Gunnar Th.
Fjórða kerfið.....


Færslur: 2015 September

28.09.2015 21:22

Enn mánudagur, að þessu sinni sá tuttugastiogáttundi...


 Það sér fyrir endann á honum septa - mánaðamótin sem svo margir bíða eftir eru um miðja viku og í upphafi nýs mánaðar er stefnan sett á Stykkishólm. Nú á að vetrarbúa Stórskipið Stakkanes með stroffum, köðlum og öðru því sem að gagni má koma í vályndum vetrarstormum.

Tuttugasti og annar dagur þessa mánaðar verður lengi hafður í minnum. Ég mun allavega muna hann til lokadags því klukkan sautján fimmtán þann dag fæddist lítil dama - sem ég á þónokkur prósent í - uppi á Akranesi. Þegar komið var eina átta eða níu daga fram yfir áætlaðan lendingartíma storksins var talað við "konu að vestan" en eins og allir þekkja vita konur að vestan lengra nefi sínu. Þessi kona að vestan hefur starfsstöð á spítalanum uppi á Akranesi og tók skottuna mína undir sinn verndarvæng. Árangurinn varð ofannefnd dama, hraust og heilbrigð en dálítið hávær eins og gengur (og genin bjóða). Skottunni minni, sem nú er orðin mamma, gekk fæðingin vel og átakalítið - og ég, sem var bara pabbi fram til kl. sautján fimmtán varð afi á sama augnabliki. Svona breytist heimurinn hratt og þarf ekki Golfstrauminn til.

Ég á enga mynd ennþá en á eflaust eftir að eignast nokkrar.


Í síðustu færslu þóttist ég vera á leið niður í bæ að skoða sumardót. Jújú, ég skoðaði svo sem sumardót en mér er hins vegar farið að lítast illa á blikuna hvað varðar veðurfarið. Ef eitthvað er eftir af þessu örstutta sumri þá mætti það alveg fara að sýna sig, svona áður en búðirnar byrja á jólaauglýsingunum. IKEA hefur undanfarið boðið upp á steiktan lambaskanka og ég er búinn að fara þangað í þónokkrar veislur. Ef mér skjátlast ekki verður fljótlega farið að bjóða upp á hangikjöt þar og allir vita hvað það þýðir. Þess vegna held ég að allar vangaveltur um sumardót verði settar í kælinn að sinni - ekki er það þó alveg víst en skýrist á næstu dögum.

Ég skrifaði hér ofar að til stæði að vetrarbúa Stakkanesið. Það er dálítið skrýtin tilhugsun því ég ól von um að geta notað bátinn mun meira á þessu sumri en raun varð. Aðstöðuleysið þarna uppfrá háir mér mikið og þegar ferðabíllinn var seldur og stéttarfélagsíbúðin stöðugt í útleigu var fátt til ráða um gistingu. Ég er með hálfgerða "neyðarreddingu" í undirbúningi en þarf að leita varanlegri lausnar ef báturinn á að vera áfram þarna uppfrá. Frá áramótum og fram yfir verslunarmannahelgi varði ég drjúgum tíma í Hólminum en ef litið er yfir skrif sumarsins sést að Stakkanesið var ekki mikið notað þann tíma þótt það væri mikið á floti. Ástæðan var aðallega stöðugur og stífur vindur og þvert á það sem halda mætti þá gladdi það mig um daginn að heyra þrautsjóaðan Breiðfirðing tala um líðandi sumar sem "hundleiðinlegt". Það staðfesti þá það sem mér hafði fundist en hafði svo sem ekki stóran reynslubanka að sækja í. Nú er semsagt mín skoðun staðfest - sumarið var hundleiðinlegt!  M.a.s. kajakinn sem keyptur var snemmsumars hefur lítið verið notaður og ekkert er á leið. Hann hangir bara inni í geymslu ásamt tvíbura sínum og bíður betri tíma.

Frá því síðast var hamrað á lykla hefur ekkert verið (bif)hjólað enda tíðin ekki uppáþaðbjóðandi.....

Mig langar að vera fúll en sem nýbakaður afi get ég það ómögulega. Klukkan er 22.03 á þessu mánudagskvöldi og við Edilon Bassi erum farnir út að fá okkur ís!




