Gunnar Th.
Fjórða kerfið.....


Færslur: 2012 Júlí

31.07.2012 22:17

Átta daga ferðin # 3.

Upp rann hinn fimmti dagur - miðvikudagurinn 18. júlí. Þegar ég vaknaði á húsbílastæðinu hans Ella Odds í Neðsta áttaði ég mig á að ég hafði sofið í einum dúr alla nóttina - nokkuð sem er afar sjaldgæft. Ég áttaði mig líka á fleiru, t.d. því að klukkan var hálfsjö og það var hávært lyftaraskrölt sem hafði vakið mig. Hvern andskotann voru menn að raska ró sofandi ferðafólks sem greitt hafði peninga fyrir svefnfrið, klukkan hálfsjö að morgni? M.a.s. hörðustu lyftarajaxlar frystihúsanna höfðu ekki hafið störf á þeim tíma. Hvað gekk á? Heilabúið var dálitla stund í gang en svo áttaði ég mig á því að aðeins eitt gat valdið þessum lyftaragassagangi á þessum ókristilega tíma. Það hlaut að vera komið skemmtiferðaskip. Ég reis upp við dogg (en þetta orðatiltæki, að rísa upp við dogg, finnst mér skemmtilegt. Ég nota það hér vegna þess að á sama augnabliki og ég reisti mig upp risu doggarnir Tjörvi og Orri einnig upp í búrum sínum) og gerði smárifu á gardínu ferðadrekans. Tilgátan var rétt, það var komið skemmtiferðaskip og það var verið að færa til eitthvað dót á höfninni því tilheyrandi. Ég hlustaði á skröltið töluverða stund, af því ég er svo þolinmóður að ég get hlustað á svona truflun langa stund án þess að fara og beita einhvern ofbeldi. Samt velti ég fyrir mér þessum hrikalega ókosti annars frambærilegs gistisvæðis þarna í Neðstanum. Klukkan varð hálfátta og á slaginu þurfti einhver alverdens fáviti að mæta til vinnu í nágrenninu á krosshjóli, og nýta Ásgeirsgötuna enda til enda til að fíla kraftinn í smellitíkinni. Þvílíkur andskotans, djöfulsins hávaði og þvílíkt botnlaust heila- og tillitsleysi við ferðalangana sem sváfu í húsbílunum sínum á svæðinu!!  Mér var farið að renna verulega í skap og ég var virkilega farinn að upphugsa einhverja skelfilega aftökuaðferð ef ég næði í mótoristann morgunglaða. Í þessum vangaveltum miðjum varð klukkan átta og á hjólbarðaverkstæðinu í fimmtíu metra fjarlægð hófu lofthamrarnir upp söng sinn við langan flutningatrailer sem lagt var við gafl hússins húsbílastæðismegin. Áhöfnin á Arnarnesinu, bæði tví- og ferfætlingar átti ekki annars úrkosti en að fara á fætur og framreiða morgunverð. Það var meira en dagsljóst að á þessu gistisvæði réðu plásskaupendur ekki sínum eigin fótaferðartíma, heldur var það athafnalíf bæjarins sem rak menn á lappirnar.

Það hafði rignt talsvert um nóttina og um morguninn rigndi enn þótt minna væri. Við yfirgáfum blettinn okkar með litlum söknuði og ókum af stað upp í bæ. Litum á skemmtiferðaskipið og hafnarlífið, lögðum svo bílnum í bænum og kíktum í verslun. Því næst lá leiðin inn í Súðavík aftur, við höfðum ekið gegnum þorpið á hraðferð daginn áður vegna leka dekksins og ég lofaði kokknum og kortalesaranum að bæta úr. Í Súðavík var litið á Raggagarð og fleira skoðunarvert, og eftir um tveggja tíma viðdvöl á staðnum var enn lagt af stað, nú til baka alla leið út í Bolungarvík. Þar var rennt um og bærinn skoðaður eins og hægt var milli regndemba, sem höfðu skollið yfir öðru hverju allt frá morgni. Í betra veðri hefði verið gamana að ganga fram að surtarbrandsnámunni að Gili en nú var það varla viðlit. Mig hafði langað að fara upp á Bolafjall og sýna henni Dagnýju konungsríkið mitt, Djúpið, Jökulfirðina og allt annað sem þaðan ber fyrir augu, en við sáum varla Bolafjallið sjálft fyrir þoku, hvað þá meira. Dagskráin var að tæmast, aðeins einu atriði var ólokið. Við áttum eftir að heimsækja vinafólk á Ísafirði sem við höfðum mælt okkur mót við daginn áður. Þangað snerum við okkur næst og eftir góðan vinafund var blásið til brottfarar og Ísafjörður kvaddur að sinni. Dvölin í heimabænum hafði aðeins verið rétt rúmlega sólarhringur og förinni var heitið til Suðureyrar. Það birti heldur til er leið á daginn og á Suðureyri var fallegasta veður. Við ókum gegnum þorpið allt út í Staðardal, snerum þar og heimsóttum bæjarsjoppuna. Um leið litum við á tjaldsvæðið því tími var kominn til að huga að næturgististað. Ég hefði svo sem alveg verið til í að gista þetta ágæta svæði á sjávarkambinum og hlusta morguninn eftir á lífæð þorpsins, smábátana, sigla til hafs. Það varð hins vegar að samkomulagi að klára Vestfjarðagöngin og aka til Flateyrar, þar sem er frábært tjaldsvæði, prýðilega staðsett og gulltryggt að næstu nágrannar gera gestum ekki rúmrusk, enda flestir lagstir til hvíldar fyrir árum og áratugum. Við  lögðum drekanum á góðum bletti í skjólsælu rjóðri - ekki það að við þyrftum skjól, það var dauðalogn - og "græjuðum grillið". Úr varð dýrindis kjúklingaveisla að hætti Dagnýjar og Orri og Tjörvi fengu sinn Platinum hundamat með ábót. Eftir kvöldmat og uppvask var svo farin gönguferð um þorpið enda til enda með hundana, að henni lokinni settist hundaeigandinn í hægindastól með prjónana sína en við þrír gengum annan hring um þorpið og nú ennþá ýtarlegri. Það mátti eiginlega heita að komin væri nótt þegar við snerum til baka til bílsins og bjuggumst til svefns. 

