Gunnar Th.
Fjórða kerfið.....


26.09.2014 11:00

Dalir og heiðar - þriðji hluti.


Eins og fram kom í lok annars hluta ókum við frá Geitafelli á Vatnsnesi um Hvammstanga og rakleitt inn að minnismerkinu við Bjarg í Miðfirði. Þetta minnismerki var reist árið 1974 til minningar um Ásdísi móður Grettis Ásmundarsonar enda liggur miklu beinna við að minnast hennar en Grettis sjálfs, sem var rustamenni og yfirgangsseggur hinn mesti. Honum hefur í sögunni oft verið hampað sem hetju, slíkt er auðvitað fásinna því það eina sem maðurinn hafði til að bera var afl og úthald - þ.e. ef eitthvað er að marka sögurnar. Hann virðist hins vegar hafa verið fátækur til höfuðsins - ef þannig má orða hreina heimsku - því einu afrekin sem hann vann voru fólgin í að bjarga sjálfum sér undan réttvísinni, eins og hún í þá daga var. Yfirgangur, frekja, ruddaskapur og tillitsleysi verður seint talið til hetjuskapar og í því sambandi má minnast annarrar "hetju", Eggerts Ólafssonar sem ábyrgur var fyrir eigin dauða og fjölda annarra á Breiðafirði forðum þegar hann fyrirskipaði brottför frá Skor í ófæru veðri en enginn mátti andmæla fyrimenninu. Ég kom aðeins inná þennan vitleysisgang í pistli þann 15.júní sl. og óþarfi að fara nánar útí þá sálma. Eitt má ég þó til að nefna: Minnisvarðinn um Ásdísi á Bjargi er skreyttur lágmyndum eftir Halldór Pétursson. Ég hef lítið vit á myndlist og eflaust eru myndirnar vel gerðar. Inn í þær er felldur viðeigandi texti úr Grettissögu, á forníslensku að sjálfsögðu og þegar ég horfði á myndirnar og reyndi að setja mig í spor ferðalangs frá útlöndum - ja, þá varð ég einhvern veginn svona tómur í höfðinu. Minnisvarðinn hefur enga merkingu fyrir þann sem ekki hefur lesið Grettissögu og ekki getur ráðið í forníslenskuna. Hann er aðeins grjót með einhverjum koparmyndum.....







Við fórum ekki lengra inn Miðfjörð í þetta sinn. Það er ekki langt síðan við ferðuðumst um þetta svæði og ég skrifaði um þá ferð pistil sem heitir "Hálsar og skörð" ( nefndi ég það ekki í upphafi fyrsta hluta þessa pistils?) Sá pistill er einn þeirra fjölmörgu sem lokuðust inni þegar 365Miðlar lokuðu tveimur bloggkerfum fyrirvaralaust. 

Það þýðir jafn lítið að gráta Björn bónda og glataða pistla. Við snerum við minnismerkið og héldum aftur út að Laugarbakka. Á sundlaugalistanum góða er talin sundlaug við félagsheimilið að Laugarbakka og fyrir mörgum árum leit ég á hana án þess þó að prófa. Það var miður því nú var enga laug að sjá. Umhverfis hana var há trégirðing en innan girðingar var aðeins risastór sólpallur úr tré og í honum tveir heitir pottar með allnokkru millibili. Við heimsóttum handverkshúsið Löngufit,sem stendur skammt frá og spurðumst fyrir um horfnu sundlaugina. Okkur var sagt að hún væri aðeins horfin af yfirborðinu. Þegar ný laug var byggð á Hvammstanga var ekki talin þörf á Laugarbakkalaug lengur og hún því tekin úr notkun. Til að baðaðstaða hyrfi þó ekki úr þorpinu var byggður þessi stóri sólpallur yfir laugina og í hann felldir tveir heitir pottar. Að öðru leyti var lauginni lítt hróflað og hún er því falin undir pallinum, trúlega nothæf með litlum fyrirvara ef þurfa þykir. 

Þetta þóttu mér bæði slæmar fréttir og góðar. Það var illt að geta ekki farið í laugina sjálfa, en nokkur sárabót að geta farið í pottana sem settir voru ofan á hana - og að hluta til ofan í - því hægt var að kaupa sér aðgang að pottunum og það gerðum við. Búningsaðstaðan var hreinleg og vel við haldið, pottarnir voru ágætir, misstórir en báðir jafn mátulega heitir. Ekki höfðum við lengi setið er erlent par kom úr klefunum og settist hjá okkur. Við áttum ágætt spjall við þau, Hann var Svíi en hún Ástrali og saman bjuggu þau í Sviss. Færeyjaferðin okkar barst í tal og þá kom á daginn að sú ástralska hafði ekki hugmynd um að Færeyjar væru til. Svona er nú reynsla manna misjöfn.....

Þegar lengi er setið í heitum potti getur verið nauðsynlegt að kæla sig öðru hverju. Ég rápaði því aðeins um pallinn og skoðaði breytingarnar. Á rápinu fann ég litla, nær ósýnilega lúgu í pallgólfið. Mér tókst að plokka hana upp og stakk hausnum niður. Þar sem sólpallurinn er ekki þéttur heldur smábil milli borða skilaði sólarglætan sér að nokkru leyti niður í gegn. Við blasti vatnslaus sundlaug, klædd þessum hefðbundna,bláa dúk sem allir þekkja. Í tómri lauginni var svo heilmikið trégallerí sem hélt uppi pallinum og annað eins slöngugallerí sem tengdi pottana. Þetta skoðaði ég með athygli liggjandi á haus í lúguopinu. Ég lýsti upplifuninni fyrir EH og erlenda parinu með upphrópunum sem kannski hafa fengið þau erlendu til að efast um geðheilsu hrópandans. EH er hins vegar ýmsu vön.....

Svo fékk ég hugmynd: Í laugarbotninum var á að giska 10-15 cm. djúpt vatn, sambland af regnvatni og yfirfloti úr pottunum. Frá lúgunni niður á laugarbotn lá klambraður tréstigi úr tommu-fjórum, líklega fyrir píparana sem þyrftu að komast að plömmeríinu til viðhalds. Ég paufaðist niður stigann alla leið niður á botn þar til ég gat staðið báðum fótum í vatnssullinu á botninum. Þá klifraði ég upp aftur, óendanlega glaður yfir að hafa loksins náð að skella mér í Laugarbakkalaug - og geta merkt við hana á listanum!

Pottasetan tognaði í hálfan annan tíma, lengst af í félagsskap þessa skemmtilega, erlenda pars sem náði að sýna skilning á vitleysisganginum þegar búið var að kynna því forsöguna. Samveran endaði með innliti í ferðadrekann okkar. Þeim fannst dálítið einkennilegt að ferðast um landið á sjúkrabíl sem í stórum dráttum liti enn út eins og sjúkrabíll. Kannski er það einkennilegt, kannski ekki...........

Þau héldu svo áfram sinni för og við okkar eftir alls tvo og hálfan tíma að Laugarbakka og nágrenni. Það saxaðist á daginn, við vorum á heimleið en veðrið var afbragð og við vorum ákveðin í að nýta hverja mínútu sem gæfist í góðviðri - við höfðum haft spurnir af því að syðra væri hvasst og úrhellisrigning og hver hlakkar til heimkomu í þannig veðri?  Að Reykjum í Hrútafirði er sundlaug sem ég hafði ekki merkt við á listanum en þeir sem við höfðum talað við töldu hana ekki opna yfir sumarið, þótt skólinn sjálfur væri rekinn sem hótel. Okkur langaði samt að líta niður að Reykjum því Elín Huld hafði vissu fyrir gamalli náttúrulaug í fjöruborðinu skammt frá skólahúsinu. 





Þessi höfðingi tók á móti okkur og var eina lífsmarkið sem við sáum að Reykjum. Bassi  fagnaði félagsskapnum og þeir tveir pissuðu í kross, langs og þvers á alla staura og annað sem pissandi var á.






Sundlaugin var hálf eyðileg, dyrnar stóðu opnar en lokað var með snúru og að auki var stóll í dyragatinu. Hún verður því að bíða enn um sinn en fær eflaust sinn kross að lokum. 





Leitin að náttúrulauginni bar loks árangur norðan við húsin að Reykjum, rétt ofan fjöruborðsins fundum við  þessa sérstöku, upphlöðnu setlaug sem virtis njóta rennslis beint  úr borholu. Hún var nægilega djúp til að vel færi um fólk sitjandi og ágætlega hrein og laus við slý. Hins vegar var enga búningsaðstöðu að finna við hana og því líklegra að hún væri annaðhvort ætluð hótelgestum eða nálægu gistiheimili. Við vorum auðvitað með okkar eigin akandi búningsklefa en nýböðuð frá Laugarbakka ........







Klukkan var að verða sex að kvöldi og maginn var farinn að minna á sig. Við höfðum talað um að aka beint í Borgarnes og borða kvöldmat þar, enda myndum við þá vera í Borgarnesi um sjöleytið. Þegar við renndum inn Hrútafjörðinn frá Reykjum sáum við hvernig sólin baðaði Laxárdalsheiði og Dalina vestan hennar, en rigningin og þokan lágu eins og teppi yfir Holtavörðuheiðinni. Heimferðin var sannarlega ekki tilhlökkunarefni og rétt áður en komið var að Staðarskála lagði ég fram tillögu: Við færum einfaldlega ekkert heim heldur tækjum "hina leiðina", ækjum út Hrútafjörðinn vestanverðan og yfir Laxárdalsheiði til Búðardals, fengjum okkur hambó í sjoppunni og náttuðum svo að Laugum í Sælingdal. 

Tillagan var samþykkt með báðum greiddum atkvæðum en Bassi sat hjá enda fékk hann súkkulaðimola og gat þá ekki um annað hugsað. Við ókum yfir sólbaðaða Laxárdalsheiðina (sem er í raun engin heiði, þannnig séð) og niður dalinn, allt í rólegheitum og lásum sveitabæi af kortum og handbókum. Býlin uppi í hlíðinni og á bakkanum handan árinnar munu bæði heita Gillastaðir og á þeim neðri sýndust ný útihús í byggingu. 





Fyrirhuguð áning í Búðardal var rétt um sjöleytið og hamborgarinn smakkaðist vel enda við bæði orðin sársvöng - komin með nóg í bili af kaffi og kexi. Eftir matinn röltum við niður á tjaldvæði þorpsins og litum á það. Þar var sama uppi á teningnum og á Blönduósi, Sauðárkróki, í Varmahlíð og víðar - nema ástandið í Búðardal var sýnu verra því svæðið var hreinlega gerónýtt. Því er skipt í bása og hverjum einasta bás var búið að loka með borða því gras var sundurskorið og innkoma í hvern bás ein leðjufor. Þung hjól- og fellihýsi ásamt enn þyngri dráttarbílum eiga hreinlega ekki heima inni á grasflötum þegar árferðið er eins og í sumar - það einfaldlega kostar eyðileggingu á grasflötum tjaldsvæðanna. Þetta atriði er hins vegar ótrúlega torskilið, bæði umsjónarfólki og ferðamönnum.

Það var miklu meira vit í að mynda upp í himininn en niður í jörðina enda ólíkt fallegra upp að líta:





Þá var að halda í náttstað að Laugum í Sælingsdal. Þar gilti útilegukortið okkar og af reynslu vissum við að þar væri gott að vera. Tungustapi heilsaði okkur við komuna:





Við létum vita af komu okkar í afgreiðslu Edduhótelsins sem rekið er í fyrrum héraðsskólahúsunum. Þó maður geti veifað útilegukortinu þarf að greiða aukalega sk. gistináttaskatt, sem einhverra hluta vegna var ekki hægt að fela inni í verði kortsins. Þessi gistináttaskattur en enn ein tekjuöflunarleið íslenska ríkisins og rennur eflaust eins og vegaskattur, útvarpsgjald og fleiri álíka aukagjöld, til reksturs sendiráða erlendis og risnu í stjórnarráðinu. Í fyrra var gistináttaskatturinn hundrað krónur og undir hælinn lagt hvort umsjónarmenn tjaldsvæða höfðu fyrir því að innheimta hann. Í ár var hann orðinn 107 krónur - hundrað og sjö krónur, svo ekki misskiljist - og nákvæmlega innheimtur upp á krónu að Laugum. Ég borgaði með peningum.....nákvæmlega, og á mér þá ósk að ríkisstjórnin nýti vel þessa peninga. Sérstaklega er mér annt um þessar sjö krónur.....

Tjaldsvæðið að Laugum var illa farið eins og hin fyrri og margir blettir hreinlega ónýtir. Í raun má segja að eina óskemmda tjaldsvæðið sem við gistum eða skoðuðum í þessarri ferð hafi verið á Skagaströnd, hverju sem sætir því það er afar vinsælt svæði. Að Laugum völdum við okkur stað á malarplani við innakstur á flatirnar og hlóðum undir hjól til að rétta bílinn af.






Elín Huld mátti til að leggjast í fjallgöngu og Bassi fylgdi með. Ofan við Laugar er nefnilega ákaflega fallegt gil sem gaman er að ganga upp. Ég kaus rólegheitin....





Neðan við gilið (en rétt ofan tjaldsvæðisins) stendur þessi kofi og við hann volg laug enda er mikill jarðhiti á svæðinu. Kannski er laugin ein þeirra sem nafnið Laugar er dregið af?





Þessi dama var að búa sig undir fótabað:





Ekki hélst blíðviðrið endalaust enda höfðu spár gengið á þann veg að góðviðrið yrði skammvinnt. Eftir fréttum að dæma rigndi enn fyrir sunnan enda hafði bakkinn sunnan við Holtavörðuheiði ekki sýnt á sér neitt fararsnið kvöldið áður. Morgunninn 24. júlí var þó þokkalega bjartur og þurr en það blés dálítið á morgunverðarborðið okkar þegar við færðum það út til að borða. Við náðum þó að halda því við jörðina meðan verið var að ganga frá og gera ferðaklárt. Svo var ekið af stað á ný.

Tillagan um að halda í öfuga átt við Holtavörðuheiði, fara í Dalina og gista að Laugum var ekki sett fram út í loftið. Í nokkur ár höfðum við tala um að fara sk. Efribyggðarveg um Fellsströnd. Þessi leið liggur upp frá veginum um Fellsströnd við eyðibýlið Hellu og áfram í vestur að baki Staðarfells og síðar Ytrafellsmúla. Leiðin tengist svo þjóðveginum aftur við eyðibýlið Kjarlaksstaði (Kjallaksstaði) útundir Dagverðarnesi.





Leiðin er ekki löng eins og sjá má, allt í allt rúmir 16 km. niður á þjóðveg vestantil. Þegar við töluðum fyrst um fyrir mörgum árum að fara þessa leið hafði bæjarnafnið Lyngbrekka vakið sérstaka athygli. Elín Huld er jú uppalin að mestu leyti á Lyngbrekkunni í Kópavogi, þar áttu foreldrar hennar heima frá 1968 til 2001 að við tókum við og bjuggum þar til 2012. En allt er í heiminum hverfult.......

Allavega hlaut að vera eitthvað merkilegt við þessa Lyngbrekku fyrst hún fékk sitt eigið skilti:





Líklega hefur aldrei verið stórbýli að Hellu. Svo er spurning hvort skapar stórbýli, húsakostur eða hugarfar:





Frá Hellu er lagt á lágan háls sem liggur yfir að öðru eyðibýli, Túngarði. Af hálsinum var útsýnið svona vesturúr. Til hægri handar eru hlíðar Tungumúla:





Tungumúli skýlir dalverpinu norðanmegin og lengst til hægri er býlið að  Hallsstöðum og virðist enn í byggð. Áhugasömum skal bent HINGAÐ.





Hér að neðan er svo horft heim að Túngarði, sem áður var nefndur. Þar var hús í byggingu - eða endurbyggingu - og mikil trjárækt.





Býlin Hallsstaðir og Túngarður standa sitt hvoru megin við mynni Flekkudals. Miðja vegu milli er Flekkudalsrétt og við hana stendur Hótel Jötnagil, kennt við mikið gil hánorðan í Flekkudal. Stjörnufjöldi óuppgefinn......







Við þennan bæ var ekkert skilti svo við sæjum, en af korti að dæma er þetta Svínaskógur, og á ÞESSARI stórkostlegu mynd frá Mats (mats.is) er horft yfir Svínaskóg fram til Hallsstaða, Flekkudals og í öxlinni hægra megin er Túngarður. Ekki virðist vera föst búseta að Svínaskógi (eða Svínaskógum, nafnið virðist vera til í báðum myndum)  líklega er jörðin nýtt fyrir hross. Það er allavega vel hýst:





Það var fundur í málfundafélaginu Auðhumlu:





Svo allt í einu voru tæpir átta kílómetrar að baki og við komin að Lyngbrekku. Þar var allt að gerast, m.a.s. verslun. Ég fann ÞENNAN hlekk og ákvað að nota hann vegna þess að í honum eru afar góðar myndir framan úr Flekkudal ásamt mynd af Jötnagili tilsýndar.

Bein tenging á heimasíðu Lyngbrekku er svo HÉR. Þarna er greinilega búið af stórhug og með myndarbrag enda veglegt heim að horfa:





Vestan í túnfæti Lyngbrekku er eyðibýlið Orrahóll:




Vestan Orrahóls tók við óbyggt svæði, grýtt og skriðurunnið undir öxl Tungumúla. Með það að baki tóku við þrír Tungubæir, í mismikilli byggð og síðan beygði vegurinn í vinkil frá norðvestri til suðvesturs á brú yfir Kjarlaksstaðaá og tengdist þjóðveginum fyrir Klofning rétt við eyðbýlið að Kjarlaksstöðum, eins og fyrr var nefnt. Þegar ég ók fyrst fram hjá Kjarlaksstöðum stóð enn uppi hluti torf- og timburbæjar sem að öðru leyti var fallinn ofan í tóft. Ég hét því að skoða þennan stað áður en húsið félli, en það dróst og þar kom að Kjarlaksstaðabærinn gat ekki beðið lengur. Mig langaði að koma þangað vegna þess að þar fæddist og ólst upp einn þeirra manna sem lifði hvað mestar þjóðfélags- og samfélagsbreytingar á fyrri hluta síðustu aldar og fram um hana miðja. Hann var fróður, vel gefinn, vel lesinn og ritfær enda skráði hann sögu sína sem um leið var saga samferðamanna og sveitunga. Hún er einnig saga sveitarfélags sem þróast úr blómlegri byggð til þess að leggjast algerlega í eyði. Sagan er ekki hástemmd en hún er ómetanlegur hluti byggðasögu við Jökulfirði vestra. Hún heitir "Saga stríðs og starfa"  og sá sem skilaði þessari ómetanlegu ( ég segi það aftur) arfleifð til komandi kynslóða hét Hallgrímur Jónsson, bóndi á Dynjanda við Leirufjörð og síðar í Grunnavík.

Sjá  HÉR, HÉR og HÉR.

Við rústirnar af Kjarlaksstöðum beygðum við til vesturs í átt að Klofningi. Á leið þangað er m.a. ekið fram hjá býlinu að Kvennahóli. Það virðist í eyði en er það ekki að ég best veit. Þar mun enn búa sérkennilegur, bandarískur maður sem keypti jörðina fyrir mörgum árum og hefur búið þar einn. Næpan á þaki útihúsanna vekur athygli vegfarenda og einnig stór kross á framhlið íbúðarhússins, enda hvorttveggja með trúarlega tilvísun. Ábúandinn hefur sína eigin trúarlega hugmyndafræði sem aðrir hafa lítt kynnst nema af tilfallandi blaðagreinum.








Árið 2003 ókum við gegnum Klofning á gamla Toyotaferðabílnum okkar sem bar nafnið  "Ísfirðingur" og tókum þá svipaða mynd. Þá áttum við ekki stafræna vél, bara svona "hjáræna" filmuvél og myndin er því aðeins á pappír. Nú máttum við til að taka "almennilega" mynd:





Sunnan til við Klofninginn er dálítið bílastæði og af því slóð upp á klettinn að útsýnisskífu. Við lögðum bílnum og gengum upp. Á myndinni er horft af stígnum suður yfir Langeyjarnes en framan við það er aðeins mjótt haft, Þröskuldar, yfir í Efri - Langey. Örlítið til hægri við miðja mynd má sjá Dímonarklakka (Klakkeyjar) eins og pýramída og til vinstri við þá er það líklega Drápuhlíðarfjall handan Hvammsfjarðar sem rekur toppinn upp í kólguna, Hafi ég rétt fyrir mér er Helgafell í hvarfi við klakkana. 

Myndin er númer 235 í myndaalbúmi sem merkt er "Svartárdalur" Sjá efst á síðunni. Þar er hægt að stækka hana gríðarlega!





Það var orðið verulega þungt í lofti þarna suðurfrá. Þetta er útsýni af Klofningi suður yfir Hvammsfjörð í átt til Skógarstrandar.





Horft í -  ja, hvaða átt? Jú, yfir nálinni á útsýnisskífunni stendur Látrabjarg og Stálfjall:





Vindbarin Elín Huld reynir að ráða í örnefnin á útsýnisskífunni. Langeyjarnes og Klakkeyjar í baksýn.





Þarna var okkar vendipunktur, líkt og daginn áður að Þorgrímsstöðum á Vatnsnesi. Nú lá leiðin suður því "vonda" veðrið var á leiðinni yfir fjörðinn og ef marka mátti spár yrði það viðvarandi nokkra daga. Við áttum aðeins einn stað eftir óskoðaðan, nefnilega bryggjumannvirki á Hnúksnesi. Þarna mun hafa verið grásleppuútgerð og fleira í svipuðum dúr og eflaust fjörugt mann- og athafnalíf á sínum tíma. Enn er þar á stundum fjörugt mannlíf ef marka má ÞENNAN tengil.















Við Bassi fengum okkar mynd á bryggjunni, af því einhverjum þótti það "svo vel viðeigandi" Í fyrsta hluta pistilsins nefndi ég Skóda norður í Skagafirði sem eitt sinn var kallaður blöðruselur. Ef einhver veit ekki hvernig blöðruselir líta út þá er það nokkurn veginn svona:





.....en kannski er það bara þessi ólánsbolur! Ætli ég hendi honum ekki fljótlega....





Hnúksnes að baki og við héldum áfram heim. Nú ókum við "venjulega" leið meðfram Fellsströndinni og framhjá Staðarfelli. EH langaði að taka góða mynd yfir staðinn og náði því en bakgrunnurinn er satt að segja leiðinlega grár.





Grái liturinn var vegna þess að nú nálgaðist rigningin óðum norður yfir Hvammsfjörð. Nokkrum augnablikum eftir að myndin var tekin féllu fyrstu droparnir, svo bætti í og við ókum í úrhelli alla leið til Reykjavíkur. Þegar þangað kom tók við vinna við að gera Stakkanesið flutningsklárt, þar var reyndar fátt óunnið. Að kvöldi þess 29. var svo lagt upp í langferð sem gekk að óskum og áður hafa verið gerð skil.

Endir þriðja og síðasta hluta. 

Eins og áður var fram komið flytjast ferðapistlar í sér-tengil á jaðrinum hægra megin. Þeir þrír pistlar sem bera yfirskriftina "Dalir og heiðar" falla í nýjan flokk sem heitir "Ferðir innanlands 2014".  


............................................

25.09.2014 08:33

Blautir dagar.


  Er í Hólminum og það rignir. Hreinlega rignir og rignir.....og blæs!

S.s. Stakkanes er komið á flot, var reyndar sjósett í gærmorgun, miðvikudag, á morgunflóði klukkan sjö - þ.e. morgunflóðið var kl. sjö en ég fór frá Reykjavík rétt fyrir hálfsjö og það var því talsvert farið að falla út þegar ég kom uppeftir. Ég hafði ekki látið vita af mér né boðað komu og það var enginn tími til slíks. Það eitt gilti að vera handfljótur og láta veðrið ekki trufla sig. Það var raunar hvorki sérlega blautt né sérlega hvasst þennan klukkutíma sem tók mig að gera allt klárt og sjósetja og þar sem frekar hátt stóð á sjó var Landeyjarsundið enn fært litlum báti. Ég þurfti því ekki að sigla út fyrir Landey eins og ég hafði hálft í hvoru búist við, þar var leiðinda sjógangur og gott að sleppa við það. Báturinn var svo bundinn við bryggju úti í höfn og ég plampaði á gúmmístígvélunum alla leið inní Skipavík til að ganga frá bátavagninum og sækja bílinn. 

Það var dálítið athyglisvert að menn ýmist óku eða gengu hreinlega í kringum mann til að fylgjast sem nákvæmast með öllum aðgerðum en enginn þeirra yrti á mig. Sami maðurinn fylgdist nákvæmlega með í Skipavík, undirbúningnum, sjósetningunni, færði sig svo út á Reitaveginn til að fylgjast með siglingunni um sundið, á höfnina til að fylgjast með bindingum og frágangi og lagði bílnum þvert fyrir ofan landganginn til að fylgjast sem nákvæmast með göngulaginu mínu þegar ég gekk upp af bryggjunni. Hann fylgdi mér síðan í humátt inn að Skipavík og var fyrsti maður sem ég sá þegar ég kom þangað eftir tuttugu mínútna göngu á gúmmístígvélum. Ég á greinilega leynivin - sem er þó ekkert um að bjóða mönnum í stígvélum bílfar í rigningu..........

Eftir þessa dagskrá tóku við hefðbundin atriði - kaffi hjá Gulla og Löllu, heiti potturinn í rúma tvo tíma, innflutningur á Borgabrautina, matarinnkaup í Bónus, ofl. 

