Gunnar Th.
Fjórða kerfið.....


Færslur: 2014 Ágúst

28.08.2014 12:51

Afmælisdagur!


 Skrifin mín eiga ellefu ára afmæli í dag! 

Lengi vel hélt ég upp á afmælið með því að endurbirta fyrsta pistilinn. Hann var svo sem ekkert til að monta sig af,  í þá daga þótti mér ágætt að höggva niður setningar, skrifa knappt, stutt og koma kjarnanum til skila í sem fæstum orðum. Nú er öldin önnur og pistlarnir togna út í það óendanlega vegna óstöðvandi kjaftagangs skrifarans.

Samt langar mig að endurbirta eitthvað en þegar þessir stafir eru slegnir er ég ekki búinn að ákveða neitt og á eftir að rýna í þá gömlu og finna eitthvað nothæft - sé eitthvað á annað borð nothæft.........

......Fann þennan og læt hann vaða. Hann er dagsettur 9.júlí 2005 og fjallar um nýafstaðna heimsókn til Ísafjarðar:

 

Auðvitað fer maður á bryggjuna. Það bara tilheyrir! Maður byrjar alla morgna í bakaríinu, síðan á bryggjuna að hitta hina morgunhanana, trillukallana sem enga eirð hafa í sér fyrr en búið er að kíkja á bátana og jafnvel þiggja kaffi hver hjá öðrum.

Á sólríkum morgni þegar konan og dæturnar sváfu sem fastast í hjónasvítu húsbílsins læddist bóndinn framúr (þegar dæturnar eru með í för er bóndanum úthýst úr hjónasvítunni og er settur á pínubekk einn framarlega í húsdrekanum), klæddist, tók reiðhjólið af hjólagrindinni og lagði af stað í bæinn. Fyrsti viðkomustaðurinn var að vanda bakaríið, enda tvær flugur slegnar í einu höggi: heilsað uppá systur og systurdóttur, og verslað nýbakað bakkelsi ásamt rjúkandi kaffi.

Síðan var farið á bryggjuna. Þar var fyrir Óli á Árbæ að líta eftir nýendurbyggðum bát sem sjósettur var aðeins nokkrum dögum fyrr, hreint listaverk eins og von var úr hans hendi. Óla til halds og trausts var Óli málari, mættur bæði til að huga að eigin útgerð og samgleðjast nafna sínum.Fljótlega bættist einn í hópinn, Óli á Gjögri. Nýbúinn að skipta um bát og beið eftir skoðunarmanni. Enn fjölgaði í hópnum á borðstokk Óla á Árbæ þegar Óli Friðbjarnar mætti, einnig til að huga að eigin bát og bíða eftir skoðunarmanni. Ég gerði mér grein fyrir alvöru augnabliksins þegar ég spurði hvort það væri kannski Óli Lyngmó sem kæmi til að skoða. -"Nei, ekki hann. Hann skoðar ekki lengur, þessi heitir Hallgrímur" var svarið.

Mér þótti engu að síður stundin merkileg, þó að Óli Lyngmó kæmi ekki. Hér sat ég með fjórum Ólum. Allir fulltrúar hverfandi kynslóðar þessara gömlu trillukarla sem þraukað hafa hverja sveifluna af annari. Karlar með sitt á þurru, andstæðingar kvótakerfisins í hjarta sínu þó það hafi raunar tryggt mörgum gamlingjanum í trillukarlastétt áhyggjulaust ævikvöld.

Ég naut augnabliksins, spjallaði og hlustaði, deildi og nam. Alveg þangað til Óli (man ekki hver þeirra) leit á klukkuna og kvað upp úr með að nú væri tími til að koma sér í kaffi til Braga Magg. 

------------------------------------------------------------------------------------------------------------------

Svo fann ég annan pistil og í ljósi þess sem ég hef skrifað undanfarið ákvað ég að láta hann flakka líka:


miðvikudagur, september 08, 2004

Þegar líður á sumarið............. 

.....og ferðalögum að fækka má ég til að minnast á mismunandi verð á tjaldsvæðum landsins. Nánast allsstaðar er gjald fyrir gistinótt á tjaldsvæði reiknað pr. mann - ekki á gistieininguna sjálfa (tjald,fellihýsi,húsbíl). Nokkrar undantekningar eru þó á þessu, s.s. á Vopnafirði, þar sem í boði er lítið, fallegt og vel staðsett gistisvæði með 2 salernum, sturtu og útivaski með heitu og köldu vatni. Þar voru í sumar teknar 550 kr. fyrir gistieininguna og 250 kr. fyrir hvern fullorðinn. Á Egilsstöðum var gjaldið fyrir fullorðinn hins vegar kr. 750-. Barnagjald var allajafna 250-300 kr. en ég man reyndar ekki hvað það var á Egilsstöðum. Þetta gistisvæði var þó það allra dýrasta sem við spurðum um. Merkilegt nokk, niðri á fjörðum var ekki tekið gjald fyrir gistisvæðin og voru þau þó með allra besta móti hvað snerti búnað, viðhald og daglega hirðu. Við gistum á Seyðisfirði eina nótt, litum á tjaldsvæðið og leist þokkalega á. Gjaldið var 500 kr. á fullorðinn og 300 kr. á barn. Þar sem við þurftum ekki endilega að vera á tjaldsvæði enda ferðabíllinn okkar útbúinn með salerni og rennandi vatni fundum við okkur stað utarlega í bænum norðanvert. Þar var allstórt malarplan og settum við okkur þar niður seint að kvöldi og náttbjuggumst. Ekki höfðum við dvalið nema u.þ.b. 10 mínútur á planinu þegar fólksbíll kemur á fullri ferð, rennir upp að ferðabílnum og út snarast maður. Hann tilkynnir okkur að þetta plan tilheyri tjaldsvæðinu og hér verðum við ekki nema borga! Það fauk dálítið í mig og ég sagði okkur þá einfaldlega færa okkur annað. "Þá verðið þið að fara úr bænum" sagði komumaður. Ég hváði. "jú, það er nefnilega í lögreglusamþykkt bæjarins að bannað er að gista á öðrum stöðum í bænum en á tjaldsvæðunum." Hann kvað þetta hafa verið gert vegna þess vanda sem skapaðist oft á miðvikudögum þegar fólk á leið úr landi með Norrönu streymdi til bæjarins og lagði þá bílum og vögnum nánast inni í görðum hjá íbúum. Hins vegar væri það ljós í myrkrinu að við þyrftum einungis að greiða kr. 500 fyrir gistieininguna á þessum stað því enn skorti jú alla þjónustu á malarplanið, vatn, rafmagn og hreinlætisaðstöðu. Semsagt, ef við vildum nátta á Seyðisfirði yrðum við að borga, að öðrum kosti yfirgefa bæinn. Jamm, ég sem hélt að Seyðfirðingar hefðu verið að kvarta um að ferðamenn stoppuðu ekki á staðnum. Þarna var komin ljóslifandi ein af ástæðunum. Ég sá svo sem ekki eftir fimmhundruðkallinum en fannst peningaplokkið yfirgengilegt. Það var svo eftir öðru að þegar við yfirgáfum bæinn að morgni og klifruðum yfir Fjarðarheiðina sáum við,hvar sem spotti var út af vegkanti eða útskot, allstaðar skilti með yfirstrikuðu tjaldi og áletruninni: No camping-water preservation area. (tjöldun bönnuð-vatnsverndarsvæði). Nú má vel vera að Seyðfirðingum sé annt um vatnsbólin sín en ætli það væri þá ekki rétt að halda sauðkindunum frá vatnsverndarsvæðinu? þeir seyðfirsku sauðir sem þarna ráfuðu um heiðina hafa annaðhvort verið illa læsir (sem er líklegt) eða svo "sauð"þráir að þeir hafi einfaldlega hunzað skiltin (sem er jafn líklegt). Steininn tók þó úr þegar við ókum ofarlega í heiðinni fram hjá mulningsvélum með tilheyrandi vélaskúrum og vinnuvélum, gröfum og vélskóflum. Sem fyrrverandi vinnuvélstjóri og -eigandi veit ég af reynslu að þannig tæki eru sjaldnast laus við olíuleka af einhverju tagi. Og tækin þarna í heiðinni voru hvorki ný né hreinleg. Þar fóru vatnsverndarsjónamiðin fyrir lítið og augljóst að það eitt vakti fyrir því bæjarfélagi sem þessi skilti átti að draga alla gistingu inn á svæði sem síðan væri hægt að plokka ferðamenn fyrir. Meira um þetta síðar 23.08.2014 09:02

Heim frá Færeyjum - 11. hl. ferðasögu.


Tíunda hluta lauk í sundlauginni á Egilsstöðum og þ.a.l. rökrétt að ellefti hluti hefjist þar. Það má einnig koma fram að sundlaugin var enn ómerkt á sundlaugalistanum mínum og því fékk hún nú sinn kross :

Þau örfáu ský sem skreytt höfðu himininn meðan við lágum í bleyti voru á undanhaldi og blái hlutinn stækkaði  meira og meira. Vatnið í sundlauginni hafði heldur ekki náð að þvo af okkur ferðabakteríuna og það var tilvalið að nýta þetta ágæta veður í dálítið flakk. Þar sem forðabúr ferðadrekans var að mestu tæmt við brottför frá Færeyjum var ekið að Bónusbúð staðarins og fyllt á það að nýju. Síðan var stefnan tekin niður að Eiðum. Við höfðum þó ekki langt farið þegar Borgarfjörður eystri - Bakkagerði - barst inn í umræðuna. EH þótti langt að fara og dró úr. Ég minnti á að síðast hefðum við gefið okkur tíma til að heimsækja Bakkagerði árið 1985. Þau rök vógu þungt og umræðan styttist í: "Ókei, ef þú nennir"  Ég svaraði: "Ég nenni alltaf" og af því ferðadrekinn var sneisafullur af ódýrri færeyskri dísilolíu var krúsið stillt á níutíu og stefnan tekin niður þinghárnar tvær, Eiða- og Hjaltastaða-. Á leiðinni ókum við framhjá "kunningjum" af Norrönu, erlendum ferðabílum sem við höfðum verið samferða heim. Þá mátti sjá ýmist úti í kanti að stúdera kort eða í nestisupptöku. Tveir eða þrír stóðu á völdum útsýnisstöðum í Vatnsskarði, milli Héraðs og Njarðvíkur. Áfram rúlluðum við niður í Njarðvík og þar var myndavélin munduð til fyrstu skota dagsins. Myndefnið voru Múli og Hádegisfjall, en þó ekki síður snjórinn í fjöllunum. Snjór í fjöllum var nefnilega varla séður í Færeyjum nema kannski á einum stað í Slættaratindi:

Krossinn í Njarðvíkurskriðum hefur ábyggilega verið lagfærður frá því ég sá hann fyrst því ég minnist hans öðruvísi. En kannski er minnið bara að bregðast mér..Lognið breytist hins vegar aldrei:Við ókum eiginlega beint gegnum þorpið Bakkagerði (ég hlýt að mega segja Bakkagerði því það stendur á kortinu mínu....) og fyrir fjarðarbotni stendur kletturinn Álfaborg. Frá honum tókum við þessar myndir til austurs. Sú efri sýnir Svartafell (og er ekki erfitt að skilja nafngiftina) en sú neðri mun sýna Geitfell, nokkru norðar:

Í austanverðum Borgarfirði eystri var fyrir mörgum árum gerð lítil bátahöfn í landi jarðarinnar Hafnar. Þegar smábátafloti þorpsins stækkaði við afar erfið hafnarskilyrði var ráðist í að stækka og endurbyggja þessa hafnaraðstöðu handan fjarðar með ágætum árangri. Höfnin er byggð inn milli kletta en í þessum klettum er gríðarlegt fuglalíf. Þetta fuglalíf hlýtur að hafa ratað í erlendar ferðabækur ef marka mátti fjölda útlendinga sem voru á staðnum með allskonar myndavélargræjur. Meðal þeirra voru hjónin sem voru klefanautar okkar á Norrönu á heimleið frá Færeyjum. Af númeri Landróversins þeirra mátti ráða að þau kæmu frá Þýskalandi. Meðan ég skoðaði bílnumer og rabbaði við trillukarl sem var að standsetja við bryggjuna arkaði EH fram á klettana eftir þartilgerðum fuglaskoðarastíg og skaut linsuskotum í allar áttir:
Þegar nóg hafði verið myndað var haldið til baka og nú var gengið á Álfaborg. Það er svo sem ekki mikil fjallganga en þegar næsta umhverfi er tiltölulega flatt fæst góð yfirsýn. Að neðan er horft í austur til Geitfells og Svartafells:Hér er útsýni af Álfaborg yfir þorpið. Tjaldsvæðið í forgrunni, mjög stórt og vel búið:Kirkja Borgfirðinga er hefðbundin, byggð árið 1901 eins og fram kemur HÉR. Sjá einnig HÉR.Eins og fram kemur í hlekknum er altaristaflan talin til merkari verka Jóhannesar Kjarvals. Ég er aðeins bifvélavirki og með takmarkað vit á myndlist en verð þó að viðra þá skoðun mín að ef þessi altaristafla er með merkari verkum Kjarvals þá er eitthvað mikið að í mati á myndlist yfirleitt. Það hefur margoft komið fram hér á síðunni að bifvélavirkjar geta líka haft gaman af að skoða kirkjur - og þá um leið altaristöflur - og þegar jafnmargar hafa verið skoðaðar og margoft hefur komið fram hér á síðunni, þá getur maður myndað sér álit þrátt fyrir skort á skólun í myndlist. En meðan Kjarval er jafn hátt skrifaður og raun ber vitni geta Bakkgerðingar glaðst yfir sinni altaristöflu..........

Ljósakrónan er ekki gerð af Kjarval:Hér getur svo að líta listaverk náttúrunnar umhverfis kirkjuna:

Líklega er þetta það hús í Bakkagerði sem hvað oftast hefur verið myndað. Þetta er Lindarbakki, sagt byggt 1899:

Við ókum fram á gömlu hafskipabryggjuna og snerum þar. Áðum stutta stund við öldugutl, fuglasöng og minninguna um ÞENNAN söng.Þarabingurinn í fjörunni gaf til kynna að ekki væri nú sjórinn alltaf jafnstilltur og þennan dag:Úti á túnbletti skammt frá bryggjunni stóð gamall björgunarbátur með seinni tíma viðbótum. Framstefnið var reyndar eitthvað undarlegt og á því var fjöl með nafninu "Bergbjörn"Við vorum ekkert komin með nóg af Borgarfirði eystri þegar við héldum til baka undir tifandi klukku. Eitt myndskot yfir þessa paradís sem Njarðvík er í veðurblíðu:..og annað af heiðinni niður í víkina til baka:Við höfðum svo sem ekkert að gera upp á Egilsstaði aftur fyrst hægt var að komast aðra leið yfir í Jökulsárhlíð. Þegar við komum að stíflum Lagarfossvirkjunar, þar sem vegurinn liggur yfir blasti við hrikaleg sjón. Fljótið beljaði fram eins og í stífum vorleysingum og fyrirgangurinn var slíkur að manni fannst landið nötra:

Skýringuna mátti finna í flóðgáttum virkjunarinnar, sem höfðu verið opnaðar til að lækka vatnsborðið í fljótinu ofanvið. Leysingar undanfarinna daga ásamt löngu rigningartímabili hafa eflaust hækkað yfirborðið meira en góðu hófi gegndi og því nauðsyn að "hleypa af".Ofan við stíflugarðinn mátti vel sjá hve yfirborð vatnsins hefur verið orðið hátt:Rétt við mannvirkin stóð þetta skemmtilega skilti. Til hægri á því sést stíflugarðurinn sem við mynduðum og rétt handan við hann stendur skiltið á myndinni.

Það var farið að líða á daginn og við höfðum sett stefnuna á tjaldsvæðið í Vopnafirði. Þessi fallega kirkja tafði þó för þegar hún kom í ljós. Þetta er Kirkjubær í Hróarstungu. Sjá HÉR og HÉRÚtidyr voru ólæstar en millihurð læst. Því varð ekki komist inn í sjálfa kirkjuna en stigi upp á loftið var innan við útidyr og því var hægt að skoða kirkjuna af loftinu.

Ekki sáum við nafn á þessu leiði en miðað við aldur þess og útlit er ekki ólíklegt að sá sem það byggði eigi nú sitt eigið einhversstaðar í garðinum. Hver veit?Við ókum í rólegheitum niður Jökulsárhlíðina og um leið og við lögðum á Hellisheiði eystri virtum við fyrir okkur snjóinn í fjöllunum handan Héraðsflóa. Það var 26. júní!Þegar við ókum Hellisheiði eystri í fyrsta sinn árið 2004 vorum við á gamla Toyota Coaster ferðabílnum sem við gáfum nafnið  "Ísfirðingur". Sá var afllítill og hávaðasamur, aksturinn upp tók 20 mínútur og niðurleiðin tók sama tíma. Við tókum tímann á sjúkrabílnum og án þess að nokkurntíma væri ekið óeðlilega hratt vorum við slétt korter yfir heiðina enda til enda. Inni í því korteri eru þó ekki mínúturnar sem  EH fékk til að mynda snjógöngin við veginn. Árið 2004 voru engin göng!

Norðan við Hellisheiðina var önnur og síðri útgáfa af veðri. Það rigndi ekki en þó lá þokuslæða yfir og yfirbragðið allt var frekar rigningarlegt. Við ókum svosem eins og hálfa leið inn með Vopnafirði en þar sem komið var fram yfir kvöldmatartíma, við með gaulandi garnir og grillkjöt í forðabúrinu var tekin áning ofan vegar. Grillinu var kippt út og kjötið sótt. Þegar tengja átti grillið við gaskútinn kom hins vegar babb í bátinn: þrýstijafnarinn fannst hvergi! 

Við höfðum dandalast með grillið alla leið austur á Seyðisfjörð, til Færeyja og til baka aftur án þess að nota það nokkurn tíma því Færeyingar selja eiginlega ekki tilbúið grillkjöt. Ég mun líka hafa nefnt það í einhverjum pistlinum hvað gasgrill voru sjaldséð við íbúðarhús þar. Nú átti semsagt að nota grillið í fyrsta sinn á ferðalaginu og þá fannst ekki þrýstijafnarinn. 

Ég legg sérstaka áherslu á þrýstijafnarann, því hann er örlagavaldur í sögunni!

Það læddist að mér grunur, ég hringdi suður í soninn Arnar Þór, sem ég vissi að var heima í Höfðaborg, og bað hann kíkja fyrir mig í hillu hvort þar lægi blár þrýstijafnari með áfastri slöngu og hraðtengi. Eftir stutta leit lýsti hann fyrir mér stykkinu sem hann hélt á í hendinni - þrýstijafnaranum frá gasgrillinu!!
Nú voru góð ráð dýr. Grillkjötið þoldi illa geymslu, einnota grill var ekki að fá og við svöng. Þegar neyðin (ef nota má það orð) er hins vegar stærst er hjálpin oft næst. Á Svínabökkum í Vopnafirði býr nefnilega gott fólk sem við þekktum vel. Svínabakkar eru meðal þeirra bæja sem styst er til frá þeim stað sem við vorum stödd á og eitt símtal til Jóhanns Marvinssonar fyrrum bónda í Arnardal við Skutulsfjörð vestra leiddi í ljós að þar á bæ væri til brúklegur þrýstijafnari sem minnsta mál væri að fá lánaðan. Næsti áfangastaður okkar var því Svínabakkar og nú var ekið á fullri ferð.

Þegar komið var heim að Svínabökkum var þar fjöl"menni" á hlaði. Þar var líka sannkallaður fagnaðarfundur því við höfðum ekki hitt þau Jóa og Þórdísi (Debbu) í alltof, alltof langan tíma. Tvö börn af fjórum voru heima á bæ, Debóra sem var í þann mund að taka á móti gestum í átján ára afmælið sitt og sonurinn Ágúst, sem leit út fyrir að vera stóri bróðir þrátt fyrir að vera aðeins fimmtán. Svo var á hlaðinu sægur af ferfætlingum, hálf- og heilsystkinum og ekki alltaf spáð í aldur og stærð þegar speninn var annars vegar:

Það mun vera dagsljóst hver heldur á myndavélinni. Hér myndar kattakonan Elín Huld. Þessi hér að neðan vakti alveg sérstakar móðurtilfinningar hjá henni, enda hálf umkomulaus og utanveltu að sjá:Meðan EH myndaði kisur fundum við Jói og Ágúst vel brúklegan þrýstijafnara, settum hann á kútinn og prófuðum. Allt virtist virka en áður en kom að eldamennsku var búið að bjóða okkur að veisluborði innandyra og maður slær ekki hendi móti hangikjöti hjá Þórdísi Sumarliðadóttur!Okkar eigið grillkjöt var sett í kæli hjá Debbu og skyldi sækjast með morgunkaffi daginn eftir. Við höfðum tafið heimilisfólk á Svínabökkum nóg og þegar heim á hlað mætti mannskapur úr þorpinu til vélaviðgerða renndum við út á ágætt tjaldsvæði Vopnfirðinga og bjuggum um okkur til næturdvalar. Á tjaldsvæðinu reyndust vera fyrir þó nokkrir samferðalangar úr Norrönu. 

