Gunnar Th.
Fjórða kerfið.....


22.11.2020 15:46

Norðurferð 12-18.september ´20


Aftur norður, en í þetta sinn hvorki á ferðabílnum né mótorhjóli !
---------------------------------------------------------------------------------------------------------

Svo hagaði til að ég hafði í sumar leigt íbúð á Akureyri vikuna 11-18. september í ákveðnum tilgangi. Á tímanum sem leið þar á milli urðu hins vegar þær sviptingar í samfélaginu að tilgangurinn raskaðist og um tíma var útlit fyrir að engin not yrðu fyrir íbúðina á leigutímanum. Til að svo yrði ekki var sett saman vikulöng ferðaáætlun fyrir einn um staði sem annaðhvort voru lítt kannaðir eða alls ekki. Svo voru aðrir staðir í bland sem ég hafði oft farið um ( og suma margoft), svona til að fylla dagskrána.

Föstudagurinn 11. sept. var venjulegur vinnudagur, jafnt hjá mér og öðrum. Ég nennti ómögulega að keyra norður eftir vinnu svo ég valdi laugardaginn frekar. Ekki man ég annað en að ferðin hafi verið tíðindalaus og aðeins stoppað í Varmahlíð til að fá sér einn kaffibolla. Þegar til Akureyrar kom og búið var að sækja lyklana að íbúðinni var næst á dagskrá að kaupa inn til kvöldsins og einnig eitthvað til næstu daga. Þegar átti að kveikja upp í grillinu sem fylgdi í búðinni reyndist kveikibúnaður þess ónýtur. Í eldhússkúffu lágu tveir kertakveikjarar, báðir tómir. Ég mátti því drífa mig niður í Hagkaup og fjárfesta fyrir stéttarfélagið mitt í einum (reyndar tveimur) slíkum. Með því var hægt að grilla dýrindis veislumáltíð fyrir einn - og eins og sjá má er smekkur veisluhaldarans einfaldur....



Ég hringdi í Hauk Sigtrygg á Dalvík. Það er fastur liður þegar maður kemur norður að hringja í Hauk og fala kaffibolla. Það var ákveðið að hittast morguninn eftir, sunnudag. Á leiðinni úteftir kom ég við á Hjalteyri og naut þeirrar bryggjuparadísar um stund...Svona var veðrið upp úr kl. 9 að morgni:





Eftir kaffi og spjall á Dalvík lá leiðin áfram út í Ólafsfjörð. Þar ætlaði ég að hitta frænku sem reyndist ekki vera heima. Ég hélt því áfram inn sveitina, leið sem ég hef ekki farið árum saman, og yfir Lágheiði í hálfgerðum þokuslæðingi. Einn af minnispunktunum fyrir þessa norðurferð var Knappsstaðakirkja í Stíflu (Fljótum). Ég hef ekki farið mjög oft um Lágheiði en í hverri ferð heitið sjálfum mér að skoða Knappsstaðakirkju "næst"  Nú var komið að þessu "næst" og í leiðinni gat ég séð heim að lúxushótelinu að Deplum. Svo langt er síðan ég fór um Fljótin að ég man ekki til að hafa séð það áður. Það lætur ekki mikið yfir sér enda eru fínheitin víst aðallega innan dyra - og svo er hitt, að engir peningar geta keypt þetta stórkostlega umhverfi...

Knappsstaðir eru aðeins spöl neðar (norðar) en Deplar. Býlið er greinilega sumardvalarstaður og kirkjan stendur í brattanum ofan þess. Á myndinni er horft niður dalinn í átt að Stífluhólum, bak við skiltið. Skýjafarið gefur ekki rétta mynd af veðrinu, sem var hlýtt og stillt.




Býlið Knappsstaðir. Horft er yfir Stíflu og inn eftir Tungudal. Býlið Tunga var þarna handan vatns. Nú er talað um að virkja Tungudalsá, svona rétt eins og ekki hafi nóg verið skert í þessarri fallegu sveit.



Það er sérstök heimtröð að kirkjunni og við hana er ágætt bílastæði. Umhverfið er afgirt, ég skildi bílinn eftir við hliðið og tölti áfram..



