Gunnar Th.
Fjórða kerfið.....


Færslur: 2016 Febrúar

17.02.2016 14:46

Ör á fæti.Nei, þessi færsla fjallar ekki um það hversu fljótur ég sé að hlaupa. Ef svo væri þá lyki henni nákvæmlega hér. Punktur.

Hún - þ.e. færslan - hefði allt eins getað heitið "Gamla malbikunarvélin" en ég ákvað að velja frekar þennan titil því hann gaf möguleika á innganginum hér ofar. Ég er með ör framan á hægri fótlegg og örið barst eitthvað í tal hér í Höfðaborg á dögunum Þetta tvennt er samtvinnað, örið á fætinum og gamla malbikunarvélin. Það skal nú skýrt ýtarlega og rúmlega það.

Einu sinni var ég lítill. Þeir sem þekkja mig vita vel að ég er ekki stór en ég á ekki við hæð yfir sjávarmál heldur aldurinn. Ég hef alltaf verið stuttur. Ég á við aldur svona nærri þessum hér:
Ég er einhversstaðar á fjórða árinu þegar þessi mynd er tekin og því miður í háum sokkum. Fyrir því gæti verið ástæða, önnur en sú að mömmu hafi þótt ég svo flottur í hvítum, uppháum sokkum. Það voru þá síðustu forvöð því hvítur hefur ekki reynst mér góður fatalitur frá fjögurra ára aldri.

Ég fæddist á sjómannadaginn 1957. Á þeim tíma og til hausts 1961 bjó fjölskyldan að Hrannargötu 3 á Ísafirði. Það var góður staður fyrir ungan mann að hefja lífsgönguna þótt fyrstu sporin utan húsveggjanna hafi eflaust legið út á forugar göturnar í kring, móður minni blessaðri til armæðu. Á tiltölulega litlum bletti bjó sannkallað mannval: Þar var Ásgeir Salómons, Doddi á Essó (sem raunar var ekkert kenndur við Essó á þeim tíma) og bræðurnir Halldór og Steini Geirs. Iddi Jóns Bárðar bjó í bláa húsinu Sólgötu 8 ( sem var örugglega ekki blátt á þeim tíma) og svo var einhver slatti af gömlu köllum og kéllíngum með misjafna þolinmæði fyrir ungviðinu sem fékk að ganga nánast sjálfala á góðum sumardögum í vernduðu umhverfi gamla bíóplansins. Þarna var Hrólfur Þórarins á Pólstjörnunni, sem bjó í Hrannargötu 9 og átti gráan GMC trukk. Svo var sýslumaðurinn Jóhann Gunnar Ólafsson í Hrannargötu 4. Hann var aldrei nefndur nema með virðingu og á lægri nótunum. Í norðurenda Sólgötunnar var fiskibúðin og þangað kom forvitnilegt fólk að kaupa í matinn. Stundum kom Agnar á Búinu í bæinn á gamla Ford og kom við í fiskibúðinni. Mér fannst gamli Ford ákaflega merkilegur bíll og alveg sérstaklega merkilegt þegar ég eitt sinn sá leggja hvíta reykjarslæðu upp af vélinni framanverðri. Svo merkilegt að gufan upp af gamla Ford er enn ljóslifandi 55 árum síðar eða svo. 

Allt véla- og verkfærakyns var eftirtektarvert. Á norðurhorni Sólgötu við Fjarðarstræti ( við horn Glámu) var skilti á staur. Þetta var gulur, uppréttur rétthyrningur með svörtum jaðri og svörtum stöfum. Svo langt var ég ekki kominn í lífsleikni á fjórða árinu að ég gæti lesið letrið en lífið hefur kennt mér að þar stóð: STANZ - AÐALBRAUT - STOP

Dag einn, sólríkan og heitan kom maður með stiga og verkfæri. Hann skrúfaði niður skiltið, lagði það frá sér upp við Glámuvegginn og setti upp annað hringlaga í staðinn. Ég var mættur á staðinn um leið og fylgdist með. Ég man ekki hver þetta var en ég man að hann varaði mig við að snerta skiltið sem hann tók niður því það væri heitt af sólinni. Ég var, eins og ég sagði, ekki kominn mjög langt í lífsleikninni og þess vegna þurfti ég auðvitað að athuga hversu heitt skiltið væri. Þann dag lærði ég fyrst um blöðrur á fingrum........

