Gunnar Th.
Fjórða kerfið.....


Færslur: 2013 Apríl

28.04.2013 10:34

Ása.

Sumarið hlaut að koma einhvern tíma, enda var því markaður sérstakur dagur á dagatalinu mínu. Dagatalið mitt kemur raunar frá Húsavík og ég er ekki viss um að þegar þeir þarna á Húsavík settu sumardaginn fyrsta á dagatalið sitt hafi þeir séð fyrir hvílíkar hremmingar ættu eftir að ganga yfir þá svona rétt í byrjun sauðburðar. Kannski hefði verið vit í að setja suamrdaginn fyrsta einhvern tíma í maí, en kannski var það alls ekkert á valdi Húsvíkinga að ráða komu sumardagsins fyrsta. Kannski er það bara páfinn í Róm, ásamt einhverju trínitatiskjaftæði og himintunglagangi sem ræður dagsetningunni. Reynslan hefur allavega kennt mér að sumardagurinn fyrsti á dagatali, húsvísku eður ei, hefur ekkert með eiginlega sumarkomu að gera.

Allir sem eitthvað hafa lesið "aftur fyrir sig" þekkja nafnið H.P. Duus. Nafnið er samofið verslunar- og útgerðarsögu landsins á fyrri hluta síðustu aldar, enda var Duusverslun stórfyrirtæki meðan allt lék í lyndi. Rekstur útgerðar og verslunar getur hins vegar verið fallvaltur, ekki síst þegar mótbyrinn stafar af öflum sem jafnvel áðurnefndur páfi í Róm vill sem minnst af vita. Í draumi sérhvers manns er fall hans falið, og þótt Duus sjálfan hafi ekki dreymt fyrir óförum sínum svo sögur fari af eru til sagnir um að fall fyrirtækja hans hafi verið falið í draumi konu einnar í vesturbæ Reykjavíkur.

Árið 1904 keypti Duusverslun tæplega níutíu tonna kútter sem bar nafnið Ása. Ekki fer neinum sérstökum sögum af útgerðinni, hún mun hafa gengið sinn vanagang allt þar til kútter Ása strandaði við Hvalsnes 10 október 1919. Líkt og af öðru skipi sem strandaði á svipuðum slóðum nær öld síðar, Wilson Muuga, bjargaðist áhöfnin í land og varð ekki manntjón. Sá var þó munur á að eftir digurbarkalegar yfirlýsingar "sérfræðinga" um að "það væri ljóst að þetta skip færi ekki héðan nema landleiðina" og var þá átt við Wilson Muuga, var skipið síðar, eftir nokkrar þéttingar og austur, dregið á flot með tveimur Sómabátum, eða þannig. Eflaust var líka til nóg af sérfræðingum þegar kútter Ása strandaði, en enginn hafði hins vegar fundið upp Sómabáta og því bar Ása beinin við Hvalsnes. Skipið var á leið til útlanda með saltfiskfarm, veðrið var ágætt en skyggni lítið vegna þoku. Kannski var áttavitinn skakkur, við skulum allavega gera ráð fyrir því í ljósi síðari atburða.

H.P. Duus lét ekki óhappið slá sig út af laginu og uppfærði hinn ónýta kútter þegar í almennilegan togara úr járni. Sá hét áður Vínland, var ríflega þrjú hundruð tonn, smíðaður í Hollandi 1917 og talinn hið ágætasta skip. Útgerðin gekk ágætlega næstu árin, allt fram til hausts 1925. Kannski hefur skipstjórnarmönnum verið uppálagt að forðast Hvalsnes eftir föngum, allavega var togarinn Ása á vesturleið rétt fyrir jólin 1925 og ætlunin var að fiska á Halanum. Áður en skipið lagði af stað úr Reykjavík var kompásinn yfirfarinn og stilltur af manni er átti að hafa þekkingu til slíks. Það var því treyst á þennan kompás auk klukku og skriðmælis á illviðrissiglingu fyrir Snæfellsnes. Allt um það reyndist Snæfellsnesið nær en menn héldu, svona eins og þegar Dalli heitinn strandaði Fagranesinu á Arnarnesi forðum vestra. 

Togarinn Ása varð ónýtur á strandstað við Dritvíkurflögur en áhöfnin bjargaðist eftir nokkra hrakninga, líkt og af kútter Ásu. Það var talið sérstakt happ að sleppa óskaddaðir úr strandi á þessum stað í slæmu veðri, líkt og áður við Hvalsnes, og satt að segja meiri líkur á manntjóni en hinu. 