21.09.2015 08:21

Mánudagur 21.9. 2015



Enn er liðin vika frá því síðast var eitthvað fært til bókar. Liðin helgi var það sem kallað er "löng helgi" í vinnunni, þ.e. þrír sólarhringar réttir. Þannig er önnur hver helgi og stendur frá kl. 16 á föstudegi til kl. 16 á mánudegi. Á móti kemur svo "stutt helgi" sem stendur frá miðnætti á föstudegi til kl. 08 á mánudagsmorgni. Nú er semsagt löng helgi og þess vegna hef ég tíma til að sitja við tölvu og pikka þegar aðrir vinna.

Þennan morguninn stendur ein frétt á Vísi.is upp úr grárri flatneskjunni. Slóðin á hana er HÉR en ég á ekki von á öðru en að fréttin verði lagfærð um leið og málsmetandi fólk á miðlinum vaknar. Þess vegna ætla ég að líma þessa stórkostlegu málnotkun fasta hér fyrir neðan:

 

Togarinn Arinbjörn RE, sem fékk á sig leka á Vestfjarðamiðum, siglir nú áleiðis til hafnar fyrir eigin vélarafli og er væntanlegur til Reykjavíkur um hádegi þar sem hann verður tekinn í slipp til viðgerðar.

 Þegar lekans varð vart óskaði skipstjórinn strax eftir aðstoð og var björgunarskip Landsbjargar þegar sent út frá Ísafirði með auka dælur ef á þyrfti að halda en ekki kom til þess að grípa þyrfti til þeirra.

 Kafarar fundu svo orsök lekans og náðu að gera við til bráðabirgða og hélt togarinn fyrst til Ísafjarðar þar sem frekari viðgerð fór fram, áður en haldið var af stað til Reykjavíkur.


Það er þegar búið að benda - réttilega - á í umsögn undir fréttinni að togarinn Arinbjörn hafi fyrir löngu verið seldur  - sjá HÉR - og  horfið úr landi. Togarinn var reyndar seldur fyrir tuttuguogsex árum til Akureyrar og hét eftir það Hjalteyrin. Árið 1997 var hann síðan seldur til Skotlands. Allt er þetta skráð og skjalfest. 

Svo er þetta dæmalausa orðalag, "...sem fékk á sig leka.....". Þetta æpir á mann bæði í fyrirsögn og fyrstu línu fréttarinnar. Hingað til hafa skip aðallega fengið á sig brot eða hnúta, en að fá á sig leka er eitthvað alveg nýtt. Orðalagið er hins vegar í stíl við margar þær fréttir sem skrifaðar eru á netmiðlana utan venjulegs vinnutíma og það þykir mér benda til að næturvinnan sé unnin af reynslulitlu fólki en ekki sjóuðum blaðamönnum. Kannski er þetta sama fólkið og svaf í íslenskutímum grunnskólanna af því þeir voru svo leiðinlegir......hver veit?

Nú um liðna helgi átti að vísitera Stakkanesið í Hólminum. Ferðin var ráðgerð í gær, sunnudag en þegar veðurspákkan á RUV laugardagskvöldsins hafði þulið fræði sín var ekki að sjá neitt ferðaveður í þeim fræðum. Vísitasjónin var því slegin af. Í gærmorgun var hið skaplegasta veður í Höfðaborg en skítviðri að sjá til Akraness. Ég treysti minni veðurspákku og fór hvergi. Í gærkvöldi átti ég svo tal við Hólmara sem kváðu daginn hafa verið hreint dásamlegan þar í bæ.

Nú hef ég skrúfað álitið á veðurspákku RUV niður um sex á skalanum einn til tíu.