Þetta nýja skilti markaði tímamót - tímamót sem minnst skyldi á landsvísu. Árið 1966 yrði Ísafjörður 100 ára kaupstaður og átak var að hefjast í fegrun og lagfæringu ásýndar byggðarinnar. Forugar og holóttar göturnar á eyrinni skyldu lagðar malbiki og lýsing þeirra endurnýjuð. Malbiksframkvæmdirnar voru þvílíkt ævintýri í augum okkar stúfanna að vart verður með orðum lýst. Víst munu þær hafa verið mæðrum okkar armæða að sama skapi og mörg góð flíkin varð ónýt af tjöruklessum og viðlíka efnum. Við malbiksframkvæmdirnar var notuð forláta vél sem stóð á tveimur hjólum og var dregin til og frá eftir því sem framkvæmdum miðaði. Því miður hef ég gleymt nafninu á þessarri vél en það var letrað á hana breiðstöfum. Vörubíll bæjarins, gamall grænn Chevrolet, flutti malarsalla innan úr "Krús", malarvinnslu bæjarins í fjarðarbotninum og af bílnum var handmokað í vélina. Bikið kom sem klumpur í stáltunnum sem höggnar voru sundur á staðnum með öxi. Hamflett bikið var svo höggvið niður í mátulega mola og hent af hendi í iður vélarinnar, þar sem mikið bál logaði. Vélin valsaði svo saman möl og bik og skilaði frá sér sterklyktandi eðju sem dreift var á götuna með skóflum og hrífum. Þegar hæfilegu magni var náð var valtað yfir með litlum valtara og ég fullyrði að sá sem stjórnaði valtaranum var í augum okkar stúfanna merkilegasti maður í heimi. Ég var ekki eldri en þetta, þriggja til fjögurra ára en ég man enn að hann hreyfði litla stöng aftan við sig til að fara afturábak eða áfram. Mér fannst þetta lítil stöng til jafnmerkilegra hluta því í vörubílnum hans pabba var gírstöng sem var miklu, miklu lengri en þessi stúfur með kúlu á endanum. Ég man það nokkuð víst að sá sem valtaranum stýrði átti eftir að hljóta mikla upphefð innan bæjarapparatsins enda gat ekki öðruvísi farið með svo merkilegan mann. Hann mun hafa verið bæjarritari um árabil.

Ég man líka að bálið sem olíukynt var í iðrum malbikunarvélarinnar og spjó reyk og eimyrju yfir umhverfi sitt átti til að brjóta sér leið úr viðjunum og leika lausum hala utan á vélinni. Í einu slíku tilfelli þegar mikið hafði logað og lengi, kom maður hlaupandi neðan af slökkvistöð með tæki í hendinni og spjó úr því á eldinn. Þetta var stór maður, ljós- eða rauðhærður. Mér var sagt hann héti Jón Halldórsson.

Einum man ég eftir sem vakti sérstaka eftirtekt. Þetta var lítill, hnellinn karl, síkátur og hafði hvíta (þannig í minningunni...) derhúfu á höfðinu. Ég vissi ekki betur en að der á húfum ætti að snúa fram en þessi karl sneri því alltaf aftur. Þetta fannst stúfnum fyndið.........mér var sagt að hann héti Magnfreð, þessi karl og það fannst mér líka fyndið. Við áttum síðar eftir að kynnast betur því hann var einn þeirra öðlinga í malbikinu sem rúmum áratug síðar tóku á móti óreyndum guttanum í bæjarvinnunni og ólu upp tvö sumur. 

