Gunnar Th.
Fjórða kerfið.....


29.07.2014 16:30

Í Færeyjum - 8.hl. ferðasögu


 7.hluta lauk að kvöldi sunnudagsins 22. júní í þoku og rigningu. Staðsetningin var óviss, það lá fyrir að við værum á Suðurey, syðstu eyju Færeyja og hefðum ekið veg upp frá Þvereyri (Tvöroyri) sem merktur var "Hvalba". Af þessum vegi lá svo grasi gróinn afleggjari eitthvert út í móðuna og hann höfðum við ekið til að finna náttstað. Það má svo sem kalla allt náttstað en á þeim bletti sem við stöðvuðum á, sem var eiginlega lítið meira en útskot á þessum annars dularfulla slóða, var allt vaðandi í kindaskít og framleiðendur hans voru á sveimi á næstu grösum. Einhvern tíma um nóttina vaknaði ég við ausandi rigningu sem hreinlega buldi á toppi ferðavagnsins og sömuleiðis varð ég var við að hundblautar rollur leituðu skjóls við bílinn því nokkrum sinnum kom hreyfing á hann þegar einhver kindin klóraði sér á stuðarahornum og hjólbogum. Loks þegar dagaði og draga tók úr rigningunni svo marktækt væri hætti ég mér út til að kanna umhverfið. Einhvern tíma um nóttina - eða seint kvöldið áður - varð ég var við bíl sem ók hjá, líklega tvisvar. Mér fannst það dálítið skrýtið því miðað við þá vegi sem við höfðum haft kynni af í Færeyjum gat þessi varla legið annað en upp að einhverju fjárhúsinu - jafnvel þótt hann væri  malbikaður! Þegar ég svo kom út um morguninn var þetta útsýnið, og minnir óneitanlega á fræga lokasenu í kvikmyndinni "Börn náttúrunnar"



Við Elín Huld vorum samt engin "börn náttúrunnar" og hvorugt okkar vonandi á grafarbakkanum. Við ákváðum að leggjast í leit að því tveggja merktra tjaldsvæða sem nær okkur átti að vera og reyna að komast í hreinlætisaðstöðu. Við ræstum ferðadrekann, snerum honum og ókum upp á þjóðveginn (eða svo virtist a.m.k.). Stefnan var tekin á Þvereyri, við ókum undan þokuteppinu sem ekki virtist ná alveg niður að byggð og fljótlega fundum við götur sem áttu að leiða að áðurnefndu tjaldsvæði. Hvergi fundum við þó líklegan stað og eftir að hafa fikrað okkur efst í þorpið, svo ofarlega að við vorum aftur komin í blindþoku varð ekki annað gert en að snúa við:





Niðri í bænum fundum við strax ágæta matvöruverslun með sambyggðu bakaríi og kaffhúsi. Við skelltum okkur í bakaríið og hófum gerð kaupsamnings um kaffi og meððí. Samningurinn var gerður á einhverju fjölþjóðlegu málahrafli og það kom skemmtilega á óvart þegar sagt var aftan við okkur: "Talið bara íslensku, nógu hægt og skýrt og þá skilja allir"  Í þessum orðum var sterkur færeyskur hreimur  og þegar við snerum okkur við stóð þar maður á að giska um fertugt, ákaflega glaðlegur og hress. Hann kynnti sig ekkert en áréttaði ábendinguna í örlítið nákvæmari útgáfu. Við þökkuðum kærlega fyrir okkur og versluðum allt sem okkur langaði í - á íslensku. Þegar við svo vorum sest við borð gaf ég manninum auga þar sem hann þeyttist um verslunina með skjalatösku undir hendinni. Þegar hann hafði svo lokið sínum erindum kom hann aftur til okkar og gaf sig á spjall. Það kom á daginn að hann hafði verið í Fiskvinnsluskólanum í Hafnarfirði á árunum kringum 1980, eignast þar vini og heimsótti þá til Íslands eins oft og mögulegt var. Á Þvereyri var hann í stjórnunarstöðu hjá fiskeldisfyrirtæki. Þar með var fengin skýring bæði á íslenskukunnáttunni og skjalatöskunni.

