Gunnar Th.
Fjórða kerfið.....


07.11.2020 16:38

Norðurferð 20-24.8 ´20


Eins og áður var fram komið dróst það fram á fimmtudag 20. ágúst að haldið væri af stað aftur frá Reykjavík - ekki löng töf, þar sem við höfðum jú komið til Rvk að morgni þriðjudags eftir næturkeyrsluna að austan og þriðjudagurinn frá hádegi ásamt miðvikudeginum var varið til ýmissa verka, eins og t.d. að gera gulu Honduna ferðafæra. Milli okkar Hondunnar er ósýnileg en sterk tenging, og þótt mér hafi alltaf líkað vel við bláa Yamaha-hjólið frá því ég eignaðist það á ég nú orðið mun fleiri kílómetra að baki á Hondunni auk þess sem hún hefur ákveðna yfirburði á þröngu sviði, yfirburði sem glögglega komu fram í brekkunum upp í Nesháls við Loðmundarfjörð. 

Eitt veikleikamerki hafði Hondan mín þó sýnt við prófun í Reykjavík á miðvikudeginum: Þegar átti að gangsetja hana eftir stöðuna ( frá því ég kom frá Drangsnesi) þá hafði hún aðeins start í nokkra hringi, svo dró af rafgeyminum og loks gafst hann upp!  Það var því ekki um annað að gera en að kaupa nýjan geymi í hvelli og ganga frá honum í hjólið. Með geyminum fylgdu leiðbeiningar um hleðslu, hann kom semsé ekki fullhlaðinn heldur þurfti að undirbúa hann skv. fyrirmælum framleiðanda. Eftir að sýran sem fylgdi væri sett á geyminn átti að hlaða hann í 2-3 klst. þar til setja mætti álag á hann. Við þetta var ég að brasa á fimmtudagsmorguninn. Það gekk erfiðlega að fá geyminn til að sýna fulla hleðslu, svo erfiðlega að um miðjan dag gafst ég upp og ákvað að fara með hann í hjólinu engu að síður - full hleðsla eður ei.... ( til vonar og vara setti ég gamla geyminn í farangursgeymslu bílsins ásamt verkfærum til að skipta, svona ef.....)
Nóg um það. Það var semsagt farið að síga á fimmtudaginn þegar lagt var af stað frá Höfðaborg áleiðis norður í land. Tímans vegna ( ég átti að mæta í vinnu eftir helgina) var útséð um Vopnafjörð, Bakkafjörð, Rauðanes og Raufarhöfn að sinni. Ég ætlaði ekki lengra en austur að Ásbyrgi og hjóla þaðan hringinn um Dettifoss - suður eystri veginn og norður þann vestari, með viðkomu í Hólmatungum. Vegna tafanna var ég ekki kominn til Akureyrar fyrr en á miðju kvöldi og klukkan var að verða tíu þegar ég skráði mig inn á tjaldsvæðið að Lónsá. Veðrið hafði verið með ágætum allan daginn og alla leiðina norður, og lofað var sama eða betra daginn eftir.



Sú spá gekk eftir. Föstudagurinn heilsaði með blíðuveðri, og það var ræs fyrir allar aldir á tjaldsvæðinu að Lónsá. Eftir morgunmat var haldið á bensínstöðina og fyllt á bæði bíl og hjól. Til að fylla á hjólið þurfti ég að klifra upp á kerruna, því ekki varð öðru við komið. Dálítið klöngur en allt í lagi samt....Svo var lagt af stað inn eftir Drottningarbrautinni. Veður dagsins er efst á myndinni emoticon



.......og önnur veðurmynd út Eyjafjörð, svona fyrir seinni tíma skýrslu.



Ég fór auðvitað Víkurskarðið - hver vill loka sig inni í fjalli í svona veðri? 
Á Húsavík var engin viðstaða höfð, þótt mannlíf föstudagsins væri komið á fullt. Túristar ársins höfðu eðlilega ekki verið margir og þeim var töluvert farið að fækka nú að áliðnum ágúst. Mannlíf á Húsavík þennan föstudagsmorgun var því kannski ekki nema svipur hjá sjón en þó var talsverða hreyfingu að sjá kringum þá hvalaskoðunarbáta sem enn voru í notkun. Norðan Húsavíkur var sýnin svona. Horft er út með Tjörnesi út í Hallbjarnarstaðakrók.



Ferðabíllinn sá að mestu sjálfur um aksturinn  - hann malaði áfram á hraðastilli og ég þurfti aðeins öðru hverju að leiðrétta stefnuna á annars beinum og breiðum vegi. Svo var lestin allt í einu kominn að þjónustumiðstöðinni við Ásbyrgi. Sem snöggvast hélt ég að búið væri að loka, því aðeins var tvo bíla að sjá á planinu auk ferðabílsins.







Nei, það var ekki búið að loka, því úr öðrum bílnum kom manneskja og gekk inn í húsið. Ég ákvað að drífa hjólið af kerrunni og fá mér svo kaffisopa inni áður en ég legði af stað í Dettifosshringinn. Þegar ég var að losa böndin af hjólinu tók ég eftir því að ljós logaði á báðum ljóskösturunum þess. Ég bölvaði!
Ég hafði enga hugmynd um það hvenær eða hvernig hefði kviknað á ljósunum, en hitt vissi ég, að nýi rafgeymirinn var óskrifað blað og engin leið að vita stöðuna á honum þegar lagt var af stað að sunnan. Mér fannst líklegt að þegar ég var að klifra upp á kerruna fyrr um morguninn á Akureyri, til að setja bensín á hjólið, hefði ég rekið mig í ljósatakkann á stýrinu. Væri svo, var örugglega búið að loga á kösturnum í hálfan annan tíma. Ég renndi hjólinu af kerrunni og prófaði að starta því. Nei nei, auðvitað var ekki nóg rafmagn eftir í start!

Ég bölvaði aftur, og nú sýnu hærra......

Ég átti tvo kosti: Að tengja startkapla og gefa hjólinu start með bílnum, eða setja gamla geyminn í og taka séns á honum.....ég vissi þó allavega að hann var farinn að dala en átti þó ekki að vera alveg ónýtur. Eftir tíu sekúndna umhugsun valdi ég þá leið. Nýi geymirinn gat jú verið gallaður og hreinlega ónýtur. Þá var eitt start með köplum jafnvel ávísun á meiri vandræði, því ég gat allt eins lent í vandræðum inni við Dettifoss og ekki víst að þar væri neinn til að gefa mér start. Einföld rökfræði gaf því þá niðurstöðu að betra væri að vera lasinn en dauður. 

Það tók ekki nema nokkrar mínútur að skipta um geyminn ( enda var ég í æfingu)  og eftir það datt hjólið í gang eins og þessi geymir hefði aldrei látið sér til hugar koma að svíkja.....Ég drap á og labbaði yfir planið í kaffi.

Svo var lagt af stað. Klukkan hefur líklega verið farin að ganga ellefu þegar ég loks komst af stað. Leiðin lá frá þjónustumiðstöðinni norður yfir brúna á Jökulsá að mótum #Eitt og eystri Dettifossvegarins (sem á korti heitir 864 Hólsfjallavegur), og þaðan suðureftir. Fljótlega eftir að komið var inn á heiðarnar mætti ég þessu setti. Kind með tvö stálpuð lömb er allajafna ekki óalgeng sjón, en ég hafði aldrei áður, svo ég myndi, séð kind með geitarhorn. Eftir talsverða rýni og vangaveltur, þar sem illa gekk að fá fyrirsæturnar til að stilla sér upp á viðunandi máta, þóttist ég greina að mamman með geitarhornin væri ferhyrnd. Ég hafði séð uppstoppaðan haus af ferhyrndri kind á safni, en aldrei fyrr á fæti. Mér fannst þessi dagur byrja vel.......







