Gunnar Th.
Fjórða kerfið.....


17.02.2013 09:55

Samtíningur

Bergsveinn Skúlason bóndi og rithöfundur, sem skrifaði marga perluna um mannlíf og staðhætti við Breiðafjörð, nefndi eina af bókum sínum Útskæfur. Með nafninu vildi hann meina að innihaldið væri nánast upphreinsun á afgangsefni fyrri bóka, og kannski léttvægara fyrir vikið. Þeir sem lesið hafa Útskæfur Bergsveins eru hins vegar eflaust sammála mér um að sú bók standi þeim fyrri ekkert að baki, nema síður sé. Enda var Bergsveinn alls ekki að ljúka Breiðafjarðarskrifum með Útskæfunum. Eftir þá bók átti enn eftir að koma úr hátt í tugur annarra um svipað efni, breiðfirskt í öllum sínum myndum.

Ég er enginn Bergsveinn þó ég noti þennan titil. Bækurnar hans eru hins vegar biblíurnar mínar og eftir því sem áhugi manna eykst á Breiðafirðinum, umhverfi og sögu öðlast þær aðeins enn meira gildi en áður.

Mig langar hins vegar að skafa aðeins meira úr þessum potti sem gömlu myndirnar hans pabba eru geymdar í. Hér neðar hafa aðallega birst bílamyndir, kíkjum aðeins á skipin:



Hmmm.....Kannski ekki mikið um skip á þessarri - og þó, þarna er Guðmundur heitinn Júní upp á endann í Suðurtanganum. Svona lá hann árum saman engum til gagns og sannarlega fáum til ánægju. Svo er þarna röð báta ofan við Naustið, sá sem næstur var hét Þráinn og lá á bb.síðu. Ofan við hann lá einn Samvinnubátanna, líklega Auðbjörn, og hallaði í stjór. Þessir tveir öldungar lágu með stýrishúsin saman og studdu hvor annan í ellinni. Við bb.hlið Auðbjarnar lá svo nokkru minni bátur án allrar yfirbyggingar og hallaði á bak. Þarna var líka Sigurfari Hrólfs Þórarinssonar, átta tonna norskur bátur sem upphaflega hét Einar Hálfdáns ÍS 11. Nokkrir fleiri lágu á kambinum en efstur var sirka fjögurra tonna súðbyrðingur, opinn með lúkar og afturbyggingu, hét Haförn og var mitt uppáhald. Í honum lék ég mér mest og þeir voru ófáir, dagarnir sem ég hjólaði niður í Suðurtanga til að leika mér í Haferninum. Haförn var með "rúnnaðan" hvalbak og það þótti mér sérstaklega flott. ( hefur einhver séð hvalbakinn á Stakkanesinu?) Í tímans rás hurfu þessir bátar á bálið einn og einn, en sagan lifir......

Í forgrunninum er lengst t.v. húsið þeirra Hallgríms Jónssonar frá Dynjanda (sem átti báta á búskaparárunum norðurfrá) og Sigurjóns Hallgrímssonar (sem átti m.a. bát sem hét Dynjandi). Næst er nýbyggt húsið hans Helga Geirmunds (sem átti marga báta) og neðan við það er hús Braga Þorsteins. Innan við hús Braga er svo Jóhann T. Bjarnason kaupfélagsstjóri að byggja Sætún 5, ef ég man rétt. Kannski er þetta líka missýning, þetta gæti allt eins verið húsið hans Sverris Hestnes, næsta innan við Helga Geirmunds. "Hífukraninn" hans Helga er þarna líka, svo og garðshliðið að Seljalandsvegi 68.....




Þessi hefur nú birst áður og þarf ekki mörg orð um hana. Þetta er hún Gunnhildur, sem þarna tók ótímabært land undir Óshlíðinni. Þeir hafa nokkrir fengið slæm legusár af því að hvíla sig þarna og er skemmst að minnast stórskipsins Guðbjargar ÍS, sem tók óvart sjálfstæða stefnu rétt undan Óshlíðinni á útleið. Svo stutt var í land og svo mikil var ferðin á Guggunni að þótt togað væri í allar bremsur þegar sú gula skellti stýri í borð þá dugði ekkert til og Guggan og Óshlíðin kysstust samt - það var sem betur fór hálfgerður vinarkoss því Guggan slapp lítt sködduð, en eitthvað þó. Svo mátti lengi sjá útundir Sporhamri vél liggjandi í fjörunni. Ég hafði fyrir satt að hún væri úr Borgþóri, bát sem mun hafa verið siglt þar upp vegna leka, muni ég rétt. Það er útúrdúr og vonandi leiðréttir mig einhver ef ekki er farið rétt með. Gunnhildur endaði ekki ævina þarna undir hlíðinni, þrátt fyrir að virðingarverðar heimildir greini svo frá. (Þrautgóðir á raunastund). Hún átti langa ævi fyrir höndum (eða stafni) þótt endirinn yrði sorglegur, en það er önnur saga.



Sjáiði bara!



Ég veit, ég veit! það er ekkert skip á þessarri mynd! Það sem er samt skemmtilegt er að ef myndin væri tekin aðeins meira til hægri þá sæist á henni flakið af honum Kristjáni gamla, sem Björgvin Bjarnason átti í félagi við fleiri. Kristján ÍS 125 var upphaflega EA 390, þetta var eikarbátur, byggður í Noregi 1919, keyptur vestur ´61 og rak upp í Langeyrina í ársbyrjun ´64 eftir að hafa slitið legufæri. Báturinn lá á stb. síðu og sneri stefni upp í bakkana ofan eyrinnar, það var ótrúlega auðvelt að komast um borð í hann og leika sér. Hann Kristján er þarna, hann bara sést ekki á myndinni - því miður.



Þetta eru nú eiginlega ekki skip, heldur meira svona bátar, eða þannig. Myndin er tekin á Ingjaldssandi og auk bátanna og braggans eru á myndinni pabbi og Saabinn hans, en um Saabinn veit ég meira en bátana. Hann var árg. ´67, sem var víst fyrsta ár fjórgengis-Taunusvélar í Saab, hann var blár og fyrrum forstjórabíll hjá tryggingafélaginu Ábyrgð (en þetta atriði var alla tíð ákaflega mikilvægt). Sá sem eignaðist Saabinn eftir okkur hét Hergeir, bjó á neðri hæðinni á Engjavegi 33, vann hjá bænum og fluttist síðar til Akraness (með Saabinn)

Ég kjafta svo mikið að ég kemst ekkert áfram með myndirnar!



Þessa hef ég líka birt einhverntíma áður. Hún er tekin inni við gamla Shellportið á Stakkanesi. Bletturinn sem tankarnir stóðu á er líklega neðan við raðhúsin Stakkanes 16 og 18. Suðurtanginn er óbyggður en sjá má húsin handan fjarðar, á Naustum, bera við reykháf skipsins. 

Skipið hét "Eikhaug", var norskt og sem niðurlag ætla ég að setja hér undir smápistil sem ég gróf upp af netinu fyrir margt löngu. Í honum má lesa allt um endalok þessa skips, ef einhver hefur áhuga. Miklu meira síðar........


 Final Fate - 1941: 


Eikhaug met her fate when she was torpedoed by the fast attack boat S-52 (Karl Müller) of the 4th Flotilla in the early morning hours of Sept. 7-1941 while on a voyage in Convoy EC 70 from Southend, bound for Grangemouth with a cargo of 1745 tons cement (loaded at Cliffe), having departed Southend the day before. This convoy is available via the external link provided at the end of this page; the Norwegian
Skum is also listed.

According to "Nortraships flåte" the escorting Versatile saw a fast vessel approaching the convoy, but hesitated to take action for fear of attacking friendly forces, since the boat was seen passing only 400 meters from a patrol boat, which showed no signs of alarm. By the time Versatile had determined it was an enemy vessel it was already too late; 4 torpedoes were observed, and immediately afterwards, Eikhaug and the British Duncarron were hit (S-50, Karcher, also of the 4th Flotilla).

4 men, who were asleep in their cabins, awoke from the explosion and ran to the deck to find the afterpart under water. They all jumped overboard and when they came to the surface their ship was gone. They were able to cling to the remains of the hatches floating up, until they were picked up 15 minutes later by the escort (Versatile? 3 were picked up by the same destroyer, the 4th survivor, O. Skagen was rescued by a different destroyer). They thought they had heard cries from others in the water, but no others could be found.

12 Norwegians, including captain Nygård, 2 British and 1 Spanish seaman died. 10 of the crew members had just been signed on in London a little over a week previously.

The survivors were landed in Lowestoft where Stoker Skagen was admitted to a hospital having received minor injuries. The other 3 continued to London where the maritime hearings were held on Sept. 16.


lllllllll

04.02.2013 09:22

Kaupfélagsbíllinn.