Það var bæði afar gaman og fróðlegt að spjalla við þennan glaðlega mann og heimsókn okkar til Suðureyjar hefði líklega orðið talsvert öðruvísi (og síðri) án hans. Hann nánast bað okkur afsökunar á veðrinu og þegar hann heyrði lauslega dagsáætlun okkar benti hann okkur á að snúa henni við, aka beint niður á syðsta odda eyjarinnar og hefja þar skoðun. Í þessu veðurfari væru meiri líkur á bjartara veðri syðst og það væri klárt að nyrst væri blindþoka - sem gæti þó létt eitthvað er liði á daginn. Þessi ráð þáðum við með þökkum og árangurinn varð sá að allt sem við ætluðum okkur að gera á Suðurey gekk upp. Kunningjar okkar í mótorhjólahópnum komu hins vegar til Suðureyjar þennan sama morgun með Smyrli, hófu för sína á annan hátt og uppskáru þoku og rigningu mestallan daginn. Við hittum þau í ferjunni í bakaleið á mánudagskvöld og þar sögðu þau farir sínar ekki sléttar....enda hittu þau ekki þennan ágæta mann í bakaríinu. Því miður fengum við ekki nafn hans en hann á allar okkar þakkir!

Hér má bæta því við að skömmu eftir að maðurinn hafði kvatt og gengið á brott kom hann aftur að borðinu okkar, veifaði farsíma og sagðist hafa hringt til Hvalba. Þar væri blindþoka og sæist vart út úr augum. Hann kvaddi svo að nýju og að fengum þessum upplýsingum lá áætlun okkar ljós fyrir - Hvalba yrði síðust á dagskránni.

Eins og fyrr segir fylgdum við góðum ráðum og ókum í suðurátt. Við komum að þorpinu Öravik en sáum það varla. Næst komum við að jarðgöngum en gátum þó valið lengri hjáleið út fyrir nes og ekið um Hövðaberg og þorpið Hov. Við urðum sammála um að velja göngin því inni í þeim var meira útsýni! Syðri munni gangnanna var raunar rétt hjá þorpinu Hov en við sáum það eðlilega ekki og höfum enn ekki séð....

Svo fór smám saman að létta og um leið dró úr rigningarúðanum. Við komum að skilti með svo sérkennilegu nafni að ekki varð hjá komist að líta á þorpið sem bar það:



...og viti menn! Um leið og við renndum inn í þorpið lyfti þokan sér uppfyrir (hér ætlaði ég að skrifa "sjónvarpsloftnetin" en varð litið á myndina og ákvað þess í stað að skrifa:)  ljósastaurana! Bærinn blasti við hreinn og bjartur, við lögðum bílnum á bryggjunni og tókum göngutúr:



Þessi var eitthvað að manúera í höfninni:



Annar var þarna, dálítið stærri og í Tupperware - flokki. Um borð í honum voru tveir menn og ég fylgdist með þeim leggja frá og sigla út fyrir grjótgarðinn. Líklega voru þeir að fara í einhverskonar vitjun, annað hvort með net eða gildrur. Ég klifraði upp á grjótgarðinn þarna í baksýn og fylgdist með þeim stampa er útfyrir kom því þrátt fyrir stafalogn og sléttaan sjó inni á höfninni var þungur brimsúgur útifyrir og drundi í...



Auðvitað var svo kirkjan í Porkeri mynduð og á myndinni má sjá hvert þokan hörfaði undan Íslendingunum með myndavélina:



Svo þegar við komum aftur upp að gatnamótunum var tilvalið að mynda þetta skilti. Við vorum að koma frá Þvereyri og Hov (svona eiginlega, þótt við sæjum aldrei Hov) og á leiðinni að Vági og Sumba. Ég man ekki betur en Sumba hafi verið einhver dans sem hér uppi á Íslandi var stiginn  ákaft í tengslum við einhverja líkamsrækt. Kannski Sumba dansinn hafi verið upprunninn í þessu syðsta þorpi Suðureyjar - og þar með Færeyja?  

Svo má gjarnan taka eftir vegalengdunum á skiltinu. Þvereyri er frekar norðarlega á Suðurey en Sumba syðst - á milli eru aðeins 37 km á bugðóttum vegi......



Nú ókum við undir þoku, rigningarúðinn var horfinn og veðrið lék við okkur - við gátum allavega ekki leyft okkur að kvarta neitt því við sáum til allra átta þótt við sæjum kannski ekki fjallatoppana....við vorum komin að Vági, stærsta þorpi Suðureyjar og eitt af því fyrst sem fangaði athyglina var þessi stæðilega "danska" kirkja. Kannski er ekki við hæfi að segja um kirkju að hún sé eins og skrattinn úr sauðarleggnum og þess vegna segi ég það ekki. Þetta hrein - danska steintröll var miklu frekar eins og álfur út úr hól. Þetta var ekki færeysk kirkja fyrir fimmaura og þótt maður myndi gleyma öllu öðru sem fyrir augu bar í Vági myndi mann dreyma þessa kirkju á nóttunni:



Við Íslendingar getum enn selt Færeyingum skip. A.m.k. var þetta nótaskip kunnuglegt. Ég er ekki alveg viss um að það flyti að bryggju í heimahöfn:



Lopra er nefnilega ekki stórt þorp, eins og lesa má HÉR.  



