Gunnar Th.
Fjórða kerfið.....


20.12.2011 23:00

Gramsað í glatkistunni.

Haustið 1973 var ég fátækur námsmaður á Ísafirði. Námsmaður segi ég því mér finnst eiginlega að fólk verði ekki námsfólk fyrr en að lokinni skólaskyldu og framhaldsnám hefst. Mitt framhaldsnám var fólgið í setu við borð í húsi Menntaskólans á Ísafirði. Ég lærði lítið, það litla sem ég þó lærði hefur staðið með mér ótrúlega lengi eins og kannski á síðar eftir að koma fram, en kemur ekki þessarri sögu við. Ég segi líka fátækur því sumarið ´73 hafði ekki skilað mér miklum tekjum. Frá því ég útskrifaðist með letieinkunn Landsprófs frá Gagnfræðaskólanum um vorið hafði ég aflað mér tekna í bæjarvinnunni og starfið, sem fólst aðallega í vélgæslu við gömlu mulningsvélarnar inni á Skeiði var sannarlega ekki hálaunastarf. Ég nennti ekki að vinna þarna (en eftir á að hyggja var þetta mjög gott starf), þoldi ekki Gústa Valda (seinna áttum við eftir að verða prýðilegir mátar og vinnufélagar) og hlakkaði helst til haustsins vegna skólans sem ég hafði innritað mig í af því þess var vænst af mér. Landsprófsveturinn á undan hafði ég náð undraverðum árangri í skrópum, líklega hefði ég verið látinn fara ef skólinn hefði ekki verið skyldubundinn. Ég var búinn að kynna mér skrópkvótann sem gilti við Menntaskólann og leist ágætlega á þann línudans sem ég ætlaði sannarlega að stunda komandi vetur. Lágt kaup og léleg ástundun sumarvinnunnar höfðu semsagt ekki þyngt budduna þegar blásið var til skóla í byrjun september. Það var því næstum eins og himnasending þegar mér var boðið morgunstarf hjá fyrirtæki í bænum, starf sem hefjst skyldi kl. 6 að morgni og ég mátti stunda þar til skóli hæfist, hvenær morguns sem það yrði. Flesta virka morgna hófst skólinn klukkan átta en einhverja nokkru síðar. Mér tókst sæmilega að vakna og standa mína plikt, raunar fór starfið fljótlega að tvinnast saman við skrópkvótalínudansinn og ég fór að reikna út hversu mikið ég gæti þénað með því að teygja mig út á ystu nöf í mætingum.

Fátt af ofanskrifuðu kemur reyndar því við sem ég ætlaði að skrifa um, heldur er það sett fram til að teygja rýrt efni. Snertiflöturinn er aðallega sá að morgunstarfið var hjá Gamlabakaríinu, eigandi þess var Ruth Tryggvason en hún var einnig danskur -og þar með færeyskur- konsúll á Ísafirði . 

Komur færeyskra skipa til Ísafjarðar voru nokkuð tíðar á þessum tíma. Aðallega voru þar fiskibátar á ferð, flestir kringum 80-100 tonn og nokkuð gamallegir, enda virtist líkt farið með Færeyingum og Norðmönnum hvað það snerti að halda gömlum eikarbátum vel við. Svo gerðist það öðru hverju að til hafnar komu stærri "Færeyingar", þá helst togarar og meðal þeirra þekkti ég tvo sérstaklega - Sjúrðarberg og
Magnus Heinason.

Snemma í október 1973 lagðist Magnús Heinason að bryggju á Ísafirði vegna smávægilegrar vélarbilunar og var ekki áætluð löng viðstaða. Skipið hafði verið að veiðum við landið í nokkra daga og var aflinn unninn í salt. Að venju lagði ég leið mína á höfnina til að sjá þetta mikla skip, Magnús Heinason var yfir þúsund br.tonn að stærð og því talsvert veglegra skip en stærstu bresku togararnir sem fram að 50 mílna stríðinu höfðu verið algengir gestir vestra. Auk þess var mikill munur á útliti og hirðu Magnúsar Heinasonar og bresku kláfanna sem sumir hverjir virtust varla hanga saman nema á ryðinu. Þetta var hreinlega fantaflott skip og gaman að horfa á það við kantinn.

