Gunnar Th.
Fjórða kerfið.....


05.05.2016 09:03

Hokinsdalur (fært af facebook)


Í gær nefndi ég myndir af býlinu í Hokinsdal vestra, sem mögulegar "áttundadagsmyndir" í sjö daga syrpu. Þær koma hér að neðan. Myndirnar eru að vísu orðnar rúmlega tuttugu ára gamlar og ég veit ekki um ástand hússins í dag - ef það þá stendur enn. Mér skilst að ábúandinn á Laugabóli norðan ness hafi keypt þessa jörð fyrir nokkrum árum, væntanlega til einhvers konar nytja en meira veit ég ekki. Við félagi minn gerðum ferð þarna úteftir haustið ´94, skoðuðum okkur um og tókum myndir. Vegurinn út nesið var sæmilegur en inn Hokinsdal var hann hreinasta torfæra, bæði vegna úrrennslis og vegna aurskriðu sem fallið hafði á hann löngu áður.

Ég skrifaði ferðasöguna í nokkuð ýtarlegu máli fyrir mörgum árum. Hún mun vera til í einhverjum afkima netsins, þarsem 365Miðlum tókst ekki að farga henni með öllu því efni sem týndist þegar þeir fyrirvaralítið lokuðu tveimur bloggkerfum. Það var illa gert og skömmin lifir.....


Þar kom m.a. fram það sem ég nefndi ekki í gær, að þunni gatkletturinn fremst á Langanesi var kallaður Selamannagatklettur, og gatið sjálft í honum Selamannagat. Líkast til var það komið til af því að veiðimenn gátu legið í skjóli innan við gatið og skotið sel út um það. Þetta er þó aðeins mín ágiskun, byggð á nafninu einu.... Hokinsdalur fór í eyði ´78-´79, síðast bjó þar Hallveig dóttir Sigríðar á Lokinhömrum með manni sínum , eins og fram kemur í Stiklum Ómars Ragnarssonar.

04.05.2016 08:50

Myndabrengl.Þessi mynd er varaskeifa. Hún er varaskeifa í því tilliti að ég ætlaði að birta tvennu af allt öðru skipi en finn bara aðra myndina. Hina skannaði ég fyrir mörgum árum og hef svo stungið henni á svo góðan stað að hún finnst ekki aftur. Þessvegna birti ég þessa, þó svo ég hafi áður birt hana - að vísu fyrir löngu og á öðrum vettvangi.
Þetta er gamla Fagranesið, eins og kunnugir sjá. Það eyðilagðist eftir vélarrúmsbruna, nýleg brú var tekin af því og flakinu lagt inni við Reykjafjörð í Djúpi, væntanlega til einhverra nota sem ekki urðu. Myndin er tekin síðsumars 1987 og þá hafði Fagginn legið þarna vel á þriðja áratug og átti talsvert eftir enn, þar til hann var látinn hverfa.

Hann sagði mér hann Pétur andskoti (sem, þrátt fyrir viðurnefnið og hrjúft yfirborð, var gull af manni eins og þeir vita sem best þekkja..) að Fagranesið hefði ekkert þurft að brenna. Hann hafði verið þar vélstjóri og þekkti vel til. Olíufýringin sem var um borð í skipinu var staðsett bak við vélarrúmsstigann. Hún var vangæf og átti til að skjóta út. Af frásögn Péturs mátti skilja að hjörtu hans og olíufýringarinnar hefðu slegið í takti. Svo varð einhver taktbrestur þegar Pétur var ekki um borð, fýringin skaut út meðan vélarrúmið var mannlaust, kveikti í óhreinindum kringum sig og úr varð bál - undir niðurgöngunni svo ekki varð komist niður.......

Á þessa leið var saga Péturs, sögð með því orðfæri sem honum var tamast og þeir þekkja sem þekkja.....

Fagranesið, sem ekki var kannski beysið fyrir enda komið vel til ára sinna, varð ónýtt og Fjölnir frá Þingeyri hljóp í skarðið um tíma. Síðan kom nýsmíðin frá Florö í Noregi sem seinna varð þekkt hér syðra sem Fjörunes eða Moby Dick. Það mun nú komið til Danmerkur, eftir nokkuð harða viðkomu í Færeyjum. Florö - Fagranesið var svo sem ekki óvant hörðum viðkomum við Djúp, svona eins og þegar það ætlaði að ryðja Arnarnesinu úr vegi. Það er hins vegar önnur saga - eða aðrar sögur......

Stúfurinn á myndinni hefur stækkað mér talsvert yfir höfuð.....


01.05.2016 11:01

Æsa.Líklega var það vorið 1990 sem ég lagði mína leið til Þingeyrar til að skoða báta. Hafði þá verið trillulaus allar götur frá 1985 þegar sú sem ég hafði þá keypt þrisvar var að síðustu seld til Reykhóla. Um hana hefur verið fjallað í löngu máli hér á síðunni stakkanes.123.is.

Á Þingeyri var margt bátakyns að sjá en sú trilla sem helst fangaði augað ( og virtist henta hálftómri buddu) var Æsa ÍS. Hún lá umkomulaus uppi á kambi og ástandið á henni var þannig að mér leist hún vænleg til eignar fyrir skikkanlegt verð. Ég aflaði mér upplýsinga og komst að því að Æsa væri sænsksmíðuð, innflutt notuð til Vestmannaeyja og þessi furðulega vél sem í henni var væri ættuð frá Ferguson. Ég fann eigandann, hann tók ekki illa í að selja og lofaði að athuga málið. Bað mig hafa samband litlu síðar.
Hann stóð við sitt og athugaði málið. Í Æsunni, sem hafði verið skráð fiskiskip, leyndust sumsé ónotaðir rúmmetrar. Þar með varð hún að gulli, líkt og Fífan sem ég birti bílstjóraspegils- myndina af á dögunum. Við þessu var ekkert að segja eða gera, svona var kerfið á þeim tíma. Rúmmetrar í fiskibát voru gulls ígildi þegar úrelda þurfti á móti hverri stækkun annars. Æsan fór úr því að vera svona jafnvirði kók og pylsu upp í rétt um milljón, muni ég rétt. Þórður heitinn Júlíusson á Ísafirði keypti rúmmetrana enda var mín milljón eyrnamerkt húsakaupum árið eftir og þar gilti "business before pleasure" eins og sagt er á alheimsmálinu!

Allt um það. Rúmmetrarnir fóru til Ísafjarðar en Æsa fór út á dauðadeildina á tanganum utan við Vélsmiðju Þingeyrar. Þannig fór um þá sjóferð þá - hún var aldrei farin. Næst þegar ég vissi var Æsa farin á bálið og ekkert eftir nema myndir og minning.....

Fyrsta myndin með pistlinum er skönnuð úr stórvirki Jóns Björnssonar, "Íslensk skip - Bátar", 4bnd. bls.99. Hún sýnir bátinn þegar hann hét Æsa og bar einkennisstafina EA-48. Skrár segja Æsu hafa verið endurbyggða 1986-7 en varla hefur það verið mikil endurbygging því þegar ég myndaði hana á Þingeyri 1990 vantaði a.m.k. tvö borð í aðra síðuna. Annað var í þokkalegu lagi. Myndinar sem á eftir fara eru mína eigin, sú síðasta er tekin þegar ekkert var eftir nema að veita náðarhöggið.....................................

24.04.2016 13:00

Willy´s


Ég man flesta hluti svona þokkalega. Ekki kannski allt og ekki kannski alltaf hárnákvæmt en svona þokkalega. Til dæmis man ég ekki nákvæmlega hvenær ég eignaðist jeppann hans Jóa frænda. Það gæti hafa verið árin 1975 eða ´6. Svo er ekki víst að það skipti nokkru einasta máli. 

