Gunnar Th.
Fjórða kerfið.....


24.04.2016 13:00

Willy´s


Ég man flesta hluti svona þokkalega. Ekki kannski allt og ekki kannski alltaf hárnákvæmt en svona þokkalega. Til dæmis man ég ekki nákvæmlega hvenær ég eignaðist jeppann hans Jóa frænda. Það gæti hafa verið árin 1975 eða ´6. Svo er ekki víst að það skipti nokkru einasta máli. 

Jói frændi bjó á Stakkanesi (er nokkuð kunnuglegt við það nafn?) með afa og ömmu og átti Willy´s árgerð ´46. Þetta var flottur jeppi, með fulningahúsi og fíneríi. Líklega var það svo um 1963 að Jói frændi ákvað að selja jeppann. Kaupandinn var Gunnar heitinn Kristjánsson, vélstjóri hjá Íshúsfélaginu. Gunnar átti jeppann lengi en seldi að lokum og muni ég rétt eignuðust Arnardalsbræður hann. Hvort einhverjir áttu þar á milli man ég ekki. Úti í Arnardal var sett hálftoppventlavél í jeppann og eins og títt var við þess háttar breytingar var sett upphækkun á húddið fyrir loftinntakið á vélinni. Einhvern tíma á lífsleið jeppans var húsinu líka breytt og það endurbætt. Við það hurfu fulningarnar og húsið varð slétt. Þegar ég eignaðist jeppann hafði hann ekki verið í notkun nokkurt skeið og þurfti talsverðra lagfæringa við. Ég naustaði bílinn í skúr niðri við Fjarðarstræti, sem Matthías heitinn Sveinsson verslunarmaður hafði átt og pabbi hafði aðgang að. Þar var unnið að lagfæringum og stöku sinnum skroppið út að aka á milli. Ég var þarna talsverðan tíma með bílinn en seldi hann að lokum Óla bróður Árna heitins Geirssonar símaverkstjóra. Árni bjó þá að Seljalandsvegi 30 á Ísafirði og ég man að Óli var með jeppann þar upp með húsinu meðan hann dundaði í honum. Svo hvarf Óli úr bænum, eignarhaldið á jeppanum fór á flakk og að lokum endaði hann í uppfyllingunni neðan við Vélsm. Þór hf.

Næst eignaðist ég Willy´s austur í Neskaupstað haustið 1985. Það er nýlega búið að rekja feril hans á Facebook og óþarfi að gera það aftur. Söguna má finna á FB-síðu um bíla á N-númerum. Hún var afar skrautleg, í raun miklu skrautlegri en þar kemur fram því af tillitssemi við hlutaðeigandi var nokkrum atriðum sleppt. Það ætti að vera nægilegt að líma þá frásögn inn. Hún ætti þá að birtast hér neðan við:Ég lofaði Grímsa myndum af Búra, Willy´s jeppanum sem ég keypti af Rúnari Gunnars veturinn ´85-6. Þessi Willys var með stálhúsi og original Hurricane vél, skráður eins og Ísraelsjeppi (´53) en með ´55 útlit. Hann fékk að snúast alveg svakalega þann tíma sem ég átti hann en endaði loks ævina hjá Halldóri Gunnlaugs, stuttu eftir að ég flutti vestur aftur. Muni ég rétt beygði Halldór í honum stangir í Norðfjarðaránni. Hann var með þessum fallega (!) brúna lit þegar ég fékk hann en í kaffitíma á sólbjörtum degi utan við verkstæðið í Nesi máluðum við Bóas Bóasson hann heiðgulan. Við vorum fljótir að, helltum úr fötunni yfir húddið og drógum úr með stórum verkfærum úr Bátastöðinni. Á einni myndinni sést Bronco í baksýn. Ég átti hann líka og gerði hann upp fyrir austan. Bóas sprautaði hann svo fallega brúnsanseraðan með silfruðum og gylltum röndum. Þessi Bronco var á 32" dekkjum sem ég sendi til Gúmmívinnslunnar á Akureyri í sólningu. Eins og sést á einni myndinni hef ég "lánað" sjálfum mér þau undir Willysinn.


Vélin í Búra var léleg, rifin á einni sveif og það var orðin íþrótt þegar hann var farinn að banka leiðinlega mikið, að henda honum inn á lyftu í lok vinnudags, spæna pönnuna undan með loftlykli og olíunni í, smella nýrri legu í sætið og setja svo pönnuna undir aftur með loftlyklinum - og olíunni í! Lagerinn af legum var á brotajárnshaugunum úti undir kirkjugarði þar sem lágu nokkrar flathedda - Rússavélar. Einu sinni í leguhallæri var m.a.s. smellt gamalli legu úr Cressidu í sætið en þá þurfti að banka til festihakið.

Svo kom að því að legulagerinn kláraðist og af því ég var orðinn leiður á að vera stöðugt að skipta þá henti ég síðustu legunni sem festist, úr vélinni, ákvað að hafa stöngina legulausa og sjá hvað hún gæti enst þannig. Hljóðin voru ólýsanleg enda hvegi slegið af og endingin varð tíu dagar. Þá bókstaflega sprakk vélin þegar ég var á fullri ferð inn á BP-sjoppu til Benna að ná mér í hádegismat. Hún hrundi rétt við planið og ég var svo vitlaus að láta Búra renna yfir allt planið og inn fyrir húsið. Þegar ég kom út úr bílnum var breið olíurönd yfir endilangt planið og Benni ekki glaður. Ég mátti kaupa brúsa af olíuhreinsi í stað hádegismatar og hreinsa upp eftir mig. Við hreinsunina fann ég stimpilboltann strípaðan úti á götu. Þá svona datt mér í hug að nú væri frekar mikið bilað.......

Leifi í Skálateigi var að skipta um vél í Sjappa sem hann átti (frambyggðum FC-150) og setja í hann Benz dísil. Ég fékk gömlu vélina hjá honum og skipti næsta laugardag úti á verkstæði. Sú vél var aldrei jafn skemmtileg, einhverra hluta vegna en eðlilega mun hljóðlátari....

Þegar voraði ´86 var Búri oftar húslaus en hitt. Þeir voru reyndar farnir að tala um að borga mér fyrir að hafa húsið á því í hvert sinn sem það var tekið af virtist koma rigningardemba. Ég var hins vegar búinn að komast að því að Búri var frekar valtur með húsinu og ef það var ekki á gat ég tekið kröppu beygjuna innan við Kaupfélagið á Bökkunum og niður í Nesgötuna ( ofan við Gumma Skúla) á miklu meiri ferð. Það má kannski taka fram að veltigrind var aldrei sett í Búra - hún var lengi á teikniborðinu en fór aldrei lengra.

Eins og stundum er sagt: Búri er horfinn en minningin lifir.....


Fljótlega eftir að við fluttumst aftur frá Neskaupstað til Ísafjarðar vantaði okkur farartæki sem gæti dregið kerru. því við hugðum á miklar framkvæmdir við litla húsið okkar í Króknum. Inni í Essóporti stóð gamall ´46 Willy´s sem Biggi frændi (Biggi Þorsteins) átti. Einum tíu árum áður hafði ég hjálpað Bigga að koma þessum jeppa á götuna inni á Hafrafelli. Biggi hafði keypt hann þar, en jeppinn var samtíningur úr nokkrum þó uppistaðan ætti að heita gamli Tungujeppinn. Mig minnir að Dóri Ebba hafi átt gamla Tungujeppann og lent í óhappi á honum á Óshlíðinni. Þessi var semsagt hálfsmíðaður inni á Hafrafelli og við Biggi eyddum löngum stundum i að gera hann ökufæran. Það tókst og Biggi notaði jeppann sem vinnubíl árum saman. Þegar þarna var komið sögu var Biggi hins vegar búinn að uppfæra í Jeepster og sá gamli lá inni í olíuportinu. Einhverjir gemlingar höfðu sér til dundurs mölvað í honum flestar rúður og hleypt úr dekkjum svo útlitið var ekki bjart fyrir öldunginn. Ég fékk augastað á jeppanum, ekki síst sögunnar vegna. Biggi vildi hins vegar ekkert hafa með málið að gera og sagði mér að semja við Lóu. Það voru erfiðir samningar en allt gekk þó að lokum og ég kom jeppanum niður í Vélsm. Þór eftir að hafa eytt heilu kvöldi í að dæla í dekkin með pínulítilli rafmagnsloftpressu. 

Á bílaverkstæðinu í Þór gekk Willy´s í endurnýjun lífdaga og meðfram lagfæringunum smíðaði ég kerru aftan í hann. Kerran var svo sirka eitt ár á dráttarkúlunni og kvikindislega þenkjandi félagar voru farnir að spyrja hvort bíll og kerra væru heilsmíðuð! 


Það var mikið flutt á þessum bíl og sem dæmi má nefna að þegar við fengum Einar á Kolfinnustöðum til að grafa húsið í Króknum upp að ofan- og innanverðu var allur uppmoksturinn settur á skurðbakkann. Efnið reyndist svo ónothæft aftur og við handmokuðum uppá þrjátíu og átta kerrur af mold, ókum niður á ruslahauga og losuðum þessar þrjátíu og átta kerrur með handafli til stækkunar bæjarlandsins. Til að fylla í skurðinn meðfram húsinu sóttum við tuttugu og fimm kerrur af fjörugrjóti í fjöruna beint niður af húsinu og ég fullyrði að lengi vel var ekki að finna stærri steina en hálfan hnefa frá ræsisrörinu út að Baldri Jóns! Þessi framkvæmd fór ekki í umhverfismat og það má meta það við nágrannana í Fjarðarstræti 57-9 að þeir hvöttu frekar en löttu þótt sumir hafi kannski lagt kollhúfur yfir landeyðingunni. Sjórinn sá svo um að skila nýju efni á land í stað þess sem tekið var.

Þegar við höfðum ekki lengur not fyrir jeppann var hann seldur og ég hef fyrir satt að hvíti, opni hálfjeppinn sem lengi var inni á flugvelli og Ernir notuðu sem dráttarklár hafi að uppistöðu verið þessi jeppi.