Ég læt þetta duga núna. Sjötti dagurinn var langur og viðburðaríkur, auk þess sem ég þarf að fara að klippa myndirnar inn í frásögnina. Þær eru allar ómerktar í albúminu og mig hefur vantað réttan netvafra til að geta unnið þær. Nú er hann kominn og ekkert til fyrirstöðu nema klassískur tímaskortur.....

29.07.2012 10:04

Átta daga ferðin #2

Þriðji dagurinn, mánudagur, heilsaði með sól og blíðu. Það var frekar fátt á tjaldsvæði Urðartinds í Norðurfirði og ágætt rými fyrir frændurnar Orra og Tjörva til að spretta aðeins úr spori. Strandveiðibátarnir sem kvöldið áður höfðu fyllt bryggjurými staðarins voru allir löngu farnir út og þar með Kristmundur á Lunda, líkast til dálítið syfjaður eftir raskið kvöldið áður. Á áætlun þenna dag var sund í lauginni að Krossnesi og síðan ferð yfir til Ingólfsfjarðar og Ófeigsfjarðar. Við byrjuðum í Krossnesi að loknum morgunmat. Þar var laugarvörður Páll Lýður Pálsson frá Reykjarfirði, smiður og vélsleðaferðalangur, félagi Kristmundar í Stálveri. Laugin var fín og öll aðstaða til fyrirmyndar, mun betri en ég hafði búist við. Þá er staðsetningin, niðri við fjöruborðið, einstök og ákaflega skemmtileg.

Dálitlu utar en Krossneslaug er eyðibýlið Fell á vegarenda. Þar voru hús ágætlega uppistandandi utan hvað þakjárn var farið að fjúka af útihúsum enda fór býlið í eyði um ´94. Eftir sundlaugarferðina var ætlunin að aka út að Felli en vegurinn var seinfarinn og tilgangurinn aðeins sá að aka á enda hans. Það var ekkert sérstaklega göfugur tilgangur, svona þannig séð og eftir stuttar samningaviðræður um borð í Arnarnesinu var ákveðið að snúa við og nýta tímann í annað. Eftir snúning á þröngum vegi hoppaði ég út til að taka myndir og um leið kom bíll! Það var svo sem auðvitað að hægt væri að vera fyrir öðrum í þessu einskismannslandi og ég bölvaði hressilega fjandans túristunum, alveg þar til ég sá ekilinn. Þar var nefnilega kominn stórvinur minn, Þorbjörn Steingrímsson á Garðstöðum við Djúp, brotajárnsbóndi með meiru. Við Bjössi áttum fínt spjall þarna í kantinum, svo hélt hvor sína leið.

Stefnan var tekin á Ingólfsfjörð, ekið inn að Melum í Trékyllisvík og beygt þar upp hálsinn sem skilur milli fjarða. Hálsinn er frekar lágur og auðekinn flestum bílum nema þeim allralægstu. Þó eru tvær dálítið brattar beygjur rétt ofan við Eyri í Ingólfsfirði sem gætu verið erfiðar afturþungum, framhjóladrifnum húsbílum á uppleið. Uppi á há-hálsinum mættum við Pétri í Ófeigsfirði Guðmundssyni á stórum sendibíl. Við erum málkunnugir enda er Pétur einn af fastagestum í Stálveri hjá Kristmundi. Ég hafði boð að bera Pétri frá Kristmundi en þau reyndust þá þegar hafa skilað sér eftir öðrum leiðum. Áfram var því haldið og næst staldrað við hjá gömlu síldarverksmiðjunni á Eyri. Þar eru mikil mannvirki enn uppistandandi þó talsvert hafi verið rifið af fallandi og fjúkandi skemmum og skúrum. Við heilsuðum uppá kríuna og kíktum á gríðarstóran, steinsteyptan lýsistank sem stendur ofan og innan við verksmiðjuhúsin. Þeir sem hafa séð sjónvarpsmynd Hrafns Gunnlaugssonar, "Blóðrautt sólarlag", muna eflaust eftir atriðinu þegar Helgi heitinn Skúlason klifraði inn í álíka tank á Djúpavík og hrópaði svo undir tók, til að láta bergmála. Ég gerði þetta sama þarna að Eyri og get fullyrt að ég hef aldrei á ævinni heyrt annað eins bergmál! Það var hreinlega eins og allur þessi dauðakyrri fjörður nötraði af hávaðanum.