Jói frændi bjó á Stakkanesi (er nokkuð kunnuglegt við það nafn?) með afa og ömmu og átti Willy´s árgerð ´46. Þetta var flottur jeppi, með fulningahúsi og fíneríi. Líklega var það svo um 1963 að Jói frændi ákvað að selja jeppann. Kaupandinn var Gunnar heitinn Kristjánsson, vélstjóri hjá Íshúsfélaginu. Gunnar átti jeppann lengi en seldi að lokum og muni ég rétt eignuðust Arnardalsbræður hann. Hvort einhverjir áttu þar á milli man ég ekki. Úti í Arnardal var sett hálftoppventlavél í jeppann og eins og títt var við þess háttar breytingar var sett upphækkun á húddið fyrir loftinntakið á vélinni. Einhvern tíma á lífsleið jeppans var húsinu líka breytt og það endurbætt. Við það hurfu fulningarnar og húsið varð slétt. Þegar ég eignaðist jeppann hafði hann ekki verið í notkun nokkurt skeið og þurfti talsverðra lagfæringa við. Ég naustaði bílinn í skúr niðri við Fjarðarstræti, sem Matthías heitinn Sveinsson verslunarmaður hafði átt og pabbi hafði aðgang að. Þar var unnið að lagfæringum og stöku sinnum skroppið út að aka á milli. Ég var þarna talsverðan tíma með bílinn en seldi hann að lokum Óla bróður Árna heitins Geirssonar símaverkstjóra. Árni bjó þá að Seljalandsvegi 30 á Ísafirði og ég man að Óli var með jeppann þar upp með húsinu meðan hann dundaði í honum. Svo hvarf Óli úr bænum, eignarhaldið á jeppanum fór á flakk og að lokum endaði hann í uppfyllingunni neðan við Vélsm. Þór hf.

Næst eignaðist ég Willy´s austur í Neskaupstað haustið 1985. Það er nýlega búið að rekja feril hans á Facebook og óþarfi að gera það aftur. Söguna má finna á FB-síðu um bíla á N-númerum. Hún var afar skrautleg, í raun miklu skrautlegri en þar kemur fram því af tillitssemi við hlutaðeigandi var nokkrum atriðum sleppt. Það ætti að vera nægilegt að líma þá frásögn inn. Hún ætti þá að birtast hér neðan við:Ég lofaði Grímsa myndum af Búra, Willy´s jeppanum sem ég keypti af Rúnari Gunnars veturinn ´85-6. Þessi Willys var með stálhúsi og original Hurricane vél, skráður eins og Ísraelsjeppi (´53) en með ´55 útlit. Hann fékk að snúast alveg svakalega þann tíma sem ég átti hann en endaði loks ævina hjá Halldóri Gunnlaugs, stuttu eftir að ég flutti vestur aftur. Muni ég rétt beygði Halldór í honum stangir í Norðfjarðaránni. Hann var með þessum fallega (!) brúna lit þegar ég fékk hann en í kaffitíma á sólbjörtum degi utan við verkstæðið í Nesi máluðum við Bóas Bóasson hann heiðgulan. Við vorum fljótir að, helltum úr fötunni yfir húddið og drógum úr með stórum verkfærum úr Bátastöðinni. Á einni myndinni sést Bronco í baksýn. Ég átti hann líka og gerði hann upp fyrir austan. Bóas sprautaði hann svo fallega brúnsanseraðan með silfruðum og gylltum röndum. Þessi Bronco var á 32" dekkjum sem ég sendi til Gúmmívinnslunnar á Akureyri í sólningu. Eins og sést á einni myndinni hef ég "lánað" sjálfum mér þau undir Willysinn.


Vélin í Búra var léleg, rifin á einni sveif og það var orðin íþrótt þegar hann var farinn að banka leiðinlega mikið, að henda honum inn á lyftu í lok vinnudags, spæna pönnuna undan með loftlykli og olíunni í, smella nýrri legu í sætið og setja svo pönnuna undir aftur með loftlyklinum - og olíunni í! Lagerinn af legum var á brotajárnshaugunum úti undir kirkjugarði þar sem lágu nokkrar flathedda - Rússavélar. Einu sinni í leguhallæri var m.a.s. smellt gamalli legu úr Cressidu í sætið en þá þurfti að banka til festihakið.

Svo kom að því að legulagerinn kláraðist og af því ég var orðinn leiður á að vera stöðugt að skipta þá henti ég síðustu legunni sem festist, úr vélinni, ákvað að hafa stöngina legulausa og sjá hvað hún gæti enst þannig. Hljóðin voru ólýsanleg enda hvegi slegið af og endingin varð tíu dagar. Þá bókstaflega sprakk vélin þegar ég var á fullri ferð inn á BP-sjoppu til Benna að ná mér í hádegismat. Hún hrundi rétt við planið og ég var svo vitlaus að láta Búra renna yfir allt planið og inn fyrir húsið. Þegar ég kom út úr bílnum var breið olíurönd yfir endilangt planið og Benni ekki glaður. Ég mátti kaupa brúsa af olíuhreinsi í stað hádegismatar og hreinsa upp eftir mig. Við hreinsunina fann ég stimpilboltann strípaðan úti á götu. Þá svona datt mér í hug að nú væri frekar mikið bilað.......

Leifi í Skálateigi var að skipta um vél í Sjappa sem hann átti (frambyggðum FC-150) og setja í hann Benz dísil. Ég fékk gömlu vélina hjá honum og skipti næsta laugardag úti á verkstæði. Sú vél var aldrei jafn skemmtileg, einhverra hluta vegna en eðlilega mun hljóðlátari....

Þegar voraði ´86 var Búri oftar húslaus en hitt. Þeir voru reyndar farnir að tala um að borga mér fyrir að hafa húsið á því í hvert sinn sem það var tekið af virtist koma rigningardemba. Ég var hins vegar búinn að komast að því að Búri var frekar valtur með húsinu og ef það var ekki á gat ég tekið kröppu beygjuna innan við Kaupfélagið á Bökkunum og niður í Nesgötuna ( ofan við Gumma Skúla) á miklu meiri ferð. Það má kannski taka fram að veltigrind var aldrei sett í Búra - hún var lengi á teikniborðinu en fór aldrei lengra.

Eins og stundum er sagt: Búri er horfinn en minningin lifir.....


Fljótlega eftir að við fluttumst aftur frá Neskaupstað til Ísafjarðar vantaði okkur farartæki sem gæti dregið kerru. því við hugðum á miklar framkvæmdir við litla húsið okkar í Króknum. Inni í Essóporti stóð gamall ´46 Willy´s sem Biggi frændi (Biggi Þorsteins) átti. Einum tíu árum áður hafði ég hjálpað Bigga að koma þessum jeppa á götuna inni á Hafrafelli. Biggi hafði keypt hann þar, en jeppinn var samtíningur úr nokkrum þó uppistaðan ætti að heita gamli Tungujeppinn. Mig minnir að Dóri Ebba hafi átt gamla Tungujeppann og lent í óhappi á honum á Óshlíðinni. Þessi var semsagt hálfsmíðaður inni á Hafrafelli og við Biggi eyddum löngum stundum i að gera hann ökufæran. Það tókst og Biggi notaði jeppann sem vinnubíl árum saman. Þegar þarna var komið sögu var Biggi hins vegar búinn að uppfæra í Jeepster og sá gamli lá inni í olíuportinu. Einhverjir gemlingar höfðu sér til dundurs mölvað í honum flestar rúður og hleypt úr dekkjum svo útlitið var ekki bjart fyrir öldunginn. Ég fékk augastað á jeppanum, ekki síst sögunnar vegna. Biggi vildi hins vegar ekkert hafa með málið að gera og sagði mér að semja við Lóu. Það voru erfiðir samningar en allt gekk þó að lokum og ég kom jeppanum niður í Vélsm. Þór eftir að hafa eytt heilu kvöldi í að dæla í dekkin með pínulítilli rafmagnsloftpressu. 

