Gunnar Th.
Fjórða kerfið.....


04.12.2011 11:33

Latur laugardagur.

Mér fannst, svona í ljósi strembinnar vinnuviku, ég eiga skilið að fá smá upplyftingu. Veðrið var með besta móti, bjart, sólarglampi og hvíti liturinn sem yfir öllu lá, setti hreinleikasvip á útsýnið frá Lyngbrekkunni til Esjunnar og Akrafjalls. Ég bauð konunni í bíltúr eftir hádegið. Hún fussaði og sveiaði, sagðist hafa öðrum og mikilvægari hnöppum að hneppa og það hefði ég einnig. Auðvitað vissi ég það ofurvel, mér fannst bara að þegar maður á allt lífið framundan skipti einn bíltúr í blíðuveðri engu máli.

Það var því engin kona með í túrnum. Bassi átti hins vegar sitt fasta sæti afturí og sat þar sem fastast. Hugmyndin var að aka fyrir Hvalfjörðinn og ég ók upp Kjalarnes og um Tíðaskarð en við vegamótin að Miðdal langaði mig að aka þá leið enda fer ég hana alltof sjaldan. Það var snjór yfir öllu, allt frá föli uppí þæfingsfærð á stöku stað. Hrossadráparinn er ýmsu vanur og át skaflana með bestu lyst enda var þetta enginn Vestfjarðasnjór þó höfuðborgarbúum þætti eflaust kappnóg. Við  ókum inn með Kiðafelli og Morastöðum - það má alveg nefna það ef einhver man eftir heiðgulri Hólmavíkurvél sem varð að umtalsefni fyrir nokkrum árum, að trillan Mori (
sjá HÉR)  sem ég eignaðist á Hólmavík um árið var smíðuð hér á Morastöðum og dró af þeim nafn sitt. Trillan sú var að endingu gefin Bátasafni Breiðafjarðar og stendur nú á Reykhólum.  Næst komum við að býlinu Miðdal, og þarnæst að Elífsdal. Við sumarbýlið Bæ var nokkuð mikill snjór á veginum, ekki þó hamlandi fyrir ofurjeppa eins og þann svarta.  Þaðan var stutt leið niður að þjóðveginum um  Kjósina og leiðin lá fyrir hana. Þar sem sprænan Skorá þverar veginn er lítil brú, handan hennar eru mót vegarins fram að Meðalfellsvatni og við vegamótin var skilti sem auglýsti opnunartíma litla kaffihússins við vatnið. Það var tilvalið að fá sér kaffi og kökubita í Kaffi Kjós og ég beygði inná Meðalfellsveg. Meðfram vatninu standa sumarhús í einfaldri röð neðan vegar, mér fannst ég kannast við húsið hans Jóns Ásgeirs af myndum. Ofan vegar býr Bubbi Morthens í fallegu timburhúsi á frábærum útsýnisstað. Frá því er stuttur spölur að litla, vinalega kaffihúsinu Kaffi Kjós. Húsið stendur einnig á fallegum útsýnisstað ofan vegarins og þegar viðrar eins og í gær verður vart komist nær paradís en að sitja í ylnum innan við stóra gluggana með kakóbolla og kökubita og virða fyrir sér ísilagt vatnið og snyrtileg sumarhúsin á bökkum þess.





Það var nefnilega boðið uppá kakó í kaffihúsinu og ekki skemmdi fyrir að skammtur uppá einn stóran kakóbolla, jólakökusneið og rúllaða pönnuköku kostaði 750 krónur. Ég hef einhverntíma verið rukkaður um nær tvöfalda þá upphæð fyrir ámóta skammt á fjölsóttari ferðamannastöðum....



Þrátt fyrir að klukkan væri aðeins rétt um þrjú og þrátt fyrir blámann í loftinu var merkjanlega farið að bregða birtu þegar ég kom út úr kaffihúsinu. Eftir bíltúr gegnum sumarhúshverfið að býlinu Flekkudal og til baka var stefnan tekin fram Kjósina og ekið hjá býlinu Möðruvöllum að vegamótum nærri Vindáshlíð þar sem vegurinn sunnan Meðalfells tengist þeim sem liggur norðan fellsins framhjá Vindási, Reynivöllum og Valdastöðum að brúnni yfir Laxá í Kjós. Við vegamótin gafst val um að aka nyrðri leiðina hjá ofannefndum bæjum og til baka niður að Laxá eða fram sveitina hjá Írafelli (man einhver eftir Írafells-Móra? )  Hækingsdal, Fremra-Hálsi, Stíflisdal, Fellsenda og inná þjóðveginn um Mosfellsheiði.  Sú leið var valin og dólað fram sveitina í fallandi birtu. Það var orðið dálítið skuggsýnt þegar við komum inná Mosfellsheiðina og tókum stefnu niður í Mosfellsdal.

Haustið 2008 (
sjá HÉR )  fórum við félagi minn á hrossadráparanum, rétt nýviðgerðum eftir alltof náin kynni af Skeiðahrossunum, upp að endurvarpsstöðinni á Skálafelli. Þá áðum við um stund við gamla KR- skíðaskálann sem reistur var 1956-9 og vígður það vor. ( sjá HÉR )  Þetta reisulega hús stóð þegar okkur bar að, lokað og læst enda aflagt sem skíðaskáli og lyfturnar í nágrenni þess ónýtar.

Mér fannst tilvalið að renna Skálafellsafleggjarann og nota síðustu geisla dagsbirtunnar til að kíkja á skíðasvæðið. Satt að segja hélt ég að Skálafell væri núorðið aflagt sem skíðasvæði vegna uppbyggingar í Bláfjöllum. Ekki virtist það þó vera því enn virðast öll mannvirki þar starfhæf og a.m.k. undir einni lyftu var nægur snjór til starfrækslu. Það voru hins vegar engir skíðamenn á svæðinu, heldur aðeins tveir jeppar sem spóluðu þvers og kruss neðarlega í brekkunum. Mér datt í hug að aka vegstubbinn sem liggur í átt að gamla KR- skálanum sem stendur nokkuð afsíðis frá núverandi skíðasvæði. Mig langaði að sjá hvort þar væri allt með sömu ummerkjum og haustið 2008.

Það má kannski orða það svo að nú sé hún Snorrabúð stekkur......vissulega var skálinn aflagður 2008 og þó einhverju fyrr. Það haust var hann þó lokaður veðri og vindum og þokkalega heillegur að sjá. Nú var annað uppi á teningnum. Óþjóðalýður hefur riðið húsum, hver einasta rúða er brotin, hurðir eru brotnar, í stuttu máli er eiginlega allt eyðilagt sem hægt er að eyðileggja.





Ég fetaði mig inn um brotnar dyr og lýsti mér leið með símanum. Svö rökkvað var orðið að ég átti erfitt með að greina skil innanhúss í því litla ljósi sem síminn gaf. Myndavélin var í vasanum og flassblossarnir lýstu eitt augnablik upp það sem fyrir augu bar:



Einhvern tíma hefur hér verið aðalanddyri hússins og frá forstofu gengið upp nokkar tröppur í skála. Allt er brotið og bramlað og snjórinn á greiða leið inn.



Hér hefur verið hið veglegasta eldhús og eflaust hafa verið reiddar fram vel þegnar veitingar handa lúnum skíðamönnum. Sú tíð er liðin...



Hér að ofan er staðið í miðju skálans ofan við tröppur aðalinngangsins og horft í átt til fjalls. Opið í baksýn er ekki dyraop heldur gluggi sem sagað hefur verið niðurúr í einhverjum tilgangi. Ílanga opið til hægri er úr eldhúsinu, og um það hafa krásirnar verið réttar þeim þurfandi. 



Á gólfinu lá þetta skilti. Í myrkrinu varð ekki lesið á það en myndavélin afhjúpaði letrið.



Þessi torkennilega persóna sem birtist á myndinni þegar heim var komið og myndavélin var tengd við tölvu, sást ekki berum augum í myrkrinu. Eflaust er þarna á ferð einhver fyrrum skálabúi sem heldur tryggð við staðinn þrátt fyrir niðurlægingu og eyðileggingu.



Loftklæðingin virtist ekki hafa verið af verri endanum, mér sýndist þetta vera einhvers konar harðviðarlistar eða -panill. Ljósið er enn á sínum stað en Sogsvirkjun miðlar því ekki lengur neinu rafmagni. Það lýsir aldrei meira.........



Þarna hefur verið myndarlegasta hreinlætisaðstaða. Veggurinn er ekki svartur af sóti, eins og virðast mætti við fyrstu sýn, heldur rakamyglu.



Í norðausturhorni hússins er þetta herbergi, nokkuð stórt miðað við aðrar vistarverur. Líklega hefur þarna verið aðstaða þess eða þeirra sem unnu við skálann, og þá kannski líka norðurherbergið þar sem sagað hafði verið niður úr glugganum. Í því herbergi var koja og símatengill, sá eini sem ég sá í húsinu.


........................



Upp á efri hæð hússins lá snúinn stigi. Ég fetaði mig upp hann og þar kvað við nokkuð annan tón en niðri. Á neðri hæð voru viðarlitir allsráðandi, en blossar myndavélarinnar afhjúpuðu allt annað litaval á efri hæðinni. Þar hefur eingöngu verið svefnpláss, stórir rúmbálkar fyrir dýnur á tveimur hæðum taka mest af gólfplássinu :







Mér fannst ömurlegt að sjá hvernig farið hefur verið með þetta veglega hús, sem eflaust hefur veitt mörgum ánægju gegnum tíðina. Ég veit ekki hvenær notkun þess var hætt, en ég veit eins og áður segir, að haustið 2008 var það lokað, allar rúður heilar og dyr læstar. Einhvern tíma á þessum þremur árum hafa krumpaðar sálir átt leið þarna um og fundið sér fróun og afþreyingu í eyðileggingu húss sem ötulir menn eitt sinn strituðu við að byggja sjálfum sér og öðrum til heilbrigðrar gleði og ánægju. Eyðileggingarárátta er undarleg tilhneiging og ill- eða óskiljanleg öðrum en þeim sem hafa hana til að bera - ef þeir þá skilja nokkurn skapaðan hlut.....