Það er mikill en látlaus virðuleiki yfir þessarri fallegu kirkju undir hlíðinni. Maður hægir ósjálfrátt á sér, hálfpartinn læðist um garðinn og gætir þess að draga ekki andann að óþörfu....Þarna ríkir kyrrðin og þetta litla, einfalda guðshús er í æpandi mótsögn við lúxusjeppana sem aka öðru hverju til og frá Deplum.....







Grunnur kirkjunnar er vel gerður og jafn, og stögin - jarðfesturnar - sterk og góð. Mér varð hugsað til Silfrastaðakirkju sem ég hafði skoðað stuttu áður og er nefnd í pistli hér neðar. Þar eru bæði grunnur og festur á fallanda fæti....





KIrkjan var að sjálfsögðu læst - nokkuð sem þótti nær óhugsandi hér áður fyrr, þegar kirkjur áttu að standa öllum opnar. Tímarnir breytast, mennirnir með og ekki alltaf til hins betra. Ég mátti því mynda inn eins og oft áður, með því að leggja símann minn á glerið....





Klukknaportið, með hreiðri eins og svo mörg fleiri. Þessum klukkum er ekki oft hringt svo það má leiða að því líkum að hreiðurbúinn hafi fengið þokkalegn frið til að koma upp fjölskyldu...



Eftir Knappsstaði hélt ég áfram niður Stíflu, fór yfir Fljótaá til vesturs við Skeiðfossvirkjun og þá leið niður á Siglufjarðarveg. Síðan eftir honum lengra til vesturs að Flókadal og inn eftir vestari Flókadalsvegi. Mig hefur lengi langað að fara inn dalinn er aldrei orðið úr fyrr en nú. Undir Mósfjalli standa þrír bæir, Ysti-mór, Mið-mór og Syðsti-mór. Sá fyrsti í eyði, hinir í ábúð. Innar eru Vestari Hóll, Sigríðarstaðir, Austari Hóll ( á mynd hér að neðan), eyðibýlið Nes ( á næstu mynd) og svo Neskot ( þriðja mynd) 







Vegurinn krækist um Neskot og liggur niður í dalbotninn. Þaðan liggur hann áfram sem hálfgerður troðningur að sumarhúsi enn innar, þar sem mun hafa staðið býlið Illugastaðir. Á myndinni er horft upp í tvo dali ofan Neskots, sá hægri (nyrðri) mun heita Blikárdalur og sá syðri Illugastaðadalur.





Myndin hér að neðan er tekin frá réttinni sem merkt er á kortið við rauða depilinn og horft er inn Flókadal. Lengra fór ég ekki í þetta sinn, en eflaust á ég eftir að fara þessar slóðir á mótorhjólinu seinna meir og þá á vegarenda.



Við réttina var þetta laglega vað á Flókadalsá, grunnt og engin fyrirstaða hvorki hjóli né bíl  - en það voru heldur engar vorleysingar heldur komið fram á haust. Eflaust getur áin grett sig talsvert meira í leysingum....



Á leiðinni til baka stoppaði ég augnablik við Ysta-mó og myndaði reisulegt íbúðarhúsið, sem eflaust væri mikils virði í þéttbýli en stendur þarna autt að sjá, verðlítið og fáum til gagns....





Frá Flókadal hélt ég "heim" til Akureyrar um Siglufjörð og Ólafsfjörð. Það var farið að kvölda þegar ég kom í hús svo við tók kvöldmatur, sjónvarp og síðan bók sem ég sofnaði ofan í.....

Á eftir sunnudegi fylgir óumflýjanlega mánudagur. Þessi mánudagur var ekki til mæðu - allavega ekki til að byrja með. Eftir venjubundið morgunkaffi í "Bakaríinu við brúna" fór ég í bíltúr upp í Hlíðarfjall til að skoða leifarnar af Bryndísi ÍS, sem stendur við Hlíðarenda og grotnar niður. Bryndís ÍS 69 leit eitt sinn út eins og sjá má HÉR en eftir að galvaskir menn hófu "uppgerð" hennar fyrir mörgum árum lítur hún út eins og á myndinni að neðan.



