Gunnar Th.
Fjórða kerfið.....


26.07.2014 09:01

Í Færeyjum - 7.hl. ferðasögu.




Sjötta hluta lauk í svefnstað við gamla grjótrétt að Eiði. Í því þorpi, líkt og svo mörgum öðrum var ekki finnanlegt neitt tjaldsvæði og því varð að bjarga sér með sem bestum hætti. Eftir að skriðið var í ból urðum við vör við stöku bíl sem ekið var framhjá. Við enda vegarins sem réttin stóð við var nefnilega fótboltavöllur bæjarins og yngra fólk virtist leggja leið sína þangað, enda laugardagskvöld og frí að morgni. Enga truflun höfðum við þó af þessu, enginn hávaði barst frá vellinum enda aldrei margir í einu að leik. Þegar dagaði urðum við enn vör við fólk sem kom akandi út að fótboltavellinum, lagði bílnum þar og gekk svo slóða út í náttúruna, út með sjónum og klettunum sem sáust svo vel á einni túristamyndinni sem við áttum af Eiði. 

Við vorum annars snemma á fótum því við ætluðum að nýta daginn vel. Nú voru liðnir tveir heilir dagar af dvölinni og við farin að átta okkur aðeins á því hvað sneri upp og hvað niður í Færeyjum. Þennan sunnudag ætluðum við m.a. að aka til Vestmanna og þaðan niður á Vogey. Svo var nokkurs konar viðbótarplan til kvöldsins sem var opið í báða enda en vel framkvæmanlegt ef allt annað gengi upp.

Við byrjuðum á að leita að hreinlætisaðstöðu í bænum. Sem fyrr sagði fundum við ekkert tjaldsvæði og í mörgum færeyskum þorpum er hvorki verslun né bensínstöð svo ekki var hægt að leita þangað. Nærri kirkjunni fundum við lítið hús sem virtist gegna hlutverki biðskýlis fyrir hin bláu "Strandfaraskip landsins" eins og þeir voru merktir, hópferðabílarnir sem gengu milli þorpa og til Þórshafnar. Í þessu húsi var öll hreinlætisaðstaða, opin almenningi og í þokkalegu lagi þrátt fyrir nokkrar "vargaskemmdir". Að lokinni andlitspuntun og öðru skyldu var haldið í skoðunarleiðangur um bæinn. Líkt og á flestum öðrum stöðum, bæði færeyskum og íslenskum stóð gamli bæjarkjarninn næst sjónum. Eins og fram kom áður stendur þorpið Eiði við "Sundini" þ.e. sundið milli Austureyjar og Straumeyjar. Þorpið er á Austurey norðvestanverðri, stendur við litla vík og snýr nokkurn veginn til suðurs. Sundið er langt, mjótt og eflaust verður sjór þar oft úfinn vegna vinds og strauma. Víkin sem þorpið stendur við er klettótt og hefur verið sæbrött en á seinni árum hafa verið byggðir gríðarlegir hafnargarðar til skjóls fyrir bryggjurnar. Grjótið í garðana hefur verið fengið með því að sprengja niður klappirnar næst sjónum og þannig hefur myndast stórt athafnasvæði um leið. Það er svo ekki ólíklegt að eitthvað hafi fækkað húsum í gamla bæjarhlutanum um leið. Skjólgarðar hafnarinnar á Eiði eru þeir lengstu í Færeyjum.

Næstu fjórar myndir hér að neðan eru teknar undir miðnætti á laugardagskvöldinu, við komuna til Eiðis.










Þessi gatnamót voru með þeim þrengstu sem við sáum á okkar ferð, og til öryggis voru hafðir tveir speglar. Sjúkrabíllinn er rétt tæpir sex metrar að lengd en það mátti passa sig verulega á að strjúka ekki hliðunum utan í húshornin:



Færeyingar eru sagðir trú - og kirkjuræknir og víst er um það að varla komum við svo í þorp að ekki sæjum við þar kirkju og merkt aðsetur eins eða tveggja sértrúarhópa að auki. Þetta er kirkjan að Eiði og þennan sunnudagsmorgun stóð yfir athöfn. Við stilltum okkur því um að líta inn. Það var annars athyglisvert að inn um gluggana mátti greina töluverðan fjölda fólks en fyrir utan voru mjög fáir bílar. Að hugsa sér! Fólkið hafði komið gangandi til kirkjunnar! Enn ein sönnun um að Færeyjar eru útlönd! 



