Gunnar Th.
Fjórða kerfið.....


23.08.2014 09:02

Heim frá Færeyjum - 11. hl. ferðasögu.


Tíunda hluta lauk í sundlauginni á Egilsstöðum og þ.a.l. rökrétt að ellefti hluti hefjist þar. Það má einnig koma fram að sundlaugin var enn ómerkt á sundlaugalistanum mínum og því fékk hún nú sinn kross :

Þau örfáu ský sem skreytt höfðu himininn meðan við lágum í bleyti voru á undanhaldi og blái hlutinn stækkaði  meira og meira. Vatnið í sundlauginni hafði heldur ekki náð að þvo af okkur ferðabakteríuna og það var tilvalið að nýta þetta ágæta veður í dálítið flakk. Þar sem forðabúr ferðadrekans var að mestu tæmt við brottför frá Færeyjum var ekið að Bónusbúð staðarins og fyllt á það að nýju. Síðan var stefnan tekin niður að Eiðum. Við höfðum þó ekki langt farið þegar Borgarfjörður eystri - Bakkagerði - barst inn í umræðuna. EH þótti langt að fara og dró úr. Ég minnti á að síðast hefðum við gefið okkur tíma til að heimsækja Bakkagerði árið 1985. Þau rök vógu þungt og umræðan styttist í: "Ókei, ef þú nennir"  Ég svaraði: "Ég nenni alltaf" og af því ferðadrekinn var sneisafullur af ódýrri færeyskri dísilolíu var krúsið stillt á níutíu og stefnan tekin niður þinghárnar tvær, Eiða- og Hjaltastaða-. Á leiðinni ókum við framhjá "kunningjum" af Norrönu, erlendum ferðabílum sem við höfðum verið samferða heim. Þá mátti sjá ýmist úti í kanti að stúdera kort eða í nestisupptöku. Tveir eða þrír stóðu á völdum útsýnisstöðum í Vatnsskarði, milli Héraðs og Njarðvíkur. Áfram rúlluðum við niður í Njarðvík og þar var myndavélin munduð til fyrstu skota dagsins. Myndefnið voru Múli og Hádegisfjall, en þó ekki síður snjórinn í fjöllunum. Snjór í fjöllum var nefnilega varla séður í Færeyjum nema kannski á einum stað í Slættaratindi:

Krossinn í Njarðvíkurskriðum hefur ábyggilega verið lagfærður frá því ég sá hann fyrst því ég minnist hans öðruvísi. En kannski er minnið bara að bregðast mér..Lognið breytist hins vegar aldrei:Við ókum eiginlega beint gegnum þorpið Bakkagerði (ég hlýt að mega segja Bakkagerði því það stendur á kortinu mínu....) og fyrir fjarðarbotni stendur kletturinn Álfaborg. Frá honum tókum við þessar myndir til austurs. Sú efri sýnir Svartafell (og er ekki erfitt að skilja nafngiftina) en sú neðri mun sýna Geitfell, nokkru norðar:

Í austanverðum Borgarfirði eystri var fyrir mörgum árum gerð lítil bátahöfn í landi jarðarinnar Hafnar. Þegar smábátafloti þorpsins stækkaði við afar erfið hafnarskilyrði var ráðist í að stækka og endurbyggja þessa hafnaraðstöðu handan fjarðar með ágætum árangri. Höfnin er byggð inn milli kletta en í þessum klettum er gríðarlegt fuglalíf. Þetta fuglalíf hlýtur að hafa ratað í erlendar ferðabækur ef marka mátti fjölda útlendinga sem voru á staðnum með allskonar myndavélargræjur. Meðal þeirra voru hjónin sem voru klefanautar okkar á Norrönu á heimleið frá Færeyjum. Af númeri Landróversins þeirra mátti ráða að þau kæmu frá Þýskalandi. Meðan ég skoðaði bílnumer og rabbaði við trillukarl sem var að standsetja við bryggjuna arkaði EH fram á klettana eftir þartilgerðum fuglaskoðarastíg og skaut linsuskotum í allar áttir:
Þegar nóg hafði verið myndað var haldið til baka og nú var gengið á Álfaborg. Það er svo sem ekki mikil fjallganga en þegar næsta umhverfi er tiltölulega flatt fæst góð yfirsýn. Að neðan er horft í austur til Geitfells og Svartafells:Hér er útsýni af Álfaborg yfir þorpið. Tjaldsvæðið í forgrunni, mjög stórt og vel búið:Kirkja Borgfirðinga er hefðbundin, byggð árið 1901 eins og fram kemur HÉR. Sjá einnig HÉR.Eins og fram kemur í hlekknum er altaristaflan talin til merkari verka Jóhannesar Kjarvals. Ég er aðeins bifvélavirki og með takmarkað vit á myndlist en verð þó að viðra þá skoðun mín að ef þessi altaristafla er með merkari verkum Kjarvals þá er eitthvað mikið að í mati á myndlist yfirleitt. Það hefur margoft komið fram hér á síðunni að bifvélavirkjar geta líka haft gaman af að skoða kirkjur - og þá um leið altaristöflur - og þegar jafnmargar hafa verið skoðaðar og margoft hefur komið fram hér á síðunni, þá getur maður myndað sér álit þrátt fyrir skort á skólun í myndlist. En meðan Kjarval er jafn hátt skrifaður og raun ber vitni geta Bakkgerðingar glaðst yfir sinni altaristöflu..........

Ljósakrónan er ekki gerð af Kjarval:Hér getur svo að líta listaverk náttúrunnar umhverfis kirkjuna:

Líklega er þetta það hús í Bakkagerði sem hvað oftast hefur verið myndað. Þetta er Lindarbakki, sagt byggt 1899:

Við ókum fram á gömlu hafskipabryggjuna og snerum þar. Áðum stutta stund við öldugutl, fuglasöng og minninguna um ÞENNAN söng.Þarabingurinn í fjörunni gaf til kynna að ekki væri nú sjórinn alltaf jafnstilltur og þennan dag:Úti á túnbletti skammt frá bryggjunni stóð gamall björgunarbátur með seinni tíma viðbótum. Framstefnið var reyndar eitthvað undarlegt og á því var fjöl með nafninu "Bergbjörn"Við vorum ekkert komin með nóg af Borgarfirði eystri þegar við héldum til baka undir tifandi klukku. Eitt myndskot yfir þessa paradís sem Njarðvík er í veðurblíðu:..og annað af heiðinni niður í víkina til baka:Við höfðum svo sem ekkert að gera upp á Egilsstaði aftur fyrst hægt var að komast aðra leið yfir í Jökulsárhlíð. Þegar við komum að stíflum Lagarfossvirkjunar, þar sem vegurinn liggur yfir blasti við hrikaleg sjón. Fljótið beljaði fram eins og í stífum vorleysingum og fyrirgangurinn var slíkur að manni fannst landið nötra:

Skýringuna mátti finna í flóðgáttum virkjunarinnar, sem höfðu verið opnaðar til að lækka vatnsborðið í fljótinu ofanvið. Leysingar undanfarinna daga ásamt löngu rigningartímabili hafa eflaust hækkað yfirborðið meira en góðu hófi gegndi og því nauðsyn að "hleypa af".Ofan við stíflugarðinn mátti vel sjá hve yfirborð vatnsins hefur verið orðið hátt:Rétt við mannvirkin stóð þetta skemmtilega skilti. Til hægri á því sést stíflugarðurinn sem við mynduðum og rétt handan við hann stendur skiltið á myndinni.

Það var farið að líða á daginn og við höfðum sett stefnuna á tjaldsvæðið í Vopnafirði. Þessi fallega kirkja tafði þó för þegar hún kom í ljós. Þetta er Kirkjubær í Hróarstungu. Sjá HÉR og HÉRÚtidyr voru ólæstar en millihurð læst. Því varð ekki komist inn í sjálfa kirkjuna en stigi upp á loftið var innan við útidyr og því var hægt að skoða kirkjuna af loftinu.