Skammt frá Hlíðarenda er Lögmannshlíðarkirkja. Hana hafði ég oft séð en ekki fundið leið að henni (og kannski lítið leitað). Nú gerði ég leit að veginum og fann hann fljótlega. Einhverjir sem slysast til að lesa skrifin mín hafa eflaust orðið varir við kirkjuáhugann sem stundum bregður fyrir. Ég telst varla trúaður og fer sjaldan í kirkju, helst þá að tilefni gefnu. Mér finnst hins vegar ákaflega gaman að skoða og mynda þessi sérstæðu hús, sem mörg hver eru allt frá torfkofatímabili okkar Íslendinga. Lögmannshlíðarkirkja er tvímælalaust í hópi þeirra fallegustu sem ég hef skoðað. 



Kvisturinn á þakinu er sérstæður, og eins óvenjulega lágur turn miðað við stærð kirkjunnar sjálfrar. Engin klukknaport eru á turninum en í honum eru tvær klukkur. Hringingunar má heyra HÉR . Það er ekki laust við að dálítill Bessastaðasvipur sé á turninum:





Það er enginn kvistur á norðurhlið þaksins, heldur aðeins í sólaráttina....





Sunnan við kirkjuna er þessi einkennilegi leg"steinn". Það hafa jú allir sína trú...



Frá Lögmannshlíð lá leiðin norður eftir hlíðinni, eftir vegi sem ég hafði aldrei farið um áður. Þar var margt að skoða svo ég ók hægt. Mér sýndist svo leiðin greinast jafnvel enn lengra norður en athugaði það ekki frekar nú heldur hélt beint áfram og kom niður við Lónsá, og tjaldsvæðið sem ég dvaldi á í næstu norðurferð á undan. Við Lónsá sneri ég til norðurs á Þjóðvegi#eitt og á Moldhaugahálsi út á Ólafsvíkurveg. Næsti staður sem skoða skyldi þennan morgun var nefnilega:



Það kann að vera með ólíkindum að áhugamaður um kirkjur aki árum saman fram hjá Möðruvallakirkju, stórfallegri kirkju við alfaraleið, án þess að líta á hana. Þannig er það nú samt, en nú skyldi bætt úr.

KIrkjusmiðurinn, Þorsteinn Daníelsson á Skipalóni var ákaflega merkur maður og um hann má lesa nokkur orð HÉR





Eyfirska skáldið Davíð Stefánsson frá Fagraskógi var jarðsettur að Möðruvöllum. Mig langaði að finna leiðið en tókst ekki þrátt fyrir talsverða viðleitni.



Frá Möðruvöllum er hægt að aka sveitabæjaleið (813) út með hlíðinni. Þar sem sá vegur tengist svo Ólafsfjarðarvegi aftur, þ.e. skammt frá bæjum að Hofi, eru svo önnur vegamót, aðeins örfáum metrum norðar. Þar er ekið inn á veg 812 til austurs, þ.e. í átt til sjávar. Vegurinn liggur skammt frá sjó og tengist að lokum Hjalteyrarvegi. Þetta er ákaflega skemmtileg sveitabæjaleið og af henni má sjá margt skemmtilegt, líkt og gömlu yfirbygginguna af b.v. Dalborgu EA, sem endurnýtt var sem sumarhús. Ágæta mynd af Dalborginni með þessa yfirbyggingu má sjá HÉR



Ég ók veginn til enda, út að Hjalteyrarvegi og síðan eftir honum og Ólafsfjarðarvegi til baka inn að Moldhaugahálsi og hafði þá ekið leið sem svarar nokkur veginn  til tölunnar 8.