Á bílaverkstæðinu í Þór gekk Willy´s í endurnýjun lífdaga og meðfram lagfæringunum smíðaði ég kerru aftan í hann. Kerran var svo sirka eitt ár á dráttarkúlunni og kvikindislega þenkjandi félagar voru farnir að spyrja hvort bíll og kerra væru heilsmíðuð! 


Það var mikið flutt á þessum bíl og sem dæmi má nefna að þegar við fengum Einar á Kolfinnustöðum til að grafa húsið í Króknum upp að ofan- og innanverðu var allur uppmoksturinn settur á skurðbakkann. Efnið reyndist svo ónothæft aftur og við handmokuðum uppá þrjátíu og átta kerrur af mold, ókum niður á ruslahauga og losuðum þessar þrjátíu og átta kerrur með handafli til stækkunar bæjarlandsins. Til að fylla í skurðinn meðfram húsinu sóttum við tuttugu og fimm kerrur af fjörugrjóti í fjöruna beint niður af húsinu og ég fullyrði að lengi vel var ekki að finna stærri steina en hálfan hnefa frá ræsisrörinu út að Baldri Jóns! Þessi framkvæmd fór ekki í umhverfismat og það má meta það við nágrannana í Fjarðarstræti 57-9 að þeir hvöttu frekar en löttu þótt sumir hafi kannski lagt kollhúfur yfir landeyðingunni. Sjórinn sá svo um að skila nýju efni á land í stað þess sem tekið var.

Þegar við höfðum ekki lengur not fyrir jeppann var hann seldur og ég hef fyrir satt að hvíti, opni hálfjeppinn sem lengi var inni á flugvelli og Ernir notuðu sem dráttarklár hafi að uppistöðu verið þessi jeppi.

Síðan hef ég ekki átt Willy´s....

Þar til nú:...og líkt og maðurinn sagði: 

"Að eiga Willy´s er góð skemmtun"

18.04.2016 09:38

Sorg.


Bassi minn er allur. Hann varð fyrir bíl í gær, sunnudag. Við vorum rétt komnir í hlað eftir bíltúr upp á Akranes. Hann var á vappi hér framan við húsið og hafði sýnt tilburði til að stinga af. Í stað þess að binda hann lét ég duga að skipa honum að vera kyrr hjá mér. Hann gegndi - en aðeins meðan hann sá að ég var að fylgjast með honum. Um leið og ég beindi athyglinni annað var hann horfinn.

 

Hann mun hafa farið rakleitt upp eftir Ártúnshöfðanum, þar sem hann hefur vitað af tík í hundalátum. Skv. því sem mér var sagt eftirá elti hann tíkina eftir Bíldshöfðanum að Höfðabakka og hljóp rakleitt yfir þá miklu umferðargötu og í veg fyrir bíl.

 

Bílnum ók kona sem engu gat forðað. Bassi fékk mikið högg, hentist eftir götunni og lá grafkyrr þar sem hann kom niður. Ungt par sem varð vitni að óhappinu tók að sér að koma honum undir læknishendur og fór með hann á dýraspítalann í Víðidal. Þar var lokað á sunnudegi en ræstingakona opnaði fyrir þeim og aðstoðaði við að hringja á vakthafandi dýralækni. Sú sem óhappinu olli skildi eftir nafn og símanúmer en kom að öðru leyti ekki að framhaldinu.

 

Bassi var örmerktur með símanúmerinu mínu. Það gekk hins vegar illa að ná í mig í síma en gekk þó að lokum. Ég spurði um meiðsli en fékk loðin svör. Fór beint upp í Víðidal og þegar þangað kom var orðið ljóst að Bassi var illa meiddur. Hann var lærbrotinn vinstra megin, vinstri framfótur svaraði ekki eðlilega og hann hafði fengið höfuðhögg svo tönn losnaði. Þegar ég sagði dýralækninum frá aldri Bassa heyrði ég strax að það dró úr henni. Bassi var orðinn tíu og hálfs árs og hún taldi litlar líkur á að hann næði sér að fullu auk þess sem aðgerðin yrði honum mjög erfið. Ég bað um ráðleggingar og fékk. Á þeim var helst að skilja að best væri að leyfa Bassa að fara....

 

Ég hringdi í Elínu Huld og bað hana að koma til mín. Ég réði bókstaflega ekki við þessar aðstæður einn. Þetta var algert niðurbrot fyrir okkur bæði og erfiðari ákvörðun hef ég aldrei tekið á ævinni. Ég vil trúa því að ákvörðunin hafi verið rétt, og að það hafi verið Bassa fyrir bestu að fá að fara. Ég gat ekki séð hann fyrir mér fatlaðan að meira eða minna leyti, jafn gríðarlega orkumikinn hund með endalausa hreyfiþörf. Eftir nauðsynlegan undirbúning fékk hann viðeigandi sprautur, og síðan hélt ég höfði hans og strauk honum meðan hann sofnaði útaf.

 

 

 

Ég ákvað að láta brenna Bassa. Við óskuðum ekki eftir öskunni, því hvað er aska í krukku á móti jafn einstöku dýri og hann var? Þegar hann var dáinn og farinn var bókstaflega ekkert það eftir sem okkur þótti vænst um. Skrokkurinn var því látinn hverfa en minningarnar lifa með okkur til loka.

 

(Þessi færsla er skrifuð þann 17. september, en tímasett í rétta röð færslna. Í dag eru fimm mánuðir frá því Bassi dó. Hans er enn saknað á hverjum degi)


15.04.2016 09:25

Enn hjól.Það fjölgaði í Höfðaborgarfjölskyldunni í kvöld, þegar sonurinn keypti sér sitt fyrsta mótorhjól. Hjólið var keypt í Keflavík og eigandinn skilaði því hingað heim. Þetta er Kawasaki ER-6N árgerð 2006, ekið tæpa 15 þús. km.


10.04.2016 09:21

Rautt hjól.


Ásgeir Jónsson skilaði af sér snilldarverki um kvöldmatarleytið í gær - allir rauðir hlutir af rauðu skellinöðrunni nýmálaðir. Eg var til miðnættis að setja saman og byrjaði aftur um níu í morgun. Hjólið er komið í gang og aðeins sleikjur eftir. Við Edilon Bassi erum báðir með tungurnar úti.........og þess má geta að hjólið er ekki lengur með númerið " 2 OLD". Nú er horft til heimahaganna!

"Fyrir" myndirnar voru teknar í haust:


------------------------------------------------------

........................

05.04.2016 09:11

Bílalyftan í Neskaupstað.


Að fá eitthvað í hausinn getur haft margvíslega þýðingu - bæði orðatiltækið og svo atburðurinn sjálfur. Ég hef fengið eitt og annað í hausinn gegnum árin, t.d. flugur og fleira. Þetta atvik hér á myndunum var ég þó nærri því að fá í hausinn í beinni og eiginlegri merkingu. Hefði það gerst væri ég ekki hér að skrifa, heldur ætti látlausan kross í einhverjum garði.

Mig minnir að hann hafi heitið Jón, sá sem átti þennan vagn. Hann hafði treyst okkur á verkstæði SVN fyrir honum því hann hafði orðið var við skrölt í undirvagni og vildi láta athuga. Skildi þess vegna bílinn eftir hjá okkur og fór.

Þetta var snemma vors og enn var snjór á götum. Netagerð Friðriks Vilhjálmssonar í Neskaupstað átti ljósdrapplitan Peugeot 504 pickup sem hafði verið í viðgerð daginn áður á lyftunni - og af því að Peugeot var afturdrifinn var hann með þunga sandpoka á pallinum til að ná betra gripi í hálkunni. Eitthvað hafði misþungi bílsins farið illa í lyftuna sem, þegar átti að slaka niður, neitaði og sat föst uppi. Ég bauð mig fram til að klifra upp á bílpallinn og henda sandpokunum niður. Þetta var ekki erfitt nema hvað töluverð sveifla var á bílnum meðan pokarnir flugu. Aðgerðin heppnaðist, bílnum var slakað niður og er hann þar með úr sögunni. Þetta var undir dagslok og við fórum heim.

