Gunnar Th.
Fjórða kerfið.....


Færslur: 2014 Janúar

25.01.2014 09:20

Enn laugardagsmorgunn....


..........en það þýðir ekki endilega að ég sé á leið austur í Hrífunes...

 Ekki aldeilis!!

 Nú er ég á leið til Eyrarbakka að skoða húsbíl!!

19.01.2014 16:54

Þungur dráttur.....


 Jújú - það gekk þokkalega austur í Hrífunes í gærmorgun, takk fyrir! Veðrið var líka ágætt, eiginlega hálfgert vorveður þannig séð.

....og hvað var svo verið að þvælast austur í Hrífunes um hávetur?

Það skal ég opinbera. Kunningi minn til allmargra ára stundar hlunnindabúskap austur þar og til búskaparins brúkar hann vélar og tæki. Eitt þeirra tækja var komið á viðhald og fyrir lágu nokkrar aðkallandi viðgerðir. Þarna fyrir austan hníf og gaffal en hins vegar lítið hægt að gera nema menn séu hreinlega með heilt verkstæði með sér og vantar þó venjulega eitthvað uppá. Því skyldi hálfhaltrandi apparatinu komið til höfuðborgarinnar með einhverju móti. Eftir að hafa þegið góðra manna ráð varð úr að við leigðum kerru á stærð við strætisvagn, hengdum aftan í Patroljeppa og lögðum af stað rétt fyrir tíu í gærmorgun.Myndavélin mín er illa fallin til myndatöku í myrkri eins og þeir kannski muna sem sáu myndirnar úr Rauðfeldargjá á sínum tíma. Það verður því að taka viljann fyrir verkið. Patroljeppinn dró strætóinn nokkuð auðveldlega og við runnum vandalaust inná Suðurlandsveginn. Í Lögbergsbrekkunni lá stór jeppi á hliðinni talsvert langt utan vegar - mér sýndist það vera líka Patrol - og yfir honum stóðu nokkrir menn. Allt virtist þó slysalaust en atvikið gaf ástæðu til að varast launhálku á stöku stað. 

Þegar kom yfir heiði var bjart að sjá austur eftir og sú birta náði allt að Eyjafjöllum. Þar dró heldur í loft og við Pétursey var ljósaskilti sem varaði við vindhviðum á Reynisfjalli. Það var dálítið skrýtið því lengst af höfðum við ekið í stafalogni en skiltið laug ekki og á fjallinu var krappur vindur og regnskúrir. Vindbelgingurinn entist austur á Mýrdalssand og oftar en ekki fylgdi regnfruss með. Öllu slíku lauk þó snarlega þegar beygt var upp að Hrífunesi enda fullyrti hlunnindabóndinn að á þeim slóðum ríkti eilífðar veðurblíða hvað sem á gengi annarsstaðar. 

Þegar ekið var í hlað tók sjúklingurinn kyrrlátlega á móti okkur enda kom á daginn að hann gat sig hvergi hreyft - var hreinlega dauður með öllu!Annað apparat átti bóndi frammi á heiði og vildi nálgast það áður en farið yrði í aðrar athafnir. Það var þrettán tonna beltagrafa sem átti nú að taka á hús, og ef ekki vildi betur verkast, nota til að ýta sjúklingnum upp á kerruna. Við ókum upp að gömlu vegasjoppunni í Hrífunesi, sem nú er verið að breyta í sumarhús, og tókum stöðuna þar. Myndin er tekin frá því húsi og rauða örin á að benda á gröfuna upp í heiði. Beltagröfur ferðast ekki hratt og það var ljóst að það myndi taka talsverðan tíma að koma vélinni alla leið niður að húsum. ( á milli myndanna eru tæpar 180 gráður - sú efri norður, sú neðri suður )Það var ekki seinna vænna að leggja af stað og eftir skamma stund var komin hreyfing á hlutina. Á næstu mynd er horft niður yfir Hrífunes í átt að Meðallandi:

Á meðan beltavélinni var ekið niðureftir var reynt að koma lífi í sjúklinginn. Ekki vildi það ganga í fyrstu tilraun og það var í rauninni fyrst þegar eigandinn kom lötrandi á beltavélinni til byggða að sjúkrasagan fékkst fram óslitin og í smáatriðum. Eftir það var hægt að sinna endurlífguninni á rökrænan hátt - vélin var semsé olíulaus og þeir sem höfðu lent í vandræðum með hana í haust höfðu ekki getað komið henni í gang með venjulegum ráðum. Vélin hafði staðið inni í hlöðu aftan við beltagröfuna og þegar grípa átti til gröfunnar voru góð ráð dýr. Hún hafði því verið dregin með jeppa úr hýði sínu í hlöðunni og sett þarna út á grasblett. Nú fóru hlutir að skýrast!

Ástæðan fyrir því að ekki gekk að koma vélinni í gang var  fljótfundin - handdælan fyrir hráolíuna dældi engu, eða öllu heldur dældi hún afturábak og áfram. Í farangrinum voru nokkur verkfæri og ekki annað að gera en taka dæluna úr vélinni og hluta í sundur. Það kom á daginn að dælan var full af óhreinindum úr tanknum, nokkuð sem er býsna algengt þegar verið er að dæla hráolíu úr gömlum, ryðguðum ílátum á tanka vinnuvéla. Við þeystum með dæluna upp í sumarhúsið þar sem hún var vandlega hreinsuð í eldhúsvaskinum.Eftir lagfæringar, þrif  og samsetningu varð þetta hin ásjálegasta dæla:Þess var heldur ekki langt að bíða að dráttarvélin vaknaði til lífsins og nú loks fóru hjólin að snúast! Það er Bergendal sjálfur sem spáir þarna í framskófluhraðtengið sem var, líkt og margt annað, úr lagi gengið:

Skóflan sjálf átti að verða eftir, hún hafði ekkert til Reykjavíkur að gera svo eftir að hafa lagt hana út í gras var stillt upp og mátað við kerruna:....svo var prjónað:..og svo, eftir að hafa lyft afturenda Patroljeppans á loft, var hún inná - og sat svona líka flott!Þriggja öxla kerran með  3,5 tonna burðargetuna virtist hvergi barma sér og lagðist ekki svo merkjanlegt væri. Næst þurfti að strappa vélina niður á sem öruggastan hátt:Þá var fátt að vanbúnaði og lítið eftir nema taka beltavélina á hús.Svo var lokað, gengið frá og lagt af stað. Fyrstu metrarnir lofuðu góðu, dráttarvélin sat vel á kerrunni, hemlarnir á kerrunni virtust virka á viðunandi hátt og jeppinn réð þokkalega við hlassið. Spölkorni neðan við Hólmsárbrúna þurftum við þó að taka "viðgerðarhlé" þar sem planki undir ámoksturstækjunum losnaði.Lagfæringin tók augnablik og nú lá leiðin heim. Hraðinn var ekki nema um 60 km og það var komið myrkur þegar við náðum að Vík. Enn logaði rauð vindaðvörun fyrir Reynisfjall en nú var vindurinn með okkur og hjálpaði til upp brekkurnar. Það þarf líka dálítið sterkan vind til að hrista CASE 895!

Ferðin gekk vandræðalaust, við litum á festingar og hjólbarða á Hvolsvelli og síðan á Selfossi þar sem snæddur var síðbúinn kvöldmatur (sem vegna anna dagsins var raunar líka enn síðbúnari hádegismatur). Af praktískum ástæðum völdum við Þrengslin og ókum því til Hveragerðis og niður Ölfus. Lofthitinn í Þrengslunum var ekki nema um 2 gráður en vegurinn var þurr og hálkulaus með öllu. Klukkan var rétt um hálftíu að kvöldi þegar við renndum í hlað við N1 á Réttarhálsi. Þar var vélin tekin af og kerrunni skilað í stæði:Við ókum kerrulausir heimleiðis frá N1 klukkan 21.52. Ég leit á klukkuna um morguninn þegar við lögðum af stað með kerruna frá sama stað og hún var þá 9.46. Við höfðum verið slétta tólf tíma að sækja þennan níðþunga Lazarus austur í Hrífunes og koma honum heim vandræðalaust - og það var miður janúar! 

