Gunnar Th.
Fjórða kerfið.....


Færslur: 2011 Október

18.10.2011 18:33

Af stað í stefnuleysi....

Hún var kannski ekkert sérstök, veðurspáin fyrir helgina 3ja-4ða september sl. Þrátt fyrir það hafði verið ákveðið að reyna við Haukadalsskarðið frá vestri til austurs. Ferð um Haukadalsskarð er lítið skemmtileg í slæmu skyggni og því mátti segja að frekar væri treyst á lukkuna en hlustað á skynsemina. Ferðadrekinn var búinn til brottfarar á föstudagskvöldinu og það var aðeins rétt kominn helgarfótaferðartími á laugardagsmorgninum þegar rennt var úr hlaði á Brekkunni. Áhöfnin á Arnarnesinu taldi aðeins okkur tvo, mig og Prins Edilon Bassa Elínarson o.s.frv. Í stað hefðbundinnar heimsóknar í Geirabakarí í Borgarnesi var nú beygt útaf vegi eitt sunnan við Borgarfjarðarbrúna og ekið upp með Hvítá.
Sundfötin voru með í för enda var ætlunin að komast í einhverja af þeim laugum sem enn var eftir að heimsækja, skv. listanum góða. Það lá reyndar ljóst fyrir við upphaf ferðar að búið væri að loka Hreppslaug (við Andakíl) þetta árið og hún næðist því ekki fyrr en næsta sumar. Ég renndi nú samt upp að lauginni, svona til vonar og vara ef ég hefði misskilið eitthvað. Við heimreiðina að henni hitti ég mann sem var að koma fyrir keðju yfir veginn. Fyrir honum rakti ég tilraunir mína undanfarin sumur til að komast í Hreppslaug, hann bauð mig velkominn næsta ár - ef laugin yrði þá opin næsta sumar. Mér fannst tónninn í röddinni ekki lofa neinu góðu þar um en vona svo sannarlega að Hreppslaug verði opin a.m.k. eitt sumar enn, svo ég geti merkt við hana á sundlaugalistanum - nógu lengi hefur dregist að heimsækja hana.

Næsti viðkomustaður var Kleppjárnsreykir. Þar er þessi líka fína sundlaug með pottum og tilheyrandi. Hún hlaut þó að var opin. Kleppjárnsreykir eru næstum því þéttbýlisstaður á sunnlenskan mælikvarða og straumur sumarbústaðafólks er alltaf einhver árið um kring, þó eðlilega sé hann hægari frá hausti til vors. Þegar mig bar að garði var þó fátt sem benti til þess að laugin væri opin eða yrði opnuð á næstunni. Staðurinn var mannlaus, útidyr læstar og við innganginn var engar upplýsingar að finna um opnun eða lokun. Ég gat lítið annað gert en gengið meðfram laugargirðingunni og myndað þessa mannlausu paradís:Það mátti svo sem halda, við þessa stuttu viðdvöl að Kleppjárnsreykjum, að veðrið væri ágætt. Það var það hins vegar ekki, kannski mátti segja "þokkalegt" en ekki meira. Yfir timburgirðinguna má sjá grasi vaxinn háls. Þetta er það sem á herforingjaráðskortinu mínu heitir "Skáneyjarbunga" og er ásinn ofan við Reykholt og þá byggð alla. Skýjabakkinn sem sýnist liggja ofan við ásinn liggur í raun mun norðar, einmitt yfir þeim slóðum sem förinni var heitið til. Það leit því ekki björgulega út með Haukadalsskarðið þarna í upphafi ferðar.

Við Bassi fengum okkur stuttan göngutúr um svæðið og litum m.a. á hitaveitumannvirki rétt ofan sundlaugarinnar:Síðan var haldið af stað á ný. Leiðin lá hjá Deildartungu og að vegamótunum fram í Þverárhlíð. Ég átti nefnilega svona "Plan B" í handraðanum, þ.e. að aka fram Þverárhlíð með stuttu myndastoppi við glæsilegasta íbúðarhús landsins í sveit - og jafnvel þó helstu villur höfuðborgarinnar væru dregnar til samanburðar. Að Arnbjargarlæk í Þverárhlíð stendur nefnilega eitthvað það fallegasta hús sem byggt hefur verið hérlendis, hrein perla á að líta. Úr Þverárhlíð ætlaði ég svo skv. þessu plani B að aka yfir Grjótháls ofan í Norðurárdal. Við vegamótin fæddist svo enn ný hugmynd - ég ákvað að hringja í Barða frænda, athuga hvort hann væri heima við í Jaðri, borgfirsku sumarhöllinni sinni og hefði jafnvel áhuga á að renna með yfir Grjótháls. Jú, Barði var í bústaðnum en átti von á fólki og átti því ekki heimangengt. Hann bauð hins vegar í morgunkaffi og það þáði ég með þökkum. Innan stundar vorum við Bassi komnir að Jaðri, morgunkaffið teygðist í hádegiskaffi og það var komið fram undir miðjan dag þegar við kvöddum og héldum af stað.