Fyrsti bíl á lyftu daginn eftir var N-550. Hann kom í minn hlut og var hífður upp undir topp á lyftunni. Ég stóð svo undir og skók allt sem skekja mátti, til að finna skröltið hans Jóns (hafi hann heitið það). Það var tekið vel á því og bíllinn og lyftan hristust saman í dansinum. Skröltið fannst ekki almennilega og því skyldi farið út að aka og prófa. Rofinn fyrir lyftuna var á vinstri stólpanum - bílstjóramegin - og ég gekk út að stólpanum, tók mér stöðu hinu megin við hann, teygði handlegginn yfir fyrir og ýtti á niður-rofann.

Það kom eitthvert óskilgreint hljóð þegar vinstri lyftubúkkinn hrapaði niður með andlitinu á mér. Svo fylgdi stór, rauð flygsa sem skall í gólfið, kom svo fljúgandi í átt að andlitinu, skall á stólpanum, hætti við atlöguna og staðnæmdist á miðju gólfi. Það tók mig sekúndubrot að átta mig á því hvað hafði gerst og að rauða flygsan var toppurinn og húddið á N-550.


Á annarri lyftu mér til vinstri var LandRover jeppi og foringinn sjálfur, Þórarinn Oddsson, var að vinna inni í honum bílstjóramegin. Ég man að ég opnaði farþegahurðina á LandRovernum og tilkynnti Tóta um óhappið - svona eins og það hefði mögulega farið fram hjá honum! Tóti var hálflamaður því hans fyrsta hugsun hafði verið sú að ég hefði verið undir bílnum. Við vorum því áreiðanlega álíka glaðir að sjá hvorn annan.....

Vinnueftirlitið var kallað til. Þeir komu tveir ofan af Héraði með möppur í hendi og skoðuðu lyftuna, sem auðvitað var með fulla skoðun eins og annað hjá SVN - þeir þekktu sitt heimafólk. Það kom á daginn að heimasmíðað stykki í lyftunni hafði gefið sig, trúlega fyrir einhverju síðan. Öryggisstykki átti að taka við ef burðarstykkið gæfi sig en því var þannig fyrirkomið að ómögulegt var að sjá bilunina utanfrá.

Bíllinn var talinn ónýtur og ég veit ekki hvað varð um hann. Líklega hefur hann verið rifinn. Lyftan fékk hins vegar viðgerð og fór aftur í gang. Nokkrum árum síðar var hún seld úr bænum. Hvert skyldi hún hafa farið? Jú, helvítið elti mig vestur á Ísafjörð, þar sem Bílaverkstæðið Ernir (afsprengi flugfélagsins) keypti hana og setti upp. Ég var þá að vinna hjá Steiniðjunni, steypustöðinni á Ísafirði en greip í hjá Örnum í hjáverkum vetrartíma þegar rólegt var í steypunni. Eðlilega hafði ég þó lítinn áhuga á að rifja upp gömul kynni við gulu Stenhöj-lyftuna.

Á einni myndinni sést Benz kálfur. Eða ekki, þetta var ekki Benz heldur Hanomag sem Tóti Odds hugðist gera að húsbíl. Það fór óhemju vinna í þennan bíl, m.a. fjórhjóladrif, muni ég rétt, en mig minnir að hann hafi ekki orðið húsbíll hjá Tóta. Aðrir þekkja þá sögu eflaust betur.......

Á fyrstu myndinni stendur eigandi bílsins til hliðar og lyfturofinn er beint framan við Tóta. Á annarri myndinni sést eigandinn ásamt Kidda á Hofi - Karli Kristjáni Hermannssyni, einum þeirra öndvegisdrengja sem ég var svo heppinn að fá sem vinnufélaga þennan tíma hjá SVN.

31.03.2016 08:55

Gæðafæða.


Á dögunum (n.t.t. þann áttunda marz sl.) lýsti ég því hvernig bollasúpa sem rann út 20.06.2013 bragðaðist eins og daginn sem henni var pakkað. Ég þekki ekki mun á góðum og vondum mat, aðeins svona eða hinsegin og get því aðeins sagt að hafi þessi bollasúpa verið góð í upphafi þá var hún það enn - kannski jafnvel enn kjarnmeiri.

Í sama þætti lofaði ég að taka næst fyrir pottrétt sem rann út í nóvember 2013. Við það stend ég nú. Ég bragðaði samskonar pottrétt úti í Færeyjum sumarið 2014 og hann var bara afbragðsgóður. Já, semsagt "svona" matur, ekki "hinsegin". Það má gjarnan koma fram að ég eldaði hann sjálfur á bílastæði við bátaskýlin í Sumba á Suðurey eins og sanna má með myndum. Sá pottréttur var auðvitað innan allra löglegra marka enda var konan með í för og sá til þess að ég eldaði ekkert "ónýtt" eins og það heitir á kvennamáli.


Ég var svangur í kvöld og brá því á það ráð að efna gefið loforð og elda pottréttinn sem ég fann inni í skáp á dögunum. Fyrir staka tilviljun rak svo þessi sama kona inn nefið í Höfðaborg um það leyti sem rétturinn var tilbúinn. Um hennar viðbrögð og yfirlýsingar er best að hafa sem fæst orð. Ég fékk því að borða allt innihaldið sjálfur og get með sanni sagt að það var svo gott að ég tímdi engri örðu til Edilons Bassa sem þó þrábað um bragð. Mér fannst neitunin réttlætanleg - aldrei hef ég borðað hundamatinn hans!

Að máltíð lokinni brá ég mér á bar niðri í bæ, ekki þó til að fá í glas (sem eins og sumir vita gerist aldrei) heldur til að hlusta á Hinemoa, hljómsveit sem tengist fjölskyldunni talsvert. Flinkir krakkar þar á ferð. 
Nú eru liðnar einar fjórar klukkustundir frá kvöldmat og enn er ekkert sem bendir til að það hafi verið síðasta kvöldmáltíðin - eða þannig.....

30.03.2016 08:48

Bundið að nýju.


...og enn spá þeir hvössu! Það var því ekki seinna vænna að renna í Hólminn og óla Stakkanesið niður að nýju, að þessu sinni með bláum ólum. Kannski hefur blár litur einhvern fælingarmátt? Þeir vinnufélagar mínir hjá Eimskip eru betur gert fólk en það sem síðustu daga hefur kynnt sig, og lánuðu mér þessar góðu ólar. 
Að venju fylgdi svo einn kaffibolli hjá gömlu hjónunum. Stoppið varð aðeins lengra en ég ætlaði mér, því eins og venjulega vill togna úr öllum hlutum. Vegurinn var þurr og hitinn á uppeftirleiðinni var rétt yfir núlli en við núll eða undir á suðurleið.
26.03.2016 08:40

Stakkanes undir áföllum.


( Fært af Facebook frá 23/3)


Allt fram til þessa dags hélt ég að í Stykkishólmi byggi gott og heiðarlegt fólk. Nú renna hins vegar á mig tvær grímur....
Eða nei, það renna eiginlega engar grímur á mig - Nú veit ég einfaldlega betur.
Hvers vegna? Jú, vegna þess að í haust, hafandi fengið reynslu frá síðasta vetri, batt ég Stakkanesið mitt tryggilega niður á fjórar fullar vatnstunnur inni við Skipavík. Tvær vatnstunnur höfðu nefnilega ekki dugað veturinn þar áður því Stakkanesið fauk til hliðar með þær hangandi á sér - 400kg. af vatni. Í haust var þess vegna búið vel og tryggilega um með fjórum tunnum - 800kg. af vatni, tvær á hvora hlið og bundið yfir allt saman með nýjum, sterkum strekkiólum. Þannig umbúið hefur Stakkanesið staðið af sér öll vetrarveður. Þar sem ég er búsettur á höfuðborgarsvæðinu hef ég litið uppeftir öðru hverju og fylgst með en að öðru leyti treyst á að böndin héldu. Síðast var ég hér í Hólminum helgina 5-8 febrúar og þá stóð skipið í skorðum og böndin höfðu hvergi gefið eftir. Fyrir stuttu síðan gekk hér yfir mikið illviðri svo olli tjóni á eignum. Ég var hins vegar rólegur í Reykjavík, vitandi af Stakkanesinu eins vel frágengnu og mögulegt var.

