Gunnar Th.
Fjórða kerfið.....


09.09.2012 09:58

Átta daga ferðin #5, frá Tálknafirði og heim.

 Það er kominn tími til að ljúka þessarri löngu ferðasögu og koma nýjum að. Það rigndi talsvert á Tálknafirði aðfararnótt 20. júlí og um morguninn var allt rennblautt. Sólin var komin hátt á loft þegar við skriðum á fætur og það blés talsvert. 






Við þær aðstæður var jörðin fljót að þorna og við settum upp skjóltjöld við ferðadrekann umhverfis morgunverðarborðið. Hundarnir fengu sína hreyfingu og þegar allt var tilbúið var lagt í´ann að nýju. Fyrstu kílómetrarnir voru þó eknir í öfuga átt, út að "gömlu" heitu pottunum þeirra Tálknfirðinga utan við þorpið. Þar voru fyrir nokkrir útlendingar sem sýnilega höfðu haft  næturdvöl á staðnum. Okkar viðstaða varð því ekki löng, aðeins rétt skoðunin og svo var haldið til baka. Önnur viðkoma var á bryggjunni - nema hvað?- og þar myndaði ég dálítið sérstakan bát. Þetta var BILLA BA 75, sem var alltaf dálítið sérstök fyrir þá sök að vera stór, gaflbyggður plastbátur með afturbyggingu. Það var frekar sjaldgæft að sjá svo stóra báta af plastbátakynslóðinni afturbyggða og BILLA var alltaf dálítið "öðruvísi".  Ég vissi að báturinn hafði staðið ónotaður á landi um árabil og átti ekki von á öðru en að sjá hann eins og áður. En í hverfulum heimi er fáu að treysta og BILLA  var ekki lengur afturbyggð, heldur eiginlega húslaus með öllu. Á hana hafði verið tyllt einhverju hrófi af öðrum bát, alveg fram á hnýfil og ekki fannst mér þetta nein virðing við hana Billu sem í mínum huga átti að vera afturbyggð, heldur fannst mér þetta eins og hálflélegur brandari.





Þorpið var kvatt og haldið inn með firði, fyrir hann og upp Mikladal áleiðis til Patreksfjarðar. Þar átti Dagný skyldfólk og þar skyldi áð um stund. Á Mikladal fór ferðadrekinn að hita sig, nokkuð sem ekki hafði gerst áður. Allt virtist þó eðlilegt þegar upp kom og ég hafði engar áhyggjur af þessu frekar. Fyrsti viðkomustaður þegar niður kom var þó þvottaplanið þar sem brynna skyldi drekanum. Þá kom í ljós talsverður kælivatnsleki af vélinni sem ekki varð komið auga á með góðu móti. Það er góður kostur þegar bílar taka upp á því að bila, að bila þá á virkum degi í þéttbýli auk þess sem ættingi ferðafélagans var verkstæðismaður á staðnum og ökumaðurinn bifvélavirki. Þessi vatnsleki raskaði ekki ró okkar, við skelltum okkur í nýju sundlaugina þeirra á Patró og flatmöguðum þar í sólskininu drjúga stund. Síðan var farið að leita að verkstæðisættingjanum. Hann reyndist þá hafa brugðið sér af bæ en samstarfsmaður lánaði þau verkfæri sem þurfti til að finna lekann og laga hann. Lítil vatnshosa hafði nuddast í sundur í skakstrinum norður Strandir og út í Selárdal. Þetta var fljótviðgert og á eftir skoðuðum við bæinn og litum í búðir. Eins og sjá má á myndunum hér fyrir neðan var vindurinn dottinn niður og veðrið svo sannarlega ekki að spilla neinu : 







Ég hafði aldrei farið í nýju sundlaugina á Patró (og raunar ekki í þá gömlu heldur) svo ég gat bætt við einum krossi á Vestfjarðalistann. Við athugun á honum kom í ljós að þar með vantaði aðeins þrjár laugar á listann svo öllum vestfirskum sundlaugum væri náð. Það var ánægjuleg tilviljun að auk laugarinnar í Reykjarfirði á Ströndum (sem verður sérverkefni næstu ára)  voru aðeins tvær eftir, og báÐar voru á leið okkar. Annars vegar var það sundlaugin á Krossholtum á Barðaströnd, hins vegar sumarhúsalaugin við Flókalund. Af símtali við Eyjólf rafvirkja frá Lambavatni á Rauðasandi fyrr um daginn vissi ég að sú laug var biluð enda var Eyfi að vinna í henni. Mér skildist þó að hún yrði orðin nothæf um það er við kæmum að Flókalundi og ekki ólíklegt að ég gæti farið í hana. 

Veðrið var hreinlega of gott til að eyða því í akstur, en við kvöddum samt Patró og héldum inn Raknadalshlíð að fjarðarbotni. Við okkur blasti Skápadalur inn úr botninum, þar sem Garðar BA liggur á kambi og ryðgar. Þetta elsta stálskip Íslendinga (sm. 1912)  sem enn heldur nokkurn veginn lögun sinni væri trúlega betur komið annarsstaðar sem safngripur. Þarna í Skápadalsfjörunni verður ekkert fyrir það gert og á meðan Garðar sígur saman hrynja þau niður hvort á sínum stað, Suðurlandið á Djúpavík (sm. 1891) og  Ingólfur í Stykkishólmi (sm.1912)

Kleifaheiðin, milli Patreksfjarðar og Barðastrandar er varla nein heiði lengur, svona á vestfirskan heiðamælikvarða, heldur malbikuð hraðbraut. Eftir skamman akstur blasti Breiðafjörðurinn við okkur í allri sinni dýrð og von bráðar vorum við komin að Krossholtum. Ég hafði samið við Dagnýju um að fá að skreppa í laugina þar, en hafði vit á að þegja um þá staðreynd að korteri innar væri önnur sem ég þyrfti líka nauðsynlega að heimsækja. Við laugina á Krossholtum var komin glæný búningsaðstaða og við hana var vörður sem rukkaði fimmhundruðkall ofaní. Þeim aurum var vel varið því á Krossholtum er ekki aðeins þassi ágæta sundlaug heldur líka steinhlaðinn náttúrupottur neðan við laugina, sem toppar allar steinsteyptar laugar landsins! 

Eftir baðið átti ég eftir það erfiða verkefni að upplýsa Dagnýju um laugina í Flókalundi, augnabliki innar.  Hennar þolinmæði og þrautseigja á sér lítil takmörk eins og ég reyndar vissi fyrir, og í því skjóli skákaði ég. Hún lét sér duga að hrista hausinn lítillega og lýsa því yfir að mikið væri gott að hún þyrfti ekki að skilja alla hluti!  

Eyjólfur Tryggvason frá Lambavatni var að störfum við sundlaugina í Flókalundi þegar okkur bar þar að. Þar hafði vatn komist í dælurými og hlotist af nokkrar rafmagnsskemmdir. Allt var þó á réttri leið og í lauginni var talsvert af sumarhúsagestum með börn. Ég skellti mér ofaní og prófaði einnig báða heitu pottana. Á sirka korteri var tilgangnum náð og mér var þarmeð heimilt að merkja við þessa litlu en prýðilegu laug á listanum mínum. Þar með gat ég lýst því yfir að allar sundlaugar Vestfjarða hefðu verið sigraðar, að Reykjafirði á Ströndum undanskildum. Sú laug er dálítið sér á parti vegna samgönguleysis og ætti því eiginlega að vera undanskilin. Hún er samt á listanum og verður því að sigrast, þótt síðar verði.

Frá Flókalundi ókum við hefðbundna leið suður nes, firði og hálsa alla leið í Bjarkalund. Vegurinn var á löngum köflum malbikaður og malarhlutar hans með skársta móti svo ekki var undan neinu að kvarta, ferðadrekinn át þjóðveginn með bestu lyst enda kominn á þrjátíuogfimmþumlungadekk sem fyrr segir, og kappaviðgerðin hans Domma frá Ísafirði virtist standa sig með prýði. Það var komið fram yfir venjulegan kvöldverðartíma þegar við renndum í hlað í Bjarkalundi og við orðin svöng. Þar var hins vegar boðið upp á tvíréttað kvöldverðarhlaðborð á verði fyrir venjulegt fólk og því var engin leið að hafna. Þegar við bættist að staðarhaldarar reyndust skyldfólk Dagnýjar frá Patró var kvöldið neglt!  Þessutan hittum við í salnum talsvert af vinafólki mínu frá Ísafirði sem hélt vísi að ættarmóti á staðnum og urðu fagnaðarfundir. 

Eftir kvöldmat var ferðadrekanum brynnt á dælu Enneins, hann hafði síðast fengið sopann sinn á Patró og samkvæmt hávísindalegum útreikningum hafði bensíneyðslan nákvæmlega ekkert breyst viðþrjátíuogfimm tommu dekkin sem sett voru undir hann fyrr í sumar í stað þeirra þrjátíuogþriggja. Drekinn vildi hafa sína átján, nítján lítra á hundraðið og ekkert múður. Við því var ekkert að segja, svona var þetta bara og það sem hann hafði skilað til okkar í ferðagleði og -hamingju frá vori 2010 var miklu meira en svo að teldist halla á hann!

Náttstaður var ákveðinn að Reykhólum. Tjaldsvæðið þar var inni á útilegukortinu og því sjálfsagt að nýta sé það. Veðurspá morgundagsins, laugardags, var afar slæm og stöðugt var verið að vara ferðafólk með létt draghýsi og annan ámóta búnað við vindhviðum og byljum um allt vestanvert landið. Við Bjarkalund var enn einmunablíða og gætti vart vinds á föstudagskvöldinu þegar lagt var af stað til Reykhóla. Þar útfrá var annan uppi á teningnum, hávaðarok og hálfgerður skítakuldi með! Frændurnir Orri og Tjörvi fengu sitt kvöldrölt meðan búist var til svefns og voru, að mér sýndist, blátt áfram fegnir að komast aftur inn í bíl. Orri valdi sér stað í fangi og virtist kunna vel við sig:





Það fór svo sem ágætlega um okkur þarna á Reykhólum og bíllinn ruggaði notalega í hviðunum. Það gnauðaði dálítið í topplúgunni í verstu hviðunum en að öðru leyti urðum við lítt vör við versnandi veður. Að morgni, þegar sundlaugin opnaði og ég gat afhent útilegukortið mitt og greitt þannig fyrir næturdvölina tók ég nokkrar myndir yfir þann hluta blettsins sem ætlaður var "æðri" ferðamáta!  Ég sá ekki betur en sveitungi minn, Sighvatur Björgvinsson væri með hjólhýsi og Pajerójeppa rétt aftan við ferðadrekann. Við erum víða, Ísfirðingarnir:





Okkur var ekkert að vanbúnaði og eftir skoðunarferð út að þörungaverksmiðjunni (les: bátahöfninni)  skutum við einni mynd uppeftir þorpinu. Augnabliki síðar voru Reykhólar að baki:

 

Þegar kom á þjóðveginn rétt sunnan við Bjarkalund var ljóst að þar ríkti ekki lengur blíða gærkvöldsins, heldur hafði vindsperringurinn frá Reykhólum tekið yfir. Í útvarpinu var stöðugt verið að vara við illviðri og við hrósuðum happi yfir veðrinu í Reykhólaveit sem, þrátt fyrir belginginn var ekkert í líkingu við það sem spáð hafði verið. Ég hafði sambandi við Sverri Guðmundsson, útgerðarmann, skipstjóra, stýrimann og Ísfirðing, Sverrir var fyrir sunnan og kannaðist ekki við neitt veður þar, en taldi því aðeins hafa seinkað. Skipstjórnarmenn eru vanir að reiða sig á veðurfræðinga og Sverrir svaraði litlu þegar ég gerði mig líklegar til að lítilsvirða þá ágætu stétt í orði. Mig langaði samt til að hringja aftur í Sverri þegar við komum í Búðardal, því samkvæmt spánni átti á því augnabliki að vera hið versta veður á því svæði. Ekki var það alveg, og það má dæma veðrið af myndum sem ég tók á staðnum. Myndefnið er efni í heilan pistil en ég læt duga nokkur orð:



Eflaust sjá hér flestir aðeins gamalt bílflak - og vissulega er þetta gamalt bílflak. Einu sinni var þessi bíll hinsvegar ekkert flak, heldur fínasti ferðabíll. Hann hét þá "Járntjaldið" og nafnið er enn sýnilegt á húddinu. Ég ætti að þekkja það. Ég límdi það sjálfur á......

