Gunnar Th.
Fjórða kerfið.....


15.11.2020 17:12

Rölt um utanvert Nesið 5-6.9 ´20


Snæfellsnes. Endalaus uppspretta áhugaverðra fyrirbæra (þótt geimverurnar hafi ekki látið sjá sig hér um árið).

Það eru ekki nema svona tíu ár síðan við Bassi minn blessaður fórum um Jökulháls í fyrsta sinn. Síðan hef ég margoft farið leiðina, akandi eða hjólandi. ( maður hjólar ekki á bíl en ekur maður á mótorhjóli?) 

Þegar við Bassi fórum um hálsinn vorum við að koma frá Ólafsvík, að lokinni næturdvöl þar. Veðrið var ekkert sérstakt, hálfskýjað og þokuslæðingur sjáanlegur við jökulinn. Þegar við komum upp undir há-hálsinn ókum við ( þ.e. ég - Bassi ók ekki neitt, eðlilega) inn í þétta þoku sem byrgði alla sýn lengra en fram á þurrkublöðin. Ég lagði því bílnum úti í breiðum vegkanti og hleypti Bassa út til að létta á sér.

( Nú var ég að átta mig á því að allt sem skrifað er hér að ofan er bergmál. Þessi ferð okkar Bassa var skráð í smæstu smáatriðum á sínum tíma og er finnanleg í listanum hér til hægri, sé fundið þar árið 2011 og smellt á "Nóvember". Ég sleppi því öllu frekara blaðri og einnig öllum seinni tíma ferðalýsingum, sem flestar má finna einhversstaðar á FB, og vind mér beint í efnið) 
-------------------------------------------------------------------------------------------------------------------

Af veginum um Jökulháls norðanverðum liggur leið til vesturs sem eitt sinn var merkt á skilti sem "Eysteinsdalur"  Ég sá skiltið í fyrstu ferðinni um þessar slóðir en velti því mátulega fyrir mér utan að leggja nafnið á minnið til seinni tíma könnunar. Við hringveginn um Nesið, milli Saxhóls og vegarins út í Öndverðarnes stóð annað samhljóða skilti. Í tímans rás hafa þessi skilti verið endurnýjuð og á báðum mun nú standa "Snæfellsjökull".  Þessi uppgötvun mín um tvö samhljóða skilti fannst mér benda til þess að leiðirnar tengdust. Ekki man ég hvort ég viðraði þessa stórkostlegu uppgötvun við nokkurn mann en vona að svo hafi ekki verið emoticon

Það liðu mörg ár þar til ég loks beygði af Jökulhálsi inn á Eysteinsdalsveg. Ástæðan var líklega sú að mér finnst svo gaman að fara Jökulháls að ég gat ómögulega sleppt ánægjunni fyrir óvissu...Auk þess var ég þá á mótorhjóli, og á mótorhjóli er ekkert gaman að fara troðnar slóðir, heldur leitar maður stöðugt uppi nýjar. 

Það var svo nú að áliðnu sumri sem mér datt í hug að gaman gæti verið að ganga spölkorn um þessar slóðir. Spáin fyrir laugardaginn 5. september var afbragðsgóð en spá sunnudagsins öllu síðri. Ég ákvað að renna úr Reykjavík á ferðabílnum - að þessu sinni án mótorhjóls - og aka út fyrir Snæfellsjökul. Ég hafði stutta viðdvöl að Arnarstapa vegna þess að mig langaði í kaffisopa en nennti ómögulega að hella uppá sjálfur. Að Arnarstapa reyndust þá flestar veitingasölur lokaðar. Hótelið var þó opið og þar var hægt að fá kaffi og kökubita.