Handan við bryggjuna var svo fulltrúi "hinnar" deildarinnar og enn kom upp í hugann kútter Sigurfari á Akranesi sem Íslendingar keyptu til að eyðileggja. Svo flinkir sem við höfum verið við að eyðileggja fornminjar hefur okkur ekki tekist að flytja þá kunnáttu út. Miðað við það hvernig Færeyingar halda utan um sína arfleifð er ég ekki viss um að þar sé að finna heppilegt markaðssvæði fyrir þessa sérkunnáttu Íslendinga. Það væri ekki amalegt að eiga einn eða fleiri svona hér heima:





Vágur - eða Vogur - var kvaddur að sinni og haldið áfram suður til Sumba. Fljóteknir ellefu kílómetrar á malbiki en það gat teygst aðeins á tímanum þegar maður hittir svona fjölskyldu. Það er spurning hvort hún hafi verið dálítið laus í rásinni, þessi svarta sauðkind?



Frá Vági var stutt leið að smáþorpinu Lopra en þar greindist vegurinn í tvennt. Annars vegar var um að velja fjallaleið til Sumba, hins vegar jarðgöng. Að auki lá kvísl frá Lopra að öðru smáþorpi, Ökrum, litlu austar við Vágsfjörð og af fjallaleiðinni lá svo kvísl niður að býlinu  Hamrabyrgi við botn Víkarfjarðar sem horfir mót norðaustri. Ég set kortið inn aftur til frekari glöggvunar:



 ( Þarna verð ég að setja eitt stykki NotaBene: Þessu korti ber ekki saman við ferðakortið okkar um Hamrabyrgi, sem svo heitir á okkar korti en á myndinni heitir það Víkarbyrgi. Þetta er eiginlega aðeins sveitabýli en ekki þorp í venjulegum skilningi. Svo má einnig skilja sem svo að þetta séu sitthvort býlið með sitthvort nafnið. Í öllu falli virðist ekki vera heilsársbúseta þarna lengur. Sjá HÉR)

Við völdum göngin til Sumba og ætti valið að skýra sig sjálft.



Ég ætla ekki að reyna að líkja Sumba við neitt íslenskt þorp. Þarna var skóli, kirkja, örlítil verslun í kjallara en vinnustaðir eins og fiskvinnsla eða þessháttar virtist ekki vera til staðar - eins og reyndar má segja um fjölmörg svipuð þorp. Einhverjir voru með kindur en ómögulegt var að átta sig á hvort það var aðal - eða aukastarf. Staðurinn var snyrtilegur og eitt höfðu Sumba-búar sér til ágætis umfram marga aðra: Þeir voru að útbúa ágætis húsvagnastæði ofan fjörukambsins vestarlega í bænum og ekki annað sýnt en þar gætu ferðalangar látið fara vel um sig í framtíðinni. Hreinlætisaðstaða var komin og verið var að vinna í planinu. Myndin hér að neðan er annars frá aðalgötunni gegnum þorpið. Á skiltinu stendur BÖGÖTA, sem gæti útlagst Bæjargata. Þar sem myndasmiðurinn stendur er greining, vegur liggur í suðausturátt til vitans á Akrabergi og annar upp á fjallaleiðina fyrrnefndu sem liggur til Lopra.



Við lögðum bílnum og röltum dálítið um en það var svo sem ekkert sérstakt að sjá utan það sem sjá mátti hvar sem var. Það var komið fram yfir hádegi svo við fundum okkur stað ofan við bátahöfnina og settum upp ferðaeldhúsið. Hér er hann Hamarsklettur:



Ofan við sjálfa bryggjuna var steypt plan og þar lágu nokkrir bátar sem flestir virtust vera í meiri og minni notkun:



Sjálf höfnin er töluvert steypumannvirki á ekki stærri stað. Höfnin var enda opin fyrir hafi ef frá er talinn kletturinn þarna utan við sem eflaust brýtur einhverja báru. Næsta land utan við höfnina í beina stefnu út og suður myndi annars vera þetta HÉR



Meðan við vorum að veislubúa þarna við hliðina á Hamarskletti renndi vagnlest í bæinn. Þar voru komnir meðlimir Sea Shepard á bíl með stóran og öflugan harðbotnaslöngubát á aftanívagni. Líklega voru þeir að leita að grindhval eins og fleiri. 