Áfram, áfram inn heiðina og vegurinn fór úr því að vera þokkalegur yfir í að vera svona la la og þaðan yfir í að vera laus og grýttur. Ég mætti nokkrum bílum af mismunandi stærðum og gerðum og það buldi talsvert í undirvagni þeirra minnstu á grjótinu. Mér sýndist flestir vera bílaleigubílar, og varð í þúsundasta skipti hugsað til haustauglýsinga bílaleiganna, þar sem bílaleigubílar eru auglýstir þannig að látið er eins og hálf þjóðin hafi beðið í ofvæni eftir að geta loksins eignast þessar ótrúlega vel þjónustuðu gersemar. 

Loks kom ég að skilti sem á stóð "Hafragilsfoss". Ég hafði enga hugmynd um neinn Hafragilsfoss í veröldinni, svo ég beygði af leið til að kanna hvaða fyrirbæri væri um að ræða.

Á þokkalegu bílastæði með merktum gönguleiðum lagði ég hjólinu og drap svellkaldur á því. Ef mín örlög væru þau að veslast upp einn í óbyggðum með rafmagnslaust hjól, þá yrði svo að vera. Ég skildi jakkann og hjálminn eftir á hjólinu og gekk af stað. Fljótlega sá ég Hafragilsfoss. Þá skildi ég líka hvers vegna hafði þótt ástæða til að merkja hann sérstaklega. Þegar þessi náttúrufegurð blandaðist veðurblíðunni var einna líkast því sem maður væri staddur í Paradís - og kannski var maður það. Í hvarfi ofan við leitið efst við Jökulsá er Dettifoss, og frá þessum stað var úðinn frá honum greinilegur.







Að neðan er horft frá stað sem kallast Sjónnípa, og er einhver besti útsýnisstaðurinn yfir Hafragilsfoss og nágrenni hans. Horft er til norðurs.



Horft frá Sjónnípu til suðausturs (eða þar um bil) í átt til bílastæðisins, þar sem einn túristabíll var mættur auk hjólsins.



Að neðan: Útsýni af Sjónnípu til Hafragilsfoss og suður eftir Jökulsá í átt að Dettifossi. Manni varð ósjálfrátt hugsað til þess að Hafragilsfoss getur aldrei orðið nema "númer tvö" á eftir Dettifossi. Svona nokkurs konar litli bróðir, sem er kannski litið á í leiðinni að þeim stóra- aðalnúmerinu. Mér varð líka hugsað til annarrar álíka tvennu, sem ég skoðaði í fyrrasumar, á leiðinni innan úr Laugafelli og niður í Bárðardal. Í ofanverðum dalnum (þegar komið er niður af heiðunum) er fyrst komið að Hrafnabjargafossi. Hann sést ekki frá veginum, en er merktur með skilti. Neðan hans er svo Aldeyjarfoss með öllu sínu stórkostlega stuðlabergi. Hann er kyrfilega merktur, við hann er hreinlætisaðstaða og svo blasir hann við frá veginum ( eða gljúfur hans). Hversu margir skyldu leggja leið sína fram Báðardal til að skoða Aldeyjarfoss en láta Hrafnabjargafoss, örfáum km ofar, eiga sig?

Í sönnum, sósíalískum anda fannst mér Hafragilsfoss alveg jafn "rétthár" og Dettifoss........alveg jafn merkilegur, alveg jafn glæsilegur....

( Það þarf svo vart að taka fram að gula Hondan mín rauk í gang í fyrsta starti og engan hörgul á rafmagni að finna )



Næst var það Dettifoss sjálfur. Numero Uno - Aðalnúmerið! Við 
hann að austanverðu er þokkalegt bílastæði með hreinlætisaðstöðu (aðstaðan er miklu betri að vestanverðu enda er það "opinber" skoðunarstaður með malbikuðu plani og fínheitum). Frá bílastæðinu er svo dálítill gangur niður kletta og stórgrýti að sjálfu gljúfrinu. Gönguleiðin hefur verið lagfærð þokkalega og er enginn farartálmi sæmilega "fættum".




Við Dettifoss. Regnbogi upp úr gljúfrinu, enda ekki ský á himni.



Horft frá Dettifossi norður eftir gljúfrinu, í átt að Hafragilsfossi.



Greinilega var mun fleira fólk á ferð vestan fossins, og má sjá hluta þess bera við himin.





Enn horft í norður, niður gljúfrið í átt að Hafragilsfossi. Líklega er það Sjónnípa sem ber hæst sem dálítinn píramída næst ánni hægra megin.



Ég lagði í gönguna frá bílastæðinu nær algallaður, skildi aðeins hjálminn og hanskana eftir við hjólið. Á miðri leið mátti ég losa mig við jakkann og buffin og geymdi hvorttveggja á steini við stíginn. Það gaf dálítla hvíld að stoppa þar og hengja á sig að nýju.



Svo var haldið áfram suður eftir, á síversnandi vegi sem þó hafði lítil áhrif á hraða litlu bílaleigu-Yarisanna sem komu á móti og hentust framhjá með grjótglamrið í undirvagninum. Öðrum hleypti ég framúr, þegar þeim virtist liggja meira á en mér. Kannski ætluðu sumir túristarnir að skoða allt Ísland á tveimur, þremur dögum og lá því svona á.....Mér lá hins vegar ekkert á og tók því hlutunum eins rólega og mögulegt var.

Svo birtist húsaþyrping sem mér var ókunn. Ég vissi það eitt að þetta voru ekki Grímsstaðir, því þá hafði ég séð áður. Kortið mitt ( og vegskiltið) sagði "Hólssel" og augað sagði: "Mikil uppbygging gistiþjónustu án nokkurra gesta" Þarna var semsé ekki sálu að sjá enda staðurinn örugglega ekki í rekstri þá stundina, en fallegt og snyrtilegt var heim að líta.



Spöl neðar (sunnar) voru svo Grímsstaðir, og þar þekkti ég mig. Frá Grímsstöðum er svo aðeins stuttur spölur niður að mótum Hólsfjallavegar og #Eitt. Herðubreið í fjarska. Hún er á dagskrá næsta sumars emoticon



Svo var hjólað vestur yfir Jökulsárbrú og að mótum vestari Dettifossvegar (862). Sá vegur var malbikaður fyrir stuttu frá Hringvegi #Eitt og að bílastæði nærri Dettifossi. Ég vissi að unnið væri að áframhaldandi vegagerð norður að Ásbyrgi en leiðin væri samt opin. Ég hafði gengið að Dettifossi vestanvert fyrir skömmu og hjólaði því framhjá bílastæðinu inn á nýlagðan vegarkafla. Þessi nýi kafli var þegar malbikaður alla leið norður fyrir Hólmatungnaafleggjara.