Tilgangur ferðarinnar var þríþættur, þ.e. mig langaði að skoða þrjá staði gangandi, staði sem höfðu verið lengi á dagskrá en aldrei komist að. Sá fyrsti var Eysteinsdalur og nágrenni. Þegar ég fór um dalinn síðast tók ég eftir endurvarpsstöð uppi á hnjúk vestan dalsins. Mér þótti sýnt að endurvarpsstöð væri valinn staður þar sem vel sæist til sem flestra átta og ákvað að ganga þangað upp "við tækifæri". Næsti staður var Brimnes, vestan Hellissands. Framan í Brimnesinu strandaði bátur fyrir langa löngu og ég hafði séð einhverjar leifar af honum ofan af þjóðvegi, og einnig þegar ég skoðaði gömlu hafnargarðana í Krossavík fyrir nokkrum árum. Þar sem þessi bátur var áður frá Ísafirði og ég kannaðist vel við hann þaðan, ákvað ég að ganga út Brimnesið "við tækifæri" og líta á brakið ( sá fyrirvari var þó á að fara þyrfti utan "kríutíma" því það er mikið um þann ófriðarsegg á Brimnesinu sumarlangt). Þriðji staðurinn á þessum lista var svo Svöðufoss. Svöðufoss er eins konar "mini" útgáfa af Skógafossi ( svona tilsýndar, allavega) og blasir við í suðurátt þegar ekið er um þjóðveginn ofan Rifs. Í hvert skipti sem ég hef farið um Nesið (og það er oft) hef ég horft í átt til Svöðufoss og lofað sjálfum mér að ganga að honum "við tækifæri"





Eftir kaffið og kökuna að Arnarstapa var lagt upp í næsta áfanga. Ég fór ekki Jökulhálsinn í þetta sinn, því mér leiðist glamrið í diskum og glösum, sem óhjákvæmilega fylgir búnaði ferðabílsins á slæmum vegum. Hélt mig við malbikið eins langt og hægt var og fór því fyrir Nes, framhjá Saxhóli og beygði þar inn á malarveginn sem eitt sinn stóð "Eysteinsdalur" en nú "Snæfellsjökull"



Uppi í dalnum liggur vegurinn skammt frá á, og yfir hana er göngubrú því á þessum slóðum eru vinsælar gönguleiðir. Ég fetaði uppeftir á ferðabílnum, ekki langa leið en fór ákaflega hægt til að hlífa öllum Kínaleirnum og borðsilfrinu, sem glamraði ákaflega í á grófum malarveginum. Fann mér þennan fína stað að leggja á, stæði með borði, bekkjum og brúnni.....



Á kortaklippuna hér að neðan hef ég merkt nokkur þeirra örnefna sem koma fyrir í textanum. Það er athyglisvert að á kortinu er merkt eyðibýlið Saxhóll og örlitlu austar eru merktir "Saxhólar". Eftir því sem mér hefur sýnst, er nú aðeins talað um vestari gíginn (sem við stendur hæðartalan109) sem Saxhól, og muni ég rétt vísar þannig merkt vegskilti beint á gíginn. Þrepalagður göngustígur hefur verið gerður upp á brún hans og útsýnið er skemmtilegt þaðan í góðu veðri.



Klippa af -ja.is- , þar sem merkingin sést vel þótt vegskiltið geri það ekki. Á því er sama merkingin..



Svo var lagt á "brattann". Útsýnið jókst og batnaði við hvert fótmál, og á myndinni að neðan er kirkjan að Ingjaldshóli sem hvítur depill og lengra til hægri sér til húsa að Rifi, handan Búrfells. Kletturinn lengst til vinstri er Hreggnasi.



Ég er ekki vanur að ganga mikið, nema þá helst á flatlendi og þá mjög sjaldan. Ástæða þess að ég lagði í þessa göngu var mestmegnis sú að fyrst mér tókst ( í næstu ferð á undan) að komast niður í Merkigil og upp úr því aftur án þess að fá hjartaáfall, þá langaði mig að ganga aðeins meira. Þar sem ég átti þessar slóðir ókannaðar á listanum var tilvalið að reyna sig....Það kom mér á óvart hversu hratt miðaði á brekkuna, þrátt fyrir allt. Eysteinsdalur (með bíl og brú), Geldingafell og Snæfellsjökull l.th. Fyrir ofan bílinn er Sjónarhóll, 383 m.y.s.



