Gunnar Th.
Fjórða kerfið.....


Færslur: 2015 Ágúst

30.08.2015 21:14

Jú, við fórum....


.....til Eyja í sól og blíðu. Hann hafði reyndar orð á því generállinn þegar hann birtist í Höfðaborg um hálfníu í gærmorgun (laugardag) að það hefði verið djöfullega hvasst á Reykjanessbrautinni en það vantaði ekkert upp á sólina. Við lögðum svo af stað vel uppúr níu og vorum við Guðnabakarí á Selfossi um tíuleytið. Generállinn - Ásgeir Jónsson - er reffilegur í júníforminu.Í Guðnabakaríi var háð kappát við geitungaher sem var að leggja undir sig glassúrinn í búðarborðinu. Við stoppuðum samt aðeins stutta stund en leyfðum svo öðrum gestum að eiga félagsskapinn fyrir sig. Klukkan var tíu mínútur yfir ellefu þegar við áðum næst stutta stund við Björkina á Hvolsvelli, eftir rólega keyrslu austureftir. Austan fjalls var mun hægari vindur en lýst hafði verið á Reykjanesinu og m.a.s. á Hellisheiðinni var aðeins skapleg gola. Við ákváðum að hvíla ekki lengi á Hvolsvelli en taka þess í stað betra stopp í Landeyjahöfn.Tvö dýpkunarskip voru að störfum utan við hafnarmynnið og Dísa var við að fylla sig:Við fylgdumst með Herjólfi sigla inn og losa sig, en skömmu áður en nýr farmur var tekinn um borð birtust tveir hjólamenn af Skaganum. Þeir sögðust alltaf fara til Eyja einu sinni á sumri og gáfu okkur nauðsynleg ráð varðandi bindingar á hjólunum á bíladekkinu. Okkur græningjunum skildist að aðstoð við bindingu byðist um borð en til væru hjólamenn sem svo annt væri um hjólin sín - skiljanlega - að þeir hleyptu engum nærri þeim til að binda og væru jafnvel með eigin bindingar meðferðis.
Skipverjar á bíladekkinu voru hjálplegir við okkur félagana en Skagamenn voru öllum hnútum kunnugir frá fyrri ferðum.

Rauða skellinaðran var súrruð niður til beggja handa og það látið duga enda var rennisléttur sjór.

Eftir landtökuna renndum við beint upp á Stórhöfða. Þar var aðeins hæg gola og sólin nægilega hátt til að ylja vel, þótt farið sé að saxast á sumarið.

Af Stórhöfða var haldið til bæjar að nýju og sest inn á 900 Grillhús til hádegisverðar. Við pöntuðum okkur sitthvora flatbökuna enda orðnir svangir. Það voru raunar mistök því tíminn sem fór í að bíða eftir matnum og borða hann var alltof langur í svo stuttri Eyjaferð. Þau eiga hins vegar heiður skilinn fyrir frábæra pizzu.

Eftir matinn skrapp generállinn að líta á Eldheima en ég renndi í bæinn og leitaði uppi ísbúð. Þegar við svo hittumst að nýju voru eknar hefðbundnar skoðunarleiðir, inn í Herjólfsdal, út á nýja hraun með viðkomu ofan við Skansinn á slóðum gömlu sundlaugarinnar og vatnstanksins, farið út á Flakkarann og út í Gaujulund. Við ókum á malbiksenda austur á hrauni en slepptum mölinni. Litum á dæluna, sýningargripinn um hraunkælinguna frægu í gosinu sem stendur á stalli við veginn. Héldum svo áfram hringinn um Helgafell, litum á minnismerkið um Helliseyjarslysið og Guðlaugssundið, flugvellina og flugstöðina. Það leið hratt á daginn og klukkan var rétt um fimm þegar við stoppuðum við kaffihúsið Vinaminni og skelltum í okkur tveimur bollum á mann eða svo. Mæting á skip var kl. 18 svo það passaði ágætlega að fylla bensíntankana á ÓB áður en heim yrði haldið. Eins og sjá má var búið að aka skellinöðrunni 111 mílur frá því um morguninn - það eru rétt tæpir 180 km.- og á tankinn fóru rúmir átta lítrar.

Nú voru menn færir í flestan sjó og bundu sjálfir sín hjól hjálparlaust. Siglingin til baka upp í Landeyjahöfn var jafn róleg og út og við mynnið lá dýpkunarskipið Perla og jós upp sandi. Þar um borð var kapteinn Óttar Jónsson - Láki Jóns Eggerts frá Ísafirði - sem vissi af ferðum okkar og veifaði af brúarvængnum þegar við sigldum hjá. Það passaði svo að smella af einni mynd fram bíladekkið í Herjólfi áður en ekið var út.


Við höfðum ákveðið með fyrirvara að hinkra til hliðar í Landeyjahöfn og hleypa hersingunni fram fyrir okkur. Það reyndist vel því við ókum langleiðina til Hvolsvallar án þess að hafa bíla á eftir okkur. Stutt kaffiáning var tekin í söluskálanum Björkinni en síðan ekið beint á Selfoss. Þar var stoppað í nokkrar mínútur til að teygja úr skönkunum en svo haldið áfram og ekið um Kambana og Hellisheiði. Til Höfðaborgar komum við réttum tólf tímum eftir að við lögðum af stað að morgni. Generállinn þáði kaffibolla áður en hann hélt aftur út í myrkrið og ók heim til sín suður í Sandgerði.

Þar með var lokið  frábærum ferðadegi.......

.........................................................................................

28.08.2015 23:37

Út vil ek...


Það er tuttugastiogáttundi ágúst - ennþá - og skrifin mín eiga tólf ára afmæli í dag. Fyrsta færslan var sett inn að kvöldi þess 28.8.2003 og ég hef skrifað óslitið síðan, þótt mikið af skrifunum hafi týnst af netinu þegar 365Miðlar lokuðu tveimur kerfum sem ég hafði notað í nokkur ár, hvort á eftir öðru. Það gerir ekkert til - þetta voru ekki ódauðleg bókmenntaafrek heldur meira svona dagbókarbrot og yfirlit yfir það sem á dagana dreif. Eitthvað á ég í afritum, annað ekki......

Ég hef haft fyrir sið að endurbirta einn gamlan pistil árlega í tilefni afmælisins. Nú nenni ég því ekki því það er að koma nótt, ég er nýkominn úr vinnu og er að fara að sofa. Á morgun er nefnilega nokkuð stór dagur - ég ætla að þeysa á rauðu skellinöðrunni (sem af tilefninu er búið að töskuvæða)  til Vestmannaeyja ásamt General Bolton á perluhvíta Yamaha hjólinu. Við eigum ferð út kl. 12.30 og til lands aftur kl. 18.30. Það er því ekki langt stoppið í Eyjum og um að gera að nýta tímann sem best.

Yfir og út!

22.08.2015 08:16

Eitt og annað....


Ég missti auga tímabundið - fékk korn frá slípirokk undir andlitshlífina fyrir nokkrum dögum. Það hefur mörgum sinnum gerst áður en þetta var óvenju þrjóskt og vildi ekki úr. Ég hundskaðist svo allt of seint til læknis og árangurinn var illa virkt auga í nær viku - það á að skoða þetta eitthvað betur á mánudaginn. Ég er þessvegna frekar illa sjáandi akkúrat núna ( og á víst helst ekki að sitja fyrir framan tölvu) en hef svo sem ekkert annað að gera......