Það var komið að því að yfirgefa þennan sorglega stað. Í myrkrinu sem nú mátti heita skollið á myndaði ég bakhlið hússins, þar sem sagað hefur verið niður úr glugga. Kannski voru menn á sínum tíma byrjaðir endurbætur og breytingar á húsinu - steinullareinangrun í opnum útveggjum gat bent til þess - en kannski hafði opið einungis verið sagað til að koma þungum og fyrirferðarmiklum hlutum út úr húsinu. Píanóinu??



Jepparnir tveir voru enn spólandi neðst í skíðabrekkunum þegar við renndum hjá. Vonandi fengu ökumenn þeirra og eigendur sína ánægju út úr þessum fallega en fallandi degi.

Leiðin lá heim.......



26.11.2011 10:42

Síðasta veiðiferð Stakkanessins 2011

Hún var óvenju góð, veðurspáin fyrir laugardaginn 12 nóvember sl. Því var ákveðið að nýta daginn í veiðiferð út í sjöbauju, klukkutíma siglingu úr Grafarvogshöfn. Þó það sé að mörgu leyti ágætt að leigja bryggjupláss í Grafarvoginum fylgur því sá ókostur að vilji maður sigla út undir sjöbauju eða lengra er siglingin afar tímafrek fyrir svo hæggengan bát sem Stakkanesið er. Ef ætlunin er hinsvegar að sigla uppundir Lundey, Kjalarnes eða á ámóta staði er fínt að sigla úr Grafarvogi.

En semsagt, það var sjöbaujan þennan dag enda var þunga undiraldan sem legið hefur inn Kollafjörðinn undanfarnar vikur, í lágmarki og þegar áttleysan gekk í lið með sól og hlýindum varð úr einhver besti dagur haustsins. Í þessarri ferð, eins og nokkrum fyrri haustferðum var háseti um borð í Stakkanesinu. Það var Magnús vinnufélagi minn úr Skeifunni sem skipaði það rúm, og ég vil koma því strax að að Magnús er eini maðurinn sem hefur haldist við frammi í lúkar í veltingi - það er ekki fyrir sjóveika að sitja þar þó ágætlega fari um menn annars. Þennan dag kom engum sjóveiki í hug og enginn þurfti að skríða í skjól lúkarsins undan ágjöfum.



Háflóð var uppúr hádegi og við lögðum af stað vel fyrir þann tíma. Það var enn nokkuð í fullfallið þegar við komum að sjöunni og sigldum hring um hana:



Það var kannski ekki sérlega bjart í lofti þarna uppúr hádeginu en birti nokkuð er á leið. Vel mátti þó greina hús á Akranesi bakvið og til hægri við baujuna, og reykurinn úr sementsverksmiðjunni lá skáhallt upp og til vesturs sem benti til að veðrið þarna uppfrá væri ekki mikið síðra en þarna úti á Kollafirðinum. Stutt frá okkur var lítill hraðbátur, í honum voru tveir menn og virtust dorga. Á myndinni er horft inn í Hvalfjarðarmynnið.

  
.....og þegar litið var til austurs í átt að Sundunum mátti sjá gufuna frá Hellisheiðarvirkjun stíga til himins og mynda jarðsamband við lágskýjabakkann sem hékk yfir:



Væri horft suður til Reykjaness mátti sjá skörðóttan tanngarð Sveifluhálsins bera við birtuna og Keili hægra megin við hann. Lengst til vinstri eru Bláfjöllin, slétt og slípuð að ofan.



Við þurftum að bíða dálítið eftir fyrsta fiskinum, en þegar hann loksins beit á var hann ekki af verri endanum. Þetta var stærðar þorskur sem Magnús setti í og varð ekki komið um borð nema með goggnum:



Ekki leið á löngu þar til annar álíka stór beit á og stöngin hans Magga kvartaði sáran. Það var dagsljóst að þrjátíupunda girnið sem sett var á eftir að allt sleit undan hjá okkur báðum við Viðey fyrr í haust, var að borga sig:



Eftir þessa fyrstu tvo þótti ekki annað verjandi en að sækja handfærarúllu og setja á borðstokkinn. Um borð eru tvær slíkar en önnur var látin duga. Nú brá hins vegar svo við að stórþorskurinn hélt sig til hlés en sendi ungliðadeildina til að kanna fyrir sig önglana. Eina ýsu fékk Magnús þó á stöngina en á rúlluna komu aðeins smáþorskar og lýsa.

Eftir talsverða stund þyngdi verulega á hjá Magga. Við töldum allar líkur á að nú hefði "sá stóri" loksins skilað sér á öngulinn, samt var dálítið undarlegt hversu rólegur fiskurinn var. Hann kippti ekkert, lá bara stöðugt í og var verulega þungur í drætti. Það tók dálítinn tíma að draga upp af þrjátíu metra dýpi en þegar upp kom var skýringin á undarlegheitunum augljós: það sem hékk á önglinum hans Magga var stærðar hraunmoli, með einhvers konar fléttugróðri og fínheitum. Veiðin vakti litla gleði, reyndar svo litla að áður en ég náði að kveikja á myndavélinni var molinn horfinn í hafið aftur og fylgdu kaldar kveðjur.

Næsti dráttur hjá Magga var lifandi, þó ekki spriklaði hann mikið. Það sem dinglaði á önglinum var vænsti krossfiskur. Nú var myndavélinni beitt óspart áður en fengurinn hvarf í hafði að nýju. Við vorum nokkuð vissir um að í einhverju heimshorni hefði þessi krossfiskur farið beint á matborðið og þótt lostæti. Það þýddi hins vegar ekki að bjóða áhöfninni á aflaskipinu Stakkanesi slíkar trakteringar og því var Krossi sendur aftur í sína sveit eftir myndatökurnar:







Það saxaðist hratt á daginn og sólin var allt í einu farin að síga niðurundir skörðóttan tanngarðinn í suðvestrinu. Um leið kólnaði mikið og meðan Hafsúlan kom siglandi utan af Faxaflóa með sína túrista tókum við Magnús saman veiðarfærin og snerum heim á leið með aflann hausaðan og slægðan í kar. Um borð í Stakkanesnu er nefnilega gengið frá öllum afla í kör, en körin eru þessir líka fínu plastkassar með loki frá RL-design. (...sem í daglegu tali kallast Rúmfatalagerinn...)

Það var farið að bregða birtu þegar sett var í gang og stefnan tekin inn með Engey:







Heimsiglingin var tíðindalaus, blíðan hélst alla leið og svona var útsýnið síðasta hluta siglingarinnar, þegar rennt var fyrir Elliðavoginn áleiðis í Grafarvogshöfn:



Þetta reyndist, eins og fram kom í titlinum, síðasta veiðiferð ársins. Laugardaginn 19. nóv. sl. var enn látið úr höfn en nú var enginn Magnús og kapteinninn einn í áhöfn. Það var vindgjóla þegar lagt var af stað og nokkrar skútur sáust inn um eyjar, enda hver síðastur að nýta haustblíðuna sem farið var að sjá fyrir endann á. Stefnan var tekin norður fyrir Viðey og nú var undiraldan af Faxaflóanum sem legið hafði niðri helgina áður, komin aftur á sinn stað og braut við Lundey með löðri. Þegar NA- vindsperringurinn bættist við varð úr ruglandi sem þarna norðan Viðeyjar gerði stöðu við veiðarfæri hreint ómögulega. Stakkanesinu var snúið vestur fyrir eyjuna á lens undan stífri báru og valt mikið. Inni við Hjallaskerin var stilltara en gallinn var sá að þar var engan fisk að finna þó reynt væri talsvert. Rekið var svo mikið í átt að Engey að línan af veiðistönginni lá nær beint út. Stakkanesið er létt og hátt á sjó, og í tilfelli þess er vart hægt að tala um rek, miklu réttara væri að tala um fjúk!

Eftir tvö eða þrjú rek án þess að vart yrði við kipp var dregið upp og siglt innundir Gufunes. Þar voru veiðarfærin tekin saman og búin til flutnings frá borði. Það var farið að skyggja þegar rennt var að bryggju og bundið. Út Grafarvoginn var harður útfallsstraumur og hann, ásamt vindinum og fallandi birtu gerði ómögulegt að taka bátinn á land þennan dag. Það varð að bíða sunnudagsins, og um hádegisbil þann 20. nóv. var Stakkanesið tekið í vagn, botnhreinsað, vetrarbúið og flutt upp að vélsmiðjunni Stálveri, þar sem það mun bíða vors.

Vor Stakkanessins rennur upp þann fjórtánda apríl 2012........

22.11.2011 19:46

Hundur heiðurs og sóma!

Prins Edilon Bassi Elínarson (áður Eyjólfsson) Breiðfjörð Thorsteinsson, flottasti, besti og skemmtilegasti hundur undir sólinni er sex ára í dag. Hann hlaut sitt hvolpauppeldi í Hafnarfirði og býr að því enn. Þrátt fyrir að ég geri allt öfugt sem hægt er að gera öfugt í sambandi við aga og góðar hundavenjur, þá bjargar Elín Huld því sem bjargað verður í þeim efnum og kemur í veg fyrir að Bassi verði alveg stjórnlaus.