Hólmatungur ( sjá HÉR ) eru náttúruperla sunnan Hljóðakletta og afleggjarinn að þeim er nokkurn veginn miðja vegu milli Dettifoss og Hljóðakletta. Þangað hafði ég aldrei komið (enda aldrei farið þennan nefnda vegarkafla frekar en eystri veginn) svo ég hjólaði þangað niðureftir og fékk mér göngutúr. Því miður gleymdi ég símanum í töskunni á hjólinu og gat því ekkert myndað á göngunni....!





Ég fór ekki niður að Hljóðaklettum í þetta sinn. Fór þangað 2017 og staðurinn var enn ljóslifandi í minninu. Rétt sunnan afleggjarans að Hljóðaklettum voru vegavinnumenn að störfum við ómalbikaðan kafla sem mér sýndist eiga u.þ.b. korter eftir í "álegg". Verkinu var semsé að ljúka og nú mun vera komin hraðbraut milli Ásbyrgis - þ.e. Norðausturvegar - og Hringvegarins vestan Jökulsár á Fjöllum. Af þeirri hraðbraut liggja svo áðurtaldir spottar að einum mestu náttúruperlum landsins, Hljóðaklettum, Hólmatungum og Dettifossi.

Viðstaðan við Ásbyrgi var frekar stutt. Hjólið fór beint upp á kerru og  ég skellti í mig einum kaffibolla og kleinu í þjónustumiðstöðinni. Síðan var ekið án viðstöðu til Akureyrar. Þar var bílnum lagt að nýju við Lónsá,  hjólinu snarað af kerrunni aftur og hjólað í næstu búð eftir kvöldmat á grillið. Um leið tók ég eftir að í hamagangi dagsins hafði peran í afturljósinu gefið sig, svo ég varð að fá nýja á bensínstöðinni og setja hana í. Í annað sinn þann daginn komu verkfærin sér vel.

Svo var allt í einu komið kvöld, farið að skyggja og ég skreið undir feld, enda langur laugardagur framundan......



Það var ræs um kl. 7 laugardagsmorguninn 22. ágúst. Fyrst var morgunkaffi í "Bakaríinu við brúna" en síðan dólaði ég í morgunhitting úti á Dalvík, þar sem Haukur Sigtryggur býr. Þar er mér alltaf tekið eins og týnda syninum, en áður en ég heimsótti Hauk kom ég við á bryggjunni og myndaði laugardagsveðrið:



Eftir góða stund með Hauki á Dalvík var ferðadrekanum snúið til baka inn Eyjafjörð. Þegar ég kom inn á Árskógsströnd sá ég ferjuna Sævar leggja úr höfn í Hrísey og stefna til lands. Ég fékk þá frábæru hugmynd (að mér fannst)  að heimsækja granna minn úr Höfðaborg (og einnig heitir Sævar), sem á hús í Hrísey og dvaldist þar um þessar mundir.  Renndi niður á Árskógssand og lagði bílnum á bryggjunni. 



Tók svo upp símann og hringdi í Sævar granna minn. Jú, hann var í Hrísey en því miður staddur um borð í ferjunni á landleið með lítillega meiddan félaga sinn og var á leið til Akureyrar með honum á spítala. Það var því ljóst að ekki yrði kaffi hjá Sævari í nýkeypta húsinu hans það sinnið. Engu að síður ákvað ég að klára hugmyndina og fara út í Hrísey. Ég hef aldrei komið í veitingahúsið Brekku og fannst nú tími til kominn - væri það á annað borð opið. Við granni náðum að heilsast og kveðjast á bryggjunni. Svo hélt hann til Akureyrar með félagann haltrandi, ég hélt til skips.



Nei, það var ekki opið að Brekku - sem var svo sem bara allt í lagi. Ég hef þá tilefni til að kíkja aftur í Hrísey á komandi sumri. Verslunin í þorpinu var hins vegar galopin og þar gat ég fengið nóg til hádegisverðar ásamt Bændablaðinu. Fyrir framan búðina er fín verönd með borðum og bekkjum, þar sem hægt var að sitja, borða lesa og virða fyrir sér umhverfið. Þar var reyndar fátt ókunnuglegt, ekki einu sinni veðrið.....





Tíminn leið hratt, og fyrr en varði var komið að næstu ferð ferjunnar til lands. Ég ætlaði ekki að dvelja lengur í Hrísey í þetta sinn en aðeins rétt milli ferða svo fljótlega var ég kominn niður á bryggju á ný og um borð í bátinn. Hádegið var liðið, ferjan lagði frá og eftir korter var hún við bryggju handan sunds, á Árskógssandi. Þar beið bíllinn og ég ók beina leið inn til Akureyrar, þar sem hjólið beið á tjaldsvæðinu við Lónsá. Bílnum var lagt, hjólagallinn tekinn fram og svo var burrað af stað inn bæinn. Ferðinni var heitið yfir Vaðlaheiði, leið sem ég minnist ekki að hafa nokkurn tíma farið áður.

Ég var undir það búinn að hjóla hálfgerðar torfærur á ónýtum vegi, en því var nú ekki aldeilis að heilsa. Upp alla hlíð Akureyrarmegin var fólk á einkabílum í berjamó, og greinilegt að vegurinn er lang því frá aflagður, þótt hann sé kannski ekki fjölfarinn lengur og kannski ekki sá besti fyrir minnstu bílana. Útsýnið, veðrið og vegurinn gerðu það að verkum að hamingjumælirinn sló í botn hvað eftir annað á uppleiðinni emoticon



Uppi á hátindinum stendur endurvarpsstöð sem blasir við frá Akureyri. Þangað upp lá slóði lokaður með keðju. Þá það, mér fannst útsýnið stórkostlegt til allra átta þótt ég færi ekki upp á toppinn ( í þetta sinn):



Svo, örskömmu seinna, opnaðist útsýni yfir utanverðan Fnjóskadal og niður í Dalsmynni:



Ég hafði ekki komið inn að Illugastöðum (sumarhúsahverfinu) síðan 1992. Þá vaknaði ég þar í bústað á miðvikudagsmorgni 22. júlí, muni ég rétt, og það var hvít jörð. Síðan hefur mig ekki langað að gista að Illugastöðum. Ég ákvað nú samt að hjóla Fnjóskadalinn með opnu hugarfari og njóta þess að þennan dag var ekki útlit fyrir að neitt myndi snjóa......



Mér fannst það afar skemmtileg upplifun að hjóla Vaðlaheiðina í fyrsta sinn í jafn einstakri veðurblíðu, og ekki spillti fyrir að inn Fnjóskadalinn var að sjá enn bjartara. Rétt við vegamótin í Fnjóskadal, þar sem mætast þrjár leiðir, þ.e. gangnamunninn á Hringvegi, gamla Vaðlaheiðin og svo vegurinn inn dalinn, stendur gamalt, rauðmálað skólahús. Ég vissi að þar var rekið kaffihús og á skilti við veginn stóð "Kaffi Draumur"  ( sjá HÉR). Ég ákvað að koma við þar á bakaleiðinni og hella í mig einum bolla eða svo..

Ég hjólaði svo áfram í dýrðinni inn dalinn, inn að Illugastöðum og litaðist þar um. Það var svo sem ekkert að sjá þar sem ekki var viðbúið, fátt virtist hafa breyst á tæpum þrjátíu árum, Snjórinn var þó farinn! Ég lagði km. stöðu hjólsins á minnið og hélt áfram inneftir.