Sjáiði kokkinn við eldavélina?



Viðstaðan í Sumba var rétt um klukkustund og á þeim tíma komu fleiri gestir en Sea Shepard. Þangað kom nefnilega mótorhjólahópurinn margnefndi og sýnilega enn með færeyska leiðsögn, ef marka mátti skráningarnúmerin. Hópurinn ók hjá og inn í þorpið, við heyrðum til þeirra góða stund en síðan virtust drunurnar deyja út, líkt og haldið hefði verið út í vitann á Akrabergi eða á fjallið til baka. Allavega urðu þeir ekki á vegi okkar aftur í ferðinni. Við ákváðum að aka göngin aftur til baka því lítið hafði þokunni létt og útsýnisakstur tilgangslaus. Þegar við komum út litum við aðeins yfir Lopra:



Við veltum fyrir okkur hvort einhverjir þeirra sem ættu þessi fínu einbýlishús væru kannski eigendur nótaskipsins Grunnabarðs - áður Hábergs GK -  í Vági.  Vegskiltið sagði aðeins tvo kílómetra úr að Ökrum en við fórum ekki þangað.  



Í staðinn renndum við einn hring um Lopra:



Svona leit smábátabryggjan í Lopra út. Líklega voru þeir sem á annað borð áttu báta með þá úti á Ökrum þar sem styttra var út á Vágsfjörðinn, eða þá einfaldlega inni í Vági, þar sem flestir vinnufærir hafa líklega unnið. Eins og sést er myndin tekin út um framrúðuna og speglar íslenska fánann. Hún er náttúrlega ekki góð en flýtur með samt.



Svo vorum við aftur komin að Vági. Líkt og fleiri bæir stendur Vágur við vogsbotn og frá þessum vogsbotni er aðeins lágt eiði yfir á gagnstæða strönd sem snýr í suðvestur. Þeim megin er landið klettótt og hafnlaust. Samt eru þar menjar um talsverða bátaútgerð auk minnismerkis um þessa útgerð. Þarna var löng, steypt renna niður milli kletta og í miðju hennar höfðu verið eikarhlunnar sem nú voru mjög gengnir sér til húðar......











Ég áttaði mig ekki á þessum steyptu undirstöðum rétt til hliðar við sjósetningarrennuna. Þarna virtist hafa verið eitthver járnagallerí ofaná og helst datt mér í hug einhvers konar braut fyrir báta. Þarna voru leifar af þónokkrum kofum og einn þeirra gat hafa verið spilhús, miðað við ummerki. Við netgrufl komst ég að því að þetta muni hafa verið rennibraut fyrir báta sem líklega hafa þá verið dregnir yfir klappirnar út í skjólvík þarna fyrir framan og svo til baka að róðri loknum. Sjá HÉR og enn betur HÉR



Eftir að hafa skoðað okkur um á Vágseiði og brotið heilann um mannvirkjaleifarnar fundum við matvöruverslun í bænum og birgðum okkur upp til kvöldsins og næsta morguns. Því næst var haldið af stað til næsta áfangastaðar.

Ég hef áður minnst á bókina hans Huldars Breiðfjörð, "Færeyskur dansur" og hvílík biblía hún var fyrir mig um flest er varðaði Færeyjar. Eitt af því sem Huldar gerði á þeim mánuði sem hann dvaldi í Færeyjum síðla vetrar 2009, muni ég rétt, var að ferðst til Suðureyjar og dvelja þar nokkra daga. Meðal þess sem hann langaði til að skoða (og skoðaði) var fáninn í Fámjin. Sagan er einföld en stórmerkileg: Árið 1919 hönnuðu þrír ungir, færeyskir stúdentar fyrsta fánann með því útliti sem við þekkjum í dag. Einn þeirra var frá Fámjin og sá dró fánann að húni eftir messu í þorpskirkjunni þann 22. júní 1919. Um atburðinn, aðdraganda og eftirmála má m.a. lesa HÉR. Fáninn er geymdur í kirkjunni í Fámjin (og kannski er rétt að taka það strax fram að Færeyingar lesa þorpsnafnið sem "Famjun") og eftir því sem Huldar skrifar, eru flestir bæjarbúar með lykil að kirkjunni. Nægir að biðja einhvern þeirra um lykilinn að láni og muni auðsótt.

Okkur langaði að sjá þennan fána og lögðum því leið okkar til Fámjin. Ekið er yfir heiði frá Öravik, leiðin er ekki sérlega löng (frekar en aðrar vegalengdir)  en nokkuð brött og hlykkjótt, sérstaklega Öravikurmegin. Þar er myndin hér að neðan tekin og leiðin liggur upp í skarðið sem mótar fyrir hægra megin.



