Gunnar Th.
Fjórða kerfið.....


17.09.2014 09:41

Dalir og heiðar - annar hluti af þremur.


Fyrsta hluta lauk þegar beygt var af þjóðvegi eitt rétt við Bólstaðarhlíð og lagt á Svartárdalinn. Eins og fram kom var áliðið dags en veðrið ágætt þó kannski væri ekki alveg jafn bjart og hlýtt vestan Vatnsskarðs og austan þess. Vegurinn fram Svartárdal liggur austan Svartár og flest býli standa eða stóðu austan árinnar, sitthvoru megin vegar. Svartá er brúuð á tveimur stöðum til þeirra bæja sem standa vestan ár.
  Fyrsta myndin mun vera tekin á þeim slóðum sem eyðibýlið Fjósar stóð fyrrum, en uppi í hæðunum þar ofan við og austan til í dalnum er dálítil skógrækt sem setur mikinn svip á umhverfið. 
( Ath. Ekki ber öllum sögnum saman um nafn bæjarins, hvort það var Fjós eða Fjósar. Sé það fyrra rétt hefur það verið í fleirtölu því þágufallsmyndin virðist yfirleitt vera "Fjósum" -  Ég held mig við nafnið á Herforingjaráðskortunum)





Fljótlega eftir að komið er inn í Svartárdal er ekið hjá eyðibýlinu Bröttuhlíð. Þetta er mjög sérstakt hús, sambland torf- og timburhúss en orðið verulega illa farið. Á netrápi rakst ég á umsókn til byggingafulltrúa svæðisins um niðurrif þessa húss, ekki fylgir niðurstaða en hver sem hún hefur orðið stendur húsið enn. Í nýlega útkominni ritröð um "Eyðibýli á Íslandi" (sem raunar er enn að koma út) er fjallað um Bröttuhlíð. ( Eyðibýli á Íslandi, Rannsókn á eyðibýlum og yfirgefnum húsum í Skagafjarðarsýslu, Austur-Húnavatnssýslu og Vestur-Húnavatnssýslu sumarið 2013, bls. 114). Þar kemur fram að húsið sé byggt á árunum 1904-5 og búið hafi verið í því til 1978. Ennfremur kemur þar fram að tillaga hafi verið gerð um friðun hússins en ekki er að sjá að af hafi orðið. Sjá nánar HÉR








Spölkorn innan við Bröttuhlíð standa Eiríksstaðir. Þar hefur verið byggt nýrra íbúðarhús en það gamla stendur enn og hefur ratað í eyðibýlaritið áðurnefnda. Þetta rit er mikil biblía og á þessu ferðalagi fram Svartárdal er gott að styðjast við það þar sem við á. Fram kemur m.a. að nýrra íbúðarhúsið á Eiríksstöðum sé byggt 1976:





.....en það eldra 1938. Það er varla búið stórbúi á Eiríksstöðum en búið þó:





Handan árinnar, að vestanverðu stóðu áður tveir bæir, Torfustaðir og Barkarstaðir. Nú standa aðeins Barkarstaðir og heim að sjá var vel búið og snyrtilegt. Torfustaðir voru dálítið norðar og í eyðibýlabókinni er birt mynd af íbúðarhúsi þar, einlyftu, gulmáluðu steinhúsi. Af því stóðu aðeins útveggir þegar myndin var tekin. Síðast var búið á Torfustöðum 1983 og frá þeim tíma hefur þakið hreinlega hrunið niður og annað tréverk eyðilagst í kjölfarið. Þegar við fórum þarna um í sumar var greinilega búið að rífa útveggina því nú stóð ekkert nema reisuleg útihús. Tún voru nýslegin og líklega nytjuð frá Barkarstöðum:





Samkvæmt öllu munu þetta vera útihús Torfustaða. Eyðibýlabókin nefnir einnig að býlið hafi áður heitið Torfastaðir og þannig er það merkt á Íslandskortinu mínu. Ég beygi mig hins vegar fyrir visku háskólafólksins sem vann ritið.





