Gunnar Th.
Fjórða kerfið.....


23.07.2012 22:35

Átta daga ferðin.

Ef Ísland er í laginu eins og einhver skepna eru Vestfirðirnir líkast til hausinn. Ókei, kannski segjum við ekki að Vestfirðir séu líkastir haus, en allavega sitja þeir á mjóum hálsi ofan á þeirri furðuskepnu sem Ísland óneitanlega er - í flestu tilliti. Um þennan "haus" er ekki hringvegur - a.m.k. ekki akfær, flestir vegir enda á hlaði afskekktra sveitabæja eða eyðibýla. Það er ekki heiglum hent að elta alla þá vegi til enda, sumir eru vart vegir lengur og má varla á milli sjá hvar vegi sleppir og slóði tekur við, hvar slóða sleppir og troðningur tekur við. Samt er alltaf eitthvað heillandi við vegarenda - það er fátt endanlegra en vegur sem bara endar............

Þær eru ófáar ferðirnar sem ég hef farið framhjá skiltinu í botni Steingrímsfjarðar þar sem stendur: Norðurfjörður 100 km. Allavega eitthvað í kringum hundrað - man það ekki nákvæmlega. Þau eru líka ófá, skiptin sem ég hef ákveðið að kýla nú á það og renna norðureftir næst. Alltaf næst! Þetta "næst" var ég svo líka að flýta mér og alltaf beið spottinn. Árið 2004 náði ég að aka norður eftir allt til Ingólfsfjarðar og Norðurfjarðar, en tímaskortur, auk annarra ástæðna sem áður hafa verið tíundaðar, kom í veg fyrir að ég kæmist lengra í það skiptið.

Síðan eru liðin mörg ár. Mér telst til að þau séu átta........

Það var því ágætlega við hæfi að setja upp átta daga túr um Vestfirðina og setja markið við Ófeigsfjörð og Fell utan Krossness. Lengra verður ekki farið á bíl, þó ótalinn sé vegarkaflinn að bænum Munaðarnesi við Ingólfsfjörð er Ófeigsfjörður vissulega norðar og vegurinn að Munaðarnesi eiginlega hálfgerð heimtröð þótt löng sé.

Klukkan var rétt um eitt eh.laugardaginn 14 júlí sl.þegar lagt var af stað úr Kópavogi. Fyrsta áning var á Kjalarnesi þar sem litið var inn hjá góðu fólki. Það lá svo sem ekki lífið á og ferðadrekinn var væna tvo tíma úr Kópavogi í Borgarnes, að áningunni meðtalinni. Í Borgarnesi var keypt ferðanesti og kæliskápurinn sneisafylltur af kræsingum. Auk þess var troðið í flest þau skot sem troða mátti matföngum í því þær eru ekki margar Bónusbúðirnar frá Borgarnesi til Ísafjarðar en þangað gerðum við ráð fyrir að ná á þriðjudeginum 17. Næst var tekið ísstopp í Búðardal og þeir Schnauserfrændur Orri og Tjörvi, sem á keyrslu voru lokaðir í búrunum sínum, fengu að spretta úr spori og vökva umhverfið. Áfram var lötrað vestureftir, hraðinn þetta 60-70 ef enginn var fyrir aftan, stundum 80 ef þurfa þótti. Veðrið var þokkalegt í upphafi og skánaði jafnt og þétt er vestar dró. Það var komið fram um kvöldmat þegar við komum til Hólmavíkur, og eftir stuttan skoðunarhring um bæinn komum við okkur fyrir á tjaldsvæðinu í sístækkandi hópi félaga úr Húsbílafélaginu (sem var að hefja hringferð um Vestfirði) og drógum fram grillið. Eftir stórveislu sem töfruð var fram á augnabliki var svo ferðbúist að nýju og ekið fyrir Steingrímsfjörð, beygt hjá skiltinu fyrrnefnda og haldið út með firði að norðan. Hann heitir Selárdalur, dalurinn munnvíði sem ekið er hjá og yfir brú á Selá. Áður en komið er að brúnni liggur afleggjari inn dalinn og inn á hann ókum við. Litlu innar er gömul steinbrú, sem árbók F.Í. frá 1952 lýsir sem glæsilegu 40 mtr. löngu mannvirki. Lítið er eftir af glæsileikanum enda brúin löngu aflögð, en í nágrenni hennar fundum við ágætan náttstað, þar sem þeir Orri og Tjörvi gátu slett úr klaufunum.

