Gunnar Th.
Fjórða kerfið.....


07.08.2014 22:00

Í Færeyjum - 9.hl. ferðasögu


 Áttunda hluta lauk í svefnstað á plani aflagðrar fiskeldisstöðvar við Kaldbaksfjörð. Upp rann þriðjudagsmorgunn, næstsíðasti dagur okkar í Færeyjum og nú skyldi farið um þann hluta Straumeyjar sem við höfðum enn ekki skoðað - þ.e. suður/suðvesturhlutann.Þrír staðir voru á óskalistanum, Kirkjuböur, Gamlarætt og Syðradalur. Áður en ferðalög dagsins hæfust skyldi þó skella sér í sund í "svimjihylnum" í Þórshöfn og þangað stefndum við. Á myndinni hér að neðan er horft frá náttstað við Kaldbaksfjörð yfir að "Asfaltverkinu" og einhverri annarri verksmiðju sem ég kann ekki skil á: Þegar við komum að sundlauginni í Gundadal ofan við Þórshafnarbæ (þar sem einnig er aðal - íþróttasvæðið) var búið að koma fyrir tveimur sjálfvirkum sláttuvélum af stærri gerð á grasblettunum við sundhöllina. Þær (sláttuvélarnar) voru önnum kafnar við verkið, grasið fór inn að framan eins og lög gera ráð fyrir en kom út að aftan sem áburður. Mér virtist þó áburðarframleiðslan hraðari en hráefnisupptakan......Sláttuvélarnar gáfu sér augnablik til að líta á okkur í ferðadrekanum:....en ekki langan því vinnan beið.Elínu Huld þótti fóðrið einhæft og efnabætti það með ekta Bónusbrauði:Allt í einu: Flóðlýsingin á fótboltavellinum, "Svimjihöllin í Gundadal", EH að fóðra sláttutækin, veðrið frábært - hvað er hægt að óska sér frekar?Sundlaugin reyndist ágæt og um margt nákvæmlega eins og hér heima. Þó var heiti potturinn undantekning. Hér heima þykir hann sjálfsagður við hverja laug og fleiri en einn, Í Þórshöfn er heitur pottur en það þarf að kaupa aðgang að honum sérstaklega eða leigja hann út af fyrir sig ákveðinn tíma. Sundlaugin var sögð 28-29 gráður og barnalaugin 34 gráður. Þar var þvílíkur handagangur í öskjunni að við dvöldum ekki nema korter eða svo ofaní vegna hættu á heyrnarskaða. Það var þriðjudagsmorgunn og sirka annað hvert barn í Þórshöfn í sundlauginni - og leiddist það hreint ekki!

Þegar við komum út úr sundhöllinni var staðfestur grunur minn um sláttuvélarnar tvær sem nú virtust hafa breyst í áburðardreifara. Grasblettirnir tveir utan við sundlaugina voru orðnir graslausir að mestu en höfðu  fengið ótæpilegt magn af áburði sem í sólarhitanum lyktaði hreinlega eins og hrossatað - enda eðlilegt. Áburðinum fylgdi flugnager sem umlukti ferðadrekann svo við snöruðum okkur um borð og flúðum hið snarasta....upp í Bónus! Þar þurfti að leggja línur dagsins og af því Huldar Breiðfjörð, Færeyjabiblíusmiður okkar var jafnan með Halls - brjóstsykur í vasanum og notaði til að tengjast fólki, þótti tilvalið að ég fengi líka Halls. Mér þótti hann hinsvegar svo góður að ég tímdi ekki að gefa Færeyingum með mér og tapaði því eflaust af góðum tengslum:Frá Bónus var svo lagt upp og ekin leiðin sem merkt er á kortinu hér efst, þ.e. þvert yfir Straumey að vegamótum við Velbastað. Þar var ekið til suðurs að Kirkjubæ og á hægri hönd - í vestri - höfðum við eyjuna Hest. Sundið á milli heitir einfaldlega Hestfjörður. Hér að neðan sést örlítið á tána á eynni Hestur (lengst til hægri) en að öðru leyti er það Sandey sem fyllir bakgrunninn og þorp sem grillir í hægra megin á henni er þorpið Skopun, annað stærsta þorpið á Sandey.  Þarna er fjörðurinn hættur að heita Hestfjörður og farinn að heita Skopunarfjörður......Svo var komið að sögustaðnum Kirkjubæ:Hannes Pétursson skáld og rithöfundur ferðaðist um Færeyjar 1965 og skrifaði eftir það litla bók sem heitir einfaldlega "Eyjarnar 18" og kom út 1967. Hannes dvaldi tvo og hálfan mánuð í Færeyjum, frá hásumri fram á haust og nýtti þann tíma mjög vel, eins og bókin ber með sér. Hann hefur einnig farið vel undirbúinn í ferðalagið og þannig nýtt tímann enn betur. Hannes heimsótti Kirkjubæ og átti þar fróðlegt samtal við Pál Patursson kóngsbónda á jörðinni. Það er eiginlega nauðsynlegt fyrir þá sem eitthvað vilja kynna sér konungs- og kirkjujörðina Kirkebö að kíkja á bókasafnið og athuga hvort Hannes sé ekki fáanlegur þar......

