Gunnar Th.
Fjórða kerfið.....


02.08.2014 11:08

.......og það flaut!


Það var komið fram um hádegi í gær þegar litli blái bíllinn var fylltur af farangri og snúið áleiðis í Hólminn með lögskipaðri viðkomu í Geirabakaríi í Borgarnesi.


Föstudagur fyrir verslunamannahelgi, blíðviðri í Hólminum og Stakkanesið á vagninum. Semsagt allt tilbúið fyrir sjósetningu. Við tókum við húsinu seinnipart dags eftir kaffisopa hjá Gulla og Löllu - nokkuð sem er fastur liður við hverja komu í Hólminn. Síðan þurfti að kaupa matarbirgðir til helgarinnar og koma fyrir í skápum ásamt öðrum farangri sem fylgir. Eftir kvöldgrillið var svo tekið til við Stakkanesið. Það þurfti nokkur handtök til því báturinn hefur ekkert verið settur á flot í sumar. Það þurfti að taka landbátinn Fagranes ofan af, þar sem hann hafði verið rígbundinn fyrir flutninginn. Síðan þurfti að setja upp laus rekkverk, koma rafgeymum um borð og öðrum tækjum sem geymd eru innanhúss yfir veturinn. Eftir allskonar smálegt klapp og klór var svo komið að því að sjósetja. Rennan í Skipavík var reyndar í notkun allt kvöldið því verið var að sjósetja nokkra slöngubáta eyjafólks sem var að koma til helgardvalar í sumarhúsum. 




Svo kom að okkur og það var bakkað niður í rennuna, kubbar settir fyrir hjólin og dráttarkaðallinn festur milli vagns og bíls.



Tjakkað undir vagninn og losað af kúlunni:



Strekkt á kaðlinum, kubbarnir teknir frá vagninum og látið síga í sjó:



Þegar ekki hefur verið sett í gang eftir langa stöðu er vissara að hafa spotta milli báts og vagns, svo maður fljóti nú ekki upp vélarvana og reki um allan Breiðafjörð!



En sem betur fór voru það óþarfar vangaveltur, vélin datt í gang og Stakkanesið rann á flot. Því var lagt við bryggju meðan gengið var frá vagninum uppi á kanti:



Eftir það var ekkert að vanbúnaði og lagt var af stað í langþráða siglingu!





Þessi fyrsta sigling var þó ekki löng enda átti hún ekki að vera það. Ég sigldi sundið milli Landeyjar og lands enda styst þar yfir í höfn. Í huganum er ég búinn að sigla þessa leið svona þúsund sinnum...........



Flóðið var uppúr klukkan tíu og það var farið að rökkva talsvert þegar sundið var siglt. Elín Huld gerði sitt besta í heimildamyndatökum en samt urðu myndinar hálfóskýrar - sérstaklega þær sem teknar voru úr fjarlægð:



Þetta var dálítð skrýtin tilfinning - þarna voru allir hlutir gerðir í fyrsta sinn en þó ekki, því þegar menn eiga til að mikla fyrir sér einfalda hluti eins og ég viðurkenni fúslega, þá er maður búinn að fara yfir og skipuleggja ferlið sekúndu fyrir sekúndu. Mér fannst því eiginlega ekkert nýtt við þetta:



Úti við Skipavík var vatnsslanga á bryggjunni en því miður ekki hægt að komast að krananum fyrir hana. Í höfninni voru hins vegar margar og á þessarri bryggju var ein sem gott var að komast að og skola mesta skítinn af bátnum: 





Þá var að leggja að bryggju. Ég hafði talað við hafnarvörð þegar ég kom í bæinn og fékk leyfi til að leggja við innstu flotbryggjuna. Staðsetningin var nokkuð frjáls og mér fannst tilvalið að leggja utan á þennan laglega, gula Skagstrending:





Ég segi það enn og aftur: Það er fullkomnað!



.....takk, Elín, fyrir hjálpina og myndinar......
...............................................................

Flettingar í dag: 89
Gestir í dag: 18
Flettingar í gær: 159
Gestir í gær: 28
Samtals flettingar: 63439
Samtals gestir: 16512
Tölur uppfærðar: 19.4.2024 13:37:23


Tenglar