Gunnar Th.
Fjórða kerfið.....


13.07.2012 08:56

Lífsmark!

Hún varð snubbótt, þessi síðasta færsla og ég hef enn ekki haft skap til að endurvinna hana með myndunum. Innihald hennar var siglingin á Lunda ST frá Akranesi til Reykjavíkur að kvöldi fyrsta maí sl. og svo virðist sem myndirnar hafi drepið færsluna. Hún kemur þó með tíð og tíma, ekki vegna þess að ég haldi að einhverjum lesendum þyki efnið áhugavert heldur vegna þess að frásögnin hefur gildi fyrir mig sjálfan seinna meir, líkt og flestar þær færslur sem settar hafa verið inna allt frá upphafi, í ágúst ´03.

Maímánuður var annars venjulegur í flestu, það var unnið við ný heimkynni og Lyngbrekkan var tæmd og afhent nýjum eigendum helgina 19-20 maí. Á þeim tíma var ég fyrir vestan með öllum systrunum að undirbúa Dalakofann, sumarbústaðinn pabba heitins, fyrir sölu. Það var áður komið fram að sjómannadagshelginni eyddi ég í Stykkishólmi, en föstudagskvöldinu fyrir hana varði ég með börnunum, m.a. á veitingastað við Laugaveg þar sem blásið var til veislu. Á laugardeginum 2. júní, fimmtugasta og fimmta afmælisdeginum, var svo ekið í Stykkishólm á ferðadrekanum og kvöldinu eytt á Narfeyrarstofu í boði góðrar vinkonu sem verður sífellt betri og betri....
 Á sunnudeginum, sjómannadegi, var siglt með Baldri út að Elliðaey og kringum hana í rjómablíðu, hreint einstök upplifun.

Föstudaginn 8. júní var blásið til vinnustaðarferðar til Grindavíkur þar sem farið var í fjórhjólaferð inn á hraunbreiðuna á Reykjanesi. Þar á eftir var farið í hellaskoðun og kvöldinu lauk svo með matarveislu á Salthúsinu í Grindavík. Laugar- og sunnudegi var svo varið í útimálningarvinnu hjá vinkonunni, í hreint einstakri veðurblíðu.

Helgina 15-17. júní var farið með tjaldvagn vinkonunnar upp að Varmalandi í Borgarfirði og slegið upp gistingu þar. Frá Varmalandi var svo ekið um nærsveitirnar, Deildartungu, Kleppjárnsreyki, Húsafell og Hvítársíðu á laugardeginum en á sunnudeginum var farið að Hreðavatni og um Jafnaskarð. Frá þeirri helgi er myndasyrpa í myndaalbúmunum hér efst.

Helgina 22-24. júní ætlunin að ferðast eitthvert austur eftir suðurlandinu, gista fyrri nóttina á Hvolsvelli en þá seinni í Þakgili. Fararskjótinn var nú aftur ferðadrekinn og innanborðs voru auk okkar Dagnýjar ferfætlingarnir Edilon Bassi, Tjörvi og Orri. Það var dálítið þröngt í ferðadrekanum þessa fyrstu nótt sem öll hjörðin eyddi saman, en allt fór þó vel. Á laugardagsmorgninum var svo stefnan sett á Seljalandsfoss í einmunablíðu en ákveðið að líta á Landeyjahöfn í leiðinni. Það varð svo til þess að þegar við sáum Herjólf nálgast land kom ekkert annað til greina en að nýta blíðuna til Eyjaferðar. Það gekk eftir og aðfararnótt sunnudags eyddum við á ákaflega "hundavænum" stað úti á nýja hrauninu. Á sunnudeginum var svo farið í ævintýrasiglingu með Rib-Safari á ótrúlega hraðskreiðum harðbotna slöngubát með tvær 400 ha. vélar!  Ég hef fyrir satt að við höfum krúsað á 42-43 sjml. milli smáeyjanna við Heimaey og ef skoðaðar eru myndirnar í albúminu má sjá svipinn á henni Dagnýju sem leiddist sannarlega ekki á 43 mílum!

Mánaðamótahelginni var varið með góðum hópi fólks við sumarbústað undir Eyrarfjalli í Eyrarsveit. (við austanverðan Grundarfjörð). Frá þeirri helgi eru nokkrar myndir í merktri möppu, meðal þeirra a.m.k. tvær sem teknar eru við vatnsból Ólafsvíkinga á Jökulhálsi.

Um liðna helgi var svo hin árlega hópsigling um Breiðafjörð á vegum Bátasafns Breiðafjarðar á Reykhólum. Áður var fram komið að við Gulli Vald. hyggðumst reyna að komast á "Bjartmari" okkar í þá ferð og það gekk eftir, þó tæpt væri. Engar myndir eru enn komnar í möppu frá siglingunni en von er á þeim mjög bráðlega.

Þessa komandi helgi er ráðgerð ferð norður Strandir allt til Ófeigsfjarðar og Munaðarness. Alls á ferðin að taka viku og spanna auk áðurnefndra staða Ísafjarðardjúp beggja vegna, skamma viðdvöl á Ísafirði og síðan ferðalag suður heiðar og siglingu með Baldri yfir Breiðafjörð sem lokahnykk. Fyrir þetta ferðalag hefur ferðadrekinn undirgengist gagngerar breytingar á innréttingu, hefur verið gerður "dömuvænni" og rýmri um að ganga. Þegar þetta er skrifað, skömmu eftir miðnætti á föstudegi eru þó blikur á lofti hvað varðar þessa lengstu ferð sumarsins en þau mál skýrast vonandi fljótlega.

Stakkanesið vaggar við bryggju og hefur varla verið hreyft, utan hvað ein sigling umhverfis Viðey hefur verið farin.

.........en ég hef heyrt af mikilli makrílgengd á Sundunum............
Flettingar í dag: 1
Gestir í dag: 1
Flettingar í gær: 122
Gestir í gær: 55
Samtals flettingar: 64386
Samtals gestir: 16710
Tölur uppfærðar: 26.4.2024 00:23:27


Tenglar