Gunnar Th.
Fjórða kerfið.....


Færslur: 2013 Mars

22.03.2013 07:28

Tognar úr tímanum......

Færslan týndist og hvarf við innsetningu.......

........................................................................................................................
Páskadagsmorgunn:

Það þýðir lítið að láta ofanritað standa eitt og sér um eilífð þótt maður sé í fýlu við kerfið. Það er fátt leiðinlegra en að týna færslu sem búið er að vinna mikið við, vegna einhverrar kerfisvillu sem einfaldur bifvélavirki kann engin skil á. Lífið heldur áfram og fyrirsögnin á ennþá rétt á sér...

Þetta er ekki myndapistill, heldur aðeins örfá orð fyrir dagbókina. Það vorar nefnilega óðum og verkin sem þarf að vinna áður en sumarið "brestur á" eru í fullri vinnslu. Sjúkrabíllinn hefur fengið nýjar rafgeymafestingar, þeir í amríkuhreppi smíðuðu hann með annan rafgeyminn niðri á grind "af því það var eigi pláss fyrir hann í hesthúsinu......"  Sá umbúnaður var orðinn lélegur eftir tólf ára notkun og þurfti endurnýjunar við. Þar er nú allt sem orðið nýtt, rafgeymarnir hafa verið yfirfarnir af Skorra hf. og fátt til fyrirstöðu að ræsa vagninn. 

Eldri ferðabíllinn var heimsóttur á dögunum. Hann hefur vetursetu að StærriBæ í Grímsnesi eins og áður, og forverar hans einnig. Bíllinn kemur vel undan vetri, hann var þurr og þrifalegur og nóg rafmagn á geymum. Það styttist í ferðasumarið og ef allt gengur eftir eru líkur á að hann verði settur á númer upp úr miðjum apríl. Þá er ætlunin að taka hann hingað heim í Höfðaborg, snyrta og yfirfara og setja hann síðan í sölu. Eitt af því sem á að gera er að skipta um vél í honum, hér niðri í "plássinu" stendur upprunalega vélin hans (hann hefur verið notaður á e.k. bráðabirgðavél undanfarin sumur)  nýskveruð með nýrenndum sveifarás og nýjum legum. Það var ekki notkunarslit sem hrjáði þá vél heldur stöðug notkun á röngum smurolíusíum - nokkuð sem er algert eitur fyrir vélar með lárétta smursíu. Þetta skilja þeir sem til þekkja.

Stakkanesið fær andlitslyftingu á næstu dögum. Á sínum tíma setti ég gluggalista úr eðalvið kringum stýrishússgluggana. Það var þvert á yfirlýsta stefnu um að hafa bátinn eins viðhaldsfrían utan og hægt væri. Um leið hét ég því að ef þessir eðalviðarlistar yrðu til vandræða skyldu þeir fjúka fyrir plast....

Auðvitað urðu þeir svo til vandræða! Sífellt máðir, upplitaðir, flagnaðir ogguðmávitahvað....Alveg hundleiðinlegt, satt að segja. Enda skulu þeir nú fjúka. Hér niðri í "plássinu" eru þessir líka fínu plastlistar sem koma skulu í staðinn. Að þeirri aðgerð lokinni verður fátt úr viði utandyra á Stakkanesinu, nema þá dyrnar sjálfar!  (jú, björgunarbátskistan er úr mótakrossvið. Ég er farinn að senda henni illt auga.....)

Stakkanesið fer svo á flot um líkt leyti og ferðadrekinn kemur í bæinn.

Litli Isuzu vörubíllinn gengur þessa dagana gegnum gagngera endurnýjun á bremsum. Það er ekki nóg að komast áfram, það þarf víst að vera hægt að stoppa líka þegar komið er í áfangastað úti á landi með Stakkanesið á pallinum. Kristmundur Kristmundsson Sörlasonar í Stálveri hefur lýst vantrú á að þessi hugmynd um hreppaflutninga Stakkanessins á vörubílnum verði nokkurntíma að veruleika. Það er mjög fínt að fá þessháttar álit, fátt styrkir mann meira í trúnni en mótþrýstingur. Raunar grunar mig að með því að viðra þetta álit sitt á mjög afgerandi ( og stundum hávaðasaman) hátt sé Kristmundur einungis að peppa mig upp, í rauninni sé hann að ýta á bakið á mér. Ég hef allavega ákveðið að leggja þann skilning í hlutina. 

