Gunnar Th.
Fjórða kerfið.....


26.09.2014 11:00

Dalir og heiðar - þriðji hluti.


Eins og fram kom í lok annars hluta ókum við frá Geitafelli á Vatnsnesi um Hvammstanga og rakleitt inn að minnismerkinu við Bjarg í Miðfirði. Þetta minnismerki var reist árið 1974 til minningar um Ásdísi móður Grettis Ásmundarsonar enda liggur miklu beinna við að minnast hennar en Grettis sjálfs, sem var rustamenni og yfirgangsseggur hinn mesti. Honum hefur í sögunni oft verið hampað sem hetju, slíkt er auðvitað fásinna því það eina sem maðurinn hafði til að bera var afl og úthald - þ.e. ef eitthvað er að marka sögurnar. Hann virðist hins vegar hafa verið fátækur til höfuðsins - ef þannig má orða hreina heimsku - því einu afrekin sem hann vann voru fólgin í að bjarga sjálfum sér undan réttvísinni, eins og hún í þá daga var. Yfirgangur, frekja, ruddaskapur og tillitsleysi verður seint talið til hetjuskapar og í því sambandi má minnast annarrar "hetju", Eggerts Ólafssonar sem ábyrgur var fyrir eigin dauða og fjölda annarra á Breiðafirði forðum þegar hann fyrirskipaði brottför frá Skor í ófæru veðri en enginn mátti andmæla fyrimenninu. Ég kom aðeins inná þennan vitleysisgang í pistli þann 15.júní sl. og óþarfi að fara nánar útí þá sálma. Eitt má ég þó til að nefna: Minnisvarðinn um Ásdísi á Bjargi er skreyttur lágmyndum eftir Halldór Pétursson. Ég hef lítið vit á myndlist og eflaust eru myndirnar vel gerðar. Inn í þær er felldur viðeigandi texti úr Grettissögu, á forníslensku að sjálfsögðu og þegar ég horfði á myndirnar og reyndi að setja mig í spor ferðalangs frá útlöndum - ja, þá varð ég einhvern veginn svona tómur í höfðinu. Minnisvarðinn hefur enga merkingu fyrir þann sem ekki hefur lesið Grettissögu og ekki getur ráðið í forníslenskuna. Hann er aðeins grjót með einhverjum koparmyndum.....Við fórum ekki lengra inn Miðfjörð í þetta sinn. Það er ekki langt síðan við ferðuðumst um þetta svæði og ég skrifaði um þá ferð pistil sem heitir "Hálsar og skörð" ( nefndi ég það ekki í upphafi fyrsta hluta þessa pistils?) Sá pistill er einn þeirra fjölmörgu sem lokuðust inni þegar 365Miðlar lokuðu tveimur bloggkerfum fyrirvaralaust. 

Það þýðir jafn lítið að gráta Björn bónda og glataða pistla. Við snerum við minnismerkið og héldum aftur út að Laugarbakka. Á sundlaugalistanum góða er talin sundlaug við félagsheimilið að Laugarbakka og fyrir mörgum árum leit ég á hana án þess þó að prófa. Það var miður því nú var enga laug að sjá. Umhverfis hana var há trégirðing en innan girðingar var aðeins risastór sólpallur úr tré og í honum tveir heitir pottar með allnokkru millibili. Við heimsóttum handverkshúsið Löngufit,sem stendur skammt frá og spurðumst fyrir um horfnu sundlaugina. Okkur var sagt að hún væri aðeins horfin af yfirborðinu. Þegar ný laug var byggð á Hvammstanga var ekki talin þörf á Laugarbakkalaug lengur og hún því tekin úr notkun. Til að baðaðstaða hyrfi þó ekki úr þorpinu var byggður þessi stóri sólpallur yfir laugina og í hann felldir tveir heitir pottar. Að öðru leyti var lauginni lítt hróflað og hún er því falin undir pallinum, trúlega nothæf með litlum fyrirvara ef þurfa þykir. 