Síðan hef ég ekki átt Willy´s....

Þar til nú:...og líkt og maðurinn sagði: 

"Að eiga Willy´s er góð skemmtun"

20.03.2016 09:55

Hestur um Hest....Í Höfðaborg er ekki til siðs að vaka frameftir á kvöldin, hvorki á virkum dögum né um helgar. Þess vegna vorum við Bassi á fótum rétt um sjöleytið. Hann hefur raunar minna við að vera en ég og þess vegna leyfir hann sér stundum að leggja sig aftur eftir "morgunfagnið"

Myndir dagsins (ekki svo að skilja að ég ætli að setja myndir inn daglega) eru teknar haustið 1993 við eyðibýlið Hest í Hestfirði. Ég var þarna einn á ferð, einu sinni sem oftar, það var síðdegi og stórkostlegt haustveður.
 Ég klöngraðist á jeppanum út fyrir býlið og út fjöruslóða allt þar til hraðinn var kominn undir gönguhraða. Þá lagði ég bílnum og gekk áfram langleiðina út í Tjaldtanga, þaðan yfir nesið og að gömlu eyðibyggðinni í Folafæti Seyðisfjarðarmegin. Þar var aðeins eitt hús uppistandandi og þó ekki meira en svo að það marraði í því þegar ég lagðist á húshornið og ýtti. Á sínum tíma fann ég fyrir því heimild að húsið / jarðarhlutinn muni hafa verið Heimabær, en kannski vita einhverjir betur.

Í skáp í hálfhrundu eldhúsi var gestabók í krukku ásamt blýantsstubbum. Ég kvittaði fyrir komuna en hélt svo áfram göngunni, upp langa og djúpa laut sem sk. heimildum heitir Álfalág. Þar var gríðarleg bláberjaspretta, svo mikil að ekki varð framhjá horft. Ég át mig upp lautina sem hallar stöðugt til fjalls. Þegar henni sleppti ofan til, hún jafnaðist út og ég sá loks til beggja handa var ég kominn himinhátt upp í Hestinn - a.m.k. fannst mér það. Bílinn sá ég sem lítinn depil í fjörunni Hestfjarðarmegin. Á niðurleiðinni í átt að bílnum var sama berjasprettan og það var farið að bregða birtu þegar ég hafði étið mig niður hlíðina.


Klukkan mun hafa verið að nálgast háttatíma þegar ég loks renndi í hlað heima á Ísafirði...


Síðasta myndin er reyndar ekki mín. Þegar ég yfirgaf bílinn og hóf gönguna sá ég ekki fyrir endann og skildi myndavélina eftir í bílnum. Þetta þótti mér afar slæmt en var ekki að gert því ég ætlaði ekki að eyða tíma í að ganga til baka eftir vélinni. Ég ætlaði að bíða betra tækifæris að ganga leiðina aftur og mynda allt sem fyrir augu bæri. Nú, 23 árum seinna er enn beðið tækifæris... Myndin af Heimabæjarhúsinu er klippt úr úr dagatali Hjálparsveitar skáta á Ísafirði og á sinn sess í albúminu mínu með svipuðum skýringum. Mig minnir að Gísli Gunnlaugsson á Ísafirði hafi tekið hana og ég vona að birtingin verði ekki illa séð.

08.03.2016 12:13

Hádegi.


Það er hádegi í Höfðaborg, líkt og annarsstaðar. Kannski aðeins svona meira há-hádegi, því nú fyrir hádegið urðu ákveðin tímamót hér heimavið. Þau fólust m.a. í því að eðalhundurinn Edilon Bassi Eyjólfs-eðaeftiratvikumElínarson Breiðfjörð Thorsteinsson Budenhof Sandhaug Sóðalöpp fór í klippingu. Hann fer í klippingu sirka fjórum sinnum á ári. Fyrir hverja klippingu er hann ógnarstór hundur en á eftir er hann bara lítil og ræfilsleg písl sem kúrir sig skjálfandi af kulda uppi í sófa og vill ekki sjá að fara út og viðra sig. Svo fólust þessi tímamót líka í því að í fyrsta sinn ( í mínu minni) tókst mér að segja "nei, því miður" við mann sem hringdi og falaðist eftir aðstoð við bílinn sinn. Þeir sem best þekkja til vita hvílíkt risaskref var stigið með neituninni og horfir nú strax vænlegar með að ég geti mögulega lokið einhverju af þeim verkum sem ég þarf að ljúka fyrir sumarið - til þess einfaldlega að geta átt eitthvert sumar!

...og af því að nú er svona há-hádegi þá ákvað ég að gera sérstaklega vel við mig í mat. Það er raunar dálítið erfitt stundum því þrennt það leiðinlegasta sem ég veit í lífinu er að kaupa í matinn, taka bensín og borga reikninga með heimabanka. Þetta er ekki vegna þess að ég eigi ekki aura fyrir hlutunum, heldur er þetta eflaust einhver brotalöm í sálarlífinu. Á endanum verð ég að gera þetta allt en ekki fyrr en skáparnir eru tómir, bíllinn bensínlaus og reikningar komnir undir eindaga. Það vill svo til að núna eru skáparnir í eldahorninu í Höfðaborg nánast tómir. Ég gróf djúpt í einn og fann heila körfu með bollasúpum. Án þess ég þekki upprunann giska ég á að þessar bollasúpur séu þarna vegna þess að ég hafi tæmt einhvern húsbílinn eitthvert haustið og gleymt birgðunum. Þegar ég las á þessa bollasúpupakka stóð á þeim að síðasti söludagur væri svona frá miðju ári 2013 og fram á mitt ár 2014. Ég hef enga trú á að þurrmatur renni svo glatt út og trúr þeirri sannfæringu skellti ég í þessa fínu tómatsúpu. Eins og ég vissi - það var nákvæmlega ekkert að henni og ef eitthvað er er meiri kraftur í henni nú en var. Bollasúpur hafa yfirleitt langan lifitíma og þessi, sem rann út í júní 2013 hefur trúlega verið framleidd tveimur til þremur árum fyrr. Semsagt fínasta bollasúpa og tuttugu mínútum eftir neyslu kenni ég mér einskis meins, nema síður sé...Ég mun í næsta þætti segja frá því hvernig pottréttur sem rann út 11/2013, bragðaðist..

17.02.2016 14:46

Ör á fæti.Nei, þessi færsla fjallar ekki um það hversu fljótur ég sé að hlaupa. Ef svo væri þá lyki henni nákvæmlega hér. Punktur.

Hún - þ.e. færslan - hefði allt eins getað heitið "Gamla malbikunarvélin" en ég ákvað að velja frekar þennan titil því hann gaf möguleika á innganginum hér ofar. Ég er með ör framan á hægri fótlegg og örið barst eitthvað í tal hér í Höfðaborg á dögunum Þetta tvennt er samtvinnað, örið á fætinum og gamla malbikunarvélin. Það skal nú skýrt ýtarlega og rúmlega það.

Einu sinni var ég lítill. Þeir sem þekkja mig vita vel að ég er ekki stór en ég á ekki við hæð yfir sjávarmál heldur aldurinn. Ég hef alltaf verið stuttur. Ég á við aldur svona nærri þessum hér:
Ég er einhversstaðar á fjórða árinu þegar þessi mynd er tekin og því miður í háum sokkum. Fyrir því gæti verið ástæða, önnur en sú að mömmu hafi þótt ég svo flottur í hvítum, uppháum sokkum. Það voru þá síðustu forvöð því hvítur hefur ekki reynst mér góður fatalitur frá fjögurra ára aldri.

Ég fæddist á sjómannadaginn 1957. Á þeim tíma og til hausts 1961 bjó fjölskyldan að Hrannargötu 3 á Ísafirði. Það var góður staður fyrir ungan mann að hefja lífsgönguna þótt fyrstu sporin utan húsveggjanna hafi eflaust legið út á forugar göturnar í kring, móður minni blessaðri til armæðu. Á tiltölulega litlum bletti bjó sannkallað mannval: Þar var Ásgeir Salómons, Doddi á Essó (sem raunar var ekkert kenndur við Essó á þeim tíma) og bræðurnir Halldór og Steini Geirs. Iddi Jóns Bárðar bjó í bláa húsinu Sólgötu 8 ( sem var örugglega ekki blátt á þeim tíma) og svo var einhver slatti af gömlu köllum og kéllíngum með misjafna þolinmæði fyrir ungviðinu sem fékk að ganga nánast sjálfala á góðum sumardögum í vernduðu umhverfi gamla bíóplansins. Þarna var Hrólfur Þórarins á Pólstjörnunni, sem bjó í Hrannargötu 9 og átti gráan GMC trukk. Svo var sýslumaðurinn Jóhann Gunnar Ólafsson í Hrannargötu 4. Hann var aldrei nefndur nema með virðingu og á lægri nótunum. Í norðurenda Sólgötunnar var fiskibúðin og þangað kom forvitnilegt fólk að kaupa í matinn. Stundum kom Agnar á Búinu í bæinn á gamla Ford og kom við í fiskibúðinni. Mér fannst gamli Ford ákaflega merkilegur bíll og alveg sérstaklega merkilegt þegar ég eitt sinn sá leggja hvíta reykjarslæðu upp af vélinni framanverðri. Svo merkilegt að gufan upp af gamla Ford er enn ljóslifandi 55 árum síðar eða svo. 