Eitthvað var hjólað í vikunni. Ég átti erindi austur að Ljónsstöðum (sem eru rétt neðan og austan við Selfoss) og fór þangað eftir vinnulok á miðvikudaginn, enda var þá málverki fyrir EH að mestu lokið. Enginn hafði tök á að koma með og af því ég fór þá einn var tilvalið að nýta sólbjart síðdegið til að slá saman vinnu og skemmtun og renna á rauðu skellinöðrunni austur fyrir fjall. Umferðin yfir Hellisheiðina gekk ekki andskotalaust fyrir sig vegna vegavinnu en gekk þó - með ótal stoppum og keilustýrðum afvegaleiðslum - og eflaust verður heiðin mjög fín þegar öllu lýkur. Við Hveragerði hélt ég að allar hremmingar væru að baki en við stóra hesthúsið rétt sunnan við Kotströnd tók ekki betra við. Fram að því hafði ég ekið (já, eða hjólað...) í mátulegum vindi en þarna í beygjunni skall á hreint helvítis hávaðarok ofan af Ingólfsfjalli. Ég var ekki einn um að finna fyrir rokinu því bæði aftan og framan við mig voru smábílar sem snögghægðu ferðina og hraðinn frá hesthúsinu að Selfossi var rúmir sjötíu km. og hægði heldur á er nær dró bænum enda bætti hlutfallslega í vindinn. Þarna var verulega erfitt að vera á 214 kg. hjóli og eitt augnablik örlaði á smáskilningi í garð þeirra sem kjósa að aka stórum og klettþungum mótorhjólum - það hefði vissulega komið sér vel að hafa svo sem hundrað kíló í viðbót. Allt hafðist þó að lokum og ég komst klakklaust austur að Ljónsstöðum. Þar hitti ég kunnuglegan afgreiðslumann frá vélsmiðjuárunum vestra (1980-´91) sem á þeim árum var alltaf kallaður Tarzan (hann les þetta ekki) vegna tilhneigingar til að ganga í hlýrabol sumar og vetur. Hann mátti eiga það strákurinn að hann var helvíti stæltur í þá daga og svei mér ef ekki eimdi enn af því. Skemmtilegur náungi, Halldór og fínn vinnufélagi. Við rifjuðum upp nokkra góða og gamla daga um leið og erindið var afgreitt. Svo var kvatt og haldið af stað að nýju en nú um Eyrarbakka og Þrengslin. Þar var öllu skaplegra veður og þótt vissulega væri hvasst voru sviptivindarnir úr Ingólfsfjallinu víðs fjarri. 

Daginn eftir, fimmtudag, var enn sól og blíða. Ég sendi generálnum skeyti til Sandgerðis og í framhaldinu var afráðið að eyða dálitlu bensíni í dagslok. Þegar vinnu lauk um fjögur var þeyst heim, sturtað og íklæðst leðrinu. Generállinn var klár í Sandgerði og við hjóluðum um Ósabotna og Hafnir suður að virkjun og þaðan á glænýju malbiki með snjóhvítum merkingum austur með sjónum til Grindavíkur. Í Grindavík fundum við okkur kaffihús og settumst yfir bolla og sjónvarpsfréttir. Nærri klukkutíma síðar dóluðum við til baka sömu leið og þegar búið var að setja  hjól generálsins aftur í geymslu beið okkar kvöldverður heima hjá honum. Klukkan var orðin um ellefu að kvöldi þegar ég renndi í hlað í Höfðaborg og þegar ég kom heim var orðið ljóst að gamla, munstraða ullarpeysan sem ég erfði eftir hann pabba hafði unnið stórsigur undir leðrinu því þótt hitastigið væri verulega farið að falla og ég væri á glerlausu hjóli fann ég varla fyrir kulda á bringunni. Svo lengi lærir sem lifir..........

Enn er ég ekki orðinn afi og þó eru liðnir einir níu dagar frá því asdikið þarna uppi á Lansa reiknaði fæðingardag. EH flaug til Brighton sl. fimmtudagsmorgun og var sannfærð um að þar með fengi ég að sjá afa/ömmubarnið á undan henni. Hún kom til landsins aftur í gærkvöldi og missir því vonandi ekki af neinu. 

Það er, eins og segir í fyrirsögn mánudagsmorgunn tuttugasti og fyrsti september og það er bjartviðri þótt ekki nái enn að þorna upp eftir helgarrigninguna. Nk. miðvikudag eru haustjafndægur og þá er fyrst fyrir alvöru hægt að hlakka til vetrarins. Vonandi er samt enn langt í hann því ég er á leiðinni niður í bæ að skoða sumardót sem mig langar í. 