Alls hjólaði ég fjórtán kílómetra inn fyrir Illugastaði, framjá sveitabæjum, hitaveitumannvirkjum og sumarhúsum allt þar til vegurinn var orðinn að mjóum veiði-og gangnamannaslóða. Þá fannst mér nóg komið og hjólaði til baka. Báðar leiðir hjólaði ég á eins lítilli ferð og framast var unnt, með hjálminn opinn til að njóta ilms af grasi og laufi sem best. ( svo er líka eins gott að hjóla hægt ef ætlunin er að hjóla með óvarið andlit - býfluga beint í andlitið er ekki þægileg sending)

Undir þessum bratta og lausa mel lá vegurinn um mjóa rönd á árbakkanum. Flottur staður en líklega dálítið viðhaldsfrekur eftir illviðri vetrarins.



Svo var ég allt í einu kominn til baka að "Kaffi Draumi". Eins og sjá má var ekki fjölmenni á staðnum. Ég var eini gesturinn það augnablikið og var tekið samkvæmt þvi, líkt og týnda syninum. Staðurinn var rekinn af hjónum sem störfuðu þar bæði ásamt dóttur sinni. Í rými innan við gluggann hægra megin við "bíslagið" sat myndlistarkona frá Dalvík og sýndi myndverk sín upphengd á veggi. Aðrir voru ekki í húsinu. Mér var vísað til sætis í skólastofu sem minnti svo mikið á stofur gamla barnaskólans á Ísafirði að manni fannst maður beinlínis detta inn í fortíðina. Yfir grænu krítartöflunni héngu landakort, þar með gamla Íslandskortið sem maður þekkti svo vel.

Kaffið var sannkölluð lífsbjörg, enda fyrst kaffibollinn frá því ég kvaddi Hauk Sigtrygg á Dalvík um morguninn. Súkkulaðikakan með rjómanum var heldur ekki skorin við nögl. Fyrir og eftir fékk ég svo lifandi leiðsögn um húsið og söguna. Þetta var akkúrat svoa heimsókn sem maður gleymir ekki, og á eftir að sitja jafnföst í minninu eins og snjórinn að Illugastöðum 22. júlí 1992. Það er eiginlega bráðnauðsynlegt að skoða hlekkinn sem ég setti við nafn kaffihússins í upphafi, og í framhaldinu jafn - bráðnauðsynlegt að heimsækja þennan sérstaka stað um leið og vetrinum (og ástandinu) lýkur. Það mun ég a.m.k. gera......



Frá fallega kaffihúsinu í gamla skólanum að Skógum hjólaði ég bæjaleið niður Dalsmynni og þegar kom niður undir Grenivík var klukkan farin að ganga sex. Ég hafði ætlað mér að ná í Bónus á Akureyri fyrir lokun svo það mátti skrúfa frá öllum 36 hestöflum gula hjólsins og vona að fjáröflunarteymi lögreglunnar væri upptekið annarsstaðar. Það gekk eftir og ég slapp til Akureyrar innan tímamarka. Keypti mér allt sem þurfti til ærlegrar eins manns grillveislu, enda fannst mér ég skulda sjálfum mér eina slíka að afloknum frábærum degi. Síðan var hjólinu snarað á kerruna, bundið og gengið frá, og damlað á krúsinu út fjörð, um Dalvík, göng og Ólafsfjörð, aftur um göng, Héðinsfjörð, aftur um göng og til Siglufjarðar. 



Það var farið að kvölda á Sigló þegar ég kom þangað. Ferðabílnum kom ég fyrir á afmörkuðum reit á tjaldsvæði #2, þ.e. því sem er í miðjum bænum. Á Siglufirði eru ein þrjú tjaldsvæði, eitt er neðst á eyrinni, annað er svo í miðjum bænum og það þriðja ( og líklega friðsælasta) er í hlíðinni innan við þéttbýlið. Ég lagði semsagt í miðjum bænum, enda svo sem ekkert fjölmenni á því svæði og hin voru tóm. Út fór grillið, á fóru krydduðu grísabógsneiðarnar frá Akureyri og eftir pottþétta máltíð var litið í kaffi til Leós R. Ólasonar stórvinar míns, (HÉR) og (HÉR) sem þá var nýkominn í bæinn og var að koma sér fyrir í slotinu sínu við Aðalgötuna. 



Eftir kaffisopann dreif Leó okkur báða út í kynnisferð um bæinn. Ég hélt reyndar að ég hefði séð mestallan Sigló fyrir löngu, en svo kom á daginn að það var nú aldeilis ekki. Við fórum upp á alla snjóflóðagarðana, þaðan sem er stórkostlegt útsýni yfir bæinn og fjörðinn, og ég fékk öll örnefni beint í æð. Það er alveg magnað að ganga um garðana eftir prýðilega gerðum göngustígum, enda hefur mikið verið lagt í að öll útivist þarna geti verið örugg og aðgengileg. 





Það er full ástæða til að benda þeim sem hyggjast heimsækja bæinn og þekkja ekki til gönguleiðanna um garðana, á að leggja land undir fót og njóta þessarrar fínu útivistar og óborganlegs útsýnisins.





Dagurinn hörfaði hratt og fyrr en varði var komið hálfrökkur. Leó átti samt eitt spil eftir uppi í erminni. Við ókum inn í fjörð og inn á vegstubbinn sem liggur (eða lá) um skíðasvæðið og upp í Siglufjarðarskarð. Rétt eftir að komið er inn á veginn ofan við íþróttavellina að Hóli beygðum við inn á afleggjara sem lá inn í Skarðsdalsskóg (sjá nánar HÉR). Þar var bílnum lagt og við gengum um götur og stíga sem Leó þekkti í smáatriðum, þar til við komum að fallegri vin með enn fallegri fossi. Á nokkrum stöðum voru borð og bekkir og sýnilegt á mörgu að ekki hafði verið lögð minni vinna í þennan stað en gönguleiðirnar á flóðavarnargörðunum. Annar staður sem allir sem heimsækja Siglufjörð hreinlega verða að skoða og kynnast...



Svo var komið myrkur og við héldum hvor til sína "heima". Leó í íbúðina sína við Aðalgötuna og ég í ferðabílinn, sem er næstum því besta "heima" í heimi (allavega á sumrin)

Svo rann upp sunnudagur. Enn sama veðurblíðan og hafði fylgt mér allt sumarið (og kannski fleirum). Ég var snemma á fótum að vanda og hóf daginn með gönguferð um eyrina. Ég náði velflestum götum áður en ég sneri aftur til bíls, tók hjólið af kerrunni og gallaði mig eina ferðina enn. Nú var nefnilega komið að hápunkti dagsins, sjálfu Siglufjarðarskarði.





Ég hafði haft spurnir af því að vegurinn upp Skarðsdal væri líklega ill- eða ófær vegna framkvæmda við tilfærslu skíðasvæðisins, og hélt því beina leið um Strákagöng langleiðina inn í Fljót. Þar var skilti við vegendann sem gaf til kynna að leiðin væri ófær - en það er hins vegar mjög afstætt hvað er ófært, ekki síst fyrir mótorhjól eins og Honduna mína gulu sem marga fjöruna hefur sopið. Þessi "ófærð" kom þó fljótlega í ljós, því neðarlega á leiðinni hafði nokkuð stór aurskriða runnið yfir veginn og myndað á hann allstóra moldarhryggi. Þar þótti mér loks komið hið eina, sanna "Torleiði" Vegagerðarinnar og hafði þó víða verið leitað. Skriðan var lítil fyrirstaða hjólinu og við tók grýtt leið, þar sem mikið af lausagrjóti hafði hrunið úr háum bökkum ofan vegar, auk leðjutauma sem lágu yfir veginn á stöku stað. Ofar, þar sem ekki voru bakkar meðfram veginum, hafði hann víða breyst í farveg leysingavatns, því skurðir sem áður höfðu gegnt því hlutverki voru löngu fullir af aur og grjóti. Leiðin var því ýmist þverskorin af vatni eða stórgrýtt þar sem vatnið hafði skolað burt öllu fínu efni fyrir langalöngu. Í stuttu máli - á leiðinni upp í skarðið mátti finna allar þær tegundir af slóðum og vegleysum sem gleðja hjarta mótorhjólamannsins.