Allt véla- og verkfærakyns var eftirtektarvert. Á norðurhorni Sólgötu við Fjarðarstræti ( við horn Glámu) var skilti á staur. Þetta var gulur, uppréttur rétthyrningur með svörtum jaðri og svörtum stöfum. Svo langt var ég ekki kominn í lífsleikni á fjórða árinu að ég gæti lesið letrið en lífið hefur kennt mér að þar stóð: STANZ - AÐALBRAUT - STOP

Dag einn, sólríkan og heitan kom maður með stiga og verkfæri. Hann skrúfaði niður skiltið, lagði það frá sér upp við Glámuvegginn og setti upp annað hringlaga í staðinn. Ég var mættur á staðinn um leið og fylgdist með. Ég man ekki hver þetta var en ég man að hann varaði mig við að snerta skiltið sem hann tók niður því það væri heitt af sólinni. Ég var, eins og ég sagði, ekki kominn mjög langt í lífsleikninni og þess vegna þurfti ég auðvitað að athuga hversu heitt skiltið væri. Þann dag lærði ég fyrst um blöðrur á fingrum........

Þetta nýja skilti markaði tímamót - tímamót sem minnst skyldi á landsvísu. Árið 1966 yrði Ísafjörður 100 ára kaupstaður og átak var að hefjast í fegrun og lagfæringu ásýndar byggðarinnar. Forugar og holóttar göturnar á eyrinni skyldu lagðar malbiki og lýsing þeirra endurnýjuð. Malbiksframkvæmdirnar voru þvílíkt ævintýri í augum okkar stúfanna að vart verður með orðum lýst. Víst munu þær hafa verið mæðrum okkar armæða að sama skapi og mörg góð flíkin varð ónýt af tjöruklessum og viðlíka efnum. Við malbiksframkvæmdirnar var notuð forláta vél sem stóð á tveimur hjólum og var dregin til og frá eftir því sem framkvæmdum miðaði. Því miður hef ég gleymt nafninu á þessarri vél en það var letrað á hana breiðstöfum. Vörubíll bæjarins, gamall grænn Chevrolet, flutti malarsalla innan úr "Krús", malarvinnslu bæjarins í fjarðarbotninum og af bílnum var handmokað í vélina. Bikið kom sem klumpur í stáltunnum sem höggnar voru sundur á staðnum með öxi. Hamflett bikið var svo höggvið niður í mátulega mola og hent af hendi í iður vélarinnar, þar sem mikið bál logaði. Vélin valsaði svo saman möl og bik og skilaði frá sér sterklyktandi eðju sem dreift var á götuna með skóflum og hrífum. Þegar hæfilegu magni var náð var valtað yfir með litlum valtara og ég fullyrði að sá sem stjórnaði valtaranum var í augum okkar stúfanna merkilegasti maður í heimi. Ég var ekki eldri en þetta, þriggja til fjögurra ára en ég man enn að hann hreyfði litla stöng aftan við sig til að fara afturábak eða áfram. Mér fannst þetta lítil stöng til jafnmerkilegra hluta því í vörubílnum hans pabba var gírstöng sem var miklu, miklu lengri en þessi stúfur með kúlu á endanum. Ég man það nokkuð víst að sá sem valtaranum stýrði átti eftir að hljóta mikla upphefð innan bæjarapparatsins enda gat ekki öðruvísi farið með svo merkilegan mann. Hann mun hafa verið bæjarritari um árabil.

Ég man líka að bálið sem olíukynt var í iðrum malbikunarvélarinnar og spjó reyk og eimyrju yfir umhverfi sitt átti til að brjóta sér leið úr viðjunum og leika lausum hala utan á vélinni. Í einu slíku tilfelli þegar mikið hafði logað og lengi, kom maður hlaupandi neðan af slökkvistöð með tæki í hendinni og spjó úr því á eldinn. Þetta var stór maður, ljós- eða rauðhærður. Mér var sagt hann héti Jón Halldórsson.

Einum man ég eftir sem vakti sérstaka eftirtekt. Þetta var lítill, hnellinn karl, síkátur og hafði hvíta (þannig í minningunni...) derhúfu á höfðinu. Ég vissi ekki betur en að der á húfum ætti að snúa fram en þessi karl sneri því alltaf aftur. Þetta fannst stúfnum fyndið.........mér var sagt að hann héti Magnfreð, þessi karl og það fannst mér líka fyndið. Við áttum síðar eftir að kynnast betur því hann var einn þeirra öðlinga í malbikinu sem rúmum áratug síðar tóku á móti óreyndum guttanum í bæjarvinnunni og ólu upp tvö sumur. 

Þeir unnu ekki á sunnudögum, karlarnir í malbikinu og þá var svæðið vettvangur okkar stúfanna. Þetta umrædda svæði var ekki stórt, eða rétt ofan við, framhjá og niður fyrir húsið þeirra Siggu Pálma og Hjartar.

Menn sem betur vita verða að virða mér til vorkunnar að ég man ekki lengur í hvora áttina var malbikað - upp eða niður bæinn. Það skiptir svo sem ekki miklu máli. Mín saga snýst, eins og fram kom í upphafi, um ör á fæti þó svo ég noti breiða pensilinn til að mála ferlið. Þeir unnu semsagt ekki á sunnudögum, bæjarkarlarnir og eftir laugardagana vildu liggja bikmolar og sundurhöggnar tunnur hjá kaldri malbikunarvélinni. Það var einmitt á þannig degi sem stúfur á stuttbuxum fór í rannsóknarleiðangur um völlinn. Heillaður af glansandi svörtum molunum og horfandi niður í jörðina gat ekki öðruvísi farið en eitthvað yrði í vegi sem forðast skyldi. Hægri fótleggur mætti sundurhogginni biktunnu á þann veg að eitthvað varð undan að láta....

.....ekki þó tunnan!

Háorgandi með blóðið bunandi úr fætinum staulaðist ég yfir Hafnarstrætið, inn í Hrannargötuna og til mömmu. Líklega hafa hlutir gerst hratt eftir það, hraðar en svo að þeir næðu að festast í barnsminninu. Næst man ég eftir mér á aðgerðarborðinu í miðstofunni á gamla sjúkrahúsinu - þeirri sem var í boganum að framanverðu. Sárið var hreinsað, saumað og búið um eins vel og mátti en af stærðinni á örinu í dag má nema umfangið á sínum tíma.

Þeir luku við að malbika Hafnarstrætið án minnar aðstoðar en líklega hefur hún mamma mín hlakkað mikið til þess dags er flutt yrði úr Hrannargötunni í nýja húsið sem var í byggingu inni við Seljalandsveg.Framtíðin er sjaldan fyrirséð og líklega var það eins gott fyrir hana mömmu. Ég er ekki viss um að ástandið hafi skánað mikið er í "sveitina" kom.....

..........................................................................................................................................

Ár líða og tilveran sveiflast til og frá. Seljalandsvegurinn seldur og flutt til Reykjavíkur vegna atvinnuleysis heima fyrir. Svo rofaði til og allt í einu erum við aftur á heimleið á glænýjum vörubíl. Það er gott því engum hafði líkað vistin í borginni. 


 Ég var orðinn tíu ára - afmælisveislan var haldin í og á pappakössum í kjallaranum að Sigtúni 37 í Reykjavík, sem hefur verið heimili okkar syðra. Tveimur dögum eftir afmælið er lagt af stað með búslóðina á pallinum. Bílarnir eru tveir, samskonar og eins útbúnir. Síðustu Reykjavíkurnóttinni lýkur, ferðin hefst í öfuga átt því við ökum vestur á Ránargötu að kveðja Rósu ömmu og Jóa frænda. Við borgarmörkin er sameinast og ekið í samfloti vestur. Fremri bíllinn ber megnið af búslóðinni, ferðin tekur tvo daga og er efni í langan pistil. 

Þegar morgunn hins sjötta júní 1967 rennur upp eigum við aftur heima á Ísafirði, nú að Urðarvegi 4 og fyrir utan bíða tveir vörubílar tæmingar. 

..............................................................................

Stúfurinn úr Hrannargötunni stækkar og sumarið hættir að vera samfelldur leikur. Frá tólf ára aldri er það skógræktin. Á vetrum er gripið í útskipun á freðfiski eftir því sem slíka vinnu er að fá. Fermingarsumarið ´71 er unnið við skelvinnslu og hýrunni bætt við fermingarpeningana. Vorið eftir er keypt ný skellinaðra og enn tekur lífið stökkbreytingum. Sumarið ´72 er unnið í fiski en vorið ´73 er ég svo heppinn að komast í bæjarvinnuna. Gamla malbikunarvélin er ekki lengur á faraldsfæti heldur hefur henni verið komið fyrir innan við áhaldahúsið. Nær áfastur henni er gamli, græni Chevrolet vörubíllinn og gegnir hlutverki malarforðabúrs. Nú orðið koma stórfyrirtæki úr Reykjavík og malbika heilu hverfin í einu en sú gamla er notuð í smærri verk eins og holufyllingar. Á góðum dögum er hún kynt upp og við sumarvinnumenn látnir moka í hana malarsallanum. Ábyrgari menn sjá um bikið og blöndunina. Til þessarra "ábyrgari" aðila má m.a. telja Halldór Jóns Páls, en sá öðlingsdrengur vann hjá bænum á námsárunum. Þá var þarna einnig Snorri Gríms, "Ríkisstjóri" og fleiri góðir drengir. Kynnin af gömlu malbikurunum úr Hafnarstrætinu voru endurnýjuð og margur lærdómurinn dreginn af þessum gömlu jálkum sem flestir höfðu marga fjöruna sopið - og sumir kannski sopið sitthvað fleira en fjörur. Um þessa menn er ekki hægt að nota orð eins og "minnisstæðir". Þeir eru einfaldlega ógleymanlegir.....Torfi Bjarna, sem var trúður af guðs náð. Ég man ekki hvernær Torfi dó og finn ekkert um það í skrám en hann varð aldrei gamall - hann var alltaf einn af okkur unglingunum, einstakt góðmenni. Hver man ekki eftir Magga Dan. Hann var sannarlega það sem hann sagðist vera (en ekki fyrr en eftir nokkra sterka...) - góður maður. Öðlingurinn Siggi Jónasar, Hemmi Klöru (eins og hann var alltaf nefndur) sem var eitthvert almesta snyrtimenni sem ég man eftir frá þessum tíma. Á frídegi, ekki síst á hátíðisdögum sást Hermann aldrei öðruvísi en í frakka með hatt. Fötin geta víst skapað menn og utan frá séð var engan mun að sjá á Hemma og einhverjum stjórnarherranum. Ef dæmt er út frá hjartalagi hygg ég þó að Hemmi hafi haft þar alla vinninga.

