig.





Bekkjafyrirkomulagið er reyndar komið fram í hlekknum hér ofar, en það er afar sérstakt að sjá ferstrenda og rétthyrnda  kirkju með skásettum bekkjum. Við höfðum orð á því að uppröðun bekkjanna líktist einna mest Auðkúlukirkju við Svínavatn, sem er sexstrend. (og þá einnig Silfrastaðakirkju í Skagafirði)  Þá er kórinn frekar stór og upphækkaður. Skásettu bekkirnir - sem auk stöðunnar eru líka bogadregnir - raðast þannig að hvar sem kirkjugestur situr í þeim snýr hann alltaf andliti að altari/presti. Í rétthyrndum kirkjum með beina bekki þarf sá sem situr á veggenda fremstu bekkja annaðhvort að sitja skakkur eða snúa höfðinu mjög til hliðar til að horfa á altarið. Mér er ókunnugt um hvort eða hvaða reglur gilda um staðsetningu prédikunarstóls, en í gömlu Stykkishólmskirkju virðist hún í engu frábrugðin hefðum.








Kirkjan er fallega skreytt og virðist í mjög góðu standi enda hefur hún að miklu leyti verið endurbyggð. Ungi maðurinn sem sýndi okkur hana taldi hana nú einungis notaða fyrir sérathafnir og smærri tónleika en almennar messur fara að sjálfsögðu allar fram í nýju kirkjunni.








Innimyndatökurnar fóru nokkuð á sama veg og seríumyndirnar af Stakkanesinu, myndirnar eru frekar loðnar og óskýrar - ég veit ekki hvers vegna en þetta er vandamál sem þarf að leysa fyrir næsta sumar. Þangað til þarf að taka viljann fyrir verkið. 

Þessi ágæti ungi maður sem sýndi okkur kirkjuna hafði lokið sínum vinnudegi á Eldfjallasafninu og var í raun að sýna okkur kirkjuna í frítíma sínum. Við vildum því ekki tefja alltof lengi, kvöddum og þökkuðum fyrir lipurðina. Elín Huld myndaði kirkjuna að utan:





Húsaþyrpingin í hjarta Stykkishólmsbæjar er einstök og þær sóma sér vel hlið við hlið, gamla kirkjan og Narfeyrarstofa þótt innandyra sé sitthvor guðinn tilbeðinn.......Lengst t.v. sér  í hornið á Tang&Riis. Handan götunnar stendur svo Egilsenshús.





Á myndinni hér að neðan sér í gamla sýslumannshúsið lengst til hægri. Þetta hús er á afar áberandi stað í bænum en var orðið þreytulegt í eigu hins opinbera enda fer hann ört fölnandi glæsileiki þess eiganda og er helst að finna í sendiráðum erlendis. Smekkleg nýbygging leysti gamla sýslumannshúsið af hólmi og nýir eigendur hafa unnið að uppgerð þess. Sú vinna er langt á veg komin og húsið er að verða - eða er þegar orðið - með fallegustu húsum bæjarins. Sjá nánar HÉR.





Eftir kirkjuskoðunina var tími EH kominn til að drífa sig suður enda veður talsvert gengið niður. Sú ferð gekk áfallalaust, en ég tók til við frágang á húsinu sem skila skyldi á hádegi næsta dags. Sá dagur, þriðjudagur 30. september, rann svo upp á svipuðum tíma og gera mátti ráð fyrir........

...........og það var á þeim morgni sem Stakkanesið var tekið á land og vetrarbúið!



06.10.2014 10:00

Vatnsneshringur 13-14 sept. 2014


Spáin var svona "jújú", semsagt ekkert sérstök en þó engu mannskaðaveðri spáð. Þessa helgi hefur venjulega verið farið í Fljótstungurétt með tilheyrandi pottlegum í Húsafellslaug og skyldum athöfnum. Nú var allt opið um tilhögun ferðar, undanfarna daga hafði verið hreint og ómengað skítviðri á Arnarvatnsheiði og nágrenni. Það mátti því búast við vind- og vatnsbörðum göngumönnum niður í Hallmundarhraun - að ónefndu rennblautu og þunglamalegu sauðfé. Mig langaði líka að breyta til og fara eitthvert annað í réttir, helst norðureftir ef sæmilegt veður gæfist.

Á Vatnsnesi skyldi réttað í Hamarsrétt vestan og Þverárrétt austan.  Hamarsrétt er á einstaklega fallegum stað og einhvern tíma fyrir löngu hét ég því að mæta þangað á réttardegi og fylgjast með lífinu. Kannski gæfist tækifæri til þess nú....

Það var líka annað atriði sem togaði á þessar slóðir - frá þjóðvegi eitt um Línakradal liggur vegur númer 711 út Vatnsnes skammt norðan við bæina Efra- og Neðra Vatnshorn. Við þessi vegamót er skilti sem á stendur m.a. "Hvítserkur 30". Ég hef nokkuð oft ekið fyrir Vatnsnes og í báðar áttir en alltaf, utan einu sinni ekið hjá Borgarvirki, veg nr. 717. Þessi vegur, nr. 711 liggur hins vegar beint af þjóðveginum til norðurs og er hinn eiginlegi hringvegur um Vatnsnes. Hann liggur út Vesturhópið ( og nú er ég bara að tala um þá átt sem ég ók hann í) og tengist vegi nr. 717 við Þorfinnsstaði þar sem áður var skóli sveitarinnar og reisulegt skólahúsið stendur autt að því er virðist.

Enn eitt dró mig til sín á Vatnsnesið og að því kem ég síðar.

Það var hálfgert ruddaveður þegar lagt var af stað úr Reykjavík um hádegisbil laugardaginn 13. Í Borgarnesi var snöggtum skárra en þó vindbelgingur. Eftir lögáningu í bakaríinu og forðakaup í Bónus var haldið áfram norður, ekið gegnum skúrabelti og skin á milli upp Norðurárdal og inn á Holtavörðuheiði. Á leið yfir heiðina var rifjuð upp okkar fyrsta ferð yfir hana fyrir mörgum, mörgum árum. Þá vorum við á suðurleið og það var þoka á heiðinni. Við ókum uppfrá Brú í Hrútafirði, nokkrar aflíðandi brekkur og beygjur og bjuggum okkur undir þessa margumtöluðu heiði sem í fréttum hafði oft verið lýst sem illviðrasömum farartálma. Ekkert sáum við út vegna þokunnar en einhversstaðar hlaut þessi heiði þó að vera....svo fór að halla undan færi og allt í einu vorum við komin niður í Norðurárdal - til þess bentu eindregið bæjanöfnin á kortinu okkar. Holtavörðuheiði var þá eftir allt saman engin heiði, allavega ekki þeim sem vanir voru vestfirskum heiðum. Eftir þetta hef ég aldrei litið á Holtavörðuheiði sem heiði og hef þó farið hana í misjöfnum veðrum og skyggni á öllum árstímum.

Nóg um það. Á Holtavörðuheiði var nú ágætasta veður en þó lá þykkur bakki yfir fjöllunum í kring. Við höfðum enga viðdvöl í Staðarskála fremur en venjulega - Staðarskáli var aldrei "okkar" skáli heldur Brú enda lágu flestar okkar leiðir áður fyrr vestur/suður og því var Staðarskáli úrleiðis. Niðurrif Brúarskála og nýr Staðarskáli hefur ekki breytt okkar venju að öðru leyti en því að nú er engin áning í stað Brúar áður.