Þessi laglegu hús stóðu við götu sem líklega hefur verið aðalgata þorpsins áður fyrr. Hún virtist raunar gegna því hlutverki enn að mörgu leyti:



Fleira var það sem vakti athygli að Eiði. T.d. voru þar áberandi mörg nýleg, stór og glæsileg einbýlishús. Stór skólabygging er í miðjum bænum og má sjá hana sem hvíta og ljósgrá ræmu á miðri mynd. Uppi á kletti hægra megin við skólann, hvítt með svörtu þaki er Hótel Eiði. Handan sundsins er ysti hluti Langafjalls á Straumey og í lítilli, lokaðri vík beint ofan við skemmurnar á höfninni leynist lítið þorp, Tjörnuvík. Neðst á myndinni má nokkuð átta sig á mannvirkjagerðinni sem minnst var á:



......og í þessa garða fór grjótið. Sem fyrr segir, lengstu skjólgarðar í Færeyjum og veitir örugglega ekki af á svona straumhörðum stað. Handan sundsins er Langafjall á Straumey:



Hér fyrir neðan er enn horft yfir sundið og hægt að átta sig á staðsetningunni með tilliti til litla tindsins á myndunum. Við blasir þorpið Haldarsvík:



Við héldum frá Eiði inn með Sundinu, gegnum smáþorpið Ljósá áleiðis að brúnni yfir á Straumey. Það var dálítið bjartara yfir en þegar við fórum til Fuglafjarðar og við bættum við einni mynd af Eyrarbakka fjærst, brúnni og næst kirkjunni að Norðskála:



Við ókum yfir brúna og um slóðir sem áður hafa verið nefndar, Streymnes og Hvalvík, Áir, Hósvík, Kollafjörð og sem leið lá þvert suður yfir Straumey. Á leiðinni var ekið gegnum einn stuttan gangnastubb og er suður úr honum kom kvíslaðist vegurinn: Annars vegar lá leiðin um neðansjávargöng yfir á Vogey, hins vegar lá hún til Vestmanna og þangað var okkar för heitið. Því miður höfðum við litlar upplýsingar um þorpið Vestmanna og vissum því ekki af farþegabátum sem ganga þaðan í útsýnissiglingar meðfram sjávarhömrunum utan þorpsins. Þessi björg eru rómuð fyrir hrikalega fegurð en vegna upplýsingaskorts lenda þau á áætlun næstu ferðar! Vestmanna kom okkur annars fyrir sjónir sem þreyttur bær. Það verður að hafa í huga að við vorum að koma frá Eiði þar sem allt var í blóma og bærinn nýlegur að stærstum hluta vegna mikillar uppbyggingar. Hér fannst okkur allt annað uppi á teningnum. Niðurníddar byggingar voru algeng sjón, bæði íbúðar - og athafnahús allskonar.







Það var einhvern veginn allt annar bragur á öllu þarna í Vestmanna en við höfðum kynnst annarsstaðar. Þröngu göturnar og speglarnir voru þó á sínum stað. Á skiltinu ofan við örina stendur: " Í hvörgari síðu"  Ætli það þýði einstefna í báðar áttir? Eða hvoruga?



Aðalgatan?



Sérstaða Vestmanna felst í virkjununum. Virkjanir eru nefnilega fáséðar í Færeyjum en þarna eru þær tvær og sjá stórum hluta eyjanna fyrir rafmagni. Lónin eru, skv. upplýsingunum í hlekknum, fjögur og safna regnvatni úr ám og lækjum fjallanna í kring. Þetta eru pípur vestari virkjunarinnar:



....og hér að neðan er sú eystri. Á myndinni má einnig sjá ágætt "Camping" svæði þeirra í Vestmanna. Það er annars dálítið skrýtið, eins og við ferðaglaðir Íslendingar erum fljótir að tileinka okkur allt mögulegt frá útlöndum, að við skulum ekki eiga neitt skárra orð yfir svona stað en "hjólhýsasvæði". Eða er það til? Þetta er ekki tjaldsvæði því það er ekki gert ráð fyrir tjöldum á þessum stað. Muniði eftir því sem ég skrifaði um "Camping" svæðið á höfninni í Fuglafirði? Þar var aðeins svart malbik og hvergi tjaldhæl niður stingandi enda á hafnarsvæðinu. Samt prýðis svæði fyrir húsvagna ( þrátt fyrir engar merkingar þar um)  því þar var allt til alls. Húsvagnasvæði - er það ekki brúklegt orð yfir svæði sem eingöngu er ætlað fellihýsum, hjólhýsum og húsbílum? ( ég nefni ekki tjaldvagna því eftir "sumarið" í sumar geri ég ekki ráð fyrir að þeir sjáist framar á Íslandi og orðið muni smám saman hverfa úr málinu) 