Þetta þóttu mér bæði slæmar fréttir og góðar. Það var illt að geta ekki farið í laugina sjálfa, en nokkur sárabót að geta farið í pottana sem settir voru ofan á hana - og að hluta til ofan í - því hægt var að kaupa sér aðgang að pottunum og það gerðum við. Búningsaðstaðan var hreinleg og vel við haldið, pottarnir voru ágætir, misstórir en báðir jafn mátulega heitir. Ekki höfðum við lengi setið er erlent par kom úr klefunum og settist hjá okkur. Við áttum ágætt spjall við þau, Hann var Svíi en hún Ástrali og saman bjuggu þau í Sviss. Færeyjaferðin okkar barst í tal og þá kom á daginn að sú ástralska hafði ekki hugmynd um að Færeyjar væru til. Svona er nú reynsla manna misjöfn.....

Þegar lengi er setið í heitum potti getur verið nauðsynlegt að kæla sig öðru hverju. Ég rápaði því aðeins um pallinn og skoðaði breytingarnar. Á rápinu fann ég litla, nær ósýnilega lúgu í pallgólfið. Mér tókst að plokka hana upp og stakk hausnum niður. Þar sem sólpallurinn er ekki þéttur heldur smábil milli borða skilaði sólarglætan sér að nokkru leyti niður í gegn. Við blasti vatnslaus sundlaug, klædd þessum hefðbundna,bláa dúk sem allir þekkja. Í tómri lauginni var svo heilmikið trégallerí sem hélt uppi pallinum og annað eins slöngugallerí sem tengdi pottana. Þetta skoðaði ég með athygli liggjandi á haus í lúguopinu. Ég lýsti upplifuninni fyrir EH og erlenda parinu með upphrópunum sem kannski hafa fengið þau erlendu til að efast um geðheilsu hrópandans. EH er hins vegar ýmsu vön.....

Svo fékk ég hugmynd: Í laugarbotninum var á að giska 10-15 cm. djúpt vatn, sambland af regnvatni og yfirfloti úr pottunum. Frá lúgunni niður á laugarbotn lá klambraður tréstigi úr tommu-fjórum, líklega fyrir píparana sem þyrftu að komast að plömmeríinu til viðhalds. Ég paufaðist niður stigann alla leið niður á botn þar til ég gat staðið báðum fótum í vatnssullinu á botninum. Þá klifraði ég upp aftur, óendanlega glaður yfir að hafa loksins náð að skella mér í Laugarbakkalaug - og geta merkt við hana á listanum!

Pottasetan tognaði í hálfan annan tíma, lengst af í félagsskap þessa skemmtilega, erlenda pars sem náði að sýna skilning á vitleysisganginum þegar búið var að kynna því forsöguna. Samveran endaði með innliti í ferðadrekann okkar. Þeim fannst dálítið einkennilegt að ferðast um landið á sjúkrabíl sem í stórum dráttum liti enn út eins og sjúkrabíll. Kannski er það einkennilegt, kannski ekki...........

Þau héldu svo áfram sinni för og við okkar eftir alls tvo og hálfan tíma að Laugarbakka og nágrenni. Það saxaðist á daginn, við vorum á heimleið en veðrið var afbragð og við vorum ákveðin í að nýta hverja mínútu sem gæfist í góðviðri - við höfðum haft spurnir af því að syðra væri hvasst og úrhellisrigning og hver hlakkar til heimkomu í þannig veðri?  Að Reykjum í Hrútafirði er sundlaug sem ég hafði ekki merkt við á listanum en þeir sem við höfðum talað við töldu hana ekki opna yfir sumarið, þótt skólinn sjálfur væri rekinn sem hótel. Okkur langaði samt að líta niður að Reykjum því Elín Huld hafði vissu fyrir gamalli náttúrulaug í fjöruborðinu skammt frá skólahúsinu. 

Þessi höfðingi tók á móti okkur og var eina lífsmarkið sem við sáum að Reykjum. Bassi  fagnaði félagsskapnum og þeir tveir pissuðu í kross, langs og þvers á alla staura og annað sem pissandi var á.