Einu og öðru var sleppt úr síðasta pistli, sem eflaust hefði mátt koma fram. Það var ekki ætlunin að skrifa sögu mótorhjóla og skellinaðra á Ísafirði og nágrenni, það verða aðrir mér ritfærari að gera. Samt er af nógu að taka vilji maður á annað borð nefna eitthvað sem stendur uppúr í minningunni - Jói heitinn Sím. var t.d. maður sem hugsaði stórt og þegar hann vildi kaupa skellinöðru fyrir soninn úti í Noregi og flytja heim með Bessanum, þá keypti hann Hondu 100, sem var miklu veglegra hjól en skellinöðrutíkurnar Honda 50. Gallinn var bara sá að Honda hundrað var bifhjól og fékkst ekki skráð sem skellinaðra. Löggan var hins vegar ekkert mikið á ferðinni úti á Hlíðarvegsenda......

Það má líka nefna fjörgamalt NSU apparat sem Ómar Gígju átti. Muni ég rétt vorum við búnir að ýta því hjóli lengri vegalengd en því var ekið þegar yfir lauk. Ég var líka búinn að minnast á RIGA hjólið hans Skarpa Gísla á Kirkjubóli (í pistlinum um mótorhjólasafnið á Akureyri) en nefndi ekki fullt af öðrum skemmtilegum gripum sem til voru í bænum. Óli Þór Guðmunds átti t.d. Hondu 50 af árgerð 1967, sem árið 1972 var þegar orðið antik!  Það var nefnilega komið fram að líftími skellinaðra á Ísfirði var frekar stuttur....

Doddi á Essó átti Hondu 50 árgerð 1968, Jón bróðir hans átti Hondu 90 (sem var eins og Honda 50 á sterum), Tóti Högna og Ómar Óla áttu báðir eins hjól, vínrauðar Honda 50 árgerð 1971 (mjög frábrugðnar SS50 hjólunum sem komu 1972)

Það gengu sögur af gömlu Norton hjóli sem lægi í hálffallinni viðbyggingu við húsið hans Stebba stórsmiðs. Ég held að fáir eða enginn hafi séð það hjól og bræðurnir Halli og Deddi urðu mjög dularfullir á svipinn þegar spurt var um hjólið. Inni í netagerð lá lengi gamalt BSA og einhvern tíma kom með skipi til bæjarins ævafornt og ónothæft ARIEL hjól merkt Ella Skafta. Gaman væri að vita hvað varð um það.

Ég er ekkert að teygja þessa upptalningu meira, nefni aðeins þá sem maður hitti á utanbæjarrápi og keyrði með um tíma, Benna Ben. og Kristján Ólafsson í Bolungarvík og þá bræður Pétur og Marner á Suðureyri sem báðir áttu hjól, muni ég rétt. Jú, það er rétt munað og líka að Pétur var ævintýralega fljótur að stúta sínu....

Þessi pistill átti hins vegar ekkert að fjalla um hjól og því síður um auga, þótt hvoru tveggja hafi verið gerð skil. Hann fjallar um mynd sem ég fann í dóti - raunar tvær - og mátti til að skanna. 

Myndirnar eru teknar í Dýrafirði og aftan á þeim er framköllunardagsetningin júlí 1991. Augljóslega eru þetta ekki júlímyndir og á þessum tíma vildi brenna við að filmur lægju svo og svo lengi heima við án framköllunar. Ég veðja því á haustið ´90. Horft er frá þjóðveginum sunnan til í firðinum (Þingeyrarmegin) niður að Ketilseyri, en bærinn sjálfur er utan sjónmáls vinstra megin. Miðað við jarðraskið er verið að gera landfyllingu við Dýrafjarðarbrúna eða því nýlokið. Það er hins vegar báturinn í fjörunni sem er myndefnið:

Þetta er, eins og sjá má, Fjölnir ÍS 177. Þetta var s.k. Svíþjóðarbátur sem hét upphaflega Eldey EA 110 og kom nýr til Hríseyjar árið 1946. Hann var mældur 89 brl. og knúinn 225 ha. June-Munktell vél. Þeir sem lesa þennan hrærigraut minn öðru hverju taka kannski eftir að það er samskonar vél og sett var í Þorstein RE 21 árið 1945 í Gautaborg, og ég skrifaði nokkur orð um á dögunum - sjá HÉR. 

Báturinn gekk svo dálítið milli eigenda eins og títt var, skráningar voru sitt á hvað, í Hrísey, Reykjavík og á Akureyri og um tíma hét báturinn Andey RE. Það var svo árið 1955 að Sæbjörg hf. á Þingeyri kaupir bátinn og honum er gefið nafnið Fjölnir ÍS 177. 1959 vék June-Munktell sleggjan fyrir 350 ha. Alpha vél. 

Fjölnir var talinn ónýtur og tekinn af skrá 29. nóvember 1972, skv. bókinni "Íslensk skip" e. Jón Björnsson (sjá. 1.bindi bls.96).

Ég man vel eftir þessum bát því hann kom þónokkrum sinnum til Ísafjarðar. Eins sá ég hann stundum þegar farið var í bíltúra til Þingeyrar, og ég man að mér þótti nafnið Fjölnir alveg sérstaklega flott bátsnafn - þetta voru líka flottir bátar, Svíþjóðarbátarnir þótt deilt væri um sjóhæfnina. Fjölnir varð þó allavega 26 ára og alltaf sneri stýrishúsið upp! 
Svo  er Fjölnir minnisstæður fyrir annað: Þegar gamla Fagranesið (sjá HÉR) brann, líklega 1962, var Fjölnir tekinn á leigu til að annast bílaflutninga um Djúpið. Ég man þetta sérstaklega vel því ég fór með honum ásamt fjölskyldunni í ferðalag og er sérstaklega minnisstæður hífivírinn sem lá frá togspilinu - sem var aftur undir brú - fram í mastur og bómu. Þetta var sver, feitisborinn vír og alveg sérstaklega áhugaverður fyrir gutta sem hafði yndi af að kanna nýja hluti. Á máli fullorðinna hét það að maka sig út í skít!

Ég veit ekki hver ætlunin var með Fjölni þarna í fjörunni við Ketilseyri, en get mér þess til að Sigurður Friðfinnsson bóndi hafi ætlað að nýta eitthvað tréverk úr honum. Hvort það varð veit ég ekki en flakið var síðar brennt í svipuðu ásigkomulagi og það er á myndunum.

Svíþjóðarbátarnir munu hafa haft tvenns konar brú - á Fjölni situr brúin ofan á bátapallinum en á Flateyri var systurskipið Hinrik Guðmundsson (áður Valþór NS 10) og á þeim bát sat brúin mun neðar. Ekki veit ég hvað réði þessarri tilhögun en Borgey SF 57, sem sökk nýbyggð  utan við Hornafjarðarós með hörmulegum afleiðingum, hafði samskonar brú og Fjölnir ÍS. Hinrik Guðmundsson ÍS 124 var tekinn af skrá sama dag og Fjölnir ÍS 177, skv. "Íslensk skip"  (sjá 2.bnd. bls. 204) og var síðar brenndur í fjörunni á Ingjaldssandi.