Eitt má ég þó nefna. Meðan ég þambaði kaffi hjá Gulla hringdi fjölskyldumeðlimur og bað um aðstoð. Hann var (og er) skipverji á báti sem staddur er hér í Hólminum í sérverkefnum og átti erindi inn fyrir Suðureyjar (Hvammsfjarðareyjar) Leiðin er ákaflega vandrötuð en Gunnlaugur er þrautkunnugur og var kallaður niður í bát til að sýna mönnum það sem helst bæri að varast innan um hólma, sker og harða strauma. Það var hátt niður í bátinn því talsvert var fallið út og mér leist ekki á blikuna þegar Gulli, á áttugasta og áttunda aldursári hóf að klifra niður lóðréttan bryggjustigann. Hann leysti það þó sá gamli, tók sér stöðu við tölvuskjáina í brúnni og benti með fingri á þær leiðir sem hann taldi vænlegastar. Klifraði svo stigann upp á bryggjuna eins og tvítugur. Það var ekki fyrr en heim var komið sem ég sá á honum þreytu............viljinn var langt umfram líkamsburðina og þegar eitthvað kemur upp sem snertir veiðar eða siglingar þá logar áhuginn svo að allt annað gleymist.

Eitt vil ég benda á: Í tenglaröndina hér til hægri hef ég sett nýjan tengil á Færeyjaferðina í sumar. Pistlarnir voru skrifaðir í bland við annað efni og því dálítið ruglingslegt að finna þá aftur í réttri röð ef einhver vill lesa betur. Þessvegna raðaði ég pistlunum upp í rétta röð undir nafninu "Færeyjar 2014" Þetta hyggst ég gera framvegis þegar langir ferðapistlar birtast í tveimur eða fleiri hlutum........

Ég er semsagt hér í Stykkishólmi, einn - allavega ennþá - en umvafinn góðu fólki. Það er kominn fimmtudagur, blautt og hvasst og ekki sjóveður fyrir Stakkanesið -  þótt það sé stórskip!  Það liggur því beinast við að ljúka skrifum á þriðja hluta "Dala og heiða" og það ætla ég að gera í dag.........

17.09.2014 09:41

Dalir og heiðar - annar hluti af þremur.


Fyrsta hluta lauk þegar beygt var af þjóðvegi eitt rétt við Bólstaðarhlíð og lagt á Svartárdalinn. Eins og fram kom var áliðið dags en veðrið ágætt þó kannski væri ekki alveg jafn bjart og hlýtt vestan Vatnsskarðs og austan þess. Vegurinn fram Svartárdal liggur austan Svartár og flest býli standa eða stóðu austan árinnar, sitthvoru megin vegar. Svartá er brúuð á tveimur stöðum til þeirra bæja sem standa vestan ár.
  Fyrsta myndin mun vera tekin á þeim slóðum sem eyðibýlið Fjósar stóð fyrrum, en uppi í hæðunum þar ofan við og austan til í dalnum er dálítil skógrækt sem setur mikinn svip á umhverfið. 
( Ath. Ekki ber öllum sögnum saman um nafn bæjarins, hvort það var Fjós eða Fjósar. Sé það fyrra rétt hefur það verið í fleirtölu því þágufallsmyndin virðist yfirleitt vera "Fjósum" -  Ég held mig við nafnið á Herforingjaráðskortunum)





Fljótlega eftir að komið er inn í Svartárdal er ekið hjá eyðibýlinu Bröttuhlíð. Þetta er mjög sérstakt hús, sambland torf- og timburhúss en orðið verulega illa farið. Á netrápi rakst ég á umsókn til byggingafulltrúa svæðisins um niðurrif þessa húss, ekki fylgir niðurstaða en hver sem hún hefur orðið stendur húsið enn. Í nýlega útkominni ritröð um "Eyðibýli á Íslandi" (sem raunar er enn að koma út) er fjallað um Bröttuhlíð. ( Eyðibýli á Íslandi, Rannsókn á eyðibýlum og yfirgefnum húsum í Skagafjarðarsýslu, Austur-Húnavatnssýslu og Vestur-Húnavatnssýslu sumarið 2013, bls. 114). Þar kemur fram að húsið sé byggt á árunum 1904-5 og búið hafi verið í því til 1978. Ennfremur kemur þar fram að tillaga hafi verið gerð um friðun hússins en ekki er að sjá að af hafi orðið. Sjá nánar HÉR








Spölkorn innan við Bröttuhlíð standa Eiríksstaðir. Þar hefur verið byggt nýrra íbúðarhús en það gamla stendur enn og hefur ratað í eyðibýlaritið áðurnefnda. Þetta rit er mikil biblía og á þessu ferðalagi fram Svartárdal er gott að styðjast við það þar sem við á. Fram kemur m.a. að nýrra íbúðarhúsið á Eiríksstöðum sé byggt 1976:





.....en það eldra 1938. Það er varla búið stórbúi á Eiríksstöðum en búið þó:





Handan árinnar, að vestanverðu stóðu áður tveir bæir, Torfustaðir og Barkarstaðir. Nú standa aðeins Barkarstaðir og heim að sjá var vel búið og snyrtilegt. Torfustaðir voru dálítið norðar og í eyðibýlabókinni er birt mynd af íbúðarhúsi þar, einlyftu, gulmáluðu steinhúsi. Af því stóðu aðeins útveggir þegar myndin var tekin. Síðast var búið á Torfustöðum 1983 og frá þeim tíma hefur þakið hreinlega hrunið niður og annað tréverk eyðilagst í kjölfarið. Þegar við fórum þarna um í sumar var greinilega búið að rífa útveggina því nú stóð ekkert nema reisuleg útihús. Tún voru nýslegin og líklega nytjuð frá Barkarstöðum:





Samkvæmt öllu munu þetta vera útihús Torfustaða. Eyðibýlabókin nefnir einnig að býlið hafi áður heitið Torfastaðir og þannig er það merkt á Íslandskortinu mínu. Ég beygi mig hins vegar fyrir visku háskólafólksins sem vann ritið.





Hér að neðan er horft heim að Barkarstöðum en þangað liggur önnur þeirra tveggja brúa sem nefndar voru í upphafi og er vegleg. Sú þjónaði þá einnig Torfustöðum:





Þá er komið heim að Bergstöðum. Býli með því nafni eru fleiri en eitt og fleiri en tvö á landinu en ýmist skrifuð með einu essi eða tveimur. Þessir Bergstaðir hafa sína sérstöðu, bæði eru þeir kirkjujörð og státa af þessum stórkostlega gamla bæ sem sést uppi í hlíðinni ofan kirkjunnar.





Kirkjan var lokuð og læst og við vildum ekki ónáða fólk heima á bæ til að fá lánaðan lykil. Því létum við nægja að skoða hana að utan og svo umhverfið. Kirkjan er friðuð vegna aldurs, var greinilega nýviðgerð og má sjá nánari upplýsingar um hana HÉR





Eins og lesa má yfir dyrunum er kirkjan reist árið 1883. Til er sögubrot um tilurð hennar og er athyglisvert: Húsið mun upphaflega hafa verið flutt inn tilhöggvið erlendis frá sem pakkhús og átti að standa á Sauðárkróki. Ekki varð af byggingu og bændur í sókninni fengu efnið í kirkjubyggingu. Turninn var byggður síðar. (Íslandshandbókin I, bls.341)





Ég á það til, þegar ég kemst ekki inn í kirkjur sem mig langar að skoða, að skella myndavélarlinsunni beint á glugga og mynda inn. Allajafna er undir hælinn lagt hvernig slíkar myndatökur heppnast en hér við Bergstaðakirkju virtust þær lukkast vonum framar:











Svo var það gamli bærinn. Að sjálfsögðu á hann sinn stað í ritinu "Eyðibýli á Íslandi" og þar er gerð á honum fræðileg úttekt sem ég endurbirti ekki en bendi á. Húsið er að mestu leyti úr timbri en með tyrfðu þaki. Það er greinilega byggt sem framhús eldri torfbæjar sem stendur samanfallinn hlíðarmegin við það. Húsið hefur greinilega staðið opið fyrir veðri, vindum og sauðfé árum eða áratugum saman og innandyra má vel merkja að gimbu hefur líkað skjólið. Að lokinni kirkjuskoðuninni röltum við með myndavélina uppeftir.





Framan við bæinn er dálítil grjóthleðsla sem ber uppi járnkross. Í hleðslunni er steinn með áletruninni "Bergstaðakirkjugarður 14. öld 1882" og má vel vera að eldri kirkjugarður hafi staðið þarna framan við bæinn. Núverandi garður er umhverfis kirkjuna en ekki er getið um annað en að eldri kirkja (sem var torfkirkja) hafi staðið á sama stað og núverandi.

(Ath. Ég skrifa  Bergstaði með einu essi vegna þess að ég styðst við áletrunina á steininum ásamt Herforingjaráðskortinu. Á nýlega, bláa vegskiltinu niðri við kirkjuna er nafnið ritað með tveimur essum og ég giska á að það hafi ekki með neina sagnfræðilega tilvísun að gera heldur sé hreinlega vegna hroðvirkni)







Bassi fékk að hlaupa laus eins og yfirleitt þegar kindur eru hvergi sýnilegar en lyktin af þeim var sterk og hann var hálfruglaður þarna inni í gamla bænum:





Hér sést inn bæjargöngin, eða forstofuna eins og eflaust hefur þótt viðeigandi heiti í timburhúsi. Eins og sjá má er gólfábreiðan í þykkara lagi og það er farið að koma niður á lofthæðinni:





Hér er horft inn í hjarta hússins, líklega hefur þetta verið eldhúsið. Til vinstri liggur stigi upp á loftið:





Viðirnir sem notaðir hafa verið í milliveggi þarna uppi hafa trúlega ekki verið keyptir nýir í BYKO heldur endurnýttir úr eldri byggingum. 





Þegar horft var á húsið svona ofan frá virtist syðri hluti þess (vinstra megin) vera úr takti við hitt og sýndist helst vera frá öðrum tíma. Eyðibýlabókin, sem ég tók ekki með í ferðalagið - því miður - en las heimkominn, er sama sinnis og telur þetta viðbyggingu.





Svona var sjónarhornið þegar staðið var á rústum gamla torfbæjarins bakvið og horft ofan í forstofuna (eða bæjargöngin, eftir því sem við á):





Einu sinni sá ég bíómynd sem hét "Attack of the 50 ft. woman"  og skartaði Daryl Hannah í aðalhlutverki. Þetta var afspyrnuléleg mynd og líklega flestir búnir að gleyma henni en hún kom þó í hugann þegar Elín Huld stillti sér upp til myndatöku í gamla eldhúsinu á Bergstöðum. EH verður seint talin hávaxin en virkar hreint risavaxin þar sem hún stendur á þykkri "gólfábreiðu" úr sauðfjárafurðum og styður höndum á loftið:





Þegar út var komið tókum við eftir því að járnkrossinn á steinvörðunni var áletraður á bakhliðinni (sem kannski var þá framhliðin). Á honum stendur:  "Hildur húsfrú Eiríksdóttir. Fæddist 18 sept. 1808. Dó 6. apr. 1879. Giptist tvisvar og eignaðist 10 börn"

Nánar HÉR.





Næsti bær innan við Bergstaði er Leifsstaðir. Þar er búi brugðið og enga hreyfingu að sjá lengur. Hús eru þó þokkaleg og virðast í einhverri notkun og hirðu:








Innan við Leifsstaði er stórbýlið Steiná handan ár til hægri og fyrir miðri mynd sést eyðibýlið Hóll. Íbúðarhúsið í grænum bletti ofan gils en útihúsin niðri við Svartá:





Á leið að Steiná og Hóli ókum við fram hjá lítilli tjörn ofan vegar. Yfir hana voru strengdar grannar línur og á vatnsyfirborðinu mátti sjá fjölda smáhringja - tjörnin var full af seiðum sem líklega var verið að ala til sleppingar í Svartá og línurnar þá til að verja ungviðið gegn fugli.





Hér að neðan er horft heim að stórbýlinu Steiná og á þeirri efri er í forgrunni síðari brúin sem í upphafi var nefnd. Við myndjaðar vinstra megin sér til húsa að Hóli:





Heima á Steiná var kúarektor á leið upp heimtröðina með hjörð sína:





Séð heim að Hóli. Fari ég rétt með munu fjölskyldur á Hóli og Steiná hafa verið nátengdar enda stutt milli bæja og vel búið beggja megin:





Við Hól beygir Svartárdalur krappt til austurs en síðan fljótlega aftur til suðausturs og liggur þá líkt og áður. Upp af Hóli gengur hins vegar þröngur Hólsdalur og endar í mýrarmóum en fjallstungan sem skilur á milli heitir Öxi.

Innan við þessa bugðu á Svartárdal eru nokkur býli og er fyrst að nefna Skottastaði, eyðibýli þar sem lítt sér lengur til húsa. Rétt þar framan við sem dalurinn hefur náð fyrri stefnu til suðausturs er býlið Hvammur, einnig í eyði að sjá en vel hýst. Þegar við EH ókum þarna hjá varð mér hugsað til allra þeirra rúmmetra í húsbyggingum sem liggja lítt eða ekki notaðir utan alfaraleiða en teldust tugmilljóna virði nær þéttbýli. Það væri ekki amalegt að eiga aðgang að svona höll einhversstaðar nærri borginni:








Hér að neðan er horft frá veginum ofan og innan við Hvamm, niður að innri bugðunni á Svartárdal en undir hvarfinu fjær ( fyrir miðri mynd) stendur býlið Steiná og sést því ekki. Í forgrunni myndarinnar er grjóturð sem liggur neðan við litla dalræmu er gengur þvert austur úr dalnum og nefnist Hvammsdalur. Það er til tenging við þessa grjóturð, nefnilega HÉR:





Næsta býli framan við Hvamm var Kúfustaðir og sé rétt með farið er þessi litla bogaskemma meðal þess sem eftir stendur af því býli. Íbúðarhús er ekki en hluti útihúsa og virðist í einhverri notkun. Ég ætla að tengja yfir á ágæta mynd frá Mats (MWL) sem tekin er fram Svartárdal og sér vel til útihúsa að Kúfustöðum, m.a. má sjá litlu bogaskemmuna fremst. Tengillinn er HÉR og innar á myndinni sér fram að býlinu Stafni.





Stafn er myndarbýli að sjá og ekki veit ég betur en þar sé enn búið ágætlega þrátt fyrir áföll eins og HÉR er lýst. Stafn er fremsti bær í Svartárdal og af því tilefni er tilvalið að setja inn skemmtilegan ferðatengil með ágætri lýsingu á landi og háttum.





Litlu innan við Stafn greinast leiðir. Eins og sjá má á skiltunum liggur héðan vegur um Kiðaskarð yfir að Mælifellsá í Skagafirði og sá vegur greinist svo víða, m.a. inn á Kjöl eins og ég nefndi í fyrsta hluta. Einnig liggur stuttur vegspotti fram að Stafnsrétt, en réttardagar að Stafnsrétt eru heimsfrægir um allt Ísland eins og kynnast má HÉR, HÉR og HÉR





Þriðja greiningin liggur svo fram í Fossárdal því nú vorum við komin inn úr sjálfum Svartárdal og okkar leið lá fram Fossárdal að býlinu Fossum.





Af veginum fram að Fossum sést vel yfir Stafnsrétt. Nú var þar lítið um að vera, einn jeppi var á ferð þar í grenndinni og hafa  menn líklega verið að huga að ástandi réttarinnar fyrir haustið.





Vegurinn fram Fossárdal var engin hraðbraut, skemmtilega bugðóttur og þröngur en sléttur og ágætur yfirferðar. Náttúrufegurðin var líka ósvikin.......





Ekki veit ég hvort búskapur er enn stundaður að Fossum allt árið en hitt er víst að allt er þarna í góðri hirðu og ekkert lát að sjá á mannvirkjum og tækjum. Ég má til að tengja eina sögu við Fossa. Svo má líka skoða HÉR.





Við Fossa liggur vegur upp úr Fossárdal inn á Eyvindarstaðaheiði. Þessi vegur togaði í okkur, veðrið var enn ágætt og ekki mjög áliðið dags, eða rétt um sjöleytið. Okkur fýsti ekki að aka niður Svartárdal aftur ef annað væri í boði og lögðum því á heiðina. Kortið okkar benti til að innarlega á leiðinni væri greining niður í Blöndudal, við vorum búin að skoða leiðina fyrir nokkru bæði á kortum og loftmyndum og því lá beint við að velja hana.  Við lögðum á brattann (sem í raun var enginn bratti fyrir þann sem nýlega hefur ekið í Færeyjum....)

Þegar upp er komið þangað sem heitir Litliflói er ágætt útsýni inn yfir Fossárdal og litli hvíti depillinn í hlíðinni vinstra megin ofan árinnar eru leifar eyðibýlisins Kóngsgarðs




Vegurinn um heiðarflákana reyndist nánast vera hraðbraut - svona ef tekið er mið af hálendisvegum almennt og ástandi þeirra í sumar. Hraðast gátum við ekið á 50 km. hraða og hefði einhversstaðar þótt gott - t.d. á Kjalvegi!





Það þyngdi jafnt og þétt í lofti og stöðugt varð rigningarlegra. Við ókum þó í þurru inn alla heiði allt þar til vegir greindust við vegskilti, annars vegar - til vinstri og suðurs - var vegtenging inn á Kjalveg og allt inn á sjálfa Eyvindarstaðaheiðina, en til norðurs var merkt leið niður í Blöndudal og sögð 15 km. Á kortaklippunni hér fyrir neðan má nokkuð sjá leiðina. Leið okkar frá Fossum í Fossárdal/Svartárdal er merkt er með rauðu og þegar myndin neðan við kortið er tekin erum við stödd nokkurn veginn í hringnum. Leiðin niður í Blöndudal er svo áfram merkt með rauðu meðan tengingin inn á Kjalveg er auðkennd með bláu:







Stöðugt dró úr birtunni til loftsins þó enn væri langt til myrkurs - enda 22. júlí. Það mátti samt segja að útlitið þarna uppi væri orðið hálf haustlegt, þegar við beygðum við vegamótin niður í Blöndudal og lögðum á veg sem greinilega var ekki mikið ekinn. Hann var í sjálfu sér ekki slæmur og vel greiðfær hvaða jepplingi sem var, en miðjan var gróin upp og gras var í köntum. Á myndinni að neðan er horft til suðvesturs, í átt að Kjalvegi norðanverðum:





Auðvitað komum við svo að einu klassísku "mæðiveikihliði" eins og það var kallað í minni sveit. Á  hliðunum var yfirleitt lítið skilti með svörtum stöfum á hvítum fleti: "Sauðfjárveikivarnir - lokið hliðinu". Aðstoðarekillinn sá um að hleypa ferðadrekanum í gegn:





Eftir því sem neðar dró lækkaði og  nálgaðist  gráminn í loftinu og þegar kom niður á móts við miðja Rugludalsbungu var farið að þéttrigna. Engu spillti þó sú rigning fyrir okkur, við vorum hvorki úti að grilla né í berjamó heldur nutum þess sem gafst af útsýninu og öðru sem fyrir augu bar. Við ókum þennan hluta vegarins mun hægar, eða á 25-30 km. hraða enda var hann heldur síðri eins og áður sagði og maður "skottast" ekki beint á þriggja og hálfs tonns ferðabíl!

Framhjá Rugludalsbungu handan Blöndu, niður með þar sem heitir Steinárháls ( væntanlega kenndur við Steiná í Svartárdal)  og eftir góða stund sá til bæjar handan ár. Það voru Eiðsstaðir, en svo þröngur er dalurinn að enn sáum við ekki til þeirra tveggja bæja sem við vissum að voru framar, Bollastaða sem voru vegmegin (austan Blöndu) og Eldjárnsstaða, vestan ár.:





Svo dró allt í einu úr rigningunni og gráa beltið sem hafði umlukið okkur undanfarinn hálftíma var að baki. Á svipuðum tíma ókum við út háa bakka og undir þeim leyndist bærinn að Bollastöðum. Við hann var veggreiningin, annars vegar heimtröðin og hins vegar sú slóð sem við vorum að ljúka:





Rétt neðan við Bollastaði mátti handan árinnar sjá til Eldjárnsstaða, fremsta bæjar sem enn stendur í Blöndudal,  í u.þ.b. 230 m. hæð yfir sjó.




Við ókum í rólegheitum niður Blöndudal og skoðuðum sveitabæi sem á leið okkar voru, auk þess sem afar gaman var að skoða þau mannvirki Blönduvirkjunar sem við blasa úr dalnum en sjást eðlilega ekki annarsstaðar. Þegar við komum niður undir brúna sem okkar í milli heitir í daglegu tali "hvíta brúin" (og má ekki rugla saman við aðra hvíta brú sem svo er nefnd og er í innan/sunnanverðum Gilsfirði - sjá HÉR ) ákváðum við að fara ekki hefðbundna leið niður Langadal út til Blönduóss heldur aka um brúna og milli Stóradalsháls og Tungunessmúla yfir að kirkjustaðnum Svínavatni. 





Þegar heim kom að Svínavatni og litið var um öxl mátti sjá hvar kólgan fylgdi okkur niðureftir. Blíðviðrið við Bollastaði hafði þá aðeins verið vegna þess að þótt okkar ferðahraði væri ekki mikill var hann þó aðeins meiri en rigningarinnar. Hún áði aldrei heldur nálgaðist jafnt og þétt ........





Að Svínavatni er rekin gistiþjónusta og var sýnilega talsvert af fólki á staðnum. Okkur vanhagaði svosem ekki um neitt - við vorum hins vegar orðin svöng enda klukkan orðin hálfníu og því komið talsvert fram yfir kvöldmatartíma. Við lögðum ferðadrekanum á bílastæði við kirkjugarðinn og undirbjuggum útiborðhald í blíðviðrinu. Það voru ekki margar gárurnar á Svínavatni þetta kvöldið:





Það er ekkert að marka það þó eðalhundurinn Edilon Bassi Breiðfjörð Eyjólfs- og Elínarson Thorsteinsson Budenhof Sandhaug Sóðalöpp sé svona sultarlegur. Hann hafði nóg að borða en er hins vegar sérfræðingur í sérstökum eymdarsvip ef hann heldur að einhver annar sé með eitthvað betra.....





Eftir mat og kaffi var ætlunin að skoða kirkjuna að Svínavatni en hún var harðlæst. Við urðum dálítið hissa enda ekki venjulegt um sveitakirkju sem stendur heima á bæjarhlaði. Kirkjan að Höskuldsstöðum hafði verið opin, einnig Flugumýrarkirkja. Kannski var Svínavatnskirkja læst af gefnu tilefni, ég veit það ekki og við vorum ekkert að trufla húsráðendur í önnum til að fala lykil heldur létum okkur duga að skoða það sem sást. Að venju reyndi ég að mynda inn um glugga en það gafst ekki vel:  






EH tók útimyndina og að venju er hún betur heppnuð. Ef þessi mynd er borin saman við myndina í hlekknum hér ofar má ekki betur sjá en ytri klæðning hafi veið endurnýjuð frá Kirkjukortsmyndinni. Ég man ekki betur en ég hafi séð vinnupalla við kirkjuna fyrir tíu árum eða svo, og líklega er þetta ný klæðning:





Frá Svínavatni ókum við að Auðkúlu og þar var annað uppi á teningnum. Kirkjan var ólæst og í gestabók hennar hafði verið letruð þökk til umsjónarfólks fyrir að hafa kirkjuna opna. Auðkúlukirkja var endurbætt mikið fyrir nokkrum árum en betur má ef duga skal og gamlar timburkirkjur verða ekki eilífar við endurbyggingu - þær þurfa stöðugt viðhald eins og sjá má á spírunum í þakinu. Ég hef áður lýst skoðun minni á svona spírum (sjá Reyki í Steinsstaðabyggð) og geri það ekki frekar. Hitt er annað mál að þar sem þær eru á annað borð er sjálfsagt að halda þeim í lagi:








Sexstrendar kirkjur eru alltaf dálítið sérstakar að innan enda bekkjaröðun frábrugðin því hefðbundna. Allt var þéttara og þrengra án þess þó að vera til lýta því kirkjan er ekki bara afar sérstök heldur einstaklega falleg.















Frá Auðkúlu ókum við vestur sveitina, norður með Svínavatni, hjá Húnavöllum og út á þjóðveg eitt við Stóru- Giljá. Þegar við ókum meðfram Svínavatni var klukkan rétt um tíu að kvöldi og tilsýndar virtist stórbruni á Blönduósi:





Svo var slegið í amerísku hrossin og þeyst beina leið til Hvammstanga. Þar skyldi nóttinni eytt og þar skyldi morgundagurinn hefjast með ferð út Vatnsnes. Veðurspá komandi dags benti til þess að brátt brygði blíðviðrinu og því um að gera að nota tímann meðan veður gæfist. 
Þegar ekið var frá hringveginum áleiðis út að Hvammstanga virtist enn brenna - en nú norður á Ströndum: 





Það fór ágætlega um okkur á tjaldsvæðinu í Kirkjuhvammi ofan þorpsins á Hvammstanga. Talsvert var af gestum og eins og á öðrum tjaldsvæðum sem við höfðum skoðað í ferðinni var einnig talsvert um skemmdir af völdum þungra ferðatækja. Við hættum okkur ekki út á grasið frekar en fyrr en lögðum á malbikuðu plani ofan við gömlu kirkjuna. Þar var ágætt að vera. 

Að morgni var besta veður, ágætlega bjart og allar rigningarspár virtust fjarstæðukenndar. Við lukum morgunverði og lögðum því næst upp að nýju og nú út með Vatnsnesi. Fyrsti viðkomustaður okkar var eyðijörðin Stapar. Þar fæddist Guðmundur Bergþórsson skáld, sem þekktur var á sinni tíð og síðan, m.a. fyrir rímnakveðskap. Sjá fróðleik um Guðmund HÉR, HÉR og HÉR. Fyrir nokkrum árum var Guðmundi reistur minnisvarði við þjóðveginn hjá Stöpum, sjá HÉR.