Við ókum beint út á Hvammstanga og fengum okkur kaffi í sjoppunni. Með því fengum við ágætasta spjall við fróðan heimamann og það fór drjúgur tími í samræður um útgerð og vinnslu á staðnum og aðkomu Ísfirðinga að rekstri. Í - 140 númerið á ferðadrekanum kveikir oft á átthagatengdu spjalli þegar menn reka augun í það.

Eftir kaffið og lauslega smíði dagsáætlunar héldum við af stað inn á þjóðveg eitt að nýju og ókum austur Línakradal að fyrrnefndum vegamótum við Vatnshornsbæina. Þar var svo beygt norðureftir, inn á veg 711 og fljótlega stöðvað úti í kanti og kortið gaumgæft. Fyrsti bær á vinstri hönd sem ekið var hjá var Vatnshóll, þá eyðibýlið Núpshlíð, næst Þóreyjarnúpur og litlu norðar Sporður til hægri handar, austan vegar. Allir þessir bæir teljast til Línakradals en sveitamörkin hljóta að liggja skammt norðan Sporðs því næsti bær í byggð er Urðarbak, litlu norðar og einnig austan vegar en telst vera í Vesturhópi. 

Á kortaklippunni (sem því miður getur ekki verið stærri í einu) er þjóðvegur eitt merktur rauðu, Hvammstangavegur bláu og leiðin út Línakradal/Vesturhóp frá hringvegi er merkt gulu. Okkar leið lá frá vegamótum í gula hringnum og norður eftir. Einhverjum kann að finnast þetta ofur-útskýrt en staðreyndin er sú að fjöldinn allur ekur þjóðveg eitt oft á ári án þess að leggja nokkurn tíma leið sína um afleggjara hans og hefur jafnvel aðeins óljósa hugmynd um hvað þar er að sjá.  Ég giska á að langflestir sem ferðast um þetta svæði aki Vatnsneshringinn um Borgarvirki og sjái því síður þessa leið, sem er verulega miður því svæðið er afar fallegt:





Í framhaldinu verð ég að setja inn aðra klippu sem spannar svæði dálítið norðar og austar. Sú neðri á að skarast við hægra upphorn þeirrar efri ef vel tekst til:





Myndin hér að neðan er tekin af heimtröðinni að Urðarbaki og sér heim til bæjar. Í baksýn er klettahryggurinn sem á kortinu heitir einungis Björg. Hryggurinn er afgerandi í landslaginu og skilur í raun milli tveggja sveita. Í honum eru miklar stuðlabergsmyndanir en melhólar á milli:





Horft norður eftir Björgum frá heimtröðinni að Urðarbaki:





Þá er það fyrrum stórbýlið Hörgshóll, á einu glæsilegasta bæjarstæði sveitarinnar og þótt víðar væri leitað. Það er ekki lengur búið að Hörgshóli en jörðin mun þó vera nýtt að einhverju leyti. Fjósið er áfast íbúðarhúsinu norðanmegin. Mér fannst dálítil synd að enginn skyldi hafa not af þessu mikla húsi á jafnfallegum stað. Í ritinu "Eyðibýli á Íslandi" sem ég vitnaði talsvert í í pistlinum um Svartárdal, er einnig fjallað um eyðibýli í Vesturhópi o.þ.m. Hörgshól. Þar er jörðin sögð "ekki stór og þykir frekar hrjóstrug eins og nafnið bendir til" (bls.136). Engu að síður var búið ágætu búi að Hörgshóli áður fyrr og má finna heimildir um það í eftirmælum ábúanda. Búsetu lauk 1983, húsið var þá þegar orðið lúið og eigendur fluttu annað. 





Niður við þjóðveginn standa fjárhúsin frá Hörgshóli:





.......og Björgin beint á móti:






Þau eru fleiri, fallegu bæjarstæðin í Vesturhópi. Þetta eru Böðvarshólar, afar fallegt og snyrtilegt býli spölkorn vestan vegar 711 og í hvarfi við hann. Bærinn stendur í laut undir gróinni hlíð Vatnsnesfjalls og staðurinn er eflaust skjólsæll ef marka má trjálundinn við íbúðarhúsið:





Stæðileg útihús Böðvarshóla standa spölkorn frá íbúðarhúsinu, snyrtileg eins og annað:





Frá Böðvarshólum ókum við út undir suðurenda Vesturhópsvatns. Þar er veggreining ( vegur 716 ) til austurs yfir norðurenda Bjarganna og tengist hringveginum rétt norðan Víðigerðis. Rétt austantil í Björgum liggur svo vegur 717  af 716 til norðurs um Borgarvirki og tengist Vatnsnesvegi ( 711 ) við Þorfinnstaði. Á kortinu hér að neðan sést þetta sæmilega þar sem Vatnsnesvegur er sem fyrr táknaður með gulu, 716 með rauðu, 717 með grænu og hringvegurinn með bláu:





( Manni hefði kannski fundist eðlilegast og skiljanlegast að vegur 717 lægi alla leið af hringvegi norðan Víðigerðis og að Þorfinnsstöðum í stað þess að vera með tvö vegnúmer á þessarri leið - en svona vill Vegagerðin hafa það og enginn er verkfræðingum æðri.....)

Hvar var ég? Jú, alveg rétt, við vorum við vegamótin við suðurenda Vesturhópsvatns. Okkur datt í hug að kíkja austur yfir Björg, þó ekki væri nema til að sjá yfir til hringvegarins og láta okkur dreyma um malbik. Undir Björgum Vesturhópsmegin, skammt frá veginum stendur þetta glæsilega greifadæmi, Bjarghús:




Við fórum aðeins að vegtengingunni (rauðu/grænu) og svo til baka því við vorum jú á leið út Vesturhóp og við vatnsendann beygðum við til norðurs að nýju. ( sjá kort 2 ). Vegurinn frá Hörgshóli norður að Vesturhópsvatni liggur undir lágum klettarana, áþekkum Björgum að austan en allmiklu minni. Þessi klettarani myndar dálítið dalverpi til norðurs/suðurs milli sín og Vatnsnesfjalls. Sunnarlega í dalverpinu eru Böðvarshólar sem áður voru nefndir en norðan í því er býlið Grund, án ábúðar. Heim að Grund er dálítill spotti en við enda hans er sannkölluð sumarparadís:

Það er Vatnsdalsfjall sem "einokar" bakgrunninn og mynni Vatnsdals sést til vinstri:







Þegar aftur er komið niður á Vatnsnesveginn blasir þetta minnismerki við. Á því er áletrun, sú efri er illskiljanleg við fyrsta lestur:

"Á BREIÐABÓLSTAÐ Í VESTURHÓPI AÐ HAFLIÐA MÁSSONAR VORU FYRST SKRÁÐ LÖG Á ÍSLANDI 1117-1118"

Neðar er áletrun sem segir: "Lögmannafélag Íslands reisti minnisvarða þennan á 1100 ára afmæli Íslandsbyggðar 1974"

......og nú myndi kannski einhver álíta að undarlegt orðalagið í efri klausunni sé skiljanlegt þar sem lögfræðingar áttu í hlut. Ekki er það nú alveg, því þótt klausan sé að sönnu færð til nútímastafsetningar er orðalagið  tekið beint úr Þorgils sögu ok Hafliða og er sem slíkt alveg eðlilegt. Vesturhópsvatn er svo í baksýn:





Litlu norðar og enn á vinstri hönd er Breiðabólstaður, þar sem lögin voru rituð "...at Hafliða Mássonar at umráði Bergþórs....." og má af samhenginu skilja að "..at Hafliða.." þýði beinlínis: " í umsjá Hafliða" eða "undir stjórn Hafliða".