Bassi er allt í senn, ferðahundur, sjóhundur, félagsvera og hvers manns hugljúfi sem honum kynnist. Hann hefur brætt hörðustu hundaandstæðingahjörtu, heimsótt heimili þar sem hundur hefur aldrei mátt stíga fæti inn fyrir dyr og heimsótt vinnustaði þar sem hundar hafa aldrei verið æskilegir - og allsstaðar haft sigur og verið tekinn í sátt.

Meira að segja kisi gamli, sem ekki kallar allt ömmu sína og þolir yfirleitt engum neitt, amast ekki við Bassa - og hefur aldrei gert það frá fyrstu kynnum! Það segir sína sögu um það hvert gæðablóð Bassi er, og hve "góðhundskan" skín af honum.

Hér fyrir neðan birtast nokkrar myndir af besta hundi í heimi, til viðbótar við þær sem birtust enn neðar af honum á vikurkömbunum við Snæfellsjökul:












20.11.2011 10:35

Stakkanesið tekið á land.

Ég er enn að vinna í fjórða hluta ferðapistilsins um Grjótháls og Jökulháls. Í morgun hefur þónokkuð unnist, en nú undir hádegið liggur fyrir að taka Stakkanesið á land. Þeir eru að spá kólnandi veðri eftir helgina og líklega er veturinn að koma. Það er því ekki eftir neinu að bíða og hádegisflóðið hentar ágætlega til landtöku.

Er þá ferðasumrinu ekki formlega lokið??

(Það er kannski rétt að benda á að nú er kominn inn fjórði og síðasti hluti ferðapistilsins um Jökulháls. Hann má finna hér neðar)

Kl 14.00 þann 20.11´11: Stakkanesið í nausti á Ártúnshöfða:



18.11.2011 08:45

Af stað í stefnuleysi - fjórði og pottþétt síðasti hluti.

Ég lokaði síðustu færslu standandi uppi á gígbarmi austanundir Snæfellsjökli þar sem horfa mátti yfir Faxaflóa og allt suður til Reykjavíkur. Þar lá Elín Huld  í sólbaði á svölunum sínum, líklega ennþá hlæjandi að mér fyrir að þvælast í þokufýlu á fjöllum. Það var þó ekki þokunni fyrir að fara þarna á gígnum við sæluhússrústirnar - öðru nær.
Eftir ágæta dvöl á þessum flotta stað gengum við Bassi til baka niður að bílnum og ókum niður á þjóðveginn um Jökulháls. Eins og sjá má lá þokuslæðan enn yfir fjallgarðinum innar á nesinu og norðan í honum, akkúrat þar sem ég hafði legið og sofið í tvo tíma, fúll yfir skyggninu. Ég varð æ sannfærðari um að svona eftirá að hyggja hefði það verið rétt ákvörðun að bíða þessa tvo tíma í þokunni, því veðrið varð stöðugt bjartara allan tímann sem við dvöldum uppi í vikurhólunum - það var ekki víst að við hefðum fengið jafn einstakt útsýni hefðum við verið tveimur tímum fyrr á ferð!




Eftir að niður á þjóðveginn var komið ókum við hann til suðurs, móti Arnarstapa og Stapafellinu. Ofarlega í hálsinum, suðaustanundir jökulrótunum ókum við meðfram þessarri vikurnámu. Af ýmsum ummerkjum að dæma var þarna annaðhvort aðalnáma vikurnámsins forðum, eða þá safnhaugur sem hlaðið var upp þegar veður leyfði. Ég hallast frekar að því fyrra, því þarna mátti sjá óvenjulega mikið af hraunmolum sem virtust hafa setið eftir þegar vikrinum var skolað ofan af þeim. Þessutan mátti sjá talsvert af timburbraki og leifar af undirstöðum rennanna sem vikrinum var fleytt eftir niður í farveg lækjarins sem aftur bar hann niður að mölunarstöðvunum undir Stapafelli.



Ég fylgdi "vikurlæknum" eins og hægt var niður eftir ásunum. Víða lá hann þó talsvert vestan vegarins, hafi ég skilið rétt. Ég kom að afleggjara sem lá af aðalveginum til vesturs og ók inná hann. Afleggjarinn beygði fljótlega til norðurs og lá um hríð samsíða aðalveginum en tók svo stefnu í átt til jökulsins. Á myndinni hér neðar er horft í suðausturhorn Snæfellsjökuls og það sýndi sig að afleggjarinn sem ég var að aka lá upp að aflögðum skíðalyftumannvirkjum þarna í horninu. Ekki var lengi ekið þegar komið var að "vikurlæknum" en hann hafði verið lagður í ræsi undir veginn. Í einhverjum leysingunum hafði ræsið ekki flutt tilætlað vatnsmagn, flaumurinn hafði runnið yfir veginn, skorið hann sundir og skolað burtu ræsi og jarðvegi. Bakkarnir voru krappari en myndin sýnir og þar sem erindið var ekki brýnt ákváðum við Bassi í sameiningu að láta hér staðar numið og snúa við.





Ef myndin hér að neðan "prentast vel"  má sjá hluta skíðalyftumannvirkjanna neðst til hægri og rönd upp hrygginn hægra megin (upp af litla skúrnum), þar sem lyftustaurar standa. Það sem sýnist vera hvítur skúr lengst til hægri er í raun gámur.



Að neðan er horft af "skíðaveginum" niður til Stapafells og út á Faxaflóa. Hús á Arnarstapa eru eins og litlir dílar vinstra megin við fellið, víkin neðan við Gíslabæ á Hellnum er svo við fjallsbrúnina hægra megin:



Við fetuðum okkur niður af hálsinum, veðurblíðan hafði greinilega heillað fleiri því stöðugt mættum við bílaleigubílum (greinilega) á leið frá Arnarstapa og upp að jökli. Þegar komið var niðurundir Stapafell var dálítið bílaplan ofan vegarins. Við það var nestisborð með bekkjum og skilti sem mig langaði að kanna betur. Ferðadrekanum var því lagt á planinu og umhverfið kannað. Það kom á daginn að áningarstaðurinn hafði ekki verið valinn af handahófi. Þarna undir hraunkömbunum var sumsé Sönghellir. Ég hafði margoft heyrt og lesið um Sönghelli og bergmálið sem hann er frægur fyrir, en aldrei vitað almennilega hvar hann væri. Nú var hann fundinn og sjálfsagt að líta á fyrirbærið. Það gæti verið gaman að vita hvernig almennilegt Bassagelt hljómaði!  Á myndinni hér neðar er stígurinn að Sönghelli sjáanlegur neðst fyrir miðri mynd, sjálfur hellirinn er í skugganum undir hraunnefinu til vinstri.


Ég leyfði Bassa að hlaupa lausum. Ef hann þekkir ekki umhverfið heldur hann sig hjá mér - þ.e.a.s. ef Gimba frænka hans er ekki í grenndinni! Bassi hljóp stíginn eins og hundvanur ferðalangur og staðnæmdist við skiltið líkt og fluglæs væri:



Það var greinilegt að við vorum í Sönghelli. M.a.s. framan við hellinn bergmálaði fótatakið í mölinni með ærandi hávaða innan veggja. Ég tróð mér inn um opið með myndavélina. Inni var kolsvartamyrkur, enda er opið niðri við jörð og minnir um margt á námuopið í brúnkolanámunni að Gili í Bolungarvík. Það skilar sáralítilli birtu inn í hellinn og ég varð að treysta á díóðuvasaljósið sem ég hafði notað í námunni - með slökum árangri. Árangurinn var ekki betri hér og eftir skoðun á Sönghelli er ég litlu nær um stærð hans og lögun, utan þess sem ég sá í flassblossa myndavélarinnar:





Ekki fékk ég Bassa til að gelta fyrir mig, þrátt fyrir tilraunir. Ég ætlaði nefnilega að gera svona smá-hljóðupptöku á símann og setja hér með pistlinum. Það gekk semsagt ekki, hann valsaði móður og másandi út og inn en að öðru leyti hélt hann sig til hlés. Ég reyndi að búa til einhvers konar stærðarmat á hellismunnanum með Bassa sem viðmiðun. Þeim sem ekki hafa séð Bassa kann hinsvegar að reynast erfitt að átta sig á samanburðinum. Bassi er heldur minni en venjulegur BorderCollie fjárhundur. (Hann er svo aftur þúsund sinnum flottari en allir rolluhundar landsins samanlagt, en það er önnur saga...)





Skammt frá Sönghelli eru fleiri hellar. Þeir eru þó allir minni og opnari, eiginlega kannski líkari klettasyllum en hellum. Við klifruðum upp í þá og mynduðum:



Eftir að hafa skoðað nægju okkar af Sönghelli og nánasta umhverfi hans lá leiðin aftur að bílnum þar sem enn var hitað vatn í bollasúpu og kaffi. Eftir hressinguna lá svo fyrir að skoða mannvirkjaleifar vikurvinnslu Jóns Loftssonar og félaga. Svæðið sem virðist hafa verið eins konar höfuðstöðvar vinnslunnar liggur rétt neðan Sönghellis en á milli ber hátt hraunleiti sem blasir við út um vesturgluggatótt eina hússins sem enn stendur uppi. 



Þegar litið var út um gluggatótt á gagnstæðri hlið blasti Breiðavíkin við. Þetta hús er steinsteypt með bjárujárnsklæddu valmaþaki. Stærðin er ca. 3-4 mtr. á hlið og einhvern veginn finnst mér að þetta hljóti að hafa verið íveruhús af einhverju tagi. Kannski ekki beint svefnskáli, frekar eftirlits-eða vélgæsluhús. Á öllum gömlum íveruhúsum sem ég hef skoðað rústir af hafa verið ummerki um kamínu eða annan hitagjafa. Á þessu húsi var ekkert slíkt að sjá.