Upp rann föstudagurinn 27. júní og leit út fyrir annan eins dýrðardag. Morgunverður var fram borinn utandyra og fékk hvort okkar sína mynd. Takið sérstaklega eftir grænu skónum hennar EH. Þeir sjást nefnilega ekki hvar og hvenær sem er:

Að morgunverði loknum tókum við saman okkar hafurtask og renndum í bæinn. Í miðju þorpi hékk þessi vindpoki eins og slytti, og vitnisburður hans var órækur. Handan fjarðar læddist hins vegar inn eitthvert afbrigði Austfjarðaþokunnar alræmdu og fór hratt yfir. Í þessu fallega húsi var upplýsingamiðstöðin og þangað fórum við til að gera upp tjaldsvæðið:Skammt frá stendur þetta minnismerki um burtkallaða vopnfirska sjómenn. Merkið vakti umtal á sínum tíma enda nokkuð nákvæm eftirgerð minnismerkis um Duggu - Eyvind sem stendur rétt við Dalvík. Sjá HÉR og HÉR  Samkvæmt okkar korti heitir hann Skipshólmi, þessi:Það verður ekki sagt svo skilið við Vopnafjörð að kirkjan sé ekki mynduð. Við gáfum okkur ekki tíma til að skoða hana að innan en það kemur að því.....Þegar þarna var komið sögu hafði heimilisfólk á Svínabökkum lokið sínum morgunverkum og við boðuð í morgunkaffi. Það kaffi teygðist svo fram yfir hádegismat og Elín Huld tók fleiri kattamyndir. Enn var sú litla hálf utanveltu og umkomulítil að sjá þar sem hún sat á pallinum og horfði á hinar leika sér:Að loknum hádegisverði kvöddum við heimilis- og heiðursfólkið að Svínabökkum og renndum einn bæjarhring að lokum:

....og þegar haldið var frá Vopnafirði vorum við ekki lengur tvö á ferð. Móðurtilfinningarnar urðu skynseminni yfirsterkari og ein lítil og umkomulaus læða hafði bæst í fjölskylduna. Næst lá leiðin til Bakkafjarðar en við ókum stuttan útúrdúr fram að sundlaug Vopnfirðinga í Selárdal. Á skilti við hana stóð "LOKAÐ" en erlendir ferðamenn skilja ekki orðið, eða virðast ekki skilja það:

Á Bakkafirði var svo sem ekki margt að sjá. Nokkur hús, nokkrir bílar, nokkrir bátar.....Skammt utan við þorpið stóðu hálffallnir skreiðarhjallar og við þá leifarnar af Agli NS-30. Þegar ég kíkti um borð blasti við sama sjón og var svo algeng  - en jafnframt óskiljanleg - í Færeyjum. Tiltölulega nýleg þriggja strokka dísilvél, á að giska 25 hestöfl, fagurgræn. Ég ætlaði að mynda hana en myndavélin sagði á því augnabliki "Memory full"
Skammt frá stóð Árni Friðriksson NS 300 á hrörlegum vagni. Það skipti svo sem engu þótt vagninn væri hrörlegur því á hvorugu var neitt fararsnið og mig grunar að Árni Friðriksson NS 300 hafi farið sína síðustu ferð.Við gengum niður að gömlu bryggjunni á Bakkafirði. Þegar við vorum á ferð þarna sumarið 1985 var líf og fjör á bryggjunni. Það er brimasamt á Bakkafirði og á bryggjunni var stór og mikill vökvakrani sem gat svipt bátum á augabragði upp úr sjó og raðað í skjól undir steinveggnum hægra megin. Nú er hún Snorrabúð stekkur og kraninn  farinn eins og flest annað en undirstöður hans vel sýnilegar með grindverki á miðri mynd:Allt hefur sinn tíma:

Þessi vinalegi vatnstankur, skreyttur af skólabörnum þorpsins,  kvaddi fyrir hönd Bakkfirðinga þegar við ókum úr bænum. .......og krílið svaf. Þegar þarna var komið sögu vorum við EH sammála um að kisan væri ótrúlega róleg í bílnum - eiginlega alveg sultuslök, eða þannig. Á því augnabliki kom ekkert annað nafn til greina en Sulta:Innarlega í Bakkafirði er svo nýja bátahöfnin sprengd inn í klappir og grjótið sem úr kom notað í garða.  Hér þarf engan krana til að bjarga bátum frá brimi:

Stefnan var næst á Þórshöfn og um leið og við beygðum til vesturs á næstu gatnamótum vorum við komin á áður ókannaðar slóðir. Sem fyrr segir höfðum við komið til Bakkafjarðar árið 1985 og þá aðeins í nokkurra mínútna heimsókn frá Vopnafirði. Lengra "uppeftir" höfðum við aldrei komið fyrr en nú. Næst ókum við fram hjá Skeggjastaðakirkju, handan fjarðar. Ekki skoðuðum við hana nánar enda vorum við, þegar hér var komið sögu, ákveðin í að leggja aðaláhersluna á að fara fyrir Melrakkasléttu. Það var föstudagssíðdegi og tveimur sólarhringum síðar áttum við að vera í Reykjavík. Það skipti því máli að velja úr aðal- og aukaatriði því það var þegar orðið ljóst að við myndum þurfa aðra ferð - sérferð - þarna norður eftir til að skoða allt sem skoðunarvert væri. Skeggjastaðakirkja var því sett í flokkinn "Næsta ferð"


Þetta mun vera  bærinn  Miðfjörður, við samnefndan fjarðarstúf inn úr Bakkaflóa. Býlið vakti athygli fyrir reisulegt íbúðarhús (sem ekki virtist þó fullsmíðað) og vænan vinnuvélakirkjugarð skammt frá því. Skammt frá var þessi rekaviðarstafli skreyttur með sjóreknum skóm af ýmsu tagi:Þessi bær á, ef að líkum lætur, eftir að verða nafli alheimsins þegar frammí sækir. Þetta er Fell, í þeim margnefnda Finnafirði, áætlaðri þjónustumiðstöð við olíuvinnslu á landgrunninu útifyrir, ef af þeirri vinnslu verður. Fell er samt frekar afskekkt og kannski hafa bændur á býlinu ekki heyrt af íslensku leiðinni í viðskiptum - eða þá að þeir eru bara svona varkárir. Allavega sá ég engin merki þess að menn væru farnir að byggja, breyta og bæta út á væntanlegan stórgróða........Frá Felli ókum við um háls sem ég veit ekki hvort er kallaður Brekknaheiði, en allavega liggur vegurinn þvert yfir rætur Langaness og til Þórshafnar. Þegar yfir hann kom var útsýn til Þórshafnar svona, og þá um leið út eftir austurströnd Melrakkasléttu:Það var ekki sérlega bjart að horfa norður eftir. Einhversstaðar þarna uppfrá átti Raufarhöfn, okkar næsti náttstaður að vera. Við höfðum ætlað okkur að aka út Langanes og jafnvel alla leið út að eyðiþorpinu Skálum og út í Font, ysta hluta nessins. Þegar þarna var komið sögu var ljóst að allar slíkar áætlanir yrði að flytja yfir á "Næstu ferð". Við létum okkur nægja að aka út á Sauðanes, spölkorn utan við þorpið og skoða okkur þar um á söguríkum slóðum. Sjá HÉR og HÉR. Svo rákum við augun í þessa yfirgefnu Douglas DC-3 flugvél sem liggur á maganum niðri á túnum Sauðanessbænda. Þarna mun hafa verið lendingarbraut á árum áður á vegum "Varnar"liðsins í tengslum við radarstöðina á Heiðarfjalli. Flugvélinni mun hafa hlekkst á og í framhaldinu verið rifin á staðnum. Bolurinn er nú kindaathvarf:Eins og fram kemur í tenglunum er kirkjan á Sauðanesi í endurbyggingu. Hún stóð opin og innandyra var talsvert byggingarefni geymt.Kirkjan virtist ekki vera mjög illa farin innandyra og aðalviðgerðirnar bundnar við burðarvirki, gólf og utanhússklæðningu.

Eftir heimsóknina að Sauðanesi var sundlaug Þórshafnar leituð uppi. Hún var svo sem ekki vandfundin og við skelltum okkur í hana. Þar með slógum við tvær flugur í einu höggi, náðum að baða okkur almennilega og merkja við enn eina á sundlaugalistanum margfræga. Eftir baðið renndum við inn á tjaldsvæði Þórshafnarbúa og litum á það. Svæðið var stórt, ágætlega búið og á því talsvert af fólki. M.a. þekktum við þar þrjá erlenda ferðafélaga í eldri kantinum. Ég hafði veitt þeim athygli í Norrönu á heimleiðinni, þeir höfðu komið sér fyrir í kaffiteríunni og þegar leið á kvöldið náði einn þeirra - sem virtist nokkurs konar "stjóri" hópsins -   í rauðvínsflösku á barinn og gaf þar með öðrum fordæmi. Afleiðingin varð svona huggulegt rauðvínskvöld í skuggsælli teríunni þar sem menn slökuðu á og nutu augnabliksins. Þetta voru rólegheitakarlar sem ferðuðust um á Volkswagen Sharan með tjaldvagn í eftirdragi og yfir þeim var alþýðlegur bragur, ekkert ríkidæmi. Nú voru þeir komnir til Þórshafnar, búnir að reisa sinn tjaldvagn og "stjóri" að bögglast við að kveikja upp í einnota grilli. Við EH settum upp okkar græjur, tengdum örlagavaldinn frá Svínabökkum og kveiktum upp. Grillið kom í minn hlut meðan EH sá um borðbúnaðinn. Á augabragði var steikin tilbúin en stutt frá var "stjóri" enn að basla við einnotagrillið. Ég labbaði yfir til hans og bauð honum á minni fínustu ensku afnot af gasgrillinu okkar. Hann virtist reyna að skilja, brosti svo góðlátlega, hristi höfuðið og benti á einnotagrillið. Afþakkaði svo kurteislega á þýsku. Ég skil talsvert í þýsku en reyni ekki að tala hana enda þótt ég muni hrafl frá þeim eina vetri sem ég lærði þýsku í Menntaskólanum á Ísafirði. Á þessu augnabliki hefði ég samt gefið mikið fyrir að geta talað við "stjóra" því þetta var góðlegasti karl. Hann talaði bara ekki stakt orð í ensku.....Þeir félagar höfðu uppi fána sem ég kunni ekki skil á en gat þess vegna verið fáni einhvers fótboltafélags. Ég sendi Arnari Þór sms- skilaboð með lýsingu á fánanum og hann svaraði stuttu seinna: "Austurríki"Við héldum okkar striki og lukum eldamennsku. Enn sýndist vera basl með einnota grillið svo ég rölti aftur yfir til "stjóra" og bauð honum afnot af okkar. Hann afþakkaði aftur og svaraði að "þetta væri alveg að koma". Ég sá hins vegar þær þykku kjötsneiðar sem hann ætlaði að grilla og þær hafa seint orðið tilbúnar á einnotagrilli. Stuttu eftir að við settumst að borðum kom "stjóri" hins vegar röltandi með plastglas í hendi. Hann vildi endilega gefa mér innihaldið og tiltók nafn sem ég skildi ekki. Ég þáði gott boð en svipurinn á EH var skrýtinn. Ég er enginn vínþekkjari enda nánast bindindismaður. Svo mikið man ég þó frá unglingsárunum að í glasinu var einhvers konar brennivín - trúlega af heimaslóðum. Ekki fannst EH við hæfi að ég drykki úr glasinu eigandi eftir að aka norður á Raufarhöfn undir kvöldið. Eitthvað mátti ég þó smakka en gat ekki komið nema litlu niður í einu. Svo var glasið allt í einu orðið hálft af appelsíni og EH með sakleysissvip. Ekki skánaði vökvinn við þessa rammíslensku viðbót. Svo var það við einhvern kjötbitann sem ég kyngdi með lokuð augun af vellíðan, að þegar ég opnaði að nýju var ekkert glas á borðinu.............