Okkur langaði að skoða kirkjuna að Breiðabólstað, af því við skoðum nefnilega stundum kirkjur. Við ókum örmjóa heimtröð þar sem vart var hægt að mæta bíl - og auðvitað skyldi þá koma bíll frá bæ. Okkur tókst að mæta honum en á hæla hans kom annar og sá stöðvaði hjá okkur. Rúða rann niður og maður bauð góðan dag. Við spurðum hvort kirkjan væri opin til skoðunar. Hann sagði svo vera en sagðist jafnframt koma fljótlega aftur - eða allavega kæmi einhver fljótlega aftur. Við áttuðum okkur á að hann hafði áhyggjur af bænum því augljóslega var enginn heima. Við lofuðum góðri umgengni og heiðarleika og stóðum við það, að ég hygg....










Kirkjan var köld og ókynt að sjá, þó voru í henni ofnar og líklega er haldið frostfríu yfir harðasta veturinn. Þetta er hefðbundin sveitakirkja, í prýðilegu standi að sjá. Þó var farið að sjá eilítið á gluggum.







Frá Breiðabólstað héldum við áfram út með Vesturhópsvatni vestanverðu og handan vatns blasti Borgarvirki við:





Fyrir u.þ.b. miðju vatni vestantil er býlið Klambrar. Kortið okkar sagði raunar "Klömbur" en mér finnst hyggilegt að treysta vegskiltinu því ég efa að sá eða þeir sem lögðu stórfé í endurbyggingu íbúðarhússins létu sér líka vegskilti með rangri áletrun. Húsið virðist vera hlaðið úr tilhöggnu grjóti og er afar glæsilegt - og þá má geta sér til um hvort ekki hafi verið auður í búi þegar það var byggt, á tímum torf-og timburkofa. Sjá nánar HÉR:







Niður gilið rennur Klambraá (skv. kortinu) en dalurinn heitir Ormsdalur og utarlega í honum á hægri hönd mun hafa staðið landnámsbýlið Ormsstaðir, sjá HÉR:





Þá var loks komið að Þverárbæjum og Þverárrétt. Við lögðum ferðadrekanum við réttina og settum taum á Bassa enda hefur áhugi hans á kindum verði tíundaður fyrr og ekki alltaf að góðu. Bassa lá hér áður fyrr hreinlega við hjartaáfalli ef kindur voru annars vegar en eitthvað breyttist þegar ég fór með hann inn í fjárhús austur í Hrífunesi og leyfði honum að skoða kindur að vild. Það var eins og fjöldinn yrði honum um megn, hann varð gjörsamlega stjarfur og stífur þar sem hann stóð á afturfótunum við grindurnar og teygði trýnið inn á milli. Svo stífur var hann að bæði kindur og lömb sem höfðu hörfað yfir í hinn enda hússins þegar bandóður hundurinn birtist, voru farin að koma til baka hægt og hægt. Það bar jafnvel á því að huguðustu lömbin voru farin að reka snoppuna í trýnið á þesu einkennilega, gráa lambi handan rimlanna. Eftir þetta var eins og Bassi væri slakari gagnvart kindum. Þegar ég missti hann í kindahóp úti á Vatnsnesi í fyrri ferð og bjóst við að nú væri hann - ásamt kindahópnum - að eilífu glataður þá hætti hann fljótlega að elta og lét nægja að gelta! Þannig náði ég honum strax, nokkuð sem fyrir fimm árum hefði verið ómögulegt.

Nú var Bassi kynntur fyrir fleiri húnvetnskum "dömum" og þá brá svo við að hann lét sér fátt um finnast og sneri sér að öðrum áhugamálum:







Líklega hefur nú einhvern tíma verið smalað fleira fé á þessum slóðum. Allt er í heiminum hverfult......








 Að neðan  er horft frá Þverárrétt til austurs, yfir í mynni Vatnsdals. Í forgrunni er eyðibýlið Syðri  - Þverá:






Frá Þverárrétt ókum við út að mótum vegar 717 við Þorfinnsstaði. Þar beygðum við til hægri (austurs) inn á 717 og ókum hjá Vatnsenda og út undir Gottorp. Við ókum niður afleggjara að eyðibýlinu Ásbjarnarnesi en snerum við túnhliðið. Svo var haldið til baka að vegamótum við Þorfinnsstaði. Það er lítil reisn yfir Þorfinnsstöðum núna og ekki að sjá þar neina búsetu. Jörðin var auglýst til sölu nýlega en virðist ekki vera  það ekki lengur. M.a. er frekar stórt skólahús á jörðinni sem undanskilið var sölu en kynnt sem hótel. Skóli er aflagður að Þorfinnsstöðum fyrir nokkru en húsið hefur að sönnu verið notað sem hótel. Ekki var þó neina drift að sjá í þetta sinn og hótelið jafnmannlaust sem önnur hús. 

Að Þorfinnsstöðum var hún Rósa amma mín blessunin, fædd og víðar bjó hún á Vatnsnesinu áður en hún fluttist vestur í Hnífsdal og síðar að Stakkanesi við Skutulsfjörð. Trúlega hefur húskosturinn verið nokkuð öðruvísi um það leyti sem amma fæddist, árið 1886.

Við héldum áfram  för og næsti viðkomustaður var kirkjujörðin Vesturhópshólar.





Það var komið fram um kvöldmat þegar við  renndum heim á hlað við Vesturhópshóla. Heima við var fólk og ég lagði ferðadrekanum og gekk til húss til að fá "kirkjuleyfi". Ég átti skammt farið að dyrunum þegar þær opnuðust og út skældist maður með hönd á hjartastað. Hann bar sig eins illa og hann best gat og stundi: "Ég ætlaði einmitt að fara að hringja á þig. Ég er nefnilega alveg að fá hjartaáfall!"  Svo hló hann sig máttlausan....

Ég sagði honum að hann væri heppinn því þessa helgi væri tilboð á sjúkraflutningum, tveir fyrir einn. Enginn vildi fylgja honum á spítalann svo hann afþakkaði gott tilboð og lánaði okkur kirkjulykilinn með breiðu brosi. Það var sannarlega ekkert að hjartanu í þessum manni....





Kirkjugarðshliðið er óvenju veglegt og minnir helst á garðshlið Landakirkju í Eyjum. Efst í innhlið þess er steypt ártalið 1928:





Kirkjan sjálf er látlaus og að sjá í góðu standi. Líkt og að Breiðabólstað var hún köld og ókynt en rafmagnsofnar neðst á útveggjum. Væntanlega er haldið frostfríu harðasta veturinn enda varla þörf á meiru til að forðast rakaskemmdir.