Inni við botn Ingólfsfjarðar stendur samnefnt eyðibýli, í ágætri hirðu og sumarnotkun. Fyrir miðjum botni stóðu nokkrir bátar á fjörukambinum og einn þeirra vakti sérstaka athygli. Þar var komin 1601, Hrönn, fyrrum KE en nú ST. Raunar var varla hægt að lesa neitt að gagni nema nafnið á stýrishúsinu, en það var svo sem alveg nóg. Ég var oft og lengi búinn að reyna að afla mér upplýsinga um afdrif þessa fallega, fjögurra tonna dekkbáts án árangurs. Svo þegar ég loks hitti mennina sem hefðu getað sagt mér allt sem ég vildi vita, mundi ég ekki eftir að spyrja. Það var líklega árið 1988 sem Hrönnin var í Bolungarvík, í eigu Flosa og Finnboga Jakobssona. Þeir höfðu keypt bátinn til að hirða af honum kvótann og restin var til sölu á því verði sem þá gekk fyrir kvótalausa trébáta - sama og ekkert! Ég var kominn með aðra höndina á bátinn þá en þar sem annar - heimamaður - hafði verið búinn að biðja um hann á undan og sá var ákveðinn í að taka hann, missti ég af kaupunum. Hrönnin var smíðuð í Stykkishólmi árið 1978 og var því aðeins um tíu ára gömul, með um sextíu hestafla Vetus/Peugeotvél. Mér fannst þá grátlegt að hafa misst af þessum bát, hefur alla tíð fundist og finnst enn. Ekki síst er það grátlegt þegar örlög þessarrar fallegu fleytu eru þau að grotna niður á fjörukambi norður í Ingólfsfirði. Á sínum tíma hefði ég hiklaust selt sálina fyrir bátinn þarna við bryggjuna í Bolungarvík, nú er hann líklega "beyond the point of no return" eins og alltof margir velbyggðir trébátar sem grotna niður í vanhirðu víða um land.

Nú á ég Stakkanesið og það er ekki að grotna neitt niður. Maður á að una glaður við sitt og það var því ekki grátið lengi þarna á kambinum yfir Hrönninni, heldur haldið áfram fyrir fjörðinn, út á Seljanes og áfram inn í Ófeigsfjörð. Náttúrufegurðin er einstök á þessum slóðum og það verður fyrst skiljanlegt þegar þeir eru heimsóttir, hversu heimamenn eru áhugasamir um að dvelja þar lengri eða skemmri tíma á hverju sumri. Það hljóta að teljast forréttindi í dýrara lagi að eiga athvarf og ítök á þessum slóðum og geta notið þess að vinna verkin sín við fuglasöng, öldu-, lækjar- og fossanið - að maður tali ekki um stormhljóðin og brimið, þegar sá gállinn er á Kára! Hluti forréttindanna er svo auðvitað sá að geta þegar haustar, gengið frá húsum og búnaði, horfið til þéttbýlisstaðanna og eytt vetrinum þar í stað þess að þreyja snjóinn og stormana við öryggis-og samgönguleysi Strandavetrarins, líkt og forfeðurnir máttu gera.........

Það er vel hýst í Ófeigsfirði og þar er einnig að finna þokkalega búið tjaldsvæði fyrir þá ferðalanga sem kjósa að eyða nótt í paradís!  Það var hins vegar ekki á okkar áætlun þetta skiptið, heldur ókum við út framhjá bæjunum áleiðis að vegarenda við Hvalá norðan fjarðar. Við fórum þó ekki alla leið heldur snerum um miðja, líkt og við Fell fyrr um daginn. Mér lá ekkert á að vegarendanum - Hvalá er ekkert að fara neitt og ég á eftir að koma aftur á þessar slóðir. Klárlega!