Svo var þarna auðvitað fullt af yngri mönnum en þeir eru flestir enn á lífi og verða ekki almennilega góðir fyrr en þeir eru dauðir, eins og reglan segir.....en þá eiga þeir líka inni hjá mér ámóta eftirmæli og hér að ofan - allir með tölu.

Ég sagði hér ofar að gamla malbikunarvélin hefði verið kynt upp á góðum dögum til að holufylla. Það þýðir ekki á á Ísafirði þeirra tíma hafi gert slæma sumardaga- ég man ekki slíka daga. En þegar ekki viðraði til malbikunar eða ekki var þörf á slíku voru unnin margvíslegustu störf utan húss og innan. Þá voru t.d. handsteyptar gangstéttarhellur. Þetta var rétt í upphafi velsældarvæðingar (sem vel má kalla vesældarvæðingu) og hellurnar voru 50 X 50 X 5 cm. Að handleika eina slíka var ekkert mál en að handleika þær heilan dag frá morgni til kvölds var aðeins á færi hraustra manna. Svo minnkuðu hellurnar í 40 X 40 X 4 cm og léttust að sama skapi. Sementspokarnir, sem alltaf voru 50 kg urðu 40 kg, mjölpokar sem áður voru 100 kg og tveggja manna tak urðu 50 kg og einsmannstak - urðu svo 1000 kg, mannskapurinn rekinn og keyptur lyftari..........

M.a.s. hjólbörurnar hafa minnkað um helming enda koma þær flestar frá Kína þar sem fólkið er helmingi minna en við!

Kannski hefur eitthvað af þessu ofantalda gert það að verkum að menn ná nú almennt hvorutveggja - að verða gamlir og halda sæmilegri heilsu. Álagið á skrokkana hefur í öllu falli minnkað.

Ég ætla að enda hér þennan stutta pistil um örið á hægri fótleggnum á mér. Það getur verið til sýnis þeim er sjá vilja eftir samkomulagi, að öðru leyti hef ég ekki um málefnið fleiri orð.

Ég bið afsökunar á fljótfærnis- og prentvillum því ég hef ekki gefið mér tíma til að lesa skrifin yfir!
.....................................................................................


10.02.2016 07:33

Mikið déskoti......
......var Stakkanesið kuldalegt þar sem það hímdi undir snjóteppi úti við Skipavík. Það snjóaði gríðarlega í Hólminum sl. fimmtudag (4.feb) og í áframhaldandi kulda hafði sá snjór ekki sigið merkjanlega þegar við EH renndum í hlað á Borgarbrautinni seint á föstudagskvöldi. Við lögðum af stað úr Reykjavík rétt um hálfsex og áðum að vanda í Borgarnesi - ekki þó í Geirabakaríi því þar var búið að loka, heldur í Bónusbúðinni og versluðum nauðsynjar til næsta dags. Veðrið var þokkalegt, dálítill blástur og kalt en hálkulaus vegur að mestu. Sama færið hélst uppundir Kolbeinsstaði en þar skipti um og við tók stífur vindstrekkingur af austri. Loft var tiltölulega bjart en vindurinn reif upp hjarn svo úr varð stífur lágrenningur yfir veginn. Skyggni til aksturs fór allt niður í eina stiku á köflum (eru það ekki um 50 mtr?) og er ofar dró bætti í vindinn. Hálku var ekki að merkja að neinu ráði nema við Dalsmynni, frá afleggjaranum að Laugagerðisskóla og upp undir Rauðkollsstaði. Þaðan var auður vegur að Vegamótum en yfir Vatnaleiðina var fljúgandi hálka auk þess sem þar hvesti verulega. Það mátti heita blindbylur - án ofankomu - alla leið yfir og að vegamótum norðanvert. Þar var færið skaplegra en þegar við renndum inn í Stykkishólm mátti sjá á klukkunni að aksturinn frá Borgarnesi hafði tekið okkur um tuttugu mínútum lengri tíma en vanalega.

Þegar heim á Borgarbrautina kom gat að líta stóran snjóskafl sem teppti alveg aðgengi að húsinu. Yfir innkeyrsluna lá mittisdjúpur skafl en næst húsinu var þó snjólítil ræma. Sem betur fer hafði nágranninn í næsta húsi mokað mjóan gangstíg upp að sínu húsi og þann stíg laumuðumst við með okkar farangur og síðan meðfram húsveggnum. Það tók smástund að brjóta klaka frá útidyrunum og finna lykilinn en hafðist þó að lokum. Innandyra ar enga skóflu að finna, aðeins strákúst á sólpallinum, en hann var vonlaust verkfæri í baráttu við skaflinn. 


Við tókum laugardaginn rólega framan af en eftir hádegi var lagt í leiðangur til Gulla Rúfeyings og frú Löllu til að fala skóflu. Það var auðsótt og eftir vel útilátið kaffi var ráðist í að moka innkeyrsluna. Þar voru höfð helmingaskipti þó ekki sé grunlaust um að skrifarinn hafi sloppið betur en til stóð. Það var nefnilega talsverð vinna að moka skaflinn og gera sæmilega gangfært heim að húsinu. Eftir moksturinn var blásið til kaffihlés en síðan lá leiðin í heita pottinn í sundlauginni, þar sem legið var fram að lokun. Ekki spillti veðrið, því þrátt fyrir dálítinn kuldagjóstur var bjart í lofti og sól meðan hennar tími leyfði. Laugardagskvöldið var nýtt í dvd- og sjónvarpsgláp, tölvulegu og þvílíkt. 

Sunnudagurinn, 55. afmælisdagur EH, heilsaði líkt og laugardagurinn en þó var öllu lygnara. Við ákváðum að ganga út á flatirnar austan og neðan við húsið, sömu slóðina og við röltum á fimmtugsafmæli EH, þegar við dvöldum einnig helgarlangt á Borgarbrautinni með skottinu Bergrós Höllu. Nú var hún ekki með til að sjá um myndavélina eins og þá svo við máttum sjálf sjá um þá hlið. Árangurinn varð m.a. svona:
Eftir gönguna lá leiðin líkt og oft áður, í heita pottinn. Þar var aftur legið fram að lokun og eftir pottinn var haldið í bollukaffi til Löllu og Gulla. Við áttum raunar að mæta þangað mun fyrr en misskildum tímasetninguna. Það var dálítið miður því þau gömlu voru búin að bíða með bollurnar eftir okkur síðan um miðjan dag. Ekki varð að gert og við sátum stórveislu fram undir kvöldmat. Ætlunin hafði verið að borða gala-afmæliskvöldverð á Narfeyrarstofu og við áttum pantað borð en höfðum það eins seint og hægt var. Þannig gengu hlutirnir upp og steikin á stofunni var virkilega fín þrátt fyrir bolluátið!

Kvöldið var svo tekið rólega að vanda, veðrið hélst bjart og stillt en kuldinn hélt okkur innan dyra. Líklega er þetta fyrsta helgardvölin í Hólminum sem ekki felur í sér bíltúr út í Grundarfjörð eða lengra. Jólabækurnar höfðu raunar verið settar í töskuna syðra sem möguleg afþreying en þrátt fyrir góðan vilja sátu þær á hakanum fyrir 160 mín. langri þáttaröð um Inndjúpið á dvd.

Mánudagurinn rann upp með hvössum austanvindi og enn meiri kulda en þokkalega bjartur þó. EH hafði tekið frí þann dag en ég átti að hefja kvöldvakt hjá Óskabarninu kl. 16. Hússkil voru að vanda kl. 12 á hádegi svo eftir morgunkaffi var gengið í að taka saman og þrífa. Allt gekk það að óskum og við kvöddum Stykkishólm að sinni eftir stutta heimsókn til Löllu og Gulla. 

Við norðurenda Vatnaleiðar drógum við uppi tvo bíla sem voru síðan á undan okkur suður yfir. Sá fremri var jeppi með litla kerru, sá aftari var lítill sendibíll. Þeir voru greinilega í samfloti og áttu í erfiðleikum vegna hálku og hvassviðris. Kerran vildi fjúka þvert útaf jeppanum og sendibíllinn fauk ítrekað til að aftan. Hraðinn var því lítill, enda við á ónegldum dekkjum sem gripu lítið í klakann þótt glæný væru. Þannig gekk suður að Vegamótum en þar tók við marauður vegur fyrir utan kaflann við Dalsmynni sem áður var lýst. Við tókum okkar áningu í Geirabakaríi í Borgarnesi og komum til Reykjavíkur rétt uppúr kl. 15. Farangurinn var borinn í hús og fataskipti höfð, síðan var haldið beint til vinnu og klukkuna vantaði tíu mínútur í fjögur þegar ég stimplaði mig inn.

Það eru u.þ.b. sex vikur fram að næstu ferð í Hólminn, því ég á húsið pantað um páskana, líkt og í fyrra. Þeir eru semsagt snemma í ár og því litlar líkur á að vorað hafi nægilega til að Stakkanesið verði sjósett þá. 

....en þá má í staðinn gera aðra atrennu að jólabókunum!


28.01.2016 07:54

Pakkatilboð.


Þeir voru að hringja til mín frá Símanum. Þeir hringdu raunar ekki sjálfir heldur fengu til þess unga dömu sem líklega hefur verið í svona kvöld - úthringivinnu. Ég giska á það vegna þess að þó hún væri öll af vilja gerð gat hún ekki svarað einföldum spurningum heldur aðeins þulið upp það sem greinilega stóð á blaði fyrir framan hana. 

Megininntakið í því sem hún hafði að segja var að nú ætlar Síminn að breyta sjónvarpsáskriftarpökkum sínum - eina ferðina enn. Hún var, blessunin að láta mig vita af þessu og í leiðinni að bjóða mér áskrift að glænýjum - takið eftir, glænýjum.... - áskriftarpakka sem innfæli nær allar stöðvar sem Síminn hefði uppá að bjóða. Ég spurði hvað þessi nýi pakki kostaði á mánuði. 