Fram að þessu strandi hafði verið nokkur völlur á Duus. M.a. átti hann í byggingu nýjan togara í Englandi, sem átti að verða tilbúinn snemma árs 1926. Þrátt fyrir að strand Ásu við Dritvíkurflögur skekkti nokkuð fjárhag fyrirtækisins var nýsmíðinni haldið áfram og í marsmánuði ´26 kom skipið til Reykjavíkur í fyrsta sinn, nefnt Ása þrátt fyrir fyrri áföll tveggja skipa með því nafni. Duusverslun átti allt sitt undir útgerð þessa skips, sem var vel vandað að allri gerð og talið eitt glæsilegasta skip togaraflotans. Það má því vel gera sér í hugarlund það áfall sem eigendurnir urðu fyrir þegar hinni nýju Ásu tókst ekki einu sinni að ljúka sinni fyrstu veiðiför. Annan dag aprílmánaðar 1926 strandaði skipið austantil í Stórubót, rétt vestan Grindavíkur. Enn bjargaðist áhöfnin á land fyrir tilstilli Grindvíkinga sem komu til aðstoðar. Skipið brotnaði fljótlega og varð ónýtt, sömu leið fór efnahagur Duusverslunar sem ekki þoldi þetta þriðja áfall. Verslunin varð gjaldþrota og nú er fátt eftir af henni nema minningin, bundin í sjóminjasafni og kaffhúsi í Keflavík........

Þótt brimaldan brjóti skipskrokka, gamla sem nýja eru nokkrir hlutir um borð í togurum sem brim nær ekki að mala. Togspil, gufuketill og aðalvél eru svo gegnsterkir hlutir að þótt allt annað hverfi standa þeir gegn stórsjónum til áratuga, minnismerki um liðna atburði og hálfgleymda. Þannig er einmitt um ketil og aðalvél hinnar nýju Ásu, sem enn má sjá á fjöru neðan við Stórubót vestan Grindavíkur:


Hér fyrir neðan er mynd af korti. Á því má sjá leifar Ásu merktar inn neðarlega til hægri. Sú villa er þó í kortinu að þar er merktur "Ketill úr kútter Ásu" en að sjálfsögðu var það ekki kútterinn sem þarna bar beinin heldur nýjasti og glæsilegasti gufutogari landsmanna:Þannig var nú það. 

Í lokin má svo bæta við að frásagnir af Ásunum þremur má lesa í "Þrautgóðir á raunastund", 9.bnd.bls.175 og í 7.bnd. bls. 84 og bls. 104. 

Í annarri málsgrein hér ofar var aðeins minnst á drauma, ófarir og föll. Í lok frásagnarinnar um Ásu hina nýju á bls. 106 í 7.bindi "Þrautgóðir....." er komið inn á sögu sem á sínum tíma gekk manna í millum um upphaf endaloka Duusverslunar, ef svo má orða. Sagan er á þá leið að árið 1917 hóf Duusverslun byggingu fiskhúss við Kaplaskjól í Reykjavík. Þar sem húsið skyldi standa var fyrir hóll, og þegar farið var að grafa fyrir grunni hússins dreymdi stúlku eina í nágrenninu að til hennar kæmi kona. Í draumnum bað konan stúlkuna að fara til Duus, segja honum að hún byggi í hólnum og biðja hann að byggja hús sitt annarsstaðar. Stúlkan gerði svo sem fyrir hana var lagt en talaði fyrir daufum eyrum, Duus hafði ekki trú á draumnum og lét halda áfram byggingunni. Konan hélt áfram að birtast stúlkunni í draumi og varð því þungbúnari sem byggingunni miðaði áfram. Að endingu lét hún svo um mælt að verk þetta skyldi marka endalok velgengni Duusverslunar. Hvort sem marka má drauminn eður ei, reið hvert áfallið af öðru yfir Duusverslun uppfrá þessu og þrjá skiptapa á nokkrum árum - síðast strand hinnar nýju Ásu - þoldi fyrirtækið ekki.

Þegar ég kom uppúr fjörunni ofan við strandstaðinn sneri bíllinn í vestur og því lá leiðin í áttina að Staðarhverfinu gamla, vestasta hluta Grindavíkurbyggðar. Þar sem nú eru sumarhús og golfvöllur var áður mikið athafnalíf og margar byggingar. Það sem helst minnir nú á þessa gömlu tíma eru húsatóftir og hafnarmannvirki:

Að lokinnni skoðunargöngu um Staðarhverfið lá leiðin út í Reykjanesvita. Ég hef margoft komið út í Reykjanes en aldrei lagt á mig göngu upp á Valahnjúk fyrr en núna, í nístingskulda og trekki!