Við dvöldum u.þ.b. klukkutíma í Ófeigsfirði og það var farið að líða verulega á daginn þegar við lögðum af stað til baka. Þegar við ókum um Seljanes og inn Ingólfsfjörðinn sáum við Pétur koma til baka handan fjarðar og það var ótrúlegt hvað sendibílinn bar hratt yfir! Utan við Ingólfsfjarðarbæinn er lítil trilluhöfn, við bryggju lágu tveir bátar. Annars vegar Valgerður ST, lítil og lagleg trétrilla sem ég hef aðeins séð á mynd áður, hinn var hraðbátur Péturs í Ófeigsfirði. Meðan ég myndaði bátana þeysti Pétur heim á hlað Ingólfsfjarðarbæjarins og hvarf inn.

Við höfðum aðeins stutta viðdvöl á Eyri í bakaleiðinni, mest til að mynda systurskip Stakkanessins sem þar stendur undir skúrvegg. Síðan var lagt á hálsinn að nýju og ekið yfir í Trékyllisvík og þaðan aftur í Norðurfjörð. Trillurnar streymdu inn til löndunar á þessum síðasta veiðidegi tímabilsins. Meðal þeirra sem voru að landa var Gunnlaugur Gunnlaugsson frá Ísafirði á Færeyingi sem áður hét Bylgja 6130 og var í eigu Bjarna Guðmundssonar (Ingibjartssonar) á Ísafirði. Mér sýndist Diddi hafa sett vel í´ann. Þá voru þrír, nýir Sómabátar að landa, allir frá Ísafirði og í eigu fjölskyldu Gumma Jens (Jóhanns Péturs Ragnarssonar). Kristmund Kristmundsson frá Gjögri sá ég hvergi enda er Lundi ST ekki með hraðskreiðustu bátum og eigandinn ekki kunnur að neinum handaslætti.

Ferðadrekinn var fylltur af bensíni í Norðurfirði og að auki var fyllt á kæliskápinn. Það var svo ekki eftir neinu að bíða, við höfðum náð fínum degi í sveitinni og lögðum af stað suðureftir. Handverkshúsið Kört í Trékyllisvík var heimsótt en að því loknu var stefnan tekin suðureftir til Bjarnarfjarðar. Það var komið fram um kvöldmat þegar þangað var komið og þar sem mig hafði lengi langað að koma fram í Goðdal og sjá vettvang snjóflóðsins sem þar féll á bæinn 1949 og minnst var á í síðasta pistli ákváðum við að aka fram eftir og grilla stórsteikina þar. Við trébrú í botni Bjarnarfjarðar mættum við bíl, hinkruðum og hleyptum honum yfir en síðan var "staðið flatt" inn að vegamótum fram í Goðdal. Skömmu fyrir beygjuna heyrðist skrítið hljóð í ferðadrekanum sem ágerðist heldur. Það var því stöðvað og skoðað. Vinstra afturdekk reyndist nær loftlaust og af hvissinu að dæma var það ekkert nálargat sem lak út um! Það var ekkert varadekk með í för, enda óhægt um vik að koma 35" hjóli fyrir í eða á bílnum og svo á bara ekkert að springa á svona dekkjum á venjulegum vegi. Ferðadrekinn er hins vegar búinn loftpressu og kút og um sama leyti og ég bjóst til að virkja þann búnað renndi upp að okkur maður á sendibíl sem var á leið fram í dalinn. Hann benti okkur heim að Svanshóli, innsta byggða býli sveitarinnar og sagði okkur að reyna að komast þangað heim - þar væri ábyggilega hægt að fá dekkinu bjargað. Heim að Svanshóli komumst við með því að pumpa tvisvar upp dekkið á leiðinni, svo hratt fossaði loftið úr og það var dagsljóst að meira en lítið var að. Um leið og við stoppuðum á bæjarhlaðinu féll bíllinn á felguna með skelli! 

Við náðum sambandi við heimafólk og fengum ágæta lagfæringu á dekkinu. Á því reyndist vera torkennileg rifa sem ekki gat hafa komið af öðru en aðskotahlut á veginum. Eftir sex eða sjö tappa virtist dekkið loks þétt, við þökkuðum fyrir okkur og héldum af stað á ný. Meðan dekkið var lagað velti ég fyrir mér ástæðunni fyrir rifunni og datt helst í hug, miðað við tímann sem dekkið var að tæma sig af lofti, að gatið hefði komið á það rétt við trébrúna. Þegar við svo ókum frá Svanshóli datt mér í hug að athuga hvort eitthvað sæist á eða í grennd við brúna sem skýrt gæti skemmdina. Ekkert stóð upp úr brúargólfinu sjálfu en í brekkunni ofan við hana lá sirka 15-20 cm langur bútur af fjaðrablaði. Á öðrum enda þess var klemma, á hinum hálft gat fyrir miðfjaðrabolta. Þessi bútur var því greinilega hálft fjaðrablað úr tjaldvagni eða fellihýsi, hafði dottið úr vagninum ofan við brúna og þegar ég ók svo yfir hann með framhjólið hafði hann kastast til og rekist á kaf í afturdekkið! Gamli Sherlock!