Það hófst allt með þessum bíl. Þetta er bíllinn sem við keyptum vorið 2000, fyrsta vorið okkar syðra. Mig hafði árum saman langað í ferðabíl, en búandi vestra voru möguleikarnir færri og efnahagurinn mun verri. Það var ekki fyrr en við fluttum suður sem tækifærið gafst og þegar ég sá þennan gamla leigubíl úr Vestmannaeyjum á bílasölu Matthíasar fór heilabúið á flug. Vinafólk okkar átti innréttaðan Ford Econoline, helvíti fínan bíl og úr honum fékk ég hugmyndir að innréttingu sem sameinað gæti fjölsætabíl og svefnvagn. Bíllinn var keyptur og í lánshúsnæði suður í Hafnarfirði, þar sem Kjartan Hauksson kafari og Ísfirðingur réði ríkjum, var innréttingin smíðuð. Sumarið 2000 var svo ferðast út í eitt, 2001 og 2002 einnig og það sumar var Járntjaldinu ekið tíuþúsund kílómetra - aðeins! Bíllinn var geymdur inni á vetrum og var því alltaf í sama ástandi að vori og honum var lagt að hausti. Það kom reyndar fljótlega í ljós að Járntjaldið var allt of lítið fyrir fjölskylduna og haustið 2001 keypti ég gamla Toyotarútu af ALP- bílaleigunni og hófst handa við smíði stærri og betur búins bíls. Sá var tilbúinn vorið 2003 og þá var Járntjaldið selt til Búðardals. Ég vissi það eitt síðan að bílnum hafði hnignað jafnt og þétt enda hirðan greinilega ekki sú sama og verið hafði. Svo hvarf Járntjaldið og það er alveg víst að þegar við héldum í áttadagaferðalagið okkar með viðkomu í Búðardal hafði bíllinn ekki staðið þarna bak við verslunina. Í millitíðinni hafði hann líklega verið dreginn út úr nálægri skemmu og skilinn eftir þarna á planinu, trúlega til förgunar. Í öllu falli var dagsljóst að ævi Járntjaldsins var öll.

Þetta ryðgaða og rykfallna bílflak geymdi þvílíkan fjársjóð minninga að ekki verður upp talið. Á þessum bíl fór ég haustferðina 2000 sem náði hápunkti með Hríseyjarferð. Sambærilega haustferð fór ég 2001 sem hafði vendipunkt í Grímsey. Hann hafði hýst mig einan í sex stiga frosti á lokuðu tjaldsvæði á Ólafsfirði, hann hafði hýst sex manns á tjaldsvæðinu í Álfaskeiði við Flúðir og allt þar á milli á flestum stöðum landsins. Úr þessum ferðum eru til ótal ljósmyndir, því miður allar á pappír og að þeim hef ég ekki aðgang eins og er. Eina eða tvær ætti ég þó að geta fundið ef ég leita vel - bíðið aðeins!:





Þessar tvær fann ég í gamalli möppu af skönnuðum myndum, sem færst hefur milli tölva um árabil. Á þeirri efri er Járntjaldið í ferð með Húsbílafélaginu, staðurinn er Lindartunga í Kolbeinsstaðahreppi á Mýrum og prinsessan er Bergrós Halla, nú Verslódama, tónlistakona og verðandi ökunemi m.m. Hún verður sautján þann 27.10. nk.! Takið eftir áklæðinu á bekkjunum......

Neðri myndin er einnig tekin í ferð með Húsbílafélaginu. Sú var farin að Seljavöllum undir Eyjafjöllum en þarna er Járntjaldið á einkaþvælingi upp á Reynisfjall ofan við Vík í Mýrdal. Líklega var þessi ferð sú síðasta sem farin var á Járntjaldinu í okkar eigu, ef marka má dagsetninguna. Það hefur verið tekið á hús eftir hana og var svo selt að vori til Búðardals, sem fyrr segir.

Nú er öldin önnur og Járntjaldið má muna sinn fífil fegurri. Það munu ekki fleiri njóta sömu ánægju og við af þessum bíl. Hann er ónýtur af vanhirðu og langri stöðu.  Þrátt fyrir það má enn sjá handarverkin. Áklæðið sem Elín Huld heftaði yfir svamp á krossvið er blettótt og rifið, sömuleiðis grænu gardínurnar hennar,  borðið á "skærafótunum" er rispað og undið og mýsnar hafa fundið sér æti í gömlum ferðahandbókum og -pésum:









Þetta var eiginlega hálf hryggileg sjón, og leitt til þess að vita að nú beið allra þessarra hluta það eitt að lenda á haugunum. Þar á móti kom ákaflega skemmtileg tilviljun. Ég sagði hér ofar að þegar ég smíðaði innréttinguna í Járntjaldið hafi ég stuðst við lausnir í Ford Econoline vinafólks okkar. Það var ekki leiðinlegt að geta loks myndað þessa tvo bíla saman:



Já, þannig var nú það. Úr þessum Econoline komu hugmyndirnar að innréttingunum í Járntjaldinu, innréttingum sem nýttust okkur framúrskarandi vel þrjú ferðasumur. Nú hef ég átt "fyrirmyndina" síðan haustið 2009, ferðast á "henni" þrjú sumur, 2010, ´11 og ´12 en tíuþúsundkílómetra sumri hef ég ekki náð síðan Járntjaldið var og hét og næ trúlega aldrei aftur!

Við lögðum á síðasta hluta heimferðarinnar í þessu veðri sem á myndunum sést. Eftir því sem sunnar dró versnaði í því þó hvergi væri neitt skaðaveður í líkingu við það sem spáð var. Það var hálfgerður ruddi þegar við ókum undir Hafnarfjalli og Kjalarnesið, verra varð það ekki sem betur fór. 

Það var farið að kvölda þegar ferðadrekanum var lagt í stæðið sitt á Ártúnshöfðanum og lengstu ferð sumarsins 2012 var lokið.

07.09.2012 18:20

Yngt upp svo um munar!

Ég ætla að skjóta hingað inn stuttri montyfirlýsingu: Það er allt útlit fyrir að grásvarti ferðadrekinn, sem stundum hefur verið kallaður Arnarnes, hafi farið sína síðustu ferð í minni eigu. Það má þó vera að ein sé eftir, það ræðst af veðri og færð, því í sumar var ætlunin að aka fyrir Klofning og yfir Haukadalsskarð til austurs. Tímaskortur hefur hamlað þeirri för og það verður svo sem áfram tímaskortur en ferðin er enn á borðinu. Það sem hangir á spýtunni er annar Econoline, lengri, breiðari, þyngri, 10 árum yngri, með stærri vél og öflugri búnaði. Eftir u.þ.b. 10 mínútur legg ég af stað austur fyrir fjall til að ganga frá þeim kaupum. Hann verður svo sóttur seinna í kvöld þegar ég fæ aðstoðarekil með mér. Meira af þessu fljótlega.........


21.08.2012 22:46

Átta daga ferðin #4a (fimmtudagur til kvölds)

Fyrst stuttur inngangur: Í gær kom til mín fullorðinn maður sem ég hef aldrei séð og þekki ekki neitt. Hann þakkaði mér fyrir skrifin og sagðist lengi hafa fylgst með þeim. Fleiri orð hafði hann yfir sem ég tíunda ekki, en ég viðurkenni að ég fór hálfpartinn hjá mér. Að hluta vegna hróssins, að hluta vegna þess að ég skammaðist mín fyrir að sinna ekki síðunni betur. Nú er klukkan 22.50 að kvöldi, ég er búinn að laga einn bíl í kvöld og fara í heita pottinn í Laugardalslauginni. Nú skal skrifað þar til augun lokast!!

Sjötti dagurinn, fimmtudagurinn átjándi júlí, heilsaði með blautum kossi! Það rigndi líkt og hellt væri úr fötu á Flateyri og til að sýna veðurguðunum að okkur stæði nákvæmlega á sama skelltum við Dagný okkur í sundlaugina og blotnuðum ennþá meira.  Að sundferð lokinni kvöddum við bæinn og tókum stefnu inn Önundarfjörðinn, yfir Gemlufallsheiðina til Dýrafjarðar en beygðum þar til hægri út að Núpi. Ætlunin var að heimsækja Skrúð, gróðurreitinn sem séra Sigtryggur stofnaði til fyrir heilli öld. Það rigndi enn að Núpi og moldarvegurinn sem lá frá þjóðvegamótunum og út með firðinum var eitt svað. Þegar við stigum út úr ferðadrekanum var hann ekki lengur grár og svartur heldur móbrúnn uppúr og niðurúr. Við gengum um skrúðgarðinn sem var afar fallegur þrátt fyrir veðrið, enda verður allur gróður einhvern veginn enn grænni í vætu. 









Eftir heimsóknina í Skrúð var haldið áfram til Þingeyrar. Enn rigndi og þar sem ekki gaf til útivistar eða gönguferðar ákváðum við að heimsækja nýlega opnað karffihús í Simbahölinni.  Simbahöllin er áberandi timburhús sem skagar dálítið út í aðalgötu bæjarins, hátt og reisulegt. Í mínu barnsminni var þetta hús eitt af  kennileitum Þingeyrar. Það skartaði m.a. áberandi pílárarekkverki sem svalahandriði á efri hæð. Fleiri eftirminnileg útlitssérkenni hafði það einnig.  Í áranna rás hafði húsið látið á sjá og þau síðustu var það aðeins niðurnídd ruslageymsla með brotnar rúður og lafandi þakrennur niður ryðbrunna útveggina. Gamli sjarminn snerist eiginlega upp í andhverfu sína og þessi vanhirti kumbaldi skagaði nú frekjulega út í þegar of mjóa aðalgötuna og dró þannig til sín frekar neikvæða athygli.  Kannski var þessi fyrirferð ákall til vegfarenda, eins konar hjálparbeiðni hússins sem smám saman grotnaði niður fyrir blindum augum þeirra sem hjá gengu og voru löngu hættir að sjá það sem næst þeim stóð. Enda fór það svo að loks er einhver heyrði kallið var svarað á erlendri tungu - ungt par frá sitthvoru Evrópulandinu sameinaðist í áhuga á niðurníddu timburhúsi í smáþorpi þriðja landsins. Þau eignuðust Simbahöllina og með þrautseigju hafa þau snúið hjólinu til baka. Simbahöllin skagar enn fram í aðalgötuna, ekki lengur frekjulega heldur eins og myndarleg hefðarfrú sem gengur í veg fyrir gesti sína og býður þá velkomna. Innandyra var boðið uppá kaffi og vöfflur að hætti hússins, og við Dagný vorum bæði södd og sæl þegar við kvöddum og gengum yfir götuna, að handverkshúsi þeirra Dýrfirðinga sem einnig hýsti upplýsingamiðstöð ferðamanna.

Simbahöllin á VIMEO: http://vimeo.com/22998392

Inni á gólfi stóð lítil skekta og þjónaði sem uppstilling fyrir hannyrðir, m.a. heimaprjónaðar lopapeysur. Annað okkar skoðaði lopapeysurnar með fagmannlegu auga, hitt virti fyrir sér skektuna, sem var sérstök að því leyti að þótt hún væri ekki sérlega borðlág voru aðeins fjögur borð í síðunni. Svo breið borð hafa komið af afar sveru tré og ekki man ég eftir að hafa oft séð svo mikla borðbreidd seinni árin. Líklega er búið að höggva öll þessi gömlu tré úti í heimi og svona viður ófáanlegur í dag. Kannski má líka af ofanrituðu ráða í hvort okkar skoðaði peysurnar og hvort skektuna.......

Afgreiðslukonan var innfædd og ég mátti til að spyrja hana um viðhald á veginum hans Elísar Kjarans um Svalvoga og Lokinhamradal til Arnarfjarðar. Úr því varð skemmtilegt samtal þar sem m.a. kom fram að Þingeyringar hafa reynt að sveigja umferðarstrauminn um þennan þrönga veg í þá átt að hann sé ekinn úr Arnarfirði til Dýrafjarðar. Með því vinnst tvennt: Annars vegar er augljós kostur að umferð liggi sem mest í aðra áttina á vegi þar sem afar erfitt er - og á köflum nær ómögulegt - að mætast á farartækjum sem eru plássfrekari en reiðhjól. Hins vegar er það líka augljós kostur að taka á móti vegfarendum sem telja sjálfa sig rétt nýsloppna frá bráðum lífsháska, svo sem algengt er um farþega þeirra hraustmenna sem leggja í veginn og ljúka honum, með áfallahjálp í formi andlegs og líkamlegs fóðurs. Af slíku er nóg á Þingeyri en minna um Arnarfjarðarmegin og ef frá er talin kaffisala að Hrafnseyri mega hríðskjálfandi úttaugaðir ferðalangar aka alla leið í Flókalund til að finna rúmgóðan áningarstað með sundlaug og öðru því sem þarf til að hreinsa sig eftir svitabaðið.