Það var eilítill þokuslæðingur og örlítill úði þegar við komum yfir heiðina, ekkert til skaða og ekki nóg til að bleyta götur í þorpinu. Skiltið sem tók á móti ferðalöngum skýrir sig sjálft:



Við lögðum drekanum og gengum til kirkju. Hún var læst eins og búast mátti við. 





Það er eiginlega bara ein gata í Fámjin, hún liggur af heiðinni gegnum þorpið og út fyrir bryggjuna. Aðrar götur eru eiginlega bara þröngir stígar milli húsa og túnbletta. Á sjávarkambinum andspænis kirkjunni var lítil verslun og kaffihús. Húsið var svo lítið að kaffi"húsið" var eiginlega bara verönd utan við það. Innandyra var ekkert pláss fyrir borð eða bekki. Við heimsóttum búðina og tókum tali miðaldra konu sem talaði skýra færeysku og skildi íslenskuna okkar ágætlega þegar hún var sett fram að ráði mannsins í bakaríinu á Þvereyri - hægt, rólega og einföld orð valin. Ég nefndi fánann og kirkjulykilinn. Konan í búðinni virtist þaulvön þessarri spurningu og benti okkur á stæðilegt hús bak við kirkjuna. Þar skyldum við leita lykilsins.

Við þáðum ráðið og bönkuðum uppá. Til dyra kom öldruð kona og ég bar upp erindið. Orðalaust teygði hún sig eftir kirkjulyklinum, sem hékk á snaga rétt við útidyrnar. Eflaust var hún vön átroðningnum sem fylgdi því að geyma lykil að jafnmerku húsi og því sem geymdi frumgerð færeyska fánans!

Við opnuðum, gengum inn og .....þarna var hann! Í bókinni hans Huldars voru engar myndir og aðeins einföld lýsing en þarna var þessi merkilegi fáni í glerkassa, dálítið trosnaður á brúnum eftir langa notkun enda tæpast úr nokkrum gerfiefnum, saumaður árið 1919



Kirkjan í Fámjin er annars öll hin fallegasta, vel um gengin og hirt.







Kristslíkneskið í horninu hægra megin á myndinni hér að neðan vakti sérstaka athygli okkar enda ákaflega líkt því sem stóð við altaristöfluna ( og var um leið hluti af henni)  í gömlu Ísafjarðarkirkju. Sú kirkja brann sumarið 1987 og líkneskið skemmdist nokkuð. Það var síðar endurgert og mun nú standa uppi í nýju kirkjunni vinstra megin, muni ég rétt. Þetta líkneski má eflaust finna víðar en á Ísafirði og í Fámjin því það mun vera eftir hinn þekkta, dansk-íslenska myndhöggvara, Bertel Thorvaldsen:



Fararstýran fékk svo eina mynd af sér með altaristöfluna og líkneskið í baksýn:



Fyrst ég var kominn upp á loftið mátti ég til að kíkja upp í klukkuturninn. Þar var niðamyrkur svo ég rétt stakk myndavélinni upp fyrir loftsgatið. Flassblosinn lýsti upp turninn í svip en það var ekki fyrr en ég skoðaði vélina sem ég gat séð turninn að innan:



Okkur langaði til að mynda litlu búðina þar sem konan benti okkur á kirkjulykilinn. Þar innandyra var manni nefnilega kippt nokkra áratugi aftur í tímann og fyrir Ísfirðing var þetta nánast eins og að koma inn til Jónasar Magg - eða kannski Ákabúð í Súðavík. Við fengum leyfi til myndatöku en afgreiðslukonan vildi því miður ekki vera með. Við höfðum aðeins augnablik til myndatökunnar því Sea Shepard liðið var að renna í bæinn og hálfri mínútu seinna voru þau mætt í búðina. Ég hefði gjarnan viljað mynda þau en þorði ekki að biðja um. Það hefði annars getað orðið skemmtileg mynd því öll "holningin" á þeim var líkust sjóræningjum!





Eftir myndatökuna í búðinni gengum við til bíls og skiptum liði. EH settist inn en ég labbaði niður á bryggjuna og myndaði trillur. Þetta er hún Sóley. Hún telst vel boðleg í Færeyjum þótt hún sé úr tré:



...en svo eiga þeir líka ágæta Tupperware-báta í Fámjin:



Það var komið að því að halda til baka og kveðja þetta litla, fallega þorp sem geymir svo mikla sögu. Á fjallinu höfðu aðstæður ekkert breyst, þar var enn þokuslæðingur og rigningarúði.