Á vefnum Kirkjukort.net. er að finna ágætar upplýsingar um Vesturhópshólakirkju.











Ég reyndi að rýna eftir áletrun á klukkunum, Eitthvað sá ég en ekki nægilega læsilegt:





Við skiluðum svo kirkjulyklinum, þökkuðum fyrir okkur og héldum áfram áleiðis norður með vatni. Elínu Huld langaði að skoða Hvítserk á þurru og nú var stórstraumsfjara. Á leið úteftir er ekið hjá býlinu Kistu, þar sem aðallega virðist stundaður brotajárnsbúskapur og nafni býlisins myndi hæfa viðeigandi forskeyti (sem aðrir mega setja í samhengi)







Rétt var það, Hvítserkur stóð alveg á þurru og vel var gengt út að honum. EH fannst hins vegar bæði kalt og hvasst þótt hún reyndi að bera sig vel í myndatökunum:







Nú var eiginlegri dagsáætlun lokið og aðeins eftir að koma sér til Hvammstanga þar sem útilegukorts - tjaldsvæðið beið okkar.  Þegar við fórum yfir kortið sáum við að trúlega yrði einfaldast að ljúka Vatnsneshringnum í stað þess að aka til baka inn í Línakradal og eftir þjóðvegi eitt. Við héldum því einfaldlega áfram út hjá Súluvöllum, Valdalæk (en á báðum stöðum hafði skyldfólk Rósu ömmu búið) og fyrir nes að Hindisvík.  Þar var landið opið öllum áður fyrr og fært niður í fjöru enda er við Hindisvík eitt stærsta selalátur á þessum slóðum og erlendir ferðamenn sóttu mjög í að skoða það. Nú hefur öllu hins vegar verið lokað og umferð um svæðið bönnuð í verndarskyni. Það hefði þá einnig verið í lagi að leggja eitthvað til verndar þeim gömlu húsum sem sr. Sigurður Norland lét byggja á sínum tíma, þegar hann hugðist gera Hindisvík að þorpi.





Innan og sunnan við Hindisvík er býlið Saurbær. Ekki er annað að sjá en að þar sé búið myndarbúi. Litlu sunnan við Saurbæ eru rústir torfbæjar undir lágri hlíð.  Þar lá þriðja ástæðan sem togaði á Vatnsnesið og nefnd var í upphafi. Þetta voru Flatnefsstaðir.





Jói frændi, föðurbróðir minn var einstakur maður, barngóður, hjálpsamur og mátti ekkert aumt vita. Myndin er, eins og sjá má, af afmælisgrein sem birtist í dagblaði þann 8. janúar 1988. Jóa frænda varð ekki lengra lífs auðið, hann lést þann 2. júlí sama ár eftir áfall en var heilsuhraustur fram að því. Það voru ekki skrifaðar langar greinar þegar  Jói kvaddi en minningin lifir.

Mig hafði langað til að finna Flatnefsstaði, bjóst raunar ekki við öðru en tóftum en hafði svo sem enga vitneskju. Nú voru þeir fundnir en því miður var myrkur að skella á og því ekki tök á að skoða bæinn, eða það sem eftir var af honum. Það kemur sumar eftir þetta.......


Það var komið myrkur þegar við komum að Hamarsrétt og rétt grillti í hana undir klettunum. Við gerðum margar tilraunir til myndatöku sem allar mistókust nema þessi, þegar búið var að slökkva á flassi og stilla myndavélinni upp á fastan punkt. Þetta tekst stundum og stundum ekki, sbr. myndina af Stakkanesinu í Stykkishólmshöfn sem birtist í síðasta pistli. Í þremur hólfum voru kindur sem biðu morgundagsins, vatnslausar í skítakulda. Ég fór að velta því fyrir mér í framhaldinu hvort fé væri aldrei gefið að drekka í réttum, þegar það kæmi hlaupamótt og örþreytt af fjalli. Ég hef aldrei séð það gert..........Nú áttu þessar kindur nótt í vændum í kulda og rekju og síðan væntanlega flutning að morgni. Allt án þess að komast í vatn?







Það var komið svartamyrkur þegar við renndum inn á tjaldsvæðið í Kirkjuhvammi ofan Hvammstanga. Fyrir á svæðinu voru nokkrar hræður, ýmist í tjöldum eða á svona "Happy-camper" ferðasmábílum. Við lögðum bílnum nærri þjónustuhúsinu, tókum út gasgrillið og grilluðum lærissneiðar við handlukt því engin voru útiljósin. Svo var inniserían hengd upp og allt gert til að hafa kvöldið sem notalegast enda fór í hönd síðasta nótt ársins í ferðadrekanum. Hans tími þetta árið var að líða og þar með eitt stærsta og stórkostlegasta ferðasumar okkar frá upphafi. Að öðrum ólöstuðum telur Færeyjaferðin þar þyngst......


Það rigndi hressilega um nóttina í kröftugum vindrokum. Það var svo sem ekkert sem rak okkur á fætur svo klukkan var líklega um ellefu á sunnudagsmorgni þegar við tókum saman okkar föggur og héldum í sundlaugina. Með morgninum dró talsvert úr veðrinu og það var skaplegasta veður í sundlauginni. Eftir klukkutíma pottlegu skelltum við okkur í kaffi í söluskálann Hörpu, sem eitt sinn var Shellskálinn. Þar lentum við á enn betra spjalli en daginn áður og fórum af bæ miklum mun fróðari um byggðarlagið og allt gengi þess. 

Að síðustu tókum við einn eða tvo hringi um bæinn. Hér er horft yfir smákofana á tjaldsvæðinu, flestir eða allir voru byggðir erlendu starfsfólki sláturhússins, sem auðvitað var á fullu þessa dagana:





Utan við bílskúr í bænum stóð gömul dráttarvél með þessari skemmtilegu útfærslu af húsi - eins konar "high-roof"





Inn við vegamót hringvegarins stóðu myndarleg og broshýr skötuhjú og buðu ferðamenn velkomna til Hvammstanga:





Við vorum ekki alveg tilbúin í heimferð - það fylgir þvi alltaf ákveðin tregða að ljúka ferðalagi og taka strikið heim. Þess vegna reynir maður alltaf að "gera eitthvað" úr heimferðinni, jafnvel þótt ekið sé um margtroðnar slóðir. Þetta á ekki síst við þegar maður er í síðustu ferð sumarsins og vill gera sem mest úr öllu. Þegar við komum að Staðarskála, og þrátt fyrir að veðrið væri að taka sig upp aftur, ákváðum við að renna út á Borðeyri og taka einn hring þar. Á leiðinni var skipt um fararstjóra, EH þurfti að bregða sér afturí á keyrslunni og þá var ekki beðið boðanna að stela sætinu:





Það blés hressilega á Borðeyri, svo mikið að sjórinn rauk yfir eyrina.





Þess vegna er kannski ekki skrýtið að gamli þúfnabaninn sé orðinn brúnn af ryði. Hann er búinn að standa þarna allmörg ár og það er til marks um hversu betra efnið var í "gamla daga" að hann skuli ekki vera horfinn með öllu.