Rétt neðan við sjálft Siglufjarðarskarð var svo snjóskafl sem sólargeislar sumarsins höfðu ekki náð að bræða. Hann var með öllu ófær Hondunni minni, þótt greina mætti í honum för eftir fjallareiðhjól. Ekki ætlaði ég að reyna að teyma 180 kg.hjólið yfir skaflinn, steig því af og setti það á standarann.  Til þess að skarðið gæti samt ekki hrósað sigri yfir hjólaranum skildi ég hjálminn eftir og hélt af stað fótgangandi yfir skaflinn, þessa örstuttu leið sem eftir var upp í skarð.



Á myndinni að neðan má sjá "hraðbrautina" og svo niður yfir Fljótavík og allt vestur á Skaga. Lognið sést .því miður ekki á myndinni, en það kórónaði þessa paradís og fullkomnaði hamingju hjólarans.....



Að skaflinum sigruðum var komið í sjálft skarðið. Ég fór þessa leið á bíl tíu árum áður með félaga og EH og myndaði þá borðið og bekkina:



Nú leit þetta svona út. Við þetta borð mun enginn snæða bita framar....



Fyrir tíu árum leit sjálft skarðið svona út:



Nú var það svona og dagsljóst að hér myndi enginn bíll aka um nema að undangenginni hreinsun...



Ofan við skarðið, milli þess og Afglapaskarðs (fari ég rétt með)  standa þessi möstur, leifar fallinnar raflínu.



Úr skarðinu myndaði ég svo skaflinn sem lokaði leiðinni. Neðan við hann beið Hondan mín og sést sem örlítill dökkur depill.



Fyrir tíu árum var þarna enginn skafl, aðeins dálitlar snjórastir ofan og neðan vegar.



Áður en haldið var til baka niður á malbikið, gekk ég gegnum skarðið og myndaði yfir til Siglufjarðar. Dökki reiturinn er Skarðsdalsskógur, sem ég nefndi áður:



Efsti hluti vegarins Siglufjarðarmegin skarðs var þakinn grjóti sem hrunið hafði úr háum bökkunum ofanvið. Allt var þetta eggjagrjót, frostsprungið og molnað úr stærri björgum og skaðræði öllum venjulegum bíldekkjum..





Á niðurleiðinni myndaði ég aurspýjurnar sem tepptu leiðina venjulegum bílum og jepplingum. Yfir þær lágu hjólför stærri jeppa og fjallareiðhjóla og ég bætti mínum við, svona sem fingrafari til sönnunar ferðinni ..



Leiðin lá til baka um siginn og skakkan Siglufjarðarveg og Strákagöng. Ég setti hjólið á kerruna og batt fast, skipti um föt og hélt til endurfunda við Leó. Um leið myndaði ég þessar skemmtilegu, norðlensku leiðbeiningar. Sinn er siður í landi hverju og eflaust í héraði líka, en ég giska á að í flestum öðrum landshlutum hefði verið skrifað: "...brennir viðinn" Broskarlinn var hins vegar eins alþjóðlegur og hugsast gat...

Ég má til að nefna stórskemmtilegt ljósmyndasögusafn sem Leó sýndi mér. Þar er margt áhugavert að finna, en best er að smella á hlekkinn HÉR til að kynnast safninu betur.



Svo kvaddi ég Leó og Sigló og hélt enn um Strákagöng yfir í Fljót og áfram inn Skagafjörð. Eitt af því sem mig hafði alltaf langað að gera en aldrei komið í verk var að skoða farartækjasafnið að Stóragerði. Nú lét ég verða af því ( einn af fjölmörgum kostum þess að ferðast einn er að það þarf aldrei neinar samningaviðræður eða málamiðlanir)



Hún hélt reyndar, daman í afgreiðslunni, að ég væri að koma með ferðabílinn á safnið (vonandi samt í gríni) því hann er nokkurn veginn jafnaldri löggubílsins á myndinni, auk þess að vera sömu gerðar. Ég lofaði á móti að koma með hann þegar ég hætti að ferðast á honum (auðvitað í gríni). Með aðgöngumiðanum pantaði ég kaffi og vöfflu með sultu og rjóma - hvað tilheyrir betur því að skoða gamla bíla og hjól, en vaffla með sultu og rjóma? Þjóðlegra verður það varla...



Þórhallur Halldórsson í Súgandafirði átti á sínum tíma Benz rútu sem var sömu gerðar og sú græna en í sömu litum og sú ljósa. Ég man vel eftir þeim bíl og fleirum samskonar fyrir vestan. 





"Einu sinni átti ég hest / ofurlítið rauðan..."  o.s.frv.  Ég átti reyndar tvo svona "hesta", annan rauðan og hinn rauðgulan (eða gulrauðan?). Það var mikil upplifun og ekki orð um það meira  (enda veit ég ekki hvað lögreglan á Ísafirði afskrifar umferðarglæpi á mörgum árum...)



Það var svona farið að halla í lokun í Stóragerði þegar ég hafði lokið við allan pakkann, skoðunarhringinn, kaffið og vöffluna með sultunni og rjómanum....leiðin lá til Sauðárkróks. og þar skyldi náttað næst.

Ferðabíllinn malaði eins og venjulega á krúsinu inneftir, fyrir mynni Hjaltadals og áfram. Eitt hafði þó stundum verið að angra mig öðru hverju, ekki þó svo neinu næmi en samt hafði ég á tilfinningunni að eitthvað gæti verið að hjólunum. Mér fannst bíllinn titra öðru hverju lítillega á ákveðnum hraða, en titringurinn -væri hann raunverulegur - var svo lítill að ég gat engan veginn staðsett hann. Þó fannst mér þetta hafa staðið yfir mestallt sumarið en kannski verða örlítið greinilegra eftir að við sonurinn komum með Grána austan af Fljótsdal til Reykjavíkur - og ég var jú staddur í næstu ferð á eftir.... Stundum varð mér hugsað til dekkjanna, þeirra sömu og ég fékk gefins austur á Reyðarfirði árið áður og höfðu verið sett undir til mátunar, aðeins til að sjá hvort þau pössuðu. Þetta voru mun stærri dekk en voru fyrir undir bílnum, og mun mýkri að auki. Hins vegar var vitað að þau voru öldruð og orðin fúin en þar sem þau höfðu haldið lofti var ég ekkert að flýta mér að taka þau undan aftur. Það snjóaði svo yfir samviskuna smám saman með þeim árangri að ég var búinn að ferðast allt sumarið 2020 -þ.e. hingað til - auk síðustu ferðarinnar í fyrra, á þessum lélegu dekkjum. Hins vegar hafði ég, þegar í ljós kom að þessi stærð gengi undir bílinn, keypt glænýjan gang af samskonar dekkjum og sá gangur var geymdur á góðum stað í Reykjavík. Það var svo sem alveg möguleiki að eitt af þessum gömlu dekkjum væri að gefa sig. Ég ákvað að kíkja á það þegar á Krókinn kæmi.