Við ókum yfir í Öravik (enda ekki aðrar leiðir í boði) og áfram í átt að Þvereyri, meðfram byggðinni og beint inn á  veginn upp úr fjarðarbotninum, sem merktur var Hvalba. Þar var nú talsvert léttara yfir en um morguninn og við sáum betur vegslóðann sem við höfðum ekið útá til að gista um nóttina. Hann reyndist vera heimtröð að tveimur sveitabæjum og það gat skýrt umferðina um nóttina. Að sú umferð skyldi samt ekki vera meiri skýrðist af því að heimtröðin var hringvegur og við höfðum lagt á þeim hluta sem fjær var þorpinu á Þvereyri. Hinn hlutinn virtist mun meira ekinn, enda breiðari og betri í alla staði. Einnig kom í ljós að rétt hjá okkur stóð gamalt eyðibýli, sem enginn möguleiki var að koma auga á í þokunni kvöldið áður.

Ekki fórum við inn á Þvereyri að þessu sinni heldur ókum einungis inn í botn fjarðarins  (hér má það koma fram að þorpið að Þvereyri er í raun tvö þorp, samrunnin. Fyrir botni fjarðarins er Traangisvágur/ Trongisvágur en utar norðanmegin er Tvöreyri. Þessi þorp hafa með tímanum vaxið saman og nú mun algengara að kalla þorpið Tvöreyri. Fjörðurinn ber hins vegar nafnið Tro (aa)ngisvágsfjörður. Í áætlun Smyrils er endastöðin á Suðurey kölluð Tvöreyri en það skrýtna er að eiginlega er endastöðin hvorki Tvöreyri né Traangisvágur heldur smáþorpið Líðin, andspænis Þvereyri. Þannig er nú það........

Við ókum sem fyrr segir ekki inn í þettbýlið heldur meðfram því og tókum stefnu á Hvalba. Ofarlega á dalnum var enn ekið inn í göng og er út úr þeim kom var enn ljóst að samtal okkar við manninn á Þvereyri um morguninn og upplýsingar hans um staðhætti höfðu hreinlega bjargað deginum. Blindþokan í Hvalba hafði hopað upp í miðjar hlíðar:



Það var líka dálítið sérkennilegt að þegar út úr göngunum kom, Hvalbiar (með færeyskri beygingu) megin lá vegurinn enn uppá við og mun hærra í hlíðinni en gangnamunninn. Svo fór að halla niður aftur.......

Til hægri, austurs og út Hvalbiarfjörð mátti sjá smáþorpið Nes. Við vorum ekkert að eyða tíma þar heldur ókum beint áfram til Hvalba.



.....og hver annað en á bryggjuna?



Þorpið Hvalba stendur dálítið sérkennilega. Bryggjumannvirki eru öll norðanmegin í firðinum og þar er einnig aðalbyggðin - og sú elsta. Fyrir botni fjarðar er svo töluvert undirlendi sem er aðallega nýtt sem tún en ofan þess er svo áframhald byggðarinnar yfir fyrir fjarðarbotninn og suðvestan hans stendur kirkjan og ráðhúsið. Þetta kemur manni dálítið einkennilega fyrir sjónir í ljósi þess að á langflestum stöðum eru byggðirnar teygðar meðfram sjónum. Þetta fyrirkomulag í Hvalba - sem sést vel þegar skoðuð er loftmynd á Google Earth - gæti m.a. orsakast af því að jarðvegur sé gljúpari á flatlendinu upp af sjónum og lóðir því erfiðari, landið nýtist betur sem tún en sem byggingarlóðir og svo einnig því að úthafsaldan gengur óbrotin inn á sandinn fyrir botni fjarðar, fellur þar og myndar trúlega hvíta særok upp um allar koppagrundir í austlægum illviðrum:



Á myndinni hér að neðan er horft frá höfninni yfir fjarðarbotninn, nokkurn veginn þangað sem rauði punkturinn er á þeirri efri:



Trébátar eru ákaflega forgengilegir - fái þeir ekki eðlilegt viðhald. Notkun og viðhald haldast venjulega í hendur, hverfi annað er jafnan stutt í að hitt hverfi líka. Kannski máttu þessir tveir lúta í lægra haldi fyrir viðhaldslitlum plastfleytum - en kannski lutu eigendurnir sjálfir bara í lægra haldi fyrir tímanum.......



Nei, sjáum nú til! Þeir eru ekki tveir heldur þrír......það er eldri kynslóð undir í uppsátrinu!