Dag skal að kveldi lofa............






...................................................


13.09.2015 08:33

Enn sunnudagur....



 Það er enn kominn sunnudagur - vika frá síðustu dagbókarfærslu og enn stendur veröldin í stað, eða því sem næst. Nú er dagsljóst að náttúran fer ekki eftir neinni nútímaspátækni heldur fer sínar eigin leiðir. Ég hefði átt að verða afi í gær samkvæmt tölvuspám en það gekk ekki eftir og nú veit ég að sónarinn sem ég er með í trillunni og mælir sjávardýpi er miklu öruggari sónar en þetta hjúkkudót.....

Þannig er nú það. Frá síðasta sunnudegi er liðin heil vinnuvika - hér í Höfðaborg er vinnuvikan yfirleitt sjö dagar - og auk þess að laga vagna og lyftara Óskabarnsins hefur nokkrum vinum og kunningjum verið hjálpað með ólíkustu vandamál. Nú er t.d. verið að mála íbúð sem Elín Huld var að fjárfesta í og ætlar að flytja í á næstunni. Þar með höfum við bæði brotið það loforð sem við forðum gáfum sjálfum okkur og fleirum vestur á Ísafirði, þ.e. að flytja aldrei til Reykjavíkur. Eftir flutninga suður bjuggum við saman í Kópavogi alls tólf ár. Eftir það flutti ég til Reykjavíkur en hún bjó áfram á öðrum stað í Kópavogi. Nú fellur seinna vígið og EH flytur í Árbæinn ásamt trippinu Bergrós Höllu ( sem þessa dagana æfir stíft fyrir afleysingahlutverk með Hinemoa ) og Sultu, sem hefur stækkað umtalsvert síðan þessi mynd var tekin á Þórshöfn í fyrrasumar:



Úti er rigningarúði, ekki mikill en þó nægur til að bleyta allt. Í gær var "loftadagur" í nýju íbúðinni hennar EH og þegar þeirri yfirferð lauk mátti ég til að smessa á generálinn í Sandgerði. Það brast nefnilega í einmunablíðu er leið á gærdaginn, nokkuð sem hefur ekki gerst í tvær vikur eða síðan við fórum Vestmannaeyjareisuna þarsíðustu helgi. Þess vegna var tilvalið að viðra hjólin og ætli klukkan hafi ekki verið rétt rúmlega nítján þegar við hittumst í útjaðri Sandgerðis. Þaðan var svo dólað suður með ströndinni, að Stafnesi, í Hafnir og að Reykjanesvirkjun. Spottinn niður að vita er malarvegur og þótt vissulega hefði verið gaman að fara niður að Valahnjúk var vegurinn forugur eftir rigningartíðina og við vildum ekki ata út krómið........



Myndin að ofan er líklega tekin rétt rúmlega átta (20) og heiðríkjan yfir Reykjavík stóð stutt. Það dró hratt í loft og um leið dimmdi. Það var orðið verulega rökkvað þegar myndin var tekin og ég held hreinlega að myrkið hafi skollið á meðan við ókum til baka - nú til Keflavíkur og ekki á gönguhraða. Fylgdum Reykjanesbrautinni út að flugstöðvarafleggjara og ókum ( eða hjóluðum, eins og sumir segja nútildags....) gegnum Garðinn og út í Garðskagavita. Þar var þessi mynd tekin og þótt myndin sé ekki góð er gamli vitinn fallegur svona upplýstur og himinninn stórkostlegur í ljósaskiptum:



Þótt sumarið sé að líða undir lok var slæðingur af "gistieiningum"  (mér finnst þetta algerlega stórkostlegt nýyrði hjá þeim Dalvíkingum) á tjaldsvæðinu, bæði erlendum og innlendum. Við generállinn höfðum hins vegar hvorugur hugsað okkur að gista því í Sandgerði beið okkar kvöldkaffi og meððí. Það var auk þess farið að kólna talsvert í lofti og þótt Goretexgalli generálsins skýldi vel var leðrið mitt orðið assgoti kalt og þunn ullarpeysan undir náði ekki að halda hita þegar komið var upp í löglegan ferðahraða. Þess vegna var notalegt að koma í ylinn í eldhúsinu í Sandgerði, þegar búið var að taka (perlu)hvítu perluna generálsins á hús.