Myndin er tekin af klettunum ofan við bæinn að Stöpum, niður yfir bæjarhúsin. Ég vil fullyrða að Stapar séu eitt alfallegasta bæjarstæði á landinu og synd að sjá hvernig húsum hnignar:







Frá Stöpum héldum við áfram út nesið að Tjörn en beygðum þar af leið sem vegur greinist  af þjóðveginum og liggur fram í tvo dali. Sá vestari er Þorgrímsstaðadalur og er samnefndur bær framarlega enn í byggð. Sá eystri er Katadalur, kannski helst eftirminnilegur vegna þess að á samnefndum bæ austan til í dalnum ólst upp og bjó Friðrik Sigurðsson sá er varð Natani Ketilssyni að bana á Illugastöðum. Að Katadal er ekki lengur búið hefðbundnu búi en vel búið engu að síður:





Andspænis Katadal að vestanverðu er - eða var - býlið Egilsstaðir. Nú sumardvalarstaður, og það er ekki laust við að manni finnist þeir sem yfir þessum tveimur býlum ráða, vera eins og kóngar í eigin ríki, einir í dalnum sínum þar sem fáir eiga leið um........





Kannski má segja þetta sama um Þorgrímsstaði. Þeir standa líkt og konungsríki innst í sínum eigin dal þar sem fáir eiga leið um nema þeir sem beinlínis eiga erindi og svo einn og einn forvitinn ferðalangur.







Þessi gamli Landróver stendur við túnfótinn líkt og hliðvörður konungs - eða kannski frekar skýli hliðvarðar? Skjól fyrir skólabörn að bíða eftri skólabíl? Skjól fyrir póstinn sem fer ekki lengra en að túngarðinum af því reglurnar mæla svo fyrir? Hver veit. Einhver setti hann þarna í einhverjum tilgangi. Allt hefur sinn tilgang, jafnvel gamall Landróver í einskismannslandi.........





Þorgrímsstaðir eru reyndar ekki eini bærinn í dalnum, fyrir miðjum dal er býlið Ásbjarnarstaðir og þeir áttu Landróvera. Að Ásbjarnarstöðum virtist annars búið stórbúi og höfðinglegt heim að sjá. Ég tók enga mynd þar en Mats Wibe Lund á nokkrar stórgóðar og þar með þessa HÉR.  Á henni er horft út Þorgrímsstaðadal í átt að Tjörn og allt til Hindisvíkur. Enn er ótalið eyðibýlið Tunga við mynni Þorgrímsstaðadals en þar er búi löngu brugðið og hús hálffallin eða alveg.

Niður Þorgrímsstaðadal rennur Tunguá til sjávar rétt neðan við Tjörn og er þjóðvegurinn brúaður yfir hana. Niður Katadal rennur samnefnd á og tengist Tunguá. Vegurinn fram í dalina tvo er brúaður yfir Katadalsá þar sem áin rennur í fallegu gili niður að Tunguá og sameinast henni litlu neðar:






Við vorum ekki á leið fyrir Vatnsnes í þetta sinn heldur ókum til baka inn nesið og áðum stutta stund að býlinu Geitafelli, þar sem hluta bæjarhúsa hefur verið breytt í veitinga- og gististað en önnur eru nýbyggingar. Þarna er skemmtilegt um að litast, veitingahúsið bauð upp á fiskisúpu og svo margt var í mat að við ákváðum að okkar tími yrði síðar.....




Frá Geitafelli ókum við viðstöðulaust inn á Hvammstanga aftur, höfðum þar stutta viðdvöl en ókum því næst inn að Bjargi í Miðfirði. Þar litum við á minnismerki um dvöl Grettis Ásmundarsonar en ókum síðan út að Laugarbakka og gerðum talsverða leit að sundlauginni sem þar átti að vera skv. sundlaugalistanum góða. Frá þeirri leit og lyktum hennar segir í þriðja hluta......

Gott í bili.
----------------------------------------------------

15.09.2014 08:41

Dalir og heiðar.


Einu sinni skrifaði ég pistil með yfirskriftinni: "Hálsar og skörð". Sá pistill snerist aðallega um Hrútafjarðarháls, "Lomberveginn", Siglufjarðarskarð og Haukadalsskarð. Mér finnst "Dalir og heiðar"  geta átt ágætlega við þennan pistil, sem spannar nokkra dali og tvær - jafnvel þrjár - heiðar ef allt er talið.

Upp var runninn sunnudagur 20. júlí og þrjár vikur liðnar frá heimkomu úr Færeyjaferð. Þrjár vikur án ferðalags eru langur tími af stuttu sumri og auk annarra heimaverka hafði tíminn verið nýttur (í rysjóttu veðri þó)  til að standsetja bátavagninn undir Stakkanesinu fyrir langferðina í Hólminn. Það var því ekki til setunnar boðið þegar veðurspáin gaf færi á ferðalagi. Drekinn var hlaðinn ferðafötum og búnaði, förinni heitið norður á við og lagt af stað um hádegi á sunnudegi, sem fyrr segir. Fyrsti viðkomustaður var að venju Borgarnes þar sem "lögáning" er í Geirabakaríi við brúarsporðinn. Kaffi, snúður og ástarpungar í poka - svo var verslað í forðabúrið í Bónusbúðinni við hliðina og að síðustu fékk Bassi að liðka sig örlítið á planinu. 

Það var "krúsað" upp Borgarfjarðarsveitir, umferðin var á móti en lítil með og við ókum viðstöðulaust upp í Norðurárdal. Einn er sá staður sem oft hefur verið horft til og ákveðið að heimsækja en aldrei orðið úr. Nú var nægur tími, við beygðum af leið og ókum heim að kirkjustaðnum Hvammi í Norðurárdal.






Heima við bæ voru tvær konur, mæðgur og við gáfum okkur á tal við þær. Við fengum leyfi til að skoða kirkjuna og í ofanálag ágætar upplýsingar um hús og gripi, ásamt því helsta sem viðkom sókn og sveit.




Elín Huld sýnir venjulega útskornum kirkjugripum sérstakan áhuga og þessi skírnarfontur var ekki undanskilinn enda afar fallegur:




Meiri fróðleik og fleiri myndir af Hvammskirkju í Norðurárdal má nálgast HÉR.




Úti í kirkjugarði lágu þessir legsteinar. Ekki höfðum við upplýsingar um þá en þeir voru þéttletraðir.




Á steininum má lesa eftirfarandi: "Hjer er lagður dánumaðurinn Ari Jónsson fæddur 6 (?) Marti 1766, giftur 30 október 1789, 5 barna besti faðir, deiði (svo) 19. nóv 1818. Sálir rjettlátra eru í Guðs hendi og eingin pína nær til þeirra. Spek.3:1"     

(tilvitnunin er úr Speki Salómons, 3:1)




Við kvöddum svo þessar ágætu mæðgur. þökkuðum fyrir okkur og héldum áfram norður heiðar. Á Holtavörðuheiðinni mætti okkur alger andstæða þess heiða himins sem á myndunum sést, lágþoka sem fylgdi okkur alla leið niður undir sjávarmál við Staðarskála og lá síðan í loftnetinu að Víðigerði þar sem áð var góða stund. Einn angi fjölskyldunnar var á ferð norður í landi um sama leyti, og á hlaðinu við Víðigerði sköruðust leiðir svo úr varð fundur. Upplýsingarnar sem við fengum gáfu til kynna áframhaldandi þoku norðurúr svo við ákváðum að fresta fyrsta áfangastað ferðarinnar en aka þess í stað beint út á Skagaströnd og nátta þar. Það var reyndar ekki nema rétt síðdegi en við álitum að dagurinn myndi ekki nýtast frekar til skoðunar þar sem þokunni myndi varla létta fyrr en með næsta morgni.

Ferðaáætlunin hljóðaði uppá Laxárdal þann sem liggur austar en samsíða Langadal. Laxárdalur var snemma á síðustu öld með þéttbýlli dölum og býli þar skiptu tugum þegar mest var. Þar fór svo eins og víðar, að breyttir búskaparhættir til sveita og bættir atvinnuhættir við ströndina drógu fólk úr dalnum sem smám saman lagðist í eyði, að frátöldum örfáum bæjum. 

Það má kalla Langadal rangnefndan ef dalirnir tveir eru bornir saman. Laxárdalur byrjar mun norðar en má vel kalla að nái allt suður undir Bólstaðarhlíð ef frá er talið smá haft við býlið Gautsdal. Þannig er Laxárdalur allmiklu lengri þegar allt er talið. Okkar ætlun var að aka inn dalinn norðanfrá og eins langt til suðurs og mögulegt væri með góðu móti, en snúa svo við og aka suður Langadal að Auðólfsstöðum og þar um Auðólfsstaðaskarð yfir að býlinu Gautsdal, sem - þrátt fyrir nafnið - hlýtur að teljast til Laxárdalsbæja. Væri mögulegt að aka frá Gautsdal og norðureftir ætluðum við að gera það.

Það var þoka á Blönduósi og það var þoka út Refasveit. Út að líta til Skagastrandar var einnig þoka og það var því beinlínis stórfurðulegt að aka inn í skafheiðan blett rétt við eyðibýlið Neðri-Lækjardal þar sem leið liggur af þjóðveginum og fram í Laxárdal. Við Elín Huld gátum ekki litið á þetta undur öðruvísi en sem beina ábendingu til okkar um að nýta tímann og skoða Laxárdalinn meða færi gæfist. Við beygðum því af vegi og lögðum af stað fram í þessa forðum miklu sveit. Sitthvoru megin vegar voru býlin Neðrimýrar, Efrimýrar og Sturluhóll. Þegar framhjá þeim var komið tók við brú á Laxá og býlið Skrapatunga undir Tunguhnjúki. Ekki var að sjá þar búskap en staðurinn virtist snyrtilegur sumardvalarstaður:



Við Skrapatungu kvíslaðist vegurinn, til vinstri lá hann niður að alkunnri Skrapatungurétt á Laxárbakka, til hægri lá leiðin inn dalinn. Næsti bær á leið okkar var Balaskarð. Ekki virtist það í ábúð frekar en Skrapatunga, þrátt fyrir reisulegan húsakost:




Það sama var uppi á teningnum að Mánaskál, snyrtilegur sumardvalarstaður en eiginlegur búskapur löngu úr sögunni. Nokkur tómstundahross voru í gerði:




Áfram héldum við inn dalinn og urðum meira en lítið hissa þegar við mættum jeppa með hestakerru í eftirdragi. Ekki áttum við von á fólki á ferli í þessu einskismannslandi, þótt við hefðum að vísu séð til mannaferða við Mánaskál og nærliggjandi sumarbústað. Á myndinni að neðan er horft til suðurs og eins og sjá má er vegurinn enn ágætur:




Það er víða fallegt í Laxárdal og þessi hvammur var ekki undantekning. Litlu nær og í hæðunum til hægri utan myndar mun hafa staðið býlið Úlfagil. Þar mátti marka greinilegar tóftir.




Litlu innar var býlið Núpur og mun vera það sem sjá má í hausmynd síðunnar sem áður var til vísað um Laxárdal, sjá aftur HÉR

Enn innar og á vegarenda samkvæmt okkar korti var býlið Illugastaðir. Ekki var sýnileg heimtröð að býlinu en þó virtist vera unnið þar að einhverjum endurbótum við sumarbústað. Svo áttuðum við okkur á að heimtröðin var svo gróin að hún var í raun aðeins grunn hjólför í háu grasi og einu sýnilegu ummerkin voru vegstubbur við Laxá og myndarleg brú yfir hana:




Vegurinn náði lengra en kortið sýndi enda voru skammt innan við Illugastaði bæir sem lengi var búið á þó ekki standi þar byggingar lengur. Við ókum stuttan spöl inneftir en vegurinn var þar orðinn svo slæmur yfirferðar að hraðar yrði farið á fæti en akandi. Þá var mál að snúa....




Í bakaleiðinni var þessi mynd tekin af býlinu Núpi og má vel bera saman við þá í hlekknum. Sú mynd hlýtur að vera nokkru eldri því eins og sjá má stendur nú aðeins hluti steyptu húsanna. Íbúðarhúsið er fallið og fjárhúsin, eftir standa hlaðan og bakhús hennar. Litli kofinn neðar í túninu er sýnilegur á báðum myndum:




Það var fljótekið til baka og von bráðar vorum við að nýju við Skrapatungu. Nú fórum við "hinn" veginn og ókum hjá réttinni að Laxá og yfir hana á vaði sem var allmiklu dýpra en hægt er að sjá á myndinni. Ferðadrekinn skriplaði á sleipu grjóti og sem snöggvast hélt ég að ég þyrfti að bleyta föt við að klöngrast út og setja í driflokur. Ekki fór þó svo og við verðlaunuðum okkur með stuttri áningu ofan árbakkans.






Að áningu lokinni var ekið rakleitt út á Skagaströnd og sest að í ágætum bás á ágætu tjaldsvæði......Um leið og Laxárdalnum sleppti tók þokan völdin að nýju og kvöldið var hálf hráslagalegt - eiginlega of kuldalegt fyrir bæjarrölt, ekki síst þegar við bættist þéttur rigningarúði. Það er ekki orðum aukið að almættið hafi rétt okkur þessa Laxárdalsstund að gjöf - svo sérstakt var að fá þennan eina stað þokulausan á stóru svæði sem annars var umlukið þykku, gráu teppi svo hvorki sá til vega né fjalla.

--------------------------------------------------------------------



Svo rann upp nýr dagur og mun bjartara veður. Þessi dagur lofaði sannarlega góðu og við skelltum okkur í sundlaugina á Skagströnd - eina af þeim sem enn höfðu ekki fengið sitt merki á sundlaugalistann margumtalaða. Þar með var úr bætt og eftir sund fengum við okkur göngutúr um hafnarsvæðið. Það gerði Edilon Bassi  líka og nýtti tímann til að velta sér upp úr dragúldnum fiskúrgangi. Lyktin var algerlega ólýsanleg enda skammaðist hann sín niður í loppur! Ekki var um annað að ræða en að baða hann með bryggjuslöngu úr vellyktandi dömusjampói og miðað við allt hans fas var ekki annað að sjá en honum þætti sú lykt ekki skárri en ýldulyktin. Við deildum ekki þeirri skoðun og við hlutum að ráða........




Við lögðumst í könnunarleiðangur um staðinn og þessi laglega vík er norðan Spákonufellshöfða við býlin Ásholt og Sólvang:




Tíminn flaug áfram og við lögðum land undir hjól að nýju. Trú þeirri stefnu sem mörkuð var í upphafi ferðar, hófst með heimsókninni að Hvammi í Norðurárdal og hljóðaði nokkurnveginn uppá að skoða sem flest af því sem við höfðum venjulega ekið framhjá, heimsóttum við kirkjuna að Höskuldsstöðum. Það eru fjöldamörg ár - ég má segja áratugir - síðan ég tók fyrst eftir þessarri reisulegu steinkirkju innarlega á Skagaströnd og þótti hún óvenjulega stór af sveitakirkju að vera. Margoft hef ég ætlað að skoða hana en aldrei orðið af - fyrr en nú:






Á skírnarfontinum fann Elín Huld það sem hún helst leitaði að: Fangamarkið S.Ó., merki Sveins Ólafssonar myndskera frá Lambavatni á Rauðasandi. Sveinn var móðurbróðir Elínar.




Frá Höskuldsstöðum héldum við inn á Blöndós, fengum okkur sjoppu - hádegismat og brynntum ferðadrekanum á dælustöð ÓB. Einnig litum við á tjaldsvæðið og það vakti athygli hversu illa rigningarnar höfðu leikið grasblettina. Allt var sundurskorið eftir þunga ferðavagna og svæðið var aðeins hársbreidd frá því að teljast eitt moldarflag. Verulega ljótt að sjá....

Næst var stefnan tekin inn Langadal að Auðólfsstöðum og yfir samnefnt skarð að býlinu Gautsdal. Þar bjó Jón Ragnar Haraldsson sem m.a. er vel kunnur úr bókinni " Íslendingar" sem þau Unnur Jökulsdóttir og Sigurgeir Sigurjónsson ljósmyndari unnu saman fyrir tíu árum eða svo. Ekki veit ég annað er Jón sé enn á lífi, kominn á tíræðisaldur, fæddur 11.janúar 1924. Það var hreyfing við bæinn og tún ýmist nýslegin eða sláttur stóð yfir:






Á myndinni að neðan er horft um Auðólfsstaðaskarð til vesturs yfir að Langadal:




....og hér er horft í hina áttina, frá bænum að Gautsdal til suðausturs inn Laxárdal í átt að Bólstaðarhlíð. Í forgrunni er haftið sem skiptir eiginlega Laxárdal í tvennt við Gautsdal, næst handan -sunnan - haftsins er eyðibýlið Mjóidalur, þar sem síðast bjó Sverrir Haraldsson, bróðir Jóns í Gautsdal. Árbók Ferðafélagsins um svæðið telur dalinn allan einn og hinn sama og við þá visku styðst ég.




Tíminn leið hratt og klukkan var orðin sex þegar við héldum til baka af Gautsdal niður á þjóðveg eitt um Langadal og beygðum til suðurs. Er leið á daginn hafði smáþyngt yfir og meðan við ókum inn að Bólstaðarhlíð gáðum við til veðurs. Svartárdalurinn, langþráð takmark, var á dagskrá en þangað inn að sjá var hreinlega myrkur - svo dimmt var þar í lofti. Ekki þótti okkur vænlegt að leggja af stað í skoðunarferð á ókannaðar slóðir í slíku skyggni svo við slógum í klárinn og með þokuna á miðri framrúðu þeystum við yfir Vatnsskarð að Varmahlíð og þaðan rakleitt út að Glaumbæ. Þar var auðvitað búið að loka öllum húsum þann daginn en við röltum nú samt einn hring kringum bæinn - við höfðum áður skoðað Glaumbæ að innan þótt langt væri síðan. Klukkan var rúmlega sjö þegar við renndum inn á tjaldsvæðið á Sauðárkróki. Þar var svipað uppi á teningnum og á Blönduósi. Tjaldsvæðið var afar illa farið eftir bleytutíðina og víða voru opin flög og hálf-fljótandi mold og leir. Samt höfðu ótrúlega margir troðið sér inn á grasið, til þess eins að marka förin enn dýpra. Kannski fannst einhverjum það skemmtileg tilhugsun að skilja eftir sig spor á staðnum - í orðsins fyllstu merkingu!

Við lögðum ferðadrekanum undir vegg sundlaugarinnar, þar sem aðeins var þurr möl og tókum út grillið. Eftir að hafa eldað hátíðarkvöldverð var mætt í kaffi í hjólhýsi hjá vinafólki sem bar að á norðurleið. Þegar nálgaðist háttatíma fengum við okkur kvöldgöngu í bæinn og það var farið að nálgast miðnætti þegar við snerum aftur til bíls. Ég stakk hönd í vasa eftir lyklinum til að opna bílinn en fann hann ekki. Leitaði betur en allt fór á sama veg. Ljótur grunur læddist að og ég kíkti á glugga. Í svissinum hékk lykillinn!

Á öllum okkar ferðum hefur EH haft aukalykil í handtöskunni sinni - þ.e. öllum fram að þessarri! Einhverra hluta vegna hafði lykilinn ekki verið tekinn með nú. Á síðasta metra fyrir brottför hafði það verið nefnt en ekki orðið af. Nú kom það okkur í koll!

Staðan var ekki flókin: Ég reyndi að hugsa skýrt. Við höfðum þrjá möguleika. Einn var sá að leita til lögreglunnar á staðnum og fá lánuð tól til að opna bílinn. Á sínum tíma opnuðum við Dúddi Guðmunds í Þór fjöldan allan af bílum vestur á Ísafirði með heimasmíðuðum búnaði sem reyndist stundum betur en lögreglunnar. Ég treysti mér til að opna bílinn sjálfur ef réttur búnaður fengist. Annar möguleiki var að hringja suður í soninn Arnar Þór og fá hann til að koma akandi norður á Krók með aukalyklana. Þriðji möguleikinn - og hann var ekki líklegur - var að leita til náunga sem fyrr um kvöldið hafði birst á tjaldsvæðinu með kerru fulla af Husky-hundum í eftirdragi. Hann ók líka fyrrum Econoline sjúkrabíl, að vísu eitthvað eldri en samt..........

Ég talaði við manninn, lýsti vandræðum okkar og þótt við báðir teldum ólíklegt að hægt væri að opna minn bíl með hans lyklum ákváðum við að prófa. Ég reyndi bílstjórahurðina en það var vonlaust eins og búast mátti við. Svo reyndi ég farþegahurðina og rétt þegar ég var að gefast upp datt lykillinn allt í einu yfir - í læsta stöðu. Ég þorði ekki að draga andann þegar ég sneri honum til baka án þess að hreyfa að öðru leyti og viti menn: hann datt í hina áttina og læsingin opnaðist!!

Við áttum bara orð til að þakka manninum fyrir lykillánið. Hann mun eflaust fá það betur launað síðar ef bænir eru heyrðar.......

Um nóttina rigndi enn meira og ekki skánaði tjaldsvæðið við það. Að morgni var hins vegar komið ágætisveður. Þokan var þó á sínum stað en ekki alveg jafn ágeng og kvöldið áður. Eftir heimsókn í Sauðárkróksbakarí (sem er klárlega eitt af bestu bakaríum í heimi) áttum við gott spjall við Ísfirðinginn Jón Bæringsson sem býr örstutt frá bakaríinu og stendur vakt ef hann sér kunnuglegt fólk eða bíl. Ég hef a.m.k. tvisvar fiskað Jón út á hlað með einkanúmerinu Í-140. 

Þeir eru búnir að byggja nýja smábátaaðstöðu þarna á Króknum, prýðisgóða sýnist mér og að sjálfsögðu fékk Bassi að spretta úr spori í nálægri sandfjöru meðan litið var á trillurnar. Síðan var lagt upp að nýju. Við ókum til austurs yfir Héraðsvötn og þegar kom að greiningu vegar inn Blönduhlíð og út Viðvíkursveit völdum við sveitina og ókum úteftir. Ekki var þó ætlunin að fara langt heldur aðeins út undir Enni undir Viðvíkurfjalli. Á þeim slóðum var fyrrum vinnufélagi minn nýbúinn að kaupa myndarlegt hús og undirbjó nú flutning úr borg í sveit. Ég er nokkuð viss um að það munar talsverðu á útsýninu þarna og í Kleppsholtinu syðra......

Þokuröndin sem liggur þarna út með Reykjaströndinni náði annars hringinn og var því þykkri sem hún lá innar. Okkur láðist að snúa okkur hálfhring með myndavélina, hefðum við gert það hefði vel sést - ja, hversu lítið sást!  Býlið Enni er þarna bak við okkur, uppi í ásnum og dálítið sunnar en til þess sást ekkert!




Kannski er það dálítið merkilegt að á öllum mínum (og okkar) þvælingi norður um land hef ég aldrei ekið Blönduhlíðina. Margoft ekið milli Varmahlíðar og Eyjafjarðar, sömuleiðis frá Króknum út Viðvíkursveit en aldrei stubbinn milli Narfastaða og Flugumýrar. Nú voru hins vegar "dagar hinna gleymdu staða" eins og fyrr var nefnt, nú skyldi flest skoðað sem áður hafði setið á hakanum. Stefnan var sett inn Blönduhlíð og vegna þess að umferðin var róleg var ekið á innanbæjarhraða allt inn að Flugumýri. Þar var áð og litast um. Engin sáum við merki um sýrukerið sem Gissur bjargaði sér í forðum í Flugumýrarbrennu en á skiltum voru ágætar upplýsingar um atburði sögualdar.

Flugumýrarkirkja er dálítið sérstök í útliti, mest þó fyrir turninn. Kirkjan er steinsteypt og veggirnir grófsléttaðir og hrjúfir. Fallegt guðshús utan og innan.






Eftir heimsókn að Flugumýri brunuðum við þvert yfir sveitina að Varmahlíð og skelltum okkur í sundlaugina. Þar lá enn ein af listanum góða, ég hef áður gert margar tilraunir til að fara í þessa laug en aldrei hitt á opnunartíma. Nú gekk allt upp og við lágum í bleyti tæpan klukkutíma. Að því loknu ókum við upp á tjaldsvæðið, sem stendur í skógi talsvert ofan við byggðina og lituðumst um. Þar var sama uppi á teningnum og á Blönduósi og Sauðárkróki - sundurskornar flatir, svöðusár og opin moldarflög. Svæðinu er skipt í misstóra bása og mörgum þeirra var hreinlega búið að loka með gulum borða. Þegar nær stöðugt rignir, líkt og raunin var í sumar, þola flatirnar ekki þung farartæki. Flest hjólhýsi og fellihýsi eru á níðsterkum en tiltölulega litlum og mjóum hjólum miðað við stærð og þessi hjól skerast auðveldlega niður í gljúpan og gegnblautan svörðinn. Sár sem þannig myndast þarf langan tíma til að jafna sig og endurtekinn ágangur getur gert svæðið ónothæft þar til næsta ár. Á Sauðárkróki stóð til að halda íþróttalandsmót að tveim vikum liðnum og ég sá ekki í hendi mér hvernig menn ætluðu að koma tjaldsvæðinu þar í stand fyrir þann tíma - enda tókst það ekki.

Tjaldsvæðið í Varmahlíð býður hins vegar upp á ágætar gönguleiðir á góðum stígum og þeir voru í þokkalegu standi:




Risatrampólínið til hægri gerði stormandi lukku eins og alltaf...




Næst lá leiðin inn frá Varmahlíð fram Skagafjarðarsveit. Við ókum hjá Álftagerði og hlustuðum en heyrðum engan söng. Mér skilst að kýr mjólki betur undir músík en þeir bræður þurfa eflaust einhvern tíma að hvíla raddböndin - og kannski eru þeir bara með fjárbú.