Það þarf ekki mikla visku til að sjá að myndin hér neðanvið er tekin útum vesturgluggann eins og hér rétt ofar. Birtan er þó skárri á henni og hún er sett hér vegna þess að hún sýnir ágætlega hvar vikurhaugurinn sem lækurinn í efri hlíðunum skilaði niður, hefur staðið. Á hraunkambinum hægra megin á myndinni eru leifar af rennubúnaði, lækurinn rennur handan kambsins og í hann hefur verið sett einhvers konar skilja sem skildi vatnið frá vikrinum. Neðsti hluti lækjarins sem nýttur var hefur runnið í manngerðri þró með botni fóðruðum steinsteypuhellum og hliðum úr tré. Skiljubúnaðurinn virðist hafa virkað þannig að vikurinn hafi skilað sér yfir hraunbrúnina en vatnið runnið áfram handan við. Þarna í lautinni sem sjá má út um gluggann hefur líklega verið stór vikurbingur sem skammtað hefur verið úr smám saman niður í valsana sem muldu stærstu vikurmolana niður í æskilega stærð.



Ég rölti upp á hraunkambinn og myndaði það sem eftir er af skiljubúnaðinum. Vel má sjá lækjarbotninn fóðraðan steinplötum, tréhliðarnar og svo sjálfan lækjarfarveginn vinstra megin við. Þar sem læknum sleppti og vatnið úr honum hætti að fleyta vikrinum áfram niður rennurnar tók mannshöndin við, vopnuð sverum "brunaslöngum" sem fengu vatn úr öðrum læk. Farveg hans má sjá við myndjaðarinn til vinstri. Þannig hefur vikrinum verið sprautað áfram síðustu metrana yfir hrygginn í safnbinginn.



Hér fyrir neðan sést svo betur afstaðan milli hraunhryggjarins, vikurbingsins sem verið hefur neðan hans og litla hússins sem verið hefur einhvers konar íveruhús. Neðan þess má sjá leifar vélahússins sem hýsti efri mölunarvélarsamstæðuna.



Úr vikurbingnum virðist hafa verið skammtað niður að vélasamstæðunni sem malaði stærstu molana. Upp úr gólfi hússins, timburhúss sem horfið er með öllu, má sjá fjóra stálbolta. Þeir hafa haldið aflvélinni sem knúði valsana, aflið hefur verið flutt með flatreim frá vélinni á stóra hjólið hægra megin, það er áfast öðru minna sem breytir snúningshraðanum og af því hefur legið flatreim niður á hjólið sem áfast er völsunum. Hvort sem menn trúa því eða ekki þá snúast valsarnir og hjólin léttilega þrátt fyrir áratuga notkunar- og smurningsleysi. Ég er nokkuð viss um að það er einungis vegna þess að forvitnir ferðamenn sem heimsækja staðinn árlega geta ekki stillt sig (frekar en ég) um að prófa að snúa hjólunum. Ískrið sem kveður við myndi sóma sér í hvaða hryllingsmynd sem er......... 





Í gólfinu neðan við valsana er þessi rás, og í henni hefur legið renna sem skilaði vikrinum niður frá húsinu. Enn hefur öllu verið fleytt með vatni (enda engin önnur betri leið til verksins) og neðan mölunarhússins er annað plan með fjórum steyptum undirstöðum. Þær hljóta að hafa borið uppi einhvers konar deiliapparat, því ef ég skil rétt textann á upplýsingaspjöldunum sem ég myndaði í ferðinni með Svenna rakara hefur vikurinn verið leiddur frá þessum stað í lokuðum pípum niður á klettabrúnirnar ofan þorpsins að Arnarstapa.  



Það er kannski rétt, svona til glöggvunar, að setja aftur inn slóðina á ferðina með Svenna rakara. Neðst í pistlinum eru myndir af upplýsingaskiltunum, sem smella má á og stækka. Þannig er kannski auðveldara að átta sig á ferlinu, ef einhver hefur áhuga. Slóðin er HÉR

Á myndinni að neðan sjást þessar steyptu undirstöður betur. Mögulega hefur staðið þarna einhvers konar síló sem mölunarsamstæðan hefur veitt vikri í. Úr því hefur efnið svo verið flutt áfram niður á brúnirnar ofan þorpsins.



Eftir að hafa reynt að átta okkur á ferli vikursins uppi við Stapafellið og flutningi hans lengra niðurávið færðum við Bassi bílinn niður að þjóðvegi, lögðum honum þar og gengum niður hraunið að klettabrúninni þar sem neðri mölunarvélasamstæðan hefur verið. Það þurfti ekki miklar vangaveltur til að átta sig á hvar vikurstokkurinn hafði staðið - með reglulegu millibili mátti sjá spýtnabrak í smáhrúgum og víða mátti sjá dálitlar vikurrendur í lynginu, þar sem stokkurinn hafði lekið.  





Á þessum hraunkambi sem sést hér að neðan, hafði stokkurinn staðið og lekið talsvert eins og sjá mátti. Röndin náði nokkuð langt niðureftir og var samfelld, að kalla mátti.



Þarna á klettabrúninni stendur svo neðri mölunarvalsinn. Einhverra hluta vegna hefur þótt nauðsyn að mala vikurinn enn smærra þarna, kannski var erfiðara að fleyta fíngerðum vikri langa leið og því tilvalið að nýta síðasta hluta fallhæðarinnar til þess verks. Neðst á myndinni má sjá hluta steingólfs vélaskúrsins, jarðvegurinn hefur með tímanum skriðið inná það og hulið að hálfu. Til hliðar er sveifarás vélarinnar sem knúði valsinn, líklega hefur vélin einhvern tíma brætt úr sér og þurft að skipta um ás. Hér hefur það sama gilt og efra, aflvélin hefur verið fjarlægð en valsarnir ekki. Hversvegna skyldi það hafa verið? Voru einhver not fyrir þessar vélar við önnur verk? Hver veit, kannski voru einhverjir bátar með samskonar vélar, kannski rafstöðvar í sveitum.....



Ég reyndi að gefa einhverja mynd af stærð svinghjólsins á sveifarásnum með því að stilla Bassa upp við hlið þess. Enn er vandamálið það sama, þ.e.  ekki vita allir hversu stór (eða smár) Bassi er. Ég get allavega fullyrt að ég treysti mér ekki til að koma þessum sveifarási um langan veg með handaflinu einu og er þó enginn væskill.

Kennslustund í vélfræði 101: Lengst til vinstri á ásnum er reimahjólið, sem sneri drifreiminni á valshjólið. Þarnæst kemur tímahjól með kömbum sem stjórnuðu olíuinnspýtingu og inn / útblástursventlum. Þá höfuðleguhluti ássins, sveifin fyrir stimpilstöngina (þetta hefur verið eins strokks vél og ásinn hvílt í tveimur höfuðlegum), aftari höfuðleguhlutinn og svo svinghjólið sjálft.



Frá neðri mölunarsamstæðunni má sjá á landinu hvar stokkurinn hefur staðið. Í höfnina á Arnarstapa ber stórt sumarhús með ljósgráu, lítið hallandi þaki. Að því liggur röndin og húsið stendur í raun í miðri flutningsleiðinni, enda seinni tíma smíð. Við vinstra húshornið má sjá nokkuð háan steinvegg sem ber í grjótgarð hafnarinnar. Þetta er hluti þróarinnar sem geymdi unninn vikurinn og úr þrónni var honum dælt um slöngur út í flutningaskip sem lögðust við ból skammt undan ströndinni. Um borð í þeim var skilja sem skildi vatn frá vikri, vatnið rann fyrir borð en vikurinn í lestina. Skipin fluttu svo vikurinn til Reykjavíkur þar sem úr honum var unnið byggingaefni, hleðslusteinar og milliveggjaplötur. 



Þessum valsi, sem eitt sinn fínmalaði byggingarefni úr Snæfellsjökli svo tonnum skipti, snýr enginn lengur. Hann er algerlega fastur. Ástæða þess er aðeins ein: Að þessum stað liggur enginn slóði, engin gönguleið. Hingað koma fáir og líklega er afar sjaldgæft að nokkur leggi hönd á þennan vals til að prófa..........

....hvað þá framloppu!



Að síðustu má geta þess, ef einhvern langar að fræðast frekar um vikurvinnsluna, að á flestum bókasöfnum má fá bók sem heitir: "Veröld stríð og vikurnám undir Jökli". Bókin er eftir Kristin Kristjánsson og inniheldur, eins og titillinn ber með sér, afar fróðlegan kafla um efnið.

Sjá nánar HÉR  og HÉR

12.11.2011 09:47

Af stað í stefnuleysi - þriðji en ekki endilega síðasti hluti.

Hann var svo sem ekkert sérstakur, sunnudagsmorgunninn fjórði september, þegar hann heilsaði okkur Bassa í Ólafsvík. Það var þvert á okkar væntingar - okkur vantaði sól! Ókei, kannski ekki endilega sól, en allavega hærra skýjafar en það sem hékk niður í miðjar hlíðar fjallanna yfir Ólafsvík. Væri horft frá tjaldsvæðinu í Ólafsvík vestur yfir Breiðafjörð til Vestfjarða var þar blámi að sjá í lofti - hún bregst ekki, vestfirska blíðan þegar maður getur ekki nýtt hana. Við Bassi vorum hins vegar staddir í sömu helvítis þokufýlunni og daginn áður, síst skárri og verri ef eitthvað var.