Um leið og ég skoðaði blaðbútinn kíkti ég á viðgerðina á dekkinu og komst að því að hún lak enn töluvert. Það var því ekki um annað að ræða en aka aftur heim að Svanshóli og biðja um fleiri tappa. Það var auðleyst og enn var þakkað og haldið af stað. Nú var öll ferðaáætlunin í uppnámi. Við höfðum ætlað okkur að aka, eftir kvöldgrill í Goðdal, yfir Steingrímsfjarðarheiði og út Snæfjallaströnd að Dalbæ og gista þar. Nú þorði ég ekki fyrir mitt litla líf að treysta dekkinu og ákvað því að aka beint yfir til Hólmavíkur þó útúrdúr væri, gista þar um nóttina og athuga með ástand dekksins að morgni. Ég hafði þegar gert ráðstafanir til að fá sent annað dekk úr Reykjavík ef þurfa þætti og það myndi skýrast að morgni hvort ég þyrfti að fá það til Hólmavíkur eða hvort hættandi væri á að aka áfram til Ísafjarðar um Djúp. Við komum okkur fyrir á tjaldsvæði Hólmvíkinga, grilluðum kvöldsteikina um hálftíuleytið og sofnuðum södd.........

Morguninn eftir reyndist lítið hafa sigið úr dekkinu. Við vorum snemma á fótum og eftir að hafa gert upp tjaldsvæðið lögðum við af stað til Ísafjarðar og fórum hratt yfir. Það kom fljótlega í ljós að þótt dekkið hefði haldið lofti um nóttina lak það talsvert í akstri. Í Ísafirði í Djúpi var farið að síga talsvert úr því og nauðsynlegt að renna heim að hótel Reykjanesi til að pumpa í. Þaðan var ekið á fullu áleiðis úteftir. Einu sinni þurfti þó að stoppa á leiðinni til að pumpa í, en sú dæling dugði til Ísafjarðar. Þegar þangað kom var ekið beinustu leið á dekkjaverkstæðið og meðan ferðadrekinn var lagður í hendur þeirra Bjarka og Domma fór áhöfnin - að ferfætlingunum undanskildum - í sund. Það passaði svo að eftir sundlaugarferðina var bíllinn tilbúinn og þó svo Dommi teldi dekkið nær ónýtt eftir endann á fjaðrablaðinu vildi hann meina að það ætti að duga suður - og kannski lengra! Dommi er ekki sá bjartsýnasti á svæðinu og það var tæplega hægt að fá betri meðmæli með nær ónýtu dekki en að "líklega myndi það sleppa"

Ég hafði erindi að sinna vestra og að því loknu var ferðadrekanum lagt á húsbílasvæðinu hans Ella Odds í Suðurtanganum og sest að fiskihlaðborði í Tjöruhúsinu handan götunnar. Það var því stutt að fara í háttinn að loknum fjórða degi ferðalagsins.

Framhald í pípunum.....

23.07.2012 22:35

Átta daga ferðin.

Ef Ísland er í laginu eins og einhver skepna eru Vestfirðirnir líkast til hausinn. Ókei, kannski segjum við ekki að Vestfirðir séu líkastir haus, en allavega sitja þeir á mjóum hálsi ofan á þeirri furðuskepnu sem Ísland óneitanlega er - í flestu tilliti. Um þennan "haus" er ekki hringvegur - a.m.k. ekki akfær, flestir vegir enda á hlaði afskekktra sveitabæja eða eyðibýla. Það er ekki heiglum hent að elta alla þá vegi til enda, sumir eru vart vegir lengur og má varla á milli sjá hvar vegi sleppir og slóði tekur við, hvar slóða sleppir og troðningur tekur við. Samt er alltaf eitthvað heillandi við vegarenda - það er fátt endanlegra en vegur sem bara endar............

Þær eru ófáar ferðirnar sem ég hef farið framhjá skiltinu í botni Steingrímsfjarðar þar sem stendur: Norðurfjörður 100 km. Allavega eitthvað í kringum hundrað - man það ekki nákvæmlega. Þau eru líka ófá, skiptin sem ég hef ákveðið að kýla nú á það og renna norðureftir næst. Alltaf næst! Þetta "næst" var ég svo líka að flýta mér og alltaf beið spottinn. Árið 2004 náði ég að aka norður eftir allt til Ingólfsfjarðar og Norðurfjarðar, en tímaskortur, auk annarra ástæðna sem áður hafa verið tíundaðar, kom í veg fyrir að ég kæmist lengra í það skiptið.

Síðan eru liðin mörg ár. Mér telst til að þau séu átta........

Það var því ágætlega við hæfi að setja upp átta daga túr um Vestfirðina og setja markið við Ófeigsfjörð og Fell utan Krossness. Lengra verður ekki farið á bíl, þó ótalinn sé vegarkaflinn að bænum Munaðarnesi við Ingólfsfjörð er Ófeigsfjörður vissulega norðar og vegurinn að Munaðarnesi eiginlega hálfgerð heimtröð þótt löng sé.