Klukkan var svo farin að ganga ellefu þegar ég hélt heimleiðis á rauðu skellinöðrunni. Ég átti val um tvennt á Reykjanesbrautinni - að aka undir löglegum hraða svo ullin næði að halda hita undir leðrinu eða slá í og vera snöggur heim. Ég valdi annað.......svo hitt.

Það ýrði dálítið úr lofti um miðja Strandarheiðina en við Straum var orðið þurrt. Þegar heim í Höfðaborg kom var þar sama blíðan og við brottför - mínus sólskinið - og ég hefði vel kosið að halda áfram eitthvert annað, ef kuldinn á bringunni hefði ekki rekið mig inn og hjólið á hús!


Tvennt er enn ósagt. Annað: Vinnufélagi minn - Ísfirðingur -  hélt til útlanda á dögunum ásamt fimm öðrum. Á undan sér sendu þeir jafnmörg mótorhjól og er ferðinni heitið frá Hollandi niður Evrópu og um Alpana til Ítalíu yfir Stelvio skarð -sjá HÉR- . Hafi ég skilið rétt liggur leið þeirra alls um fjögur Alpaskörð en Stelvio mun vera það hæsta. HÉR má einnig sjá áhugavert myndband frá skarðinu en ég giska þó á að hraðinn á sexunni verði aðeins minni.......

Svo er hitt. Kannski mætti ætla að Stakkanesið væri alveg gleymt, þar sem það stendur uppi í Skipavík við Stykkishólm. Ekki er það nú alveg, en annir undanfarinna vikna hafa sett strik í þann reikning ásamt sitthverju öðru. M.a. var ferðabíllinn seldur svo ekki er athvarf að hafa í honum. Þá hefur hús stéttarfélagsins verið nær stöðugt í leigu frá því ég var þar um verslunarmannahelgi og því ekki athvarf þar heldur. Nú er beinlínis unnið að því að koma þessum "athvarfsmálum" í stöðugra horf en það tekur einhvern tíma enn. Það verður líklega ekki fyrr en í október sem næst gefst tækifæri til að sigla Stakkanesinu en eftir það verður gert vetrarklárt.

Gott í bili.........







.................................................

06.09.2015 09:43

Þokukenndir dagar....


Það er einmitt þannig - dagarnir eru þokukenndir og síðasti sólardagur sem stóð undir nafni var síðasti laugardagur (29.ágúst).  Það var Eyjadagur okkar generálsins og síðan er vart hægt að segja að sést hafi til himins fyrir misgráum skýjaflókum og/eða þokubökkum. Svei mér ef þetta helvíti er ekki farið að fara á sinnið í manni!

Neei, svo slæmt er það nú varla. Mig grunar samt að þeir sem voru á Ljósanótt í Reykjanesbæ hafi lítið séð til ljósa síðastliðin tvö kvöld. Mig minnir að þetta hafi verið svona líka í fyrra, endalaus rigning eða súld. Það er slæmt, því þeir sem mest hafa gamanið af svona ljósahátíðum eru börnin. Það verður einhvernveginn minna úr öllu þegar svona viðrar, sérstaklega vegna þess að veðrið bleytir ekki bara - það dregur úr áhuga og þrótti og allt verður risminna en ella......