Mér skilst að árin uppúr 1960 hafi verið þröngt um atvinnu á Ísafirði. Þegar hafnarbótum var lokið Pollmegin og flugvöllurinn á Skipeyri fullgerður hefur trúlega dregið talsvert úr verkefnum vörubílstjóra og fátt annað að hafa en vegavinnukropp og snatt kringum vöruskipin. Í þessu sem svo mörgu öðru var það síldin sem réði, brygðist hún dró úr tekjum þjóðarbúsins og þar með opinberum framkvæmdum svo sem nýbyggingum og viðhaldi vega. Gæfi síldin sig hins vegar var aukið í á öllum sviðum og þá fylgdu oft stórframkvæmdir í kjölfarið, mann- og tækjafrekar. Það voru byggðar hafnir, lagðir vegir og það var virkjað.

Við fjölskyldan bjuggum í nýbyggðu stórhýsi - á þess tíma mælikvarða - innarlega við Seljalandsveg. Húsið hafði kostað skildinginn og trúlega hefur mest af þeim góðu tekjum sem pabbi vann sér inn við byggingu radarstöðarinnar á Straumnesfjalli farið í bygginguna, auk einhvers hluta andvirðis gamla hússins að Hrannargötu 3.



Samdráttur í vinnu á sama tíma og flutt var í nýja húsið var engin óskastaða og stopul innkoma á Ford F-600 vörubílinn sem keyptur var nýr fyrir verkið á Straumnesfjalli, dugði ekki til að standa straum af skuldum og rekstri heimilisins. Það varð úr að pabbi seldi Fordinn út í Hnífsdal og fékk vinnu á nýbyggðu bílaverkstæði þeirra Halldórs Halldórssonar - Dúdda Hall -  og Jóhanns Péturs Ragnarssonar. Þeir félagar voru stórhuga og reistu veglegt verkstæðishús í hlíðinni inn við Stakkanes eftir að hafa um árabil rekið verkstæðið í lágreistum skúr við Fjarðarstræti. Verkstæðið við Seljalandsveg var raunar tekið í notkun hálfklárað, húsið skyldi verða tvílyft en fyrst um sinn var neðri hæðin látin duga, sú efri var ekki reist fyrr en alllöngu síðar. Ég man eftir þessari vinnuaðstöðu þó ég hafi aðeins verið fimm eða sex ára þegar hún var tekin í notkun - ópússaðir og ómálaðir útveggir, hurðir úr tréflekum, stöku ljósaperur hangandi úr loftum og upphitunin léleg loftmiðstöð. Húsið var nánast eins og fokhelt innan og þessar vinnuaðstæður - að kúldrast í kulda og myrkri undir bílum liggjandi á krossviðarplötu - voru mikil viðbrigði fyrir mann sem lengst af hafði verið sjálfs síns herra. 

Mamma lagði sitt af mörkum og fór að vinna hjá Pósti og Síma. Þar var hún flestum hnútum kunnug, hafði unnið á símanum sem unglingur og líkað ágætlega.

Eftir stutt, vörubílslaust tímabil ( þar sem sá gamli vann á nýja verkstæðinu hjá Dúdda og Jóhanni Pétri - það voru eins og segir ofar verkefnaleysisár fyrir vörubíla eftir 1960)  keypti pabbi annan af Chevrolet-vörubílum Kaupfélagsins, þann yngri sem þá hafði verið lagt í kolaportinu með úrbrædda vél. Sá var svo lagfærður í húsi Vegagerðarinnar við Hjallaveg og fékk nýjan, vínrauðan lit í stað þess ljósbláa sem hann bar áður. Vélin var tekin úr og send til Þ.Jónssonar hf. í viðgerð. Þeir voru reyndar eitthvað kunnugir, pabbi og Þórir Jónsson af fyrri viðskiptum og pabbi vissi Chevroletvélina í góðum höndum syðra.



Það þurfti fleira að gera fyrir Chevroletbílinn, s.s. að smíða ný skjólborð oþh. Eftir mikið klapp og margar strokur var svo bíllinn tekinn í notkun og verkstæðiskúldrinu lauk þar með. Pabbi kunni hvergi betur við sig en undir stýri og hann vildi frekar gera út lítinn, úreltan pakkhússbíl og vera sjálfs síns herra en liggja á bakinu undir druslum með ljósahund í annari og skiptilykil í hinni. Á þessum tíma voru vörubílstjórar vestra óðum að "uppfæra"  atvinnutækin sín. Jafnframt létu bensínbílar undan síga og viku fyrir dísilbílum.  Baldur Sigurlaugs seldi Doddsinn sinn og keypti rauðan Bedford, Halldór Geirmunds einnig.



 Óli Halldórs, sem sést hér á myndinni, seldi gamla bensínfordinn og keypti grænan Bedfort með Perkinsvél.



Halldór Ólafsson, Halli Óla (hér ofar) skipti úr bláhvítum Chevrolet yfir í bláhvítan Benz sem áfram bar númerið Í-210 og Hörður Ingólfs dubbaði gamlan Scanía-flutningabíl upp sem pallbíl. Einhverra hluta vegna gekk sá bíll alltaf undir nafninu Gullkálfurinn.........

Gamli Kaupfélagsbíllinn (já, hann var gamall þrátt fyrir að vera árgerð ´57 og því ekki nema sjö, átta ára) stóð fyrir sínu með nýuppteknu vélina. Hann gat flest sem hinir gátu og skilaði hverju verki prýðilega og án teljandi bilana. Það kom þó að því að Vegagerð Ríkisins, sem var helsti vinnuveitandi  vörubílstjóra yfir sumartímann, tregðaðist við að taka svo litla bíla í vinnu þegar stærri buðust.




Með þetta nýja vandamál í augsýn var tekin kúvending í framtíðaráætlunum fjölskyldunnar í nýbyggða húsinu við Seljalandsveg. Nú skyldi allt selt, bæði bíll og hús. Fyrirheitna landið lá sunnan heiða - Reykjavík.

Húsið seldist fljótlega og varð læknisbústaður um árabil. Chevrolettinn seldist líka, kaupandinn var Eggert Lárusson skipasmiður og verkstjóri í Torfnesslippnum. Eggert átti bílinn mörg ár og líklega var hann síðasti eigandinn. Í öllu falli man ég ekki eftir bílnum í annarra höndum.

Í september 1966 var lagt upp í suðurferðina og Ísafjörður kvaddur. Þar með lauk heilum kafla í vörubílsútgerðarsögu pabba. Sögunni sjálfri var hins vegar hreint ekki lokið. Framhaldið er önnur saga.......

01.02.2013 21:37

Líkbíllinn.

Lengi vel mun ekki hafa verið til neinn líkbíll á Ísafirði. Þegar flytja þurfti kistur milli staða var notast við pallbíla, og þá jafnan reynt að velja bíla sem litu áberandi vel út - voru nýlegir eða betur hirtir en gekk og gerðist. 

Það var að vísu ekki löng leið milli líkhússins (í kjallara gamla sjúkrahússins), kirkjunnar og garðsins og kannski ekki þörf á  sérstökum bíl í þann akstur. Hins vegar voru húskveðjur algengar hér áður fyrr og þá var kista þess látna flutt heim til kveðjunnar og að henni lokinni á næsta áfangastað - væntanlega þá til kirkju. Þetta gat allt eins verið talsverð leið og á engan leggjandi að bera kistu á höndum um þann veg. 

Hann þótti jafnan vel hirtur Volvo vörubíllinn sem bar númerið Í-140, og ósjaldan var gripið til hans af ofangreindu tilefni. Þá þótti hæfa að festa fánastöng eða-stangir fremst á pallinn, en sjálfur pallurinn var svo klæddur sérstökum dúk. Myndin hér að neðan er tekin fyrir eða eftir slíkan akstur. Myndin er tekin ofan við Sólbrekku á Stakkanesi og húsið í baksýn er Seljalandsvegur 84a. Takið eftir skjólborðinu sem liggur í forgrunni og ofan á því festiboltarnir við framgaflinn:


Það má vel birta aðra mynd af þessum fallega Volvo, fyrsta vörubílnum sem pabbi eignaðist. Myndin er flott uppstilling, bíll og bílstjóri báðir í sínu fínasta. Sem fyrrverandi skoðunarmaður farartækja geri ég þó alvarlegar athugasemdir við skermun hjóla að aftan en telst varla marktækur þar sem ég er aðeins fyrrverandi.....



Opinn vörubílspallur er kannski ekki hentugasti flutningsmáti á líkkistu í misjöfnum veðrum og með árunum var farið að nota yfirbyggðan Ford pickup sem Bjössi Guðmunds (pabbi Jónasar á dekkjaverkstæðinu) átti. Sá bíll var ekki svartur að lit heldur tvílitur, vínrauður og drapplitur. Seinna eignaðist sóknarnefndin bílinn og þá var hann dubbaður upp sem almennilegur líkbíll, málaður svartur og merktur með krossum. Muni ég rétt var hann geymdur milli athafna, í skúr við Fjarðarstræti neðanvert. 