Næst á dagskrá var vegur sem ég vissi ekkert um, annað en að hann liggur frá Eyjafjarðarbraut inni undir Grund, og upp í hlíðina til suðurs (þ.e. inn Eyjafjarðarsveit ofan þjóðvegarins). Þessi vegur er merktur sem 824 og á skilti við mót hans stendur Möðrufell. Vegurinn er búinn að vera lengi á óskalistanum og nú skyldi hann kannaður. Þetta reyndist enn ein frábærlega skemmtileg sveitabæjaleið sem liggur langt fram í Djúpadal og endar við býlið Litla Dal, en á leiðinni er ekið fram hjá Stóra Dal, reisulegu og snyrtilegu býli. Af vegi 824 má hins vegar aka aftur niður á Eyjafjarðarbraut áður en farið er fram í Djúpadal, eftir vegi 825. Á myndinni hér að neðan er horft innan úr Djúpadal út eftir Kaupangssveit og það má sjá að Vaðlaheiðin er farin að hvítna aðeins í toppana...



Vegarendi að Litla Dal. Horft er fram Djúpadal. Mér fannst athyglisvert þetta stóra A-hús þarna ofantil. Þetta byggingarlag er (eða var) algengt á sumarhúsum en þetta hús var miklu stærra og veglegra en öll þau A-laga sumarhús sem ég hef hingað til séð. Neðsta húsið, íbúðarhúsið, mátti hins vegar muna sinn fífil fegurri...



Landið á þessum slóðum er mjög skorið og ekki auðvelt fyrir ókunnuga að átta sig á örnefnum, en dalurinn sem horft er inn í til vinstri gæti heitið Strjúgsárdalur. Eftir honum rennur Strjúgsá, en framar er djúpidalur margskorinn og rennur spræna eftir hverjum afdal. Allar sameinast þær í Dalsá sem virkjuð var fyrir nokkrum árum og stendur annað stöðvarhúsið niðri við Eyjafjarðarbraut. Sjá meira HÉR



Úr Djúpadal la mín leið aðeins í eina átt - til baka. Ekki þó alla leið heldur aðeins að vegi 825 og þaðan niður á Eyjafjarðarbraut. Næst á dagskránni var nefnilega merkilegur staður, sem mig hafði líka lengi dreymt um að skoða. 

Sölvadalur er innarlega í austanverðri Eyjafjarðarsveit. Hann er frekar þröngur og greinist innantil í tvennt um Tungnafjall. Annarsvegar gengur Sölvadalur austanvert, en vestan við fjallið er Þormóðsdalur. Við mót dalanna er eyðibýlið Þormóðsstaðir. Þar bjó um árabil Ísfirðingur sem ég kannaðist vel við en ég hafði aldrei tök á að heimsækja hann meðan búið var. Hefðbundnum búskap var hætt að Þormóðsstöðum fljótlega eftir að gríðarstór aurskriða féll úr hlíðinni ofan bæjarins. Skriðan skemmdi ræktarland, en einnig heimarafstöðina í ánni neðan og innan bæjar. Í Sölvadal var aldrei rafveita, heldur voru ár virkjaðar á tveimur stöðum. Þormóðsstaðir höfðu sína eigin rafstöð en neðri bæirnir, Eyvindarstaðir neðar og Draflastaðir þar á milli, höfðu sína eigin rafstöð í gilinu neðan Eyvindarstaða. Enn neðar, nærri mynni Sölvadals var býlið Seljahlíð, löngu farið í eyði og líklega fyrir tíma rafstöðvarinnar.

Lesa má um skriðufallið að Þormóðsstöðum HÉR og HÉR  

Að Þormóðsstöðum hefur verið vel búið á sínum tíma, ef marka má húsakostinn. Íbúðarhúsið er að sjá parhús, hvor endi spegilmynd. Útihúsin eru stór og mikil, bæði fjós og fjárhús en stóra hlaðan næst fjallinu er farin að gefa sig. Melurinn hægra megin á myndinni ofan húsanna er hluti skriðunnar frá 1995, svo stutt hefur hún verið frá húsunum. 





Endir fyrsta hluta......



















xxxxxxxxxxxx
Flettingar í dag: 382
Gestir í dag: 14
Flettingar í gær: 306
Gestir í gær: 25
Samtals flettingar: 66060
Samtals gestir: 16984
Tölur uppfærðar: 1.5.2024 10:06:30


Tenglar