Þetta húsvagnasvæði ( ég kann bara ágætlega við orðið) í Vestmanna virtist þokkalega búið en ég tók samt eftir því að nokkur hýsanna virtust frágengin á líkan hátt því sem sést m.a. við Laugarvatn - þ.e. með viðbyggðum trépalli og fleiru í sama dúr.



Það er skjólsælt þarna í Vestmanna enda er höfnin líklega ein sú besta í Færeyjum. Utan fjarðar liggur Vestmannasund milli Straumeyjar og Vogeyjar sem sér í handan sunds:



Ég hafði í hálfgerðum barnaskap fyllt ferðabílinn af olíu á Seyðisfirði og áætlaði að nota aðeins þá olíu í Færeyjum. Reiknaði með að tankurinn dygði því hann er stór og eyðslan skikkanleg. Lengst samfelldi landvegur er talsvert innan við hundrað kílómetra og að öllu samanlögðu taldi ég þetta raunhæfan möguleika. Svo sáum við auðvitað að fyrsti feillinn var fólginn í að taka olíu heima því í Færeyjum var hún rúmum fjörutíu krónum ódýrari lítrinn. Aki maður svo þennan lengsta samfellda landveg þarf víst að aka til baka og þannig tvöfaldast allar vegalengdir - því maður er jú alltaf að keyra til baka. Það er ekki víða hægt að aka í hring. Þar við bættist að stöðugt er verið að aka upp og niður því Færeyjar eru jú allt annað en flatlendar!

Í Vestmanna var semsagt komið að því að tanka drekann. Hann var reyndar ekki nema tæplega hálfur en við tókum þó ( skv. nákvæmu bókhaldi) 64.6 lítra og greiddum fyrir þá 13.200 krónur ( á genginu 22-). Eyðslan í þessu hrjúfa upp og niður landslagi reyndist vera 17.8 ltr/100km. Ekki var það neitt til að væla yfir og ég hugsaði til þess með hrolli hversu þyrstur fyrri Econoline- ferðadrekinn hefði verið við sömu aðstæður, með sína sex strokka bensínvél og 35"dekk. Það hefði eflaust mátt tvöfalda þessa lítratölu!

Við kvöddum Vestmanna og mynduðum yfir innsta voginn að skilnaði. Ég ákvað á þessum stað að gefa bænum möguleika - þetta er nefnilega afar fallegt bæjarstæði, frábær höfn og fólkið á bensínstöðinni bjargaði bænum með sínu vinalega viðmóti. Svei mér þá, ef Vestmanna er ekki bara vinalegasti bær....





Á leiðinni til baka ókum við fyrir ofan þorpið Kvívík, og úti fyrir sat eyjan Koltur í miðmynd. Kvívík er ákaflega vinaleg þyrping húsa ofan við litla höfn, snyrtilegt þorp og skartaði fallegum byggingum.....



....eins og þessari sem okkur virtist helst vera leikskóli, miðað við leiktækin á lóðinni:



Höfnin er ekki stór en það hefur þurft að verja hana vel með steyptum garði, enda opin fyrir sjógangi utan af Vogafirði. 



Örstutt frá Kvívík er þorpið Leynar. Þar var að finna eina af sjaldséðum sandfjörum Færeyja og þar sem það var nú einu sinni sunnudagur, veðrið ágætt og Jóansöka á dagatalinu var mannsöfnuður í sandinum. M.a. mátti sjá uppblásin leiktæki. 