Klukkan var rétt um eitt eh.laugardaginn 14 júlí sl.þegar lagt var af stað úr Kópavogi. Fyrsta áning var á Kjalarnesi þar sem litið var inn hjá góðu fólki. Það lá svo sem ekki lífið á og ferðadrekinn var væna tvo tíma úr Kópavogi í Borgarnes, að áningunni meðtalinni. Í Borgarnesi var keypt ferðanesti og kæliskápurinn sneisafylltur af kræsingum. Auk þess var troðið í flest þau skot sem troða mátti matföngum í því þær eru ekki margar Bónusbúðirnar frá Borgarnesi til Ísafjarðar en þangað gerðum við ráð fyrir að ná á þriðjudeginum 17. Næst var tekið ísstopp í Búðardal og þeir Schnauserfrændur Orri og Tjörvi, sem á keyrslu voru lokaðir í búrunum sínum, fengu að spretta úr spori og vökva umhverfið. Áfram var lötrað vestureftir, hraðinn þetta 60-70 ef enginn var fyrir aftan, stundum 80 ef þurfa þótti. Veðrið var þokkalegt í upphafi og skánaði jafnt og þétt er vestar dró. Það var komið fram um kvöldmat þegar við komum til Hólmavíkur, og eftir stuttan skoðunarhring um bæinn komum við okkur fyrir á tjaldsvæðinu í sístækkandi hópi félaga úr Húsbílafélaginu (sem var að hefja hringferð um Vestfirði) og drógum fram grillið. Eftir stórveislu sem töfruð var fram á augnabliki var svo ferðbúist að nýju og ekið fyrir Steingrímsfjörð, beygt hjá skiltinu fyrrnefnda og haldið út með firði að norðan. Hann heitir Selárdalur, dalurinn munnvíði sem ekið er hjá og yfir brú á Selá. Áður en komið er að brúnni liggur afleggjari inn dalinn og inn á hann ókum við. Litlu innar er gömul steinbrú, sem árbók F.Í. frá 1952 lýsir sem glæsilegu 40 mtr. löngu mannvirki. Lítið er eftir af glæsileikanum enda brúin löngu aflögð, en í nágrenni hennar fundum við ágætan náttstað, þar sem þeir Orri og Tjörvi gátu slett úr klaufunum.

Sunnudagurinn 15. skartaði sólskini og nær heiðum himni þegar morgunverður var fram borinn í ferðadrekanum. Líklega hefur klukkan verið nær ellefu þegar haldið var af stað út Selströnd áleiðis til Drangsness. Þar sem eru bátar, þar er gaman og auðvitað var höfð smáviðdvöl í Kokkálsvík þar sem fleytur Drangsnesinga lágu við bryggju. Fyrir margt löngu sá ég fiskikerin sem heimamenn höfðu þá komið fyrir í fjörunni neðan við skóla þorpsins, þar sem nýta mátti heitt uppsprettuvatn til baða. Nú var öll sú aðstaða endurnýjuð, komnir alvöru plastpottar með tréverki kringum og handan götunnar var fínasta búningsaðstaða. Það lá beint við að prófa græjurnar og það gerði ég sannarlega! Náði m.a.s. fínni kjaftatörn við tvo heimamenn sem mættu um líkt leyti, a.m.k. annar kom röltandi beint að heiman í slopp og inniskóm! Það var svo ekki fyrr en ég var að sturta mig handan götunnar eftir pottdvölina að ég uppgötvaði að á Drangsnesi er líka nýleg sundlaug! Hún var ekki á sundlaugalistanum mínum, enda er hann nú orðinn tólf ára gamall. Ég gat ekki yfirgefið staðinn án þess að prófa þessa laug (og geta þar með merkt hana á listann minn). Hún reyndist hin fínasta í alla staði og fær bestu meðmæli.

Það leið á daginn og næsti áfangi okkar var Kaldrananes. Staðurinn er sögufrægur en sagan dró mig þó ekki sérstaklega að honum. Eitt af áhugamálunum er að skoða kirkjur, því eldri því betri og í Kaldrananesi stendur ein slík. Þegar ég fór þarna um árið 1987 voru vinnupallar um kirkjuna og ljóst að einhverskonar endurbygging var í gangi. 2004 fór ég aftur um og enn voru vinnupallarnir á sínum stað og þá varð einnig ljóst að endurbyggingunni miðaði lítið. Einhvern tíma síðar eignaðist ég bók um kirkjur landsins, þar var umfjöllun um Kaldrananesskirkju, mynd af henni og enn voru vinnupallar í forgrunni. Mig langaði að sjá hvort nú, árið 2012 þegar "tunglið átti að vera malbikað og steypt í hólf og gólf" væru enn vinnupallar um kirkjuna. Jú, þeir voru á sínum stað og kirkjan var sjálf ólæst og aðgengileg. Stutt skoðun leiddi í ljós að ekki má dragast mikið lengur að endurbæta það sem þarf, því endurbæturnar sem unnar voru fyrst eru nú komnar á viðhald. Kirkjan verður ónýt með öllu á næstu tíu, fimmtán árum ef ekki verður gripið hressilega í taumana. Svo einfalt er það...