Ég fór þennan veg fyrir löngu og var ekki á því að bjóða mínum ferðafélaga uppá hann að svo stöddu. Við vorum á suðurleið, fylgdum ákveðinni ferðaáætlun og kvöddum því Þingeyri og héldum yfir til Arnarfjarðar um Hrafnseyrarheiði. Þegar malbikinu sleppti rétt sunnan bæjarins  tók við gamalkunnur moldarvegurinn. Hann hafði greinilega verið rykbundinn stuttu áður en fór að rigna því yfirborðið var seigfljótandi drullupyttur. Í speglunum sá ég hvernig leirinn hlóðst á hliðar ferðadrekans, svo fór líka að hlaðast á speglana og ég hætti að sjá nokkuð..... Það var fyrst er við renndum í hlað að Hrafnseyri og opnuðum bíldyrnar að við sáum tveggjasentimetra þykkt leirlagið á stigbrettunum. Það var dagsljóst að við höfðum tekið með okkur drjúgan hluta slitlagsins á heiðinni niður á bílaplanið við Hrafnseyri. Okkur tókst að komast niður úr bílnum án þess að maka okkur út í leðju og alla leið inn í burstabæinn sem hýsir að hluta safn um Jón forseta Sigurðsson og að hluta veitingasölu. Myndavélinni var lyft og ég tók tvær sem ég má til að birta þó ég viti fyrirfram að ég fái bágt fyrir. Fyrirsætan var nefnilega eins og flottasta Álafoss-lopapeysuauglýsingafyrirsæta. Sjáiði bara:





Svo voru líka teknar myndir af mér, en í samanburðinum líkjast þær kannski mest myndum af sveitarómaganum og niðursetningnum sem svo margar gömlu sveitasagnanna greina frá:



Líklega fer best á því að ég láti frekari myndbirtingar af okkur tveimur eiga sig en haldi mig frekar við ferðamyndirnar.......

Eftir áninguna var haldið inn með firði og næst staðnæmst við Fjallfoss, sem oftast er nefndur Dynjandi eftir býlinu sem þar stóð. Við Dynjanda var samankominn hópur þýskra ferðalanga á húsvögnum af öllu tagi. Það var lítið svigrúm fyrir tvo dvergschnauserhunda með gríðarlega hreyfiþörf og við færðum okkur út fyrir hópinn þangað sem þeir Tjörvi og Orri gátu hreyft sig að vild. 





Þegar ég ek um Dynjandisheiði er fastur liður að stöðva á vegbrún ofan við botn Geirþjófsfjarðar og líta yfir sögusvið Gísla sögu Súrssonar. Þarna niðri, við bæinn Langabotn, dvaldi Gísli undir lok ævinnar og þar var hann veginn. Í þessarri ferð var engin undantekning gerð.



Okkar áætlun gerði ráð fyrir því að aka af Dynjandisheiði niður í Trostansfjörð og þaðan um Reykjarfjörð og Fossfjörð til Bíldudals. Það saxaðist óðum á daginn og við ókum viðstöðulaust utan hvað áð var stutta stund við fossinn í Fossfirði - við bæinn Foss, hvað annað?





Ekki var höfð viðstaða á Bíldudal heldur ekið gegnum þorpið úr Ketildali allt til Selárdals. Mig langaði að ljúka gömlu ætlunarverki, alltof seint að vísu en betra er seint en aldrei. Ég hafði semsé aldrei komið heim að Uppsölum Gísla Gíslasonar. Þrátt fyrir góðan vilja og allnokkrar ferðir á liðnum árum hafði ég aldrei komið heim að bæ. Ég hafði heyrt að eftir að Gísli hvarf af sjónarsviðinu hefðu óprúttnir ferðamenn lagst á bæinn, skemmt og rænt munum og að síðustu hefði fátt verið eftir markvert annað en húsið sjálft. Þessutan hafði ég heyrt að einhvers konar hollvinahópur hefði lagt í endurbætur á húsinu og til stæði að gera það að safni um þennan sérstæða einbúa. Eftir stuttar vangaveltur fann ég leiðina sem mest virtist vera ekin fram að Uppsölum, lagði á hana í fjórhjóladrifi á ferðadrekanum og veitti ekki af.



Síðasti spotti vegslóðans heim að bænum var sýnu bestur, en mér fannst einhvern veginn svona hálfgert virðingarleysi að þenja bílinn alla leið heim á hlað. Honum var því lagt við túnfótinn og ég gekk síðasta spölinn. Húsið að Uppsölum var í miklu betra ástandi en ég hafði búist við. Á því var nýlegt þak, gluggar og gler sömuleiðis, útihurðin var líka nýleg að sjá og í henni var venjuleg lykillæsing en ef ummerkjum á karminum mátti merkja að einhver eða einhverjir höfðu ekki verið á því að láta læstar dyr stöðva sig. Kannski var það þess vegna sem dyrnar voru nú ólæstar en þar á móti ekkert innandyra sem vert var að stela eða skemma. Ég opnaði og get alveg viðurkennt að mér fannst ég hálfpartinn vera að fremja helgispjöll þegar ég gekk inn í þetta fyrrum ríki einbúans.







Eftir að hafa skoðað húsið myndaði ég utandyra út yfir ríkið hans Gísla, fjárhúsin hans neðst í túninu og trjágarðinn sem hann ræktaði á svipuðum slóðum.









Á leiðinni til baka höfðum við stutta viðdvöl í kirkjugarðinum í Selárdal. Á leiði að kirkjubaki, neðarlega í garðinum var þessi einfalda plata: 



Næsti viðkomustaður okkar var Brautarholt, þar sem hópur þýskra áhugamanna hefur unnið að endurbótum á verkum Samúels bónda Jónssonar. Þessi verk, sem grotnað höfðu niður að Samúel látnum, urðu landskunn eftir heimsóknir Ómars Ragnarssonar til Gísla á Uppsölum en fátt ef þá nokkuð var gert til að varðveita þau. Nokkuð mun þó Jón Kr. Ólafsson  söngvari og safnari á Bíldudal hafa lagt af mörkum en skriður komst fyrst á málin eftir að þessi þýski áhugamannahópur kom til sögunnar. Ég kann ekki nánari skil á þessum mannskap en verkin þeirra tala sínu máli. Ég kom þarna 1987, þegar hnignunin var alger og sé því muninn á því sem nú er orðið:





M.a.s. líkanið af Péturskirkjunni í Róm, sem Samúel vann úr eldspýtum og -stokkum, en var löngu eyðilagt, hefur verið endurgert:



Sama gildir um altaristöfluna sem sgan segir að hafi verið kveikjan að kirkjusmíðinni. Þessa töflu á Samúel að hafa smíðað og viljað gefa Selárdalskirkju. Gjöfinni á að hafa verið hafnað svo Samúel var sagður hafa byggt eigin kirkju yfir töfluna. Hér er hún komin, endurgerð:



Húsið sem Samúel byggði sem vinnustofu hefur verið endurgert og er hið reisulegasta:



Ljónagosbrunnurinn hefur verið endurbyggður eins og sjá má:



Að baki vinnustofunnar er hafin endurgerð íbúðarhússins. Það hús var í raun ónýtt enda af vanefnum gert, líkt og vinnustofan og kirkjan og að mestu byggt úr timbri. Af því stendur aðeins annar gaflinn, þunn og morkin steinsteypan er studd stífum og stoðum:



Húsgrunnurinn sjálfur var ónýtur og hér er kominn sökkull að vandaðri eftirgerð íbúðarhússins, sem í framtíðinni verður væntanlega athvarf listamanna sem kjósa að dvelja um stund í Selárdal:



Meðan hún Dagný töfraði fram hátíðarkvöldverð um borð í ferðadrekanum tölti ég frá Brautarholti niður á bakkana ofan fjörunnar. Þar standa nokkrar húsarústir í misjöfnu ásigkomulagi. Þeirra á meðal eru leifar býlisins að Kolbeinsskeiði, eða bara Skeiði. Þarna var sá góði maður Sveinn Árnason, Svenni rakari, upprunninn. Mér skilst að fyrir dyrum standi endurgerð íbúðarhússins að Skeiði. Þeir sem þar eiga hlut að máli munu þurfa að taka báðar hendur úr vösum:







Það er dálítið athyglisvert að skoða hvernig húsið hefur verið steypt, því bárujárnið er innan á steypunni. Þarna er tréverkið í veggnum farið, væntanlega hefur bárujárnið verið útklæðning hússins en síðan verið steypt utan á það. Þetta minnti dálítið á annað, afar sérstætt hús sem ég skoðaði í fyrrahaust, nefnilega stórhýsið í Öxney á Breiðafirði. Það hús er innflutt, tilhöggvið í Noregi og sett saman í Öxney. Í tímans rás fúnaði tréverkið neðantil og til að þétta húsið var steypt utan á neðri hæð þess - ekki forskalað, heldur steypt miklu þykkra lag, í raun sjálfstæður veggur utan á þann gamla.



Hér að ofan er sjávarhlið hússins að Skeiði og kannski er húsið bara furðu heillegt, þrátt fyrir allt?  Að neðan er horft frá sama stað út eftir bökkunum til vesturs:



Þessar útihúsarústir stóðu rétt utan við Skeið, en ekki veit ég hvort þær tilheyrðu því býli:



Að neðan er horft frá Skeiði upp til Brautarholts, fyrir miðri mynd:



Þessi tafla stendur á bökkunum og  var reist til minningar um sjóslysin sem urðu haustið 1900, eins og lesa má. Um þessi slys má lesa víða, m.a. í einu af ársritum Sögufélags Ísfirðinga, muni ég rétt.



Þegar ég kom aftur til bíls beið veislumáltíð, eins og fyrr segir. Að henni lokinni var enn lagt land undir hjól og ekið til baka inn á Bíldudal, þaðan yfir Hálfdán og út í Sveinseyrarþorp í Tálknafirði. Þar er mjög fínt tjaldsvæði sem við áttum aðgang að með útilegukortinu okkar. Klukkan var líklega langt gengin í ellefu þegar okkur bar að og svæðið nokkuð þéttsetið. Við fundum okkur þó þokkalegan blett til að nátta á og þar með lauk fimmtudeginum nítjánda júlí. Framundan var föstudagur og við vorum ekki alveg á heimleið strax.......




14.08.2012 08:42

Átta daga ferðin #4

Ég er ekki alveg að standa mig! Síðan átta daga ferðinni lauk hafa verið farnar tvær, eins og myndaalbúmin gefa til kynna. Sú fyrri um og eftir verslunarmannahelgi, í Kerlingarfjöll, á Hveravelli og afram norður um til Sigló, um göng til Dalvíkur og af Þelamörk suður - Akureyri sleppt. Sú síðari um nýliðna helgi austur í Meðalland, að Fjaðrárgljúfri, að flugvélarflakinu á Sólheimasandi og um safnið að Skógum. Það er ekki seinna vænna að hysja upp um sig og skrá efnið áður en það fyrnist! Vinnuvikan er dálítið þéttskipuð en um komandi helgi verður farið - ja, allavega eitthvert. Hvert, það er óvíst enn......

31.07.2012 22:17

Átta daga ferðin # 3.

Upp rann hinn fimmti dagur - miðvikudagurinn 18. júlí. Þegar ég vaknaði á húsbílastæðinu hans Ella Odds í Neðsta áttaði ég mig á að ég hafði sofið í einum dúr alla nóttina - nokkuð sem er afar sjaldgæft. Ég áttaði mig líka á fleiru, t.d. því að klukkan var hálfsjö og það var hávært lyftaraskrölt sem hafði vakið mig. Hvern andskotann voru menn að raska ró sofandi ferðafólks sem greitt hafði peninga fyrir svefnfrið, klukkan hálfsjö að morgni? M.a.s. hörðustu lyftarajaxlar frystihúsanna höfðu ekki hafið störf á þeim tíma. Hvað gekk á? Heilabúið var dálitla stund í gang en svo áttaði ég mig á því að aðeins eitt gat valdið þessum lyftaragassagangi á þessum ókristilega tíma. Það hlaut að vera komið skemmtiferðaskip. Ég reis upp við dogg (en þetta orðatiltæki, að rísa upp við dogg, finnst mér skemmtilegt. Ég nota það hér vegna þess að á sama augnabliki og ég reisti mig upp risu doggarnir Tjörvi og Orri einnig upp í búrum sínum) og gerði smárifu á gardínu ferðadrekans. Tilgátan var rétt, það var komið skemmtiferðaskip og það var verið að færa til eitthvað dót á höfninni því tilheyrandi. Ég hlustaði á skröltið töluverða stund, af því ég er svo þolinmóður að ég get hlustað á svona truflun langa stund án þess að fara og beita einhvern ofbeldi. Samt velti ég fyrir mér þessum hrikalega ókosti annars frambærilegs gistisvæðis þarna í Neðstanum. Klukkan varð hálfátta og á slaginu þurfti einhver alverdens fáviti að mæta til vinnu í nágrenninu á krosshjóli, og nýta Ásgeirsgötuna enda til enda til að fíla kraftinn í smellitíkinni. Þvílíkur andskotans, djöfulsins hávaði og þvílíkt botnlaust heila- og tillitsleysi við ferðalangana sem sváfu í húsbílunum sínum á svæðinu!!  Mér var farið að renna verulega í skap og ég var virkilega farinn að upphugsa einhverja skelfilega aftökuaðferð ef ég næði í mótoristann morgunglaða. Í þessum vangaveltum miðjum varð klukkan átta og á hjólbarðaverkstæðinu í fimmtíu metra fjarlægð hófu lofthamrarnir upp söng sinn við langan flutningatrailer sem lagt var við gafl hússins húsbílastæðismegin. Áhöfnin á Arnarnesinu, bæði tví- og ferfætlingar átti ekki annars úrkosti en að fara á fætur og framreiða morgunverð. Það var meira en dagsljóst að á þessu gistisvæði réðu plásskaupendur ekki sínum eigin fótaferðartíma, heldur var það athafnalíf bæjarins sem rak menn á lappirnar.

