Gunnar Th.
Fjórða kerfið.....


Færslur: 2012 Október

16.10.2012 08:36

Óværur

Rétt þegar ég sjálfur er nýstiginn upp úr svæsinni flensu virðist óværan hafa hlaupið í tölvuna mína. Eitthvað hefur allavega gerst þegar ég var að lesa "stórfrétt" á einhverri erlendri "fréttasíðu" um andlát leikarans  Eddie Murphy í snjóbrettaslysi um helgina. Þar stóð að fréttirnar væru glænýjar, slysið hefði rétt verið að gerast og boðið uppá nánast beina útsendingu með því að smella á "Get the latest uppdate". Mig langaði að lesa meira um málið og um leið og ég smellti á get the latest update var skaðinn skeður. "Fréttin" var auðvitað kjaftæði, Eddie Murphy er sprelllifandi en það sama er ekki hægt að segja um fartölvuna mína. Nú verð ég að leita til læknis með hana og á meðan er fátt til bjargar annað en vinnutölvan. Að vísu á ég gömlu heimilistölvuna í geymslunni, en hún tekur uppsett álíka pláss og skuttogari og það pláss á ég ekki til. 

......og þó.......

07.10.2012 09:22

Kjéllíngarfjöll og áfram norður.

Hvert var ég nú kominn?  Jú, ég var með henni Dagnýju uppi í fjöllunum þar sem hún áður fyrr renndi sér á skíðum, en var nú aðeins grjóturð og melhólar. Skaflarnir í Kerlingarfjöllum eru aðeins svipur hjá sjón, líkt og er um íslenska jökla almennt.  Ég gat aðeins rölt um og reynt að gera mér í hugarlund hvernig þarna hafði litið út, ég átti ekki þessa upplifun í minningunni sem Dagný bjó að. Á þeim tíma sem hún var að renna sér þarna í góðum hópi félaga og kennara, var ég vestur á Ísafirði að gera við bíla og dreymdi um það eitt að þurfa aldrei að yfirgefa þúfuna mína. Í áranna rás hefur fleira breyst en snjórinn í Kerlingarfjöllum og það sem Bjartmar kvað; "Einu sinni hélt ég að hún endaði, jörðin/rétt utan við fjörðinn", og átti svo vel við sjálfan mig í eina tíð, skyldu menn leggja á minnið því einhvern tíma skrifa ég pistil með þeim titli - og geri þá upp við eigin einfeldni og heimóttarskap!

En semsagt, við gengum um urðirnar þar sem áður voru skíðabrekkur, annað rifjaði upp, hitt reyndi að skilja...........og upp úr mistrinu rak Loðmundur beran kollinn. Hvíta húfan horfin með öllu:Eitt má ég til að nefna: Við þurftum að fá að kíkja aðeins upp á loft í skálanum sem áður var aðalaðsetur skíðaskólans. Þar var gist, þar var borðað og þar var djammað. Kvöldvökurnar voru kannski það sem eftirminnilegast var auk skíðaferðanna og Dagný var ekki í rónni fyrr en hún hafði skoðað sig um innandyra, kíkt á stigann þar sem þéttsetið var undir draugasögum skíða"kennaranna", skoðað upp á svefnloftið og fundið kojuna "sína". Ég elti með myndavélina eins og þægur hundur í bandi:

Eftir þrjátíu ár var kojan þarna enn, í sama hlutverki - og þó ekki alveg, kannski:Það var komið að því að halda áfram för. Tíminn leið ekki, hann flaug og ekki seinna vænna en halda af stað áleiðis til Hveravalla. Á leiðinni þangað áðum við stutta stund við Fjórðungsöldu, þar sem stendur veglegt minnismerki um Geir Zoega, fyrsta forseta F.Í. Mig minnir að ég hafi einhverntíma heyrt um vilja Ferðafélagsmanna til að breyta nafni Fjórðungsöldu í Geirsöldu en sel það ekki dýrara en ég keypti - auk þess sem minningu fyrrum forseta félagsins væri lítill greiði gerður með þessháttar tilburðum. Meðan ég velti mér uppúr ámóta hugleiðingum ók stór rúta framhjá og harmagráturinn sem barst frá hjólabúnaði hennar þegar gróf þvottabretti vegarins gerðu atlögu að honum vakti nýja hugsun - þá hugsun, hvort þessum löngu gengna ferðagarpi væri ekki mestur sómi sýndur með því að halda Kjalvegi - veginum að og frá minnismerki hans - ökufærum.......