Rétt ofan við þorpið Leynar er ekið ofan í neðansjávargöngin sem liggja yfir á Vogey. Þangað lá leið okkar og síðan beint yfir Vogey gegnum þorpin Sandavog, Miðvog og Sörvog, framhjá millilandaflugvellinum og út Sörvogsfjörð. Við vorum á leiðinni að skoða Tindhólm. Fyrir einu eða tveimur árum kom kynningarkálfur um Færeyjar með Morgunblaðinu hér heima. Á forsíðu þessa kálfs, sem var í sama eða svipuðu broti og Mogginn sjálfur, var flennistór mynd af afar sérkennilegu fjalli. Ekki var að finna neinar upplýsingar um hvar myndin væri tekin svo ég lagðist í grufl á Google Earth þar til ég fann staðinn. Tindhólmur er eyja, sem er eiginlega aðeins einn risastór klettur. Hann rís bratt upp frá sjó að norðan, hlíðin er samfelldur flái allt upp á brún en þar endar hún í lóðréttu falli niður í sjó sunnanvert - svona dálítið líkt og Hornbjarg hér heima. Frá því ég sá þessa mynd í kynningarkálfinum og tókst að finna staðinn á google Earth var dagsljóst  að þennan stað yrði ég að sjá. Nú var komið að því:







Vestan við Tindhólm liggur eyjan Mykines. Hún sést til hægri og er umvafin þoku í toppinn. Út til Mykiness gengur ferja frá Sörvogi, sú ferja tengist ekki "Strandfaraskipum Landsins" heldur er einkarekin með ríkisstyrk. Ferðirnar eru mjög háðar veðri og vindum og það er vissara fyrir ferðalanga sem hyggja á ferð til Mykiness að hafa tímann fyrir sér því oft er ólendandi við eyjuna svo vikum skiptir - það á þó trúlega frekar við vetrartímann, enda veðurfar óstöðugra á þeim árstíma. Það er ekki fjölmennt í Mykinesi - þar búa aðeins ellefu manns (2004), aðrar heimildir segja þrettán. Hvort sem er, er eins gott að samkomulag ríki í slíku fámenni. Í Mykinesi er boðið uppá veitingar og gistingu yfir sumarið enda dvelja þar þá væntanlega fleiri en ofantaldir.  Allt um það ólum við engar vonir um að komast til Mykiness í þessarri Færeyjaferð. 

Það var alveg nóg að sinni að sjá Tindhólm:





Þegar ekið er frá þorpinu Sörvogi á Vogey meðfram ströndinni til vesturs blasir Tindhólmur við allan tímann. Ekið er á mjóum vegi með þéttum útskotum um bratta hlíð ( á malbiki eins og alltaf) og leiðin liggur meðfram smáþorpinu Böur (Bær). Þetta þorp er ein af perlum Færeyja, líkt og Gjógv og Saksun. Við ókum þó framhjá í þetta sinn því við vorum á leið út í Gása (Gæsa?) dal, sem er á vegarenda. Eins og sjá má á kortinu hér ofar liggur síðasti hluti vegarins í göngum. Þessi göng voru gerð árið 2006 og skv. okkar heimildum fækkaði nokkuð í dalnum eftir komu þeirra. Kannski var það eðilegt því fyrir tilkomu gangnanna var Gásadalur ekki í vegasambandi og hafnleysa er þar alger. Einu samgöngurnar voru á fæti yfir bratt fjall  - og svo "tyrlan"



Hvernig þeir fluttu efni í hús til Gásadals áður fyrr er mér lokuð bók. Kannski var hægt að fleyta því á sjó í ládeyðu en hvarvetna eru háir hamrar í sjó fram. Kannski bundu þeir efnið á "tyrluna" - þ.e.a.s. eftir að þessháttar verkfæri voru tekin í notkun sem samgöngutæki. En kannski fluttu þeir það á sama hátt og kirkjan í Saksun - þið munið - var flutt yfir fjallið frá Tjörnuvík forðum. Einfaldlega á höndum!



Á myndinni hér að neðan má sjá gangnamunnann Gásadalsmegin. Því miður koma myndirnar ekki nógu vel út í þessu formi en þó má sjá hægra megin við munnann, nokkurs konar sikk/sakk slóð í grasinu - og segir nú frá: 

Áður hefur verið minnst á hóp íslensks mótorhjólafólks sem var samferða okkur í Norrönu til Færeyja. Þessi hópur varð nokkuð víða á vegi okkar enda í sömu erindum í Færeyjum. Á leið út í Gásadal rúllaði allur hópurinn framúr okkur og hafði þá stækkað allnokkuð og blandast bæði færeysku og þýsku hjólafólki. Í áningarstað í Gásadal áttum við spjall við nokkra úr hópnum og þar með ungan mann, búsettan í Færeyjum en íslenskan að uppruna. Hann fylgdi hópnum á bíl, hafði orðið fyrir áfalli með hjólið sitt nokkru áður  og var því að nokkru leyti úr leik. Hann var vel kunnugur á þessum slóðum og fræddi okkur um staðinn. M.a. benti hann á þessa sikk/sakk slóð í hlíðinni og sagði okkur að þarna hefði leið póstsins legið - á hverjum degi allt árið um kring hefði hann gengið yfir fjallið með póst til og frá Gásadal!