Jú, aðeins tæpar sjö þúsund krónur! 

Ég spurði hvað ég væri að borga fyrir þann pakka sem ég er nú með og líkar prýðilega við (ég veit svo sem alveg hvað ég er að borga en vildi gjarnan að það kæmi fram þarna svo samanburðurinn væri skýr)

Jú, tæpar þrjú þúsund krónur á mánuði!

Ég spurði hvort Síminn hefði nokkurn tíma breytt áskriftarpökkum á þann veg að viðskiptavinurinn nyti lægra verðs en betri þjónustu. Því gat hún ekki svarað enda líklega ekki ráðin til annars en að lesa texta af blaði. Þessvegna sagðist ég heldur engu geta svarað fyrr en ég hefði skoðað áskriftarpakkana á heimasíðu Símans. Með það kvöddumst við í vinsemd.

Svo fór ég að skoða pakkasamsetningarnar. Ég sá þrjá pakka. Einn kostaði 490 krónur og var fátt nema umbúðirnar. Annar kostaði 4900 krónur ( verðið er reyndar á reiki eftir því hvar á síðu Símans er skoðað, því þar sem stöðvarnar eru taldar upp er verð pakkans sagt 4.390 kr.) og fól í sér Norðurlandastöðvar og þónokkrar fleiri, alls 27 stöðvar hafi ég talið rétt. Þar eru td. tvær franskar fréttastöðvar (sem er útilokað að ég geti haft nokkurt gagn af) og VH1, sem sjónvarpar myndrænni músík allan sólarhringinn. Sú stöð er í núverandi pakkanum mínum og er hötuð til dauðans því í hvert sinn sem ég hleyp yfir hana á stöðvarápi þarf ég að lækka í hljóðinu - hún er nefnilega miklu hærri en aðrar rásir. Svo er þarna í boði aðgangur að BBCBrit. sem sjónvarpar breskum skemmtiþáttum.

Ókei. Hafið þið horft á BBC skemmtiþætti? Ég hef reynt það og Jesús Kristur á krossinum hvað þeir eru leiðinlegir!! Ég myndin næstum borga fyrir að losna við þessa grátlegu stöð úr pakkanum!

Svo er þarna Boomerang,  sem sjónvarpar eingöngu barnaefni. Hvað skyldu nú vera mörg börn í heimili hér í Höfðaborg?

Því er fljótsvarað. Hér búa tvö stór börn sem horfa stundum á Tomma og Jenna þegar þau eru að bugast á breskum og sænskum skemmtiþáttum....gefum Boomerang smá séns.

Svo er raunar í þessum pakka aðgangur að National Geographic, svona sem gulrót fyrir þá sem ekki horfa á neina af hinum í pakkanum. Vissulega frábær stöð en maður borgar bara ekki 4.900 kr. á mánuði fyrir áhorf á hana eina. Ekki frekar en hálfan handlegg fyrir aðgang að Stöð tvö sem ég hef ekki keypt í áraraðir. 

Um ítalskar og spænskar sjónvarpsstöðvar ætla ég ekkert að segja, annað en að ég hef jafnlítið gagn af þeim og pólska ríkissjónvarpinu sem einnig er í pakkanum sem kostar 4.390 eða 4.900 eftir því hvar maður er staddur á síðu Símans.

Eitt má ég samt til með að nefna: Danska sjónvarpsstöðin DR1 hefur verið að senda út frábæra 50 mín. þætti um Poirot, eftir sögum Agöthu Christie. Ég reyni eins og ég get að fylgjast með þeim. Svo bregður fyrir á DR1 þáttum um Taggart og fleira í þeim dúr ásamt ágætis bíómyndum. DR1 er þessvegna trúlega sú stöð sem ég horfi mest á fyrir utan íþróttastöðvar eins og Eurosport og Extreme. Vilji ég hins vegar halda þeim tveimur síðasttöldu verð ég að kaupa stöðvapakkann uppá tæpar sjö þúsund eftir breytinguna hjá Símanum!

Innheimtufyrirtæki á höfuðborgarsvæðinu auglýsir mikið undir slagorðinu: "Ekki gera ekki neitt" og allir skilja meininguna. Nú er ég að hugsa um að gera þveröfugt við þetta slagorð og gera hreint ekki neitt í þessum pakkamálum Símans. Það hallar nefnilega til sumars og á sumrin er lítið horft á sjónvarp í Höfðaborg. Þess vegna er ég að hugsa um að gera nákvæmlega ekki neitt. Ég held aðeins áfram að borga þennan pakka sem ég borga í dag svo lengi sem ég verð rukkaður um hann en þegar breytingar Símans taka gildi og núverandi pakkanum mínum verður lokað er það Síminn sem tapar peningum en ekki ég. 

Mjög einfalt.
16.01.2016 11:33

Stakkanes og ekki Stakkanes.


 Það er margt skrýtið. Eitt af því sem er skrýtið er internetið og umgengni manna um annarra efni. Ég hef verið að velta þessu dálítið fyrir mér undanfarnar vikur eða svo. Tilefnið er að fyrir langa löngu stofnaði ég síðu á Facebook. Ég hef ekki verið sérstaklega spenntur fyrir Facebook, aðallega vegna þess að mér hefur fundist nægur tími fara í að halda úti þessarri síðu og óþarfi að bæta þar neinu við. 

Nokkrum sinnum hefur það gerst að menn hafa haft samband við mig og beðið um leyfi til að birta einstakar myndir  - eða fleiri saman - á einhverjum Facebook hópsíðum eða af öðrum tilefnum. Undantekningalaust hef ég gefið slík leyfi, þó með því skilyrði að tekið væri fram hvaðan myndirnar væru fengnar.

Fyrir stuttu ákvað ég að laga til þessa Facebook síðu mína, lagfæra notandanafnið og setja inn myndir á hana. Ástæðan fyrir ákvörðuninni var margþætt en helst þó að skipa- og bátaáhugamenn hafa í auknum mæli verið að flytja sig á þær slóðir með sína visku. Einnig var sá auglýsingamarkaður sem ég helst fylgdist með að færast meira og meira inn á Facebook. Ég rak mig á þetta þegar ég keypti fyrra mótorhjólið og fór að leita að búnaði tengdum því á þeim auglýsingamarkaði sem mér var tamastur, þ.e. bland.is. Mér var bent á að mun vænlegra væri að finna slíkan búnað í auglýsingum á Facebook, þar sem flæðið væri mun meira og tengingarnar betri. Þegar ég svo fór að skoða miðilinn betur og læra dálítið á hann ákvað ég að bæta þar aðganginn minn og nýta hann meira. Ég tengdi mig fljótlega inn í nokkra báta- og bílahópa og hóf að lauma þar inn einni og einni mynd úr safninu. Fyrirliggjandi upplýsingar um viðk. myndir hef ég jafnan látið fylgja með enda hafa skýringalausar myndir alltaf minna gildi - amk. finnst mér það.

Ég hef verið að renna gegnum þessa hópa og eins aðra sem eru opnir öllum en eru á mínu áhugasviði og komist að dálitlu sem ég ekki átti von á. Í minnst tveimur hópanna hef ég fundið myndir úr mínum söfnum í nokkru magni. Á öðrum staðnum birtir þær maður sem ég vissulega gaf leyfi á sínum tíma - með sama fororði og fyrr. Því er mætt með því að setja einungis " stakkanes.123.is " fyrir ofan myndirnar en ekki stafkrók til frekari skýringar. Þetta finnst mér ekki góðar tvíbökur, eins og maðurinn sagði.

Á hinum staðnum birtast einnig myndir sem ég gaf samskonar leyfi fyrir á sínum tíma en þar er ekki haft fyrir neinum upprunaupplýsingum - ekki er að finna eitt einasta orð um það hvaðan myndirnar eru fengnar. 

Í gærkvöldi fann ég þriðja staðinn þar sem mynd frá mér hefur verið notuð. Í það sinn hefur höfuðið verið bitið af skömminni því sú mynd var með vatnsmerkinu STAKKANES  í einu horninu, eins og flestar mínar myndir. Myndin hefur verið klippt til svo vatnsmerkið er horfið en miðja hennar síðan stækkuð og endurnýtt.

Ég veit að sú mynd ásamt öðrum tengdum var í höndum þriðja aðila með fullu leyfi en nafn hans kemur hvergi fram heldur.

Þetta finnst mér heldur ekki góðar tvíbökur. Kannski er illt að varast þetta og mér sýnist menn nota myndir hver frá öðrum og eins af opinberum síðum hægri vinstri án þess að geta heimilda. Ég brá á það eina ráð sem mér er fært: Að loka öllum myndaalbúmum á 123.is síðunni minni með lykilorði. Kannski verður það til einhvers, kannski ekki.

Nóg um það. Það er laugardagur, frostlaust og fallegt veður. Hentar vel að fara út og viðra hundinn eða þvo götusaltið af bílnum. Svo á að opna sýningu í dag kl. 16 í Sjóminjasafninu á Granda, um pólska flutningaskipið Wigry og endalok þess við Mýrar. Hver veit nema maður kíki þangað?

Eigið góðan dag......

07.01.2016 17:21

Tvö þúsund og átján.


 Nei, ekki alveg - enn eru tvö ár í 2018. Samt situr þessi tala í mér, ekki sem ártal heldur brot úr gömlum dægurlagatexta þar sem sagði frá óvenjulegu barnaláni fjölskyldu einnar sem hélt áfram að fjölga sér  "uns þau urðu tvö þúsund og átján".  Ég er svo undarlegur til höfuðsins að ég er handviss um að þetta brot ásamt fleirum úr sama texta á eftir að óma í hausnum á mér allt það ár.