Ferðadrekinn okkar var ekki á neinum grjóthörðum rútudekkjum heldur á lungamjúkum þrjátíuogfimmtommu og okkur gekk bærilega yfir urðirnar sem áttu að heita vegur, allt til Hveravalla. Þar var talsverður slæðingur af fólki á alls konar farartækjum. Við tókum okkur góða göngu um nærsvæðið og meðan á henni stóð bættist enn farartæki í flóruna:Þegar þessi rjómaþeytari birtist töldum við víst að eitthvert leikarastórmennið sem þá átti að vera nóg af á landinu, væri komið í heimsókn. Ekki virtist það vera, a.m.k. þekktum við ekki fjölskylduna sem hoppaði út úr vélinni þegar hún var lent. Okkur skildist hins vegar að boðið væri upp á útsýnisferðir um nágrennið meðan þyrlan hefði viðstöðu. Mig langaði dálítið að fara en verðið fældi fátæka launamenn frá...

Við héldum áfram og næst lá leiðin niður að Blöndulóni. Ekki höfðum við lengi ekið þegar við sáum útlent par sem stóð í vegkantinum og reyndi að húkka sér far norðurúr. Þar sem rykið á þessum slóðum er gegnheilt og liggur í sköflum á veginum gátum við ekki annað en aumkast yfir þessa ferðalanga sem lögðu traust sitt á akandi samferðamenn, vitandi að þeirra (þ.e. ferðalanganna) biði ekkert annað en varanlegt heilsutjón á öndunarfærum, væri einfaldri bón um far ekki sinnt. Drekinn okkar bauð upp á gott pláss og þokkaleg sæti svo við kipptum parinu með. Vegna ryksins var ekki hægt að hafa opinn glugga né topplúgu og það hitnaði fljótt í bílnum. Rétt  áður en komið er að lóninu er tilbúinn áningarstaður á hæð við veginn. Þar er upplýsingaskilti, þar er útsýnisskífa og þar var tilvalið að viðra okkur og útlendingana auk hundanna Orra og Tjörva. 

Útlenda parið var á leið niður að þjóðvegi eitt og þaðan til norðurs. Leið okkar lá því niður með Blönduvirkjun og þvert fyrir mynni Blöndudals. Innst í Langadal komum við að vegamótum hringvegarins og þar skildu leiðir - þau héldu til hægri, áfram norður til Akureyrar, við héldum til vinstri  - líka á leið norður, bara dálítið aðra leið.......

Utarlega í Langadal stendur gamalt, gullfallegt hús ofarlega í hallandi túni. Þar var forðum myndarlega byggt býli. Í tímans rás lagðist býlið í eyði og um langt árabil stóð þar óhrein og ryðlituð hryggðarmynd sem tákn hnignandi búskapar í annars blómlegri sveit. Oft hafði ég veitt þessu húsi athygli á mínum ferðum um Langadal og velt fyrir mér hvernær kæmi að því að einhver fengi áhuga á og aðstöðu til að nýta þetta áður fallega -og dálítið sérstaka - hús sem sumarhús. Á uppgangsárunum fyrir hrun var algengt að niðurnídd eyðibýli fengju nýtt líf fyrir tilstilli efnaðra einstaklinga eða félagasamtaka og mér fannst þetta býli að mörgu leyti standa öðrum framar til slíkra hluta. Það var hálfleiðinlegt að sjá þetta laglega byggða hús standa opið fyrir veðrum, vindum og sauðkindum. Svo, í einni ferðinni norður sá ég að eitthvað var að gerast við gamla eyðibýlið. Þar var málað, snyrt  og kindunum úthýst með gluggum og hurðum. Loksins!