Það blés á móti yfir Holtavörðuheiðina en við höfðum hestöflin með okkur og urðum lítt vör við rokið. Í kaffispjallinu á Hvammstanga kom fram að varað væri við ferðum um Kjalarnes og undir Hafnarfjalli þar sem hviður færu í fjörutíu metra. Okkur varð hugsað til félaga okkar í Húsbílafélaginu, sem höfðu safnast saman að Varmalandi í Borgarfirði og áttu nú heimferð fyrir höndum. Þegar suður í Borgarfjörð kom var það eitt okkar fyrsta verk að renna niður að Varmalandi og kíkja á hópinn. Þar voru þá aðeins þrír bílar eftir af nokkrum tugum og okkur sýndist þeir allir vera að ferðbúast. Okkur fannst ótrúlegt að allur flotinn hefði lagt í Hafnarfjallið í rokinu og því líklegra að einhverjir hefðu farið heim áður en veður skall á. Við vorum svo sem ekkert að flýta okkur heim eins og fram kom áður, og reyndum að teygja ferðalagið sem mest. Einn var sá staður í nágrenninu sem mig hafði lengi langað að koma á en ekki orðið úr. Það var kirkjustaðurinn Stafholt. Kirkjan og bæjarhúsin blasa við þegar ekið er um þjóðveg eitt í Borgarfirði  og afleggjarinn þangað niðureftir er ekki langur. Samt hafði ég aldrei látið verða af heimsókn. Nú var tíminn og við renndum niður að Stafholti.







Kirkjan var læst og við vildum ekki trufla fólk heima á bæ enda komið fram um matmálstíma. Ég notaði því gamla og góða aðferð við að sjá það helsta inanndyra og lagði linsuna á gluggarúður.







Kirkjan í Stafholti leynir á sér því hún er mun stærri en virðist vera, vegna breiddarinnar. Hún er einnig dálítið sérkennileg innan vegna sköpulagsins, því bekkirnir ná rétt inn í miðja kirkju. Altarið er á upphækkun og þessi upphækkun er rétt tæpur helmingur af flatarmálinu, sýndist okkur. Vegna breiddar kirkjunnar voru bekkirnir hins vegar óvenjulega langir og sætafjölda náð þannig. Þá er afar sérstök hringhvelfing yfir kórnum. Sjá allar nánari upplýsingar um kirkjuna á kirkjukort.net. 





Kirkjugarðurinn er allstór að flatarmáli og hluti hans mjög gamall, enda á kirkjustaðurinn sér aldagamla sögu. Nokkuð er um liggjandi stuðlabergssúlur sem legsteina, líkt og við tókum eftir og mynduðum að Hvammi í Norðurárdal, og minnst var á í fyrsta hluta "Dalir og heiðar"





Bæjarstæðið er með þeim glæsilegustu enda blasir það við úr öllum áttum:





Sá hluti Stafholtstungna sem sjálfur kirkjustaðurinn stendur á heitir Miðtunga og er landmikill rani sem gengur niður milli Norðurár og Hvítár. Neðst í þessum rana er býlið Flóðatangi og nafnið gefur ákveðna hugmynd um glímu við vötn í vexti. Neðan við Flóðatanga sameinast árnar og er þá örstutt niður að gömlu bogabrúnni yfir Hvítá en á þeim stutta kafla sameinast Grímsá hinum tveimur úr austri. Við ókum niður að Flóðatanga og snerum þar, síðan til baka um Deildartungu, Kleppjárnsreyki og Fossatún en beygðum af leið rétt þar neðar og ókum meðfram Grímsá að Hvítárvöllum. Vegnúmerið til Hvanneyrar vakti athygli, svona vegnúmer hef ég ekki séð fyrr og þarna hefur eitthvað breyst sem þarf að kanna betur.....





Síðasta myndin í pistlinum er svo tekin af Hvítárbrúnni út um framrúðuna, eins og sést. Hægt er að aka tvær leiðir út á þjóðveg eitt, við völdum þá nyrðri og komum inn á þjóðveginn skammt frá Gufuá.





Þegar í Borgarnes kom var stór hluti húsbílaflotans frá Varmalandi þar saman kominn og beið af sér veður. Eitthvað var það þó farið að ganga niður því meðan við snæddum langþráðan kvöldmat í Grilli-66, sem er jafn fastur viðkomustaður og Geirabakarí, sáum við svona pappakassa-húsbíl af stærri gerðinni koma siglandi sunnan að, undir Hafnarfjalli og í Borgarnes. Hann sameinaðist svo hópnum sem fyrir var.

Við lögðum á Hafnarfjallið eftir kvöldmat, víst var hann hvass en ekki til trafala og við komum heim í Höfðaborg á miðju kvöldi sunnudagsins 14. september. Tveimur dögum síðar voru númer ferðdrekans lögð inn til vetrargeymslu og tekið til við að undirbúa Stykkishólmsferð þann 24. sl. - ferðina sem tíunduð er hér neðar.

........og þó að númer ferðadrekans séu komin í vetrargeymslu og Stakkanesið lagst í vetrarhíði, segir þá einhver að öllum ferðum sé lokið?

.......ekki aldeilis!


.............................................................................

02.10.2014 20:00

Sunnudagur í Hólminum - seinni hluti.


Á ákveðinn máta - ekki endilega hávaðasaman en mjög, mjög ákveðinn máta - var ég minntur á að í fyrri hluta láðist mér að birta myndir af háseta á stýrisvakt. Myndin er tekin rétt áður en við renndum inn á sundið milli Bíldseyjar og Skjaldareyjar, hásetinn hafði fengið uppgefið kompásstrikið og fylgist nákvæmlega með eins og sjá má. Ákveðið kompásstrik virðist kannski ekki skipta máli þegar siglt er um - að því er virðist - hreinan sjó með landsýn til allra átta en ég hafði aulast til að benda henni á stjörnu framundan í sjókortinu og það sem enn verra var - ég hafði líka aulast til að segja henni að stjarnan þýddi sker og því skipti dálitlu máli að halda strikinu framhjá því. Stórskipið Stakkanes er ekki með ratt eins og önnur stórskip heldur kennir skyldleika við smærri fleytur og stýrið er sveif. Þegar fólk er ekki vant því að halda um stýrissveif á báti vilja einföldustu hlutir flækjast, stjór verður bak og öfugt......það fór því svo að eftir litla stund yfirgaf háseti á stýrisvakt stöðu sína með óeftirhafanlegum yfirlýsingum og seldi líf sitt í hendur skipstjóra ( því miður réttindalausum en það fer aldrei hátt).

Ég efast raunar um að ég fái þökk fyrir ofanritað enda átti ég að birta myndina með hrósi fyrir einstaka stjórnarhæfileika. Maður á samt alltaf að segja satt - jafnvel þótt maður fái kannski bágt fyrir......




Þegar fyrri hluta lauk vorum við komin inn fyrir taglið NA úr Skoreyjum og Hannes Andrésson SH sigldi sína leið. Stefnan var tekin milli Seleyjar og Fagureyjar, Hvítabjarnarey og Byrgisklettur sigu afturfyrir og eru þar með úr sögunni, eins og stundum er sagt.





