Gunnar Th.
Fjórða kerfið.....


23.04.2012 09:17

Generállinn og blái bíllinn hans.

Sko! Málið er að ég var byrjaður á ferðasögu páskadagsins, þegar ég fylgdi General Bolt-on upp á Mýrar í eignakönnun. Myndirnar úr ferðinni klúðruðust hins vegar og lentu á röngum stað. Ég er að vinna í að ná þeim til baka. Það er ekki að vita nema það klárist í kvöld.......

-------------------------------------------------------------------------------------

Nú er allt annað kvöld og myndirnar klárar! Það var semsagt á páskadeginum sem generállinn hringdi og hafði hug á að kanna eignastöðuna uppi á Mýrum. Þar átti að standa forláta Benzrúta, fyrrum hópferðabíll með drifi á öllum hjólum og það var einmitt þetta fjórhjóladrif sem freistað hafði generálsins. Bíllinn átti að vera þokkalega ferðafær að undanskildu einu atriði - og þar stóð hnífurinn nefnilega rígfastur í kúnni. Þrátt fyrir öflugan drifa- og fótabúnað geta ýmsir hlutar gangverks bilað og það sem stoppaði þennan gamla hópferðafák var bilun í legubúnaði hægri framfótar. Vegna heltinnar var vonlaust að færa fákinn úr stað og það lá fyrir að gera yrði að meininu á staðnum. Mitt hlutverk var að fylgja  generálnum á staðinn, gera úttekt á ástandinu og áætlun um úrbætur. 

Það var eitthvað um hádegið sem General Bolt-on hringdi og sagðist vera að yfirgefa yfirráðasvæði sitt í Sandgerði. Að eðlilegum ferðatíma liðnum birtist hann fyrir utan Höfðingjasetrið á sínum franska Runólfi.  Runólfur er apparat sem ég treysti ekki lengra en ég get hent því og ég treysti mér ekki til að henda Renault Megane Scenic mjög langt! Nú þurfti ég að reiða mig á þetta rammfalska spilverk upp á Mýrar og heim. Það var huggun harmi gegn að haltur leiðir blindan og það var kannski von til þess - ef við næðum upp á Mýrar - að Runólfur og halti-Benz gætu komið okkur til byggða á ný, sameinaðir ef ekki vildi betur til.

 

Ferðin gekk ótrúlega vel, svo vel að undir Hafnarfjallinu var generállinn orðinn kátur og brosmildur og þáði myndatöku. Brosið náðist að vísu ekki á myndina: 




Þegar uppfyrir Borgarnes kom rann upp ljós fyrir generálnum: Hann vissi ekki nákvæmlega hvar hópferðafákurinn var, við hvaða sveitabæ hann stóð eða hver væri beygt af þjóðveginum niður heimtröðina. Við áttum aðeins eina lausn: Að beygja niður alla þá afleggjara sem við sáum af þjóðveginum. Það var nokkurn veginn á hreinu í hvora áttina leiðin átti að liggja og það eitt þrengdi hringinn þónokkuð.  

Rétt ofan við Borgarnes var afleggjari til vinstri í átt að sjónum. Hann var talinn líklegur og því valinn. Ekki var þó langt ekið er tvær grímur fóru að renna á generálinn. Umhverfið var ekki kunnuglegt og hvergi bólaði á bláum Benz utanvegar. Ég viðraði varlega þá skoðun að kannski hefði hann bara farið þetta áður í draumi en ekki veruleika og kannski væri enginn blár  Benz til í vökuheimum. Ekki fékk ég háa einkunn fyrir hugmyndina, en meðan leitað var að stað til að snúa við var tilvalið að bregða sér út úr bíl og mynda dálítið til vesturs:

  


Á hól skammt frá okkur var minnisvarði. Ég mátti til að rannasaka hann og sá plötu með áletrun. 



Þar með lá það ljóst fyrir að Áni skipverji hefur skotið rótum þarna vestan þjóðvegarins um Mýrar. Það hefur þó verið nokkuð fyrir daga þjóðvegarins sjálfs, ef að líkum lætur. Vestur á Hrafnseyri við Arnarfjörð eru sagnir um Án Rauðfeldarson sem kom frá Noregi og var sonur Áns bogsveigis. Þessi Án þarna á Mýrunum hefur verið án þjóðvegar...........

Við snerum bílnum og ókum upp á áðurnefndan þjóðveg og við hallandi vegskilti snerum við Runólfi til norðurs.