Ég vil koma því að, fyrst ég er að nefna Borgey SF, að skv. bátasíðu Tryggva Sig. í Vestmannaeyjum var Borgey annarrar gerðar en þeir tveir sem að ofan eru nefndir þótt útlitið hafi verið svipað. Ég vísa beint í skrif Tryggva HÉR.

Gott í bili.....
15.08.2015 09:11

Einu sinni átti ég hest......


Nokkur orð um annað: Við síðustu færslu hafa verið skrifuð þrjú innlegg. Vegna einhverra síðuvandræða sem ég þekki ekki til birtist aðeins eitt þeirra, það nýjasta. Hin tvö eru svohljóðandi:

 Frá Hafst1: "Já þú ert að verða AFI, innilega til hamingju með það"

Frá Kristni: "loksins að verða virðulegur gamli."

 Ég þakka öllum þremur fyrir innleggin og lofa að reyna að standa mig í hlutverkinu, þótt sá pistill sem hér fer á eftir gefi kannski sterka vísbendingu um aðra þróun mála!

.........................................................................................................................

Ég ætla ekki að gera stutta sögu langa - eða þannig. Ég veit að mér verður það stundum á en vegna þess að það er í mörg horn að líta þessa dagana og mér finnst stundum eins og lífið sé á hlaupum þá ætla ég að reyna að fylgja eftir og vera stuttorður.

Ég þarf samt að fara aftur til ársins 1977. Raunar allt til ársins 1971 en það nægir að segja um það að ég, eins og fleiri ungir samtímamenn á Ísafirði, þráði ekkert frekar en að eignast skellinöðru. Sumarið 1971 eignaðist ég eina slíka, þá aðeins fjórtán ára. Þetta var dálítið sérstakt apparat, reimdrifið líkt og vélsleði, franskt að uppruna og árgerðin líklega 1967. Framleiðandinn hét Motobécane, gerðin hét Mobylette og muni ég rétt þá komu aðeins tvö slík hjól til Ísafjarðar. Eitt yngra var svo til á Flateyri í eigu Jóa Snæ...(mynd af netinu)

 Ég fékk þetta hjól semsagt notað enda uxu menn uppúr skellinöðrum á tveimur árum þá eins og nú. Ég held líka að ég muni það rétt að Daddi Steina bakara hafi fengið þetta hjól nýtt. Hjólið var í ágætu lagi þegar ég fékk það og þokkalega útlítandi. Ég hafði ekki aldur til að aka svona hjóli svo flestum frístundum var eytt í skúrnum hans pabba á Torfnesinu við að laga smálegt, bóna og pússa. Stöku sinnum stalst ég þó út því á þeim tíma fór löggan í hádegismat og Trausti Bjarna, sem þá var bifreiðaeftirlitsmaður, átti líka sinn matartíma. Maður var í rauninni hræddur við alla sem klæddust einkennisbúningi því menn töluðu saman og einkennisklæddir opinberir eftirlitsmenn gátu allir átt það til að kæra mann fjórtán ára á skellinöðru - eða það taldi ég. Einu sinni skaust ég inn í sund í gamla slippnum og faldi mig því ég sá Óla heitinn toll aka hjá einkennisklæddan!

Á endanum seldi ég hjólið en kaupandinn var svo óheppinn að aka því fyrsta kvöldið ofan í skurð úti á Hnífsdalsvegi - hjólið mun hafa verið ljóslaust og myrkrið svart....

Ég færi mig fram um eitt ár. 1972 eignaðist ég nýja skellinöðru af Honda gerð. Þetta var SS50, sú sem var hvað algengust þá og kostaði 48.250 krónur samkvæmt reikningi. Með henni keypti ég bögglabera og eitthvað fleira af smámunum. Þetta var gullfallegur gripur, blár að lit og ég sá hreinlega ekki sólina fyrir hjólinu...... (mynd af netinu)

Okkur ungu mönnunum á Ísafirði sem áttum skellinöðrur var margt betur gefið en vandað ökulag og þessir fallegu gripir héldu ljómanum sjaldnast lengi. Fljótlega eftir að ég byrjaði að aka hjólinu kallaði pabbi á mig afsíðis á eintal - pabbi var dálítið gefinn fyrir alvarleg eintöl ef hann þurfti að koma einhverju frá sér. Fimmtán ára tittir eru kannski ekkert alltof gefnir fyrir það að hlusta á fullorðna, og hvað þá að taka mark á þeim en þetta eintal okkar pabba skildi mikið eftir - í raun svo mikið að ég vil meina að ég hafi alla ævi búið að því og muni gera um ókomna tíð.

Það sem pabbi hafði að segja var í raun ofur einfalt. Hann sagðist hafa heyrt mig aka hjólinu á fullri ferð og ef ég héldi uppteknum hætti við að skipta um gír þá myndi ég fyrr eða síðar mölva gírkassann: "Það sem gerist inni í gírkassanum er það að verið er að færa afl milli tveggja tannhjóla. Til að þetta sé hægt er kúplað sundur á meðan færslan verður. Ef þú sleppir kúplingunni of fljótt við skiptingu, áður en skiptingunni er að fullu lokið ertu að hleypa vélaraflinu á hálfar tennurnar á hjólunum. Það leiðir fyrr eða síðar til þess að þau brotna og þá er hjólið ónothæft í langan tíma meðan verið er að gera við"

Þetta voru fræðin hans pabba, kannski ekki orðrétt en um það bil. Að eiga ónothæft hjól í langan tíma var nokkuð sem var algerlega óhugsandi - ég lagði mig fram um að skilja þessa hluti og eftir samtalið vandaði ég allar skiptingar. Önnur umhugsun fylgdi svo í kjölfarið. Ég ætla ekkert að tíunda öll smáatriði en ég átti þetta hjól í góðu lagi og vel útlitandi full tvö ár, eða allt til þess að ég fékk bílpróf, hjólið var selt til Reykjavíkur og andvirðið notað til bílakaupa. Á þeim tíma voru jafnaldrarnir flestir búnir að eyðileggja sín hjól, flestir höfðu brotið gírkassa og sumir oftar en einu sinni.

Stundum ganga hlutir í bylgjum og skellinöðrubylgjan sem reið yfir Ísafjörð árin 1971-3 hjaðnaði smám saman. Þem hjólum sem árlega bættust í flotann fækkaði jafnt og þétt. Aftur á móti reis bylgja stærri hjóla og hófst trúlega með tveimur bláum Kawasaki 500 hjólum sem komu nær samtímis til bæjarins.(mynd af netinu)

 Annað átti Torfi lögga, hann hafði nokkrum árum áður átt Honda bifhjól, öllu minna. Kawasaki hjólin komu hálfsamsett í kössum frá Sverri Þóroddssyni kappaksturhetju í Reykjavík, sem flutti þau inn. Halli Ingólfs mun hafa sett hjólið hans Torfa saman og sá eftir það um að halda því "volgu". Hitt hjólið fékk Ásberg Pétursson, jafnaldri minn sem auðvitað hafði ekki aldur til að aka því. Hjá Ásberg voru aðstæðurnar hins vegar þannig að hann eignaðist nýja skellinöðru fjórtán ára og var löngu orðinn leiður á henni. Ásberg og félagar settu hjólið saman sjálfir og notuðu svo hádegismatartíma löggunnar til að skjótast út að aka. Annars var Ásberg yfirleitt andskotans sama hvort löggan var úti eða ekki. Þeir fóru svo "heimsfrægt" ferðalag saman til Reykjavíkur á hjólinu, Ásberg og Víkingur heitinn Hermanns. Í Reykjavík fór löggan ekki í hádegismat.......Ég fékk einu sinni að taka í hjólið hans Torfa löggu, auðvitað án hans vitundar en með Halla Ingólfs uppi á Skíðavegi. Sú eina salibuna skildi eitthvað eftir sem ekki slokknaði.......