Á myndinni hér að ofan má sjá Karlinn í forgrunni en Eldey í fjarska. Þessi sýn á Karlinn rifjaði upp gamla frásögn um einn nýjasta og glæsilegasta togara Þjóðverja, Karlsburg. (þar er augljós tenging við Ásuslysið 25 árum fyrr og 15 km austar)  Stýrimaður togarans, vankaður af slæmu höfuðhöggi daginn áður, villtist að því er talið var á Eldey og Karlinum, stefndi Karlsburg milli Karlsins og lands en strandaði að sjálfsögðu við Önglabrjótsnef nokkrum tugum metra vestar. Skipið ónýttist en áhöfnin slapp. (Það eru einnig sérkennileg líkindi að Karlsburg skyldi stranda við Karlinn!) Þessi sami stýrimaður, Willi Sunkimat var svo nokkru seinna (1952) í áhöfn þýska togarans Thor þegar togarinn fékk á sig brotsjó og fórst suður af Íslandi. Sunkimat var þá sá eini er af komst, og var bjargað eftir mikla hrakninga. Sunkimat þessi var annálað hraustmenni og var sagt eftirá að höfuðhöggið sem hann fékk um borð í Karlsburg hefði líklega banað hverjum meðalmanni. Sunkimat féll aðeins á kné en einhverjar afleiðingar hefur höggið þó haft á heilastarfsemina miðað við stefnu Karlsburg við strandið.

(sjá "Brimgnýr og boðaföll" e. Jónas St. Lúðvíksson, Ægisútgáfan 1963, bls.7-29)

Við Valahnjúk á Reykjanesi stendur þessi voldugi, mannhæðarhái geirfugl og horfir út til Eldeyjar. Eflaust myndi hann öfunda súlurnar sem þar búa, sjálfur var hann ófleygur og því auðveld bráð mannvörgum með kylfur. Þessir vargar gengu enda svo til verks gegn geirfuglinum að hann er nú útdauður. Vörgunum fjölgar hins vegar ört.......Hringnum var svo lokað í heita pottinum í Vatnaveröld Reykjanessbæjar, en af því eru engar myndir...........21.04.2013 07:49

Það átti að fara að vora........!

.......en vorið virðist ekki alveg vera handan við hornið. Þegar ég leit á norsku veðurspána fyrir stuttu  (yr.no) mátti skilja á henni að eftir yfirstandandi helgi færi veðrið að breytast til hins betra. Undanfarið hef ég verið kuldagallaklæddur útivið að vinna í hjólabúnaði og bremsum Isuzu vörubílsins litla sem geymdur er niðri við Stálver. Þeir jólasveinar, Kristmundur Kristmundsson og bræðurnir Alexander og Erlingur Hafþórssynir hafa verið iðnir við að gera grín að mér fyrir að mæta þá helst í verkið að ekki sé hundi út sigandi. Sjálfir hafa þeir unnið drjúgt í Lunda ST, stórútgerðinni hans Kristmundar, svo Lundi mætti vera tilbúinn þegar strandveiðitímabilið hefst. Lundi hefur í vetur fengið gríðarlega andlitslyftingu - í orðsins fylstu merkingu, því framenda bátsins var lyft svo nemur vel einu feti. Kristmundur er nefnilega "fullorðinn" maður og gat engan veginn rétt úr skrokknum í þeirri stýrishússkytru sem talin var hæfa samanhnýttum enskum hungurhækjum. Lundinn er nefnilega alvöru "Colvic", framleiddur í landi fyrrum þorskþjófanna á Íslandsmiðum en miðað við hönnunina á vistarverum bátsins hafa Bretar ámóta mat á eigin hæð og Japanir. Eigum við að ræða lofthæðir og hurðaop í japönsku togurunum?

Hér ætla ég að setja mynd af Lunda eftir breytinguna, þegar ég nenni út í garrannn til að taka hana......