Nú um páskana kom ég uppeftir og leit auðvitað á bátinn minn. Ég er ekki viss um að ég hefði verið jafn rólegur í illviðrinu á dögunum hefði ég vitað það sem ég sá nú. Einhver auðvirðileg sál hefur sumsé fundið hjá sér hvöt til að stela nýju strekkiólunum mínum, einu foktryggingunni minni, af bátnum! Ég hef gruflað og gruflað en ég kem ekki inn í minn heimska haus hvers konar manngerð fær af sér að gera svona nokkuð. Í mínum uppvexti vestur á Ísafirði var brýnt fyrir mér hversu rangt það væri að stela frá öðrum. Ég veit ekki hvernig þeim málum var háttað hér í Hólminum en eitthvað hefur viskan þá fallið utan garðs. Ég hef enga hugmynd um hver eða hverjir voru að verki og verð þess vegna - eðlilega - að setja alla undir sama hatt.


Ég er ekki að óska eftir strekkiólunum mínum til baka - ég á nóg af þeim og þykist enda vita að slík ósk væri gagnslaus. Sá sem er nógu siðblindur til að stela foktryggingunni af bátnum mínum er líka nógu siðblindur til að sitja sem fastast á henni í trausti þess að til hans hafi ekki sést við verknaðinn. Það breytir hins vegar ekki þeirri staðreynd að skömm aumingjans lifir, hver sem hann er og meðan hann ekki finnst verða fleiri að bera þessa skömm.....
Eftir páskana fer ég suður með hálfum huga - ég get ekki ímyndað mér hverju verður stolið næst enda hef ég ekki ímyndunarafl til þeirra hluta eins og fram kom ofar. Þetta aumingjaframtak verður hins vegar til þess að ég verð að koma aftur á næstu dögum með nýjar ólar - þótt aumingjanum hafi verið sama þó Stakkanesið mitt fyki er mér það ekki, enda smíðaði ég það sjálfur og vil ógjarnan sjá þetta handverk mitt eyðileggjast - allra síst af þessum orsökum. 

20.03.2016 09:55

Hestur um Hest....Í Höfðaborg er ekki til siðs að vaka frameftir á kvöldin, hvorki á virkum dögum né um helgar. Þess vegna vorum við Bassi á fótum rétt um sjöleytið. Hann hefur raunar minna við að vera en ég og þess vegna leyfir hann sér stundum að leggja sig aftur eftir "morgunfagnið"

Myndir dagsins (ekki svo að skilja að ég ætli að setja myndir inn daglega) eru teknar haustið 1993 við eyðibýlið Hest í Hestfirði. Ég var þarna einn á ferð, einu sinni sem oftar, það var síðdegi og stórkostlegt haustveður.
 Ég klöngraðist á jeppanum út fyrir býlið og út fjöruslóða allt þar til hraðinn var kominn undir gönguhraða. Þá lagði ég bílnum og gekk áfram langleiðina út í Tjaldtanga, þaðan yfir nesið og að gömlu eyðibyggðinni í Folafæti Seyðisfjarðarmegin. Þar var aðeins eitt hús uppistandandi og þó ekki meira en svo að það marraði í því þegar ég lagðist á húshornið og ýtti. Á sínum tíma fann ég fyrir því heimild að húsið / jarðarhlutinn muni hafa verið Heimabær, en kannski vita einhverjir betur.

Í skáp í hálfhrundu eldhúsi var gestabók í krukku ásamt blýantsstubbum. Ég kvittaði fyrir komuna en hélt svo áfram göngunni, upp langa og djúpa laut sem sk. heimildum heitir Álfalág. Þar var gríðarleg bláberjaspretta, svo mikil að ekki varð framhjá horft. Ég át mig upp lautina sem hallar stöðugt til fjalls. Þegar henni sleppti ofan til, hún jafnaðist út og ég sá loks til beggja handa var ég kominn himinhátt upp í Hestinn - a.m.k. fannst mér það. Bílinn sá ég sem lítinn depil í fjörunni Hestfjarðarmegin. Á niðurleiðinni í átt að bílnum var sama berjasprettan og það var farið að bregða birtu þegar ég hafði étið mig niður hlíðina.


Klukkan mun hafa verið að nálgast háttatíma þegar ég loks renndi í hlað heima á Ísafirði...


Síðasta myndin er reyndar ekki mín. Þegar ég yfirgaf bílinn og hóf gönguna sá ég ekki fyrir endann og skildi myndavélina eftir í bílnum. Þetta þótti mér afar slæmt en var ekki að gert því ég ætlaði ekki að eyða tíma í að ganga til baka eftir vélinni. Ég ætlaði að bíða betra tækifæris að ganga leiðina aftur og mynda allt sem fyrir augu bæri. Nú, 23 árum seinna er enn beðið tækifæris... Myndin af Heimabæjarhúsinu er klippt úr úr dagatali Hjálparsveitar skáta á Ísafirði og á sinn sess í albúminu mínu með svipuðum skýringum. Mig minnir að Gísli Gunnlaugsson á Ísafirði hafi tekið hana og ég vona að birtingin verði ekki illa séð.

08.03.2016 12:13

Hádegi.


Það er hádegi í Höfðaborg, líkt og annarsstaðar. Kannski aðeins svona meira há-hádegi, því nú fyrir hádegið urðu ákveðin tímamót hér heimavið. Þau fólust m.a. í því að eðalhundurinn Edilon Bassi Eyjólfs-eðaeftiratvikumElínarson Breiðfjörð Thorsteinsson Budenhof Sandhaug Sóðalöpp fór í klippingu. Hann fer í klippingu sirka fjórum sinnum á ári. Fyrir hverja klippingu er hann ógnarstór hundur en á eftir er hann bara lítil og ræfilsleg písl sem kúrir sig skjálfandi af kulda uppi í sófa og vill ekki sjá að fara út og viðra sig. Svo fólust þessi tímamót líka í því að í fyrsta sinn ( í mínu minni) tókst mér að segja "nei, því miður" við mann sem hringdi og falaðist eftir aðstoð við bílinn sinn. Þeir sem best þekkja til vita hvílíkt risaskref var stigið með neituninni og horfir nú strax vænlegar með að ég geti mögulega lokið einhverju af þeim verkum sem ég þarf að ljúka fyrir sumarið - til þess einfaldlega að geta átt eitthvert sumar!

...og af því að nú er svona há-hádegi þá ákvað ég að gera sérstaklega vel við mig í mat. Það er raunar dálítið erfitt stundum því þrennt það leiðinlegasta sem ég veit í lífinu er að kaupa í matinn, taka bensín og borga reikninga með heimabanka. Þetta er ekki vegna þess að ég eigi ekki aura fyrir hlutunum, heldur er þetta eflaust einhver brotalöm í sálarlífinu. Á endanum verð ég að gera þetta allt en ekki fyrr en skáparnir eru tómir, bíllinn bensínlaus og reikningar komnir undir eindaga. Það vill svo til að núna eru skáparnir í eldahorninu í Höfðaborg nánast tómir. Ég gróf djúpt í einn og fann heila körfu með bollasúpum. Án þess ég þekki upprunann giska ég á að þessar bollasúpur séu þarna vegna þess að ég hafi tæmt einhvern húsbílinn eitthvert haustið og gleymt birgðunum. Þegar ég las á þessa bollasúpupakka stóð á þeim að síðasti söludagur væri svona frá miðju ári 2013 og fram á mitt ár 2014. Ég hef enga trú á að þurrmatur renni svo glatt út og trúr þeirri sannfæringu skellti ég í þessa fínu tómatsúpu. Eins og ég vissi - það var nákvæmlega ekkert að henni og ef eitthvað er er meiri kraftur í henni nú en var. Bollasúpur hafa yfirleitt langan lifitíma og þessi, sem rann út í júní 2013 hefur trúlega verið framleidd tveimur til þremur árum fyrr. Semsagt fínasta bollasúpa og tuttugu mínútum eftir neyslu kenni ég mér einskis meins, nema síður sé...Ég mun í næsta þætti segja frá því hvernig pottréttur sem rann út 11/2013, bragðaðist..