Hér að neðan er horft heim að Barkarstöðum en þangað liggur önnur þeirra tveggja brúa sem nefndar voru í upphafi og er vegleg. Sú þjónaði þá einnig Torfustöðum:





Þá er komið heim að Bergstöðum. Býli með því nafni eru fleiri en eitt og fleiri en tvö á landinu en ýmist skrifuð með einu essi eða tveimur. Þessir Bergstaðir hafa sína sérstöðu, bæði eru þeir kirkjujörð og státa af þessum stórkostlega gamla bæ sem sést uppi í hlíðinni ofan kirkjunnar.





Kirkjan var lokuð og læst og við vildum ekki ónáða fólk heima á bæ til að fá lánaðan lykil. Því létum við nægja að skoða hana að utan og svo umhverfið. Kirkjan er friðuð vegna aldurs, var greinilega nýviðgerð og má sjá nánari upplýsingar um hana HÉR





Eins og lesa má yfir dyrunum er kirkjan reist árið 1883. Til er sögubrot um tilurð hennar og er athyglisvert: Húsið mun upphaflega hafa verið flutt inn tilhöggvið erlendis frá sem pakkhús og átti að standa á Sauðárkróki. Ekki varð af byggingu og bændur í sókninni fengu efnið í kirkjubyggingu. Turninn var byggður síðar. (Íslandshandbókin I, bls.341)





Ég á það til, þegar ég kemst ekki inn í kirkjur sem mig langar að skoða, að skella myndavélarlinsunni beint á glugga og mynda inn. Allajafna er undir hælinn lagt hvernig slíkar myndatökur heppnast en hér við Bergstaðakirkju virtust þær lukkast vonum framar:











Svo var það gamli bærinn. Að sjálfsögðu á hann sinn stað í ritinu "Eyðibýli á Íslandi" og þar er gerð á honum fræðileg úttekt sem ég endurbirti ekki en bendi á. Húsið er að mestu leyti úr timbri en með tyrfðu þaki. Það er greinilega byggt sem framhús eldri torfbæjar sem stendur samanfallinn hlíðarmegin við það. Húsið hefur greinilega staðið opið fyrir veðri, vindum og sauðfé árum eða áratugum saman og innandyra má vel merkja að gimbu hefur líkað skjólið. Að lokinni kirkjuskoðuninni röltum við með myndavélina uppeftir.





Framan við bæinn er dálítil grjóthleðsla sem ber uppi járnkross. Í hleðslunni er steinn með áletruninni "Bergstaðakirkjugarður 14. öld 1882" og má vel vera að eldri kirkjugarður hafi staðið þarna framan við bæinn. Núverandi garður er umhverfis kirkjuna en ekki er getið um annað en að eldri kirkja (sem var torfkirkja) hafi staðið á sama stað og núverandi.

(Ath. Ég skrifa  Bergstaði með einu essi vegna þess að ég styðst við áletrunina á steininum ásamt Herforingjaráðskortinu. Á nýlega, bláa vegskiltinu niðri við kirkjuna er nafnið ritað með tveimur essum og ég giska á að það hafi ekki með neina sagnfræðilega tilvísun að gera heldur sé hreinlega vegna hroðvirkni)







Bassi fékk að hlaupa laus eins og yfirleitt þegar kindur eru hvergi sýnilegar en lyktin af þeim var sterk og hann var hálfruglaður þarna inni í gamla bænum:





Hér sést inn bæjargöngin, eða forstofuna eins og eflaust hefur þótt viðeigandi heiti í timburhúsi. Eins og sjá má er gólfábreiðan í þykkara lagi og það er farið að koma niður á lofthæðinni:





Hér er horft inn í hjarta hússins, líklega hefur þetta verið eldhúsið. Til vinstri liggur stigi upp á loftið:





Viðirnir sem notaðir hafa verið í milliveggi þarna uppi hafa trúlega ekki verið keyptir nýir í BYKO heldur endurnýttir úr eldri byggingum. 





Þegar horft var á húsið svona ofan frá virtist syðri hluti þess (vinstra megin) vera úr takti við hitt og sýndist helst vera frá öðrum tíma. Eyðibýlabókin, sem ég tók ekki með í ferðalagið - því miður - en las heimkominn, er sama sinnis og telur þetta viðbyggingu.