Enn liðu ár og nú kemur að 1977, sem nefnt var í upphafi. Það var verslunarmannahelgi og ég var staddur á ferðalagi í Reykjavík með vinkonu, í þeim tilgangi að selja bílinn sem við vorum á og kaupa annan í staðinn.(mynd af netinu)

 Af þessari sölu er mikil saga sem ég segi kannski seinna, en hluti hennar er eftirfarandi: Bíllinn seldist ágætlega, hjá bílasölunni Braut í Skeifunni. Þar innandyra stóð á standara alveg gullfallegt, svart mótorhjól, Suzuki 550GT.(mynd af netinu)

 Hjólið áttu tveir vinir, höfðu fengið það nýtt haustið áður og aðeins ekið því sumarið ´77. Kílómetratalan var rétt um 1600 og ekki var sjáanleg ein einasta rispa á gripnum. Ég var búinn að ganga marga hringi um gólfið í bílahugleiðingum en staðnæmdist alltaf hjá hjólinu. Nú þegar ég var með fullar heldur fjár eftir að hafa fengið þriggja ára gamlan bíl staðgreiddan stóðst ég ekki mátið og keypti hjólið. Sá böggull fylgdi skammrifi að ég hafði ekki mótorhjólapróf - ég var kominn með meirapróf á vörubíl en hjólapróf hafði ég ekki, annað en skellinöðruprófið sem vitaskuld dugði ekki. Hvorugt okkar (þið munið vinkonuna) hafði klæðnað til hjólaaksturs, hvað þá alla leið til Ísafjarðar. Hér varð úr að bæta. Ég fékk annan seljanda hjólsins til að aka því fyrir mig út á Seltjarnarnes til Barða móðurbróður míns, sem þar bjó og réði yfir flottasta bílskúr landsins - ekkert minna! Barði samþykkti að geyma fyrir mig hjólið um tíma. Næst var að finna bíl, því það var nægur afgangur af peningunum. Ég fann ágætan Sunbeam 1250 árgerð 1972 og keypti hann.(mynd af netinu)

 Af þeim bíl er mikil saga, ekki síður en þeim nýselda, sem kannski verður sögð síðar. Af henni segir það eitt nú að við vinkonan ókum vestur á Ísafjörð á bílnum að fríi loknu og er hann þar með úr sögunni (og hún líka skömmu síðar)

Vindur nú þessarri "stuttu" sögu fram um tvær vikur. Á þessum tíma var ég að vinna hjá Pósti og Síma á Ísafirði og hjá okkur hafði verið um skamma hríð "lánsmaður" úr Reykjavík sem hafði komið vestur til að taka kúfinn af þeim verkbeiðnum sem við heimamenn komumst ekki yfir. Þessi náungi hét Kalli, mikill öndvegisdrengur og ekki síðri fyrir það að hann ók miklum Jeepster jeppa, talsvert breyttum en slíkt var nokkur nýlunda vestra.(mynd af netinu)

 Það leið að starfslokum hjá Kalla og leið hans lá aftur suður á Jörfann þar sem P&S höfðu höfuðstöðvar. Það lá því beinast við að grípa tækifærið, fljóta suður með Kalla á jeppanum og aka mótorhjólinu heim. Það var aðeins komið fram um miðjan ágúst og fínt veður til ferðalaga. Vinnufélagi minn hafði mikinn áhuga á koma með og mér fannst ekkert að því að aka tiltölulega óvanur og réttindalaus stóru mótorhjóli frá Reykjavík til Ísafjarðar með mann aftaná!

Það er vægt orðað að segja að Kalli hafi ekið í loftinu suður því orðalagið gefur til kynna að hann hafi "ekið". Kalli ók ekki - hann flaug jeepsternum suður, trúlega á svipuðum tíma og nú tekur að aka leiðina á malbiki og fínu. Við komum suður að kvöldi dags og við vinnufélaginn fengum næturgistingu hjá Barða frænda úti á Nesi. Snemma næsta morgun tókum við saman okkar dót, þökkuðum fyrir okkur, gerðum hjólið ferðaklárt og lögðum af stað. Muni ég rétt var þetta sunnudagur og við höfum líklega verið á ferðinni rétt uppúr átta því götur borgarinnar voru gersamlega tómar. Við höfðum enda gefið okkur að Reykjavíkurlöggan sæti í kaffi um þetta leyti, næturerillinn búinn en dagurinn ekki byrjaður. Ég vildi helst ekki láta nappa mig réttindalausan og eiga á hættu að fyrirgera nýfengnu meiraprófinu!

Það segir svo sem fátt af akstrinum vestur. Veðrið var gott, malbikið náði aðeins upp á Kjalarnes eða þar um bil og nær öll leiðin var því á möl. Það er erfiðara að aka tvímennt, hvað þá á malarvegi svo ekki var um að ræða neinn ofsaakstur á leiðinni. Ég man að hágírað hjólið átti erfitt í Töglunum (kræklunum upp á vestanverða Þorskafjarðarheiði) því þar var að vanda mikil lausamöl, en að öðru leyti gekk ferðin vandalaust. Hjólið var svo til óekið eins og fram var komið og ég hafði ákveðið að þá fyrst yrði tekið út úr því fullt afl þegar við sæum Ísafjörð - kæmum sem sagt fyrir Arnarnesið og á beina kaflann neðan við Arnardalsbæi. Þangað komum við síðla dags og þegar loks kom að því að gefa stóru gjöfina datt út einn strokkur af þremur - þetta var þriggja strokka tvígengisvél en slíkar eru frekar á kerti og það stóðst á endum að þegar gefa átti inn fór það fyrsta! Við ókum inn Kirkjubólshlíð á tveimur strokkum og náðum út í bæ en við innaksturinn í bæinn gaf sig annað kerti og Súkkan gekk síðustu metrana á einum!

Hjólið var svo sett inn í skúr á Urðarveginum hjá pabba og mömmu. Þar var það hreinsað hátt og lágt með tuskum og tannbursta. Það varð svo að venju og þeir gátu endalaust hlegið að tannburstanum, hinir hjólavitleysingarnir ............

Haustið ´77 var með eindæmum gott. Ég man reyndar ekkert eftir veðrinu og fullyrði því um það eins og "elstu mönnum" er tamt. Mín forsenda fyrir fullyrðingunni er einfaldlega sú að við félagarnir ókum mótorhjólum langt fram á vetur. Þetta haust var fjöldi stórra hjóla í bænum, fleiri en nokkru sinni áður. Þrjú hjól samskonar og mitt höfðu verið áður í bænum og a.m.k. tvö þeirra voru þar enn - tvö af þessum þremur áttu Vinaminnisbræður, Gunnar og Hjalti Þórðarsynir, það þriðja átti Jón Grímsson (Jónssonar) Um svipað leyti og ég kom með mitt í bæinn bættist enn eitt við þegar Sigurður Axel (Bóbó) Gunnarsson keypti glænýtt. Þess utan voru nokkur torfæru/götuhjól.