Ég get nefnilega - því miður - ekki birt allt það sem H.P. skrifaði um Kirkjubæ þótt ég feginn vildi. Það er talsvert efni og inniheldur mikinn fróðleik um staðinn. Ég fer aðeins á hundavaði yfir það sem fyrir okkar augu bar og byrja við bílastæðið. Húsið á miðri mynd (með rauðu gluggunum) er ekki eitt gömlu húsanna þó vissulega líti það út sem slíkt. Þetta er glænýtt hús sem gegnir hlutverki biðskýlis fyrir "Strandfaraskipin" bláu, þ.e. almenningsvagnana. Ennfremur er þarna hreinlætisaðstaða fyrir rútuferðalanga sem ófáir koma til Kirkjubæjar.Hér að neðan er "Roykstovan", aldagömul bygging en endurgerð ásamt fleiri "stovum" sem m.a. hýsa safn og sýningu um staðinn:Þetta er Ólafskirkjan, sú sem nú stendur og er sóknarkirkjan. Ekki nefnir Hannes við hvaða Ólaf hún er kennd, en það má giska á að hún sé kennd við Ólaf helga Noregskonung. (Sjá einnig HÉR

Hér fyrir neðan er myndasyrpa úr Ólafskirkjunni


Ólafskirkjan sem nú stendur er ekki upprunaleg og í raun mun ekki vitað fyrir víst um aldur hennar. Hún hefur verið endurbyggð nokkrum sinnum, síðast árið 1874 en þá var hún endurhlaðin og gerbreytt eins og sjá má á mynd af teikningum hér neðar. Kirkjan þykir hafa glatað miklu af stíl sínum við þessa endurbyggingu og skyldi engan undra ef teikningarnar eru bornar saman. Hér má sjá hluta af hleðslu  eldri kirkjunnar:.......og veggþykktina!

Svo er það  Magnúsarkirkjan - Múrinn. Vitað er um þrjár kirkjur í Kirkjubæ og eru rústir einnar þeirra sjáanlegar syðst í bæjartúninu (svo vitnað sé í H.P.) Ólafskirkjan er jafnvel talin sú elsta því vitað er með vissu um byggingu Múrsins á árunum 1268 - 1308 í tíð Erlendar biskups. Kirkjan var byggð að forgöngu hans og helguð Magnúsi Eyjajarli. Byggingunni var aldrei lokið, hvers vegna er ekki vitað með vissu en talið að þar tengist erjur innanlands vegna skattaálagna sem byggingunni fylgdu. (enn vitnað í H.P.) Múrinn er mikið mannvirki úr gróflega tilhöggnu grjóti sem límt er saman með steinlími úr skelja- og beinamulningi sem hrærður var saman við smámöl ( H.P.)Þó er talið að messað hafi verið í kirkjunni eða hluta hennar og jafnvel er talið að um tíma hafi verið á henni bráðabirgðaþak úr tré. Fátt er þó vitað með vissu og aðallega byggt á ágiskunum og ályktunum sem seinni tíma rannsóknir hafa getið af sér. Eiginlega, skrifaða sögu vantar.....