Þetta voru ekki leiðinlegustu tólf tímar ævinnar.............


18.01.2014 07:56

Laugardagsmorgunn.


Það er laugardagur átjándi janúar, hafi ég stautað mig rétt fram úr dagatalinu. Klukkan er átta og ég er á leið austur í Hrífunes.

 

.........Hrífunes er helvíti langt í burtu.........

12.01.2014 09:01

Hann spær illa.....


"Spáin er ill / og ferlega fámennt á götum..." var sungið fyrir mörgum árum af þáverandi ungskáldi og gítarplokkara ofan af Akranesi. Það er einmitt þannig á þessum sunnudagsmorgni hér í Höfðaborg. Bassi hefur farið sína daglegu morgungöngu og er kominn aftur. Honum var hrollkalt og hann skreið feginn ofan í hlýja körfu við stofuofninn.

Stakkanesið var klakabrynjað í gærmorgun, þegar fryst hafði ofan í slyddukafald föstudagskvöldsins - rétt svona eins og eftir erfitt vetrarúthald á Halamiðum!  Öfugt við þá sem berjast úti á Hala væsir ekki um stórskipið Stakkanes þar sem það bíður af sér veturinn í steinsteypubás Kristmundar í Stálveri. Kristmundur sjálfur nýtur hins vegar ekki skjólsins í Stálveri heldur velkist um úti á rúmsjó og gætir þar vélbúnaðar í iðrum Sturlaugs H. Böðvarssonar AK. Menn þurfa stundum að gera fleira en gott þykir.

Það er semsagt spáð illa til dagsins og morgundagsins. Ég heyrði í hrossabóndanum á Ketilstöðum í gær. Hann bregður sér hvergi, snýr afturendanum upp í vindinn að hætti hrossanna og stundar sín verk sem fyrr. Heyrði líka í Magnúsi að Neðra-Apavatni nú í morgun. Hann er að tygja sig af stað til borgarinnar og nær vonandi þangað fyrir veður. Hér á Stór - Kópavogssvæðinu er farið að blása og bætir smám saman í . Það heyrist talsvert á í Höfðaborg. Úti er snjólítið en hált, enda eru  svellalög talsverð.......

Um daginn birti ég mynd úr Aðalvík - þ.e. úr safni pabba. Þær eru þar fleiri og á einni má glöggt sjá að fleirum en Reykvíkingum getur orðið hált á svellinu. Hertrukkurinn á myndinni hefur a.m.k. fengið fyrir ferðina! Þegar Kaninn var, ásamt Aðalverktökum að byggja radarstöðina uppi á Skorum / Straumnesfjalli voru öryggisbelti fáséð, nema í flugvélum. Þau voru allavega ekki í GMC herbílum. Ég man að pabbi talaði stundum um að menn hefðu fleygt sér í gólfið og reynt að halda sér þar ef bílarnir ultu. Þeir sem það hafa reynt hafa varla sloppið ómarðir frá raununum en kannski sloppið þokkalega samt. Ég held samt ég megi fara með að þessi Gemsi hafi verið mannlaus þegar hann rúllaði af veginum upp Straumnesfjallið og niður undir jafnsléttu.

Ég hugsa að samkvæmt nýmóðins tjónamatskerfum tryggingafélaganna hefði verið settur "niðurrifslás" á flakið.......Kannski ég skjóti inn einni öllu yngri mynd, en þó líklega  u.þ.b. 23-24 ára gamalli. Hún er tekin á hæðinni ofan við Fagrahvamm í Skutulsfirði og á henni má sjá að það snjóaði talsvert vestra veturinn ´89-´90. Við pabbi stöndum framan við Landcruiser jeppa með Perkins dísilvél, djásn sem mér áskotnaðist innan úr Ísafjarðardjúpi:


....og mamma líka,  svo á engan sé hallað:


Sumir sumarbústaðir verða aldrei vetrarbústaðir. Hér má sjá hvers vegna:Já, það fennti stundum dálítið að Dalakofanum þeirra pabba og mömmu og kom fyrir a.m.k. einu sinni að vélsleðamenn skemmdu þakið með því að aka yfir það í slæmu skyggni og hríðarbyl.