Síðastliðið miðvikudagskvöld gerði góðviðri í næsta nágrenni Höfðaborgar. Innandyra lauk verkum uppúr átta og þá tók sturtan við og svo leðurgallinn. Hjólið út og rennt suður í Hafnarfjarðarhöfn, þar sem trilluflotinn var tekinn út. Eftir það þrælaðist ég gegnum öll hringtorgin og hraðahindranirnar í Elliðavatnshverfinu, Selásnum og Árbænum því það er ágætt að æfa sig dálítið í þessháttar akstri á mótorhjóli. Það er nefnilega þannig að þótt maður geti sótt í gamla reynslubanka þegar kemur að akstri utan þéttbýlis þá átti ég enga reynslu í innanbæjarakstri - nema þá vestur á Ísafirði. Það var hins vegar innanbæjarakstur á Ísafirði sem þá var - Ísafirði fortíðarinnar -  og höfuðborgarsvæðið á fátt eða ekkert sameiginlegt með gamla Ísafirði þegar kemur að innanbæjarakstri. Ég er þess vegna algerlega reynslulaus í mótorhjólaakstri í borginni og það er ekki gott. Raunar á ég ekki von á mörgum ferðum niður Laugaveginn á hjólinu eða út á Granda - mig langar ákaflega lítið að þrælast gegnum borgarumferðina á hjóli þegar ég á val um annað - en þetta er samt hlutur sem maður þarf að kunna sæmileg skil á. 

Þegar þessi pistill hefst, að morgni sunnudagsins 6. september er heldur að létta til kringum Höfðaborg og kannski verður hægt að taka Hvalfjarðarhring þegar líður á daginn. Svo get ég upplýst, af því að það er svosem á allra vitorði, að nú eru nákvæmlega sex dagar þar til ég verð afi í fyrsta sinn - útreiknað af nýjustu tölvukerfum. Nú er bara að vita hvort náttúran fer eitthvað eftir tölvum.......

Af því það er frekar lítil hreyfing á síðum skipaáhugamanna - og þá á ég við alvöru mynda- og fróðleikssíður - þá langar mig að birta nokkrar gamlar myndir úr safninu. Fyrsti báturinn er Fauinn hans Magna í Netagerðinni (á Ísafirði). Magni sendi mér þessa fyrir löngu síðan. Hún er tekin á Prestabugtinni utan við þorpið að Eyri í Skutulsfirði og Fauinn er á heimsiglingu. Miðað við skuggann á stýrishúsinu er glampandi sumarsól:




 Sú næsta sýnir ekki skip heldur aðeins hluta af skipi - þetta eru ketill og vél ásamt undirstöðum úr nýjum togara, Ásu, sem strandaði á heimleið úr sinni fyrstu veiðiferð. 





 Þessi hefur birst áður. Hún er af Gunnhildi ÍS sem strandaði undir Óshlíð 1961 og ég vísa í ÞESSA færslu Tryggva Sig. til upplýsingar






Ég er ekki viss um að ég hafi birt þessa áður. Hana tók pabbi á sínum tíma þegar Guðbjartur Kristján ÍS - síðar Orri ÍS og Albatros -  kom nýr til Ísafjarðar. Mér hefur ekki tekist að ráða í nafn togarans aftar en líklega er hann breskur:





Ég giska á að þetta sé Tröllafoss, sem þarna liggur við Bæjarbryggjuna á Ísafirði. Ég hef ekki ártalið en er handviss um að myndin er tekin af Árna heitnum Matthíassyni, rakara og ljósmyndara. Árni tók mikið af myndum gegnum árin og þónokkrar þeirra féllu til pabba þegar Árni dó vorið 1971.




Árni myndaði m.a. fyrir Morgunblaðið og ef smellt er HÉR má sjá skemmtilega frétt með mynd Árna.

( Vinsaml. ath. að það getur tekið dálítinn tíma fyrir slóðirnar að hlaðast inn, bæði þessa og þá á Ásustrandið. Slóðir á -timarit.is - eru stundum dálítið hægar...)

Ég lýk skrifum hér að sinni. Það er kominn mánudagsmorgunn 7. september og vonin um að hægt yrði að nýta sunnudaginn til útiveru gekk ekki eftir. Þrátt fyrir góð fyrirheit um birtu og uppstyttu undir hádegi dimmdi aftur í lofti er á leið og undir kvöld var aftur komin sama þoku- og súldarfýlan sem fyrr. Dagurinn endaði því líkt og hann hófst, með inniveru og gluggasetu. Helgin er liðin og mál að sinna brýnni verkefnum en nethangsi!



  • 1
Flettingar í dag: 274
Gestir í dag: 73
Flettingar í gær: 209
Gestir í gær: 40
Samtals flettingar: 65050
Samtals gestir: 16877
Tölur uppfærðar: 28.4.2024 17:20:50


Tenglar