Það hafði rignt talsvert um nóttina og um morguninn rigndi enn þótt minna væri. Við yfirgáfum blettinn okkar með litlum söknuði og ókum af stað upp í bæ. Litum á skemmtiferðaskipið og hafnarlífið, lögðum svo bílnum í bænum og kíktum í verslun. Því næst lá leiðin inn í Súðavík aftur, við höfðum ekið gegnum þorpið á hraðferð daginn áður vegna leka dekksins og ég lofaði kokknum og kortalesaranum að bæta úr. Í Súðavík var litið á Raggagarð og fleira skoðunarvert, og eftir um tveggja tíma viðdvöl á staðnum var enn lagt af stað, nú til baka alla leið út í Bolungarvík. Þar var rennt um og bærinn skoðaður eins og hægt var milli regndemba, sem höfðu skollið yfir öðru hverju allt frá morgni. Í betra veðri hefði verið gamana að ganga fram að surtarbrandsnámunni að Gili en nú var það varla viðlit. Mig hafði langað að fara upp á Bolafjall og sýna henni Dagnýju konungsríkið mitt, Djúpið, Jökulfirðina og allt annað sem þaðan ber fyrir augu, en við sáum varla Bolafjallið sjálft fyrir þoku, hvað þá meira. Dagskráin var að tæmast, aðeins einu atriði var ólokið. Við áttum eftir að heimsækja vinafólk á Ísafirði sem við höfðum mælt okkur mót við daginn áður. Þangað snerum við okkur næst og eftir góðan vinafund var blásið til brottfarar og Ísafjörður kvaddur að sinni. Dvölin í heimabænum hafði aðeins verið rétt rúmlega sólarhringur og förinni var heitið til Suðureyrar. Það birti heldur til er leið á daginn og á Suðureyri var fallegasta veður. Við ókum gegnum þorpið allt út í Staðardal, snerum þar og heimsóttum bæjarsjoppuna. Um leið litum við á tjaldsvæðið því tími var kominn til að huga að næturgististað. Ég hefði svo sem alveg verið til í að gista þetta ágæta svæði á sjávarkambinum og hlusta morguninn eftir á lífæð þorpsins, smábátana, sigla til hafs. Það varð hins vegar að samkomulagi að klára Vestfjarðagöngin og aka til Flateyrar, þar sem er frábært tjaldsvæði, prýðilega staðsett og gulltryggt að næstu nágrannar gera gestum ekki rúmrusk, enda flestir lagstir til hvíldar fyrir árum og áratugum. Við  lögðum drekanum á góðum bletti í skjólsælu rjóðri - ekki það að við þyrftum skjól, það var dauðalogn - og "græjuðum grillið". Úr varð dýrindis kjúklingaveisla að hætti Dagnýjar og Orri og Tjörvi fengu sinn Platinum hundamat með ábót. Eftir kvöldmat og uppvask var svo farin gönguferð um þorpið enda til enda með hundana, að henni lokinni settist hundaeigandinn í hægindastól með prjónana sína en við þrír gengum annan hring um þorpið og nú ennþá ýtarlegri. Það mátti eiginlega heita að komin væri nótt þegar við snerum til baka til bílsins og bjuggumst til svefns. 

Ég læt þetta duga núna. Sjötti dagurinn var langur og viðburðaríkur, auk þess sem ég þarf að fara að klippa myndirnar inn í frásögnina. Þær eru allar ómerktar í albúminu og mig hefur vantað réttan netvafra til að geta unnið þær. Nú er hann kominn og ekkert til fyrirstöðu nema klassískur tímaskortur.....

29.07.2012 10:04

Átta daga ferðin #2

Þriðji dagurinn, mánudagur, heilsaði með sól og blíðu. Það var frekar fátt á tjaldsvæði Urðartinds í Norðurfirði og ágætt rými fyrir frændurnar Orra og Tjörva til að spretta aðeins úr spori. Strandveiðibátarnir sem kvöldið áður höfðu fyllt bryggjurými staðarins voru allir löngu farnir út og þar með Kristmundur á Lunda, líkast til dálítið syfjaður eftir raskið kvöldið áður. Á áætlun þenna dag var sund í lauginni að Krossnesi og síðan ferð yfir til Ingólfsfjarðar og Ófeigsfjarðar. Við byrjuðum í Krossnesi að loknum morgunmat. Þar var laugarvörður Páll Lýður Pálsson frá Reykjarfirði, smiður og vélsleðaferðalangur, félagi Kristmundar í Stálveri. Laugin var fín og öll aðstaða til fyrirmyndar, mun betri en ég hafði búist við. Þá er staðsetningin, niðri við fjöruborðið, einstök og ákaflega skemmtileg.

Dálitlu utar en Krossneslaug er eyðibýlið Fell á vegarenda. Þar voru hús ágætlega uppistandandi utan hvað þakjárn var farið að fjúka af útihúsum enda fór býlið í eyði um ´94. Eftir sundlaugarferðina var ætlunin að aka út að Felli en vegurinn var seinfarinn og tilgangurinn aðeins sá að aka á enda hans. Það var ekkert sérstaklega göfugur tilgangur, svona þannig séð og eftir stuttar samningaviðræður um borð í Arnarnesinu var ákveðið að snúa við og nýta tímann í annað. Eftir snúning á þröngum vegi hoppaði ég út til að taka myndir og um leið kom bíll! Það var svo sem auðvitað að hægt væri að vera fyrir öðrum í þessu einskismannslandi og ég bölvaði hressilega fjandans túristunum, alveg þar til ég sá ekilinn. Þar var nefnilega kominn stórvinur minn, Þorbjörn Steingrímsson á Garðstöðum við Djúp, brotajárnsbóndi með meiru. Við Bjössi áttum fínt spjall þarna í kantinum, svo hélt hvor sína leið.

Stefnan var tekin á Ingólfsfjörð, ekið inn að Melum í Trékyllisvík og beygt þar upp hálsinn sem skilur milli fjarða. Hálsinn er frekar lágur og auðekinn flestum bílum nema þeim allralægstu. Þó eru tvær dálítið brattar beygjur rétt ofan við Eyri í Ingólfsfirði sem gætu verið erfiðar afturþungum, framhjóladrifnum húsbílum á uppleið. Uppi á há-hálsinum mættum við Pétri í Ófeigsfirði Guðmundssyni á stórum sendibíl. Við erum málkunnugir enda er Pétur einn af fastagestum í Stálveri hjá Kristmundi. Ég hafði boð að bera Pétri frá Kristmundi en þau reyndust þá þegar hafa skilað sér eftir öðrum leiðum. Áfram var því haldið og næst staldrað við hjá gömlu síldarverksmiðjunni á Eyri. Þar eru mikil mannvirki enn uppistandandi þó talsvert hafi verið rifið af fallandi og fjúkandi skemmum og skúrum. Við heilsuðum uppá kríuna og kíktum á gríðarstóran, steinsteyptan lýsistank sem stendur ofan og innan við verksmiðjuhúsin. Þeir sem hafa séð sjónvarpsmynd Hrafns Gunnlaugssonar, "Blóðrautt sólarlag", muna eflaust eftir atriðinu þegar Helgi heitinn Skúlason klifraði inn í álíka tank á Djúpavík og hrópaði svo undir tók, til að láta bergmála. Ég gerði þetta sama þarna að Eyri og get fullyrt að ég hef aldrei á ævinni heyrt annað eins bergmál! Það var hreinlega eins og allur þessi dauðakyrri fjörður nötraði af hávaðanum.

Inni við botn Ingólfsfjarðar stendur samnefnt eyðibýli, í ágætri hirðu og sumarnotkun. Fyrir miðjum botni stóðu nokkrir bátar á fjörukambinum og einn þeirra vakti sérstaka athygli. Þar var komin 1601, Hrönn, fyrrum KE en nú ST. Raunar var varla hægt að lesa neitt að gagni nema nafnið á stýrishúsinu, en það var svo sem alveg nóg. Ég var oft og lengi búinn að reyna að afla mér upplýsinga um afdrif þessa fallega, fjögurra tonna dekkbáts án árangurs. Svo þegar ég loks hitti mennina sem hefðu getað sagt mér allt sem ég vildi vita, mundi ég ekki eftir að spyrja. Það var líklega árið 1988 sem Hrönnin var í Bolungarvík, í eigu Flosa og Finnboga Jakobssona. Þeir höfðu keypt bátinn til að hirða af honum kvótann og restin var til sölu á því verði sem þá gekk fyrir kvótalausa trébáta - sama og ekkert! Ég var kominn með aðra höndina á bátinn þá en þar sem annar - heimamaður - hafði verið búinn að biðja um hann á undan og sá var ákveðinn í að taka hann, missti ég af kaupunum. Hrönnin var smíðuð í Stykkishólmi árið 1978 og var því aðeins um tíu ára gömul, með um sextíu hestafla Vetus/Peugeotvél. Mér fannst þá grátlegt að hafa misst af þessum bát, hefur alla tíð fundist og finnst enn. Ekki síst er það grátlegt þegar örlög þessarrar fallegu fleytu eru þau að grotna niður á fjörukambi norður í Ingólfsfirði. Á sínum tíma hefði ég hiklaust selt sálina fyrir bátinn þarna við bryggjuna í Bolungarvík, nú er hann líklega "beyond the point of no return" eins og alltof margir velbyggðir trébátar sem grotna niður í vanhirðu víða um land.

Nú á ég Stakkanesið og það er ekki að grotna neitt niður. Maður á að una glaður við sitt og það var því ekki grátið lengi þarna á kambinum yfir Hrönninni, heldur haldið áfram fyrir fjörðinn, út á Seljanes og áfram inn í Ófeigsfjörð. Náttúrufegurðin er einstök á þessum slóðum og það verður fyrst skiljanlegt þegar þeir eru heimsóttir, hversu heimamenn eru áhugasamir um að dvelja þar lengri eða skemmri tíma á hverju sumri. Það hljóta að teljast forréttindi í dýrara lagi að eiga athvarf og ítök á þessum slóðum og geta notið þess að vinna verkin sín við fuglasöng, öldu-, lækjar- og fossanið - að maður tali ekki um stormhljóðin og brimið, þegar sá gállinn er á Kára! Hluti forréttindanna er svo auðvitað sá að geta þegar haustar, gengið frá húsum og búnaði, horfið til þéttbýlisstaðanna og eytt vetrinum þar í stað þess að þreyja snjóinn og stormana við öryggis-og samgönguleysi Strandavetrarins, líkt og forfeðurnir máttu gera.........

Það er vel hýst í Ófeigsfirði og þar er einnig að finna þokkalega búið tjaldsvæði fyrir þá ferðalanga sem kjósa að eyða nótt í paradís!  Það var hins vegar ekki á okkar áætlun þetta skiptið, heldur ókum við út framhjá bæjunum áleiðis að vegarenda við Hvalá norðan fjarðar. Við fórum þó ekki alla leið heldur snerum um miðja, líkt og við Fell fyrr um daginn. Mér lá ekkert á að vegarendanum - Hvalá er ekkert að fara neitt og ég á eftir að koma aftur á þessar slóðir. Klárlega!

Við dvöldum u.þ.b. klukkutíma í Ófeigsfirði og það var farið að líða verulega á daginn þegar við lögðum af stað til baka. Þegar við ókum um Seljanes og inn Ingólfsfjörðinn sáum við Pétur koma til baka handan fjarðar og það var ótrúlegt hvað sendibílinn bar hratt yfir! Utan við Ingólfsfjarðarbæinn er lítil trilluhöfn, við bryggju lágu tveir bátar. Annars vegar Valgerður ST, lítil og lagleg trétrilla sem ég hef aðeins séð á mynd áður, hinn var hraðbátur Péturs í Ófeigsfirði. Meðan ég myndaði bátana þeysti Pétur heim á hlað Ingólfsfjarðarbæjarins og hvarf inn.