Merktur göngustígur liggur upp í öxlina milli Miðfells, þar sem endurvarpsstöðin er, og Hreggnasa, sem sést í mynd. Ég ætlaði á Miðfell en horfði til Hreggnasa og hugsaði með mér: " Það verður minn bani ef ég legg í þessa göngu. Þetta væri mitt Everest! "



Útsýnið af hálsinum til norðvesturs:  Þarna sést allt út til Öndverðarness, og í miðmynd eru gígarnir við Saxhól. Þrepastígurinn liggur upp þann vinstra megin og frá toppnum sér yfir eystri gíginn...



Uppi á hálsinum var þetta litla vatn í greinilegum gíg. Það var ekki merkt á kortið mitt og ég hef ekki nafn á því. Frá þessum stað var vel sýnilegt að við jaðrana var vatnið grunnt en í miðjunni var hola sem ekki sást til botns í.
 




Ég var bara nokkuð ánægður með mig að hafa lifað þó þetta langt og að vera ekki einu sinni móður svo nokkru næmi. Fullur af ímyndaðri orku og drifinn áfram af taumlausri bjartsýni í bland við meðfædda þrjósku, lagði ég í hlíð Miðfells, beint upp. Glæsilegur Hreggnasi, Ingjaldshóll, Búrfell og Rif.



Svo var ég allt í einu kominn upp á öxl Miðfells, undir Bárðarkistu. Dalurinn sem opnast undir henni hægra megin er Saxhólsdalur. Bárðarkista hefur á mínu korti hæðartöluna 666 m.y.s., sem eitt og sér ætti að vera næg ástæða til að láta hana eiga sig....



Horft niður í innsta hluta Saxhólsdals. lengst til hægri sér til sjávar í Beruvík.



Ég gekk svo fram Miðfellið að endurvarpsstöðinni sem var hið " fyrirheitna land" ferðarinnar.



Eftir að hafa notið útsýnisins og unnins afreks um stund, labbaði ég hring um topp Miðfells. Þar rakst ég m.a. á þennan myndarlega örn:



Horft frá "erninum" út yfir Öndverðarnes:



Hellissandur og Rif, sitthvoru megin við Hreggnasa. Það mun hafa verið á þessum stað sem ég tók upp kortið mitt og uppgötvaði að Miðfell (þ.e. hæsti hluti þess, örninn minn) var skráð nokkurn veginn jafnhátt og Hreggnasi, eða um 470 mtr......og fyrst ég hafði lifað af gönguna upp og var bara ekkert teljandi móður eftir, þá fannst mér ég vera ósigrandi - en Hreggnasinn ekki! Ég lagði af stað niður á ný.....



Á niðurleiðinni skoðaði ég leiðina sem tæknimenn Mílu þurfa að fara til að þjónusta endurvarpsstöðina. Sú leið liggur upp úr innanverðum Eysteinsdal og svo beint upp í öxlina undir Bárðarkistu. Slóðin er nokkuð greinileg og svo brött að þar hljóta menn að nota sexhjól til að komast upp með tæki og annan farangur. Leiðin er stikuð nokkuð háum prikum, svo sjá megi hana í snjó.



Niðri á hálsinum, rétt við litla vatnið í gígnum er þessi móbergstappi, alsettur smásteinum. Hann er nokkuð stór um sig, og vel ríflega mín hæð ( sem vekur reyndar hvergi eftirtekt)



Eitt af því sem ég "velti mér fyrir" voru þessar holur í mosanum. Mér fannst merkilegt að einhver hefði lagt á sig að tína upp allt þetta grjót, sem mér fannst að hlyti að hafa myndað holurnar. Svo áttaði ég mig á að þarna hafði ekkert grjót verið fjarlægt - þetta var einfalt og skýrt dæmi um uppfok, samspil vatns og vinds..



Myndin hér að neðan er vel heppnuð, þótt netsíðan rýri gæði hennar talsvert. Hún er tekin á leið upp Hreggnasa og sér yfir Eysteinsdal. Frá vinstri má sjá Geldingafell (824), þá Snæfellsjökul og l.th. Bárðarkistu. Röndin í hæðirnar hægra megin er slóð Mílumanna. Hóllinn Bárðarhaugur í miðjum dal, sem áin rennur meðfram, er á mínu korti sagður 488 m.y.s., sem mér fannst engan veginn standast.