Ekki sáum við nafn á þessu leiði en miðað við aldur þess og útlit er ekki ólíklegt að sá sem það byggði eigi nú sitt eigið einhversstaðar í garðinum. Hver veit?Við ókum í rólegheitum niður Jökulsárhlíðina og um leið og við lögðum á Hellisheiði eystri virtum við fyrir okkur snjóinn í fjöllunum handan Héraðsflóa. Það var 26. júní!Þegar við ókum Hellisheiði eystri í fyrsta sinn árið 2004 vorum við á gamla Toyota Coaster ferðabílnum sem við gáfum nafnið  "Ísfirðingur". Sá var afllítill og hávaðasamur, aksturinn upp tók 20 mínútur og niðurleiðin tók sama tíma. Við tókum tímann á sjúkrabílnum og án þess að nokkurntíma væri ekið óeðlilega hratt vorum við slétt korter yfir heiðina enda til enda. Inni í því korteri eru þó ekki mínúturnar sem  EH fékk til að mynda snjógöngin við veginn. Árið 2004 voru engin göng!

Norðan við Hellisheiðina var önnur og síðri útgáfa af veðri. Það rigndi ekki en þó lá þokuslæða yfir og yfirbragðið allt var frekar rigningarlegt. Við ókum svosem eins og hálfa leið inn með Vopnafirði en þar sem komið var fram yfir kvöldmatartíma, við með gaulandi garnir og grillkjöt í forðabúrinu var tekin áning ofan vegar. Grillinu var kippt út og kjötið sótt. Þegar tengja átti grillið við gaskútinn kom hins vegar babb í bátinn: þrýstijafnarinn fannst hvergi! 

Við höfðum dandalast með grillið alla leið austur á Seyðisfjörð, til Færeyja og til baka aftur án þess að nota það nokkurn tíma því Færeyingar selja eiginlega ekki tilbúið grillkjöt. Ég mun líka hafa nefnt það í einhverjum pistlinum hvað gasgrill voru sjaldséð við íbúðarhús þar. Nú átti semsagt að nota grillið í fyrsta sinn á ferðalaginu og þá fannst ekki þrýstijafnarinn. 

Ég legg sérstaka áherslu á þrýstijafnarann, því hann er örlagavaldur í sögunni!

Það læddist að mér grunur, ég hringdi suður í soninn Arnar Þór, sem ég vissi að var heima í Höfðaborg, og bað hann kíkja fyrir mig í hillu hvort þar lægi blár þrýstijafnari með áfastri slöngu og hraðtengi. Eftir stutta leit lýsti hann fyrir mér stykkinu sem hann hélt á í hendinni - þrýstijafnaranum frá gasgrillinu!!
Nú voru góð ráð dýr. Grillkjötið þoldi illa geymslu, einnota grill var ekki að fá og við svöng. Þegar neyðin (ef nota má það orð) er hins vegar stærst er hjálpin oft næst. Á Svínabökkum í Vopnafirði býr nefnilega gott fólk sem við þekktum vel. Svínabakkar eru meðal þeirra bæja sem styst er til frá þeim stað sem við vorum stödd á og eitt símtal til Jóhanns Marvinssonar fyrrum bónda í Arnardal við Skutulsfjörð vestra leiddi í ljós að þar á bæ væri til brúklegur þrýstijafnari sem minnsta mál væri að fá lánaðan. Næsti áfangastaður okkar var því Svínabakkar og nú var ekið á fullri ferð.

Þegar komið var heim að Svínabökkum var þar fjöl"menni" á hlaði. Þar var líka sannkallaður fagnaðarfundur því við höfðum ekki hitt þau Jóa og Þórdísi (Debbu) í alltof, alltof langan tíma. Tvö börn af fjórum voru heima á bæ, Debóra sem var í þann mund að taka á móti gestum í átján ára afmælið sitt og sonurinn Ágúst, sem leit út fyrir að vera stóri bróðir þrátt fyrir að vera aðeins fimmtán. Svo var á hlaðinu sægur af ferfætlingum, hálf- og heilsystkinum og ekki alltaf spáð í aldur og stærð þegar speninn var annars vegar:

Það mun vera dagsljóst hver heldur á myndavélinni. Hér myndar kattakonan Elín Huld. Þessi hér að neðan vakti alveg sérstakar móðurtilfinningar hjá henni, enda hálf umkomulaus og utanveltu að sjá:Meðan EH myndaði kisur fundum við Jói og Ágúst vel brúklegan þrýstijafnara, settum hann á kútinn og prófuðum. Allt virtist virka en áður en kom að eldamennsku var búið að bjóða okkur að veisluborði innandyra og maður slær ekki hendi móti hangikjöti hjá Þórdísi Sumarliðadóttur!Okkar eigið grillkjöt var sett í kæli hjá Debbu og skyldi sækjast með morgunkaffi daginn eftir. Við höfðum tafið heimilisfólk á Svínabökkum nóg og þegar heim á hlað mætti mannskapur úr þorpinu til vélaviðgerða renndum við út á ágætt tjaldsvæði Vopnfirðinga og bjuggum um okkur til næturdvalar. Á tjaldsvæðinu reyndust vera fyrir þó nokkrir samferðalangar úr Norrönu. 

Upp rann föstudagurinn 27. júní og leit út fyrir annan eins dýrðardag. Morgunverður var fram borinn utandyra og fékk hvort okkar sína mynd. Takið sérstaklega eftir grænu skónum hennar EH. Þeir sjást nefnilega ekki hvar og hvenær sem er:

Að morgunverði loknum tókum við saman okkar hafurtask og renndum í bæinn. Í miðju þorpi hékk þessi vindpoki eins og slytti, og vitnisburður hans var órækur. Handan fjarðar læddist hins vegar inn eitthvert afbrigði Austfjarðaþokunnar alræmdu og fór hratt yfir. Í þessu fallega húsi var upplýsingamiðstöðin og þangað fórum við til að gera upp tjaldsvæðið:Skammt frá stendur þetta minnismerki um burtkallaða vopnfirska sjómenn. Merkið vakti umtal á sínum tíma enda nokkuð nákvæm eftirgerð minnismerkis um Duggu - Eyvind sem stendur rétt við Dalvík. Sjá HÉR og HÉR  Samkvæmt okkar korti heitir hann Skipshólmi, þessi:Það verður ekki sagt svo skilið við Vopnafjörð að kirkjan sé ekki mynduð. Við gáfum okkur ekki tíma til að skoða hana að innan en það kemur að því.....Þegar þarna var komið sögu hafði heimilisfólk á Svínabökkum lokið sínum morgunverkum og við boðuð í morgunkaffi. Það kaffi teygðist svo fram yfir hádegismat og Elín Huld tók fleiri kattamyndir. Enn var sú litla hálf utanveltu og umkomulítil að sjá þar sem hún sat á pallinum og horfði á hinar leika sér:Að loknum hádegisverði kvöddum við heimilis- og heiðursfólkið að Svínabökkum og renndum einn bæjarhring að lokum:

....og þegar haldið var frá Vopnafirði vorum við ekki lengur tvö á ferð. Móðurtilfinningarnar urðu skynseminni yfirsterkari og ein lítil og umkomulaus læða hafði bæst í fjölskylduna. Næst lá leiðin til Bakkafjarðar en við ókum stuttan útúrdúr fram að sundlaug Vopnfirðinga í Selárdal. Á skilti við hana stóð "LOKAÐ" en erlendir ferðamenn skilja ekki orðið, eða virðast ekki skilja það:

Á Bakkafirði var svo sem ekki margt að sjá. Nokkur hús, nokkrir bílar, nokkrir bátar.....Skammt utan við þorpið stóðu hálffallnir skreiðarhjallar og við þá leifarnar af Agli NS-30. Þegar ég kíkti um borð blasti við sama sjón og var svo algeng  - en jafnframt óskiljanleg - í Færeyjum. Tiltölulega nýleg þriggja strokka dísilvél, á að giska 25 hestöfl, fagurgræn. Ég ætlaði að mynda hana en myndavélin sagði á því augnabliki "Memory full"
Skammt frá stóð Árni Friðriksson NS 300 á hrörlegum vagni. Það skipti svo sem engu þótt vagninn væri hrörlegur því á hvorugu var neitt fararsnið og mig grunar að Árni Friðriksson NS 300 hafi farið sína síðustu ferð.Við gengum niður að gömlu bryggjunni á Bakkafirði. Þegar við vorum á ferð þarna sumarið 1985 var líf og fjör á bryggjunni. Það er brimasamt á Bakkafirði og á bryggjunni var stór og mikill vökvakrani sem gat svipt bátum á augabragði upp úr sjó og raðað í skjól undir steinveggnum hægra megin. Nú er hún Snorrabúð stekkur og kraninn  farinn eins og flest annað en undirstöður hans vel sýnilegar með grindverki á miðri mynd:Allt hefur sinn tíma:

Þessi vinalegi vatnstankur, skreyttur af skólabörnum þorpsins,  kvaddi fyrir hönd Bakkfirðinga þegar við ókum úr bænum. .......og krílið svaf. Þegar þarna var komið sögu vorum við EH sammála um að kisan væri ótrúlega róleg í bílnum - eiginlega alveg sultuslök, eða þannig. Á því augnabliki kom ekkert annað nafn til greina en Sulta:Innarlega í Bakkafirði er svo nýja bátahöfnin sprengd inn í klappir og grjótið sem úr kom notað í garða.  Hér þarf engan krana til að bjarga bátum frá brimi:

Stefnan var næst á Þórshöfn og um leið og við beygðum til vesturs á næstu gatnamótum vorum við komin á áður ókannaðar slóðir. Sem fyrr segir höfðum við komið til Bakkafjarðar árið 1985 og þá aðeins í nokkurra mínútna heimsókn frá Vopnafirði. Lengra "uppeftir" höfðum við aldrei komið fyrr en nú. Næst ókum við fram hjá Skeggjastaðakirkju, handan fjarðar. Ekki skoðuðum við hana nánar enda vorum við, þegar hér var komið sögu, ákveðin í að leggja aðaláhersluna á að fara fyrir Melrakkasléttu. Það var föstudagssíðdegi og tveimur sólarhringum síðar áttum við að vera í Reykjavík. Það skipti því máli að velja úr aðal- og aukaatriði því það var þegar orðið ljóst að við myndum þurfa aðra ferð - sérferð - þarna norður eftir til að skoða allt sem skoðunarvert væri. Skeggjastaðakirkja var því sett í flokkinn "Næsta ferð"


Þetta mun vera  bærinn  Miðfjörður, við samnefndan fjarðarstúf inn úr Bakkaflóa. Býlið vakti athygli fyrir reisulegt íbúðarhús (sem ekki virtist þó fullsmíðað) og vænan vinnuvélakirkjugarð skammt frá því. Skammt frá var þessi rekaviðarstafli skreyttur með sjóreknum skóm af ýmsu tagi:Þessi bær á, ef að líkum lætur, eftir að verða nafli alheimsins þegar frammí sækir. Þetta er Fell, í þeim margnefnda Finnafirði, áætlaðri þjónustumiðstöð við olíuvinnslu á landgrunninu útifyrir, ef af þeirri vinnslu verður. Fell er samt frekar afskekkt og kannski hafa bændur á býlinu ekki heyrt af íslensku leiðinni í viðskiptum - eða þá að þeir eru bara svona varkárir. Allavega sá ég engin merki þess að menn væru farnir að byggja, breyta og bæta út á væntanlegan stórgróða........Frá Felli ókum við um háls sem ég veit ekki hvort er kallaður Brekknaheiði, en allavega liggur vegurinn þvert yfir rætur Langaness og til Þórshafnar. Þegar yfir hann kom var útsýn til Þórshafnar svona, og þá um leið út eftir austurströnd Melrakkasléttu:Það var ekki sérlega bjart að horfa norður eftir. Einhversstaðar þarna uppfrá átti Raufarhöfn, okkar næsti náttstaður að vera. Við höfðum ætlað okkur að aka út Langanes og jafnvel alla leið út að eyðiþorpinu Skálum og út í Font, ysta hluta nessins. Þegar þarna var komið sögu var ljóst að allar slíkar áætlanir yrði að flytja yfir á "Næstu ferð". Við létum okkur nægja að aka út á Sauðanes, spölkorn utan við þorpið og skoða okkur þar um á söguríkum slóðum. Sjá HÉR og HÉR. Svo rákum við augun í þessa yfirgefnu Douglas DC-3 flugvél sem liggur á maganum niðri á túnum Sauðanessbænda. Þarna mun hafa verið lendingarbraut á árum áður á vegum "Varnar"liðsins í tengslum við radarstöðina á Heiðarfjalli. Flugvélinni mun hafa hlekkst á og í framhaldinu verið rifin á staðnum. Bolurinn er nú kindaathvarf:Eins og fram kemur í tenglunum er kirkjan á Sauðanesi í endurbyggingu. Hún stóð opin og innandyra var talsvert byggingarefni geymt.Kirkjan virtist ekki vera mjög illa farin innandyra og aðalviðgerðirnar bundnar við burðarvirki, gólf og utanhússklæðningu.