Sunnudagurinn 15. skartaði sólskini og nær heiðum himni þegar morgunverður var fram borinn í ferðadrekanum. Líklega hefur klukkan verið nær ellefu þegar haldið var af stað út Selströnd áleiðis til Drangsness. Þar sem eru bátar, þar er gaman og auðvitað var höfð smáviðdvöl í Kokkálsvík þar sem fleytur Drangsnesinga lágu við bryggju. Fyrir margt löngu sá ég fiskikerin sem heimamenn höfðu þá komið fyrir í fjörunni neðan við skóla þorpsins, þar sem nýta mátti heitt uppsprettuvatn til baða. Nú var öll sú aðstaða endurnýjuð, komnir alvöru plastpottar með tréverki kringum og handan götunnar var fínasta búningsaðstaða. Það lá beint við að prófa græjurnar og það gerði ég sannarlega! Náði m.a.s. fínni kjaftatörn við tvo heimamenn sem mættu um líkt leyti, a.m.k. annar kom röltandi beint að heiman í slopp og inniskóm! Það var svo ekki fyrr en ég var að sturta mig handan götunnar eftir pottdvölina að ég uppgötvaði að á Drangsnesi er líka nýleg sundlaug! Hún var ekki á sundlaugalistanum mínum, enda er hann nú orðinn tólf ára gamall. Ég gat ekki yfirgefið staðinn án þess að prófa þessa laug (og geta þar með merkt hana á listann minn). Hún reyndist hin fínasta í alla staði og fær bestu meðmæli.

Það leið á daginn og næsti áfangi okkar var Kaldrananes. Staðurinn er sögufrægur en sagan dró mig þó ekki sérstaklega að honum. Eitt af áhugamálunum er að skoða kirkjur, því eldri því betri og í Kaldrananesi stendur ein slík. Þegar ég fór þarna um árið 1987 voru vinnupallar um kirkjuna og ljóst að einhverskonar endurbygging var í gangi. 2004 fór ég aftur um og enn voru vinnupallarnir á sínum stað og þá varð einnig ljóst að endurbyggingunni miðaði lítið. Einhvern tíma síðar eignaðist ég bók um kirkjur landsins, þar var umfjöllun um Kaldrananesskirkju, mynd af henni og enn voru vinnupallar í forgrunni. Mig langaði að sjá hvort nú, árið 2012 þegar "tunglið átti að vera malbikað og steypt í hólf og gólf" væru enn vinnupallar um kirkjuna. Jú, þeir voru á sínum stað og kirkjan var sjálf ólæst og aðgengileg. Stutt skoðun leiddi í ljós að ekki má dragast mikið lengur að endurbæta það sem þarf, því endurbæturnar sem unnar voru fyrst eru nú komnar á viðhald. Kirkjan verður ónýt með öllu á næstu tíu, fimmtán árum ef ekki verður gripið hressilega í taumana. Svo einfalt er það...

Garðurinn hefur fengið álíka viðhald og kirkjan, en í suðausturhluta hans mátti sjá leiði sem minnti á harmleikinn í Goðdal í Bjarnarfirði árið 1949, þegar snjóflóð féll á býlið og tók sex mannslíf. Á legsteini mátti lesa sex nöfn......

Við Gvendarlaug hjá Klúku hittum við vini og félaga á suðurleið, grillið var tekið fram og snætt sameiginlega. Að áningu lokinni héldu þeir suður, við norður. Það var ekki hratt farið yfir enda margt að sjá. Í Djúpavík var þónokkuð af fólki, bæði ferðamenn og húsráðendur. Þó var ekki margt í matsal hótelsins þegar við settumst þar inn og pöntuðum okkur galakvöldverð í heiðursskyni við okkur sjálf!

Sólin var talsvert sigin og fjöllin farin að roðna þegar við bjuggumst enn til ferðar og ókum á slóinu út Reykjarfjörðinn norðanverðan, allt að Gjögri. Í uppsátri stóð Hanna ST, elsta fiskiskip landsins, smíðuð 1899 ef enginn lýgur. Hanna var endurbyggð í vetur leið af Hafliða Aðalsteinssyni úr Hvallátrum, bráðflinkum bátasmið af gamla skólanum og var í sínu allra besta formi þarna í vörinni sinni á Gjögri. Við hús skammt frá stóð kunnuglegur bíll, þar var heimavið Kristmundur Kristmundsson Sörlasonar Hjálmarssonar frá Gjögri. Kristmundur stundar strandveiðar frá Norðurfirði á trillunni Lunda ST, þeirri sömu og átti að koma við sögu í pistli hér neðar þegar tæknin sveik mig. Það var hins vegar enginn svikinn af kaffinu hjá Kristmundi þarna um kvöldið í notalega, litla húsinu hans á Gjögri.

Ég er ekki frá því að klukkan hafi verið hátt í ellefu að kvöldi þessa langa sunnudags þegar við komum okkur fyrir á grasbletti ferðaþjónustunnar Urðartinds í Norðurfirði. Þar var ágætis aðstaða og ekki kvörtuðu þeir Orri og Tjörvi þegar sonur rekenda þjónustunnar tók að sér að fara með þá í göngutúr. Hvíldin var vel þegin um kvöldið, langur dagur að baki og annar framundan....

Framhald fljótlega.
Flettingar í dag: 2
Gestir í dag: 1
Flettingar í gær: 115
Gestir í gær: 7
Samtals flettingar: 59204
Samtals gestir: 15667
Tölur uppfærðar: 29.3.2024 00:48:24


Tenglar