Bassi var hundfúll, ég var bara fúll. Við átum morgunmatinn í fýlu, skrifuðum niður símanúmer gæslunnar á tjaldsvæðinu með fýlu (við áttum von á að verða rukkaðir kvöldið áður eða um morguninn eins og stóð á upplýsingablaði í hreinlætisaðstöðunni. Enginn kom) en það var sama hversu oft við reyndum að hringja, enginn svaraði. Þeir vildu greinilega ekki taka númerið á Útilegukortinu okkar, þarna í Ólafsvík.

Til að drepa tímann meðan almættið hreinsaði til í háloftunum gengum við um nágrenni tjaldsvæðisins. Þar rétt ofar er stöðvarhús Rjúkandavirkjunar, sem sér bænum fyrir rafmagni. Við gengum að húsinu og lituðumst um.



Öllu er þarna vel og snyrtilega við haldið eins og tíðast er um virkjanamannvirki.



Við hlið stöðvarhússins var stór kassi, umbúðir utan af nýjum búnaði. Á kassanum var áletrun sem bar með sér að höfundur hennar hefði ekki haft ensku að móðurmáli. Allavega kannaðist hvorugur okkar Bassa við ábendinguna: "....please be carefully...o.s.frv":



Ekki svaraði enn í símanúmerinu sem uppgefið var á tjaldsvæðinu, mér var næst að halda að Ólafsvík/Snæfellsbær væri búin/n að missa áhugann á að rukka svæðið þetta sumarið. Ferðadrekinn var færður út að bensínstöð Orkunnar og fylltur af dropanum dýra, en áhöfnin fékk pylsur. Bassi, sem reyndar er ekki vel séður allstaðar, varð að borða sína í bílnum. Ég á stundum erfitt með að skilja þessa fordóma gagnvart Bassa mínum - held þetta sé á stundum tilkomið vegna þess að hann er svartur. Þó hélt ég að búið væri að banna alla fordóma gagnvart lituðum. Bassi er ekki einusinni alveg svartur - hann er meira svona út í grátt, þið vitið.......
Ég skil það alveg að fólk vilji ekki fá hunda inn í híbýli sín eða verslanir. Bassi er bara enginn venjulegur hundur! Hann er nefnilega svona Bassahundur og er alveg sérstakur að sínu leyti. Það vita þeir einir sem kynnst hafa.

Allt um það. Ekki vildi enn birta í lofti svo neinu nam og ekki varð séð til fjalla. Snæfellsjökull var einhversstaðar þarna uppi í móskunni og sýndi sig ekki. Það var því útlit fyrir að þessi fyrirhugaða ferð um Jökulháls yrði "flopp", eða eiginlega hálfgert flipp. Það er lítið spennandi að aka þessar slóðir í fyrsta skiptið og sjá varla sín eigin þurrkublöð! Við Bassi höfðum þrjá kosti: Sá fyrsti var að aka aftur til baka inn ströndina til Grundarfjarðar, hitta Hrólf Hraundal vegna Econolineflaksins og halda svo suður og heim beinustu leið um Vatnaleiðina. Það væri samt andskoti lásí endir á annars góðu ferðalagi. Annar kostur var að aka úteftir og fyrir Nes. Sá hængur var á að aðeins voru liðnir nokkrir dagar frá því ég var þar á ferð með Svenna rakara (og gerði þeirri ferð skil m.a. HÉR , hér og hér ) Mig langaði ekkert sérstaklega til að aka nákvæmlega sömu slóðir strax aftur. Þriðji kosturinn var að aka um Jökulháls í blindþoku og treysta á að ég sæi eitthvað skemmtilegt á leiðinni ef rofaði á milli. Sú leið var valin með handauppréttingu, þar hafði ég augljósan vinning þar sem skv. minni ákvörðun telja loppur ekki við slíkan gjörning og Bassi því ekki atkvæðisbær. Við lögðum á Jökulhálsinn rétt uppúr klukkan ellefu um morguninn.



Ekki höfðum við ekið langt upp frá Ólafsvík þegar við fóru að blasa fallegar náttúrumyndanir, gil, ásar og dalverpi, lækir og fossar. Þarna uppfrá var einnig mannvirki sem trúlega er vatnsból Ólsara, allavega kom ég því ekki heim og saman við uppistöðulón Rjúkandavirkjunar, sem skv. korti átti að vera vestar.







Við vorum komnir nokkuð ofarlega í hæðirnar þegar þetta útsýni inn með Nesinu opnaðist. Það er Búlandshöfði sem sér til þarna rétt hægra megin við miðja mynd.



Þarna uppi var hár toppurinn á ferðadrekanum farinn að skrapa botn skýjahulunnar. Allt í einu opnaðist útsýni sem kom mér til að grípa kortið til glöggvunar á því hvern andskotann við værum eiginlega að fara! Ég hélt ég væri að aka upp fjallið en ekki út með því, en þarna á þessum bletti opnaðist sýn til Rifs og Hellissands. Tappinn þarna fyrir miðri mynd mun heita Búrfell og vera 232 mtr. hátt. Það er um sextíu metrum hærra en Ejer Bavnehöj, sem er hæsti tindur (en samt eiginlega enginn tindur, heldur mjúkrúnnuð kúla með steinhlöðnu mónúmenti efst) Danmerkur.



Jæja. Þar kom að því! Þoka, þétt og þykk, skítakuldi og raki. Útsýnið hvarf og engin leið var að átta sig á umhverfinu. Mér fannst samt að svo mikil hreyfing væri á þokunni að henni hlyti að létta þá og þegar. Ég hleypti Bassa út til að létta á sér, hann kom strax til baka aftur sem benti til að engar kindur væru nálægar! Við vorum á svona einskismannslandi, kannski höfðum við villst inn á einhvern kennileitalausan útilegumannaslóða sem leiddi hvorki fram né til baka! Í miðjum þessum vangaveltum kom Volvo station fólksbíll á sendiráðsnúmerum akandi út úr þokunni á móti okkur. Það gat aðeins þýtt að vegurinn sem ófarinn væri enn, væri ekki verri en sá ágæti malarvegur sem við höfðim lagt að baki. Ég hafði staðið í þeirri meiningu að Jökulháls væri torfæra hin versta og á þeim forsendum í rauninni haft bíltúrinn af Svenna rakara skömmu áður. Væri hann ekki verri en svo að aka mætti um hann á sendiráðsVolvó þýddi það aðeins að ég vissi ekki neitt um neitt!



Ég greip til símans og hringdi suður, í hana Elínu Huld. Fyrir mér vakti aðeins ein spurning: "Sérðu jökulinn?"  EH hváði, skildi ekki spurninguna fyrr en eftir pirrandi útskýringar. Þá fékk ég að vita að á Stór-Kópavogssvæðinu væri skafheiðríkt og Snæfellsjökull blasti við, baðaður sólskini.
Bíddu við! Vorum við ekki á sömu plánetu? Hvert hafði þessi útilegumannaslóði leitt mig? Ég taldi mig vera nálægt há-hálsinum en hér var sko engin heiðríkja, öðru nær! Þegar EH fór svo að skjóta á mig háðsglósum fyrir þennan glataða þvæling sleit ég samtalinu snarlega. Setti upp ketil og sauð upp bollasúpu og Neskaffi (sem var jú við hæfi á þessum stað). Skipaði svo Bassa að leggja sig og skreið sjálfur til hvílu - ég ákvað að liggja af mér þessa þoku, henni myndi örugglega létta um síðir.



Eftir hálfsannarstíma mók rak útvarpið mig á fætur. Það hafði verið stillt á hádegisfréttir RUV en eftir að þeim lauk hófst dagskrá með einhverju tónlistarefni sem var fallið til þess að vekja menn frá dauðum. Enn var þoka og sýnt að ekki dygði að sofa allan daginn. Þá væri skömminni skárra að koma sér suður yfir Nes og reyna að ná í eitthvað af blíðunni á Vesturlandinu. Ferðadrekinn var ræstur og haldið af stað. Ekki hafði ég lengi ekið þegar þokan tók að trosna. Svo fór að birta í henni og greinilegt var að sólin var ekki langt undan. Þokan gliðnaði meira, birtan jókst og allt í einu stakkst framendi ferðadrekans gegnum vegg og við blasti þetta útsýni:



Snæfellsjökull! Þetta var alveg furðulegt skýjafar. Afturendi bílsins var hreinlega í þoku en framendinn ekki, svo skörp voru skilin. Svo fuku bólstrarnir til og frá, annað veifið var jökultoppurinn í þoku, svo birtist hann aftur baðaður sól. Alveg einstakt! Fyrir framan okkur sást toppur Stapafells ofan Arnarstapa, Hellnar sáust til hægri en inn eftir Nesinu mátti sjá hvernig skýjahulan lá eftir endilöngum fjallgarðinum og norðan hans. Sunnan við var skafheiðríkjan sem Elín Huld hafði lýst frá Kópavogi.



Af aðalveginum lá slóði upp í vikurhólana austan við jökulinn, greinilega mikið ekinn enda þónokkur fjöldi túristabíla á svæðinu. Ég renndi inn á þennan slóða og ók upp á plan sem virtist vera vinsæll myndatökustaður, allavega var þar nokkuð af fólki að mynda.