Þegar ég var á leið til vinnu á venjulegum tíma einn morguninn sá ég að eitthvað mikið gekk á á höfninni þar sem Magnús Heinason lá. Í konsúltengda bakaríinu frétti ég að um nóttina hefði
komið upp eldur í Magnúsi Heinasyni og slökkvilið væri enn að störfum um borð. Ég vann minn venjulega vinnutíma og að honum loknum lét ég skólann lönd og leið en hljóp þegar niður á höfn til að fylgjast með. Þar höfðu mikil umskipti orðið. Þetta stóra og fallega skip hafði mikla slagsíðu, stór hluti yfirbyggingarinnar (sem mig minnir að hafi verið málaður í ljósum, eiginlega svona ljósdröppuðum lit) var svartur af sóti og stæk brunalyktin lá eins og ský yfir hafnarsvæðinu. Skipið var augljóslega stórskemmt ef ekki ónýtt. Mér fannst þetta sannarlega sorgleg sjón. 

Magnús Heinason lá um tíma á Ísafirði meðan verið var að dæla vatni úr skipinu og búa það til dráttar heim á leið. Dælingin sóttist seint því olíutankar skipsins höfðu hitnað svo í eldinum að innihaldið hafði þanist út og flætt út um yfirfalls-og loftrásir þeirra. Þykkt svartolíulag lá yfir vatninu í skipinu og við það þurfti að losna áður en hægt væri að þurrka skipið.

Svo kom að því að Magnús Heinason var dreginn burtu, tengslin við konsúlatið skiluðu mér vissu um að skipið færi til Færeyja þar sem meta ætti ástand þess. Meira frétti ég ekki fyrr en löngu síðar, þegar ég eignaðist ritröðina "Þrautgóðir á raunastund". Þar má lesa, á bls. 136 í bók nr. 19 (XlX) eftirfarandi klausu:

"Ákveðið var að draga Magnús Heinason til Færeyja til viðgerðar og var björgunarskipið Goðinn fenginn til þess verks. Í Færeyjum var gert við togarann og var það mikið og kostnaðarsamt verk.
Magnús Heinason var um 600 lesta síðutogari, smíðaður í Portúgal árið 1962 og var skipið gert út frá Salttangará á Austurey og sem fyrr segir var Dávur Pálsen skipstjóri annar aðaleigandi þess"

Mér, sem áhugamanni þótti gott til þess að vita að þetta mikla skip hefði þó komist í drift að nýju eftir viðgerð. Enga ástæðu hafði ég til að rengja þessa frásögn, jafnvel þótt ég hefði á nokkrum stöðum rekist á misræmi og/eða staðreyndavillur í bókunum. Svo gerðist það fyrir einhverju síðan, eftir að ég hafði eytt nokkrum kvöldstundum á netinu við að fletta upp ferli og örlögum þeirra bresku togara sem til Ísafjarðar vöndu komur sínar á  áratugum áður, að mér datt í hug að fletta upp Magnúsi Heinasyni og kanna hver ævi hans hefði orðið eftir uppgerðina miklu í Færeyjum, sem greint var frá í nítjánda bindi "Þrautgóðir á raunastund". Það þarf enga sérstaka enskukunnáttu til að stauta sig í gegnum neðanritað:
...............................................................................................................

MAGNUS HEINASON 550 ore.

Built as side fishing trawler under yard No 189 by Navalis Uniao Fabril, Lisbon for P/F Torshavner Trolarafelag, Torshavn, Faroer Isl.
03 November 1960 launched under the name MAGNUS HEINASON.
Tonnage 1.038 grt, 370 net, 907 dwt., dim. 70.04 x 10.57 x 5.60m, length bpp. 63.2m., draught 4.91m.
One steam turbine 1.375 ihp, one propeller, speed 13 knots.
April 1961 completed.

1972 Sold to P/f M. Heinason, Saltangara, Faroer Isl.
09 October 1973 while lying at Isafjordur, north-western Iceland, she was extensively damaged by fire that started in her engine room.
After being towed back to the Faroers, she was declared a "constructive total loss". The gutted wreck was then towed to Troon, Scotland where she arrived on 02 July 1974; she was broken up by the West of Scotland shipbreaking yard at Troon.

Upplýsingar fengnar af síðunni   

Magnus Heinason


Flettingar í dag: 87
Gestir í dag: 4
Flettingar í gær: 115
Gestir í gær: 7
Samtals flettingar: 59289
Samtals gestir: 15670
Tölur uppfærðar: 29.3.2024 13:56:36


Tenglar