Svona var sjónarhornið þegar staðið var á rústum gamla torfbæjarins bakvið og horft ofan í forstofuna (eða bæjargöngin, eftir því sem við á):





Einu sinni sá ég bíómynd sem hét "Attack of the 50 ft. woman"  og skartaði Daryl Hannah í aðalhlutverki. Þetta var afspyrnuléleg mynd og líklega flestir búnir að gleyma henni en hún kom þó í hugann þegar Elín Huld stillti sér upp til myndatöku í gamla eldhúsinu á Bergstöðum. EH verður seint talin hávaxin en virkar hreint risavaxin þar sem hún stendur á þykkri "gólfábreiðu" úr sauðfjárafurðum og styður höndum á loftið:





Þegar út var komið tókum við eftir því að járnkrossinn á steinvörðunni var áletraður á bakhliðinni (sem kannski var þá framhliðin). Á honum stendur:  "Hildur húsfrú Eiríksdóttir. Fæddist 18 sept. 1808. Dó 6. apr. 1879. Giptist tvisvar og eignaðist 10 börn"

Nánar HÉR.





Næsti bær innan við Bergstaði er Leifsstaðir. Þar er búi brugðið og enga hreyfingu að sjá lengur. Hús eru þó þokkaleg og virðast í einhverri notkun og hirðu:








Innan við Leifsstaði er stórbýlið Steiná handan ár til hægri og fyrir miðri mynd sést eyðibýlið Hóll. Íbúðarhúsið í grænum bletti ofan gils en útihúsin niðri við Svartá:





Á leið að Steiná og Hóli ókum við fram hjá lítilli tjörn ofan vegar. Yfir hana voru strengdar grannar línur og á vatnsyfirborðinu mátti sjá fjölda smáhringja - tjörnin var full af seiðum sem líklega var verið að ala til sleppingar í Svartá og línurnar þá til að verja ungviðið gegn fugli.





Hér að neðan er horft heim að stórbýlinu Steiná og á þeirri efri er í forgrunni síðari brúin sem í upphafi var nefnd. Við myndjaðar vinstra megin sér til húsa að Hóli:





Heima á Steiná var kúarektor á leið upp heimtröðina með hjörð sína:





Séð heim að Hóli. Fari ég rétt með munu fjölskyldur á Hóli og Steiná hafa verið nátengdar enda stutt milli bæja og vel búið beggja megin:





Við Hól beygir Svartárdalur krappt til austurs en síðan fljótlega aftur til suðausturs og liggur þá líkt og áður. Upp af Hóli gengur hins vegar þröngur Hólsdalur og endar í mýrarmóum en fjallstungan sem skilur á milli heitir Öxi.

Innan við þessa bugðu á Svartárdal eru nokkur býli og er fyrst að nefna Skottastaði, eyðibýli þar sem lítt sér lengur til húsa. Rétt þar framan við sem dalurinn hefur náð fyrri stefnu til suðausturs er býlið Hvammur, einnig í eyði að sjá en vel hýst. Þegar við EH ókum þarna hjá varð mér hugsað til allra þeirra rúmmetra í húsbyggingum sem liggja lítt eða ekki notaðir utan alfaraleiða en teldust tugmilljóna virði nær þéttbýli. Það væri ekki amalegt að eiga aðgang að svona höll einhversstaðar nærri borginni:








Hér að neðan er horft frá veginum ofan og innan við Hvamm, niður að innri bugðunni á Svartárdal en undir hvarfinu fjær ( fyrir miðri mynd) stendur býlið Steiná og sést því ekki. Í forgrunni myndarinnar er grjóturð sem liggur neðan við litla dalræmu er gengur þvert austur úr dalnum og nefnist Hvammsdalur. Það er til tenging við þessa grjóturð, nefnilega HÉR:





Næsta býli framan við Hvamm var Kúfustaðir og sé rétt með farið er þessi litla bogaskemma meðal þess sem eftir stendur af því býli. Íbúðarhús er ekki en hluti útihúsa og virðist í einhverri notkun. Ég ætla að tengja yfir á ágæta mynd frá Mats (MWL) sem tekin er fram Svartárdal og sér vel til útihúsa að Kúfustöðum, m.a. má sjá litlu bogaskemmuna fremst. Tengillinn er HÉR og innar á myndinni sér fram að býlinu Stafni.