17.02.2016 14:46

Ör á fæti.Nei, þessi færsla fjallar ekki um það hversu fljótur ég sé að hlaupa. Ef svo væri þá lyki henni nákvæmlega hér. Punktur.

Hún - þ.e. færslan - hefði allt eins getað heitið "Gamla malbikunarvélin" en ég ákvað að velja frekar þennan titil því hann gaf möguleika á innganginum hér ofar. Ég er með ör framan á hægri fótlegg og örið barst eitthvað í tal hér í Höfðaborg á dögunum Þetta tvennt er samtvinnað, örið á fætinum og gamla malbikunarvélin. Það skal nú skýrt ýtarlega og rúmlega það.

Einu sinni var ég lítill. Þeir sem þekkja mig vita vel að ég er ekki stór en ég á ekki við hæð yfir sjávarmál heldur aldurinn. Ég hef alltaf verið stuttur. Ég á við aldur svona nærri þessum hér:
Ég er einhversstaðar á fjórða árinu þegar þessi mynd er tekin og því miður í háum sokkum. Fyrir því gæti verið ástæða, önnur en sú að mömmu hafi þótt ég svo flottur í hvítum, uppháum sokkum. Það voru þá síðustu forvöð því hvítur hefur ekki reynst mér góður fatalitur frá fjögurra ára aldri.

Ég fæddist á sjómannadaginn 1957. Á þeim tíma og til hausts 1961 bjó fjölskyldan að Hrannargötu 3 á Ísafirði. Það var góður staður fyrir ungan mann að hefja lífsgönguna þótt fyrstu sporin utan húsveggjanna hafi eflaust legið út á forugar göturnar í kring, móður minni blessaðri til armæðu. Á tiltölulega litlum bletti bjó sannkallað mannval: Þar var Ásgeir Salómons, Doddi á Essó (sem raunar var ekkert kenndur við Essó á þeim tíma) og bræðurnir Halldór og Steini Geirs. Iddi Jóns Bárðar bjó í bláa húsinu Sólgötu 8 ( sem var örugglega ekki blátt á þeim tíma) og svo var einhver slatti af gömlu köllum og kéllíngum með misjafna þolinmæði fyrir ungviðinu sem fékk að ganga nánast sjálfala á góðum sumardögum í vernduðu umhverfi gamla bíóplansins. Þarna var Hrólfur Þórarins á Pólstjörnunni, sem bjó í Hrannargötu 9 og átti gráan GMC trukk. Svo var sýslumaðurinn Jóhann Gunnar Ólafsson í Hrannargötu 4. Hann var aldrei nefndur nema með virðingu og á lægri nótunum. Í norðurenda Sólgötunnar var fiskibúðin og þangað kom forvitnilegt fólk að kaupa í matinn. Stundum kom Agnar á Búinu í bæinn á gamla Ford og kom við í fiskibúðinni. Mér fannst gamli Ford ákaflega merkilegur bíll og alveg sérstaklega merkilegt þegar ég eitt sinn sá leggja hvíta reykjarslæðu upp af vélinni framanverðri. Svo merkilegt að gufan upp af gamla Ford er enn ljóslifandi 55 árum síðar eða svo. 

Allt véla- og verkfærakyns var eftirtektarvert. Á norðurhorni Sólgötu við Fjarðarstræti ( við horn Glámu) var skilti á staur. Þetta var gulur, uppréttur rétthyrningur með svörtum jaðri og svörtum stöfum. Svo langt var ég ekki kominn í lífsleikni á fjórða árinu að ég gæti lesið letrið en lífið hefur kennt mér að þar stóð: STANZ - AÐALBRAUT - STOP

Dag einn, sólríkan og heitan kom maður með stiga og verkfæri. Hann skrúfaði niður skiltið, lagði það frá sér upp við Glámuvegginn og setti upp annað hringlaga í staðinn. Ég var mættur á staðinn um leið og fylgdist með. Ég man ekki hver þetta var en ég man að hann varaði mig við að snerta skiltið sem hann tók niður því það væri heitt af sólinni. Ég var, eins og ég sagði, ekki kominn mjög langt í lífsleikninni og þess vegna þurfti ég auðvitað að athuga hversu heitt skiltið væri. Þann dag lærði ég fyrst um blöðrur á fingrum........

Þetta nýja skilti markaði tímamót - tímamót sem minnst skyldi á landsvísu. Árið 1966 yrði Ísafjörður 100 ára kaupstaður og átak var að hefjast í fegrun og lagfæringu ásýndar byggðarinnar. Forugar og holóttar göturnar á eyrinni skyldu lagðar malbiki og lýsing þeirra endurnýjuð. Malbiksframkvæmdirnar voru þvílíkt ævintýri í augum okkar stúfanna að vart verður með orðum lýst. Víst munu þær hafa verið mæðrum okkar armæða að sama skapi og mörg góð flíkin varð ónýt af tjöruklessum og viðlíka efnum. Við malbiksframkvæmdirnar var notuð forláta vél sem stóð á tveimur hjólum og var dregin til og frá eftir því sem framkvæmdum miðaði. Því miður hef ég gleymt nafninu á þessarri vél en það var letrað á hana breiðstöfum. Vörubíll bæjarins, gamall grænn Chevrolet, flutti malarsalla innan úr "Krús", malarvinnslu bæjarins í fjarðarbotninum og af bílnum var handmokað í vélina. Bikið kom sem klumpur í stáltunnum sem höggnar voru sundur á staðnum með öxi. Hamflett bikið var svo höggvið niður í mátulega mola og hent af hendi í iður vélarinnar, þar sem mikið bál logaði. Vélin valsaði svo saman möl og bik og skilaði frá sér sterklyktandi eðju sem dreift var á götuna með skóflum og hrífum. Þegar hæfilegu magni var náð var valtað yfir með litlum valtara og ég fullyrði að sá sem stjórnaði valtaranum var í augum okkar stúfanna merkilegasti maður í heimi. Ég var ekki eldri en þetta, þriggja til fjögurra ára en ég man enn að hann hreyfði litla stöng aftan við sig til að fara afturábak eða áfram. Mér fannst þetta lítil stöng til jafnmerkilegra hluta því í vörubílnum hans pabba var gírstöng sem var miklu, miklu lengri en þessi stúfur með kúlu á endanum. Ég man það nokkuð víst að sá sem valtaranum stýrði átti eftir að hljóta mikla upphefð innan bæjarapparatsins enda gat ekki öðruvísi farið með svo merkilegan mann. Hann mun hafa verið bæjarritari um árabil.

Ég man líka að bálið sem olíukynt var í iðrum malbikunarvélarinnar og spjó reyk og eimyrju yfir umhverfi sitt átti til að brjóta sér leið úr viðjunum og leika lausum hala utan á vélinni. Í einu slíku tilfelli þegar mikið hafði logað og lengi, kom maður hlaupandi neðan af slökkvistöð með tæki í hendinni og spjó úr því á eldinn. Þetta var stór maður, ljós- eða rauðhærður. Mér var sagt hann héti Jón Halldórsson.

Einum man ég eftir sem vakti sérstaka eftirtekt. Þetta var lítill, hnellinn karl, síkátur og hafði hvíta (þannig í minningunni...) derhúfu á höfðinu. Ég vissi ekki betur en að der á húfum ætti að snúa fram en þessi karl sneri því alltaf aftur. Þetta fannst stúfnum fyndið.........mér var sagt að hann héti Magnfreð, þessi karl og það fannst mér líka fyndið. Við áttum síðar eftir að kynnast betur því hann var einn þeirra öðlinga í malbikinu sem rúmum áratug síðar tóku á móti óreyndum guttanum í bæjarvinnunni og ólu upp tvö sumur. 