Um hjólamenninguna í bænum þetta tímabil mætti skrifa langan pistil því margir af þessum drengjum voru hreinir ævintýramenn . Ég ætla hins vegar ekki að skrifa meira um það efni því ég ætlaði að vera stuttorður - þið munið.

Veturinn leið og ég vann mér það helst til afreka að aka á milljón kílómetra hraða út Hnífsdalsveg á sólbjörtum, snjólausum síðvetrardegi - illa klæddur í tíu stiga frosti. Frostið fór þannig með hálsinn á mér að næstu mánuði þurfti ég að sækja læknishjálp a.m.k. tvisvar suður til Reykjavíkur auk ótalinna skipta heima við. Ég mátti helst ekki anda að mér köldu og hjólið var því lítið notað þótt oft gæfist tækifæri. Tuskan, bónið og tannburstinn voru hins vegar í stöðugri notkun. Svo sá ég auglýsingu í einu Reykjavíkurblaðanna þar sem óskað var eftir sambærilegu hjóli. Ég hringdi og bauð hjólið. Væntanlegur kaupandi vildi fá myndir og fékk þær. Eftir það voru kaupin ákveðin og kaupandinn kom fljúgandi vestur að sækja hjólið. Hann ætlaði sumsé að aka því suður - eftir öll þrifin! 

Ég man enn þá - nákvæmlega  - eftir því þegar Ægir Bjarnason rennismiður gekk inn í skúrinn á Urðarveginum og sagði eitt -VÁ-. Svo kom löng þögn. Nú máttu þeir hlæja, vitleysingarnir að tannburstanum...........

Ægir Bjarnason vildi fá að vita hvort mögulega væru fleiri hjól sömu tegundar til sölu, og hafði þá vin sinn syðra í huga. Ég vissi að Bóbó Gunnars var farinn að nefna sölu og hringdi í hann. Hann greip tækifærið og seldi Ægi sitt hjól. Það hafði látið töluvert á sjá eftir nokkrar bommertur hjá Bóbó og eina stóra flugferð inn á sjúkrahústún þar sem Pétur Sig. hafði fengið að prófa með hrikalegum afleiðingum. Pétur var annars þaulvanur hjólamaður af Hondu SL350 en lenti í leiðindskriki í rennusteininum og flaug......

Eftir kaupin af Bóbó kom ekki annað til greina að Ægir æki því hjóli suður. Svarta Súkkan var pökkuð rækilega inn í pappa og plast og sett í flutning. Ægir lagði svo af stað eftir einnar nætur gistingu vestra. Það var vor, vegirnir voru blautir og forugir og þegar ég hitti Ægi seinna sagðist hann hafa komist næst almættinu í suðurferðinni - svo blautur og kaldur sem hann var orðinn þegar hann loks náði heim! 

Myndin hér að neðan er önnur tveggja sem teknar voru af hjólinu mínu og varðveist hafa. Hin finnst ekki í augnablikinu en er til ....Þar með var ég orðinn hjóllaus. Ég var líka "hálslaus" eða þannig og varð að fara mjög varlega í kulda. Í sumarbyrjun keypti ég svo mína fyrstu trillu fyrir mótorhjólspeningana. Af henni er einnig mikil saga sem sögð var í löngu máli fyrir mörgum árum....

Síðsumars ´78 átti ég leið suður. Aðalerindið var ferð til hálssérfræðings en suðurkominn leitaði ég Ægi uppi til að heilsa uppá hjólið. Hann gerði mér þann greiða að fá lánað hjólið (Bóbós) hjá vini sínum og saman tókum við kvöldrúnt um miðbæ Reykjavíkur. Það var í fyrsta og eina skiptið sem ég hef ekið mótorhjóli um miðbæinn og upplifunin var einstök. Svo leið kvöldið, ég kvaddi, þakkaði fyrir mig og lokaði bókinni.........

Fjórtán ár liðu. Árið 1992 - þetta er raunar ágiskun, ég er ekki alveg með það á hreinu en ár til eða frá skiptir engu - var ég að vinna hjá Steiniðjunni hf.á Ísafirði með manni sem ekki kallaði allt ömmu sína. Guðmundur Matthíasson var einstakur vinnufélagi enda með alskemmtilegustu mönnum - og þegar Gumma datt í hug að fá sér mótorhjól þá bara fékk hann sér mótorhjól. (mynd af netinu)

Þetta var gullfallegt Suzuki (hvað annað?) Intruder 700, stelpulega vínrautt og krómað. Einstaklega fallegur gripur og vel með farinn. Ég fann svo sem alveg hversu grunnt var á dellunni hjá mér en tókst vel að bæla niður enda fjölskyldumaður í stífri lífsbaráttu og lítið pláss fyrir þann fíflagang sem mótorhjól þóttu - ennþá árið 1992. Ég fékk einu sinni að prófa Súkkuna og þótti gaman en líka gott að komast heill og óskemmdur til baka!

Enn liðu mörg ár án þess að ég svo mikið sem hugsaði um mótorhjól. Ég vissi að margir af mínum gömlu félögum höfðu fengið sér hjól "í ellinni", bílskúrsmublur sem sjaldan voru hreyfðar nema í albestu veðrum. Ég spurði einn þeirra hjóllausan hvort hann hygði á kaup. Hann svaraði: "Nei, ég slapp óskaddaður í gegnum þetta tímabil og þakka guði fyrir það"  Það leið svo ekki langur tími þar til þessi skoðun breyttist, hann fékk sér hjól og setti almættið í aftursætið. Ég veit ekki hvort Mazzi á ennþá það hjól.....

Gamall vinur og félagi hefur í pistlunum mínum stundum verið kallaður General Bolt-on, og veit sjálfur vel hvers vegna. Fyrst ég er hins vegar farinn að nefna nöfn held ég því áfram. Ásgeir Jónsson í Sandgerði átti mótorhjól hér í eina tíð og honum fór líkt og mörgum, bakterían sat föst og hvarf ekki þótt árin liðu. Ásgeir horfði hins vegar ekki til Japan þegar hjól voru annars vegar heldur til Þýskalands. Þegar hann frétti af einhverjum náunga í Hafnarfirði sem átti BMW 650 torfæru/ferðahjól linnti hann ekki látum fyrr en hann hafði fengið hjólið keypt. Þetta var fyrir einum tíu árum eða svo. Það kom í minn hlut að aka hjólinu frá Hafnarfirði suður í Sandgerði. Þegar þangað kom vildi Ásgeir fá að vita hvernig mér hefði líkað. Mig grunaði nefnilega að hálfur tilgangur ferðarinnar hefði verið að kveikja á bakteríunni hjá mér.

Ég reyndi að vanda orðavalið og komast hjá því að segja Ásgeiri að þvílíka andskotans jarðvegsþjöppu hefði ég aldrei keyrt og ef einhver arða hafi verið eftir að mótorhjólabakteríunni væri hún pottþétt endanlega dauð. Svo feginn væri ég að ferðin væri á enda. BMW hlyti hreinlega að hafa eignast þetta viðrini einhversstaðar langt utan hjónabands......