Sundlaugin var hálf eyðileg, dyrnar stóðu opnar en lokað var með snúru og að auki var stóll í dyragatinu. Hún verður því að bíða enn um sinn en fær eflaust sinn kross að lokum. 

Leitin að náttúrulauginni bar loks árangur norðan við húsin að Reykjum, rétt ofan fjöruborðsins fundum við  þessa sérstöku, upphlöðnu setlaug sem virtis njóta rennslis beint  úr borholu. Hún var nægilega djúp til að vel færi um fólk sitjandi og ágætlega hrein og laus við slý. Hins vegar var enga búningsaðstöðu að finna við hana og því líklegra að hún væri annaðhvort ætluð hótelgestum eða nálægu gistiheimili. Við vorum auðvitað með okkar eigin akandi búningsklefa en nýböðuð frá Laugarbakka ........Klukkan var að verða sex að kvöldi og maginn var farinn að minna á sig. Við höfðum talað um að aka beint í Borgarnes og borða kvöldmat þar, enda myndum við þá vera í Borgarnesi um sjöleytið. Þegar við renndum inn Hrútafjörðinn frá Reykjum sáum við hvernig sólin baðaði Laxárdalsheiði og Dalina vestan hennar, en rigningin og þokan lágu eins og teppi yfir Holtavörðuheiðinni. Heimferðin var sannarlega ekki tilhlökkunarefni og rétt áður en komið var að Staðarskála lagði ég fram tillögu: Við færum einfaldlega ekkert heim heldur tækjum "hina leiðina", ækjum út Hrútafjörðinn vestanverðan og yfir Laxárdalsheiði til Búðardals, fengjum okkur hambó í sjoppunni og náttuðum svo að Laugum í Sælingdal. 

Tillagan var samþykkt með báðum greiddum atkvæðum en Bassi sat hjá enda fékk hann súkkulaðimola og gat þá ekki um annað hugsað. Við ókum yfir sólbaðaða Laxárdalsheiðina (sem er í raun engin heiði, þannnig séð) og niður dalinn, allt í rólegheitum og lásum sveitabæi af kortum og handbókum. Býlin uppi í hlíðinni og á bakkanum handan árinnar munu bæði heita Gillastaðir og á þeim neðri sýndust ný útihús í byggingu. 

Fyrirhuguð áning í Búðardal var rétt um sjöleytið og hamborgarinn smakkaðist vel enda við bæði orðin sársvöng - komin með nóg í bili af kaffi og kexi. Eftir matinn röltum við niður á tjaldvæði þorpsins og litum á það. Þar var sama uppi á teningnum og á Blönduósi, Sauðárkróki, í Varmahlíð og víðar - nema ástandið í Búðardal var sýnu verra því svæðið var hreinlega gerónýtt. Því er skipt í bása og hverjum einasta bás var búið að loka með borða því gras var sundurskorið og innkoma í hvern bás ein leðjufor. Þung hjól- og fellihýsi ásamt enn þyngri dráttarbílum eiga hreinlega ekki heima inni á grasflötum þegar árferðið er eins og í sumar - það einfaldlega kostar eyðileggingu á grasflötum tjaldsvæðanna. Þetta atriði er hins vegar ótrúlega torskilið, bæði umsjónarfólki og ferðamönnum.

Það var miklu meira vit í að mynda upp í himininn en niður í jörðina enda ólíkt fallegra upp að líta:

Þá var að halda í náttstað að Laugum í Sælingsdal. Þar gilti útilegukortið okkar og af reynslu vissum við að þar væri gott að vera. Tungustapi heilsaði okkur við komuna:

Við létum vita af komu okkar í afgreiðslu Edduhótelsins sem rekið er í fyrrum héraðsskólahúsunum. Þó maður geti veifað útilegukortinu þarf að greiða aukalega sk. gistináttaskatt, sem einhverra hluta vegna var ekki hægt að fela inni í verði kortsins. Þessi gistináttaskattur en enn ein tekjuöflunarleið íslenska ríkisins og rennur eflaust eins og vegaskattur, útvarpsgjald og fleiri álíka aukagjöld, til reksturs sendiráða erlendis og risnu í stjórnarráðinu. Í fyrra var gistináttaskatturinn hundrað krónur og undir hælinn lagt hvort umsjónarmenn tjaldsvæða höfðu fyrir því að innheimta hann. Í ár var hann orðinn 107 krónur - hundrað og sjö krónur, svo ekki misskiljist - og nákvæmlega innheimtur upp á krónu að Laugum. Ég borgaði með peningum.....nákvæmlega, og á mér þá ósk að ríkisstjórnin nýti vel þessa peninga. Sérstaklega er mér annt um þessar sjö krónur.....