Ekkert er eilíft, ekki einu sinni líkbílar. Þegar nýi grafreiturinn inni við Engidal var tekinn í notkun hefur gamli átta gata Fordinn (sem var þá raunverulega orðinn fornbíll) líklega þótt bæði frekur á fóður og eins fúinn til ferðalaga. Hann var því leystur af hólmi með stórum, svörtum International dreka, einhvers konar viðameiri útgáfu af Scoutjeppa og síðar -ef ég man rétt- japönskum hrísgrjónabrennara sem satt að segja var ákaflega lítið sjarmatröll og stóðst í þeim skilningi engan samanburð við ameríska bensínhákinn. Fordinn var seldur og kaupandinn var fyrrum vinnufélagi minn, Jón Elíasson frá Reykjavík. Nonni Ella skrattaðist á líkbílnum um götur Ísafjarðar í einhvern tíma en hvarf svo til fyrri heimkynna syðra og Fordinn með. Er hann þar með úr sögunni.

Eða hvað............????

Nei ekki alveg!  Árið 2011 var ég á ferðinni inn með Akrafjalli norðanverðu á öðrum svörtum Ford, líka amerísku sjarmatrölli þó annars eðlis væri. Ég stöðvaði úti í vegkanti til að taka myndir yfir Melasveitina og Leirárvoginn en tók um leið eftir ólögulegri ryðhrúgu innan girðingar fjallmegin við veginn. Forvitnin var vakin og ég klifraði yfir girðinguna til að skoða betur það sem þarna lá og hafði auðsjáanlega eitt sinn verið bíll. Ekki þurfti ég lengi að líta til að þekkja gamlan kunningja - ísfirska líkbílinn Ford F-1. Nonni Ella var hvergi nálægur enda hafði lík bílsins greinilega legið þarna svo árum skipti.

Hvað ætli eilífðin sé annars löng??






Ég var búinn að birta færsluna þegar Ásgeir Jónsson í Sandgerði minnti mig á Nallann sem var líkbíll næst eftir Fordinn. Ég tróð honum því inn í textann eftirá.
 Eitt að lokum um síðustu færslu: Vitarajeppinn framan við ameríska "hjólhýsið" er ekki hrossadráparinn minn heldur einhver alókunnugur jeppi. Ég rak augun í þetta myndefni af tilviljun fyrir nokkrum árum, fannst það hreint stórkostlegt dæmi um endalausa bjartsýni - og tók mynd!

14.01.2013 19:01

Jú, þetta er allt að koma....

Þeir þarna virðast hafa lagað það sem hrjáði kerfið svo myndirnar birtust aftur og það sem aflaga fór virðist komið í lag. Hér í Höfðaborg ríkir hálfgerð kyrrstaða - það er búið að taka niður jólin, eins og hjá flestum en vetrarverkin eru ekki hafin aftur að neinu marki. Ástæðan? Jú, kannski er ég einfaldlega of latur til að byrja. Það eru nokkur "smáverkefni" sem þarf að ryðja til hliðar áður en hægt verður að taka til hendinni að nýju við vörubílinn, sem á að flytja Stakkanesið milli landshluta. 

Það eru komnar nokkrar nýjar myndir á símann sem ég þarf að flytja yfir og birta. Myndefnið er úr ýmsum áttum eins og gengur, flest þó bátatengt. 

Það er ekki ætlunin að skrifa langloku að þessu sinni, heldur aðeins að sannprófa hvort kerfið virki ekki örugglega. Sé allt eins og það á að vera er von á nokkrum myndum á næstunni. Ég skal nefnilega upplýsa eitt: Ólíkt flestum hér syðra bíð ég eftir nógu andskoti slæmu veðri svo ég geti með góðri samvisku setið inni í hlýjunni og skannað inn á tölvuna eitthvað af þeim hundruðum -ef ekki þúsundum- ljósmynda sem við EH tókum á ferðum okkar um landið eftir suðurflutningana ´99 og fram til þess tíma sem við eignuðumst fyrstu digitalvélina og hættum, illu heilli að láta framkalla myndirnar okkar. Efnið er allt aðgengilegt í albúmum, vel uppsett og merkt. Að gefnu tilefni vil ég nefna að það er ekki allt mér að þakka.....

Myndina hér fyrir neðan tók ég fyrir nokkrum árum. Henni er einfaldlega ætlað að sýna að með mátulegri bjartsýni er ekkert ómögulegt.

Stay tuned, eins og þeir segja í útlandinu og gæti sem best þýtt: "Verið stillt"


04.01.2013 19:26

Ég veit ekki....

......kannski er enginn tilgangur í að setja færslur hingað inn þegar bæði einstakar myndir og heilu albúmin týnast og hverfa. Það vantar hausmyndina og nokkrar þeirra sem settar voru inn fyrir jólin, eins og sjá má hér neðar. Ég hef ekkert gert sem gæti orsakað þessi hvörf, ekkert verið að breyta neinu eða gert neitt öðruvísi en vanalega. 

Ég bara skil þetta ekki!

Blogcentralkerfið var orðið ónýtt vegna áhugaleysis stjórnendanna sem sinntu lítið sífelldum bilunum og vandræðum sem upp komu. Vísisbloggið var eilíft vandamál vegna myndavistunar (auk þess að vera í sömu höndum og -blog.central-). Ég hélt því að ég hefði leyst öll vandamál með því að kaupa mér aðgang að kerfi sem flestir mér kunnugir notðu með ágætum árangri, að  því er virtist. Að vísu varð ég var við hnökra hér líka en það virtist þó vera áhugi fyrir að halda síðunni í lagi og notendum ánægðum.

Hvers vegna þetta á ekki við mitt blogg líka veit ég ekki. Ég veit það eitt að það er mikil vinna að setja inn myndskreytta pistla  og ég hef hreinlega ekki tíma til að setja sömu pistlana og sömu myndirnar inn mörgum sinnum. Ég bendi á pistil frá maí í vor með titlinum "Í fylgd með fullorðnum" sem dæmi um ónýta vinnu, þar sem allar myndir pistilsins eru horfnar, þrátt fyrir að vera enn til á tölvunni minni.

Gleðilegt ár.


25.12.2012 09:56

Gleðileg jól enn einu sinni!

Þetta verður ekki löng færsla - aðeins svona rétt til að óska öllum gleðilegra jóla. Farsæla komandi árið kemur svo eftir nokkra daga.

Hamfaraveður spárnar sem dengt var yfir okkur hér syðra nú undir jól hafa ekki gengið eftir. Á tímabili var ég að hugsa um að sækja Stakkanesið, setja það niður hér fyrir utan og jólskreyta uppúr og niðurúr. Þorláksmessuspáin hljóðaði uppá tuttuguogeinn meter og slydduhraglanda, aðrir nálægir dagar voru svipaðir og á jóladag átti að vera fárviðri eða því sem næst. Ég ákvað því að láta Stakkanesið kjurt - enda var það eins og við manninn mælt, að önnur eins veðurblíða fyrir og um jól hefur vart þekkst hér á svæðinu. Í gærdag, aðfangadag skrapp ég á Suðurnesin, kíkti á vinafólk í Sandgerði og Keflavík og hafði með mér óhollustu í kassavís. Veðrið þarna suðurfrá hefði vel mátt kallast "heillandi", en því miður var ég myndavélarlaus. Reyndi þó að fanga sólina á símann gegnum bílrúðuna, árangurinn er hér: 







Þannig leit það út og segir kannski ekki mikið annað en að það var sólskin! Það sem ekki sést er að það var líka logn, eða því sem næst. Að vísu tók ég eftir að úti á Stakksfirðinum var farið að hvítna í báru um það leyti sem ég hélt heim til að skipta um föt og kveikja á jólunum, en þess vinds gætti ekki á Brautinni svo kalla mætti.


Það er jólalegt hjá okkur Áróru hér í Höfðaborginni. Ég reyndi að mynda með símanum fyrir nokkrum dögum og kannski eru þær myndir eitthvað skýrari. Myndirnar sem teknar hafa verið á nýja símann minn eru annars miklu betri eftir að ég fattaði að fjarlægja hlífðarplastið yfir linsunni!!









Enn og aftur: Gleðileg jól og farið varlega í konfektinu!

19.12.2012 22:53

Og jólin nálgast.....

Hér í Höfðaborg var tekin pólitísk ákvörðun á dögunum. Hún er nokkurn veginn á þá leið að jólin komi þann 15. desember og standi -reyndar líkt og hjá öðrum- fram yfir þrettándann. Þetta þýðir að frá og með 15. des. er aðeins unnið að því sem lýtur beint að jólaundirbúningi og allt viðgerðarbrölt er lagt til hliðar. Engin regla er án undantekninga og ég þarf örlítið að hugga farartæki fyrir sjúkrahússliggjandi félaga um hátíðirnar en annað ekki.

Svo var víst einhverjum raflögnum ólokið í vinnuplássinu, ljós vantar og tenglar eru á röngum stöðum. Kannski verði gripið í þessháttar verkefni þegar hlé verður á konfektáti og bókalestri. Vörubílskrílinu var ekið -fyrir eigin vélarafli auðvitað- út úr húsi á dögunum. Einn prufuhringur var ekinn um hverfið, ekki langur því apparatið er ekki á númerum en þó nógu langur til að komast að því að allt virkaði nokkurn veginn eðlilega. Bílnum var svo lagt á sama stað og áður, niðri við Stálver í nágrenni Stakkanessins. Þar bíður hann þess að röðin komi að honum aftur. Það eru einhverjar vikur í það.