Múrinn var orðinn illa farinn eftir aldalanga veðrun og fyrir skömmu var ráðist í lagfæringar á veggjabrotunum til að verja þau skemmdum. Sú vinna stendur enn og er mikið  óunnið. Á meðan er hvert vinnusvæði fyrir sig varið með færanlegri veðurkápu úr krossviði:Hér að neðan er horft til vesturs, aftan á kirkjunrnar tvær, Ólafskirkjuna og Múrinn. Vinstra megin við Múrinn sést í Hestinn, hægra megin rís 478 m. toppur eyjarinnar Kolturs:Bæjarhús að Kirkjubæ með Múrinn og Sandey í baksýn:Líklega er þetta Kirkjubæjarfjósið og ekki alveg nýtt af nálinni. Kirkjubær er ekki bara ein gömul Kóngsjörð með kirkju og kirkjurústum heldur myndarlegt þorp þar sem metnaður er lagður í að hafa hlutina vel útlítandi:Við kvöddum Kirkjubæ og héldum áfram að skoða okkur um. Örnefnið "Gamlarætt" eða Gamlarétt er rétt norðan Kirkjubæjar. Ekki veit ég hvað var á þessum stað áður fyrr eða hvaðan nafnið er dregið en það má lesa sér til um staðinn HÉR. Þarna er, eins og fram kemur í hlekknum, ferjuhöfn fyrir eyjuna Hest og þorpið Skopun á Sandey. Það er "TEISTIN" sem siglir á milli og þar sem ekki er föst viðkoma í Hesti enda íbúar aðeins um 25 og flestir eftirlaunaþegar, þá er einfaldlega hringt eftir ferjunni þegar einhver þarf að komast........Þarna á bryggjunni í Gömlurétt hitti ég mann sem hafði ekki komist til Skopun með Teistunni og þurfti því að bíða næstu ferðar. Hann var alveg slakur þótt hann þyrfti að bíða tvo og hálfan tíma. Sæjuð þið fyrir ykkur æpandi og öskrandi Íslending?Höfnin við Gömlurétt er gerð á svipaðan hátt og önnur slík mannvirki í Færeyjum - með miklu magni af sprengiefni til að gera bás og grjótið síðan notað í varnargarða. Vegurnn niður einfaldlega sprengdur í rás í hamrastálið:

Frá veginum  ofan við Gömlurétt var gott útsýni til Kolturs, þessarrar sérkennilegu eyju þar sem aðeins er eitt sveitabýli með sumarbúsetu og þjónað með þyrlu en ekki ferju:Hér að neðan er norðvesturendi Hestsins og suðausturendi Kolturs. Í forgrunni eru syðstu húsin í Velbastað (sjá kort efst):

Þeir voru að byggja í Velbastað. Þó ekki þetta kúluhús, það virtist vera byggt fyrir alllöngu en byggjandan hefur líklega þrotið örindið á síðari hlutanum og það vantaði talsvert uppá fríðleik byggingar og umhverfis.Það var svona sem þeir voru að byggja núna:Við ókum gegnum Velbastað og ákváðum að fara á vegarenda og mynda þorpið í bakaleiðinni. Vegurinn virtist endalaus, mjór, hátt uppi í hlíð og alls óvíst hvað þessi Syðradalur væri, sem merktur var við endann. Það kom  svo á daginn að það var einn sveitabær:Einn bær í litlum dal við enda langs og hrikalegs vegar sem allur var malbikaður! Að vísu var þetta sísta malbikið sem við ókum á í Færeyjum og það líktist verulega íslenskum innanbæjarakstri - stagbætt og mishæðótt. Samt malbik. Alla leið heim að bæ!

