Gunnar Th.
Fjórða kerfið.....


07.08.2014 08:39

Skriður á bretti....


( Í upphafi er rétt að taka fram að 9. hluti Færeyjaferðar er í burðarliðnum )


Stakkanesið fékk skriðbretti um leið og það kom í Hólminn. Mig hafði lengi langað að prófa hvort þess háttar apparat myndi gera eitthvað fyrir ganghraðann og réðist því í hönnun og smíði þess í vor.

Jájá, það má alveg brosa út í annað að orðalaginu en sannleikurinn er sá að það tók mig talsverðan tíma að fá brettið til að fylgja botnlaginu. Norðmenn eru klárir að mörgu leyti en þegar þeir smíðuðu Stakkanesið (og ótal systurskip þess) þá hefðu þeir gjarnan mátt vanda sig örlítið meira því skuturinn er ekki alveg samhverfur. Það var allavega mín niðurstaða eftir að hafa mótað hann - þ.e. skutinn - í masonite, fyrst annan helminginn, svo hinn og loks báða í einu. Í öllu falli tók það dálítinn tíma fyrir tvær hendur að fá allt nokkurn veginn rétt.

Framhaldið var svo fengið að láni frá Færeying sem Vélsmiðja Ísafjarðar átti á sínum tíma og hét ÝR. Á þann bát var smíðað stillanlegt skriðbretti úr áli og það síðan stillt í þá stöðu sem best virtist virka við prófun. Þegar ÝR seinna forframaðist og fékk flotkassa úr plasti fékk karl faðir minn þetta álbretti á JÓA sinn, sem var samskonar Færeyingur og eflaust er það þar enn.

Stakkanesið fékk samskonar bretti en þó úr mótakrossviði og ívið stærra að flatarmáli. Skemmst er frá að segja að eftir vangaveltur í höfninni hér í Hólminum og nokkrar prufusiglingar út fyrir Súgandisey var brettið fastsett í eina stillingu sem skilaði hálfrí mílu til viðbótar í gangi á sama snúningi. Auk þess á vélin miklu auðveldara með að ná upp viðbótarsnúningi og með lítilli snúningsaukningu nær báturinn 6,1 sjómílu en náði aldrei meiru en 5,3 áður.

Ég fékk aukahendi frá syninum Arnari Þór við að setja brettið á hér í höfninni og prófa það. Hann tók svo stutt vídeó af Stakkanesinu á leið inn í höfnina á 5,8 mílum áður en slegið er af. Munurinn á því hvernig báturinn liggur í sjó eftir tilkomu brettisins er afgerandi. Smellið á hlekkinn:


Síðan hefur verið stöðug vindgjóla og lítið hægt að sigla......því miður!
-----------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------

Allt ofanritað er skráð í morgun - miðvikudag 7.ágúst. Spá dagsins boðaði vind sem í morgun lét ekki sjá sig og þegar leið á morguninn var ákveðið að leysa landfestar og sigla spöl með krílið Bergrós Höllu sem kom akandi í Hólminn í gær til að eyða tveimur nóttum hjá öldruðum foreldrum sínum! Það var ákveðið að sigla inn að Hvítabjarnarey, siglingin tók sirka tólf mínútur og fyrst þangað var komið - í hvítalogni - var snúið til norðurs, siglt fram hjá Miðleiðarskeri í mynni Breiðasunds og stefnt á Seley suðaustan við Hrappsey. Þaðan var siglt inn á sundið milli Hrappseyjar og Purkeyjar og skoðaðar stórkostlegar stuðlabergsmyndanir í Purkey.


( Þessa mynd tók ég reyndar á sjómannadaginn 2009 af Baldri. Stuðlabergið í Purkey er óbreytt...)


Frá Purkey var haldið að Dímonarklökkum og siglt inn á voginn milli þeirra og Stekkjareyjar. Það var komið aðfall og talsvert straumhart þegar við sigldum út af voginum og upp með klökkunum. Þaðan var svo snúið suður á við og siglt vestur fyrir Skörðu með beinni stefnu á Þórishólma, í síharðnandi straumi og sívaxandi vindi. Við hólmann var stutt stopp meðan mæðgurnar skoðuðu fuglalífið en síðan siglt síðustu tíu, tólf mínúturnar inn á Stykkishólmshöfn. Þegar þangað kom hafði siglingin frá Klakkeyjum tekið réttan klukkutíma en ferðin í heildina tæpa þrjá.


Þessi eina ferð "borgaði" alla fyrirhöfnina - og alla biðina - við að koma bátnum upp í Hólm......og gott betur.

Flettingar í dag: 124
Gestir í dag: 47
Flettingar í gær: 122
Gestir í gær: 55
Samtals flettingar: 64509
Samtals gestir: 16756
Tölur uppfærðar: 26.4.2024 18:49:10


Tenglar