Stafn er myndarbýli að sjá og ekki veit ég betur en þar sé enn búið ágætlega þrátt fyrir áföll eins og HÉR er lýst. Stafn er fremsti bær í Svartárdal og af því tilefni er tilvalið að setja inn skemmtilegan ferðatengil með ágætri lýsingu á landi og háttum.





Litlu innan við Stafn greinast leiðir. Eins og sjá má á skiltunum liggur héðan vegur um Kiðaskarð yfir að Mælifellsá í Skagafirði og sá vegur greinist svo víða, m.a. inn á Kjöl eins og ég nefndi í fyrsta hluta. Einnig liggur stuttur vegspotti fram að Stafnsrétt, en réttardagar að Stafnsrétt eru heimsfrægir um allt Ísland eins og kynnast má HÉR, HÉR og HÉR





Þriðja greiningin liggur svo fram í Fossárdal því nú vorum við komin inn úr sjálfum Svartárdal og okkar leið lá fram Fossárdal að býlinu Fossum.





Af veginum fram að Fossum sést vel yfir Stafnsrétt. Nú var þar lítið um að vera, einn jeppi var á ferð þar í grenndinni og hafa  menn líklega verið að huga að ástandi réttarinnar fyrir haustið.





Vegurinn fram Fossárdal var engin hraðbraut, skemmtilega bugðóttur og þröngur en sléttur og ágætur yfirferðar. Náttúrufegurðin var líka ósvikin.......





Ekki veit ég hvort búskapur er enn stundaður að Fossum allt árið en hitt er víst að allt er þarna í góðri hirðu og ekkert lát að sjá á mannvirkjum og tækjum. Ég má til að tengja eina sögu við Fossa. Svo má líka skoða HÉR.





Við Fossa liggur vegur upp úr Fossárdal inn á Eyvindarstaðaheiði. Þessi vegur togaði í okkur, veðrið var enn ágætt og ekki mjög áliðið dags, eða rétt um sjöleytið. Okkur fýsti ekki að aka niður Svartárdal aftur ef annað væri í boði og lögðum því á heiðina. Kortið okkar benti til að innarlega á leiðinni væri greining niður í Blöndudal, við vorum búin að skoða leiðina fyrir nokkru bæði á kortum og loftmyndum og því lá beint við að velja hana.  Við lögðum á brattann (sem í raun var enginn bratti fyrir þann sem nýlega hefur ekið í Færeyjum....)

Þegar upp er komið þangað sem heitir Litliflói er ágætt útsýni inn yfir Fossárdal og litli hvíti depillinn í hlíðinni vinstra megin ofan árinnar eru leifar eyðibýlisins Kóngsgarðs




Vegurinn um heiðarflákana reyndist nánast vera hraðbraut - svona ef tekið er mið af hálendisvegum almennt og ástandi þeirra í sumar. Hraðast gátum við ekið á 50 km. hraða og hefði einhversstaðar þótt gott - t.d. á Kjalvegi!





Það þyngdi jafnt og þétt í lofti og stöðugt varð rigningarlegra. Við ókum þó í þurru inn alla heiði allt þar til vegir greindust við vegskilti, annars vegar - til vinstri og suðurs - var vegtenging inn á Kjalveg og allt inn á sjálfa Eyvindarstaðaheiðina, en til norðurs var merkt leið niður í Blöndudal og sögð 15 km. Á kortaklippunni hér fyrir neðan má nokkuð sjá leiðina. Leið okkar frá Fossum í Fossárdal/Svartárdal er merkt er með rauðu og þegar myndin neðan við kortið er tekin erum við stödd nokkurn veginn í hringnum. Leiðin niður í Blöndudal er svo áfram merkt með rauðu meðan tengingin inn á Kjalveg er auðkennd með bláu:







Stöðugt dró úr birtunni til loftsins þó enn væri langt til myrkurs - enda 22. júlí. Það mátti samt segja að útlitið þarna uppi væri orðið hálf haustlegt, þegar við beygðum við vegamótin niður í Blöndudal og lögðum á veg sem greinilega var ekki mikið ekinn. Hann var í sjálfu sér ekki slæmur og vel greiðfær hvaða jepplingi sem var, en miðjan var gróin upp og gras var í köntum. Á myndinni að neðan er horft til suðvesturs, í átt að Kjalvegi norðanverðum:





Auðvitað komum við svo að einu klassísku "mæðiveikihliði" eins og það var kallað í minni sveit. Á  hliðunum var yfirleitt lítið skilti með svörtum stöfum á hvítum fleti: "Sauðfjárveikivarnir - lokið hliðinu". Aðstoðarekillinn sá um að hleypa ferðadrekanum í gegn:





Eftir því sem neðar dró lækkaði og  nálgaðist  gráminn í loftinu og þegar kom niður á móts við miðja Rugludalsbungu var farið að þéttrigna. Engu spillti þó sú rigning fyrir okkur, við vorum hvorki úti að grilla né í berjamó heldur nutum þess sem gafst af útsýninu og öðru sem fyrir augu bar. Við ókum þennan hluta vegarins mun hægar, eða á 25-30 km. hraða enda var hann heldur síðri eins og áður sagði og maður "skottast" ekki beint á þriggja og hálfs tonns ferðabíl!

Framhjá Rugludalsbungu handan Blöndu, niður með þar sem heitir Steinárháls ( væntanlega kenndur við Steiná í Svartárdal)  og eftir góða stund sá til bæjar handan ár. Það voru Eiðsstaðir, en svo þröngur er dalurinn að enn sáum við ekki til þeirra tveggja bæja sem við vissum að voru framar, Bollastaða sem voru vegmegin (austan Blöndu) og Eldjárnsstaða, vestan ár.:





Svo dró allt í einu úr rigningunni og gráa beltið sem hafði umlukið okkur undanfarinn hálftíma var að baki. Á svipuðum tíma ókum við út háa bakka og undir þeim leyndist bærinn að Bollastöðum. Við hann var veggreiningin, annars vegar heimtröðin og hins vegar sú slóð sem við vorum að ljúka:





Rétt neðan við Bollastaði mátti handan árinnar sjá til Eldjárnsstaða, fremsta bæjar sem enn stendur í Blöndudal,  í u.þ.b. 230 m. hæð yfir sjó.




Við ókum í rólegheitum niður Blöndudal og skoðuðum sveitabæi sem á leið okkar voru, auk þess sem afar gaman var að skoða þau mannvirki Blönduvirkjunar sem við blasa úr dalnum en sjást eðlilega ekki annarsstaðar. Þegar við komum niður undir brúna sem okkar í milli heitir í daglegu tali "hvíta brúin" (og má ekki rugla saman við aðra hvíta brú sem svo er nefnd og er í innan/sunnanverðum Gilsfirði - sjá HÉR ) ákváðum við að fara ekki hefðbundna leið niður Langadal út til Blönduóss heldur aka um brúna og milli Stóradalsháls og Tungunessmúla yfir að kirkjustaðnum Svínavatni. 





Þegar heim kom að Svínavatni og litið var um öxl mátti sjá hvar kólgan fylgdi okkur niðureftir. Blíðviðrið við Bollastaði hafði þá aðeins verið vegna þess að þótt okkar ferðahraði væri ekki mikill var hann þó aðeins meiri en rigningarinnar. Hún áði aldrei heldur nálgaðist jafnt og þétt ........





Að Svínavatni er rekin gistiþjónusta og var sýnilega talsvert af fólki á staðnum. Okkur vanhagaði svosem ekki um neitt - við vorum hins vegar orðin svöng enda klukkan orðin hálfníu og því komið talsvert fram yfir kvöldmatartíma. Við lögðum ferðadrekanum á bílastæði við kirkjugarðinn og undirbjuggum útiborðhald í blíðviðrinu. Það voru ekki margar gárurnar á Svínavatni þetta kvöldið:





Það er ekkert að marka það þó eðalhundurinn Edilon Bassi Breiðfjörð Eyjólfs- og Elínarson Thorsteinsson Budenhof Sandhaug Sóðalöpp sé svona sultarlegur. Hann hafði nóg að borða en er hins vegar sérfræðingur í sérstökum eymdarsvip ef hann heldur að einhver annar sé með eitthvað betra.....