Þeir unnu ekki á sunnudögum, karlarnir í malbikinu og þá var svæðið vettvangur okkar stúfanna. Þetta umrædda svæði var ekki stórt, eða rétt ofan við, framhjá og niður fyrir húsið þeirra Siggu Pálma og Hjartar.

Menn sem betur vita verða að virða mér til vorkunnar að ég man ekki lengur í hvora áttina var malbikað - upp eða niður bæinn. Það skiptir svo sem ekki miklu máli. Mín saga snýst, eins og fram kom í upphafi, um ör á fæti þó svo ég noti breiða pensilinn til að mála ferlið. Þeir unnu semsagt ekki á sunnudögum, bæjarkarlarnir og eftir laugardagana vildu liggja bikmolar og sundurhöggnar tunnur hjá kaldri malbikunarvélinni. Það var einmitt á þannig degi sem stúfur á stuttbuxum fór í rannsóknarleiðangur um völlinn. Heillaður af glansandi svörtum molunum og horfandi niður í jörðina gat ekki öðruvísi farið en eitthvað yrði í vegi sem forðast skyldi. Hægri fótleggur mætti sundurhogginni biktunnu á þann veg að eitthvað varð undan að láta....

.....ekki þó tunnan!

Háorgandi með blóðið bunandi úr fætinum staulaðist ég yfir Hafnarstrætið, inn í Hrannargötuna og til mömmu. Líklega hafa hlutir gerst hratt eftir það, hraðar en svo að þeir næðu að festast í barnsminninu. Næst man ég eftir mér á aðgerðarborðinu í miðstofunni á gamla sjúkrahúsinu - þeirri sem var í boganum að framanverðu. Sárið var hreinsað, saumað og búið um eins vel og mátti en af stærðinni á örinu í dag má nema umfangið á sínum tíma.

Þeir luku við að malbika Hafnarstrætið án minnar aðstoðar en líklega hefur hún mamma mín hlakkað mikið til þess dags er flutt yrði úr Hrannargötunni í nýja húsið sem var í byggingu inni við Seljalandsveg.Framtíðin er sjaldan fyrirséð og líklega var það eins gott fyrir hana mömmu. Ég er ekki viss um að ástandið hafi skánað mikið er í "sveitina" kom.....

..........................................................................................................................................

Ár líða og tilveran sveiflast til og frá. Seljalandsvegurinn seldur og flutt til Reykjavíkur vegna atvinnuleysis heima fyrir. Svo rofaði til og allt í einu erum við aftur á heimleið á glænýjum vörubíl. Það er gott því engum hafði líkað vistin í borginni. 


 Ég var orðinn tíu ára - afmælisveislan var haldin í og á pappakössum í kjallaranum að Sigtúni 37 í Reykjavík, sem hefur verið heimili okkar syðra. Tveimur dögum eftir afmælið er lagt af stað með búslóðina á pallinum. Bílarnir eru tveir, samskonar og eins útbúnir. Síðustu Reykjavíkurnóttinni lýkur, ferðin hefst í öfuga átt því við ökum vestur á Ránargötu að kveðja Rósu ömmu og Jóa frænda. Við borgarmörkin er sameinast og ekið í samfloti vestur. Fremri bíllinn ber megnið af búslóðinni, ferðin tekur tvo daga og er efni í langan pistil. 

Þegar morgunn hins sjötta júní 1967 rennur upp eigum við aftur heima á Ísafirði, nú að Urðarvegi 4 og fyrir utan bíða tveir vörubílar tæmingar. 

..............................................................................