Það er orðið afar jólalegt hér uppi hjá okkur Áróru. Búið að tjalda því skrauti sem tjaldað verður að jólatrénu slepptu - við ætlum ekki að hafa neitt jólatré í ár. Við höfum heldur enga útiseríu. Eðli málsins samkvæmt erum við ekkert að auglýsa okkur hér, en þetta er þá í fyrsta sinn síðan jólin 1986 að við höfum enga útiseríu. Áróra var reyndar ekki til árið 1986 en þau jól settum við fyrst upp seríu á litla húsinu að Króki 1 á Ísafirði.

Sú hugmynd kom upp að sækja Stakkanesið í geymsluna, planta því hér utan við dyrnar og hengja á það slönguseríuna sem ég notaði tvenn jól heima á Lyngbrekkunni. Svo sá ég jólaveðurspána í kvöld.....

Miðað við þá spá er Stakkanesið best óhreyft.

Eitt að lokum: Ég hef sett inn nýjan tenglaflokk með tengingum á eldri síðurnar. Mig grunar að rannsóknarlögreglumaðurinn sem gerðist fingralangur hér um árið og gerði mitt efni að sínu undir eigin nafni á eigin síðu láti þessháttar athæfi eiga sig framvegis. Þess vegna opna ég tenginguna á milli að nýju ef einhvern langar að fletta upp í eldra efni. Það má gjarnan bæta því við að einhverra hluta vegna þýðir ekki að "gúggla" neitt af því sem skrifað var á Vísisbloggið - það kemur ekki fram. Hins vegar kemur allt fram sem skrifað var á blog.central  og blogger.com. Kannski nennir einhver að gramsa í þessum gömlu skrifum......

05.12.2012 23:02

Desember er dimmur .....

Svei mér þá ef það er ekki kominn desember! Meira að segja fimmti, og það þýðir að sjötti er á morgun og þá á hún Fríða systir afmæli. Hmmm - verð að muna að færa henni eitthvað í tilefni dagsins!

Isuzu vörubílskrílið hér undir fótunum á mér er að skríða saman. Hann hefur fengið nýja kúplingu og auk þess hefur verið kroppað í ýmislegt fleira sem betur mátti fara kringum gírkassann - svona af því það var í leiðinni. Gírskiptingin var samanmixuð með stálvír, drifskaftshandbremsan var í rusli, mótorbremsan föst, hraðamælisdrifið líka og gírkassapúðarnir rifnir. Þetta er allt að koma enda eitthvað kroppað á hverjum degi.

Stakkanesið var heimsótt í gærkvöldi.Það er, eins og áður var fram komið, naustað á sama stað og í fyrra, við vélsmiðjuna Stálver á Ártúnshöfða. Þar er allt í ágætu standi enda var þokkalega búið um það til vetrarins. Þeir félagarnir í Stálveri eru lítið að sýsla með stál í augnablikinu en því meira með trefjaplast því Lundi ST er í stóryfirhalningu. Á honum er verið að hækka alla yfirbygginguna um eina 30 sentimetra svo Kristmundur frá Gjögri geti staðið uppréttur á stjórnpalli. Lundakofinn hefur nefnilega verið helvíti lágreistur og ekki gott fyrir menn eins og Kristmund, sem sannarlega er af lengri gerðinni, að bogra mikið þar inni. Menn eiga að geta hvílt sig við stjórntækin, þó sumum hafi jú að vísu orðið skeinuhætt á því að hvíla sig þar um of, eins og nýleg dæmi sanna.

Hann Magni á Ísafirði sendi mér myndir á dögunum. Þetta eru fínar myndir, teknar í ísfirskri blíðu og á þeim má sjá skip. Það er ekki stórt skip, ekki frekar en Stakkanesið, en af því lífshamingjan er ekki mæld í lengdarmetrum eða brúttótonnum skiptir engu máli þótt skipið sé lítið. Það er samt skip. Að halda öðru fram er svona álíka og að halda því fram að Chihuahua sé ekki hundur. Reyniði bara að halda því fram við Chihuahua eiganda að hann eigi ekki hund!

Ég ætla að reyna að birta myndirnar hans Magna hér fyrir neðan. 



Þessi mynd hér að ofan er tekin utan af Djúpi og það er horft inn á Skutulsfjörðinn. Fyrir miðri mynd er Ísafjarðarkaupstaður og lengst til hægri má sjá Hraðfrystihúsið í Hnífsdal, en eins og allir sem þekkja til, vita, þá er Hraðfrystihúsið í Hnífsdal ekkert í Hnífsdal heldur langt fyrir innan dalinn - eiginlega svona þriðjung úr leiðinni inn á Ísafjörð.Þess vegna sést Hnífsdalur ekki á myndinni. Vinstra megin við mastrið sér til húsa í Arnardal og við myndjaðar vinstra megin er svo Arnarnesið og sést vitinn uppi á því greinilega, svo og radíóendurvarpshúsið. Það hefur hreint ekki verið leiðinlegt að dugga Djúpið þennan daginn..........



Hér er Fauinn kominn alla leið inn á Prestabugtina og harðfiskhjallarnir við Hnífsdalsveginn í baksýn. Á Prestabugtinni liggja þau skemmtiferðaskip sem ekki komast að viðlegukanti í Ísafjarðarhöfn. Fauinn er auðvitað skemmtiferðaskip - hvað annað? Það er skemmtilegt að eiga svona skip og hafa tækifæri til að njóta þess í svona umhverfi. Það er reyndar ekki bara skemmtilegt - það eru hrein forréttindi!




Það má alveg ímynda sér að siglingin hér að ofan hafi verið sú síðasta það árið. Fauinn er naustaður við Netagerð Vestfjarða og það liggur því beinast við að taka hann á land inni við fjarðarbotninn. Á þessari mynd er reyndar dálítið mikið útfiri en sjórinn hefur þann eiginleika að koma alltaf aftur þótt hann bregði sér frá tímabundið og af því Fauinn fer ekkert sérstaklega hratt yfir en að sama skapi fellur tiltölulega hratt yfir flatan fjarðarbotninn má líka alveg ímynda sér að þegar Fauinn hafði lagt Prestabugtina að baki, sömuleiðis Sundin og allan Pollinn frá Suðurtanga inn undir Kofraskemmuna hafi verið komið nægileg aðfall til að hann hafi flotið beint upp í vagninn sinn. Í öllu falli er hann á leiðinni út að Netagerðinni á síðustu myndinni, fyrir ækið er beitt japönskum bróður hrossadráparans svarta sem marga fjöruna hefur sopið í vagndrætti. Þær eru seigar, Súkkurnar....



Í baksýn stendur Seljaland, óðalið þeirra Magna og Svönu. Það má alveg vera dálítið stoltur af svona þrenningu, Seljaland er afar sérstakt hús á sérstökum stað, það er svona hálfgildings kennileiti fyrir bæinn og ég hugsa að flestir sem gist hafa Ísafjörð til lengri eða skemri tíma hafi tekið eftir þessu húsi og muni eftir því. Ég hef haft þetta hús fyrir augunum frá því ég man fyrst eftir mér og get eiginlega ekki hugsað mér staðinn án þess. Enda er ég handviss um að Seljaland verður þarna löngu eftir að Súkkan er orðin að mold og Fauinn að fúaspreki........

Takk fyrir fínar myndir, Magni og Svana!

20.11.2012 19:47

Nokkur orð um lítinn bíl.

Vegna þess að hann Magni á Ísafirði er áhugasamur um litla Isuzu vörubílinn sem ég keypti í febrúar sl. ætla ég að upplýsa eftirfarandi:

Ég kann ekki að taka sumarfrí til annars en að "gera eitthvað". Það þýðir að ef ég bregð mér í ferðalag fer ég í frí tíu mínútum fyrir brottför og er aftur mættur í vinnu tíu mínútum eftir heimkomu - eða þannig. Ég stunda aðallega helgarferðalög sem þýðir að ég þarf ekki sérstök frí til þeirra - sem aftur þýðir að þegar ég er kominn í þetta "nýja" orlofskerfi, þ.e. að fá frí á launum, þá safnast óteknir frídagar upp. Vinnuveitendum mínum finnst betra að þessir frídagar séu teknir, þegar vel stendur á hjá báðum en mér finnst svo gaman í vinnunni að ég tek ógjarnan frí og aldrei til að "gera ekki neitt". Þessvegna átti ég nú í haust þegar hefðbundnum sumarfríatíma var lokið, ótekna daga sem nam hálfu sumarleyfi og vel það. Nú er ég að reyna að lækka þennan kúf og tók frí sl. föstudag og  mánudag. Þessa tvo frídaga notaði ég að hluta til í Isuzu vörubílinn.

Formála lokið.