Eftir mat og kaffi var ætlunin að skoða kirkjuna að Svínavatni en hún var harðlæst. Við urðum dálítið hissa enda ekki venjulegt um sveitakirkju sem stendur heima á bæjarhlaði. Kirkjan að Höskuldsstöðum hafði verið opin, einnig Flugumýrarkirkja. Kannski var Svínavatnskirkja læst af gefnu tilefni, ég veit það ekki og við vorum ekkert að trufla húsráðendur í önnum til að fala lykil heldur létum okkur duga að skoða það sem sást. Að venju reyndi ég að mynda inn um glugga en það gafst ekki vel:  






EH tók útimyndina og að venju er hún betur heppnuð. Ef þessi mynd er borin saman við myndina í hlekknum hér ofar má ekki betur sjá en ytri klæðning hafi veið endurnýjuð frá Kirkjukortsmyndinni. Ég man ekki betur en ég hafi séð vinnupalla við kirkjuna fyrir tíu árum eða svo, og líklega er þetta ný klæðning:





Frá Svínavatni ókum við að Auðkúlu og þar var annað uppi á teningnum. Kirkjan var ólæst og í gestabók hennar hafði verið letruð þökk til umsjónarfólks fyrir að hafa kirkjuna opna. Auðkúlukirkja var endurbætt mikið fyrir nokkrum árum en betur má ef duga skal og gamlar timburkirkjur verða ekki eilífar við endurbyggingu - þær þurfa stöðugt viðhald eins og sjá má á spírunum í þakinu. Ég hef áður lýst skoðun minni á svona spírum (sjá Reyki í Steinsstaðabyggð) og geri það ekki frekar. Hitt er annað mál að þar sem þær eru á annað borð er sjálfsagt að halda þeim í lagi:








Sexstrendar kirkjur eru alltaf dálítið sérstakar að innan enda bekkjaröðun frábrugðin því hefðbundna. Allt var þéttara og þrengra án þess þó að vera til lýta því kirkjan er ekki bara afar sérstök heldur einstaklega falleg.















Frá Auðkúlu ókum við vestur sveitina, norður með Svínavatni, hjá Húnavöllum og út á þjóðveg eitt við Stóru- Giljá. Þegar við ókum meðfram Svínavatni var klukkan rétt um tíu að kvöldi og tilsýndar virtist stórbruni á Blönduósi:





Svo var slegið í amerísku hrossin og þeyst beina leið til Hvammstanga. Þar skyldi nóttinni eytt og þar skyldi morgundagurinn hefjast með ferð út Vatnsnes. Veðurspá komandi dags benti til þess að brátt brygði blíðviðrinu og því um að gera að nota tímann meðan veður gæfist. 
Þegar ekið var frá hringveginum áleiðis út að Hvammstanga virtist enn brenna - en nú norður á Ströndum: 





Það fór ágætlega um okkur á tjaldsvæðinu í Kirkjuhvammi ofan þorpsins á Hvammstanga. Talsvert var af gestum og eins og á öðrum tjaldsvæðum sem við höfðum skoðað í ferðinni var einnig talsvert um skemmdir af völdum þungra ferðatækja. Við hættum okkur ekki út á grasið frekar en fyrr en lögðum á malbikuðu plani ofan við gömlu kirkjuna. Þar var ágætt að vera. 

Að morgni var besta veður, ágætlega bjart og allar rigningarspár virtust fjarstæðukenndar. Við lukum morgunverði og lögðum því næst upp að nýju og nú út með Vatnsnesi. Fyrsti viðkomustaður okkar var eyðijörðin Stapar. Þar fæddist Guðmundur Bergþórsson skáld, sem þekktur var á sinni tíð og síðan, m.a. fyrir rímnakveðskap. Sjá fróðleik um Guðmund HÉR, HÉR og HÉR. Fyrir nokkrum árum var Guðmundi reistur minnisvarði við þjóðveginn hjá Stöpum, sjá HÉR.