Nú er aðeins tvöþúsund og sextán og ætti að vera nægur tími til að losa sig við kvillann - ef það er þá kvilli. Áramótin fóru fram eins og áður var fram komið, þ.e. við Bassi sátum tveir saman í Höfðaborg og horfðum á sjónvarp. Hann horfði samt eiginlega meira á nammiboxið á borðinu. Í Höfðaborg er venjulega til nóg nammi. Við álítum nefnilega að allt sem smakkast vel sé á sinn hátt nammi og af því hér er enginn sem stjórnar eða sér um matarinnkaup fyrir okkur feðga  þá kaupum við bara það sem er gott - semsagt nammi. Ég get upplýst það hér með af því aðeins örfáir lesa þetta og fer fækkandi, að til hátíðanna voru keypt inn fimm kíló af konfekti, fyrir utan 750gr öskjuna sem Óskabarnið gaf. Ég ánafnaði reyndar veislustjóranum okkar þeirri öskju, við Höfðaborgarþrenning höfðum nefnilega veislustjóra sem sá um allar meiriháttar máltíðir um jól og áramót. Það er einmitt sá sami veislustjóri sem er eigandi kínversku jólaseríunnar steindauðu. Hin fimm kílóin höfum við Bassi alveg séð um.

Þegar ég kom heim úr vinnu í gær, á þrettándanum, mátti glöggt sjá gilda sönnun á reglunni sem ég útlistaði þann 21. des. sl. Þótt ekki væri sérlega bjart í lofti var greinileg lengingin á deginum. Þess vegna bendi ég enn á þessa einföldu reglu um dagsbirtu með orðum fengum beint úr þykku bókinni: "...og hafið þetta til marks....".

Þannig er nú það. Fyrir stuttu fullyrti ég að ég ætlaði á mótorhjóli til Færeyja á komandi sumri. Mér eru alveg ljósir annmarkarnir á fullyrðingunni og þess vegna ætla ég að nota Norrönu sem stökkpall því þótt mótorhjól séu orðin þokkalega fullkomin er enn ófært á þeim til Færeyja án þess að annarra farartækja njóti við. Ég fékk óbeinar athugasemdir við framsetningu fréttarinnar varðandi þetta atriði en tek fram að þær voru allar frá lítt þenkjandi fólki og því illa marktæku. Til að taka af allan vafa hef ég nú þegar pantað, greitt og gengið frá farinu með færeysku trillunni Norrönu þann 16. júní n.k. og næst þegar fæti verður stigið á fósturjörðina verður kominn sá 23. Ennfremur er búið að hnýta alla lausa enda varðandi gistingar og ég get upplýst að þær eru ekki af verri endanum. Ég fer ekki einn, eins og líka kom fram og þegar maður gistir með General Bolt-on dugar helst ekkert minna en hótel Hilt-on.

Þetta verður ekki lengri pistill því í mörg horn er að líta þessa dagana. Það er aðeins eitt atriði sem ég vil koma að, til að fyrirbyggja misskilning. Margir halda að áhugi á vélum og tækjum erfist einungis í karllegg. Það þarf ekki að vera rétt eins og meðfylgjandi mynd sýnir. Hún mamma gat eitt og annað.......31.12.2015 16:43

Um áramót.


Hún lifði ekki lengi, kínverska jólaserían sem ég keypti fyrir mæðgurnar Elínu Huld og Bergrós Höllu, og setti upp á svalahandrið íbúðarinnar í Hraunbænum. Kannski náði hún þremur vikum. Nú er hún dauð, svo steindauð að mér tókst ekki með nokkru móti að koma í hana lífi. Maðurinn í næstu íbúð var með samskonar seríu og þess vegna valdi ég eins - það er gaman að hafa samræmi í hlutunum.

Þarf ég nokkuð að taka það fram að sería mannsins í næstu íbúð er líka dauð? Steindauð!

Hvers vegna í ósköpunum geta Kínverjar ekki smíðað hluti sem endast? Þeir eru alltaf að smíða eitthvað og mér virðist fæst af því duga fyrir næsta horn......

Það eru að koma áramót og í Hraunbæ 30 lýsir ekki á tveimur svalahandriðum - bara af því Kínverjar stóðu sig ekki sem skyldi. Innan við stofugluggann logar hins vegar á 35 ljósa hring sem ég sjálfur - svo það komi skýrt fram - bjó til undir lok síðustu aldar vestur á Ísafirði. Ekkert kínverskt í þeim hring.

Klukkan er að verða fimm á gamlársdegi og úti kveður við stöku hvellur. Mér finnst þessir hvellir óvenju fáir fyrir þessi áramót, venjulega hefur verið sprengt stöðugt frá því sölur opna en mér finnst þetta mun minna núna. Kannski er almennu auraleysi um að kenna, kannski sparnaði. Veðrið hefur allavega verið ágætt fram að þessu en nú er heldur að bæta í vind og öðru hverju éljar.....

Þegar ég var að alast upp vestur á Ísafirði á síðari hluta síðustu aldar (mikið hrikalega finnst mér þetta skemmtilegt orðalag) þá gerðum við guttarnir talsvert af því um hver áramót að sprengja knallara. Mér skilst að hér fyrir sunnan hafi knallarar venjulega verið kallaðir kínverjar.

Þegar hæstu hvellirnir kveða við í kvöld ætla ég að hugsa til seríusmiðanna lánlausu......

Að vanda verðum við Edilon B. áður Eyjólfs- en nú Elínarson Breiðfjörð Thorsteinsson Budenhoff Sandhaug Sóðalöpp tveir heima í Höfðaborg. Við drögum fyrir glugga, leggjumst upp í sófa og horfum á eitthvað uppbyggilegt í sjónvarpinu meðan skothríðin gengur yfir. Bassa er afar illa við hvellina og blossana og þess vegna er heima best.....

Gleðilegt ár allir sem lesa og takk fyrir öll innlitin og álitin á líðandi ári. 


24.12.2015 14:23

Dagur aðfanga.


 Það er aðfangadagur jóla - dagur aðfanga jóla, ef maður snýr orðaröðinni. Það þýðir einfaldlega að í dag er dagurinn sem nýta skal til aðfanga til jólanna. Þá ætti það að vera komið á hreint. 

Ég held gjarnan í gamlar hefðir, t.d. borðaði ég ótæpilega af skötu í gær í bæði mál. Af því ég var á dagvakt í vinnunni lét ég vera að kýla mig út í hádeginu - maður verður jú að vera vinnufær út vaktina, ekki satt? Eftir vaktina fór ég heim í Höfðaborg og sinnti ýmsum verkum eins og vera ber en fór svo aftur í vinnuna og fylgdi kvöldvaktinni í mat - þ.e. þeim örfáu sem borða skötu á þeirri vakt. Þetta eru nefnilega eintómir hérar á "hinni vaktinni" eins og oft vill vera.......Þá var líka vel tekið á því....

.....og af því ég held gjarnan í gamlar hefðir þá notaði ég það sem af er aðfangadegi til að draga aðföng í bú. Þessi aðföng voru aðallega mikið af konfekti og mikið af klementínum í trékössum. Við feðgar í Höfðaborg erum nægjusamir menn (þ.e. þeir okkar sem erum menn, við teljum okkur jú þrjá en einn er gersamlega taumlaus þegar kemur að mataræði. Ég nefni engin nöfn en lesendur mega giska á fótafjölda...) og vegna þess að við erum nægjusamir látum við þessar tvær tegundir duga til jólahátíðar. Það þarf ekki mikið til að gleðja okkur.....

Áður en ég óska gleðilegra jóla ætla ég að setja inn eina mynd sem er reyndar ekki jólamynd heldur táknræn fyrir hugarfarið sem ríkir í Höfðaborg þessa dagana. Þar er verið að byggja skýjaborgir og því er horft upp til skýjanna. Það kemur svo fljótlega í ljós eftir áramótin hvort einhverjar undirstöður finnast undir þessar skýjaborgir:
Þangað til: Gleðileg jól allir sem lesa og gangið hægt um gleðinnar dyr! 

...................................................

21.12.2015 17:08

Jólahjól....


Jútakk, við komumst suður og vel það því klukkan var hálffjögur á miðvikudeginum 16. þegar rennt var í hlað í Höfðaborg og hún var á slaginu fjögur þegar yðar einlægur þeyttist inn um dyrnar hjá Óskabarninu og stimplaði sig inn á kvöldvakt. Vaktinni lauk kl. 24 og þá var satt að segja ákaflega gott að halda heim í borgina og halla sér. Hundur Íslands, sá eðalborni Edilon Bassi Eyjólfs/ og stundum Elínarson Breiðfjörð Thorsteinsson Budenhoff Sandhaug Sóðalöpp var í heimsókn hjá fyrri foreldrum í Hafnarfirði meðan við feðgar dvöldum á Akureyri, því hundar eru venjulega ekki velkomnir í orlofsíbúðir. Hann var sóttur daginn eftir og er dottinn í sína rútínu að nýju. 

Það er einungis sólarhringur í að daginn fari að lengja á ný. Munurinn sést á stuttum tíma og fyrir mörgum árum kom ég mér upp þumalputtareglu hvað birtutímann varðar. Hún er svona: Sé bjart í lofti á þrettándanum er strax farinn að sjást nokkur lenging. Þegar hún Elín Huld  ( kona sem ég þekki...) á afmæli þann sjöunda febrúar nær þokkalegur birtutími allt til kl. 18. Réttum mánuði síðar, þann sjöunda mars, má vel segja að bjart sé orðið kl. átta að morgni. Þá nær dagsbirtan sirka til kl. hálfátta að kvöldi. Tveimur vikum síðar eru svo jafndægur að vori og ekki þarf að útskýra nánar hvað þau þýða. 