Enn horft yfir fjörð af höfninni og sést vel að ekki er smátt byggt:



Í grónum garði við gamalt hús mátti sjá heilan dýragarð. Þarna eru tvær endur í grasinu:



Þarna eru hænurnar og tveir kettir. Sá litríkari var margræður á svipinn en sá svarti faldi sig að mestu milli þúfna:



Svo voru auðvitað nokkrar gimbur:



Niðri á bryggjunni stóðu þessir tveir og virtust ekki alveg vissir um hvert framhaldið yrði. Ofan þeirra, uppi á bakkanum má sjá minnimerki um burtkallaða úr sveitarfélaginu, bæði sjómenn og sigmenn. Þótt skömm sé frá að segja láðist okkur hreinlega að mynda minnisvarðann, þrátt fyrir að halda á myndavélinni þegar við skoðuðum hann - enn ein ástæða til að skreppa aftur til Færeyja við tækifæri. Eg bendi á ágæta mynd frá Eileen Sandá:



(Eileen Sandá hefur annars tekið fjölmargar frábærar myndir í Færeyjum og á heiður skilinn fyrir. Kíkið á hana HÉR)

Við fluttum okkur yfir víkina og lögðum bílnum nærri kirkjunni. Hún var læst eins og við mátti búast svo við mynduðum aðeins utan frá. 



Gimbur í Færeyjum virðast ekki endilega vera markaðar með eyrnaklippingu. Sumar eru það, aðrar ganga með hálstau og enn aðrar skarta hvorutveggja. Hún gaf góðfúslegt leyfi til ljósmyndunar:



Sjúkrahótel, kirkja og ráðhús:



Klukkan var orðin margt, eins og stundum er sagt, þegar þarna var komið sögu og hótelstjórinn orðinn dálítð stressaður.  Það var nefnilega farið að styttast í komu Smyrils til Þvereyrar og ekki vildum við missa af heimferðinni. Við snerum því stefni til fjalls (já, eða stuðara...) og dóluðum til baka fram dal, gegnum göng og niður dal. Ætlun okkar var að mynda kirkjuna á Þvereyri, sem er gríðarstór og falleg timburkirkja, en bæði var þokumóða kringum hana og sjónarhornið úr bænum  mjög þröngt. Við ákváðum því að mynda kirkjuna handan frá "Líðin" þar sem ferjubryggjan er, en þá gætti þokumóðunnar enn frekar, auk þess sem draslið í forgrunni truflaði. Í ofanálag fór svo að rigna.



Svo kom Smyrill:



...og frekari myndatökur lögðust af. Um borð hittum við svo mótorhjólafólkið sem sagði sínar farir ekki svo sléttar - hafði enda sem fyrr segir ekki fengið jafn ágæta leiðsögn og við. Svo er jú dálítið öðruvísi að ferðst á mótorhjóli en í sínum eigin sjúkrabíl!



Í Þórshöfn var sama veðurblíðan og sólarhring fyrr þegar lagt var upp. Við lögðum því bílnum um leið og í land var komið og tókum góða gönguferð um bæinn. Það tilheyrir að vera dálítið hýr undir svona skilti:



( þótt það þýði aðeins "Leigubíll")



Mér tókst að suða út ís hjá Íslandsvinkonu okkar í ískaffihúsinu við göngugötuna. Auðvitað fylgdi dálítið spjall á íslensku.



...og þar sem við röltum um hæðirnar upp af hafnarsvæðinu spólaði Smyrill út úr mynninu á fullri ferð heim aftur - hann á jú heimahöfn á Tvöreyri:





Kvöldið var einstaklega blítt og við röltum m.a. upp að minnismerkinu um konungskomuna 1874. Skyldi kóngurinn aldrei hafa komið eftir það?



Hér að neðan er horft yfir Þórshöfn móti hávestri eða því sem næst. Oddurinn fyrir miðri mynd, þó heldur vinstra megin er turn Vesturkirkjunnar:



Væri höfðinu (og þar með myndavélinni) snúið dálítið meira til norðurs blasti við hæðin þar sem Færeyingar eru að reisa heilan vindmylluskóg. Það eru deildar meiningar um aðgerðina en þörfin fyrir meiri raforku er óumdeild....Við myndjaðarinn vinstra megin má sjá óvenju stóran, svartan burstabæ. Þetta er hin færeyska Kringla, verslunarmiðstöðin, mollið eða hvað menn vilja kalla það. Sjálfir kalla Færeyingar Kringluna sína SMS



Myndin hér að ofan og tvær þær neðri eru teknar frá minnismerkinu um konungskomuna. Við merkið er dálítill garður og eins og víðar voru notaðar sjálfvirkar gimbusláttuvélar til að halda grasinu í skefjum - bensín/rafmagnsorf virðast hendur fátíð í Færeyjum, svona líkt og gasgrill á svölum - og við urðum vitni að skærum milli tveggja lamba og hálffleygs krákuunga sem fallið hafði niður úr nálægu tré. lömbin stönguðu lauslega, unginn flögraði undan og krákumamma gerði loftárásir.......