Spölkorn innan við Álftagerði eru vegamót og er vísað upp á Efribæjaleið. Hana völdum við og komum fljótlega að þessu litríka eyðibýli. Krithólsgerði mun það heita og þarna leyndist margur molinn.......Tvær kynslóðir af Moskvitsj og Skódi Oktavia frá þeim tíma sem Skódi var Skódi en ekki bara eitthvert helvítis Fólksvagenafbrigði eins og núna!




Sjáiði bara! Önnur ekta Oktavia og Moskvitsjinn aftur. Úr svona Oktavíu var vélin í fyrstu trillunni minni, hana setti ég í með eigin höndum ásamt gírkassa og öllu heila galleríinu. Nú vorum við sko ekki að skoða kirkjur heldur aðra helgidóma og allt öðruvísi.....




Hvað höfum við svo hér? Hvítan Randlover og svo gegnheilan Blöðrusel - Skódann sem illa upplýstar sálir hafa gegnum tíðina afbakað í "Blöðruskóda"! Ég segi ykkur satt: Það er ekkert til sem heitir Blöðruskódi. Bíllinn var kallaður Blöðruselur þegar hann kom nýr og ekki að ófyrirsynju því sköpulagið er engu líkt. Bæði Óskar Friðbjarnar í Hnífsdal og Pétur Bjarnason áttu svona Blöðruseli, og Óskar fleiri en einn. Höfum þetta á hreinu: Blöðruselur!




Sko! K - 689. Ekki dónalegur Landróver, með toppgrind og "uppfærðan" dráttarkrók að nútímasið, kúlutengi og rafmagnsdós. Ég mátti til að leggja myndavélina þétt á afturgluggann því þetta reyndist vera svona heimagerð ofur - íþróttatýpa (super sport), klæddur uppúr og niðurúr með gerfileðri og fínheitum!





Þetta býli var svo litlu innar á Efribæjarleið og ábúendur virtust í harðri samkeppni við safnið í Krithólsgerði. Hér kenndi ýmissa grasa en næstur þjóðveginum var þessi krambúleraði Rússajeppi. Allavega hefur andlitslyftingin ekki bætt hann....




Efribæjaleið tengist þjóðveginum fram Skagafjarðarsveitir rétt innan við bæinn Mælifellsá og á svipuðum slóðum liggur leið inn á Eyvindarstaðaheiði. Skammt frá vegamótunum stóð þessi reisulegi og þjóðlegi sumarbústaður:




Fyrst við vorum komin þarna inneftir langaði okkur að líta aðeins á Steinsstaðabyggð og Bakkaflöt. Að neðan er horft frá þjóðveginum til norðausturs að Steinsstaðaskóla og lengra til vinstri sést kirkjustaðurinn Reykir.




Býlið Fitjar, austan þjóðvegar og hluti tjaldsvæðisins í Steinsstaðabyggð í baksýn:




Ágæt aðstaða við tjaldsvæðið í Steinsstaðabyggð. Í þessu húsi eru m.a. herbergi til útleigu:





Svo er þarna sundlaug sem ekki hefur enn verið merkt við á listanum góða. Hún verður að bíða enn um sinn, við vorum nýkomin úr laug að Varmahlíð og það var látið duga að sinni. Það hefði nú samt verið ágætt að leggjast aðeins í bleyti því lofthitinn var farinn að nálgast 22 gráður!




Örstutt frá Steinsstaðaskóla er ferðaþjónustan að Bakkaflöt. Þar var að finna stóra setlaug ásamt tveimur heitum pottum. Aðstaðan er fyrst og fremst ætluð gistigestum en þó mun vera hægt að kaupa sér aðgang að henni einni og sér. Þeir seldu ís að Bakkaflöt og það var "lifesaver" eins og sagt er í útlandinu, að fá ís í steikjandi hitanum.




Þar sem kirkja er nálægt, þar erum við. Kirkjustaðurinn að Reykjum stendur eins og höfuðból sveitarinnar, hátt og er víðsýnt til allra átta. Við hlið kirkjunnar er myndarlegur torfbær sem ekki var ljóst hvað var nýttur - vera má að hann sé safnaðarheimili með meiru.




Allar kirkjur hafa sitt sérkenni en ég er aldrei almennilega sáttur við  spírur eins og þær sem umlykja efsta turninn. Mér finnst alltaf eitthvað trúðslegt við þennan búnað. Þó eru kirkjur um allan heim skreyttar á viðlíka hátt. Húsið sjálft er snyrtilegt og vel við haldið en samræmið í byggingunni er eftirtektarvert. Kirkjan sjálf er frekar lítil og turninn virkar allt að því  afkáralega stór. Það er samræmi milli kirkjunnar og efsta hluta turnsins en að öðru leyti er hann eins og fíll í postulínsbúð....finnst mér.








Skrautið við hurðarhúninn var kunnuglegt. Ég er ekki frá því að það sé nákvæmlega eins og forðum var heima að Urðarvegi 4 á Ísafirði. Það sneri þó líklega "omvent" eins og Danir segja:




Við höfðum ekki langa viðdvöl við Reykjakirkju. Útidyr íbúðarhússins stóðu opnar þegar okkur bar að garði en var snarlega lokað um leið og við gengum inn á bæjarhlaðið. Sá eða þeir sem þar voru inni vildu greinilega engin afskipti hafa af gestum og gekk það nokkuð á skjön við marga aðra, sem yfirleitt voru boðnir og búnir til að sýna okkur kirkjur og muni. Skemmst var að minnast mæðgnanna að Hvammi í Norðurárdal og hafi þær enn þökk fyrir.

Leiðin lá til baka niður að Varmahlíð og nú var ekki tafið heldur lagt umsvifalaust á Vatnsskarð til vesturs. Það var talsvert liðið á daginn en nú var bjart yfir Svartárdalnum og fallegt að horfa frá brúnunum ofan Bólstaðarhlíðar. Við beygðum til vinstri og tókum strikið inn dalinn......




Ath: Aðeins hluti tekinna mynda er birtur. Heildina má finna í merktri myndamöppu í síðuhausnum.

Endir fyrsta hluta.


................................................



13.09.2014 08:17

Það er laugardagur.....



..........alveg ágætis veður og við Bassi erum farnir eitthvert norður í land.......

07.09.2014 14:00

Heim frá Færeyjum - 12. og síðasti hluti ferðasögu


 Ellefta hluta lauk í rigningarúða undir nótt á Raufarhöfn.  Um nóttina rigndi líkt og hellt væri úr fötu, og svo kröftug var rigningin að undir morgun var ég sannfærður um að toppur ferðadrekans hlyti hreinlega að vera beyglaður eftir barninginn. Mínar áhyggjur hlutu þó að vega létt móti þeirra, sem voru í tjöldum kringum okkur - ég hefði ekki viljað vera í þeirra sporum. 

Þegar morgnaði leyfðum við okkur að liggja dálítið lengur en vant var, vitandi að úti væri allt rennblautt þótt dregið hefði verulega úr sjálfri úrkomunni. Við heyrðum hark kringum okkur og greinilega voru einhverjir að pakka blautum ferðabúnaði. Smám saman birti í lofti (enda hafði spáin gengið á þann veg) og þegar við loks rákum út nef var farið að örla á sólargeislum. Grasið var þó rennblautt og Sulta, sem hafði kvöldið áður fengið að létta á sér í grenndinni með rautt snæri um hálsinn, harðneitaði nú að labba eitt einasta fet, þrátt fyrir að við reyndum að leiða henni fyrir sjónir hversu indælt það væri nú að létta á sér eftir nóttina. Rökræður við kött eru fyrirfram vonlausar eins og þeir vita sem reynt hafa.

Gúmmístígvélin okkar voru aftarlega í farangurslest drekans og erfitt að ná til þeirra innanfrá svo fyrstu gönguferðir dagsins - að og frá  hreinlætisaðstöðunni - fór ég berfættur. Elín Huld bjó að grænu Crockskónum (þessum frá Vopnafirði) og var vel ferðafær í blautu grasi. Það birti annars ótrúlega hratt og sólargeislarnir voru fljótir að þurrka umhverfið. Um svipað leyti og við lukum okkar morgunverkum og ferðaundirbúningi birtust austurrísku grillfræðingarnir frá Þórshöfn með sinn tjaldvagn og slógu honum upp skammt frá okkur. Okkur þótti dagleiðin stutt enda höfðu þeir náttað á Þórshöfn og enn var stund til hádegis. Svo áttuðum við okkur á skýringunni - auðvitað hafði líka hellirignt á Þórshöfn um nóttina og þeir höfðu aðeins ekið út úr rigningunni til að þurrka vagninn á næsta vænlega stað. Trúlega var svo ætlun þeirra að aka kringum Raufarhöfn meðan vagninn þornaði enda nóg hægt að fara.

Okkur var hinsvegar ekkert að vanbúnaði svo við lögðum af stað frá tjaldsvæðinu og fyrsti ætlaði áfangastaður okkar var kaffi- og handverkshús í aflagðri bensínsjoppu. Þar var auglýstur opnunartími sem við höfðum miðað okkur við en þegar til átti að taka var enginn mættur og allt harðlæst. Það þótti okkur miður því auk þess að fá ekkert almennilegt kaffi tapaðist kannski gagnlegt og skemmtilegt spjall um staðinn sjálfan, mannlíf og menningu.

Ég hafði á orði undir lok ellefta hluta að mér hefði alltaf fundist Raufarhöfn einna fallegastur þeirra þriggja staða sem standa á og við Melrakkasléttuna. Þetta álit er einungis myndað af ljósmyndum því ég var jú að koma þarna í fyrsta sinn og það er talsvert öðruvísi að sjá hlutina með eigin augum en út um flugvélargluggann hans Mats Wibe Lund. Við þessa stuttu dvöl okkar og skoðun á bænum breyttist álitið svo sem ekkert. Þorp er ekki bara hús og því má ekki dæma Raufarhöfn af niðurníddum húsum og fölnandi mannlífi. Þeir hlutir eru sveiflukenndir og það eru ekki nema örfáir áratugir síðan Raufarhöfn var nafli alheimsins - eða a.m.k. þess hluta alheimsins sem snerist um síld. Þá gerðust þarna stórir hlutir og gerðust hratt. Þegar svo síldarlestin fór út af sporinu hvarf athafnalífið að stórum hluta og mannlífið með........

Tengdafaðir minn heitinn, Halldór Viðar Pétursson var víðförull maður enda bryti á millilandaskipum um árabil og síðar á olíuskipinu Stapafelli. Hann kom oft til Raufarhafnar á þeim árum sem mest var þar um að vera og það er merkilegt að jafn orðvar maður og HVP skyldi nota lýsingarorð náskyld þeim sem fram koma í vísunni alkunnu:

Þú ert rassgat Raufarhöfn
rotni, fúli drullupollur.
Andskotinn á engin nöfn
yfir mörg þín forarsöfn.

Þú er versta víti jöfn
viðmótið er kuldahrollur.
Farðu í rassgat Raufarhöfn
rotni, fúli drullupollur.


(þessi kveðskapur er fenginn að láni úr Vísnahorninu - visna.net - en vegna þess að kveðskapur þar er allajafna af tvíræðara taginu þori ég ekki að hlekkja beint á síðuna)

Tilurð vísunnar er útskýrð í Vísnahorninu á þessa leið:

"Erlingur Thoroddsen hótelstjóri vitnar til þess í viðtali  að það eina sem margir viti um tilvist Raufarhafnar sé vísa sem Egill Jónasson, hagyrðingur frá Húsavík, orti um staðinn er hann dvaldi þar um tíma "í síldinni". Þegar ekið var um staði eins og Raufarhöfn með síld á vörubílspöllum fór ekki hjá því að eitthvað af farminum fór til spillis, lenti á götunni, og ef ringningu gerði varð aðkoman ekki glæsileg. Á þeim tíma var ennfremur talið að nóg væri af síld í hafinu og því engin þörf á að hirða allt það sem féll. Síldarverksmiðjan bætti svo um betur, þykkan verksmiðjureykinn lagði yfir þorpið með tilheyrandi "ilmi" sem sat kyrfilega í öllum fötum. Á þessum tíma var öllu vinnufæru fólki haldið að vinnu og enginn tími aflögu til að sinna útliti húsa með málingarpensli eða vera í garðvinnu. Þegar saltað var á plönum á Raufarhöfn voru um 3 þúsund manns á staðnum, eða liðlega sexföld íbúatala staðarins. En þessi umsvif öll voru ein helsta gjaldeyrisöflun þjóðarinniar og þegar best lét fóru um 10% af gjaldeyrisstekjum þjóðarinnar gegnum síldarplön og verksmiðjur á Raufarhöfn.


En Egill Jónasson hefur ekki verið sáttur við ástandið eða umhverfið því kveðskapur hans var "( ofanrituð vísa)

Ekki voru þó allir sáttir við kveðskapinn eins og hér kemur fram:

"Sigurði Árnasyni, sem ólst upp á Oddsstöðum á Sléttu og var útibússtjóri Kaufélags Norður Þingeyinga á Raufarhöfn um árabil, líkaði ekki"umsögn" Egils um staðinn þar sem hann hafði m.a. tekjur sínar og svaraði honum á eftirfarandi hátt:


Þótt Raufarhöfn skorti hinn andlega auð
og enginn sé fegurðarstaður.
Að lasta sitt eigið lifibrauð
er ljótt af þér, aðkomumaður."

...og Egill hefur svarað fyrir sig:

"Ég vinn fyrir matnum á mannlegan hátt
og mun reyna að greið´ann að fullu.
En get ekki lofað þann guðlega mátt
sem gerir allt löðrandi í drullu.

Hve grátlega skammt okkar skynsemi nær
á skilningi og nærgætni töluvert munar.
Ég vissi ekki að drullan þér væri svo kær
og verð því að biðja þig afsökunar."

Ég verð eiginlega, hvað sem allri tvíræðni líður, að setja tengingu yfir á þann hluta Vísnahornsins sem ofanskráð birtist. Öll vegferð manna um þennan vef er að öðru leyti á þeirra eigin ábyrgð! Tengingin er HÉR

Það er við hæfi að kveðja Raufarhöfn og kveðskapinn hér að ofan með kirkjumynd:




.....og svo lá leiðin norður úr þorpinu. Við ætluðum að líta á Heimskautsgerðið sem enn er í byggingu en vegurinn var slæmur og við settum það á "Næsta ferð" listann.



Svo var það Melrakkasléttan sjálf - þessi "langþráði" landshluti sem alltaf hefur á öllum (okkar) þvælingi lent utan leiðar. Þegar sonurinn Arnar Þór ók ísbíl um landið fyrir einhverju síðan fór hann m.a. um Melrakkasléttu. Hann vissi af áhuga mínum á svæðinu og eitt sinn er hann hringdi heim til að láta vita af sér sagði hann: " Þú getur farið glaður í gröfina án þess að aka fyrir Sléttu" - og átti þá við að þar væri bókstaflega ekkert eftirminnilegt nema ónýtir vegir.

.....og nú var ég á leið fyrir Melrakkasléttu. Vissulega var landið flatt og sviplítið, öll býli í eyði þó einhver væru þokkalega útlítandi og nýtt sem sumarhús og vegurinn hundleiðinlegur malarvegur með tilheyrandi ryki og þvottabrettum. Samt var ég ekki sammála Arnari að öllu leyti. Ég er ekki viss um að ég fari fyrir Sléttu í hvert sinn sem ég á leið um norðausturlandið (sem varla verður oft þar sem þetta var í fyrsta skipti og ég nálgast grafarbakkann með hverju árinu sem líður....) en það var nauðsynlegt að vera búinn að fara þetta og geta þá tjáð sig um upplifunina.

Áður en ég sleppi Melrakkasléttu langar mig þó að nefna eitt: Eyðibýlið Skinnalón, sem mun vera eitt mest myndaða eyðibýli landsins ásamt Horni austan Hornafjarðar, virtist vera að taka breytingum því ekki varð betur séð en þar væri bíll heim við bæ og búnaður nokkur. Mér sýndist glampa á nýtt bárujárn á þaki annars hússins svo líklega er verið að taka þar í gegn. Guð láti gott á vita.......

Eftirfarandi texta fann ég svo á netinu eftir dálítið grufl: ( bein slóð er HÉR, etv. dálítið þung en biðarinnar virði)


  • "Hilmar Þór

    Eftirfarandi fróðleik fékk ég frá ágætum lesanda síðunnar:

    ".....En aðalerindið í dag er að upplýsa þig um eyðibýlið á Melrakkasléttu en ég er ættaður úr Norður-Þingeyjarsýslu eins og þú ef til vill veist.

    Mér fróðari menn segja mér að eyðibýlið sem þú birtir mynd af sé Skinnalón. Þaðan eru m.a. ættuð Vigdís Grímsdóttir rithöfundur, dr. Guðmundur Þorgeirsson fremsti hjartasérfræðingur þjóðarinnar og bróðir hans Gestur Þorgeirsson læknir, Hilmir Jóhannesson leikskáld og trúbadúr á Sauðárkróki en afar og ömmur þessa fólks var fætt í Skinnalóni auk margra annara.

    Margt einstaklega velgefið fólk er ættað frá Skinnalóni. Veit ekki hver teiknaði húsin - því miður.Vona að þetta upplýsi hluta af því sem þú varst að leita eftir."

    Annar sem hafði samband segir að Skinnalón hafi farið í eyði árið 1947 eða fyrir 64 árum."




Áfram hristumst við í rykmekki áleiðis vestur um Melrakkasléttu, framhjá Blikalóni og Sigurðarstöðum. Á hvorugu býlinu virtist föst ábúð lengur enda var búið að segja okkur áður að á Sléttu væri allt í eyði nema Núpskatla á vesturhorninu nærri Rauðanúp. Báðum fyrrnefndum býlum virtist þó haldið við enda hlunnindajarðir og eflaust nýttar semslíkar þótt föst búseta sé af.

Við fórum ekki niður að Núpskötlu og Rauðanúpi. Báðir staðir voru settir á "Næsta ferð" listann enda leið óðum á laugardaginn og okkur bar nauðsyn til að vera í Reykjavík á mánudagsmorgni. Við höfðum sett Ásbyrgi á oddinn ásamt öðrum stað sem enn er ónefndur. Þess vegna ókum við viðstöðulítið að Kópaskeri og áðum þar. Á leiðinni ókum við framhjá stórbýlinu Leirhöfn:




Einhverra hluta vegna voru engar myndir teknar á Kópaskeri en þar verður vonandi bætt úr í "Næstu ferð". Í þorpinu var nýbúið að opna verslun (okkur skildist að þar væri um enduropnun nýrra aðila að ræða) og þar var hægt að fá kaffi og meððí. Búðarhaldari var ákaflega hress maður sem upplýsti okkur fúslega um flest sem við spurðum um. Af því sól skein í heiði settumst við út á stétt þar sem stóðu borð og bekkir, og þar úti fengum við svo svör við enn fleiri spurningum frá manni sem var kallaður Gummi og virtist sjá um frystivélar fyrirtækis á staðnum. Hann var þaulkunnugur mönnum og málefnum og þá einnig harðduglegum Ísfirðingum sem fyrir allmörgum árum fluttust til Kópaskers vegna vinnu. Ekki voru þeir Ísfirðingar þó lengur á staðnum. 

Kópasker kom verulega á óvart. Ég hef skoðað myndir þaðan og lesið einhverja stafkróka um staðinn og í mínum huga var þetta landslagslaus hundsrass þar sem ekkert var við að vera nema vinna og svefn - svona nokkurs konar minni útgáfa af Þórshöfn. Sjaldan hef ég haft jafn rangt fyrir mér!  Við vorum á Kópaskeri í glaðasólskini og hægum vindi, svoleiðis veður er reyndar fallið til að fegra alla hluti en það þurfti ekki veður til að fegra Kópasker - það höfðu íbúarnir sjálfi séð um. Götur voru snyrtilegar, hús vel máluð og almennt í góðri hirðu, fólkið glaðlegt og umhverfið allt annað en mér hafði fundist af myndum. Við EH vorum sammála um að staðurinn byði af sér ágætan þokka (eins og stundum er sagt) og svaraði í fáu ef nokkru til þeirra hugmynda sem við áður höfðum haft.

Áfram héldum við frá Kópaskeri til suðurs og þetta glaðlega "fólk" veifaði til okkar frá nærliggjandi bæjum:






Örlitlu sunnar er kirkjustaðurinn Snartarstaðir, reisulegt býli með fallegri kirkju:



Á sömu slóðum er býlið Garður:



Svo vorum við allt í einu komin að brúnni yfir Jökulsá á Fjöllum þar sem hún rennur um Ferjuhraun rétt austan Ásbyrgis:



Við höfðum stutta viðdvöl í ferðamannaversluninni við Ásbyrgi. Ferðadrekinn okkar er enn ekki kominn með neinn kælibúnað, hvorki ísskáp né kælibox og þess vegna þurftum við að kaupa alla kælivöru eins stuttu fyrir notkun og mögulegt var. Ekki verður nú sagt að verslunin við Ásbyrgi sé nein Bónusbúð en þar var ágætt úrval og starfsfólkið var allt af vilja gert þegar okkur vantaði snærisbút í tjóður fyrir Sultu. Hún var sultuslök í körfunni sinni að vanda:



Það þarf ekki að skrifa margt um Ásbyrgi. Flestir hafa komið þangað og nú hef ég það líka! Ég kom raunar í Ásbyrgi á árunum uppúr 1970 og mundi eitthvað eftir því en ekki mikið þó. Mér fannst þessvegna ákaflega gaman að koma þangað núna og að veðrið skyldi vera jafngott og það var. Við lögðum bílnum á litlu bílastæði innarlega og gengum frá honum flesta stíga sem hægt var að ganga:





Það var talsvert af fólki á svæðinu og þótt flestir væru útlendingar bar nokkuð á Íslendingum líka. Við komum upp á lítinn útsýnispall þar sem þetta par var fyrir og það þurti ekki mörg tillit til að þekkjast. Að vísu þekktum við ekki dömuna en drenginn því betur. Þarna var kominn Sveinn Gumi Guðmundsson, sonur þeirra Guðmundar og Kolbrúnar sem voru síðustu vitaverðir á Galtarvita vestra og eftir það búsett á Ísafirði um árabil - sannkallað öndvegisfólk. 

Á efri myndinni hér að neðan, sem tekin er að Galtarvita líklega 1993 eða´4 eru f.v. Guðmundur, Kolbrún, Jói á Hanhóli í Bolungarvík, Sveinn Gumi, Siggi bróðir hans og Guðrún Stella Gissurardóttir húsfreyja á Hanhóli. Á neðri myndinni, einnig frá Galtavita en ári síðar eru þau Guðmundur og Kolbrún ásamt Gesti Benediktssyni og Halldóri Antonssyni, báðum frá (og á) Ísafirði. 





 Nú er fjölskyldan búsett á Reyðarfirði og feðgarnir starfa báðir í tengslum við álverið þar. Gumi og vinkonan - sem einnig starfar við álverið - voru í löngu helgarfríi og þá var tækifærið og veðurblíðan notuð til að skreppa bæjarleið:






Myndasmiðurinn Elín Huld reyndi að fanga slútandi björgin á ljósmynd en bæði er að viðmiðunina vantar og svo er erfitt að mynda þegar maður er við það að detta aftur fyrir sig!



Þegar við höfðum skoðað það af Ásbyrgi sem skoða mátti á skömmum tíma var haldið til bíls og reiddur fram kvöldverður. Veðurblíðan hélst og ekki var annað gerandi en að færa borðið út og hafa "pikknikk" Eftir frágang var enn haldið af stað því áfangastaður okkar var frammi í Aðaldal og við vorum þá þegar búin að setja Húsavík á "Næsta ferð" listann - enda nýlega búin að renna þar um, EH sumarið áður og ég í hvítasunnureisunni 2010. Sú ferð var á sínum tíma tíunduð í þremur pistlum sem allir urðu eyðileggingu að bráð þegar 365-Miðlar af höfðingsskap lokuðu tveimur eldri bloggkerfum.

Næsti viðkomustaður okkar var kirkjan að Garði í Kelduhverfi. Hún er dálítið sérstök að gerð og gaman að skoða hana (kíkið á hlekkinn). 








Svo má ég auðvitað til að lauma einni af Sultu:



Býlið að Víkingavatni bar af öðrum í grenndinni fyrir snyrtimennsku, hvert sem litið var:



Áfram héldum við fyrir Tjörnesið og hér að neðan er horft út í Tjörnestá til norðvesturs:



....og þá var komið að hinum staðnum sem "settur var á oddinn" ásamt Ásbyrgi eins og ég nefndi hér ofarlega. Þetta var Hallbjarnarstaðakrókur, undir Hallbjarnarstaðakambi. (eftir að hafa paufast í gegnum þessi tvö nöfn á ég skilið kaffi)

Ég fann athyglisverðan tengil um staðinn HÉR en það gæti þurft dálitla þolinmæði meðan tengillinn hleðst, enda þarf að sækja hann allt aftur til ársins 1926. Ath. að síðan sem birtist er nr. 218 og neðst á henni byrjar umfjöllunin um Hallbjarnarstaðakamb. Síðan þarf að sækja síðu 219 og á að vera nokkuð augljóst.