Svo kom ég til Sauðárkróks undir kvöldið og mitt fyrsta verk var að fylla bílinn af olíu. Áfyllingin er vinstra megin og meðan ég dældi horfði ég á vinstra afturdekkið. Það var jú að sönnu svart og kringlótt eins og hin, en mér fannst samt eitthvað vanta upp á fullkomna hringlaga lögun þess. Þegar dælingu var lokið leit ég betur á dekkið og þá kom sannleikurinn í ljós: Dekkið var svo kássufúið og vírslitið að á það var kominn hryggur, sem svaraði til sirka fimmta hlutar hringsins. Það var því tvennt alveg dagsljóst: Þarna var komin ástæðan fyrir þessum titringi sem ég þóttist finna öðru hverju í bílnum ( og skýrara dæmi um algera afneitun verður vart fundið)  og svo hitt, að á þessu dekki væri ég heppinn að komast frá olíudælunni að tjaldsvæðinu án þess að það tættist í sundur. Til Reykjavíkur væri ég allavega ekki að fara......

Þá hringdi síminn. Það var sonurinn að hringja frá Blönduvirkjun og spyrja frétta. Sjálfur hafði hann verið inni í Kerlingarfjöllum við göngur og príl, og hafði farið þaðan inn að Hveravöllum. Hann sagði veginn svo slæman suðurúr að hann hefði ákveðið að renna bara stubbinn sem eftir væri norðurúr og svo þjóðveg eitt heim. Ég gaf honum upp mína staðsetningu, og þar með að ef hann vildi renna austur yfir Vatnsskarð og út frá Varmahlíð væri tilvalið hjá okkur að renna í Grettislaug á Reykjaströnd og fara þaðan eitthvert í síðbúinn kvöldmat. Úr varð að þá leið skyldi fara. 
Síðan kom ég ferðabílnum fyrir á tjaldsvæðinu og lagði á ráðin um hvernig koma mætti nýju dekkjunum frá Reykjavík norður á Krók. Ég átti góða að hjá Eimskip/Flytjanda og átti ekki von á neinum vandræðum, enda svo sem alveg "ligeglad", nóg eftir af sumarfríinu og nóg við að vera í Skagafirði. Svo átti ég enn sama möguleikann og á Drangsnesi fyrr um sumarið - þ.e. að fara bara suður á hjólinu, skilja bílinn eftir hjá vinum á Króknum og koma svo bara sjálfur á "mínum fjallabíl" norður með dekkin ( og þá farþega til að ferja bílinn suður aftur). 
Sonurinn var kominn á Krókinn innan klukkutíma, við gerðum sundfötin klár og lögðum af stað út Reykjaströnd. Ekki var fjölmenninu fyrir að fara við Grettislaug frekar en annarsstaðar, í laugunum var aðeins eitt erlent par auk okkar. Við lágum í bleyti hátt í klukkutíma en héldum svo til bíls og til baka inn á Sauðárkrók. Við erum hvorugur neitt sérstaklega mikið fyrir fínni veitingahús og enduðum því hjá N1 í hamborgara með tilheyrandi.
Við höfðum velt dálítið fyrir okkur gistingu fyrir drenginn, en þegar til kom ákvað hann að aka beint suður eftir matinn, þótt klukkan væri farin að halla í tíu. Veðrið var enn það sama og spáin fyrir næstu daga var óbreytt. Okkur samdist því um, þar sem hann var líka í fríi, að hann æki suður á sínum bíl, tæki svo minn bíl að morgni (hann stóð heima við Höfðaborg), lestaði hann nýju dekkjunum og kæmi akandi með þau norður á Krók. Það var jú sunnudagur, og mánudagur að morgni svo ef ég væri heppinn gæti ég fengið dekkjaskipti á kaupfélagsverkstæðinu þegar dekkin kæmu. Fyrri hluta dagsins gæti ég sjálfur notað til að halda þeirri dagskrá sem ég áður hafði sett mér, þ.e. að (mótor)hjóla fram sveitir, inn á Kjálka og allar götur inn að Merkigili. Ég hafði jú sumarið áður komið að Merkigili sunnanfrá (þ.e. býlinu) þótt ég hefði gefist upp á að hjóla að gilinu sjálfu þeim megin frá - gilið er nokkurn spöl norðan býlisins en leiðin afar torfarin vegna stórgrýtis. Nú langaði mig að koma að gilinu norðanfrá, Gilsbakkamegin.




Svo lagði sonurinn af stað suður undir nóttina en ég fékk mér göngutúr fyrir svefninn:



Veðrið sveik heldur ekki daginn eftir. Dagurinn heilsaði hlýr og bjartur svo ég dreif mig með alla lestina út að Kjarnanum þeirra Sauðkrækinga, stórhýsi ofan hafnarinnar sem hýsir verkstæði af öllum gerðum. Lýsti raunum mínum fyrir mönnum og fékk loforð um að dekkin yrðu sett undir fyrir dagslok, bærust þau í tíma. Strax þar á eftir tók ég hjólið af kerrunni, klæddi mig í gallann og lagði af stað austur yfir Héraðsvötn að nýju og suður Blönduhlíð. Á leiðinni veitti ég athygli afar fallegri kirkju spölkorn ofan vegar, merktri með skiltinu "Hofstaðakirkja". Í huganum setti ég skoðun á henni á listann minn.
 Við þjóðveg eitt fannst mér tilvalið að renna yfir í Varmahlíð og fá mér morgunkaffi og "meððí" áður en lagt yrði af stað í sjálfan leiðangurinn:



Á leiðinni frameftir Blönduhlíð að Norðurárdal virti ég fyrir mér umhverfið ( það er eitt sem maður gerir allt öðruvísi af hjóli heldur en út um bílrúðu) og lofaði sjálfum mér enn einu sinni að heimsækja Silfrastaði eins fljótt og mögulegt væri, og skoða litlu, áttstrendu kirkjuna sem blasir við frá Hringveginum en ég hef svo oft ekið framhjá með góðu fyrirheiti. Svo var fljótlega komið að mótum vegarins fram Kjálka, og ég beygði af #Eitt.

Þar með var ég enn einu sinni kominn á ókannaðar slóðir. Það var slegið af ferðinni, hjálmurinn opnaður og andað djúpt til að fanga sem mest af því sem fyrir augu, eyru og nef bar. Ég þurfti enda ekki aðeins að fylgjast með umhverfi vegarins, eyðibýlum og býlum í ábúð, heldur líka því sem var að sjá vestan Héraðsvatna, þar sem er t.d. eyðibýlið Teigskot. Ég sá enga heimtröð að því, enda hefur hún eflaust verið löngu uppgróin. Það kostar líklega aðra ferð að finna hana. enda þarf að fara allt fram undir Goðdali, austur yfir lágan háls og að býlinu Villinganesi til að nálgast Teigskot. Ég á reyndar eftir aðra ferð fram Skagafjarðarsveitir að Vesturdal (og jafnvel þaðan inn á Sprengisand ef vel gengur) því ég á enn eftir að skoða þar margt, og ekki ómerkari staði en kirkjustaðina Mælifell og Víðimýri. Reyki er ég búinn að skoða, sem og Goðdali.