Ásgeir var nú samt ánægður með hjólið sitt en ók því ekki mikið, einhverra hluta vegna heldur gerði meira af að mála og bóna. Hjólið fékk m.a.s. sinn eiginn upphitaða garðskúr og breyttist smátt og smátt úr því að vera notað Enduro-hjól í klára mublu. Árin liðu og Ásgeir hélt  áfram að skoða hjólaauglýsingar - allt þar til maður í smáþorpi á Suðurlandi auglýsti álitlegt hjól - reyndar japanskt - til sölu og var eftir samtal jafnvel tilbúinn að skipta á þýskri jarðvegsþjöppu. Ásgeir fór að skoða og ég fékk að fljóta með. Í skúr hjá seljandanum stóðu nokkur hjól af ýmsum gerðum ásamt því sem átti að selja - og nú vorum við að tala saman!
 Þetta var Yamaha V-Star, perluhvítt og leðurskreytt, alveg hrikalega fallegt hjól. Það var augljóst að Ásgeir, sem jaðrar við að vera meiri pervert en ég þegar kemur að mótorhjólanostri, gæti hér engu bætt við. Að liðnum einhverjum dögum voru kaupin gerð, seljandinn skilaði Yamaha hjólinu í garðskúrinn suður í Sandgerði og ók burt á jarðvegsþjöppunni. Er hann þar með eðlilega úr sögunni.

Ekki þó alveg, því einu er við að bæta: Þessi mótorhjólamaður var með fyrir utan hjá sér gamlan númerslausan Benz húsbíl, ákaflega framlágan og lúinn. Þegar ég fann að ég var farinn að hafa meiri áhuga á hjólunum í skúrnum en góðu hófi gegndi þá gekk ég út á hlað og vorkenndi Benzanum. Kannski var það svona hálfgerður ástarblossi, ég veit það ekki. Kannski má lesa eitthvað út úr ÞESSU HÉR? 

Nú líður að sögulokum, enda átti þetta bara að vera stuttur pistill, eins og fram kom í upphafi. Ég hef oft komið í heimsókn til generálsins eftir að hann fékk perluhvíta Yamaha hjólið og nokkrum sinnum litið í skúrinn. Hjólið er ekki mikið notað, svipað og hjá mörgum sem hafa verið að fá sér hjól á "seinni hlutanum". Hins vegar er ólíkt meira gaman að aka því en BMW undanvillingnum og dekrið kringum það er algert....sjálfur hef ég gaman af að skoða auglýsingar, aðallega þó bátaauglýsingar en þegar ég var búinn að lesa sömu auglýsingarnar þúsund sinnum langaði mig að breyta til og fór að skoða hjólaauglýsingar. Fljótlega rak ég augun í auglýsingu um hjól með nafni úr fortíðinni - gamlan Breta sem þó er ekki Breti lengur heldur smíðaður á Indlandi með litlum breytingum frá sjötta áratugnum. Semsagt ekki gamall Breti í þeim skilningi heldur Indverji árgerð 2007 en samt gamall Breti - eða þannig. Þetta hjól gat ég hugsað mér að eiga, ekki endilega til að aka því heldur frekar sem stofustáss. Ég hafði samband við eigandann og vildi semja. Hann var ófáanlegur til að slá meira af verðinu en sem nam kóki og pulsu. Það voru slæm mistök því þegar bakterían kviknar eftir þrjátíu og sjö ára dvala er hún margfalt öflugri en fyrr. Ég var ákveðinn í að kaupa hjól og lagðist því yfir allar upplýsingar um þessa tegund sem ég gat fundið á netinu. Útkoman var sú að ég fann aðra gerð áhugaverðari en þetta auglýsta hjól og ákvað að horfa ekki frekar til þess. Sú sem ég vildi fá er illfáanleg hér heima og ég verð líklega að flytja slíkt hjól inn sjálfur í framtíðinni, vilji ég eignast það. Eintak af þeirri gerð sá ég á Flugsafninu á Akureyri á dögunum og það stóð fyllilega undir væntingum. 
Ákvörðunin var hins vegar tekin og ég ákvað að fyrst ég væri að falla fyrir freistingunni skyldi ég falla með sæmd - og það gerði ég!
Svo er alltaf spurning hvort menn séu ekki orðnir of gamlir þegar þeir vita varla hvað snýr fram og hvað snýr aftur á mótorhjóli:
Þessar síðustu línur eru skrifaðar á sunnudagsmogni þann 16 ágúst. Í morgun stóð til hjólaferð með Ásgeiri Jónssyni á perluhvíta Yamaha hjólinu eitthvert austur fyrir fjall. Það rignir hins vegar eldi og brennisteini og í slíku veðri eru mublur geymdar inni. Þessum "stutta" pistli lýkur því hér.

.................................................................................................
08.08.2015 11:38

Tuttuguogfimm ára trítla.


 Við EH vorum að koma úr Hólminum eftir tæpa vikudvöl. Fátt er til frásagnar nema ef vera skyldi rokið.....

 

 Í dag er áttundi áttundi. Árið er 2015 sem þýðir að í dag eru liðin tuttugu og fimm ár síðan "við" Elín Huld "lögðumst" inn á fæðingardeildina á Ísafirði og eignuðumst hana Áróru. Ég segi "við" og set það í gæsalappir því þótt við höfum ekki bæði lagst, í eiginlegri merkingu þá var Áróra okkar úthugsað samvinnuverkefni allt frá fyrstu drögum til dagsins í dag. Við höfum heldur ekki hugsað okkur að sleppa af henni hendinni þótt hún sé tuttugu og fimm í dag. Í uppsiglingu er nefnilega nýr kafli, bæði í hennar lífi og okkar. Með þessum nýja kafla, sem væntanlega verður birtur opinberlega um miðjan næsta mánuð, breytist  allt - enn á ný. "Samvinnuverkefnið" ætlar nefnilega að setja okkur EH í nýtt hlutverk og þeir sem þekkja tilfinninguna geta rétt ímyndað sér spenninginn á bænum.....

Áróra sjálf  - miðjubarnið - hefur alla tíð verið óskabarn hverra foreldra. Ég veit hins vegar ekki hvort við EH höfum verið óskaforeldrar, við höfum sannarlega reynt og viljinn hefur ætíð verið fyrir hendi. Það sem Áróra hefur komist hefur hún samt komist á eigin verðleikum og við viljum trúa því að hún sé aðeins rétt að byrja.....

Við skírn í kapellu HSV á Ísafirði hjá sr. Karli V. Matthíassyni:


Með afa Steina á Urðarveginum:


Með stóra bróður á jólum á Engjaveginum:


Afmælisdagur á Engjaveginum með afa og ömmu:


Sjö ára á sjötugsafmæli Bríetar ömmu:


Flutt suður, næstum fullorðin á Lyngbrekkunni:Systur á Ísafirði í júníbyrjun 2011:


Í Ástúninu hjá mömmu og Sultu:


Verðandi foreldrar, Áróra og Stefán:


Það er góður dagur í dag.........