Þeir unnu ekki á sunnudögum, karlarnir í malbikinu og þá var svæðið vettvangur okkar stúfanna. Þetta umrædda svæði var ekki stórt, eða rétt ofan við, framhjá og niður fyrir húsið þeirra Siggu Pálma og Hjartar.

Menn sem betur vita verða að virða mér til vorkunnar að ég man ekki lengur í hvora áttina var malbikað - upp eða niður bæinn. Það skiptir svo sem ekki miklu máli. Mín saga snýst, eins og fram kom í upphafi, um ör á fæti þó svo ég noti breiða pensilinn til að mála ferlið. Þeir unnu semsagt ekki á sunnudögum, bæjarkarlarnir og eftir laugardagana vildu liggja bikmolar og sundurhöggnar tunnur hjá kaldri malbikunarvélinni. Það var einmitt á þannig degi sem stúfur á stuttbuxum fór í rannsóknarleiðangur um völlinn. Heillaður af glansandi svörtum molunum og horfandi niður í jörðina gat ekki öðruvísi farið en eitthvað yrði í vegi sem forðast skyldi. Hægri fótleggur mætti sundurhogginni biktunnu á þann veg að eitthvað varð undan að láta....

.....ekki þó tunnan!

Háorgandi með blóðið bunandi úr fætinum staulaðist ég yfir Hafnarstrætið, inn í Hrannargötuna og til mömmu. Líklega hafa hlutir gerst hratt eftir það, hraðar en svo að þeir næðu að festast í barnsminninu. Næst man ég eftir mér á aðgerðarborðinu í miðstofunni á gamla sjúkrahúsinu - þeirri sem var í boganum að framanverðu. Sárið var hreinsað, saumað og búið um eins vel og mátti en af stærðinni á örinu í dag má nema umfangið á sínum tíma.

Þeir luku við að malbika Hafnarstrætið án minnar aðstoðar en líklega hefur hún mamma mín hlakkað mikið til þess dags er flutt yrði úr Hrannargötunni í nýja húsið sem var í byggingu inni við Seljalandsveg.Framtíðin er sjaldan fyrirséð og líklega var það eins gott fyrir hana mömmu. Ég er ekki viss um að ástandið hafi skánað mikið er í "sveitina" kom.....

..........................................................................................................................................

Ár líða og tilveran sveiflast til og frá. Seljalandsvegurinn seldur og flutt til Reykjavíkur vegna atvinnuleysis heima fyrir. Svo rofaði til og allt í einu erum við aftur á heimleið á glænýjum vörubíl. Það er gott því engum hafði líkað vistin í borginni. 


 Ég var orðinn tíu ára - afmælisveislan var haldin í og á pappakössum í kjallaranum að Sigtúni 37 í Reykjavík, sem hefur verið heimili okkar syðra. Tveimur dögum eftir afmælið er lagt af stað með búslóðina á pallinum. Bílarnir eru tveir, samskonar og eins útbúnir. Síðustu Reykjavíkurnóttinni lýkur, ferðin hefst í öfuga átt því við ökum vestur á Ránargötu að kveðja Rósu ömmu og Jóa frænda. Við borgarmörkin er sameinast og ekið í samfloti vestur. Fremri bíllinn ber megnið af búslóðinni, ferðin tekur tvo daga og er efni í langan pistil. 

Þegar morgunn hins sjötta júní 1967 rennur upp eigum við aftur heima á Ísafirði, nú að Urðarvegi 4 og fyrir utan bíða tveir vörubílar tæmingar. 

..............................................................................

Stúfurinn úr Hrannargötunni stækkar og sumarið hættir að vera samfelldur leikur. Frá tólf ára aldri er það skógræktin. Á vetrum er gripið í útskipun á freðfiski eftir því sem slíka vinnu er að fá. Fermingarsumarið ´71 er unnið við skelvinnslu og hýrunni bætt við fermingarpeningana. Vorið eftir er keypt ný skellinaðra og enn tekur lífið stökkbreytingum. Sumarið ´72 er unnið í fiski en vorið ´73 er ég svo heppinn að komast í bæjarvinnuna. Gamla malbikunarvélin er ekki lengur á faraldsfæti heldur hefur henni verið komið fyrir innan við áhaldahúsið. Nær áfastur henni er gamli, græni Chevrolet vörubíllinn og gegnir hlutverki malarforðabúrs. Nú orðið koma stórfyrirtæki úr Reykjavík og malbika heilu hverfin í einu en sú gamla er notuð í smærri verk eins og holufyllingar. Á góðum dögum er hún kynt upp og við sumarvinnumenn látnir moka í hana malarsallanum. Ábyrgari menn sjá um bikið og blöndunina. Til þessarra "ábyrgari" aðila má m.a. telja Halldór Jóns Páls, en sá öðlingsdrengur vann hjá bænum á námsárunum. Þá var þarna einnig Snorri Gríms, "Ríkisstjóri" og fleiri góðir drengir. Kynnin af gömlu malbikurunum úr Hafnarstrætinu voru endurnýjuð og margur lærdómurinn dreginn af þessum gömlu jálkum sem flestir höfðu marga fjöruna sopið - og sumir kannski sopið sitthvað fleira en fjörur. Um þessa menn er ekki hægt að nota orð eins og "minnisstæðir". Þeir eru einfaldlega ógleymanlegir.....Torfi Bjarna, sem var trúður af guðs náð. Ég man ekki hvernær Torfi dó og finn ekkert um það í skrám en hann varð aldrei gamall - hann var alltaf einn af okkur unglingunum, einstakt góðmenni. Hver man ekki eftir Magga Dan. Hann var sannarlega það sem hann sagðist vera (en ekki fyrr en eftir nokkra sterka...) - góður maður. Öðlingurinn Siggi Jónasar, Hemmi Klöru (eins og hann var alltaf nefndur) sem var eitthvert almesta snyrtimenni sem ég man eftir frá þessum tíma. Á frídegi, ekki síst á hátíðisdögum sást Hermann aldrei öðruvísi en í frakka með hatt. Fötin geta víst skapað menn og utan frá séð var engan mun að sjá á Hemma og einhverjum stjórnarherranum. Ef dæmt er út frá hjartalagi hygg ég þó að Hemmi hafi haft þar alla vinninga.

Svo var þarna auðvitað fullt af yngri mönnum en þeir eru flestir enn á lífi og verða ekki almennilega góðir fyrr en þeir eru dauðir, eins og reglan segir.....en þá eiga þeir líka inni hjá mér ámóta eftirmæli og hér að ofan - allir með tölu.

Ég sagði hér ofar að gamla malbikunarvélin hefði verið kynt upp á góðum dögum til að holufylla. Það þýðir ekki á á Ísafirði þeirra tíma hafi gert slæma sumardaga- ég man ekki slíka daga. En þegar ekki viðraði til malbikunar eða ekki var þörf á slíku voru unnin margvíslegustu störf utan húss og innan. Þá voru t.d. handsteyptar gangstéttarhellur. Þetta var rétt í upphafi velsældarvæðingar (sem vel má kalla vesældarvæðingu) og hellurnar voru 50 X 50 X 5 cm. Að handleika eina slíka var ekkert mál en að handleika þær heilan dag frá morgni til kvölds var aðeins á færi hraustra manna. Svo minnkuðu hellurnar í 40 X 40 X 4 cm og léttust að sama skapi. Sementspokarnir, sem alltaf voru 50 kg urðu 40 kg, mjölpokar sem áður voru 100 kg og tveggja manna tak urðu 50 kg og einsmannstak - urðu svo 1000 kg, mannskapurinn rekinn og keyptur lyftari..........