Hreggnasi var svo ekkert vandamál, og ég var bókstaflega að rifna af stolti yfir sjálfum mér þegar ég náði toppnum. Rétt við hann eru leifar af kassa sem eitt sinn geymdi gestabók. Lokið er farið af og nú geymir kassinn aðeins "jarðvegssýni". Öndverðarnes í fjarska.



Þarna lengst til vinstri, þar sem þjóðvegurinn um nesið bylgjast, má (kannski) sjá flugbrautirnar tvær sem lagðar voru á sínum tíma. Þær voru ekki lengi í notkun og nýr flugvöllur í Rifi leysti þær síðar af hólmi. Kannski hefur veður ekki verið hagstætt þarna útfrá, eða eitthvað annað og fleira ráðið. Þetta hafa allavega verið talsverð mannvirki á sínum tíma. Wikipedia hefur nokkur orð um flugvöllinn: ." Í landi Gufuskála, á svokölluðum Gufuskálamóðum, var gerður flugvöllur árið 1945. Þaðan var áætlunarflug í rúman áratug, þar til vegasamband komst á fyrir Jökul."





Brimnes, Hellissandur, Ingjaldshóll og Rif:



Svo klifraði ég upp á vörðuna sem er efst á Hreggnasa og myndaði niður fyrir tærnar :-) 





Þegar mesta sigurvíman var runnin, var kominn tími til að leggja af stað niður. Brimnesið var næst og það saxaðist á daginn. Leiðin upp á Hreggnasa er öll merkt með svona stikum, allt frá göngubrúnni í Eysteinsdal.



"Sjáið tindinn, þarna fór ég...."  Hreggnasi séður af bílveginum á leið til baka.



Ég keyrði niður á Brimnes eins langt og komist varð á bílnum með góðu móti. Þar lagði ég skammt frá gömlu Krossavíkurhöfninni (HÉR)  og lagði land undir fót.



Horft frá Brimnesi til Snæfellsjökuls. í miðju er "Hvíta húsið" fyrrum fiskhús við Krossavíkurhöfn, síðan autt og opið í áraraðir en loks endurbyggt sem íbúð og vinnustofa.. (sjá HÉR)



Þann 17. nóvember 1983 - fyrir réttum 37 árum - strandaði vélbáturinn Ragnar Ben ÍS við Brimnes.( sjá HÉR)  Ég man vel eftir þessum bát á Ísafirði, afar fallegri og vel hirtri fleytu. Báturinn var seldur úr bænum og þetta slys varð ekki löngu seinna. Ég var löngu búinn að koma auga á ryðgað járnabrak niðri á nesinu og taldi víst að það væri úr Ragnari Ben. Nú gafst loks tækifæri til að kanna málið....Fyrst kom ég að síðulaga tanki, líklega olíutanki....



Svo var það stærsta brakið, og það sem best sást frá veginum. Þetta eru leifar stýrishússins, og ég þurfti talsvert að leggja höfuð í bleyti til að finna út hvað var hvað. Eins og ég sé þetta, þá liggur húsið á "bakinu" og það er b.b. hlið þess sem snýr að. Stýrishúsið sjálft er stóra gapið, þakið hægra megin, gólfið vinstra. Leifar af klæðningargrind í stb.hlið. Rafmagnstaflan sem sést giska ég á að hafi verið í niðurgangi (stigahúsi) vélarrúmsins og sé á milliþili milli gangsins/stigans og stýrishússins. B.b. úthlið hússins er svo vöðluð inn í stigahúsið



Sé þessi tilgáta rétt er hér horft undir gólf stýrishússins og þar með í loft vélarrúmsins. Stb. hliðin á "keisnum" og afturhlið hans eru beyglaðar flatar inn undir gólfið. Framan (ofan) við stokkinn á hlið stýrishússins hefur svo hurðin verið. Framhlið hússins hefur að öllum líkindum verið úr áli og því löngu farin veg allrar veraldar - ál þolir ekki mikið brim í hrauni....