Þetta eru semsagt hin einföldu fræði Gunnars Theodórs um dagsbirtu. Við þessi fræði má bæta örlitlu broti - en samt nokkuð mikilvægu. Þegar dagurinn er hvað stystur - semsagt nákvæmlega þessa dagana - er nýtanleg dagsbirta u.þ.b. fjórar klukkustundir. Það skal þó tekið fram að þessi jafna er miðuð við nafla alheimsins, Ísafjörð og má vera að hér syðra gildi einhver skekkjumörk. Mér er bara alveg sama. Þessi viska er þannig til komin að þegar ég var ungur maður vestra og ók um á skellinöðru (slík farartæki voru raunar á þeim tíma kölluð smellitíkur..) af Hondu SS50 gerð, þá varð ég fyrir barðinu á slæmri rafmagnsbilun. 
( Hér má sjá Hondu SS 50, nákvæmlega eins og ég átti en myndin er úr auaf netinu)

Bilunin lýsti sér þannig að framljós hjólsins lýsti aðeins í beygju en slokknaði í beinum akstri. Á Ísafirði og nágrenni eru þónokkuð margir beinir vegarkaflar og þar sem ég gat ekki alltaf haldið stýrinu í beygju bagaði þessi bilun mig verulega. Fyrir ungan mann með brennandi bifhjólaáhuga er það líkast því að missa hönd eða fót að geta ekki (vél) hjólað og þessvegna gjörnýtti ég þann tíma sem slíkt var hægt birtunnar vegna. Síðan er lengd birtutíma í desember brennd í minnið. Á þessum tíma var ég ekki kominn svo langt í vélfræðum að geta lagað svona bilun sjálfur og það var ekki fyrr en um páska 1973, þegar mokað var yfir heiðina til Súgandafjarðar, að ég lagði land undir hjól og ók vestur til Barða frænda. Hann var rafvirki (og er enn) og var aðeins nokkrar mínútur að átta sig á meininu og laga það. Svo fór sumar í hönd og annar vetur en þá var ég með ljós í lagi og skertur dagsbirtutími snerti mig lítið.

Þannig var nú það. Eftir morgundaginn fer daginn semsagt að lengja og lengstur verður hann kringum 21. júní 2016. Vitiði hvar ég ætla að vera þann 21. júní 2016? Nei, það er eðlilegt því það hefur ekki verið upplýst um það fyrr en nú.

Ég ætla að vera í Færeyjum. Algjörlega gjörsamlega svei mér þá!

....og skyldi ég nú ætla gangandi til Færeyja?

Nei. Það er ekki ætlunin. Ég ætla á þessu hér:Þessi Geiri við hlið bláa hjólsins fer hins vegar hvergi. Ég ætla að teyma með mér annan Geira sem hingað til hefur ekið (eða hjólað) um á perluhvítu pimpbike (ég vona að mér fyrirgefist orðalagið).

Það fer hins vegar enginn óbrjálaður maður með perluhvítt pimpbike til Færeyja, þar sem allra veðra er von. Þess vegna fer ég líka á bláu hjóli en ekki perlurauðu. Og hvað skyldi þá eiga að koma í stað þess perluhvíta?

Þetta hér, sem sótt var í gær:Þeir hafa ekki margir fengið höfðinglegri gjöf í skóinn frá sjálfum sér og sínum. Þar með sér fyrir endann á fyrsta hluta undirbúnings - tvær bláar Yamaha- systur klárar í hvað sem er. 

Eins og segir í jólalaginu: " Hæ hæ, ég hlakka til........"

15.12.2015 17:42

Horft heim á leið.


Það styttist í dvölinni hér nyrðra, talsvert liðið á þriðjudaginn og við erum farnir að horfa til heimferðar. Mér er illa við að aka lengi í myrkri, sérstaklega ef aðrar skyggnistruflanir eru samfara. Þess vegna leggjum við af stað suður í fyrramálið með morgunroðanum og ættum, ef vel gengur, að ná suður áður en aldimmt er orðið aftur.

Í gær gerðum við góða ferð út með firði, um Ólafsfjörð og til Siglufjarðar. Þegar þangað var komið máttum við til að heimsækja hótelið sem ég birti mynd af um daginn ásamt eikarbátnum Steina Vigg SI.Það var komið eitthvað fram um hádegi en við vorum svangir og settumst því inn á veitingastað hótelsins, Sunnu restaurant. Pöntuðum okkur dýrindis hamborgara að hætti hússins og þótt verðið væri eðlilega í hærri kantinum var lífsreynslan hverrar krónu virði því húsið er enn smekklegra og látlausara innan en utan. Maður gengur ósjálfrátt um þessi salarkynni með virðingu líkri þeirri sem maður bæri til raunverulega gamals húss. Byggingin öll dregur einhvern veginn fram þessa tilfinningu og kallar sjálfkrafa á þannig hugarfar. Ég veit ekki hvort ég næ að gera mig skiljanlegan en vona það þó....Eftir málsverð á hótelinu röltum við um bæinn. Það var farið að ýra talsvert úr lofti svo gangan varð kannski ekki eins löng og við hefðum kosið. Náðum þó að mynda eitt það skemmtilegasta á eyrinni - skökku húsin sem eru sérkenni Siglufjarðar. ( Skökku húsin eru mun fleiri en ég á í vandræðum með myndirnar og þær bíða því betri tíma )


Við tókum eftir að miklar breytingar standa yfir á húsnæði gagnfræðaskólans gamla uppi í brekkunni (ég held allavega að það sé gagnfræðaskólinn) og miðað við breytingarnar ytra erum við nærri vissir um að verið sé að breyta húsinu í hótel. Kannski er það tímanna tákn - börnunum fækkar en ferðamönnum fjölgar.

Ég hafði ætlað mér að heimsækja frænku í Ólafsfirði í bakaleiðinni en það fór á sama veg og í sumar, frænka ekki heima og ég greip í tómt. Nújæja, ég kem aftur næsta sumar...

Við feðgar eyddum síðdeginu hér heima í Furulundi og átum kvöldmat af eigin birgðum. Í gærkvöldi tókum við svo eina jólaseríuskoðunarferð um bæinn og lukum henni með kaffibolla í Eymundsson.

Við áttum tvennt inni fyrir daginn í dag, annarsvegar sund á Grenivík og hins vegar heimsókn í Tæknisafnið. Það kom á daginn að sundlaugin á Grenivík leggst í vetrarhíði og Tæknisafnið er aðeins opið á sama tíma og Mótorhjólasafnið, þ.e. tvo tíma hvern laugardag. Dagurinn hefur því liðið í rólegheitum, hér heima að mestu en eitthvað var þó litið út, m.a. niður á eyrina þar sem helst er von um að rekast á kunnuglega báta. Í allri flórunni rákumst við á tvo kunnuglega. Annar þeirra var þessi: ( Myndin er tekin á Ísafirði fyrir löngu )Þetta er semsagt hann Jói, sem upphaflega hét Valgerður ÍS og var í eigu Veturliða á Úlfsá. Svo eignaðist Ingi Magnfreðs hann og nefndi Valgerði, þá eigendahópur þeirra Jóns Björnssonar, Rögnvaldar Óskarssonar ofl. og hjá þeim hét báturinn Fúsi. Það nafn bar hann þegar pabbi eignaðist hann, líklega ´92. Pabbi átti bátinn fram til aldamóta en seldi hann þá inn í Súðavík. Nú er hann semsagt kominn norður til Akureyrar og liggur í Sandgerðisbótinni.

Hinn báturinn sem ég fann, Máni, hefur bæði átt góða og slæma daga. Hann var um árabil vestra, fyrst í eigu Jóakims Pálssonar en síðar okkar pabba. Þetta er Shetland 570 með innan/utanborðs Volvo bensínvél. Var upphaflega blæjubátur en vorið 1990 smíðuðum við Kjartan Hauks kafari á hann hús úr áli sem enn er á honum. Ég birti fyrst mynd af Mána með blæjunni og svo með húsinu:
Máni var seldur þegar rauði færeyingurinn Jói var keyptur. Hann var um hríð á Ísafirði en fór þaðan inn í Súðavík. Frá Súðavík til Ólafsfjarðar og þaðan inn á Akureyri. Þegar við feðgar fundum Mána í dag var staðan svona:Að því ég best veit hefur Máni ekki verið sjósettur í nokkur ár. Ég myndaði hann fyrir nokkrum árum á hafnarsvæðinu og þá var nokkurn veginn sama holning á honum utan hvað önnur framrúðan var þá brotin. Ég er ekki viss um að gamli yrði kátur með Mána sinn núna......

Það er farið að saxast á þriðjudagskvöldið. Við drengurinn toppuðum Akureyrardvölina í kvöld með gala- hamborgara á Greifanum. Þar með hef ég náð að borða á þremur "nýjum" stöðum, þ.e. stöðum sem ég hafði ekki áður komið inn á, Bautanum, Greifanum og Sigló hóteli. Tvær sundlaugar bættust á listann eina og áður kom fram, Glerárlaug og Hríseyjarlaug. Í fyrramálið verður svo íbúðin tekin í gegn, skilað og við leggjum af stað suður á leið.

Nú mega jólin koma........ 

.........................................

13.12.2015 23:23

Eyfirsk blíða!


 Jú, við komumst klakklaust norður, enda hefði annað verið rakinn klaufaskapur í því leiði sem við fengum - einmunablíðu og bjartviðri. Hann hafði raunar orð á því sonurinn að það virtist hált á köflum en eftir að dimma tók sást engin hálka svo það þurfti ekki að slá af hennar vegna. Fljúgandi hálka sést, eðli málsins samkvæmt, ekki í myrkri.

Klukkan var rétt um sex þegar við renndum í hlað hjá Securitas á Akureyri til að fá afhenta lykla að orlofsíbúðinni okkar, sem við raunar höfðum skipti á á síðustu stundu því eins og við var að búast tókst mér að panta einu íbúðina sem ekki hafði þvottavél. Það mátti illa ganga því ég ók beint norður í vinnufötunum með "spari"gallann í farangri og þurfti því á þvotti að halda.

Hér á Akureyri hefur í einu orði sagt verið dýrðlegt veður. Frostið hefur farið niður í væna tveggja stafa tölu en það hefur verið bjart og lygnt. Yfir sjónum hefur legið frostmóða sem gefur umhverfinu sérkennilegan blæ, einkum þegar dimma tekur.

