Gunnar Th.
Fjórða kerfið.....


18.04.2017 09:48

Enn páskar á Akureyri.Við fórum fram að fremsta bæ í Hörgárdal.
"Við erum á vitlausu farartæki" sagði drengurinn.
"Nú" sagði ég.
"Þetta er ekki bílvegur" sagði drengurinn.
"Nú" sagði ég
"Þetta er hjólaslóði" sagði drengurinn.
....og sannara orð var ekki sagt þann daginn.

Við erum á leið suður, eftir nokkra tapaða heimavinnudaga. "Alvöru"vinnan bíður kl. 16 í dag og til miðnættis.
Hér við Furulundinn bíður moppan þess að einhver stigi dans við hana.

...en ég er heppinn, eins og sá norski Öystein Sunde sem söng: "Jeg har folk til slikt"

Farangurinn fer í annan bílinn. Hinn kom eiginlega bara fullur af hljóðfærum. Einn drengur með sæng, kodda, hljómborð, nokkra gítara og mikið af snúrudóti.

Ég kom með páskaegg.

Hljóðfærin fara til baka. Páskaeggið ekki.....

Síðasta kvöldinu eyddum við m.a. í að finna hinn endann á þröngri einstefnugötu í innbænum og læra allar húsagötur á Oddeyri í réttri röð. Okkur fannst viðfangsefnið stórkostlegt og afar gefandi. Kunnugum þykir það þó kannski frekar lýsandi.

Klukkan er ekki neitt á þriðjudagsmorgni og tími til kominn að gera eitthvað.....

13.04.2017 09:43

Á Akureyri um páska.Spennufall - og háspenna um leið.....


Litla bláa Micran mín er farin...
Blái Focusinn minn er farinn....
Svarti Cherokee jeppinn er farinn...
Litla bleika mótorhjólið er farið....
M.a.s. bláa uppáhaldshjólið mitt er farið!

.......og miðað við það andskotans grænland sem ég er nú staddur á er mér skapi næst að auglýsa eftir vélsleða.

Ég kann ekki að vera svona langt frá dótinu mínu, verkfærunum og verkefnunum.
Eina afþreyingin er að éta 900 gr. páskaegg sem starfsmannafélagið var svo vænt að gefa mér.

Mér leiðist snjór........

12.04.2017 09:37

Makalaus meðferð á ritmáli.Vonandi fyrirgefst mér þótt ég birti þessa dæmalausu misþyrmingu á ritmáli. Ég las þessa frétt og verð að viðurkenna að innihald hennar fór því miður fyrir ofan garð og neðan við fyrstu yfirferð. Ég festist nefnilega í málfarinu sjálfu. Dæmi hver fyrir sig:

--------------------------------------------------------------------------------------
Ekki spurning um hvort heldur hvenær
xxxx ( blaðamaður) skrifar 11.4.2017 19:30

Ástandið á Biskupstungnabraut er bágborið
VÍSIR/STÖÐ 2

Oddviti Bláskógabyggðar segir að það sé ekki spurning hvort heldur hvenær alvarleg umferðarslys verði á Biskupstungnabraut á meðan vegurinn sé ekki lagaður. Ríflega tvöfalt fleiri óku veginn á síðasta ári heldur en um Holtavörðuheiði á sama tímabili.

Fjallað var um málið í Bítinu á Bylgjunni í gær en oddviti Bláskógabyggðar segir veginn um uppsveitir Árnessýslu að Gullfossi og Geysi vera hættulega slysagildru. Ekki nóg með hvað vegurinn er þröngur heldur er hann meira og minna skemmdur vegna umferðarþunga sem þar fer um enda svæðið einn vinsælasti viðkomustaður erlendra ferðamanna í dvöl sinni á Íslandi.

Á síðasta ári óku 1.262.200 ökutæki um Biskupstungnabraut við Selfoss en til samanburðar fóru 689.500 ökutæki um Mosfellsheiði og 507.200 ökutæki óku um Holtavörðuheiði.

Og þetta er það sem ferðamönnum sem aka um Biskupstungnabraut er boðið upp á. Vegur sem er ómerktu í miðju og ætti að tryggja öryggi og handónýt malbik og handónýtur vegur. Djúpar holur með grjóti sem geta skemmt bíla og tilheyrandi slysahættu.

Eru þá er ótaldar vegkantar þar sem malbik hefur brotnað undan þunga þeirra hópferðabifreiða og annarra stórra ökutækja sem um veginn fara. Stutt er síðan rúta fór út af Þingvallavegi eftir að vegkantur gaf sig undan rútu með þeim afleiðingum að hún fór út af.

"Ástandið á þessum vegum er mjög slæmt, það er bar eitt orð. Þetta eru bara ónýtir vegir og það þarf að byggja þá upp frá A til Ö, sérstaklega Þingvallaveginn. Biskupstungnabrautin, þar eru mjög slæmir kaflar en ágætis kaflar inn á milli en heilt yfir er Biskupstungnabrautin mjög illa farin," segir Helgi Kjartansson, oddviti í Bláskógabyggð.

Ekki er gert ráð fyrir nýframkvæmdum á svæðinu fyrir utan framkvæmdir sem standa yfir á um kílómetra kafla við Geysi. Helga finnst svæðið hafa orðið út undan í nýúrkominni Samgönguáætlun.