Dyrnar á plássinu mínu eru 2.6 mtr á breidd en pallurinn á Isuzu er 2.47. Það er því ansi knappt bilið beggja vegna ef taka á bílinn á hús. Fyrsta skrefið var að taka pallinn af bílnum og hluti föstudagsins fór í að skera burtu hjólhlífar úr áli, beyglaðar og snúnar. Þær verða ekki notaðar aftur, svo mikið er víst. Pallurinn er raunar allur úr áli nema aðeins langbitarnir og ekki mikil þyngd í honum. Mér er dálítið í mun að auðvelt verði að kippa pallinum af og á, og þannig ætla ég mér að útbúa hann þegar aftur kemur að ásetningu. Sjálf bílgrindin er talsvert flögnuð og ryðguð, og eftir að hrossadráparinn svarti hafði dregið pallinn af á mánudaginn var ráðist á grindina með vírbursta og ryðhamri. Birtutíminn er stuttur og þegar síðustu ryðflögurnar höfðu verið slegnar af var orðið svo dimmt að varla sá handaskil. Þar með var nýtanlegur tími dagsins liðinn. Það var svo við vinnulok í gærkvöldi, fimmtudag, að við Magnús "bóndi" Jónsson, vinnufélagi minn úr Skeifunni hnýttum palllausa pallbílinn aftan í hrossadráparann og drógum heim að Höfðaborg. Að því afreki unnu var Magga ekið heim en ég lagði hausinn í bleyti við að leysa næsta vandamál - að koma bílnum upp innkeyrsluna og inn á gólf. Fyrir tilviljun átti ég bút af gömlu kerrubeisli með kúlulás áföstum (ef einhver man eftir trillunni Bjartmari þá er þessi beislisbútur afgangur af ónýtri Bjartmarskerru) og þegar ég hafði soðið U-lás á bútinn ( með nýju suðuvélinni sem leysti 22 ára gamla Clarkevél af hólmi) og keðjað hann svo við undirakstursvörnina á vörubílnum var aðeins eftir að skella lásnum á kúluna á hrossadráparanum og bingó!  Tuttugu mínútum síðar var vörubíllinn kominn inn á gólf!

Ég segi ekki að hann sé eins og krækiber í helvíti þarna inni en satt að segja er rýmra um hann en ég bjóst við.

Ég hefði tekið myndir en hafði engan kubb........

 

17.11.2012 08:23

Vetur: "ON"

Nú er ég á því að veturinn sé kominn. Ég hef reynt að vera bjartsýnn og jákvæður, talið mér trú um að enn væru þokkalegir dagar framundan og enn væri von um að ná sjóferð á Stakkanesinu. Ég verð víst að játa mig sigraðan.

Hinn reykvíski vetur er mættur með vindgjóstur, napran kulda, snjó í rennusteinum, svarta hálku og allt annað sem vetri fylgir. Ég hafði vonast eftir þokkalegu veðri nú um helgina en þegar allar spár bentu til annars var Stakkanesið tekið á land og vetrarbúið. Það er nú komið á sama stað og í fyrravetur, gnæfir yfir flest annað á Höfðanum og hefur útsýni til hafs - en þó í nær algeru skjóli fyrir öllum veðrum.

Klukkan er rétt rúmlega hálfníu og ég er að leggja af stað austur fyrir fjall á ferðadrekanum. Hann átti að fá sína huggun heimavið í vetur en það er nokkuð ljóst að hans tími kemur ekki fyrr en undir vor. Fyrirliggjandi verkefni ganga fyrir - eða þannig......

Það er svartamyrkur, kalt og ekki tilhlökkunarefni að aka austur núna, en samt - ég er farinn...............

10.11.2012 18:22

Áfangasigur!

Það er laugardagur, tíundi dagur mánaðarins ef dagatalið mitt er rétt (sem það hlýtur að vera, það er nú einu sinni húsvísk heimilisframleiðsla) og ég er eiginlega dálítið ánægður í dag. Ég var nefnilega til klukkan eitt í nótt að sópa saman síðustu saghrúgunum og rykhaugunum af gólfinu hér á jarðhæðinni í Höfðaborg. Nú má segja að komið sé sæmilegasta "einmenningsverkstæði", þar sem flest má framkvæma sem framkvæma þarf í bílum og bátum. Vinnan hefur tekið margfaldan þann tíma sem ég ætlaði í upphafi, en kannski gleymdi ég að gera ráð fyrir smá "lífi" meðfram. Góður maður sagði eitt sinn að þegar menn áætluðu tíma í verk væri ágætt að ljúka áætluninni með því að margfalda hana með pí - þ.e. 3,14.  Það er ótrúlega nærri lagi í þessu tilfelli.

Það eru reyndar nokkur handtök óunnin enn. Ljós og tenglar eru ekki á réttum stöðum og enn vantar vatnslögn að nýjum vaski. Það er samt nóg af ljósum, nóg af tenglum og vaskur í ágætu lagi en á röngum stað. Ég hef hingað til verið minn eigin pípari og rafvirki, klárað þau verk með góðra manna tilsögn og þannig verður það eflaust líka núna. Eins og fram kom áður tók ég myndir af plássinu áður en ég hófst handa og nú bíð ég eftir að vind lægi og veður hlýni svo ég tími að opna og mynda aftur.

.....það er nefnilega svo andskoti kalt núna.
.......................................................................................................

Þeir þarna á Austur-Indíafélaginu hafa verið með einhvers konar indverska matarhátíð síðan um miðjan október. Einu kynnin sem ég hef af indverskri matargerð eru pakkahrísgrjón og svo textabrot úr laginu "What did you learn in school today"  í óborganlegri útgáfu Eddie Skoller þar sem talað er um "rice and curry". Við Dagný erum ásamt vinafólki á leið á Austur-Indíafélagið að smakka á hrísgrjónum í karrýsósu elduðum upp á indverskan máta.

Vonandi nota þeir samt ekki vatn úr Ganges........

03.11.2012 09:05

Yfir og inn!

Ég lauk ekki við að setja upp aðra tölvu. Plássið var lítið, áhuginn enn minni og orkan bundin í öðrum verkefnum og brýnni. Nú sér fyrir endann á hluta verkanna og það er kominn tími til að taka á hlutunum. Plássið hefur að vísu ekkert aukist en ég stríddi við ákveðið vandamál -auk tölvuvírussins - sem ég held ég hafi fundið lausnina á.

Vandamálið var að ég var orðinn hundleiður á þessum löngu og tímafreku ferðapistlum sem engan enda tók að skrifa. Vinnan bak við hvern og einn gat farið upp í tvo og hálfan, þrjá klukkutíma með myndum og öllu og þegar hlutirnir eru orðnir að kvöð hætta þeir að vera skemmtilegir. Ferðum sumarsins var ekki lokið með þeirri sem síðast var til umfjöllunar en um þær var fátt hægt að skrifa sem ekki hafði komið fram áður, farið var um þaultroðnar slóðir og fátt nýtt gert. Ferðadrekanum var lagt fyrir löngu og hann hefur ekki verið hreyfður í rúma tvo mánuði. Það þýðir þó ekki neina lognmollu því á hverjum degi gerist eitthvað sem ekki er fært í letur vegna þess að meðan eldri frásögnum hefur ekki verið lokið er ótækt að byrja á nýjum. Þessar frásagnir/ferðasögur hafa ekki verið skrifaðar fyrir aðra nema að hluta til,  þær eru fyrst og fremst mínar minningabækur skrifaðar fyrir komandi ár. Mér finnst ómetanlegt að geta flett síðunum mínum allt aftur til ágústmánaðar 2003 og séð frá mánuði til mánaðar hvað ég og fjölskyldan aðhöfðumst frá þeim tíma og til dagsins í dag. Þessvegna er afar slæmt að missa svona þráðinn, því það er alltaf eitthvað að gerast sem ég myndi gjarnan vilja skrásetja og geyma til síðar tíma. 

Í Höfðaborg hefur orðið bylting, neðsta hæðin, sem var nánast full til lofts af dóti er smám saman að breytast í ágætt verkstæði, fyrir utan standa verkefnin í röðum og fjölgar frekar en hitt. Ég hafði þá fyrirhyggju að mynda inn um opnar dyrnar áður en ég hófst handa og get því birt svona fyrir/eftir myndir innan skamms. Þangað til ætla ég að reyna að ljúka frásögninni sem var í vinnslu hér neðar og endaði á því að Jón Bærings kallaði til mín úr húsgarðinum sínum nærri bakaríinu á Sauðárkróki.

Flestir Ísfirðingar á miðjum aldri og þar yfir þekkja Jón Bærings og líklega flestir Sauðkrækingar líka. Ég tók enga mynd af Jóni, einfaldlega vegna þess að það var engin þörf á því - hann hefur nákvæmlega ekkert breyst í tuttugu ár eða meira. Við áttum ágætt spjall þarna yfir girðinguna kringum litla húsið hans við Freyjugötuna, rifjuðum upp gamla daga og bárum saman þá nýrri. Svo var því lokið, við kvöddumst og ferðadrekinn var aftur lagður af stað, nú austur yfir Héraðsvötn og út á Hofsós. Veðrið var óbreytt, brakandi blíða og sólskin, eiginlega ekkert ferðaveður. Það passaði nákvæmlega að skella sér í sundlaugina glæsilegu og láta sólina baka sig góða stund.