Þetta fannst okkur með ólíkindum og í hugann kom sagan um Sumarliða Brandsson póst fyrir vestan, sem hrapaði ásamt hesti og pósti fram af Bjarnarnúp yst á Snæfjallaströnd. Ég velti þessu fyrir mér í u.þ.b. tíu mínútur og skaut svo spurningu á manninn aftur. Nei, þetta var ekki misheyrn. Á hverjum degi.........

........en kannski hafa íbúar Gásadals verið þá töluvert fleiri en þeir fimmtán sem nú teljast þar heimilisfastir!



Flytja byggingarefni sjóleiðina, ha??





Einhverjir af þessum fimmtán voru heima við, a.m.k. sáum við hálfber börn að leik innan við glugga og konu sýsla eitthvað. Kannski var hún að prjóna lopapeysu fyrir markaðinn meðan bóndinn þénaði á olíunni í Norðursjó?



Þau voru ekki öll gömul, húsin í Gásadal þó úr fjarlægð virtust þau það:



Mótorhjólafólkið  hafði fengið leiðsögn um staðinn og hélt í gönguferð út á brúnirnar. Við héldum til baka um göngin sem þjóna fimmtán manns (auk póstsins og ferðamanna) og hugleiddum það sem okkur hafði verið sagt, m.a. það að fyrsta veturinn hefði umferð um göngin ekki verið meiri en svo að Gásadalsmenn geymdu kindur í þeim. Það hefði einhvern tíma þótt vel í lagt fyrir fjárhús...

Í bakaleiðinni var svo komið við í Bæ (Böur). Á myndinni er horft yfir þorpið og inn eftir Sörvogsfirði:



Þessi ungi kippti sér ekki upp við íslenskan sjúkrabíl, en var hins vegar fljótur á fætur (og tók til þeirra) þegar mótorhjólahópurinn renndi í gegn stuttu seinna.



Hús með torfþaki og Tindhólmur í baksýn - stórkostleg upplifun! Þetta er ekkert hægt - ég gefst bara upp á að lýsa þessu. Fólk verður bara að sjá þetta með eigin augum.......











Jæja, ég skal samt reyna áfram: Í þessu hálfopna, gamla bátaskýli sköruðust tvennir tímar: Annars vegar gamli báturinn í uppsátrinu, hins vegar mót af trefjaplastbát upp við vegg:



Og hvar leitar maður svo sálarinnar í gömlu sjávarþorpi? Ég held ég segi það satt að þarna, í bland við lágvært öldugjálfur, heyrði maður sinn eigin hjartslátt. En svo komu mótorhjólin ........





Þeir búa ekki allir smátt í Bæ þótt nafnið sé stutt:



Svo var haldið áfram unn fjörðinn til baka og komið að Sörvogi. Þarna fyrir miðri mynd má sjá eins konar horn upp í loftið. Þetta er hluti lendingarljósabúnaðar við "International Airport" á Vogey.



Húsmæðrafélag Sörvogs: Hvert skyldi vera markmið þess félags? Allavega er félagsheimilið fallegt:



Í öllum kirkjum Færeyja eru bátar eða bátalíkön. Svo má víða sjá báta uppi á landi sem safn- og sýningargripi. Þessi gullmoli stendur við fótboltavöllinn í Sörvogi:



Svo heyrðist þytur í lofti og ein álkýrin - merkt Atlantic Airways, hinu færeyska Icelandair - renndi sér inn á International Airport:





Fíllinn í postulínsbúðinni?





Elín Huld mátti til að mynda þetta fagurbláa biðskýli "Strandfararskipa Landsins":



Frá Sörvogi héldum við yfir lágt en landmikið eiði eða háls þar sem flugvöllurinn er. Á honum stóð álkýrin opin bæði aftan og framan. Allsstaðar var hreyfing, bæði fólk og vagnar.......