Við höfðum aðeins stutta viðdvöl á Eyri í bakaleiðinni, mest til að mynda systurskip Stakkanessins sem þar stendur undir skúrvegg. Síðan var lagt á hálsinn að nýju og ekið yfir í Trékyllisvík og þaðan aftur í Norðurfjörð. Trillurnar streymdu inn til löndunar á þessum síðasta veiðidegi tímabilsins. Meðal þeirra sem voru að landa var Gunnlaugur Gunnlaugsson frá Ísafirði á Færeyingi sem áður hét Bylgja 6130 og var í eigu Bjarna Guðmundssonar (Ingibjartssonar) á Ísafirði. Mér sýndist Diddi hafa sett vel í´ann. Þá voru þrír, nýir Sómabátar að landa, allir frá Ísafirði og í eigu fjölskyldu Gumma Jens (Jóhanns Péturs Ragnarssonar). Kristmund Kristmundsson frá Gjögri sá ég hvergi enda er Lundi ST ekki með hraðskreiðustu bátum og eigandinn ekki kunnur að neinum handaslætti.

Ferðadrekinn var fylltur af bensíni í Norðurfirði og að auki var fyllt á kæliskápinn. Það var svo ekki eftir neinu að bíða, við höfðum náð fínum degi í sveitinni og lögðum af stað suðureftir. Handverkshúsið Kört í Trékyllisvík var heimsótt en að því loknu var stefnan tekin suðureftir til Bjarnarfjarðar. Það var komið fram um kvöldmat þegar þangað var komið og þar sem mig hafði lengi langað að koma fram í Goðdal og sjá vettvang snjóflóðsins sem þar féll á bæinn 1949 og minnst var á í síðasta pistli ákváðum við að aka fram eftir og grilla stórsteikina þar. Við trébrú í botni Bjarnarfjarðar mættum við bíl, hinkruðum og hleyptum honum yfir en síðan var "staðið flatt" inn að vegamótum fram í Goðdal. Skömmu fyrir beygjuna heyrðist skrítið hljóð í ferðadrekanum sem ágerðist heldur. Það var því stöðvað og skoðað. Vinstra afturdekk reyndist nær loftlaust og af hvissinu að dæma var það ekkert nálargat sem lak út um! Það var ekkert varadekk með í för, enda óhægt um vik að koma 35" hjóli fyrir í eða á bílnum og svo á bara ekkert að springa á svona dekkjum á venjulegum vegi. Ferðadrekinn er hins vegar búinn loftpressu og kút og um sama leyti og ég bjóst til að virkja þann búnað renndi upp að okkur maður á sendibíl sem var á leið fram í dalinn. Hann benti okkur heim að Svanshóli, innsta byggða býli sveitarinnar og sagði okkur að reyna að komast þangað heim - þar væri ábyggilega hægt að fá dekkinu bjargað. Heim að Svanshóli komumst við með því að pumpa tvisvar upp dekkið á leiðinni, svo hratt fossaði loftið úr og það var dagsljóst að meira en lítið var að. Um leið og við stoppuðum á bæjarhlaðinu féll bíllinn á felguna með skelli! 

Við náðum sambandi við heimafólk og fengum ágæta lagfæringu á dekkinu. Á því reyndist vera torkennileg rifa sem ekki gat hafa komið af öðru en aðskotahlut á veginum. Eftir sex eða sjö tappa virtist dekkið loks þétt, við þökkuðum fyrir okkur og héldum af stað á ný. Meðan dekkið var lagað velti ég fyrir mér ástæðunni fyrir rifunni og datt helst í hug, miðað við tímann sem dekkið var að tæma sig af lofti, að gatið hefði komið á það rétt við trébrúna. Þegar við svo ókum frá Svanshóli datt mér í hug að athuga hvort eitthvað sæist á eða í grennd við brúna sem skýrt gæti skemmdina. Ekkert stóð upp úr brúargólfinu sjálfu en í brekkunni ofan við hana lá sirka 15-20 cm langur bútur af fjaðrablaði. Á öðrum enda þess var klemma, á hinum hálft gat fyrir miðfjaðrabolta. Þessi bútur var því greinilega hálft fjaðrablað úr tjaldvagni eða fellihýsi, hafði dottið úr vagninum ofan við brúna og þegar ég ók svo yfir hann með framhjólið hafði hann kastast til og rekist á kaf í afturdekkið! Gamli Sherlock!

Um leið og ég skoðaði blaðbútinn kíkti ég á viðgerðina á dekkinu og komst að því að hún lak enn töluvert. Það var því ekki um annað að ræða en aka aftur heim að Svanshóli og biðja um fleiri tappa. Það var auðleyst og enn var þakkað og haldið af stað. Nú var öll ferðaáætlunin í uppnámi. Við höfðum ætlað okkur að aka, eftir kvöldgrill í Goðdal, yfir Steingrímsfjarðarheiði og út Snæfjallaströnd að Dalbæ og gista þar. Nú þorði ég ekki fyrir mitt litla líf að treysta dekkinu og ákvað því að aka beint yfir til Hólmavíkur þó útúrdúr væri, gista þar um nóttina og athuga með ástand dekksins að morgni. Ég hafði þegar gert ráðstafanir til að fá sent annað dekk úr Reykjavík ef þurfa þætti og það myndi skýrast að morgni hvort ég þyrfti að fá það til Hólmavíkur eða hvort hættandi væri á að aka áfram til Ísafjarðar um Djúp. Við komum okkur fyrir á tjaldsvæði Hólmvíkinga, grilluðum kvöldsteikina um hálftíuleytið og sofnuðum södd.........

Morguninn eftir reyndist lítið hafa sigið úr dekkinu. Við vorum snemma á fótum og eftir að hafa gert upp tjaldsvæðið lögðum við af stað til Ísafjarðar og fórum hratt yfir. Það kom fljótlega í ljós að þótt dekkið hefði haldið lofti um nóttina lak það talsvert í akstri. Í Ísafirði í Djúpi var farið að síga talsvert úr því og nauðsynlegt að renna heim að hótel Reykjanesi til að pumpa í. Þaðan var ekið á fullu áleiðis úteftir. Einu sinni þurfti þó að stoppa á leiðinni til að pumpa í, en sú dæling dugði til Ísafjarðar. Þegar þangað kom var ekið beinustu leið á dekkjaverkstæðið og meðan ferðadrekinn var lagður í hendur þeirra Bjarka og Domma fór áhöfnin - að ferfætlingunum undanskildum - í sund. Það passaði svo að eftir sundlaugarferðina var bíllinn tilbúinn og þó svo Dommi teldi dekkið nær ónýtt eftir endann á fjaðrablaðinu vildi hann meina að það ætti að duga suður - og kannski lengra! Dommi er ekki sá bjartsýnasti á svæðinu og það var tæplega hægt að fá betri meðmæli með nær ónýtu dekki en að "líklega myndi það sleppa"

Ég hafði erindi að sinna vestra og að því loknu var ferðadrekanum lagt á húsbílasvæðinu hans Ella Odds í Suðurtanganum og sest að fiskihlaðborði í Tjöruhúsinu handan götunnar. Það var því stutt að fara í háttinn að loknum fjórða degi ferðalagsins.

Framhald í pípunum.....

23.07.2012 22:35

Átta daga ferðin.

Ef Ísland er í laginu eins og einhver skepna eru Vestfirðirnir líkast til hausinn. Ókei, kannski segjum við ekki að Vestfirðir séu líkastir haus, en allavega sitja þeir á mjóum hálsi ofan á þeirri furðuskepnu sem Ísland óneitanlega er - í flestu tilliti. Um þennan "haus" er ekki hringvegur - a.m.k. ekki akfær, flestir vegir enda á hlaði afskekktra sveitabæja eða eyðibýla. Það er ekki heiglum hent að elta alla þá vegi til enda, sumir eru vart vegir lengur og má varla á milli sjá hvar vegi sleppir og slóði tekur við, hvar slóða sleppir og troðningur tekur við. Samt er alltaf eitthvað heillandi við vegarenda - það er fátt endanlegra en vegur sem bara endar............

Þær eru ófáar ferðirnar sem ég hef farið framhjá skiltinu í botni Steingrímsfjarðar þar sem stendur: Norðurfjörður 100 km. Allavega eitthvað í kringum hundrað - man það ekki nákvæmlega. Þau eru líka ófá, skiptin sem ég hef ákveðið að kýla nú á það og renna norðureftir næst. Alltaf næst! Þetta "næst" var ég svo líka að flýta mér og alltaf beið spottinn. Árið 2004 náði ég að aka norður eftir allt til Ingólfsfjarðar og Norðurfjarðar, en tímaskortur, auk annarra ástæðna sem áður hafa verið tíundaðar, kom í veg fyrir að ég kæmist lengra í það skiptið.

Síðan eru liðin mörg ár. Mér telst til að þau séu átta........

Það var því ágætlega við hæfi að setja upp átta daga túr um Vestfirðina og setja markið við Ófeigsfjörð og Fell utan Krossness. Lengra verður ekki farið á bíl, þó ótalinn sé vegarkaflinn að bænum Munaðarnesi við Ingólfsfjörð er Ófeigsfjörður vissulega norðar og vegurinn að Munaðarnesi eiginlega hálfgerð heimtröð þótt löng sé.

Klukkan var rétt um eitt eh.laugardaginn 14 júlí sl.þegar lagt var af stað úr Kópavogi. Fyrsta áning var á Kjalarnesi þar sem litið var inn hjá góðu fólki. Það lá svo sem ekki lífið á og ferðadrekinn var væna tvo tíma úr Kópavogi í Borgarnes, að áningunni meðtalinni. Í Borgarnesi var keypt ferðanesti og kæliskápurinn sneisafylltur af kræsingum. Auk þess var troðið í flest þau skot sem troða mátti matföngum í því þær eru ekki margar Bónusbúðirnar frá Borgarnesi til Ísafjarðar en þangað gerðum við ráð fyrir að ná á þriðjudeginum 17. Næst var tekið ísstopp í Búðardal og þeir Schnauserfrændur Orri og Tjörvi, sem á keyrslu voru lokaðir í búrunum sínum, fengu að spretta úr spori og vökva umhverfið. Áfram var lötrað vestureftir, hraðinn þetta 60-70 ef enginn var fyrir aftan, stundum 80 ef þurfa þótti. Veðrið var þokkalegt í upphafi og skánaði jafnt og þétt er vestar dró. Það var komið fram um kvöldmat þegar við komum til Hólmavíkur, og eftir stuttan skoðunarhring um bæinn komum við okkur fyrir á tjaldsvæðinu í sístækkandi hópi félaga úr Húsbílafélaginu (sem var að hefja hringferð um Vestfirði) og drógum fram grillið. Eftir stórveislu sem töfruð var fram á augnabliki var svo ferðbúist að nýju og ekið fyrir Steingrímsfjörð, beygt hjá skiltinu fyrrnefnda og haldið út með firði að norðan. Hann heitir Selárdalur, dalurinn munnvíði sem ekið er hjá og yfir brú á Selá. Áður en komið er að brúnni liggur afleggjari inn dalinn og inn á hann ókum við. Litlu innar er gömul steinbrú, sem árbók F.Í. frá 1952 lýsir sem glæsilegu 40 mtr. löngu mannvirki. Lítið er eftir af glæsileikanum enda brúin löngu aflögð, en í nágrenni hennar fundum við ágætan náttstað, þar sem þeir Orri og Tjörvi gátu slett úr klaufunum.

Sunnudagurinn 15. skartaði sólskini og nær heiðum himni þegar morgunverður var fram borinn í ferðadrekanum. Líklega hefur klukkan verið nær ellefu þegar haldið var af stað út Selströnd áleiðis til Drangsness. Þar sem eru bátar, þar er gaman og auðvitað var höfð smáviðdvöl í Kokkálsvík þar sem fleytur Drangsnesinga lágu við bryggju. Fyrir margt löngu sá ég fiskikerin sem heimamenn höfðu þá komið fyrir í fjörunni neðan við skóla þorpsins, þar sem nýta mátti heitt uppsprettuvatn til baða. Nú var öll sú aðstaða endurnýjuð, komnir alvöru plastpottar með tréverki kringum og handan götunnar var fínasta búningsaðstaða. Það lá beint við að prófa græjurnar og það gerði ég sannarlega! Náði m.a.s. fínni kjaftatörn við tvo heimamenn sem mættu um líkt leyti, a.m.k. annar kom röltandi beint að heiman í slopp og inniskóm! Það var svo ekki fyrr en ég var að sturta mig handan götunnar eftir pottdvölina að ég uppgötvaði að á Drangsnesi er líka nýleg sundlaug! Hún var ekki á sundlaugalistanum mínum, enda er hann nú orðinn tólf ára gamall. Ég gat ekki yfirgefið staðinn án þess að prófa þessa laug (og geta þar með merkt hana á listann minn). Hún reyndist hin fínasta í alla staði og fær bestu meðmæli.