Frá þessum stað lágu hjólför áfram upp vikurkúlurnar, þarna voru nokkrir gígar og túristabílarnir höfðu ekið ákveðna leið upp á brúnina sem ber yfir framenda toppsins á ferðadrekanum. Við Bassi lögðum af stað gangandi til að kanna leiðina. Hún var greiðfær og þarna uppi margfaldaðist útsýnið enn. Að neðan er horft til austurs. Nesið sem skagar suður í Faxaflóann er Búðahraun, nær er Breiðavík en handan nessins er Búðavík. Í fjarska sér allt inn að Staðastað:









Við gengum á stórum gígbarmi rétt austan undir jökulröndinni. Ofan í gígnum var talsvert af spýtnabraki sem ég taldi víst að væri frá vikurnámi Jóns Loftssonar og félaga um miðja síðustu öld. Í úthlíðum gígsins var sömuleiðis talsvert af braki, sem virtist allt af sama meiði. Út undan okkur mátti sjá einhverja hrúgu uppi á barminum, og þangað gengum við Bassi. Það sem við blasti gat ekki tengst neinum vikurframkvæmdum. Það líktist miklu meira sæluhússrústum:
 






Mér fannst alveg furðulegt að sjá þessa rúst á þessum stað. Þarna hafði jökulröndin trúlega verið áður, og húsið því alveg uppundir jökli. Þarna lá engin alfaraleið, hún var miklu neðar, eða um hálsinn þar sem akvegurinn liggur nú. Hvers vegna þetta hús hafði verið reist þarna var mér algerlega hulin ráðgáta. Heimkominn lagðist ég í "gúggl" með merkilegum niðurstöðum sem birtast hér neðan við.

Hér má sjá slóðann sem túristabílarnir hafa fylgt upp á gígbarminn. Eins og við Bassi höfðu fleiri lagt leið sína uppeftir í blíðviðrinu sem þarna ríkti, við hittum a.m.k. tvenn erlend pör sem gengið höfðu með slóðanum upp á brúnina og mynduðu í gríð og erg. Væri svo horft í hina áttina, þ.e. til jökulsins mátti sjá fólk á gangi í dældinni milli jökulrótanna og gígbarmsins sem við stóðum á. 





Það var dálítið skemmtilegt að fylgjast með hábungunni, hvernig hún umvafðist skýjum og hreinsaði sig aftur með nokkurra mínútna millibili:



Ég "súmmaði" inn eftir ströndinni og hér sést betur það sem tíundað var ofar, þ.e. austurhluti Breiðuvíkur, Búðahraun og Búðavík. Myndin er aðeins of óskýr til að hótelið að Búðum sjáist. Hins vegar sést gígurinn Búðaklettur vel í miðju hrauninu:



....og væri litið til suðurs blasti Stapafellið við, vinstra (austan) megin þess má sjá smáhorn af Arnarstapa en vestanmegin sjást Hellnar í vikinu sem gengur inn í hraunið rétt handan fjallsins. Í hvarfi undir öxlinni lengst til hægri er svo Dagverðará:



Ég sagðist hér ofar hafa lagst í "gúggl" varðandi kofarústirnar á gígbrúninni austan Snæfellsjökuls. Útkoman varð þessi:  Árið 1932 kom hingað til lands dans-svissneskur leiðangur til að gera veðurathuganir á Jökulhálsi. Leiðangursmenn létu reisa kofa á þessum stað og tvöldu tveir þeirra í honum tæpt ár, eða til 1933. Eftir að dvölinni lauk eignaðist þá nýstofnað Ferðafélag Íslands, kofann. Ekki löngu seinna fauk hann og eyðilagðist. F.Í. endurbyggði og-bætti skálann að nýju og stóð hann þannig nokkur ár sem bækistöð útivistar- og skíðamanna. Skálinn reyndist erfiður í viðhaldi, enda veðurhæð óskapleg á þessum slóðum og viðirnir í húsinu fúnuðu fljótt vegna jarðhita í gígbarminum (húsið var byggt sem A-hús, lágir veggir á steyptu gólfi og sperruendar í jörð).  Með árunum lagði Ferðafélag Íslands skálann af og hann ónýttist, en viðir og bárujárn sem lengi hafa legið undir ís og snjó,  fjúka um nærliggjandi slóðir, eftir því sem jökullinn hopar ofan af því.


Sjá m.a. HÉR,



Þessi mynd hér að ofan er fengin af forsíðu tímaritsins "Veðrið", sem útgefið var þann 1.9. 1970. Hún sýnir austurhlið hússins, þ.e. þá hlið sem inn með nesinu sneri. Í baksýn má sjá jökulbunguna, og það er greinilegt að á þeim tíma sem myndin er tekin, hefur verið allmiklu meira af ís og snjó þarna en nú er. Það er dálítið gaman að bera saman gluggana sem sjást á þessarri mynd við þá sem sjást í brakinu á myndinni minni sem tekin er frá sama horni. Greinilega má sjá gluggana í brakinu!

Beina slóð á tímaritið "Veðrið" má finna HÉR . Lesið textann sem birtist, hann er afar fróðlegur en athugið að fletta þarf blaðsíðutalinu (PAGE) í dálknum vinstra megin til að finna forsíðuna. Flettið niður á við (vinstra megin) af síðu 39 til síðu 37. Þar er forsíðan með myndinni hér að ofan. Fyrirfram þökk fyrir lánið.

Niðurlag pistilsins birtist fljótlega, og inniheldur m.a. myndir af leifum vikurnáms Jóns Loftssonar og félaga.

06.11.2011 17:11

Af stað í stefnuleysi - annar hluti.

Er ekki rétt að reyna að koma þessarri ferðafrásögn frá fyrstu septemberhelginni eitthvað áfram?

Þegar fyrsta hluta lauk vorum við Bassi staddir við Hreðavatn, þ.e. vatnið sjálft og vegurinn lá fyrir austurenda vatnsins undir háum, trjávöxnum ási. Þessi ás hefur á kortinu mínu ekkert sérstakt nafn, eitthvað hlýtur hann þó að heita. Vegurinn var örmjór en umferð um hann var lítil, a.m.k. var engan bíl að sjá í grennd. Áfram lá vegurinn norðan við vatnið og meðfram því spöl til vesturs en greindist fljótlega í tvennt. Á skilti við þann spottann er lá áfram með vatninu stóð "Jafnaskarðsskógur". Á öðru skilti, við hina leiðina sem lá skáhallt upp hálsinn stóð "Jafnaskarð".

Ég var eiginlega engu nær um hvað Jafnaskarð væri, hvort það væri býli eða skarð í einhverja kletta. Það var aðeins ein leið til að komast að því, við Bassi ákváðum (hann virtist raunar frekar áhugalaus um framhaldið) að velja leiðina sem merkt var því nafni. Við lögðum því af stað upp ásinn, þó ekki án þess að stoppa á góðum útsýnisstað og mynda yfir umhverfið. Þessi mynd er semsagt tekin úr ásnum til suðvesturs yfir Hreðavatn:



Á næstu mynd er horft til baka (til suðausturs, að Grjóthálsi)  frá sama stað og fyrir miðri mynd má sjá til húsa að Bifröst:



Þetta reisulega sumarhús stendur á tanga sem skagar útí Hreðavatn norðanvert:



Eftir þessar myndatökur héldum við áfram brekkuna. Einum bíl mættum við, honum ók kona sem var nægilega fimur ekill til að sneiða nettlega hjá ferðadrekanum við aðstæður sem hefðu fengið flestar kynsystur hennar til að jesúsa sig í bak og fyrir. Þegar svo upp var komið lá vegurinn yfir ásinn í gegnum þessi trjágöng. Mér þótti þessi yfirsýn eitthvað svo "erlendis", að mér fannst eitt augnablik að ég væri kominn aftur til Skotlands. Þar ókum við Elín Huld á svipuðum vegum vorið 2006, en fararskjótinn þá var ekki Ford Econoline 4x4 heldur Ford Focus station.



Gegnum trjágöngin ókum við, þarnæst utan í dálítilli hraunhæð og norður fyrir hana. Þar opnaðist útsýni til vatns sem kortið okkar sagði heita Selvatn. Þetta vatn er ekki stórt og hvergi var veg að sjá við það. Á myndinni hér neðar er austurendi þess:



....og hér er vesturendinn. Þarna uppi í trjágróðrinum var hús, nokkuð stórt. Ekki var það merkt á korti en af máðum og illlæsilegum skiltum við veginn mátti skilja að það væri hluti umfangs Skógræktar ríkisins á þessum slóðum.



Þarna, við vesturenda Selvatns var hlið á veginum. Engin bannskilti sá ég þó við það og giskaði því á að um væri að ræða einhvers konar sauðfjárhlið. Opnaði, ók í gegn og lokaði að baki. Ók áfram og var staddur í einhverri óþekktri náttúruparadís. Þarna var einstaklega fallegt, bæði gróður, klettar, gil og lautir af öllum stærðum, gerðum og lögunum.




Vegurinn lá til vesturs, nokkru norðar en þó eiginlega samsíða þjóðvegi eitt sem sást ekki en mátti þó sjá hvar lá af kennileitum í kring. Dalverpi opnaðist til vesturs og við blasti sveitabær. Ekki sýndist mér, svona séð gegnum kíki, að búið væra þarna fastri búsetu þó húsakostur væri þokkalegur. Upplýsingar á kortinu bentu til að þarna væri býlið Jafnaskarð, og þar með var fengin skýring á vegskiltinu niðri við þjóðveg eitt. Einhvern veginn finnst mér þó að býlið hljóti að heita eftir einhverju náttúrukennileiti, en heiti ekki Jafnaskarð "bara út í loftið". Kannski finnst einhver einhverntíma sem veit þetta betur.