"Klárlega! Hér kemur 80-90% af öllum ferðamönnum á þetta svæði, plús íbúarnir og plús frístundabyggðin. Það segir sig sjálft að vegakerfið er ekki hannað fyrir þessa umferð og þetta er bara að hruni komið og það verður að bregðast við því nú eru spár um fjölgun ferðamanna, þær eru áfram 20-30% á ári og það verður að gera eitthvað það er ekki hægt að bíða endalaust," segir Helgi.

Helgi segist bíða eftir að stórt slys verði á veginum en vonar þó að svo verði ekki.

"Já við gerum það og lögregluyfirvöld líka hérna á Suðurlandi og þau eru bara með þetta í lúkunum þetta ástand á þessu svæði og ég held að sé ekki spurning hvort heldur hvenær," segir Helgi.

09.04.2017 10:13

ÓtitlaðVið áttum Snotru á Ísafirði ´87-8. Fengum hana sem kríli og hún óx upp í þessa gullfallegu tík. Svo fór eins og hjá svo mörgum, vinnudagarnir langir og tíminn of lítill til að sinna Snotru. Hún fékk athvarf í sveitinni og dvaldi þar út ævina.

Það er alltaf viss eftirsjá að góðum dýrum.......


........................

27.03.2017 19:52

Það er að koma vor.


.. ......og af því það er að koma vor, þá er tilhlýðilegt að dusta rykið af Stakkaness-síðunni.

 Eitt af vorverkunum hefur undanfarin ár verið að hlúa að Stakkanesinu og undirbúa það undir siglingasumar. Út af þeirri venju var þó brugðið í fyrrasumar. Þar réði tvennt mestu: Annarsvegar var farin Færeyjaferð á mótorhjóli og sú ferð krafðist tímafreks undirbúnings. Hins vegar var enginn ferðabíll til staðar og því enga gistingu að hafa í Hólminum, þar sem báturinn er geymdur.

Í ár er ætlunin að sjósetja og sigla Stakkanesinu, ekki þó í Hólminum heldur stendur til að flytja skipið milli landshluta. Til að svo megi verða þarf að smíða vagninn undir bátnum upp að stórum hluta. Hann er orðinn ellefu ára gamall og var á sínum tíma smíðaður af hálfgerðum vanefnum - úr nýju efni að vísu en því ódýrasta sem til var. Um slíkt gildir hið fornkveðna, menn fá það sem þeir borga fyrir......

Ég var búinn að undirbúa mig vel fyrir ferð upp í Hólm með allan búnað sem þurfti til að ná vagninum undan bátnum og koma honum suður. Farartækið var svarti Cherokeejeppinn minn, sem keyptur var 17. apríl í fyrra, sama dag og Bassi minn dó. Reyndar voru farin að heyrast dularfull hljóð úr iðrum vélarinnar fyrir nokkru en ekki þó svo orð væri á gerandi. Þegar nær dró ágerðust hljóðin og loks kom þar að, að ég treysti ekki jeppanum í ferðina nema kanna upptökin. Þá kom í ljós vélarmeinsemd svo slæm að ekki varð lengra haldið en inn í skúr. Jeppinn var tæmdur af varningi, vélin tekin úr og jeppinn sjálfur settur út fyrir dyr til geymslu. Undir vélina var smíðuð dýrindis hvíla úr galvanhúðuðu járni á íþróttafelgum (sportfelgum) enda byrjar engin óbrjálaður maður vélarupptekt nema smíða sér hjólaborð, sé slíkt ekki á annað borð til staðar.Þar sem ferðin var slegin af um sinn tóku við önnur áríðandi verk, sem öll tengdust að einhverju leyti samþjöppun á eignaumfangi Höfðaborgarstjórans. Þar er af nógu að taka og þótt oft hafi horft illa með það sem ljúka átti fyrir sumarið eru horfurnar satt að segja óvenju slæmar þetta árið. Það er enda margt sem glepur. Mér sýndist fyrir allnokkru að vorið væri á leiðinni og myndi sýna fyrirboða um jafndægur. Það gekk eftir og þótt um nýliðna helgi hafi veðrið verið hálf hryssingslegt lau þó sunnudeginum með einmunablíðu og það sama má segja um daginn í dag. Um leið og vinnu lauk bjó ég mig út með það nauðsynlegasta til að ná litla bleika hjólinu út af bílasölunni sem hefur vetrarvistað það. Rafgeymir ofl. var geymt hér heima og með það ásamt hjálmi og efri hluta leðurgallans hélt ég niður á bílasöluna. Út fór hjólið og í síðdegissólinni tók það fyrstu vélarslög vorsins. Það var fallegur söngur......

Ég er heldur ekki frá því að sá söngur hafi glaðnað enn meira þegar litla bleika var stöðvað heima við borgarhlið.....

Veðrið í gærkvöldi var svo gott að við Höfðaborgarar máttum til að skreppa hjólarúnt. Ég lagði upp um níuleytið og var rétt um klukkutíma á ferðinni. Við heimkomuna var sonurinn mættur og vildi líka út. Hans hjól er enn í vetrargeymslu svo mínu var haldið úti annan klukkutíma og einhverju betur.
Það sama er uppi á teningnum í kvöld - hreint dýrðleg veðurblíða og litla bleika er búið að fara bryggjurúnt í Hafnarfjörð. Þegar þetta er skrifað er sonurinn tekinn við og er einhversstaðar úti á þeysingi........................................

  • 1
Flettingar í dag: 181
Gestir í dag: 21
Flettingar í gær: 486
Gestir í gær: 38
Samtals flettingar: 560298
Samtals gestir: 80695
Tölur uppfærðar: 18.2.2018 19:13:32


Tenglar