Það leið á daginn og næsti áfangi okkar var Kaldrananes. Staðurinn er sögufrægur en sagan dró mig þó ekki sérstaklega að honum. Eitt af áhugamálunum er að skoða kirkjur, því eldri því betri og í Kaldrananesi stendur ein slík. Þegar ég fór þarna um árið 1987 voru vinnupallar um kirkjuna og ljóst að einhverskonar endurbygging var í gangi. 2004 fór ég aftur um og enn voru vinnupallarnir á sínum stað og þá varð einnig ljóst að endurbyggingunni miðaði lítið. Einhvern tíma síðar eignaðist ég bók um kirkjur landsins, þar var umfjöllun um Kaldrananesskirkju, mynd af henni og enn voru vinnupallar í forgrunni. Mig langaði að sjá hvort nú, árið 2012 þegar "tunglið átti að vera malbikað og steypt í hólf og gólf" væru enn vinnupallar um kirkjuna. Jú, þeir voru á sínum stað og kirkjan var sjálf ólæst og aðgengileg. Stutt skoðun leiddi í ljós að ekki má dragast mikið lengur að endurbæta það sem þarf, því endurbæturnar sem unnar voru fyrst eru nú komnar á viðhald. Kirkjan verður ónýt með öllu á næstu tíu, fimmtán árum ef ekki verður gripið hressilega í taumana. Svo einfalt er það...

Garðurinn hefur fengið álíka viðhald og kirkjan, en í suðausturhluta hans mátti sjá leiði sem minnti á harmleikinn í Goðdal í Bjarnarfirði árið 1949, þegar snjóflóð féll á býlið og tók sex mannslíf. Á legsteini mátti lesa sex nöfn......

Við Gvendarlaug hjá Klúku hittum við vini og félaga á suðurleið, grillið var tekið fram og snætt sameiginlega. Að áningu lokinni héldu þeir suður, við norður. Það var ekki hratt farið yfir enda margt að sjá. Í Djúpavík var þónokkuð af fólki, bæði ferðamenn og húsráðendur. Þó var ekki margt í matsal hótelsins þegar við settumst þar inn og pöntuðum okkur galakvöldverð í heiðursskyni við okkur sjálf!

Sólin var talsvert sigin og fjöllin farin að roðna þegar við bjuggumst enn til ferðar og ókum á slóinu út Reykjarfjörðinn norðanverðan, allt að Gjögri. Í uppsátri stóð Hanna ST, elsta fiskiskip landsins, smíðuð 1899 ef enginn lýgur. Hanna var endurbyggð í vetur leið af Hafliða Aðalsteinssyni úr Hvallátrum, bráðflinkum bátasmið af gamla skólanum og var í sínu allra besta formi þarna í vörinni sinni á Gjögri. Við hús skammt frá stóð kunnuglegur bíll, þar var heimavið Kristmundur Kristmundsson Sörlasonar Hjálmarssonar frá Gjögri. Kristmundur stundar strandveiðar frá Norðurfirði á trillunni Lunda ST, þeirri sömu og átti að koma við sögu í pistli hér neðar þegar tæknin sveik mig. Það var hins vegar enginn svikinn af kaffinu hjá Kristmundi þarna um kvöldið í notalega, litla húsinu hans á Gjögri.

Ég er ekki frá því að klukkan hafi verið hátt í ellefu að kvöldi þessa langa sunnudags þegar við komum okkur fyrir á grasbletti ferðaþjónustunnar Urðartinds í Norðurfirði. Þar var ágætis aðstaða og ekki kvörtuðu þeir Orri og Tjörvi þegar sonur rekenda þjónustunnar tók að sér að fara með þá í göngutúr. Hvíldin var vel þegin um kvöldið, langur dagur að baki og annar framundan....

Framhald fljótlega.

17.07.2012 09:52

Brotið blað.

Aðeins örstutt: Það fór í verra í gær þegar ferðadrekinn fékk fjaðrablað úr einhverri kerrudruslu í gegnum vinstra afturdekkið. Þetta gerðist í Bjarnarfirði, rétt við Klúkuskóla á leiðinni norðan úr Ófeigsfirði. Okkur tókst, með aðstoð eigin loftdælu að koma bílnum til baka að Svanshóli þar sem ábúendur voru afar hjálplegir við að tappa dekkið. Að viðgerð lokinni breyttum við ferðaplaninu, ákváðum að sleppa Langadalsströndinni og aka í staðinn til Hólmavíkur. Þar var nóttinni eytt á tjaldsvæðinu og þegar þessar línur eru skrifaðar, kl.10 að morgni þriðjudags, er enn loft í dekkinu. Við ætlum því að taka sénsinn og aka til Ísafjarðar þrátt fyrir nokkurn loftleka. Þar verður svo vonandi hægt að laga dekkið betur. Ættum, ef vel gengur, að vera á firðinum fríða um miðjan dag í dag. Gott í bili. 

13.07.2012 08:56

Lífsmark!

Hún varð snubbótt, þessi síðasta færsla og ég hef enn ekki haft skap til að endurvinna hana með myndunum. Innihald hennar var siglingin á Lunda ST frá Akranesi til Reykjavíkur að kvöldi fyrsta maí sl. og svo virðist sem myndirnar hafi drepið færsluna. Hún kemur þó með tíð og tíma, ekki vegna þess að ég haldi að einhverjum lesendum þyki efnið áhugavert heldur vegna þess að frásögnin hefur gildi fyrir mig sjálfan seinna meir, líkt og flestar þær færslur sem settar hafa verið inna allt frá upphafi, í ágúst ´03.

Maímánuður var annars venjulegur í flestu, það var unnið við ný heimkynni og Lyngbrekkan var tæmd og afhent nýjum eigendum helgina 19-20 maí. Á þeim tíma var ég fyrir vestan með öllum systrunum að undirbúa Dalakofann, sumarbústaðinn pabba heitins, fyrir sölu. Það var áður komið fram að sjómannadagshelginni eyddi ég í Stykkishólmi, en föstudagskvöldinu fyrir hana varði ég með börnunum, m.a. á veitingastað við Laugaveg þar sem blásið var til veislu. Á laugardeginum 2. júní, fimmtugasta og fimmta afmælisdeginum, var svo ekið í Stykkishólm á ferðadrekanum og kvöldinu eytt á Narfeyrarstofu í boði góðrar vinkonu sem verður sífellt betri og betri....
 Á sunnudeginum, sjómannadegi, var siglt með Baldri út að Elliðaey og kringum hana í rjómablíðu, hreint einstök upplifun.

Föstudaginn 8. júní var blásið til vinnustaðarferðar til Grindavíkur þar sem farið var í fjórhjólaferð inn á hraunbreiðuna á Reykjanesi. Þar á eftir var farið í hellaskoðun og kvöldinu lauk svo með matarveislu á Salthúsinu í Grindavík. Laugar- og sunnudegi var svo varið í útimálningarvinnu hjá vinkonunni, í hreint einstakri veðurblíðu.

Helgina 15-17. júní var farið með tjaldvagn vinkonunnar upp að Varmalandi í Borgarfirði og slegið upp gistingu þar. Frá Varmalandi var svo ekið um nærsveitirnar, Deildartungu, Kleppjárnsreyki, Húsafell og Hvítársíðu á laugardeginum en á sunnudeginum var farið að Hreðavatni og um Jafnaskarð. Frá þeirri helgi er myndasyrpa í myndaalbúmunum hér efst.

Helgina 22-24. júní ætlunin að ferðast eitthvert austur eftir suðurlandinu, gista fyrri nóttina á Hvolsvelli en þá seinni í Þakgili. Fararskjótinn var nú aftur ferðadrekinn og innanborðs voru auk okkar Dagnýjar ferfætlingarnir Edilon Bassi, Tjörvi og Orri. Það var dálítið þröngt í ferðadrekanum þessa fyrstu nótt sem öll hjörðin eyddi saman, en allt fór þó vel. Á laugardagsmorgninum var svo stefnan sett á Seljalandsfoss í einmunablíðu en ákveðið að líta á Landeyjahöfn í leiðinni. Það varð svo til þess að þegar við sáum Herjólf nálgast land kom ekkert annað til greina en að nýta blíðuna til Eyjaferðar. Það gekk eftir og aðfararnótt sunnudags eyddum við á ákaflega "hundavænum" stað úti á nýja hrauninu. Á sunnudeginum var svo farið í ævintýrasiglingu með Rib-Safari á ótrúlega hraðskreiðum harðbotna slöngubát með tvær 400 ha. vélar!  Ég hef fyrir satt að við höfum krúsað á 42-43 sjml. milli smáeyjanna við Heimaey og ef skoðaðar eru myndirnar í albúminu má sjá svipinn á henni Dagnýju sem leiddist sannarlega ekki á 43 mílum!

Mánaðamótahelginni var varið með góðum hópi fólks við sumarbústað undir Eyrarfjalli í Eyrarsveit. (við austanverðan Grundarfjörð). Frá þeirri helgi eru nokkrar myndir í merktri möppu, meðal þeirra a.m.k. tvær sem teknar eru við vatnsból Ólafsvíkinga á Jökulhálsi.

Um liðna helgi var svo hin árlega hópsigling um Breiðafjörð á vegum Bátasafns Breiðafjarðar á Reykhólum. Áður var fram komið að við Gulli Vald. hyggðumst reyna að komast á "Bjartmari" okkar í þá ferð og það gekk eftir, þó tæpt væri. Engar myndir eru enn komnar í möppu frá siglingunni en von er á þeim mjög bráðlega.

Þessa komandi helgi er ráðgerð ferð norður Strandir allt til Ófeigsfjarðar og Munaðarness. Alls á ferðin að taka viku og spanna auk áðurnefndra staða Ísafjarðardjúp beggja vegna, skamma viðdvöl á Ísafirði og síðan ferðalag suður heiðar og siglingu með Baldri yfir Breiðafjörð sem lokahnykk. Fyrir þetta ferðalag hefur ferðadrekinn undirgengist gagngerar breytingar á innréttingu, hefur verið gerður "dömuvænni" og rýmri um að ganga. Þegar þetta er skrifað, skömmu eftir miðnætti á föstudegi eru þó blikur á lofti hvað varðar þessa lengstu ferð sumarsins en þau mál skýrast vonandi fljótlega.

Stakkanesið vaggar við bryggju og hefur varla verið hreyft, utan hvað ein sigling umhverfis Viðey hefur verið farin.

.........en ég hef heyrt af mikilli makrílgengd á Sundunum............

26.06.2012 22:01

Ég hálfskammast mín eiginlega.....

Undir þessum titli kom færsla með þónokkrum myndum, sem ég eyddi u.þ.b. hálfum öðrum tíma í að vinna. Þegar farið var að hilla undir lok birtust allskonar ókennileg tákn á skjánum og síðan hvarf öll færslan eins og hún lagði sig. Lái mér hver sem vill þó ég nenni ekki svona vitleysu........

02.06.2012 07:23

Annar júní 2012

Jahá, nú er týra! Nú verða engar innsláttartruflanir, enginn týndur texti, engar aukalínur og ekkert kjaftæði!  Ég er nefnilega búinn að fá gömlu tölvuna mína með haus og hala inn á gólf og upp á borð. Sú gamla er reyndar haldin þeirri meinloku aða allt nýtt sé slæmt og þess vegna neitar hún alfarið að þýðast netpunginn, sem er mitt eina tölvusamband sem stendur. Afleiðingin var verst fyrir hana sjálfa, því lyklaborðið var einfaldlega aftengt og stungið í samband við fartölvuna. Nú er ég því með sama lyklaborðið og vandræðalaust hefur spýtt frá sér texta undanfarin ár en ekki þetta sjálfeyðandi og sjálfútþurrkandi rusl sem fartölvulyklaborðið er. 

Það er semsagt annar júní, klukkan er hálfátta að morgni og ég á afmæli í dag. Fimmtíuogfimm ára. Time flies, eins og Herbert söng eitt sinn. Herbert var annars nærri brostinn í söng þegar ég skoðaði fyrir hann gamla Volvoinn á dögunum enda fékk hann fallegan, fjólubláan miða á númerin. A.m.k annar átti miðann skilinn......

Ég var búinn að heita því að skrá niður allan þann þvæling sem átti sér stað fyrsta maí sl. og þó verkefnið hafi dregist er það síður en svo úr sögunni. Ástæðan fyrir drættinum er aðallega sú að ég treysti ekki lyklaborðinu til að eyða ekki textanum mínum í tíma og ótima - nú er öldin önnur og annað borð!

Kýlum  á ´ða!