....en ég var semsé á leið fram Kjálka, austast í Skagafirði. Allt í einu sá ég torfbæ neðan (vestan) vegar. Þetta var reisulegasti bær og á skilti stóð "Tyrfingsstaðir" (hvað er eðlilegra en að torfbær heiti Tyrfingsstaðir?) Ég staldraði við, smellti af mynd og ákvað að kanna þennan bæ betur á leiðinni til baka.

Fyrir miðri mynd er horft fram í Vesturdal, en til vinstri sé í mynni Austurdals. Mót jökulsánna austari og vestari eru greinileg.




Það bar mikið á þessum rauða lit í bökkum sameinaðra jökulsáa, sem þarna eru farnar að heita Héraðsvötn. Þetta hlýtur að vera leir, allavega datt mér ekki annað í hug.



Áfram var haldið, framhjá býlunum Keldulandi og Stekkjarflötum og Austurdalur opnaðist meira og meira. Þarna framfrá var farið að sjást til bæja að Bústöðum, ysta bæ í dalnum og þeim eina í byggð. Enn sjást ármót, í þetta sinn er það Eystri (Austari) Jökulsá hægra megin, og svo Merkidalsá sem rennur um samnefndan dal og tengist Jökulsá við Merkigil, beint á móti Bústöðum.



Hér að neðan hef ég sett inn kortaklippu til glöggvunar. Á henni sjást afstöður bæja og vatnsfalla. Hrikaleik gljúfranna, Merkigils og svo Jökulsár um Austurdal er ekki hægt að sýna á korti... Myndin neðan kortsins er líklega tekin þar sem heitir Mosgil, rétt neðan Gilsbakka. 






Á leiðinni fram að Gilsbakka voru nokkur fjárhlið, sem vegfarendur voru vinsamlegast beðnir að loka á eftir sér. Ekki var það nú neitt vandamál...



Loks hillti undir íbúðarhúsið að Gilsbakka. Ómar Ragnarsson gerði á sínum tíma Stikluþátt um þetta svæði og átti þá mjög fróðlegt viðtal við Hjörleif heitinn, bónda og einbúa að Gilsbakka. Hjörleifur lést í vetrarbyrjun ´92 og síðan hefur ekki verið búið að Gilsbakka svo ég viti. ( sjá nánar HÉR ) Húsinu er hins vegar mjög vel sinnt, lakari hús hafa verið rifin en íbúðarhúsið nýmálað og allt umhverfi hið snyrtilegasta. Horft er fram Austurdal og til húsa og túna að Bústöðum.



Vegurinn liggur við túnfótinn að Gilsbakka, framhjá húsinu og áfram inn að Merkigili - þ.e. gilinu. Á kortaklippunni er reyndar merktur vegur yfir Merkigil og áfram inn austanverðan Austurdal allt að Ábæ. Það er ekki rétt, því sá "vegur" er aðeins fær hrossum og gangandi fólki - ekki farartækjum. (þótt vitað sé um a.m.k. eitt slíkt vélknúið sem fór frá Merkigilsbænum að Gilsbakka og aftur til baka) Akfær vegur endar neðan beitarhúsa sem standa spölkorn uppi í hlíðinni ofan gilsins. Á þeim vegarenda lagði ég hjólinu, létti af mér þeim fötum sem ég gat verið án og hélt áfram gangandi. 

Þarna var margt að læra. Talað hafði verið um göngubrú "yfir Merkigil" en það var misskilningur. Merkigilið sjálft er frekar stutt, en ákaflega hrikalegt. Það er eiginlega alveg neðst í Merkidal og tengist svo farvegi Jökulsár eystri rétt neðar. Ofan gilsins er dalurinn mjög þröngur og landlítill en hlíðar hans eru ávalar alveg að ánni sem rennur um dalbotninn og neðar um Merkigil, og sameinast Jökulsá. Áin var tær og vatnslítil, ákaflega meinleysisleg að sjá, svona síðsumars.



Horft frá Merkigili fram Merkidal:



Horft frá Merkigili yfir Austurdal og Jökulsá til Bústaða. Það má vel geta þess, fyrst Bústaðir koma fyrir á svo mörgum myndum, að þar býr í dag ungur maður, röskur og dugnaðarlegur. Ég átti spjall við hann í fyrra þegar ég fór um dalinn þeim megin, og hann upplýsti mig um margt. Ég hafði lesið bók sem skrifuð var sem minningar Sigurpáls Steinþórssonar sjómanns úr Ólafsfirði (sjá HÉR). Sigurpáll þessi hafði marga fjöruna sopið og m.a. átti hann Bústaði um tíma. Framan af leigði hann jörðina skyldfólki en seinustu árin bjó hann þar sjálfur, uns hann seldi og flutti suður til Reykjavíkur. Kaupendurnir voru bræður frá Skatastöðum, býli talsvert innar í dalnum. Þegar ég nefndi þessi fræði mín við bóndann á Bústöðum kom í ljós að hann var sonur annars bræðranna. Heimurinn er ekki stór...

Hondan mín sést rétt ofan við miðja mynd hægra megin og það glittir í jakkann með endurskinsvesti á steini við hliðina.



Gengið lengra, og nú er Merkigil farið að opnast...



Þegar ofar kom var sem klettarnir rynnu niður og eyddust út í landslagið og dalbotninn. Þarna kom í ljós göngubrúin "yfir gilið". Hún var semsé ekki í gilinu og ekki yfir það heldur ofan þess. Gönguleiðin að henni var samt engin hraðbraut þótt hún liti svo sem ekki illa út á sumri. Það var heldur ekki erfitt að gera sér í hugarlund hvernið færið væri þarna um hávetur í illfærð...Þessa leið var Helgi Jónsson (HÉR), síðasti bóndi á býlinu Merkigili, að fara að vetrarlagi þegar hann hrapaði og lést. Frá efri brúnum stígsins handa brúarinnar að húsum á Merkigili eru líklega 2-3 km. 



Mér fannst ég mega til að reyna að komast niður að brúnni og yfir hana. Urðin sem fara þurfti um er mjög laus í sér og stígurinn þröngur. Mótorhjólaskór með glerhörðum, ósveigjanlegum botni voru þvi kannski ekki besti skófatnaðurinn til göngunnar. Annað var þó ekki að hafa og niður vildi ég........Um leið ákvað ég að hugsa ekkert um uppgönguna...."Den tid, den sorg...."



Það hafðist, og rétt við brúarsporðinn var bekkur til að tylla sér á og hvílast.



Um þennan stíg teyma menn hesta. Það er líklega eins gott að þeir hestar fái engar aðrar hugmyndir á leiðinni en að gegna .....



Bekkurinn var sannarlega ekkert hásæti, en kannski hefur hann séð betri daga:



Horft niður eftir gilinu. Með þessum klettum byrjar hið eiginlega Merkigil sem verður svo stórbrotin tröllasmíð stuttu neðar..



Uppgangan var ekki svo slæm þegar nógu hægt var farið. Ég var enn í þykkum hjólabuxum sem háðu mér í hitanum, en bolnum hafði ég löngu farið úr. Í mittistöskunni átti ég einn Svala sem var teygaður þarna í miðri brekkunni...