Eftir heimsóknina að Sauðanesi var sundlaug Þórshafnar leituð uppi. Hún var svo sem ekki vandfundin og við skelltum okkur í hana. Þar með slógum við tvær flugur í einu höggi, náðum að baða okkur almennilega og merkja við enn eina á sundlaugalistanum margfræga. Eftir baðið renndum við inn á tjaldsvæði Þórshafnarbúa og litum á það. Svæðið var stórt, ágætlega búið og á því talsvert af fólki. M.a. þekktum við þar þrjá erlenda ferðafélaga í eldri kantinum. Ég hafði veitt þeim athygli í Norrönu á heimleiðinni, þeir höfðu komið sér fyrir í kaffiteríunni og þegar leið á kvöldið náði einn þeirra - sem virtist nokkurs konar "stjóri" hópsins -   í rauðvínsflösku á barinn og gaf þar með öðrum fordæmi. Afleiðingin varð svona huggulegt rauðvínskvöld í skuggsælli teríunni þar sem menn slökuðu á og nutu augnabliksins. Þetta voru rólegheitakarlar sem ferðuðust um á Volkswagen Sharan með tjaldvagn í eftirdragi og yfir þeim var alþýðlegur bragur, ekkert ríkidæmi. Nú voru þeir komnir til Þórshafnar, búnir að reisa sinn tjaldvagn og "stjóri" að bögglast við að kveikja upp í einnota grilli. Við EH settum upp okkar græjur, tengdum örlagavaldinn frá Svínabökkum og kveiktum upp. Grillið kom í minn hlut meðan EH sá um borðbúnaðinn. Á augabragði var steikin tilbúin en stutt frá var "stjóri" enn að basla við einnotagrillið. Ég labbaði yfir til hans og bauð honum á minni fínustu ensku afnot af gasgrillinu okkar. Hann virtist reyna að skilja, brosti svo góðlátlega, hristi höfuðið og benti á einnotagrillið. Afþakkaði svo kurteislega á þýsku. Ég skil talsvert í þýsku en reyni ekki að tala hana enda þótt ég muni hrafl frá þeim eina vetri sem ég lærði þýsku í Menntaskólanum á Ísafirði. Á þessu augnabliki hefði ég samt gefið mikið fyrir að geta talað við "stjóra" því þetta var góðlegasti karl. Hann talaði bara ekki stakt orð í ensku.....Þeir félagar höfðu uppi fána sem ég kunni ekki skil á en gat þess vegna verið fáni einhvers fótboltafélags. Ég sendi Arnari Þór sms- skilaboð með lýsingu á fánanum og hann svaraði stuttu seinna: "Austurríki"Við héldum okkar striki og lukum eldamennsku. Enn sýndist vera basl með einnota grillið svo ég rölti aftur yfir til "stjóra" og bauð honum afnot af okkar. Hann afþakkaði aftur og svaraði að "þetta væri alveg að koma". Ég sá hins vegar þær þykku kjötsneiðar sem hann ætlaði að grilla og þær hafa seint orðið tilbúnar á einnotagrilli. Stuttu eftir að við settumst að borðum kom "stjóri" hins vegar röltandi með plastglas í hendi. Hann vildi endilega gefa mér innihaldið og tiltók nafn sem ég skildi ekki. Ég þáði gott boð en svipurinn á EH var skrýtinn. Ég er enginn vínþekkjari enda nánast bindindismaður. Svo mikið man ég þó frá unglingsárunum að í glasinu var einhvers konar brennivín - trúlega af heimaslóðum. Ekki fannst EH við hæfi að ég drykki úr glasinu eigandi eftir að aka norður á Raufarhöfn undir kvöldið. Eitthvað mátti ég þó smakka en gat ekki komið nema litlu niður í einu. Svo var glasið allt í einu orðið hálft af appelsíni og EH með sakleysissvip. Ekki skánaði vökvinn við þessa rammíslensku viðbót. Svo var það við einhvern kjötbitann sem ég kyngdi með lokuð augun af vellíðan, að þegar ég opnaði að nýju var ekkert glas á borðinu.............