Garðurinn hefur fengið álíka viðhald og kirkjan, en í suðausturhluta hans mátti sjá leiði sem minnti á harmleikinn í Goðdal í Bjarnarfirði árið 1949, þegar snjóflóð féll á býlið og tók sex mannslíf. Á legsteini mátti lesa sex nöfn......

Við Gvendarlaug hjá Klúku hittum við vini og félaga á suðurleið, grillið var tekið fram og snætt sameiginlega. Að áningu lokinni héldu þeir suður, við norður. Það var ekki hratt farið yfir enda margt að sjá. Í Djúpavík var þónokkuð af fólki, bæði ferðamenn og húsráðendur. Þó var ekki margt í matsal hótelsins þegar við settumst þar inn og pöntuðum okkur galakvöldverð í heiðursskyni við okkur sjálf!

Sólin var talsvert sigin og fjöllin farin að roðna þegar við bjuggumst enn til ferðar og ókum á slóinu út Reykjarfjörðinn norðanverðan, allt að Gjögri. Í uppsátri stóð Hanna ST, elsta fiskiskip landsins, smíðuð 1899 ef enginn lýgur. Hanna var endurbyggð í vetur leið af Hafliða Aðalsteinssyni úr Hvallátrum, bráðflinkum bátasmið af gamla skólanum og var í sínu allra besta formi þarna í vörinni sinni á Gjögri. Við hús skammt frá stóð kunnuglegur bíll, þar var heimavið Kristmundur Kristmundsson Sörlasonar Hjálmarssonar frá Gjögri. Kristmundur stundar strandveiðar frá Norðurfirði á trillunni Lunda ST, þeirri sömu og átti að koma við sögu í pistli hér neðar þegar tæknin sveik mig. Það var hins vegar enginn svikinn af kaffinu hjá Kristmundi þarna um kvöldið í notalega, litla húsinu hans á Gjögri.

Ég er ekki frá því að klukkan hafi verið hátt í ellefu að kvöldi þessa langa sunnudags þegar við komum okkur fyrir á grasbletti ferðaþjónustunnar Urðartinds í Norðurfirði. Þar var ágætis aðstaða og ekki kvörtuðu þeir Orri og Tjörvi þegar sonur rekenda þjónustunnar tók að sér að fara með þá í göngutúr. Hvíldin var vel þegin um kvöldið, langur dagur að baki og annar framundan....

Framhald fljótlega.

17.07.2012 09:52

Brotið blað.

Aðeins örstutt: Það fór í verra í gær þegar ferðadrekinn fékk fjaðrablað úr einhverri kerrudruslu í gegnum vinstra afturdekkið. Þetta gerðist í Bjarnarfirði, rétt við Klúkuskóla á leiðinni norðan úr Ófeigsfirði. Okkur tókst, með aðstoð eigin loftdælu að koma bílnum til baka að Svanshóli þar sem ábúendur voru afar hjálplegir við að tappa dekkið. Að viðgerð lokinni breyttum við ferðaplaninu, ákváðum að sleppa Langadalsströndinni og aka í staðinn til Hólmavíkur. Þar var nóttinni eytt á tjaldsvæðinu og þegar þessar línur eru skrifaðar, kl.10 að morgni þriðjudags, er enn loft í dekkinu. Við ætlum því að taka sénsinn og aka til Ísafjarðar þrátt fyrir nokkurn loftleka. Þar verður svo vonandi hægt að laga dekkið betur. Ættum, ef vel gengur, að vera á firðinum fríða um miðjan dag í dag. Gott í bili. 

13.07.2012 08:56

Lífsmark!

Hún varð snubbótt, þessi síðasta færsla og ég hef enn ekki haft skap til að endurvinna hana með myndunum. Innihald hennar var siglingin á Lunda ST frá Akranesi til Reykjavíkur að kvöldi fyrsta maí sl. og svo virðist sem myndirnar hafi drepið færsluna. Hún kemur þó með tíð og tíma, ekki vegna þess að ég haldi að einhverjum lesendum þyki efnið áhugavert heldur vegna þess að frásögnin hefur gildi fyrir mig sjálfan seinna meir, líkt og flestar þær færslur sem settar hafa verið inna allt frá upphafi, í ágúst ´03.