Framundan eru svo ný og ókönnuð eylönd - eða þannig. Svona horfði Seley við okkur, dökk eins og himinninn yfir henni. Reyndar er það aðeins birtan sem gerir Seley dökka á myndinni. Hún var miklu bjartari yfirlitum hinumegin.





Í sundinu milli eyjanna tveggja er ákaflega fallegt stuðlaberg. Sundið er frekar þröngt og ég hafði velt fyrir mér áður hvort hægt væri að sigla það. Fyrr á þessum sunnudagsmorgni stóð ég við gluggann hjá Gunnlaugi og Löllu uppi á Skólastíg og velti fyrir mér vænlegri siglingaleið dagsins. Þá kom tvíbytnan Særún siglandi með landinu full af túristum og tók strikið gegnum sundið. Þar með var það ljóst.......







Það hallast ekkert á með Fagurey og Seley - stuðlabergið ar jafnflott beggja megin, enda er þetta í grunninn sama eyjan og aðeins skarð á milli.





Kannski ég setji núna inn kortaklippuna sem ég bjó til, til glöggvunar fyrir þá sem enn nenna að skoða síðuna:





Við skriðum gegnum sundið á 9-11 mtr. dýpi og þegar komið var suður fyrir Seley var enn þokkalega djúpt. Stefnan var tekin austur með eynni í átt að Skákarey. Myndin hér að neðan er tekin yfir bb.borðstokkinn til norðausturs yfir Seley:





Þegar tvíbytnan fer þarna inneftir er tilgangurinn yfirleitt sá að sýna ferðamönnum þennan sérstaka helli sunnan í Seley - og víst er hann skoðunarverður:





Skákarey er framundan, það sér til húsa og hann sést líka vel, straumbeljandinn fram úr Stapastraumnum og Mannabana, milli Öffurseyjar og Akureyjar, ef ég styðst við nöfnin á kortinu hér ofar. Örnefnakortið í Árbók F.Í. ´89 er skýrara....





Komin nær lendingu í Skákarey og inn fyrir sterkasta strauminn. Þarna var kúplað frá og látið reka um stund. Við fylgdumst með þaraflækjum og fleiru sem þeyttist áfram út úr sundum og álum á ótrúlegum hraða. Stakkanesið rak ekki mikið, snerist aðallega í hringi því við vorum í hléi við strengina....





Horft inn í Stapastraum þar sem sjórinn beljaði fram eins og fljót. Á kortinu hér ofar er Stapastraumur teiknaður innan við Stapana og snýr SV/NA en á örnefnakorti í áðurnefndri árbók F.Í. snýr hann NV/SA, rétt eins og rauða siglingaleiðin okkar og eins og myndin horfir. Ég bar þetta undir mér kunnugri menn sem sögðu örnefnakortið réttara. Þess vegna má endurtaka: "Horft inn í Stapastraum...."





Hér að neðan er horft í suður, í átt til Helgafells og þegar myndin er stækkuð má greina kirkjuturninn við jaðar fjallsins vinstra megin. Húsið sem sést á myndinni er að öllum líkindum í Örfirisey -  sem á kortinu ofar er kölluð Öffursey:





Þegar við höfðum fengið nóg af hringsnúningi lögðum við af stað til baka og fórum hægt. Á milli Skákareyjar og Seleyjar eru hólmar sem bera sérkennileg nöfn, eins og Írland og Hundshausar. Á myndinni að neðan ber Írland í Seley lengst til hægri en til vinstri rennur Fagurey saman við Seley:





Þarna í sundinu sigldum við yfir flúð og dýptarmælirinn teiknaði lóðrétt strik úr sjö metra dýpi í tæpa þrjá. Það var í góðu lagi því klukkan var að detta í þrjú og liggjandinn átti að vera kl. 15:10. Það var nokkuð klárt að ekki myndi grynnka mikið meira og að flúðin væri slétt - á innan við þriggja metra dýpi hefði steinn á henni gert straumrák....Það er því eðlilegt að ekki sé beinlínis áhyggjusvipur á kafteininum þegar allt leggst á eitt: Veðurblíða, einstaklega fallegt umhverfi og tilhugsunin um steik að kvöldi...( ja, maður segir svona....)





Stapastraumur að baki:





Við sigldum áleiðis út í Hólm, meðfram Seley og Fagurey, sunnan við hólmaklasa sem heitir Klofningar, sunnan við hólmann Eyjargafl við suðurenda Skoreyja og loks í skánorður upp með Skoreyjum sjálfum. Við Eyjargafl var stífur straumbeljandi út sundin þótt klukkan væri nákvæmlega 15:10 og því kominn reiknaður liggjandi. Straumarnir kunna hins vegar ekki á klukku og halda því áfram að belja meðan enn er til efni í þá. Það er ekki fyrr en talsvert löngu síðar sem aðfallið utan úr Breiðafirði mætir þeim, segir "Hingað og ekki lengra" og snýr þeim svo við inneftir aftur.Þannig hefur það ætíð verið og þannig verður það meðan jörðin snýst. Eilíf hringrás lífsins......

Skoreyjar eru tvær en þó samt ein eyja. Á milli er aðeins þröngt sund sem þornar um fjöru og flýtur aðeins um háflóð. Við sundið vestanvert er vogur og við voginn er sumarhús. Mig langði að vita hversu langt flyti inn á voginn. Stapinn til hægri markar syðra hornið:








Það var fjara og þó flaut alla leið inn í vogsbotn:





Horft í skarðið sem skilur eyjarnar að. Það má mikið vera ef ég á ekki eftir að reyna þetta á flóði:





Í vestrinu lá Hesthöfði, í loftinu vindaský og á milli var Baldur að fara sína fyrstu Brjánslækjarferð eftir Vestmannaeyjaveruna. Ef allar áætlanir hefðu gengið upp hefði Baldur ekki farið þessa ferð því nýja ferjan hefði þá verið komin. Býrókratíið lætur hins vegar ekki að sér hæða og blýantsnagarar aka sér í skrifborðsstólunum þegar hægt er að tefja einhver mál svo að þeir finni örlítið til eigin mikilvægis. Stundum þarf kerfið svo mikið að "fjalla" um mál og svo mikinn tíma til að "fjalla" um þau að spurning vaknar um hvort ekki sé rétt að reka allt heila helvítis blýantsnagarasafnið á fjöll og leyfa því að fjalla þar dálitla stund um allt mögulegt og ómögulegt.....

Ef einhver leggur kollhúfur yfir þessum reiðilestri þá vil ég að fram komi að ferjan sem á að leysa Baldur af og kerfið hefur dregið lappirnar útaf er smíðuð í Noregi. Stakkanesið er líka smíðað í Noregi. Eigum við að ræða það frekar?





Þegar við Gunnlaugur Valdimarsson Rúfeyingur með meiru vorum á kvöldsiglingu við Skoreyjar um daginn benti hann mér á Hildarboða skammt norðan við Bauluhólma og sagði mér að ef ég vildi sigla á milli skyldi ég vera sem næst Bauluhólmanum. Við fórum á milli og af bendingum hans mátti ráða að ég væri alltaf of nálægt Hildarboða. Það var reyndar af ásettu ráði því ég vildi skoða hvernig grynningin kringum hann liti út. Gulli er ekkert vanur að nota dýptarmæli þarna - hann veit bara af gamalli reynslu, eigin og annarra að sundið er öruggt næst Bauluhólma og óþarfi að freista gæfunnar með því að fara aðra leið. Mér er hins vegar forvitnin eðlislæg auk þess sem ég treysti átta millimetra ryðfría kjöldraginu undir Stakkanesinu. Það reyndi ekki á það en munaði þó litlu því botninn reis nær lóðrétt úr sautján metrum í þrjá! Siðan í sama falli aftur niður á sautján.