Á kortaklippunni sem ég setti inn hér ofar eru tveir deplar til glöggvunar.  Sá blái er við göngubrúna en sá rauði er við beitarhúsin í hlíðinni ofan vegarendans. Á göngunni til baka kom ég við hjá húsunum..





.... enn eru Bústaðir í mynd, handan Jökulsár og Austurdals:



Áður en ég gallaði mig og steig á hjól að nýju myndaði ég þetta grófgerða danspar í brún Merkigils. Kannski hafa þetta verið tröll í miðjum dansi þegar sólin kom upp....hvað veit ég? 



...og enn var horft inn Austurdal, þegar ég tók eftir því að mænir íbúðarhússins að Merkigili gægðist upp fyrir grasbakkana - litlir blettir fyrir miðri mynd..



Á bakaleiðinni náði ég góðri mynd af Gilsbakka: Tindurinn þarna hægra megin gæti sem best verið Mælifell.







Þennan hitti ég á leiðinni niðureftir aftur, og gerði tilraun til að eiga við hann "vitrænar" samræður. M.a. spurði ég hann hvernig væri að vera svona síðasti Bítillinn, löngu eftir að allir væru búnir að láta klippa sig. Hann hristi hausinn....Svo gafst hann upp á þessarri litlu, gulu og hávaðasömu meri sem hafði líklega dregið hann að girðingunni, og rölti sína leið.



Þá voru Tyrfingsstaðir næstir á dagskrá. Nú var komið að því að líta á þennan torfbæ, sem ég mundi ekki eftir að hafa nokkurn tíma heyrt eða séð minnst á. Hjólinu var lagt, og þeim fatnaði sem ég mátti vera án, enda enn sami hitinn. Svo var klifrað yfir girðingu (með svona V-laga stiga) og gengið til bæjar.



Það hefur greinilega verið lögð mikil vinna í endurbygginguna, sem byrjað var á árið 2007 og stendur enn. (sjá HÉR)








Þar sem bærinn var opinn og ekkert sem benti til að innganga væri óheimil, þá gekk ég til stofu....





Greinargott upplýsingaskilti uppi við veginn segir söguna...



Svo var haldið áfram. Ég var reyndar farinn að líta á klukkuna, því einhversstaðar á leiðinni var sonurinn með nýju dekkin ferðabílsins. Ég vissi að þeir færu heim af dekkjaverkstæðinu um fimmleytið og þá þurfti skiptum að vera lokið. Klukkan var nú samt ekki nema um eitt e.h. svo það átti að vera nægur tími til stefnu - ég hafði jú lagt snemma af stað í dagstúrinn.

Tyrfingsstaðir voru kvaddir með fyrirheiti um endurkomu, hjólið var ræst og haldið áfram niður sveit. Næst á dagskrá voru Silfrastaðir, en eins og áður kom fram hafði ég aldrei gefið mér tíma til að renna þangað uppeftir og skoða, jafnvel þó áttstrenda kirkjan blasi við hringveginum. Á bæjarhlaðinu tók áhugalaus Snati á móti mér, það var of heitt til að hann nennti að heilsa svo hann lagðist bara aftur í skuggann sinn.



Ég varð satt að segja dálítið hissa þegar ég skoðaði kirkjuna. Ég hélt að sem safngrip væri henni betur sinnt en raunin virtist vera. Húsið er klætt með sléttu blikki ( sem er líklega það næst - eitraðasta á eftir forskalningu), bæði veggir og þak. Grjóthlaðinn grunnurinn var farinn að skekkjast, molna og síga og húsið virtist fylgja. Ég gat a.m.k. ekki betur séð en að viðirnir væru að gefa sig undir glugganum vinstra megin turnsins (á myndinni) því blikkklæðningin var farin að gúlpa líkt og tréð bak við hana væri að síga saman.



Kirkjan var læst svo ég hafði sama hátt á eins oog oft áður, lagði símann á rúðurnar og myndaði. Það var eina brúklega leiðin til að sjá inn...





Gluggarnir voru sérstakt skoðunarefni. Þeir voru úr málmi og hver þeirra gerði ráð fyrir opnanlegu fagi. Sá möguleiki var þó ekki nýttur nema í einum eða tveimur, aðrir voru með fastlímdar rúður í stað fags.



Mér fannst Silfrastaðakirkja vera orðin heldur döpur, og kannski væri rétt að benda þeim sem áhuga hafa á, að skoða hana sem fyrst. því grunnurinn er svo illa farinn og stagfestur svo lélegar, að það þarf líklega ekki nema eitt ofsaveður til að feykja henni af grunni. Þá verður varla um bundið....

Ég hjólaði niður sveit og sömu leið til baka, þ.e. áfram norður Blönduhlíð en brá þó aðeins útaf með annarri kaffiheimsókn yfir dalinn að Varmahlíð. Ég nefndi kirkjuna að Hofstöðum í upphafi ferðar og það var enn tími til að skoða hana. Þangað var dálítið öðruvísi heim að líta en að Silfrastöðum:



Ákaflega fallegt guðshús, endurbætt svo sómi var að. Sama gilti um umgjörðina, hleðsluna umhverfis garðinn. Afar snyrtilegt handverk, hvert sem litið var.



Ekki gat ég merkt hvort undirstöður kirkjunnar væru endurnýjaðar eða hreinlega nýjar, en greinilega var þó kjallari undir henni, nokkuð sem ekki er algengt um eldri kirkjur.





Ég sá ekki betur en að "kýrnar" ofan og utan garðs væru naut.  Það var allavega skemmtilegur fjölskyldubragur á þeim - fjögur með hvíta beltið og svo eitt alsvart. Kálfarnir tveir voru nákvæmlega eins- annar með hvítt belti, hinn alsvartur:



Ég gerði tilraun til panorama - myndatöku (víðlinsu-) en gekk illa, þar sem hulstrið á símanum vildi koma inn á linsuna. Möguleikinn er samt skemmtilegur....





Nákvæmlega þarna á bílastæði kirkjunnar hringdi síminn. Það var sonurinn, nær kominn yfir Vatnsskarð. það var því ekki seinna vænna að leggja af stað til Sauðárkróks og koma dekkjunum á verkstæðið. Við renndum nær samtímis í hlað við verkstæðið, skiluðum af okkur og ég skipti úr mótorhjólagallanum í "mannaföt". Svo var lagst í bleyti í heita potti sundlaugarinnar. Ég gat reyndar ekki legið nema svona tæpan hálftíma, þá var minn tími kominn til að mæta á verkstæðið og leysa bílinn út. Verkinu var raunar ekki lokið en það var vissara að vera búinn að gera upp ef það drægist fram yfir lokun og skrifstofan yrði farin heim. Þetta stóðst svo allt á endum og myndin hér að neðan er tekin kl. 17.12. Bíllinn kominn út á nýju dekkjunum og fyrir mér lá að sækja soninn í sundlaugina. Nesti til heimferðar áttum við í bílunum svo það var ekkert að vanbúnaði. Við lögðum af stað suður hvor í sínu lagi og komum þangað um hálfellefu sama kvöld.

Enn einu stórkostlegu ferðalagi sumarsins 2020 var lokið og vinna að morgni....




XXXXXXXXXXXXXXXX
Flettingar í dag: 374
Gestir í dag: 12
Flettingar í gær: 306
Gestir í gær: 25
Samtals flettingar: 66052
Samtals gestir: 16982
Tölur uppfærðar: 1.5.2024 09:45:07


Tenglar