Stúfurinn úr Hrannargötunni stækkar og sumarið hættir að vera samfelldur leikur. Frá tólf ára aldri er það skógræktin. Á vetrum er gripið í útskipun á freðfiski eftir því sem slíka vinnu er að fá. Fermingarsumarið ´71 er unnið við skelvinnslu og hýrunni bætt við fermingarpeningana. Vorið eftir er keypt ný skellinaðra og enn tekur lífið stökkbreytingum. Sumarið ´72 er unnið í fiski en vorið ´73 er ég svo heppinn að komast í bæjarvinnuna. Gamla malbikunarvélin er ekki lengur á faraldsfæti heldur hefur henni verið komið fyrir innan við áhaldahúsið. Nær áfastur henni er gamli, græni Chevrolet vörubíllinn og gegnir hlutverki malarforðabúrs. Nú orðið koma stórfyrirtæki úr Reykjavík og malbika heilu hverfin í einu en sú gamla er notuð í smærri verk eins og holufyllingar. Á góðum dögum er hún kynt upp og við sumarvinnumenn látnir moka í hana malarsallanum. Ábyrgari menn sjá um bikið og blöndunina. Til þessarra "ábyrgari" aðila má m.a. telja Halldór Jóns Páls, en sá öðlingsdrengur vann hjá bænum á námsárunum. Þá var þarna einnig Snorri Gríms, "Ríkisstjóri" og fleiri góðir drengir. Kynnin af gömlu malbikurunum úr Hafnarstrætinu voru endurnýjuð og margur lærdómurinn dreginn af þessum gömlu jálkum sem flestir höfðu marga fjöruna sopið - og sumir kannski sopið sitthvað fleira en fjörur. Um þessa menn er ekki hægt að nota orð eins og "minnisstæðir". Þeir eru einfaldlega ógleymanlegir.....Torfi Bjarna, sem var trúður af guðs náð. Ég man ekki hvernær Torfi dó og finn ekkert um það í skrám en hann varð aldrei gamall - hann var alltaf einn af okkur unglingunum, einstakt góðmenni. Hver man ekki eftir Magga Dan. Hann var sannarlega það sem hann sagðist vera (en ekki fyrr en eftir nokkra sterka...) - góður maður. Öðlingurinn Siggi Jónasar, Hemmi Klöru (eins og hann var alltaf nefndur) sem var eitthvert almesta snyrtimenni sem ég man eftir frá þessum tíma. Á frídegi, ekki síst á hátíðisdögum sást Hermann aldrei öðruvísi en í frakka með hatt. Fötin geta víst skapað menn og utan frá séð var engan mun að sjá á Hemma og einhverjum stjórnarherranum. Ef dæmt er út frá hjartalagi hygg ég þó að Hemmi hafi haft þar alla vinninga.

Svo var þarna auðvitað fullt af yngri mönnum en þeir eru flestir enn á lífi og verða ekki almennilega góðir fyrr en þeir eru dauðir, eins og reglan segir.....en þá eiga þeir líka inni hjá mér ámóta eftirmæli og hér að ofan - allir með tölu.

Ég sagði hér ofar að gamla malbikunarvélin hefði verið kynt upp á góðum dögum til að holufylla. Það þýðir ekki á á Ísafirði þeirra tíma hafi gert slæma sumardaga- ég man ekki slíka daga. En þegar ekki viðraði til malbikunar eða ekki var þörf á slíku voru unnin margvíslegustu störf utan húss og innan. Þá voru t.d. handsteyptar gangstéttarhellur. Þetta var rétt í upphafi velsældarvæðingar (sem vel má kalla vesældarvæðingu) og hellurnar voru 50 X 50 X 5 cm. Að handleika eina slíka var ekkert mál en að handleika þær heilan dag frá morgni til kvölds var aðeins á færi hraustra manna. Svo minnkuðu hellurnar í 40 X 40 X 4 cm og léttust að sama skapi. Sementspokarnir, sem alltaf voru 50 kg urðu 40 kg, mjölpokar sem áður voru 100 kg og tveggja manna tak urðu 50 kg og einsmannstak - urðu svo 1000 kg, mannskapurinn rekinn og keyptur lyftari..........

M.a.s. hjólbörurnar hafa minnkað um helming enda koma þær flestar frá Kína þar sem fólkið er helmingi minna en við!