Það eru til fleiri snjómyndir en þessar duga í bili.....
....................

08.01.2014 10:02

Við leiðarlok.


Hann Svenni rakari er allur. Það var svo sem búist við því enda hafði hann lengi strítt við erfið veikindi og heilsu hans hrakað ört nú síðustu vikur.

Ég kynntist Svenna fyrir nokkrum árum þegar hann langaði í trillu og þeir vinir og félagar, hann og Sverrir stýrimaður leituðu til mín sem er með nefið ofan í öllu sem snertir trillur. Einhverjir bátar voru þá undir smásjánni og ég vissi af einum vestur á Ísafirði sem ég taldi að myndi henta rakaranum vel. Það var Ögnin:Atvik réðu því að ég átti leið vestur á Ísafjörð um þetta leyti og myndaði því Ögnina í bak og fyrir. Rakaranum leist vel á myndirnar og með þær einar í höndunum keypti hann bátinn. Ættingjar og vinir sóttu hann svo vestur og Svenni gerði sjóklárt heima í bílastæðinu að Arnartanga. Hann gaf svo bátnum nafn látinnar konu sinnar, Sigrúnar Aradóttur. Trillan Sigrún að vestan var svo sjósett í bryggjuhverfinu í Grafarvogi vorið 2009. 

Á einstökum góðviðrisdegi haustið 2010 lá leið okkar félaganna þriggja, rakarans, stýrimannsins og mín,  til Vestmannaeyja.  Erindið látum við liggja milli hluta en má nærri geta að það tengdist trillum á einhvern hátt. Við sigldum með Herjólfi frá Landeyjahöfn og útsýnið var stórkostlegt:

 
Það má líka sjá að þeim leiddist ekkert, stýrimanninum og rakaranum:Við stoppuðum allt of stutt í Eyjum því þar var margt að sjá og að auki algerlega snjólaust meðan uppi á landi var snjór yfir og vegir glerhálir. Við höfðum varla snúið okkur við þegar við vorum aftur í Landeyjahöfn og Herjólfur spýtti okkur á land:Heilsu Svenna hrakaði smám saman og þar kom að hann taldi sér ekki lengur mögulegt að eiga trilluna Sigrúnu. Hún var því seld og við félagarnir réttum hendi við frágang hennar og skil. Á þessum tíma hafði Svenni skipt út gömlum VW ferðabíl sem hann átti og fjárfest í yngri og betri vagni. Eitt fannst honum þó vanta á þennan fína bíl, það var sólarsella af stærri gerðinni - Svenni vildi frekar hafa hlutina einu númeri of stóra en aðeins of litla - og það kom í minn hlut að setja hana upp og tengja. Verkið kostaði margar og langar vangaveltur enda vildu umræðurnar gjarnan villast af leið og faglegar spekúlasjónir víkja fyrir fabúleringum um trillur og ferðalög! Hann var nefnilega drjúgur húmoristi, rakarinn og ekki dró stýrimaðurinn úr þegar hann var nærri - sem yfirleitt var.

Eina ferð fórum við Svenni saman á ferðabílnum hans. Það var hringur um Mýrar og Snæfellsnes, farinn sumarið 2011 í blíðskaparveðri. Þá var svo komið að hann treysti sér ekki til að aka lengri vegalendir sjálfur en lét mér eftir aksturinn. Meðal áningarstaða okkar í ferðinni var kirkjan að Ökrum á Mýrum:Þar næst var áð við Ytri - Rauðamel. Hundurinn Hjörleifur, tryggur förunautur Svenna um árabil var auðvitað með í för og þurfti að kanna jarðveginn :

Við áðum raunar á sem flestum stöðum, við vikurnámið gamla að Arnarstapa, að Hellnum og við eyðibýlið að Dagverðará:
Við renndum niður að Malarrifi, Djúpalóni, inn í gíginn Berudal og loks bar okkur út í Öndverðarnes. Við gengum út að brunninum Fálka, þaðan niður í fjöruna um gömul bátanaust. Skoðuðum leifar húsa og mannvirkja á staðnum og fleira áhugavert:......og svo var hellt uppá kaffi um borð í ferðavagninum og rakarinn smurði samlokur og galdraði fram fleira góðgæti:Eftir kaffið héldum við að Skálasnagavita og kíktum á Svörtuloft. Svenna fannst staðurinn magnaður en vildi síður koma nálægt hrikalegum hraun-klettabrúnunum. Sagðist vera alltof lofthræddur fyrir slíka glæframennsku og bað mig fyrir alla muni að fara varlega, hann treysti sér nefnilega ekki til að keyra einn suður ef ég hrapaði fyrir björg. Þetta síðasta var sagt með illa földu glotti eins og stundum brá fyrir......