Hér eru svo heldur skæðari árásarvopn en krákumamma. Þær eru tvær, kanónurnar sem Bretar skildu eftir í lok hernáms, og standa á Skansinum við hafnarmynnið. Ég er ekki með stærstu mönnum (a.m.k. ekki á hæð) en það má samt marka stærð byssanna af samanburðinum. Í baksýn liggur svo Nólsey og við sjáum syðri hluta hennar, sunnan þorps.





Skansinn hefur verið endurbyggður og lagfærður mörgum sinnum, enda fylgdi hverju hernámi talsvert rask og ekki síst Breta. Þetta sögulega mannvirki er nú í prýðisgóðu ástandi:







Horft af Skansinum yfir athafnasvæði Norrönu og Smyrils. Þarna leggst Norröna að með bb. síðu og skuturinn opnast í átt að sendibílunum tveimur, bláa og hvíta. Litla skipið til hægri er Ternan (Krían), ferja Nólseyinga, sem siglir tuttugu mínútna siglingu út til eyjarinna mörgum sinnum á dag, alla daga vikunnar.



Þessar fjórar koparfallbyssur á Skansinum eru komnar til ára sinna, enda verður varla skotið úr þeim framar:





Bresku fallbyssurnar tvær hefði lítið munað um að kaffæra óvinaskip á sínum tíma. Þeirra tími er hins vera liðinn sem betru fer og Nolseyingar geta sofið rólegir þó við þeim gíni opin hlaup:



Ofan við Skansinn, rétt upp af ferjuhöfninni stendur Stephanssons hús. Þetta er falleg, stílhrein og áberandi bygging:



Kvöldið leið og ferðaáætlun morgundagsins - þriðjudagsins - var að taka á sig mynd. Það leið því að háttum og okkur vantaði náttstað. Við vissum að húsvagnasvæðið í Þórshöfn hafði fyllst af ferðalöngum í þriggja daga stoppi (hópi sem hafði komið með Norrönu á sunnudagskvöld frá Hirtshals og dvaldi í Færeyjum meðan ferjan sigldi aftur til Hirtshals og sótti annan farm)  og því var frekar þröngt á þingi. Við ákváðum að leita út fyrir bæinn að gististað og ókum upp í Kaldbaksfjörð.  Önnur aðalleiðin út frá Þórshöfn liggur upp úr botni Kaldbaksfjarðar en út með firði að norðan er endastöð við þorpið Kaldbak. Þennan botnlanga völdum við og ókum fram hjá nokkrum fiskeldisstöðvum í mismikilli drift alla leið út í þorp. Þeir búa vel á Kaldbak og líklega vinna flestir vinnufærir inni í Þórshöfn:



Kirkjan var ein þeirra fallegri......



....og ekki var þessi garður síðri, þó á annan hátt væri! Þarna var ótrúlegt safn smástytta, svona eins og alltaf verða eftir þegar búi afa og ömmu er skipt. Þetta voru styttur "sem enginn vill eiga en enginn vill heldur henda" eins og Elín orðaði það einhvernveginn. Þegar þannig er fer dótið oft á Loppumarkað að danskri fyrirmynd og endar svo kannski hjá svona safnara. Stytturnar skiptu þúsundum og hver og ein var steypt niður:







Náttstað fundum við okkur á yfirgefnu plani gamallar fiskeldisstöðvar, í nábýli við þennan hógværa foss:



Svo seig nóttin yfir - þó myrkrið yrði ekki mikið meira en þetta - og enn hvarf dagur og nýr tók við. Sem fyrr segir höfðum við mótað ferðaáætlun fyrir þriðjudaginn 25. júní - næst síðasta daginn - og settum allt okkar traust á veðrið.

......og enn var almættið með okkur!



Hér við Kaldbaksfjörðinn lýkur áttunda hluta og þar með mánudeginum. 9. hluti er í smíðum.
...............................

Flettingar í dag: 125
Gestir í dag: 22
Flettingar í gær: 182
Gestir í gær: 55
Samtals flettingar: 64692
Samtals gestir: 16786
Tölur uppfærðar: 27.4.2024 17:33:24


Tenglar