Myndin er tekin af klettunum ofan við bæinn að Stöpum, niður yfir bæjarhúsin. Ég vil fullyrða að Stapar séu eitt alfallegasta bæjarstæði á landinu og synd að sjá hvernig húsum hnignar:







Frá Stöpum héldum við áfram út nesið að Tjörn en beygðum þar af leið sem vegur greinist  af þjóðveginum og liggur fram í tvo dali. Sá vestari er Þorgrímsstaðadalur og er samnefndur bær framarlega enn í byggð. Sá eystri er Katadalur, kannski helst eftirminnilegur vegna þess að á samnefndum bæ austan til í dalnum ólst upp og bjó Friðrik Sigurðsson sá er varð Natani Ketilssyni að bana á Illugastöðum. Að Katadal er ekki lengur búið hefðbundnu búi en vel búið engu að síður:





Andspænis Katadal að vestanverðu er - eða var - býlið Egilsstaðir. Nú sumardvalarstaður, og það er ekki laust við að manni finnist þeir sem yfir þessum tveimur býlum ráða, vera eins og kóngar í eigin ríki, einir í dalnum sínum þar sem fáir eiga leið um........





Kannski má segja þetta sama um Þorgrímsstaði. Þeir standa líkt og konungsríki innst í sínum eigin dal þar sem fáir eiga leið um nema þeir sem beinlínis eiga erindi og svo einn og einn forvitinn ferðalangur.







Þessi gamli Landróver stendur við túnfótinn líkt og hliðvörður konungs - eða kannski frekar skýli hliðvarðar? Skjól fyrir skólabörn að bíða eftri skólabíl? Skjól fyrir póstinn sem fer ekki lengra en að túngarðinum af því reglurnar mæla svo fyrir? Hver veit. Einhver setti hann þarna í einhverjum tilgangi. Allt hefur sinn tilgang, jafnvel gamall Landróver í einskismannslandi.........





Þorgrímsstaðir eru reyndar ekki eini bærinn í dalnum, fyrir miðjum dal er býlið Ásbjarnarstaðir og þeir áttu Landróvera. Að Ásbjarnarstöðum virtist annars búið stórbúi og höfðinglegt heim að sjá. Ég tók enga mynd þar en Mats Wibe Lund á nokkrar stórgóðar og þar með þessa HÉR.  Á henni er horft út Þorgrímsstaðadal í átt að Tjörn og allt til Hindisvíkur. Enn er ótalið eyðibýlið Tunga við mynni Þorgrímsstaðadals en þar er búi löngu brugðið og hús hálffallin eða alveg.

Niður Þorgrímsstaðadal rennur Tunguá til sjávar rétt neðan við Tjörn og er þjóðvegurinn brúaður yfir hana. Niður Katadal rennur samnefnd á og tengist Tunguá. Vegurinn fram í dalina tvo er brúaður yfir Katadalsá þar sem áin rennur í fallegu gili niður að Tunguá og sameinast henni litlu neðar:






Við vorum ekki á leið fyrir Vatnsnes í þetta sinn heldur ókum til baka inn nesið og áðum stutta stund að býlinu Geitafelli, þar sem hluta bæjarhúsa hefur verið breytt í veitinga- og gististað en önnur eru nýbyggingar. Þarna er skemmtilegt um að litast, veitingahúsið bauð upp á fiskisúpu og svo margt var í mat að við ákváðum að okkar tími yrði síðar.....




Frá Geitafelli ókum við viðstöðulaust inn á Hvammstanga aftur, höfðum þar stutta viðdvöl en ókum því næst inn að Bjargi í Miðfirði. Þar litum við á minnismerki um dvöl Grettis Ásmundarsonar en ókum síðan út að Laugarbakka og gerðum talsverða leit að sundlauginni sem þar átti að vera skv. sundlaugalistanum góða. Frá þeirri leit og lyktum hennar segir í þriðja hluta......

Gott í bili.
----------------------------------------------------

Flettingar í dag: 27
Gestir í dag: 7
Flettingar í gær: 209
Gestir í gær: 40
Samtals flettingar: 64803
Samtals gestir: 16811
Tölur uppfærðar: 28.4.2024 02:36:32


Tenglar