Það þurfti að vaska upp og við nýttum aðstöðuna til þess. Á meðan átti Sulta að fá að hreyfa sig. Henni leist ekki á veröldina og fann sér skjól. Myndin hér að neðan er felumynd: "Finnið köttinn"Á Þórshöfn var engin Orka, engin ÓB, aðeins það sem eitt sinn var kallað "Framsóknarbensín" en heitir nú N1. Þar naut ég engra olíufríðinda og mátti því punga út ófáum þúsundköllum við dæluna, því nú var Færeyjaolían mjög að ganga til þurrðar og alls óvíst hvort nokkra olíu væri að fá á þeirri náströnd sem mér var sagt að Raufarhöfn væri (en að vísu af Þórshafnarbúa). Því næst var stefnan tekin norður og ekið sem nef vísaði. Dumbungurinn sem við höfðum séð yfir sléttunni hélst áfram og þyngdi heldur. Þegar við komum að Svalbarði í Þistilfirði var farið að ýra dálítið úr lofti.Svalbarðskirkja er ein af þessum fallegu, turnlausu timburkirkjum. Hún virtist í ágætu standi en þó mátti finna að gólfið var farið að ganga talsvert upp. Útveggir stóðu á steyptum sökkli sem virtist í lagi.

Meðan við skoðuðum kirkjuna var Sulta skilin eftir á verði í bílnum. Svona sinnti hún varðgæslunni:Það var farið að kvölda þegar við komum til Raufarhafnar. Mig hefur lengi langað til að skoða þetta þorp enda hafði ég þá skoðun að þar væri að finna eina "landslagið"  á stóru svæði. Víst er umhverfi Raufarhafnar fallegt en staðurinn sjálfur virðist mér vera á mikilli niðurleið. Kirkjan bjargar þó miklu enda ein sú fallegasta á landinu. Sömuleiðis var tjaldsvæðið ágætt þótt það væri lítið, en búnaður var góður og í lagi. Við stutta skoðunarferð um þorpið virtust mjög mörg hús vera tóm og framan við eitt þeirra var stór sendibíll. Fólk var að bera húsgögn og húsgögnin voru borin út í bílinn - ekki úr honum. Bíllinn var merktur Grundarfirði. Á öðrum stað var svona "sósíalblokk" eins og svo algengar eru úti á landi. Mér sýndist vera búið í einni íbúð af ellefu eða tólf.
Við bjuggum okkur til næturdvalar á tjaldsvæðinu við hlið tveggja "ferðafélaga" af Norrönu. Regnúðinn þéttist, droparnir stækkuðu og um nóttina hellirigndi............

Endir ellefta hluta

................................................

13.08.2014 21:00

Í Færeyjum - 10.hl.ferðasögu.


Í tíunda hluta segir frá lokadeginum í Færeyjum og ferðinni heim.


Upp rann miðvikudagur 25. júní. Eins og áður kom fram lögðum við bílnum kvöldið áður í miðjum afleiðingum færeysku kreppunnar, þ.e. á hálfunnu byggingasvæði innan um dót og drasl og féllum svo vel í umhverfið að enginn virtist taka eftir okkur.

Við vorum snemma á fótum enda kom fram í lok 9.hluta að við þurftum að vera nálægt bænum vegna áætlunar lokadagsins. Um leið og hefðbundnum morgunverkum hafði verið sinnt var ekið niður á "átta tíma stæðið" við Vesturvog og ferðadrekanum lagt þar. Bakpokar voru hengdir á herðar og arkað á fullri ferð niður að Strandfaraskipum Landsins þar sem "Ternan" var tilbúin til brottfarar. Nú skyldi nefnilega taka "innanlands" ferju í annað og síðara skiptið. Förinni var heitið til Nólsoy"Ternan" er fuglsnafn eins og einhverjir eflaust átta sig á. Þessi fugl er stundum nefndur Þerna á íslensku en algengara nafn á honum er kría. Færeyingar þekkja eflaust kríunafnið en hjá þeim heitir fuglinn semsagt terna. Við æddum um borð fulla ferð enda höfðum við enga hugmynd um ferðamannastraum til Nólseyjar, en þangað var förinni heitið þennan síðasta morgun okkar í Færeyjum. Kannski er rétt að skjóta inn kortaklippu svo hægara sé að átta sig á stöðunni:Okkur hefði svo sem ekki legið lífið á að tryggja okkur pláss því það voru aðeins svona sirka tíu, tólf farþegar á leið til Nólseyjar. Við komum okkur fyrir á bekk uppi á bátadekki og lituðumst um. Á léttabátnum mátti sjá að Ternan væri skráð í Klakksvík og hafi hún áður verið staðsett þar hefur hún væntanlega haft það hlutverk að þjóna byggðum á Kalsoy. Nú var hún þó í Þórshöfn og þjónaði Nólsoy og kannski var það vegna þess að yfir sumartímann eru væntanlega talsvert fleiri ferðamenn sem heimsækja Nólsoy en Kalsoy og því veitir ekki af "almennilegri" ferju. Svo var blásið til brottfarar og myndasmiðurinn fór í hlutverk fyrirsætu. Er það rétt hjá mér að hún sé hálfsyfjuleg? Við stóðum við borðstokkinn og horfðum á Þinganes renna hjá þegar Ternan stoppaði allt í einu og vildi ekki lengra. Þetta reyndist ástæðan: Farþegadreki af stærri gerðinni var að þoka sér inn um þröngt hafnarmynnið og farþegadrekar af stærri gerðinni flytja með sér miklar tekjur til Þórshafnar. Því fá þeir forgang fram yfir ferjukríli sem flytur tíu, tólf hræður yfir til Nólseyjar. Það var svo sem ekkert við það að athuga og bara gaman að fylgjast með risanum á innleið.

Svo var Íslandsvinurinn Celebrity Infinity kominn innfyrir og við máttum leggja af stað í þessa tuttugu mínútna löngu siglingu yfir sundið.Á stjórnborða blöstu við hinar miklu byggingar Landssjúkrahússins:Tuttugu mínútur líða hratt og brátt runnum við inn á höfnina í Nólsey:

Meðal farþega voru frönskumælandi hjón. Þeim var búin móttaka á bryggjunni í Nólsey og í móttökunefndinni var maður sem virtist vera leiðsögumaður og  - hundurinn hans.Við nánari athugun kom í ljós að þetta var ekki svona Bassahundur eins og vel gat verið, séð ofan af Ternunni. Þetta var hundur af þeirri gerð sem trúgjörnum, japönskum sakleysingjum var seld dýrum dómum hér um árið. Japparnir voru grunlausir þar til "celeb" dama ein kom fram í sjónvarpi með "hundinn" sinn á handleggnum og hafði orð á því að illa gengi að kenna "honum" kúnstir, auk þess sem "hann" gelti mjög furðulega! Atvikið rataði í  heimspressuna sem hló sig máttlausa en Japanir tóku "Íslendinginn" á þetta og neituðu að ræða málið"

Þessu lambi var líkt varið og kettinum í Þórshöfn, það vildi ekkert hafa með útlenskubullandi túrista að gera en hélt sig mest hjá sínum manni.Það næsta sem áhugavert þótti í Nólsey var frekar einstaklingsbundið en fékk þó mynd sem ætti frekar að teljast til iðnaðarnjósna en heimildar. Þetta er "Becker" stýri á aflagðri trétrillu uppi á kambi. Svona þarf stórskipið Stakkanes auðvitað að fá:
Mér var sagt að fara í úlpu og hafa húfu. Ekki veit ég hvers vegna en gegndi þó. Það var samt alls ekki úlpu - né húfuveður en stundum þarf jú að gegna til að fá "gott veður"

Þeir voru að byggja "dálítil" bátaskýli í Nólsey:Beint fram af eyjarnafninu í steingarðinum var þessi líka fína sandfjara, hreint eins og baðströnd:"Hundurinn" leiðsögumannsins hafði dregist aðeins afturúr hópnum á leið frá höfninni:

Svo þegar nær bænum kom stakk þessi afturendanum fyrir skúrhorn. Mér fannst hann kunnuglegur - eðlilega, því flestar breytingar á honum voru eins og á sjúkrabílnum mínum. Hann hafði sama toppinn, sömu ljósin og nákvæmlega sömu innréttinguna. Ég gat ekki séð hvar á Íslandi hann hafði verið sjúkrabíll en sjúkrabíl hafði hann verið......Jú, hann var frábrugðinn í einu, veigamiklu atriði: Hann var með tíu strokka bensínvél:Enn ein sönnunin fyrir íslenskum tengslum:Í miðju þorpinu, rétt við upplýsingamiðstöð ferðamanna er minningarplata á steini. Á henni er minnst róðrarafreks Ove Joensen. Platan skýrir sig sjálf.Um Ove Joensen má annars lesa HÉR og HÉR, og minnast þess um leið að það er sitthvort, gæfa og gjörvileiki.......

Gamli tíminn sveif yfir vötnum í Nólsey hvert sem litið varð.....Húsið þarna í baksýn (sem verið er að laga þakið á) bar stórt skilti sem á stóð: "Kaffistova". Þetta er gisti - og veitingahús sem minnst var á í bæklingum en virtist vera lokað nú um háannatímann vegna viðgerða. Allavega var allt harðlæst þegar við reyndum inngöngu.Við töltum út að kirkjunni. Hún var læst og ekki ætluð ferðamönnum til skoðunar. Á göngunni mynduðum við um öxl yfir hafnargarðinn til gömlu verbúðanna ( og þeirra nýrri t.h.)Í kirkjugarðinum stendur minningarsteinn um þjóðhetjuna Nólsoyjar - Pál, bónda og athafnamann. Frá steininum er útsýnið svona yfir til Þórshafnar - eða öllu heldur Argir, sem eins og fyrr segir er sambyggt Þórshöfn: ......og stutt frá stóð gömul sjóbúð:Það er fljótlegt að ganga allar götur í þorpinu á Nólsey og þegar því var að mestu lokið gengum við út með eyju til norðurs sundmegin. Þegar ekki varð lengra komist með góðu móti eftir fjörunni gengum við upp á milli húsa að götu sem liggur þorpið enda á milli. Hana gengum við áfram til norðurs, út fyrir byggð þangað sem helst voru sumarhús og slægjur. Á þeim slóðum hækkaði eyjan nokkuð upp að vindmyllu sem þar stendur og framleiðir rafmagn eyjabúa, af hæðinni var gott útsýni yfir þorpið og suðureyna. Á myndinni má vel sjá hvernig eyjunni er nánast skipt í tvennt með þröngu klettaeiði - og þorpinu þar með:Horft af hæðinni yfir vesturhluta þorpsins í átt til suðurodda Straumeyjar. Fjær er Sandey:Af hæðinni gengum við sem leið lá niður í þorpið og við eina efstu götuna rákumst við á þessa fjárhundafjölskyldu. Það er talsvert algengt að rekast á afgirta fjárhunda sem virðast hálf umkomulausir - og eru það sjálfsagt - enda eru fjárhundar Færeyinga ekki gæludýr heldur vinnuþjarkar sem leiðist að hanga aðgerðarlausir. Þessir voru allavega ekki glaðlegir, ekki einu sinni sá litli:Þessar voru heldur brattari:Svona mynd gæti komið þeirri hugmynd inn hjá einhverjum að í Nólsey stæði heimurinn kyrr. Það er kannski ekki alveg þannig en hreyfingin er ekki mikil:Í rauða húsinu er "Kunningastovan" - upplýsingamiðstöð þorpsins. Þar starfaði afar almennileg kona, kannski kringum þrítugt, sem ekki átti í neinum vandræðum með íslenskuna enda hafði hún dvalið á Íslandi u.þ.b. þrjá mánuði fyrir einhverjum árum. Hjá henni fengum við úrvals kaffi og kökubita ásamt hafsjó af upplýsingum um lífið í þorpinu. Við sögðum henni frá ferð okkar til Suðureyjar og það með, að okkur hefði langað til að heimsækja Sandey en ekki haft tíma. Hún setti upp smáskeifu, benti þumli niður og sagði okkur frekar að eyða tíma í að skoða Skúfey.......kannski það náist í næstu ferð?