M.a.s. hjólbörurnar hafa minnkað um helming enda koma þær flestar frá Kína þar sem fólkið er helmingi minna en við!

Kannski hefur eitthvað af þessu ofantalda gert það að verkum að menn ná nú almennt hvorutveggja - að verða gamlir og halda sæmilegri heilsu. Álagið á skrokkana hefur í öllu falli minnkað.

Ég ætla að enda hér þennan stutta pistil um örið á hægri fótleggnum á mér. Það getur verið til sýnis þeim er sjá vilja eftir samkomulagi, að öðru leyti hef ég ekki um málefnið fleiri orð.

Ég bið afsökunar á fljótfærnis- og prentvillum því ég hef ekki gefið mér tíma til að lesa skrifin yfir!
.....................................................................................


10.02.2016 07:33

Mikið déskoti......
......var Stakkanesið kuldalegt þar sem það hímdi undir snjóteppi úti við Skipavík. Það snjóaði gríðarlega í Hólminum sl. fimmtudag (4.feb) og í áframhaldandi kulda hafði sá snjór ekki sigið merkjanlega þegar við EH renndum í hlað á Borgarbrautinni seint á föstudagskvöldi. Við lögðum af stað úr Reykjavík rétt um hálfsex og áðum að vanda í Borgarnesi - ekki þó í Geirabakaríi því þar var búið að loka, heldur í Bónusbúðinni og versluðum nauðsynjar til næsta dags. Veðrið var þokkalegt, dálítill blástur og kalt en hálkulaus vegur að mestu. Sama færið hélst uppundir Kolbeinsstaði en þar skipti um og við tók stífur vindstrekkingur af austri. Loft var tiltölulega bjart en vindurinn reif upp hjarn svo úr varð stífur lágrenningur yfir veginn. Skyggni til aksturs fór allt niður í eina stiku á köflum (eru það ekki um 50 mtr?) og er ofar dró bætti í vindinn. Hálku var ekki að merkja að neinu ráði nema við Dalsmynni, frá afleggjaranum að Laugagerðisskóla og upp undir Rauðkollsstaði. Þaðan var auður vegur að Vegamótum en yfir Vatnaleiðina var fljúgandi hálka auk þess sem þar hvesti verulega. Það mátti heita blindbylur - án ofankomu - alla leið yfir og að vegamótum norðanvert. Þar var færið skaplegra en þegar við renndum inn í Stykkishólm mátti sjá á klukkunni að aksturinn frá Borgarnesi hafði tekið okkur um tuttugu mínútum lengri tíma en vanalega.

Þegar heim á Borgarbrautina kom gat að líta stóran snjóskafl sem teppti alveg aðgengi að húsinu. Yfir innkeyrsluna lá mittisdjúpur skafl en næst húsinu var þó snjólítil ræma. Sem betur fer hafði nágranninn í næsta húsi mokað mjóan gangstíg upp að sínu húsi og þann stíg laumuðumst við með okkar farangur og síðan meðfram húsveggnum. Það tók smástund að brjóta klaka frá útidyrunum og finna lykilinn en hafðist þó að lokum. Innandyra ar enga skóflu að finna, aðeins strákúst á sólpallinum, en hann var vonlaust verkfæri í baráttu við skaflinn. 


Við tókum laugardaginn rólega framan af en eftir hádegi var lagt í leiðangur til Gulla Rúfeyings og frú Löllu til að fala skóflu. Það var auðsótt og eftir vel útilátið kaffi var ráðist í að moka innkeyrsluna. Þar voru höfð helmingaskipti þó ekki sé grunlaust um að skrifarinn hafi sloppið betur en til stóð. Það var nefnilega talsverð vinna að moka skaflinn og gera sæmilega gangfært heim að húsinu. Eftir moksturinn var blásið til kaffihlés en síðan lá leiðin í heita pottinn í sundlauginni, þar sem legið var fram að lokun. Ekki spillti veðrið, því þrátt fyrir dálítinn kuldagjóstur var bjart í lofti og sól meðan hennar tími leyfði. Laugardagskvöldið var nýtt í dvd- og sjónvarpsgláp, tölvulegu og þvílíkt. 

Sunnudagurinn, 55. afmælisdagur EH, heilsaði líkt og laugardagurinn en þó var öllu lygnara. Við ákváðum að ganga út á flatirnar austan og neðan við húsið, sömu slóðina og við röltum á fimmtugsafmæli EH, þegar við dvöldum einnig helgarlangt á Borgarbrautinni með skottinu Bergrós Höllu. Nú var hún ekki með til að sjá um myndavélina eins og þá svo við máttum sjálf sjá um þá hlið. Árangurinn varð m.a. svona:
Eftir gönguna lá leiðin líkt og oft áður, í heita pottinn. Þar var aftur legið fram að lokun og eftir pottinn var haldið í bollukaffi til Löllu og Gulla. Við áttum raunar að mæta þangað mun fyrr en misskildum tímasetninguna. Það var dálítið miður því þau gömlu voru búin að bíða með bollurnar eftir okkur síðan um miðjan dag. Ekki varð að gert og við sátum stórveislu fram undir kvöldmat. Ætlunin hafði verið að borða gala-afmæliskvöldverð á Narfeyrarstofu og við áttum pantað borð en höfðum það eins seint og hægt var. Þannig gengu hlutirnir upp og steikin á stofunni var virkilega fín þrátt fyrir bolluátið!

Kvöldið var svo tekið rólega að vanda, veðrið hélst bjart og stillt en kuldinn hélt okkur innan dyra. Líklega er þetta fyrsta helgardvölin í Hólminum sem ekki felur í sér bíltúr út í Grundarfjörð eða lengra. Jólabækurnar höfðu raunar verið settar í töskuna syðra sem möguleg afþreying en þrátt fyrir góðan vilja sátu þær á hakanum fyrir 160 mín. langri þáttaröð um Inndjúpið á dvd.

Mánudagurinn rann upp með hvössum austanvindi og enn meiri kulda en þokkalega bjartur þó. EH hafði tekið frí þann dag en ég átti að hefja kvöldvakt hjá Óskabarninu kl. 16. Hússkil voru að vanda kl. 12 á hádegi svo eftir morgunkaffi var gengið í að taka saman og þrífa. Allt gekk það að óskum og við kvöddum Stykkishólm að sinni eftir stutta heimsókn til Löllu og Gulla. 

Við norðurenda Vatnaleiðar drógum við uppi tvo bíla sem voru síðan á undan okkur suður yfir. Sá fremri var jeppi með litla kerru, sá aftari var lítill sendibíll. Þeir voru greinilega í samfloti og áttu í erfiðleikum vegna hálku og hvassviðris. Kerran vildi fjúka þvert útaf jeppanum og sendibíllinn fauk ítrekað til að aftan. Hraðinn var því lítill, enda við á ónegldum dekkjum sem gripu lítið í klakann þótt glæný væru. Þannig gekk suður að Vegamótum en þar tók við marauður vegur fyrir utan kaflann við Dalsmynni sem áður var lýst. Við tókum okkar áningu í Geirabakaríi í Borgarnesi og komum til Reykjavíkur rétt uppúr kl. 15. Farangurinn var borinn í hús og fataskipti höfð, síðan var haldið beint til vinnu og klukkuna vantaði tíu mínútur í fjögur þegar ég stimplaði mig inn.

Það eru u.þ.b. sex vikur fram að næstu ferð í Hólminn, því ég á húsið pantað um páskana, líkt og í fyrra. Þeir eru semsagt snemma í ár og því litlar líkur á að vorað hafi nægilega til að Stakkanesið verði sjósett þá. 

....en þá má í staðinn gera aðra atrennu að jólabókunum!


Flettingar í dag: 147
Gestir í dag: 28
Flettingar í gær: 111
Gestir í gær: 23
Samtals flettingar: 456565
Samtals gestir: 66152
Tölur uppfærðar: 27.9.2016 15:28:50


Tenglar