Að þeirri stund lokinni lá leiðin hefðbundnar slóðir út í Fljót og til Siglufjarðar. Á Sigló áttum við víst kaffi hjá vinafólki og það var komið fram á kvöld þegar við héldum af stað aftur og nú um Héðinsfjarðargöng til Ólafsfjarðar. Þetta var í fyrsta sinn sem ég fór göngin og þessvegna einnig í fyrsta sinn sem ég sá Héðinsfjörð með eigin augum. Ég er búinn að skoða fjölda mynda frá þessum slóðum, bæði vegna eyðibýlagrúsks og vegna flugslyssins sem þarna varð árið 1947 en engar myndir ná að sýna þennan fallega fjörð í því ljósi sem ég sá hann þarna um kvöldið.











Þessar gangnamyndir lýsa kannski ekki mikilli fegurð, en þær lýsa allavega samgöngubótum sem eiga fáa sína líka á seinni árum. Flestar vegabætur síðari ára á Íslandi hafa verið akkúrat það - vegabætur, í þeim skilningi að bæta vegi sem þegar hafa verið fyrir milli staða. Vegurinn um Þröskulda er eitt dæmið um nýja leið þar sem ekki var vegur áður, þó deilt sé um staðsetninguna og hönnunina. Héðinsfjarðargöngin opnuðu leið sem aldrei hafði verið fær farartækjum áður - nema kannski hestum. Það var einfaldlega ekki hægt að aka milli Ólafsfjarðar og Siglufjarðar áður nema um Fljót og Lágheiði. Kannski má finna líkingu í því að áður fyrr lá leiðin milli Ísafjarðar og Hólmavíkur um vesturheiðar, Barðaströnd og Hálsa allt til Gilsfjarðar þaðan sem aka mátti Tröllatunguheiði yfir á Strandir. Nú er aðeins nokkurra mínútna skutlingur milli fjarða þarna norðurfrá, og að frátalinni myndatökutöfinni í Héðinsfirði liðu aðeins nokkur augnablik þar til við Dagný vorum komin í miðja heimabyggð Lólóar frænku, þorpið þar sem afi og amma bjuggu, þorpið þar sem mamma fæddist...........

......Ólafsfjörð.

Það var ekki verulega tekið að bregða birtu þegar við lögðum drekanum á tjaldsvæðinu undir skíðastökkpallinum í Ólafsfirði. Við völdum góðan stað undir háum bakka og þar var nóg pláss til að tjalda öllu sem til var, þ.e. tveimur skjóltjöldum til að "hýsa" hundana. Þetta var eiginlega prufuuppsetning, við höfðum hugsað okkur að setja hústjald sem meðferðis var, til hliðar við bílinn og tengja það við hann með skjóltjöldunum. Þegar til kom þótti okkur of tímafrekt að tjalda hústjaldinu, það hafði átt að þjóna sem svefntjald fyrir hundana þegar svo bæri undir en það hefur svo sem verið vandræðalaust að hafa þá inni í bílnum og þar sem nú voru "aðeins" tveir en ekki þrír með í för og orðið þetta áliðið slepptum við "sérbýlinu". Við settum hins vegar skjóltjöldin við hvorn enda bílsins og létum þau mætast í skörun sem mátti opna og loka með lítilli fyrirhöfn. Við vorum afar ánægð með þessa tilraun, sem tókst prýðilega þó enn vantaði tjaldræmuna sem ætlað er að loka bilinu undir bílnum endilöngum. Hún kemur næsta sumar en verður eðli málsins samkvæmt nokkru lengri en til stóð - sjúkrabíllinn er jú hálfum metra lengri en sá svarti!



Þegar svo búið var að setja upp útikertastjakana sem eitt sinn voru smíðaðir fyrir sérstaka ferð með félagi  húsbílaeigenda en hafa að mestu legið ónotaðir síðan, var "garðurinn" fullkominn. Það eina sem finna mátti að annars prýðilegri aðstöðu far bölvuð flugan sem þarna lá yfir öllu eins og ský. Ég held ég hafi aldrei á ævinni séð annan eins mökk af smáflugum eins og þarna, og það skipti engu máli hvort bíllinn stóð opinn eða ekki - þær voru bókstaflega allsstaðar! Við gengum um svæðið til að athuga hvort einhversstaðar væri flugulaus blettur. Svo gengum við góðan göngutúr um bæinn í sama tilgangi og mér er nær að halda að helvítis flugnagerið af tjalsdvæðinu hafi fengið sér skreppitúr með okkur - það getur bara ekkki verið að heill bær sé jafn undirlagður af flugu ens og okkur sýndist. Það var alveg sama hvert við fórum, inn að sjoppu eða niður að höfn - allsstaðar var flugan suðandi kringum hausinn á okkur! Þegar við fórum að sofa suðaði sirka ein milljón flugna bak við gardínuna í framglugganum. Við sofnuðum með flugnasuð/flugur í eyrunum.





Með morgninum vöknuðum við og hundarnir í sama félagsskapnum og áður. Flugunum hafði heldur fjölgað og við sáum í kringum okkur að fleiri farfuglar en við voru orðnir verulega pirraðir á ónæðinu. Það var kominn miðvikudagur, síðasti dagur ferðarinnar og ef marka mátti spár var blíðan brátt á enda. Þó sólin skini enn var farið að draga upp á himininn og sýnt að veðrabreyting var í nánd. Meðan við tókum saman dótið okkar féllu nokkrir regndropar, ekki nóg til að bleyta útifarangur en dropar samt.....




Mér fannst ómögulegt að yfirgefa Ólafsfjörð án þess að heilsa upp á frænku. Ég reyni það alltaf þegar ég á leið um og í þetta sinn var frænka heima og tók á móti okkur með sama myndaskap og alltaf áður. Sú breyting var þó orðin að eitt sæti var autt, sem venjulega hefur verið setið þegar ég hef heimsótt Lóló frænku. Kiddi Gísla sat ekki lengur á sínum stað við eldhússgluggann og horfði yfir bæinn sinn. Hans er saknað...

Á Dalvík var allt á fullu í undirbúningi fyrir Fiskidaginn mikla. Reyndar bar talsvert á draghýsaliði sem var þegar mætt með búnað sinn og stillti honum upp til að "tryggja sér stað" í tíma. Það er enda nokkuð ljóst að þeir sem verða með seinni skipunum á Fiskidaginn mikla eiga venjulega í verulegum vandræðum með að finna sér stað fyrir flökkubúnaðinn, svo þéttskipað er á svæðunum. Við renndum einn hring um bæinn og að auki inn að Tjörn í Svarfaðardal þar sem legsteinninn hans langafa á Ingvörum skartar sínu fínasta eftir uppgerð Barða frænda.



Það var komið að því að taka ákvörðun um heimferð. Ég var búinn að hringja suður með nokkrum fyrirvara og tryggja mér aukafrídag ef ske kynni að enn tognaði úr blíðunni. Það var allt opið, eina sem ljóst var, var að Dagný átti að fara í bústað í Fnjóskadal um komandi helgi með sínu fólki. Við fundum góðan stað til að láta hundana hlaupa lausa meðan málið var vegið og metið. Á meðan færðust dökk ský yfir himininn. Það stóðst á endum að um leið og hundarnir voru komnir í búrin að nýju féll fyrsta rigningardemban sem eitthvað kvað að. Við héldum af stað inn með firði og við Rauðuvík ókum við bókstaflega inn í sótsvartan rigningarvegg, studdan stífum vindhviðum. Inn að Möðruvöllum var bókstaflega vitlaust veður og lítið spennandi að heimsækja Akureyri í þessháttar stuði. Við beygðum því inn Þelamörk, tókum stefnuna suður og ókum nær sleitulaust í Kópavoginn - með þurrkur í gangi alla leið!


Punktur.


16.10.2012 08:36

Óværur

Rétt þegar ég sjálfur er nýstiginn upp úr svæsinni flensu virðist óværan hafa hlaupið í tölvuna mína. Eitthvað hefur allavega gerst þegar ég var að lesa "stórfrétt" á einhverri erlendri "fréttasíðu" um andlát leikarans  Eddie Murphy í snjóbrettaslysi um helgina. Þar stóð að fréttirnar væru glænýjar, slysið hefði rétt verið að gerast og boðið uppá nánast beina útsendingu með því að smella á "Get the latest uppdate". Mig langaði að lesa meira um málið og um leið og ég smellti á get the latest update var skaðinn skeður. "Fréttin" var auðvitað kjaftæði, Eddie Murphy er sprelllifandi en það sama er ekki hægt að segja um fartölvuna mína. Nú verð ég að leita til læknis með hana og á meðan er fátt til bjargar annað en vinnutölvan. Að vísu á ég gömlu heimilistölvuna í geymslunni, en hún tekur uppsett álíka pláss og skuttogari og það pláss á ég ekki til. 

......og þó.......

07.10.2012 09:22

Kjéllíngarfjöll og áfram norður.