Kannski hefur eitthvað af þessu ofantalda gert það að verkum að menn ná nú almennt hvorutveggja - að verða gamlir og halda sæmilegri heilsu. Álagið á skrokkana hefur í öllu falli minnkað.

Ég ætla að enda hér þennan stutta pistil um örið á hægri fótleggnum á mér. Það getur verið til sýnis þeim er sjá vilja eftir samkomulagi, að öðru leyti hef ég ekki um málefnið fleiri orð.

Ég bið afsökunar á fljótfærnis- og prentvillum því ég hef ekki gefið mér tíma til að lesa skrifin yfir!
.....................................................................................


10.02.2016 07:33

Mikið déskoti......
......var Stakkanesið kuldalegt þar sem það hímdi undir snjóteppi úti við Skipavík. Það snjóaði gríðarlega í Hólminum sl. fimmtudag (4.feb) og í áframhaldandi kulda hafði sá snjór ekki sigið merkjanlega þegar við EH renndum í hlað á Borgarbrautinni seint á föstudagskvöldi. Við lögðum af stað úr Reykjavík rétt um hálfsex og áðum að vanda í Borgarnesi - ekki þó í Geirabakaríi því þar var búið að loka, heldur í Bónusbúðinni og versluðum nauðsynjar til næsta dags. Veðrið var þokkalegt, dálítill blástur og kalt en hálkulaus vegur að mestu. Sama færið hélst uppundir Kolbeinsstaði en þar skipti um og við tók stífur vindstrekkingur af austri. Loft var tiltölulega bjart en vindurinn reif upp hjarn svo úr varð stífur lágrenningur yfir veginn. Skyggni til aksturs fór allt niður í eina stiku á köflum (eru það ekki um 50 mtr?) og er ofar dró bætti í vindinn. Hálku var ekki að merkja að neinu ráði nema við Dalsmynni, frá afleggjaranum að Laugagerðisskóla og upp undir Rauðkollsstaði. Þaðan var auður vegur að Vegamótum en yfir Vatnaleiðina var fljúgandi hálka auk þess sem þar hvesti verulega. Það mátti heita blindbylur - án ofankomu - alla leið yfir og að vegamótum norðanvert. Þar var færið skaplegra en þegar við renndum inn í Stykkishólm mátti sjá á klukkunni að aksturinn frá Borgarnesi hafði tekið okkur um tuttugu mínútum lengri tíma en vanalega.

Þegar heim á Borgarbrautina kom gat að líta stóran snjóskafl sem teppti alveg aðgengi að húsinu. Yfir innkeyrsluna lá mittisdjúpur skafl en næst húsinu var þó snjólítil ræma. Sem betur fer hafði nágranninn í næsta húsi mokað mjóan gangstíg upp að sínu húsi og þann stíg laumuðumst við með okkar farangur og síðan meðfram húsveggnum. Það tók smástund að brjóta klaka frá útidyrunum og finna lykilinn en hafðist þó að lokum. Innandyra ar enga skóflu að finna, aðeins strákúst á sólpallinum, en hann var vonlaust verkfæri í baráttu við skaflinn. 


Við tókum laugardaginn rólega framan af en eftir hádegi var lagt í leiðangur til Gulla Rúfeyings og frú Löllu til að fala skóflu. Það var auðsótt og eftir vel útilátið kaffi var ráðist í að moka innkeyrsluna. Þar voru höfð helmingaskipti þó ekki sé grunlaust um að skrifarinn hafi sloppið betur en til stóð. Það var nefnilega talsverð vinna að moka skaflinn og gera sæmilega gangfært heim að húsinu. Eftir moksturinn var blásið til kaffihlés en síðan lá leiðin í heita pottinn í sundlauginni, þar sem legið var fram að lokun. Ekki spillti veðrið, því þrátt fyrir dálítinn kuldagjóstur var bjart í lofti og sól meðan hennar tími leyfði. Laugardagskvöldið var nýtt í dvd- og sjónvarpsgláp, tölvulegu og þvílíkt. 