Eins og áður var fram komið á General Bolton ( sem skv. þjóðskrá heitir Ásgeir Jónsson og er Ísfirðingur) gamla, bláa rútu uppi á Mýrum. Það var einnig fram komið að við fórum uppeftir til að gera athugun á ástandi bílsins og áætlun um úrbætur. Að morgni fyrsta maí sl. var komið að næstu ferð. Nú skyldi hinn veiki hægri framfótur fjarlægður af skepnunni og fluttur suður til viðgerðar. Klukkan var rétt um sjö að morgni þegar ég ók héðan úr Höfðaborg upp á Lyngbrekku til að safna saman nauðsynlegum verkfærum. Generállinn var sjálfur snemma á fótum í Sandgerði og uppi á flugvelli í sömu erindum. Við sameinuðum svo verkfærasöfnin í svarta hrossadráparanum um hálfníuleytið og einum kaffibolla síðar vorum við lagðir af stað uppeftir - með fullan bíl af verkfærum og í þær smugur sem fundust á milli var troðið tveimur hundum. Frændurnir Gosi Ásgeirsson og Edilon B. Breiðfjörð voru báðir með í för sem ráðgjafar. Þeir virtust þó hálfráðalausir þegar á hólminn kom og voru því bundnir við nærstandandi nýtísku heyvinnuvél:



Síðan var hafist handa við að fjarlægja sýkta hluti, og mér er sagt að svipurinn á þessari mynd segi meira en mörg orð um ástand búnaðarins:



Ekki var þó annað í boði en halda áfram og skrúfa, plokka og berja eins og þurfti. Kuldagallinn var bráðnauðsynlegur enda var skítkalt og vindbelgingur eins og venjulega á Mýrunum. Allt í einu heyrðist í símanum og yfir helltust torkennilegar skeytasendingar frá Danmörku. Þær voru frá Jóni Þór Birgissyni og fjölluðu aðallega um Hornbæk, Gilleleje, tuttugu stiga hita, sól, sand og ís. Tímasetningin virtist valin beinlínis til að pirra okkur kuldagallaklædda og skeytunum var svarað á viðeigandi hátt, í skjóli bílsins: 




Verkið potaðist áfram þó fingurnir yrðu hálfloppnir, hjólnafið sjálft virtist lítið skemmt þó hjóllegurnar væru mölbrotnar og bílnum hefði verið ekið einhverja vegalengd þannig. Við ákváðum að fjarlægja allt sem hægt væri með góðu móti, og flytja það með okkur suður til aðgerðar:



......og eftir því sem á leið og verkinu miðaði léttist brúnin á viðgerðarmanninum:



Það mátti jafnvel hleypa generálnum sjálfum að verkinu eitt augnablik:



Eftir að gengið hafði verið frá hjólnafinu og tilheyrandi hlutum í skotti hrossadráparans var lagst í "kjallaraskoðun". Þar leit allt þokkalega út þó vissulega hafi tímans tönn nagað ystu húðina dálítið:



Skoðunaráhuginn kom fram á anna hátt hjá mér, og áður en ég vissi af var ég farinn að athuga með aðvörunarþríhyrninginn í kvikindinu. Hann reyndist ekki um borð og eftir það kom ekkert annað til greina en falleinkun, sama hvað generállinn kvartaði:



Fljótlega var allt tilbúið til brottfarar, gallarnir í geymslu og við komnir í ballfötin. Um leið og síðustu mynd var skotið mátti ég til að taka eina af Hiluxjeppa sem stóð við nálæg útihús. Bílar aka ekki á útlitinu, ég veit það vel en þessi kom í alvöru akandi fyrr um morguninn. Ég vona að það hafi ekki verið krappar holur á leið hans því hann virtist hreinlega vera að detta í sundur. Það sem á myndinni virðist vera ryð er það svo sannarlega ..........









Suðurferðin var hnökralaus og við vorum í Höfðaborg rétt um hálfþrjúleytið. Generállinn hélt sína leið suður með sjó en ég fór að huga að Stakkanesinu. Í vélsmiðjunni Stálveri var Alexander Hafþórsson að sýsla við annan eða þriðja mann. Ég leit inn til þeirra og ákvað síðan að nýta þennan ágæta dag í að koma Stakkanesinu úr vetrarhíðinu heim að Höfðaborg. Það var létt verk, aðeins þurfti að færa til nokkra stálbita og þá var leiðin greið.







Það var ekki langur spölur heim og eftir örfáar mínútur var Stakkanesinu plantað í innkeyrsluna og stillt upp við lítinn fögnuð minna litháísku nágranna sem fram að því höfðu notað mína innkeyrslu eins og sína eigin, sem löngu var orðin full af bílhræjum.

Á spjalli við þá Kristmund í Stálveri og Alexander Hafþórsson komst ég að því að til stóð að sigla strandveiðibátnum Lunda ST 11 frá Akranesi til Reykjavíkur þá um kvöldið. Þó veðrið væri svo sem ekkert sérstakt fannst mér tilvalið að munstra sem háseti í ferðina. Það passaði nákvæmlega að skella sér í heita pottinn í Laugardalslauginni áður en lagt skyldi af stað upp á Skaga klukkan sex. Tímasetningarnar stóðust ágætlega og uppúr sex vorum við Kristmundur á fullri ferð út úr bænum sem farþegar hjá Alexander. Líklega hef ég aldrei verið jafnfljótur upp á Akranes.

......................................................................................................

Hér verð ég að slíta frásögnina sundur. Það er enn annar júní og ég á ennþá ammalli, en klukkan er orðin korter yfir níu og ekki seinna vænna að fara að huga að ferðabílnum. Nú síðdegis er ég nefnilega á leið upp í Stykkishólm og ætla að vera þar í nótt. Það má geta þess í lokin að þegar ég fór út að borða í gærkvöldi með börnunum í tilefni afmælisins hringdi síminn. Það var Gunnlaugur Valdimarsson í Hólminum. Stöðunnar vegna gátum við ekki átt langt samtal en Gulli kom því frá sér sem hann ætlaði: "Ég ætlaði bara að segja þér að skipið er komið á flot!!"

Það getur ekki þýtt annað en reynslusiglingu á BJARTMARI í kvöld eða á morgun!!


15.05.2012 07:06

And-pistill !

Ég ákvað að setja viðbótina ofanvið að þessu sinni. Mér ætlar nefnilega ekki að auðnast að ljúka pistlinum áður en haldið verður til Ísafjarðar. Það er föstudagsmorgunn, átjándi maí, klukkan er sjö fjórtán og eftir vinnu í dag liggur fyrir að keyra vestur með kerru í eftirdragi. Það var komin hánótt þegar búið var að tæma bílskúrinn á Lyngbrekkunni og dótinu hafði verið dreift um öll gólf hér á höfðingjasetrinu. (sem sumir eru raunar farnir að kalla Höfðaborg í höfuðið á síðasta "fátækrahverfi" Reykvíkinga. Ég man vel eftir þeirri Höfðaborg og get alveg sætt mig við það nafn á höfðingjasetrinu mínu!)

Ég á enn eftir nokkur handtök á Brekkunni. Garðskúrinn er fullur af ýmisskonar "útgerðardóti", sumt af því flyst hingað en annað fer væntanlega í endurvinnslu, enda spannar safnið rúm fjörutíu ár og rúmlega þó því hluti þess er frá dögum pabba í Aðalvík á sjötta áratugnum. Þá er strandferðaskipið Fagranes geymt ofan á bílskúrnum og enn á eftir að finna því nýjan geymslustað. Einhverjir muna kannski eftir því skipi frá ferðinni út í Engey, sem tíunduð var með myndum í október 2010.

Vinnan kallar og ferðalag að henni lokinni. Ísafjörður, here we come..........





Þessar línur eru ekki hugsaðar sem eiginlegur pistill, heldur aðeins til að ýta á sjálfan mig. Ég ætlaði fyrir löngu að skrásetja eigin feril þann fyrsta maí sl. en hef ekki komist í verkið vegna ýmisskonar anna. Það er ekki útlit fyrir að erlinum linni fyrr en að lokinni Ísafjarðarferð um komandi helgi svo nú liggur á að finna tíma fyrir skrif. Nikkólína sagði forðum: "Nóttina á ég sjálf" og sennilega verð ég að nýta komandi nætur til að stinga niður stöfum. Það er kalt á Höfðingjasetrinu, uppi undir rjáfri á norðurvegg er gömul lofttúða sem virðist standa opin inn í loftstokk innanhúss. Stokkurinn er ekki þéttur og því blæs hressilegur norðanvindur óheftur um húsakynnin - þá helst um svefnsalina! Afleiðingin er sú að nýja Tempur- dýnan er líkari gangstéttarhellu að leggjast á en mjúku rúmi. Trúlega er því þægilegra að eyða nóttinni niðri í stofu við tölvuna en uppi í herbergi við indversk þægindi.

Fyrsti maí hófst kl. sjö að morgni við undirbúning ferðar upp á Mýrar á Runólfi þeim sem áður var minnst á í fyrri pistlum. Deginum lauk með siglingu frá Akranesi til Reykjavíkur þar sem bundið var við bryggju kl. 10 að kvöldi. Það var ekki mikið um afslöppun þann daginn!

Ef næsta nótt verður ámóta köld og tvær síðastliðnar er von á löngum pistli...........

09.05.2012 08:09

Sýnishorn af sumri...

Mikið assgoti var kalt í morgun þegar fyrsta sjóferð Stakkanessins var farin. Hún var enda stutt, rétt útundir austurenda Viðeyjar og heim aftur. Hásetanum var orðið kalt jafnvel þó breitt væri undir hann teppi. Hann hefði betur munstrast sem vélstjóri, því í "vélarrúminu" er alltaf hlýtt.

Myndirnar tala..........






07.05.2012 07:10

Í fylgd með fullorðnum.

Ég man ekki lengur hvort ég var búinn að útlista eitthvað í sambandi við kaupin á litla vörubílnum sem ætlað er að flytja Stakkanesið milli landshluta. Í stuttu máli var ferlið þannig að upphaflega bauðst annar bíll til sölu á bland.is  en við skoðun á þeim bíl kom í ljós að hann var ranglega skráður í upphafi. Hann var sumsé skráður með minni vél og minni burðargetu en raunin var, og þegar við bættist blýþungur járnpallur sem á honum var, var svo nærri gengið burðargetunni að bíllinn mátti tæplega bera Stakkanesið, hvað þá meira. Ég var rétt kominn af stað í því ferli að fá skráninguna leiðrétta hjá Umferðarstofu  þegar annar samskonar bauðst, einnig á -bland.is-. Sá var rétt skráður og að auki með glerfínan álpall (sem að vísu var farinn að láta dálítið á sjá). Bíllinn var ekki í fullkomnu lagi en þar sem ég kaupi yfirleitt ekki bíla í fullkomnu lagi var alveg í fullkomnu lagi að kaupa hann. Ég kom honum svo fyrir til skammtímageymslu bak við iðnaðarhúsnæði félaga míns í Hafnarfirði. Leiðin frá kaupsstað (má ekki segja það?) að því húsnæði var þægilega stutt enda hafði bíllinn átt "heimahöfn" þar í bæ lengst af.



Klukkan er rúmlega sex á þriðjudagsmorgni, það er áttundi maí og tími til að halda áfram:

Það fór ágætlega um Isuzu vörubílinn þarna í Hafnarfirði. Það sem fyrst og fremst hrjáði hann var ónýt kúpling, hún olli því að bíllinn var ekki hreyfanlegur fyrir eigin vélarafli. Ég pantaði kúplingu gegnum umboðið, Ingvar Helgason því svo sérkennilegt sem það var virtist enginn varahlutasali hafa neinar upplýsingar um þessa bíltegund og allir gáfu frá sér að panta í hann varahluti. I.H. gat hins vegar útvegað kúplinguna á ágætu verði og hún kom á uppgefnum tíma til landsins. Á þeim tíma fóru hins vegar aðrir hlutir að velta heima fyrir, eins og fram hefur komið hér neðar. Allt það ferli olli því að áhugamálin voru sett í bið og Isuzu hálfgleymdist þarna bak við iðnaðarhúsnæðið í Hafnarfirði.

Svo gerðist það á dögunum að vinnufélagi benti mér á samskonar bíl sem væri í útboði hjá dráttarbílafyrirtækinu Króki í Hafnarfirði  (bilauppbod.is). Þegar ég kíkti á útboðið sá ég að þar var kominn hinn Isuzuinn, sá með stálpallinn og röngu skráninguna. Þegar ég skoðaði þann bíl stóð hann suður á Vatnsleysuströnd og eigandinn, sem ekkert hafði botnað í ræðuhöldum mínum um þungan pall og ranga skráningu  taldi sig jafnvel vera búinn að selja hann fyrir miklu hærra verð en ég vildi borga (enda sá ég ekki önnur not fyrir bílinn en í varahluti). Eigandinn hafði sagt mér að sá bíll væri í fullkomnu lagi en í útboðslýsingunni kom allt annað fram, þar voru taldar upp bilanir sem aldrei var minnst á í okkar samtölum. Ég fylgdist með útboðinu og þar sem aðeins örstutt var milli aðstöðu Króks hf. og þess staðar sem minn nýkeypti bíll stóð á fannst mér vera farið að hitna undir honum - hann var fullkomlega gangfær þó kúplingin væri óvirk, og því tilvalið fyrir þann sem eignaðist útboðsbílinn að ná sér í alla þá varahluti sem vantaði í skjóli nætur!