Það var ekki leiðinlegt að komast að því að það var vinafólk Dagnýjar sem svo myndarlega hafði tekið til hendinni. Ekki hafði þó verið sótt til iðnaðarmanna og arkitekta, heldur endurbyggt og lagfært með hug og hönd. Árangurinn var eins heimilislegur og hægt var. Við gamla eyðibýlið sem nú er eitthvert vinalegasta sumarhús sem ég hef heimsótt, var næsti áningarstaður okkar. Þar dvöldum við fram undir kvöld en síðan lá leiðin niður á Blönduós og þaðan út á Skagaströnd. Það var farið að kvölda talsvert er þangað kom og sólin að síga bak við Strandafjöllin. Við komum drekanum okkar fyrir í lokuðu rjóðri í horni tjaldsvæðisins og slógum upp skjóli fyrir kvöldgolunni.Það eru röskir piltar sem sjá um sorphirðuna á Skagaströnd og nágrenni - svo röskir að klukkan var varla orðin átta næsta morgun þegar þeir voru mættir með ruslabílinn til að tæma ílát svæðisins. Þeir fóru svo sem ekki um með neinum látum en ég er nokkuð viss um að enginn svaf af sér þessa árrisulu sorphirðumenn og heimsókn þeirra. Kosturinn við að vera dálítið afsíðis með ferðadrekann varð að ókostinum við að vera staðsettur nákvæmlega þar sem sorpbíllinn staðnæmdist til að éta fylli sína úr döllunum. Svo má auðvitað segja að sá kostur fylgi því að vakna snemma, að maður hlakkar enn meira til að skríða í ból að kveldi. Björtu hliðarnar vega alltaf þyngra, veðrið var gott í morgunsárið og ekki amalegt að eiga framundan skoðunarferð um stuðlabergsnáttúrulistaverkin í Kálfshamarsvík.Ég hef nokkrum sinnum áður skrifað um Kálfshamarsvík og birt þaðan myndir. Þetta dugar að sinni. Leið okkar var ákveðin til baka inn eftir, ég ætlaði ekki fyrir Skaga í þetta skiptið. Við ókum inn að vegamótunum yfir Þverárfjall, beygðum þar og eftir stundarakstur vorum við í Skagafirði. Eitt af því sem er ómissandi við hverja komu til Sauðárkróks er að heimsækja bakaríið - Sauðárkróksbakarí. Bæði er þar að fá einhverjar bestu kökur og kaffibrauð landsins, og svo er andinn í húsinu einhvern veginn þannig að hann dregur mann til sín aftur og aftur - en kannski eru það bara afgreiðsludömurnar! Við lögðum ferðadrekanum á bílaplani neðan aðalgötunnar og gengum upp í bakaríið. Að þessu sinni var alltof heitt til að sitja innandyra, enda búið að gera fína útisetuaðstöðu sunnan undir vegg. Eftir að hafa nært okkur vel umfram þörf (les: étið yfir okkur) af bakkelsi töltum við aftur til bíls. Um leið og ég opnaði bílinn og hleypti hundunum út en Dagnýju inn, var kallað úr nærliggjandi húsagarði, með rödd sem ég þekki hvar sem er: "Hvern andskotann er þú að gera hér?"

............hver annar en Nonni Bæsa?

(framhald)
  • 1
Flettingar í dag: 130
Gestir í dag: 30
Flettingar í gær: 314
Gestir í gær: 40
Samtals flettingar: 635395
Samtals gestir: 90510
Tölur uppfærðar: 13.12.2018 07:36:26


Tenglar