Vegurinn bar okkur að þessu hliði. Ekki var um aðrar leiðir að ræða og því ljóst að öll þessi leið, frá Hreðavatni og hingað var aðeins heimtröð að þessum sveitabæ, Jafnaskarði. Á sínum tíma hefur verið vandað til hliðstólpanna, stillt upp með bárujárni til að fá þetta sérstaka útlit og svo steypt í. Með árunum hafa jarðvegshreyfingar skekkt þessa vönduðu stólpa svo hliðið var orðið þreytulegt. Það var hins vegar ekkert þreytulegt við þetta glæsilega skilti sem fest var á það. Ég las orðin sem brennd voru í viðinn og gat ekki stillt mig um að hlæja upphátt, einn með sjálfum mér þarna úti í "buskanum" (Bassi var sumsé inni í bíl).  Það rifjaðist nefnilega upp fyrir mér tíu ára gömul örmynd af rauðum, tuttugu feta gámi neðan vegar undir Eyjafjöllum. Við hann var gerði, í gerðinu stóðu nokkrar rauðar beljur. Á hlið gámsins var viðvaningslega málað stórum, hvítum stöfum: "RENT A HORSE". Þegar útlendingar eru annars vegar má reyna allt!



Í sviga hér ofar nefndi ég að Bassi hefði beðið inni í bíl. Á því er sú skýring að innan sjónmáls voru nokkrar kindur. Þegar kindur eru annars vegar er ekki ráðlegt að hafa Bassa í grennd við þær, hvorki bundinn né óbundinn. Óbundinn hyrfi hann geltandi út í buskann með kindahóp á undan sér, bundinn gæti hann fengið hjartaáfall af æsingi. Ég veit ekki hvers vegna þetta er svona, hvort hann finnur til skyldleika (kindurnar eru jú krullaðar eins og hann) eða hvað það er, bitur reynsla hefur kennt mér að hafa hann innilokaðan þega kindur eru annars vegar.

Þarna við "rent a horse" hliðið snerum við ferðadrekanum og ókum til baka að Hreðavatni. Þar sem vegurinn klofnaði beygðum við inná hlutann sem merktur var "Jafnaskarðsskógur" og ókum vestur með vatninu, framhjá sumarhúsinu reisulega sem áður var myndað og sem leið lá inná lítið bílaplan. Þar endaði akfær slóð en merktar gönguleiðir lágu útífrá. Nokkrir bílar voru fyrir á stæðinu og mátti sjá fólk í berjamó milli hávaxinna trjáa. Þarna var tilvalið að borða nesti og ég reiddi fram krásir úr kælinum fyrir okkur Bassa. Að þeim loknum gengum við um skóginn, heilsuðum uppá fólk, tíndum ber (aðallega annar okkar þó) og sprændum utan í tré (aðallega hinn þó).



Það saxaðist á daginn og enn var ekki að sjá neina gleði yfir Baulu. Þar var sama þokufýlan og mátti eiginlega afskrifa Haukadalsskarðið þessa helgina. Ekki vildum við Bassi þó keyra alla leið heim, vildum frekar reyna að nýta ferðina eitthvað betur. Við vangavelturnar skaut upp kollinum ferðaplan sem hljómaði hreint ekki illa - þ.e. að aka upp sveitir, yfir Bröttubrekku og um Skógarströnd út í Stykkishólm. Heimsækja Löllu og Gulla eins og oftast er gert þegar leiðin liggur í Hólminn, aka síðan út í Grundarfjörð undir nóttina og gista þar á tjaldsvæðinu aðfararnótt sunnudags. Svæðið í Grundarfirði er innan Útilegukortsins og því upplagt að nýta það. Nota svo sunnudagsmorguninn í rannsókn á líki Econoline-húsbíls sem liggur þar undir húsvegg og innihélt nokkra álitlega húsbílshluti. Aka síðan út í Ólafsvík og þaðan yfir Jökulháls ef veður leyfði, annars yfir Fróðárheiði og heim.

Ég bar þessa áætlun undir Bassa sem horfði á mig sínum hundsaugum og hallaði undir flatt. Hann hreyfði engum mótmælum, enda minn uppáhalds ferðafélagi. Honum þótti ágætt að leggja sig á leiðinni yfir Bröttubrekku, enda þokan rétt í þakhæð og engar kindur að sjá, og rumskaði ekki fyrr en beygt var út á Skógarströnd. Hann sat svo eins og herforingi í aftursætinu við gluggann allt þar til ég stöðvaði bílinn á kvöldmatartíma nærri kirkjustaðum Breiðabólstað. Þaðan var ágætt útsýni til arnarslóðanna sem ég sigldi um í haust með Sigurði Bergsveinssyni og greint var frá í ÞESSUM pistli.  Við þetta útsýni hituðum við Bassi vatn í bollasúpu og kaffi,  og smurðum brauð með kjötáleggi - uppáhald okkar beggja.

Eftir ágætan kvöldverð var ekið í Hólminn og meira kaffi drukkið yfir bátaspjalli hjá Gunnlaugi Valdimarssyni Rúfeyingi, þúsundþjalasmið með meiru. Það var komið svartamyrkur þegar ferðadrekanum var á ný beint út Snæfellsnes og nú í átt til Grundarfjarðar. Þar var tjaldsvæðið óupplýst og þrátt fyrir nokkra leit fann ég ekki hreinlætisaðstöðuna. Á svæðið kom einnig GrandCherokee jeppi sem hringsólaði, kannski í sömu erindagerðum, kannski var ekill hans bara að kanna hvað þessi ókunni Econoline væri að sýsla. Allavega fannst ekki aðstaðan og þegar ég ætlaði að hafa tal af Cherokee-eklinum hvarf hann skyndilega af vettvangi og sást ekki meira. Það var því ekki margt um að velja. Við Bassi ákváðum að aka út í Ólafsvík og freista þess að komast þar í brúklega aðstöðu á tjaldsvæðinu, sem einnig var innan Útilegukortsins. Econoline-flakskoðun morgundagsins var því slegið á frest að sinni. Í Ólafsvík var allt í standi, og fyrir á svæðinu var eitt útlent par í tjaldi og einn Yaris bílaleigubíll því tilheyrandi. Það fór vel um okkur Bassa um nóttina, veðrið var milt og þokkalega kyrrt og Bassi nýtti sér þau forréttindi sín - þ.e. þegar konan er ekki með í för - að skríða hálfur undir teppið mitt og kúra þar næturlangt. 



Sunnudagurinn bar svo með sér ævintýri sem ekki verður sagt frá fyrr en í þriðja og  síðasta pistli....

18.10.2011 18:33

Af stað í stefnuleysi....

Hún var kannski ekkert sérstök, veðurspáin fyrir helgina 3ja-4ða september sl. Þrátt fyrir það hafði verið ákveðið að reyna við Haukadalsskarðið frá vestri til austurs. Ferð um Haukadalsskarð er lítið skemmtileg í slæmu skyggni og því mátti segja að frekar væri treyst á lukkuna en hlustað á skynsemina. Ferðadrekinn var búinn til brottfarar á föstudagskvöldinu og það var aðeins rétt kominn helgarfótaferðartími á laugardagsmorgninum þegar rennt var úr hlaði á Brekkunni. Áhöfnin á Arnarnesinu taldi aðeins okkur tvo, mig og Prins Edilon Bassa Elínarson o.s.frv. Í stað hefðbundinnar heimsóknar í Geirabakarí í Borgarnesi var nú beygt útaf vegi eitt sunnan við Borgarfjarðarbrúna og ekið upp með Hvítá.
Sundfötin voru með í för enda var ætlunin að komast í einhverja af þeim laugum sem enn var eftir að heimsækja, skv. listanum góða. Það lá reyndar ljóst fyrir við upphaf ferðar að búið væri að loka Hreppslaug (við Andakíl) þetta árið og hún næðist því ekki fyrr en næsta sumar. Ég renndi nú samt upp að lauginni, svona til vonar og vara ef ég hefði misskilið eitthvað. Við heimreiðina að henni hitti ég mann sem var að koma fyrir keðju yfir veginn. Fyrir honum rakti ég tilraunir mína undanfarin sumur til að komast í Hreppslaug, hann bauð mig velkominn næsta ár - ef laugin yrði þá opin næsta sumar. Mér fannst tónninn í röddinni ekki lofa neinu góðu þar um en vona svo sannarlega að Hreppslaug verði opin a.m.k. eitt sumar enn, svo ég geti merkt við hana á sundlaugalistanum - nógu lengi hefur dregist að heimsækja hana.

Næsti viðkomustaður var Kleppjárnsreykir. Þar er þessi líka fína sundlaug með pottum og tilheyrandi. Hún hlaut þó að var opin. Kleppjárnsreykir eru næstum því þéttbýlisstaður á sunnlenskan mælikvarða og straumur sumarbústaðafólks er alltaf einhver árið um kring, þó eðlilega sé hann hægari frá hausti til vors. Þegar mig bar að garði var þó fátt sem benti til þess að laugin væri opin eða yrði opnuð á næstunni. Staðurinn var mannlaus, útidyr læstar og við innganginn var engar upplýsingar að finna um opnun eða lokun. Ég gat lítið annað gert en gengið meðfram laugargirðingunni og myndað þessa mannlausu paradís:



Það mátti svo sem halda, við þessa stuttu viðdvöl að Kleppjárnsreykjum, að veðrið væri ágætt. Það var það hins vegar ekki, kannski mátti segja "þokkalegt" en ekki meira. Yfir timburgirðinguna má sjá grasi vaxinn háls. Þetta er það sem á herforingjaráðskortinu mínu heitir "Skáneyjarbunga" og er ásinn ofan við Reykholt og þá byggð alla. Skýjabakkinn sem sýnist liggja ofan við ásinn liggur í raun mun norðar, einmitt yfir þeim slóðum sem förinni var heitið til. Það leit því ekki björgulega út með Haukadalsskarðið þarna í upphafi ferðar.