Ég dæli ekki inn meira bulli heldur læt myndir tala.....Eftir lyklamóttökuna á föstudagskvöld skelltum við okkur í sundlaugina - þessa einu sönnu - en á laugardagsmorguninn ( í gær) heimsóttum við Glerárlaug. Hún var, eins og áður kom fram, ómerkt á listanum en úr því hefur nú verið bætt. Þetta er innilaug með útipottum og þar lágum við lengst af með skrokkinn í plús þrjátíuogátta en hausinn í mínus þrettán!  Síðdeginu var svo eytt í bíltúr um Eyjafjarðarsveitir, heimsókn á mótorhjólasafnið og fleira skemmtilegt. 

Í dag var það svo Hrísey. Við tókum ferjuna út í eyju klukkan hálftvö en sundlaugin var opin frá eitt til fjögur. Við gengum byggðina fyrst enda til enda eða svo gott sem, áður en við lögðumst í pottinn. Á göngunni tókum við nokkrar myndir:

 Þeir eiga fína sundlaug, Hríseyingar, eins og vonandi má sjá á myndunum:

Á glerinu umhverfis heita pottinn voru þessar ótrúlega fallegu frostrósir:
Það passaði að hlaupa uppúr pottinum rúmlega hálffjögur, græja sig af stað og hlaupa niður að höfn því ferjan lagði frá stundvíslega klukkan fjögur. Frá Árskógssandi ókum við út á Dalvík þar sem Haukur S. Valdimarsson skipafræðimaður var heimsóttur. Klukkan var svo um hálfsex þegar við renndum af stað inn til Akureyrar harðákveðnir í að toppa frábæran dag með heimsókn á Bautann. Þangað hafði ég aldrei komið en nú var semsagt úr bætt með hamborgara að hætti hússins. 

Deginum fer að ljúka. Það nálgast miðnætti og sonurinn er farinn út á bílnum að skoða loftsteinadrífur sem mér skilst að gangi yfir landið í nótt og þá næstu. Senn rennur nýr dagur og hann ætlum við að nýta til ferðalags út í Ólafsfjörð, þar sem hluti rótanna liggur. 

Gott í bili.
..................................................

11.12.2015 07:13

Halló Akureyri!

Það er bjartur föstudagsmorgunn í Höfðaborg, klukkan er rétt rúmlega sjö og leiðin liggur til vinnu. Að þessu sinni er vinnudagurinn stuttur því þegar vinnufélagarnir fara í hádegismat fer ég heim, tek mínar töskur ( sonurinn tekur sínar ) og þar með erum við feðgar lagðir af stað til Akureyrar. Þar hyggjumst við eyða nokkrum dögum við að skoða jólaskreytingar og aðra alhliða slökun. Við ætlum t.d. í sund í Hrísey en í þá laug hef ég aldrei farið og hún er því ómerkt á sundlaugalistanum góða. Við ætlum sömuleiðis að heimsækja Glerárlaug, hún hefur alltaf setið á hakanum en fær nú sitt merki í kladdann. Hver veit nema við náum líka mótorhjólasafninu og kannski fleiru?

 

Spáin er góð - og jafnvel betri en góð, miðað við árstíma - og við komum væntanlega endurnærðir suður síðla dags þann 16.

 

Gott í bili, vinnan kallar...

04.12.2015 11:16

Lægðir og hægðir.


Það er sunnudagsmorgunn, sjötti desember og hún Fríða systir á afmæli.  Það er svo sem ekkert stórafmæli, bara svona venjulegt enda er Fríða systir hálfu öðru ári yngri en ég og þar með yngst í hópnum. 

Þau á veðurstofunni eru að spá enn einni lægðinni yfir landið á morgun, mánudag og sú er sögð sýnu mest af öllum þeim sem gengið hafa yfir að undanförnu. Vetrarlægðagangurinn er eitthvað sem ekki kemur á óvart, ég man ekki eftir vetri sem ekki hefur meira og minna einkennst af lægðagangi. Ég man raunar ekki eftir sumri sem ekki hefur einkennst af því sama en það er annað mál. Munurinn er aðallega fólginn í því hvað þessar lægðir bera með sér enda ráðum við litlu um veðrið - við fáum það sent sunnan úr heimi og svo ræður hending því (ásamt nokkrum öðrum samverkandi þáttum) hvaða leið þessar lægðir fara upp með landinu og hvað þær flytja með sér. Mér skilst að þessi lægð allra lægða flytji með sér snjó en þar sem hitastigið á að vera nokkuð yfir núlli gæti sá snjór orðið nokkuð þungur. Umfang hennar mun vera svo mikið að nær til allra landshluta og mér varð sem snöggvast litið vestur á heimaslóðir svona tuttugu ár aftur í tímann.

Í morgun átti ég tal við mann sem átti brýnt erindi austur á firði í síðustu viku. Hann fór vel búinn bæði til vagns og verja enda veitti ekki af. Hans ætlan var að komast aftur suður um helgina en í talinu í morgun kom fram að þar sem hann situr í húsi í litlu þorpi austur á landi er ekki einu sinni fært útúr þorpinu hvað þá milli landshluta. Þannig er sú staða þegar enn ein lægðin er væntanleg og sú af stærri gerðinni.....

Fréttalestur hér í Höfðaborg er annars með dálítið sérstöku sniði. Blöð sé ég nær aldrei og meðfæddur athyglisbrestur leyfir mér ekki að fylgjast með sjónvarpsfréttum nema stutta stund í einu. Veðurspár á ríkissjónvarpinu læt ég þó helst ekki fram hjá mér fara. Að öðru leyti eru mínar fréttir fengnar af miðlum sem enda á .is og þeir miðlar hafa í liðinni viku helst sagt frá veðri og færð. Annað mál hefur þó farið hátt, þ.e. fregnir af ungum manni sem hefur lokað sig inni í glerkassa á almannafæri og hyggst vera þar í viku. Hafi ég skilið rétt er þeirri viku um það bil að ljúka en eitt mest spennandi fréttaefnið við veru þessa unga manns í glerkassanum hefur að mér sýnist verið afurðalosun hans. Netmiðlar - og athugasemdakerfi þeirra - hafa logað af áhuga á málefninu og sýnist þar sitt hverjum. Einhverjar aðrar athafnir mannsins hafa ennfremur vakið athygli, á köflum svo mikla að stjórnendur beinnar útsendingar frá gjörningnum sáu sig knúna til að slökkva um stund á tækjunum, velsæmis vegna að mér skilst. Allur mun þessi gjörningur eiga að vera af listrænum toga og sá er í kassanum situr/liggur margtitlaður myndlistarnemi. Mig langar að efast um listrænt gildi þess sem fram fer en auðvitað er ég aðeins bifvélavirki.....

Frá Hauki á Dalvík bárust þessar myndir:

Þessi fallega fleyta heitir, eins og sjá má, Steini Vigg og ber einkennisstafina SI-110. Steini Vigg er Akureyrarsmíði með gafli eins og nokkrir fleiri, frá árinu 1976 og hét upphaflega Hrönn ÞH-275. Heimahöfnin var Raufarhöfn enda var staðan á Raufarhöfn þá kannski ekki eins og hún er núna. Líklega hefur þó ekki gengið nógu vel á nýjan bát því fimm árum síðar eignast Fiskveiðasjóður hann og selur ári síðar norður til Grímseyjar. Þar verður Hrönn að Þorleifi EA-88. Frá Grímsey fer báturinn aftur " upp á land" og verður Guðrún Jónsdóttir SI-155. Svo færir Guðrún Jónsdóttir sig um tvo firði og verður ÓF-27 en síðan aftur SI-155. 200 ha. VolvóPentan sem upphaflega ýtti bátnum áfram var leyst af eftir nítján ára streð við snurvoðardrátt ofl. Í stað hennar kom önnur VolvóPenta, bólgin og blásin upp í 380 hestöfl. Ekki er þó annað að sjá en sú hafi átt náðugri daga því skv. skipaskrá var síðasta löndun á Guðrúnu Jónsdóttur skráð í júlí 2007. Þá hafði báturinn aðeins þriggja tonna þorskkvóta, eftir því sem best verður séð. Um svipað leyti eignast Selvík ehf. á Sigló bátinn og hann fær nafnið Steini Vigg. Eftir það virðist hann fyrst og fremst ferðaþjónustubátur þótt hann sé áfram skráður með veiðileyfi. Selvík ehf. er skv. heimildum undir sama hatti og Rauðka ehf., þ.e. í eigu Róberts Guðfinnssonar á Sigló og það er því eðlilegt að báturinn liggi við hótelið hans. Það lýtir síst þetta laglega hús að hafa jafn fallega fleytu og Steina Vigg við festar á þröskuldinum. 

(Ég hef raunar átt í skoðanaskiptum við heimamann varðandi þetta hótel en það er annað mál. Mér finnst þetta hús laglegt, látlaust og beinlínis bæjarprýði og er ábyggilega ekki einn um þá skoðun)

Það má vel koma fram undir lokin að annar bátur öllu stærri bar bæði nöfnin Þorleifur EA-88 og Guðrún Jónsdóttir SI-155. Það var Skipavíkursmíðin (1105 ) Jón Helgason ÁR-12 sem gegnum tíðina fór víða og hét mörgum nöfnum en endaði sem Reynir GK og var rifinn á Húsavík 2007.

Það er enn sunnudagur en sigið nokkuð á hann og sólin er að ganga undir. Fyrir augnabliki heyrði ég frá ferðalangnum sem minnst er á hér ofar. Heldur hafði vænkast hans hagur því verið var að ryðja vegi norðan- og austanlands og hann var kominn að Mývatni á suðurleið

Gott í bili.....
Flettingar í dag: 146
Gestir í dag: 29
Flettingar í gær: 619
Gestir í gær: 37
Samtals flettingar: 448966
Samtals gestir: 65392
Tölur uppfærðar: 31.8.2016 23:44:41


Tenglar