Það er svo sannarlega ekkert grín að vera atvinnulaus og á stundum langar mig hreinlega að fá mér vinnu aftur til að geta átt örlítið frí!  Afkoman er sem betur fer nokkuð viðunandi, núðlur eru ódýrar og vatnið er ókeypis. Enda er eins gott að spara því það má gera ráð fyrir miklum dísilolíukaupum í sumar..................

Klukkan er að verða hálftíu á páskadagsmorgni, ég er á leið í morgungöngu með Bassa og síðan austur í sveitir í "vísindaferð" Veðrið er fínt, hægur andvari og sirka 4 stiga hiti. Landssveitin bíður......

Gleðilega páska!

02.03.2013 08:51

Stuttur texti án mynda!

Ef marka má veðurspár er veturinn að koma aftur. Það er dálítið snúið, satt að segja var það ekki alveg á teikniborðinu hjá mér að fá kulda og jafnvel snjó. Stakkanesið hefur fengið smá hugg undanfarið, einnig sjúkrabíllinn. (sem ég hef velt fyrir mér hvort eigi að fá nafn. Í ljósi þess að ferðabíllinn hefur stundum verið kallaður Arnarnes, trillan heitir Stakkanes  og litli, forljóti plastbalinn sem gengt hefur hlutverki landbáts hefur stundum, með skírskotun til sköpulagsins verið kallaður Fagranes, hefur sú hugmynd komið upp að kalla sjúkrabílinn Langanes. Hann er jú lengsta gerð af Econoline svo það gæti svo sem alveg passað, auk þess sem Langanes er nesið sem skilur milli Dynjandivogs og Geirþjófsfjarðar í Arnarfirði og því  rammvestfirskt nafn....)

Svo hefur verið unnið nokkuð drjúgt í öðrum uppsöfnuðum verkefnum, s.s. Isuzuvörubílnum. Ég hélt að það, að vera heimahangandi atvinnuleysingi myndi færa mér nægan tíma til að sinna öllu fyrirliggjandi en svo er alls ekki. Dagarnir eru ótrúlega stuttir þó þeir séu teknir jafnsnemma og venjulega og þótt sífellt sé nagað í verkefnalistann virðist hann aðeins lengjast í hinn endann, því alltaf kemur maður auga á eitthvað nýtt sem þarf að bæta og breyta.

Það er bjart úti, sól í sinni og ég er á leið upp í Borgarfjörð til að kíkja á bláu rútuna einu sinni enn. Við General Bolt-on erum sammála um að nú verði eitthvað að fara að gerast í hennar málum. Vetrarskot gæti skekkt þær hugmyndir en staðreyndin er samt ljós - það þarf að fara að koma bílnum suður!  Svo væri kannski ekki úr vegi að kíkja á Sverri Guðmunds og Amalíu, ef þau eru í sumarhöllinni sinni við Galtarholt. Allavega ætla ég að ljúka deginum á uppistandi/fyrirlestri Einars Kárasonar í Landnámssetrinu í Borgarnesi, þar sem umfjöllunarefnið er Sturla Þórðarson. Sturla var uppi á þrettándu öld, merkilegur maður fyrir margra hluta sakir og, eins og segir í "prógramminu", nokkurs konar Forest Gump sinnar tíðar. Allsstaðar þar sem eitthvað var að gerast var Sturla Þórðarson, ef ekki sem beinn þátttakandi, þá sem áhorfandi. 

Svo vona ég bara að ég nái heim áður en veturinn skellur á..........
  • 1
Flettingar í dag: 50
Gestir í dag: 34
Flettingar í gær: 111
Gestir í gær: 45
Samtals flettingar: 642782
Samtals gestir: 91884
Tölur uppfærðar: 23.1.2019 04:07:41


Tenglar