Í kjallara "Kunningastovunnar" er geymdur róðrarbáturinn sem Ove Joensen fór á til Köben 1986. Hann var til sýnis gegn gjaldi.Það varð  ekki hjá því komist að heillast af kyrrðinni við voginn og gömlu verbúðunum. Þarna, á þessum stað og þessu augnabliki þurfti maður að ýta frá sér tilhugsuninni um Norrænu sem kæmi til Þórshafnar eftir nokkra klukkutíma til að sækja okkur..........mann langaði einfaldlega  ekki heim!

Eitt af þessum skiltum sem okkur Íslendingum finnst svo skemmtileg:Enn var talsverður tími þar til Ternan var væntanleg næst og við nýttum hann til að ganga upp á eiðið sem nær aðskilur eyjarhlutana. Nú fengum við ágæta yfirsýn yfir þorpið í hina áttina:Austanvert í eiðinu voru ekki sömu rólegheitin og við voginn þorpsmegin:

Undiraldan var þung og súgurinn við klettana var miklu meiri en ljósmyndir ná að sýna. Það dundi í hellinum þegar aldan skall á veggjunum:Á leiðinni til baka niður í þorpið fundum við þessi leiktæki - og í leiktækjum er jú brugðið á leik:Ég mátti til að prófa eitt saklaust:...og úr stellingunni leit veröldin svona út:Ég veit ekki hvort mannkynið er á leið aftur upp í trén, en þessi hluti þess prílaði allavega upp í eitt "klifurdót" og virtist leita að skóginum..........Svo, allt í einu var tíminn liðinn og Ternan komin á höfnina:Daman í upplýsingamiðstöðinni, "Kunningastovunni" (hvort orðið er nú skemmtilegra?) hafði bent okkur á gula húsið og sagst leigja það til búsetu  sumarlangt. Ekki amalegur staður að búa á:RIB - bátar eru nýlegt fyrirbæri í ferðaþjónustu og má sjá þá víða. Færeyjar voru engin undantekning og þessi var að dóla kringum Nólsey góða stund, kom svo inn á voginn um leið og Ternan:

Viðstaða Ternunar í Nólsey er stutt hvert sinn en ferðirnar tíðar. Við vorum rétt komin um borð þegar skipið seig út um hafnarmynnið.................og svo var manni kippt hálfnauðugum inn í nútímann og veruleikann á ný. Aðeins tuttugu mínútur skildu á milli!Við töltum í land og litum inn í "Terminalin", Umferðarmiðstöð Færeyinga á hafnarsvæðinu. Við sáum að í básana hjá Smyril Line var komið fólk og gáfum okkur á tal við það. Þá kom á daginn að þar sem við vorum með alla pappíra í töskunni hennar Elínar gátum við tékkað okkur og bílinn inn á Norrönu. Þar með vorum við laus við það og gátum nýtt það sem eftir lifði dags í að heimsækja SMS, sem eins og fyrr sagði er Kringla/Smáralind Færeyinga. Klukkan var rétt að verða tvö e.h. og von var á Norrönu um hálfsex. Þar sem við vorum komin með brottfararspjöld þurftum við ekki að mæta fyrr en hálftíma fyrir brottför og þá beint á aksturslínu um borð. Þá var það SMS. Eins og fram kom í lok 9. hluta tókst okkur ekki að finna húsið í gönguferðinni kvöldið áður. Eftir göngutúrinn renndum við um bæinn á bílnum á leið í náttstað og þá fundum við það fljótlega. Stefnan var því klár og við gengum uppeftir. SMS vöruhús er ekki ný bygging en afar glæsileg. Þarna var frítt internet og nægir staðir til að tylla sér. Það var dálítið "absúrd" að líta í kringum sig því hvar sem setjast mátti niður sátu ferðamenn, líklega af skemmtiferðaskipinu í höfninni og pikkuðu á snjallsíma og spjaldtölvur. Hver og einn grúfði sig niður í sitt og manni gat vel fundist að heimurinn hefði frosið eitt augnablik - ef ekki hefði verið fyrir búðaráparana.  Við röltum um, litum inn í nokkrar búðir en hittum svo Hornfirðingana sem voru í SMS í sömu erindagerðum og við - þ.e. að drepa tímann fram að mætingu á Norrönu. Við fengum okkur kaffi og tylltum okkur smástund við leik í Heimsmeistarakeppnninni sem stóð sem hæst. Síðan skildu leiðir og við héldum aftur út á röltið - niður í bæ.Þessi myndarlega bygging er ráðhús bæjarins. Framan á því stendur:" Tórshavnar kommuna" og ártalið 1894 milli orðanna:Dómkirkjuturninn og næstum því heiður himinn - allavega á færeyskan mælikvarða. Við gengum niður á bílastæðið við Vesturvog, sóttum bílinn og tókum einn lokahring um bæinn.

Loks var ekki annað eftir en að mæta í röðina. Tímaskráningin á þessari mynd segir 16:09 og á henni sést forláta Rolls Royce sem var á leið til Íslands. Á sílsinum neðan við farþegahurðina (hann er með stýrið "réttu" megin) stendur: "Around the world in a 80 year old car" og neðan við afturgluggann stendur: "Rolls Royce Antonoff 1". Svo er talsverð lesning á kistulokinu, þar sem fram kemur að tegundin sé RR Phantom 1 frá árinu 1926, vélin sé sex strokka og átta lítrar að rúmtaki og eyðsla pr. 100 km sé 22 lítrar. Nafnið Antonoff mun vera nafn yfirbyggingarsmiðsins, en yfirbyggingin er úr áli:Hollendingar á bláum Benz, Svisslendingar á gömlum Citroen....Loks hillti undir Norrönu og innan skamms renndi hún inn á höfnina. Þar var spólað í hálfhring og ferlíkinu rennt að bryggju eins og barnaleikfangi.Svo stór var biðröðin orðin að maður hafði nokkrar áhyggjur af því að komast ekki með! Hitt var svo vitað mál að meðal farþeganna voru Færeyingar á heimleið, ferðamenn sem ætluðu að dvelja viku eða lengur í eyjunum, einnig ferðamenn sem ætluðu að dvelja þá  daga sem tæki Norrönu að sigla til Íslands og aftur til baka til Færeyja og áfram til Hirtshals. Loks var sá hópur sem mögulega gat ætlað að dvelja í Færeyjum meðan Norröna sigldi til Íslands/Færeyja/ Hirtshals/aftur til Færeyja og aftur til Hirtshals á sunnudagskvöldi. Flókið? Kannski. Ég reiknaði allavega með því að tölvurnar hefðu unnið sitt verk......Það hlaut að myndst pláss fyrir okkur. Þegar þarna var komið sögu var EH komin upp í landaganginn og myndaði þaðan:Svo smáseig röðin áfram en mér fannst ég alltaf færast aftar og aftar........og að endingu vorum við þrír sem héngum á húninum. Það var einhver stífla inni og loks fannst pláss fyrir Renóinn fyrir framan mig .....Svo var hægt að búa til eitt pláss enn út við stb. síðuna og þegar ég þokaði mér í það mátti smeygja háþekjuhúsbílnum t.h. svona á ská fyrir aftan mig. Þar með var skellt í lás og sjóbúið.Nú kunni ég þetta enda þrautreyndur eftir fyrri ferðina með Norrönu og líka þá með Smyrli til Suðureyjar. Nú tók maður bakpokann með dótinu sínu, læsti bílnum og rölti í rólegheitum að lyftunum - engir stigar núna! Uppi á áttunda dekki var EH með myndavélina. Ternan skreið framhjá í einni af mörgum ferðum dagsins til Nólseyjar. Ég hefði heldur viljað vera þar um borð:Brottför var tímasett kl. 18 og klukkan mín var 18:09 þegar sleppt var og spólað af stað:

Austurvogur, Þinganes, Vesturvogur. Það var eiginlega dagsljóst að þessi ferð til Færeyja yrði ekki toppuð nema með annarri..... Þarna var Smyrill, eflaust á leið til Þvereyrar á Suðurey innan skamms. Þarna var líka Celebrity Infinity, eflaust á leið til Íslands eins og við...Um leið og Norröna skreið fyrir hafnarmúlann hallaði hún í stjór og losaði dálítið af vatninu úr heitu pottunum á skutþiljurnarEflaust hafa straumar og sjávarföll áhrif á leiðir Norrönu. Ég veit ekki hvort það var þess vegna sem þeir sigldu aðra leið heim en út. Þegar við komum til Færeyja var siglt milli Kalsoy og Austureyjar. Nú var siglt milli Kalsoy og Kunoy. Kannski gerðu þeir þetta gagngert fyrir okkur, vissu kannski sem var að við höfðum ekki gefið okkur tíma til að skoða þessar tvær eyjar ásamt mörgum öðrum, s.s. Fugley, Svíney, Skúfey, Sandey (þrátt fyrir þumalinn niður), Mykines og svo öll smáþorpin sem við settum til hliðar með orðunum: "Skoðum í næstu ferð" Þannig var það bara og við gátum vel við unað, eitthvað höfðum við þó náð að skoða og mynda ef marka má efnið í þessum Færeyjapistlum öllum!Eins og fram kom var lagt af stað undir kvöld og því nætursigling framundan. Við bókun ferðar hér heima kom á daginn að allir klefar voru upppantaðir á heimleiðinni og aðeins um að ræða svefnpokapláss í "fjölmenningsklefum" niðri á öðru þilfari. Við settum það ekki fyrir okkur enda ánægð með allt, alltaf......