Einhvers staðar ekkisvoobbosslegalangt fyrir ofan Langá á Mýrum var annar afleggjari til vesturs. Hann var næstur í prófunarröðinni og ekki var langt ekið þegar generállinn þóttist kannast við umhverfið. Hvernig það er hægt á stað þar sem hver þúfan er annarri lík er mér hulin ráðgáta en áfram var ekið burt frá alfaraleiðinni út í óvissuna. Fljótlega fór að hilla undir sveitabæ í fjarska, svo nálgaðist fjarskinn og eitt og annað í útsýninu fór að minna á hversu langt frá siðmenningunni við vorum komnir. Þarna hafði Gimba t.d. sett upp tærnar og þá var það bara þannig - tærnar máttu alveg snúa upp, svo lengi sem enginn sneri þeim í aðra átt. Miðað við líkamlegt ástand og útlit var Gimba efalítið búin að liggja þarna langa hríð:



Rétt hjá Gimbu stóð svo heiðblár hópferðafákur sem greinilega hafði lokið hlutverki sínu. Af stöðu hægri framfótar mátti ráða að við værum á réttum stað, enda taldi generállinn það dagsljóst að þetta væri hans eigin bíll. Hann átti reyndar að hafa séð hann áður en miðað við öryggið í leitinni að staðsetningunni þótti mér vissara að taka eignarhaldsyfirlýsingunni með öllum fyrirvörum.





Þetta virtist vera hinn ásjálegasti bíll, tiltölulega lítið ryðgaður miðað við aldur og akstur, prýðilega vel búinn í flesta staði og hefði einhverntíma þótt efnilegur húsbíll. Hon um var þó ætlað annað hlutverk og eftir lauslega skoðun á fótarmeininu og snöggsoðna áætlanagerð til úrbóta sneri ég myndavélinni að gömlum Bedford vörubíl sem þarna stóð:









Sú var tíðin að þessir Bedfordar þóttu hrein bylting frá gömlu, amerísku pakkhúsbílunum sem voru algengastir vörubíla í minni sveit á sínum tíma. Þá voru, í bland við Forda eins og pabbi og Óli Hall óku, Doddsa eins og Baldur Sigurlaugs og Óli bíl. áttu og Chevroletta eins og Halli Ólafs og Bubbi Bjarna óku, einstaka  Benz 1113, Scania Harðar Ingólfs og Henschelar Sigga Sveins (tveir, minnir mig, annar grænn og hinn gulur). Þetta var nokkurn veginn vörubílaflóran á þeim tíma sem Bedfordarnir boðuðu komu sína vestur. Baldur Sigurlaugs fékk rauðan, Óli Hall fórnaði Fordinum fyrir dökkgrænan Bedda með Perkinsvél (en hún þótti taka original Leylandvélinni langt fram) og Dóri kútur náði sér líka í rauðan Bedford. Fleiri fylgdu á eftir, en Halli Ólafs steig skrefinu lengra fram og náði sér í "handsmíðaðan"  Benz sem var fyrirrennari 1113 bílanna, týpunúmerið man ég ekki lengur.  Sérstaða Bedfordanna fólst ekki síst í því að þeir voru frambyggðir og hlóðust betur en húddbílarnir. Svo var í þeim svefnaðstaða, sem ekki var verra fyrir vörubílstjóra sem margir hverjir liðu fyrir slæmt bak, afleiðingu langra seta í slæmum ekilsstólum á slæmum vegum. Þessi svefnaðstaða í Bedfordinum kom sér vel þegar Baldur Sigurlaugs tók að sér að aka síldarnót frá Ísafirði til Húsavíkur og þeir tvímenntu í Beddanum, hann og pabbi. Þá var ekið á vöktum og sofið á milli (eftir því sem hægt var að sofa á vestfirskum og norðlenskum malarvegum áranna uppúr 1960).

Það var fleira en Gimba, Benz og Bedford sem fangaði athyglina. Þarna stóð eðaleintak af Deutz dráttarvél sem virtist hafa lokið sínu hlutverki eins og fyrrnefnd þrenning:

 


Það var svo sem ekki yfir neinu að hanga þarna lengur, við höfðum skoðað það sem skoða þurfti og vorum nú orðnir kaffiþyrstir. Ég vissi að Barði frændi, móðurbróðir minn var í sumarbústaðnum sínum, Jaðri, og við generállinn renndum þangað. Að Jaðri var hins vegar enginn heima, mannskapurinn hafði brugðið sér í sund í Borgarnes. Þar var því ekkert kaffi að hafa þetta sinnið.



Ég hef áður lýst skoðun minni á Hyrnunni í Borgarnesi og það er óþarfi að birta hana í þriðja sinn. Shellskálinn var rifinn í vetur og nýr er í byggingu á sama stað en ófullgerður. Það var því Olísskálinn sem varð fyrir valinu í þetta sinn, enda fínasti áningarstaður með ágæta þjónustu. Meðan við drukkum kaffið myndaði ég nýja Shellskálann handan þjóðvegar eitt:





Deginum var lokið, þannig séð og aðeins eftir að aka til Reykjavíkur. Heimferðin var tíðindalaus en heimkoman tilhlökkunarefni.........

.......enda beið "nýr dagur"


 
 
Flettingar í dag: 53
Gestir í dag: 25
Flettingar í gær: 122
Gestir í gær: 55
Samtals flettingar: 64438
Samtals gestir: 16734
Tölur uppfærðar: 26.4.2024 07:54:19


Tenglar