Hvert var ég nú kominn?  Jú, ég var með henni Dagnýju uppi í fjöllunum þar sem hún áður fyrr renndi sér á skíðum, en var nú aðeins grjóturð og melhólar. Skaflarnir í Kerlingarfjöllum eru aðeins svipur hjá sjón, líkt og er um íslenska jökla almennt.  Ég gat aðeins rölt um og reynt að gera mér í hugarlund hvernig þarna hafði litið út, ég átti ekki þessa upplifun í minningunni sem Dagný bjó að. Á þeim tíma sem hún var að renna sér þarna í góðum hópi félaga og kennara, var ég vestur á Ísafirði að gera við bíla og dreymdi um það eitt að þurfa aldrei að yfirgefa þúfuna mína. Í áranna rás hefur fleira breyst en snjórinn í Kerlingarfjöllum og það sem Bjartmar kvað; "Einu sinni hélt ég að hún endaði, jörðin/rétt utan við fjörðinn", og átti svo vel við sjálfan mig í eina tíð, skyldu menn leggja á minnið því einhvern tíma skrifa ég pistil með þeim titli - og geri þá upp við eigin einfeldni og heimóttarskap!

En semsagt, við gengum um urðirnar þar sem áður voru skíðabrekkur, annað rifjaði upp, hitt reyndi að skilja......







.....og upp úr mistrinu rak Loðmundur beran kollinn. Hvíta húfan horfin með öllu:



Eitt má ég til að nefna: Við þurftum að fá að kíkja aðeins upp á loft í skálanum sem áður var aðalaðsetur skíðaskólans. Þar var gist, þar var borðað og þar var djammað. Kvöldvökurnar voru kannski það sem eftirminnilegast var auk skíðaferðanna og Dagný var ekki í rónni fyrr en hún hafði skoðað sig um innandyra, kíkt á stigann þar sem þéttsetið var undir draugasögum skíða"kennaranna", skoðað upp á svefnloftið og fundið kojuna "sína". Ég elti með myndavélina eins og þægur hundur í bandi:









Eftir þrjátíu ár var kojan þarna enn, í sama hlutverki - og þó ekki alveg, kannski:



Það var komið að því að halda áfram för. Tíminn leið ekki, hann flaug og ekki seinna vænna en halda af stað áleiðis til Hveravalla. Á leiðinni þangað áðum við stutta stund við Fjórðungsöldu, þar sem stendur veglegt minnismerki um Geir Zoega, fyrsta forseta F.Í. Mig minnir að ég hafi einhverntíma heyrt um vilja Ferðafélagsmanna til að breyta nafni Fjórðungsöldu í Geirsöldu en sel það ekki dýrara en ég keypti - auk þess sem minningu fyrrum forseta félagsins væri lítill greiði gerður með þessháttar tilburðum. Meðan ég velti mér uppúr ámóta hugleiðingum ók stór rúta framhjá og harmagráturinn sem barst frá hjólabúnaði hennar þegar gróf þvottabretti vegarins gerðu atlögu að honum vakti nýja hugsun - þá hugsun, hvort þessum löngu gengna ferðagarpi væri ekki mestur sómi sýndur með því að halda Kjalvegi - veginum að og frá minnismerki hans - ökufærum.......

Ferðadrekinn okkar var ekki á neinum grjóthörðum rútudekkjum heldur á lungamjúkum þrjátíuogfimmtommu og okkur gekk bærilega yfir urðirnar sem áttu að heita vegur, allt til Hveravalla. Þar var talsverður slæðingur af fólki á alls konar farartækjum. Við tókum okkur góða göngu um nærsvæðið og meðan á henni stóð bættist enn farartæki í flóruna:



Þegar þessi rjómaþeytari birtist töldum við víst að eitthvert leikarastórmennið sem þá átti að vera nóg af á landinu, væri komið í heimsókn. Ekki virtist það vera, a.m.k. þekktum við ekki fjölskylduna sem hoppaði út úr vélinni þegar hún var lent. Okkur skildist hins vegar að boðið væri upp á útsýnisferðir um nágrennið meðan þyrlan hefði viðstöðu. Mig langaði dálítið að fara en verðið fældi fátæka launamenn frá...

Við héldum áfram og næst lá leiðin niður að Blöndulóni. Ekki höfðum við lengi ekið þegar við sáum útlent par sem stóð í vegkantinum og reyndi að húkka sér far norðurúr. Þar sem rykið á þessum slóðum er gegnheilt og liggur í sköflum á veginum gátum við ekki annað en aumkast yfir þessa ferðalanga sem lögðu traust sitt á akandi samferðamenn, vitandi að þeirra (þ.e. ferðalanganna) biði ekkert annað en varanlegt heilsutjón á öndunarfærum, væri einfaldri bón um far ekki sinnt. Drekinn okkar bauð upp á gott pláss og þokkaleg sæti svo við kipptum parinu með. Vegna ryksins var ekki hægt að hafa opinn glugga né topplúgu og það hitnaði fljótt í bílnum. Rétt  áður en komið er að lóninu er tilbúinn áningarstaður á hæð við veginn. Þar er upplýsingaskilti, þar er útsýnisskífa og þar var tilvalið að viðra okkur og útlendingana auk hundanna Orra og Tjörva. 

Útlenda parið var á leið niður að þjóðvegi eitt og þaðan til norðurs. Leið okkar lá því niður með Blönduvirkjun og þvert fyrir mynni Blöndudals. Innst í Langadal komum við að vegamótum hringvegarins og þar skildu leiðir - þau héldu til hægri, áfram norður til Akureyrar, við héldum til vinstri  - líka á leið norður, bara dálítið aðra leið.......

Utarlega í Langadal stendur gamalt, gullfallegt hús ofarlega í hallandi túni. Þar var forðum myndarlega byggt býli. Í tímans rás lagðist býlið í eyði og um langt árabil stóð þar óhrein og ryðlituð hryggðarmynd sem tákn hnignandi búskapar í annars blómlegri sveit. Oft hafði ég veitt þessu húsi athygli á mínum ferðum um Langadal og velt fyrir mér hvernær kæmi að því að einhver fengi áhuga á og aðstöðu til að nýta þetta áður fallega -og dálítið sérstaka - hús sem sumarhús. Á uppgangsárunum fyrir hrun var algengt að niðurnídd eyðibýli fengju nýtt líf fyrir tilstilli efnaðra einstaklinga eða félagasamtaka og mér fannst þetta býli að mörgu leyti standa öðrum framar til slíkra hluta. Það var hálfleiðinlegt að sjá þetta laglega byggða hús standa opið fyrir veðrum, vindum og sauðkindum. Svo, í einni ferðinni norður sá ég að eitthvað var að gerast við gamla eyðibýlið. Þar var málað, snyrt  og kindunum úthýst með gluggum og hurðum. Loksins!

Það var ekki leiðinlegt að komast að því að það var vinafólk Dagnýjar sem svo myndarlega hafði tekið til hendinni. Ekki hafði þó verið sótt til iðnaðarmanna og arkitekta, heldur endurbyggt og lagfært með hug og hönd. Árangurinn var eins heimilislegur og hægt var. Við gamla eyðibýlið sem nú er eitthvert vinalegasta sumarhús sem ég hef heimsótt, var næsti áningarstaður okkar. Þar dvöldum við fram undir kvöld en síðan lá leiðin niður á Blönduós og þaðan út á Skagaströnd. Það var farið að kvölda talsvert er þangað kom og sólin að síga bak við Strandafjöllin. Við komum drekanum okkar fyrir í lokuðu rjóðri í horni tjaldsvæðisins og slógum upp skjóli fyrir kvöldgolunni.







Það eru röskir piltar sem sjá um sorphirðuna á Skagaströnd og nágrenni - svo röskir að klukkan var varla orðin átta næsta morgun þegar þeir voru mættir með ruslabílinn til að tæma ílát svæðisins. Þeir fóru svo sem ekki um með neinum látum en ég er nokkuð viss um að enginn svaf af sér þessa árrisulu sorphirðumenn og heimsókn þeirra. Kosturinn við að vera dálítið afsíðis með ferðadrekann varð að ókostinum við að vera staðsettur nákvæmlega þar sem sorpbíllinn staðnæmdist til að éta fylli sína úr döllunum. Svo má auðvitað segja að sá kostur fylgi því að vakna snemma, að maður hlakkar enn meira til að skríða í ból að kveldi. Björtu hliðarnar vega alltaf þyngra, veðrið var gott í morgunsárið og ekki amalegt að eiga framundan skoðunarferð um stuðlabergsnáttúrulistaverkin í Kálfshamarsvík.