Maímánuður var annars venjulegur í flestu, það var unnið við ný heimkynni og Lyngbrekkan var tæmd og afhent nýjum eigendum helgina 19-20 maí. Á þeim tíma var ég fyrir vestan með öllum systrunum að undirbúa Dalakofann, sumarbústaðinn pabba heitins, fyrir sölu. Það var áður komið fram að sjómannadagshelginni eyddi ég í Stykkishólmi, en föstudagskvöldinu fyrir hana varði ég með börnunum, m.a. á veitingastað við Laugaveg þar sem blásið var til veislu. Á laugardeginum 2. júní, fimmtugasta og fimmta afmælisdeginum, var svo ekið í Stykkishólm á ferðadrekanum og kvöldinu eytt á Narfeyrarstofu í boði góðrar vinkonu sem verður sífellt betri og betri....
 Á sunnudeginum, sjómannadegi, var siglt með Baldri út að Elliðaey og kringum hana í rjómablíðu, hreint einstök upplifun.

Föstudaginn 8. júní var blásið til vinnustaðarferðar til Grindavíkur þar sem farið var í fjórhjólaferð inn á hraunbreiðuna á Reykjanesi. Þar á eftir var farið í hellaskoðun og kvöldinu lauk svo með matarveislu á Salthúsinu í Grindavík. Laugar- og sunnudegi var svo varið í útimálningarvinnu hjá vinkonunni, í hreint einstakri veðurblíðu.

Helgina 15-17. júní var farið með tjaldvagn vinkonunnar upp að Varmalandi í Borgarfirði og slegið upp gistingu þar. Frá Varmalandi var svo ekið um nærsveitirnar, Deildartungu, Kleppjárnsreyki, Húsafell og Hvítársíðu á laugardeginum en á sunnudeginum var farið að Hreðavatni og um Jafnaskarð. Frá þeirri helgi er myndasyrpa í myndaalbúmunum hér efst.

Helgina 22-24. júní ætlunin að ferðast eitthvert austur eftir suðurlandinu, gista fyrri nóttina á Hvolsvelli en þá seinni í Þakgili. Fararskjótinn var nú aftur ferðadrekinn og innanborðs voru auk okkar Dagnýjar ferfætlingarnir Edilon Bassi, Tjörvi og Orri. Það var dálítið þröngt í ferðadrekanum þessa fyrstu nótt sem öll hjörðin eyddi saman, en allt fór þó vel. Á laugardagsmorgninum var svo stefnan sett á Seljalandsfoss í einmunablíðu en ákveðið að líta á Landeyjahöfn í leiðinni. Það varð svo til þess að þegar við sáum Herjólf nálgast land kom ekkert annað til greina en að nýta blíðuna til Eyjaferðar. Það gekk eftir og aðfararnótt sunnudags eyddum við á ákaflega "hundavænum" stað úti á nýja hrauninu. Á sunnudeginum var svo farið í ævintýrasiglingu með Rib-Safari á ótrúlega hraðskreiðum harðbotna slöngubát með tvær 400 ha. vélar!  Ég hef fyrir satt að við höfum krúsað á 42-43 sjml. milli smáeyjanna við Heimaey og ef skoðaðar eru myndirnar í albúminu má sjá svipinn á henni Dagnýju sem leiddist sannarlega ekki á 43 mílum!

Mánaðamótahelginni var varið með góðum hópi fólks við sumarbústað undir Eyrarfjalli í Eyrarsveit. (við austanverðan Grundarfjörð). Frá þeirri helgi eru nokkrar myndir í merktri möppu, meðal þeirra a.m.k. tvær sem teknar eru við vatnsból Ólafsvíkinga á Jökulhálsi.

Um liðna helgi var svo hin árlega hópsigling um Breiðafjörð á vegum Bátasafns Breiðafjarðar á Reykhólum. Áður var fram komið að við Gulli Vald. hyggðumst reyna að komast á "Bjartmari" okkar í þá ferð og það gekk eftir, þó tæpt væri. Engar myndir eru enn komnar í möppu frá siglingunni en von er á þeim mjög bráðlega.

Þessa komandi helgi er ráðgerð ferð norður Strandir allt til Ófeigsfjarðar og Munaðarness. Alls á ferðin að taka viku og spanna auk áðurnefndra staða Ísafjarðardjúp beggja vegna, skamma viðdvöl á Ísafirði og síðan ferðalag suður heiðar og siglingu með Baldri yfir Breiðafjörð sem lokahnykk. Fyrir þetta ferðalag hefur ferðadrekinn undirgengist gagngerar breytingar á innréttingu, hefur verið gerður "dömuvænni" og rýmri um að ganga. Þegar þetta er skrifað, skömmu eftir miðnætti á föstudegi eru þó blikur á lofti hvað varðar þessa lengstu ferð sumarsins en þau mál skýrast vonandi fljótlega.

Stakkanesið vaggar við bryggju og hefur varla verið hreyft, utan hvað ein sigling umhverfis Viðey hefur verið farin.

.........en ég hef heyrt af mikilli makrílgengd á Sundunum............
  • 1
Flettingar í dag: 50
Gestir í dag: 34
Flettingar í gær: 111
Gestir í gær: 45
Samtals flettingar: 642782
Samtals gestir: 91884
Tölur uppfærðar: 23.1.2019 04:07:41


Tenglar