Um borð í Norrönu kom hins vegar babb í bátinn þegar í ljós kom að okkur EH var ætluð ein og sama kojan í klefa fullum af illa lyktandi bakpokalýð (þetta eru EKKI fordómar, táfýlan af liðinu var hrikaleg!). Við ræddum málið við móttökuna (því Norröna hefur "lobbý" eins og fínasta hótel) og þar á bæ voru (kven)menn allir af vilja gerðir til að leysa vandann. Okkur voru fengnar tvær kojur í sex manna klefa þar sem aðeins voru fyrir ein þýsk hjón, snyrtilegt rólegheitafólk sem við höfðum lítið af að segja.

Sömu reglur giltu um svefnpokakáeturnar og klefana uppi á efri þilförum - við þurftum að koma okkar dóti út tveimur tímum fyrir heimkomu. Áætlunin sagði heimkomu um kl. níu að morgni fimmtudags og nú voru klukkurnar okkar réttar. Það þýddi að "Ship time" (sem alltaf er færeyskur tími) var þá tíu. Klukkan sjö að okkar tíma vorum við því mætt upp í kaffiteríu með bolla í hönd. Þá kom í ljós að þónokkrir höfðu kosið að leggja sig í sófum teríunnar í stað þess að skríða í svefnpokaplássin. Mannskapurinn var því mis-upplitsdjarfur í morgunsárið. Veðrið bætti þó allt upp, sólskin og einmunablíða og innan skamms voru allir komnir upp á áttunda að fylgjast með siglingunni inn Seyðisfjörð.

Þegar lagt var að höfðum við annan hátt á en úti í Þórshöfn, enda sjóuð og sigld! Nú kom Elín Huld með mér niður á bíladekkið og um leið og opnað var þeystum við út enda næstöftust. Samtímis rann skarinn af hinum brautunum af stað og út á bryggjusvæðið. Þar tók við tollskoðun og við vorum líka með þeim fyrstu til að vera kölluð inn í tollinn!

Aftur!
Hvað var það við sjúkrabílinn sem vakti svona sérstaka athygli tollvarða? Nú var ég ekki einn eins og í Þórshöfn. Íslensku tollararnir þekkja íslensk einkanúmer þó færeyskir geri það ekki - hvað var það þá?

Allt var þetta annars á glaðlegu nótunum og eftir að tveir félagar höfðu litið á bílinn og innbúið kom fram í spjalli að við værum aðeins að koma úr vikudvöl í Færeyjum en ekki frá Evrópu. Við þá staðreynd var frekari skoðun flautuð af og tveimur mínútum seinna vorum við komin upp í bæ. Meðal þeirra fjölmörgu sem biðu fars með Norrönu út voru þrír húsbílar mannaðir Ísfirðingum. Við tókum hús á einum og heilsuðum upp á hina. Svo var strikið tekið á Fjarðarheiðina og Egilsstaði. Aðallega var það tvennt sem togaði: Annarsvegar íslenskt bakarí og hins vegar íslensk sundlaug!

Um leið og við skriðum ofan í sundlaugina á Egilsstöðum í 22 stiga hita og sólskini varð okkur dagsljóst hvað við Íslendingar erum ríkir, þrátt fyrir allt........

....og þá loks vorum við komin heim!
.................................................................................................................


Líklega verða pistlarnir alls tólf. Mig langar að koma þessu frá mér uppá seinni tímann og eiga það skráð. Þegar þarna var komið sögu var fimmtudagshádegi og við ætluðum ekki beint suður. Gróf áætlun fól aðeins í sér eitt orð: Melrakkaslétta. Útfærslan var eftir og við unnum hana saman þarna í heita pottinum. Hún lukkaðist frábærlega og birtist líklega í tveimur síðustu pistlunum.

Gott í bili

07.08.2014 22:00

Í Færeyjum - 9.hl. ferðasögu


 Áttunda hluta lauk í svefnstað á plani aflagðrar fiskeldisstöðvar við Kaldbaksfjörð. Upp rann þriðjudagsmorgunn, næstsíðasti dagur okkar í Færeyjum og nú skyldi farið um þann hluta Straumeyjar sem við höfðum enn ekki skoðað - þ.e. suður/suðvesturhlutann.Þrír staðir voru á óskalistanum, Kirkjuböur, Gamlarætt og Syðradalur. Áður en ferðalög dagsins hæfust skyldi þó skella sér í sund í "svimjihylnum" í Þórshöfn og þangað stefndum við. Á myndinni hér að neðan er horft frá náttstað við Kaldbaksfjörð yfir að "Asfaltverkinu" og einhverri annarri verksmiðju sem ég kann ekki skil á: Þegar við komum að sundlauginni í Gundadal ofan við Þórshafnarbæ (þar sem einnig er aðal - íþróttasvæðið) var búið að koma fyrir tveimur sjálfvirkum sláttuvélum af stærri gerð á grasblettunum við sundhöllina. Þær (sláttuvélarnar) voru önnum kafnar við verkið, grasið fór inn að framan eins og lög gera ráð fyrir en kom út að aftan sem áburður. Mér virtist þó áburðarframleiðslan hraðari en hráefnisupptakan......Sláttuvélarnar gáfu sér augnablik til að líta á okkur í ferðadrekanum:....en ekki langan því vinnan beið.Elínu Huld þótti fóðrið einhæft og efnabætti það með ekta Bónusbrauði:Allt í einu: Flóðlýsingin á fótboltavellinum, "Svimjihöllin í Gundadal", EH að fóðra sláttutækin, veðrið frábært - hvað er hægt að óska sér frekar?Sundlaugin reyndist ágæt og um margt nákvæmlega eins og hér heima. Þó var heiti potturinn undantekning. Hér heima þykir hann sjálfsagður við hverja laug og fleiri en einn, Í Þórshöfn er heitur pottur en það þarf að kaupa aðgang að honum sérstaklega eða leigja hann út af fyrir sig ákveðinn tíma. Sundlaugin var sögð 28-29 gráður og barnalaugin 34 gráður. Þar var þvílíkur handagangur í öskjunni að við dvöldum ekki nema korter eða svo ofaní vegna hættu á heyrnarskaða. Það var þriðjudagsmorgunn og sirka annað hvert barn í Þórshöfn í sundlauginni - og leiddist það hreint ekki!

Þegar við komum út úr sundhöllinni var staðfestur grunur minn um sláttuvélarnar tvær sem nú virtust hafa breyst í áburðardreifara. Grasblettirnir tveir utan við sundlaugina voru orðnir graslausir að mestu en höfðu  fengið ótæpilegt magn af áburði sem í sólarhitanum lyktaði hreinlega eins og hrossatað - enda eðlilegt. Áburðinum fylgdi flugnager sem umlukti ferðadrekann svo við snöruðum okkur um borð og flúðum hið snarasta....upp í Bónus! Þar þurfti að leggja línur dagsins og af því Huldar Breiðfjörð, Færeyjabiblíusmiður okkar var jafnan með Halls - brjóstsykur í vasanum og notaði til að tengjast fólki, þótti tilvalið að ég fengi líka Halls. Mér þótti hann hinsvegar svo góður að ég tímdi ekki að gefa Færeyingum með mér og tapaði því eflaust af góðum tengslum:Frá Bónus var svo lagt upp og ekin leiðin sem merkt er á kortinu hér efst, þ.e. þvert yfir Straumey að vegamótum við Velbastað. Þar var ekið til suðurs að Kirkjubæ og á hægri hönd - í vestri - höfðum við eyjuna Hest. Sundið á milli heitir einfaldlega Hestfjörður. Hér að neðan sést örlítið á tána á eynni Hestur (lengst til hægri) en að öðru leyti er það Sandey sem fyllir bakgrunninn og þorp sem grillir í hægra megin á henni er þorpið Skopun, annað stærsta þorpið á Sandey.  Þarna er fjörðurinn hættur að heita Hestfjörður og farinn að heita Skopunarfjörður......Svo var komið að sögustaðnum Kirkjubæ:Hannes Pétursson skáld og rithöfundur ferðaðist um Færeyjar 1965 og skrifaði eftir það litla bók sem heitir einfaldlega "Eyjarnar 18" og kom út 1967. Hannes dvaldi tvo og hálfan mánuð í Færeyjum, frá hásumri fram á haust og nýtti þann tíma mjög vel, eins og bókin ber með sér. Hann hefur einnig farið vel undirbúinn í ferðalagið og þannig nýtt tímann enn betur. Hannes heimsótti Kirkjubæ og átti þar fróðlegt samtal við Pál Patursson kóngsbónda á jörðinni. Það er eiginlega nauðsynlegt fyrir þá sem eitthvað vilja kynna sér konungs- og kirkjujörðina Kirkebö að kíkja á bókasafnið og athuga hvort Hannes sé ekki fáanlegur þar......

Ég get nefnilega - því miður - ekki birt allt það sem H.P. skrifaði um Kirkjubæ þótt ég feginn vildi. Það er talsvert efni og inniheldur mikinn fróðleik um staðinn. Ég fer aðeins á hundavaði yfir það sem fyrir okkar augu bar og byrja við bílastæðið. Húsið á miðri mynd (með rauðu gluggunum) er ekki eitt gömlu húsanna þó vissulega líti það út sem slíkt. Þetta er glænýtt hús sem gegnir hlutverki biðskýlis fyrir "Strandfaraskipin" bláu, þ.e. almenningsvagnana. Ennfremur er þarna hreinlætisaðstaða fyrir rútuferðalanga sem ófáir koma til Kirkjubæjar.Hér að neðan er "Roykstovan", aldagömul bygging en endurgerð ásamt fleiri "stovum" sem m.a. hýsa safn og sýningu um staðinn:Þetta er Ólafskirkjan, sú sem nú stendur og er sóknarkirkjan. Ekki nefnir Hannes við hvaða Ólaf hún er kennd, en það má giska á að hún sé kennd við Ólaf helga Noregskonung. (Sjá einnig HÉR

Hér fyrir neðan er myndasyrpa úr Ólafskirkjunni


Ólafskirkjan sem nú stendur er ekki upprunaleg og í raun mun ekki vitað fyrir víst um aldur hennar. Hún hefur verið endurbyggð nokkrum sinnum, síðast árið 1874 en þá var hún endurhlaðin og gerbreytt eins og sjá má á mynd af teikningum hér neðar. Kirkjan þykir hafa glatað miklu af stíl sínum við þessa endurbyggingu og skyldi engan undra ef teikningarnar eru bornar saman. Hér má sjá hluta af hleðslu  eldri kirkjunnar:.......og veggþykktina!

Svo er það  Magnúsarkirkjan - Múrinn. Vitað er um þrjár kirkjur í Kirkjubæ og eru rústir einnar þeirra sjáanlegar syðst í bæjartúninu (svo vitnað sé í H.P.) Ólafskirkjan er jafnvel talin sú elsta því vitað er með vissu um byggingu Múrsins á árunum 1268 - 1308 í tíð Erlendar biskups. Kirkjan var byggð að forgöngu hans og helguð Magnúsi Eyjajarli. Byggingunni var aldrei lokið, hvers vegna er ekki vitað með vissu en talið að þar tengist erjur innanlands vegna skattaálagna sem byggingunni fylgdu. (enn vitnað í H.P.) Múrinn er mikið mannvirki úr gróflega tilhöggnu grjóti sem límt er saman með steinlími úr skelja- og beinamulningi sem hrærður var saman við smámöl ( H.P.)Þó er talið að messað hafi verið í kirkjunni eða hluta hennar og jafnvel er talið að um tíma hafi verið á henni bráðabirgðaþak úr tré. Fátt er þó vitað með vissu og aðallega byggt á ágiskunum og ályktunum sem seinni tíma rannsóknir hafa getið af sér. Eiginlega, skrifaða sögu vantar.....