04.08.2015 13:15

....og svo austur! #2Það kom fram í lok síðasta pistils að þegar við EH komum úr Norðurlandsreisunni (um Stykkishólm) vissum við ekki hversu skammt yrði stórra högga á milli, og innan viku yrðum við lögð af stað í enn lengra ferðalag.  Þannig var að vinafólk okkar búsett austur í Vopnafirði stóð í bílakaupum syðra. Á þeim bæ var ungur maður að fá bílpróf og eins og gerist var honum mjög umhugað að eignast eigin bíl. Hann sagðist hins vegar ekki "vera neinn Toyota-tittur" svo notuð séu hans eigin orð og vildi aðeins þýskan bíl af þekktri tegund - BMW. Ekki er ég neinn sérstakur BMW aðdáandi en var heldur ekki ráðandi heldur aðeins ráðgefandi. Feðgarnir eystra fundu þokkalegt eintak og eftir nokkurn tíma voru kaupin gerð. Ég var svo fenginn til að sækja bílinn til seljandans og vista hann þar til ferð félli austur.  Ekki var nein lausn í sjónmáli og kaupandinn ungi gerðist æ óþreyjufyllri eftir nýja bílnum sínum. Mæddi þar mjög á foreldrunum, svo sem títt er enda er það þekkt að vanti ungt fók eitthvað eiga foreldrar fortakslaust að bjarga öllu.

Þegar það dróst að einhver fyndist á austurleið sem ferjað gæti bílinn datt mér í hug að slá nokkrar flugur í einu höggi - að ferja bílinn sjálfur til eigandans, krydda sumarfríið dálítið með öðru ferðalagi á fallegar slóðir og fá flugferð ofan í kaupið. Ég bauð því fram þjónustu mína gegn flugferð til baka. Boðinu var tekið og þar sem ég vissi að EH hafði áhuga á að fljóta með ef mögulegt væri keypti ég fyrir hana flug suður með sömu vél. Suðurflugið áttum við að morgni sunnudagsins 26. júlí og veðurspá helgarinnar var góð, þrátt fyrir leiðindaveður norðanlands vikuna á undan - eða allar götur frá því við yfirgáfum Norðurlandið fyrri laugardag!

Laugardagurinn 25 júlí rann upp, bjartur og sólríkur í borginni. BMW var ferðbúinn utan við Höfðaborg þegar EH mætti með sinn farangur og klukkan var nákvæmlega 08:19 þegar lagt var af stað. 

Góðviðrið hélst upp í Borgarnes en í þetta sinn voru lög brotin og áningu í Geirabakaríi sleppt. Við vorum rétt búin að kyngja morgunmatnum og ákváðum því að aka rakleitt í Staðarskála og á þar.

Það var þungt í lofti yfir Holtavörðuheiðinni þó ekki væri þar þoka líkt og tíu dögum áður þegar við ókum yfir hana á sjúkrabílnum. Þegar að Staðarskála kom vorum við enn ekki orðin nægilega ferðaþreytt til að stoppa og ákváðum því að halda áfram til Blönduóss. Ég má til að skjóta því inn að BMW- inn reyndist prýðilegur ferðabíll þó orðinn væri jafngamall nýja eigandanum, eða sautján ára. Ekki var merkjanlegt í honum slit eða þreyta enda kominn úr góðum höndum og hafði ekki verið kappaksturbíll, eins og títt er um eldri BMW hér syðra. Við lögðum af stað úr Rvk með fullan bensíntank og í Staðarskála var engin eyðsla merkjanleg á mæli. Við héldum áfram til Blönduóss á fullri ferð......

Á Blönduósi var glaða sólskin og hæg gola. Á N-1 stöðinni var talsvert af ferðafólki, m.a. par frá Skotlandi á tveimur BMW ferða-mótorhjólum. Við settumst inn, fengum okkur kaffi og kökubita og lituðumst um eftir ferðahandbók, sem okkur vanhagaði um. Ekki fundum við rétta bók en þó aðra sæmilega í staðinn. Elín Huld pósaði við bílinn en ég þóttist ætla að mynda gamla, bláa Bensann í bakgrunni:
Tuttugu mínútum síðar kvöddum við Blönduós. Enn skein sólin á okkur og við ókum í afbragðs veðri hefðbundna leið  fram Langadal, yfir Vatnsskarð og um Varmahlíð norðurúr. Það var þungbúið á Öxnadalsheiðinni og niður dalina en á Moldhaugahálsi vorum við komin aftur í glampandi sól. Inn á Olís - stöðina á Akureyri renndum við á slaginu eitt eftir fimm tíma úr Rvk mínus Blönduósstoppið. Hjá Olís fylltum við bílinn af bensíni og fundum út að á 390 eknum kílómetrum hafði hann eytt 24,5 ltr. Einnig keyptum við okkur þokkalegan hádegisverð og renndum því næst í rólegheitum gegnum bæinn sem iðaði af lífi enda skemmtiferðaskip í höfn.

Ég nefndi í síðasta pistli að ég hefði gripið í tómt á Mótorhjólasafni Íslands þegar ég ætlaði að kaupa þar bol. Nú gafst annað tækifæri og það var auðvitað gripið. Út fór ég með svartan T-bol merktan safninu í fyrir og með trúarjátningu bifhjólamannsins í bak. ( Ég á enn eftir að útskýra hvað mér gekk til með kaupunum en sú skýring kemur innan nokkurra daga) Frá safninu renndum við austuryfir Eyjafjarðarbrúna, réttum klukkutíma eftir komu.

Áfram sól, áfram blíða, rétt eins og almættið hefði ákveðið að bæta okkur upp brákaða sumarferðaáætlunina með því að gera aðrar ferðir eins stórkostlegar og mögulegt væri. BMW- inn sveif áfram fyrirhafnarlaust, fjörugur eins og kálfur enda sloppinn úr stórborginni eftir margra ára innanbæjarsnatt eiganda í eldri kantinum.  Við Goðafoss var margt um manninn í sólinni og við vegamótin hjá Laugum í Reykjadal stóð puttalingur og veifaði. Við höfum oft tekið upp puttaferðalanga og þar sem við vorum með tómt skott gerðum við það einnig nú. Puttann átti ung, þýsk dama sem hafði haldið til á Akureyri en ætlaði í skotferð til Mývatns að hitta kunningja. Henni fannst lágur hámarkshraðinn á íslensum vegum miðað við þýsku hraðbrautirnar en sættist á að vegirnir væru raunar á engan hátt sambærilegir. Það kom okkur svo gríðarlega á óvart þegar það kom upp úr dúrnum að hún þekkti ekkert til Færeyja og vissi ekki að þær væru yfirhöfuð til! Við skrifuðum niður fyrir hana netfang og annað sem þurfti til upplýsingar og skipulagningar fyrir næstu Íslandsferð!

Þýska daman varð eftir við Reykjahlíð en við héldum áfram að jarðböðunum og áðum þar stutta stund. Til tals kom að skella okkur ofaní en eftir umhugsun ákváðum við að geyma það til næsta sumars.Á bílastæðinu stóð þessi höfðingi og sýndist á sænskum númerum. Þeir eru ekki allir upp á milljónir, ferðabílarnir sem rekast hingað til lands á sumrin og stundum hvarflar að manni sú spurning hvort pissukeppni í ferðagræjubúnaði sé kannski séríslenskt fyrirbrigði:

 Klukkan tifaði og austur í Vopnafirði beið ungur maður eftir bílnum sínum. Við héldum því enn af stað austur um og ókum um gróðursnauð öræfin undir þykku skýjateppi - sólin hafði ákveðið að hvíla okkur um stund. Það leið heil eilífð þar til við komum að vegamótunum niður í Vopnafjörð, svo langur tími að ég fann sjálfan mig eldast! Við höfðum hins vegar ekki langt ekið til austurs þegar sólin tók að skína aftur og ég yngdist á ný.