Tjaldsvæðið að Laugum var illa farið eins og hin fyrri og margir blettir hreinlega ónýtir. Í raun má segja að eina óskemmda tjaldsvæðið sem við gistum eða skoðuðum í þessarri ferð hafi verið á Skagaströnd, hverju sem sætir því það er afar vinsælt svæði. Að Laugum völdum við okkur stað á malarplani við innakstur á flatirnar og hlóðum undir hjól til að rétta bílinn af.


Elín Huld mátti til að leggjast í fjallgöngu og Bassi fylgdi með. Ofan við Laugar er nefnilega ákaflega fallegt gil sem gaman er að ganga upp. Ég kaus rólegheitin....

Neðan við gilið (en rétt ofan tjaldsvæðisins) stendur þessi kofi og við hann volg laug enda er mikill jarðhiti á svæðinu. Kannski er laugin ein þeirra sem nafnið Laugar er dregið af?

Þessi dama var að búa sig undir fótabað:

Ekki hélst blíðviðrið endalaust enda höfðu spár gengið á þann veg að góðviðrið yrði skammvinnt. Eftir fréttum að dæma rigndi enn fyrir sunnan enda hafði bakkinn sunnan við Holtavörðuheiði ekki sýnt á sér neitt fararsnið kvöldið áður. Morgunninn 24. júlí var þó þokkalega bjartur og þurr en það blés dálítið á morgunverðarborðið okkar þegar við færðum það út til að borða. Við náðum þó að halda því við jörðina meðan verið var að ganga frá og gera ferðaklárt. Svo var ekið af stað á ný.

Tillagan um að halda í öfuga átt við Holtavörðuheiði, fara í Dalina og gista að Laugum var ekki sett fram út í loftið. Í nokkur ár höfðum við tala um að fara sk. Efribyggðarveg um Fellsströnd. Þessi leið liggur upp frá veginum um Fellsströnd við eyðibýlið Hellu og áfram í vestur að baki Staðarfells og síðar Ytrafellsmúla. Leiðin tengist svo þjóðveginum aftur við eyðibýlið Kjarlaksstaði (Kjallaksstaði) útundir Dagverðarnesi.

Leiðin er ekki löng eins og sjá má, allt í allt rúmir 16 km. niður á þjóðveg vestantil. Þegar við töluðum fyrst um fyrir mörgum árum að fara þessa leið hafði bæjarnafnið Lyngbrekka vakið sérstaka athygli. Elín Huld er jú uppalin að mestu leyti á Lyngbrekkunni í Kópavogi, þar áttu foreldrar hennar heima frá 1968 til 2001 að við tókum við og bjuggum þar til 2012. En allt er í heiminum hverfult.......

Allavega hlaut að vera eitthvað merkilegt við þessa Lyngbrekku fyrst hún fékk sitt eigið skilti:

Líklega hefur aldrei verið stórbýli að Hellu. Svo er spurning hvort skapar stórbýli, húsakostur eða hugarfar:

Frá Hellu er lagt á lágan háls sem liggur yfir að öðru eyðibýli, Túngarði. Af hálsinum var útsýnið svona vesturúr. Til hægri handar eru hlíðar Tungumúla:

Tungumúli skýlir dalverpinu norðanmegin og lengst til hægri er býlið að  Hallsstöðum og virðist enn í byggð. Áhugasömum skal bent HINGAÐ.

Hér að neðan er svo horft heim að Túngarði, sem áður var nefndur. Þar var hús í byggingu - eða endurbyggingu - og mikil trjárækt.