Aðrir ágætir tenglar eru HÉR og HÉR.  Þá er einnig fjallað nokkuð um staðinn í bókinni " 101 áfangastaður í alfaraleið"

Þetta er afar sérstakur staður. Þarna má lesa drjúgan hluta jarðsögunnar í lögum, þarna var bryggja, útgerð, fiskverkun og fleira. Um árabil hafa mannvirki staðið lítið- eða ónotuð en nú er að verða breyting á. Hallbjarnarstaðakrókur er náttúruparadís, þarna er óendanlega fallegt og ég hika ekki við að fullyrða að þessi blettur sé eitt af best varðveittu leyndarmálum landsins. Þarna koma ekki margir - enn sem komið er - og þeir sem þangað rekast eru líklega flestir áhugamenn um jarðsögu. Sú saga er þó ekki öll geymd í jarðlögum staðarins heldur má í fjörunni innarlega í króknum finna Grænlandsstein, stórt bjarg sem talið er hafa flotið hingað til lands með hafísjaka frá Grænlandi. Einhverra hluta vegna er mun hljóðara um þennan stein en þann Grænlandsstein sem þekktur er norður við Litlu-Ávík á Ströndum en Tjörnessteinninn hlýtur þó að vera fullt eins merkilegur. Þá er ónefnd brúnkolanáma sem minnst er á í áðurnefndri ferðabók, "101 áfangastaður....) og sögð af henni skemmtileg saga.





Ekki gat ég betur séð en þetta væri Grænlandssteinninn umtalaði:



Það er ekki lengur gert út frá Hallbjarnarstaðakambi (já, eða -króki). Bryggjan er þó í ágætu ásigkomulagi og kannski er þetta framtíðarsvæði fyrir kajakræðara því bryggjan ásamt samsíða grjótgarði myndar ágæta lendingu sem að auki er steinsteypt:



Eitt hús stendur við bryggjuna og hefur líklega verið fisk- eða hrognaverkun auk veiðarfærageymslu. Þessum hlutverkum er lokið en nýtt er í uppsiglingu ef marka má alla þá vinnu sem verið er að leggja í húsið. Búið er að saga ný glugga - og hurðagöt, gólf er búið að saga upp og þakið hefur verið fjarlægt alveg. Það er greinilega verið að endurnýja allt tréverk og breyta húsinu fyrir annað hlutverk og helst datt okkur í hug að það hlutverk yrði einhverskonar þjónusta við ferðamenn. Sé það raunin verða það ekki bara jarðlögin sem draga fólk þessa stuttu leið frá þjóðveginum og niður í Krókinn heldur líka það að geta notið óborganlegs útsýnis - að ógleymdu sólarlaginu - á þessum ótrúlega stað. (ofnotkun á -Ó?)







Það er ekki amalegt hjá smiðunum að setjast niður að loknu dagsverki í "betri stól á efri hæðinni" og njóta kyrrðar og veðurblíðu......



Í þessu litla dalverpi eða gili upp af bryggjunni má m.a. sjá hluta jarðlaganna:



Það var ætlunin að  Sulta fengi að hlaupa laus dálitla stund en eitthvað hafði tamningameistaranum mistekist því hún notaði tækifærið, skreið undir bílinn og kom sér fyrir ofan á millikassanum við litla hrifningu eigandans. Það tók drjúga stund að ná henni þaðan og eftir það fór Sulta ekki fet nema með snærið frá Ásbyrgi um hálsinn!

Það var annars farið að kvölda talsvert þegar við yfirgáfum Hallbjarnarstaðakrók (-kamb?) og héldum áfram inn til Húsavíkur. Við höfðum eiginlega enga viðstöðu í bænum, hann var sem fyrr segir þegar kominn á "Næsta ferð" listann og eftir stuttan hring héldum við áfram inn í Aðaldal allt að félagsheimilinu Heiðarbæ í Reykjahverfi þar sem Útilegukortið gilti á ágætu tjaldsvæði. Þar stóð reyndar yfir ættarmót sem af skiltum að dæma bar nafnið "Tumsumót", en á því nafni kann ég engin skil. Ekki truflaði ættarmótið aðra gesti neitt enda höfðu Tumsurnar sitt eigið svæði afmarkað. Við komum ferðadrekanum fyrir á grasbletti í grennd við sama Norrönu-hópinn og verið hafði samtímis okkur á tjaldsvæðinu á Vopnafirði. Tókum upp kælivöruna frá Ásbyrgi og elduðum dýrindis kvöldmat. Klukkan var  tuttuguogþrjú!

"Nóttin var sú ágæt ein" en að morgni fór að súlda lítið eitt og Norrönu-hópurinn tók tjöld sín saman í hasti. Við vorum snemma á fótum enda var kominn sunnudagur og í Reykjavík yrðum við að vera að kvöldi, hvað sem öðru liði. Við lögðum af stað um miðjan morgun og fyrsti áfangastaður var Laxárvirkjun. Framan við verkstæðishús stóð þessi fíni Farmall Cub. Eina stílbrotið í annars flottri uppgerðarvinnu var tólf volta rafgeymir - ég get ekki ímyndað mér annað en að Cub frá þessum tíma hafi verið sex volt. Ef hann hins vegar var réttilega tólf volt saknaði ég svarta rafgeymisins - skrautlegur rafgeymirinn var algert stílbrot. Viljandi nefni ég ekki framljósin......






Það standa ekki margar virkjanir í fallegra landslagi. Það er spurning hversu mikið hefði orðið eftir af því ef upphafleg áform um umfang virkjunarframkvæmda hefðu náð fram að ganga.





Það er skammur vegur frá Laxárstöð að Grenjaðarstað. EH hafði ekki komið á þessar slóðir áður, en ég þó einu sinni. Þá var bærinn ekki opinn til skoðunar heldur aðeins kirkjan. Nú var bærinn opinn og bæjarstjóri var hann Búi Stefánsson úr Reykjavík, nýútskrifaður þjóðfræðingur og ákaflega skemmtilegur piltur. Við vorum einu gestir bæjarins þetta augnablikið og Búi gaf sér tíma til að ganga með okkur um húsin og segja söguna. Maður fann vel þenna gríðarlega mun á því að ganga um svona húsakynni án leiðsagnar og því að njóta sögunnar af munni einhvers sem vel þekkir til og leggur hana fram á einfaldan og öfgalausan máta. Við hefðum ekki fengið það sama út úr skoðuninni án leiðsagnar Búa. Það er rétt að nota tækifærið og benda á BA. ritgerð Búa Stefánssonar um þróun tónlistar í jarðarförum. Ritgerðin ber nafnið "Dauðatónar" og er aðgengileg HÉR.



Híbýli að Grenjaðarstað eru alls um sjö hundruð fermetrar að stærð og hefði einhvern tíma þótt þokkalegt! Líklega hefur þó töluverður fjöldi dvalið þar ef allt er talið, úti- og innivinnufólk ásamt presti og fjölskyldu. Eitt af því sem Búi upplýsti okkur um og við höfðum ekki gert okkur grein fyrir, var að Grenjaðarstaður á ítök í fjölmörgum jörðum við sjávarsíðuna út með og fyrir Tjörnes. Þar með fylgdu mikil rekahlunnindi og trjáviður í bæjarhúsum er að mestu rekaviður. Þá var grjót notað að miklu leyti í hleðslur með torfi eða í stað þess og þetta tvennt hefur gert að verkum að bærinn að Grenjaðarstað hefur staðið traustar og betur en aðrir torfbæir á landinu - hann þurfti aukinheldur að vera sterkari en flestir því jörð hefur ekki alltaf verið kyrr í Reykjahverfi!









Að lokinni skoðun bauð Búi Stefánsson uppá kaffi í sérstakri gesta- og upplýsingastofu staðarins. Því lauk þegar þýsk hjón birtust og vildu skoða staðinn og Búi varð að rjúka. Við kvöddum hann og þökkuðum góða leiðsögn og skemmtun. 

Leiðin lá áfram fram í Reykjadal og yfir hálsinn að Goðafossi þar sem við áðum stutta stund að Fosshóli og skipulögðum framhaldið. Að Stóru-Tjörnum í Ljósavatnsskarði er Edduhótel og við það sundlaug. Ekki hafði hún fengið sitt merki á sundlaugalistanum margnefnda og því var tilvalið að heimsækja hana. Við gáfum okkur sirka tuttugu mínútur í bleyti í heita pottinum áður en haldið var áfram til næsta áfangastaðar - Laufáss í Eyjafirði. Þar var margt öðruvísi en að Grenjaðarstað. Að Laufási tók á móti gestum herskari af ungum, þjóðbúningsklæddum dömum sem vísuðu gestum til húsa. Ekki var um fróðleik af þeirra hálfu að ræða því að bárust rútufarmar af túristum þar sem hver farmur hafði sinn leiðsegjara. Þetta olli því að okkur rak hálf stjórnlaust um staðinn og var vart þverfótað fyrir þýsku- og kínverskumælandi liði með myndavélar. 



Við 



Það þurfti eiginlega að hleypa inn í kirkjuna í "hollum"  svo hægt væri að ná mynd sem ekki liti út eins og hópmynd af ættarmóti!





Þegar við fórum frá Laufási var aðeins Akureyri eftir á dagskránni og viðdvöl þar skyldi vera stutt. Okkur langaði í gott kaffi og höfðum því samband við gott fólk, þau Ólaf Sveinsson myndlistamann og kennara og Aðalbjörgu Jónsdóttur dýralækni. Óli er ættaður frá Rauðasandi eins og Elín og náfrændi hennar og þau Aðalbjörg bjuggu um tíma á Ísafirði og störfuðu þar. Til þeirra lá okkar leið og annað erindi, auk kaffikomuboðunar var að fá Aðalbjörgu til að gera stutta "úttekt" á Sultu því EH var ekki fyllilega ánægð með heilsufarið á henni. 





Ekki sveik kaffið og það var gaman að hitta þau hjónin og drengina þeirra sem heima voru - prinsessan Karólína var í útlöndum. Síðan þurfti aðeins að líta í skúrinn og skoða gripina hans Óla. Mótorhjólamenn þekkja Ólaf Sveinsson ekki síður - og kannski betur - sem gegnheilan og eldheitan áhugamann um hjól af öllum gerðum. Hér eru tvö úr stóru safni, vínrauð Honda árgerð 1981 og eldrautt Triumph, sérinnflutt af Óla, árgerð 1991. Hvort um sig er sérstakur gullmoli eins og við mátti búast.



Þetta var síðasta myndin sem tekin var í tólf daga ferð til Færeyja og heim aftur. Frá þeim Óla og Aðalbjörgu lögðum við af stað suður um hálfsexleytið á sunnudeginum og komum til Höfðaborgar um ellefuleytið að kvöldinu. Vinnan beið Elínar, mín beið að taka til í bílnum, tæma, þrífa og ganga frá eftir langa útiveru.......

.....og gera klárt fyrir næstu!

Hér lýkur þessum tólf kafla ferðapistli. Auk Færeyjahlutans, sem var einstök upplifun, var margt sem kom á óvart. Ég vil nefna staðina þrjá, Þórshöfn, Raufarhöfn og Kópasker. Eins og áður kom fram hafði ég talið Raufarhöfn þann eina sem ekki væri alls varnað hvað landslag og náttúrufegurð snerti og hinir tveir væru aðeins andlausar flatneskjur þar sem ekkert þrifist nema eymdin. (nú er ég kannski að taka fulldjúpt í árinni, en samt.....)

Ég hafði hrikalega rangt fyrir mér. Þórshöfn er miklu fallegri staður en ég hafði hugsað mér, bæjarstæðið leynir á sér, þorpið er snyrtilegt og þeir alltof fáu sem við töluðum við voru indælisfólk. Yfir öllu var rólegheitabragur og ég á ekkert erfitt með að skilja þá sem þarna hafa fæðst, alist upp, lifað sínu lífi og kjósa ekkert fremur en að gera það áfram. Það sama má segja um Kópasker - snyrtilegt þorp með prýðisfólki og miklu fallegra umhverfi en hægt er að átta sig á af ljósmyndum. Það er auðvelt að gera sér ranga mynd af hlutunum ef viljinn er fyrir hendi.....Það er hinsvegar ekkert erfitt að viðurkenna að maður hafi haft hróplega rangt fyrir sér. Þannig var það bara. Raufarhöfn leit út eins og ég hafði ímyndað mér, sérstakt landslagið var til staðar og er ekki á leið neitt. Um mannlífið get ég hins vegar ekkert sagt því Raufarhöfn var eini staðurinn af þessum þremur sem við fundum engan til að spjalla við. Eins og fyrr sagði stóðst auglýstur opnunartími handverks- og kaffihússins ekki og þar fór okkar síðasta tækifæri til að spjalla við bæjarbúa áður en við héldum "út á Sléttuna"

Af sundlaugalistanum margnefnda lágu fjórar, auk sundlaugarinnar í Þórshöfn í Færeyjum, sem eðlilega er ekki á íslenska listanum. Þessar laugar voru á Eskifirði, Egilsstöðum, Þórshöfn og að Stóru-Tjörnum. Þeim fjölgaði svo enn í næstu ferð.........

Til glöggvunar er hér birt gömul mynd af sundlaugalistanum. Á hana vantar fjölda seinni tíma merkinga og listinn er öllu skrautlegri núorðið....





...............................................

02.09.2014 19:56

Sá gamli í ham!


Þegar veiðihugurinn grípur menn gleymist allt annað. Þá skiptir engu máli þótt menn séu komnir vel á átttugasta og áttunda árið - sé fiskur undir skal hann dreginn!

........og hann Gunnlaugur Valdimarsson vissi alveg hvar fiskur var undir.














Útgerðarstjórinn notaði stöng og veiddi einn fisk! Gulli notaði snæri með tveimur krókum og veiddi alla hina..........





Í fjarsýn er Elliðaey en nær Bæjarsker, trúlega Klofi og Krummaflögur. 

Myndirnar eru teknar í gær, mánudag. Stakkanesið er komið á land og verður þar næstu þrjár vikur. Það verður svo sjósett aftur þann 24. nk.



.....................................

28.08.2014 12:51

Afmælisdagur!


 Skrifin mín eiga ellefu ára afmæli í dag! 

Lengi vel hélt ég upp á afmælið með því að endurbirta fyrsta pistilinn. Hann var svo sem ekkert til að monta sig af,  í þá daga þótti mér ágætt að höggva niður setningar, skrifa knappt, stutt og koma kjarnanum til skila í sem fæstum orðum. Nú er öldin önnur og pistlarnir togna út í það óendanlega vegna óstöðvandi kjaftagangs skrifarans.

Samt langar mig að endurbirta eitthvað en þegar þessir stafir eru slegnir er ég ekki búinn að ákveða neitt og á eftir að rýna í þá gömlu og finna eitthvað nothæft - sé eitthvað á annað borð nothæft.........

......Fann þennan og læt hann vaða. Hann er dagsettur 9.júlí 2005 og fjallar um nýafstaðna heimsókn til Ísafjarðar:

 

Auðvitað fer maður á bryggjuna. Það bara tilheyrir! Maður byrjar alla morgna í bakaríinu, síðan á bryggjuna að hitta hina morgunhanana, trillukallana sem enga eirð hafa í sér fyrr en búið er að kíkja á bátana og jafnvel þiggja kaffi hver hjá öðrum.

Á sólríkum morgni þegar konan og dæturnar sváfu sem fastast í hjónasvítu húsbílsins læddist bóndinn framúr (þegar dæturnar eru með í för er bóndanum úthýst úr hjónasvítunni og er settur á pínubekk einn framarlega í húsdrekanum), klæddist, tók reiðhjólið af hjólagrindinni og lagði af stað í bæinn. Fyrsti viðkomustaðurinn var að vanda bakaríið, enda tvær flugur slegnar í einu höggi: heilsað uppá systur og systurdóttur, og verslað nýbakað bakkelsi ásamt rjúkandi kaffi.

Síðan var farið á bryggjuna. Þar var fyrir Óli á Árbæ að líta eftir nýendurbyggðum bát sem sjósettur var aðeins nokkrum dögum fyrr, hreint listaverk eins og von var úr hans hendi. Óla til halds og trausts var Óli málari, mættur bæði til að huga að eigin útgerð og samgleðjast nafna sínum.Fljótlega bættist einn í hópinn, Óli á Gjögri. Nýbúinn að skipta um bát og beið eftir skoðunarmanni. Enn fjölgaði í hópnum á borðstokk Óla á Árbæ þegar Óli Friðbjarnar mætti, einnig til að huga að eigin bát og bíða eftir skoðunarmanni. Ég gerði mér grein fyrir alvöru augnabliksins þegar ég spurði hvort það væri kannski Óli Lyngmó sem kæmi til að skoða. -"Nei, ekki hann. Hann skoðar ekki lengur, þessi heitir Hallgrímur" var svarið.

Mér þótti engu að síður stundin merkileg, þó að Óli Lyngmó kæmi ekki. Hér sat ég með fjórum Ólum. Allir fulltrúar hverfandi kynslóðar þessara gömlu trillukarla sem þraukað hafa hverja sveifluna af annari. Karlar með sitt á þurru, andstæðingar kvótakerfisins í hjarta sínu þó það hafi raunar tryggt mörgum gamlingjanum í trillukarlastétt áhyggjulaust ævikvöld.

Ég naut augnabliksins, spjallaði og hlustaði, deildi og nam. Alveg þangað til Óli (man ekki hver þeirra) leit á klukkuna og kvað upp úr með að nú væri tími til að koma sér í kaffi til Braga Magg. 

------------------------------------------------------------------------------------------------------------------

Svo fann ég annan pistil og í ljósi þess sem ég hef skrifað undanfarið ákvað ég að láta hann flakka líka:


miðvikudagur, september 08, 2004

Þegar líður á sumarið............. 

.....og ferðalögum að fækka má ég til að minnast á mismunandi verð á tjaldsvæðum landsins. Nánast allsstaðar er gjald fyrir gistinótt á tjaldsvæði reiknað pr. mann - ekki á gistieininguna sjálfa (tjald,fellihýsi,húsbíl). Nokkrar undantekningar eru þó á þessu, s.s. á Vopnafirði, þar sem í boði er lítið, fallegt og vel staðsett gistisvæði með 2 salernum, sturtu og útivaski með heitu og köldu vatni. Þar voru í sumar teknar 550 kr. fyrir gistieininguna og 250 kr. fyrir hvern fullorðinn. Á Egilsstöðum var gjaldið fyrir fullorðinn hins vegar kr. 750-. Barnagjald var allajafna 250-300 kr. en ég man reyndar ekki hvað það var á Egilsstöðum. Þetta gistisvæði var þó það allra dýrasta sem við spurðum um. Merkilegt nokk, niðri á fjörðum var ekki tekið gjald fyrir gistisvæðin og voru þau þó með allra besta móti hvað snerti búnað, viðhald og daglega hirðu. Við gistum á Seyðisfirði eina nótt, litum á tjaldsvæðið og leist þokkalega á. Gjaldið var 500 kr. á fullorðinn og 300 kr. á barn. Þar sem við þurftum ekki endilega að vera á tjaldsvæði enda ferðabíllinn okkar útbúinn með salerni og rennandi vatni fundum við okkur stað utarlega í bænum norðanvert. Þar var allstórt malarplan og settum við okkur þar niður seint að kvöldi og náttbjuggumst. Ekki höfðum við dvalið nema u.þ.b. 10 mínútur á planinu þegar fólksbíll kemur á fullri ferð, rennir upp að ferðabílnum og út snarast maður. Hann tilkynnir okkur að þetta plan tilheyri tjaldsvæðinu og hér verðum við ekki nema borga! Það fauk dálítið í mig og ég sagði okkur þá einfaldlega færa okkur annað. "Þá verðið þið að fara úr bænum" sagði komumaður. Ég hváði. "jú, það er nefnilega í lögreglusamþykkt bæjarins að bannað er að gista á öðrum stöðum í bænum en á tjaldsvæðunum." Hann kvað þetta hafa verið gert vegna þess vanda sem skapaðist oft á miðvikudögum þegar fólk á leið úr landi með Norrönu streymdi til bæjarins og lagði þá bílum og vögnum nánast inni í görðum hjá íbúum. Hins vegar væri það ljós í myrkrinu að við þyrftum einungis að greiða kr. 500 fyrir gistieininguna á þessum stað því enn skorti jú alla þjónustu á malarplanið, vatn, rafmagn og hreinlætisaðstöðu. Semsagt, ef við vildum nátta á Seyðisfirði yrðum við að borga, að öðrum kosti yfirgefa bæinn. Jamm, ég sem hélt að Seyðfirðingar hefðu verið að kvarta um að ferðamenn stoppuðu ekki á staðnum. Þarna var komin ljóslifandi ein af ástæðunum. Ég sá svo sem ekki eftir fimmhundruðkallinum en fannst peningaplokkið yfirgengilegt. Það var svo eftir öðru að þegar við yfirgáfum bæinn að morgni og klifruðum yfir Fjarðarheiðina sáum við,hvar sem spotti var út af vegkanti eða útskot, allstaðar skilti með yfirstrikuðu tjaldi og áletruninni: No camping-water preservation area. (tjöldun bönnuð-vatnsverndarsvæði). Nú má vel vera að Seyðfirðingum sé annt um vatnsbólin sín en ætli það væri þá ekki rétt að halda sauðkindunum frá vatnsverndarsvæðinu? þeir seyðfirsku sauðir sem þarna ráfuðu um heiðina hafa annaðhvort verið illa læsir (sem er líklegt) eða svo "sauð"þráir að þeir hafi einfaldlega hunzað skiltin (sem er jafn líklegt). Steininn tók þó úr þegar við ókum ofarlega í heiðinni fram hjá mulningsvélum með tilheyrandi vélaskúrum og vinnuvélum, gröfum og vélskóflum. Sem fyrrverandi vinnuvélstjóri og -eigandi veit ég af reynslu að þannig tæki eru sjaldnast laus við olíuleka af einhverju tagi. Og tækin þarna í heiðinni voru hvorki ný né hreinleg. Þar fóru vatnsverndarsjónamiðin fyrir lítið og augljóst að það eitt vakti fyrir því bæjarfélagi sem þessi skilti átti að draga alla gistingu inn á svæði sem síðan væri hægt að plokka ferðamenn fyrir. Meira um þetta síðar 



23.08.2014 09:02

Heim frá Færeyjum - 11. hl. ferðasögu.


Tíunda hluta lauk í sundlauginni á Egilsstöðum og þ.a.l. rökrétt að ellefti hluti hefjist þar. Það má einnig koma fram að sundlaugin var enn ómerkt á sundlaugalistanum mínum og því fékk hún nú sinn kross :

Þau örfáu ský sem skreytt höfðu himininn meðan við lágum í bleyti voru á undanhaldi og blái hlutinn stækkaði  meira og meira. Vatnið í sundlauginni hafði heldur ekki náð að þvo af okkur ferðabakteríuna og það var tilvalið að nýta þetta ágæta veður í dálítið flakk. Þar sem forðabúr ferðadrekans var að mestu tæmt við brottför frá Færeyjum var ekið að Bónusbúð staðarins og fyllt á það að nýju. Síðan var stefnan tekin niður að Eiðum. Við höfðum þó ekki langt farið þegar Borgarfjörður eystri - Bakkagerði - barst inn í umræðuna. EH þótti langt að fara og dró úr. Ég minnti á að síðast hefðum við gefið okkur tíma til að heimsækja Bakkagerði árið 1985. Þau rök vógu þungt og umræðan styttist í: "Ókei, ef þú nennir"  Ég svaraði: "Ég nenni alltaf" og af því ferðadrekinn var sneisafullur af ódýrri færeyskri dísilolíu var krúsið stillt á níutíu og stefnan tekin niður þinghárnar tvær, Eiða- og Hjaltastaða-. Á leiðinni ókum við framhjá "kunningjum" af Norrönu, erlendum ferðabílum sem við höfðum verið samferða heim. Þá mátti sjá ýmist úti í kanti að stúdera kort eða í nestisupptöku. Tveir eða þrír stóðu á völdum útsýnisstöðum í Vatnsskarði, milli Héraðs og Njarðvíkur. Áfram rúlluðum við niður í Njarðvík og þar var myndavélin munduð til fyrstu skota dagsins. Myndefnið voru Múli og Hádegisfjall, en þó ekki síður snjórinn í fjöllunum. Snjór í fjöllum var nefnilega varla séður í Færeyjum nema kannski á einum stað í Slættaratindi:





Krossinn í Njarðvíkurskriðum hefur ábyggilega verið lagfærður frá því ég sá hann fyrst því ég minnist hans öðruvísi. En kannski er minnið bara að bregðast mér..



Lognið breytist hins vegar aldrei:



Við ókum eiginlega beint gegnum þorpið Bakkagerði (ég hlýt að mega segja Bakkagerði því það stendur á kortinu mínu....) og fyrir fjarðarbotni stendur kletturinn Álfaborg. Frá honum tókum við þessar myndir til austurs. Sú efri sýnir Svartafell (og er ekki erfitt að skilja nafngiftina) en sú neðri mun sýna Geitfell, nokkru norðar:





Í austanverðum Borgarfirði eystri var fyrir mörgum árum gerð lítil bátahöfn í landi jarðarinnar Hafnar. Þegar smábátafloti þorpsins stækkaði við afar erfið hafnarskilyrði var ráðist í að stækka og endurbyggja þessa hafnaraðstöðu handan fjarðar með ágætum árangri. Höfnin er byggð inn milli kletta en í þessum klettum er gríðarlegt fuglalíf. Þetta fuglalíf hlýtur að hafa ratað í erlendar ferðabækur ef marka mátti fjölda útlendinga sem voru á staðnum með allskonar myndavélargræjur. Meðal þeirra voru hjónin sem voru klefanautar okkar á Norrönu á heimleið frá Færeyjum. Af númeri Landróversins þeirra mátti ráða að þau kæmu frá Þýskalandi. Meðan ég skoðaði bílnumer og rabbaði við trillukarl sem var að standsetja við bryggjuna arkaði EH fram á klettana eftir þartilgerðum fuglaskoðarastíg og skaut linsuskotum í allar áttir:












Þegar nóg hafði verið myndað var haldið til baka og nú var gengið á Álfaborg. Það er svo sem ekki mikil fjallganga en þegar næsta umhverfi er tiltölulega flatt fæst góð yfirsýn. Að neðan er horft í austur til Geitfells og Svartafells:



Hér er útsýni af Álfaborg yfir þorpið. Tjaldsvæðið í forgrunni, mjög stórt og vel búið:



Kirkja Borgfirðinga er hefðbundin, byggð árið 1901 eins og fram kemur HÉR. Sjá einnig HÉR.