Ég hef skoðað þær örfáu myndir sem til eru á netinu af Ragnari Ben ÍS 210 og sýnist að þetta muni hafa verið stoð í toggálga við afturhorn stýrishússins. Þetta gat líka verið hluti frammastursins en stoðin er líklegri... 
( Mynd Vigfús Markússon)




Ég hef engar upplýsingar um hvort Ragnar Ben hafi verið með ljósavél, en finnst það líklegt . Þessi LISTER vél gæti hafa verið ljósavélin...





Fleira brak var ekki að finna sem líklegt væri úr Ragnari Ben. Ég rölti áfram um nesið, fram á hraunbrúnina við sjóinn og út undir Gufuskála. Síðan austur með aftur og upp með fjörunni Hellissands - og Krossavíkurmegin





Framhaldsins vegna, og eins vegna þess sem á undan er komið, bjó ég til eina kortaklippuna enn. Þar eru merkt helstu örnefni sem komin eru fram eða eiga eftir að koma fram...



Það síðasta á dagskránni var Svöðufoss. Hann er tilsýndar svona eins og smækkuð útgáfa af Skógafossi, eins og ég skrifaði áður. Mig hafði lengi langað að skoða hann en aldrei orðið úr, mest vegna þess að ég vissi ekki hvernig ætti að komast þangað. Nú er komið skilti með nafni fossins við þjóðveginn um Nesið og því auðratað. Snemma í vor renndi ég hringinn um Snæfellsnes á gulu Hondunni minni, kappklæddur í kulda og nepju. Þá beygði ég af leið við skiltið að Svöðufossi og hjólaði ábentan veg. Hann lá hins vegar framhjá fossinum í nokkurri fjarlægð og áfram að eyðbýlinu Vaðstakksheiði og endaði við veglokun þar sem féll annar foss öllu minni, Kerlingarfoss. Ég tíundaði þá ferð á Facebook í maí sl. og læt þá frásögn duga. 
Nú var hins vegar komið að því að finna leiðina að Svöðufossi!




Leiðina fann ég - en hún reyndist bara ekki liggja að Svöðufossi, heldur aðeins að eins konar "útsýnisstað" langt neðan fossins. Að þessum "útsýnisstað" hefur verið lagður stígur frá stóru, malbikuðu máluðu og merktu bílastæði með glerfínum grjóthlöðnum garði nokkra metra að öðrum glerfínum og grjóthlöðnum garði. Þar er þeim sem langar að skoða Svöðufoss boðið að setjast niður og virða náttúrufegurðina fyrir sér úr fjarlægð. Sá eða þeir sem hönnuðu þetta verk hafa líklega ekki haft neina tengingu við náttúruskoðun eða neitt þvíumlíkt. Þetta er rándýr framkvæmd sem skilar bókstaflega engu, því það er alveg eins hægt að skoða fossinn í kíki frá þjóðveginum við Rif eins og frá þessarri fáránlegu framkvæmd. Ég veit ekki við hvað er helst að líkja þessum fíflasirkus, því líkingin verður eflaust langsótt, ef hún þá finnst. Til að fullkomna framkvæmdina þurfti enga grjóthlaðna veggi, heldur eina til tvær litlar trébrýr yfir nálægar sprænur, og svo einfaldan göngustíg að fossinum. Manni dettur einna helst í hug að til verksins hafi verið ætluð ákveðin fjárhæð sem hafi svo klárast á miðri leið við alla grjóthleðsluna og því ekki verið hægt að ljúka verkinu. Myndin hér að neðan er tekin með aðdrætti og er sú skársta sem ég hef uppá að bjóða.



Frá þessum bekkjum í Einskismannslandi mega áhorfendur fossins horfa sér til ánægju og yndis. Manni dettur í hug svona útlenskt "Peepshow", sem flestir hafa eflaust heyrt um en auðvitað fæstir skoðað........Þar sem aðeins má horfa en ekki snerta! Þarna er boðið uppá peepshow að hætti Snæfellsbæjar.........Það er eflaust annars ágætt að sitja á þessum bekkjum, svona ef margnefnt bæjarfélag legði augnabliks vinnu í að ryðja af þeim hrossaskítnum sem skreytti þá þennan dag....







Þessar sprænur hér að neðan hefði þurft að brúa til að gönguleiðin væri greið að fossinum. Varla yrði það ofraun neinu sveitarfélagi?