Býlin Hallsstaðir og Túngarður standa sitt hvoru megin við mynni Flekkudals. Miðja vegu milli er Flekkudalsrétt og við hana stendur Hótel Jötnagil, kennt við mikið gil hánorðan í Flekkudal. Stjörnufjöldi óuppgefinn......Við þennan bæ var ekkert skilti svo við sæjum, en af korti að dæma er þetta Svínaskógur, og á ÞESSARI stórkostlegu mynd frá Mats (mats.is) er horft yfir Svínaskóg fram til Hallsstaða, Flekkudals og í öxlinni hægra megin er Túngarður. Ekki virðist vera föst búseta að Svínaskógi (eða Svínaskógum, nafnið virðist vera til í báðum myndum)  líklega er jörðin nýtt fyrir hross. Það er allavega vel hýst:

Það var fundur í málfundafélaginu Auðhumlu:

Svo allt í einu voru tæpir átta kílómetrar að baki og við komin að Lyngbrekku. Þar var allt að gerast, m.a.s. verslun. Ég fann ÞENNAN hlekk og ákvað að nota hann vegna þess að í honum eru afar góðar myndir framan úr Flekkudal ásamt mynd af Jötnagili tilsýndar.

Bein tenging á heimasíðu Lyngbrekku er svo HÉR. Þarna er greinilega búið af stórhug og með myndarbrag enda veglegt heim að horfa:

Vestan í túnfæti Lyngbrekku er eyðibýlið Orrahóll:
Vestan Orrahóls tók við óbyggt svæði, grýtt og skriðurunnið undir öxl Tungumúla. Með það að baki tóku við þrír Tungubæir, í mismikilli byggð og síðan beygði vegurinn í vinkil frá norðvestri til suðvesturs á brú yfir Kjarlaksstaðaá og tengdist þjóðveginum fyrir Klofning rétt við eyðbýlið að Kjarlaksstöðum, eins og fyrr var nefnt. Þegar ég ók fyrst fram hjá Kjarlaksstöðum stóð enn uppi hluti torf- og timburbæjar sem að öðru leyti var fallinn ofan í tóft. Ég hét því að skoða þennan stað áður en húsið félli, en það dróst og þar kom að Kjarlaksstaðabærinn gat ekki beðið lengur. Mig langaði að koma þangað vegna þess að þar fæddist og ólst upp einn þeirra manna sem lifði hvað mestar þjóðfélags- og samfélagsbreytingar á fyrri hluta síðustu aldar og fram um hana miðja. Hann var fróður, vel gefinn, vel lesinn og ritfær enda skráði hann sögu sína sem um leið var saga samferðamanna og sveitunga. Hún er einnig saga sveitarfélags sem þróast úr blómlegri byggð til þess að leggjast algerlega í eyði. Sagan er ekki hástemmd en hún er ómetanlegur hluti byggðasögu við Jökulfirði vestra. Hún heitir "Saga stríðs og starfa"  og sá sem skilaði þessari ómetanlegu ( ég segi það aftur) arfleifð til komandi kynslóða hét Hallgrímur Jónsson, bóndi á Dynjanda við Leirufjörð og síðar í Grunnavík.

Sjá  HÉR, HÉR og HÉR.

Við rústirnar af Kjarlaksstöðum beygðum við til vesturs í átt að Klofningi. Á leið þangað er m.a. ekið fram hjá býlinu að Kvennahóli. Það virðist í eyði en er það ekki að ég best veit. Þar mun enn búa sérkennilegur, bandarískur maður sem keypti jörðina fyrir mörgum árum og hefur búið þar einn. Næpan á þaki útihúsanna vekur athygli vegfarenda og einnig stór kross á framhlið íbúðarhússins, enda hvorttveggja með trúarlega tilvísun. Ábúandinn hefur sína eigin trúarlega hugmyndafræði sem aðrir hafa lítt kynnst nema af tilfallandi blaðagreinum.
Árið 2003 ókum við gegnum Klofning á gamla Toyotaferðabílnum okkar sem bar nafnið  "Ísfirðingur" og tókum þá svipaða mynd. Þá áttum við ekki stafræna vél, bara svona "hjáræna" filmuvél og myndin er því aðeins á pappír. Nú máttum við til að taka "almennilega" mynd:

Sunnan til við Klofninginn er dálítið bílastæði og af því slóð upp á klettinn að útsýnisskífu. Við lögðum bílnum og gengum upp. Á myndinni er horft af stígnum suður yfir Langeyjarnes en framan við það er aðeins mjótt haft, Þröskuldar, yfir í Efri - Langey. Örlítið til hægri við miðja mynd má sjá Dímonarklakka (Klakkeyjar) eins og pýramída og til vinstri við þá er það líklega Drápuhlíðarfjall handan Hvammsfjarðar sem rekur toppinn upp í kólguna, Hafi ég rétt fyrir mér er Helgafell í hvarfi við klakkana. 

Myndin er númer 235 í myndaalbúmi sem merkt er "Svartárdalur" Sjá efst á síðunni. Þar er hægt að stækka hana gríðarlega!

Það var orðið verulega þungt í lofti þarna suðurfrá. Þetta er útsýni af Klofningi suður yfir Hvammsfjörð í átt til Skógarstrandar.

Horft í -  ja, hvaða átt? Jú, yfir nálinni á útsýnisskífunni stendur Látrabjarg og Stálfjall:

Vindbarin Elín Huld reynir að ráða í örnefnin á útsýnisskífunni. Langeyjarnes og Klakkeyjar í baksýn.

Þarna var okkar vendipunktur, líkt og daginn áður að Þorgrímsstöðum á Vatnsnesi. Nú lá leiðin suður því "vonda" veðrið var á leiðinni yfir fjörðinn og ef marka mátti spár yrði það viðvarandi nokkra daga. Við áttum aðeins einn stað eftir óskoðaðan, nefnilega bryggjumannvirki á Hnúksnesi. Þarna mun hafa verið grásleppuútgerð og fleira í svipuðum dúr og eflaust fjörugt mann- og athafnalíf á sínum tíma. Enn er þar á stundum fjörugt mannlíf ef marka má ÞENNAN tengil.Við Bassi fengum okkar mynd á bryggjunni, af því einhverjum þótti það "svo vel viðeigandi" Í fyrsta hluta pistilsins nefndi ég Skóda norður í Skagafirði sem eitt sinn var kallaður blöðruselur. Ef einhver veit ekki hvernig blöðruselir líta út þá er það nokkurn veginn svona:

.....en kannski er það bara þessi ólánsbolur! Ætli ég hendi honum ekki fljótlega....

Hnúksnes að baki og við héldum áfram heim. Nú ókum við "venjulega" leið meðfram Fellsströndinni og framhjá Staðarfelli. EH langaði að taka góða mynd yfir staðinn og náði því en bakgrunnurinn er satt að segja leiðinlega grár.

Grái liturinn var vegna þess að nú nálgaðist rigningin óðum norður yfir Hvammsfjörð. Nokkrum augnablikum eftir að myndin var tekin féllu fyrstu droparnir, svo bætti í og við ókum í úrhelli alla leið til Reykjavíkur. Þegar þangað kom tók við vinna við að gera Stakkanesið flutningsklárt, þar var reyndar fátt óunnið. Að kvöldi þess 29. var svo lagt upp í langferð sem gekk að óskum og áður hafa verið gerð skil.

Endir þriðja og síðasta hluta. 

Eins og áður var fram komið flytjast ferðapistlar í sér-tengil á jaðrinum hægra megin. Þeir þrír pistlar sem bera yfirskriftina "Dalir og heiðar" falla í nýjan flokk sem heitir "Ferðir innanlands 2014".  


............................................

Flettingar í dag: 50
Gestir í dag: 34
Flettingar í gær: 111
Gestir í gær: 45
Samtals flettingar: 642782
Samtals gestir: 91884
Tölur uppfærðar: 23.1.2019 04:07:41


Tenglar