Ég fór sömu leið í þetta sinn en minnugur þess hvernig var að horfa á lóðréttan vegg birtast á skjá mælisins og ónotanna sem fylgdu því að vita ekki hversu hár sá veggur væri, þá fór ég nú ívið nær Bauluhólma. Nú var raunar meiri fjara en síðast og þegar ég sá botninn byrja að rísa beygði ég ennþá nær. Samt reis sami veggur og ég var við það að skipta í bakk þegar hann endaði í tveggja metra dýpi. Svo lóðrétt fall aftur. Við vorum komin  hálfa leið út að Súgandisey þegar ég áttaði mig á að gaman hefði verið að snúa við,sigla aftur yfir grynninguna og taka vídeó með myndavélinni af dýptarmælinum. U.þ.b. jafnskjótt áttaði ég mig á að líklega þætti engum þetta merkilegt nema mér....

Síðustu metrana sigldum við á hálfri ferð og nutum útiverunnar því veðurspáin hafði fullvissað okkur um að þetta væri síðasta sigling Stakkanessins í sumar.






Illviðrið sem spáð hafði verið síðla sunnudags lét þó bíða eftir sér. Um kvöldið gerði stafalogn og þá var tækifærið notað til að kveikja á seríunni og mynda. Því miður er myndavélinni minni ekki gefið að taka skýrar myndir í lítilli birtu. Þetta er ekki kunnáttuleysi því eins og ég hef margsagt tekur EH miklu betri myndir en ég og hún hefur stúderað þennan vélarræfil eftir bestu getu. Hún gerði sitt besta og tók um 20 myndir. Ég valdi þessa úr þeim skástu:





Mánudagsmorguninn 29. sept sl. rann upp og þá sveik stormspáin ekki. Svo furðulega vildi hins vegar til að meðan ég var að sýsla við að taka Stakkanesið upp og ganga frá því fyrir veturinn, dúraði og datt í þetta fína veður. Svo hvasst var úti í höfn þegar ég lagði frá að báturinn lagðist undan vindinum og Landeyjarsundið var vandfarið vegna stöðugs hliðarreks. Svo, eins og ýtt væri á rofa, datt niður vindur og um leið hætti rigningin að mestu. Það örlaði á sólarglampa meðan ég tók tækin og rafgeymana úr stýrishúsinu, björgunarbátinn úr hólfinu sínu, björgunarhringinn af þakinu og stóra akkerið af hvalbaknum. Annað smálegt var tínt úr og að lokum var landbáturinn Fagranes strappaður fastur þversum ofan á borðstokkana. Þar með var allt klárt fyrir einn loka - kaffibolla hjá Gulla og Löllu. Svo var kvatt og lagt af stað suður. Ég var kominn sirka fjóra kílómetra þegar stormurinn kom úr hádegismat, tvíefldur.

Það varð ekki langt, þetta sumarið hjá Stakkanesinu - aðeins þrjár, stuttar viðverur í Hólminum, sú fyrsta á verslunarmannahelgi og sú síðasta nú, þegar aðeins gaf á sjó einn dag. Fram að verslunarmannahelgi var báturinn á landi í Reykjavík og beið eftir að drengurinn hjá Skipaþjónustu Íslands hefði samband vegna bryggjuplássins í Grafarvogi. Hann var á fundi í apríllok þegar ég hringdi í hann og lofaði að hafa samband að honum loknum. Það gerðist ekki og því fór sem fór. Allt var þetta raunar komið fram áður en stendur engu að síður óbreytt.




Það er annar október og það rignir í Reykjavík. Ekki óvanalegt og satt að segja bara hálf heimilislegt. Það hefur verið lítið um sól úti og því er heldur ekki sól inni. Börnin á leikskólunum syngja "Sól í hjarta, sól í sinni..."

..................og ég tek undir.


------------------------------





01.10.2014 01:00

Sunnudagur í Hólminum.


Gallinn við að bóka sumarhús að hausti með löngum fyrirvara er veðrið - svona aðallega. Það er nefnilega ekki á vísan að róa þegar haustlægðirnar hefja göngu sína og renna hver á fætur annarri yfir þetta volaða, sumarskerta sker með ausandi rigningu, hávaðaroki eða kraftmikilli blöndu af hvorutveggja......

Ég átti bókaða höll þann 24.sept. og allt fram til hádegis í dag (30). Lengst af stóðu vonir til þess að veðrið yrði okkur Stakkanesinu hliðhollt, að hægt yrði að ná góðum dögum á Breiðafirði - já, eða Hvammsfirði, sem er eiginlega réttara. Svo þegar leið að þeim 24. og spár bentu eindregið til skítviðris - og voru óvenjulega sammála - fóru munnvikin heldur að síga. 

Þeir spáðu hálfgerðu mannskaðaveðri þann 24. en reyndar ekki fyrr en uppúr hádegi og morgunflóðið var klukkan 7. Það var hásjávað og nokkuð klárt að tveimur tímum eftir háflóð yrði enn nægilega hátt í til að sjósetja Stakkanesið í Skipavíkinni - því þótt Stakkanesið sé að sönnu stórskip þá er það lítið skip þegar við á. Klukkan var hálfsjö að morgni miðvikudagsins 24. sl. þegar þeyst var af stað úr Höfðaborg og stefnan tekin á Hólminn. Auk hefðbundins sjósetningarbúnaðar var nýr "kerfis"rafgeymir í för því sá sem fyrir var hafði sýnt veikleikamerki og skyldi víkja. Startgeymirinn er hins vegar nýlegur og í topplagi.

Veðrið á leiðinni var alveg þolanlegt, rauðu tölurnar á vegskiltunum sýndu aðeins 21-22mtr/sek. Úrkoma var lítil og í Hólminum var bara allra skaplegasta veður. Eftir einn hring í bæinn var ráðist í sjósetningu en sjósetningar- og landtökubúnaður er allur smíðaður á þann veg að ég ráði einn við hvorttveggja.

Annað sem snertir ofangreint var áður komið fram í pistli sem ég skrifaði sl. fimmtudagsmorgun, þá í hálfgerðu skítaveðri. Það veður varð þaulsætnara en ég hafði vonað og þrátt fyrir að á kvöldin gerði gjarnan "ísfirskt" logn gekk veður ekki niður fyrr en á sunnudagsmorgun - en þá gerði líka "grand" veður!

Það hafði fjölgað í áhöfn úr einum í tvo því úr Reykjavík kom akandi háseti og myndatökukona sem ekki vildi setja sig úr færi við góða siglingu ef hún byðist. Við leystum frá rétt fyrir hádegi og stefnan var tekin upp vestan við Þórishólma og upp undir Bíldsey. Í vestrinu lá Elliðaey:




 Þórishólmi er líklega með mest mynduðu eyjum landsins enda fastur viðkomustaður í nær öllum ferðamannasiglingum frá Stykkishólmi. Við myndjaðar vinstra megin sér á Klakkeyjar. Klofningur á Fellsströnd í baksýn.