 

Við Skálasnaga var vendipunktur og leiðin lá heim, með nokkrum útúrdúrum þó.  Fleiri ferðir átti Svenni ófarnar á "Skúrnum" sínum en þar kom að skrokkurinn leyfði ekki slíkan skakstur lengur. Þegar Svenni treysti sér ekki lengur til að búa einn fluttist hann á Vífilsstaði og síðar á hjúkrunarheimilið Ísafold í Garðabæ.

Sumarið 2012 átti ég leið á æskuslóðir Svenna rakara í Selárdal vestra. Ég leit á gamla heimilið hans að Kolbeinsskeiði og sýndi honum myndir sem ég tók af því. Hann sagði fátt......
Það þurfti ekki löng kynni af Svenna rakara til að finna að þar fór góður og gegnheill maður af gamla skólanum, trúr sínu og sínum. Slíkum mönnum fer nú fækkandi........

Sveinn Ásgeir Árnason verður jarðsunginn frá Fossvogskirkju kl. 15 í dag, miðvikudaginn 8.jan.
............................

06.01.2014 21:37

Þrettándinn - kabúmm!


Fólki virðist ekki fjárvant - a.m.k. ekki sumu, ef marka má alla skothríðina í kvöld. Ég er svo aldeilis lessa, eins og kerlingin sagði...........

Ég var að grufla í gömlum myndum og fann þá þónokkrar hraðamælamyndir sem höfðu ekki ratað í rétt albúm gegnum tíðina. Ég efa ekki að það sé beðið með spenningi eftir þeim en svo verður bara að vera - mig langar ekki að birta þær strax.

Mig langar hins vegar að birta aðrar sem ég fann. Þær eru úr safni fv. tengdamóður minnar heitinnar og eru teknar á eða við Patreksfjörð fyrir áratugum síðan.  Mig minnir að ég hafi birt einhverjar þeirra áður en það gildir einu.

Það hefur margt breyst á Patreksfirði síðan þessar myndir voru teknar. Prófum eina enn:


......kannski tvær: ......og kannski fleiri:

 Að síðustu er ein alveg stórkostleg - finnst mér. Hún er af varðskipinu Ægi og er tekin þarna á legunni innan við Vatneyrina. Ægir er með gömlu brúna en ég veit ekkert um ártal myndarinnar né annarra sem birtast hér. Þær voru allar ómerktar en ég giska á að tengdamóðir mín fv., Halldóra Ólafsdóttir  frá Lambavatni á Rauðasandi hafi tekið a.m.k. einhverjar þeirra. Hér er semsagt Ægir:...og fyrst Ægir fær sitt pláss, málaður hergrár með fána á bóg er ekki úr vegi að birta mynd af öðru gráu skipi, sem þó er ekki með fána á bóg enda hergagn. Þetta er pramminn sem tók út af herflutningaskipi bandamanna í seinni heimsstyrjöldinni ( að því gefnu að þær verði ekki fleiri) og rak á land á Rauðasandi. Þetta er helvedes mikill prammi og maður væri fullsæmdur af bátnum sem festur er ofan á hann og situr þar líkt og krækiber.....yrði þokkalegasta Stakkanes þetta:Þá er það komið og vonandi hafa einhverjir gaman af að rýna í þessa gullmola.   • 1
Flettingar í dag: 50
Gestir í dag: 34
Flettingar í gær: 111
Gestir í gær: 45
Samtals flettingar: 642782
Samtals gestir: 91884
Tölur uppfærðar: 23.1.2019 04:07:41


Tenglar