Eins og fram kemur í hlekknum er altaristaflan talin til merkari verka Jóhannesar Kjarvals. Ég er aðeins bifvélavirki og með takmarkað vit á myndlist en verð þó að viðra þá skoðun mín að ef þessi altaristafla er með merkari verkum Kjarvals þá er eitthvað mikið að í mati á myndlist yfirleitt. Það hefur margoft komið fram hér á síðunni að bifvélavirkjar geta líka haft gaman af að skoða kirkjur - og þá um leið altaristöflur - og þegar jafnmargar hafa verið skoðaðar og margoft hefur komið fram hér á síðunni, þá getur maður myndað sér álit þrátt fyrir skort á skólun í myndlist. En meðan Kjarval er jafn hátt skrifaður og raun ber vitni geta Bakkgerðingar glaðst yfir sinni altaristöflu..........





Ljósakrónan er ekki gerð af Kjarval:



Hér getur svo að líta listaverk náttúrunnar umhverfis kirkjuna:





Líklega er þetta það hús í Bakkagerði sem hvað oftast hefur verið myndað. Þetta er Lindarbakki, sagt byggt 1899:





Við ókum fram á gömlu hafskipabryggjuna og snerum þar. Áðum stutta stund við öldugutl, fuglasöng og minninguna um ÞENNAN söng.



Þarabingurinn í fjörunni gaf til kynna að ekki væri nú sjórinn alltaf jafnstilltur og þennan dag:



Úti á túnbletti skammt frá bryggjunni stóð gamall björgunarbátur með seinni tíma viðbótum. Framstefnið var reyndar eitthvað undarlegt og á því var fjöl með nafninu "Bergbjörn"



Við vorum ekkert komin með nóg af Borgarfirði eystri þegar við héldum til baka undir tifandi klukku. Eitt myndskot yfir þessa paradís sem Njarðvík er í veðurblíðu:



..og annað af heiðinni niður í víkina til baka:



Við höfðum svo sem ekkert að gera upp á Egilsstaði aftur fyrst hægt var að komast aðra leið yfir í Jökulsárhlíð. Þegar við komum að stíflum Lagarfossvirkjunar, þar sem vegurinn liggur yfir blasti við hrikaleg sjón. Fljótið beljaði fram eins og í stífum vorleysingum og fyrirgangurinn var slíkur að manni fannst landið nötra:





Skýringuna mátti finna í flóðgáttum virkjunarinnar, sem höfðu verið opnaðar til að lækka vatnsborðið í fljótinu ofanvið. Leysingar undanfarinna daga ásamt löngu rigningartímabili hafa eflaust hækkað yfirborðið meira en góðu hófi gegndi og því nauðsyn að "hleypa af".



Ofan við stíflugarðinn mátti vel sjá hve yfirborð vatnsins hefur verið orðið hátt:



Rétt við mannvirkin stóð þetta skemmtilega skilti. Til hægri á því sést stíflugarðurinn sem við mynduðum og rétt handan við hann stendur skiltið á myndinni.





Það var farið að líða á daginn og við höfðum sett stefnuna á tjaldsvæðið í Vopnafirði. Þessi fallega kirkja tafði þó för þegar hún kom í ljós. Þetta er Kirkjubær í Hróarstungu. Sjá HÉR og HÉR



Útidyr voru ólæstar en millihurð læst. Því varð ekki komist inn í sjálfa kirkjuna en stigi upp á loftið var innan við útidyr og því var hægt að skoða kirkjuna af loftinu.









Ekki sáum við nafn á þessu leiði en miðað við aldur þess og útlit er ekki ólíklegt að sá sem það byggði eigi nú sitt eigið einhversstaðar í garðinum. Hver veit?



Við ókum í rólegheitum niður Jökulsárhlíðina og um leið og við lögðum á Hellisheiði eystri virtum við fyrir okkur snjóinn í fjöllunum handan Héraðsflóa. Það var 26. júní!



Þegar við ókum Hellisheiði eystri í fyrsta sinn árið 2004 vorum við á gamla Toyota Coaster ferðabílnum sem við gáfum nafnið  "Ísfirðingur". Sá var afllítill og hávaðasamur, aksturinn upp tók 20 mínútur og niðurleiðin tók sama tíma. Við tókum tímann á sjúkrabílnum og án þess að nokkurntíma væri ekið óeðlilega hratt vorum við slétt korter yfir heiðina enda til enda. Inni í því korteri eru þó ekki mínúturnar sem  EH fékk til að mynda snjógöngin við veginn. Árið 2004 voru engin göng!





Norðan við Hellisheiðina var önnur og síðri útgáfa af veðri. Það rigndi ekki en þó lá þokuslæða yfir og yfirbragðið allt var frekar rigningarlegt. Við ókum svosem eins og hálfa leið inn með Vopnafirði en þar sem komið var fram yfir kvöldmatartíma, við með gaulandi garnir og grillkjöt í forðabúrinu var tekin áning ofan vegar. Grillinu var kippt út og kjötið sótt. Þegar tengja átti grillið við gaskútinn kom hins vegar babb í bátinn: þrýstijafnarinn fannst hvergi! 

Við höfðum dandalast með grillið alla leið austur á Seyðisfjörð, til Færeyja og til baka aftur án þess að nota það nokkurn tíma því Færeyingar selja eiginlega ekki tilbúið grillkjöt. Ég mun líka hafa nefnt það í einhverjum pistlinum hvað gasgrill voru sjaldséð við íbúðarhús þar. Nú átti semsagt að nota grillið í fyrsta sinn á ferðalaginu og þá fannst ekki þrýstijafnarinn. 

Ég legg sérstaka áherslu á þrýstijafnarann, því hann er örlagavaldur í sögunni!

Það læddist að mér grunur, ég hringdi suður í soninn Arnar Þór, sem ég vissi að var heima í Höfðaborg, og bað hann kíkja fyrir mig í hillu hvort þar lægi blár þrýstijafnari með áfastri slöngu og hraðtengi. Eftir stutta leit lýsti hann fyrir mér stykkinu sem hann hélt á í hendinni - þrýstijafnaranum frá gasgrillinu!!




Nú voru góð ráð dýr. Grillkjötið þoldi illa geymslu, einnota grill var ekki að fá og við svöng. Þegar neyðin (ef nota má það orð) er hins vegar stærst er hjálpin oft næst. Á Svínabökkum í Vopnafirði býr nefnilega gott fólk sem við þekktum vel. Svínabakkar eru meðal þeirra bæja sem styst er til frá þeim stað sem við vorum stödd á og eitt símtal til Jóhanns Marvinssonar fyrrum bónda í Arnardal við Skutulsfjörð vestra leiddi í ljós að þar á bæ væri til brúklegur þrýstijafnari sem minnsta mál væri að fá lánaðan. Næsti áfangastaður okkar var því Svínabakkar og nú var ekið á fullri ferð.

Þegar komið var heim að Svínabökkum var þar fjöl"menni" á hlaði. Þar var líka sannkallaður fagnaðarfundur því við höfðum ekki hitt þau Jóa og Þórdísi (Debbu) í alltof, alltof langan tíma. Tvö börn af fjórum voru heima á bæ, Debóra sem var í þann mund að taka á móti gestum í átján ára afmælið sitt og sonurinn Ágúst, sem leit út fyrir að vera stóri bróðir þrátt fyrir að vera aðeins fimmtán. Svo var á hlaðinu sægur af ferfætlingum, hálf- og heilsystkinum og ekki alltaf spáð í aldur og stærð þegar speninn var annars vegar:





Það mun vera dagsljóst hver heldur á myndavélinni. Hér myndar kattakonan Elín Huld. Þessi hér að neðan vakti alveg sérstakar móðurtilfinningar hjá henni, enda hálf umkomulaus og utanveltu að sjá:



Meðan EH myndaði kisur fundum við Jói og Ágúst vel brúklegan þrýstijafnara, settum hann á kútinn og prófuðum. Allt virtist virka en áður en kom að eldamennsku var búið að bjóða okkur að veisluborði innandyra og maður slær ekki hendi móti hangikjöti hjá Þórdísi Sumarliðadóttur!



Okkar eigið grillkjöt var sett í kæli hjá Debbu og skyldi sækjast með morgunkaffi daginn eftir. Við höfðum tafið heimilisfólk á Svínabökkum nóg og þegar heim á hlað mætti mannskapur úr þorpinu til vélaviðgerða renndum við út á ágætt tjaldsvæði Vopnfirðinga og bjuggum um okkur til næturdvalar. Á tjaldsvæðinu reyndust vera fyrir þó nokkrir samferðalangar úr Norrönu. 

Upp rann föstudagurinn 27. júní og leit út fyrir annan eins dýrðardag. Morgunverður var fram borinn utandyra og fékk hvort okkar sína mynd. Takið sérstaklega eftir grænu skónum hennar EH. Þeir sjást nefnilega ekki hvar og hvenær sem er:





Að morgunverði loknum tókum við saman okkar hafurtask og renndum í bæinn. Í miðju þorpi hékk þessi vindpoki eins og slytti, og vitnisburður hans var órækur. Handan fjarðar læddist hins vegar inn eitthvert afbrigði Austfjarðaþokunnar alræmdu og fór hratt yfir. 



Í þessu fallega húsi var upplýsingamiðstöðin og þangað fórum við til að gera upp tjaldsvæðið:



Skammt frá stendur þetta minnismerki um burtkallaða vopnfirska sjómenn. Merkið vakti umtal á sínum tíma enda nokkuð nákvæm eftirgerð minnismerkis um Duggu - Eyvind sem stendur rétt við Dalvík. Sjá HÉR og HÉR  



Samkvæmt okkar korti heitir hann Skipshólmi, þessi:



Það verður ekki sagt svo skilið við Vopnafjörð að kirkjan sé ekki mynduð. Við gáfum okkur ekki tíma til að skoða hana að innan en það kemur að því.....



Þegar þarna var komið sögu hafði heimilisfólk á Svínabökkum lokið sínum morgunverkum og við boðuð í morgunkaffi. Það kaffi teygðist svo fram yfir hádegismat og Elín Huld tók fleiri kattamyndir. Enn var sú litla hálf utanveltu og umkomulítil að sjá þar sem hún sat á pallinum og horfði á hinar leika sér:



Að loknum hádegisverði kvöddum við heimilis- og heiðursfólkið að Svínabökkum og renndum einn bæjarhring að lokum:





....og þegar haldið var frá Vopnafirði vorum við ekki lengur tvö á ferð. Móðurtilfinningarnar urðu skynseminni yfirsterkari og ein lítil og umkomulaus læða hafði bæst í fjölskylduna. 



Næst lá leiðin til Bakkafjarðar en við ókum stuttan útúrdúr fram að sundlaug Vopnfirðinga í Selárdal. Á skilti við hana stóð "LOKAÐ" en erlendir ferðamenn skilja ekki orðið, eða virðast ekki skilja það:





Á Bakkafirði var svo sem ekki margt að sjá. Nokkur hús, nokkrir bílar, nokkrir bátar.....Skammt utan við þorpið stóðu hálffallnir skreiðarhjallar og við þá leifarnar af Agli NS-30. Þegar ég kíkti um borð blasti við sama sjón og var svo algeng  - en jafnframt óskiljanleg - í Færeyjum. Tiltölulega nýleg þriggja strokka dísilvél, á að giska 25 hestöfl, fagurgræn. Ég ætlaði að mynda hana en myndavélin sagði á því augnabliki "Memory full"




Skammt frá stóð Árni Friðriksson NS 300 á hrörlegum vagni. Það skipti svo sem engu þótt vagninn væri hrörlegur því á hvorugu var neitt fararsnið og mig grunar að Árni Friðriksson NS 300 hafi farið sína síðustu ferð.



Við gengum niður að gömlu bryggjunni á Bakkafirði. Þegar við vorum á ferð þarna sumarið 1985 var líf og fjör á bryggjunni. Það er brimasamt á Bakkafirði og á bryggjunni var stór og mikill vökvakrani sem gat svipt bátum á augabragði upp úr sjó og raðað í skjól undir steinveggnum hægra megin.



 Nú er hún Snorrabúð stekkur og kraninn  farinn eins og flest annað en undirstöður hans vel sýnilegar með grindverki á miðri mynd:



Allt hefur sinn tíma:





Þessi vinalegi vatnstankur, skreyttur af skólabörnum þorpsins,  kvaddi fyrir hönd Bakkfirðinga þegar við ókum úr bænum. 



.......og krílið svaf. Þegar þarna var komið sögu vorum við EH sammála um að kisan væri ótrúlega róleg í bílnum - eiginlega alveg sultuslök, eða þannig. Á því augnabliki kom ekkert annað nafn til greina en Sulta:



Innarlega í Bakkafirði er svo nýja bátahöfnin sprengd inn í klappir og grjótið sem úr kom notað í garða.  Hér þarf engan krana til að bjarga bátum frá brimi:





Stefnan var næst á Þórshöfn og um leið og við beygðum til vesturs á næstu gatnamótum vorum við komin á áður ókannaðar slóðir. Sem fyrr segir höfðum við komið til Bakkafjarðar árið 1985 og þá aðeins í nokkurra mínútna heimsókn frá Vopnafirði. Lengra "uppeftir" höfðum við aldrei komið fyrr en nú. Næst ókum við fram hjá Skeggjastaðakirkju, handan fjarðar. Ekki skoðuðum við hana nánar enda vorum við, þegar hér var komið sögu, ákveðin í að leggja aðaláhersluna á að fara fyrir Melrakkasléttu. Það var föstudagssíðdegi og tveimur sólarhringum síðar áttum við að vera í Reykjavík. Það skipti því máli að velja úr aðal- og aukaatriði því það var þegar orðið ljóst að við myndum þurfa aðra ferð - sérferð - þarna norður eftir til að skoða allt sem skoðunarvert væri. Skeggjastaðakirkja var því sett í flokkinn "Næsta ferð"






Þetta mun vera  bærinn  Miðfjörður, við samnefndan fjarðarstúf inn úr Bakkaflóa. Býlið vakti athygli fyrir reisulegt íbúðarhús (sem ekki virtist þó fullsmíðað) og vænan vinnuvélakirkjugarð skammt frá því. 



Skammt frá var þessi rekaviðarstafli skreyttur með sjóreknum skóm af ýmsu tagi:



Þessi bær á, ef að líkum lætur, eftir að verða nafli alheimsins þegar frammí sækir. Þetta er Fell, í þeim margnefnda Finnafirði, áætlaðri þjónustumiðstöð við olíuvinnslu á landgrunninu útifyrir, ef af þeirri vinnslu verður. Fell er samt frekar afskekkt og kannski hafa bændur á býlinu ekki heyrt af íslensku leiðinni í viðskiptum - eða þá að þeir eru bara svona varkárir. Allavega sá ég engin merki þess að menn væru farnir að byggja, breyta og bæta út á væntanlegan stórgróða........



Frá Felli ókum við um háls sem ég veit ekki hvort er kallaður Brekknaheiði, en allavega liggur vegurinn þvert yfir rætur Langaness og til Þórshafnar. Þegar yfir hann kom var útsýn til Þórshafnar svona, og þá um leið út eftir austurströnd Melrakkasléttu:



Það var ekki sérlega bjart að horfa norður eftir. Einhversstaðar þarna uppfrá átti Raufarhöfn, okkar næsti náttstaður að vera. 



Við höfðum ætlað okkur að aka út Langanes og jafnvel alla leið út að eyðiþorpinu Skálum og út í Font, ysta hluta nessins. Þegar þarna var komið sögu var ljóst að allar slíkar áætlanir yrði að flytja yfir á "Næstu ferð". Við létum okkur nægja að aka út á Sauðanes, spölkorn utan við þorpið og skoða okkur þar um á söguríkum slóðum. Sjá HÉR og HÉR. Svo rákum við augun í þessa yfirgefnu Douglas DC-3 flugvél sem liggur á maganum niðri á túnum Sauðanessbænda. Þarna mun hafa verið lendingarbraut á árum áður á vegum "Varnar"liðsins í tengslum við radarstöðina á Heiðarfjalli. Flugvélinni mun hafa hlekkst á og í framhaldinu verið rifin á staðnum. Bolurinn er nú kindaathvarf:



Eins og fram kemur í tenglunum er kirkjan á Sauðanesi í endurbyggingu. Hún stóð opin og innandyra var talsvert byggingarefni geymt.



Kirkjan virtist ekki vera mjög illa farin innandyra og aðalviðgerðirnar bundnar við burðarvirki, gólf og utanhússklæðningu.





Eftir heimsóknina að Sauðanesi var sundlaug Þórshafnar leituð uppi. Hún var svo sem ekki vandfundin og við skelltum okkur í hana. Þar með slógum við tvær flugur í einu höggi, náðum að baða okkur almennilega og merkja við enn eina á sundlaugalistanum margfræga. Eftir baðið renndum við inn á tjaldsvæði Þórshafnarbúa og litum á það. Svæðið var stórt, ágætlega búið og á því talsvert af fólki. M.a. þekktum við þar þrjá erlenda ferðafélaga í eldri kantinum. Ég hafði veitt þeim athygli í Norrönu á heimleiðinni, þeir höfðu komið sér fyrir í kaffiteríunni og þegar leið á kvöldið náði einn þeirra - sem virtist nokkurs konar "stjóri" hópsins -   í rauðvínsflösku á barinn og gaf þar með öðrum fordæmi. Afleiðingin varð svona huggulegt rauðvínskvöld í skuggsælli teríunni þar sem menn slökuðu á og nutu augnabliksins. Þetta voru rólegheitakarlar sem ferðuðust um á Volkswagen Sharan með tjaldvagn í eftirdragi og yfir þeim var alþýðlegur bragur, ekkert ríkidæmi. Nú voru þeir komnir til Þórshafnar, búnir að reisa sinn tjaldvagn og "stjóri" að bögglast við að kveikja upp í einnota grilli. Við EH settum upp okkar græjur, tengdum örlagavaldinn frá Svínabökkum og kveiktum upp. Grillið kom í minn hlut meðan EH sá um borðbúnaðinn. Á augabragði var steikin tilbúin en stutt frá var "stjóri" enn að basla við einnotagrillið. Ég labbaði yfir til hans og bauð honum á minni fínustu ensku afnot af gasgrillinu okkar. Hann virtist reyna að skilja, brosti svo góðlátlega, hristi höfuðið og benti á einnotagrillið. Afþakkaði svo kurteislega á þýsku. Ég skil talsvert í þýsku en reyni ekki að tala hana enda þótt ég muni hrafl frá þeim eina vetri sem ég lærði þýsku í Menntaskólanum á Ísafirði. Á þessu augnabliki hefði ég samt gefið mikið fyrir að geta talað við "stjóra" því þetta var góðlegasti karl. Hann talaði bara ekki stakt orð í ensku.....



Þeir félagar höfðu uppi fána sem ég kunni ekki skil á en gat þess vegna verið fáni einhvers fótboltafélags. Ég sendi Arnari Þór sms- skilaboð með lýsingu á fánanum og hann svaraði stuttu seinna: "Austurríki"



Við héldum okkar striki og lukum eldamennsku. Enn sýndist vera basl með einnota grillið svo ég rölti aftur yfir til "stjóra" og bauð honum afnot af okkar. Hann afþakkaði aftur og svaraði að "þetta væri alveg að koma". Ég sá hins vegar þær þykku kjötsneiðar sem hann ætlaði að grilla og þær hafa seint orðið tilbúnar á einnotagrilli. Stuttu eftir að við settumst að borðum kom "stjóri" hins vegar röltandi með plastglas í hendi. Hann vildi endilega gefa mér innihaldið og tiltók nafn sem ég skildi ekki. Ég þáði gott boð en svipurinn á EH var skrýtinn. Ég er enginn vínþekkjari enda nánast bindindismaður. Svo mikið man ég þó frá unglingsárunum að í glasinu var einhvers konar brennivín - trúlega af heimaslóðum. Ekki fannst EH við hæfi að ég drykki úr glasinu eigandi eftir að aka norður á Raufarhöfn undir kvöldið. Eitthvað mátti ég þó smakka en gat ekki komið nema litlu niður í einu. Svo var glasið allt í einu orðið hálft af appelsíni og EH með sakleysissvip. Ekki skánaði vökvinn við þessa rammíslensku viðbót. Svo var það við einhvern kjötbitann sem ég kyngdi með lokuð augun af vellíðan, að þegar ég opnaði að nýju var ekkert glas á borðinu.............

Það þurfti að vaska upp og við nýttum aðstöðuna til þess. Á meðan átti Sulta að fá að hreyfa sig. Henni leist ekki á veröldina og fann sér skjól. Myndin hér að neðan er felumynd: "Finnið köttinn"



Á Þórshöfn var engin Orka, engin ÓB, aðeins það sem eitt sinn var kallað "Framsóknarbensín" en heitir nú N1. Þar naut ég engra olíufríðinda og mátti því punga út ófáum þúsundköllum við dæluna, því nú var Færeyjaolían mjög að ganga til þurrðar og alls óvíst hvort nokkra olíu væri að fá á þeirri náströnd sem mér var sagt að Raufarhöfn væri (en að vísu af Þórshafnarbúa). Því næst var stefnan tekin norður og ekið sem nef vísaði. Dumbungurinn sem við höfðum séð yfir sléttunni hélst áfram og þyngdi heldur. Þegar við komum að Svalbarði í Þistilfirði var farið að ýra dálítið úr lofti.



Svalbarðskirkja er ein af þessum fallegu, turnlausu timburkirkjum. Hún virtist í ágætu standi en þó mátti finna að gólfið var farið að ganga talsvert upp. Útveggir stóðu á steyptum sökkli sem virtist í lagi.





Meðan við skoðuðum kirkjuna var Sulta skilin eftir á verði í bílnum. Svona sinnti hún varðgæslunni:



Það var farið að kvölda þegar við komum til Raufarhafnar. Mig hefur lengi langað til að skoða þetta þorp enda hafði ég þá skoðun að þar væri að finna eina "landslagið"  á stóru svæði. Víst er umhverfi Raufarhafnar fallegt en staðurinn sjálfur virðist mér vera á mikilli niðurleið. Kirkjan bjargar þó miklu enda ein sú fallegasta á landinu. Sömuleiðis var tjaldsvæðið ágætt þótt það væri lítið, en búnaður var góður og í lagi. Við stutta skoðunarferð um þorpið virtust mjög mörg hús vera tóm og framan við eitt þeirra var stór sendibíll. Fólk var að bera húsgögn og húsgögnin voru borin út í bílinn - ekki úr honum. Bíllinn var merktur Grundarfirði. Á öðrum stað var svona "sósíalblokk" eins og svo algengar eru úti á landi. Mér sýndist vera búið í einni íbúð af ellefu eða tólf.




Við bjuggum okkur til næturdvalar á tjaldsvæðinu við hlið tveggja "ferðafélaga" af Norrönu. Regnúðinn þéttist, droparnir stækkuðu og um nóttina hellirigndi............

Endir ellefta hluta

................................................

13.08.2014 21:00

Í Færeyjum - 10.hl.ferðasögu.


Í tíunda hluta segir frá lokadeginum í Færeyjum og ferðinni heim.


Upp rann miðvikudagur 25. júní. Eins og áður kom fram lögðum við bílnum kvöldið áður í miðjum afleiðingum færeysku kreppunnar, þ.e. á hálfunnu byggingasvæði innan um dót og drasl og féllum svo vel í umhverfið að enginn virtist taka eftir okkur.

Við vorum snemma á fótum enda kom fram í lok 9.hluta að við þurftum að vera nálægt bænum vegna áætlunar lokadagsins. Um leið og hefðbundnum morgunverkum hafði verið sinnt var ekið niður á "átta tíma stæðið" við Vesturvog og ferðadrekanum lagt þar. Bakpokar voru hengdir á herðar og arkað á fullri ferð niður að Strandfaraskipum Landsins þar sem "Ternan" var tilbúin til brottfarar. Nú skyldi nefnilega taka "innanlands" ferju í annað og síðara skiptið. Förinni var heitið til Nólsoy



"Ternan" er fuglsnafn eins og einhverjir eflaust átta sig á. Þessi fugl er stundum nefndur Þerna á íslensku en algengara nafn á honum er kría. Færeyingar þekkja eflaust kríunafnið en hjá þeim heitir fuglinn semsagt terna. Við æddum um borð fulla ferð enda höfðum við enga hugmynd um ferðamannastraum til Nólseyjar, en þangað var förinni heitið þennan síðasta morgun okkar í Færeyjum. Kannski er rétt að skjóta inn kortaklippu svo hægara sé að átta sig á stöðunni:



Okkur hefði svo sem ekki legið lífið á að tryggja okkur pláss því það voru aðeins svona sirka tíu, tólf farþegar á leið til Nólseyjar. Við komum okkur fyrir á bekk uppi á bátadekki og lituðumst um. Á léttabátnum mátti sjá að Ternan væri skráð í Klakksvík og hafi hún áður verið staðsett þar hefur hún væntanlega haft það hlutverk að þjóna byggðum á Kalsoy. Nú var hún þó í Þórshöfn og þjónaði Nólsoy og kannski var það vegna þess að yfir sumartímann eru væntanlega talsvert fleiri ferðamenn sem heimsækja Nólsoy en Kalsoy og því veitir ekki af "almennilegri" ferju. 



Svo var blásið til brottfarar og myndasmiðurinn fór í hlutverk fyrirsætu. Er það rétt hjá mér að hún sé hálfsyfjuleg? 



Við stóðum við borðstokkinn og horfðum á Þinganes renna hjá þegar Ternan stoppaði allt í einu og vildi ekki lengra. 