Við höfðum ekki ekið þennan nýja veg fyrr og vorum hissa þegar við áttuðum okkur á hvernig hann lá. Nú eru sérstök vegamót niður í Hofsárdal, sem áður var aðalleiðin niður í Vopnafjörð. Nýi vegurinn liggur beint af Möðrudalsöræfunum niður Þverfellsdal og Vesturárdal og ofan við þorpið í Vopnafirði eru svo vegamót - til hægri niður í þorpið en beint áfram til Bakkafjarðar. Við beygðum og ókum gegnum þorpið inn í sveit. Klukkan var nákvæmlega fimm þegar við renndum í hlaðið að Svínabökkum, þar sem fólk var úti við í heyskap. Við fengum sumsé að vita að þessi stórkostlegi laugardagur væri fyrsti sólardagurinn í a.m.k. mánuð!
Nýi eigandinn var að vonum glaður með bílinn sinn en heyskapurinn gekk þó fyrir öðru og við ákváðum að skola af okkur ferðarykið (eins og það hét meðan enginn vegur var malbikaður) með heimsókn í Selárdalslaug.  Eftir kaffisopa fengum við því lánaðan bíl húsfreyjunnar - enda vorum við búin að skila af okkur BMW-inum - og ókum aftur út í þorp og áfram upp í dal. Í Selárdalslaug var mátulega fámennt, laugin sjálf er framúrskarandi eftir nýjustu viðbætur og við lágum í bleyti allt fram undir kl. 20 þegar loka skyldi.  Þegar við komum aftur heim að Svínabökkum var komin steik í ofninn og á tilsettum tíma voru feðgar kallaðir frá heyverkum í mat. Kvöldið leið og undir háttatíma litum við á safnið sem húbóndinn hefur smátt og smátt verið að koma sér upp í gamla íbúðarhúsinu á bæjarhlaðinu.
Það eru sögur tengdar þessum ASSIS brúsum, sögur sem stundum eru rifjaðar upp í góðu tómi. Kannski man einhver eftir plastbragðinu af þessum appelsínusafa?
Svo voru það kisurnar. Kannski man einhver sem las pistlana um Færeyjaferðina (sjá hér til hægri hliðar) eftir henni Sultu, sem Elín Huld féll fyrir í fyrrasumar? Sultukrílið dafnar prýðilega hjá EH í Reykjavík enda dekruð úr hófi fram. Ég má til að birta myndir sem teknar voru í heimsókn okkar að Svínabökkum í fyrrasumar, þegar Sulta var tekin inn í fjölskylduna:


Stórfjölskylda Sultu er náttúrlega á Svínabökkum og EH átti í harðri baráttu við sjálfa sig þegar hún skoðaði þessa litlu "frænku" sem kúrði í kassa með systrum og bræðrum:

Þessi var líka alger "heartbreaker" en var þegar kominn með heimili og því ekki á lausu:
Við áttum suðurflug frá Egilsstöðum kl. 10:40 á sunnudagsmorgni og dagurinn hófst líkt og laugardagurinn: Glampandi sól og heiðríkja, stórkostlegur dagur til heyverka. Það kom í hlut húsfreyjunnar að aka okkur niður í Egilsstaði og leiðin var sú sama og við höfðum komið daginn áður, á nýjum, malbikuðum vegi. Það eru u.þb. 135 km milli Vopnafjarðar og Egilsstaða sé þessi leið farin - leiðin um Hellisheiði eystri er mun styttri en að sama skapi seinlegri - og mér fannst vegurinn algerlega endalaus. Þegar niður á Jökuldalinn kom áttaði ég mig á því að þá leið höfum við ekki ekið síðan 1985! Við fórum um austurslóðir 2004 norðan frá og ókum þá gamla Vopnafjarðarveginn í blindþoku niður Hofsárdal og Hellisheiði eystri yfir í Hérað. Aftur var ég þarna á ferðinni 2010, þá sunnan að og ók frá Egilsstöðum niður Jökulsárhlíð og enn yfir Hellisheiðina til Vopnafjarðar. Þá var verið að gera nýja veginn um Vopnafjarðarheiði en ég ók fram Hofsárdalinn og inn á nýja veginn ofantil. Loks vorum við EH á ferðinni þarna í fyrrasumar, á heimleið frá Færeyjum og ókum þá frá Borgarfirði eystri þvert yfir Hérað á Lagarfossvirkjun og um Hellisheiði í Vopnafjörð en þaðan um Bakkafjörð og Melrakkasléttu vestur um. Jökuldalurinn, sem þarna heilsaði sólbaðaður í sumarbúningi var hreinlega fyrir okkur ókannað land! Það er alveg dagsljóst að á þessum slóðum þurfum við að gefa okkur góðan tíma á næstu árum.

Við mættum á flugvöllinn vel innan tímamarka og kvöddum húsfreyjuna á Svínabökkum, sem átti eftir að aka alla þessa óraleið til baka. Fyrir okkur lá klukkutíma suðurflug og þegar gengið var til vélar vildi EH fá að taka "sögulegar" myndir. Núorðið fljúgum við afar sjaldan innanlands og þar sem Flugfélag Íslands hefur ákveðið að skipta Fokker vélunum út fyrir aðra tegund var eins víst að þetta væri okkar síðasta flugferð með Fokker. Okkur leið dálítið eins og við værum að kveðja gamlan vin í síðasta sinn, svo oft flugum við með þessum fjalltraustu vélum milli Reykjavíkur og Ísafjarðar, meðan við bjuggum þar.


Flugið var átakalaust en á leiðinni var að mestu skýjað og sást lítt niður. Þó rofaði dálítið til öðru hverju yfir uppsveitum sunnanlands og Þingvallavatni.  Í aðfluginu að Rvk- flugvelli sýndust okkur blautar götur borgarinnar. Eftir að hafa heimt töskur og fengið okkur kaffibolla röltum við til bíls sem við áttum á stæði við völlinn.  Þegar við ókum út í borgarumferðina skall yfir þvílíkur rigningar - brotsjór að við sáum okkar óvænna og tókum strax strikið út úr bænum aftur, lengra til vesturs þar sem sýndist bjartara. Við slógum ekki af fyrr en á sundlaugarbakkanum í Sandgerði þar sem Vopnafjarðarsólin skein glatt. Eftir sund þáðum við kaffi hjá Ísfirðingi og Vopnfirðingi sem búa saman í Sandgerði. Það var farið að nálgast kvöldmat þegar við ákváðum að slá botninn í helgina, kvöddum og ókum heimleiðis.

Það rigndi enn í Reykjavík...........

  • 1
Flettingar í dag: 130
Gestir í dag: 30
Flettingar í gær: 314
Gestir í gær: 40
Samtals flettingar: 635395
Samtals gestir: 90510
Tölur uppfærðar: 13.12.2018 07:36:26


Tenglar