Ég hef nokkrum sinnum áður skrifað um Kálfshamarsvík og birt þaðan myndir. Þetta dugar að sinni. Leið okkar var ákveðin til baka inn eftir, ég ætlaði ekki fyrir Skaga í þetta skiptið. Við ókum inn að vegamótunum yfir Þverárfjall, beygðum þar og eftir stundarakstur vorum við í Skagafirði. Eitt af því sem er ómissandi við hverja komu til Sauðárkróks er að heimsækja bakaríið - Sauðárkróksbakarí. Bæði er þar að fá einhverjar bestu kökur og kaffibrauð landsins, og svo er andinn í húsinu einhvern veginn þannig að hann dregur mann til sín aftur og aftur - en kannski eru það bara afgreiðsludömurnar! Við lögðum ferðadrekanum á bílaplani neðan aðalgötunnar og gengum upp í bakaríið. Að þessu sinni var alltof heitt til að sitja innandyra, enda búið að gera fína útisetuaðstöðu sunnan undir vegg. Eftir að hafa nært okkur vel umfram þörf (les: étið yfir okkur) af bakkelsi töltum við aftur til bíls. Um leið og ég opnaði bílinn og hleypti hundunum út en Dagnýju inn, var kallað úr nærliggjandi húsagarði, með rödd sem ég þekki hvar sem er: "Hvern andskotann er þú að gera hér?"

............hver annar en Nonni Bæsa?

(framhald)

23.09.2012 10:45

Kjéllíngarfjöll!

Það tókst loksins að ljúka við Átta daga ferðina, Formúlukeppnin sem tafði framhaldið er löngu búin og enn er keppni að bresta á - að þessu sinni í Singapore. Það er því ekki seinna vænna en hefjast handa við skrásetningu næstu ferðar, áður en enn ein keppnin stöðvar skriftir!

Verslunarmannahelgi 2012! Önnur tveggja stærstu ferðahelga sumarsins og enn var ferð fyrir dyrum. Reyndar hefur skapast sú hefð að ég fer helst ekki í útilegu um verslunarmannahelgar, vegna mannfjölda á gistisvæðum og bílafjölda á vegum að og frá þeim. Nú var annað í bígerð og ætlunin var að eyða helginni norðanlands og að henni lokinni aka suður Kjöl með viðkomu á Hveravöllum og í Kerlingarfjöllum. Eins og aðrar áætlanir átti þessi eftir að slípast og aðlagast öðrum. og endirinn varð sá að á laugardeginum var ekið á einkabílnum austur að Flúðum,  horft á torfærukeppni traktora í einmunablíðu og haldið heim að kvöldi. Það var svo á sunnudagsmorgni sem ekið var af stað úr bænum á ferðadrekanum og haldið upp að Geysi, þar sem áð var og tekið bensín. Engin viðstaða var við Gullfoss heldur ekið beint inn á Kjalveg. Vegurinn  heilsar ákaflega vel, malbikaður og breiður. Ekki var Adam þó lengi í þeirri paradís og nákvæmlega á mótum malbiks og malar mætti okkur stór rúta full af fólki sem kom ofanað.  Ferðadrekinn var stöðvaður úti í kanti og á því augnabliki em rútan renndi yfir skilin var mikil klappað inni  í henni. Fögnuðurinn gaf okkur smá hugmynd um það sem koma skyldi!

Malarvegurinn var enda eitt þvottabretti. Þrátt fyrir að linað væri í dekkjum drekans víbraði hann og skalf svo allt lauslegt var á iði. Besta ráðið var að slá dálítið í og reyna að halda hraða yfir vegöldurnar. Það gat þó verið varasamt því mikil lausamöl var á veginum og beygjurnar erfiðar, auk þess sem það var einfaldlega töluverð umferð og stöðugt verið að slá af og mæta. Það gekk þó nokkurn veginn vandræðalaust að komast inn að Hvítárbrú og skammt frá henni var beygt út á vegslóða sem liggur að gamla sæluhúsinu við Hvítárvatn. Efnið í þessum vegslóða var tvenns konar, annars vegar grjót, mismunandi stórt, hins vegar hreint, massíft  og ómengað moldarryk!





Á myndunum er horft til vesturs, í átt til Langjökuls og það er horft til Skriðufells og jöklanna tveggja, syðri- og nyrðri Skriðjökuls sitthvorumegin við það. Á þeirri hér neðar er ferðadrekinn á fyrsta áningarstað við veginn og í hristingnum  hefur liðið yfir báða kastarana að framan!



Við hið fornfræga sæluhús Ferðafélagsins í Hvítárnesi er lítið tjaldsvæði. Við það er hreinlætisaðstaða sem nýtur vatns úr nálægri borholu og dælt er upp á forðatank. Landvörður, sem venjulega sinnir staðnum hafði verið kallaður til starfa í Þórsmörk og þess mátti sjá merki í tómum vatnstanki og salernum yfirfullum af afurðum útlendinganna sem héldu til á blettinum. Ekki kom þetta þó að neinni sök fyrir okkur en vissulega var leitt að sjá þessa umgengni á svæðinu. Sæluhúsið var öllu meira augnayndi og það var myndað í bak og fyrir:














Áfram var haldið og ekið til norðurs, samhliða Kjalvegi. Leiðin lá up með Svartá og síðan yfir hana við skálann að Árbúðum. Þaðan ókum við svo Kjalveg inn að vegamótum Kerlingarfjallavegar. Við vegamótin var Landróverjeppi, greinilega bílaleigubíll og við hann var kona sem veifaði okkur um leið og við beygðum inneftir í átt til fjallanna. Ég sneri við til hennar og eftir nokkur orðaskipti á ensku kom í ljós að hún vildi athuga hvort mögulegt væri að fá far inneftir. Hún hafði verið í símasambandi við skálaverði í Kerlingarfjöllum og hugðist ganga þangað frá vegamótunum. Það var hins vegar talsvert liðið á daginn og dökk rigningaský yfir, svo verðirnir höfðu bent henni á að reyna frekar að fá far alla leið. Í ferðadrekanum var nóg pláss fyrir smávaxna, franska ferðakonu og innan stundar vorum við aftur lögð af stað í átt til Kerlingafjalla. Vegurinn þangað reyndist enginn eftirbátur Kjalvegar hvað varðaði þvottabretti  og það var engin fljúgandi sigling á okkur inneftir. 

Í Kerlingarfjöllum var þokkalegt veður, dálítill vindsperringur og hálfkalsalegt en hékk þó þurrt meðan við vorum að koma okkur fyrir á tjaldsvæðinu. Mér þótti þar flest á verri veg frá því ég var þar á sama tíma 2010, grasið var uppspænt og svæðið allt að verða hálfgert moldarflag. Okkur þótti sýnt að ekki yrði farið í langar skoðunarferðir þetta kvöldið, grillið var tekið út og tengt og þeir félagar Orri og Tjörvi viðraðir. ( Heiðurs- og forréttindahundurinn Edilon B. Breiðfjörð Budenhoff var enn í sumardvöl hjá sínum fyrri eigendum og því ekki með í þessarri ferð frekar en Vestfjarðatúrnum)


Það stóðst á endum að eftir kvöldmat fór að rigna og grillinu var skotið í skjól innundir bílinn. Stutt kvöldgöngu /uppvasksferð upp að veitinga-og gistiskálanum dugði til að gegnbleyta okkur öll fjögur, og það var ákaflega notalegt að skríða undir feld og pakka sér saman í sængina undir dynjandi rigningarsöng á plastþaki drekans. 

Morguninn var bjartari og rigningin var farin eitthvert annað að hrella aðra ferðalanga. Það var því tilvalið að mynda aðeins yfir svæðið.



Þessi stóri, þýski ferðabíll sem sést þarna á miðri mynd var eiginlega sér kapítuli. Þetta var Benz Unimog, geysilega öflugur bíll og þetta háa hús sem á honum er var dregið upp og niður eftir þörfum, hækkunin var vel rúmur metri, sýndist mér.

 



Í þessum litlu leigukofum sem mér skilst að séu kallaðir nípur, var hægt að kaupa gistingu og miðað við hreyfinguna kringum þá voru þeir vinsælir. Það er a.m.k. klárt að þeir sem sváfu í tjöldum um nóttina hafa flestir óskað sér slíks skjóls:





Að morgunverkum loknum lá leiðin upp í fjöllin. Það ískraði í ferðafélaganum, sem var á fullu að endurupplifa unglingsárin, þegar skíðaskólinn var starfræktur og hann (þ.e. ferðafélaginn) hafði dvalið um skeið í búðunum og stundað skíðin undir handleiðslu landsfrægra manna. Ég segi það dagshreinasatt að henni Dagnýju þótti ekki leiðinlegt að koma aftur upp í fjöllin eftir  þrjátíu ár og komast í dálitla snertingu við tíma sem var en kemur aldrei aftur. Þar sem þau gemlingarnir renndu sér undir stjórn ekki ómerkari manna en Eyjólfs Kristjánssonar og Örnólfs Valdimarssonar var nú grjóturð, skálinn sem þau höfðu sem athvarf og borðuðu nestið sitt er yfirgefinn kumbaldi með neglt fyrir dyr og glugga:








Ég verð að gera hér hlé en lofa........
Flettingar í dag: 390
Gestir í dag: 15
Flettingar í gær: 306
Gestir í gær: 25
Samtals flettingar: 66068
Samtals gestir: 16985
Tölur uppfærðar: 1.5.2024 10:28:55


Tenglar