Þetta reyndist ástæðan: Farþegadreki af stærri gerðinni var að þoka sér inn um þröngt hafnarmynnið og farþegadrekar af stærri gerðinni flytja með sér miklar tekjur til Þórshafnar. Því fá þeir forgang fram yfir ferjukríli sem flytur tíu, tólf hræður yfir til Nólseyjar. Það var svo sem ekkert við það að athuga og bara gaman að fylgjast með risanum á innleið.





Svo var Íslandsvinurinn Celebrity Infinity kominn innfyrir og við máttum leggja af stað í þessa tuttugu mínútna löngu siglingu yfir sundið.



Á stjórnborða blöstu við hinar miklu byggingar Landssjúkrahússins:



Tuttugu mínútur líða hratt og brátt runnum við inn á höfnina í Nólsey:





Meðal farþega voru frönskumælandi hjón. Þeim var búin móttaka á bryggjunni í Nólsey og í móttökunefndinni var maður sem virtist vera leiðsögumaður og  - hundurinn hans.



Við nánari athugun kom í ljós að þetta var ekki svona Bassahundur eins og vel gat verið, séð ofan af Ternunni. Þetta var hundur af þeirri gerð sem trúgjörnum, japönskum sakleysingjum var seld dýrum dómum hér um árið. Japparnir voru grunlausir þar til "celeb" dama ein kom fram í sjónvarpi með "hundinn" sinn á handleggnum og hafði orð á því að illa gengi að kenna "honum" kúnstir, auk þess sem "hann" gelti mjög furðulega! Atvikið rataði í  heimspressuna sem hló sig máttlausa en Japanir tóku "Íslendinginn" á þetta og neituðu að ræða málið"

Þessu lambi var líkt varið og kettinum í Þórshöfn, það vildi ekkert hafa með útlenskubullandi túrista að gera en hélt sig mest hjá sínum manni.



Það næsta sem áhugavert þótti í Nólsey var frekar einstaklingsbundið en fékk þó mynd sem ætti frekar að teljast til iðnaðarnjósna en heimildar. Þetta er "Becker" stýri á aflagðri trétrillu uppi á kambi. Svona þarf stórskipið Stakkanes auðvitað að fá:




Mér var sagt að fara í úlpu og hafa húfu. Ekki veit ég hvers vegna en gegndi þó. Það var samt alls ekki úlpu - né húfuveður en stundum þarf jú að gegna til að fá "gott veður"

Þeir voru að byggja "dálítil" bátaskýli í Nólsey:



Beint fram af eyjarnafninu í steingarðinum var þessi líka fína sandfjara, hreint eins og baðströnd:



"Hundurinn" leiðsögumannsins hafði dregist aðeins afturúr hópnum á leið frá höfninni:





Svo þegar nær bænum kom stakk þessi afturendanum fyrir skúrhorn. Mér fannst hann kunnuglegur - eðlilega, því flestar breytingar á honum voru eins og á sjúkrabílnum mínum. Hann hafði sama toppinn, sömu ljósin og nákvæmlega sömu innréttinguna. Ég gat ekki séð hvar á Íslandi hann hafði verið sjúkrabíll en sjúkrabíl hafði hann verið......



Jú, hann var frábrugðinn í einu, veigamiklu atriði: Hann var með tíu strokka bensínvél:



Enn ein sönnunin fyrir íslenskum tengslum:



Í miðju þorpinu, rétt við upplýsingamiðstöð ferðamanna er minningarplata á steini. Á henni er minnst róðrarafreks Ove Joensen. Platan skýrir sig sjálf.







Um Ove Joensen má annars lesa HÉR og HÉR, og minnast þess um leið að það er sitthvort, gæfa og gjörvileiki.......

Gamli tíminn sveif yfir vötnum í Nólsey hvert sem litið varð.....Húsið þarna í baksýn (sem verið er að laga þakið á) bar stórt skilti sem á stóð: "Kaffistova". Þetta er gisti - og veitingahús sem minnst var á í bæklingum en virtist vera lokað nú um háannatímann vegna viðgerða. Allavega var allt harðlæst þegar við reyndum inngöngu.



Við töltum út að kirkjunni. Hún var læst og ekki ætluð ferðamönnum til skoðunar. Á göngunni mynduðum við um öxl yfir hafnargarðinn til gömlu verbúðanna ( og þeirra nýrri t.h.)







Í kirkjugarðinum stendur minningarsteinn um þjóðhetjuna Nólsoyjar - Pál, bónda og athafnamann. Frá steininum er útsýnið svona yfir til Þórshafnar - eða öllu heldur Argir, sem eins og fyrr segir er sambyggt Þórshöfn: 



......og stutt frá stóð gömul sjóbúð:



Það er fljótlegt að ganga allar götur í þorpinu á Nólsey og þegar því var að mestu lokið gengum við út með eyju til norðurs sundmegin. 



Þegar ekki varð lengra komist með góðu móti eftir fjörunni gengum við upp á milli húsa að götu sem liggur þorpið enda á milli. Hana gengum við áfram til norðurs, út fyrir byggð þangað sem helst voru sumarhús og slægjur. Á þeim slóðum hækkaði eyjan nokkuð upp að vindmyllu sem þar stendur og framleiðir rafmagn eyjabúa, af hæðinni var gott útsýni yfir þorpið og suðureyna. Á myndinni má vel sjá hvernig eyjunni er nánast skipt í tvennt með þröngu klettaeiði - og þorpinu þar með:



Horft af hæðinni yfir vesturhluta þorpsins í átt til suðurodda Straumeyjar. Fjær er Sandey:



Af hæðinni gengum við sem leið lá niður í þorpið og við eina efstu götuna rákumst við á þessa fjárhundafjölskyldu. Það er talsvert algengt að rekast á afgirta fjárhunda sem virðast hálf umkomulausir - og eru það sjálfsagt - enda eru fjárhundar Færeyinga ekki gæludýr heldur vinnuþjarkar sem leiðist að hanga aðgerðarlausir. Þessir voru allavega ekki glaðlegir, ekki einu sinni sá litli:



Þessar voru heldur brattari:



Svona mynd gæti komið þeirri hugmynd inn hjá einhverjum að í Nólsey stæði heimurinn kyrr. Það er kannski ekki alveg þannig en hreyfingin er ekki mikil:



Í rauða húsinu er "Kunningastovan" - upplýsingamiðstöð þorpsins. Þar starfaði afar almennileg kona, kannski kringum þrítugt, sem ekki átti í neinum vandræðum með íslenskuna enda hafði hún dvalið á Íslandi u.þ.b. þrjá mánuði fyrir einhverjum árum. Hjá henni fengum við úrvals kaffi og kökubita ásamt hafsjó af upplýsingum um lífið í þorpinu. Við sögðum henni frá ferð okkar til Suðureyjar og það með, að okkur hefði langað til að heimsækja Sandey en ekki haft tíma. Hún setti upp smáskeifu, benti þumli niður og sagði okkur frekar að eyða tíma í að skoða Skúfey.......kannski það náist í næstu ferð?

Í kjallara "Kunningastovunnar" er geymdur róðrarbáturinn sem Ove Joensen fór á til Köben 1986. Hann var til sýnis gegn gjaldi.



Það varð  ekki hjá því komist að heillast af kyrrðinni við voginn og gömlu verbúðunum. Þarna, á þessum stað og þessu augnabliki þurfti maður að ýta frá sér tilhugsuninni um Norrænu sem kæmi til Þórshafnar eftir nokkra klukkutíma til að sækja okkur..........mann langaði einfaldlega  ekki heim!





Eitt af þessum skiltum sem okkur Íslendingum finnst svo skemmtileg:



Enn var talsverður tími þar til Ternan var væntanleg næst og við nýttum hann til að ganga upp á eiðið sem nær aðskilur eyjarhlutana. Nú fengum við ágæta yfirsýn yfir þorpið í hina áttina:



Austanvert í eiðinu voru ekki sömu rólegheitin og við voginn þorpsmegin:





Undiraldan var þung og súgurinn við klettana var miklu meiri en ljósmyndir ná að sýna. Það dundi í hellinum þegar aldan skall á veggjunum:



Á leiðinni til baka niður í þorpið fundum við þessi leiktæki - og í leiktækjum er jú brugðið á leik:



Ég mátti til að prófa eitt saklaust:



...og úr stellingunni leit veröldin svona út:



Ég veit ekki hvort mannkynið er á leið aftur upp í trén, en þessi hluti þess prílaði allavega upp í eitt "klifurdót" og virtist leita að skóginum..........



Svo, allt í einu var tíminn liðinn og Ternan komin á höfnina:



Daman í upplýsingamiðstöðinni, "Kunningastovunni" (hvort orðið er nú skemmtilegra?) hafði bent okkur á gula húsið og sagst leigja það til búsetu  sumarlangt. Ekki amalegur staður að búa á:



RIB - bátar eru nýlegt fyrirbæri í ferðaþjónustu og má sjá þá víða. Færeyjar voru engin undantekning og þessi var að dóla kringum Nólsey góða stund, kom svo inn á voginn um leið og Ternan:





Viðstaða Ternunar í Nólsey er stutt hvert sinn en ferðirnar tíðar. Við vorum rétt komin um borð þegar skipið seig út um hafnarmynnið.........



........og svo var manni kippt hálfnauðugum inn í nútímann og veruleikann á ný. Aðeins tuttugu mínútur skildu á milli!



Við töltum í land og litum inn í "Terminalin", Umferðarmiðstöð Færeyinga á hafnarsvæðinu. Við sáum að í básana hjá Smyril Line var komið fólk og gáfum okkur á tal við það. Þá kom á daginn að þar sem við vorum með alla pappíra í töskunni hennar Elínar gátum við tékkað okkur og bílinn inn á Norrönu. Þar með vorum við laus við það og gátum nýtt það sem eftir lifði dags í að heimsækja SMS, sem eins og fyrr sagði er Kringla/Smáralind Færeyinga. Klukkan var rétt að verða tvö e.h. og von var á Norrönu um hálfsex. Þar sem við vorum komin með brottfararspjöld þurftum við ekki að mæta fyrr en hálftíma fyrir brottför og þá beint á aksturslínu um borð. 



Þá var það SMS. Eins og fram kom í lok 9. hluta tókst okkur ekki að finna húsið í gönguferðinni kvöldið áður. Eftir göngutúrinn renndum við um bæinn á bílnum á leið í náttstað og þá fundum við það fljótlega. Stefnan var því klár og við gengum uppeftir. SMS vöruhús er ekki ný bygging en afar glæsileg. Þarna var frítt internet og nægir staðir til að tylla sér. Það var dálítið "absúrd" að líta í kringum sig því hvar sem setjast mátti niður sátu ferðamenn, líklega af skemmtiferðaskipinu í höfninni og pikkuðu á snjallsíma og spjaldtölvur. Hver og einn grúfði sig niður í sitt og manni gat vel fundist að heimurinn hefði frosið eitt augnablik - ef ekki hefði verið fyrir búðaráparana.  



Við röltum um, litum inn í nokkrar búðir en hittum svo Hornfirðingana sem voru í SMS í sömu erindagerðum og við - þ.e. að drepa tímann fram að mætingu á Norrönu. Við fengum okkur kaffi og tylltum okkur smástund við leik í Heimsmeistarakeppnninni sem stóð sem hæst. Síðan skildu leiðir og við héldum aftur út á röltið - niður í bæ.



Þessi myndarlega bygging er ráðhús bæjarins. Framan á því stendur:" Tórshavnar kommuna" og ártalið 1894 milli orðanna:



Dómkirkjuturninn og næstum því heiður himinn - allavega á færeyskan mælikvarða. Við gengum niður á bílastæðið við Vesturvog, sóttum bílinn og tókum einn lokahring um bæinn.





Loks var ekki annað eftir en að mæta í röðina. Tímaskráningin á þessari mynd segir 16:09 og á henni sést forláta Rolls Royce sem var á leið til Íslands. 



Á sílsinum neðan við farþegahurðina (hann er með stýrið "réttu" megin) stendur: "Around the world in a 80 year old car" og neðan við afturgluggann stendur: "Rolls Royce Antonoff 1". Svo er talsverð lesning á kistulokinu, þar sem fram kemur að tegundin sé RR Phantom 1 frá árinu 1926, vélin sé sex strokka og átta lítrar að rúmtaki og eyðsla pr. 100 km sé 22 lítrar. Nafnið Antonoff mun vera nafn yfirbyggingarsmiðsins, en yfirbyggingin er úr áli:



Hollendingar á bláum Benz, Svisslendingar á gömlum Citroen....



Loks hillti undir Norrönu og innan skamms renndi hún inn á höfnina. Þar var spólað í hálfhring og ferlíkinu rennt að bryggju eins og barnaleikfangi.



Svo stór var biðröðin orðin að maður hafði nokkrar áhyggjur af því að komast ekki með! Hitt var svo vitað mál að meðal farþeganna voru Færeyingar á heimleið, ferðamenn sem ætluðu að dvelja viku eða lengur í eyjunum, einnig ferðamenn sem ætluðu að dvelja þá  daga sem tæki Norrönu að sigla til Íslands og aftur til baka til Færeyja og áfram til Hirtshals. Loks var sá hópur sem mögulega gat ætlað að dvelja í Færeyjum meðan Norröna sigldi til Íslands/Færeyja/ Hirtshals/aftur til Færeyja og aftur til Hirtshals á sunnudagskvöldi. Flókið? Kannski. Ég reiknaði allavega með því að tölvurnar hefðu unnið sitt verk......Það hlaut að myndst pláss fyrir okkur. Þegar þarna var komið sögu var EH komin upp í landaganginn og myndaði þaðan:



Svo smáseig röðin áfram en mér fannst ég alltaf færast aftar og aftar.....



...og að endingu vorum við þrír sem héngum á húninum. Það var einhver stífla inni og loks fannst pláss fyrir Renóinn fyrir framan mig .....



Svo var hægt að búa til eitt pláss enn út við stb. síðuna og þegar ég þokaði mér í það mátti smeygja háþekjuhúsbílnum t.h. svona á ská fyrir aftan mig. Þar með var skellt í lás og sjóbúið.



Nú kunni ég þetta enda þrautreyndur eftir fyrri ferðina með Norrönu og líka þá með Smyrli til Suðureyjar. Nú tók maður bakpokann með dótinu sínu, læsti bílnum og rölti í rólegheitum að lyftunum - engir stigar núna! Uppi á áttunda dekki var EH með myndavélina. Ternan skreið framhjá í einni af mörgum ferðum dagsins til Nólseyjar. Ég hefði heldur viljað vera þar um borð:



Brottför var tímasett kl. 18 og klukkan mín var 18:09 þegar sleppt var og spólað af stað:





Austurvogur, Þinganes, Vesturvogur. Það var eiginlega dagsljóst að þessi ferð til Færeyja yrði ekki toppuð nema með annarri..... 



Þarna var Smyrill, eflaust á leið til Þvereyrar á Suðurey innan skamms. Þarna var líka Celebrity Infinity, eflaust á leið til Íslands eins og við...



Um leið og Norröna skreið fyrir hafnarmúlann hallaði hún í stjór og losaði dálítið af vatninu úr heitu pottunum á skutþiljurnar



Eflaust hafa straumar og sjávarföll áhrif á leiðir Norrönu. Ég veit ekki hvort það var þess vegna sem þeir sigldu aðra leið heim en út. Þegar við komum til Færeyja var siglt milli Kalsoy og Austureyjar. Nú var siglt milli Kalsoy og Kunoy. Kannski gerðu þeir þetta gagngert fyrir okkur, vissu kannski sem var að við höfðum ekki gefið okkur tíma til að skoða þessar tvær eyjar ásamt mörgum öðrum, s.s. Fugley, Svíney, Skúfey, Sandey (þrátt fyrir þumalinn niður), Mykines og svo öll smáþorpin sem við settum til hliðar með orðunum: "Skoðum í næstu ferð" Þannig var það bara og við gátum vel við unað, eitthvað höfðum við þó náð að skoða og mynda ef marka má efnið í þessum Færeyjapistlum öllum!



Eins og fram kom var lagt af stað undir kvöld og því nætursigling framundan. Við bókun ferðar hér heima kom á daginn að allir klefar voru upppantaðir á heimleiðinni og aðeins um að ræða svefnpokapláss í "fjölmenningsklefum" niðri á öðru þilfari. Við settum það ekki fyrir okkur enda ánægð með allt, alltaf......

Um borð í Norrönu kom hins vegar babb í bátinn þegar í ljós kom að okkur EH var ætluð ein og sama kojan í klefa fullum af illa lyktandi bakpokalýð (þetta eru EKKI fordómar, táfýlan af liðinu var hrikaleg!). Við ræddum málið við móttökuna (því Norröna hefur "lobbý" eins og fínasta hótel) og þar á bæ voru (kven)menn allir af vilja gerðir til að leysa vandann. Okkur voru fengnar tvær kojur í sex manna klefa þar sem aðeins voru fyrir ein þýsk hjón, snyrtilegt rólegheitafólk sem við höfðum lítið af að segja.

Sömu reglur giltu um svefnpokakáeturnar og klefana uppi á efri þilförum - við þurftum að koma okkar dóti út tveimur tímum fyrir heimkomu. Áætlunin sagði heimkomu um kl. níu að morgni fimmtudags og nú voru klukkurnar okkar réttar. Það þýddi að "Ship time" (sem alltaf er færeyskur tími) var þá tíu. Klukkan sjö að okkar tíma vorum við því mætt upp í kaffiteríu með bolla í hönd. Þá kom í ljós að þónokkrir höfðu kosið að leggja sig í sófum teríunnar í stað þess að skríða í svefnpokaplássin. Mannskapurinn var því mis-upplitsdjarfur í morgunsárið. Veðrið bætti þó allt upp, sólskin og einmunablíða og innan skamms voru allir komnir upp á áttunda að fylgjast með siglingunni inn Seyðisfjörð.

Þegar lagt var að höfðum við annan hátt á en úti í Þórshöfn, enda sjóuð og sigld! Nú kom Elín Huld með mér niður á bíladekkið og um leið og opnað var þeystum við út enda næstöftust. Samtímis rann skarinn af hinum brautunum af stað og út á bryggjusvæðið. Þar tók við tollskoðun og við vorum líka með þeim fyrstu til að vera kölluð inn í tollinn!

Aftur!
Hvað var það við sjúkrabílinn sem vakti svona sérstaka athygli tollvarða? Nú var ég ekki einn eins og í Þórshöfn. Íslensku tollararnir þekkja íslensk einkanúmer þó færeyskir geri það ekki - hvað var það þá?

Allt var þetta annars á glaðlegu nótunum og eftir að tveir félagar höfðu litið á bílinn og innbúið kom fram í spjalli að við værum aðeins að koma úr vikudvöl í Færeyjum en ekki frá Evrópu. Við þá staðreynd var frekari skoðun flautuð af og tveimur mínútum seinna vorum við komin upp í bæ. Meðal þeirra fjölmörgu sem biðu fars með Norrönu út voru þrír húsbílar mannaðir Ísfirðingum. Við tókum hús á einum og heilsuðum upp á hina. Svo var strikið tekið á Fjarðarheiðina og Egilsstaði. Aðallega var það tvennt sem togaði: Annarsvegar íslenskt bakarí og hins vegar íslensk sundlaug!

Um leið og við skriðum ofan í sundlaugina á Egilsstöðum í 22 stiga hita og sólskini varð okkur dagsljóst hvað við Íslendingar erum ríkir, þrátt fyrir allt........

....og þá loks vorum við komin heim!
.................................................................................................................


Líklega verða pistlarnir alls tólf. Mig langar að koma þessu frá mér uppá seinni tímann og eiga það skráð. Þegar þarna var komið sögu var fimmtudagshádegi og við ætluðum ekki beint suður. Gróf áætlun fól aðeins í sér eitt orð: Melrakkaslétta. Útfærslan var eftir og við unnum hana saman þarna í heita pottinum. Hún lukkaðist frábærlega og birtist líklega í tveimur síðustu pistlunum.

Gott í bili

07.08.2014 22:00

Í Færeyjum - 9.hl. ferðasögu


 Áttunda hluta lauk í svefnstað á plani aflagðrar fiskeldisstöðvar við Kaldbaksfjörð. Upp rann þriðjudagsmorgunn, næstsíðasti dagur okkar í Færeyjum og nú skyldi farið um þann hluta Straumeyjar sem við höfðum enn ekki skoðað - þ.e. suður/suðvesturhlutann.



Þrír staðir voru á óskalistanum, Kirkjuböur, Gamlarætt og Syðradalur. Áður en ferðalög dagsins hæfust skyldi þó skella sér í sund í "svimjihylnum" í Þórshöfn og þangað stefndum við. Á myndinni hér að neðan er horft frá náttstað við Kaldbaksfjörð yfir að "Asfaltverkinu" og einhverri annarri verksmiðju sem ég kann ekki skil á: 



Þegar við komum að sundlauginni í Gundadal ofan við Þórshafnarbæ (þar sem einnig er aðal - íþróttasvæðið) var búið að koma fyrir tveimur sjálfvirkum sláttuvélum af stærri gerð á grasblettunum við sundhöllina. Þær (sláttuvélarnar) voru önnum kafnar við verkið, grasið fór inn að framan eins og lög gera ráð fyrir en kom út að aftan sem áburður. Mér virtist þó áburðarframleiðslan hraðari en hráefnisupptakan......Sláttuvélarnar gáfu sér augnablik til að líta á okkur í ferðadrekanum:



....en ekki langan því vinnan beið.



Elínu Huld þótti fóðrið einhæft og efnabætti það með ekta Bónusbrauði:



Allt í einu: Flóðlýsingin á fótboltavellinum, "Svimjihöllin í Gundadal", EH að fóðra sláttutækin, veðrið frábært - hvað er hægt að óska sér frekar?



Sundlaugin reyndist ágæt og um margt nákvæmlega eins og hér heima. Þó var heiti potturinn undantekning. Hér heima þykir hann sjálfsagður við hverja laug og fleiri en einn, Í Þórshöfn er heitur pottur en það þarf að kaupa aðgang að honum sérstaklega eða leigja hann út af fyrir sig ákveðinn tíma. Sundlaugin var sögð 28-29 gráður og barnalaugin 34 gráður. Þar var þvílíkur handagangur í öskjunni að við dvöldum ekki nema korter eða svo ofaní vegna hættu á heyrnarskaða. Það var þriðjudagsmorgunn og sirka annað hvert barn í Þórshöfn í sundlauginni - og leiddist það hreint ekki!

Þegar við komum út úr sundhöllinni var staðfestur grunur minn um sláttuvélarnar tvær sem nú virtust hafa breyst í áburðardreifara. Grasblettirnir tveir utan við sundlaugina voru orðnir graslausir að mestu en höfðu  fengið ótæpilegt magn af áburði sem í sólarhitanum lyktaði hreinlega eins og hrossatað - enda eðlilegt. Áburðinum fylgdi flugnager sem umlukti ferðadrekann svo við snöruðum okkur um borð og flúðum hið snarasta....upp í Bónus! Þar þurfti að leggja línur dagsins og af því Huldar Breiðfjörð, Færeyjabiblíusmiður okkar var jafnan með Halls - brjóstsykur í vasanum og notaði til að tengjast fólki, þótti tilvalið að ég fengi líka Halls. Mér þótti hann hinsvegar svo góður að ég tímdi ekki að gefa Færeyingum með mér og tapaði því eflaust af góðum tengslum:



Frá Bónus var svo lagt upp og ekin leiðin sem merkt er á kortinu hér efst, þ.e. þvert yfir Straumey að vegamótum við Velbastað. Þar var ekið til suðurs að Kirkjubæ og á hægri hönd - í vestri - höfðum við eyjuna Hest. Sundið á milli heitir einfaldlega Hestfjörður. 



Hér að neðan sést örlítið á tána á eynni Hestur (lengst til hægri) en að öðru leyti er það Sandey sem fyllir bakgrunninn og þorp sem grillir í hægra megin á henni er þorpið Skopun, annað stærsta þorpið á Sandey.  Þarna er fjörðurinn hættur að heita Hestfjörður og farinn að heita Skopunarfjörður......



Svo var komið að sögustaðnum Kirkjubæ:



Hannes Pétursson skáld og rithöfundur ferðaðist um Færeyjar 1965 og skrifaði eftir það litla bók sem heitir einfaldlega "Eyjarnar 18" og kom út 1967. Hannes dvaldi tvo og hálfan mánuð í Færeyjum, frá hásumri fram á haust og nýtti þann tíma mjög vel, eins og bókin ber með sér. Hann hefur einnig farið vel undirbúinn í ferðalagið og þannig nýtt tímann enn betur. Hannes heimsótti Kirkjubæ og átti þar fróðlegt samtal við Pál Patursson kóngsbónda á jörðinni. Það er eiginlega nauðsynlegt fyrir þá sem eitthvað vilja kynna sér konungs- og kirkjujörðina Kirkebö að kíkja á bókasafnið og athuga hvort Hannes sé ekki fáanlegur þar......

Ég get nefnilega - því miður - ekki birt allt það sem H.P. skrifaði um Kirkjubæ þótt ég feginn vildi. Það er talsvert efni og inniheldur mikinn fróðleik um staðinn. Ég fer aðeins á hundavaði yfir það sem fyrir okkar augu bar og byrja við bílastæðið. Húsið á miðri mynd (með rauðu gluggunum) er ekki eitt gömlu húsanna þó vissulega líti það út sem slíkt. Þetta er glænýtt hús sem gegnir hlutverki biðskýlis fyrir "Strandfaraskipin" bláu, þ.e. almenningsvagnana. Ennfremur er þarna hreinlætisaðstaða fyrir rútuferðalanga sem ófáir koma til Kirkjubæjar.