Múrinn var orðinn illa farinn eftir aldalanga veðrun og fyrir skömmu var ráðist í lagfæringar á veggjabrotunum til að verja þau skemmdum. Sú vinna stendur enn og er mikið  óunnið. Á meðan er hvert vinnusvæði fyrir sig varið með færanlegri veðurkápu úr krossviði:Hér að neðan er horft til vesturs, aftan á kirkjunrnar tvær, Ólafskirkjuna og Múrinn. Vinstra megin við Múrinn sést í Hestinn, hægra megin rís 478 m. toppur eyjarinnar Kolturs:Bæjarhús að Kirkjubæ með Múrinn og Sandey í baksýn:Líklega er þetta Kirkjubæjarfjósið og ekki alveg nýtt af nálinni. Kirkjubær er ekki bara ein gömul Kóngsjörð með kirkju og kirkjurústum heldur myndarlegt þorp þar sem metnaður er lagður í að hafa hlutina vel útlítandi:Við kvöddum Kirkjubæ og héldum áfram að skoða okkur um. Örnefnið "Gamlarætt" eða Gamlarétt er rétt norðan Kirkjubæjar. Ekki veit ég hvað var á þessum stað áður fyrr eða hvaðan nafnið er dregið en það má lesa sér til um staðinn HÉR. Þarna er, eins og fram kemur í hlekknum, ferjuhöfn fyrir eyjuna Hest og þorpið Skopun á Sandey. Það er "TEISTIN" sem siglir á milli og þar sem ekki er föst viðkoma í Hesti enda íbúar aðeins um 25 og flestir eftirlaunaþegar, þá er einfaldlega hringt eftir ferjunni þegar einhver þarf að komast........Þarna á bryggjunni í Gömlurétt hitti ég mann sem hafði ekki komist til Skopun með Teistunni og þurfti því að bíða næstu ferðar. Hann var alveg slakur þótt hann þyrfti að bíða tvo og hálfan tíma. Sæjuð þið fyrir ykkur æpandi og öskrandi Íslending?Höfnin við Gömlurétt er gerð á svipaðan hátt og önnur slík mannvirki í Færeyjum - með miklu magni af sprengiefni til að gera bás og grjótið síðan notað í varnargarða. Vegurnn niður einfaldlega sprengdur í rás í hamrastálið:

Frá veginum  ofan við Gömlurétt var gott útsýni til Kolturs, þessarrar sérkennilegu eyju þar sem aðeins er eitt sveitabýli með sumarbúsetu og þjónað með þyrlu en ekki ferju:Hér að neðan er norðvesturendi Hestsins og suðausturendi Kolturs. Í forgrunni eru syðstu húsin í Velbastað (sjá kort efst):

Þeir voru að byggja í Velbastað. Þó ekki þetta kúluhús, það virtist vera byggt fyrir alllöngu en byggjandan hefur líklega þrotið örindið á síðari hlutanum og það vantaði talsvert uppá fríðleik byggingar og umhverfis.Það var svona sem þeir voru að byggja núna:Við ókum gegnum Velbastað og ákváðum að fara á vegarenda og mynda þorpið í bakaleiðinni. Vegurinn virtist endalaus, mjór, hátt uppi í hlíð og alls óvíst hvað þessi Syðradalur væri, sem merktur var við endann. Það kom  svo á daginn að það var einn sveitabær:Einn bær í litlum dal við enda langs og hrikalegs vegar sem allur var malbikaður! Að vísu var þetta sísta malbikið sem við ókum á í Færeyjum og það líktist verulega íslenskum innanbæjarakstri - stagbætt og mishæðótt. Samt malbik. Alla leið heim að bæ!

Syðradalur er stórbýli á færeyskan mælikvarða. Það mátti sjá af húsakosti og stærð túna - og svo því að þetta var einn af örfáum, ef ekki sá eini sem átti öll sín tún á flatlendi - eða því sem næst. Þetta er fallegur staður og ekki amalegt að eiga sinn dal fyrir sig. Það er yfirleitt ekki langt á milli eyja (Suðurey er undantekning) og þarna horfum við frá túnum Syðradals yfir á Vogey og líklega er það þorpið Miðvogur sem við horfum til þarna í dálitlu mistri......Þar sem er Syðradalur hlýtur líka að vera Norðradalur - annars væri nafnið tilgangslaust! Þarna í Norðradal eru aðallega útihús og það er horft í átt að einu þeirra. Lengra til vinstri er Vogey:Svo snerum við við og héldum til baka í átt að Velbastað. Nú er horft inn sundið sem heitir Hestsfjörður. Lengst til hægri grillir í Tröllhöfða á Sandey, Eyjan Hestur er fyrir miðri mynd og lengst til vinstri er Sandey:Þegar 25 manna þorpið í Hesti bar á móti okkur var myndavélin stillt á aðdrátt:Svo vorum við aftur komin í Velbastað og kúluhúsið blasti við. Það leyndi á sér, þetta hús og var eiginlega gríðarstórt að samanlögðu flatarmáli. Göturnar voru ekki í stíl og það má taka eftir hallanum sem allt þorpið að heita má, er byggt í:Eftir dálitlar vangaveltur fannst leiðin niður á bryggjuna. Það er ekki mikil útgerð frá Velbastað, ef þá nokkur. Þarna úti á firðinum voru hins vegar ungir menn á aflmiklum harðbotna-slöngubátum og ef marka mátti áletranir á faratækjum þeirra var þarna leigufyrirtæki á ferð:Við dvöldum ekki lengi í Velbastað enda svo sem ekki margt að sjá. Enn lifði talsvert af deginum og við renndum yfir til Þórshafnar og heimsóttum Norðurlandahúsið þeirra - sem er hliðstæða Norræna hússins í Reykjavík.Innandyra stóð yfir sýning á listmunum úr gleri og meðal sýnenda voru tveir íslenskir listamenn:Eftir að hafa skoðað sýninguna og húsið með var kaffiterían vísiteruð og gluggað um leið í færeyskar barnabækur sem þar lágu frammi. Svo lá leiðin aftur út í góðviðrið:

Þegar fór að halla í kvöldmat og maginn fór að senda merki komum við okkur fyrir á smábátahöfninni í Argir. Argir er smáþorp sunnan við Þórshöfn sem orðið er samvaxið og verður að teljast hluti bæjarins - svona rétt eins og Seltjarnarnesið í Rvk. Þarna er önnur aðal smábátahöfnin - hin er í Vesturvági, vestan Þinganess - og sannarlega margt að skoða fyrir áhugamann.Þarna var sjúkrabílnum lagt úti í horni, kveikt upp í eldavélinni og kokkuð upp dýrindis blómkálssúpa. Svo var ekta dönsk lifrarkæfa á Bónusbrauðinu, líklega höfum við verið stærstu kaupendur danskrar lifrarkæfu þessa viku í Þórshöfn. Eftir matinn og frágang (þeir voru með alveg fyrirmyndar þvottaaðstöðu á bryggjunni) var farið í göngutúr á bryggjurnar. Mig minnir að ég hafi tekið fram í upphafi pistlaraðarinnar að einu læstu flotbryggjurnar hafi verið í Fuglafirði. Allavega var það þannig og þarna í Argir, þar sem sannarlega margir ganga um, var ekki talin ástæða til að læsa bryggjum. Ég sá þarna marga ákaflega fallega báta - og aðra miður fallega - en Elín Huld kolféll fyrir henni "Thomasíu" enda ákaflega krúttlegur bátur, svo notað sé hennar orðalag.:

Það dugðu ekki færri en þrjár myndir fyrir Thomasíu, og líka að kíkja á gluggana. Hún var eins inni og úti - sannkölluð mubla:Af trébátunum valdi ég þennan í fyrsta sæti. Hann er kannski ekki krúttlegur, frekar svona þungbrýnn. Valið var samt erfitt því þeir voru margir fallegir og greinilegt enn og aftur að Færeyingum hefur ekki legið lífið á að henda öllum bátum úr tré:Eftir fegurðarsamkeppni súðbyrðinga í Argir ókum við upp í hæðirnar þar sem nýjustu hverfi Þórshafnarbúa standa - og þar sem áhrif kreppunar voru hvað sýnilegust eins og fyrr sagði, í tómum grunnum, byggingakrönum, steypumótum og fleiru. Allt um það er útsýnið stórkostlegt þarna ofan frá:

Það var samt of snemmt að fara í háttinn svo við renndum niður í bæ og lögðum bílnum á "átta tíma stæði" ofan við Vesturvoginn. Þeir voru komnir þangað líka, Sea Shepherd félagarnir og lögðu undir sig ekki færri en fimm og hálft bílastæði:Það var kyrrt og stillt við Vesturvoginn og lá við að maður finndi regnúða í loftinu. Samt rigndi ekki. Ég hef áður birt myndir líkar þessum tveimur, líklega í fjórða hluta en það gerir ekkert til:

Þessi hefur hins vegar ekki birst áður og það má giska á myndasmiðinn:Við eyddum því sem eftir lifði þessa síðasta kvölds í Færeyjum í "gömlugatnarölt" og þar var sem fyrr af nógu að taka.Þessi elti okkur um tíma en skildi ekki íslenskar kisugælur og gafst upp á endanum:Þetta hús sáum við tilsýndar. Á því stendur "Rabarbuhúsið". Vilji einhver vita hvað þar fer fram má eflaust finna skýringuna HÉR. Húsið var afar fallegt og sama má segja um öll sem næst stóðu:Það er ekki alveg trjálaust í Þórshöfn - þvert á móti er þar fjöldi fallegra trjáa sem einhverjum finnst kannski ekki ríma við klettótt umhverfið. Það virðist þó vera nægur jarðvegur á milli.

Við höfðum ætlað okkur að finna SMS vöruhúsið, Smáralind Þórshafnarbúa en fundum það ekki í þessarri gönguferð. Við fundum hins vegar Villumsgötu sem var miklu flottari en nokkur Smáralind. Gatan leiddi okkur áfram niður í kjarnann ofan við höfnina................og allt í einu vorum við komin að Stephanssons - húsi, sem áður hefur birst mynd af:
Þar með var komið að því að finna náttstað og vegna þess að við höfðum ákveðna áætlun fyrir morgundaginn - sem var miðvikudagur og síðasti dagur okkar í Færeyjum - þurftum við að vera eins nærri bænum og mögulegt var. Við létum slag standa og völdum okkur náttstað við hlið yfirgefinnar tækjaskemmu í efstu brúnum Þórshafnar, þar sem, eins og sagði hér ofar,  þeir höfðu verið að byggja nýtt hverfi þegar þeirra kreppa skall á. Framkvæmdir höfðu stöðvast að mestu og þarna var í bland ný og fullbyggð hús, hálfbyggð hús, húsgrunnar, mótatimbur, flekar og rúðulausar vinnuvélar. Til viðbótar við allt upptalið var svo eitt  bátsflak - svona svo ekkert vantaði!  Það bar lítið á ferðadrekanum við hlið skemmunnar yfirgefnu og við sváfum sætum svefni til morguns.