Þar með vantaði mig nýjan geymslustað ekki seinna en strax. Ég ákvað að halla mér að öxl sem áður hefur reynst vel. Hún er áföst Kristmundi Kristmundssyni Sörlasonar Hjálmarssonar frá Gjögri.  Kristmundur á vélsmiðjuna Stálver við Eirhöfða, aðeins steinsnar frá Höfðingjasetrinu og þar hefur Stakkanesið staðið í vetur og haft það fínt. Ég bað Kristmund að geyma fyrir mig bílinn og fékk leyfið strax. Reyndar tók dálítinn tíma að ná í Kristmund, því hann var upptekinn við byggðakvótaveiðar úti í Faxaflóa á trillunni sinni, Lunda ST 11, auk þess sem síminn hans hafði fallið í sjóinn og "hafmeyjar svara ekki í síma" eins og hann orðaði það sjálfur.

  Mér þótti óráðlegt að draga bílinn sunnan úr Hafnarfirði upp á Eirhöfða og hringdi þess vegna í Vöku. Á fyrirfram ákveðnum tíma sendu þeir sinn stærsta bíl til flutninganna, enda hafði ég ekkert dregið úr lýsingum á stærð Isuzu vörubílsins. Mig langaði að vera dálítið grand á því þegar hann loks yrði fluttur milli staða! Því miður var bílstjóri flutningabílsins svo snöggur að svipta Isuzu uppá pall að ég var ekki búinn að kveikja á myndavélinni. Ég var hins vegar mun sneggri upp á Eirhöfða og "ef myndin prentast vel" má sjá hvar Vökubíllinn kemur fyrir horn með farminn á palli:


Við Stálver var tilbúið ektafínt stæði fyrir Isuzu og það vafðist ekki fyrir bílstjóra flutningabílsins að komast að því, þó þröngt væri:





.......og nú koma myndir sem beinlínis voru teknar fyrir Magna:





Mér þótti við hæfi að mynda Isuzu bílinn gegnum Stakkanesið:



Það var ekki liðið nema augnablik eða svo, þegar Isuzu bíllinn var sestur í það sæti sem honum er ætlað að sitja í næstu vikur:



Það má alveg koma því að að hægra megin við Isuzu sér í afturenda á hvítum Man- Volkswagen vörubíl. Þetta er varahlutasafn "Gamla brýnisins", Péturs í Ófeigsfirði, en hann notar samskonar bíl með flutningakassa til að flytja grásleppuhrogn milli staða norður á Ströndum, meðan sú vertíð stendur yfir. Sá bíll  Péturs í  Ófeigsfirði kemur við sögu í lok næsta pistils, sem væntanlegur er fljótlega. Pistillinn spannar einn dag, fyrsta maí. Sá dagur hófst snemma og lauk seint, eftir landshornaþeyting frá morgni til kvölds. 

Eins og þeir segja í Amríkunni: Stay tuned.......



23.04.2012 09:17

Generállinn og blái bíllinn hans.

Sko! Málið er að ég var byrjaður á ferðasögu páskadagsins, þegar ég fylgdi General Bolt-on upp á Mýrar í eignakönnun. Myndirnar úr ferðinni klúðruðust hins vegar og lentu á röngum stað. Ég er að vinna í að ná þeim til baka. Það er ekki að vita nema það klárist í kvöld.......

-------------------------------------------------------------------------------------

Nú er allt annað kvöld og myndirnar klárar! Það var semsagt á páskadeginum sem generállinn hringdi og hafði hug á að kanna eignastöðuna uppi á Mýrum. Þar átti að standa forláta Benzrúta, fyrrum hópferðabíll með drifi á öllum hjólum og það var einmitt þetta fjórhjóladrif sem freistað hafði generálsins. Bíllinn átti að vera þokkalega ferðafær að undanskildu einu atriði - og þar stóð hnífurinn nefnilega rígfastur í kúnni. Þrátt fyrir öflugan drifa- og fótabúnað geta ýmsir hlutar gangverks bilað og það sem stoppaði þennan gamla hópferðafák var bilun í legubúnaði hægri framfótar. Vegna heltinnar var vonlaust að færa fákinn úr stað og það lá fyrir að gera yrði að meininu á staðnum. Mitt hlutverk var að fylgja  generálnum á staðinn, gera úttekt á ástandinu og áætlun um úrbætur. 

Það var eitthvað um hádegið sem General Bolt-on hringdi og sagðist vera að yfirgefa yfirráðasvæði sitt í Sandgerði. Að eðlilegum ferðatíma liðnum birtist hann fyrir utan Höfðingjasetrið á sínum franska Runólfi.  Runólfur er apparat sem ég treysti ekki lengra en ég get hent því og ég treysti mér ekki til að henda Renault Megane Scenic mjög langt! Nú þurfti ég að reiða mig á þetta rammfalska spilverk upp á Mýrar og heim. Það var huggun harmi gegn að haltur leiðir blindan og það var kannski von til þess - ef við næðum upp á Mýrar - að Runólfur og halti-Benz gætu komið okkur til byggða á ný, sameinaðir ef ekki vildi betur til.

 

Ferðin gekk ótrúlega vel, svo vel að undir Hafnarfjallinu var generállinn orðinn kátur og brosmildur og þáði myndatöku. Brosið náðist að vísu ekki á myndina: 




Þegar uppfyrir Borgarnes kom rann upp ljós fyrir generálnum: Hann vissi ekki nákvæmlega hvar hópferðafákurinn var, við hvaða sveitabæ hann stóð eða hver væri beygt af þjóðveginum niður heimtröðina. Við áttum aðeins eina lausn: Að beygja niður alla þá afleggjara sem við sáum af þjóðveginum. Það var nokkurn veginn á hreinu í hvora áttina leiðin átti að liggja og það eitt þrengdi hringinn þónokkuð.  

Rétt ofan við Borgarnes var afleggjari til vinstri í átt að sjónum. Hann var talinn líklegur og því valinn. Ekki var þó langt ekið er tvær grímur fóru að renna á generálinn. Umhverfið var ekki kunnuglegt og hvergi bólaði á bláum Benz utanvegar. Ég viðraði varlega þá skoðun að kannski hefði hann bara farið þetta áður í draumi en ekki veruleika og kannski væri enginn blár  Benz til í vökuheimum. Ekki fékk ég háa einkunn fyrir hugmyndina, en meðan leitað var að stað til að snúa við var tilvalið að bregða sér út úr bíl og mynda dálítið til vesturs:

  


Á hól skammt frá okkur var minnisvarði. Ég mátti til að rannasaka hann og sá plötu með áletrun. 



Þar með lá það ljóst fyrir að Áni skipverji hefur skotið rótum þarna vestan þjóðvegarins um Mýrar. Það hefur þó verið nokkuð fyrir daga þjóðvegarins sjálfs, ef að líkum lætur. Vestur á Hrafnseyri við Arnarfjörð eru sagnir um Án Rauðfeldarson sem kom frá Noregi og var sonur Áns bogsveigis. Þessi Án þarna á Mýrunum hefur verið án þjóðvegar...........

Við snerum bílnum og ókum upp á áðurnefndan þjóðveg og við hallandi vegskilti snerum við Runólfi til norðurs.



Einhvers staðar ekkisvoobbosslegalangt fyrir ofan Langá á Mýrum var annar afleggjari til vesturs. Hann var næstur í prófunarröðinni og ekki var langt ekið þegar generállinn þóttist kannast við umhverfið. Hvernig það er hægt á stað þar sem hver þúfan er annarri lík er mér hulin ráðgáta en áfram var ekið burt frá alfaraleiðinni út í óvissuna. Fljótlega fór að hilla undir sveitabæ í fjarska, svo nálgaðist fjarskinn og eitt og annað í útsýninu fór að minna á hversu langt frá siðmenningunni við vorum komnir. Þarna hafði Gimba t.d. sett upp tærnar og þá var það bara þannig - tærnar máttu alveg snúa upp, svo lengi sem enginn sneri þeim í aðra átt. Miðað við líkamlegt ástand og útlit var Gimba efalítið búin að liggja þarna langa hríð:



Rétt hjá Gimbu stóð svo heiðblár hópferðafákur sem greinilega hafði lokið hlutverki sínu. Af stöðu hægri framfótar mátti ráða að við værum á réttum stað, enda taldi generállinn það dagsljóst að þetta væri hans eigin bíll. Hann átti reyndar að hafa séð hann áður en miðað við öryggið í leitinni að staðsetningunni þótti mér vissara að taka eignarhaldsyfirlýsingunni með öllum fyrirvörum.





Þetta virtist vera hinn ásjálegasti bíll, tiltölulega lítið ryðgaður miðað við aldur og akstur, prýðilega vel búinn í flesta staði og hefði einhverntíma þótt efnilegur húsbíll. Hon um var þó ætlað annað hlutverk og eftir lauslega skoðun á fótarmeininu og snöggsoðna áætlanagerð til úrbóta sneri ég myndavélinni að gömlum Bedford vörubíl sem þarna stóð:









Sú var tíðin að þessir Bedfordar þóttu hrein bylting frá gömlu, amerísku pakkhúsbílunum sem voru algengastir vörubíla í minni sveit á sínum tíma. Þá voru, í bland við Forda eins og pabbi og Óli Hall óku, Doddsa eins og Baldur Sigurlaugs og Óli bíl. áttu og Chevroletta eins og Halli Ólafs og Bubbi Bjarna óku, einstaka  Benz 1113, Scania Harðar Ingólfs og Henschelar Sigga Sveins (tveir, minnir mig, annar grænn og hinn gulur). Þetta var nokkurn veginn vörubílaflóran á þeim tíma sem Bedfordarnir boðuðu komu sína vestur. Baldur Sigurlaugs fékk rauðan, Óli Hall fórnaði Fordinum fyrir dökkgrænan Bedda með Perkinsvél (en hún þótti taka original Leylandvélinni langt fram) og Dóri kútur náði sér líka í rauðan Bedford. Fleiri fylgdu á eftir, en Halli Ólafs steig skrefinu lengra fram og náði sér í "handsmíðaðan"  Benz sem var fyrirrennari 1113 bílanna, týpunúmerið man ég ekki lengur.  Sérstaða Bedfordanna fólst ekki síst í því að þeir voru frambyggðir og hlóðust betur en húddbílarnir. Svo var í þeim svefnaðstaða, sem ekki var verra fyrir vörubílstjóra sem margir hverjir liðu fyrir slæmt bak, afleiðingu langra seta í slæmum ekilsstólum á slæmum vegum. Þessi svefnaðstaða í Bedfordinum kom sér vel þegar Baldur Sigurlaugs tók að sér að aka síldarnót frá Ísafirði til Húsavíkur og þeir tvímenntu í Beddanum, hann og pabbi. Þá var ekið á vöktum og sofið á milli (eftir því sem hægt var að sofa á vestfirskum og norðlenskum malarvegum áranna uppúr 1960).

Það var fleira en Gimba, Benz og Bedford sem fangaði athyglina. Þarna stóð eðaleintak af Deutz dráttarvél sem virtist hafa lokið sínu hlutverki eins og fyrrnefnd þrenning:

 


Það var svo sem ekki yfir neinu að hanga þarna lengur, við höfðum skoðað það sem skoða þurfti og vorum nú orðnir kaffiþyrstir. Ég vissi að Barði frændi, móðurbróðir minn var í sumarbústaðnum sínum, Jaðri, og við generállinn renndum þangað. Að Jaðri var hins vegar enginn heima, mannskapurinn hafði brugðið sér í sund í Borgarnes. Þar var því ekkert kaffi að hafa þetta sinnið.



Ég hef áður lýst skoðun minni á Hyrnunni í Borgarnesi og það er óþarfi að birta hana í þriðja sinn. Shellskálinn var rifinn í vetur og nýr er í byggingu á sama stað en ófullgerður. Það var því Olísskálinn sem varð fyrir valinu í þetta sinn, enda fínasti áningarstaður með ágæta þjónustu. Meðan við drukkum kaffið myndaði ég nýja Shellskálann handan þjóðvegar eitt:





Deginum var lokið, þannig séð og aðeins eftir að aka til Reykjavíkur. Heimferðin var tíðindalaus en heimkoman tilhlökkunarefni.........

.......enda beið "nýr dagur"


 
 
Flettingar í dag: 363
Gestir í dag: 9
Flettingar í gær: 306
Gestir í gær: 25
Samtals flettingar: 66041
Samtals gestir: 16979
Tölur uppfærðar: 1.5.2024 07:13:15


Tenglar