Syðradalur er stórbýli á færeyskan mælikvarða. Það mátti sjá af húsakosti og stærð túna - og svo því að þetta var einn af örfáum, ef ekki sá eini sem átti öll sín tún á flatlendi - eða því sem næst. Þetta er fallegur staður og ekki amalegt að eiga sinn dal fyrir sig. Það er yfirleitt ekki langt á milli eyja (Suðurey er undantekning) og þarna horfum við frá túnum Syðradals yfir á Vogey og líklega er það þorpið Miðvogur sem við horfum til þarna í dálitlu mistri......Þar sem er Syðradalur hlýtur líka að vera Norðradalur - annars væri nafnið tilgangslaust! Þarna í Norðradal eru aðallega útihús og það er horft í átt að einu þeirra. Lengra til vinstri er Vogey:Svo snerum við við og héldum til baka í átt að Velbastað. Nú er horft inn sundið sem heitir Hestsfjörður. Lengst til hægri grillir í Tröllhöfða á Sandey, Eyjan Hestur er fyrir miðri mynd og lengst til vinstri er Sandey:Þegar 25 manna þorpið í Hesti bar á móti okkur var myndavélin stillt á aðdrátt:Svo vorum við aftur komin í Velbastað og kúluhúsið blasti við. Það leyndi á sér, þetta hús og var eiginlega gríðarstórt að samanlögðu flatarmáli. Göturnar voru ekki í stíl og það má taka eftir hallanum sem allt þorpið að heita má, er byggt í:Eftir dálitlar vangaveltur fannst leiðin niður á bryggjuna. Það er ekki mikil útgerð frá Velbastað, ef þá nokkur. Þarna úti á firðinum voru hins vegar ungir menn á aflmiklum harðbotna-slöngubátum og ef marka mátti áletranir á faratækjum þeirra var þarna leigufyrirtæki á ferð:Við dvöldum ekki lengi í Velbastað enda svo sem ekki margt að sjá. Enn lifði talsvert af deginum og við renndum yfir til Þórshafnar og heimsóttum Norðurlandahúsið þeirra - sem er hliðstæða Norræna hússins í Reykjavík.Innandyra stóð yfir sýning á listmunum úr gleri og meðal sýnenda voru tveir íslenskir listamenn:Eftir að hafa skoðað sýninguna og húsið með var kaffiterían vísiteruð og gluggað um leið í færeyskar barnabækur sem þar lágu frammi. Svo lá leiðin aftur út í góðviðrið:

Þegar fór að halla í kvöldmat og maginn fór að senda merki komum við okkur fyrir á smábátahöfninni í Argir. Argir er smáþorp sunnan við Þórshöfn sem orðið er samvaxið og verður að teljast hluti bæjarins - svona rétt eins og Seltjarnarnesið í Rvk. Þarna er önnur aðal smábátahöfnin - hin er í Vesturvági, vestan Þinganess - og sannarlega margt að skoða fyrir áhugamann.Þarna var sjúkrabílnum lagt úti í horni, kveikt upp í eldavélinni og kokkuð upp dýrindis blómkálssúpa. Svo var ekta dönsk lifrarkæfa á Bónusbrauðinu, líklega höfum við verið stærstu kaupendur danskrar lifrarkæfu þessa viku í Þórshöfn. Eftir matinn og frágang (þeir voru með alveg fyrirmyndar þvottaaðstöðu á bryggjunni) var farið í göngutúr á bryggjurnar. Mig minnir að ég hafi tekið fram í upphafi pistlaraðarinnar að einu læstu flotbryggjurnar hafi verið í Fuglafirði. Allavega var það þannig og þarna í Argir, þar sem sannarlega margir ganga um, var ekki talin ástæða til að læsa bryggjum. Ég sá þarna marga ákaflega fallega báta - og aðra miður fallega - en Elín Huld kolféll fyrir henni "Thomasíu" enda ákaflega krúttlegur bátur, svo notað sé hennar orðalag.:

Það dugðu ekki færri en þrjár myndir fyrir Thomasíu, og líka að kíkja á gluggana. Hún var eins inni og úti - sannkölluð mubla:Af trébátunum valdi ég þennan í fyrsta sæti. Hann er kannski ekki krúttlegur, frekar svona þungbrýnn. Valið var samt erfitt því þeir voru margir fallegir og greinilegt enn og aftur að Færeyingum hefur ekki legið lífið á að henda öllum bátum úr tré:Eftir fegurðarsamkeppni súðbyrðinga í Argir ókum við upp í hæðirnar þar sem nýjustu hverfi Þórshafnarbúa standa - og þar sem áhrif kreppunar voru hvað sýnilegust eins og fyrr sagði, í tómum grunnum, byggingakrönum, steypumótum og fleiru. Allt um það er útsýnið stórkostlegt þarna ofan frá:

Það var samt of snemmt að fara í háttinn svo við renndum niður í bæ og lögðum bílnum á "átta tíma stæði" ofan við Vesturvoginn. Þeir voru komnir þangað líka, Sea Shepherd félagarnir og lögðu undir sig ekki færri en fimm og hálft bílastæði:Það var kyrrt og stillt við Vesturvoginn og lá við að maður finndi regnúða í loftinu. Samt rigndi ekki. Ég hef áður birt myndir líkar þessum tveimur, líklega í fjórða hluta en það gerir ekkert til:

Þessi hefur hins vegar ekki birst áður og það má giska á myndasmiðinn:Við eyddum því sem eftir lifði þessa síðasta kvölds í Færeyjum í "gömlugatnarölt" og þar var sem fyrr af nógu að taka.Þessi elti okkur um tíma en skildi ekki íslenskar kisugælur og gafst upp á endanum:Þetta hús sáum við tilsýndar. Á því stendur "Rabarbuhúsið". Vilji einhver vita hvað þar fer fram má eflaust finna skýringuna HÉR. Húsið var afar fallegt og sama má segja um öll sem næst stóðu:Það er ekki alveg trjálaust í Þórshöfn - þvert á móti er þar fjöldi fallegra trjáa sem einhverjum finnst kannski ekki ríma við klettótt umhverfið. Það virðist þó vera nægur jarðvegur á milli.

Við höfðum ætlað okkur að finna SMS vöruhúsið, Smáralind Þórshafnarbúa en fundum það ekki í þessarri gönguferð. Við fundum hins vegar Villumsgötu sem var miklu flottari en nokkur Smáralind. Gatan leiddi okkur áfram niður í kjarnann ofan við höfnina................og allt í einu vorum við komin að Stephanssons - húsi, sem áður hefur birst mynd af:
Þar með var komið að því að finna náttstað og vegna þess að við höfðum ákveðna áætlun fyrir morgundaginn - sem var miðvikudagur og síðasti dagur okkar í Færeyjum - þurftum við að vera eins nærri bænum og mögulegt var. Við létum slag standa og völdum okkur náttstað við hlið yfirgefinnar tækjaskemmu í efstu brúnum Þórshafnar, þar sem, eins og sagði hér ofar,  þeir höfðu verið að byggja nýtt hverfi þegar þeirra kreppa skall á. Framkvæmdir höfðu stöðvast að mestu og þarna var í bland ný og fullbyggð hús, hálfbyggð hús, húsgrunnar, mótatimbur, flekar og rúðulausar vinnuvélar. Til viðbótar við allt upptalið var svo eitt  bátsflak - svona svo ekkert vantaði!  Það bar lítið á ferðadrekanum við hlið skemmunnar yfirgefnu og við sváfum sætum svefni til morguns.

Næst: 10. hluti, miðvikudagur. Síðasti dagur í Færeyjum.

...........................................................

Flettingar í dag: 50
Gestir í dag: 34
Flettingar í gær: 111
Gestir í gær: 45
Samtals flettingar: 642782
Samtals gestir: 91884
Tölur uppfærðar: 23.1.2019 04:07:41


Tenglar