Næst: 10. hluti, miðvikudagur. Síðasti dagur í Færeyjum.

...........................................................

07.08.2014 08:39

Skriður á bretti....


( Í upphafi er rétt að taka fram að 9. hluti Færeyjaferðar er í burðarliðnum )


Stakkanesið fékk skriðbretti um leið og það kom í Hólminn. Mig hafði lengi langað að prófa hvort þess háttar apparat myndi gera eitthvað fyrir ganghraðann og réðist því í hönnun og smíði þess í vor.

Jájá, það má alveg brosa út í annað að orðalaginu en sannleikurinn er sá að það tók mig talsverðan tíma að fá brettið til að fylgja botnlaginu. Norðmenn eru klárir að mörgu leyti en þegar þeir smíðuðu Stakkanesið (og ótal systurskip þess) þá hefðu þeir gjarnan mátt vanda sig örlítið meira því skuturinn er ekki alveg samhverfur. Það var allavega mín niðurstaða eftir að hafa mótað hann - þ.e. skutinn - í masonite, fyrst annan helminginn, svo hinn og loks báða í einu. Í öllu falli tók það dálítinn tíma fyrir tvær hendur að fá allt nokkurn veginn rétt.

Framhaldið var svo fengið að láni frá Færeying sem Vélsmiðja Ísafjarðar átti á sínum tíma og hét ÝR. Á þann bát var smíðað stillanlegt skriðbretti úr áli og það síðan stillt í þá stöðu sem best virtist virka við prófun. Þegar ÝR seinna forframaðist og fékk flotkassa úr plasti fékk karl faðir minn þetta álbretti á JÓA sinn, sem var samskonar Færeyingur og eflaust er það þar enn.

Stakkanesið fékk samskonar bretti en þó úr mótakrossviði og ívið stærra að flatarmáli. Skemmst er frá að segja að eftir vangaveltur í höfninni hér í Hólminum og nokkrar prufusiglingar út fyrir Súgandisey var brettið fastsett í eina stillingu sem skilaði hálfrí mílu til viðbótar í gangi á sama snúningi. Auk þess á vélin miklu auðveldara með að ná upp viðbótarsnúningi og með lítilli snúningsaukningu nær báturinn 6,1 sjómílu en náði aldrei meiru en 5,3 áður.

Ég fékk aukahendi frá syninum Arnari Þór við að setja brettið á hér í höfninni og prófa það. Hann tók svo stutt vídeó af Stakkanesinu á leið inn í höfnina á 5,8 mílum áður en slegið er af. Munurinn á því hvernig báturinn liggur í sjó eftir tilkomu brettisins er afgerandi. Smellið á hlekkinn:


Síðan hefur verið stöðug vindgjóla og lítið hægt að sigla......því miður!
-----------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------

Allt ofanritað er skráð í morgun - miðvikudag 7.ágúst. Spá dagsins boðaði vind sem í morgun lét ekki sjá sig og þegar leið á morguninn var ákveðið að leysa landfestar og sigla spöl með krílið Bergrós Höllu sem kom akandi í Hólminn í gær til að eyða tveimur nóttum hjá öldruðum foreldrum sínum! Það var ákveðið að sigla inn að Hvítabjarnarey, siglingin tók sirka tólf mínútur og fyrst þangað var komið - í hvítalogni - var snúið til norðurs, siglt fram hjá Miðleiðarskeri í mynni Breiðasunds og stefnt á Seley suðaustan við Hrappsey. Þaðan var siglt inn á sundið milli Hrappseyjar og Purkeyjar og skoðaðar stórkostlegar stuðlabergsmyndanir í Purkey.


( Þessa mynd tók ég reyndar á sjómannadaginn 2009 af Baldri. Stuðlabergið í Purkey er óbreytt...)


Frá Purkey var haldið að Dímonarklökkum og siglt inn á voginn milli þeirra og Stekkjareyjar. Það var komið aðfall og talsvert straumhart þegar við sigldum út af voginum og upp með klökkunum. Þaðan var svo snúið suður á við og siglt vestur fyrir Skörðu með beinni stefnu á Þórishólma, í síharðnandi straumi og sívaxandi vindi. Við hólmann var stutt stopp meðan mæðgurnar skoðuðu fuglalífið en síðan siglt síðustu tíu, tólf mínúturnar inn á Stykkishólmshöfn. Þegar þangað kom hafði siglingin frá Klakkeyjum tekið réttan klukkutíma en ferðin í heildina tæpa þrjá.


Þessi eina ferð "borgaði" alla fyrirhöfnina - og alla biðina - við að koma bátnum upp í Hólm......og gott betur.

04.08.2014 10:31

Hversu mörg G? Ég er að reyna að setja inn færslur hér í Stykkishólmi en það gengur ekki neitt. Ég er með sama netpunginn og alltaf - enda hef ég ekki aðra tengingu við netið, hvort sem er í Rvk eða annarsstaðar - og virknin hér í Hólminum er nánast engin. 

Einu sinni spurðist ég fyrir um það hjá Símanum hvers vegna búnaðurinn þeirra virkaði engan veginn eins og auglýst væri og hvað væri til bóta. Ég fékk engin svör.

Svo þegar ég var nýkominn frá Tálknafirði úr einhverri landsreisunni og þar hafði tekið um tíu mínútur að hlaða inn forsíðu mbl.is, þá fór ég í þjónustuver Símans, spurði enn einu sinni um ástæðuna og var reiður. Fyrir svörum varð fermingardrengur sem útskýrði fyrir mér að ef það logaði grænt ljós á pungnum hefði ég aðeins svokallaða 2G tengingu - sem væri slæmt. Ef hins vegar logaði blátt ljós væri ég með 3G - sem væri gott. Þetta fannst mér ágæt skýring og hún tók öllu fram sem mér hafði áður verið sagt. Samt var ekki hægt að útskýra hvers vegna staður eins og Tálknafjörður byði aðeins uppá 2G tengingu því svoleiðis tenging virkar bara hreint ekki neitt!

......og nú, nokkrum árum síðar er ég í Stykkishólmi að reyna að nota þennan sama pung - en að vísu með uppfærðu símakorti - og hann virkar nær eingöngu sem 2G!!

Þetta segir mér að það hljóti eitthvað mikið að vera að hjá þessu fyrirtæki, Símanum....

Er ekki annars 2014?  Er þetta fyrirtæki enn að reisa tréstaura hér kringum Stykkishólm og hengja á þá koparþræði? Hvers vegna fær maður ekki þá þjónustu sem maður borgar fyrir? 

Helvítis helvíti........

Á meðan verða Færeyjar að bíða....

02.08.2014 11:08

.......og það flaut!


Það var komið fram um hádegi í gær þegar litli blái bíllinn var fylltur af farangri og snúið áleiðis í Hólminn með lögskipaðri viðkomu í Geirabakaríi í Borgarnesi.


Föstudagur fyrir verslunamannahelgi, blíðviðri í Hólminum og Stakkanesið á vagninum. Semsagt allt tilbúið fyrir sjósetningu. Við tókum við húsinu seinnipart dags eftir kaffisopa hjá Gulla og Löllu - nokkuð sem er fastur liður við hverja komu í Hólminn. Síðan þurfti að kaupa matarbirgðir til helgarinnar og koma fyrir í skápum ásamt öðrum farangri sem fylgir. Eftir kvöldgrillið var svo tekið til við Stakkanesið. Það þurfti nokkur handtök til því báturinn hefur ekkert verið settur á flot í sumar. Það þurfti að taka landbátinn Fagranes ofan af, þar sem hann hafði verið rígbundinn fyrir flutninginn. Síðan þurfti að setja upp laus rekkverk, koma rafgeymum um borð og öðrum tækjum sem geymd eru innanhúss yfir veturinn. Eftir allskonar smálegt klapp og klór var svo komið að því að sjósetja. Rennan í Skipavík var reyndar í notkun allt kvöldið því verið var að sjósetja nokkra slöngubáta eyjafólks sem var að koma til helgardvalar í sumarhúsum. 
Svo kom að okkur og það var bakkað niður í rennuna, kubbar settir fyrir hjólin og dráttarkaðallinn festur milli vagns og bíls.Tjakkað undir vagninn og losað af kúlunni:Strekkt á kaðlinum, kubbarnir teknir frá vagninum og látið síga í sjó:Þegar ekki hefur verið sett í gang eftir langa stöðu er vissara að hafa spotta milli báts og vagns, svo maður fljóti nú ekki upp vélarvana og reki um allan Breiðafjörð!En sem betur fór voru það óþarfar vangaveltur, vélin datt í gang og Stakkanesið rann á flot. Því var lagt við bryggju meðan gengið var frá vagninum uppi á kanti:Eftir það var ekkert að vanbúnaði og lagt var af stað í langþráða siglingu!

Þessi fyrsta sigling var þó ekki löng enda átti hún ekki að vera það. Ég sigldi sundið milli Landeyjar og lands enda styst þar yfir í höfn. Í huganum er ég búinn að sigla þessa leið svona þúsund sinnum...........Flóðið var uppúr klukkan tíu og það var farið að rökkva talsvert þegar sundið var siglt. Elín Huld gerði sitt besta í heimildamyndatökum en samt urðu myndinar hálfóskýrar - sérstaklega þær sem teknar voru úr fjarlægð:Þetta var dálítð skrýtin tilfinning - þarna voru allir hlutir gerðir í fyrsta sinn en þó ekki, því þegar menn eiga til að mikla fyrir sér einfalda hluti eins og ég viðurkenni fúslega, þá er maður búinn að fara yfir og skipuleggja ferlið sekúndu fyrir sekúndu. Mér fannst því eiginlega ekkert nýtt við þetta:Úti við Skipavík var vatnsslanga á bryggjunni en því miður ekki hægt að komast að krananum fyrir hana. Í höfninni voru hins vegar margar og á þessarri bryggju var ein sem gott var að komast að og skola mesta skítinn af bátnum: 

Þá var að leggja að bryggju. Ég hafði talað við hafnarvörð þegar ég kom í bæinn og fékk leyfi til að leggja við innstu flotbryggjuna. Staðsetningin var nokkuð frjáls og mér fannst tilvalið að leggja utan á þennan laglega, gula Skagstrending:

Ég segi það enn og aftur: Það er fullkomnað!.....takk, Elín, fyrir hjálpina og myndinar......
...............................................................

  • 1
Flettingar í dag: 50
Gestir í dag: 34
Flettingar í gær: 111
Gestir í gær: 45
Samtals flettingar: 642782
Samtals gestir: 91884
Tölur uppfærðar: 23.1.2019 04:07:41


Tenglar