Væri litið til austurs og inn Hvammsfjörð lágu Hvítabjarnarey og Skoreyjar fyrir miðri mynd en yfir fjöllin að sunnan læddust fyrirboðar næstu óveðurslægðar:






Hásetinn myndaði "kallinn í brúnni":









Mávey lengst til vinstri, Kiðey nær miðju og talsvert fjær, klasar smáeyja og loks Klakkeyjar lengst til hægri. Sjáiði veðrið, maður lifandi:






Þórishólmi þokast afturfyrir á stjór.....








Á bakborða blöstu Steinaklettar við, suðvestan Bíldseyjar. Það er Vaðstakksey sem ber í Steinakletta lengst til vinstri en mun fjær:






.......nálgast Bíldsey á bak.....






Við ætlum að sigla inn og austur sundið milli Bíldseyjar sunnan og Skjaldareyjar norðan. Alveg við myndjaðar hægra megin sér í Skjaldarey og örlítið í sundið á milli..






Mávey hæst á miðri mynd, Klakkana ber í hana og Klofningsfjall í baksýn:






Afturút er Drápuhlíðarfjall hægra megin á mynd og mynni Álftafjarðar á miðri mynd:






Beygt inn sundið til austurs milli Skjaldareyjar (framundan) og Bíldseyjar:







Á sundinu og vogurinn norður af Bíldseyjarbænum að opnast:






Lagst við akkeri á voginum. Húsið í Bíldsey fyrir miðju. Það gætu sem best verið Ljósufjöll sem sjást í baksýn, en svo má vel vera að sjónarhornið rugli, þetta sé Bjarnarhafnarfjall og skarðið sé Hestadalur. Þriðji möguleikinn er að við séum að horfa beint upp í Kerlingarskarð. Ég hallast helst að því:






 Myndað út voginn og til norðausturs í átt að Klakkeyjum og Klofningi:





Kapteinninn spekingslegur:






 Eyja, hús og himinn:





 ...og svo skaut þessi félagi upp kollinum:





Það er ekki annað að sjá en þetta sé myndarlegasti útselur. Hann var góða stund að hringsóla kringum okkur, bæði framan og aftanvið:





 Við vorum með nesti meðferðis og tókum hádegismat þarna á voginum. Svo var dregið upp og haldið af stað að nýju. Á sundinu milli Skjaldareyjar og Bíldseyjar er klettadrangurinn Freðinskeggi. Það gæti verið hann sem sést í þarna lengst til hægri:





 Bíldsey að síga afturfyrir og stefnan tekin í austur:





 Elliðaey fyrir miðju og endinn á Fagurey, einni af nokkrum með því nafni:





 Dýpið 18,8 mtr, hraðinn 4,5 sjm, stefnan 277 gráður og kerfisspennan 14,1v. Svo er lappinn með Herforingjaráðskortin og loks örnefnakortin úr árbók F.Í. skönnuð, stækkuð og plöstuð. Það er andskotinn illa hægt að stranda með svona búnað, eða hvað?  Nýi dýptarmælirinn er líklega einhver bestu kaup sem ég hef gert í langan tíma, því þótt GPS/sonar tækið sé ágætt til síns brúks þá er skjárinn á því fulllítill til að vera tvískiptur á hvorttveggja. Það er því bara GPS núna og fínt sem slíkt.





Segiði svo að Stakkanesið sé ekki stórskip. Það er ágætlega rúmt þarna inni og takið eftir því að ég, sem er ekki fyrirferðarminnstur af öllum, er líka þarna inni þegar myndin er tekin - eða sá einhver sjálfstýringu? Ég tróð mér bara út í horn meðan EH tók mynd út um talstöðvargluggann. Þessi fína Shipmate VHF stöð kemur úr honum Blíðfara sem eitt sinn var á Sigló, síðar í Reykjavík og loks á Snæfellsnesinu. Ég fékk hana að launum fyrir að setja up AIS kerfi í Blíðfarann þegar Sverrir vinur minn stýrimaður var að græja hann á strandveiðar:





Elín Huld "súmmar" á Bíldsey sunnan frá:





Við erum á leið hringinn um eyna og stefnum í austur með Steinakletta á stjór:







Mig langaði að reyna að koma inn kortaklippu af leiðinni og ég held að hér megi nokkuð átta sig á leiðinni eins og við sigldum hana frá Stykkishólmi:






 Enn nálgumst við Þórishólma, klukkan er 13:43 og það er harða útfall. Liggjandinn  skv. töflu kl. 15.10 en á reiknuðum liggjanda en enn hart útfall úr síunni miklu í Hvammsfjarðarmynninu. Eiginlegur liggjandi er því ekki fyrr en talsvert eftir þann reiknaða. Straumurinn innan úr Breiðasundi klofnar um Þórishólma og myndar strengi og iðuköst beggja megin við hann:





Sjáiði iðukastið! Við erum, eins og á að sjást á kortinu, á leið austur með Þórishólma sunnanverðum. Þarna var Stakkanesið nær óviðráðanlegt nema á fullri gjöf og hraðinn datt niður í rúmar þrjár mílur....alveg magnað!





Við héldum áfram innúr, stefndum á Hvítabjarnarey og í sundið milli hennar og Æðarskers norðanvið. Ég vissi að þar myndi vera álíka straumiða en þegar til kom var harðasti hluti hennar svo nálægt Æðarskeri að ég þorði ekki í hann og sigldi því nær Hvítabjarnarey. Það er Hannes Andrésson SH sem er þarna úti, líklega á beitukóngi:





Straumiða í sundinu og Bíldsey í baksýn:





Hvítabjarnarey framundan og hvíti depillinn er fjárrétt:





Klofningur úr Hvítabjarnarey:





Byrgisklettur innan (austan) við Hvítabjarnarey. Hann hefur líka sinn Klofning, og að auki ótrúlegt fuglalíf:





Við erum komin innfyrir Byrgisklett og horfum til baka. Milli hans og Hvítabjarnareyjar blasa við hús í Stykkishólmi:





Nú lá leiðin norður og austur fyrir Skoreyjar. Í þá átt - þ.e. norðaustur - liggur langt tagl frá eyjarenda og endar í 7 mtr.grynningu. Við fljótum svo sem ágætlega á sjö metrum enda þurfum við bara núll komma sjö. Mælingar á þessum slóðum eru hins vegar ekki alltaf nákvæmar og því var ágætt að sigla bara samsíða Hannesi Andréssyni innfyrir taglið. Skerið í fjarska er Miðleiðarsker í Breiðasundi:





Svo vorum við komin innfyrir grynningarnar og beygðum til suðausturs með stefnu á Fagurey og Seley. Skoreyjar á stjór:





Hér læt ég gott heita í bili og kem með seinni hlutann fljótlega.

.......................................................
  • 1
Flettingar í dag: 251
Gestir í dag: 66
Flettingar í gær: 209
Gestir í gær: 40
Samtals flettingar: 65027
Samtals gestir: 16870
Tölur uppfærðar: 28.4.2024 16:15:32


Tenglar