...og svo ein sem sýnir snjóalög og veðurfar í höfuðborginni morguninn 21. apríl 2013:Eigin hugðarefnum hefur miðað nokkuð undanfarið, enda óvenju fáir utanaðkomandi hjálparþurfi í aprílmánuði. Í upphafi mánaðar gerði fallegan sólardag (þeir hafa að vísu verið allnokkrir en þessi bar af því hann líktist sumri!) og þennan dag ákvað ég að framkvæma verkið sem lengi hefur legið á mér. Þessi leiðindi með gluggakarmana í Stakkanesinu hafa pirrað mig talsvert, og eins og fram kom áður var það hrein og klár tilraun að setja tekklista meðfram gluggum bátsins. Yfirlýsta stefnan við smíðina var að hafa allt útvortis viðhaldsfrítt, plast, ál og ryðfrítt stál. Mér fannst hins vegar fallegt að ramma gluggana inn með lökkuðum tekklistum og vissulega var það útlitsatriði - fyrsta sumarið. Ég hét því jafnframt að ef eitthvert vesen yrði með þessa lista myndu þeir einfaldega fjúka.  Auðvitað varð svo vesen og ég hef þurft að bera á listana tvisvar á sumri svo fegurðargildi þeirra snerist ekki upp í andhverfu sína. Nú var svo komið að eftir veturinn voru listarnir bara gráir, ég held bara svei mér þá gráir í gegn. Mér óaði við því að skafa þá einu sinni enn og talaði því við snillingana í Málmtækni. Ég hef aldrei komið svo með vandamál þangað að ekki sé auðleyst, heldur ekki núna og út fór ég með skínandi fína plastlista á besta verði bæjarins. Þennan fallega sólardag notaði ég svo til að umbylta augnsvip Stakkanessins, og þegar leið á daginn og fólk losnaði úr vinnu naut ég aðstoðar dömuhanda, sem um leið komu færandi kaffibrauð. S.l. fimmtudag ( 18.4) var ég mættur að Stakkanesinu klukkan átta að morgni, lásaði vagninn aftan í Hrossadráparann og dró heim að Höfðaborg. Það var nefnilega annar fínn dagur á fimmtudaginn, sannkölluð sumareftirlíking hér sunnanundir vegg. Áður hafði ég verið búinn að botnmála svo það leiðindaverk var frá. Það þurfti hins vegar að þrífa bátinn hátt og lágt, hann var u.þ.b. hálffermdur af eldfjallaösku í bland við foksand sem dreift var frítt til vina og óvina frá Björgun hf. Seinnipart dagsins, þegar þrifum og standsetningu var að mestu lokið leyfði ég mér að leggjast í bleyti í pottana í Grafarvogslaug, og dreymdi Spánardrauma í sólarhitanum sunnan undir vegg innan um bikiniklæddar drottningar og prinsessur. Það hefur sína kosti að vera atvinnulaus.

Það stóð illa á sjó fimmtudaginn átjánda og kvöldflóð var ekki fyrr en um miðnættið. Um kvöldmatarleytið var björgunarbáturinn settur um borð, sömuleiðis rafgeymarnir og GPS/dýptarmælirinn. Þar með var allt klárt til sjósetningar og aftur var lásað aftan í jeppann og lagt af stað niður í Grafarvogshöfn. Stakkanesið ristir aðeins 60-70 cm í hælinn og vagninn er lágbyggður svo ég ákvað að reyna sjósetningu á hálfföllnu. Klukkan var alveg um níu þegar Stakkanesið rann af vagninum, flaut upp og sigldi hring á voginum.

Þrátt fyrir veður(hrak)spár næstu daga lýsi ég sumarið 2013 formlega komið!!

Nú geta menn myndað sér skoðun á augnsvipnum, eða "andlitslyftingunni":

Þegar búið var að binda við bryggju var aðeins einu nauðsynjaverki ólokið - að stilla útvarpsrásirnar inn. Trúr minni sannfæringu byrjaði ég á einu útvarpsrásinni sem ekki er tröllriðið af auglýsingum, pólitík eða auglýsingapólitík. Útvarp Latibær!Meðan Stakkanesið fór einn "dýptarmælisprufuhring" í höfninni var tekin stutt vídeómynd. Ég hef aldrei reynt að setja inn vídeó, ætla samt að reyna að klóra mig fram úr því. Takist það, má sjá vídeóið hér fyrir neðan.( Það virðast vera einhver vandræði með "upload" á vídeóinu. Er að garfa í þessu. Nauðsynlegt að kunna þetta....)


  • 1
Flettingar í dag: 50
Gestir í dag: 34
Flettingar í gær: 111
Gestir í gær: 45
Samtals flettingar: 642782
Samtals gestir: 91884
Tölur uppfærðar: 23.1.2019 04:07:41


Tenglar