Á bílastæðinu malbikaða og merkta, voru einnig vel útilátin sýnishorn af húsdýraáburði. "Því miður" myndaði ég ekki dýrðina, en tilfinningin sagði mér að á þessum marggirtu slóðum væri kannski ekki mikið um lausagöngu hrossa, svo mögulega hefðu heimamenn misskilið þetta malbikaða og merkta bílastæði sem opið haughús - eða jafnvel misskilið þá alkunnu staðreynd að gras vex ekki upp úr malbiki þótt borið sé á það ríflega af hrossataði. Þetta bílastæði verður því seint framtíðarbeitarland, þrátt fyrir góða viðleitni.

Það var farið að halla degi. Ég brá mér inn í Ólafsvík og fyllti bílinn af olíu til heimferðar daginn eftir. Grillsteik átti ég í farangrinum en ákvað að skreppa í heita pottinn í frábærri og nýlega endurgerðri sundlaug Ólafsvíkur. Þar hitti ég mann sem ég hafði rekist á fyrr um daginn við Hreggnasa, og átti við hann fróðlegt og skemmtilegt spjall um svæðið og staðina sem ég hafði heimsótt þennan dag. Ég áræddi að spyrja svona óbeint út í framkvæmdina sem ég lýsti hér að ofan, en þá varð fátt um svör. Ég hafði á tilfinningunni að fleirum en honum fyndist framkvæmdin undarleg - svo varlega sem það var orðað. Ég skildi það vel - auðvitað vilja menn standa með sínu fólki og sé manni málið skylt en ekki hægt að hrósa hlutum er stundum best að segja ekkert.....

Eftir sundið ók ég út á Hellissand og lagði bílnum á fínu tjaldsvæði sem verið er að gera enn fínna - þeim er ekki alls varnað, Snæfellingum. Þess vegna er þessi fáránleikaframkvæmd við Svöðufoss ( eða öllu heldur EKKI við...) enn óskiljanlegri...

Eins og í upphafi kom fram var veðurspáin aðeins hagstæð til eins dags, laugardagsins. Hann var að líða og meðan kjötið grillaðist dró í loft og fór að blása kröftuglega. Um tíuleytið var ég kominn undir feld með krossgátublað og sofnaði svo ofan í það undir miðnættið. Um kl. 04 vaknaði ég um stund og tók þá eftir stöðugum hvin eða són sem fylgdi kröftugum vindhviðum. Ég skaust aðeins út úr bílnum til að hlusta og áttaði mig fljótlega á að hljóðið kom frá mastrinu að Gufuskálum. Hljóðið var þó ekki hærra en svo að inni í bílnum heyrðist það aðeins sem fjarlægur ómur. Ég breiddi yfir haus og steinlá á ný.

Það var komið fram á morgun þegar ég sleppti takinu á sænginni, kveikti upp í gasinu og smurði mér brauð í morgunmat. Á miðjum morgni dólaði ég svo af stað inn norðanvert nesið. Ég hafði ætlað mér að fara úteftir aftur og sömu leið til baka og ég kom, þ.e. um Arnarstapa. Út fyrir Nes var loftið hins vegar bókstaflega svart að sjá og lítið spennandi að eiga eftir akstur í slíku veðri. Norðanvert var veðrið þó sýnu rólegra þó hvasst væri og ausandi rigning. Svo hægt fór ég inneftir að það var komið hádegi þegar ég náði til Grundarfjarðar. Þar var opin verslun sem seldi kaffi og bauð auk þess fjögurra kleinu pakka á tilboði. Ég tók tilboðinu og sat með kleinur og kaffibolla þar til nægilega dró úr úrhellinu til að fært væri til bíls á ný. Afgangurinn af heimferðinni var tíðindalaus en þetta varð síðasta ferð bílsins á árinu 2020 og við tók vetrarstaða.




xxxxxxxxxxxxxxxxx

























xxxxxxxxxxxxxxxx
Flettingar í dag: 403
Gestir í dag: 18
Flettingar í gær: 306
Gestir í gær: 25
Samtals flettingar: 66081
Samtals gestir: 16988
Tölur uppfærðar: 1.5.2024 13:43:27


Tenglar