Þessi mynd hér að neðan er einungis höfð þarna samhengisins vegna. Hún mun vera tekin í Miðvogi, sem er stærstur þeirra þriggja, Sör- Mið- og Sanda- en við höfðum þar enga viðdvöl. Klukkan tifaði hratt og sem fyrr segir höfðum við nokkurs konar "bakplan" fyrir kvöldið og því átti að hrinda í framkvæmd ef mögulegt yrði.



Pinninn þarna austurfrá heitir Tröllkonufingur, og er líklega austasti hluti Vogeyjar. Við höfðum lesið um hann og séð myndir en fórum ekki þangað - allavega ekki í þetta sinn.





Við ætluðum nefnilega að hafa stutta viðdvöl í Sandavogi. Þetta þorp fannst okkur bera af þeim þremur fyrrnefndu. Stóran þátt í því átti kirkjan tvímælalaust - einhver fallegasta kirkja sem við sáum í Færeyjum:





Svo var þarna auðvitað bílverkstaður: 



...og fyrst ég var farinn að kíkja á bílaverkstæði fannst EH sjálfsagt að líta á leikskólann. Ég verð að segja að hann var talsvert myndar- og merkilegri en verkstæðið:





Allan þennan sunnudag hafði veðrið leikið við okkur og eins og sjá má af myndunum úr Sandavogi sem teknar eru um kvöldmatarleytið var ekki undan neinu að kvarta í þeim efnum. Við vorum að nálgast okkar "deadline" og þegar við kvöddum þetta fallega þorp þurfti að beita nokkrum aukahestöflum fyrir vagninn á leiðinni til Þórshafnar. Þegar þangað kom var farið að súlda lítið eitt en ekkert þó til að tala um. Skýin í suðri gáfu þó fyrirheit um það sem koma skyldi:



Við komum "efribæjarleiðina" til Þórshafnar þarna um kvöldið, fjallaleiðina í stað þess að fara ströndina með Kaldbaksfirði norðan til eins og áður. Við ókum því rétt ofan við Hótel Færeyjar og frá þessu sjónarhorni lítur það allt öðru vísi út en neðan úr bæ:



Planið var að ganga upp. Klukkan var rúmlega hálfátta þegar við þeystum inn á hafnarsvæðið í áttina að stórskipinu Smyrli, sem siglir nokkrum sinnum á dag til Suðureyjar. Okkur hafði verið sagt að vegna stærðar skipsins væri óþarfi að panta far með fyrirvara svo við völdum okkur brottför sem hentaði. Nú var komið að henni og nákvæmlega klukkan átta leysti Smyrill landfestar og sigldi af stað í áttina til Suðureyjar. Framundan var tveggja tíma sigling með skipi sem leit út eins og smækkuð mynd af Norrönu - og bara hreint ekkert svo mikið smækkuð. Það fór allavega ekki mikið fyrir sjúkrabílnum í maganum á Smyrli:





Siglingin tók tvo tíma og á leiðinni sigldum við inní og sáum í fyrsta sinn þetta ekta færeyska veður sem svo margir höfðu talað um - blindþoku og rigningu. Það rigndi eins og hellt væri úr fötu og skyggnið var bókstaflega ekkert. Smyrill þeytti þokulúður með stuttu millibili allan síðasta hluta leiðarinnar og við sáum varla til byggðar þegar lagst var að bryggju á Þvereyri í Traangisvogsfirði. Það var því ekki um margt að velja. Klukkan var rúmlega tíu að kvöldi og við höfðum óljósan grun um tvö tjaldsvæði (eða húsvagnasvæði) í bænum. Hvorugt fundum við þó en satt að segja voru "aðstæður til leitar afar erfiðar" svo notað sé alþekkt orðalag. Við fundum veg út úr bænum til vesturs og af honum grasi gróna slóð eitthvert út í þokuna. Þar, þegar ekki sást lengur til þjóðvegar, lögðum við ferðadrekanum og skriðum undir feld.......



.........og stuttu seinna sýndi klukkan að kominn væri mánudagur.....

Hér lýkur 7. hluta og sunnudeginum. 8. hluti gerist allur á Suðurey og spannar sólarhring eða svo. 
................................................

Flettingar í dag: 266
Gestir í dag: 71
Flettingar í gær: 209
Gestir í gær: 40
Samtals flettingar: 65042
Samtals gestir: 16875
Tölur uppfærðar: 28.4.2024 16:59:39


Tenglar