Nú var ekið aftur upp Borgarfjörð um þjóðveg eitt, beygt útaf við Bauluna og ekið um Stafholtstungur að mótum vegar nr. 522. Þar beygðum við og ókum áleiðis fram Þverárhlíð. Ekki höfðum við langt farið þegar við ókum hjá afar fallegri sveitakirkju, steinsnar frá veginum. Þetta var Hjarðarholt, og vegna þess að við Bassi vorum ekkert sérstaklega að flýta okkur ókum við heim að bæ. Kirkjan var opin og því sjálfsagt að líta inn:

Eftir viðstöðuna var ekið áfram upp í Þverárhlíð og næst  stöðvuðum við bílinn þegar sást til bæjar að Arnbjargarlæk. Ég sagði hér að ofan að þetta glæsilega hús væri hrein perla, og nú getur hver dæmt fyrir sig:Ég trúi ekki öðru en að þarna að Arnbjargarlæk sé búið einhverju snyrtilegasta búi landsins. Öll umgengi og hirða virðist vera til fyrirmyndar, og kannski hafði þetta yfirbragð haft áhrif á fleiri bændur og býli í nágrenninu. Hér er Hamar, spölkorn ofan við Arnbjargarlæk:Stuttu ofar er svo Höfði. Sá bær var í fréttum fyrir nokkrum árum vegna stjórnlítillar fjölgunar sauðfjár, muni ég rétt. Ein af afleiðingunum voru kindur og lömb með nokkurs konar Dalmatíumynstri í ullinni. Ég myndaði nokkur lömb á þessum slóðum fyrir einhverju síðan og sá nú þessi afbrigði við veginn:Þarna ofan við Höfða eru vegamót. Annarsvegar liggur leiðin til hægri og sölkorni síðar að annarri greiningu, þar t.v. fram að bæjunum Helgavatni og Örnólfsdal en t.h. í hring um kirkjustaðinn Norðtungu og aftur niður á þjóðveginn skammt frá  Deildartungu. Hinn armur vegarins liggur fram Þverárhlíðina hjá bænum Grjóti að Sigmundarstöðum, sem eru fremsti bær við þann veg. Þetta skilur sá einn sem hefur kort fyrir framan sig. För okkar Bassa var heitið upp að Grjóti og síðan inná veg sem liggur yfir samnefndan háls - Grjótháls - yfir í Norðurárdal. Rétt áður en að þeim vegamótum kom áðum við augnablik og mynduðum hina alþekktu Þverárrétt:

Hér að neðan er horft frá sama horni fram sveitina að bænum Helgavatni:....og svo er horft inn Þverárhlíðina að Sigmundarstöðum:Fleiri yfirlit yfir þessa fallegu sveit áður en lagt var á hálsinn:

Vegurinn um Grjótháls er, þrátt fyrir nafnið, hinn ágætasti vegur. Kannski mætti ætla að þarna væri um að ræða hreina urð en svo er alls ekki og þó ég mæli ekki með því að menn aki yfir hálsinn á Jaris (svo notuð sé margtugginn mælikvarði) þá ætti flestum þokkalega háum bílum að vera óhætt. Þegar við Edilon B. Breiðfjörð ókum um var vindstrekkingur og þegar ég var orðinn þreyttur á að stöðva, hlaupa út og mynda þá myndaði ég bara út um bílrúðuna:


Uppi á há-hálsinum var frekar kuldalegt. Vindurinn gnauðaði í ferðadrekanum og það viðraði ekki beint til útiveru. Bassi sýndi þó gríðarlegan áhuga á gönguferð, ekki síst eftir að hann kom auga á Gimbu "vinkonu" sína í grenndinni. Klukkan í útvarpinu sló tólf og það passaði vel að taka hádegisstopp þarna í gjólunni. Við lögðum úti í kanti og tókum fram nestið.Eftir skyr, brauð, kaffi, dánarfregnir og jarðarfarir var kominn tími til að kanna umhverfið. Þarna uppi á hálsinum liggur háspennulína á gríðarmiklum stálmöstrum. Rétt ofan við "matstaðinn" mátti sjá að einhverntíma hafði eitt slíkt bugast, líkast til undan ofurþunga ísingar og illviðris. Leifar þess voru vel sýnilegar en í stað stálsins var komin staurasamstæða úr tré "upp á gamla mátann". Við Bassi röltum upp að leifum mastursins og skoðuðum:Það má vel sjá af samanburðinum við þumalinn að það er ekkert blikk í þessum undirstöðum. Samt hefur stálið beyglast og snúist eins og deig:

 

Við snerum aftur til bílsins vindbarðir og kaldir. Það leit ekki vel út með framhald ferðarinnar, borgfirska einkennið Baula var hulið skýjum sem ekki lofuðu neinu góðu um Haukadalsskarðið. Við fengum litlu breytt, lögðum af stað norður af hálsinum og handan við lá Norðurárdalur.Þetta býli sem blasir við þegar komið er á norðurbrúnir Grjótháls er Dýrastaðir í Norðurárdal, handan Norðurár.Rétt við vegamótin undir hálsinum, þar sem Grjótháls mætir gamla veginum sunnan Norðurár er þetta eyðibýli, Hafþórsstaðir. Þarna hefur verið byggt veglega við gamalt íbúðarhús en einhversstaðar á leiðinni hefur örindið þrotið og mannvirkin standa nú yfirgefin.Handanvið, þ.e. norðan ár mátti sjá Dalsmynni t.v. og Klettstíu t.h.  Dalsmynni skipar sérstakan sess í hugskoti Ísfirðingsins, sem minnist þess úr barnæsku að þegar ekið var suður, langferðalag frá Ísafirði til Reykjavíkur fannst mér Dalsmynni vera fyrsta merkið um að Reykjavík væri í nánd.Næstu þrjár myndir eru teknar á leiðinni niður með Norðurá, frá Hafþórsstöðum að Glitstöðum, skammt frá Hreðavatni. Það er Grábrók sem blasir við á miðri efstu myndinni:Ekki lagaðist skyggnið til Baulu né dró úr vindi, og það var dagsljóst að ekki væri glóra í að eyða rándýru bensíni í glataðan leiðangur um þokuslóðir. Því var ferðadrekanum snúið niður Borgarfjarðarsveitir að nýju, og aðeins örfáum metrum frá mótum Hringvegarins og Stakkhamarsveginum, sem ég var að koma af, var Grábrók. Fyrir nokkrum árum lögðu skotturnar mínar, Áróra og Bergrós Halla, á sig göngu upp hlíðar Grábrókar, spólandi í vikrinum. Þær komu svo niður sárfættar með steina í skónum en sigri hrósandi yfir afrekinu. Síðan hefur mikið vatn runnið til sjávar og nú hefur verið lagður timburklæddur stígur upp á gígbarminn og útsýnispallur útbúinn. Mér fannst tilvalið að nýta þetta tækifæri til að sigra "fjallið" án þess aðrir úr fjölskyldunni væru á staðnum til að gera grín ef ég gæfist upp. Við Bassi lögðum ótrauðir á brattann, skömmu síðar var annar enn ótrauður en  hinn sótrauður....

Leiðin niður var öllu léttari og við Bassi áttum svo sannarlega fyrir sopanum og meðlætinu sem beið í ferðadrekanum. Að þessu stórafreki unnu var drekinn fylltur af Orkubensíni að Hreðavatni og eftir áfyllingu lá ekki annað fyrir en að ráfa eitthvað út í buskann. Við hófum leit að buskanum og fundum hann þar sem á skilti stóð: Jafnaskarð. Við beygðum til hægri neðan við Bifröst og ókum upp með Hreðavatni, þ.e. vatninu sjálfu, inn í alveg hreint ótrúlega náttúruparadís. Fyrst varð fyrir okkur Hreðavatnsbærinn sjálfur, sem nú er undir hatti Skógræktar ríkisins.

Ég er að hugsa um að láta hér staðar numið að sinni. Ferðinni verður haldið áfram um helgina ef guð lofar. Það má bæta því við að Stubban mín, hún Bergrós Halla er sextán ára í dag, "Daginn eftir Flateyrarflóðið". Þrátt fyrir að hafa aðeins verið tæplega fjögurra ára þegar við fluttum suður, er hún Ísfirðingur út í gegn. Til hamingju, besta......
  • 1
Flettingar í dag: 50
Gestir í dag: 34
Flettingar í gær: 111
Gestir í gær: 45
Samtals flettingar: 642782
Samtals gestir: 91884
Tölur uppfærðar: 23.1.2019 04:07:41


Tenglar