Það þurfti að vaska upp og við nýttum aðstöðuna til þess. Á meðan átti Sulta að fá að hreyfa sig. Henni leist ekki á veröldina og fann sér skjól. Myndin hér að neðan er felumynd: "Finnið köttinn"Á Þórshöfn var engin Orka, engin ÓB, aðeins það sem eitt sinn var kallað "Framsóknarbensín" en heitir nú N1. Þar naut ég engra olíufríðinda og mátti því punga út ófáum þúsundköllum við dæluna, því nú var Færeyjaolían mjög að ganga til þurrðar og alls óvíst hvort nokkra olíu væri að fá á þeirri náströnd sem mér var sagt að Raufarhöfn væri (en að vísu af Þórshafnarbúa). Því næst var stefnan tekin norður og ekið sem nef vísaði. Dumbungurinn sem við höfðum séð yfir sléttunni hélst áfram og þyngdi heldur. Þegar við komum að Svalbarði í Þistilfirði var farið að ýra dálítið úr lofti.Svalbarðskirkja er ein af þessum fallegu, turnlausu timburkirkjum. Hún virtist í ágætu standi en þó mátti finna að gólfið var farið að ganga talsvert upp. Útveggir stóðu á steyptum sökkli sem virtist í lagi.

Meðan við skoðuðum kirkjuna var Sulta skilin eftir á verði í bílnum. Svona sinnti hún varðgæslunni:Það var farið að kvölda þegar við komum til Raufarhafnar. Mig hefur lengi langað til að skoða þetta þorp enda hafði ég þá skoðun að þar væri að finna eina "landslagið"  á stóru svæði. Víst er umhverfi Raufarhafnar fallegt en staðurinn sjálfur virðist mér vera á mikilli niðurleið. Kirkjan bjargar þó miklu enda ein sú fallegasta á landinu. Sömuleiðis var tjaldsvæðið ágætt þótt það væri lítið, en búnaður var góður og í lagi. Við stutta skoðunarferð um þorpið virtust mjög mörg hús vera tóm og framan við eitt þeirra var stór sendibíll. Fólk var að bera húsgögn og húsgögnin voru borin út í bílinn - ekki úr honum. Bíllinn var merktur Grundarfirði. Á öðrum stað var svona "sósíalblokk" eins og svo algengar eru úti á landi. Mér sýndist vera búið í einni íbúð af ellefu eða tólf.
Við bjuggum okkur til næturdvalar á tjaldsvæðinu við hlið tveggja "ferðafélaga" af Norrönu. Regnúðinn þéttist, droparnir stækkuðu og um nóttina hellirigndi............

Endir ellefta hluta

................................................

Flettingar í dag: 50
Gestir í dag: 34
Flettingar í gær: 111
Gestir í gær: 45
Samtals flettingar: 642782
Samtals gestir: 91884
Tölur uppfærðar: 23.1.2019 04:07:41


Tenglar