Sunnudagurinn, 55. afmælisdagur EH, heilsaði líkt og laugardagurinn en þó var öllu lygnara. Við ákváðum að ganga út á flatirnar austan og neðan við húsið, sömu slóðina og við röltum á fimmtugsafmæli EH, þegar við dvöldum einnig helgarlangt á Borgarbrautinni með skottinu Bergrós Höllu. Nú var hún ekki með til að sjá um myndavélina eins og þá svo við máttum sjálf sjá um þá hlið. Árangurinn varð m.a. svona:
Eftir gönguna lá leiðin líkt og oft áður, í heita pottinn. Þar var aftur legið fram að lokun og eftir pottinn var haldið í bollukaffi til Löllu og Gulla. Við áttum raunar að mæta þangað mun fyrr en misskildum tímasetninguna. Það var dálítið miður því þau gömlu voru búin að bíða með bollurnar eftir okkur síðan um miðjan dag. Ekki varð að gert og við sátum stórveislu fram undir kvöldmat. Ætlunin hafði verið að borða gala-afmæliskvöldverð á Narfeyrarstofu og við áttum pantað borð en höfðum það eins seint og hægt var. Þannig gengu hlutirnir upp og steikin á stofunni var virkilega fín þrátt fyrir bolluátið!

Kvöldið var svo tekið rólega að vanda, veðrið hélst bjart og stillt en kuldinn hélt okkur innan dyra. Líklega er þetta fyrsta helgardvölin í Hólminum sem ekki felur í sér bíltúr út í Grundarfjörð eða lengra. Jólabækurnar höfðu raunar verið settar í töskuna syðra sem möguleg afþreying en þrátt fyrir góðan vilja sátu þær á hakanum fyrir 160 mín. langri þáttaröð um Inndjúpið á dvd.

Mánudagurinn rann upp með hvössum austanvindi og enn meiri kulda en þokkalega bjartur þó. EH hafði tekið frí þann dag en ég átti að hefja kvöldvakt hjá Óskabarninu kl. 16. Hússkil voru að vanda kl. 12 á hádegi svo eftir morgunkaffi var gengið í að taka saman og þrífa. Allt gekk það að óskum og við kvöddum Stykkishólm að sinni eftir stutta heimsókn til Löllu og Gulla. 

Við norðurenda Vatnaleiðar drógum við uppi tvo bíla sem voru síðan á undan okkur suður yfir. Sá fremri var jeppi með litla kerru, sá aftari var lítill sendibíll. Þeir voru greinilega í samfloti og áttu í erfiðleikum vegna hálku og hvassviðris. Kerran vildi fjúka þvert útaf jeppanum og sendibíllinn fauk ítrekað til að aftan. Hraðinn var því lítill, enda við á ónegldum dekkjum sem gripu lítið í klakann þótt glæný væru. Þannig gekk suður að Vegamótum en þar tók við marauður vegur fyrir utan kaflann við Dalsmynni sem áður var lýst. Við tókum okkar áningu í Geirabakaríi í Borgarnesi og komum til Reykjavíkur rétt uppúr kl. 15. Farangurinn var borinn í hús og fataskipti höfð, síðan var haldið beint til vinnu og klukkuna vantaði tíu mínútur í fjögur þegar ég stimplaði mig inn.

Það eru u.þ.b. sex vikur fram að næstu ferð í Hólminn, því ég á húsið pantað um páskana, líkt og í fyrra. Þeir eru semsagt snemma í ár og því litlar líkur á að vorað hafi nægilega til að Stakkanesið verði sjósett þá. 

....en þá má í staðinn gera aðra atrennu að jólabókunum!


  • 1
Flettingar í dag: 130
Gestir í dag: 30
Flettingar í gær: 314
Gestir í gær: 40
Samtals flettingar: 635395
Samtals gestir: 90510
Tölur uppfærðar: 13.12.2018 07:36:26


Tenglar