Við Bassi fengum okkur stuttan göngutúr um svæðið og litum m.a. á hitaveitumannvirki rétt ofan sundlaugarinnar:



Síðan var haldið af stað á ný. Leiðin lá hjá Deildartungu og að vegamótunum fram í Þverárhlíð. Ég átti nefnilega svona "Plan B" í handraðanum, þ.e. að aka fram Þverárhlíð með stuttu myndastoppi við glæsilegasta íbúðarhús landsins í sveit - og jafnvel þó helstu villur höfuðborgarinnar væru dregnar til samanburðar. Að Arnbjargarlæk í Þverárhlíð stendur nefnilega eitthvað það fallegasta hús sem byggt hefur verið hérlendis, hrein perla á að líta. Úr Þverárhlíð ætlaði ég svo skv. þessu plani B að aka yfir Grjótháls ofan í Norðurárdal. Við vegamótin fæddist svo enn ný hugmynd - ég ákvað að hringja í Barða frænda, athuga hvort hann væri heima við í Jaðri, borgfirsku sumarhöllinni sinni og hefði jafnvel áhuga á að renna með yfir Grjótháls. Jú, Barði var í bústaðnum en átti von á fólki og átti því ekki heimangengt. Hann bauð hins vegar í morgunkaffi og það þáði ég með þökkum. Innan stundar vorum við Bassi komnir að Jaðri, morgunkaffið teygðist í hádegiskaffi og það var komið fram undir miðjan dag þegar við kvöddum og héldum af stað.

Nú var ekið aftur upp Borgarfjörð um þjóðveg eitt, beygt útaf við Bauluna og ekið um Stafholtstungur að mótum vegar nr. 522. Þar beygðum við og ókum áleiðis fram Þverárhlíð. Ekki höfðum við langt farið þegar við ókum hjá afar fallegri sveitakirkju, steinsnar frá veginum. Þetta var Hjarðarholt, og vegna þess að við Bassi vorum ekkert sérstaklega að flýta okkur ókum við heim að bæ. Kirkjan var opin og því sjálfsagt að líta inn:









Eftir viðstöðuna var ekið áfram upp í Þverárhlíð og næst  stöðvuðum við bílinn þegar sást til bæjar að Arnbjargarlæk. Ég sagði hér að ofan að þetta glæsilega hús væri hrein perla, og nú getur hver dæmt fyrir sig:







Ég trúi ekki öðru en að þarna að Arnbjargarlæk sé búið einhverju snyrtilegasta búi landsins. Öll umgengi og hirða virðist vera til fyrirmyndar, og kannski hafði þetta yfirbragð haft áhrif á fleiri bændur og býli í nágrenninu. Hér er Hamar, spölkorn ofan við Arnbjargarlæk:



Stuttu ofar er svo Höfði. Sá bær var í fréttum fyrir nokkrum árum vegna stjórnlítillar fjölgunar sauðfjár, muni ég rétt. Ein af afleiðingunum voru kindur og lömb með nokkurs konar Dalmatíumynstri í ullinni. Ég myndaði nokkur lömb á þessum slóðum fyrir einhverju síðan og sá nú þessi afbrigði við veginn:



Þarna ofan við Höfða eru vegamót. Annarsvegar liggur leiðin til hægri og sölkorni síðar að annarri greiningu, þar t.v. fram að bæjunum Helgavatni og Örnólfsdal en t.h. í hring um kirkjustaðinn Norðtungu og aftur niður á þjóðveginn skammt frá  Deildartungu. Hinn armur vegarins liggur fram Þverárhlíðina hjá bænum Grjóti að Sigmundarstöðum, sem eru fremsti bær við þann veg. Þetta skilur sá einn sem hefur kort fyrir framan sig. För okkar Bassa var heitið upp að Grjóti og síðan inná veg sem liggur yfir samnefndan háls - Grjótháls - yfir í Norðurárdal. Rétt áður en að þeim vegamótum kom áðum við augnablik og mynduðum hina alþekktu Þverárrétt:





Hér að neðan er horft frá sama horni fram sveitina að bænum Helgavatni:



....og svo er horft inn Þverárhlíðina að Sigmundarstöðum:



Fleiri yfirlit yfir þessa fallegu sveit áður en lagt var á hálsinn:





Vegurinn um Grjótháls er, þrátt fyrir nafnið, hinn ágætasti vegur. Kannski mætti ætla að þarna væri um að ræða hreina urð en svo er alls ekki og þó ég mæli ekki með því að menn aki yfir hálsinn á Jaris (svo notuð sé margtugginn mælikvarði) þá ætti flestum þokkalega háum bílum að vera óhætt. Þegar við Edilon B. Breiðfjörð ókum um var vindstrekkingur og þegar ég var orðinn þreyttur á að stöðva, hlaupa út og mynda þá myndaði ég bara út um bílrúðuna:






Uppi á há-hálsinum var frekar kuldalegt. Vindurinn gnauðaði í ferðadrekanum og það viðraði ekki beint til útiveru. Bassi sýndi þó gríðarlegan áhuga á gönguferð, ekki síst eftir að hann kom auga á Gimbu "vinkonu" sína í grenndinni. Klukkan í útvarpinu sló tólf og það passaði vel að taka hádegisstopp þarna í gjólunni. Við lögðum úti í kanti og tókum fram nestið.



Eftir skyr, brauð, kaffi, dánarfregnir og jarðarfarir var kominn tími til að kanna umhverfið. Þarna uppi á hálsinum liggur háspennulína á gríðarmiklum stálmöstrum. Rétt ofan við "matstaðinn" mátti sjá að einhverntíma hafði eitt slíkt bugast, líkast til undan ofurþunga ísingar og illviðris. Leifar þess voru vel sýnilegar en í stað stálsins var komin staurasamstæða úr tré "upp á gamla mátann". Við Bassi röltum upp að leifum mastursins og skoðuðum:







Það má vel sjá af samanburðinum við þumalinn að það er ekkert blikk í þessum undirstöðum. Samt hefur stálið beyglast og snúist eins og deig:

 

Við snerum aftur til bílsins vindbarðir og kaldir. Það leit ekki vel út með framhald ferðarinnar, borgfirska einkennið Baula var hulið skýjum sem ekki lofuðu neinu góðu um Haukadalsskarðið. Við fengum litlu breytt, lögðum af stað norður af hálsinum og handan við lá Norðurárdalur.



Þetta býli sem blasir við þegar komið er á norðurbrúnir Grjótháls er Dýrastaðir í Norðurárdal, handan Norðurár.



Rétt við vegamótin undir hálsinum, þar sem Grjótháls mætir gamla veginum sunnan Norðurár er þetta eyðibýli, Hafþórsstaðir. Þarna hefur verið byggt veglega við gamalt íbúðarhús en einhversstaðar á leiðinni hefur örindið þrotið og mannvirkin standa nú yfirgefin.



Handanvið, þ.e. norðan ár mátti sjá Dalsmynni t.v. og Klettstíu t.h.  Dalsmynni skipar sérstakan sess í hugskoti Ísfirðingsins, sem minnist þess úr barnæsku að þegar ekið var suður, langferðalag frá Ísafirði til Reykjavíkur fannst mér Dalsmynni vera fyrsta merkið um að Reykjavík væri í nánd.



Næstu þrjár myndir eru teknar á leiðinni niður með Norðurá, frá Hafþórsstöðum að Glitstöðum, skammt frá Hreðavatni. Það er Grábrók sem blasir við á miðri efstu myndinni:







Ekki lagaðist skyggnið til Baulu né dró úr vindi, og það var dagsljóst að ekki væri glóra í að eyða rándýru bensíni í glataðan leiðangur um þokuslóðir. Því var ferðadrekanum snúið niður Borgarfjarðarsveitir að nýju, og aðeins örfáum metrum frá mótum Hringvegarins og Stakkhamarsveginum, sem ég var að koma af, var Grábrók. Fyrir nokkrum árum lögðu skotturnar mínar, Áróra og Bergrós Halla, á sig göngu upp hlíðar Grábrókar, spólandi í vikrinum. Þær komu svo niður sárfættar með steina í skónum en sigri hrósandi yfir afrekinu. Síðan hefur mikið vatn runnið til sjávar og nú hefur verið lagður timburklæddur stígur upp á gígbarminn og útsýnispallur útbúinn. Mér fannst tilvalið að nýta þetta tækifæri til að sigra "fjallið" án þess aðrir úr fjölskyldunni væru á staðnum til að gera grín ef ég gæfist upp. Við Bassi lögðum ótrauðir á brattann, skömmu síðar var annar enn ótrauður en  hinn sótrauður....

















Leiðin niður var öllu léttari og við Bassi áttum svo sannarlega fyrir sopanum og meðlætinu sem beið í ferðadrekanum. Að þessu stórafreki unnu var drekinn fylltur af Orkubensíni að Hreðavatni og eftir áfyllingu lá ekki annað fyrir en að ráfa eitthvað út í buskann. Við hófum leit að buskanum og fundum hann þar sem á skilti stóð: Jafnaskarð. Við beygðum til hægri neðan við Bifröst og ókum upp með Hreðavatni, þ.e. vatninu sjálfu, inn í alveg hreint ótrúlega náttúruparadís. Fyrst varð fyrir okkur Hreðavatnsbærinn sjálfur, sem nú er undir hatti Skógræktar ríkisins.





Ég er að hugsa um að láta hér staðar numið að sinni. Ferðinni verður haldið áfram um helgina ef guð lofar. Það má bæta því við að Stubban mín, hún Bergrós Halla er sextán ára í dag, "Daginn eftir Flateyrarflóðið". Þrátt fyrir að hafa aðeins verið tæplega fjögurra ára þegar við fluttum suður, er hún Ísfirðingur út í gegn. Til hamingju, besta......
Flettingar í dag: 399
Gestir í dag: 17
Flettingar í gær: 306
Gestir í gær: 25
Samtals flettingar: 66077
Samtals gestir: 16987
Tölur uppfærðar: 1.5.2024 11:31:46


Tenglar