Hér að neðan er "Roykstovan", aldagömul bygging en endurgerð ásamt fleiri "stovum" sem m.a. hýsa safn og sýningu um staðinn:



Þetta er Ólafskirkjan, sú sem nú stendur og er sóknarkirkjan. Ekki nefnir Hannes við hvaða Ólaf hún er kennd, en það má giska á að hún sé kennd við Ólaf helga Noregskonung. (Sjá einnig HÉR

Hér fyrir neðan er myndasyrpa úr Ólafskirkjunni










Ólafskirkjan sem nú stendur er ekki upprunaleg og í raun mun ekki vitað fyrir víst um aldur hennar. Hún hefur verið endurbyggð nokkrum sinnum, síðast árið 1874 en þá var hún endurhlaðin og gerbreytt eins og sjá má á mynd af teikningum hér neðar. Kirkjan þykir hafa glatað miklu af stíl sínum við þessa endurbyggingu og skyldi engan undra ef teikningarnar eru bornar saman. Hér má sjá hluta af hleðslu  eldri kirkjunnar:



.......og veggþykktina!









Svo er það  Magnúsarkirkjan - Múrinn. Vitað er um þrjár kirkjur í Kirkjubæ og eru rústir einnar þeirra sjáanlegar syðst í bæjartúninu (svo vitnað sé í H.P.) Ólafskirkjan er jafnvel talin sú elsta því vitað er með vissu um byggingu Múrsins á árunum 1268 - 1308 í tíð Erlendar biskups. Kirkjan var byggð að forgöngu hans og helguð Magnúsi Eyjajarli. Byggingunni var aldrei lokið, hvers vegna er ekki vitað með vissu en talið að þar tengist erjur innanlands vegna skattaálagna sem byggingunni fylgdu. (enn vitnað í H.P.) Múrinn er mikið mannvirki úr gróflega tilhöggnu grjóti sem límt er saman með steinlími úr skelja- og beinamulningi sem hrærður var saman við smámöl ( H.P.)



Þó er talið að messað hafi verið í kirkjunni eða hluta hennar og jafnvel er talið að um tíma hafi verið á henni bráðabirgðaþak úr tré. Fátt er þó vitað með vissu og aðallega byggt á ágiskunum og ályktunum sem seinni tíma rannsóknir hafa getið af sér. Eiginlega, skrifaða sögu vantar.....

Múrinn var orðinn illa farinn eftir aldalanga veðrun og fyrir skömmu var ráðist í lagfæringar á veggjabrotunum til að verja þau skemmdum. Sú vinna stendur enn og er mikið  óunnið. Á meðan er hvert vinnusvæði fyrir sig varið með færanlegri veðurkápu úr krossviði:















Hér að neðan er horft til vesturs, aftan á kirkjunrnar tvær, Ólafskirkjuna og Múrinn. Vinstra megin við Múrinn sést í Hestinn, hægra megin rís 478 m. toppur eyjarinnar Kolturs:



Bæjarhús að Kirkjubæ með Múrinn og Sandey í baksýn:



Líklega er þetta Kirkjubæjarfjósið og ekki alveg nýtt af nálinni. 



Kirkjubær er ekki bara ein gömul Kóngsjörð með kirkju og kirkjurústum heldur myndarlegt þorp þar sem metnaður er lagður í að hafa hlutina vel útlítandi:



Við kvöddum Kirkjubæ og héldum áfram að skoða okkur um. Örnefnið "Gamlarætt" eða Gamlarétt er rétt norðan Kirkjubæjar. Ekki veit ég hvað var á þessum stað áður fyrr eða hvaðan nafnið er dregið en það má lesa sér til um staðinn HÉR. Þarna er, eins og fram kemur í hlekknum, ferjuhöfn fyrir eyjuna Hest og þorpið Skopun á Sandey. Það er "TEISTIN" sem siglir á milli og þar sem ekki er föst viðkoma í Hesti enda íbúar aðeins um 25 og flestir eftirlaunaþegar, þá er einfaldlega hringt eftir ferjunni þegar einhver þarf að komast........



Þarna á bryggjunni í Gömlurétt hitti ég mann sem hafði ekki komist til Skopun með Teistunni og þurfti því að bíða næstu ferðar. Hann var alveg slakur þótt hann þyrfti að bíða tvo og hálfan tíma. Sæjuð þið fyrir ykkur æpandi og öskrandi Íslending?



Höfnin við Gömlurétt er gerð á svipaðan hátt og önnur slík mannvirki í Færeyjum - með miklu magni af sprengiefni til að gera bás og grjótið síðan notað í varnargarða. Vegurnn niður einfaldlega sprengdur í rás í hamrastálið:





Frá veginum  ofan við Gömlurétt var gott útsýni til Kolturs, þessarrar sérkennilegu eyju þar sem aðeins er eitt sveitabýli með sumarbúsetu og þjónað með þyrlu en ekki ferju:



Hér að neðan er norðvesturendi Hestsins og suðausturendi Kolturs. Í forgrunni eru syðstu húsin í Velbastað (sjá kort efst):





Þeir voru að byggja í Velbastað. Þó ekki þetta kúluhús, það virtist vera byggt fyrir alllöngu en byggjandan hefur líklega þrotið örindið á síðari hlutanum og það vantaði talsvert uppá fríðleik byggingar og umhverfis.



Það var svona sem þeir voru að byggja núna:



Við ókum gegnum Velbastað og ákváðum að fara á vegarenda og mynda þorpið í bakaleiðinni. Vegurinn virtist endalaus, mjór, hátt uppi í hlíð og alls óvíst hvað þessi Syðradalur væri, sem merktur var við endann. Það kom  svo á daginn að það var einn sveitabær:



Einn bær í litlum dal við enda langs og hrikalegs vegar sem allur var malbikaður! Að vísu var þetta sísta malbikið sem við ókum á í Færeyjum og það líktist verulega íslenskum innanbæjarakstri - stagbætt og mishæðótt. Samt malbik. Alla leið heim að bæ!

Syðradalur er stórbýli á færeyskan mælikvarða. Það mátti sjá af húsakosti og stærð túna - og svo því að þetta var einn af örfáum, ef ekki sá eini sem átti öll sín tún á flatlendi - eða því sem næst. Þetta er fallegur staður og ekki amalegt að eiga sinn dal fyrir sig. 



Það er yfirleitt ekki langt á milli eyja (Suðurey er undantekning) og þarna horfum við frá túnum Syðradals yfir á Vogey og líklega er það þorpið Miðvogur sem við horfum til þarna í dálitlu mistri......



Þar sem er Syðradalur hlýtur líka að vera Norðradalur - annars væri nafnið tilgangslaust! Þarna í Norðradal eru aðallega útihús og það er horft í átt að einu þeirra. Lengra til vinstri er Vogey:



Svo snerum við við og héldum til baka í átt að Velbastað. Nú er horft inn sundið sem heitir Hestsfjörður. Lengst til hægri grillir í Tröllhöfða á Sandey, Eyjan Hestur er fyrir miðri mynd og lengst til vinstri er Sandey:



Þegar 25 manna þorpið í Hesti bar á móti okkur var myndavélin stillt á aðdrátt:



Svo vorum við aftur komin í Velbastað og kúluhúsið blasti við. Það leyndi á sér, þetta hús og var eiginlega gríðarstórt að samanlögðu flatarmáli. Göturnar voru ekki í stíl og það má taka eftir hallanum sem allt þorpið að heita má, er byggt í:



Eftir dálitlar vangaveltur fannst leiðin niður á bryggjuna. Það er ekki mikil útgerð frá Velbastað, ef þá nokkur. Þarna úti á firðinum voru hins vegar ungir menn á aflmiklum harðbotna-slöngubátum og ef marka mátti áletranir á faratækjum þeirra var þarna leigufyrirtæki á ferð:



Við dvöldum ekki lengi í Velbastað enda svo sem ekki margt að sjá. Enn lifði talsvert af deginum og við renndum yfir til Þórshafnar og heimsóttum Norðurlandahúsið þeirra - sem er hliðstæða Norræna hússins í Reykjavík.



Innandyra stóð yfir sýning á listmunum úr gleri og meðal sýnenda voru tveir íslenskir listamenn:



Eftir að hafa skoðað sýninguna og húsið með var kaffiterían vísiteruð og gluggað um leið í færeyskar barnabækur sem þar lágu frammi. Svo lá leiðin aftur út í góðviðrið:





Þegar fór að halla í kvöldmat og maginn fór að senda merki komum við okkur fyrir á smábátahöfninni í Argir. Argir er smáþorp sunnan við Þórshöfn sem orðið er samvaxið og verður að teljast hluti bæjarins - svona rétt eins og Seltjarnarnesið í Rvk. Þarna er önnur aðal smábátahöfnin - hin er í Vesturvági, vestan Þinganess - og sannarlega margt að skoða fyrir áhugamann.



Þarna var sjúkrabílnum lagt úti í horni, kveikt upp í eldavélinni og kokkuð upp dýrindis blómkálssúpa. Svo var ekta dönsk lifrarkæfa á Bónusbrauðinu, líklega höfum við verið stærstu kaupendur danskrar lifrarkæfu þessa viku í Þórshöfn. 



Eftir matinn og frágang (þeir voru með alveg fyrirmyndar þvottaaðstöðu á bryggjunni) var farið í göngutúr á bryggjurnar. Mig minnir að ég hafi tekið fram í upphafi pistlaraðarinnar að einu læstu flotbryggjurnar hafi verið í Fuglafirði. Allavega var það þannig og þarna í Argir, þar sem sannarlega margir ganga um, var ekki talin ástæða til að læsa bryggjum. Ég sá þarna marga ákaflega fallega báta - og aðra miður fallega - en Elín Huld kolféll fyrir henni "Thomasíu" enda ákaflega krúttlegur bátur, svo notað sé hennar orðalag.:





Það dugðu ekki færri en þrjár myndir fyrir Thomasíu, og líka að kíkja á gluggana. Hún var eins inni og úti - sannkölluð mubla:



Af trébátunum valdi ég þennan í fyrsta sæti. Hann er kannski ekki krúttlegur, frekar svona þungbrýnn. 



Valið var samt erfitt því þeir voru margir fallegir og greinilegt enn og aftur að Færeyingum hefur ekki legið lífið á að henda öllum bátum úr tré:



Eftir fegurðarsamkeppni súðbyrðinga í Argir ókum við upp í hæðirnar þar sem nýjustu hverfi Þórshafnarbúa standa - og þar sem áhrif kreppunar voru hvað sýnilegust eins og fyrr sagði, í tómum grunnum, byggingakrönum, steypumótum og fleiru. Allt um það er útsýnið stórkostlegt þarna ofan frá:





Það var samt of snemmt að fara í háttinn svo við renndum niður í bæ og lögðum bílnum á "átta tíma stæði" ofan við Vesturvoginn. Þeir voru komnir þangað líka, Sea Shepherd félagarnir og lögðu undir sig ekki færri en fimm og hálft bílastæði:



Það var kyrrt og stillt við Vesturvoginn og lá við að maður finndi regnúða í loftinu. Samt rigndi ekki. Ég hef áður birt myndir líkar þessum tveimur, líklega í fjórða hluta en það gerir ekkert til:





Þessi hefur hins vegar ekki birst áður og það má giska á myndasmiðinn:



Við eyddum því sem eftir lifði þessa síðasta kvölds í Færeyjum í "gömlugatnarölt" og þar var sem fyrr af nógu að taka.







Þessi elti okkur um tíma en skildi ekki íslenskar kisugælur og gafst upp á endanum:



Þetta hús sáum við tilsýndar. Á því stendur "Rabarbuhúsið". Vilji einhver vita hvað þar fer fram má eflaust finna skýringuna HÉR. Húsið var afar fallegt og sama má segja um öll sem næst stóðu:



Það er ekki alveg trjálaust í Þórshöfn - þvert á móti er þar fjöldi fallegra trjáa sem einhverjum finnst kannski ekki ríma við klettótt umhverfið. Það virðist þó vera nægur jarðvegur á milli.





Við höfðum ætlað okkur að finna SMS vöruhúsið, Smáralind Þórshafnarbúa en fundum það ekki í þessarri gönguferð. Við fundum hins vegar Villumsgötu sem var miklu flottari en nokkur Smáralind. Gatan leiddi okkur áfram niður í kjarnann ofan við höfnina........







........og allt í einu vorum við komin að Stephanssons - húsi, sem áður hefur birst mynd af:




Þar með var komið að því að finna náttstað og vegna þess að við höfðum ákveðna áætlun fyrir morgundaginn - sem var miðvikudagur og síðasti dagur okkar í Færeyjum - þurftum við að vera eins nærri bænum og mögulegt var. Við létum slag standa og völdum okkur náttstað við hlið yfirgefinnar tækjaskemmu í efstu brúnum Þórshafnar, þar sem, eins og sagði hér ofar,  þeir höfðu verið að byggja nýtt hverfi þegar þeirra kreppa skall á. Framkvæmdir höfðu stöðvast að mestu og þarna var í bland ný og fullbyggð hús, hálfbyggð hús, húsgrunnar, mótatimbur, flekar og rúðulausar vinnuvélar. Til viðbótar við allt upptalið var svo eitt  bátsflak - svona svo ekkert vantaði!  Það bar lítið á ferðadrekanum við hlið skemmunnar yfirgefnu og við sváfum sætum svefni til morguns.

Næst: 10. hluti, miðvikudagur. Síðasti dagur í Færeyjum.

...........................................................

07.08.2014 08:39

Skriður á bretti....


( Í upphafi er rétt að taka fram að 9. hluti Færeyjaferðar er í burðarliðnum )


Stakkanesið fékk skriðbretti um leið og það kom í Hólminn. Mig hafði lengi langað að prófa hvort þess háttar apparat myndi gera eitthvað fyrir ganghraðann og réðist því í hönnun og smíði þess í vor.

Jájá, það má alveg brosa út í annað að orðalaginu en sannleikurinn er sá að það tók mig talsverðan tíma að fá brettið til að fylgja botnlaginu. Norðmenn eru klárir að mörgu leyti en þegar þeir smíðuðu Stakkanesið (og ótal systurskip þess) þá hefðu þeir gjarnan mátt vanda sig örlítið meira því skuturinn er ekki alveg samhverfur. Það var allavega mín niðurstaða eftir að hafa mótað hann - þ.e. skutinn - í masonite, fyrst annan helminginn, svo hinn og loks báða í einu. Í öllu falli tók það dálítinn tíma fyrir tvær hendur að fá allt nokkurn veginn rétt.

Framhaldið var svo fengið að láni frá Færeying sem Vélsmiðja Ísafjarðar átti á sínum tíma og hét ÝR. Á þann bát var smíðað stillanlegt skriðbretti úr áli og það síðan stillt í þá stöðu sem best virtist virka við prófun. Þegar ÝR seinna forframaðist og fékk flotkassa úr plasti fékk karl faðir minn þetta álbretti á JÓA sinn, sem var samskonar Færeyingur og eflaust er það þar enn.

Stakkanesið fékk samskonar bretti en þó úr mótakrossviði og ívið stærra að flatarmáli. Skemmst er frá að segja að eftir vangaveltur í höfninni hér í Hólminum og nokkrar prufusiglingar út fyrir Súgandisey var brettið fastsett í eina stillingu sem skilaði hálfrí mílu til viðbótar í gangi á sama snúningi. Auk þess á vélin miklu auðveldara með að ná upp viðbótarsnúningi og með lítilli snúningsaukningu nær báturinn 6,1 sjómílu en náði aldrei meiru en 5,3 áður.

Ég fékk aukahendi frá syninum Arnari Þór við að setja brettið á hér í höfninni og prófa það. Hann tók svo stutt vídeó af Stakkanesinu á leið inn í höfnina á 5,8 mílum áður en slegið er af. Munurinn á því hvernig báturinn liggur í sjó eftir tilkomu brettisins er afgerandi. Smellið á hlekkinn:


Síðan hefur verið stöðug vindgjóla og lítið hægt að sigla......því miður!
-----------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------

Allt ofanritað er skráð í morgun - miðvikudag 7.ágúst. Spá dagsins boðaði vind sem í morgun lét ekki sjá sig og þegar leið á morguninn var ákveðið að leysa landfestar og sigla spöl með krílið Bergrós Höllu sem kom akandi í Hólminn í gær til að eyða tveimur nóttum hjá öldruðum foreldrum sínum! Það var ákveðið að sigla inn að Hvítabjarnarey, siglingin tók sirka tólf mínútur og fyrst þangað var komið - í hvítalogni - var snúið til norðurs, siglt fram hjá Miðleiðarskeri í mynni Breiðasunds og stefnt á Seley suðaustan við Hrappsey. Þaðan var siglt inn á sundið milli Hrappseyjar og Purkeyjar og skoðaðar stórkostlegar stuðlabergsmyndanir í Purkey.


( Þessa mynd tók ég reyndar á sjómannadaginn 2009 af Baldri. Stuðlabergið í Purkey er óbreytt...)


Frá Purkey var haldið að Dímonarklökkum og siglt inn á voginn milli þeirra og Stekkjareyjar. Það var komið aðfall og talsvert straumhart þegar við sigldum út af voginum og upp með klökkunum. Þaðan var svo snúið suður á við og siglt vestur fyrir Skörðu með beinni stefnu á Þórishólma, í síharðnandi straumi og sívaxandi vindi. Við hólmann var stutt stopp meðan mæðgurnar skoðuðu fuglalífið en síðan siglt síðustu tíu, tólf mínúturnar inn á Stykkishólmshöfn. Þegar þangað kom hafði siglingin frá Klakkeyjum tekið réttan klukkutíma en ferðin í heildina tæpa þrjá.


Þessi eina ferð "borgaði" alla fyrirhöfnina - og alla biðina - við að koma bátnum upp í Hólm......og gott betur.

04.08.2014 10:31

Hversu mörg G?



 Ég er að reyna að setja inn færslur hér í Stykkishólmi en það gengur ekki neitt. Ég er með sama netpunginn og alltaf - enda hef ég ekki aðra tengingu við netið, hvort sem er í Rvk eða annarsstaðar - og virknin hér í Hólminum er nánast engin. 

Einu sinni spurðist ég fyrir um það hjá Símanum hvers vegna búnaðurinn þeirra virkaði engan veginn eins og auglýst væri og hvað væri til bóta. Ég fékk engin svör.

Svo þegar ég var nýkominn frá Tálknafirði úr einhverri landsreisunni og þar hafði tekið um tíu mínútur að hlaða inn forsíðu mbl.is, þá fór ég í þjónustuver Símans, spurði enn einu sinni um ástæðuna og var reiður. Fyrir svörum varð fermingardrengur sem útskýrði fyrir mér að ef það logaði grænt ljós á pungnum hefði ég aðeins svokallaða 2G tengingu - sem væri slæmt. Ef hins vegar logaði blátt ljós væri ég með 3G - sem væri gott. Þetta fannst mér ágæt skýring og hún tók öllu fram sem mér hafði áður verið sagt. Samt var ekki hægt að útskýra hvers vegna staður eins og Tálknafjörður byði aðeins uppá 2G tengingu því svoleiðis tenging virkar bara hreint ekki neitt!

......og nú, nokkrum árum síðar er ég í Stykkishólmi að reyna að nota þennan sama pung - en að vísu með uppfærðu símakorti - og hann virkar nær eingöngu sem 2G!!

Þetta segir mér að það hljóti eitthvað mikið að vera að hjá þessu fyrirtæki, Símanum....

Er ekki annars 2014?  Er þetta fyrirtæki enn að reisa tréstaura hér kringum Stykkishólm og hengja á þá koparþræði? Hvers vegna fær maður ekki þá þjónustu sem maður borgar fyrir? 

Helvítis helvíti........

Á meðan verða Færeyjar að bíða....

02.08.2014 11:08

.......og það flaut!


Það var komið fram um hádegi í gær þegar litli blái bíllinn var fylltur af farangri og snúið áleiðis í Hólminn með lögskipaðri viðkomu í Geirabakaríi í Borgarnesi.


Föstudagur fyrir verslunamannahelgi, blíðviðri í Hólminum og Stakkanesið á vagninum. Semsagt allt tilbúið fyrir sjósetningu. Við tókum við húsinu seinnipart dags eftir kaffisopa hjá Gulla og Löllu - nokkuð sem er fastur liður við hverja komu í Hólminn. Síðan þurfti að kaupa matarbirgðir til helgarinnar og koma fyrir í skápum ásamt öðrum farangri sem fylgir. Eftir kvöldgrillið var svo tekið til við Stakkanesið. Það þurfti nokkur handtök til því báturinn hefur ekkert verið settur á flot í sumar. Það þurfti að taka landbátinn Fagranes ofan af, þar sem hann hafði verið rígbundinn fyrir flutninginn. Síðan þurfti að setja upp laus rekkverk, koma rafgeymum um borð og öðrum tækjum sem geymd eru innanhúss yfir veturinn. Eftir allskonar smálegt klapp og klór var svo komið að því að sjósetja. Rennan í Skipavík var reyndar í notkun allt kvöldið því verið var að sjósetja nokkra slöngubáta eyjafólks sem var að koma til helgardvalar í sumarhúsum. 




Svo kom að okkur og það var bakkað niður í rennuna, kubbar settir fyrir hjólin og dráttarkaðallinn festur milli vagns og bíls.



Tjakkað undir vagninn og losað af kúlunni:



Strekkt á kaðlinum, kubbarnir teknir frá vagninum og látið síga í sjó:



Þegar ekki hefur verið sett í gang eftir langa stöðu er vissara að hafa spotta milli báts og vagns, svo maður fljóti nú ekki upp vélarvana og reki um allan Breiðafjörð!



En sem betur fór voru það óþarfar vangaveltur, vélin datt í gang og Stakkanesið rann á flot. Því var lagt við bryggju meðan gengið var frá vagninum uppi á kanti:



Eftir það var ekkert að vanbúnaði og lagt var af stað í langþráða siglingu!





Þessi fyrsta sigling var þó ekki löng enda átti hún ekki að vera það. Ég sigldi sundið milli Landeyjar og lands enda styst þar yfir í höfn. Í huganum er ég búinn að sigla þessa leið svona þúsund sinnum...........



Flóðið var uppúr klukkan tíu og það var farið að rökkva talsvert þegar sundið var siglt. Elín Huld gerði sitt besta í heimildamyndatökum en samt urðu myndinar hálfóskýrar - sérstaklega þær sem teknar voru úr fjarlægð:



Þetta var dálítð skrýtin tilfinning - þarna voru allir hlutir gerðir í fyrsta sinn en þó ekki, því þegar menn eiga til að mikla fyrir sér einfalda hluti eins og ég viðurkenni fúslega, þá er maður búinn að fara yfir og skipuleggja ferlið sekúndu fyrir sekúndu. Mér fannst því eiginlega ekkert nýtt við þetta:



Úti við Skipavík var vatnsslanga á bryggjunni en því miður ekki hægt að komast að krananum fyrir hana. Í höfninni voru hins vegar margar og á þessarri bryggju var ein sem gott var að komast að og skola mesta skítinn af bátnum: 





Þá var að leggja að bryggju. Ég hafði talað við hafnarvörð þegar ég kom í bæinn og fékk leyfi til að leggja við innstu flotbryggjuna. Staðsetningin var nokkuð frjáls og mér fannst tilvalið að leggja utan á þennan laglega, gula Skagstrending:





Ég segi það enn og aftur: Það er fullkomnað!



.....takk, Elín, fyrir hjálpina og myndinar......
...............................................................

30.07.2014 12:35

Það er fullkomnað!


Þau eru orðin nokkur, árin sem Stakkanesið er búið að vera á leiðinni upp í Stykkishólm - eins og það var reyndar upphaflega smíðað til. Smíðin sjálf tók miklu lengri tíma en ætlað var og svo hefur það reynst erfitt að manna sig upp í ferðina. Það var alltaf eitthvað sem ég treysti ekki, stundum vagninn, stundum bíllinn, og stundum ég sjálfur. Þegar maður er stilltur inn á að gera alla hluti sjálfur án aðkomu annarra taka hlutirnir stundum dálítið lengri tíma en ella. Upphaflega langaði mig að draga upp í Stykkishólm bát sem ég hefði smíðað sjálfur á vagni sem ég hefði smíðað sjálfur aftan í bíl sem ég hefði smíðað sjálfur. Það tókst ekki því ég seldi heimasmíðaða Toyota ferðabílinn áður en Stakkanesið varð tilbúið.

Ég er búinn að liggja yfir undirbúningi  í marga daga, og í gærkvöldi var allt tilbúið - nema veðurspáin, sem varaði við hvössum vindi á leiðinni uppeftir. Það lægði svo heldur um miðnættið og klukkan hálftólf lagði ég af stað.





Allar mínar heimatilbúnu áhyggjur reyndust óþarfar, vagninn virkaði vel með nýendurnýjuðum hjólabúnaði og eftir þrjá og hálfan tíma var ég í Hólminum:



Svo var ækinu komið fyrir úti við Skipavík og sonurinn Arnar Þór, sem hafði skipað bakvarðasveitina í Reykjavík fékk tilkynningu um að leggja af stað þegar ég var við Eldborg á Mýrum. Það féll því þannig að ég hafði mátulegan tíma til að ganga frá bát og bíl uppfrá áður en Arnar renndi í hlað til að sækja mig.



Þar með var margra ára draumur uppfylltur og ég gat skriðið sæll í ból klukkan hálfsjö í morgun.

Svo verður farið með farangur í smábíl uppeftir á föstudaginn þar sem ég hef leigt félagsbústað í viku. Þá verður siglt ef veður leyfir.

Það er sól út, sól inni o.s.frv.................................................


..........................................

Flettingar í dag: 374
Gestir í dag: 12
Flettingar í gær: 306
Gestir í gær: 25
Samtals flettingar: 66052
Samtals gestir: 16982
Tölur uppfærðar: 1.5.2024 09:45:07


Tenglar